Álfsnes – hóll og laug

Álfsnes

Bærinn Álfsnes er á Álfsnesi á Kjalarnesi. Í örnefnaskrám er m.a getið um gamlan bæjarhól, svonefndan Hulduhól (Hólinn) neðan við bæjarhúsin og laug (vatnsstæði) ofan þeirra.

Álfsnes

Álfsnes – Hulduhóll.

„Hulduhóll var 20 – 30 m frá bænum í suðaustur. Hann var stór um sig, stórþýfður og ávalur á alla kanta. Í honum var talið huldufólk, og sá B.[irgir] K.[ristjánsson] eitt sinn huldukonu þar í grennd.“ (Ö.Ál.3). „Hulduhóll var kallaður Hóllinn í daglegu tali. Þetta var aflangur hóll, og hallaði aðeins af honum niður á túnið.“ (Ö.Ál.2).
Hulduhóll er stór hóll suðaustur af bænum, gæti verið gamall bæjarhóll. Munnmæli herma að „Í Hólnum í Álfsneslandi var talið að huldufólk byggi“.

Álfsnes

Álfsnes – laug/brunnur/vatnssstæði.

Í „Fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi“ frá árinu 2008 segir um Hulduhól: „Í túni Álfsness í aflíðandi grasi grónni brekku um 20
m SA af íbúðarhúsunum er álfhóll, um 2 m á hæð, mjög vel grasi gróinn“.

Í óútgefinni „Fornleifaskráningu á Álfsnesi og Glóru“ árið 2006 segir: „„Staðhættir og lýsing: Ferhyrnd laug sem er með þrjár hliðar steyptar en eina hlaðna. Norðvesturhliðin er með stórgrýti með steinhleðslum neðst og er 3 m löng.

Álfsnes

Álfsnes – tóft við „laugina“.

Aðrar hliðar laugarinnar eru 2 m langar. Laugin er ca. 1 m að dýpt, hún er full af vatni ásamt svolitlum gróðri. Ástand: Hleðslur standa. Hættumat: Hætta vegna nærliggjandi iðnaðar. Aldur: 1900+ þó að hlaðni hluti laugarinnar gæti verið eldri“.
Skammt norðaustan „laugarinnar“ er ferhyrnd tóft. Á túnakorti frá 1916 er hún í jaðri norðurtúngarðs Álfsness.
Með því að bera tóftina á túnakortinu, auk hliðastæðrar tóftar við vesturtúngarðinn, má augljóslega bera kortið saman við nýlega loftmynd af bæjarstæðinu.

Heimildir:
-Athugasemdir Þórðar S. Kristjánssonar við örnefnaskrá. (Ö.Ál.2).
-Athugasemdir Birgis Kristjánssonar við örnefnaskrá. (Ö.Ál.3).
-Fornleifaskráning á Álfsnesi og Glóru, 2006. Óútgefin skýrsla. Gögn Minjasafns Reykjavíkur.
-Fornleifaskráning vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi í Reykjavík, 2008.

Álfsnes

Álfsnes