Sandgerði
Eftirfarandi frásögn frá Sandgerði birtist í Alþýðublaðinu árið 1965:
„Sandgerði er ekki gamalt pláss, frekar en svo mörg önnur kauptúná Íslandi. Fyrstu drög að þorpsmyndun á staðnum munu hafa verið gerð, þegar Matthías Þórðarson, faðir Ástþórs Matthíassonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, stofnaði þar til útgerðar með vélbáti rétt eftir aldamótin. Þá var ekki önnur byggð á staðnum, en jörðin Sandgerði og frá henni mun hafa verið sóttur sjór frá því hún byggðist. Hvenær það var, veit enginn og ekki er vitað til að hún sé landnámsjörð.
Mesta útræði í nágrenni Sandgerðisjarðarinnar var um aldaraðir frá Stafnesi. Þaðan var ívið styttra á miðin, en sá litli munur var mikill á tímum áranna og seglanna. Þegar vélbátarnir komu til sögunnar var engin leið að koma þeim við á Stafnesi, vegna þess, hve höfn er þar ótrygg, en hins vegar er dágóð smábátahöfn frá náttúrunnar hendi í Sandgerði. Varð því úr að útgerðin fluttist þangað, en Stafnes lagðist af sem verstöð, þó að þar hafi efalaust vérið ein allra stærsta útgerðarstöð á landinu um aldabil.
Skammt sunnan við Stafnes stóð verzlunarstaðurinn Básendar, þar til nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, að staðurinn eyddist í ægilegu flóði, sem einnig eyddi þá verzlunarstaðnum í Hraunhöfn á Snæfellsnesi, þar sem nú standa Búðir. Er þetta mesta flóð sem um getur á Suðurnesjum og jafnframt það afdrifaríkasta. Það mun hafa verið á Básendum, þar sem Skúli Magnússon síðar landfógeti var innanbúðar hjá danskinum og neitaði að pretta viðskiptavinina. Næst kemur það sögu Sandgerðis að árið 1913 selur Matthías Þórðarson Lofti Loftssyni útgerðarmanni aðstöðu sína í verstöðinni og skömmu síðar settist Haraldur Böðvarsson þar að með sinn útgerðarrekstur og einnig fleiri. Haraldur var í Sandgerði um skamma hríð milli þess sem hann hætti útgerð frá Vogum á Vatnsleysuströnd og flutti til Akraness.
Segir sagan að meðan Haraldur stóð við, hafi verið hörð keppni milli hans og Lofts um útgerðaraðstöðuna í landi. Ekki fer hjá því að öll þessi umbrot í útgerðinni hafi kallað á hafnarframkvæmdir og var fyrst gerð trébryggja og bólverk, en byrjað var á núverandi hafnargarði einhvern tímann á árununum upp úr 1940 og er hann nú orðinn 300 metra langur.“
Innsiglingin inn til Sandgerðis hefur löngum verið örðug stærri bátum. Hafa þeir gjarnan orðið að sæta sjávarföllum til að komast út og inn um Hamarssund, en svo heitir innsiglingin. Síðan 1962, eða sl. 3 ár hefur stöðugt verið unnið að hafnarbótum. Garðurinn lengdur um 42 metra og Grettir hefur unnið að dýpkun á sundinu 4-6 mánuði á ári hverju. Það er seinunnið verk og erfitt, enda stórgrýtt í botni. Til þessa hafa framkvæmdirnar kostað um 20 milljónir króna. Sú sögn er til um Hamarssund að þar eigi aldrei að farast skip, en sá fyrirvari fylgir, að fara verði rétt í sundið. Þjóðsagan segir, að kerling ein, sem bjó á Bæjarskerjum hafi átt börn tvö, pilt og stúlku. Þeim barst á í sundinu og fórust bæði. Kerlingu varð svo um þetta slys, að hún mælti svo um, að aldrei skyldi farast þar skip, væri rétt farið. Boðar tveir, sem þar norðan og sunnan við sundið heita eftir börnum kerlingar, Þorvaldur og Bóla. Raunin hefur líka orðið sú, að bát hefur aldrei svo vitað sé hlekkst á í sundinu sjálfu, en komið hefur fyrir að borið hefur út úr því og getur þá verið tvísýnt um afdrifin.
Verzlunarstaður myndaðist fyrst í Sandgerði um leið og útgerð hófst þaðan, eða á árunum 1907-1908 og þar hefur verið verzlað stöðugt síðan. Búsettu fólki fer fyrst að fjölga fyrir alvöru á árunum upp úr 1940 og nú eru um 1000 íbúar í Miðneshreppi, en svo heitir sveitarfélagið.
Hér áður á árum var fjörugt verbúðalíf í Sandgerði. Þá mátti heita að tvöföld áhöfn væri á hverjum báti. Helmingur áhafnarinnar var í landi og beitti línuna, gerði að fiskinum og vann önnur aðkallandi störf, en sjómennirnir réru yfirleitt með skrínukost. Þá hafði hver bátur sína verbúð, þar sem mennirnir nutu svefns og matar og höfðu ráðskonu til halds og trausts. — Yfirleitt voru verbúðir þannig innréttaðar að fiskhús og beitingaaðstaða var niðri, en íbúðir uppi. Frægust hrakningasaga tengd við Sandgerði, er um það, þegar vélbáturinn Kristján hraktist vélarvana um hafið í vondum veðrum í hálfan mánuð eða meira og var löngu búið að telja hann af. Þá barg það lífi áhafnarinnar, að vélstjórinn hafði fengizt eitthvað við brugg og gat eimað drykkjarvatn úr sjó í litlum mæli þó. Þegar þeir loks gátu hleypt bátnum á land við Stafnes í vitlausu veðri voru þeir búnir að brenna hann hér um bil upp til agna til að halda þessari einstæðu bruggun í gangi.
Nú hefur orðið ákaflega mikil breyting á. Verbúðalífið, eins og það þekkist fyrr á árum er að mestu horfið, enda línuvertíð úr sögunni svona hér um bil. Nú munu skráðir 10 stórir vélbátar í Sandgerði og urmull smærri báta og trilla. Sú var þó tíðin, að vertíðarbátar voru þar miklu fleiri, en smærri. 1918 voru til dæmis gerðir 90 bátar út frá Sandgerði, en ekki voru það allt merkilegar fleytur að stærðinni til. Nú landa 40—60 bátar í Sandgerði á hverri vertíð, en sú breyting hefur orðið á, að bátarnir eru lausari við en áður og geta notfært sér löndunarmöguleika víðar jafnframt. – Fyrir tveimur árum eða svo byggði Guðmundurdur Jónsson á Rafnkelsstöðum síldarverksmiðju í Sandgerði, þá fyrstu á staðnum. Fyrir var lítil beinamjölsverksmiðja,- sem Garðar h.f. hafði reist í upphafi, en Guðmundur keypti hana og stækkaði og breytti. Bátar hans lenda allir í Sandgerði, þó að þeir séu skráðir í Garðinum.
Aðal útgerðarfélögin á staðnum í dag eru Miðnes og Garður: Miðnes er stöðin, sem Haraldur Böðvarsson byggði upphaflega, en Guðmundur á Rafnkelsstöðum á Garð, sem Matthías Þórðarson lagði grundvöllinn að, og Loftur Loftsson eignaðist síðar. En þetta eru aðeins stærstu aðilainir sem reka útgerð frá Sandgerði. Aðrir minni eru ótaldir, fyrirtæki eins og Djúpáll h.f., Arnar h.f. og Barðinn á Húsavík, sem á útgerðaraðstöðu í Sandgerði. Og líklega eru þeir fleiri.
Þó að Sandgerðishöfn hafi nú í áraraðir ekki verið talin með öndvegishöfnum landsins, er nú svo komið eftir stöðugar hafnarbætur og dýpkun á innsiglingunni, að hafskipafært er orðið inn á flóði. 1000-1500 tonna skip geta hiklaust farið þar inn og athafnað sig við garðinn, sem er öruggur legugarður í öllum veðrum. Sú tíð er löngu liðin að formenn flýðu með báta sína frá garðinum og út á leguna í vondum veðrum.“