Kirkjusandur – sagan
Í Byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur fyrir „Kirkjusandssvæðið“ árið 2016 kemur m.a. eftirfarandi fram um sögu þess:
Saga svæðisins – Staðhættir og örnefni
Svæðið sem hér er fjallað um nær yfir hluta af því landi sem á öldum áður tilheyrði jörðunum Rauðará og Lauganesi. Samkvæmt landamerkjalýsingu frá árinu 1883 lágu merki á milli þessrar jarða eftir Fúlutjarnarlæk, frá sjó að upptökum hans við Ámundaborg, en samkvæmt eldri landamerkjalýsingum lágu merkin austar, þ.e.a.s. frá Ámundaborg sjónhendingu í stein á Kirkjusandi sem nefndur var Stúlknaklettur (Stúlkuklettur). Munnmæli segja að einhvern tíma hafi vanfær vinnukona í Laugarnesi horfið, en svo fundist við þennan stein ásamt tveimur stúlkubörnum. Hornmark Rauðararár, Reykjavíkur og Laugarness lá um Ámundaborg sem var fjárborg. Ámundaborg er löngu horfin en hefur verið þar sem býlið Lækjarhvammur var, nálægt því þar sem Lámúli 4 er nú.
Fúlutjarnarlækur var afrennsli frá Kirkjumýri og Kringlumýri og var farvegur hans að mestu leyti vestan við núverandi Kringlumýrabraut. Fúlutjarnarlækur var talinn illur yfirferðar í miklum rigningum og leysingum. Nafn sitt dregur hann nafn af Fúlutjörn, sem var hálfgert sjávarlón sem lyktaði af rotnandi gróðri. Fyllt var upp í Fúlutjörn og var því lokið um 1960. Fúlutjarnarlækur var settur í stokk árið 1957 og er því ekki sýnilegur lengur. Laugalækur rann til sjávar á Kirkjusandi austan við Stúlkuklett. Hann var afrennsli frá Þvottalaugunum og rann um Laugamýri (Laugardal), vestan við Laugarás. Laugalækur var settur í stokk árið 1949 og gata sem er á svipuðum slóðum nefnd eftir honum.
Kirkjusandur hét sandströndin frá Fúlutjarnarlæk að Laugarnesi. Nafnið Kirkjusandur kemur fyrst fyrir í Oddgeirsmáldaga frá 1379. Þar segir að Jónskirkja í Vík eigi land að Seli, akurland og sellátur í Örfirisey, auk þess akurland í Akurey og reka við Kirkjusand. Því er Kirkjusandur kenndur við kirkjuna í Reykjavík en ekki Laugarnesi. Vestast á Kirkjusandi var Fúlakotsvör en austast var Suðurkotsvör. Suðurkot var ein af hjáleigum Laugarness og þar hefur verið útræði frá fornu fari. Greint var á milli Ytri-Kirkjusands og Innri-Kirkjusands og voru mörkin trúlega um Laugalæk.
Árið 1824, þegar Steingrímur Jónsson var orðinn biskup, sóttist hann eftir stuðningkonungs til að reisa embættisbústað í Laugarnesi og var Laugarnesstofa þá reist. Húsið var eitt fárra steinhúsa sem þá höfðu verið reist á Íslandi. Það var alla tíð lekt og lélegt og svo fór að arftaka Steingríms, Helga Thordersen biskupi, fundust húsakynni í Laugarnesi óviðunandi, auk þess sem vegurinn til Reykjavíkur yfir Fúlutjarnarlæk var ógreiðfær. Helgi flutti því í nýtt hús embættisins að Lækjargötu 4 árið 1856.
Vegurinn út í Laugarnes var vissulega slæmur en þetta var gamall götutroðningur sem lá með ströndinni í vestur frá Laugarnesi, eftir Kirkjusandi innri, yfir Laugalæk, eftir Kirkjusandi ytri á vaði yfir Fúlutjarnarlæk og að Rauðará. Þessi leið fékk nafnið Biskupsgata meðan biskup bjó í Laugarnesi.
Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti Laugarnes ásamt jörðinni Kleppi árið 1885, í því skyni að tryggja Reykvíkingum aukið land til beitar, ræktunar og mótöku og árið 1894 voru báðar jarðirnar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Eftir að Laugarnes komst í eigu bæjarins var hafist handa um gerð vegar sem auðvelda átti fólki ferðir inn í Þvottalaugarnar og dregur vegurinn, Laugavegur, nafn sitt af þeim. Til að komast að laugunum höfðu þvottakonurnar áður þurft að þræða götur meðfram sjónum austur úr Skuggahverfi, fara yfir Fúlutjarnarlæk (nálægt því þar sem nú eru gatnamót Kringlumýrarbrautar og Borgartúns) og þaðan yfir Kirkjumýri, sem var bæði blaut og keldótt.
Árið 1898 lét danska Oddfellowreglan reisa holdsveikraspítala í Laugarnesi sem gefinn var íslensku þjóðinni. Þá var lagður nýr vegur að Laugarnesi frá Laugavegi. Vegur þessi beygði af Laugarvegi nálægt því þar sem Hátún 6 er nú og lá yfir Fúlutjarnarlæk á brú vestan við Kirkjuból (Laugarnesvegur 37). Vegurinn lá síðan í beinni stefnu til norðausturs yfir brú á Laugalæk. Hann var í upphafi nefndur Spítalavegur en fékk síðar nafnið Laugarnesvegur. Við þessa vegalagningu varð leiðin greiðari að Kirkjusandi sem hafði þau áhrif á að þar varð til fyrsti vísir byggðar.
Á árunum 1949-1975 voru gerðar miklar landslagsbreytingar á svæðinu sem hér er til umfjöllunar. Austast hluti Fúlutjarnar náði inn á svæðið á sínum tíma, en fyllt var upp í tjörnina og var því lokið um 1960. Austast um svæðið rann Laugalækur en hann var settur í stokk árið 194922 og ströndin byggð fram um 100 m með landfyllingu. Því er ásýnd og náttúra hins forna Kirkjusands mjög mikið breytt.
Upphaf byggðar á svæðinu – Fiskverkunarstöð Th. Thorsteinssonar
Þorsteinn var tengdasonur Geirs Zoëga og hafði stofnað verslunina Liverpool árið 1896, auk þess að vera með þilskipaútgerð. Ári seinna sótti hann um að fá leigutíma á lóðinni á Kirkjusandi lengdan úr 10 árum í 20 ár, þar sem hann þurfi að kosta allmiklar tilfæringar á staðnum, byggja hús þar o. fl. Auk þess bað hann um leyfi til að stækka leigulóðina og setja fiskþurrkunargrindur á svæðið fyrir ofan Stúlknaklett, að sandinum fyrir innan höfðann, til fisksólunar.
Árið 1900 setti Jes Zimsen á fót fiskverkun á Innri-Kirkjusandi ásamt bræðrunum Birni og Þorsteini Gunnarssonum og þar reistu þeir tvö fiskverkunarhús. Á næstu áratugum reistu félögin margvísleg mannvirki í kringum fiskvinnsluna á svæðinu, þar á meðal þurrkhús, geymsluhús, vélaskúra, þvottahús, verbúðir, verkstjóraíbúð og bryggjur. Fjöldi manns var í vinnu við salfiskvinnsluna og var reitur Th. Thorsteinssonar lengi einn stærsti fiskreiturinn í Reykjavík og vinnustaður fjölda karla, kvenna og barna. Fiskurinn var saltaður, þveginn og þurrkaður á stakkstæðum, síðan hlaðið upp í stakk og að lokum var hluta hans komið fyrir innandyra í fiskgeymslum. Til að getað þurrkað fisk allt árið voru byggð sérstök þurrkverkunarhús. Þau mátti þekkja á loftstokkum á þakinu. Einungis eru risin tvö hús, fiskverkunar húsið og íbúðarhúsið sem stendur norðar (ljósmálað hús). Unnið er við að breiða fiskinn út til þurrkunnar.
Til að koma fiskinum til og frá fiskverkunarhúsunum um stakkstæðin voru lagðir um 500 m af brautarteinum frá Fúlutjörn að húsunum á Ytri-Sandi og þaðan norður að húsunum á InnriSandi. Auk þess lágu teinarnir á búkkum yfir Fúlutjörn á tímabili.
Byggt var við húsin og þau stækkuð og í úttekt frá árinu 1915 voru þau orðin sex talsins. Árið 1920 brunnu nokkur hús á lóðinni (þ.á.m. líklega nyrsta fiskþurrkunarhúsið sem var með loftstokkum á þakinu) en íbúðarhús frá 1915 og fiskþurrkunarhús frá 1900 sluppu.
Árið 1921 reisti Th. Thorsteinsson nýtt fiskþurrkunarhús á rústum eldri húsanna. Það var hús með tveimur loftstokkum á þakinu og snéri þvert á gamla þurrkhúsið. Þetta hús stóð lengi eitt eftir á reitnum til minningar um þetta tímabil, en var flutt að Ægisgarði 2 við gömlu Reykjavíkurhöfn árið 2011 og hýsir nú veitingastað.
Byggðin fór að þéttast við Laugarnesveg á 3. áratugi 20. aldar, nánar tiltekið á árunum 1926–1929. Íbúðarhús voru byggð austan götunnar og í dag standa þar 8 hús frá þessu tímabili.
Hernámsárin – Braggabyggð á svæðinu
Á árunum um og eftir síðari heimsstyrjöld settu braggar og önnur mannvirki hernámsliðsins svip á byggðina á þessum slóðum eins og annars staðar í bænum. Detention Camp, fangelsiskampur, var staðsettur á Ytri-Kirkjusandi, suðaustan við fiskvinnsluhús Th.Thorsteinssonar. Þar var fangelsi breska hersins og síðar flotans.
Á svæðinu voru nokkrir herskálar sem notaðir voru sem fangageymslur og var fangelsissvæðið afgirt með 3 m hárri netgirðingu. Þarna voru nokkrir Íslendinga hafðir í haldi í kjölfar dreifibréfsmálsins svokallaða. Á svæðinu voru líka tvær stórar birgðaskemmur auk fjögurra skemma með mænisþaki sem voru reistar af Kanadamönnum og standa enn.
Strætisvagnar Reykjavíkur á Kirkjusandi
Reykjavíkurborg yfirtók rekstur Strætisvagna Reykjavíkur árið 1944 og ári seinna var bækistöð strætisvagna flutt frá Hringbraut 56 yfir á athafnasvæði á Ytri-Kirkjusandi sem bærinn tók á leigu handa fyrirtækinu. Það er sú lóð sem nú talin númer 41 við Borgartún. Þar voru þá til staðar áðurnefnd fiskverkunarhús Th. Thorsteinssonar og stórar birgðaskemmur og nokkrir braggar frá hernum. Svæðið allt og meðfylgjandi byggingar voru færð í það horf sem taldist nothæft fyrir strætisvagnana og starfssemi þeirra. Húsin hýstu síðan vinnustofur, verkstæði, birgðastöð og geymsluplan fyrir vagnana. Meðal þessara húsa voru járnklædd, fjögurra bursta bindingshús sem reist höfðu verið af Kanadamönnum á stríðsárunum og nefnd eru hér að ofan. Þau voru notuð undir dekkjaverkstæði, geymslur og sprautuverkstæði í tíð Strætisvagnanna.
Í
lok sjöunda áratugarins og byrjun þess áttunda voru reist tvö hús til viðbótar á lóðinni fyrir Strætisvagna Reykjavíkur, annars vegar þvottahús (austar) og hins vegar skrifstofu- og verkstæðishús (vestar). Um leið voru eldri hús á lóðinni rifin, öll nema kanadísku húsin og gamla þurrkhúsið frá 1921. Húsin sem Strætisvagnar Reykjavíkur létu reisa á lóðinni auk bindingshússins sem Kanadamenn reistu standa enn og eru lítið breytt frá upprunalegri gerð. Strætisvagnar Reykjavíkur höfðu bækistöðvar að Kirkjusandi í rúmlega hálfa öld eða fram til ársins 2001. Lóðin var í seinni tíð gjarnan kölluð Strætólóðin.
Júpíter hf. og Mars hf. á Kirkjusandi
Árið 1948 fluttu togaraútgerðarfélögin Júpíter hf. og Mars hf. til Reykjavíkur, en þau voru upphaflega stofnuð í Hafnarfirði af Tryggva Ófeigssyni og fleirum. Félögin ráku hraðfrystihús ásamt saltfisk- og skreiðarverkun á Ytri-Kirkjusandi til ársins 1973, á lóðinni sem nú er talin númer 2 við götuna Kirkjusand. Félagið leigði lóðina til 30 ára og reisti á henni ýmis fiskgeymslu- og vinnsluhús. Árið 1950 sótti félagið um leyfi að byggja stórt, steinsteypt fiskverkunarhús við fjöruborðið. Húsið var hækkað og byggt við það í nokkrum áföngum og var á sínum tíma stærsta frystihús landsins.
SÍS og Íslandsbanki á Kirkjusandi
Í kjölfar eldgossins í Heimaey árið 1973 keypti Ísfélagið frá Vestmannaeyjum frystihúsið og aðrar eignir á Kirkjusandi og rak til ársins 1975 þegar Samband íslenskra samvinnufélaga keypti húseignirnar við Kirkjusand. Sambandið var umsvifamikið í Laugarnesi á 7. og 8. áratugnum og reisti meðal annars stórhýsi fyrir kjötvinnslu austan við götuna Kirkjusand (á Innri-Kirkjusandi). Á 9. áratugnum hóf Sambandið umfangsmiklar breytingar á frystihúsinu við Kirkjusand sem var stækkað, hækkað og klætt, en fyrirhugað var að breyta því í skrifstofuhús undir nýjar höfuðstöðvar Sambandsins. Niðurrif ýmissa mannvirkja á svæðinu var hluti af þessum breytingum. Árið 1988 þegar framkvæmdir voru komnar á gott skrið tók að halla undan fæti hjá Sambandinu og um svipað leyti og skrifstofuhúsnæðið var fullbúið þurfti Sambandið að láta af hendi eign sína í húsinu.
Íslandsbanki eignaðist síðar húsið og aðrar eignir á lóðinni og flutti þangað höfuðstöðvar sínar árið 1995. Í kjölfarið voru gerðar minniháttar breytingar á útliti og innra fyrirkomulagi hússins.
Öll mannvirki sem voru reist undir fiskverkun á Kirkjusandi á fyrri helmingi 20. aldar og mynduðu ákveðna þyrpingu og menningarsögulega heild hafa verið rifin að einu húsi undanskyldu. Það hús var ekki varðveitt á Kirkjusandi heldur flutt þaðan árið 2007 og komið fyrir við gömlu höfnina í Reykjavík (Ægisgarð 2), eins og áður er nefnt.
Heimild:
-Kirkjusandur, Byggðakönnun, Borgarsögusafn Reykjavíkur, Reykjavík 2016.