Letur, H.P.P. í Helguvík
Í bókinni „Steinabátar“ fjallar höfundurinn, Sturlaugur Björnsson, um áletrunina H.P.P. á klettavegg ofan Helguvíkur í Keflavík:
„Í gegnum árum hef ég átt ótal ferðir út á Berg, og vitað, að uppi af botni Helguvíkur er greypt fangamark í klettana þar fyrir ofan. Þegar við krakkarnir fórum í leiðangur og fórum þarna um, töldum við að þar stæði H.P.D. Á seinni árum fór ég að velta fyrir mðer, hvers vegna hans Pétur Duus hefði valið þennan stað. leturgerðina og tengingu stafanna má sjá í bryggjuhúsinu, þar eru þeir skrifaðir á þil með svertu, sem notuð var við merkingu á saltfiskpökkum.
Ekki er ólíklegt, að H.P.D. (sonur Péturs Duus og konu hans Ástu Duus) hafi gert sér að leik, á sínum yngri árum, að skrifa fangamark sitt með þessum hætti, þar sem efni til þess var svo nærtækt. En að fara út á berg með hamar og meitil til að klappa fangamark sitt í forboðið land er nokkuð annað.
Það gerðist svo fyrir fáum árum, er ég átti leið þarna um, að ég skoðaði fangamarkið og viti menn, það hefur þá staðið þarna H.P.P.
Fyrir nokkrum mánuðum er ég sem oftar að fletta í bókum Mörtu Valgerðar „Minningar frá Keflavíkur“, og er að skoða meðfylgjandi mynd, sem er sögð „Úr Duus verslun um 1900“. Í textanum með myndinni eru mannanöfn og eitt nafnanna er „Hans P. Pedersen bókhaldari“. Gæti verið um að ræða Hans Petersen, stofnanda ljósmyndavöruverslananna?
Nú veit ég að svo er, H.P.P. var í fóstri hjá yngri Duus hjónunum (H.P.Duus og Kristjönu Duus). Hægt er að hugsa sér Hans P. Petersen á yngri árum, einan á góðum degi með tól sín undir áhrifum þess sem fyrir augu hans hefur borið í bryggjuhúsinu, og grópa fangamark sitt á þessum þá kyrrláta og fallega stað.“
Heimild:
-Steinabátar, Sturlaugur Björnsson, H.P.P, útg. 2000, bls. 96.
Hans P. Petersen 1916-1977. Margir Íslendingar þekkja ljósmyndavöruverslunina Hans Petersen. Stofnandi búðarinnar, Hans Pétur Petersen (1873-1938), byrjaði verslunarferil sinn í Aðalstræti í H.P Duus en þar vann hann í tuttugu ár. Síðast sem forstjóri verslunarinnar í Reykjavík. Hann opnaði eigin verslun í Skólastræti árið 1907 en flutti fljótlega í Bankastræti og fór að höndla með ljósmyndavörur. Hann var umboðsaðili fyrir Kodak ljósmyndavörur. Fyrst höndlaði hann með nýlenduvöru og veiðarfæri og auk þess rak hann kaffibrennslu. Hann var einnig einn stofnenda Skipasmíðastöðvar Reykjavíkur.