Borgarkot – refagildra – marhálmur
Þegar gengið var um Borgarkot á Vatnsleysuströnd birtist m.a. enn ein hlaðna refagildran frá því fyrr á tímum, æði heilleg.
Að vísu hafði FERLIR fundið aðra slíka skamt ofar í heiðinni, en láðst að færa hana í þar til gerða skrá um fornminjar á Reykjanesskaga. Úr því hefur verið bætt. Í ferðinni var gengið fram á áður óséð vatnsstæði ofan við Réttartanga, sem ekki er getið í heimildum. Í vatnsstæðinu vex bæði hin hvítasta og þéttbýlasta fífa er sést hefur sem og lófótur, öður nafni marhálmur. Marhálmur er mikilvæg fæða fyrir ýmsa fugla af andaætt, einkum margæs og álft. Hann er einnig þýðingarmikill sem búsvæði fyrir þörunga og hryggleysingja og bindur saman leir- og sandbotn, líkt og melgras gerir á þurru landi. Áður fyrr var búfénaði beitt á marhálm þegar heyfengur var rýr. Þá var hann nýttur sem stopp í sængur og dýnur fyrr á öldum.
Þegar gengið er frá ofanverðum Bakka inn í Borgarkotslandið verður fyrst fyrir gamla kirkjugatan að Kálfatjörn. Hún sést enn greinilega allt þar til komið er inn á tjanarsvæði ofan við Nausthólsvík.
„Frá Gamla-Bakkarústum sveigist ströndin miklu meira til austurs en áður inn að Garðsendaklöpp. Innan (norðan) við klöppina skerst inn lítil vík, Nausthólsvík. Norðan hennar og gegnt Garðsendaklöpp er stór og hár hóll, er Nausthóll heitir, nú laus við land. Sagt er, að héðan hafi fyrr meir verið verstöð frá Krýsuvík og jafnvel Skálholti, en engan sér þess nú staðinn. Örskammt innan við Nausthól (60-80 m) eru sléttar klappir á kampi og grónir balar. Þar heitir Litli-Nausthóll; upp frá honum um 100 m, eru fjárhústóftir, Helgahús, nefnd eftir þeim er lét reisa þau, Helga kenndan við Tungu í Reykjavík, Þau voru reist um 1920.
Skammt austan fjárhústóftanna (um 60-70) er Kálfatjarnar-vatnsstæði. Það er allstórt, um 100 ferm., en grunnt. Þar þrýtur ekki vatn nema í almestu þurrkasumrum. Nokkru sunnar með sjónum eru Réttir, dálítið nef allgróið. Efst á því eru tveir hólar, litlir um sig, en algrónir, Réttarhólar. Fram af Réttum eru Réttartangar og Réttarhnífill þar fram af. Líklegt telur Ólafur [Erlendsson], að réttir hafi áður verið á Réttartanga, en þess sér nú engan stað utan hvað garðlag er þvert yfir tangann framarlega. Gæti það hafa verið aðhald fyrir skepnur og hafa þá réttirnar staðið framar, en þar hefur sjór brotið landið.“ Reyndar er réttin enn til, bæði heilleg og fallega hlaðinn efst í Réttartöngum. Erfitt er þó að koma auga á hana því hún kúrir undir lágu holti.
„Inn með sjónum frá Réttum er allbreiður bakki, er Breiðafit nefnist. Nær hún að Borgarkotstúni. Ofan við Breiðufit miðja eru 2 hólar allstórir hver upp af öðrum og grónir nokkuð upp. Norðan undir þeim, sem nær er bakkanum, er lítið vatnsstæði, það heitir Vatnssteinar. U.þ.b. 30 m norðvestur af Vatnssteinum sést smá rúst. Þar heitir Skothús. Veggir þess stóðu vel fyrst þegar Ólafur man eftir. Í Skothúsinu var legið bæði fyrir tófu og sjófugli. Skothúsið hefur líklega verið byggt um miðja 19. öld. Innan við Breiðufit tekur við Borgarkotstún, dálítill túnblettur, mestur á lengdina, meðfram sjónum, illþýft og hólótt. Bæjarrústirnar í Borgarkoti eru nálægt miðju túni á bakkanum; brýtur sjór nú framan af þeim. Einnig rótar sjór nú í seinni tíð mjög miklu grjóti upp á bakkann eins og reyndar allsstaðar á Vatnsleysuströnd sunnan Keilisness. Borgarkot mun hafa farið í eyði á 18. öld.
Tildrög þess eru sögð þau, að eitt sinn er Flekkuvíkurbóndi fór til kirkju á aðfangadagskvöld, kom hann að bóndanum í Borgarkoti, þar sem hann var að skera sauð frá honum. Varð það til þess að koma honum undir mannahendur og lagðist býlið í eyði eftir það.“
Hér er hlaupið yfir a.m.k. þrennt; stórmerkilega stórgripagirðingu, sem enn sést ofan Borgarkots, rúningsrétt undir lágum ílöngum klapparhól og stóra vatnsstæðiðið, sem fyrr er nefnt. Í því vex bæði fífa og lófótur (marhálmur). Suðaustan við vatnsstæðið eru grónar hleðslur, líklegt aðhald eða nátthagi. Marhálmur er eina blómstrandi háplantan sem vex að öllu leyti í sjó við Ísland.
Plantan getur orðið allt að 1 m á lengd. Marhálmur er grastegund sem vex í sjó, er oftast 30 til 70 cm á lengd en getur orðið meira en einn metri. Ofan í botnleirnum vaxa jarðlægir stönglar og upp af þeim blaðþyrpingar með reglulegu millibili. Blöðin eru löng og bandlaga og bogadregin fyrir endann. Þau eru 2 til 4 mm á breidd og með einum til þremur æðastrengjum. Blöð marhálms eru dökkgræn á litinn en jarðlægu stönglarnir eru hvítir eða ljósgrænir. Marhálmur er fjölær, vex aðallega á vorin og blómgast um mitt sumar. Fræaxið er í fræhulstri á hulsturblaði sem lítur að öðru leyti eins út og laufblöðin. Marhálmur missir megnið af blöðunum í byrjun vetrar en ný blöð fara að vaxa aftur upp af jarðstönglunum snemma vors. Talið er að marhálmur geti lifað í meira en 50 ár.
Fífan hvíta hefur löngum fangað auga náttúruunnenda. Þegar litið er yfir þær plöntutegundir, sem lagðar voru til grundvallar vali Íslendinga á þjóðarblómi eða plöntu kom fífan sterklega til greina; hana þekkja flestir, hún er sérstök, stílhrein, sterk í formi og myndrænt séð kjörin sem táknmynd; „eitthvað villt og gróft, sem er svo lýsandi fyrir Ísland“.
Fífa er mjög áberandi planta, ekki síst aldinið, sem má telja eitt fegursta djásn íslenskrar náttúru og skrýðir landið lengur en nokkur önnur plantna, eða frá sólstöðum þar til ullin fýkur burt með haustvindum. Þá skreytir fífa öðrum plöntum fremur jafnt hálendi sem láglendi og hefur í aldanna rás stuðlað að jarðvegsfestu, umfram flestar aðrar plöntur landsins: með þéttriðnu rótarkerfi árþúsunda og rotnandi leifum hennar í raklendi hefur aldrei heyrst getið um landrof í fífuflóa; þannig skapar fífa „táknræna samstöðu um gróðurvernd“.
Hve einkennandi fífa er fyrir landið sést best á því hvílíka eftirtekt hún vekur meðal erlendra ferðamanna, en hún er fyrsta og að jafnaði eina plantan sem þeir spyrja hver sé, strax á fyrsta degi ferðar um landið; hún er m.ö.o. flestum erlendum ferðamönnum framandi og þar með eitt af sérkennum landsins; hennar gætir vart annars staðar á byggðu bóli í vestrænni veröld utan nyrstu og strjálustu byggða norðurhvelsins; auk þess er fífa enn þann dag í dag sú íslenska planta sem hve mest er safnað til þurrkunar og híbýlaprýði á vetrum, e.t.v. ómeðvitað sem einskonar minni um birtu og gróanda sumarsins.
Fífan var undirstaða íslensks þjóðlífs í aldanna rás, en í u.þ.b. 1.000 ár af sögu landsins brann á kveikjum hennar svo og stönglum sbr.: „Ljósið kemur langt og mjótt, logar á fífustöngum…“, það eina ljós er birtu bar í drungalegar vistaverur genginna kynslóða; þar með gerði hún íslenskri þjóð kleift að vinna, lesa og skrifa á löngum og dimmum vetrarkvöldum; fífa er þannig undirstaða andlegrar jafnt sem verklegrar menningar landsins og um leið tákn ljóssins í tvöföldum skilningi þar eð hún skrýðir landið einnig umfram aðrar plöntur í nóttlausri voraldarveröld íslensks sumars.
„Rétt norðan við túnið í Borgarkoti, á bakkanum, er hlaðinn garður í kross, nefndur Skjólgarður. Þessir garðar voru hlaðnir svona til þess að fé hefði þar skjól í öllum veðrum, hvaðan sem blés. Þarna eru og gerði eða réttir. Allar þessar hleðslur eru mjög ósjálegar, sumar sokknar í jörð að mestu, aðrar sundurtættar af minkaveiðimönnum. Norðan við Skjólgarðinn mun Borgarkotsvör hafa setið. Þess sér nú lítil merki. Frá Borgarkoti inn að Neskletti er nokkur spölur. Þar heitir Keilisnes. Nesklettur er klettarani, sem gengur í sjó fremst á Keilisnesi. Í honum er svolítið skarfakál. Þar á bakkanum, miðsvæðis, er hringlaga tóft um 4 m að þvermáli. í hana er hlaðinn þverveggur. Kallast hún Þjófabyrgi. Því hefur nú verið umturnað af minkaveiðimönnum.“
Hér hefur refagildran góða, lík vörðu á lágum grónum klapparhól, gleymst. Þegar að var komið virtist vera um einfalda vörðu að ræða, en glöggt augað gaf þegar til kynna að þarna myndi varða vera óþörf; mannvirkið varð því áhugaverðara fyrir bragðið. Við nánari skoðun komu í ljós tvær fallhellur austan og vestan í „vörðunni“. Þegar þær höfðu verið fjarlægðar birtist inngangur í refagildru. Gildra þessi hefur fengið að vera í friði af a.m.k. tveimur ástæðum; í fyrsta lagi hafa menn almennt talið að þarna hafi bara og eigi að vera varða á hól og í öðru lagi sáust engin ummerki um að þarna hafi verið refagildra, fyrr en við nákvæmari skoðun. Þessi gildra bætist við a.m.k. þrjár aðrar í landi Borgarkots. Hún var skráð nr. 41 í landnámi Ingólfs, en með skráningu hinna tveggja eru refagildrunar í raun orðnar 43 talsins. Önnur er nokkur ofar í heiðinni, heilleg og með greinileg op, en hin er við fyrrnefnt vatnsstæði. Henni hefur verið raskað verulega. Þá má sjá leifar af enn einni refagildrunni skammt sunnar, utan í lágu klapparholti (44).
Sjá meira um Borgarkot HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 3. klst og 3 mín.