Bakki – Litlibær – Bjarg
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“, árið 2011 er fjallað um jörðina Bakka (Litlabæ og Bjarg). Þar segir m.a.:
Bakki
1703 var jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. Bakkakrókur eyðihjáleiga 1703. [1379]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI III 340) [1477]: Kirkjan á Kálfatjörn á jarðirnar Bakka og Flekkuvík. (DI VI, 124). Bjarg var tómthús frá Kálfatjörn en fór í eyði 1934 og sameinaðist Bakka. Litlibær var tómthús í upphafi (fyrir 1884), en síðar grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. (GJ: Mannlíf og mannvirki, 333-340). Bakki (nýi) fór í eyði árið 1963 (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 10). „Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn út í sjó út, annar Bakki er rústir á sjávarkambinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni“ (GJ:Mannlíf og mannvirki, 337). „Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn“ (ÁÓ: Strönd og Vogar, 183).
1703: „Túnin fordjarfast af sands og sjáfarágángi árlega meir og meir, og þarf ábúandinn með kostnaði og ómaki sandinn af að moka og burt að færa. Engjar eru ongvar. Útihagar lakir um sumar, um vetur nær öngvir, nema fjaran.“ JÁM III, 146. 1919: Tún 1,5 teigar, 760m2. „Norðan eða innan Móakots og Kotagirðingar, þar sem nú eru býlin Bakki og Litlibær ásamt því landi öðru, sem innan Heiðargarðs er frá Móakotsmörkum, var um langan aldur kúabeit frá Kálfatjörn, kölluð Kálfatjarnargirðingar. En þetta hafa áður verið tún og beitarland Bakka hins forna býlis, er þar var, en lagðist í eyði vegna sjávarágangs og lagðist þá undir Kálfatjörn“ (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 9). Eftir að bærinn á Bakka var síðast fluttur vegna sjávarágangs árið 1904 fékk ábúandi smám saman útmælt land og ræktaði tún allt frá sjó að Heiðargarði (Ö-Kálfatjarnarhverfi, 10).
Óljóst er hversu mikið land hefur upphaflega tilheyrt jörðinni Bakka. Í örnefnaskrá Kálfatjarnar (4) segir að Kálfatjörn tilheyri „innangarðs allt hið forna Bakkaland að svo miklu leyti, sem það hefur ekki verið selt á leigu og erfðafestu handa Bakka (Nýja), Bjargi og Litlabæ.“ Líklegt er að Bakka hafi að fornu a.m.k. tilheyrt land frá Bakkarkóki að túnmörkum Nýja-Bakka á móti Kálfatjörn. Einnig eru líkur til þess að jörðin hafi átt land áfram upp í heiðina eins og flestir aðrir bæir á ströndinni.
„Niður við sjó eru varir nefndar Bakkavarir verstu lendingar á allri ströndinni, þar oft brim og ólendandi, þar innaf eru tóftir eftir kot sem hét Bakki er svo var flutt undan sjó þar sem nú er bærinn við sjóinn,“ segir í örnefnaskrá Bakka, Móakots og Bjargs. „Á Gamla-Bakka mun þó fljótlega hafa verið tekin upp búseta á ný, en þá líklega sem tómthús. En víst er um það, að á ofanverðri 19. öld var myndarlega húsað á Bakka. Þar var loftbaðstofa og einnig voru þar allstórir kálgarðar og túnblettir. Gamli-Bakki, en svo eru rústirnar kallaðar, stóð á sjávarbakkanum nokkuð miðsvæðis, upp af Bakkatöngum […]. Nálægt síðustu aldamótum var sjór farin að brjóta svo nálægt bænum, að ekki þótti annað fært en flytja hann frá sjónum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Bakki var grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn í sjó út, annar Bakki er rústir af sjávarkampinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.“
Gamli-Bakki er 200 m suðaustan við núverandi bæjarstæði Bakka. Á túnakorti má sjá ýmis garðlög, hús og húsaleifar þar sem Gamli-Bakki stóð. Suðvestan við gamla bæjarstæðið var ræktað út tún eftir að bærinn var fluttur árið 1904 og tilheyrði það tún Bjargi. Gamli-Bakki er fast norðvestan við Bakkatjörn. Sumt af því sem er á túnakortinu er horfið vegna ágangs sjávar og vegna fjörugrjóts sem borist hefur upp á bakkann og hylur e.t.v. sumar minjarnar.
Gamli-Bakki stendur fram á sjávarbakka. Í fjörunni til norðurs og norðvesturs er klapparfjara en sunnan við hann er Bakkatjörn. Grasi gróið er allt í kringum minjarnar og grýtt.
Kirkja
Í bók Árna Óla, Strönd og vogar, segir: „Sagnir eru um, að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka er þá stóð fram við sjóinn. En vegna landbrots af sjávargangi hafi hún verið flutt að Kálfatjörn. En þar sem Bakki stóð áður sé nú grængolandi sjór. […] Aðfaranótt 3. febrúar 1779 gerði mikið sjávarflóð og skemmdist Bakki þá svo að hann var í eyði það ár, en grasbýli sem hét Naustakot tók alveg af.“ Ef kirkja hefur verið á Bakka er líklegt að hún hafi staðið þar sem elsta þekkta bæjarstæðið var en það er nú komið út á sjó og löngu horfið og því ólíklegt að nokkrar leifar kirkju eða krikjugarðs kunni að koma í leitirnar héðan í frá, nema að kirkjan hafi fylgt bænum eftir að hann var fluttur á bæjarstæði en engar sagnir eru um slíkt. Ennfremur er erfitt að fullyrða nokkuð um að kirkja hafi verið á Bakka þar sem engar fornar heimildir eru til um hana.
Gamli-Bakki
„Niður við sjó eru varir nefndar Bakkavarir verstu lendingar á allri ströndinni, þar oft brim og ólendandi, þar innaf eru tóftir eftir kot sem hét Bakki er svo var flutt undan sjó þar sem nú er bærinn við sjóinn,“ segir í örnefnaskrá Bakka, Móakots og Bjargs. „Á Gamla-Bakka mun þó fljótlega hafa verið tekin upp búseta á ný, en þá líklega sem tómthús. En víst er um það, að á ofanverðri 19. öld var myndarlega húsað á Bakka. Þar var loftbaðstofa og einnig voru þar allstórir kálgarðar og túnblettir. Gamli-Bakki, en svo eru rústirnar kallaðar, stóð á sjávarbakkanum nokkuð miðsvæðis, upp af Bakkatöngum […] Nálægt síðustu aldamótum var sjór farinn að brjóta svo nálægt bænum, að ekki þótti annað fært en flytja hann frá sjónum,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Bakki var grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar.
Fyrsti Bakki er kominn í sjó út, annar Bakki er rústir af sjávarkampinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þurfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.“ Á sama stað kemur fram að bærinn var byggður fyrir 1850. Þar var tómthús fram til 1900 en þá var ræktað þar upp. Núverandi bæjarstæði Bakka er um 200 m suðaustan við Gamla-Bakka.
Íbúðarhúsið á Bakka og útihús standa í sléttum túnbletti og lítill garður er í kringum húsið. Ekki eru nein merki um bæjarhól á núverandi bæjarstæði Bakka eða uppsöfnun mannvistarleifa. Íbúðarhúsið er bárujárnsklætt timburhús frá 1904 og sambyggt því er steypt yngra hús, heldur minna, óvíst er hvenær það var reist. Bæði húsin eru með ris undir súð og kvistur er til suðvesturs á risi bárujárnshússins. Saman eru húsin um 9×5 m að stærð, snúa suðvestur-norðaustur en eldra húsið er um 5×5 m og það yngra 4×5 m að stærð. Um 4 m eru upp í mæni á yngra húsinu en um 5 m á því eldra. Dyr eru á miðri norðausturhlið yngra hússins og á norðvesturgafli þess. Ekki eru dyr á eldra húsi nema inn í það yngra á norðausturvegg. Ekki er að sjá eldri byggingaleifar á hlaðinu. Um 6 m vestan við íbúðarhús er bárujárnsklætt útihús með þrjár burstir, það er um 16×11 m að stærð fyrir utan lítið gróðurhús sem byggt hefur verið við suðvesturenda þess. Húsið snýr norðaustur-suðvestur.
Bakki (elsta bæjarstæði)
„Það mun rétt vera að núverandi Bakki sé þriðji bústaðurinn sem vitað er um þar. Fyrsti Bakki er kominn út í sjó, annar Bakki er rústir á sjávarkambinum, en sá þriðji var byggður svo langt frá sjó að ekki mun þarfa að hopa með hann fyrir ágangi sjávar á næstunni.“
Ekki sést til fornleifa.
Naustin
„Bakkavarir voru hér við Bakkakampinn en eftir honum lá Bakka-Sjávargarðurinn, Bakka-Naust og Bakka-Skiparétt,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar.
„Um 80 m sunnan við rústir Gamla-Bakka er Bakkavör ásamt skiparétt og sjávarhúsum. Í Bakkavör eiga einnig Litlibær, Móakot, Fjósakot og Hátún uppsátur.
Örstutt upp frá Naustunum var býlið Bjarg […],“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru ýmis mannvirki niður við sjó, um 150 m norðvestan við Bakka og 60 m SSV við Gamla-Bakka. Þau eru skráð hér sem ein minjaheild auk annarra minja sem eru á svæðinu en ekki eru á túnakorti.
Bakkavör
Vörin er milli tveggja klappa, um 5×5 m að innanmáli. Upp af vörinni er slétt klöpp og á henni nokkuð af lausu fjörugrjóti. Ekki er ljóst hvort vörin er alveg náttúruleg eða mannaverk. Þó má vel sjá merki þess að vörin hafi verið rudd, auk þess sjá má járnkengi í klöpp ofan hennar.
Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls var árið 1703 heimræði og ágæt lending á Bakka. „Niður við sjó eru varir nefndar Bakkavarir verstu lendingar á allri ströndinni, þar oft brim og ólendandi, þar innaf eru tóftir eftir kot sem hét Bakki er svo var flutt undan sjó þar sem nú er bærinn við sjóinn,“ segir í örnefnaskrá Bakka, Móakots og Bjargs. „Um 80 m sunnan við rústir Gamla-Bakka er Bakkavör ásamt skiparétt og sjávarhúsum. Í Bakkavör eiga einnig Litlibær, Móakot, Fjósakot og Hátún uppsátur,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Bakkavör er um 85 m suðvestan við Gamla-Bakka. Vörin er í stórgrýttri klapparfjöru. Ofan við vörina til suðausturs eru hlaðnir steinveggir og steypt hús undir bárujárnsþaki.
Bakkakrókur
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Backakrokur, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið yfir fjörutíu ár. […] Nú brúkar ábúandinn grasnytina, og má ei að skaðlausu missa.“ „Til suðurs með sjónum, stuttan spöl, var garður hlaðinn frá Garðsendanum [enda Heiðargarðs og síðan þvert út fjöruna í stóra og háa klöpp, er Garðsendaklöpp nefnist.
Þarna í girðingakróknum eru rústir bæjar er Krókur nefndist eða Bakkakrókur. Þarna hafa húsakynni verið lítil, máski upphaflega sjóbúð. Bakkakrókur fór í eyði 1660,“ segir í örnefnaskrá. Bakkakrókur er 300 m austan við Gamla-Bakka og 10 m vestan við norðurenda Heiðargarðs. Tóftin er í túni umkringdu hrauni og mólendi. Grýtt fjara með svörtum klöppum og ljósum skeljasandi er skammt frá.
Nú sést aðeins ein tóft á þessum stað.
Litlabær
„Litlibær stóð í Litlabæjartúni eða Litlubæjarlóð. Þar var rétt hjá Litlabæjartjörn,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Litlibær var tómthús í upphafi, en síðar grasbýli frá kirkjujörðinni Kálfatjörn. […] Helgi byggði upp Litlabæ úr torfbæ í timburhús árið 1906.“ Þar kemur einnig fram að býlið hafi verið byggt fyrir 1884. Húsið sem stendur nú var byggt 1934 og notað sem sumarbústaður.
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Kálfatjörn, örnefnalýsing – Ari Gíslason skráði.
-Kálfatjörn, örnefnalýsing – Gísli Sigurðsson skráði.
-„Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi – Svæðisskráning“ eftir Svandísi Gunnarsdóttur.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar um Kálfatjörn og kot þess, skráð eftir Ólafi Erlendssyni og Gunnari Erlendssyni 18.11.1976.
-Oddgeir Arnarsson – Örnefni í Kálfatjarnarhverfi og Flekkuvík í Vatnsleystrandarhreppi, ritgerð 1998.
-Guðmundur Björgvin Jónsson, Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd.