Æsustaðastekkur
Í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006“ (Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands) segir m.a. um Æsustaðastekk:
„Vestan við Gleiðaskarð eru einkennilegir móbergsklettar, sem heita Katlar, en niður af þeim á háu melkasti heitir Katlaflöt, og enn neðar, niður á jafnsléttu, er Stekkur (veggjabrot af fornum stekk). Þar sem hann stóð, heitir Stekkjarflöt, og vestan við hana er Stekkjarholt“ (Ólafur Þórðarson). Í sömu heimild segir seinna: „Upp af Lambhúsaholti er klettahögg í fjallinu, sem heitir Nípa, utan í henni er gamall fjárslóði austur fyrir fjallið, neðar er Stekkjargata“ (Ólafur Þórðarson).
Stekkurinn er um 300 m í A-SA frá Æsustöðum og um 40-50 m ofan við (norðan við) veg sem hitaveitan lagði. Aflíðandi grasgeiri milli tveggja lágra hóla, hallar til N-NA. Gamall lækjarvegur rétt A við rústirnar. Aflíðandinn er framhald á NA hlíðum Æsustaðafjalls.
A: Stekkur. Að mestu hlaðinn úr grjóti. Stærð; um 9 m langur og 5 m breiður. Veggjahæð víðast um 40-50 cm. Liggur í N-S. Vestri langveggurinn styðst við brekkubrúnina, sem stekkurinn er byggður
meðfram. Hefur verið nægilegt að hlaða innri brún þessa veggjar og fyllt svo upp í milli hans og brekkunnar. Inngangurinn er á miðjum N gafli. Stekknum er skipt í þrjú aðalhólf. Því innsta er svo skipt í tvennt. Suðurveggurinn (bakendinn) er að mestu úr torfi en með undirstöðu úr grjóti. Er rúst þessi allheilleg að sjá.
B: Einföld steinaröð sunnan við stekkinn, aftan við bakendann og myndar ásamt honum einskonar kró. Einungis er um eina steinahæð að ræða. Hlutverk óvíst.
C: Um 4-5 m austan við stekkinn sér fremur óljóst móta fyrir ferningslaga rúst. Liggur hún nokkurn veginn í A-V og er um 5 x 5 að stærð að innanmáli. Veggjaleifarnar eru mjög grónar og er hæð þeirra, þar sem hún er hæst, um 20-30 cm en lítið eitt hærri þó að norðanverðu.
E og D: Við hlið C, að norðanverðu, mótar fyrir útlínum tófta en svo ógreinilegar eru þær að erfitt er að sjá lögunina. E er næstum samsíða C. Hún gæti verið svipuð að stærð og C. D er um 3-4 m norðan C. Virðist þetta vera minnsta tóftin. Í henni miðri er hola, 40 cm djúp eða svo. Hlíf Gunnarsdóttir, húsfrú, Æsustöðum, segir að lambakró eða kofi hafi staðið þar sem C, D og E eru. Hefur hún það eftir Þórði tengdaföður sínum sem bjó á Æsustöðum.
Telur skrásetjari að C, D og E gætu e.t.v. hafa verið þrjú lítil hús, samsíða að mestu, er sneru framgöflum í SV-V. Ólíklegt er að lambakró eða kofi hafi verið jafnstór og C.
Af C, D, og E kemur D líklegast til greina sem lambakofi við fráfærur. Hlíf segir að hætt hafi verið að nota stekki um 1925.
B, C, D og E standa á lágri upphækkun, sem kalla mætti hól, e.t.v. rústahól. Rústahóll er réttnefnið á svæði því sem áðurtaldar tóftir standa á. – Leifar af girðingu eru ofan á V-brún stekkjarins. Sést að svæði þetta hefur allt verið afgirt og líklegast notað sem tún. Um 50-60 m austur af rústunum er túnblettur eða hæð, sem kallast Gunnubarð, skv. frásögn Hlífar Gunnarsdóttur á Æsustöðum. „Gunna stóra“, sem Laxnes segir frá í Innansveitarkróníku sinni, hafði blett þennan til afnota til að heyja handa reiðhesti sínum.
Framan við vesturlangvegg A-stekkjarins er garður. Hann er framhald þessa veggjar. Hefur verið hlaðinn til að stoppa féð af við innrekstur (Ágúst Ó. Georgsson).
Hætt var að nota stekkinn um 1925. Fært frá í honum (Hlíf Gunnarsdóttir, Æsustöðum , viðtal 21.7. 1980, Ágúst Ó. Georgsson tók).
Í athugasemdum og viðbótum við Örnefnalýsingu er haft eftir Ólafi Þórðarsyni (f. 22. janúar 1904): „Þar sem Stekkur var, markar enn fyrir grjóthleðslu. Ólafur man vel eftir fráfærum; hann telur, að hætt hafi verið að færa frá einhvern tíma á árunum 1910-1915“.
Heimildir:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006 – Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands, bls. 213.
-Ágúst Ó. Georgsson. Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbækur Þjóðminjasafnsins.
-Ólafur Þórðarson. Örnefnalýsing Æsustaða. Örnefnastofnun Íslands 1968. Ólafur Þórðarson. Athugasemdir og viðbætur við Örnefnalýsingu Æsustaða. Örnefnastofnun Íslands 1983.