Brennisteinsfjöll – aðkoma
Nafnið Brennisteinsfjöll er tiltölulega ungt eða frá því á 18. öld. Áður var hryggurinn, sem myndar þau, nefndur Fjallaháls og jafnvel fleiri nöfnum. Hann er myndaður á sprungurein (oft talað um Brennisteinsfjallareinina) líkt og Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) undir jökli að hluta, en síðan gosið víða eftir honum á nútíma eins og sjá má hinum mörgu eldborgum og gígum. Kistufellsgígurinn er sá stærsti. Miklar hrauntraðir liggja frá gígunum og víða eru langar rásir undir hlaunhellunni. Vitað er að gos varð í Kistu árið 1000, en síðast er talið að hafi gosið í Brennisteinsfjöllum um 1340 Draugahlíðagígs- / Stakkavíkurhraunið).
Aðkoman að Brennisteinsfjöllum fer eftir því hvað á að skoða hverju sinni. Ef fara á beint að „kjarnanum“ miðsvæðis til að skoða vestursvæðið er best að ganga upp úr Fagradal með beina stefnu á Kistu, sem er á milli Eldborgar í suðri og Kistufells í norðri. Gangan þangað tekur u.þ.b. 3 klst með stoppi. Leiðin upp eftir er um slétta hraunbreiðu.
Ef halda á í Brennisteinsnámurnar austur undir Kistufelli (sunnan Draugahlíða) er styst að fara um Kerlingarskarð, beygja suður með vestanverðum Draugahlíðum og til austurs sunnan þeirra. Lítið vatn í gíg er við leiðina. Vel er gróið ofan við námurnar. Þar er tóft af húsi námumanna og lækur. Þessi leið er greiðfær. einnig er hægt að fara upp Kerlingargil með beina stefnu á Kistufell og ganga síðan vinstra megin niður með því – í námurnar.
Ef skoða á Vörðufellsborgir í sunnanverðum Fjöllunum er farið upp frá Lyngskyldi innan við Sýslustein, um Fálkagilsskarð í Herdísarvíkurfjalli eða upp frá Gullbringu austan við Kleifarvatn. Allar þessar leiðir eru nokkuð greiðfærar. Eldborgir Vörðufells eru sjón að sjá.
Ef skoða á austanverð Fjöllin er styst að fara upp Nátthagaskarð eða Mosaskarð á Herdísarvíkurfjalli. Þegar komið er upp á brún liggja gamlar götur upp í gegnum hraunin, inn á óbrennishólma og áfram upp eftir. Leiðir eru tiltölulega greiðar, en betra að hafa kunnugan með í för til að spara tíma.
Þá er hægt að ganga í norðanverð Brennisteinsfjöll frá Bláfjöllum, en þá þarf ekki að fást við hæðamismun strax í upphafi ferðar. Hæðin á brúnum er jafnan nálægt 300 m.y.s. Hæsta fjallið er Hvyrfill (621), þá Kistufell (602), Eldborg (570) og Vörðufell (524). Reyndar er Eldborgin sjálf (drottningin) mun lægri því hún er neðar í hrauninu en háborgin á brúninni.
Að jafnaði þarf að gera ráð fyrir 3 klst hvora leið og síðan viðbótartíma eftir því hvað ætlunin er að skoða. Gönguferð í Brennisteinsfjöll tekur sjaldan styttri tíma en 9-12 klst. Hafa ber í huga að mörgum finnst niðurgangan erfiðasti hluti ferðarinnar, en þá getur reynt verulega á hnén. Það er því rétt að spara orkuna fyrri hluta ferðarinnar og nýta vel það sem eftir er í lokaáfangann.
Þoka getur skollið á fyrirvaralítið í Brennisteinsfjöllum og þá er betra að hafa vant fólk með í för. Fjölmörg skjól er þó að finna á svæðinu, m.a. tugi hella. Í bartviðri er hins vegar óvíða fallegra útsýni hér á landi en einmitt frá Brennisteinsfjöllum.