Fiskaklettur

Á skilti framan við Fiskaklett í íbúðarbyggðinni við norðurhöfnina í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi texta á skilti, sem þar er:

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2024.

“Þegar Hafnarfjarðarhraun rann frá Búrfelli í miklum jarðhræringum fyrir um 7000 árum myndaðist norðurströnd Hafnarfjarðar þar sem hraunið rann til sjávar. Þessar hamfarir urðu, ásamt öðru, til þess að höfnin myndaðist og varð frá náttúrunnar hendi ein besta höfn landsins og sú besta á Suður- og Vesturlandi um aldir. Fiskaklettur var í raun ysti oddi hraunsins við höfnina þar sem hann lá út í sjó og við hann var mjög aðdjúpt. Fiskigöngur áttu það til að lóna við klettinn og myndaðist þannig við hann allgóður veiðistaður en þaðan dregur hann nafn sitt.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – uppdráttur H.E. Minor frá 1778.

Á árunum 1776-78 teiknaði sjóliðsforinginn H.E. Minor uppdrátt af Hafnarfirði sem sýndi hús bæjarins ásamt þeim kennileitum og örnefnum sem markverðust þóttu. Þar er Fiskaklettur merktur vestan við verslunarhúsin þar sem hann afmarkar höfnina frá norðri og vestri að vissu leyti. Árið 1900 voru tveir vitar reistir í Hafnarfirði, annar uppi á hrauninu ofan við bæinn en hinn niðri við höfnina, austan Fiskakletts. Árið 1913 var neðri vitinn færður upp á Fiskaklett en sá efri hækkaður nokkuð þar sem hin nýbyggða Fríkirkja skyggði á hann. Neðri vitinn var þá breytt í svokallaðan blossavita.

Hafnarfjörður

Vitinn á Fiskakletti.

Fram undir aldamótin 1900 hafði hver kaupmaður eða útgerðarmaður komið sér upp litlum bryggjum á sínum svæðum við höfnina en árið 1909, þegar fyrsta hafnarreglugerðin fyrir Hafnarfjarðarhöfn tók gildi, hófst skipulag og vinna að almennilegri hafnargerð í fyrsta sinn. Fyrsta skref framkvæmdanna var hafskipabryggjan sem tekin var í notkun árið 1913 en þróun hafnarinnar og framkvæmdir hér voru miklar allt frá stofnun hennar. Miklar landfyllingar voru gerðar, bólvirki hlaðin, bryggjur stækkaðar, þeim breytt og þær færðar til, auk þess sem fiskverkunar- og vöruhús af öllum stærðum og gerðum voru byggð á svæðinu á næstu árum og áratugum.

Hafnarfjörður

Fiskaklettur t.v. – útvörður.

Það var svo um 1960 að nýr viðlegukantur var útbúinn þegar rúmlega 170 m. langt stálþil var sett niður við norðurhöfnina og í kjölfarið enn meiri landfylling í átt að hafnargarðinum. Það var þá sem Fiskaklettur komst endanlega á þurrt. Alla tíð var þó passað upp á að hrófla ekki við honum. Þegar norðurhöfninni var breytt úr hafnarsvæði í íbúðarsvæði var kletturinn friðaður í deiliskipulagi sem sögulegur staður.”

Fiskaklettur

Fiskaklettur – skilti.

Selatangar

Þór Magnússon skrifaði um Seltanga í Lesbók Morgunblaðsins árið 1976:

Selatangar

Verbúðartóftir á Seltatöngum.

“Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt staðurinn hafi verið litt þekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, nokkru austan við Ísólfsskála. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga ng er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram.

Selatangar

Selatangar.

Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selatöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti vermaður af Selatöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.

Selatangar

Selatangar – rekagatan um Katlahraun.

Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri stundu og er vissulega ástæða til að hvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Uppsátrið sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjaðrinum þar vestan við er hellir, Nótarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.”

Sjá meira um Selatanga HÉR.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 24. tölublað (27.06.1976), Þór magnússon; Þjóðminjar – Verbúðarrústir á Selatöngum, bls. 12.

Selatangar

Tóftir á Selatöngum.

Reykjavíkurflugvöllur

Í “Fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Nauthólsvík og Nauthólsveg” árið 2019 segir m.a. um nokkra uppistandandi bragga og hús ofan Nauthólsvíkur:

Braggi 1

Nauthólsvík

Braggar við Nauthólsveg 100.

“Þyrping húsa við Nauthólsvík í útjaðri Reykjavíkurflugvallar á lóðinni Nauthólsvegi 100 (áður Hlíðarfótur 81). Um er að ræða nokkur sambyggð, steinsteypt og hlaðin hús ásamt áföstum bragga.
Þessi hús, ásamt stökum bragga norðar á lóðinni (sjá mhl. 10), voru upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa “Transit camp” eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins.

Reykjavíkurflugvöllur

Herkampar við Reykjavíkurflugvöll og Nauthólsvík.

Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í öðrum húsum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o.fl. Eftir að flugmálastjórn tók við rekstri flugvallarins 1946 var rekið þarna flughótel á vegum hennar. Um skeið (1947-1948) var reksturinn í höndum einkaaðila og hótelið þá nefnt Hótel Ritz. Árið 1948 tók Ferðaskrifstofa ríkisins við rekstri hótelsins sem var eftir það kallað Flugvallarhótelið og var starfrækt til 1951, þegar því var lokað fyrir fullt og allt. Á seinni hluta 6. áratugarins var stór hluti bragganna í þyrpingunni rifinn. Árið 1971 fékk Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey, aðstöðu í hluta bygginganna og er þar enn í dag (2019). Í júlílok 2008 skemmdist austurhluti húsanna í eldi. Húsin voru í umsjón Flugmálastjórnar Íslands til 2010 en þá urðu þau eign Reykjavíkurborgar.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 1946.

Frá 1998 var svæðið ætlað fyrir stríðsminjasafn í deiliskipulagi en því var breytt 2013 og lóðin skilgreind fyrir veitingastað eða aðra starfsemi og þjónustu og leyfð endurbygging á byggingum sem tæki mið af upprunalegri
stærð þeirra og útliti. Í skýrslu Minjasafns Reykjavíkur nr. 161/2013 var lagt til að húsaþyrpingin yrði hverfisvernduð.
Árið 2016 fékkst leyfi til að taka niður braggann austast í þyrpingunni sem dæmdur var ónýtur og byggja nýjan í sömu mynd og innrétta þar veitingastað, einnig endurbyggja og lyfta þaki svokallaðs náðhús norðan við braggann og innrétta þar fyrirlestrarsal, sem og endurbæta áfasta skemmu vestan við braggann og innrétta þar frumkvöðlasetur, auk þess að byggja nýja tengibyggingu milli húsanna í stað eldri millibyggingar. Breytingarnar hafa verið framkvæmdar að hluta (2019).”

Braggi 2

Nauthólsvík

Braggi að Nauthólsvegi 100.

“Stakur braggi af gerðinni BUTLER (bandarísk gerð), matshluti 10 á lóðinni Nauthólsvegi 100 (áður Hlíðarfótur 81). Þessi braggi, ásamt húsaþyrpingu sunnar á lóðinni, var upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa “transit camp” eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins.
Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum, eins og þessum, sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í syðri húsunum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o fl.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 15. 10. 1942. Þarna er ekki búið að reisa “Camp Transit”.

Eftir stríð var rekið þarna flughótel á vegum flugmálastjórnar og seinna Ferðaskrifstofu ríkisins (Flugvallarhótelið) en árið 1951 var hótelinu lokað fyrir fullt og allt. Á seinni hluta 6. áratugarins var stór hluti bragganna í þyrpingunni rifinn.
Af loftmyndum má sjá að bragginn hefur upphaflega verið um helmingi lengri en hann er í dag. Í honum munu hafa verið átta herbergi og gangur eftir honum endilöngum. Einhvern tíma á tímabilinu 1954-1965 hefur vesturhelmingur hans verið fjarlægður. Ekki er ljóst hvort þá var komið fyrir stórum skúrdyrum sem eru á vesturgafli. Að öðru leyti virðist bragginn að mestu óbreyttur að ytra byrði. Á stríðsárunum voru reistir mörghundruð braggar af þessari gerð í Reykjavík. Í dag (2019) stendur þessi braggi eftir sem eini upprunalegi bragginn af þessari gerð á svæðinu.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 1942.

Svæðið sem bragginn stendur á var frá 1998 ætlað fyrir stríðsminjasafn í deiliskipulagi en því var breytt 2013 og lóðin skilgreind fyrir veitingastað eða aðra starfsemi og þjónustu og leyfð endurbygging á byggingum sem tæki mið af upprunalegri stærð þeirra og útliti. Í skýrslu Minjasafns Reykjavíkur nr. 161/2013 var lagt til að þetta hús ásamt húsaþyrpingunni á lóðinni yrði hverfisverndað.
Bragginn hefur undanfarin ár hýst félagsheimili víkingafélagsins Einherja. Við braggann stendur dreifistöðvarskúr, byggður 1990-1995.”

Braggi 3

Nauthólsvík

Braggar við Nauthólsveg 99.

“Tveir samsíða braggar við Nauthólsvík í útjaðri Reykjavíkurflugvallar á lóðinni Nauthólsvegi 99. Þessi braggar voru reistir af breska setuliðinu og eru af gerðinni Nissen. Annar þeirra, sá sem stendur sunnar, virðist sjást á loftmynd sem tekin var í október 1942 og báðir sjást á loftmynd sem tekin var sumarið 1943 (en byggingarár skv. Fasteignaskrá er 1945). Þeir hýstu meðal annars skósmíðaverkstæði og saumastofu hersins á stríðsárunum. Eftir stríð var þarna lengi aðstaða fyrir Flugbjörgunarsveitina.

Nauthólsvík

Flugröst.

Braggarnir eru nú (2019) í eigu ríkissjóðs. Í öðrum þeirra hefur í mörg ár verið félagsheimili starfsmanna Flugmálastjórnar Íslands sem kallað er Flugröst. Hinn (mhl. 02) er skráður sem vörugeymsla (Fasteignaskrá 2019).

Sportkafarafélagið

Nauthólsvík

Nauthólsvegur 100a.

Timburhús við Nauthólsvík, með staðfangið Nauthólsvegur 100a. Um er að ræða hús sem Sportkafarafélag Íslands reisti sem félagsheimili á árunum 1989-1990. Félagið fékk leyfi fyrir byggingu bráðabirgðahúss á lóðinni í júlí 1989, með þeirri kvöð að húsið yrði rifið borgarsjóði að kostnaðarlausu, þegar krafist yrði. Húsið teiknaði Einar Ingimarsson arkitekt.
Um byggingu hússins segir á vefsíðu félagsins:
„Árið 1987 var ákveðið að fara í að reisa félagsheimili Sportkafarafélags Íslands. Keypt var notað timbur frá trésmiðjunni Völundi sem þá var verið að rífa og síðan hófst leit að stað.

Nauthólsvík

Merki Sportkafarafélags Íslands.

Fleiri en einn staður komu til greina en erfitt var að fá leyfi hjá viðkomandi yfirvöldum. Árið 1989 fékkst fjárstyrkur frá borgaryfirvöldum og fékk félagið úthlutaða lóð í Nauthólsvík og bygging félagsheimilisins hófst. Húsnæðið var tekið í notkun 1994 og hefur verið við haldið af natni síðan“ (www.kofun.is: Um SKFÍ – Sagan, sótt í mars 2019).
Árið 2004 fékk húsið staðfangið Hlíðarfótur 81a en árið 2010 var götuheitinu breytt og húsið fékk þá staðfangið Nauthólsvegur 100a.
Húsinu virðist ekki hafa verið breytt að ráði frá því að það var byggt.

Braggi  við Reykjavíkurflugvöll

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur – braggi.

Þyrping húsa við Reykjavíkurflugvöll. Húsin eru öll skráð undir heitinu Flugvöllur 106748 í Fasteignaskrá en tölunar vísa í landnúmerið. Elsta húsið er byggt árið 1941 en það yngsta árið 1997. Flest eru þau byggð frá 1941-1960. Í dag (2013) eru húsin notuð sem flugskýli, tækjageymsla, fjarskiptastöð, spennistöð, geymslur, skrifstofur og fleira.
Bragginn var upphaflega einn fjögurra sambyggðra skemmubragga. Bragginn var upphaflega notaður af setuliðinu en eftir að flugvöllurinn komst í eigu íslenskra flugmálayfirvalda var hann í fyrstu notaður sem geymsla en síðan flutti slökkvilið flugvallarins aðsetur sitt í braggann.

Reykjavíkurflugvöllur

Bragginn við Reykjavíkurflugvöll.

Árið 1962 brunnu hinir þrír braggarnir. Við suðurhlið braggans hefur verið hlaðin viðbygging og settur steinsteyptur umbúnaður fyrir akstursdyr. Ekki er finna heimildir um hvenær það var gert.
Síðustu áratugi hefur bragginn verið notaður sem vélageymsla flugvallarins.”

Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum frá fimmta áratug síðustu aldar hefur bröggum, stríðsminjunum, ofan við Nauthólsvík og við Reykjavíkurflugvöll fækkað svo um munar.

Heimild:
-Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð; Byggðakönnun, Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík 2013.

Reykjavíkurflugvöllur

Nauthólfsvík 1946 – braggahverfið.

Hafnaberg

Við bílastæði á Nesvegi ofan við Hafnaberg eru tvö skilti. Annað felur í sér upplýsingar um bjargið og íbúa þess og hitt eru nánari skil á hinum síðarnefndu. Reyndar er textinn orðinn allmáður, en með því að rýna í hann af gaumgæfni má lesa eftirfarandi á textaskiltinu:

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

“Bjargið er myndað úr basalt hraunlögum sem mynda syllur. Sökum þess hve vogskorið það er býður það upp á gott aðgengi til fuglaskoðunar og í því má sjá flestar tegundir íslenskra bjargfugla.

Efst með brúnum verpa fýlar á breiðum hraunsyllum og í litlum skútum. Flestir taka þó eftir ritunni, bæði er mest af henni og að auki er hún hávær fugl. Bjargið ómar af hástemmdum klið frá ritum, blönduðum lágstemmdari röddum svartfuglanna. Rituhreiðrin eru dreifð um allt bjargið og á mjóum syllum byggir ritan upp hreiður úr sinu og gróðri, sem límd eru saman með driti. Langvían er næst ritunni að fjölda. Langvían er frekar hnappdreifð og býr í þéttu sambýli á tiltölulega breiðum syllum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

Í bjarginu eru hellar með þéttri langvíubyggð. Stuttnefjan verpir á þrengri syllum en langvían og ekki í eins miklu þéttbýli. Stuttnefjum hefur fækkað mikið í Hafnabergi undanfarna áratugi. Eggjum langvíu og stuttnefju er verp beint á grjótsylluna og skurn eggjanna er frekar þykk. Litamynstur þeirra er fjölbreytt og talið að foreldrarnir þekki egg sitt á því. Lögum eggjanna er þannig að þau velta ekki beint undan halla, heldur í hring.

Meðal annarra fugla sem verpa í bjarginu er álkan, en erfitt getur verið að koma auga á hreiður hennar þar sem það er oftast inni í urðum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – textinn.

Lundinn verpir einnig í bjarginu í sprungum og holum, en pörin eru nokkuð fá. Sama er að segja um teistur sem verpa í urðum neðst í bjarginu.

Varp hefst í bjarginu seinni hluta maí og liggja svartfuglar á eggjum í rúma 30 daga. Ungar svartfuglanna hoppa svo ófleygir úr bjarginu um 20 daga gamlir og halda með foreldrunum á haf út. þegar ungarnir hoppa heyrast mikil hljóð í foreldrunum þegar þau hvetja ungana til dáða og tíst í unganum á móti. Þetta gerist helst um lágnættið þegar farið er að skyggja svo skúmar og aðrir ræningjar komi síður auga á ungana þegar þeir taka fyrstu skrefin.”

Hafnaberg

Hafnaberg – hreiður.

Eldey

Við Valahnúk á Reykjanesi er skilti skammt frá bronsstyttu af geirfugli. Á skiltinu er eftirfarandi texti:

Reykjanes

Reykjanes – stytta af geirfugli.

“Reykjanesbær er þátttakandi í alþjóðlegu lisverkefni “The Lost Bird Project”. Listamaðurinn Todd McGrain hefur í nokkur ár unnið að gerð skúlptúra af útdauðum fuglum m.a. geirfuglinum og vill þannig vekja athygli samtímans á umhverfisvernd og ást á náttúrunni.

Hann vinnur fuglana í brons og er hverjum fugli ætlaður staður víðs vegar um heiminn, allt eftir því hvar þeirra upprunulegu heimkynni voru. Verkið er gjöf listamannsins til Reykjanesbæjar.

Í tilefni þess að talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn í Eldey 3. júní 1844 hefur verið ákveðið að styttan afgeirfuglinum verði sett upp neðan við Valahnúk á Reykjanesi og mun fuglinn horfa til Eldeyjar og minna okkur um leið á sameiginlega ábyrgð allra þjóða á náttúru og umhverfisvernd.”

Reykjanes

Reykjanes – skilti.

Brú milli heimsálfa

Við “Brú milli heimsálfa” á vestanverðum Reykjanesskaganum, skammt ofan við Stóru-Sandvík eru tvö skilti, sitt hvoru megin við brúna.

Á vestari skiltinu stendur eftirfarandi:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Vestara skiltið.

“Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Norður-Ameríkuflekanum, sjötta stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. Fyrir um 200 milljónum ára var hann samfastur Evrasíu-, Afríku, og Suður-Ameríkuflekanum eða allt þar til risa meginlandið Pangea tók að klofna í sundur. Atlantshafið tók að myndast í suðri milli Afríku og Suður-Ameríku fyrir um 135 milljónum ára, en aðskilnaður Ameríku og Evrasíu flekana hófst hins vegar fyrir um 65 milljónum ára.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Ameríkuflekinn.

Í vestanverðri Norður-Ameríku má finna tiltölulega ung fjöll þar sem flekinn lendir í átökum við Kyrrahafsflekann. í austanverðri norður-Ameríku er að finna Appalaciafjöllin sem urðu til fyrir meira en 250 milljónum ára er risameginlandið Pangea var að myndast.

Mikill fjöldi fólks á Norður-Ameríkuflekanum býr í stórborgum. Þar er sömuleiðis að finna mikið landflæmi sem eru óbyggðir að kalla, t.d. á Kanadaskyldinum sem er gífurlega stór forngrýtisskjöldur sem var til fyrir um þremur milljörðum ára.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa.

New York er fjölmennasta borgin á Norður-Ameríkuflekanum (19.6 milljónir íbúa árið 2012). Hæsti tindurinn er McKinleyfjall í Bandaríkjunum (6.149 metra yfir sjávarmáli) en mesta dýpið er í Púertó Ríkó rennunni (6.648 metrar undir sjávarmáli).”

Á austara skiltinu stendur:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Austara skiltið.

“Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Evrasíuflekanum, stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. þar er að finna sumar elstu bergmyndanir jarðskorpunnar,nánar tiltekið í Austur-Síberíu á víðáttumestum sléttum jarðar.

Norður-Ameríkuflekinn fjarlægist Evrasíuflekann í vestri og Atlantshafið víkkar um leið. Í austri streyma Kyrrahafs- og Filippseyjaflekarnir inn undir Evrasíuflekann og mynda eldfjallaeyjaboga, s.s. Japan og Filippseyjar.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Evrasíuflekinn.

Í suðri reka Indlands- og Ástralíuflekana í norður. Við árekstur þessara fleka verður til hæsti fjallgarður í heimi, Himalajafjöll.

Um 75% mannkyns búa á Evrasíuflekanum en dreifing íbúanna er ákaflega mosjöfn. Flestir búa í Evrópu, Indlandi, Kína og í Suðaustur-Asíu. þessi svæði eru jafnframt þéttbýlustu svæði jarðar.

Tokyo er fjölmennasta borgin á Evrasíuflekanum (35.7 milljónir íbúa árið 2011). Hæsti tindurinn er Everestfjall í Nepal (8.850 metrar yfir sjávarmáli) en mesta dýpið í Galatheudjúpinu (10.540 metrar undir sjávarmáli).”

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – austurveggur gjárinnar.

Reykjanes

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Tvö þeirra eru um vitana, annars vegar á Valahnúk og hins vegar á Vatnsfelli. Um fyrrnefnda vitann segir:

Reykjanesviti

Vitinn á Valahnúk.

“Fyrsti ljósvitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 8.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með koparhvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaðu á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.

Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar og speglar í vitanum fóru í gólfið. Næstu nætt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn.

Reykjanesviti

Flóraður stígur milli hús vitavarðar að vitanum á Valahnúk.

Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum fram á brún. Því var ákveðið að reisa nýjan vita á Vatnsfelli og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjótið úr gamla vitanum á Valahnúk.

Grjótið hér til hægri eru leifar vitans.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – leifar af geymsluskúrnum undir Valahnúk.

Hleðslan til vinstri eru leifar geymsluhússins sem þjónaði vitanum.”

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk – skilti.

Reykjanesviti

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Á einu þeirra eru upplýsingar um Reykjanesvita. Þar stendur eftirfarandi:

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

“Reykjanesviti er elsti vitinn sem nú stendur við Íslandsstrendur, tekinn í notkun 20. mars 1908. Vitinn var fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum 1. desember 1904.

Vitinn er sívalur turn, 9 metrar í þvermál neðst en 5 metrar efst. Hæð hans er 20 metrar og stendur hann á breiðri 2.2 metra hárri undirstöðu. Ljóshúsið er 4.5 metrar á hæð og er heildarhæð vitans 26.7 metrar. veggirnir eru tvískiptir. Ytra byrðið er úr tilhöggnu grjóti en innra byrði úr steinsteypu. Þykkt þeirra við sökkul er 3.2 metrar en efst er veggþykktin 1.2 metrar.

Upphaflegur ljósgjafi vitans var steinolíulampi og var ljós hans magnað með 500 millimetra snúningslinsu. þetta snúningstæki, knúið af lóðum sem vitavörðurinn dró upp með reglulegu millibili. Gastæki var sett í vitann árið 1929 og var þá gasþrýstingurinn látinn snúa linsunni. Vitinn var rafvæddur árið 1957.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Vitavörður var búsettur á Reykjanesi frá upphafi vitareksturs árið 1878 fram til ársins 1999. Íbúðarhúsið sem nú stendur við vitann var byggt árið 1947. Vitaverðirnir stunduðu búskap samhliða starfi sínu og má víða sjá ummerki um búsetu þeirra m.a. tóftir eldri húsa og hlaðna garða.”

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti.

Stampar

Neðan gígs á Stampagígaröðinni vestast á Reykjanesskaganum er skilti með eftirfarandi texta:

Stampar

Stampar.

“Tvær gossprungur liggja frá sjó inn í land á vestanverðu Reykjanesi og mynda gígaraðir. Þessar gígaraðir hafa verið kenndar við Stampa. Gígaraðirnar eru frá tveimur tímaskeiðum og fylgja stefnunni SV-NA sem er algengasta sprungustefna á Reykjanesi.

Sú eldri myndaðist í gosi á tæplega 4 kílómetra langri sprungu fyrir 1.800-2000 árum.

Stampar

Gígur á Stampagígaröðinni.

Yngri-Stampagígaröðin myndaðist í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240. Gígaröðin er um 4 kílómetrar að lengd og er flatarmál þess hrauns sem þá rann um 4.6 km2. Þeir tveir gígar sem næst eru veginum, nefndir Stampar, eru við norðurenda gígaraðarinnar. Sunnar á gígaröðinni má sjá stæðilega gíga s.s. Miðahól. Eldborg dýpri og Eldborg grynnri sem allir voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Flestir gígarnir eru þó klepragígar og lítt áberandi.

Þess má geta að í Reykjaneseldum 1210-1240 runnu fjögur hraun í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum auk þess sem neðarsjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.

Stampar

Gígar á eldri gígaröðinni.

Hundrað gíga leiðin, merkt gönguleið, liggur að hluta um Stampahraunið. Leiðin hefst við Valahnúk á Reykjanesi og er 13 kílómetra löng. leiðin liggur m.a. um háhitasvæðið á Reykjanesi, fram hjá gjall- og klepragígum og móbergsfjallinu Sýrfelli að Stampagígunum. Þaðan er gengið um úfið helluhraun og sandskafla og þræðir leiðin sig frá vesturhlið gígsins sem er næst veginum, áfram eftir gígaröðinni, sjávarmegin við Reykjanesvirkjun. Gígarnir sem gengið er með fram eru fjölmargir og viðkvæmir.

Leyfilegt er að ganga á gíginn sem er nær veginum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að raska ekki viðkvæmum jarðminjum.”

Stampar

Stampar – skilti.

Reykjavíkurflugvöllur

Vorið 1919 kom Rolf Zimsen, flugmaður og frændi borgarstjórnans Knud Zimsens, til landsins til að kanna aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi.

Reykjavíkurflugvölur

Vatnsmýrin, Seljamýri og nágrenni, milli Skildingarness og Öskjuhlíðar, árið 1903.

Rolf leizt bezt á Vatnsmýrina sem flugvallarstæði og bæjarstjórnin lagði til 92.300 m² af svonefndu Briemstúni. Samtímis var hið fyrsta af fjórum fyrirtækjum, sem hlutu nafnið „Flugfélag Íslands”, stofnað og fyrsta flugvélin kom til landsins í stórum kassa. Hann var fluttur að skýlinu, sem hafði verið reist í Vatnsmýrinni.

Reykjavíkurflugvölur

Avro 504K.

Klukkan var um það bil 17:00 þegar fyrsta íslenska flugvélin lyfti sér til flugs frá íslenskri grund í fyrsta sinn. Flugvélin, sem var eign Flugfélags Íslands og alveg ný, var af breskri gerð, Avro 504K, sem var tvívængja með 110 ha. Le Rhöne-mótor. Flugmaðurinn var kapteinn Cecil Faber. Völlurinn var í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Þetta var þann 3. september 1919. Er hægt að hugsa sér spennuna sem var í loftinu á þessum tíma, á þessari stundu? Flug á Íslandi var að hefjast!

Reykjavíkurflugvölur

Kort af Skildinganesi og Seljamýri árið 1933.

Eflaust hafa margir bæjarbúar séð þegar fyrsta flugvélin flaug yfir Reykjavík þetta síðdegi í byrjun september. Búið var að kynna það að vélin yrði til sýnis í skálanum á flugvellinum að kvöldi 3. sept. kl: 8, og átti þar að halda hátíð og væntanlega fljúga fyrsta flugið fyrir augum almennings.

Á forsíðu Vísis 3. sept. auglýsing:
Flugvélin er nú sett saman og verður sýnd í skálanum á flugvellinum kl. 8. Aðgöngumiðar seldir hjá Sigf. Eymundssyni, í Ísafold og við inngangana og kosta 50 aura. Harpa leikur væntanlega á lúðra á flugvellinum. Inngangar að veginum niður á völlinn eru af Laufásvegi fyrir utan Laufás og af Melunum beint niður af Loftskeytastöðinni – Flugfélagið.”

Reykjavíkurflugvöllur

Junkers f13. Fyrsta farþegaflugvél Flugfélags Íslands.

En hvað gerðist? Af hverju flaug Capt. Faber af stað á þessum tíma síðdegis? Var búið að undirbúa það flug? Almenningur virðist ekki hafa vitað af flugi á þessum tíma. Hátíðin átti að hefjast kl: 8 um kvöldið. Í frétt Morgunblaðsins daginn eftir, þ.e.a.s. 4. september er frétt þar sem m.a. segir:
Fyrsta flugið á Íslandi. Capt. Faber flaug tvisvar í gær.” Svo segir, ”En um kl. 5 í gær (3. sept.) gerðist óvæntur atburður suður á Flugvelli. Reynsluflugið var ákveðið þá strax, og án þess að nokkur vissi, ók Faber vélinni út á völl, settist við stýrið og renndi af stað. Vélin rann nokkra tugi faðma niður eftir túninu, eins og álft sem flýgur upp af vatni, og loks losnaði hún frá jörðu og smáhækkaði.

Reykjavíkurflugvöllur

Flugfélagið tók á leigu flugvélar frá Þýskalandi ásamt áhöfnum. Fyrsta flugvélin var af Junkers F.13 og bar einkennisstafina D-463. Fjórar Junkers vélar voru notaðar til farþegaflugs, póstflutninga og síldarleitar á Íslandi á árunum 1928 til 1931, þó aldrei nema tvær í einu, þrjár þeirra voru af gerðinni Junkers F.13 og ein af gerðinni Junkers W.33d. Vélarnar báru íslensk nöfn; Súlan, Veiðibjallan og Álftin.

Hljóðið frá mótornum heyrðist inn í bæinn og menn fóru að skima í kringum sig. Og allir, sem skimuðu, ráku augum í það sama: vélin leið áfram um loftið eins og risavaxinn fugl, stöðugri en nokkur vagn á rennsléttum vegi, sneri sér krappar beygjur og tyllti sér eftir dálitla stund aftur á grassvörðinn.”

Þennan sama dag stóð þetta í Bæjarfréttum Vísis:
Flugvélin er nú komin í það horf, að ekki vantar nema herslumuninn, að henni verði treyst til að hefja sig á loft. Eins og auglýst er hér í blaðinu verður hún sýnd almenningi í kveld kl. 8. Vel er mögulegt að fyrsta flugsýningin geti orðið annað kveld. Mótorinn hefur verið látinn fara af stað og reynst ágætlega.- Stendur af loftskrúfunni svo mikið hvassviðri að það fjúka höfuðföt af mönnum, er standa fyrir aftan vélina. Ættu menn, er vilja sjá þetta nýtískunnar furðuverk að nota nú tækifærið, því að við flugsýningarnar fá menn ekki að koma í flugskálann eða alveg að vélinni. Alþingismönnum og flugfélagsmönnum er boðið að skoða vélina kl. 7 ½.”

Reykjavíkurflugvöllur

Teikning Gústafs E. Pálssonar verkfræðings af flugvelli í Vatnsmýrinni frá árinu 1937.

Næsta ár tók vesturíslenzkur flugmaður, Frank Fredrickson, við starfinu. Fyrsta slys tengt flugi á landinu varð 27. júlí 1920, þegar hætt var við flugtak og vélin lenti á tveimur börnum, 10 ára stúlku, sem lézt, og bróður hennar fjögurra ára, sem slasaðist mikið. Rekstur vélarinnar gekk ekki og hún var seld úr landi árið eftir. Árið 1928 var nýtt félag stofnað (Alexander Jóhannesson). Það starfaði til 1931 en heimskreppan og fleiri áföll urðu því að falli. Næstu tvö árin notuðu hollenzkir veðurathugunarmenn völlinn, sem hafði verið sléttaður og lagaður töluvert. Skýlið og fleiri mannvirki voru seld, þegar þeir fóru, því að mikill skortur var á alls konar efniviði.

Í “Fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Nauthólsvík og Nauthólsvíkurveg” frá árinu 2019 má lesa eftirfarandi um Reykjavíkurflugvöll:

Reykjavíkurflugvöllur

Á Vatnsmýrarhól hafa verið útihús frá Skildinganesi sem hætt var að nota um 1930, öðru húsinu var síðan raskað við gerð flugbrautanna. Á hólnum var þriggja bursta rúst en henni var raskað þegar fyrsti flugturnninn var byggður þar um 1940 og hóllinn þá nefndur Flugstjórnarhóll. Enn má greina hleðslur í hólnum frá eldra húsinu.
Á korti frá 1933 varpað yfir loftmynd frá 2012. Greinilega má sjá tvær rústir útihúsa, önnur þriggja bursta á hólnum og hin einar burstar rétt suðvestan við hólinn.
Þarna var töluverður búskapur um 1930. Þá var Vatnsmýrinni skipt upp í Vatnsmýrarbletti en Skildingnesmegin var einnig búið á litlum skikum. Búskapur þessi lagðist af þegar flugvöllurinn var gerður. Öll íbúðarhúsin við Reykjavíkurveg og Hörpugötu sem lentu inni á flugvallarsvæðinu, eða um 25 hús, þurftu að hverfa.

“Flugsaga Íslands hófst miðvikudaginn 3. september árið 1919 kl. 17.00 þegar fyrsta íslenska flugvélin lyfti sér til flugs frá íslenskri grund. Flugvélin, sem var í eigu Flugfélags Íslands, var af breskri gerð og var flugmaðurinn kapteinn Cecil Faber. Völlurinn var í Vatnsmýrinni í Reykjavík. [Flugvélin var Avro 504K.]
Flugfélag Íslands var stofnað í Reykjavík í mars 1919. Eitt fyrsta mál á dagskrá hins nýstofnaða félags var að finna heppilegan stað fyrir starfsemina. Félagið sendi bæjarstjórninni í Reykjavík eftirfarandi bréf þann 4. júní 1919:
„Flugfélag Íslands er stofnað til þess að undirbúa og koma á flugsamgöngum hér á landi, svo fljótt sem ástæður leyfa. Eitt hið fyrsta sem þarf að útbúa, eru tryggir og góðir lendingastaðir fyrir flugvélarnar og er auðsætt að ein helsta flughöfnin verður að vera hér í Reykjavík. Til hennar útheimtist svæði sem sléttast og grasi vaxið, með gott svigrúm til allra hliða, og liggi hún þó sem næst bænum.
Í samráði við Rolf Zimsen liðsforingja, flugmann úr danska hernum, sem nú er hér staddur, höfum vér athugað staði hér nærlendis, sem komið gætu til greina. Urðum vér ásáttir um, að heppilegast og kostnaðarminnst verði að útbúa góða flughöfn á túnblettum þeim er liggja í Vatnsmýrinni suðvestanverðri, því að á þeim er landrými gott og svigrúm nægilegt í kring, þar eð hvorki eru þar hæðir svo háar, né byggingar eða símar svo nærri, að flugið heftist.

Reykjavíkurflugvöllur

Kort sem sýnir erfðafestulönd og byggðina sem hvarf undir flugvöllinn.

Vér leyfum oss því hér með að óska þess að háttvirt bæjarstjórn útvegi Flugfélaginu til kaups svæði til flugvallar á þessum stað, helst eigi minna en 400×500 metra að stærð, eða tryggi félaginu á annan hátt sem varanlegust afnot af þessu svæði með sem aðgengilegustum kjörum.“
Málinu var vísað til fasteignanefndar og fjárhagsnefndar bæjarins. Fasteignanefnd Reykjavíkur taldi „… helst tiltækilegt að taka til þessara afnota hæfilegan hluta af erfðafestulandi E. Briem í Vatnsmýrinni eins og stjórn félagsins hefur farið fram á, og leigja það flugfélaginu …“
Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti síðan þann 26. júní 1919 ákvörðun fasteignanefndar og tók um 92.300 fermetra af túni Eggerts Briem til að nota semlendingarstað fyrir flugvélar.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur og nágrenni – herforingjaráðskort.

Eggert fékk 15 aura fyrir hvern fermetra. Samkvæmt lýsingu í Morgunblaðinu þá var inngangur að flugvellinum af miðjum þeim vegi sem lá yfir Vatnsmýrina þvera frá Briemsfjósinu við Laufásveg og yfir að Loftskeytastöðinni. En menn spurðu sig í blöðunum hvernig þeir færu að því að lenda á flugvél í Vatnsmýrinni þar sem í hugum manna var hún eitt forarfen. Í einu blaðanna segir: „En þeir sem nú þessa dagana hafa komið út á flugvöll, falla hreint í stafi. Svona stórar og skrúðgrænar grasflesjur héldu þeir ekkiað þarna væru til. Síðustu árin, eftir því sem skurðum hefir fjölgað, þá hafa þessi tún þornað og eru nú skráþurr, eins og önnur tún …Væri haldin hér þjóðhátíð, þá væri ómögulegt að hugsa sér fegurri stað í nánd við bæinn en flugvöllinn.“
Rekstur Flugfélags Íslands stóð ekki undir sér og var flugvélin seld úr landi árið 1921.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur og nágrenni – AMS kort.

Árið 1928 var stofnað í Reykjavík nýtt flugfélag en þó með sama nafni og hið fyrra. Bækistöð þess var í Vatnagörðum þar sem félagið notaðist einkum við sjóflugvélar. Félagið leigði þýska sjóflugvél af Junkers-gerð og tók hún 5 farþega og var notuð til farþega-, póst-, sjúkra- og síldarleitarflugs. Vélin var skírð Súlan og ári síðar bættist Veiðibjallan við. Rekstur félagsins stóð til ársins 1931 en varð þá að hætta sökum fjárskorts. Árið 1930 var flugvöllurinn í Vatnsmýrinni orðinn lélegur, en á árunum 1932 og 1933 notuðu hollenskir flugmenn, sem voru hér við veðurathuganir, völlinn. Nokkru áður en þeir komu höfðu verið gerðar endurbætur á landinu, það sléttað og brýr settar á skurði. Þá var einnig reist flugskýli sem var síðar selt til niðurrifs eftir að rannsóknum hollensku flugmannanna lauk. Árið 1937 heppnaðist einnig fyrsta tilraun til svifflugs hér á landi og var það í Vatnsmýrinni.

Örninn

Þessi Waco-flugvél var keypt frá Bandaríkjunum haustið 2009. Hún er af nákvæmlega sömu tegund og ÖRNINN, fyrsta flugvél Flugfélags Akureyrar, sem smíðuð var 1937 og kom til landsins 1937, þá á flotum. Vélin var oftast kölluð Örninn, eða Akureyrarflugvélin. Eftir að aðalstöðvar Flugfélags Akureyrar voru fluttar frá Akureyri til Reykjavíkur, og nafninu breytt í Flugfélag Íslands, fékk félagið aðra vél sem var nánast sömu tegundar og Örninn.

Um svipað leyti og Flugfélag Akureyrar var stofnað, árið 1937, var mikið rætt um að gera varanlegan flugvöll í Reykjavík og var gildi góðs flugvallar jafnað við mikilvægi Reykjavíkurhafnar. Nokkrir staðir sem komu til greina voru athugaðir. Það voru Kringlumýrin, hraunið fyrir sunnan Hafnarfjörð, Bessastaðanesið, Sandskeiðið, flatirnar austan Rauðhóla, við Ártún og að endingu Vatnsmýrin í Reykjavík. Flugmálafélag Íslands, sem var stofnað árið 1936 í þeim tilgangi að ryðja flugi braut, barðist einkum fyrir gerð nothæfs flugvallar í Vatnsmýrinni. Samkvæmt greinargerð voru teiknaðar fjórar brautir sem ætlaðar voru til lendingar og burtfarar flugvéla og var stefna þeirra eftir helstu vindáttum í Reykjavík. Einnig var lega þeirra ákveðin að nokkru leyti eftir byggingum sem þegar voru á svæðinu umhverfis flugvöllinn.

Reykjavíkurflugvöllur

Horft í suður yfir bæjarstæði Nauthóls og braggabyggðina við Nauthólsvík 1946. Á bæjarstæðinu hafa verið reist fjarskiptamastur.

Þegar umræður um varanlegan flugvöll stóðu sem hæst var búið að tengja saman þrjár landspildur í mýrinni með tveimur brúm og myndaðist þannig austur-vestur flugbraut. Brautin var þó talsvert blaut og beindu menn þá sjónum sínum að landinu suður með og vestur af Öskjuhlíð, sem var þurrara. Það sem stóð í vegi fyrir að þar yrði sett niður flugbraut var að til stóð að þar yrði íþróttaleikvangur bæjarins. Fékkst þá leyfi til að setja niður tilraunaflugbraut vestan við þar sem gamli flugturninn stendur nú. Þar var gerður vísir að flugbraut sem var notuð um skamma hríð.

Reykjavík

Hermaður á verði í Aðalstræti.

Reykjavík var hernumin þann 10. maí 1940 af bresku herliði. Breski herinn hóf að gera herflugvöll við Reykjavík í fyrri hluta október árið 1940. Þeir fundu flugvellinum stað á svipuðum slóðum vestan Öskjuhlíðar og flugvelli Reykjavíkur var ætlaður staður.
Flugbrautirnar sneru að mestu eins þó að stærðir þeirra væru aðrar. Þegar ríkisstjórn Íslands varð ljóst að Bretum var alvara með gerð flugvallar á þessum stað ákvað hún að taka landið eignarnámi. Þann 16. nóvember 1940 voru gefin út bráðabirgðalög „… sem heimiluðu ríkisstjórninni að taka eignarnámi allt það land við Skerjafjörð sem þurfti undir flugvöllinn og greiða með því götu framkvæmdarinnar.“

Reykjavíkurflugvöllur

Niðurrif íbúðarhúsa á Skildinganesi [Skerjafirði] hófst um miðjan júlí 1941. Á þessari loftmynd frá 10. júní 1941 sést að svæðinu næst flugbrautunum hefurverið umturnað. gerð N/S-brautarinnar er komin lengst á veg en við norðurenda hennar má þó enn greina gömlu flugbrautirnar á túnunum í Vatnsmýri. Þrjár trébrýr (ljós hvít strik) liggja yfir skurði til þess að skapa nægilega brautarlengd og hjá þeim stendur flugskýri. Byggðin á Skildingarnesi (sést aðeisn að hluta) er enn þá óskert en NV/SA-brautin, sem er í byggingu, teygir sig að henni. Við Nauthólsvík er risið braggahverfi. – Landmælingar Íslands

Vinna við gerð vallarins hófst í fyrri hluta október 1940 og var fram haldið næsta vor. Fjöldi Íslendinga vann við flugvallargerðina, auk hermanna. Byrjað var á miðjunni á þeim stað þar sem Íslendingar höfðu byrjað að gera flugvöll. Fyrst var „… grafin burt mold og aur og fyllt síðan upp með grjóti sem sótt var í Öskjuhlíðina. Ofan á þetta var jafnað rauðamöl sem tekin var úr Rauðhólunum austan Reykjavíkur … Síðan var rauðamölin völtuð og ofan á hana kom þykkt lag steinsteypu og ekkert til sparað … Steypt voru breið svæði í beinum línum ýmist norður/suður eða austur/vestur.“
Á meðan á vinnunni stóð gengu einar tíu til tólf steypuhrærivélar á vellinum frá fimm á morgnana til tíu á kvöldin. Unnið var á tvískiptum vöktum fram til 1. september 1941, en þá var vaktavinnu hætt og unnið frá hálf sjö á morgnana til sex á kvöldin. Þá hafði flugvélum og mannvirkjum á vellinum fjölgað og var þá enn hert á eftirliti með vellinum og öllu því sem þar var.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur 1944.

Flugvöllurinn var formlega opnaður þann 4. júní 1941. Þá var haldin stutt athöfn til að fagna því að flugbraut nr. 1 var tilbúin til notkunar. Öllum verkamönnum og hermönnum á flugvellinum var boðið að vera við athöfnina þar sem Major General H.O. Curtis, yfirforingi breska setuliðsins, hélt stutta tölu. Hann þakkaði íslensku verkamönnunum og gaf þeim eins dags kaup sem viðurkenningu fyrir dugnað og góða samvinnu. Að athöfninni lokinni gengu allir til vinnu sinnar.
Auk flugvallarins reis á stríðsárunum fjöldinn allur af mannvirkjum á svæðinu. Stór hluti þeirra er nú (2019) horfinn en þó má enn finna leifar mannvirkja eins og stjórnbyrgi, skotgrafir, loftvarnarbyrgi, varnarveggi fyrir eldsneytistanka, neðanjarðarvatnstanka, bryggjur, vegi, fjölda gólfa og grunna undan bröggum og öðrum byggingum, akstursbrautir fyrir flugvélar o.s.frv.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur 1943.

Þá risu á flugvallarsvæðinu um 500 braggar og var braggabyggðin einna þéttust vestan í Öskjuhlíðinni og út með Fossvoginum. Nokkrir braggar standa enn vestan við rætur Öskjuhlíðar og einn við gamla flugturninn. Einnig hefur hluti af flutningsbúðum eða Transit Camp verið endurgerður í Nauthólsvík í nýrri mynd (2018). Á stríðsárunum hýstu búðirnar flugmenn og aðra sem áttu leið um Reykjavíkurflugvöll, en eftir stríð var þar starfrækt flughótel á vegum flugmálastjórnar um margra ára skeið. Þá eru öll stærstu flugskýlin, sem nú standa á Reykjavíkurflugvelli, frá tíma setuliðsins. Nú (2019) hefur nær allt lauslegt frá stríðsárunum verið fjarlægt af rannsóknarsvæðinu eða orðið ryði að bráð. Á það einnig við um gaddavírsgirðingar og sandpokavígi.

Nauthólsvík

Þessi húsvoru upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa “Transit camp” eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins. Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í öðrum húsum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o.fl. Eftir að flugmálastjórn tók við rekstri flugvallarins 1946 var rekið þarna flughótel á vegum hennar. 

Íslendingar tóku formlega við Reykjavíkurflugvelli þann 6. júní 1946. Þann dag tók Flugmálastjórn Íslands við rekstri og viðhaldi flugvallarins. Við breytingar á skipulagi Flugmálastjórnar Íslands tóku Flugstoðir ohf. við rekstri og viðhaldi flugvallarins. Árið 2010 sameinuðust Flugstoðir og Keflavíkurflugvöllur ohf. í Isavia sem tók við starfsemi beggja fyrirtækja. Ummerki frá hernámsárunum afmást jafnt og þétt og í dag (2019) eru flugvélastæði, flugskýli, nokkrir braggar og gamli flugturninn við flugvöllinn ásamt minjum í Öskjuhlíð einn helsti vitnisburður um hernámsárin í Reykjavík. Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs á Íslandi og einn af fjórum alþjóðlegum flugvöllum landsins.”

Heimildir:
-Nauthólsvík og Nauthólsvíkurvegur; Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík 2019, bls. 15-21.
-https://is.nat.is/reykjavikurflugvollur/
-https://www.flugsafn.is/is/flugsagan/flug-i-100-ar

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur 1942.