Hverjir voru Tyrkjaránsmenn? – Þorsteinn Helgason

Tyrkir

Í tímaritinu Sögu, 1. tbl. árið 1995, reynir Þorsteinn Helgason að svara spurningunni „Hverjir voru Tyrkjaránsmenn?“. Eftirfarandi er hluti af umfjölluninni:

„Í fyrri hluta greinarinnar er fjallað almennt um sjórán á 17. öld og nokkur hugtök skýrð. Þá er sagt frá heimildum um sjórán og einkum þau sem stunduð voru á vegum Algeirsborgar og Salé í Marokkó. Loks er yfirlit yfir heimildir um Tyrkjaránið 1627, m.a. hollenskan samtímaannál sem segir frá Grindavíkurráninu.
TyrkirÍ seinni hlutanum er leitað svara við því af hvaða þjóðerni og uppruna ránsmennirnir voru. Niðurstaðan er sú að samsetning hópsins hafi verið fjölbreytt en norður-evrópskir trúskiptingar hafi verið atkvæðamestir.
Tyrkjaránið er alkunnur atburður í Íslandssögunni en þó skal hér í byrjun rakinn söguþráðurinn í fáum orðum: Sumarið 1627 komu ræningjaskip til Íslands frá Norður-Afríku. Annar hópur ránsmanna tók land í Grindavík, hertók þar fólk, felldi tvo menn og tók tvö skip og annað herfang; stefndi síðan til Bessastaða en skip þeirra steytti á skeri. Urðu þeir frá að hverfa og héldu til heimahafnar í borginni Salé í Marokkó. Hinn hópurinn rændi fyrst á Austfjörðum en síðan í Vesrmannaeyjum og var það sýnu mesta ránið; sá hópur var frá Algeirsborg. Alls hertóku ránsmenn um 400 manns, felldu sennilega um þrjátíu og tóku fimm dönsk verslunarskip auk annars herfangs. Fangana seldu þeir mansali í heimaborgum sínum en á fjórða tug þeirra voru keyptir heim með lausnarfé tíu árum síðar.
Tyrkjaránið er minnisstæð hrollvekja í Íslandssögunni að minnsta kosti á þrjá vegu. Í fyrsta lagi er hún þáttur í sögu Vestmannaeyja sem ekki verður gengið fram hjá enda var líklega meira en helmingur íbúanna numinn á brott eða drepinn í þessum voveiflegu atburðum. Í öðru lagi hafa örlög hernumda fólksins orðið mörgum umhugsunarefhi, ekki síst hlutskipti Guðríðar Símonardóttur, Tyrkja-Guddu. Í þriðja lagi lifir ránið sem staðreynd og viðmið sem hægt er að grípa til, t.d. þegar varnarmál eru rædd eða þegar Tyrki ber á góma í nútímanum.
TyrkirSem sagnfræðilegt athugunarefni hefur Tyrkjaránið hins vegar legið að mestu í láginni. Það er þó á margan hátt álitlegt til rannsóknar, ekki síst í alþjóðlegu samhengi. Tyrkjaránið er vissulega einstæður atburður í sögu Islands3 en það er ekki formálalaust í veraldarsögunni.
Í þessari grein er ætlunin að kanna einn þátt Tyrkjaránsins, þ.e. uppruna ránsmannanna og einkum þjóðerni þeirra. Tyrkjaránsmenn voru ekki eins miklir Tyrkir og ætla mætti af orðanna hljóðan.
Þó að meginviðfangsefnið sé þessi þáttur þykir rétt að reifa málið fyrst á víðari grunni, tengja Tyrkjaránið við ýmsar hræringar í samtíma þess og segja frá helstu heimildum og heimildaflokkum sem það varða. Margt af því sem þar er sagt verður tilefni til nánari könnunar og umfjöllunar síðar og sér í lagi.
Um sjóræningja Norður-Afríku, og þar með „Tyrkina“ sem rændu á Íslandi 1627, eru til ærnar og fjölbreyttar heimildir. Það sem kemur á óvart er að þeirra er síst að leita á heimaslóðum, þ.e. í Norður-Afríku. Í Istanbul er hins vegar varðveitt mikið safn skjala frá lendum Tyrkja í Norður-Afríku á þessum tíma enda var stjórn Algeirsborgar reglufestustjórn og hélt fundargerðir en flokkun og útgáfa þessara skjala er stutt á veg komin.11 Þeir sem skildu eftir sig rituð plögg um sjóránastarfsemi í Norður-Afríku voru einkum þessir:
a. Stjórnvöld í Norður-Afríku og Evrópu sem skiptust á orðsendingum,
b. opinberir sendimenn Evrópuríkja í Norður-Afríku,
c. kirkjunnar menn sem komu til að leysa fólk út með fjármunum,
d. skipstjórnarmenn sem héldu dagbækur og
e. herleitt fólk sem skrifaði heim.
TyrkirFrumheimildir um Tyrkjaránið á íslandi 1627 eru fyrst og fremst íslenskar og mega þær teljast allnokkrar að vöxtum og býsna ítarlegar í samanburði við heimildir um viðlíka viðburði erlendis. Og gagnstætt erlendu skjölunum eru þær mestan part persónulegar reynslusögur. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður safnaði þessum heimildum saman, bar saman handrit og gaf út í ritinu Tyrkjaránið á Íslandi 1627 á vegum Sögufélags í byrjun aldarinnar.
Íslensku heimildunum í útgáfu Jóns má skipta í nokkra flokka:
a- Ferðasaga (reisubók) Ólafs Egilssonar prests í Vestmannaeyjum sem herleiddur var 1627 en sleppt um haustið til að hann færi á heimaslóðir að safna lausnarfé. Frásögn Ólafs er á flestan hátt traustust og nákvæmust af þessum heimildum; af henni er oftast
ljóst hvað hann sá og lifði sjálfur og hvað hann hefur eftir öðrum.
b. Aðrar frásagnir sjónarvotta. Hér er um að ræða brot úr ævisögu Jóns Ólafssonar Indíafara sem var settur til varna á Bessastöðum og er því til frásagnar um afmarkaðan þátt viðburðanna. Kláus Eyjólfsson lögréttumaður skráði frásögn af ráninu í Eyjum eftir þeim sem sluppu naumlega á land og e.t.v. fleiri heimildum. Frásaga hans er ónákvæm og einhliða og mætti geta sér þess til að skelfing heimildarmanna hafi verið svo mikil að í skynjuninni og minningunni um atburðina hafi öll blæbrigði þurrkast út. Slíkt mun alkunnugt í vitnasálfræði. Fjögur sendibréf Íslendinga frá Barbaríinu eru varðveitt og eru þau merkilegar heimildir um herleiðinguna og gefa tilefni til samanburðar við erlendar heimildir.
c. Tyrkjaránssaga Björns Jónssonar á Skarðsá frá 1643 er viðleitni til formlegrar sagnaritunar um þennan stórviðburð og þar er stuðst við aðrar heimildir, þ. á m. ferðasögu Ólafs Egilssonar en einnig rit sem týndust í brunanum í Kaupmannahöfn 1728: frásögn Halldórs Jónssonar af Grindavíkurráninu, rit Einars Loftssonar úr Vestmannaeyjum og eitt bréf úr herleiðingunni frá Jóni Jónssyni
Grindvíkingi.
d. Annálar og brot. Hér er um að ræða stutta lýsingu á ráninu á Austurlandi sem austanpiltar í Skálholti skráðu veturinn eftir að atburðirnir gerðust, ennfremur stuttan en sjálfstæðan annál sem greinir m.a. frá öðrum ritum um ránið, loks brot úr Skarðsárannál, grein í Biskupasögum Jóns Halldórssonar, prestasögum hans og Hirðstjóraannál.
e. Nokkur opinber tilskrif eru varðveitt og fjalla flest um eftirleikinn á Íslandi, t.d. erfðamál, eignaskiptingar og giftingar. Þó tæpa sumir á atburðarásinni, svo sem Oddur biskup Einarsson í minnisbók sinni 1630.
TyrkirÓlafur áleit að flestir þeirra manna sem tóku hann sjálfan og fjölskyldu hans höndum hafi verið enskir.53 Líklegt er að Ólafur hafi hér ályktað af málfari ræningjanna. Þegar á skipið kom og Ólafur hafði verið barinn með kaðli „var einn Þýzkur tilsettur að spyrja mig að, hvort eg ætti ekki peninga“. Loks gerir Ólafur grein fyrir því í heild sinni hverninn illþýði þetta er að ásýnd og búnaði. Þá er það af því að segja, að það fólk er misjafnt, bæði til vaxtar og ásýndar, sem annað fólk. Sumir geysi miklir, sumir bjartir, sumir svartir, því það voru kristnir úr ýmsum löndum, enskir, franskir, spánskir, danskir, þýzkir, norskir, og haf þeir hver sitt gamla klæðasnið, sem ei kasta trú sinni. Mega þeir alt vinna, það til
fellur, og hafa stundum högg til… . En Tyrkjar eru allir með uppháar prjónahúfur rauðar….
Ólafur Egilsson greinir þannig í þrjá hópa: upprunalega Tyrki, trúskiptinga og kristna menn. Má ætla að þeir síðastnefndu hafi einkum verið á skipunum og tæpast tekið þátt í strandhöggunum þar sem þá þurfti að hafa undir eftirliti og þeim var skipað fyrir verkum.
Allt sem sagt hefur verið hingað ril á við um ránsmenn frá Algeirsborg sem herjuðu á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum. Þeir sem léru greipar sópa í Grindavík og strönduðu síðan á Seylunni utan við Bessastaði komu hins vegar frá borginni Salé í Marokkó. Ránsmenn í Saléborg voru af svipuðum toga og Algeirsbúar en nokkuð bar þó á milli.
Af framansögðu má ætla að sjóránaskipin frá Salé hafi verið mönnuð márum frá Spáni, evrópskum trúskiptingum og ófrjálsum Evrópumönnum, auk Marokkómanna af ýmsu tagi. Svo vel ber í veiði að til eru upplýsingar um áhöfn skipstjórans, sem var í fyrirsvari fyrir Íslandsferðinni 1627, eins og hún var samsett í árás á Kanaríeyjar 1622. Spænskur trúskiptingur af skipinu var skömmu síðar handtekinn og leiddur fyrir rannsóknarréttinn. Hann sagði að á skipinu hefðu verið márar frá Salé, þar af 18 Moriscos útlægir frá Spáni. Níu flæmska (hér: hollenska) trúskiptinga taldi hann auk 13 ófrjálsra landa þeirra.
TyrkirÞar sem ránsmönnum í Grindavík er lýst í Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá eru þeir aldrei nefndir annað en „Tyrkjar“. Þó er sagt að ránsmenn hafi sent nokkra menn á bát til njósna að danska kaupskipinu og að þeir menn hafi talað þýsku við skipherrann. Ennfremur er talað um hollenskan bátsmann á skipi þegar siglt var til Afríku.
Í hollenska annálnum, sem áður er nefndur, segir að níu Englendingar hafi verið í áhöfn ránsmanna í Grindavík; þeim hafi verið gefið eftir fyrra skipið, sem tekið var, og hafi þeir fengið að fylla það fiski. Síðan sigldu Englendingarnir heim til Englands „og létu sem þeir ættu skipið og héldu því leyndu að sjóræninginn [þ.e. foringi „Tyrkjanna“] hefði látið þá hafa það“. Í íslensku heimildunum er ekki getið um þetta „enska tilbrigði“.
Tyrkjaránsmenn voru sundurleitur hópur. Íslenskar lýsingar fara allvel saman við það sem annars staðar segir af þjóðerni og uppruna þeirra. Segja má þó að minna beri á Hollendingum og márum frá Spáni í íslensku heimildunum en við hefði mátt búast. Þar getur margt komið til:
– að Hollendingar hafi stundum verið taldir með Þjóðverjum; tungumálin voru lík,
– að Íslendingum hafi reynst erfitt að sundurgreina márana; þeir sem Ólafur Egilsson nefnir Tyrki geta einnig verið márar og jafnvel að einhverju leyti evrópskir trúskiptingar,
– að Norður-Evrópumenn hafi raunverulega verið fleiri í íslandsleiðangrinum en í mörgum öðrum ránsferðum vegna kunnugleika þeirra á norðurslóðum.
TyrkirLjóst er að fáir upprunalegir Tyrkir tóku þátt í Tyrkjaráninu og engir þeirra voru í hópnum sem réðst að Grindavík og Bessastöðum þar sem Saléborg heyrði ekki undir Tyrkjaveldi. Þar að auki má minna á að tyrknesku hermennirnir, janissararnir, voru fæstir Tyrkir að uppruna. Það voru því fyrst og fremst Evrópumenn sem frömdu Tyrkjaránið. Er þá nokkur hæfa í því að kalla það Tyrkjarán?
Þessu má svara með nokkrum rökum. Í fyrsta lagi hefur heitið Tyrkjarán alla tíð verið notað um þessa atburði hér á landi og það „er óþægilega fyrirhafnarsamt að skipta um hugtök í hvert skipti sem fræðimenn skipta um skoðun á fyrirbærunum.“ Í öðru lagi tóku Iíklegast einhverjir Tyrkir þátt í ráninu. Í þriðja lagi laut Alsír formlega Tyrkjaveldi á þessum tíma. í fjórða lagi notuðu Evrópumenn þessa tíma heitið Tyrkir iðulega um múslíma (múhameðstrúarmenn) hvar sem þeir bjuggu sunnan Evrópu; menn gátu gerst Tyrkir.
Þó að búið sé með sæmilegum hætti að svara því hverjir Tyrkjaránsmenn voru er ekki hálf sagan sögð. Næst liggur fyrir að leita uppi foringjana og kanna hlut þeirra. Síðan þarf að skilgreina stjórnvöldin sem réðu í heimahöfnum þeirra. Þá er rétt að fara í saumana á lögum, reglum, siðvenjum og fræðilegum rökum sem ná yfir þetta athæfi. Loks má reyna að rekja alla atburðarásina og ástand mála um Miðjarðarhaf og í Evrópu sem leiddu yil þess að Tyrkjaránið átti sér stað. En hér verður látið staðar numið að sinni.“

Heimild:
-Saga – Hverjir voru Tyrkjaránsmenn? – Þorsteinn Helgason, 1. tbl. 1. janúar 1995, bls.111-133.
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=334801&pageId=5279658&lang=is&q=Tyrkjaránið

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.