Hraun í nágrenni Reykjavíkur; Leitarhraun – Jón Jónsson
Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 1971 um „Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun„. Hér er greinin birt að hluta:
Allmörg hraun eru í nágrenni Reykjavíkur, en aðeins eitt þeirra hefur þó náð inn fyrir núverandi borgartakmörk. Þetta hraun hefur runnið niður eftir farvegi Elliðaánna og út í Elliðavog, þar sem það endaði í flötum tanga. Á þessum slóðum gengur hraunið undir nafninu Elliðaárhraun, en hefur annars ýms nöfn á ýmsum stöðum, eins og títt er. Jarðfræðilega er heppilegt að kenna hraun við eldvarpið eða eldvörpin, sem það er komið úr, sé þess kostur. Að sjálfsögðu felur slíkt ekki í sér að gömul og þekkt örnefni í hrauninu skuli felld niður. Þetta er aðeins til hægðarauka að nota eitt og sama nafn um sama hraunið. Nafnið er þá aðeins notað sem jarðfræðilegt hugtak, ekki sem nýtt örnefni.
Fyrstu rannsóknir
Ekki er mér kunnugt um, að neinar rannsóknir hafi verið gerðar á því, hvaðan hraun þetta er komið, fyrr en sumarið 1954, að við Tómas Tryggvason unnum að gerð jarðfræðikorts þess af Reykjavík og nágrenni, sem út kom 1958 (Tryggvason og Jónsson 1958).
Það kom þá í minn hlut að kortleggja suðurhluta svæðisins, og þá rakti ég þetta hraun alla leið austur fyrir austurtakmörk kortsins. Áður hafði mér verið sagt, að það væri komið sunnan af svæðinu við Kóngsfell. Þorvaldur Thoroddsen hefur auðsjáanlega gert sér gxein fyrir að hraun hafi runnið ofan frá Bláfjöllum niður hjallana og niður að Rauðhólum, en hann telur líklegast að Elliðaárhraunið sé úr Rauðhólum komið (Ferðabók I, bls. 123—124, Rvík 1958).
Einn hluti þessa hrauns hefur öðrum fremur vakið athygli vísindamanna fyrir löngu, en það eru Rauðhólar við Elliðavatn. Þeir hafa verið rækilega skoðaðir af ýmsum, þó ekki væru menn á eitt sáttir varðandi uppruna þeirra. Voru þeir ýmist taldir raunverulegir eldgígir eða gervigígir, án þess að gerð væri grein fyrir á hverju niðurstaðan væri byggð. Einn af þeim fyrstu, sem skoðaði Rauðhóla, var Frakkinn Eugéne Robert, sem var jarðfræðingur í leiðangri Paul Gaimards 1835—1836. Telur hann hólana gervigígi, en getur ekki um, hvaðan hraunið sé komið. Skýring hans virðist þó hafa fallið í gleymsku í meira en 100 ár. Síðan hafa margir um þetta mál fjallað, og skoðanir verið skiptar, hvað snertir uppruna hólanna.
Þegar Þorleifur Einarsson (1960) vann að jarðfræðirannsóknum á Hellisheiði og á svæðinu austan við Bláfjöll, athugaði hann forna eldstöð suðaustan undir Bláfjöllum, skammt sunnan við Ólafsskarð. Þessir gígir nefnast Leitin, og komst Þorleifur að þeirri niðurstöðu, að þar væru upptök hraunsins og nefndi það því Leitahraun.
Leið hraunsins rakin
Ekki verður Leitahraun hér rakið lengra en austur að Draugahlíðum, en þaðan má rekja það óslitið alla leið út í Elliðavog. Það hefur fallið í þröngum fossum niður af Bolaöldum og Vatnaöldum, sem hvort tveggja eru misgengishjallar, en breiðst nokkuð út þar á milli, og niður á Sandskeið. Ekki verður séð, hvað langt það nær þar til suðurs, því sandlög hylja það, en líklegt virðist, að það sé undir svifflugvellinum a.m.k. Sandlög þessi eru framburður úr gili, sem liggur suður með Bláfjöllum að vestan. Tvö önnur hraun hafa og komið þar sunnan að og er hið eldra þeirra nyrzt líka hulið sandlögum úr þessu sama gili.
Mót þess hrauns og Leitahraunsins eru hulin og því ekki vitað, hvort er eldra. Norðurtakmörk Leitahrauns eru hins vegar nokkuð ljós á þessum slóðum. Það hefur fiætt um sléttuna alla norður með Vatnaási langleiðina norður að Stangarhól og Litla-Lyklafelli. Frá Sandskeiði hefur hraunið svo runnið áfram vestur eftir og myndar víðáttumikla og hallalitla hraunsléttu norðvestur af Fóelluvötnum. Er þessi hraunslétta á kortinu nefnd Mosar. Þegar hraunflóðið var búið að fylla þessa lægð hæðanna á milli, hefur það á ný fallið um þrönga farvegi, þar sem það er sums staðar aðeins fáir metrar á breidd og breiðist ekki út svo teljandi sé, fyrr en það kemur á sléttan flöt, Fossvelli, austan við Lækjarbotna. Þar breiðist það nokkuð út á ný, en suðurtakmörk þess eru hulin yngra hrauni, sem komið hefur sunnan að um skarðið milli Sandfells og Selfjalls. Það hraun endar í hárri brún rétt norðan við beygjuna á þjóðveginum, þar sem hann liggur upp úr Lækjarbotnum. Mun brekka sú heita Fossvallaklif.
Hraunið, sem þarna endar og er svo áberandi, hef ég nefnt Hólmshraun II. Augljóst er af því, sem hér er sagt, að Hólmshraun II er yngra en Leitahraun. Fram af áður nefndri brún hefur Leitahraun fallið út á sléttar grágrýtisklappir rétt norðvestur af gamla gististaðnum Lögbegi. Þar er hraunið sums staðar aðeins 0,6—0,75 m þykkt (1. mynd). Má af því marka, hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið. Í þessu sambandi má geta þess, að ég lít svo á, að hér hafi verið um dyngjugos að ræða, og að líta beri á Leitin sem dyngju. Á áðurnefndum stað klofnar hraunið í tvær kvíslar, fellur meginkvíslin vestur, en hin norður með Fossvallaklifi og þekur þá sléttu, sem nú nefnist Nátthagamýri, en við norðurrönd hennar er grunn tjörn, Nátthagavatn. Þarna hafa í hrauninu myndazt nokkrir gervigígir, lágir og lítt áberandi. Hafa þarna verið tjarnir, þegar hraunið rann, og bólstraberg hefur myndazt þar. Megin hraunstraumurinn hélt áfram vestur og breiddist út um sléttlendið vestan við Lækjarbotna hæða á milli. Norðurtakmörkin eru víðast hvar greinileg, en suðurtakmörkin víðast hulin yngri hraunum og er svo allt vestur að Gvendarbrunnum. Þessi hraun eru Hólmshraunin og eru þau fimm að tölu.
Skammt vestan við Lækjarbotna koma fyrir gervigígir í hrauninu, eru þar nokkrir mjög snotrir katlar úr hraunkleprum báðum megin við þjóðveginn. Þeir eru nefndir Tröllabörn. Hraunsléttan er svo nær mishæðalaus, þar til kemur nokkuð vestur fyrir Geitháls, en þar eru nokkrir gervigígir við norðurrönd hraunsins í röð, sem nær vestur undir Hólm. Lítið eitt vestar hefur hraun sunnan að runnið því sem næst þvert yfir Leitahraun. Liggur vesturrönd þess hrauns fast að Gvendarbrunnum. Hraun þetta er mjög þunnt. Það hef ég nefnt Hólmshraun I og er það elzt þeirra hrauna. Þau eru komin af svæðinu við Kóngsfell.
Nokkru vestar eru svo Rauðhólar eða réttara sagt, það sem eftir er af þeim. Hefur hraunið þar án efa runnið út í vatn og því hafa gervigígarnir myndazt. Fyrir vestan Rauðhóla er hraunið slétt og takmarkar Elliðavatn að norðan og austan, þ.e.a.s. eins og vatnið var áður en Elliðaárnar voru virkjaðar. Það hefur svo runnið um þröngt sund norðan við Skyggni. Myndast svo enn ein hraunsléttan í því og nær hún norður með Selási að vestan. Nyrzt á því svæði þrengist enn á ný um hraunið, og er það mjög mjótt, þar sem vatnsveitubrúin nú er. Svo beygir það vestur, fellur fram af allhárri brún vestan við Árbæjarstíflu, beygir loks til norðurs og endar í flötum tanga í Elliðavogi, nálægt því 300 m norðan við þjóðveginn. Hefur það þá runnið því sem næst 28 km leið frá eldvarpinu.
Rauðhólar
Heita má að hin forna fegurð og töfrablær Rauðhólanna sé nú horfinn, og ekki var með öllu ástæðulaust að lítil stúlka, sem fór þar um fyrir nokkrum árum, spurði, hvort þetta væru Rauðholur. Þar standa nú eftir gjall- og hraunstabbar, sem þó eru harla fróðlegir. Oft hef ég komið í þessa sundurrifnu Rauðhóla, en sjaldan farið þaðan án þess að hafa séð eitthvað nýtt.
Það eru tiltölulega fáir staðir til, þar sem skoða má innviðu gervigíga og er nokkurs virði að hafa slíkan stað nálægt höfuðborginni og hinum ört vaxandi háskóla. Ekki þarf að efa, að hraunið hefur þarna runnið út í vatn, og að það er megin orsök myndunar gervigíganna. Hitaveita Reykjavíkur lét bora rannsóknarholu í Rauðhólum 1962. Var þá borað í gegnum Leitahraun, sem á þessum stað reyndist um 7 m þykkt. Undir því var fyrst leirlag um 1 m þykkt, þar eftir jökulurð og loks grágrýti. Ekki náðist sýnishorn af þessum leir, en líklegt þykir mér, að um kísilgúr hafi verið að ræða og sé það botnset hins forna vatns. Þykk lög af því efni eru bæði í Elliðavatni og Vífilsstaðavatni og eru raunar í flestum ef ekki öllum stöðuvötnum hérlendis, þar sem hraun liggja að.
Víða má í gjallstáli Rauðhóla sjá gulnaðan, stundum rauðbrenndan leir, bæði innan í brotnum hraunkúlum og sem laus stykki í gjallinu. Þetta er kísilgúr, sem án efa á rætur að rekja til vatnsins, sem hraunið forðum rann út í og fyllti. Svona má og sjá í gervigígum víða um land, t.d. í Landbroti, við Mývatn og í Aðaldal. Þetta eru ferskvatnsmyndanir.
Fróðlegt er að sjá þarna göng eftir gas, vafalaust að mestu leyti vatnsgufu, og hversu þau eru frábrugðin gasgöngum í eldstöðvum. Í eldstöðinni eru gasgöngin brynjuð innan af hraunglerungi, semer endurbrætt hraun. Slíkt ætti að jafnaði síður að koma fyrir í gervigígum, enda þótt það sé sennilega til. Gæti þetta verið nokkur hjálp við að greina gervigíg frá eldstöð.
Útlit hraunsins og innri gerð
Leitahraun er dæmigert helluhraun. Það hefur verið afar þunnfljótandi, runnið næstum eins og vatn, og vafalaust verið mjög heitt, þegar það rann. Dæmi, sem sanna þetta, má víða sjá í hrauninu. Áður er á það drepið, hvað þunnt það er, þar sem það hefur runnið út á grágrýtisklöppina við Lækjarbotna. Á nokkrum stöðum þar fyrir austan, þar sem vatn hefur grafið inn undir hraunröndina, má sjá hvernig það hefur runnið utan um grágrýtisbjörg og fyllt svo að segja hverja smugu. Loks má geta þess, að nokkuð er um hella í þessu hrauni, þó ekki séu þeir stórir í þeim hluta þess, sem hér um ræðir. Nokkrir eru austur á Vatnaöldum, rétt norðan við gamla þjóðveginn.
Aldur hraunsins
Það eru nú bráðum 20 ár síðan fyrst var gerð aldursákvörðun á mó, sem Jóhannes Áskelsson (1953) fann undir Leitahrauni rétt ofan við brúna yfir Elliðaár. Samkvæmt C1 4 aldursákvörðun reyndist mórinn 5300 ± 340 ár.
Sumarið 1965 lagði Vatnsveita Reykjavíkur nýja vatnsæð til borgarinnar. Var þá sprengdur skurður í gegnum Leitahraun suður og vestur af Elliðaárstöðinni. Við norðurjaðar hraunsins nær beint suður a£ stöðvarhúsunum var hraunstorkan svo þunn, að hún brotnaði undan þungri jarðýtu. Kom þá í ljós, að undir hrauninu var mýri, sem vaxin hefur verið birkikjarri áður en hraunið rann. Mátti þarna tína búta af birkihríslum, sem nú voru orðnar að viðarkolum. Þótti mér rétt að nota þetta efni til nýrrar aldursákvörðunar, og var hún framkvæmd af dr. Ingrid U. Olsson á rannsóknarstofu háskólans í Uppsala í Svíþjóð (U-632). Sú aldursákvörðun sýndi, að gróðurleifarnar eru 4630 ± 90 ára, þ.e. töluvert yngri en samkvæmt fyrri aldursákvörðun. Hefur hraunið því runnið um 2680 árum fyrir okkar tímatal eða á þeim sömu árum og egypzkir verkamenn strituðu við byggingu hins mikla Cheops pýramída á Egyptalandi austur.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 01.11.1971, Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun – Jón Jónsson, bls. 49-63.