Beinakerlingar II

Beinakerling

Í Morgunblaðinu árið 2001 segir Árni Björnsson frá „Beinakerlingum„:
„Nokkrar stórar hlaðnar vörður við alfaravegi hafa verið kallaðar beinakerlingar. Sagnir eru um þær meðal annars á Mosfellsheiði, Botnsheiði, Skarðsheiði, Þorskafjarðarheiði, Stóra-Vatnskarði, Vatnahjalla ofan Eyjafjarðar, Smjörvatnsheiði milli Vopnafjarðar og Jökuldals, Fjallabaksvegi og Mýrdalssandi, en nafnfrægastar hafa orðið kerlingarnar á Kaldadal, Stóra-Sandi og Kili. Ekki er öldungis ljóst hvernig nafnið er hugsað. Algengt er reyndar að drangar séu nefndir karl eða kerling og því var nærtækt að gefa uppmjóum vörðum svipað heiti. Athygli vekur að getið er um beinahrúgu við sumar þeirra eða bein sjást enn innan um grjótið.
beinakerling-3Þekktasta skýring er á þá lund að ferðamenn hafi stungið skilaboðum í hrosslegg og komið honum fyrir í vörðunni. Menn gátu verið að láta aðra vita af ferðum sínum, tilkynna um strokufé, segja frá nýmælum eða vara við einhverri hættu. Þá var stutt í að menn í góðu skapi sendu væntanlegum ferðalöngum kersknisvísur á sama hátt. Sá kveðskapur hefur haldið minningu beinakerlinganna lengst á lofti og orðið beinakerlingavísa er löngu farið að merkja groddalega neðanþindarvísu af þeim toga sem nú á dögum virðist ein helsta skemmtun kvenna sem karla í fjölmiðlum og á mannamótum, svo því er líkast sem fólk sé upp til hópa nýbúið að fá hvolpavit.
Önnur túlkunartilraun er á þá leið að hér sé upphaflega ekki um nein dýrabein að ræða, heldur nafnorðið beini í merkingunni hjálp eða greiði, að fá góðan beina, og sagnorðið að beina manni leið í rétta átt. Merkingin hafi því einna helst verið „hjálpsöm kona“. Þeir sem löngu síðar skildu ekki þessa merkingu tóku að búa sér til nýja skilgreiningu.
Þriðja tilgátan gerir beinakerlingar að minjum um heiðinn átrúnað, til dæmis að hörgum frjósemis-gyðjunnar Freyju. Hér hafi dýrum verið blótað henni til heiðurs og beinin séu leifar þeirra. Í samræmi við það hafi átt sér stað frjósemisdýrkun með frjálslegu kynlífi eins og víða eru spurnir af meðal þjóðflokka sem enn eru tengdir náttúrunni á eðlislægan hátt. Eftir kristnitöku hafi kirkjan fordæmt og afskræmt slíkt athæfi og kallað saurlífi. Leifar þessa finnist í blautlegum athöfnum og kveðskap í tengslum við beinakerlingar.
GluggavardaFjórða skýringartilraunin er sú að upphaflega hafi fé eða hestar sem drápust á ferðalögum verið urðaðir og grjóti hlaðið utan um skrokkinn í þrifnaðar- eða hreinlætisskyni svo að hrætætlur fykju ekki út um víðan völl. Þegar skrokkarnir rotnuðu undir grjótinu urðu beinin ein eftir og stóðu út á milli steinanna eða sást í þau inni í hrúgunni. Eftir nokkrar aldir vissi enginn lengur hvernig á þessari beinahrúgu stóð og hugmyndaríkir menn tóku að smíða kenningar.
Fyrsta tilgátan er að sjálfsögðu vinsælust, enda í samræmi við þá lagfæringu á orðum Ara fróða að „hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það heldur, er skemmtilegra reynist“. Elstu varðveittar beinakerlingavísur eru frá lokum 17. aldar. Þær eru oftast ortar í orðastað kerlingar sem ögraði næsta ferðamanni til að sanna henni karlmennsku sína.“
Við þetta má bæta að ekki er ósennilegt að beinakerling, hafi verið hlaðin varða, stök á áberandi hól eða hæð, vegamótum eða á öðrum slíkum stað, þar sem sérstök þörf hafi verið á til að beina vegfarendum rétta leið á annars villgjörnu svæði.

Heimild:
-Morgunblaðið 3. mars 2001, bls. 40.

Skilaboðavarða

Skilaboðavarða millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.