Brýrnar yfir Fúlutjarnarlæk

Reykjavík

Fúlutjarnarlækur í landnámi Ingólfs, síðar í umdæmi Seltjanarneshrepps og loks Reykjavíkurbæjar (reyndar um stund í umdæmi Reykjavíkurborgar frá 1908) var afrennsli frá Kirkjumýri og Kringlumýri og var farvegur hans að mestu leyti vestan við núverandi Kringlumýrabraut. Fúlutjarnarlækur var talinn illur yfirferðar í miklum rigningum og leysingum. Nafnið dregur hann af Fúlutjörn, sem var hálfgert sjávarlón ofan vestanverðan Kirkjusand. Lyktaði hún jafnan af rotnandi gróðri og var til lítils nýtanleg.

Reykjavík

Reykjavík – skipulag 1947.

Fúlatjörn, var sem fyrr segir, tjörn eða lón í norðaustanverðri Reykjavík, við sjávarborðið vestan við Kirkjusand, þar sem Borgartún og Kringlumýrarbraut mætast núna. Þegar Borgartún var fyrst lagt, lá það að hluta á brú yfir Fúlutjörn. Á meðan Kringlumýri var eiginleg mýri, þá rann lækur eða framræsluskurður úr henni og endaði norður í Fúlutjörn. Tvær aðrar brýr voru byggðar yfir Fúlutjarnarlæk fyrir og eftir aldamótin 1900; á Suðurlandsvegi og á Laugarnesvegi. Í öllum tilvikum var um að ræða steinhlaðnar brýr með trégólfi.

Reykjavík

Reykjavík – Fúlutjarnarlækur.

Svæðið sem hér er fjallað um nær yfir hluta af því landi sem á öldum áður tilheyrði jörðunum Rauðará og Lauganesi. Samkvæmt landamerkjalýsingu frá árinu 1883 lágu merki á milli þessara jarða eftir Fúlutjarnarlæk, frá sjó að upptökum hans við Ámundaborg, en samkvæmt eldri landamerkjalýsingum lágu merkin austar, þ.e.a.s. frá Ámundaborg sjónhendingu í stein á Kirkjusandi sem nefndur var Stúlknaklettur (Stúlkuklettur). Munnmæli segja að einhvern tíma hafi vanfær vinnukona í Laugarnesi horfið, en svo fundist við þennan stein ásamt tveimur stúlkubörnum. Hornmark Rauðararár, Reykjavíkur og Laugarness lá um Ámundaborg sem var fjárborg. Ámundaborg er löngu horfin en hefur verið þar sem býlið Lækjarhvammur var, nálægt því þar sem Lámúli 4 er nú ofan Suðurlandsbrautar og austan Kringlymýrarbrautar.

Reykjavík

Reykjavík 2024.

Fúlutjarnarlækur var afrennsli frá Kirkjumýri og Kringlumýri og var farvegur hans að mestu leyti vestan við núverandi Kringlumýrabraut. Fúlutjarnarlækur var talinn illur yfirferðar í miklum rigningum og leysingum. Fyllt var upp í Fúlutjörn og var því lokið um 1960. Fúlutjarnarlækur var settur í stokk árið 1957 og er því ekki sýnilegur lengur. Lækurinn var jafnframt nefndur Laugalækur sem afrennsli frá Þvottalaugunum og rann um Laugamýri (Laugardal), vestan við Laugarás. Laugalækur var settur í stokk árið 1949 og gata sem er á svipuðum slóðum nefnd eftir honum.

Reykjavík

Herforingjarráðskortið 1902 – örnefnaskrárlisti.

Í nýlegum fréttum Mbl.is og Rúv.is 26. júlí 2025 er fjallað um „horfna brú talin fundin undir Suðurlandsbraut“. Í báðum tilvikum er vitnað í vefmiðlilinn Sarpur.is. Þar segir m.a.: „Brúin var merkt inn á kort frá 1902 þar sem Laugavegur lá yfir Fúlutjarnarlæk, nú er þar Suðurlandsbraut. Líklega var þetta trébrú á steinhlöðnum stólpum. Fúlutjarnarlækur var settur í rör/stokk um og eftir 1957 og kallað þá Kringlumýrarholræsi, það er en í notkun og er það aðeins vestan við gömlu brúnna. Líklega hefur herinn breikkað brúnna en Suðurlandsbraut var eina af aðalleiðunum út úr bænum, en vestari búin á Elliðaánum var þá gerð úr steypu og brúin yfir eystri kvíslina var þá líka endurgerð með steypu 1941.

Í ljós kom sumarið 2025 við framkvæmdri Orkuveitunnar, mannvirki sem líklega er þessi brú.

Brúin var talinn horfinn, en líklega er hún það ekki, í ljós kom mannviki sem gæti verið hún, steinhlaðnir stólpar, undir steyptu brúargólfi, þar sjást um 5 raðir af tilhögnu grágrýti, líklega hefur það verið sótt í grjótnámuna á Rauðaárholti fyrir norðan Sjómannaskólann. Áður hefur líklega verið timburgólf á þessari brú. Seinna hefur brúin verið breikkuð til norðurs. Þá hafa stólparnir verið steyptir og líklega hefur þá verið steypt nýtt brúargólf. Austan við brúnna er mikið grjópúkk.

Reykjavík

Fúlutjarnarlæksbrú opinberuð 2025.

Líklegt er að bandaríski herinn hafi breikkað brúna til norðurs en Suðurlandsbraut var þá ein af aðalleiðunum út úr bænum.“

Undir brúnni eru fimm raðir af tilhöggnu grágrýti er bendir til að brúin hafi verið byggð öðru hvoru megin við aldamótin 1900.

Úr miðbæ Reykjavíkur og inn að Þvottalaugum eru rúmir 3 km. Sú leið var ekki hættulaus og gat orðið æði torsótt í svartamyrkri. Úr Lækjargötu lá leiðin upp Bankastræti. Á móts við Laugaveg 18 eða 20 beygðu þvottakonur niður í Skuggahverfi. Þær þræddu síðan strandlengjuna og reyndu að fylgja götutroðningum uppi á bakkanum fyrir ofan fjöruna.

Reykjavík

Reykjavík – brúin yfir Suðurlandsbraut á Fúlutjarnarlæk.

Þegar komið var að Fúlutjarnarlæk var snúið upp frá sjónum og yfir Kirkjumýri sem var blaut og keldótt. Fúlutjarnarlækur gat orðið erfiður farartálmi í votviðri. Þá breyttist lækurinn í stórfljót sem þvottakonur komust ekki yfir nema á fjöru.
Göngumóðir laugagestir komu örugglega gegnvotir til fótanna í áfangastað. Íslenskar alþýðukonur áttu fæstar vatnsstígvél fyrr en á fyrstu áratugum líðandi aldar.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar í Laugardal.

Á haustdögum árið 1885 var byrjað að leggja veg inn að Þvottalaugum, Laugaveginn. Fimm árum síðar var hann loks fullgerður. Eftir það fóru konur að nota heimasmíðuð farartæki til laugaferða. Þau voru af ýmsum gerðum og sum býsna frumleg.
Hjólbörur og litlir fjórhjólaðir vagnar voru algengastir. Kerrur sem konum var beitt fyrir í stað hesta komu til sögunnar í aldarlok. Á vetrum þegar snjór var á jörðu komu sleðar sér vel til laugaferða.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar um 1900.

Þá drógu drengir oft sleðana fyrir mæður sínar. Þvottakonur treystu þó varlega dragfærinu. Þegar þær höfðu unnið á óhreinum fatnaði var snjórinn stundum horfinn. Þess eru dæmi að konur og börn hafi borið sleða og annan farangur heim úr Þvottalaugunum. Í úrkomutíð óðu Reykvíkingar leðjuna á Laugaveginum í ökkla. Þá gat orðið illfært heim úr Laugunum með blautan þvott á frumstæðum hjólatíkum.

Fyrstu reglubundnar áætlunarferðirnar í Reykjavík inn að Þvottalaugunum hófust í júníbyrjun árið 1890. Þá var kominn vagnfær vegur heim að þvottahúsi Thorvaldsensfélagsins. Þetta voru fyrstu áætlunarferðir í Reykjavík enda höfðu aldrei fyrr verið aðstæður fyrir hestvagna í vegleysunum í bænum.
ÞvottalaugarVagninn var fjórhjólaður og gat tekið allt að átta menn í sæti. Einn eða tveir hestar drógu hann. Hestvagninn var ekki notaður til að flytja fólk inn í Laugar heldur þvott.
Laugapokar Reykvíkinga voru sóttir heim til þeirra sem bjuggu við akfæra vegi. Hinir urðu að koma þvottinum á ákveðinn móttökustað í bænum. Þvottakonur urðu enn sem fyrr að fara fótgangandi í Laugarnar. Þar gátu þær tekið óþreyttar til hendinni ef hestaflið létti laugapokaklyfjunum af þeim. Of fáir Reykvíkingar voru hins vegar reiðubúnir að greiða fyrir þjónustuna. Þessar fyrstu áætlunarferðir í bænum lögðust því fljótt niður.

þvottalugarHið íslenska kvenfélag var stofnað í Reykjavík árið 1894. Á öðru starfsári ákvað það að „létta af kvenfólki hinu þunga oki, laugaburðinum.“
Kvenfélagið hóf laugaferðir um miðjan maí árið 1895 undir fyrirsögninni „Laugaferðir“. Félagskonur hugðust þannig koma í veg fyrir að kynsystur þeirra væru notaðar sem áburðarklárar í Þvottalaugarnar. Í árslok höfðu rúmlega 600 pokar fullir af þvotti verið fluttir í Laugarnar. Réttu ári síðar neyddist Kvenfélagið til að leysa flutningafyrirtækið upp. Fjölmörg heimili í bænum gátu ekki pungað út aurum fyrir akstri á þvotti.

Sagan segir að þegar Anna kom inn í Þvottalaugar varð hún að standa úti við vinnuna. Bæjarbúar höfðu ekki hirt um að endurreisa þvottahúsið sem fauk árið 1857. Starfssystur Önnu höfðu mátt strita óvarðar fyrir veðri og vindum við þvottana í tæpa þrjá áratugi. Náttmyrkur var skollið á þegar hún lauk við þvottinn. Þá arkaði hún af stað heim með allt sitt hafurtask á bakinu.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar.

Anna hafði unnið sér til hita í Þvottalaugunum. Hún hefur sennilega ekki veitt því athygli að þíða hafði leyst frostið af hólmi. Þegar Anna kom að Fúlutjarnarlæk hugðist hún fara yfir hann á snjóbrú.
Lækurinn var hins vegar búinn að éta neðan úr henni í blotanum. Snjóbrúin brast undan Önnu og hún féll í lækinn.
Morguninn eftir fannst hún örend liggjandi á grúfu í Fúlutjarnarlæk. Balinn og blautur þvotturinn með öllum sínum þunga hvíldu á Önnu.

Reykjavík

Reykjavík – Fúlutjarnarlækur og brýrnar þrjár skv. Herforingjaráðskorti 1902.

Talið er líklegt að Fúlutjarnarbrýrnar þrjár; á Borgartúni, Laugarnesvegi og Suðurlandsbraut, hafi verið byggðar fljótlega eftir framangreint slys, ekki endilega vegna þess heldur ekki síður vegna vaxandi áhyggna af velferð fólks og stækkandi byggðar Reykjavíkur til austurs og aukinni ásókn fólks í Þvottalaugarnar…

Árið 1917 ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur að hefja skipulagðar laugaferðir. Fjórir móttökustaðir víðsvegar um bæinn tóku á móti farangri Reykvíkinga í Þvottalaugarnar.
Laugakeyrslan hófst 16. júní en mest var flutt í september og október. Í árslok 1917 var búið að flytja 72 tonn í Þvottalaugarnar. Árið 1918 voru flutt rúm 161 tonn og árið eftir tæplega 178.

Reykjavík

Kamar fínna fólksins eftir aldamótin 1900. Alþýðan þurfti að lá sér nægja holu í fjöl.

Reykvíkingar sendu raunar fleira en þvott með hestvagninum. Hann var hlaðinn bölum, fötum, körfum, þvottabrettum og nokkrar þvottavindur slæddust jafnvel með. Á árunum 1918-1919 var mest flutt á vormánuðum en minnst í desember. Harðindaveturna 1918 og 1919 voru afurðir kamra bæjarbúa fluttar inn að laugunum í þeim til gangi að afþýða úrganginn og losa sig við hann í Laugalæk.

Á millistríðsárunum dró töluvert úr aðsókn í Þvottalaugarnar. Hún jókst þó aftur eftir að Ísland var hernumið í maímánuði árið 1940. Fjölmargar konur í Reykjavík tóku að sér þvotta fyrir hernámsliðið. Í árslok 1940 unnu um 200 konur í bænum við þvotta. Þá fengu þær greiddar 2 krónur fyrir þvott af einum hermanni.

Á vormánuðum árið 1928 ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur að kaupa jarðbor og byrja rannsóknir á jarðhita í bæjarlandinu. Haglaborinn sem bærinn keypti var jafnan nefndur Gullborinn. Mastrið á bornum er þrífótur úr stálrörum, sex til sjö metra hár. Gullbornum fylgdu um 300 m af borstöngum en hann gat í raun borað helmingi dýpri holur.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar – Gullborinn.

Á árunum 1928-1942 var byrjað á 15 borholum í Þvottalaugunum og næsta nágrenni, m.a. við Lækjarhvamm. Af þeim var lokið við 14 holur. Boranir hófust 26. júní árið 1928 og var að mestu lokið 19. maí 1930. Rafmagnsveita Reykjavíkur stóð að þessum jarðborunum í Laugunum. Kanna átti möguleika á því að nota gufuna til þess að framleiða rafmagn. Það höfðu Ítalir gert með góðum árangri á jarðhitasvæði hjá Larderello nálægt Toskana.
Vatnið í borholunum við Þvottalaugarnar reyndist þó ekki nógu heitt til að nýta mætti gufuna til rafmagnsframleiðslu. Þá lagði Rafmagnsveita Reykjavíkur til að vatnið yrði notað til að hita hús.

Reykjavík

Reykjavík – þvottalaugarnar.

Hitaveita Þvottalauganna var lögð árið 1930. Aðalborholur borgarinnar voru í landi Lækjarhvamms, neðan við Lágmúla 4, gegnt umfjallaðri brú fjölmiðlanna fyrrum yfir Fúlutjarnarlæk.

Nauðsynlegt er að gera umfjallaðrar minjar sýnilegar borgarbúum og gestum þeirra er eiga gangandi leið um sunnanverða Suðurlandsbraut austan Kringlumýrarbrautar að viðbættu söguskýringarskilti á nefndum stað brúarinnar yfir Fúlutjarnarlækinn fyrrum. Allar minningar um tilurð borgar eru mikilvægar. Brúargerðin ber öll merki um búargerð fyrir og um aldamótin 1900.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/F%C3%BAlatj%C3%B6rn
-https://ferlir.is/kirkjusandur-sagan/
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-07-26-horfin-bru-talin-fundin-undir-sudurlandsbraut-449507
-https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=2463149

Reykjavík

Reykjavík – Þvottalaugar.