Rauðavatnsstöðin

Suðaustan við Rauðavatn er skilti; „Rauðavatnsstöðin – Upphaf skógræktar á höfuðborgarsvæðinu„. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Rauðavatnsstöðin

Rauðavatnsstöðin – skilti.

„Skógar voru fáir og illa farnir á Íslandi, þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur var stofnað 25. ágúst 1901. Félagið var stofnað til að safna fé til að kaupa landskika nálægt Reykjavík og rækta þar skóg.
Að félaginu stóðu ýmsir þekktir bæjarbúar, og svo danskur skógfræðingur að nafni Christian Flensborg, sem hafði umsjón með öllum framkvæmdum. Flesborg taldi að við Rauðavatn væri tilvalinn staður fyrir lystigarð í framtíðinni. Staðurinn væri stutt frá höfuðborginni, við lítið vatn og með fagurt útsýni yfir Rauðhóla.

Rauðavatnsstöðin

Rauðavatnsstöðin – Tré ársins 2021.

Ýmsar trjátegundir voru gróðursettar við Rauðavatn á næstu árum. Plönturnar flutti Flensborg með sér frá Danmörku, þegar hann sigldi til Íslands á vorin. Flestar þrifust þær illa enda vanar hlýrra loftslagi og mikil afföll urðu í flutningunum yfir hafið. Aðrar voru gróðursettar í þeirra stað og kom Flensborg einnig upp græðireit þar sem trjáplöntur voru ræktaðar upp af fræi.
Þetta var mikið framfaraskref því lítið var vitað um hvaða tegundir gætu dafnað á Íslandi aðrar en birki og reynir og erfitt að nálgast fræ eða trjáplöntur.
Sum af fyrstu trjánum sem íbúar í Reykjavík og víðar gróðursettu í görðum sínum eru komin úr Rauðavatnsstöðinni. Talsverður gangur var í ræktunarstarfinu við Rauðavatn fyrstu árin en þrótturinn minnkaði er leið á annan áratug aldarinnar. Trén, einkum fjallafura, héldu þó áfram að vaxa og mynda skjól og jarðvegsskilyrði fyirir uppvöxt annarra trjáa.
Rauðavatnsstöðin var vinsæll áfangastaður fyrir borgarbúa í helgarferðum fram undir miðja öldina. Í dag er þarna fallegt skóglendi sem er hluti af miklu stærra útivistarsvæði upp af Rauðavatni. Lystigarðurinn sem Flensborg og félagar létu sig dreyma um, var hins vegar stofnaður örskot frá, við annað vatn og með fagurt útsýni yfir Rauðhóla. Og fékk nafnið Heiðmörk.“

Rauðavatnsstöðin

Rauðavatnsstöðin – skilti.

Móakot

Þrír bæir Þingvallasveitar voru neðan gamla Þingvallavegarins 1890, þ.e. Skálabrekka, Móakot og Heiðarbær. Ljóst er hvar bæjarstæði Skálabrekku og Heiðarbæjar voru fyrrum, en margt er hins vegar á huldu um bæjarstæði Móakots.

Móakot

Móakot – bæjartóftirnar.

Þegar FERLIRsfélagar reyndu að nálgast fyrrum bæjarstæðið komu þeir hvarvetna að lokuðum hliðum sumarbústaðaeigenda. Því var, líkt og fyrrum, ákveðið að feta bara yfir torærur og klofa yfir girðingar, með það fyrir augum að nálgast markmiðið. Það er reyndar alveg ótrúlegt hvernig einstakir sumarbústaðaeigendur geti útilokað almenning frá einstökum minjastöðum innan sveita, langt út fyrir umráðasvæði sín. Bara það eitt er verðugt umfjöllunarefni út af fyrir sig.

Móakot

Móakot – útihús.

Í „Örnefnaskráningu Guðmanns Björnssonar um Skálabrekku„, fæddur 13. nóvember 1909, segir: Guðmann fluttist að Skálabrekku árið 1941 frá Hagavík í Grafningi, ásamt konu sinni, Regínu Sveinbjarnardóttur, en hún ólst upp á Heiðarbæ, næsta bæ við Skálabrekku. Hafa þau átt þar heima síðan. Megnið af örnefnum jarðarinnar lærði Guðmann af Þorláki Björnssyni, sem bjó á Skálabrekku á undan þeim. Ennfremur mun Regína hafa þekkt mörg þeirra“.
Í örnefnalýsingunni segir um Móakot: „Nú verður haldið utast í landið neðan Þingvallavegar. Móakot var þar við Móakotsána undir Móakotsás. Móakot fór í eyði um 1865. Þarna undir Ásnum eru nokkrir sumarbústaðir. Þar er nú kominn mikill skógur. Þarna rétt hjá er vaðið í Ánni og Móakotsárfoss skammt fyrir ofan, fellur fram af 7 m háu bergi.“

Móakot

Móakot – útihús.

Í „Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél“ Gunnars Grímssonar frá því mái 2020 segir:
„Heiðarbær, Skálabrekka og Móakot. Fjögur lögbýli eru ofan Almannagjár og á þeim er enn búið. Syðst er Heiðarbær, þar sem Hrolleifur Einarsson er sagður hafa búið og er landnám hans talið hafa náð frá Öxará og suður fyrir Heiðarbæ (Íslenzk fornrit I, bls. 391). Heiðarbær átti sel við Selbrúnir í hlíðunum norðan bæjarins („Heiðarbær 1“, e.d., bls. 2). Norðaustan Heiðarbæjar er Skálabrekka, þar sem Landnámabók getur þess að Ketilbjörn hinn gamli hafi reist sér skála á leið sinni til að nema land á Mosfelli í Grímsnesi (Íslenzk fornrit I, bls. 385).

Móakot

Móakotsárfoss.

Áin Móakotsá rennur sunnan Skálabrekku en hún er kennd við hjáleiguna Móakot, sem var í byggð á miðri 19. öld og fór í eyði um 1865 (Hjörtur Björnsson, 1937, bls. 165; „Skálabrekka 1“, e.d., bls. 4). Rústir eru sjáanlegar við árbakka Móakotsár, Skálabrekkumegin, nokkuð skammt frá Þingvallavatni (Jóhannes Sveinbjörnsson, munnleg heimild, febrúar 2020). Bæjarrúst Móakots var skráð ásamt útihúsum af nemendum í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2004, í trjáreit austan Móakotsárfoss. Var það hluti af vettvangsnámskeiði sem var haldið í kjölfar svæðisskráningar fornleifa í Þingvallasveit þar um kring árið áður (Guðrún Alda Gísladóttir og Orri Vésteinsson, 2003).“

Heiðarbær

Tóftir Móakots í Þingvallasveit – nánast horfnar í skóg árið 2014.

Sá er þetta skrifar tók þátt í fornleifaskráningarverkefni HÍ undir forystu Guðmundar Ólafssonar árið 2014. Tilgangurinn var að teikna upp rústir Móakots. Síðan eru liðin 11 ár. Það verður að segjast eins og er að nákvæmlega ekkert hefur verið gert til að gera framangreindar minjar aðgengilegar almenningi, hvað þá að varðveita þær fyrir ágengri skógrækt. Í dag eru minjarnar ekki svipur hjá sjón, frá því sem var, auk þess sem nálægur sumarbústaður getur varla talist lengur svipur hjá sjón.

Heimildir:
-Skálabrekka, Guðmann Ólafsson á Skálabrekku skráði, snemma á árinu 1982.
-Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél. Ritgerð til B.A.–prófs í fornleifafræði Gunnar Grímsson, 2020, bls 29.

Móakot

Móakot – bæjarminjarnar hornar í skóg 2025.

Ingólfur Arnarsson

Helgi Þorláksson, prófesor emeritus í sagnfræði við HÍ, svaraði spurningunni „Var Ingólfur Arnarsson til í alvörunni?“ á Vísindavefnum:

Helgi Þorláksson

Helgi Þorláksson.

„Um 1940 voru dásamlegir tímar í íslenskri miðaldasagnfræði, fræðimenn trúðu flestum Íslendingasögunum eins og nýju neti um menn og málefni 10. aldar en þeirri dýrð lauk um 1950. Því olli líklega einkum að bókfestukenningin svonefnda hafði skotið rótum. Hún nefndist öðru nafni íslenski skólinn og samkvæmt henni voru Íslendingasögur að mestu skáldskapur, og ónothæfar sem heimildir um menn og atburði tímabilsins frá um 870 til um 1050. Gætti aukinnar gagnrýni í allri notkun miðaldaheimilda og er tímaritið Saga, sem hóf göngu um miðja síðustu öld, skýr vitnisburður um slíkar hræringar.
Landnámabók taldist þó halda velli. Stundum er ósamræmi milli gerða hennar og sú gerðin sem helsti sérfræðingur síns tíma um Landnámu, Jón Jóhannesson, taldi standa næst frumtexta segir að Ingólfur hafi verið Björnólfsson. Jón benti á að Björnólfur kunni að hafa haft viðurnefnið örn. Þannig gat Ingólfur verið bæði Arnarson og Björnólfsson.

Ingólfur Arnarsson

Stytta Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli. Styttan var afhjúpuð árið 1924 og er afsteypa. Frummyndin var gerð árið 1907.

Um 1970 var hins vegar almennt farið að draga í efa vitnisburð Landnámu og Íslendingabókar um sögu Íslands fyrir 1050. Sjálfstæðisbaráttan var að baki, lýðveldið að verða aldarfjórðungs gamalt og eðlilegt að endurskoða gömul viðhorf. Hið nýja viðhorf var að heimildir eins og Landnáma segðu jafnvel meira um þá sem sögðu frá, létu festa frásagnir á skinn, en hina sem sagt var frá. Hin rétta spurning var þá ekki: Var Ingólfur til? Heldur: Hvaða tilgangur vakti fyrir þeim sem sögðu frá Ingólfi? Efasemdir komu jafnvel fram um Íslendingabók Ara fróða og það sem hann segir um Ingólf. Til greina þótti koma að það hefði verið samkomulagsatriði ráðamanna um 1120 að telja að Ingólfur hefði verið fyrstur og merkastur landnámsmanna, slíkt hefði getað þjónað hagsmunum ráðamanna á tímum Ara.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Örnefni voru líka gengisfelld sem heimildir um 1970, með svonefndri náttúrunafnakenningu. Höfundur hennar er Þórhallur Vilmundarson sem flutti röð rómaðra fyrirlestra árið 1966 og á næstu árum um kenninguna. Hún snýst um að mannanöfn séu lesin út úr örnefnum en ekki öfugt; örnefnin séu ekki endilega tengd mannanöfnum eins og Landnáma og aðrar heimildir gefa í skyn. Þannig er ing- í Ingólfshöfði standur, fyrirbæri í náttúrunni sem rís upp yfir umhverfi sitt. Höfundur benti líka á Inghól sem er efst á Ingólfsfjalli.

Vestmannaeyjar

Í Landnámabók segir að írskir þrælar Hjörleifs Hróðmarssonar úr Dalsfirði í Noregi, fóstbróður Ingólfs Arnarssonar, hafi fyrstir sest að í Heimaey og Vestmannaeyjar kenndar við þá. Nafngreindir voru þeir: Dufþakur, Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór, Drafdritur og fleiri, alls tíu og bjuggust þeir fyrir í eyjunni um hríð, eða þar til Ingólfur kom og hefndi Hjörleifs fóstbróður síns sem þeir höfðu drepið. Ýmis örnefni í eyjunni eru enn við þá kennd svo sem Dufþekja og Halldórssandur.

Einfaldast væri að sniðganga Ingólf alveg. Þá er ritheimildum um hann hafnað og ekki fengist við spurninguna um það hvort hann var til. Sú saga gengur að fréttamaður hafi spurt fornleifafræðing einn um Ingólf Arnarson og hann svarað „Ingólfur hvaða?“ Þetta ætti einmitt að vera fyrsta spurning, hvaða Ingólfur er það sem við höfnum, höfnum við eingöngu vitnisburði ritheimilda um hann, ef til vill að vissu marki, eða höfnum við tilvist hans með öllu? Sagan í Landnámu um þá félaga, Ingólf og Hjörleif, ber skýr bókmenntaeinkenni, er vafalítið skáldskapur og miklar líkur til að Hjörleifur hafi ekki verið til, að minnsta kosti ekki í þeirri mynd sem birt er af honum í Landnámu.
Mér finnst einsýnt að hafna líka persónunni Ingólfi, eins og hann kemur fram í Landnámu. En merkir það að hinn ætlaði frumherji hafi ekki verið til, og verði jafnvel sniðgenginn með öllu? Ari fróði segir að landið hafi verið numið nærri 870 og vísar til þriggja heimildarmanna um þetta. Hann skrifar eins og Ingólfur hafi verið hinn mikli frumherji. Kannski vissi hann þetta ekki fyrir víst en vafalítið er að landnemar í Reykjavík komu snemma út. Fornleifarannsóknir sýna að menn voru á ferð í Reykjavík þegar fyrir 871 ± 2 ár. Hversu löngu fyrr er óljóst. Einhver var fyrstur og miðað við stöðu fornleifarannsókna er líklegt að það hafi verið landneminn í Reykjavík enda þekkjast ekki skýrar vísbendingar um að aðrir landnemar hafi verið fyrr á ferð annars staðar. Í öðru lagi er varla ástæða til að efast um að frumherjinn hafi verið af norskum uppruna og er það eins og Ari telur. Í þriðja lagi er líklegt að hann hafi numið allmikið land, fyrst hann kom snemma. Í fjórða lagi er líklegt að hann hafi getað látið til sín taka og verið áhrifamikill, eins og sagt er, hafi hann komið fyrstur eða manna fyrstur og fékk þetta forskot á aðra.

Skálafell

Skálafell austan Esju – tóft, sem aldrei hefur verið fornleifaskráð. Tóftarinnar er getið í Landnámu þegar Ingólfur er sagður hafa leitað Karla og fundið.

Það skiptir máli hér að Reykjavík var ekki höfðingjasetur, svo að séð verði, á 12. og 13. öld þegar sagðar voru sögur af Ingólfi, fyrirmynd annarra landnema, enda er Karli þræll látinn undrast í Landnámu að Ingólfur skyldi setjast að á útnesi. Þetta styður þá skoðun að það sé ekki tilbúningur frá 12. öld að frumherjinn hafi átt heima í Reykjavík, getur að minnsta kosti verið mun eldri sögn. Af Íslendingabók verður ráðið að sagnir um mikilvægi Ingólfs voru til áður en Ari samdi bókina.
Þótt efast sé um að tilgangurinn með Íslendingabók hafi verið algjörlega fræðilegur og því trúað að Ari kunni að þegja um sumt verður hann ekki auðveldlega sniðgenginn með öllu um Ingólf.

Ingólfshöfði

Ingólfshöfði – MWL.

En þótt þannig sé gerður munur á gildi frásagna um Ingólf og Hjörleif er heldur rýrt það sem eftir stendur um landnemann í Reykjavík. Hann hét kannski Ingólfur, var norskur, kom snemma, var ef til vill fyrstur og hann og afkomendur hans munu líklega hafa orðið nokkuð fyrirferðarmikil á elsta skeiði Íslandssögunnar. Eftir stendur það mat margra fræðimanna, lítt haggað, að ritheimildir séu ekki vænlegar til að færa okkur örugga vitneskju um persónur og atburði eða stjórnmálasögu fyrir 1050. Það má kannski segja að það sé samkomulagsatriði að telja, svo lengi sem annað afsannar það ekki, að hinn fyrsti landnemi hafi sest að í Reykjavík og heitið Ingólfur. Hvorugt vitum við þó fyrir víst, kannski voru einhverjir fyrr á ferð annars staðar og kannski er nafn Ingólfs lesið út úr örnefnum.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=7366
-Helgi Þorláksson prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ.

Ölfusá

Ölfusá. Ingólfsfjall fjær.
Selfoss er landnámsjörð Þóris Hersis Ásasonar en einnig er getið um vetursetu Ingólfs Arnarsonar 873-74 „undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá“.

Sundhnúkagígaröðin

Níunda eldgosið á og við Sundhnúksgígaröðina ofan Grindavíkur hófst 16. apríl 2025 kl. 03:55 að undangenginni skammvinnri jarðskjálftahrinu. Áður höfðu þrjú gos brotist út í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Fagradalsfjall. Þetta er því tólfta hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021, en það níunda í röð eldgosa á Sundhnúkagígaröðinni síðan í desember árið 2023. Líklega er þó hér um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Sundhnúkagígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Gosið hófst að þessu sinni af talsverðum krafti á sprungureininni við Sundhnúk til norðurs millum Stóra-Skógfells áleiðis að Kálffelli, sunnan Litla-Skógfells, á u.þ.b. 2,5 km löngum kafla. Hraunrennslið lá til suðurs og suðausturs í átt að Slögu í Fagradalsfjalli. Talsverður gosmökkur fylgdi í kjölfarið með stefnu á Njarðvíkur og Keflavík.

Fyrri gosuppsprettur á sprungureininni hafa jafnan byrjað með skammvinnum látum, en væntanlega mun, líkt og reynslan gefur til kynna, draga úr gosinu fljótlega og ljúka eftir ca. 12 – 20 daga.

Sundhnúkagígaröðin

Eldgis á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst, áttunda 20. nóv. og loks þetta níunda 1. apríl 2025 sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst 2024.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Ætla má að þessi hrina verði skammlíf, í tíma talið, líkt og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju áhugaverðu landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum. Náttúruöflin eru jú ólíkindatól. Þótt þetta eldgosin virðast óálitlegt tilsýndar munu þau bjóða upp á nýja og spennandi tækifæri – til lengri framtíðar litið. Spurningin er bara að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður. Jarðaröflunum verður ekki stjórnað, en hægt verður að nýta þau þá og þegar svo ber undir, líkt og mannkynið hefur gert í árþúsundir.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Kvikuvirknin virðist skv. mælingum hafa teigt sig lengra til norðurs og er nú mest ofan Voga, sem kemur reyndar ekki á óvart að teknu tilliti til landshátta; gífurlegs landsigs millum Þráinsskjaldardyngjunnar og Hrafnagjár.

Eldsumbrot á þessu svæði ætti ekki að hafa komið nokkrum á óvart í ljósi sögunnar – með Dyngjuna Þráinsskjöld í austri, dyngjuna Fagradalsfjall í suðaustri, dyngjuna Vatnsheiði í suðri og dyngjuna Lágafell í suðvestri og dyngjuna Sandfellshæð í vestri.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu. Ólíklegt er að reyna muni á vatnargarðanna ofan Grindavíkur að þessu sinni.

Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Jörðin, og þar með umhverfið, hefur verið að breytast allt frá því að hún varð til. Slíkar breytingar, smærri sem stærri, munu eiga sér stað á meðan Jörðin lifir, en reynslan hefur sýnt að þær munu eftir sem áður koma venjulegu núlifandi fólki og sérfæðingum alltaf jafn mikið á óvart.
Sem betur fer verða jarðeldarnir ofan Grindavíkur að teljast léttvægir að teknu tilliti til alltumliggjandi atburða sögunnar.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2025.

Áhugavert er að engin gögn hafi borist sem sýna að landið hafi sigið eftir að umrætt gos hófst. Engin merki landsigs liggja fyrir. Það beri þess merki að breytingar hafi orðið á eldstöðvarkerfinu í kjölfar gossins í apríl s.l. Enn er þó óljóst hverjar þær breytingar séu eða hvaða afleiðingar þær gætu hafi í för með sér. Líklegt má telja að núverandi goshrina geti verið sú síðusta í Sundhnúksferlinu.

Þessari hrinu eldgossins í Sundhnúkaröðinni lauk 5. ágúst.

Sjá MYNDIR úr eldgosunum átta við Sundhnúkagígaröðina ofan Grindavíkur sem og hrinunum í Geldingadölum, Meradölum og við Litla-Hrút í og við Fagradalsfjall.

Sundhnúksgígaröðin

Eldgos á Sundhnúksgígaröðinni 16. júlí 2015.

Kringlumýri

Á Vísindavef HÍ var spurt: „Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?“ Höfundur svarsins var Orri Vésteinsson prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

„Stutta svarið er nei.
Hér kemur langa svarið:

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

Í hugum flestra hefst landnám með því að einhver kemur á hinn nýja stað, kastar eign sinni á landið, kemur undir sig fótunum og skilur eftir sig arfleifð í afkomendum, örnefnum og sögum. Fleiri fylgja í kjölfarið og leika sama leikinn þar til landið er orðið fullt og ekki pláss fyrir fleiri. Allar landnámssögur fylgja þessum stefum og gildir þá einu hvort söguhetjan er Ingólfur Arnarson á Íslandi, Abraham og Lot í Jórdandalnum og Kananslandi, eða skipverjarnir á Mayflower í Nýja Englandi.

Víkingar

Víkingar komu til Norður-Ameríku, þar sem nú er Nýfundnaland í Kanada, í kringum árið 1000. En af hverju gerðu þeir svæðið ekki að nýlendu sinni eins og aðrir Evrópubúar gerðu nokkrum öldum síðar?
Þessari spurningu var nýlega velt upp á vef Live Science sem bendir á að í kjölfar fyrstu ferðar Kristófers Kólumbusar yfir Atlantshafið 1492 hafi Spánn og fleiri Evrópuríki staðið fyrir stórfelldu landnámi sem varð til þess að evrópskir landnemar og afkomendur þeirra lögðu stærsta hluta álfunnar undir sig.
En eins og við Íslendingar vitum, þá voru Kristófer Kólumbus og samferðamenn hans ekki fyrstu Evrópubúarnir sem komu til Norður-Ameríku. Eftir að víkingarnir tóku sér bólfestu á Íslandi og Grænlandi á níundu og tíundu öld, náðu þeir til Nýfundnalands í krinum árið 1000. Þeir komu sér upp útvarðstöð í L‘anse aux Meadows og notuðu hana sem útgangspunkt fyrir könnunarferðir um önnur svæði í norðausturhluta Norður-Ameríku. Sögulegar heimildir benda til að þeir hafi síðan komið sér upp annarri útvarðstöð sem nefnist „Hop“ en hún var einhvers staðar þar sem nú er New Brunswick.
En víkingarnir stunduðu ekki stórfellt landnám í Norður-Ameríku, að minnsta kosti ekki í samanburði við það sem aðrir Evrópubúar gerðu eftir 1492.

Slíkar sögur lúta lögmálum frásagnarinnar: það verður að vera aðalpersóna og gerðir hennar verða að hafa sæmilega skýrt upphaf og skilgreinanlegar afleiðingar. Það er erfitt að segja sögu um landnám nema það sé einhver skilgreindur gerandi sem gerir markverða hluti á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma. Landnámssögur lúta hins vegar ekki lögmálum raunveruleikans. Raunveruleikinn er iðulega lítið annað en kássa af samhengislausum atburðum og nafnlausu fólki sem hegðar sér alls ekki eins og sögupersónur. Landnám gerist í raun ekki eins og sögur um það bera með sér; það hefur ekki eitt ákveðið upphaf og það er ekki hægt að skilgreina það út frá einstaklingum eða verkum þeirra.
Upphafsmýta Bandaríkjanna segir til dæmis frá því þegar skipverjar á Mayflower stigu á land á Plymouth Rock í Massachusetts árið 1620 en er það upphaf landnáms Evrópumanna á þeim slóðum? Sumir rekja upphafið frekar til þess að Plymouth-félagið fékk konunglega heimild til landnáms þar sem nú er Nýja England árið 1606 og stofnaði skammlífa nýlendu í Popham í Maine árið eftir. Aðrir benda á aðra staði þar sem Evrópumenn voru löngu búnir að koma sér fyrir þegar Mayflower bar að landi, frá Red Bay á Labrador (frá um 1550) til Jamestown í Virginíu (1607), St. Augustine í Flórída (1565) og Santa Fe í Nýju Mexíkó (1598). Fyrir öðrum eru þetta allt afleiðingar af því að Kólumbus fann Ameríku árið 1492 og enn öðrum sýnist að allir þessir atburðir séu aukaatriði í meir en fimmtán þúsund ára sögu mannvistar í Ameríku. Hvenær byrjaði þá landnám í Ameríku?

Hvalstöð

Leyfar eldhólfs hvalsbræðslu á Asknesi í Mjóafirði.

Margir myndu segja að landnámssögur geymi kjarna málsins. Að það skipti ekki svo miklu máli að einhverjir Baskar voru að veiða hvali við Labrador á 16. öld enda leiddi það hvorki til varanlegrar byggðar þeirra þar né hafði það nein sýnileg áhrif á seinni þróun. Að það séu fremur atburðir eins og koma Mayflower sem lýsa því sem markvert er: koma fólks með þekkta afkomendur sem leiddi til samfelldrar sögu og vaxandi byggðar, og sem þar að auki gerði með sér sáttmála – Mayflower compact – sem markar upphaf hugmyndarinnar um sérstakt samfélag Evrópumanna á austurströnd Norður-Ameríku. Þessu má halda fram en þegar spurt er um upphaf landnáms verður að skilgreina hvað það er sem maður á við: er það þegar landið var uppgötvað, þegar fyrsta tilraunin var gerð til að búa þar eða þegar slík tilraun bar fyrst árangur sem skilaði sér í varanlegri byggð? Eða var það sú varanlega byggð sem hafði mest áhrif á síðari þróun sem skiptir mestu máli að halda á lofti?

Mayflower

Mayflower.

Í íslenskri sagnahefð skipar Ingólfur Arnarson sams konar sess og Mayflower í bandarískri. Sagan um hann markar það upphaf sem Íslendingum, frá 12. öld að minnsta kosti, hefur þótt skipta máli. Hún lýsir upphafi samfelldrar byggðar fólks sem átti eitthvað undir sér og átti þekkta afkomendur sem þar að auki voru lykilmenn í þróun laga og réttar á fyrstu áratugum íslensks samfélags. Aðrar sögur eru til, um Naddoð, Garðar og Hrafna-Flóka að ekki sé minnst á Náttfara (sem fær ekki að vera fyrsti landnámsmaðurinn, ekki af því að hann hafi ekki verið það, heldur af því að hann var ekki nógu fínn pappír).

Skarðsbók

Skarðsbók Landnámu.

Sagnahefð okkar er nógu rík til að fólk getur á grundvelli hennar einnar saman valið sér mismunandi áherslur og haft ólíkar skoðanir á hvað það var sem skipti máli. Í einu af handritum Landnámu, Skarðsárbók, hefur einhver skemmt sér við að setja ártöl á spássíuna hjá sögunum um landkönnuðina. Samkvæmt því kom Naddoður til Íslands árið 770. Af hverju skyldum við ekki taka mark á þessu og nota sem upphafsár landnáms á Íslandi?
Í hugum Íslendinga er landnám Íslands órjúfanlega tengt þessum sögum og flestum finnst erfitt að hugsa um það án tilvísunar til þeirra. Á síðastliðnum áratugum hafa hins vegar verið að koma í ljós æ fleiri fornleifar sem knýja okkur til að hugsa öðruvísi um landnámið. Þær sýna að mikill fjöldi fólks tók sér bólfestu á Íslandi skömmu eftir að mikið gjóskulag, svokallað landnámslag, sem þekur um tvo þriðju hluta landsins, féll um 870.

Torfbær

Torfbær.

Fyrir lok 9. aldar var komin byggð á smákotum upp til heiða jafnt sem góðbýlum á láglendi og bendir það til þess að landnámið hafi gengið mjög hratt fyrir sig. Það sést einnig af því að í byrjun 10. aldar hafði orðið gerbreyting á gróðurfari landsins: þar sem áður voru samfelldir birkiskógar voru nú grasmóar. Fornleifar sem örugglega eru frá seinni hluta 9. aldar og þeirri 10. eru mjög miklar að vexti og í samanburði við þær eru vísbendingar um eldri mannvist hverfandi. En þær eru þó til og hefur fólki eðlilega orðið starsýnt á þær: gætu þær bent til þess að fólk hafi verið komið til Íslands löngu áður en Ingólfur á að hafa stigið á skipsfjöl?

Landnámslagið

C-14 aldursgreining byggist á kolefni 14 (C-14, C14 eða 14C), sem er samsæta kolefnis, sem inniheldur 6 róteindir og 8 nifteindir í kjarna. Þessi kolefnissamsæta er geislavirk og klofnar með beta klofnun og myndar köfnunarefni. C-14 er til staðar í öllu náttúrulegu kolefni í hlutfalli sem er nokkurn veginn 1:1012. Helmingunartíminn er 5730±40 ár, sem samsvarar því að í einu grammi kolefnis úr lifandi lífveru verði um það bil 14 klofnanir á mínútu.
Á þessu byggist C-14 aldursgreiningin. Þegar lífvera deyr hættir hún að sjálfsögðu að taka til sín kolefni, en það kolefni sem er til staðar klofnar í sífellu og breytist þá hlutfall geislakolsins með tímanum. Með því að mæla það hlutfall geislakols, sem til staðar er má meta hve langt er síðan lífveran, sem hið lífræna sýni er komið frá, lauk ævi sinni. Sé eitthvert mælanlegt magn geislakols til staðar, gefur það til kynna að aldur sýnisins sé mjög lítill í jarðsögulegum skilningi. Til dæmis eru jarðolía og kol of gömul til þess að magn geislakols í þeim sé mælanlegt.

Tvær hliðar eru á þessu máli. Annars vegar snýst það um ákveðna tímasetningaraðferð, kolefnisaldursgreiningu. Sú aðferð hefur þann kost að hún gefur aldur á lífrænum leifum óháð samhengi. Hún er sjálfstæð og þegar henni var fyrst beitt á leifar frá upphafi Íslandsbyggðar virtist hún sýna að landnám gæti hafa hafist allt að 200 árum fyrr en talið hafði verið. Á þeim tíma var ekki búið að tímasetja landnámslagið og þá snerust deilur vísindamanna um tímasetningu landnáms í raun um hversu gamalt landnámslagið væri – það var innan ramma hins mögulega að lagið væri mun eldra og þar með öll byggð sem hægt var að tímasetja út frá því. Árið 1995 var sýnt, með tilvísun í lagskiptingu vegna bráðnunar íss á yfirborði Grænlandsjökuls, að landnámslagið hefði fallið á árunum 869-73. Þar með dró kraft úr þessum deilum því þó að á tveimur stöðum hafi fundist torfveggir undir landnámslaginu þá hafa hvergi fundist nein yfirgefin hús, hvergi neinar grafir, öskuhaugar eða gripir sem sannarlega eru undir þessu lagi og þar með eldri en það.
Á fjölmörgum stöðum eru hins vegar merki um mannvist beint ofan á landnámslaginu sem sýnir að veruleg breyting verður ekki fyrr en eftir að lagið féll. Eftir standa allmargar kolefnisaldursgreiningar sem virðast benda í aðra átt. Margar hafa einfaldlega verið túlkaðar vitlaust: skekkjumörkin eru oft víð og ná iðulega fram yfir 870 þó miðgildið sé mun eldra og þó það sé freistandi að horfa á miðgildið þá er það ekki líklegri aldur á tilteknu sýni en gildin til endanna á líkindadreifingunni.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur.

Ýmiss konar vandræði geta verið með tæknileg atriði eins og hlutfall geislavirks kolefnis í umhverfinu og eiginn aldur sýnanna en meginatriðið er að ekkert einasta sýni sem gefur svo háan aldur er sannarlega tekið úr lögum sem eru eldri en landnámslagið. Sýnin eru annaðhvort tekin úr lögum sem eru sannarlega yngri en landnámslagið eða þau eru úr óþekktu samhengi (sem þýðir líka að þá er óvíst hvað þau eru að tímasetja).
Þetta þýðir ekki að fólk hafi ekki verið komið til Íslands fyrir 870 og er það hin hlið málsins. Torfveggirnir tveir sýna raunar ótvírætt að fólk var komið til Íslands áður en landnámslagið féll en þeir skera ekki úr um hvort það hafi verið nokkrum mánuðum fyrr eða áratugum.

Húshólmi

Húshólmi – garður. Landnámslagið er í garðinum.

Undir landnámslaginu hafa fundist frjó sem gætu verið úr korni, kolasalli sem gæti stafað af bruna af mannavöldum og ummerki um að birkiskógarnir hafi verið byrjaðir að minnka áður en lagið féll. Þá eru nokkrir gripir til sem geta hafa verið komnir til landsins fyrir 870. Engar af þessum vísbendingum eru ótvíræðar en þær koma heim og saman við þá hugmynd að fólk hljóti að hafa verið komið til Íslands allnokkru fyrir 870.
Það er ekki einfalt mál eða auðvelt að nema land þar sem enginn býr og það myndi gera það miklu skiljanlegra sem gerðist á árunum eftir 870 ef við gerum ráð fyrir því að fólk hafi þá verið hér á ferli um hríð til að kanna landið, gera tilraunir með búskap og koma upp bústofni.

Húshólmi

Húshólmi – skáli. Skráð fornleif, sennilega sú elsta hér á landi.

Einkum og sér í lagi verður allt auðveldara ef fólkið sem kom eftir 870 hefur getað keypt eða leigt búfé sem þegar var búið að rækta. Það eru getgátur einar að svo hafi verið en það er ekkert í fornleifaheimildunum sem útilokar að Ísland hafi fundist og það hafi verið kannað áratugum, og jafnvel öldum, áður en stórfellt landnám hófst, né að fólk hafi verið byrjað að prófa sig áfram með búskap nokkrum áratugum fyrr. Það getur ekki hafa verið mjög víða eða í stórum stíl en nógu mikið til að gera eftirleikinn mögulegan.
Kolefnisaldursgreiningarnar sem notaðar hafa verið til að rökstyðja landnám á 7. öld stafa ekki frá slíkri frumbyggð. Þær tengjast allar byggðinni sem reis eftir 870. En það þýðir ekki að fólk hafi ekki getað verið hér á ferli á 7. eða 8. öld.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=64420

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa eða Kelta, á Suðurlandi.

Grímslækur

FERLIRsfélagar ákváðu einn góðan sumardagsmorgun að leita að og skoða Borgarhólsborgina á Efri-Grímslæk í Ölfusi, tvíræðan Hjallhólinn þar neðan við og örnefnið Krossmóa á millum bæjarins og Ytri-Grímslækjar. Þá var ætlunin að skoða Þúfustekk í Krögghólsstaðartorfunni suðaustan Krögghólsstaðarstekks (-borgar) sem og að lokum Breiðabólstaðaborgina.

Ölfus

Aðalskráning fornleifa í Ölfusi I – 2015; forsíða.

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrslu I“ frá árinu 2015 má m.a. lesa eftirfarandi um Efri-Grímslæk:
„1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytri-eða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið.
1917: Tún 3.5 ha, 3/4 slétt. Garðar 1002 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur.
Túnin liggja saman“ Ö-Grímslækir, 1.“

Um Hjallhól segir; „þjóðsaga/hjallur

Hjallhóll

Hjallhóll.

„Í Miðtúni efst, uppi við veginn út að Hrauni, er allstór hóll sem heitir Hjallshóll eða Hjallhóll að sögn heimamanna, en Guðjón á Ytri-Grímslæk kallar hann Hjallhól. Á hólnum er hjallsrúst. Þar var leikvangur barna í eina tíð. Í Hjallshól bjó huldufólk áður,“ segir í örnefnalýsingu. Hjallhóll er 150 m norðvestan við bæ. Hjallhóll er fast austan við malarveg að Ytri-Grímslæk og Hrauni. Við norðausturhorn hólsins er braggi. Grasivaxin tún eru til allra átta nema vesturs, þar er malarvegur. Hólar eru víða í túninu.

Hjallhóll

Hjallhóll.

Hjallhóll er gróinn hraunhóll, 31×25 m í þvermál, 34 m á hæð og snýr austur-vestur. Lítill hellir er norðaustan til í hólnum. Hjallurinn er horfinn en hann var úr timbri að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns. Garðlag liggur þvert yfir vesturhluta hólsins og annað hleðslubrot eftir suðurhliðinni. Samtals afmarka þau svæði sem er 20×10 m að stærð og snýr norður-suður. Garðlag liggur norður-suður yfir vesturhluta hólsins. Það er 20 m á lengd, 0,2 m á hæð og grjóthlaðið. Það má greina 1 umfar af grjóthleðslu í garðlaginu en líklega var það hlaðið undir vírgirðingu. Garðlag B er 5 m austan við garðlag A.“

Grímslækur

Grímslækur – fjárhústóft.

Suðaustan við Hjallhól er fjárhústóft, tæpa 140 m norðvestan við bæ 20 m suðaustan við Hjallhól. „Hún er rétt utan heimatúnsins eins og það er afmarkað á túnakorti frá 1920. Tóftin er líklega ekki forn en höfð hér með vegna forns byggingarlags. Miðað við stærð og gerð tóftarinnar er hér um fjárhús að ræða. Timbri og fleira rusli hefur verið safnað suðaustan við tóftina.
Fjárhúsin eru innan grasivaxins túns með grónum hraunhólum og klettum víða.
Tóftin er ofan á grónum hraunhól en klettar eru norðan og sunnan í hólnum. Fjárhúsin eru 7×6 m að stærð, einföld og snúa norðvestur-suðaustur. Timburdyr eru suðaustan í tóftinni og standa þær enn. Þakið er fallið inn í tóftina og rusl þar yfir í norðurhluta. Veggirnir eru hlaðnir, 1-1,3 m á hæð. Ekki sést glitta í skýr umför heldur glittir víða í grjót. Ofan á veggjunum er bárujárn, fiskinet, plast og timbur.“

Grímslækur

Borgarhólsborg.

Í örnefnalýsingu fyrir Ytri-Grímslæk segir: „Klapparhóll og tóft af fjárborg. Nálægt miðju svæðisins er lágur klapparhóll og utan í honum er tóft af fjárborg. Var fjárborgin notuð af bændum í sveitinni fyrr á öldum og þá fyrst og fremst til að skýla sauðfé í vondum veðrum. (Munnleg heimild: Gunnar Konráðsson, nóvember 1997). Hóllinn og fjárborgin setja skemmtilegan svip á landslagið. Fjárborgin telst orðið til fornleifa þar sem hún er eldri en 100 ára og af þeirri ástæðu skal ekki gróðursetja nær ystu mörkum hennar en 20 m. og er það í samræmi við þjóðminjalög.“

Grímslækur

Grímslækur – tóftir Ytri-Grímslækjar.

Ekkert íbúðarhús er að Ytri-Grímsstöðum, einungis tóftir þess og útihúsa. Tekið var hús á ábúanda Efri-Grímslækjar, Gunnari Gunnarssyni, syni Gunnars Konráðssonar og barnabarni Konráðs Einarssonar, fyrrum bónda á sameiginlegri jörðinni. Gunnar tók mjög vinsamlega á móti aðkomandi. Eftir stutt spjall benti hann þeim á Borgarhólinn, skammt ofan við gatnamótin að bænum, áberandi hóll með hárri fuglaþúfu. Sagði hann Hjallhól vera neðan vegar, enda mætti enn sjá leifar hjallsins á hólnum.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhólsborg.

Þegar nánar var að gáð kom í ljós að fornleifaskráendur höfðu skráð og merkt Hjallhól sem Borgarhól, lýst honum sem slíkum en bæði lýst hjallhólsminjunum og fjárborgarminjunum á sama staðnum. Þarna hafði greinilega eitthvað misfarist í úrvinnsluskrifmeðförum.

Í fornleifaskráningunni er „Borgarhóli“ lýst með eftirfarandi hætti: „Borgarhóll/tóft/hjallur: „Ofan vegarins út að Hrauni, vestan við heimvegarhliðið, er allstór hóll sem heitir Borgarhóll.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhólsborg.

Á honum er rúst (hjalls),“ segir í örnefnalýsingu. Borgarhóll er tæpa 240 m norðvestan við bæ og 80 m norðan við Hjallhól. Hóllinn er stór og víðsýnt ofan af honum. Að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns, var byggður timburkofi á Borgarhól af breska hernum meðan á hernámi þeirra stóð hérlendis á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Húsið stóð þar í einhver ár en fauk síðan og engin ummerki þess sjáanleg. Um 10 m austan hólsins er malarvegur að Hrauni.
Slétt, grasivaxið tún er til allra átta frá Borgarhól. Gaddavírsgirðing liggur eftir vesturhlið hólsins.

Grímslækur

Grímslækur – borgin á Borgarhól.

Þá segir: „Borgarhóll er stór hraunhóll, gróinn að hluta. Hann er 20-30 m í þvermál og 2-2,5 m á hæð. Í auðausturenda hólsins er grjóthlaðin tóft á milli tveggja kletta. Tóftin er 8×8 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Hólf 1 er sunnar. Það er 7×4 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Veggirnir eru 0,2 m á hæð og sést 1 umfar af grjóthleðslu í þeim. Klettur afmarkar suðurhlið hólfsins. Hólfið var líklega opið til vesturs en þar afmarkast tóftin öll af þýfðum bakka. Hólf 2 er norðar. Það er 7×3 m að stærð og snýr austur-vestur. Veggirnir eru 0,2-0,3 m á hæð og einungis 1 umfar af grjóthleðslu í veggjum. Hólfið var líklega opið til vesturs og grjót borið úr veggjum, þeir eru það lágir.“

Grímslækur

Grímslækur – fjárrétt.

Falleg lítil fjárrétt er skammt norðan við Hjallhól. Í fornleifaskráningunni segir: „Gerði/rétt: „Tæpum 200 m norðan við bæ og rúmlega 30 m vestan við Kishól er fjárrétt. Hún er líklega einungis nokkurra áratuga gömul en höfð í þessari skrá sökum forns byggingarlags. Réttin er 30 m austan við malarveg að bænum.
Óræktað, gróið tún með hraunhólum og stökum klettum er norðan við réttina. Gaddavírsgirðing liggur til norðvesturs og austurs frá réttinni. Girðingin afmarkar slétt, grasivaxið tún sunnan við réttina.
Réttin er 16×11 m að stærð, einföld og snýr norðaustur-suðvestur. Réttin er grjóthlaðin og veggirnir standa enn.
Þeir eru 2-3 m á breidd, 0,5-1,3 m á hæð og sést glitta í 3-6 umför grjóthleðslu í þeim. Op inn í réttina er í norðvesturhorni og liggur gaddavírsgirðing frá því til tveggja átta líkt og lýst er hér ofar. Timburgrind er í opinu til varnar búfénaði. Inni í réttinni og ofan á veggjum er rusl, m.a. timbur, járn og girðingarefni.“

Um Ytri-Grímslæk segir í heimildum:

Grímslækur

Grímslækur – „minnismerki“ um fyrrum heitavatnsæðina að Þorlákshöfn ofan svæðis.

„1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytri-eða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið. Ekki er föst ábúð á jörðinni heldur er hún nýtt til hrossabeitar.
1917: Tún 3.4 ha, 6/7 slétt. Garðar 1514 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur.
Túnin liggja saman“ Ö-Grímslækir, 1.“

Á milli bæjanna Efri- og Ytri-Grímsstaðir er merkilegt örnefni: „Krossmói/heimild/nátthagi. Í kaupbréfi jarðarinnar Hrauns frá 1551 segir:: „svo og skildi herra Ellendur fra ij stags eingi j Lanbeyrvm og þad eingi sem krosinum á Grimslæck til heyrir.“ „Í mörkum milli bæjanna (Efri- og Ytri-Grímslækjar, niður við mýrina, er stórþýfður mói, vel hálfur frá Efri-Grímslæk. Móinn heitir Krossmói. Þar myndi krossinn helgi, sem nefndur er í Íslenzku Fornbréfasafni, er mér tjáð, staðið hafa.“ segir í örnefnalýsingu.

Grímslækur

Grímslækur – Krossmói.

Krossmói er 80 m norðan við bæ, rétt sunnan við landamerki Efri-Grímslækjar. Þar er grasivaxin, lág hraunbrún og mýrlent austan hennar. Ekki er vitað hvar krossinn stóð. Að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns, var þarna nátthagi fyrir kýr en engin tóft.“

Í örnefnalýsingu um Grímslæki segir m.a.: „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur. Túnin liggja saman. Efri-Grímslækur heitir eystri bærinn. Heimildarmenn: Konráð Einarsson, f. 21/11 1898 á Efri-Grímslæk. Hefur verið þar síðan. Guðjón Eyjólfsson, f. 21/1 1898 á Ytri-Grímslæk. Hefur verið þar síðan. Systkini Konráðs, Ólafur, Kristinn og Sigurbjörg, sem öll ólust þar upp. Forfeður þeirra Grímslækjar manna hafa verið þar í marga ættliði. – 26. ágúst 1968; Eiríkur Einarsson.“

Kröggólfsstaðir

Þúfustekkur.

Í örnefnalýsingu fyrir Kröggólfsstaðatorfu segir m.a.: „Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn, auk þess voru hjáleigur á Kröggólfsst. og Þúfu (jarðab. Á.M). Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin. Nú mun vera búið að skipta beitilandi, en þau uppskipti eru utan við þessa skrá. Heimildarmenn eru: Eggert Engilbertsson í Hveragerði fyrir Kröggólfsstaði og sameiginlegt beitiland. Hann er fæddur á Kröggólfsstöðum 27. júlí 1904, og átti heima þar til 1929. Faðir hans og afi bjuggu og á Kröggólfsstöðum. Sá ættleggur mun hafa búið þar hátt í 200 ár.“

Kröggólfsstaðastekkur er gróinn hóll með leifum af stekk, fast sunnan við þjóðveginn norðaustur af Krossgötum. Skammt suðvestar er svo Þúfustekkur, síðar sauðahús, aflagt vegna þess að bráðapest var þar mögnuð.

Þúfustekkur

Þúfustekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrslu II“ frá árini 2017 segir m.a.:
„Þúfustekkur/tóft/stekkur; „Þúfustekkur: Hóll austur af Krst. stekk. Þar var gamall stekkur, síðar sauðahús, aflagt vegna þess að bráðapest var þar mögnuð.“ segir í örnefnalýsingu. Þúfustekkur er tæpa 1,2 km norðan við Þúfu og 180 m austan við Kröggólfsstaðastekk. Tóftin er 2 m vestan við vírgirðingu á merkjum Þúfu og Kröggólfsstaða en var áður í sameiginlegu beitarlandi.
Gróið hraun og mói. Víða kemur grjót í gegnum svörð. Móinn er þýfður og flatur. Hér og þar eru lágir hraunhólar, tóftin er á einum slíkum.
Tóftin er 21 x 7 m að stærð, snýr NNV-SSA og skiptist í tvö hólf eða byggingarstig. Beitarhúsið er sunnar og stekkurinn er norðar. Lýsingin hefst til suðurs í hólfi 1 sem er beitarhúsið. Það er 11 x 3 m að innanmáli og snýr NNV-SSA. Veggirnir eru grjóthlaðnir, 0,5 – 0,8 m á hæð, 2 m breiðir og má sjá 2-3 umför af grjóthleðslu í þeim. Víða er tekið að hrynja úr veggjunum að innan og gróið yfir hleðslurnar.

Breiðabólastaður

Breiðabólstaðaborg.

Um Breiðabólsstað í framangreindri fornleifaskráningu segir:
„1847: Bændaeign. 40 hdr. með Vindheimum ÁR-545. JJ, 76
1397: Getið í Vilchinsmáldaga. DI IV, 98-99.
1523: Getið í kirkjureikningum. DI IX, 158-159.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1561: Getið í tylftardómi. DI XIII, 622-623
1575: Getið í Gíslamáldaga. DI XV, 642.
1708: „Jarðdýrleiki xl og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 439.
„Kirkja var þar samkvæmt gömlum heimildum.“ segir í Sunnlenskum byggðum III.
1917: Tún 5 ha, 9/10 slétt. Garðar 1050 m2.“

 Breiðabólstaðaborg

Breiðabólstaðaborg.

Í skráningunni segir um Breiðabólsstaðarborg: „tóft/fjárskýli:
Litlu austar [en Steingríms gamla-stekkatún] er hár stórgrýtishóll, með rúst. Hann heitir Breiðabólsstaðarborg, oft Breiðaborg,“ segir í örnefnalýsingu. Breiðabólsstaðarborg er tæpum 1 km ANA við bæ og 700 m norðaustan við Stekkjatún. Fjárborgin er áberandi þegar ekið er eftir Hlíðardalsvegi. Víðsýnt er frá fjárborginni til allra átta.
Gróið hraun er allt umhverfis hólinn sem fjárborgin er á. Þar vex mosi, gras og lyng. Klettar koma víða uppúr sverði.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhóll.

Fjárborgin er efst á grónum hraunhól. Klettar eru á hólnum og er fjárborgin hlaðin á milli þeirra. Klettarnir eru suðvestan, suðaustan og norðaustan við tóftina. Fjárborgin er sunnarlega á hólnum og er ferhyrningslaga. Hún er 8×8 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,2-0,5 m á hæð og 1 umfar af stóru grjóti sést í þeim. Það er tekið úr hólnum sjálfum og er ekki verið hentugt í hleðslur. Vesturveggurinn er best varðveittur og þar eru 2-3 umför af grjóti. Op er í norðvesturhorni en hrunið er fyrir það að mestu. Til norðurs frá fjárborginni, uppi á hólnum er grasivaxið svæði og hleðsla þar á brúninni. Mögulega eru þetta ummerki um aðrekstrargarð eða annað hólf. Hleðslan samanstendur af einföldri steinaröð.“

Með framangreindri skoðun kom glögglega í ljós að ekki fara alltaf saman „hljóð og mynd“ þegar fornleifaskráningar og örnefnalýsingar eru annars vegar…

Heimildir m.a.:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Reykjaavík 2015.
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrsla II, 2017.
-Örnefnalýsing fyrir Efra- og Ytri Grímslæk í Ölfusi.
-Örnefnalýsing fyrir Kröggólfsstaði í Ölfusi.
-Örnefnaskrá fyrir Breiðabólstað í Ölfusi.

Grímslækur

Grímslækur – fjáborgin á Borgarhól – uppdráttur ÓSÁ.

Hengill

Í Hveradölum undir Hellisheiði er göngubrú um hluta hverasvæðisins. Við brúna eru sex upplýsingaskilti. Á þeim má lesa eftirfarandi fróðleik:

Háhitasvæðið í Hveradölum

Hveradalir

Sprungusveimar Reykjanesskagans.

Hveradalir eru grasigrónar hvilftir í suðvestanverðu Stóra-Reykjafelli, í sunnanverðum Henglinum. Stóra-Reykjafell er forn gígur sem myndaðist í gufusprengigosi á íslöld og eru hliðar hans myndaðar úr móbergstúffi. Miðja þess forna sprengigígs nefnist Stóridalur. Hverasvæðið í Hveradölum tilheyrir hverasvæðinu á Hellisheiði, sem er eitt af fjölmörgum háhitasvæðum Hengilssvæðisins.
Eldstöðvakerfi Hengilsins liggur austast í röð fimm eldstöðvakerfa Reykjanesskagans. Gosbeltin raða sér á skýrt afmarkaðar sprungureinar sem liggja skástígar eftir skagagnum endilöngum. Gosbelti Reykjanesskagans er eitt af virkustu eldvirknisvæðum landsins. Eldstöðvakerfi Hengilsins er nokkuð frábrugðið hinum kerfunum þar sem það er eina megineldstöðin á skaganum, með tilheyrandi kvikuhólfi og súrri gosvirkni.

Hengill

Hengill.

Hengillinn er virk megineldstöð og liggur sprungurein eldstöðvakerfisins frá Selvogi á Reykjanesi í suðvestri og um 50 til 60 km leið norðaustur fyrir Þingvallavatn. Eldstöðvarkerfið er um 5 til 10 km breitt. Breiðast er það um Þingvallavatn en mjókkar til suðvesturs.
Eldstöðvakerfið nær yfir um 100 km2 og er eitt af stærstu háhitasvæðum landsins að finna á svæðinu. Eldstöðvarkerfið samanstendur af þremur megineldstöðvum; Hveragerði – Grændalur sem er elsta kerfið (300.000-700.000 ára gamalt); Hrómundartindur (sem er yngri en 115.000 ára) og Hengillinn sem er enn virkur í dag.
Vitað er um þrjú eldgos á nútíma (síðastliðin 10.000 ár) sem tilheyra virkri eldstöð Hengilsins, en þar gaus síðast fyrir um 2000 árum.

Borholur

Hengill

Hengill – borhola.

Árið 1986 var boruð 50 m djúp hola við hliðina á Skíðaskálanum í Hveradölum. Tilgangur borunarinnar var að kanna hvirt nýta mætti jarðhita á svæðinu til upphitunar. Önnur 100 m djúp hola var síðan boruð árið 1993 og er það sú hola sem hér má sjá sunnan megin við stíginn. Í dag er heita vatnið nýtt til upphitunar á Skíðaskálanum.
Lónið sem göngustígurinn liggur yfir er mangert en þar safnast saman heitt vatn sem er afrennsli frá hverasvæðinu. Útfellingarnar sem sjást í vatninu myndast þegar uppleyst steinefni, einkum kísill, falla út þegar hveravatnið kemur upp á yfirborð jarðar og kólnar.

Hvað er háhitasvæði
Um 20 háhitasvæði er að finna á Íslandi og eru þau öll staðsett á og við virk gos- og rekbelti landsins.
HengillHáhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfa og eru skilgreind þar sem hiti jarðhitavökva er yfir 200°C á 1000 m dýpi. Til þess að jarðhitavökvinn nái þessu hitastigi þá þarf hitagjafa sem er annað hvort grunnstætt kvikuhólf eða kvikuinnskot þar sem hiti kvikunnar hetur verið allt að 1000-1200°C.
Við upphitun grunnvatnsins breytist eðlilþyngd þess. Gastegundir sem losna úr heitri kvikunni blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs sem eðlislétt súrt jarðhitavatn eða gufa. Dæmi um þessi gös eru brennisteinsvetni (H2S) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxið (SO2) og koltvísýringur (CO2),
HengillÁ leið sinni til yfirborðsins þá sýður þessi heiti og súri jarðhitavökvi jarðlögin sem hann fer í gegnum. Við það vera efnaskipti milli vatnsins og bergsins og steindir leysast upp. Í heitu jarðhitavatni er því mikið magn uppleystra efna, svo sem kísill, kalk, brennsiteinn og fleiri efni.
Á hverasvæðinu í Hveradölum koma bæði fryir gufuhverir og leirhverir. Um svæðið rennur lækur og er grunnvatnsborð háhitasvæðisins því nokkuð hátt, en þó breytilegt.
Hæð vatnsyfirborðs í lóninu sveiflast með grunnvatnsstöðu svæðisins. Stundum er hér lón og stundum er allt skrjáfaþurrt á öðrum dögum.
Grunnvatnsstaða jarðhitasvæðsins ræðst af úrkomu og leysingum en háhitavatnið sem kemur upp undir Hengli á uppruna sinn í Langjökli þaðan sem það rennur sem grunnvatn í Þingvallavatn og þaðan undir Hengilinn.

Garðyrkjubúið í Hveradölum

Hveradalir

Hveradalir – hús Höyers.

Undir fótum þínum stóð eitt sinn gróðurhús sem nýtti jarðvarma. Sú bygging var partur af garðyrkjubýli sem byrjað var að byggja hér í Hveradölum árið 1927 af hjónunum Anders C. Höyer frá Danmörku og Ericu Hartmann frá Lettlandi. Árinu eftir að Anders hjálpaði við byggingu fyrsta garðyrkjubýlisins á Íslandi þar sem treyst var á ylrækt, en það býli var Blómvangur í Mosfellsbæ.
Íslenskir bændur höfðu nýtt náttúrulega heitan jarðveg til að rækta kartöflur og annað grænmeti í langan tíma áður en garðyrkja í gróðurhúsum sem nýtti jarðvarma varð til á fyrri hluta 20. aldar, svo þetta var kærkomin nýjung sem auðveldaði ræktun til muna.

Hveradalir

Hveradalir – tóftir af húsi Höyers.

Anders sem var áhugasamur blaðamaður um garðyrkju var nýkominn til Íslands þegar hann fékk leyfi til að setjast að í Hveradölum ásamt konu sinni sem flutt hafði til íslands frá lettlandi um sumarið. Þau fluttu hingað upp á heiðina um haustið og bjuggu í tjaldi þar til þau höfðu byggt bæinn sinn sem upphitaður var með jarðvarma. Þau gifta sig svo á bænum í viðuvist sendiherra Dana, þann 27. október 1927. Lífið hefur ekki verið auðvelt, að minnsta ekki til að byrja með en hjonin eru fljót að koma sér upp húsaskjóli og geta í framhaldi af því þróað áfram uppbyggingu og tryggt þannig lífsviðurværi sitt.

Hveradalir

Hveradalir – tóftir Höyers.

Í gróðurhúsum ræktuðu þau fyrst um sinn begóníur en fara síðan að rækta rósir í blómapottum eftir að þau stækka gróðurhúsið árið 1929. Þau veiða líka rjúpur og brugga heimagert öl úr íslenskum jurtum sem þau selja vegfarendum ásamt því að bjóða upp á leirböð. Þau selja einnig vörur sínar á torgum í reykjavík.
Árið 1934 byggir Skíðafélag Reykjavíkur skála við hlið þeirra í Hveradölum og hefur þar greiðasölu. Nálægðin við skálann þrýstir á að þau flytja burt og koma sér upp heimili við Gunnuhver á Reykjanesi, þar sem þau reyna áfram að reka svipaða starfsemi og í Hveradölum, áður en þau flytja til Danmerkur 1937. Reynslan úr Hveradölum virðist hafa verið hjónum góð, því Erica á að hafa sagt þegar hún leit yfir líf sitt: „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.
Húsin stóðu hér undir hlíðinni norðanmegin við stíginn þar sem enn sjást tóftir.

Tegundir hvera á háhitasvæðum

Hveradalir

Hveradalir – leirhver.

Helstu yfirborðeinkenni háhitasvæða eru margbreytilegir gufu- og leirhverir. Víða má sjá ummyndað berg á yfirborði þessara svæða og er liatdýrð oft mikil vegna hverasalta. Á einstaka háhitasvæðum þar sem grunnvatnsstaða er há, má sjá goshveri sem þeyta vatns- og gufustrókum upp úr jörðu með reglulegu millibili.
Stóri hverinn sem er hér norðan megin viðð göngustíginn er leirhver. leirhverir myndast þar sem bergið hefur brotnað niður vegna efnaveðrunar frá súrri jarðgufu. Til að slík fyrirbæri myndist þarf að vera hæfilega mikið yfirborðsvatn eða þéttivatn í gufunni. Leirinn samanstendur af vatni og soðnu umbreyttu bergi og ræðst þykkt hans af framboði yfirborðvatns.
Hér má sjá jarðhitagufu og

Hverasvæði

Hverasvæði.

gös streyma upp til yfirborðsins. grunnvatnið hitnar og súr vökvinn leyrir upp bergið sem umbreytist í leir. leirinn sýður og vellur, þeytist upp á brúnir hversins og myndar gráleita kápu. Grár litur leirsins stafar yfirleitt af örsmáum kristöllum brennisteinskíss (FeS).
Á svæðinu má jafnframt finna gufuhveri en þeir myndast þar sem grunnvatn jarðhitakerfis er það fdjúpt að einungis gufa eða gas nær upp til yfirborðs. Hiti í slíkum gufuhverum getur farið yfir 100°C við yfirborð. Vatnsgufan sem kemur upp á háhitasvæðum inniheldur líka kolsýru, vetni og brennisteinsvetni.
Vatnshverir og laugar eru algengari á háhitasvæðum, en það má finna þá hér þar sem gufan hefur blandast yfirborðsvatni.

Fyrsta hveragufubaðið
Vísir þann 27. október 1938:

Hveradalir

Hveradalir – skilti.

„Lækningakraftur hveragufunnar og hveraleirsins. Býr ísland yfir ónotuðum heilsubrunnum? – Gufuböðin við skíðaskálann í Hveradölum og dvöl manna í Hveragerði…“
„Þeir, sem hafa átt leið austur yfir Hellisheiði hafa efalaust veitt því eftirtekt, að rétt oafn við rústirnar af húsi Höyers í Hveradölum hefir risið upp lítill og snotur kofi. Yfir hann og alt um kring leggur eiminn frá brennisteinshvernum, en rör liggja úr hvernum sjálfum og inn í húsið og út um það að nýju, en þetta mun vera fyrsta baðhús á íslandi, þar sem eingöngu er notast við hveragufu til að orna mönnum og baða þá. Þetta er nýjung, sem verðskuldar full athygli, ekki síst fyrir Reykvíkinga, sem búa í nágrenninu og geta auðveldlega orðið baðanna aðnjótandi, og þá einkum skíðagarpar vorir, sem þarna iðka íþróttina mikinn hluta vetrar.“ (…)

Hveradalir

Hveradalir – tóftir baðhússins.

„Þegar inn í húsið kemur verður fyrst fyrir búningsherbergi, og er þar bekkjum fyrir komið, þannig að menn geta legið þar og fengið nudd sér til heilsubótar og hressingar, hvort sem um íþróttamenn eða sjúklinga er að ræða,…“ (…)
„Innar af baðherberginu er gangur, sem liggur inn í baðklefann og er þar komið fyrir köldu steypibaði, en það er annar þáttur gufubaðsins og engu ónauðsynlegri til þess að baðsins verði notið til fulls, Innst í húsinu er svo baðklefinn sjálfur. Hann er ekki stór, en nógu til þess að nokkrir menn geta tekið bað í einu.

Hveradalir

Hveradalir – hverinn fyrir hús Höyers og baðhúsið.

Liggja rörin frá hvernum í gegnum hann og á þeim er handfang, þannig að hægt er með einu handtaki að hleypa frá gufunni eða loka fyrir hana að fullu eða tempra hana eftir vild. Sveinn Steindórsson frá Ásum í Hveragerði hefir reist baðskála þennan og gengið haganlega frá öllum útbúnaði hans eins og að framan greinir.“ (…)
„Ef það sýnir sig að dvöl við jarðhitasvæðin er jafn heilnæm, og talið er af ýmsum, fást með reynslunni öll önnur skilyrði til frekari athafna, og mætti þá vel svo fara að Ísland yrði hressingarstaður erlendra manna, sem færði þeim flesta meina bót, og væri þá auðveldara um öll vik eftir en áður.“

Uppleyst efni í jarðhitavökva

Hveradalir

Hveradalir – hver.

Við hringrás vatns í jarðhitakerfum vera efnaskipti milli bergs og vatns þegar heitur jarðhitavökvinn leikur um bergið. Þetta ferli leiðir til þess að mikið magn uppleystra efna berst til yfirborðs með heitum vökvanum. Þegar vatnið kemur upp til yfirborðs þá kólnar það og þrýstingur lækkar. Við það mettast vatnið af efnum sem þá falla út úr vatninu.
Við uppstreymi jarðhitavökvans og gufunnar verður ummyndun á yfirborði, fyrst og fremst við suðu bergsins í brennisteinssúru umhverfi. Við þessa ummyndun leysast sumar frumeindir og gler úr berginu upp.

Hveradalir

Hveradalir – skilti.

Aðrar steintegundir endurkristallast og mynda svokallaðar ummyndunarsteindir, sem eru í jafnvægi við þær aðstæður sem ríkja við yfirborð. þannig myndast nýjar steindir við yfirborð háhitasvæða, aðallega leirsteindir, sem birtast sem hvítur, grár, gulur eða rauður leir.

Litadýrð háhitasvæða

Hveradalir

Hveradalir – hveraauga.

Leir á háhitasvæðum getur birst í ýmsum litaafbrigðum. Áberandi og einjennandi er gulur litur brennisteins (S), rauður litur steindarinnar hematíts (ferríoxiðs, Fe2O3) og dökkgrár litur leirs, sem virðist yfirleitt stafa af örsmáum kristöllum brennisteinskíss (FeS). Gifs (kalsíumsúlfat, CaSo4) er auðgreinanlegur og myndar hvítmatta kristalla. Gifs getur haft önnur litbrigði svo sem rauðlitað sökum járns eða jafnvel grænleitt vegna kopars, en það er sjaldgæft.

Lífríki háhitasvæða

Hveradalir

Hveradalir – leirhver.

Á háhitasvæðum má finna blómlegt líf þrátt fyrir að aðstæður kunni að virðast fjandsamlegar. Í hverum lifa örverur sem hafa aðlagast háum hita. Stundum má jafnvel sjá þær með berum augum, til dæmis sem hvíta þræði eða þykkar og litríkar þekjur. Örveruþekjur myndast gjarnan í affalli frá hverum og við jaðra þeirra. Þær eru oft grænar eða appelsínugular vegna þörunga, blágrænna baktería og annarra örvera sem búa yfir leitarefnum er binda sólarljós.
Í súrum og bullandi leirhverum finnast fábreytt samfélög og mjög hitakærra baktería og arkea. Þær nýta gjarnan jarðhitagasið og geta til dæmis fengið orku úr vetni eða brennisteinssamböndum og bundið koltvísýring í lífræn efni.

Hveradalir

Hveradalir – skiltin.

Kálfatjörn

Byggingin Skjaldbreið, eða Skjalda, á Kálfatjörn er steinhlaðin, upphaflega byggð sem fjós með sambyggðri hlöðu. Minja- og sögufélag Vatnsleystrandarhrepps hefur látið gera bygginguna upp, en hún var nánast komin að fótum fram. Við uppbygginguna var hún stækkuð til vesturs.

Skjaldbreið

Skjaldbreið 2025.

Í glugga Skjaldbreiðar er A4 blað. Á því má lesa eftirfarandi:
„Skjaldbreið var byggð á árunum 1883-1884 í tíð Stefáns Thorarensen sóknarprests og sálmaskálds á Kálfatjörn. Stefán var stórtækur og byggði fjögur hús á Kálfatjörn með sama lagi. Þetta staðfestir úttekt sem gerð var á jörðinni þegar Stefán lét af störfum árið 1886. Í úttektinni er talað um að 2500 kr. lán hafi verið veitt til byggingarinnar. Þar á finna greiðargóða lýsingu á Skjaldbreið þar sem talað er um heyhlöðu fyrir 400 hesta heys og fjós fyrir t til 8 nautgripi í sama húsi.
Stefán hafði mikil áform um uppbyggingu á Kálfatjörn og sóttist meðal annars eftir því að byggja þar steinkirkju. Þau áforn runnu út í sandinn.

Skjaldbreið

Skjaldbreið innanhúss 2025.

Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar hefur staðið fyrir endurbótum á Skjaldbreið. Hleðslumeistari var Guðjún Kristinsson og um smíði burðarvirkis og þaks sá Jón Ragnar Daðason. Verkefnið hefur verið styrkt af Húsfriðunarsjóði, Uppbyggingarsjóði Suðurnesja og Sveitarfélaginu Vogum.

Myndir og frásögn má finna á facebokk/minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar og Instagram/Vogaminjar.“

Sjá meira um grjóthleðsluendurgerðina HÉR.

Skjaldbreið

Skjaldbreið innanhúss 2025.

Stórkonusteinar

Gengið var spölkorn eftir Selvogsgötunni áleiðis upp í Kerlingarskarð. Áður en síga tók í var vent til hægri, niður slóða til vesturs undir Lönguhlíðum. Komið var m.a. við hjá Stórkonusteinum, gengið um Stórahvamm, framhjá Leirhöfðaatnsstæðinu, upp á Móskarðshnúka norðan Háuhnúka, niður Markrakagil og síðan til norðurs með Undirhlíðum, um Stóra-Skógarhvamm og að Gígbrekkum við Bláfjallaveg.

Stórkonusteinar

Stórkonusteinar.

Selvogsgatan var þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún var farin í einum áfanga. Eftir að komið var upp úr Mosunum í Þríhnúkahrauni ofan við Strandatorfur greindist leiðin, annars vegar upp Kerlingarskarð og hins vegar upp Grindarskörð. Ef haldið var um Kerlingarskarð var staðnæmst við vatnsstæði skammt ofan við skarðið. Svolítið vatn var þó einnig fáanlegt í drykkjarsteinum efst í skarðinu. Við vatnsstæðið er hlaðið í götuna. skammt frá því greinist gatan í tvennt; annars vegar niður Hlíðarveg, vel varðaða áleiðis niður að Hlíðarskarði ofan við Hlíð við Hlíðarvatn, og hins vegar til austurs yfir á Selvogsgötuna, sem kom þar ofan frá Grindarskörðum.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Skammt austar var svo Heiðarvegurinn um Heiðina há niður í austanverðan Selvog. Selvogsgatan lá með gjám (m.a. Stórkonugjá) gígum og hlíðum niður að Hvalsskarði. Neðan þess tóku við Strandardalur og Hlíðardalur þar sem Sælubuna var kærkomin áningarstaður. Þaðan lá gatan áfram niður heiðina, um Strandarhæð og niður í Selvog. Vörðurnar við gömlu Selvogsgötuna, eru flestar fallnar. Þar sem gatan liggur um Þríhnúkahraun hafa vörður þó verið endurhlaðnar.
Stórkonusteinar nefnast nokkur móbergsbjörg í Lönguhlíðarkróki, heldur nær Kerlingarskarði en Kerlingagili. Samkvæmt gamalli munnmælasögu velti tröllskessa í Stórkonugjá björgunum niður af Lönguhlíðarfjalli þegar eftirreiðarmenn reyndu að fanga hana.

Háuhnúkar

Móskarðshnúkar (Háuhnúkar).

Stórihvammur eða Lönguhlíðarhvammur austan Lönguhlíðarhorns var mjög grösugur í eina tíð og gott beitiland, en sandburður hefur spillt undirlendinu. Þó má enn sjá gróin valllendi milli hrauns og hlíða. Hraunið er úr Bollunum í Skörðunum fyrrnefndu. Stóribolli er einn formfegursti gígur landsins og enn nær óraskaður. Ofan hvammsins eru tvö gil og upp af því vestara áberandi móbergsklettur, sem nefnist Stórahvamms-Stapi. Beggja vegna eru einnig háir móbergsveggir.
Lönguhlíðarhorn skagar út úr hlíðinni líkt og Vatnshlíðarhornið norðan Lambhagatjarnar, Í því sunnanverðu er Kerlingagil, ágæt gönguleið og greiðfær upp á Lönguhlíðar.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.

Haldið var um Leirdali. Dalirnir eru í lægðarslakka, sem fyllast af vatni á veturna, með gróðurtorfum á milli. Álftanesskógar voru á þessum slóðum til forna, en nú finnast eingöngu stakir víði- og birkirunnar og einibrúskar hér og þar. Tvö vatnsstæði eru í Leirdölum, það syðra líkara vatni. Líklega hefur það verið ástæðan fyrir tóftunum í Fagradal, skammt sunnan þess.
Sunnan Leirdalshöfðavatnsstæðis liggur forn þjóðleið, Leirdalshöfðaleið.
Leirdalshöfðaleið liggur eins og Dalaleið frá Kaldárseli að Leirhöfða. Hún þræðir sig suður með höfðanum og fylgir suðurhlíðum hans að Leirhöfðavatnsstæði. Þar er stefnan tekin á Fagradalsmúla og Fagradal, eða um Breiðdal að Blesaflöt og fylgir síðan Vatnaleiðinni til Krýsuvíkur. Rjúpnaveiðimenn héldu gjarnan inn í Fagradal og fylgdu bröttum slóða, sem liggur frá dalbotni upp á brún Lönguhlíðarfjalls. Þegar upp er komið er hægt að velja ýmsar leiðir, en gömul þjóðleið liggur í áttina að Hvannahrauni (Hvammahrauni) og Gullbringu, hjá Geithöfða, um Hvamma og fram með Lambafellum að Krýsuvík.

Undirhlíðar

Undirhlíðar – Stóri-Skógarhvammur.

Gengið var á Móskarðshnúka um ás milli Breiðhdals og Slysadala.
Háuhnúkar eru hæstu ásar Undirhlíða suðvestan Markagils (Markrakagils) og skammt frá Vatnsskarði, vestan (sunnan) við Móskarðshnúka. Þeir eru allt að 263 m. háir. Á milli hnúkanna eru grónir hvammar og víða standa móbergskollar upp úr ásunum sem vatn og vindar hafa sorfið og mótað í aldanna rás. Þessi syðsti hluti Undirhlíðanna hefur af sumum verið nefndur Undurhlíðaendi því í Vatnsskarðinu (sem aðrir telja reyndar að hafi verið skarðið vestan Vatnshlíðarenda þar sem menn sjá fyrst niður að Kleifarvatni ofan Blesaflatar) tekur Sveifluhálsinn við.

Háuhnúkar

Háuhnúkar (Móskarðshnúkar).

Móskarðshnúkarnir (Háuhúkar) eru hins vegar heimur út af fyrir sig. Hæstur er syðsti hnúkurinn. Þegar horft er á hann úr vestri má sjá andlit horfa efst úr honum til norðurs. Norðan hans er hnúkaþyrping. Norðvestast í henni er falleg lítill móbergsskál, sem vindar og vatn hafa leikið sér að móta svo um munar. Skálin er bæði skjólsæl og einstaklega falleg. Skessukatlar eru við hana vestanverða. Á Undirhlíðum, skammt norðan við Móskarðshnúka, virðist vera gerð tilraun til melræktunar með neti, sem lagt hefurverið á jörðina, þ.e. að láta netið mynda skjól fyrir lággróðurinn.

Undirhlíðar

Undirhlíðar – Móskarðshnúkagil.

Móskarðsgil, á milli Móskarðshnúka og Stóraskógarhvamms, þykir fremur torfarið og svo er reyndar um öll gilin fjögur á vestanverðum Undirhlíðum milli Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar, nema Markagil (Markrakagil). Mörk Hafnarfjarðar liggja um gilið og þar mætast og mörk Garðabæjar og Grindavíkur í sneiðing með Lönguhlíðarhorninu.

Markagil virðist torvelt uppgöngu, en ofan frá séð er engum torfærum fyrir að vara. Neðst í gilinu eru fallegur smágerður stuðlabergshamar. Ystagil er skammt sunnar og Sneiðingur nyrst þessarra gilja.

Undirhliðarvegur

Undirhlíðarvegur.

Norðan Móskarðsgils er gróskumikill furuskógur, sem unglingspiltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík plöntuðu út 1959 til 1964, m.a. sá sem þetta skrifar, í samstarfi við félagsmenn í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Sumir hafa viljað Markagil þar sem nú er Vatnsskarð. Aðrir hafa fært það að næsta gili að norðan, en á kortum er gilið á fyrrnefndum stað. Á milli þess og Stóra-Skógarhvamms er Höfðinn, stundum nefndur Út-Höfði til aðgreiningar frá Inn-Höfða, sem er sunnan þess.
Brunahryggur nefnist hraunbrún í Nýjabruna norðvestan Undirhlíða. Í skjólsælum hvammi sunnan hraunbrúnarinnar hafa birkitré fest rætur og fengið frið til að vaxa. Þessi sérkennilegi blettur í mosagrónu hrauni er utan alfaraleiðar og fáir venja þangað komu sínar.

Undirhlíðaleið

Undirhlíðaleið.

Undirhlíðaleið hófst við Kaldársel og lá norðan Undirhlíða yfir núverandi Bláfjallaveg að Vatnsskarði. Þar var haldið áfram yfir núverandi Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Þar tók Ketilsstígur við og lá yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni, að Seltúni þar sem heimalönd Krýsuvíkur tóku við.
Nú er búið að stika Undirhlíðaleiðina. Á a.m.k. einum stað á þessum kafla má vel sjá móta fyrir hinni gömlu götu, þar sem hún er mörkuð í slétta hraunhelluna, en annars hefur slóði verið lagður yfir hana að hluta.
Gangan tók 1 klst og 11 mín. Frábært veður – skin og skúrir.

Heimildir m.a.:
-Raleikur Hafnarfjarðar 2006.
-Þorkell Árnason.

 Grindarskörð

Grindarskörð v.m. Kerlingarskarð h.m.

 

Elliðakot

Beðasléttur eru tegund ræktunarminja frá því um miðja 19. öld þar til um 1920 þegar vélvæðingin ryður sér til rúms á Íslandi, sbr. „beðslétta kv“, [skilgr.] Tún, sléttur með reglulegum beðum eða kúfum, [skýr.]

Guðmundur Ólafsson

Guðmundur Ólafsson (1825–1889).
Guðmundur kom 26 ára gamall frá námi í Danmörku, Svíþjóð og Noregi um miðja 19. öld. Þá ríkti hér á landi mikil tregða eða beinlínis andstaða gagnvart nýjum hugmyndum. Það mátti engu breyta.
„Þetta er í sjálfu sér áhugavert í ljósi þeirrar nýjungagirni sem ríkir á okkar dögum en samtími Guðmundar var afar íhaldssamur og hreint ekki móttækilegur fyrir þeim nýjungum sem hann vildi koma á. Framlag hans til ræktunarbóta og búnaðarfræðslu varð þó, þrátt fyrir þetta, mikilvægur hlekkur í framfaraátt í því staðnaða landeigendaveldi sem hér ríkti, fram yfir hans daga, eða allt fram undir aldamótin 1900.“
Guðmundur var við nám á árunum 1847–51 og var tvímælalaust meðal mest menntuðu manna sinnar tíðar hér á landi. Guðmundur var alþingismaður Borgfirðinga 1874–1880.

Árið 1874 kom Guðmundur Ólafsson frá Fitjum í Skorradal fram með þá hugmynd að menn ristu ofan af ósléttum túnum, mokuðu moldinni upp í beð og legðu þökurnar aftur yfir.
Hugmyndin á bak við þessar svokölluðu beðsléttur var að beðin eða kúfarnir kæmi í veg fyrir að pollar mynduðust í túninu og drægi þannig úr hættunni á svellkali.

Í „Leiðbeiningum“ Minjastofnunar Íslands um „Beðasléttur – Viðhald og varðveisla fornleifa“ frá árinu 2025 segir m.a.:
„Beðasléttur eða beðatún eru hluti af menningarlandslagi fyrri tíðar. Þessar minjar eru sýnishorn inn í fornar ræktunaraðferðir sem kynntar voru hér á landi um miðja 19. öld þegar námsmenn sneru aftur heim með nýja verkþekkingu í farteskinu, aðferð sem ætluð var til að efla og auðvelda fóðurframleiðslu. Um er að ræða mjög stutt tímabil í sögu túnræktar sem rennur sitt skeið með aukinni vélvæðingu um 1920. Markmið með beðasléttum var að fá slétt land til heyskapar og hindra að vatn sæti uppi á landinu en það getur valdið vetrarkali túngróðursins.
Fyrstu lýsingar á beðasléttugerð eru sennilega frá árinu 1874. Ásýnd þessara minja svipar mjög til annarra gerða minja, akurgerða, en þær eru mun eldri, eða frá miðöldum.

Aðferð við gerð beðasléttna
Grasvörðurinn var ristur ofan af jarðveginum, oftast með undirristuspaða og kastað til hvorrar hliðar. Jarðvegurinn á milli þeirra var plægður eða stunginn og borið í hann lífrænn áburður. Ávalir teigar voru mótaðir með rennum á milli og fyrir endanum á teigunum. Rennurnar tóku á móti vatninu sem kom af teigunum og veittu því burtu. Lengd, breidd og hæð teiga var mismunandi og fór þá helst eftir veðurfari svæðisins og hversu raklend jörðin var. Breidd teiganna var þó sjaldan meiri en svo að auðvelt væri að bera eða kasta torfþökunum til hvorrar hliðar.

Bjarni Guðmundsson

Bjarni Guðmundsson.

Teigar voru oftast látnir stefna undan halla landsins og þeir voru gjarnan nokkrir saman í syrpum/sléttu. Við jarðvinnsluna var yfirborð beðsins mótað ávalt/bungulaga og torfunum, sem ristar höfðu verið ofan af landinu, raðað yfir teiginn/beðið að nýju.“

Í Frey árið 2004 mátti lesa grein um „Beðasléttur – brot af búsetulandslagi“ eftir Bjarna Guðmundsson:
„Verktækni við ræktun túna hefur breyst mikið frá upphafi ræktunarbyltingarinnar. Langur vegur er frá handverkfærum til þeirrar öflugu verktækni sem nú tíðkast. Langstærstur hluti þeirra túna, sem í dag eru heyjuð, hafa verið unnin með vélum, flest á síðustu fimm áratugum eða svo. Minjar um eldri jarðrækt hafa víða verið máðar út. Nokkur dæmi má þó enn finna, ekki síst á eyðibýlum og hér og hvar heima við bæi, þar sem eldri túnsléttugerð hefur verið látin halda sér.

Beðasléttur

Óskot Mosfellsbæ – beðasléttur.

Einn er flokkur þessara minja sem hér og hvar má enn sjá en það eru beðasléttumar svonefndu er auka skyldu uppskeru túna og létta og flýta heyskap. Í snjóföl eftir léttan skafrenning sjást þær einna best, svo og í gróandanum. Þá koma regluleg beðin, sem einkenna þær, hvað gleggst í ljós; oft í brekkum og öðrum þurrlendishöllum nálægt bæjum.
En hvað er beðaslétta, vegna hvers voru þær gerðar og hvaðan er þessi verktækni hugsanlega komin? Orðið beðaslétta er ekki skráð í Íslenskri orðabók. Hins vegar er þar talað um beðatún sem tún þakið beðum líkt og í matjurtagarði (t.d. vegna handsléttunar).

Beðasléttur

Vilborgarkot – beðasléttur.

Þúfurnar voru „landsins forni fjandi” í yfirfærðri merkingu. Þær voru víðast einkenni þeirra litlu túna er til voru og þær takmörkuðu afköst við slátt og heyvinnu. Álitið er að bændur hafi fyrr á öldum haft áþekka aðferð við ræktun túna og akra, það er að pæla landið, og að það hafi fyrst verið eftir miðja 18. öld sem farið var að slétta tún og þá líklega eftir erlendum verkfyrirmyndum.
Þaksléttuaðferðin var algengasti hátturinn við túnasléttun lengi vel. Illa gekk að beita hestaplógi á gróinn íslenskan svörð; því varð oftast að rista ofan af áður en beita mátti jarðvinnsluverkfærum. Svipaðri jarðvinnslutækni munu bændur á Suðureyjum við Skotland m.a. hafa beitt.

Beðsléttur

Elliðakot – beðasléttur.

Guðmundur Ólafsson (1825-1889), jarðræktarmaður, löngum kenndur við Fitjar í Skorradal, skrifaði grein um þúfnasléttun sem birtist í ritinu tímaritinu Andvari árið 1874 (4). Þar lýsir hann, sennilega fyrstur manna opinberlega, beðasléttugerðinni án þess þó að nefna hana því nafni. Hann segir: „Til þess, að vatn geti ekki staðið á sléttunum, þurfa þær að vera í ávölum teigum, með rennum eður ræsum á milli. Teigarnir skulu vera því hærri og mjórri, sem jörðin er raklendari og liggur lægra, og eptir því, sem héraðið er rigningasamara. Fyrir endunum á teigunum skulu og vera rennur, eins og á milli þeirra. Bæði þessar rennur og þær, sem era á milli teiganna, eru til þess að taka á móti vatninu, sem kemur ofan af sjálfum teigunum, og því, er að þeim kann að koma annarstaðar frá.

Beðasléttur

Beðasléttur.

Meðal-teigsbreidd mundi vera 4-5 faðmar, að lengd 15-20 faðmar, en hæð 1 alin, það er að segja: teigurinn skal vera þetta hærri í miðjunni en í rennunum, sem eru í kríngum hana. Rennurnar skulu vera ávalar, eins og teigarnir, en ekki snarbrattir, lítur þá öll sléttan út eins og ávalar öldur í röð. Svo sem þegar var sagt, verður stærð og hæð teiganna að fara eptir landslagi og veðráttufari. Sé jörðin blautlend, og vatn renni af henni, þá þarf að leggja lokræsi í rennumar milli teiganna”…
Rök Guðmundar fyrir aðferðinni vom þau að losna við yfirborðsvatnið af ræktunarlandinu.

Beðasléttur

Bændaskólinn á Hvanneyri um 1937. Beðasléttur í brekku og áveituvatn fremst á
myndinni. Ljósm. Ólafur Magnússon.
Ásýnd beðasléttna í landslaginu minnir á ávalar öldur og helst má greina þær á túnum
eftir nýfallin snjó, léttan skafrenning eða við ljósaskipti sem dregur fram ávalt yfirborð
túnsins. 

„Vatnið er aðal-orsökin til þess, að jörðin þýfíst eður verður ójöfn. Menn sjá, að þar sem vatnið náir að standa annaðhvort á eður í jörðinni, þar kemur laut”, skrifar hann, og ennfremur „Það þarf nefnilega að slétta svo, að ekkert vatn geti staðnæmzt á sléttunni … Sléttur þurfa því að hafa þá lögun, að vatn geti hvorki staðið í þeim né á”. Guðmundur bendir á að þessi sléttunaraðferð sé seinvirk með þeim verkfærum og aðferðum sem þá tíðkuðust. Til sléttunarinnar þurfi hver bóndi að eiga áhöld sem hann tilgreinir og lýsir: „plógur, ristuspaði, akreka, pörnplógur, aurbrjótur og valti”.

Til þess að móta hinar ávölu öldur, beðin, var nauðsynlegt að flytja jarðveginn nokkuð til. Að vissu marki mátti gera það með plógnum eftir að grasrótin hafði verið rist ofan af landinu með því að „plægja það síðan um í teiga”.

Beðasléttur

Ólafsdalur – beðasléttur.

Guðmundur mælti með tvíplægingu hið minnsta og skrifaði í grein sinni: …,,því optar, sem hver teigur er plægður þannig, því hærri og brattari verður hann, eins og gefur að skilja … Ein plæging nægir ekki til að gjöra teigana nógu háfa og aflenda, eða til að gefa þeim þá lögun, er þeir eiga að hafa”. Að nokkurri vinnslu lokinni mátti síðan færa jarðveginn til með ak-rekunni, áhaldi sem síðar var þekkt undir nafninu hestareka. Breidd beðanna virðist hafa verið nokkuð mismunandi en 4 faðmar (um 7,5 m) sýnist hafa verið algeng breidd.

Beðasléttur

Beðasléttur.

Verkleg kennsla búnaðarskólanna íslensku snerist fyrstu árin (1880-1905) ekki síst um jarðrækt. Þar mun nemendum m.a. hafa verið kennt að búa til beðasléttur, og á skólajörðunum, t.d. Hvanneyri, má enn sjá allglöggar minjar um þær. Síðan beittu hinir brautskráðu búfræðingar kunnáttunni heima í sínum sveitum og verklagið breiddist út.
Hver sá sem slegið hefur gamla beðasléttu með nútíma sláttuvél kannast við að það er ekki skemmtilegt verk; ýmist ristir sláttuvélin í svörð niður eða skilur eftir óslegna mön, að ógleymdum veltingi dráttarvélarinnar.

Hestasláttuvél

Hestasláttuvél.

Skrifarann grunar að tilkoma hestasláttuvéla hafí á sínum tíma dregið úr vinsældum beðasléttnanna – að ekki hafi þótt eftirsóknarvert að slá beðasléttumar með þeim heldur. Fór enda svo að beðasléttugerðin lagðist að mestu af á fyrstu tveimur áratugum 20. aldarinnar.
Ef þú, ágæti lesandi, ræður yfir landi þar sem enn má sjá leifar gamalla beðasléttna skaltu halda yfír þeim hlífiskildi. Þær eru angi af menningarlandslagi fyrri tiðar, dæmi um nýja verkmenningu sem kynnt var til þess að efla og auðvelda fóðurframleiðslu búanna sem var lífsnauðsyn til þess að efla matbjörg þjóðarinnar þannig að hún gæti losað um vinnuafl til annarra starfa í verkaskiptu samfélagi – brotist fram til sjálfstæðis.“

Hestasláttuvél

Hestasláttuvél – framfarartæki þess tíma.

Beðasléttur voru ekki óalgengar um tíma á Reykjanesskaganum, s.s. að Elliðakoti, Óskoti, Vilborgarkoti og Laugarnesi. Telja má að þær hafi verið mun víðar, en nútíma landbúnaðartæki hafi smám saman afmáð þær af yfirborði túna, einfaldlega vegna þess að þeirra tíma tilurð hentuðu ekki framförunum í landbúnaði, s.s. sléttun og framræðslu túnanna til auðveldunar vélvæðingunni.

Heimildir:
-Aðalskrá Þjóðhættir – Undirskrá Spurningaskrár – Svör Sent/Móttekið 30.6.1977.
-https://issuu.com/bjgudm/docs/hvanneyrar_pistlar_22_loka/s/17165427
-Leiðbeiningar Minjastofnun Íslands – Beðasléttur; Viðhald og varðveisla fornleifa, 2025.
-Freyr, 5. tbl. 01.06.2004, Beðasléttur – brot af búsetulandslagi, Bjarni Guðmundsson, bls. 4-5.

Beðasléttur

Á korti Samúels Eggertssonar af Laugarnesi  og Kirkjusandi 1910 eru merktar inn 4 beðasléttur. Beðaslétturnar voru suðvestur af bænum. Beðasléttur voru einnig oft nefndar teigasléttur, en þessi heiti voru höfð um tún sem gerð voru með sléttunaraðferð Guðmundar Ólafssonar búfræðings og alþingismanns. Beðasléttur voru gerðar þannig að rist var ofan af túninu, jarðvegurinn plægður upp í beð í því skyni að vatn sæti ekki í honum og þar sem þess var þörf voru gerð lokræsi milli beðanna til að veita því burt. Síðan voru torfurnar lagðar yfir beðin.