Þingvellir – vegir fyrir 1880
Fjölmargar fornar leiðir liggja um Þingvöllu – allt frá fyrstu tíð til þessa dags. Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1880-1881 er m.a. fjallað um hinar fornu götur að og frá Þingvöllum fyrir þá tíð:
„Eitt af því, sem þarf að gjöra grein fyrir, svo vel sem unnt er, er það, hverja vegi fornmenn hafi riðið á þing og af þingi, bæði þeir, er kómu norðan og vestan, austan og sunnan. Eg hefi talað hér að framan um veg þann, er norðan og vestanmenn munu hafa riðið; enn sunnanmenn eða þeir, sem kómu úr Kjalarnesþingi, hafa varla getað farið niðr Kárastaðastíg, sem nú er aðalvegrinn; sá vegr var ekki gjörðr vel fær fyrr enn hér um bil 1831; þá var sprengt úr klettunum og vegrinn lagðr, svo að nú má fara með klyfjahross, sem kunnugt er; áðr varð þar að eins farið með lausa hesta. Ef söðull var t. d. á hestinum, varð að halda sveifinni, að hún eigi rækist í klett, er stóð fram úr berginu, enn sá klettr var sprengdr í burtu, og svo var víðar. Sama er að segja um Langastíg, sem liggr norðr og upp af Völlunum efri upp úr Almannagjá; hann var gjörðr ári síðar.
Enn í fyrri daga var annar vegr á Þingvöll fyrir Sunnanmenn; lá hann frá Skálabrekku og austr yfir hraunið að Almannagjá niðr við vatnið; mótar þar víða fyrir fornum götum eða troðningum; er þá farið yfir Öxarárfarveginn gamla. Niðr við vatnið er Almannagjá orðin lítil, eða klofnar þar í smágjár og sprungur; þar hefir legið vegr yfir, og heitir Ferðamannaklif enn í dag. Þar virðist víða vera eins og mannaverk úr grjóti yfir gjárnar. Síðan lá vegrinn upp með berghallanum upp með vatninu og upp í þingið, sem nú er kallað, fyrir vestan ána, þar sem búðatóttirnar eru mestar. Þessi vegr var kallaðr Hallvegr; þá var vað á Öxará leirunum eða söndunum við vatnið fyrir framan túnið á Þingvelli, og svo lá vegrinn austr eftir nálægt Vatnskotsveginum, sem nú er kallaðr, og svo til Vellankötlu, og síðan austr til Gjábakka. Það er að segja: þá lá vegrinn ekki yfir Gjábakkastíg sem nú, því að hann var fyrst gjörðr 1832 eða 1833, heldr sunnar fyrir utan, þar sem Hrafnagjá endar eða er orðin nær að engu; síðan lá vegurinn austr á Hrafnabjargaháls. Þessi Hallvegr lagðist af í jarðskjálftanum 1789 eða einkannlega vaðið á Öxará fram við vatnið; þar sprakk í sundr og kómu álar, sem eigi var fært yfir, enda fóru þá af að mestu hólmarnir fram undan Þingvallartúni, sem hafði áðr verið engi töluvert. Þegar vaðið lagðist af á ánni, vóru gjörðar traðirnar gegnum Þingvallartún og austr úr, því að annars staðar varð þá eigi vel farið. Þetta sögðu mér gamlir menn í Þingvallarsveit eftir sínu foreldri, sem lifði í jarðskjálftanum.
Enn þá einn vegr liggr frá Armannsfelli eða af Hofmannafleti austr yfir hraunið undir Hrafnabjörg og hjá Raftahlíð, sem kölluð er, og þaðan austr á Hrafnabjargaháls. Þessi vegr var kallaðr Prestavegr eða Byskupavegr, það er auðsjáanlega þessi vegr, sem talað er um við þingreið Þorgils Oddasonar: „Ok hugsa nökkut fyrir sér ráðit ok þykkir eigi ólíklegt at þeir Hafliði myndi þar fyrir sitja ok gæta svo hvárrar tveggju leiðarinnar, er önnur liggr fram undir Ármannsfell ok hjá Sleðaási: en önnur liggr. leiðin austr yfir hraun undir Hrafnabjörg, ok undir Reyðarmúla til Gjábakka, ok svo austan um hraunit til búða“. Eigi mun þetta eiga að skiljast þannig, að Presta- eða Byskupavegrinn hafi verið hin vanalega leið, er Norðlendingar fóru á þing, því að hún var miklu lengri, enn hana mátti þó koma á þing, ef hin var varin.
Nafnið Bláskógaheiði er nú týnt þannig, að það er eigi viðhaft í daglegu máli, enn það er víst, að Bláskógaheiði hét yfír höfuð í fornöld allar heiðar og aðalvegir, er liggja fyrir norðan og vestan Bláskóga (Þingvallarsveit); er það og eðlilegt, að fjallvegrinn í heild sinni hafi dregið nafn af Bláskógum.
Einn er aðalvegrinn, þegar farið er norðr eða vestr af Þingvelli; liggr hann upp hjá Ármannsfelli, sem kunnugt er, og upp Klyftir og hjá Sandvatni og yfir Tröllaháls. Norðrvegrinn liggr upp á Kaldadal. Fyrir ofan Brunna, sem eru efstu grös á þeim vegi, eða þar sem menn á, er af Kaldadal er komið, þar skiftist vegrinn, og er það kallað að fara fyrir Ok, er þá komið ofan í Reykholtsdal (Reykjadal nyrðra) eða Hálsasveit.“
Síðan framangreint var skrifað af kostgæfni í Árbókina á fyrrgreindum tíma, þótt ekki sé langur tími um liðinn, hefur mikið vatn áa runnið til sjávar. Um framhaldið má lesa á næstunni í „Reykjavíkurleiðir“. Ritið mun birtast á vefsíðu Vegagerðarinnar, líkt og „Grindavíkurleiðir„.
Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1. árg. 1880-1881, bls. 32-42.