Sæluhús – Gestur Guðfinnsson
Gestur Guðfinnsson skrifarði grein um „sæluhús“ í Alþýðublaðið árið 1967:
„Sæluhús er fallegt orð. Samkvæmt skilgreiningu orðabókar Menningarsjóðs er merking þess „hús til að gista í í óbyggðum, á Öræfum“.
Sú tegund gistihúsa átti þó fram á okkar daga lítið skylt við hin rúmgóðu og þægilegu hótel nútímans með fjölmennu þjónustuliði, útvarpi, sjónvarpi, síma og baði, dýrlegum aðbúnaði í mat og drykk ásamt notalegri hvíld í þeim mjúka og ilhlýja sængurdúni, sem upphaflega taldist til forréttinda æðarfugls á Íslandi. Þetta voru oftast litlir og lágreistir moldarkofar, naumast manngengir, Þægindalausir með öllu, kannski í hæsta lagi grjótbálkur til að fleygja sér á, matur enginn. Samt var þessum vistarverum valið eitt af fegurstu orðum tungunnar til einkenningar: sæluhús. Bak við það heiti felst mikil saga. Skilgreining orðabóka á hugtakinu nær skammt, sem vonlegt er, þótt hún sé rétt það sem hún nær.
Ljóst er, að landsmenn hafa snemma komið upp slíkum kofum á heiðum og fjallvegum til afnota fyrir ferðamenn og gangnamenn, enda vegalengdir víða miklar á öræfum og tóku ferðir einatt langan tíma, stundum mörg dægur, hvort heldur menn voru gangandi eða ríðandi. Var þá ekki í annað hús að venda en sæluhúskofann og skildi þar oft og einatt í milli feigs og ófeigs, hvort það tókst eða tókst ekki að ná honum. Mátti hver prísa sig sælan, sem undir þak komst, þótt lélegt væri, því það er lakur skúti, sem ekki er betri en úti í hamslausu hríðarveðri á fjöllum. En það kom líka fyrir, að þeir sem náðu þangað við illan leik, geispuðu golunni í kofanum, kaldir og matarlausir og aðframkomnir af þreytu. Var þess þá oftast ekki langt að bíða að bera færi á reimleikum í sæluhúsinu, enda munu þau sæluhús fá, þar sem hreint var með öllu.
Hitt var miklu algengara, að fleiri eða færri afturgöngur eða draugar væru þar viðloðandi, gerðu sér dælt við ferðamenn í vöku og svefni, berðu kofann utan eða riðu húsum næturlangt, þótt nú sé víðast úr þeim allur mergur.
Til er aragrúi sagna og munnmæla um gistingu manna í sæluhúsum og gangnakofum og reimleika á slíkum stöðum.. Skulu hér rifjaðar upp nokkrar slíkar sögur, þeim til fróðleiks, sem ekki hafa átt þess kost að lifa slíka atburði og þekkja lítið til drauga og afturgangna sjálfir.
Norðvestur af Bolavöllum á Kolviðarhóli er Húsmúli. Framan við hann stóð sælukofi allt fram um miðja nítjándu öld við svokallaða Draugatjörn. Kofi þessi var tvær og hálf alin á breidd og þrjár álnir á lengd og í honum grjótbálkur, þakinn torfi, sem á gátu legið þrír menn. Tvær hurðir voru fyrir dyrum og gengu báðar inn í húsið. Sveinn Pálsson, læknir, getur þess í ferðabók sinni, að margir ferðamenn hafi látizt í þessum kofa, ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.
Í Sögu Kolviðarhóls er að finna frásögn af gistingu í Húsmúlakofanum. Hún er á þessa leið: „Gömul sögn úr Ölvesi hermir, að eitt sinn hafi ferðamaður um vetur í vondu veðri komið austan yfir Hellisheiði. Hann hafði náttstað í sæluhúsinu, lokaði dyrum að sér og lagðist til svefns. — Að nokkurri stundu liðinni heyrði hann að komið var við hurðina og gerð tilraun til að komast inn. Sá, er inni var, hugði það draug vera og opnaði ekki. Heyrði hann um hríð þrusk utan við hurðina, en svo þagnaði það. Um morguninn, þegar maðurinn leit út, brá honum ónotalega við. Utan dyra lá dauður maður. Var það sá, er um kvöldið hafði knúð hurðina og maðurinn hafði haldið vera draug.
— Þetta spurðist víða og þóttu hörmuleg mistök. Eftir það hafði alvarlega verið brýnt fyrir ferðamönnum ..að loka aldrei húsinu að sér um nætur“.
Þessi saga mun raunar vera til í ýmsum tilbrigðum víða um land og heldur hver sögumaður fast við sína útgáfu og telur hana réttasta, leggur jafnvel fram óyggjandi sannanir fyrir máli sínu, ef því er að skipta. Í Hellukofanum gamla á Hellisheiði, sem enn stendur, bar líka eitthvað á reimleikum. T.d. segir frá því í Þjóðsögum Ólafs Davíðssonar, að einu sinni lágu þar menn. Þeir heyrðu skarkala mikinn uppi á húsinu alla nóttina og hugðu, að draugur hefði valdið honum, enda þóttust þeir sjá einhverja ófreskju í dyrunum við og við. Þá var gamla sæluhúsið á Kolviðarhóli alræmt draugabæli og eru margar sögur til af reimleik um þar. Ein þeirra er skrásett af Þorsteini Erlingssyni og er á þessa leið:
Einu sinni voru fimm Fljótshlíðingar á leið suður í ver. Það voru þeir Ísleifur Sigurðsson frá Barkarstöðum, Sigurður Ólafsson, vinnumaður þaðan, Halldór Jónsson frá Eyvindarmúla og svo sinn maðurinn frá hvorum bænum Árkvörn og Háamúla. Þeir félagar gengu suður Hellisheiði og lágu um nótt í sæluhúsinu á Kolviðarhóli. — Þeir kveiktu ljós og fóru að sofa, eftir að hafa matazt, nema Halldór. Hann gat ekki sofnað og lá vakandi um hríð. Allt í einu heyrði hann eitthvað gnauð fyrir utan kofann, en því næst heyrði hann, að einhver klifraði upp á kofaþakið og tók að lemja þekjuna — beggja megin á víxl. Halldóri þótti þetta kynlegt, og tók hann það til bragðs að vekja Sigurð. Þeir fóru út og leituðu í kringum kofann, en urðu einskis vísari, fóru því inn aftur, en jafnskjótt og þeir voru komnir inn, var hurðinni hrundið upp og lamið á þilið; lagði þá vindsúg inn um kofann, og slokknaði ljósið. Þeir Halldór og Sigurður kveiktu þegar aftur; fóru svo út, tóku jötu og skorðuðu hana fyrir dyrnar að innan. Eftir það voru dyrnar í skorðum, en þeir heyrðu högg og ókyrrð úti fyrir lengi nætur.“
Heimild:
-Alþýðublaðið 31. ágúst 1967, bls. 7 og 11.