Búsetuminjar

Gvendarborg

Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir tók saman grein, „Lesið í landið – Vinisburður búsetuminja„, sem gefin var út í Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga árið 2010. Hér má sjá hluta efnisins:

Formáli

Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir

Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir.

Uppflettirit þetta er fyrir þá sem hafa áhuga á að leita upplýsinga um gamla tíma og horfna búskaparhætti á ferð um landið. Falleg náttúra virkar eins og segull á sálina. Þangað þyrpist fólk til að njóta og nærast. Með vaxandi áhuga á ferðalögum innanlands hafa augu okkar opnast fyrir því að fleira er í umhverfi okkar sem skiptir máli en náttúran sjálf. Ef grannt er skoðað má finna og sjá menningarminjar sem landið geymir enn þar sem menn hafa ekki umbylt jörðu og kaffært með húsum. Það er spennandi viðbót á ferð um landið að geta lesið í gamlar tóftir og spáð í hvað var þar umleikis fyrir hundrað árum og jafnvel fyrr. Sagan talar til okkar frá gömlum tóftarbrotum og örnefni minna á þjóðhætti. Mörgum þykir lítið augnayndi í veggjabrotum og hálfhrundum húsum, en ef við þekkjum hlutverk þeirra og horfum á þau út frá handverkinu sem í þeim felst blasa við okkur heimildir sem geta sannarlega kryddað tilveruna.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

Með þessu smáriti er gerð tilraun til að skapa fólki, sem er á faraldsfæti möguleika til að lesa í landið og sjá við hverju má búast, og hvar og hvers vegna. Því þrátt fyrir alla náttúrfegurðina sem við njótum á ferð um landið okkar er það mikils virði fyrir marga að geta bætt inn í myndina væntingum um að sjá meira en augað nemur í fljótu bragði og átta sig á hvernig forfeður okkar nýttu sér þetta sama umhverfi og settu mark sitt á það. Fáir fara um lönd án leiðarvísa eða landakorta þar sem sjá má bæjarnöfn og örnefni. Með þetta litla kver í viðbót við landakortið er von okkar sú að ferðin verði enn meira spennandi. „Landslagið yrði lítils virði ef það héti ekki neitt“, sagði skáldið og til viðbótar má bæta við … og hvergi sæjust spor genginna kynslóða.

Búsetuminjar

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum – uppdráttur ÓSÁ.

Búsetuminjum má gróflega skipta í tvo flokka, minjar í túni og minjar utan túna. Stærsti minjaflokkurinn teljast útihús hverskonar. Innan túns má nefna fjós, fjárhús, hrútakofa, hesthús, hlöðu, lambhús, smiðju og skemmu. Utan túns eru beitarhús, stekkur, heytóft, rétt, smalakofi, sel og byrgi ýmiskonar og fleira. Aldur útihúsa er sjaldan þekktur. Oft voru þau byggð öldum saman á sama stað. Leifar eldri mannvirkja kunna því að leynast undir tóftum þeirra yngri.
Lega og útlit minja gefur oft til kynna hvaða minjar um er að ræða þó svo engar heimildir séu til um notkun þeirra. Í mörgum tilvikum er þó erfitt að ákvarða um notkun mannvirkisins.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; meint kirkja og bæjarhóll Kirkjuhafnar.

Bæjarhólar urðu til við það að sífellt var bætt við, endurbyggt og húsum breytt á sama stað. Við það hækkuðu hólarnir og breikkuðu eftir því hve lengi var búið á sama stað og hve húsin voru mörg og stór. Bæjarhólar eru gríðarlega mikilvægar heimildir um mannlíf fyrr á öldum því þeir varðveita upplýsingar um húsakost og lifnaðarhætti og þar eru mestar líkur á að verðmætir gripir finnist. Núverandi hús eru oft byggð ofan á eða inn í gömlu bæjarhólana, en oft má líka sjá þá sem grænar stórar þústir og hóla í landslaginu.

Minjar innan túns og heimalands

Elliðakot

Elliðakot – beðasléttur.

Minjar innan túns eru oft horfnar vegna jarðabóta eða annarra framkvæmda nútímans. Þó má enn finna merki um búsetuhætti á gömlum túnum, einkum þar sem bæir hafa farið í eyði um og fyrir vélvæðingu.

Beðasléttur – Leifar túnsléttunar frá um 1880-1925. Minjar um þúfnasléttun, jarðrækt sem unnin var í höndunum og hafa yfirleitt verið útmáðar. Helst sjáanlegar á eyðibýlum sem fóru í eyði fyrir vélvæðingu. Beðasléttur eru fremur mjóir, lítið eitt kýfðir teigar með rásum (ræsum) á milli þannig að vatn rennur af þeim.

Baðlaugar – Hér og hvar á landinu má enn finna náttúrulegar laugar þar sem fólk tók sér bað sér til heilsubótar. Nokkrar eru upphlaðnar. Á nokkrum stöðum voru laugarnar einnig notaðar til þvotta.

Stafnes

Stafnesbrunnur.

Brunnar – Brunnar og vatnsból voru mikilvæg enda var greiður aðgangur að vatni grunnforsenda þess hvar bæjum var valinn staður.
Brunnar voru oft grjóthlaðnir, gjarnan hringlaga en stundum ferkantaðir og gátu verið nokkurra metra djúpir. Vatnsból s.s. við uppsprettulindir voru einnig gerð aðgengileg með hleðslum, ef þurfti.

Fjárhús/kvikfénaðarhús/búpeningshús: Fjárhústóftir eru margvíslegar og stærð þeirra getur verið mismunandi og oft má greina garða eftir miðri tóftinni eða stalla við veggi.

Fjós – Fjóstóftir eru oft fast við bæinn sjálfan eða nálægt honum. Einkenni þeirra er flórinn, básarnir og jatan, við annan hvor vegginn.

GeymslaGeymsla – Skemma fyrir verkfæri, ull eða matvæli.

Heimreið – Síðasti spott afleggjarans heim á bæjarhlaðið. Oft upphlaðin meðfram götum í gegn um túnið og heim á hlað.

Hestasteinn – Var yfirleitt staðsettur á bæjarhlaði eða á stöðli. Til að binda á ferðahesta meðan staldrað var við eða á meðan menn bjuggu sig til ferðar.

Hesthús – Hús með stalli við annan langvegg. Ýmist heima við bæi, yst í túni eða við túngarð.

Heyhlaða – Hlöður voru yfirleitt áfastar við búpeningshúsin en þær gátu líka verið frístandandi.

HeykumlHeytóft/heykuml – Hey var hlaðið upp í fúlgur og tyrft yfir þannig að skepnur komust ekki að því. Hyllst var til að velja þurran og góð an stað þar sem vatn rann frá heyjum og hlaðinn garðstubbur umhverfis heyið. Sami staður var notaður ár eftir ár og smám saman myndaðist tóft sem oft eru með ógreinilegum „veggbrotum“.

Hjallur – Geymsla eða skúrbygging úr timbri, þiljuð til hálfs. Notuð til að þurrka og geyma í mat, s.s. þurrkað kjöt, skreið, hákarl og fleira.

Hlaða – Heygeymsla fyrir hey, hlaðið úr torfi og grjóti með þaki. Yfirleitt áföst við búpeningshús, en þekkjast stakar.

Hrútakofi

Hrútakofi.

Hrútakofar – Smærri torf- og grjóthlaðnir kofar, oft yst í túni, með jötu við langvegg.

Kálgarður – Nærri húsum eða utanvið túngarð þar sem sólar naut og var vel varinn fyrir búfénaði. Oftast með hlöðnum torf- eða grjótgörðum.

Kofar – Torf- og grjóthlaðnir kofar til geymslu búfjár, hænsna, eða annarra eigna.

Kvíar – Kvíar voru oftast í túni eða rétt utan þess. Þar voru kvíaær mjólkaðar. Kvíar voru oft hlaðnar úr torfi og grjóti, aflangar, fremur þröng rétt. Breiddin var tvær ærlengdir með gangvegi á milli. Bændur voru einnig með kvíar úr timbri, færikvíar, sem þeir gátu fært til eftir þörfum. Örnefnir kvíaból vísar til þess hvar kvíarnar stóðu.

KvíarLambhús – Smærri kofar eða hús oft sambyggð öðrum búpeningshúsum eða mannabústöðum.

Myllur – Kornmyllur knúðar vatni voru við marga bæi á 19. öld og fram á þá 20. Oft hafa myllusteinarnir einir, sem möluðu kornið, varðveist eftir að myllurnar sjálfar hrundu. Mylluörnefni á mörgum bæjum vísa til þess hvar myllurnar voru. Myllutóftir eru enn finnan legar við ár eða læki. Þær eru litlar, grjót- og torfhlaðnar og dyr eða op er á tóftinni þar sem vatnið var leitt inn og út. Grafnar rennur eru úr læk ofan við að tóftina sem vatnsmagninu var stýrt um.

Ræsi – Stungin rás fyrir vatn. Oft var brúað yfir og þá var einnig talað um ræsi.

Skemma

Skemma.

Skemmur – Geymsla fyrir verkfæri, áhöld, matvæli, ull, tjöru, of fleira sem búið þurfti. Yfirleitt hlaðin upp af torfi og grjóti, með framþili úr timbri.

Skurðir – Grafnar vatnsrásir til að ræsa fram vatn og þurrka upp landið. Verulegur munur eru á handgröfnum og vélgröfnum skurðum, sem þekkist best á stærð þeirra.

Smiðjur – Smiðjur voru oft við bæjarstæðið sjálft, en einnig eru dæmi þess að þær hafi staðið í túni dálítið frá bænum, vegna eldhættu. Oftast frekar smáar tóftir.

Túngarður – Hlaðinn garðveggur úr torfi og/eða grjóti, til að verja tún.

Minjar utan túns

Garðahverfi

Garðatúngarður.

Sá flokkur minja sem jafnan hefur varðveist best eru hverskyns minjar utan túns. Þær liggja gjarnan á stöðum þar sem nútíma jarðrækt hefur aldrei verið beitt.

Áveitu- og stíflugarðar – Víða á engjum, við ár og vötn, eru enn gamlir áveitu- eða stíflugarðar, frá þeim tíma er menn nýttu áburð vorflóðanna. Þegar flæddi hlóðu menn garða fyrir útfallið þannig að leðjan úr vatninu, sem var hinn besti áburður, settist til og varð eftir þegar vatnið gufaði upp eða sjatnaði.

Beitarhús/hagahús – Beitarhús voru oft byggð upp þar sem góður hagi var eða á gömlum selstæðum, allt upp í nokkurra kílómetra fjarlægð frá bæ. Þar var fé beitt yfir vetrartímann til að hlífa túnum og heimahögum. Beitarhúsatóftir samanstanda af myndarlegri fjárhústóft eða tóftum, og yfirleitt er hlaða áföst fjárhúsunum.

Nes

Fjárborg við Nes í Selvogi.

Borgir – Hrossaborgir, sauðfjárborgir. Hringlaga, yfirleitt hlaðnar úr grjóti, þykkir veggir, með dyrum á. Lágum fyrir sauðfé, hærri fyrir hross.

Brunnur – Þar sem ekki var hægt að ganga að uppsprettu eða rennandi læk með hreinu vatni grófu menn brunna nálægt bæjum sínum. Oft um 5-7 m. djúpir og grjóthlaðnir að innan. Með vindu yfir og oft svokölluðu brunnhúsi sem byggt var yfir brunnana. Víða má sjá merki hringlaga jarðfalls þar sem brunnurinn var, en sjaldnast er nokkuð eftir af þeim þar sem menn hafa sléttað tún umhverfis bæina og fyllt upp í brunnana.

Brú – Brúað var yfir ár með trjám, sem lögð voru á örugga kletta eða aðra undirstöðu, stundum hlaðna brúarstöpla. Og eru það oft einu sjáanlegu merki brúargerðar yfir ár og læki. Önnur brúargerð var þegar hlaðin var jarðvegsbrú úr gjóti og/eða torfi yfir mýrlendi. Einnig Jarðbrú.

Katlahraun

Fjárbyrgi í Katlahrauni.

Byrgi – Fjárbyrgi, lambabyrgi. Hlaðið skjól fyrir búfé líkt og fjárborgirnar. Einnig eru sumstaðar skotbyrgi, til tófu- og refaveiða á heiðum og upp il fjalla, en þau eru miklu minni en fyrir búfénað.

Búð – Tjaldbúð, þingbúð. Stundum er hægt að greina lága veggi úr torfi og/eða grjóti umhverfis „búðina“.

Dómhringir – Hugsanlega hringlaga garðaleifar, ef sjáanlegar. Fremur ólíklegt er að sjá dómhringi í minjaumhverfinu.

Dysjar/kuml – Heiðnir fornmenn voru dysjaðir í kumlum sem hægt er að sjá hér og hvar þar sem jörð hefur beitt og er ósnert frá þjóðveldistíma. Dysjar/kuml má þekkja á því að oft er steinum raðað í sporöskjulaga.

Villingavatn

Villingavatn – fjárborg á Borgarholti.

Fjárborgir – Fjárborgir voru hringlaga, hlaðnar úr torfi eða grjóti. Fjárborgir voru algengar sunnan lands og austan, en fáséðari norðan og vestan. Hlaðnar nær sama í toppinn og dyr miðaðar við sauðfé, sem borgirnar voru fyrir, oft fjarri bæjum.

Garðlög – Margskonar garðlög er að finna umhverfis tún og utan þeirra. Bæjarstæði voru oftast afmörkuð með hlöðnum túngarði þá oftast úr grjóti og torfi. Garðar umhverfis beitarhús geta verið vísbendingar um að áður hafi verið þar býli. Vallargarðar eru garðar utan túna. Oft er erfitt að geta sér til um not þessara garða en líklega hafa þeir þjónað þeim tilgangi að aðgreina land í nytjaeiningar. Svokallaðir landamerkjagarðar voru einnig hlaðnir á mörkum landeigna.

Hellisheiði

Forn gata á Hellisheiði.

Gata/götur – Leið sem menn og skepnur hafa farið aftur og aftur þar til myndast hefur greinileg slóð, gata, götur sem haldast árum og árhundruðum saman.

Gerði – Afgirt svæði yfirleitt með hlöðnum garðveggjum umhverfis. Sennilega eru þau í flestum tilfellum leifar fornbýla.

Gildrur – Refagildrur, fiskigildrur. Yfirleitt hlaðnar úr grjóti.

Gjafaréttir – Gjafagirðingar eru hringlaga opnar réttir eða aðhald fyrir sauðfé í útbeit. Yfirleitt hlaðnar úr grjóti og torfi.

Heytóftir – Þar sem hey var slegið á engjum eða mýrum voru hlaðnir upp garðstubbar um svokallaðar heytóftir. Þar var heyinu safnað saman og það sett upp í heyfúlgu sem byrgð til geymslu fram á vetur þegar þurfti að fóðra búsmalann. Slíkar tóftir eru oftast ferkantaðar eða sporöskjulaga með engum dyrum. Að vanda eru tóftirnar nokkru hærri en umhverfið til að halda heyinu þurru og til að varna því að búsmali kæmist að því.

Heytóft

Heytóft.

Heyvinnsla – Stundum má sjá minjar um fyrstu tilraunir til túnsléttu og kallast það beðasléttur. Frá aldamótum og fram um 1930 var unnið að túnasléttun og framræslu á flestum bæjum. Tímabilið er í þessu sambandi oft nefnt þaksléttutími. Fyrsta áratuginn voru notuð handverkfæri. Sléttað var í löngum ræmum eða beðum sem síðan settu svip á túnið. Sléttaðar voru tóftir næst bæjum og jafnað úr gömlum húsum sem staðið höfðu dreifð innan túns.

Hrossaborgir – Svipaðar og fjárborgirnar, með hestgengum dyrum. Af sama tagi voru skjólgarðar sem hlaðnir voru fyrir stóðhross á útigangi og svokallaðir krossgarðar, sem gegndu sama hlutverki og voru hlaðnir í kross.

Kartöflugarður/jurtagarður – Yfirleitt voru kál- og kartöflugarðar upp við bæinn eða utan túns, upp við túngarðinn, þannig að hann nýttist sem ein hlið garðsins. Hyllst var til að hafa jurtagarða á móti suðri. Garðveggir voru hlaðnir úr torfi.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – kolagröf.

Kolagröf – Hér og hvar á heiðum og innst í dölum, oft á afréttarsvæðum, finnast grunnar, gryfjur eða grafir, þar sem gert var til kola fyrr á tíð. Þá var safnað hrísi, fjalldrapa og öðrum grófum runnagróðri. Greinarnar rifnar af og hafðar til eldiviðar en leggirnir högg nir í gryfjuna sem var fyllt. Þá var kveikt í gryfjunni og tyrft yfir þannig að lofttæming varð. Við þetta myndaðist mikill hiti og tréð þornaði. Brúnkol, eins og þetta efni var kallað, voru mun betri á smiðjuaflinn en t.d. mór.

Kláfar – Trékassar sem dregnir voru á strengjum yfir ár á milli gljúfurbarma. Merki þeirra eru hugsanlega vinduleifar eða hlaðnir stöplar.

Brennisel

Brennisel – kolagröf í miðið.

Kolagrafir – Þar sem áður var kjarr- og skóglendi má finna grafir sem í eru koluð tré. Það eru leifar eldiviðar sem unnin var í gröfum þessum. Þ.e. runnar voru rifnir og tré höggvin ofan í gryfjuna, kveikt í og allt byrgt með torfi. Við hitunina koluðust trén og gáfu mun meiri hita þannig.

Lambabyrgi – Skjól, byrgi eða kró, ýmist náttúruleg eða upphlaðin, til að hýsa lömb í.

Laug – Heitavatns uppsprettur og volgrur voru notaðar til baða og fataþvotta. Stundum voru þær upphlaðnar að hluta eða öllu leyti.
Yfirleitt eru þær utan túna en ekki var það regla.

Leiði – Legstaður grafinna í kirkjugarði. Oft sem aflangar risaþúfur í gömlum kirkjugörðum sem ekki hafa verð sléttaðir.

Krýsuvík

Krýsuvík – mógrafir.

Mógrafir – Má enn finna í mýrlendi þar sem er þykkur jarðvegur vel varðveittra lífrænna árþúsunda gamalla jurtaleifa. Yfirleitt eru þær fallnar saman og grunnar, uppgrónar og hættulausar.

Nátthagi – Torf og grjóthlaðnir yfirleitt hringlaga garðar, með hliði á. Nátthagar eru frá þeim tíma þegar fráfærur voru stundaðar í stórum stíl. Næturhólf til að bæla fráfærulömbin á stekktíðinni. Mylkum ám var haldið innan nátthagans á næturnar en sleppt út fyrir á daginn og haldið til haga. Lömbin voru lokuð inni í lítilli kró við stekkinn yfir nóttina, en sleppt með ánum á daginn. Innan nátthaganna, eða í næsta nágrenni var stekkur þar sem ærnar voru mjólkaðar.

Keflavík

Keflavík – rekafjara.

Rekavinnslustaður – Staður þar sem gott aðgengi var í rekafjöruna og öruggt fyrir sjávarágangi. Örnefni vísa til þessara staða, en þeir hafa vaflaust færst til eftir því hvernig/hvort strandlengjan breyttist.

Rétt – Réttir og gripheldi hverskonar finnast gjarna fjarri bæjum, oft mitt á milli bæja. Smærri réttir til heimabrúks voru þó nálægt bæjum. Lögréttir nefndust þær réttir sem byggðar voru upp sem skilaréttir fyrir heimfjallasmölun eða afaréttir. Oft hlaðnar úr grjóti, gjarnan upp við klettaveggi eða annað náttúrulegt aðhald. Réttir sem voru notaðar á einstakra bæja voru oftast smáar og einfaldar að gerð en stærri lögréttir svo sem til vorrúnings eða haustsmölunar voru stórar og oft margskiptar með dilkum.

Brunnastaðasel

Í Brunnastaðaseli.

Sel – Yfirleitt voru sel nokkurn veg frá bæjum, oftast við ár eða læki. Þangað var búsmali rekinn á sumrum og þar hafði fólk sumardvöl við að vinna mjólkurmat til vetrarins. Sel voru í notkun allt frá landnámstíð og fram undir 17-18. öld. Seltóftir eru jafnan leifar þriggja eða fleiri tófta, oft samfastar. Stundum voru þar líka krær eða gripheldi. Oft byggðust upp býli af þessum seljum og einnig beitarhús. Býli þessi tóku þá gjarnan nafn með viðskeytinu -sel. Erfitt getur verið að greina milli tófta selbúskapar eða smábýla þar sem búseta var í e.t.v. í skemmri tíma. Oft greina smábýlin á túngarðinum sem hefur verið hlaðinn umhverfis bæjarhúsin.

Skáli – Langhús, aflangt hús, íveruhús frá þjóðveldistíma.

Straumssel

Smalaskjól við Efri-Straumsselhella.

Smalakofar – Fé var smalað í haga að morgni og heim til mjalta að kveldi. Smalar sátu yfir fénu á daginn og voru það oft börn eða unglingar sem gegndu því starfi. Algengt var að smalar hlæðu sér smákofa eða afdrep fyrir veðri og vindum meðan setið var yfir. Tóftir smalakofa eru oft mjög litlar og standa í brekkum eða á hólum þar sem víðsýnt var.

Stakkgarður – Torf- eða heystakkur, þar sem torfi eða heyi var stakkað upp til geymslu. Líkist heytóftum í landslaginu.

Stekkir – Á stekkjum var fært frá, lömb færð frá ánum til að hægt væri að nýta mjólkina til manneldis. Þeir liggja gjarnan utan túna nokkurn spöl frá bæjum, svokallaðan stekkjarveg. Stekkir eru oftast hlaðnir úr grjóti, tvískiptir í rétt og lambakró. Króin var lítil og þakið reft og tyrft. Þeir eru gjarnan hlaðnir upp við stóra náttúrusteina eða klettaveggi.

Stöðull – Þurr valllendisbali eða hæð við túngarð þar sem kýr, kvíaær tóku sér stöðu, biðu t.d. eftir mjöltum og brúkshestar stóðu milli þess sem þeir voru á beit eða í notkun. Búféð vandist þangað, kynslóð eftir kynslóð. Nú er þar fátt að sjá, en örnefnið hefur varðveist á stöku stað.

Hellulofinn

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.

Sæluhús – Torf- og/eða grjóthlaðnir kofar við fjallvegi. Tóftir sæluhúsa má finna við gamla fjallvegi þar sem áður lá alfaraleið. Rústir þeirra líkjast helst tættum húsa, s.s. skemma, heima við bæi.

Túngarður – Garður var hlaðinn umhverfis tún til að verja þau gagnvart búpeningi yfir sprettutímann. Túngarðarnir voru yfirleitt hlaðnir úr torfi og grjóti.

Vað – Þar sem götur liggja að vötnum, ám og lækjum er yfirleitt vað yfir og grynnra eða sléttara í botninn en annars staðar. Eða þægilegra að komast að því.

Varða – Uppmjó áberandi grjóthleðsla við götur, einkum fjallvegi, sem hlaðin hefur verið til að varða slóðina þar sem best er að fara.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegurinn norðan Lágafells.

Vegir – Varðveist hafa gamlar kerruslóðir og upphlaðnir vegir.

Virki – Verndaður staður, hús eða garður umhverfis bústað með háum vegghleðslum eða rammbyggðum úr tré. Yfirleitt löngu horfnir.

Þvottaból – Staður þar sem þvottur var þveginn við rennandi vatn, læk eða ár. Yfirleitt ekkert lengur sjáanlegt en örnefni vísa á þessa staði. Sjá einnig laugar.

Ærgötur – Mjóar götur, eftir sauðfé, sem þræða fjöll og heiðar. Yfirleitt er óhætt að treysta því að þær séu færar fólki, hvort sem þær
eru um mýrlendi eða skriður.

Við sjóinn

Selatangar

Selatangar – sjóbúðartóft.

Oft varðveitast menjar um sjósókn illa vegna nálægðar við hafið og vegna framkvæmda við þéttbýlismyndun og hafnargerð. Verstöðvar eða útgerðarstaðir voru oft notaðir frá mörgum bæjum/byggðarlögum og því kann þar að finna nokkuð fjölbreyttar minjar.
Fiskbyrgi: Oftast grjóthlaðnar einfaldar byggingar, ferhyrndar eða hringlaga, þar sem þurrkaður og saltaður fiskur var geymdur.
Hafnir: Varðveisla hafna er oft vond enda brjóta brim mannanna verk niður þar sem sjór nær til þeirra. Náttúrulegar hafnir eru yfirleitt enn þær sömu, þótt þær hafi margar breyst á mörg hundruð árum, eins og höfnin á Kolkuósi. Hafnir þar sem menn hafa reynt að hlaða var fyrir báta, eru langoftast löngu horfnar.

Skreið

Skreiðarhjallur á 19. öld – Gaimard.

Hjallur – Oft finnast hleðslur undan hjöllum, fiskhjöllum og geymslum. Slíkar hleðslur eru oft ferköntuðu upphleðsla sem myndar sléttan flöt eða grunn. Einnig er oft einföld grjótröð sem markar af grunninn.

Hróf – Staður þar sem skip voru dregin á land og komið fyrir til geymslu. Um hverfis þau var hróflað upp veggjum sem yfirleitt voru ekki mjög vönduð og líkjast hrúgöldum.

Lending – Hér og hvar í fjörum má enn sjá lendingar, þ.e. einskonar „rennur“ upp í og í gegn um grýttar fjörur þar sem bátum var lent þegar komið var úr róðrum. Breiddin er u.þ.b. bátsbreidd.

Gálgahraun

Garðahraun – naust.

Naust – Tóftir í eða við fjörur þar sem bátar voru dregnir upp og geymdir. Naust geta verið á ýmsa vegu, allt frá tóftum sem reft hefur verið yfir til einfaldra vegghleðsla sem bátar hafa verið lagðir á milli. Oft eru naust bátslaga, þar sem bátum hefur verið smeygt inn. Sjóhús/verbúðir voru íverustaðir sjómanna á meðan á vertíð stóð. Stundum voru þessi hús á tveimur hæðum. Geymsla undir veiðarfæri og annan búnað á neðri hæðinni en svefnstaður manna á þeirri efri. Grunnur húsanna var grjóthlaðinn en efri hæðin úr timbri. Einnig voru verbúðir oft einföld grjót- og torfhlaðin hús.

Uppsátur – Þar lögðu menn upp bátum. Uppsátur eru oft samsíða grjóthleðslur sem liggja í sjó fram. Upphlaðnir sjógarðar eða bryggjur eru voru líka til, en eru sjaldgæfari.

VarnargarðurVarnargarður – Þar sem brim brýtur land eða þar sem flóð geta skemmt vatnsbakka hafa menn reynt að verja bakkana, með grjóti.

Bás – Afmarkað svæði, milli stoða, hver fyrir eina kú.

Beitarhús – Sauðir voru langoftast hafði á beitarhúsum, allfjarri túnum. Stundum til fjalla. Þar sem var góð vetrarbeit, sem þýðir að þeim var beitt (látnir bíta gras) á meðan gaf á jörð, sem kallaða var. Menn gengu á beitarhúsin alla daga eftir að farið var að hýsa féð, til að reka það til beitar. Ef haglaust varvar hey gefið á garða. Í einstaka tilfellum voru hey geymd og tyrfð við húsin þannig að skepnur kæmust ekki í það, eða að menn báru hey í meis (rimlakassi úr tré) á bakinu til húsanna þá daga sem nauðsynlegt þótti að gefa á garðann.

Beitarhús

Beitarhús ofan Knarrarness.

Brúarstöpull – Stöpull, stallur fyrir brúarendann.

Búpeningshús – Fjárhús, fjós, hesthús og önnur hús yfir búpening, húsdýr.

Dilkur – Sá hluti af rétt, þar sem sauðfé og annar búfénaður er dreginn inn í þegar fé var dregið í sundur á vor- og haustsmölun.

Dysjað/grafið – Dys, legstaður ókristins manns eða dýrs.

Flór – Langur lítið eitt niður grafinn skorningur, yfirleitt lagður steinhellum sem þægilegt var að hreinsa.

Færikvíar

Færikvíar.

Færikvíar – Kvíar sem gerðar voru úr timburflekum og hægt var að færa til.

Haustsmölun – Þegar fé er smalað af fjalli að hausti.

Heimfjallasmölun – Hvert haust var farið til heiða og fjalla og öllu búfé smalað til rétta. Þar var féð dregið í sundur.

Heimiliskapella – Guðshús þar sem heimilisfólk fór með bænir.

Jarðabætur – Túnræktun, þurrkun lands og vinnsla til grasræktunar.

Jata – Stokkur úr tré, þar sem kúnum var gefið. Yfirleitt negld á stoðir við vegg. Í einstaka tilfellum eru jötur upphlaðnar úr grjóti og torfi, við langvegg húsa.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Kvíaær – Ærnar (kindurnar) voru mjólkaðar kvölds og morguns allt sumarið. Úr mjólkinni var gert rjómi og undanrenna, smjör, skyr og mysa. Eftir sauðburð var lömbum kvíaánna leyft að vera með þeim í 2-3 vikur. Á stekktímanum var þeim haldið á beit yfir daginn og að kvöldi voru þau reknar í stekkinn, sem var lítil rétt oft nokkuð langt frá bæ, og hafðar þar yfir nóttina. Lömbin voru sett inn í litla kró (lambakró) við stekkinn. Um morguninn voru ærnar mjólkaðar og svo var bæði ám og lömbum hleyp saman til beitar yfir daginn. Að fráfærum liðnum voru lömbin færð frá ánum og rekin til fjalls, en ærnar voru reknar heim og mjólkaðar kvölds og morgna á kvíunum.

Mylkar/mjólkandi ær – Ærnar voru mjólkaðar til skyr- og ostagerðar.

Reft – Raftar lagðir yfir grindarviði, undir torf, grjóthellur eða járn.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; selstaða – uppdráttur ÓSÁ.

Selstæði – Staður þar sem haft var í seli. Þ.e. á sumrin var búsmalinn rekinn í þó nokkra fjarlægð frá heimilinu þar sem var góður sumarhagi. Þar var m.a. unnið úr mjólkinni.

Skjólgarður – Garður sem settur var upp fyrir búfénað til skjóls fyrir veðrum. Krossgarður hét svo ef hann var hlaðinn í kross.

Smiðjuafl – Aflinn, þar sem eldurinn logar, hlóðir.

Sprettutími – Sá tími sem mest grasspretta er snemma sumars.

Tyrft – Að tyrfa, setja torf yfir, þekja.

Ás

Ás – fjárhústóft.

Tættur – Tóftir, húsarústir, tætlur af húsum.

Valllendisbali – Þar sem er þurrt og slétt. Valllendi, völlur, sléttlendi. Bali – þurr og sléttur flötur.

Vorrúningur – Rúningur að vori. Rúningur. Rýað. Þ.e. þegar ullin er klippt, rúin er af sauðfénu.

Þaksléttutími – Snemma sumars þegar frost var farið úr jörðu var land sléttað.

Þúfnasléttun – Þegar þúfur voru skornar burtu eða barðar niður til að slétta út land og auðvelda það til ávinnslu og sláttar.

Ærlengdir – Hver ær um 50-70 cm á lengd. Tvær ærlengdir eru jafnlengd tveggja áa (kinda).

Heimild:
-Smárit Byggðasafns Skagfirðinga, Lesið í landið – Vitnisburður búsetuminja, Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir, 2010.

Húsatóftir

Vindheimar – tómthús við Húsatóftir.