Lagt á Fjallið

Hellisheiði

Eftirfarandi lýsing á leiðinni frá Reykjavík um Hellisheiði birtist í Eimreiðinni árið 1928:
„Þegar erindum var lokið í Hafnarfirði eða Reykjavík og nógu lengi búið að liggja, var lagt upp og haldið af stað austur upp hjá Lækjarbotnum. Þar mátti fá kaffi — og í það. Síðan var haldið um Vötnin, sem var áfangastaður góður, og annað hvort um hið þá illfæra Svínahraun eða Bolavelli til kolvidarholl-saeluhusidKolviðarhóls. En það var krókur að fara vellina, og þar gengu þá á sumrum mörg og stór naut þeirra Ölfusbænda. Eru til ýmsar sögur af viðureign ferðamanna við þau, því sum þeirra voru allmannýg.
Á Kolviðarhóli hafði verið bygt svo kallað sæluhús haustið 1843, af samskotum úr næstliggjandi héruðum, fyrir forgöngu Jóns bónda á Elliðavatni og fleiri. Hús þetta var kofi bygður úr torfi og grjóti og þakinn torfi. Loft var í honum og á því nokkur flet til þess að liggja í. Niðri var húsið óskift ætlað hestum. Naumast var hús þetta annað en nafnið. Á loftinu var alt skemt, sem hægt var að skemma, áhaldalítið, súð og annað útskorið og krassað, með rispuðum skammaryrðum og klámi, en niðri var aldrei hreinsað, svo hreinasta neyð var að láta þar inn nokkra skepnu.
hellisheidi-221Annars er það mjög furðulegt, hvað ferðamönnum var hætt við að skemma það, sem þeim átti að vera og var til þæginda svo sem þarna átti sér stað, og til skamms tíma hefur borið á, – svo sem að fella niður merkisteina og steina af hættuleg um vegabrúnum. Þegar Guðni bóndi Þorbergsson bjó á Kolviðarhóli, varðaði hann alla Hellisheiði og lét af nærgætni sinni tréhæl norðan í hverja vörðu og festi á hælinn tréplötu með raðartölu, varðanna frá Kolviðarhóli austur á Kambabrún. Var það hinn allra bezti leiðarvísir í dimmviðri, svo menn gátu glöggt vitað, hvar þeir voru staddir, þó viltir væru, ef þeir fundu einhverja vörðuna. En því miður leið ekki á löngu þangað til búið var að kroppa þetta merki úr hverri einustu vörðu.
Árið 1879 var búið að byggja steinhús á Kolviðarhóli, og fenginn maður til að setjast þar að með fjölskyldu. Skyldi hann sjá ferðamönnum fyrir húsnæði og greiða eftir föngum. Fyrsti bóndi þar var Ebeneser gullsmiður Guðmundsson.

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð ofan Kolviðarhóls.

Frá Kolviðarhóli var lagt á Hellisheiði — eða Fjallið, eins og það var venjulega kallað. Afarbratt var upp Hellisskarð, þar sem leiðin lá upp á fjallið að vestan, eins var niður Kamba, niður af því að austan, þar sem vegnefnan hlykkiaðist í ótal krókum niður að Hveragerði. Sjálfsagt var að gera vel að áður en lagt var á þessa kafla. Þótti það snildarlega gert, ef ekki þurfti að gera að aftur á leiðinni, upp eða niður, en langoftast fór annað hvort aftur af eða fram af einhverjum hesti á þessum köflum. Yfir Ölfusið var ekki mjög vondur vegur og ferjan á Laugardælum allgóð. En vegurinn yfir Flóann, eða réttara sagt vegleysan þar, var býsna slæm, sérstaklega kring um Krók og fyrir neðan Vælugerði, eintóm fen og foræði, og stór svæði útvaðin.“

Heimild:
-Eimreiðin, 34. árg. 1928, 1. hefti, bls. 31-32.
Kolviðarhóll