Broadstreet – loftskeytastöð

Broadstreet

Ofan við Vogastapa í Njarðvíkurheiði eru yfirgefin hús, fyrrum loftskeytastöð Bandaríkjahers á eftirstríðsárunum. Í „Húsakönnun Patterson 2019“ eftir Helga Biering, þjóðfræðing, er m.a. fjallað um Broadstreet:

Broadstreet

Broadstreet – Það sem eftir stendur af steinsteyptu byggingunni við Broadstreet 2023. Þessi byggin var byggð 1948 og notuð frá 1949 til 1955.

„Við gamla Grindavíkurveginn, rétt norðan við Seltjörn, reisti flugfjarskiptadeild Bandaríkjahers (Army Airways Communications System) þyrpingu nokkurra húsa sem nefndur var Camp Broadstreet. Í Broadstreet var loftkseytastöð sem sá um langdræg fjarskipti við flugvélar í millilandaflugi og einnig við flugstjórnarmiðstöðvar. Campurinn opnaði í mars 1942.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Stöðin var stundum kölluð útvarpsstöðin vegna tilgangs hennar í fjarskiptum, en aftur á móti kom hún ekkert nálægt útsendingum talaðs máls og tónlistar. Broadsteet var eins og aðrar slíkar stöðvar með eigin vatnsveitu og stórar rafstöðvar. Kampurinn var samsettur af 36 íbúðum og skálum, auk þess voru sex lítil steinhlaðin hús sem hýstu loftskeytasendana við stærstu loftnetin.

Broadstreet

Broadstreet og nágrenni.

Stöðin sendi sjálfkrafa út skeyti sem bárust þangað um símakapla frá ýmsum fjarskiptamiðstöðvum á flugvallarsvæðinu. Að auki flutti stöðin á Broadstreet ýmis veður- og flugtengd boð á milli stöðva beggja vegna Atlatnshafsins.

Broadstreet

Broadstreet 1958 – loftmynd.

Hús þetta var reist 1948 af bandarísku verktakafyrirtæki sem rak stöðina eftir stríð. Þar var hýst loftskeytasendistöð loftflutningadeildar Bandaríkjahers á árunum 1949 – 1955.“

Broadstreet

Broadstreet – loftmynd 2022.

Í útdrætti úr kaflanum „Fjarskipti varnarliðsins“ í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal segir eftirfarandi um Broadstreet og tengsl þess við önnur fjarskipti Bandaríkjahers:

Bandaríski flugherinn byggði á upphafsárum varnarliðsins fjarskipti sín á margskiptu kerfi Bandaríkjahers sem komið hafði verið upp á stríðsárunum og náði vítt um heiminn. Fjarskiptastöðin Broadstreed við Vogastapa á Reykjanesi var ein slíkra stöðva og þjónaði m.a. flugupplýsingakerfi og öðrum langdrægum fjarskiptum varnarliðsins ásamt móttökustöð í Camp Garrity skammt norðan við vesturenda austur-vesturflugbrautar Keflavíkurflugvallar.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Uppbygging langdræga sprengjuflugflotans (SAC) og tuga nýrra bækistöðva hans víða um heim krafðist þess að komið yrði upp nýju, sjálfstæðu fjarskiptakerfi og hófst uppsetning þess árið 1951. Hlaut það heitið U.S. Air Force Global Communications System – GLOBECOM – og byggði á neti öflugra fjarskiptastöðva um heim allan með fjölrásatengingum á helstu tíðnisviðum, þ. á m. langbylgju með háum loftnetsmöstrum sem hentuðu þó illa í námunda við flugvelli. Var nýrri GLOBECOM-sendistöð því valinn staður við rætur Þorbjarnarfells ofan við Grindavík.

Broadstreet

Broadstreet 2023.

Smíði stöðvarinnar hófst árið 1953 og var hún tekin í notkun árið eftir. Stöðin samanstóð af sendistöðvarbyggingu, rafstöð og íbúðar- og skrifstofuskála ásamt stuttbylgjuloftnetum af ýmsum gerðum og tveimur, 183 m (600 feta) og 244 m (800 feta) háum, langbylgjumöstrum sem gnæfðu yfir stöðinni og sáust víða að. Jafnframt var tekin í notkun ný fjarskiptamiðstöð og símstöð á Keflavíkurflugvelli.

Keflavíkurflugvöllur

Herstöðin á Miðnesheiði.

Var sendistöðinni í Broadstreet breytt í móttökustöð fyrir GLOBECOM-kerfið árið 1955 (USAF Strategic Receiver Station). Við þetta kerfi bættist síðan langdrægt talstöðvarsamband við flugvélar.“

Heimildir:
-Húsakönnun Patterson 2019, Helgi Biering, þjóðfræðingur.
-Útdráttur úr kaflanum Fjarskipti varnarliðsins í óbirtu handriti um sögu bandaríska varnarliðsins á Íslandi 1951–2006 eftir Friðþór Eydal.

Broadstreet

Broadstreet 2023.