Borgarkot – vatnsstæði
Borgarkot er á Vatnsleysuströnd austan Litlabæjar og Bakka, milli Réttartanga og Keilisness. Tóftir kotsins eru á sjávarbakkanum, en sjórinn er smám saman að brjóta þær niður. Hlaðinn vörslugarður, jarðlægur, er landmegin við tóftirnar. Gerði er við hann austanverðan.
Austan við tóftirnar er stór hlaðinn krossgarður, sem minkaveiðimenn hafa rutt um koll, en þarna með ströndinni má víða sjá götur eftir minkinn. Hlaðið gerði (rétt eða nátthagi) er suðvestan við tóftirnar. Vestan við það er vatnsstæði. Í örnefnalýsingu er það nefnt Vatnssteinar, en kunnugir nefna það Vaðsteina. Í því þrýtur sjaldan vatn. Eftir Breiðufit er röð stöpla (steina) stórgripagirðingar er liggja frá Litlabæ að landamörkum Flekkuvíkur, beygir til norðurs skammt vestan Hermannavörðu og endar niður við sjávarbakkann. Í hverjum steini eru tveir trétappar. Ofan við girðinguna er hlaðin refagildra. Önnur slík er innan girðingarinnar nokkru vestar.
Borgarkot var, líkt og svo margar jarðir á norðanverðu Reykjanesinu, eign Viðeyjarklausturs og gerð út þaðan.
Á tímabilinu 1200-1750 voru misjafnlega stöndug býli dreifð um landsvæðið þar sem nú er Reykjavíkurborg. Bændur á höfuðbólinu Vík (Reykjavík) stunduðu hefðbundinn búskap og reru til fiskjar. Framan af tímabilinu er fátt skrifað um Víkurbændur en í heimildum frá síðmiðöldum kemur fram að þar hafi jafnan búið heldri bændur, hreppstjórar og lögréttumenn, þó að ekki teldist býlið til helstu höfðingjasetra. Víkurkirkja stóð, gegnt bæjarhúsum, þar sem nú er Bæjarfógetagarður við Aðalstræti. Kirkja mun hafa staðið í Vík a.m.k. frá því um 1200, sennilega miklu fyrr.
Að síðasta sjálfseignarbóndanum í Vík látnum, snemma á 17. öld, var jörðin keypt undir konung en þungamiðja valds og verslunar hafði þá smám saman færst að sunnanverðum Faxaflóa. Kirkja og konungsvald höfðu eignast þar margar jarðir en Bessastaðir urðu aðsetur hirðstjóra konungs árið 1346.
Klaustur af Ágústínusarreglu var stofnað í Viðey árið 1226 og átti það eftir að vaxa og dafna að veraldlegum auði næstu aldir og verða eitt ríkasta klaustur landsins. Klausturkirkjan var helguð Maríu mey og sungu Viðeyjarmunkar þar tíðir sínar dag hvern. Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur. Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins.
Eftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs. Eftir það var rekið bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikrahæli í Viðey.
Fornleifauppgröftur fór fram í Viðey á árunum 1987-1995 á vegum Árbæjarsafns – Minjasafns Reykjavíkur og fundust við hann margar merkar minjar, ekki síst frá klausturtímanum.
Heimild m.a.:
-nat.is