Ingólfsfjall

“Hann reisti fyrstur manna byggð hér á landi að staðaldri; sagt er að Ingólfsfjall í Ölfusi dragi nafn af honum.

Ölfus

Inghóll.

Á því fjalli er sagt að hann sé heygður; eru þar til að sjá af öðrum fjöllum hólar tveir og heitir annar Ingólfshaugur, en í hinum er sagt að hundur hans liggi; sá hóllinn er allur lægri og minni fyrirferðar. Þenna legstað er sagt að Ingólfur hafi kosið sér svo að hann gæti því betur séð þaðan yfir hið fyrsta landnám sitt.
Einu sinni er sagt að Ölfusmenn og Grafningsmenn hafi tekið sig saman um að grafa í Ingólfshaug; komu þeir þá ofan á kistu eina mikla; þeir grófu niður með henni á alla vegu og komu böndum undir hana. Síðan hófu þeir hana á loft og þegar hún var komin á hálfa leið sagði einn þeirra:
“Nú tekst ef guð vill.”

Hóllinn

Inghóll.

Eftir það hófu þeir kistuna enn hærra upp þangað til hún var komin hálf upp á grafarbakkann og þeir voru farnir að hafa hendur á henni, þá sagði annar:
“Nú tekst hvort guð vill eða ekki.”
En í því hann sleppti orðinu slapp kistan úr höndum þeim niður í hauginn og þyrlaðist allt það sem þeir höfðu mokað upp úr gryfjunni ofan í hana aftur á augabragði. Við það hættu þeir að grafa í Ingólfshaug; ekki hafa heldur verið gjörðar fleiri tilraunir til þess síðan.
Önnur sögn er það sem og gengur í Árnessýslu að konu eina þungaða í Ölfusi dreymdi eina nótt að maður kæmi til hennar í svefni og bæði hana að lofa sér að vera. Hún spurði hann að nafni; hann sagðist heita Ingólfur og vera fyrsti landnámsmaður á Íslandi. Ekki er þess getið að þeim færi fleira á milli í það sinn.

Inghóll

Inghóll.

Eftir þetta kom sami maður oft til konunnar meðan hún gekk með þunga sinn og beiddi hana að lofa sér að vera og þess með að hún skyldi láta heita eftir sér son þann sem hún gengi með.
“Skaltu,” segir hann, “ala hann þangað til hann er tólf vetra á sauðaketi einu og nýmjólk, bæði kinda, kúa og einkum kapla; ef þú bregður ekki út af þessu mun ég gefa syni þínum með nafni fé það allt sem er í kistu minni. Skal hann leita hennar uppi hjá haug mínum þegar hann er tólf vetra og mun hann geta lokið henni upp ef ekki er brugðið út af í neinu með uppeldi hans þangað til.”
Konan hét þessu og kom þá Ingólfur ekki til hennar framar.

Hundur

Dys hundsins.

Eftir það ól hún sveinbarn Og lét kalla Ingólf eftir landnámsmanninum sem vitjað hafði nafns til hennar. Ól hún svo upp svein þenna sem næst hún gat komist fyrirsögn draummannsins þangað til hann var 12 vetra; var hann þá bæði mikill og efnilegur eftir aldri.
Hann gekk síðan upp á Ingólfsfjall að leita fjárins. Þegar hann kom að Ingólfshaugi sá hann stóra kistu standa þar og lykil í skránni. Hann fór til og ætlaði að ljúka henni upp, en gat ekki snúið lyklinum nema til hálfs; sneri hann þá heim aftur í það sinn.
HóllinnÞegar hann hafði náð meiri þroska fór hann aftur upp á Ingólfsfjall og að hauginum. En þá var kistan horfin og hefur aldrei orðið vart við hana síðan. En þótt Ingólfur yngri bæri ekki gæfu til að fá féð með nafni er sagt að hann hafi verið í mörgu lánsmaður.”

Stefnan var tekin á þennan hæsta punkt, þar sem sagan segir að landnámsmaðurinn sé heygður sem fjallið heitir eftir. Þar í nánd voru alls kyns ummerki eftir viðkomu mannfólks. Eftir stutta hvíld utan í Inghóli (sem mun raunar vera grágrýtisgígtappi en ekki haugur Ingólfs) var haldið áfram í vesturátt.

Fell

Fjall undir Ingólfsfjalli.

Líklegast er að hundurinn liggi í lítilli dys sem ég fann rétt austan og norðan við Inghól og hefur þá ekki verið meiri um sig en venjulegur hundur.

Landnáma segir frá þriðju vetursetu Ingólfs að Fjallstúni við sunnanvert fjallið, er hann var á vesturleið í leit að öndvegissúlunum. Þar stóð síðar stórbýlið Fjall, sem fór í eyði á 18. öld. Minjar fyrri byggðar þar eru friðlýstar (sjá meira HÉR).
Hinn 29. mai 2008 voru upptök Suðurlandsskjálfa að stærðinni 6,3 á richter kvarða undir Ingólfsfjalli.

-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.