Arnes Pálsson – útlegumaður I
Frægasti útlegumaður hér á landi, fyrir utan Fjalla-Eyvind, var Arnes Pálsson.
FERLIRsfélagar fengu tækifæri til að berja hann augum þar sem þeir voru við þjóðkræsingar í Hraunsholtshelli eitt síðdegið á þorranum. Arnes birtist þá þar skyndilega í “ímynd” sinni. Á broddstaf í annarri hendi hafði hann dauða gæs, en öxi í hinni. Var hann greinilega að sækja í sjóð þann er hann hafði falið í hellinum um fjórðungsárþúsindinu fyrr. Hann komst þó undan við glettur og hvarf út í hríðina, enn einu sinni.
Arnes þessi Pálsson gerðist sekur fyrir endurtekna stórfellda þjófnaði og var að lokum dæmdur af stiftamtmanni til ævilangrar tugthúsvistar. Í bréfabók stiftamtmanns þeirra tíma var Arnes titlaður „den störste af alle Forbrydere i det islandske Tugthus“, eða mestur allra glæpamanna í hinu íslenska fangelsi. Sakaskrá Arnesar Pálssonar var löng og er á henni, rétt eins og á lífi hans öllu, mikill þjóðsagnablær.
Árið 1765 komst Arnes undir manna hendur og við réttarhöld sagðist hann vera fæddur á Seltjarnarnesi og hafa alist upp á Kjalarnesi. Hann væri 37 ára og því fæddur árið 1728. Arnesi Pálssyni er líst svo í sakamannalýsingu Arnórs Jónssonar sýslumanns Borgfirðinga sem hann birti á Alþingi árið 1756: „…smár vexti, smá-og snareygur með mjóa höku og lítið skarð í, hálsgildur með litla hári vaxna vörtu neðarlega á kinnbeini, gjörnum á að brúka það orðtak: – Karl minn.
Arnes á að hafa brotist inn í Brautarholtskirkju og stolið þaðan 50 ríkisdölum.
Arnes fékk fyrsta dóminn fyrir slæðuþjófnað frá vinnukonu, síðan bættust við sauðir, fiskar o.fl. Úr Brautarholtskirkju rændi hann peningum (krónum og spesíudölum), en þá átti Þorvarður lögréttumaður Einarsson. Faldi Arnes peningapokann (í helli) í Garðahrauni (nálægt Hofstöðum), og sótti í hann þegar með þurfti. Var hann þar undir verndarvæng Þorkels bónda á Hofstöðum, sem seinna komst í bölvun fyrir aðstoðina og var dæmdur til kaghýðingar, brennimerkingar og þrælkunnar ævilangt í Brimarhólmi.
Armes þótti óþýður og grimmur í skapi og fégjarn mjög, grobbinn. Hann hafði stórt ör á kinn eftir klaufhamar. Hann var útilegumaður í 9 ár, en hafði þó athvarf víða á bæjum, t.d. í Borgarfjarðar-, Gullbringu- og Kjósarsýslum. Var hann í “yfirhilmings lausamennsku” eins og sagt var. Var Arnes í vinnumennsku í 3 ár hjá Fjalla-Eyvindi og Höllu þegar þau bjuggu í Hrafnseyri við Arnarfjörð.
Eftir afbrot á Kjalarnesi og Akranesi stakk hann svo af til Vestfjarða en kom þaðan aftur og hafðist við í helli í Akrafjalli og svo í nokkrum kotum þar sem nú er Innri-Akraneshreppur. Á daginn hafðist Arnes við í helli sínum í fjallinu og stundaði hann sauðaþjófnað og stal auk þess af bæjunum í kring. Um nætur hafðist hann hvað mest við á bænum Másstöðum og svo í Móakoti og gerði hann heimilisfólkið að Móakoti meðsekt sér. Fræg er sagan þar sem bændur í grennd við Akrafjall söfnuðu liði til þess að fanga Arnes.
„Var ákveðinn leitardagur og mönnum skipað í leitina, og skyldu allir leitarmenn vera í hvítum sokkum, sem náðu upp á mið læri, og með hvítar húfur á höfði, svo að ekki yrði villzt á Arnesi og þeim. Við fjallsræturnar var skipað ríðandi mönnum með langar ólarsvipur, sem sveifla átti utan um Arnes, ef hann freistaði að hlaupa niður af fjallinu og út á flóana. – Sagt er, að nær áttatíu menn hafi tekið þátt í þessari leit.
En svo sagðist Arnesi sjálfum frá, að hann hefði orðið þess var, er leitin var hafin um morguninn, og séð, hversu leitarmenn voru auðkenndir. Voru góð ráð dýr, er hann sá leitarmenn nálgast. Tók hann það til bragðs, að hann reif sundur ljósleitan skyrtugarm, sem hann átti, og vafði um höfuð sér, fletti sokkunum niður á ökla, en skar upp í buxnaskálmarnar og vöðlaði þær síðan upp á læri og batt að. Laumaðist Arnes síðan í flokk leitarmann og gekk með þeim fjallið um daginn. En þegar leið að því, að niður yrði haldið í byggð, dróst hann aftur úr, en sneri síðan við, er leiti bar á milli hans og byggðarmanna.“
Nóttina eftir kúrði Arnes í klettaskoru og bjó hann sig svo til brottfarar um morguninn. Þá var ferðinni heitið inn í Hvalfjörð, nánar tiltekið Botnsdal. Nokkrir bæir á þessum slóðum eru nefndir til sögunnar sem næturgriðarstaðir Arnesar, s.s. Botn í Botnsdal, Skorhagi í Brynjudal og Brekka og Sjávarhólakot á Kjalarnesi. Nokkuð ævintýralegri dvalarstaður Arnesar er einnig nefndur, en það er hellir nokkur í norðaustur hlíðum Hvalfells. Þar gengur höfði fram í vatnið og heitir þar Arnesarhellir. Segir sagan að í þessum helli hafi Arnes haft vetursetu og eiga að hafa fundist þar bæði rúmbálkur, kambur og leifar gamalla beina.
Eftir þetta flæktist Arnes norður á Strandir, en þar notaði hann dulnefnið Jón Árnason. Þar hitti hann þau Fjalla-Eyvind og Höllu, ásamt útilegumanninum, Abraham Sveinsson. Eftir að hann hafði dvalið með þeim í nokkurn tíma kom upp misklíð í hópnum sem endaði með áflogum og fékk Arnes stórt sár á annan fótinn, að eigin sögn.
Arnes Pálsson komst loks undir mannhendur og var dæmdur í lífstíðarfangelsi á dómþingi á Esjubergi. Einnig var bætt við brennimarksdómi en Arnes slapp við þann dóm. Arnes hafði lag á að hafa hlutina eftir sínu höfði og í tugthúsinu naut hann forréttinda og hafði löngum sína hentisemi. Í tugthúsinu var hann m.a. dyravörður, eins konar verkstjóri hinna fanganna, að ógleymdu því hlutverki sem hann fékk, að fræða samfanga sína um kristindóm. Fyrir þetta fékk hann þóknun og ýmiss fríðindi. Arnes eignaðist þrjú börn í lausaleik á tugthúsárum sínum, en hann sat inni í 26 ár. Hann var þá látinn laus samkvæmt konungsúrskurði og varð síðan niðursetningur og dó árið 1805 í Engey og jarðaður í kirkjugarðinum við Surðurgötu, 86 ára gamall.
Sagan af Arnesi er dæmigerð íslensk útilegumannasaga. Söguhetjan er sveipuð hetjuljóma, sleppur ævintýralega frá leitarmönnum og lifir hættulegu lífi fram á ystu nöf. Sök Arnesar var þjófnaður, og hann var nokkuð stórtækur í þeim efnum. Ekki er neitt minnst á kvennafar hans nema á seinni árum þegar hann var kominn í tugthúsið. Í þeim heimildum sem við lásum um Arnes, er honum ekki lýst sem óþokka og glæpamanni. Þó væri rangt að segja að um hann væri fjallað á hlutlausan hátt, því ekki er laust við að um hann sé fjallað á ofangreindan hátt, þ.e.a.s. sem hugrakka hetju. Fyrr á tímum var fólki oft refsað fyrir þjófnað þó svo að þjófnaður hafi oft verið algjört örþrifaráð fólks. Margir bjuggu við sára fátækt og oft stóð valið á milli þess að svelta heilu hungri eða stela og þurfa þá jafnvel að taka afleiðingunum. Það er hvergi minnst á hag Arnesar áður en hann lagðist út, en að öllum líkindum hefur hann ekki verið upp á marga fiska. Kannski hefur ævi Arnesar Pálssonar ekki verið jafn dramatísk og lýst er í sögubókum. Og þó, það er oft erfitt að greina á milli þjóðsagna, munnmæla og sögulegra heimilda.
Af http://www.fva.is/~isl703/dhs/arnes.html
Heimildir:
-Frásagnir – Árni Óla – 1955
-Kristján Jóhannsson -Innsveitir Hvalfjarðar – Höfundur gefur út Reykjavík 1989
-Borgarfjarðarsýsla sunnan Skarðsheiðar – Jón Helgason -Ferðafélag Íslands – Reykjavík, 1979
-Söguferð – bæ frá bæ um Borgarfjörð – Samantekt efnis: Ingibjörg Bergþórsdóttir
-Ferðamálasamtök Mýra- og Borgarfjarðarsýslu – Reykjavík, 1994