Skúlatún – Helgadalur – Garðaflatir

Helgadalur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1908 skrifar Brynjúlfur Jónsson m.a. um Skúlatún og tóftir í Helgadal undir fyrirsögninni „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907„:

Skúlatún
skulatun-221Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33—34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, — þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, — sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún. Kom mér í hug að það væri stytt úr Skúlastaðatún; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið. Samt þótti mér ófróðlegt að sjá ekki þenna stað, og fór eg þangað í sumar.

Skúlatún

Skúlatún og Skúlatúnshraun. Helgafell fjær.

Landslagi er svo háttað, að hraunfláki mikill fyllir víðlenda dæld sunnan frá Lönguhlíð norður að ásahrygg þeim, er gengur frá Námahálsinum vestan við Kleyfarvatn (inn frá Krýsuvík) alt inn á milli Kaldársels og Helgafells. Allur er hraunflákinn sléttur ofan, vaxinn grámosa og eigi gamallegur útlits. Hann er hallalítill, og mun dældin, sem hann hefir fylt, hafa verið nokkuð djup með mishæðóttu láglendi, sem nú er ekki hægt að gera sér ákveðna hugmynd um. Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 fðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á honum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum. Á öllum þessum þrem stöðum er einkennilegt stórþýfi, ólíkt því þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti eg trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingarleifum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannaverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfirum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin.

Hellnahraun

Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).

Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmegin þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann hulinn hrauni norðvestan-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi af þessum hól, sem upprunalega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar. Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðast hvar vex töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var i þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að færa sig upp eftir hólnum. Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir mig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér heflr verið bær og tún. Og þá virðist nafnið »Skúlatún«, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.

Helgadalur
helgadalur-221Helgadalur er skamt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhóll norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhliðvegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn. Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér að eins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Eg dró upp mynd af rústinni.
Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafl verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nu eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (Sbr. Árb. fornl.- fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskamt þaðan til Hafnarfjarðar.“

Garðaflatir
gardaflatir-223Í Gráskinnu hinni meiri lýsir Friðrik Bjarnason Garðaflötum. Hann segir að svo sé sagt “að Garðar og Garðakirkja hafi einu sinni verið á Garðaflötum, sem eru skammt fyrir innan Hafnarfjörð, en hafi veri flutt, þegar hraunið rann á. Sagan segir, að fólkið í Görðum hafi flúið undan hrauninu með ljós í hendi, en svo hafi verið um mælt, að kirkjuna skyldi reisa þar, sem ljósið slokknaði, en það var þar, sem nú er kirkjan og Garðastaður”.
Einnig segir: “Maður 
nokkur var eitt sinn við slátt á Garðaflötum. Þúfurnar, sem hann var að slá, sýndist honum líkjast leiðum í kirkjugarði.

Garðaflatir

Garðaflatir – minjar.

Ein þúfan var stærst, og hugsaði hann með sér, að gaman væri nú að vita, hver lægi undir þessu leiði. Syfjar hann þá bráðlega og getur ekki varist svefni. Hann dreymir, að maður tígulegur kemur til hans og segir: “Fyrst þig langar til að vita, hver hér liggur, hét sá Þórður og var prestur hér. Síðasta verk hans var að jarðsyngja sjö manneskjur”. Sú tilgáta fylgir sögunni, að þetta hafi verið í svartadauða. Ýmis merki má sjá, enn þann dag í dag, að byggð hafi verið á Garðaflötum; þar eru garðahleðslur miklar, og víða sjást húsarústir og sumar mjög stórar um sig. Hlaðinn brunnur kvað og hafa sést til skamms tíma”.
Auk sagnanna er vitað að Garðar höfðu í seli í og við Búrfellsgjá. Þá voru Garðavellir notaðir til skemmtana á meðan Gjáarréttin var og hét. Þær skemmtanir þóttu stundum keyra úr hófi fram og frá þeim er t.d. komið orðið “gjálífi”.
Engar rústir hafa sést á Garðaflötum um langan aldur. Þeirra er heldur ekki getið í örnefnalýsingu Garðabæjar. Og ekki er vitað til þess að nokkur núlifandi haft orð á að þar kynnu nokkrar slíkar að leynast.“

Heimildir:
-Árbók Hins íslenka forleifafélags, 23. árg. 1908, bls. 9-11.
-Gráskinna hin meiri.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal (lengst til hægri).