Kapelluhraun og Heilög Barbara
Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2017 er m.a. fjallað um „Kapelluhraun og Heilaga Barböru„:
„Á hverjum degi bruna þúsundir bíla um Keflavíkurveginn með ökumenn og farþega sem eru óvitandi um einstaka náttúru- og menningarperlu sem leynist nánast alveg við veginn. Þessi perla er lítil kapella sem stendur á örlítilli hæð sunnan við álverið í Straumsvík. Hæð, sem er hluti af Kapelluhrauninu, sem hefur verið skafið og eyðilegt á stóru svæði umhverfis þessar einstöku minjar.
Í annálum er sagt frá miklu eldgosi í Trölladyngju árið 1151 og rann þaðan hraun frá Undirhlíðum til sjávar. Gosið var hluti af svo kölluðum Krýsuvíkureldum, sem urðu á langri gossprungu á Reykjanesskaganum. Þá er einnig talið að Ögmundarhraun, suðvestur af Krýsuvík, eins og við þekkjum hana í dag, hafi runnið yfir gamla Krýsuvíkurbæinn sem stóð niður undir sjó. Þar er að finna mjög merkar mannvistarleifar og óbrennishólma.
Margt styður aldursgreiningar hraunanna, m.a. annálar og geislakolsmælingar. Í Kjalnesingasögu, sem er talin skráð eftir 1300, er einnig minnst á hraunið, sem þar er kallað Nýjahraun. En einmitt sú nafngift bendir til þess að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist, og trúlega að mönnum ásjáandi. Nýjahraunsnafnið var notað allar miðaldirnar en síðar einnig nafnið Bruni. Á síðustu öldum fóru menn að kalla hraunið Kapelluhraun eftir lítilli hálfhruninni kapellu sem fannst í hrauninu. Kapellan er í landi Þorbjarnarstaða, eyðibýlis nálægt Straumi. Hún stendur við mjóa götuslóð sem rudd hefur verið yfir hraunið, og var alfaraleið suður með sjó öldum saman.
Kapellan er talin vera frá kaþólskum tíma. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellurústina, ásamt fleirum, árið 1950. Þar fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af Heilagri Barböru, verndardýrlingi gegn eldi, hruni, jarðhræringum og hita. Barbara var píslarvottur sem dó fyrir trúna, og var hálshöggvin af föður sínum, Hún var samkvæmt helgisögum uppi í lok 3. aldar e. Kr. Faðir hennar á að hafa læst hana inn í turni til að gæta meydóms hennar, og því er turn eins konar einkennistákn hennar. Líkneskið sem fannst í kapellunni sýnir einmitt Heilaga Barböru með vitann í fanginu. Það var brotið og aðeins fannst efri hluti þess í þrem pörtum. Styttubrotið er um 3,3 cm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 cm þegar styttan var í heilu lagi.
Allt bendir til þess að hér hafi menn gert bæn sína í kaþólskum sið, áður en lagt var á hraunið, minnugir sagna um eldflóð og óáran, og heitið á Heilaga Barböru sér til verndar. Kapellan, sem er endurhlaðin, er opin í vest-suðvestur, og inni í henni hefur verið komið fyrir stækkaðri eftirmynd af líkneskinu. Það er sannarlega vel þess virði að heimsækja Heilaga Barböru þegar menn eiga leið suður með sjó, hvort sem þeir gera þar bæn sína eða ekki. Þótt eldgosahrinur einkenni Reykjanesskagann og um 850 ár séu frá þeirri síðustu, er fátt sem bendir til þess að eldur verði þar fljótlega uppi, eins og segir í fornum skræðum. En í hrauninu og kapellunni tengjast sagan og jarðfræðin, trúin og lífskjörin, og þar getum við einnig dregið lærdóm af því hvernig ekki á að fara með umhverfi einstakra og dýrmætra minja.“
Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 1. tbl. 01.02.2017, Kapelluhraun og Heilög Barbara, bls. 2.