Girðingar

Í „Lögum um skógrækt“ 1955 er m.a. fjallað um girðingar tengdri skógrækt. Í lögunum er því miður meiri áhersla lögð á skyldur en ábendingar til hlutaðeigandi, s.s. v/ skyldur vegfarenda, bann við aðgengi o.s.frv.

Girðing

Girðing með gaddavír.

Í 17. gr. segir: “ Komist sauðfé eða geitfé inn á skógræktarsvæði, sem girt er löggirðingu, má umsjónarmaður skógræktarsvæðisins taka féð í gæslu og láta merkja það. Skal þá hreppstjóri láta athuga girðinguna þegar í stað, og fullnægi hún kröfum 16. gr., eru fjáreigendur skyldir til að taka féð í vörslu, sem hreppstjóri telur örugga. Sleppi fénaður úr þeirri vörslu og komist enn inn á sama svæði, getur umsjónarmaður skógarins krafist þess, að honum verði afhent féð til ráðstöfunar.

Girðing

Girðingastaur.

Í 18. gr. er kveðið á um heimild hreppsnefndum og bæjarstjórnum að ákveða, að ákvæði næstu greinar hér á undan skuli gilda um trjáræktarreiti og garðlönd einstakra manna innan umdæmisins, enda séu þau girt löggirðingu samkvæmt 16. gr.
Agner F. Kofoed Hansen skógræktarstjóri lagði til við bæjarstjórn Hafnarfjarðar 1926 að friða þá skógarrunna sem eftir voru í Undirhlíðum. Girðinganefnd tók sér góðan tíma áður en ákveðið var að girða af einn hvamm þar sem uppblástur og skemmdir voru minnstar. Í framhaldinu voru ofanverðar Undirhlíðarnar girtar af fyrir ágengi búfjár.

Undirhlíðar

Undirhlíðar – girðingarleifar.

Í undirbúningi frumvarps til laga 1989 um takmörkunum á aðgengi búfjárs segir m.a.: „Þann 25. nóvember var haldinn fundur þar sem fulltrúar allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum voru boðaðir, ásamt sýslumanni Gullbringusýslu, bæjarfógetanum í Hafnarfirði og framkvæmdastjórum SSS. Þar var markmiðið kynnt og rætt. Var ekki annað að heyra en fundarmenn væru sammála erindinu. Sérstaklega var undirstrikað að tíminn væri naumur í þessu máli og að krafa um girðingu meðfram Reykjanesbraut stæði óbreytt ef ekki tækist að koma á banni við lausagöngu búfjár á svæðinu frá ársbyrjun 1990.

Skógræktargirðing

Skógræktargirðing á Undirhlíðum.

Þann 1. desember var síðan haldinn annar fundur um sama efni. Á þann fund voru boðaðir fulltrúar frá Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Landssambandi sauðfjárbænda, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Vegagerð ríkisins, Náttúruverndarráði, Búnaðarsambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu, Félagi sauðfjárbænda í Gullbringu- og Kjósarsýslu, ráðunaut Búnaðarsambands Kjalarnesþings og félögum sauðfjárbænda af svæðinu. Alls mættu 18 aðilar á fundinn. Svo sem að líkum lætur voru skoðanir nokkuð skiptar, en umræður málefnalegar. Fram kom nauðsyn þess að fjárhólf væru undirbúin í tíma og að leitað yrði samninga við búfjáreigenda um þau.

Í janúar sl. skipaði landbúnaðarráðherra fjögurra manna nefnd til að vinna frekar að framgangi málsins.

Girðingar

Umhverfis- og framkvæmdaráð hefur samþykkt beiðni Landgræðslunnar að styrkja uppgræðslu sameiginlegs beitarhólfs Hafnfirðinga og Garðbæinga í landi Hafnarfjarðar í Krýsuvík um 800.000 kr. og uppgræðslu norðan við Arnarfell um 250.000 kr.
Unnið hefur verið að uppgræðslu í beitarhólfi Hafnarfjarðar í Krýsuvík frá árinu 1988 en
uppgræðslan var á þeim tíma ein af forsendum þess að forsvaranlegt væri að
nýta hólfið til beitar sauðfjár.

Í henni eiga sæti Níels Árni Lund, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, Ólafur R. Dýrmundsson, landnýtingarráðunautur Búnaðarfélags Íslands, Stefán H. Sigfússon landgræðslufulltrúi og Valur Þorvaldsson, ráðunautur Búnaðarsambands Kjalarnesþings.
Nefndin hitti að máli fulltrúa frá Grindavíkurbæ, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnarfjarðarbæ ásamt fulltrúum fjáreigenda og landeigenda á svæðinu, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, formann gróðurverndarnefndar Gullbringusýslu og fulltrúa frá stjórn Reykjanesfólksvangs. Á grundvelli þeirra viðræðna lagði nefndin fram ákveðna tillögu um beitarhólf innan friðaða svæðisins og kostnaðarskiptingu vegna girðingaframkvæmda.“
Í niðurlagi segir: „Góðar vonir standa til að fullt samkomulag geti tekist um tilhögun búfjárhalds á svæðinu og gerð sérstakra beitarhólfa innan hins friðaða svæðis.“

Kaldrani

Kaldrani – hleðsla undir nýlega girðingu.

Þrátt fyrir allt framangreint, sem eflaust hefur verið talið tímabært þá og þegar var, má í dag sjá girðingaleifar og flaksandi ryðgaðan gaddavír vítt og breytt um Reykjanesskagann, einkum í ofanbyggðum Hafnarfjarðar. Má í því sambandi nefna niðurnýddar skógræktargirðingarnar umlykjandi Hrauntungurnar, sem eru einstaklegar augljósar á hægri hönd þegar ekið er upp Krýsuvíkurveginn sem og allt skógræktarsvæðið, niðurnýdda gaddavírsgirðinguna eftir endilöngum ofanverðum Undirhlíðum og óþarfa meintum fjárveikisgirðingunum ofan Helgadals að Kolhól o.s.frv. Í dag þarf göngufólk um upplandið t.d. að klofa yfir gaddavírsgirðingar sunnan Kringlóttugjáar. Auk þessa liggja gömlu bæjargirðingarnar niðri á kafla sunnan Helgafells allt að endastaurnum vestan Fagradals.

Gaddavír

Gaddavír. Enn má sjá leifar sumra þeirra á hálsunum ofan Hafnarfjarðar.

Við, íbúarnir á höfðuðborgarsvæðinu, og gestir, eigum ekki að þurfa á gönguferðum okkar um upplandið að klofa yfir gaddavírsgirðingar eða detta um leifar gaddavírsins í lúpenubreiðunum… Forkólfar skógræktarinnar lögðu sig fram á sínum tíma, eðlilega, við að girða af bæði einstaka skógræktarreiti og jafnvel heilu landssvæðin. Girðingar þjónuðu sínum tilgangi, á meðan var, en í dag standa þær eftir sem „rusl“ á víðavangi. Forkólfar skógrækarinnar þurfa að bregðast við og hreinsa upp leifar forkólfanna, eða bíða eftir að Alþingi samþykki lög um slíka framkvæmd.

Við, íbúarnir á höfðuðborgarsvæðinu, eigum ekki að þurfa á gönguferðum okkar um upplandið að klofa yfir gaddavírsgirðingar eða detta um leifar gaddavírsins í lúpenubreiðunum…
Forkólfar skógræktarinnar lögðu sig fram á sínum tíma, eðlilega, við að girða af bæði einstaka skógræktarreiti og jafnvel heilu landssvæðin. Girðingarnar þjónuðu sínum tilgangi, á meðan var, en í dag standa þær eftir sem „rusl“ á víðavangi. Forkólfar skógrækarinnar þurfa því að bregðast við og hreinsa upp leifar forkólfa sinna, eða bíða eftir að Alþingi samþykki lög um skyldur þeirra til slíks….

Heimild:
-Lög um skógrækt nr. 3 6. mars 1955.

Skógrækt

Stoltur skógarbóndi með ásýnd sína.

Ari Þorgilsson

Helgi Þorláksson skrifaði grein í tímaritið Sögu árið 2013 undir yfirskriftinni „Deila um gildi fornleifa og ritheimilda?„. Greinin sem slík er lítt merkileg þrátt fyrir tilefnið, en þess merkilegri þrátt fyrir vangavelturnar um öll merkilegheitin þar sem léttvæg álitamál sagnfræðinnar og fornleifafræðinnar mætast á prentsvertunni. Sumir sagnfornfræðingar eru viðkvæmari en aðrir þegar að gagnrýni kemur:

Helgi Þorláksson

Helgi Þorláksson – prófessor emeritus .

„Ég tek undir með Steinunni Kristjánsdóttur þar sem hún segir í grein í síðasta hefti Sögu að fornleifar séu „engu ómerkari minningarbrot úr fortíðinni en þau sem varðveitt eru í texta“. Hún bætir við: „Annar heimildaflokkurinn er ekki áreiðanlegri en hinn, enda þarf að túlka þá báða, lesa sem texta og setja í samhengi við viðfangsefnið“. Undir þetta tek ég heilshugar. Steinunn fullyrðir hins vegar að um þetta standi deila milli fornleifafræðinga og sagnfræðinga og að hinir síðarnefndu hafi oft gengið svo langt að telja fornleifar „ómarktækar ef engar ritheimildir styðja það sem þær leiða í ljós“ (bls. 131). Um þessa skoðun vitnar hún til BA-ritgerðar í sagnfræði frá 2010 eftir Kristel Björk Þórisdóttur sem skrifar m.a.: „Skriðu klaustur var líklega frekar vistheimili en sjúkrahús með markvissa lækningastarfsemi.

Steinunn Kristjánsdóttir

Steinunn Kristjánsdóttir – Alltaf gaman þegar konur karpa um álitamál, sem í raun skipta engu máli.

Heimildir eru um fáa munka á klausturtímanum og er erfitt að styðjast eingöngu við fornleifar“. Út frá þessu ályktar Steinunn: „Niður stöður ritgerðarinnar eru því þær að ekki sé hægt að halda því fram að í klaustrinu hafi verið stundaðar lækningar að hætti miðaldafólks vegna skorts á rituðum heimildum um þær“. Þetta segir Kristel Björk ekki, hún telur að fornleifar sýni einmitt að lækningar hafi verið stundaðar í klaustrinu að einhverju marki. en hún þorir ekki að fullyrða að þarna hafi verið sjúkrahús í þeirri merkingu að sjúklingar hafi verið teknir inn til að fá markvissa meðhöndlun með lyf- og handlækningum.

Kristel Björk Þórisdóttir

Kristel Björk Þórisdóttir. Skrifaði loka BA-ritgerð í sagnfræði – Klaustur á Íslandi : sjúkrahús eða vistheimili á miðöldum? undir leiðsögn Helga.

Hún telur líklegt að fólk hafi leitað líknar og hjúkrunar í klaustrinu og jafnframt andlegs styrks og sáluhjálpar. Megi líklega líta á klaustrið sem líknarstofnun eða vistheimili þar sem áhersla hafi verið lögð á andlega umönnun og fyrirbænir en þó jafnframt veitt líkamleg umönnun og líkn.
Ekki skal ég fjölyrða frekar um rök Kristelar Bjarkar og skoðanir enda er hún best fær um að gera grein fyrir þeim sjálf. En út frá þessu dregur Steinunn almennar ályktanir um viðhorf sagnfræðinga til fornleifa; hún segir, eins og fram er komið, að það sé „oft“ litið svo á innan sagnfræði að fornleifar séu ekki marktækar nema þær hljóti staðfestingu af rituðum heimildum. Hverjir hafa sett þetta fram og hvar? Ég kannast ekki við það.
Undir lok greinar sinnar segir Steinunn að orðið sé tímabært að sagnfræðingar líti á fornleifafræði sem sjálfstæða á þann hátt sem þeir líti á sína eigin grein. Ekki veit ég hvert Steinunn sækir þá hugmynd að sagnfræðingar líti ekki á fornleifafræði sem sjálfstæða grein.

Eitt sinn var ekki ótítt að sagnfræðingar nefndu fornleifafræði hjálpargrein sagnfræðinnar. Þetta má ekki skilja svo að þar með hafi þeir talið fornleifafræði undir skipaða og óæðri.

Hrísbrú

Fornleifauppgröftur í Mosfellsdal.

Það væri í sjálfu sér jafneðlilegt að fornleifafræðingar nefndu sagnfræði hjálpargrein fornleifafræðinnar og myndi sennilega ekki valda óróa meðal sagnfræðinga.
Eftir því sem ég veit best munu flestir eða allir íslenskir sagnfræðingar sem fást við hina elstu sögu taka algjört mark á meginniðurstöðum í fornleifafræði. Miðaldasagnfræðingar hafa almennt, og fyrir löngu, hafnað Landnámu og Íslendingasögum sem grunnheimildum um þessa elstu sögu og eiga því mikið undir niðurstöðum fornleifafræðinga. Steinunn skilur þetta hins vegar svo að sagnfræðingar séu sífellt að reyna að sanna eða afsanna hinar rituðu heimildir út frá fornleifum, t.d. hvort landið hafi verið numið 874 eða ekki.

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson (1068-1148).

Rétt er að sumir sagnfræðingar benda á að vitnisburður Ara fróða í Íslendingabók um upphaf landnáms, norræna forystumenn um landnámið og hvenær þeir námu land, komi merkilega vel heim við megin niðurstöður fornleifafræðinga. Og fyrst Ari nefnir Ingólf er varla hægt að finna að því að sagnfræðingar skuli reyna að svara því hvort norrænn maður með þessu nafni hafi verið til og verið í einhvers konar forystu um landnám hérlendis eða hvort hann sé uppspuni. Fari hins vegar svo að þorri fornleifafræðinga telji að almenn og varanleg búseta í landinu hafi hafist mun fyrr en Ari telur (hann segir að það hafi verið um 870) munu sagnfræðingar hafna Ara. Ástæðan er einföld: hann ritaði ekki heimild sína fyrr en nærri 1130, hún stenst því ekki kröfur sem gerðar eru til góðra ritheimilda, að þær hafi orðið til sem næst atburðatíma. ekki er heldur að hafa neina sjálfstæða innlenda ritheimild til samanburðar, Ari mun hafa átt einhverja aðild að landnámsskrifum og að samantekt Frumlandnámu og því er hún og Íslendingabók háðar heimildir.

Skriðuklaustur

Skriðuklaustur – fornleifauppgröftur.

Af þessu má ráða að sagnfræðingar líta á fornleifafræði sem sjálfstæða grein. Hitt er annað mál að um niðurstöður einstakra fornleifarannsókna getur ríkt efi, fornleifar má oft túlka á ýmsa vegu. Á þetta fellst Steinunn, eins og tilvitnuð orð hennar hér í upphafi pistilsins sýna. Í BA-ritgerð sinni treystir Kristel Björk sér ekki til að taka undir þá ályktun Steinunnar að á Skriðuklaustri hafi verið „hospital í þeirri merkingu að þar hafi verið stund aðar lyf- og handlækningar“. Ég leiðbeindi að vísu Kristel við ritgerðarsmíðina, en ólíkt henni hef ég ekki myndað mér neina skoðun á efninu. en Steinunn segir að hérlendir fræðimenn telji að starfsemi íslenskra klaustra hafi verið frábrugðin því sem tíðkaðist erlendis; þeir hafi ekki áttað sig á að þau skyldu stuðla „að bættu líferni manna á jörðu“ og á Skriðuklaustri hafi það snúist „fyrst og fremst um að sinna sjúkum“. Þetta hafi „margir“ fræði menn átt erfitt með að viðurkenna, segir hún, og vísar aftur til Kristelar Bjarkar en aðeins hennar. Hvar eru hinir mörgu? Það væri fróðlegt og sjálfsagt skemmtilegt að fá að sjá rökræður Steinunnar við þá. BA-ritgerð Kristelar Bjarkar er prýðileg en getur ekki talist almenn viðmiðun eða samnefnari fyrir skoðanir íslenskra fræðimanna á klaustrum.“

Heimild:
-Saga, 2. tbl. 2013, Deila um gildi fornleifa og ritheimilda? – Helgi Þorláksson, bls. 183-185.

Íslendingabók

Íslendingabók – formáli endurritunar.

Reykjanes

Í B.A.-ritgerð Bryndísar Súsönnu Þórhallsdóttur, „Munað og gleymt – Varðveisla landamerkja á Reykjanesi“ í fornleifafræði frá árinu 2021 segir m.a. um efnið [hafa ber í huga að hér er verið að fjalla um landamerkri á vestanverðum Reykjanesskaga, en ekki á Reykjanesinu sem slíku, enda er það einungis smábleðill á fyrrum landamerkjum Hafnahrepps og Grindavíkur]:

Saga landamerkja og örnefna á Reykjanesi

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Ekki hefur verið skrifað mikið um landamerki hérlendis. Iðulega virðast þau einungis vera partur af heildar örnefnaskráningu en eru yfirleitt ekki rannsökuð út af fyrir sig. Þau eru yfirleitt bara nýtt til þess, eins og nafnið bendir til, til að marka línuna milli tveggja eða fleiri jarða. En hér skal úr því bæta, að minnsta kosti fyrir Reykjanesið. [Hér hefur gleymst að geta um starf Óbyggðarnefndar HÉR og HÉR.]
Reykjanesskaginn er á suðvesturhorni Íslands, suður af Faxaflóanum og er svolítið í laginu eins og fótur sem teygir sig vestur í átt að Snæfellsnesinu. Skaginn er gerður upp af Reykjanesinu, Miðnesinu (áður Rosmhvalanes) og Garðskaganum. Á honum eru Keflavík, Njarðvík, Hafnir og Ásbrú, nú undir Reykjanesbær; Garður og Sandgerði, sem í dag heitir Suðurnesjabær; Grindavík og Vogar á Vatnsleysuströnd, sem eru sitthvort bæjarfélagið, ásamt stökum bújörðum.

Húshólmi

Húshólmi í Ögmundarhrauni. Minjar frá upphafi byggðar hér á landi.

Þó að ekki séu til mikið um skrifaðar heimildir fyrir búsetu á Reykjanesinu fyrstu 300 árin eða svo virðist það hafa þó verið svo til samfelld frá landnámi. Fyrstu heimildir um það má finna í Landnámu þar sem talað er um Rosmhvalanes (Landnáma, bók 1, bls. 392; bók 2, bls.167), Grindavíkur (Landnáma, bók 2, bls. 331) og Krýsuvík (Landnáma, 2, bls. 302, 132), en einnig á nokkrum stöðum í DI (DI II, bls. 76, DI VII, bls. 457-458). Það virðist vera sem magn jarða á Rosmhvalanesinu og Vatnsleysustrandarhreppi voru komnar í byggð á 13. öld þegar elstu öruggu skriflegu heimildirnar koma fram. Margar þær jarða sem eru nafngreindar í skjölum þessum eru í byggð í dag, ýmist sem bújörð eða bæjarfélag en þó er eitthvað um eyðijarðir. Bæjarfélögin verða því tekin fyrir hver á fætur öðru og skoðað verður merkin þeirra. Sumar jarðirnar hafa landamerkjabréf en þar sem þau eru ekki að finna verður rýnt í ýmis konar nýrra efni.

Njarðvík

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Áki Grenz.

Njarðvíkurnar eiga sér langa sögu og virðist verið orðin kirkjujörð tiltölulega snemma. Þær skiptast í dag í Ytri- og Innri-Njarðvík en heyra þó báðar [nú] undir Reykjanesbæ.
Það eru ekki til miklar heimildir fyrir Njarðvíkurnar á miðöldum. Það er talað um þær í rekjaskiptaskránni fyrir Rosmhvalanes sem dagsett er um 1270. Þar segir að þær eigi viðreka inn í Keflavík á móts við Hólm (Leiru) (DI II, bls. 76). Hitt er kirkjuskrá Hítardalsbókar sem er dagsett 1367 og tala um eignir kirkjunnar (DI III, bls. 221) sem lítilfjörlega virðast vera.

Njarðvík

Ytri-Njarðvík – Áki Grenz.

Þarna virðist vera hálfkirkja, því Njarðvík syðri (til að aðskilja kirkjuna í Njarðvík í Borgarfirði eystri) var ekki eigna mikil og ekki kom hún fram í kirkjuskrá þó að kirkjur nágranna jarðanna á Hvalsnesi, Kirkjubóli, Útskálum og Kirkjuvogi voru taldar upp. En einhver hljóta landamerkin hafa verið. Eina merkið sem fannst og var fullvíst að væru landamerki í Njarðvíkurlandi er Kolbeinsskor í skrá Stóruvoga (DI VII, bls. 299). Kolbeinsskor er þekkt sem Innriskora í dag og situr á Landamerkjunum milli Voga og Reykjanesbæjar. Upp af henni, á hamrinum sem situr milli Innriskoru og Ytriskoru er varða sem ber heitið Kolbeinsvarða sem einnig situr á merkjalínunni (SÁM, Vogar, Ari Gíslason).

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Áki Grenz.

Þannig er hægt að sjá að þó að gamla landamerkið hefur breytt um nafn, þá lifir það áfram í öðrum merkjum, þá líklegast því þau eru nýtt sem landamerki. Þegar borin eru saman landamerki Innri-Njarðvíkur annars vegar og Voga hins vegar má sjá smá mismun. Skráin fyrir Innri-Njarðvík ber einungis nýja heitið, það er Innriskora (skrifað Innri-Skora í skjalinu (SÁM. Innri-Njarðvík, Ari Gíslason) en Kolbeinsvarðan kemur fyrir í skrá Voga. Þar sem þetta örnefni kemur einungis einu sinni fyrir í miðaldar skjölum má gera sér hugmynd um að munnlega geymd hafi þarna hjálpað til. Skoran er einnig landsvæði sem ómögulegt er að færa til, og því líkleg ástæða að ekki hafi nafnið fallið niður.

Háaleiti

Tröllin á Háaleiti.

Annað stakt merki má finna fyrir Njarðvík og það er að finna í skrá fyrir Hvalsnes og Stafnes (sem rædd verður frekar neðar). Þar kemur fyrir landamerkið Hafa leiti (DI II, 81). Landamerkið kemur fyrir í landamerkjabók fyrir Hvalsnestorfuna, eins og hún er nefnd þar og segir. ‘’þaðan liggja merkin beina línu uppá Háa-leyti, fyrir sunnan kölku’’ (LAN, 1922, bls. 43). Þarna er því verið að tala um Háaleiti. Háleitið kemur aftur fyrir í skránni fyrir Stafnes ‘’Torfmýrar hafa verið til hér í hlíðinni, en það, sem hæst ber hér upp af, heitir Háaleiti og er nú komið undir flugvöllinn.’’ (SÁM, Stafnes, Ari Gíslason).
Flugvöllurinn er Keflavíkurflugvöllur, sem Bretar og Bandaríkjamenn byggðu upp á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og er í dag alþjóðarflugvöllur okkar Íslendinga. Þarna má sjá að hernám Íslands hefur haft áhrif á landeignir og nýtingu enda skruppu Stafnes og Hvalsnes löndin töluvert saman við þetta.

Keflavík

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Í dag er Keflavíkur bóndabærinn í eyði og hefur verið lengi. Gamli Keflavíkurbærinn er sagður hafa verið upp á hrygg eða höfða sem var upp og suður af Grófinni. Því til staðfestingar áttu að hafa fundist mannvistarleifar þegar túnið var sléttað í tíð Duus eldri (Marta Valgerður Jónsdóttir, 1947, bls. 1). Duus hin eldri var fæddur 1795. Hann keypti Keflavíkurtorfuna 1848 og rak á henni verslun þar til 1864, þegar hann seldi syni sínum reksturinn (Skúli Magnússon, 1973, bls. 693). Túnið var því væntanlega sléttað milli 1848 og 1864.
Ekki er talað mikið um bújörðina Keflavík í máldögunum, heldur er aðeins vísað til hennar. Í henni eru bæjirnir Darrastaðir og Straglastaðir sem Árni Magnússon & Páll Vídalín segja ‘’að skynsamir menn ætla að þær sjeu hinar sömu, sem nú er kölluð Kothús og Ívarshús’’ (Árni Magnússon og Páll Vídalín, 1982, bls. 106).

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur í Leiru – SG.

Þeir styrkja fullyrðingu sína á að ekki séu Darrastaðir og Straglastaðir til undir þeim nöfnum í dag en Kothús og Ívarshús standi aftur á móti í sömu röð og bæirnir úr eldri lýsingum. Í DI II eru þessar jarðir nefndir í skjali um rekaskipti milli jarða á Rosmhvalanesi en þar segir ‘’Jinn primis, Holmvur æ vidreka inn j keflavik til motz vid niardvík’’ Þarna virðist Keflavík í raun ekki vera búsetusvæði heldur vera mörk rekaskipta á milli Hólms í Leiru (þar sem í dag er Hólmsvöllur) og Njarðvíkur. Vitað er um verslun á svæðinu árið 1566 (DI XIV, bls. 472) en búseta fólks er ekki skráð fyrr en 1703, þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín skrá þar jarðnytjar svæðisins (Árni Magnússon og Páll Vídalín, 1982, bls. 105). Þó má gera sér hugarlund að þarna hafi lengi verið byggð, bæði út frá hinum meintu tóftum í túni Duus, en líka var bæði verslun og gjöful fiskimið undan ströndum.

Kalka

Kalka – varðan var eyðilögð við gerð Meeksflugvallar.

Fyrsta heildstæða landamerkjaskráin fyrir jörðina Keflavík var ekki tekin fyrr en árið 1889, sem við höfum og varðveitum, og segir svo ‘’Frá svokölluðu Ós-skeri í fjörði (er liggur til suð-austur frá Nástrandargróf, ofan til við marbakka og merkjum jarðföstum kletti, þaðan strönd og beina stefnu, að vörðu í Háaleiti (Kölku), þaðan að svonefndri Keflavíkurberg, er liggur sunnan við Sandgerðisveginn, þaðan heima línu að Hellunefi innan Helguvík á Hólmsbergi. Á hallri klöpp ofan til á Hellunefi og jarðföstum steini á marbakkanum beint uppundan Ós-skeri er markað L.M., séu er einkennir landamerkjamark jarðarinnar, og þýðir landamerki.’’ (LM, Gullbringu- og Kjósarsýsla; Veðmálabók 1, 1889, bls. 240).
Þarna kemur fyrir Háleiti aftur og talað er um vörðu á því. Varða þessi kemur einnig fyrir í landamerkjaskrá Hvalsnes og Stafnes (DI II, bls. 81) og því má sjá að landamerkin virðast hafa verið þarna lengi. Varða þessi kemur aftur fyrir í skrá Ytri-Njarðvíkur og nefnist þá Grænásvarða. Það kemur heim og saman því eins og talað var um ofar, þá situr Háaleitið rétt hjá Grænásbrekkunni.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn er þar sem Kalka var.

Áhugavert er að sjá að hvorki Háaleiti né Kalka kemur fyrir í skrá Ara fyrir Keflavík (SÁM, Keflavik, Ari Gíslason) en hún er aftur á móti í skránni fyrir Ytri-Njarðvíkurnar (SÁM, Ytri-Njarðvík, Ari Gíslason). Þar vandar hann ekki orðið hernum og talar um eyðilegging menningu landsins. Eins og var um rætt ofar þá saxaði koma hersins á landsvæði Suðurnesjabúa. Sum annara nafnanna koma fyrir í skránni hans, en hann skrifar Vatnsnes (1) er allstórt nes, er gengur í sjó fram. Nú er það mikið orðið byggt. Óssker (2) er í fjöru suðaustur frá svonefndri Nástrandargróf (3), sem er jarðfall mikið, nyrzt í kaupstaðnum, sem nú er.

Njarðvík

Njarðvíkur 1950. Vatnsnes fremst.

Norðan á Vatnsnesi er Vatnsnesbás. Þar var lending í gamla daga. Við norðurendann á Vatnsnesi er stór klettur laus við, sem nefndur er Vatnsnessteinn, og Vatnsnestjörn. Þar innar er bás, sem nefndur er Gatbás. Yfir hann er hvelfing, svo er bás, og þá er komið að Hjallbás, þar sem garðurinn liggur fram. Þá er eins og há nípa fram, sem heitir Hrafnahreiður. Það er í höfninni. Norðan við Nástrandargróf er hluti af Hólmsbergi, og þar á merkjum er Hellunef innan við Helguvík. Svo er þar uppi i heiðinni Rósuselstjarnir og Keflavíkurborg.’’ (SÁM, Keflavík, Ari Gíslason).

Hvalsnes og Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Bæirnir Hvalsnes og Stafnes standa í Suðurnesjabæ, sameiginlegu bæjarfélagi Garðs og Sandgerðis. Þessir tvö bæjarfélög sameinuðust undir einn hatt 2018 og tóku upp hið nýja nafn 7. janúar 2019 (Mbl.is, Heitir nú formlega Suðurnesjabær). Hvalsnes er og hefur verið kirkjujörð lengi en heyrir núna undir Útskálaprestakalli. Stafnes er í dag kölluð Stafnestorfan, en jörðinni var skipt upp í nokkrar jarðir. Í landamerkjaskrá fyrir Hvalsnes og Stafnes á Miðnesi segir: ‘’fra miosynde firi nordan tvnid aa starnesi ok til hlavp oss firi nordann vog: aa starnes vid hvalsnes þridivng j ollvm rekvm ok veidvm vtann storreka j hval. þat aa starnes firi avllv landi sínv. Hvallsnes aa j starnes land aa mela vt tveggía manada beit aa vor: Sambeit aa millvm garda firi nordan avgmvndar gerdi: Enn lyngrifa mork skilvr gata sv er liggur firi svnnann torfmýrar ok vp i hafa leiti til vordv þeirrar er standur aa letinv þar sem hæst er ok vo sydur sem hæst er leitid til motz vid kirkiv vog og niardvík. ok divpa vog. enn reka mork millvm divpa ogs ok starnes ok hvallsnes skilr grof sv er verdvr firi innann klettana til hægri handar er ridit er fra kirkiv vogi.’’ (DI II, bls. 81).

Hvalsnes

Hvalsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefnin eru öll þekkt eða í nýtingu í dag. Þar á meðal Torfmýar og Ögmundargerði, lítill grasblettur í landi Stafness (Magnús Þórarinsson, 1960, bls. 150). Ekki er vitað hver þessi Ögmundur var sem bletturinn er nefndur eftir (SÁM, Stafnes, Halldóra Ingibjörnsdóttir) en fornbréfaskráin þar sem nafnið kemur fyrir er dagsett um 1270. Torfmýrin var þekkt sem örnefni þegar skráin fyrir Stafnes var tekin (Ari Gíslason) en svæðið var ekki lengur í eign Stafness. Ekki eru miklar frekari upplýsingar um þessar jarðir í DI. Þær koma aðeins fyrir í öðrum skjölum en ekki eru frekari umræður um jarðirnar sjálfar heldur einungis skiptingu nytja þeirra og annarra jarða á Reykjanesinu (DI II, bls. 76). Þar eru þær einungis nefndar með nafni en frekari skráning örnefna er ekki að finna.
Nafnið hefur því haldist í nýtingu í gegnum tíðina án efa vegna stöðu þess sem landamerki en þegar flugvöllurinn var reistur á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar fékk hlutverk hans á svæðinu forgang.

Gufuskálar, Nýlenda, Akurhús og Lónshús

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Gufuskálar koma fyrst fyrir í Landnámu. Þar er talað um mann sem er kallaður Ketill gufa. Í heimildinni segir ‘’Ketill tók Rosmhvalanes; sat hann hinn fyrsta vetr að Gufuskálum, en um várit fór hann inn á Nes og sat at Gufunesi annan vetur.’’ (Landnáma, 1, bls. 167). Og seinna, ‘’Ketill fekk engan bústað á Nesjum, ok fór hann inn í Borgarfjord at leita sér at bústað ok sat hinn þriðja vetr á Gufuskálum við Gufá. Hinn fjórða vetr var hann á Snjófjallanesi at Gufuskálum’’ (Landnáma, 1, bls. 167) og en seinna ‘’Ketill gufa nam Gufufjord ok Skálanes til Kollafjarðar.’’ (Landnáma, 1, bls. 169). Gufuskálar á Romshvalanesi, það sem í dag er Suðurnesjabær í Gullbringusýslu, og Gufuskálar á Snæfellsnesi draga því báðir nafn sitt af sama manninum ásamt Gufunesi á höfuðborgarsvæðinu og Gufuá í Borgarbyggð.

Sjálfkvíar

Sjálfkvíar.

Gufuskálar eru í eyði í dag en þó má finna tvö landamerki sem hafa lifað af til nútímans.
Í rekaskjali Rosmhvalanes má finna ‘’og vt at gnvpe þeim er verdvr fyýrer innann sialfkviar; [sionhending rædvr þadann vr henni ok vt j tyslinga stein. Gvfuskaler eigv þadamm vt til midvardar os: Þa eigv Midhvs vt til býrdinga skers j vtskala oss.’’ (DI II, bls. 76).

Þrívörður

Þrívörður.

Sjálfkvíar og Þyrsklingasteinar eins og þeir eru skrifaðir í dag, tilheyra landi Gufuskála. Landið náði áður upp í Þrívörðurnar sem standa sunnan við Rockwill en hefur án efa smækkað töluvert við komu hersins. (SÁM, Gufuskálar, Símon Guðmundsson). Midvardar eru í dag Miðvör og Miðhús standa enn. (SÁM, Nýlenda, Akurhús, Lónshús, Ari Gíslason).
Ekki kemur nafnið Byrdinga sker neins staðar fyrir í nútíma skrám og ekki er víst hvort það hafi fengið nýtt nafn, eða að það hafi horfið vegna ágang sjávar.

Sandgerði, Garður og Hafnir

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – herforingjaráðskort.

Miðnesið er nes sem gengur norður úr Reykjanesinu og var áður kallað Rosmhvalanes. Rosmhvalur er gamalt heiti yfir Rostung og bendir það til að þar hafi verið rostungabygð en skjaldarmerki Sandgerðis ber þess vegna rostung. Nesið nær frá Ytri-Njarðvík og allt vestur að Kirkjuvogi (Höfnum). Samkvæmt Landnámu á Steinunn Gamla, frænka Ingólfs Arnarsonar að hafa numið allt Rosmhvalanesið.
‘’Steinuðr en gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands ok var með Ingólfi enn fyrsta vetr. Hann bauð at gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir útan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum.‘’ (Landnáma, 2, bls. , 302).

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Frekari heimildir eru fyrir landnámi í Höfnunum og í Landnámu segir ‘’Þeim Herjólfi gar Ingolfr land á milli Vágs ok Reykjaness’’ (Landnáma, bók 2, bls. 393).
Forn landamerki fyrir nesið er sögð vera ‘’lína sú, sem dregin er frá Hunangshellu í Ósabotnum í Háleitisþúfu á Hafnarheiði og frá Háaleitisþúfu til Dungsgrófar í Keflavík.’’ (Gunnar M. Magnússon, 1963, bls. 10) (feirletrun mín).
Til er eldra skjal, dagsett um 1200 sem telur kirkjur í Skálholtsumdæmi (DI XII, bls. 1). Þar er verið að ræða um kirkjur sem þurfa á prestum að halda og má því sjá að þær sem koma fyrir eru ekki hálfkirkjur eða eigna litlar. Þar telur meðal annars telur kirkju í Njarðvík (DI XII, bls. 4).

Grindavík og Vogar

Grindavík

Grindavík – bæjarmerki.

Byggð í Grindavík kemur fyrir í Landnámu, en þar segir ‘’En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.’’ (Landnáma, bók 2, bls. 330). Moldar-Gnúpur er sagður hafa upprunalega hafa sest að á Álftaveri en flúið undan eldgosi (Landnáma, bók 2, bls. 331) og settust hann og synir hans að á landsvæði sem náði frá Selatöngum allt fram á Reykjanesið, það sem er nú Grindarvíkursvæðið. Þessir jarðeldar sem talað er um, er allra líklegast eldgosið sem kom upp í Eldgjá í kringum 934 (Björn Þorsteinsson, 1983, bls. 28).
Ekki er vitað hvernig byggð þróaðist eftir það fyrr en á 13. öld, þegar fyrsta dagsetta heimildin fyrir búsetu á svæðinu kemur fram. Þar höfum við elstu staðfestu heimildina á nafninu Grindavík og jörðinni sem því fylgir.

Staður

Staður fyrrum – fyrsti kirkjustaður í Grindavíkursókn.

Sú heimild kemur úr kirkjuskrá er gerð var í tíð Páls biskups Jónssonar, sögð vera skráð um 1200 (DI XII, bls. 9). Þar er listi yfir kirkjur sem þurfa presta þjónustu, það er, ekki hálfkirkja. Þar má sjá að komin var næg byggð í Grindavíkinni til að hafa kirkju sem er nógu stór til að þurfa prest og fulla prestþjónustu.
En hvernig þróuðust síðan byggðir á þessu svæði eftir að Molda-Gnúpur og hans fólk settust að? Jón Þ. Þór leggur fram áhugaverða pælingu. Hann bendir á að í Landnámu, er talað um Moldar-Gnúp og fjóra syni hans sem setjast að á svæðinu. Einungis er talað um konu eins bróðurins, Hafur-Björns (Landnáma, 2, bls. 332).

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina. Þórkötlustaðir í bakgrunni.

Hann vísar í þjóðsögu um stofnun Járngerðarstaði og Þórkötlustaði. Hún hermir að þessar jarðir hafi byggt Járngerður og Þórkatla og veltir hann fyrir sér hvort um sé að ræða tengdadætur Moldar-Gnúps. Þjóðsögur eru ekki endilega bestu heimildirnar en þó eru dæmi um að munnlega geymd hefur sinn sess í að viðhalda þekkingu kynslóð eftir kynslóð (Jón Þ. Þór, 1994, bls. 80).
Tvær DI skrár eru til fyrir landamerki í Grindavík. Þar koma fyrir bæirnir Grindavík, Járngerðarstaðir, Þórkötlustaðir og Vogar, í formi rekaskrár fyrir Skálholt. Þetta eru tvær útgáfur, nokkuð líkar en ekki alveg eins. Önnur (A) tekur einungis fyrir rekann nyrðra og eystra en hin skráin (B), tekur fyrir reka á Eyrum og Grindavík. Höfundur DI II bendir á að málfarið er eitthvað yngra en á skjali A, en er þó full marktægt.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól frá Vatnsleysustrandarbæjum.

Landamerkin fyrir jarðirnar Voga á Vatnsleysuströnd og Grindavíkur kemur fyrir í skjali B og segir þar: ‘’Somuleidis voru þesse landamerki hofd og halldin millum voga a strond, og Grindarvijkur meir enn vppa xxx vetur akallslaust. So eg vissa, ad vogar ætti ecki leingra enn nedan frä ad kalfsfelle, og vpp ad vatnzkottlum fyrir jnnan fagradal. og vpp ad klettnum. þeim sem stendur vip skögfell. hid nedra. vid gỏtuna. enn þorkotlustader og Jarngerdarstadir ættu ofan ad greindum takmörkum.’’ (DI II, 76).
Þessi útgáfa er frá um kringum 1600 (DI II, bls. 72) og er sögð vera afrit af eldra skjali.
Jón Sigurðsson telur fyrir hæstarétti þann 5. október 1876, að skráin myndi vera frá tíð Árna biskups Þorlákssonar eða frá um 1270 (Di II, bls. 67).
VatnskatlarHér er gengið út frá að þessi eldri dagsetning sé rétt. Ef sú dagsetning er rétt, (þ.e. frá 1270) þá eru landamerkin frá um 1240 hið minnsta þar sem “XXX” í skjalinu stendur fyrir 30 í rómverskum tölum.
Aftur kemur landamerkjaskrá fyrir jarðirnar í skjali sem dagsett er um 1500. Sú skrá er nánast orðrétt þeirri hér fyrir ofan og því auðsýnilegt að um uppskrif sé um að ræða en ekki sjálfstæða skrá um sama efni. Skráin er eignuð tíð Stefáns Jónssonar Biskups í Skálholti en hann tók við titlinum 1491 og sinnti biskupsdómnum fram til andláts 1518. Þar segir: ‘’Ur mȁldaga sem skrifadur var i tijd Byskups Stephanar. Voru þesse landamerke hỏfd og halldin i millum voga ȁ strỏnd og grindavijkurmanna meir enn upp ȁ 30 vetur ȁkallslaust. Ad vogar ætte ecke leingra enn nedan fra ad Kȁlfsfelle og upp ad vatnskỏtlum fyrer innan fagradal og upp ad klettum þeim sem stendur vip Skỏgfell hid nedra vid gỏtuna enn Þorkỏtlustader og Jarngerdarstadir ættu ofan ad þessum takmörkum.’’ (DI VII, bls. 457-458). ‘’

Arnarklettur

Arnarklettur – landamerki Voga og Grindavíkur.

Hvort 1600 uppskrifin sé ritinuð úr 1500 skjalinu eða hvort þau séu bæði rituð upp úr 1270 skjalinu skal ekki sagt, en eitt er víst að upplýsingarnar koma úr sömu átt. Því virðist vera komin góð byggð þarna og jarðirnar það stórar að þær nái upp að landamerkjum við Voga. Jarðirnar Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir eru flokkaðar undir ‘’Grindarvíkur’’, þó sjálfstæðar séu en bendir þetta til að þeir heyra undir sömu heild. Jón þ Þór dregur þar inn það sem hann kallar Hverfin þrjú, það er, uppbygging Grindavíkur í formi hjáleigna út frá lögbýlum. Hann bendir á að svona hverfi eru ekki einsdæmi en vitað er um svipuð dæmi á meðal ananrs við Faxaflóa.(Jón Þ. Þór, 1994, bls. 81-82). Jarðirnar Ás, Belgsstaðaholt, Fiskilækur og Melar í Borgafjarðarsýslu eru gott dæmi um slíkt hverfi en þar má finna fjórar jarðir sem halda nánast óbreytt landamerki ( DI I, 271-272, SÁM, Belgsholt, Ari Gíslason, Fiskilækur).
Ekki er meir skrifað um landamerki þessara jarða fyrr en kemur fram á lok 19. aldar. Í landamerkja skjali sem dagsett er 16. Júní 1890 má finna þessi örnefni aftur, ‘’frá kletti þeim, er stendur við götuna, norðan við Skógfell hið neðra (Litla Skógfell) al Kálffelli, og þaðan að Vatnskötlum.’’ (LAN, Veðmálabók I, bls. 225). Þessi landamerki sem feitletruð eru, má finna í skrám Hrauns og Þórkötlustaða í dag á móts við Voga.

Skógfellavegur

Þórkötlustaðir – „Kletturinn við götuna“; landamerki millum Litla-Skógfells og Kálffells.

Þær skrár eru töluvert meiri um sig enda eru þar ekki bara að finna landamerki heldur öll örnefni á jörðunum. Með því að bera saman þessi skjöl má sjá að af þeim landamerkjum sem koma fyrir eru þau öll til í dag. Kȁlfsfelle heitir í dag Kálffell og kemur fyrir í örnefnaskrám Hrauns og Þórkötlustaða. Það gegnir hlutverki landamerkis og segir þar ‘’Þaðan til vesturs sunnanvert við Keili um Vatnskatla og í Kálffell, sem er lágt og frekar lítið áberandi fell.’’ (SÁM, Hraun, Ari Gíslason). Í þessum bút kemur einnig fyrir Vatnskatlarnir og hið sama gerir í örnefnaskrá Voga ‘’Austur af holtinu er svo Kálffell. Norðanvert við Litla-Skógfell er klettur, frá Kálffelli er svo línan í svonefnda Vatnskatla (SÁM, Vogar, Ari Gíslason, bls. 7).

Skógfellastígur

LM-merki á Stóra-Steini við Skógfellastíg, 1.5 km norðan við Litla-Skógfell.

Vegurinn sem um ræðir er líklegast Skógarfellsvegur en hann situr norður við Litla-Skógfell. Kletturinn sem um ræðir í skjölunum gæti verið Stóra-Skógfell en það stendur vestan við Skógfellsveginn (SÁM, Þorkötlustaðir, Ari Gíslason, Vogar, Ari Gíslason).
Elstu staðfestu heimildirnar eru því frá um 1240 og þær yngstu frá árunum 1940-1965, þegar Ari var að skrá. Þarna höfum við um 700 ára millibil, milli elstu og yngstu skránna en ljóst er að landamerkin eru ekki einungis þau sömu, heldur hafa nöfnin haldið sér mjög vel.
Þar sem Vogar og Grindavík ná saman bæði í fornskjölum sem og í dag er vert að taka Voga fyrir hér sem framhald af skrám Grindavíkur.
Áhugavert er að sjá hversu vel þessar jarðir hafa haldið sér og hversu lítið rask virðist hafa verið á landamerkjunum. Þau hafa haldið sér og sitja í dag á sýslumörkum milli Grindavíkur og Voga.

Kolbeinsvarða

Kolbeinsvarða – landamerkjavarða ofan Innri-Skoru.

Skjal er til fyrir landamerki Stór Voga í Vatnsleysuströnd. Það fer dýpra í landamerki Voga en fyrri skrá fyrir Voga og Grindavík. Það er dagsett 9. júlí 1496 og fjallar um gjöf Guðmundar Magnússonar til Viðeyjarklausturs á hálfri jörð Stærri voga. Vogar á Vatnsleysuströnd voru áður þekktir sem Stóru-Vogar og Minni-Vogar og voru tvær aðskildar jarðir. Þeir skiptust síðan í mörg minni smábýli og hjáleigur (SÁM, Vogar, Ari Gíslason). Í skjalinu segir ‘’Sagdi hann oc jiakalavsa jordina oc þessi landamerki at merkigardinvm æ mille Minne voga er gengr vpp fyrir nordan gardinn oc ofan j tjornena oc vr tiornvnni oc ofan at sjonvm oc vt at vppgongvnni j Kolbeinsskor med sionvm.’’ (DI VII, bls. 299).
Eins og var bent á í kaflanum fyrir Njarðvíkurnar þá er varða í dag á merkjunum Reykjanes og Voga, rétt fyrir ofan Innri-Skoru sem heitir Kolbeinsvarða. [Enn markar fyrir vörðunni.]

Heimild:
-Ritgerð til BA-prófs, Bryndís Súsanna Þórhallsdóttir, „Munað og gleymt – Varðveisla landamerkja á Reykjanesi“, 2021, bls. 6-16.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Hans Erik Minor 1788.

Steinar

Í B.A.-ritgerð Guðrúnar Jónu Þráinsdóttur, „Steinar í íslenskri fornleifafræði„, er fjallað um, eins og nafnið bendir til, steina tengdum fræðigreininni, Þar segir m.a.:

Gripir úr íslenskum steini

Basalt

Basalt (grágrýti).

Basalt er algengasta bergtegundin á Íslandi. Basaltið er ýmist dulkornótt og dökkt eða jafnvel svart á lit og nefnist þá blágrýti, eða smákornótt og grátt að lit og nefnist þá grágrýti. Blágrýti er miklum mun algengara hér á landi en grágrýti. Ísland er eitt stærsta basaltsvæði jarðar, enda er 80–90% af öllu storkubergi hérlendis úr basalti.
Við gos undir jöklum verður til basaltaska. Askan þjappast og límist saman og verður að föstu bergi. Nefnist það móberg. Í upphafi hefur askan verið svartleit en hún breytist með tímanum í brúnt.
Steingripir finnast nær eingöngu á bæjarstæðum, enda eru þeir oftast áhöld til daglegs brúks.

Kolur

Kola

Kola.

Hvernig sáu menn til við vinnu sína fyrr á öldum? Ljósfæri landsmanna héldust trúlega óbreytt í um þúsund ár. Á söguöld hafa menn líklegast setið við langelda, sem þá var helsti ljósgjafinn, ásamt ljórum og gluggaopum. Einnig hafa kerti ábyggilega verið notuð allt frá fyrstu tíð.
Elstu ljósfæri sem fundist hafa hérlendis við fornleifarannsóknir eru kolur úr steini, einnig nefndar lýsiskolur, en kolur eru skálar sem ljósmeti var sett í ásamt kveik.

Kola

Kola – innflutt frá Noregi.

Allt fram á 19. öld urðu tiltölulega litlar breytingar á ljósfærum hérlendis, notast var við kolur, kerti og lýsislampa. Af heimildum er ekki alltaf ljós munurinn á kolu og lampa. Algengast mun þó hafa verið að kalla einfaldan lampa kolu, en lampa ef hann var tvöfaldur. Kolur gátu verið úr ýmsum efniviði, einkum steini, en lampar voru nær alltaf úr málmi.
Flestar steinkolur eru afar einfaldar að gerð. Oft eru þær úr venjulegu grágrýti, en stundum úr öðrum steini sem auðveldara var að móta, svo sem móbergi eða tálgusteini, sem var innfluttur. Hvilft eða bolli er klappaður í steininn og stundum er höggvin lítil rás í barminn fyrir kveikinn.

Kola

Kola.

Stundum voru öðuskeljar notaðar sem kolur. Þá var lýsi og fífukveikur látið í skelina. Lýsislamparnir gáfu furðu góða birtu ef ljósmetið var gott. Eflaust hafa ýmsir hlutir nýst sem kolur, svo lengi sem í þeim var hvilft til að setja í lýsi. Dæmi eru um að pottbrot, blekbyttur og tvinnakefli hafi verið notuð sem kolur. Höfuðskel af fullorðnu fé hefur verið notuð sem kola. Og meira að segja eru til sagnir um að höfuðkúpa af manni hafi verið notuð sem kola.

Sleggjur

Sleggja

Sleggja – brotin.

Sleggjur hafa margar verið gerðar úr grjóti í gegnum tíðina. Efniviðurinn í þær er misjafn, ýmist þétt berg eða holótt hraungrjót, sem mun auðveldara er að höggva til og bora í gat fyrir skaftið. Lábarðir steinar voru oft notaðir í sleggjur.
Sleggjur voru notaðar til ýmissa hluta. Með veggjasleggjum eða veggjahnyðjum var mold þjappað í veggjum við byggingu torfbæja. Með þökuhnöllum voru sléttuð tún eftir að hreinsað hafði verið undir grassverðinum og mold jöfnuð, þá voru þökurnar þjappaðar niður með þökuhnalli. Voru þær sleggjur stórar og varla á færi eins manns að meðhöndla. Með fiskisleggjum var harðfiskur barinn þar sem hann lá á fiskasteini.

Fiskasteinn

Fiskasteinn.

Fiskasteinar voru hafðir utan dyra, einnig í bæjardyrum og í búri.
Sleggjurnar eru oft stórar og þó nokkuð þungar svo að þurft hefur vel sterkan mann (eða fílefldan kvenmann) til að beita þeim.

Fiskasleggja og fiskasteinn voru nauðsyn á hverju heimili. Þrátt fyrir það eru þær ekki svo algengur fundur í uppgröftum frá fyrstu tíð, en eru algengari í rústum seinni alda. Að öllum líkindum voru þær ekki notaðar fyrr en á miðöldum. Fiskasleggjur virðast hafa verið miklu algengari úr steini en járni, að minnsta kosti á seinni öldum. Telja má að flestar sleggjur hér á landi séu úr blágrýti, en nokkrar úr móbergi.

Sleggja

Sleggja.

Sleggjurnar eru gegnumboraðar og víkkar gatið inn. Skaft var rekið í gatið og stundum fest með fleyg sem settur var í sleggjuaugað á undan og gekk inn í skaftið er það var síðan rekið í.
Ekki er mikið um sleggjur í rituðum heimildum. Elsta skriflega heimild um fiskasleggjur úr steini eru sennilega í Íslandslýsingu frá um 1590 og er talin vera eftir Odd Einarsson. Þar stendur: „Er hann [venjulegur fiskur] fyrst hertur nægilega í vindi og sól, þá barinn með lurkum eða fremur steinsleggjum, þar til hann er orðinn meyr“…
Gatið í sleggjurnar hefur mögulega verið gert með ýmsum hætti. En við uppgröft á Búðarárbakka í Árnessýslu á árunum 2005-2009 fundust fjórstrendir meitlar úr járni, alls 21 talsins, ásamt oddabrotum af meitlunum.

Sleggja

Sleggja – brotin.

Af ummerkjum er ljóst að bóndinn á Búðarárbakka framleiddi sleggjur í stórum stíl, enda fundust fjölmargar sleggjur og sleggjukjarnar ásamt meitlunum á verkstæði við bæinn.
Oftast eru sleggjurnar brotnar þegar þær koma í ljós við uppgrefti. Sumar finnast í eldstæðum og bera þess merki að hafa verið notaðar áfram, til dæmis sem soðsteinar, eða nýttar sem byggingarefni. Telja má að fólk hafi útvegað sér steina í sleggjur eða lóð á tiltölulega auðveldan hátt.

Lóð

Lóð

Lóð.

Við marga uppgrefti koma í ljós flatir steinar með gati á. Slíkir steinar hafa nokkuð víst verið notaðir sem einhvers konar lóð, svo sem sökkur fyrir net eða færi, kljásteinar til að strekkja vef, eða draglóð eða lokusteinar til að halda hurðum að stöfum. Draglóðið hékk í bandi utan á dyrakarminum en var fest við hurðina í gegnum gat á karminum. Lóðið lokaði dyrunum því sjálfkrafa með þunga sínum. Lokusteinn hékk í spotta í hurðinni og var dyrunum lokað þannig að snærið var sett upp á nagla í hurðarkarminum.
Steinar hafa einnig verið notaðir sem vigt, til dæmis með mörk sem einingu, en ein mörk samsvarar 250 grömmum.

Kljásteinar

Kljásteinn

Kljásteinn.

Ull hefur í gegnum tíðina verið mikilvægasta hráefnið sem notað var í fatnað og allan annan textíl. Ekki síst á það við hér á landi því að ekki er af mörgu öðru textílefni að taka, þó að hör hafi mögulega verið ræktaður í einhverjum mæli, eins og örnefni tengd líni benda til. Eins var nýtt bæði roð og skinn og hár af öðru en sauðfé, svo sem hestum, geitum og jafnvel nautgripum, en betra þótti að spinna dýrahárin saman við ull af sauðfé svo að af yrði grófara og sterkara band.
Merking orðsins kljár er „steinn í vefstól.“ Kljásteinar eru lóð úr steini er notuð voru til að hengja neðan í uppistöðu í vef og halda henni strengdri. Kljáir voru einnig notaðir sem sakka á neti.89 Kljásteinar geta verið með ýmsu lagi, enda eru þeir oftast teknir beint úr náttúrunni, gjarnan fjöru eða árfarvegi.
Gat var borað til að binda þráð í, en stundum er gatið af náttúrunnar hendi eða náttúrulegt gat sem var lagað til.

kljásteinn

Kljásteinn.

Kljásteinar finnast stundum margir saman í uppgröftum og er það yfirleitt talin vísbending um að þar hafi staðið vefstaður.
Uppréttur vefstaður hefur verið í notkun allt frá því í árdaga og fram á okkar daga í einhverri mynd. Vefstaðurinn hefur að öllum líkindum tekið litlum breytingum í gegnum tíðina.
En hvernig er hægt að þekkja kljásteinana úr? Eins og áður segir er jafnan talið nokkuð víst að um kljásteina sé að ræða þegar nokkrir lóðsteinar finnast saman í hrúgu, sem væntanlega hafa verið skildir eftir þegar vefurinn hefur verið tekinn. Best er að nota nokkuð flata og ávala steina sem flækjast ekki saman við vefnað.

kljásteinn

Kljásteinn.

Ágætt er að bera nýfundna steina saman við aðra sem fallið hafa til í uppgröftum og eru taldir nokkuð örugglega vera kljásteinar. Staðsetning steinanna í rústum gæti einnig gefið notkun þeirra til kynna, einkum í brunarústum, því að þá er líklegra að steinarnir séu á þeim stað sem þeir voru notaðir á.
Flestir kljásteinar hérlendis eru úr basalti, sem er mjög hart efni. Forvitnilegt væri samt að athuga hvort sjá megi merki um að reynt hafi verið að merkja steinana á einhvern hátt.
Kljásteinar úr klébergi geta verið mismunandi að lögun. Þeir geta verið nánast hringlaga með gati í miðju. Margir eru perulaga, rétthyrndir, sporöskju- og egglaga og einstaka jafnvel þríhyrndur, oftast með gat við annan endann, yfirleitt þann mjórri.

kljásteinn

Kljásteinn.

Flestir kljásteinar eiga það sameiginlegt að vera nokkuð flatir svo að þeir flækist síður saman þegar ofið er.
Við rannsókn á kljásteinum hefur komið í ljós að steinar úr sama vef eru nokkuð áþekkir að þyngd, en þyngdin getur verið mismunandi eftir vef. Í fínni vef þarf léttari steina. Þar sem ofið var með grófara bandi voru stundum notaðir tveir steinar saman, eða jafnvel fleiri. Kljásteinar úr vefstað frá seinni tímum eru yfirleitt þyngri, kannski vegna þess að ívafið í seinni tíma vefnaði er látið hylja uppistöðuþræðina svo að oft sést ekki í uppistöðuna.

Vaðsteinar

Vaðsteinn

Vaðsteinn.

Vaðsteinn er notaður sem lóð eða sakka á færi, en vaður merkir færi. Oft voru vaðsteinar lábarðir, flestir kúptir, oftast ögn flatir og sporöskjulaga. Slíkir steinar eru ýmist með gati á öðrum enda fyrir netið eða með djúpum skorum klöppuðum langsum hringinn í kring til þess að vefja í reipi utan um steininn. Stöku sinnum var einnig skora um þá miðja. Stundum, a.m.k. í seinni tíð, var stutt leðurræma lögð undir bandið í báða enda og var færið og öngullinn svo fest þar í.
Við sjóinn eru nokkrir staðir kenndir við vaðsteina, þar sem þeir hafa verið teknir. Sem dæmi um það má nefna Vaðsteinaberg í Hergilsey, Vaðsteinatanga og Vaðsteinavík
í Grímsey á Steingrímsfirði og á Flatey í Skjálfanda er Vaðsteinanes.
Vaðsteinar voru misþungir, oft 1-2½ kg og fór það líklega eftir því til hvers þeir voru notaðir. Sumir vildu hafa þá létta svo að færið gæti borist með straumnum sem lengst. Oft voru vaðsteinar og sökkur á hákarlavaði 8 – 12 pund.

Vaðsteinn

Vaðsteinn.

Til eru varðveittir steinar með ýmsum merkjum klöppuðum í, svo sem krossi eða upphafsstöfum eiganda og jafnvel ártali eða ýmsum öðrum táknum.
Síðar var farið að nota sökkur úr járni eða blýi og um þarsíðustu aldamót voru vaðsteinar víðast hvar úr sögunni.
Svo virðist sem vaðsteinar hafi tekið litlum breytingum í gegnum tíðina. Árið 1908 rannsakaði O. Nordgaard í Noregi 400 sökkur sem voru aldursgreindar allt frá steinöld og til hans samtíma. Í ljós kom að erfitt var að ákvarða aldur sakkanna eftir útlitinu einu saman.
Flokka má vaðsteina eftir útliti, rétt eins og kljásteina. Lögun steinanna virðast fara eftir því hversu mikið stýra þarf steinunum niður í sjó eða vatn.
Ýmis veiðarfæri eru talin með í eignaskrám kirkna og klaustra víða um land frá 16. öld.

Snældusnúðar

Snældusnúður

Snældusnúður.

Til þess að hægt sé að spinna og prjóna úr ull þarf að snúa ullina saman í þráð. Flestir þræðir eru af takmarkaðri lengd og þarf því að spinna þá saman í langan þráð.
Halasnældur voru gerðar úr þremur hlutum, snúð, hala og hnokka. Snældusnúðurinn var ýmist úr steini, blýi, beini, leir eða tré. Hann er kringlóttur í laginu, oft kúptur að ofan en flatur að neðan og gat á honum miðjum. Í gatið á snúðnum var rekið tré, langt og mjótt, svo nefndur snælduhali, sem yfirleitt mjókkaði niður frá snúðnum. Í efri halaendann, sem stóð upp úr snældusnúðnum, var festur krókur úr málmi, oftast járni, er hann nefndur hnokki. Þetta sést a. m. k. á snældusnúðum frá síðari tímum.

snældusnúður

Snældusnúður á halasnældu.

Spunnið var á halasnældu í tveimur áföngum. Lopi, eða lyppa, var fest í hnokkann (þ.e. krókinn ofan á), snældunni var þá snúið og spunnin ein löng færa úr lopanum. Síðan var þráðurinn undinn upp á snælduhalann með því að snúa honum hratt í hendi sér. Var ýmist staðið eða setið við snælduspuna.
Þyngd snældusnúðsins er notuð bæði til þess að vinda upp þráðinn og til þess að fá snúð á bandið. Snældusnúðarnir eru misþungir eftir því hvers lags þráður var spunninn. Þykkari þráður krefst þyngri snúðs. En léttari snúðar snúast hraðar og vinda þéttar upp á þráðinn svo að hann verður sterkari.

snældusnúður

Snældusnúður.

Keilulaga snældusnúðar snúast hraðar en kringlulaga. Af þessu má sjá að lögun og þykkt snældusnúðs skiptir máli fyrir spunann, en einnig lengd og þykkt halans.
Snældusnúðar eru hringlaga, eða því sem næst, og eru með holu í gegnum miðjuna. Lögun þeirra er breytileg að nokkru marki. Sumir eru kúlulaga að ofan en flatir að neðan, aðrir eru eilítið keilulaga, sumir líkjast stundaglasi en aðrir eru flatir. Norsk rannsókn leiddi í ljós að þeir eru sjaldnast meira en 50g að þyngd, flestir á milli 20 og 35 grömm. Snældusnúðar þyngri en það eru sjaldfundnir, þeir hafa þá frekar verið notaðir til annarra verka, annars konar spuna eða til borunar, svo eitthvað sé nefnt.
Venjan er að flokka snúðana fyrst eftir efni, svo lögun og þá stærð, þyngd og skreyti, ef um það er að ræða. Snældusnúðar úr steini eru yfirleitt stærstir.

snældusnúður

Snældusnúður.

Kléberg (e. steatite) er þrisvar sinnum algengari í snældusnúðum en önnur efni. Aðrir snældusnúðar þar eru úr steini sem kallast á ensku greenstone, gabbró, flögubergi og kalksteini. Ekki virðist vera neitt sérstakt samhengi á milli þyngdar steinanna og úr hvaða efni þeir eru.
Holan í miðju snældusnúðsins verður að vera sem beinust og eins nálægt miðju og hægt er til að snúningur snúðsins sé jafn. Svo virðist sem léttari snældusnúðar séu fremur skreyttir en hinir.
Oft finnast ófullkláraðir snældusnúðar við uppgrefti.

Snældusnúðar

Snældusnúðar – úr Esjunni.

Síðar meir tók fólk að nota rokk í staðinn fyrir halasnældu og margfaldaði afköst sín, en spunarokkar hafa fylgt vefstólunum. Elstu heimildir um rokka hér á landi eru í ritgerð frá um 1736-1737 eftir norskan mann, Mathis Iochimsson Vagel. Segir hann þar að þorri Íslendinga, bæði konur og karlar, spinni enn á halasnældu.
Snældusnúðar hafa fundist við uppgrefti hérlendis. Þegar þeir eru úr steini finnast þeir yfirleitt án halans, hann er þá eyddur og farinn veg allrar veraldar. Fáeinir snældusnúðar úr steini hafa fundist hér á landi með áklöppuðu rúnaletri og meira að segja tveir núna nýlega.
Stærsti gripaflokkurinn hér úr klébergi er snældusnúðar.

Kvarnarsteinn

Kvarnasteinn

Kvarnasteinn frá Knarrarnesi.

Handkvarnir til kornmölunar voru til á heimilum manna hér áður fyrr, allt frá landnámi. Í Þjórsárdal fundust samtals fimm kvarnarsteinar og eru þeir allir úr hraungrýti. Í Suðurgötu í Reykjavík fundust einnig fimm kvarnarsteinar og voru þeir einnig allir unnir úr hrauni.1 Elín Bjarnadóttir segir í BA-ritgerð sinni að best hafi þótt að nota hraungrýti í kvarnir. Vegna þess hversu holótt það er slitnuðu kvarnirnar síður og misstu mölunareiginleika sína. Flestar kvarnir á Íslandi eru enda úr hraungrjóti, eða tæp 72% greindra kvarna, líkast til úr hérlendu grjóti. Hér hafa kvarnir einnig verið úr sandsteini og flögusteini (skifer). 16 kvarnir reyndust vera af erlendum uppruna, þar af 14 úr flögubergi, einn úr sandsteini og einn skráður sem „erlent berg“. Erlendu steinarnir fundust á stórbýlum, flestum frá miðöldum, og því má tengja þá við yfirstétt.

kvarnasteinn

Kvarnasteinn.

Kvarnarsteinarnir voru gerðir úr gropnu hraungrjóti voru höggnir til sívalir kvarnarsteinar. Steinarnir voru tveir, efri og neðri steinn. Kornið var látið í gatið á efri kvarnarsteininum og var síðan malað á milli flatra steinanna, var þá efri steininum snúið með handfangi. Stundum var stokkur smíðaður utan um kvörnina, annars stóð kvörnin á fjölum sem lögð var á milli t.d. tveggja kistna. Mjölið var m. a. haft í grauta, kökur, lummur og pönnukökur.
Á einokunartímanum var mest flutt inn malað korn og var kornið oftar en ekki lélegt og skemmt er á leiðarenda var komið, enda geymist korn mun betur ómalað. Í lok 18. aldar var farið að flytja inn ómalað korn og handkvarnir og bændur fóru að búa til vatnsknúnar kornmyllur. Víðast var hætt að nota þær um 1920.
Kvarnarsteinar hafa verið afar lengi í notkun. Ekki er hlaupið að því að aldursgreina kvarnir út frá gerð og útliti, því að kvarnarsteinar hafa tekið litlum breytingum í gegnum tíðina. Þess vegna verður að aldursgreina út frá undasamhengi.

Rúnnaðir steinar

Rúnnaðir steinar

Rúnnaðir steinar.

Þegar búið var að vefa ull eða hör þurfti yfirleitt að meðhöndla voðina. Ull var gjarnan burstuð og þæfð, flos var klippt, dúkar litaðir og afurðin þvegin og mýkt. Ýmiss konar áhöld hefur þurft til þessara verka. Til dæmis hefur ull verið þvegin úr keytu og þæfð í stórum kerum frá örófi alda. Voðin var barin með stöfum eða klöppum (banketre á norsku) til að fá betri flóka, var hengd upp til þerris og nudduð með burstum og kömbum svo hún þæfðist enn betur. Hör var líka meðhöndlaður með barsmíðum til að mýkja hann og gera þjálli. Því miður eru ekki mörg merki eftir um þessi áhöld. Flest voru þau úr tré, en varðveisla á viði í jörðu er oft bágborin.

Rúnnaðir steinar

Rúnnaðir steinar.

Talið er að hör hafi verið mýktur og pressaður með kúlulaga steinum eða gleri, oft sléttari á annarri hlið og stundum eins og eilítið hvolflaga á hinni hlið, sem fer vel í lófa. Ofinn hördúkur var nuddaður með slíkum áhöldum, saumar á flíkum úr hör voru sömu leiðis mýktir og pressaðir um leið til að fá fram stíft og glansandi útlit.
Og sjálfsagt hefur verið tilvalið að nota rúnnaða steina til að merja með og mala, til dæmis korn eða jurtir. Ýmislegt þarf að steyta, svo sem krydd og korn og litunarefni og þá trúlega í mortélskál.
Einnig hafa sést svonefndir pottasteinar. Þeir eru flatir og sléttir og voru notaðir til að hreinsa hlóðarpotta að innan. Þeir gátu verið úr ýmiss konar steini. Dæmi er um pottastein úr vikri (frá Berjanesi í Landeyjum) og til er annar úr holóttu hraungrjóti (frá Hvallátrum norðan við Látrabjarg).

Vikursteinn

Vikursteinar.

Þess má og geta að vikursteinn var notaður til að verka kálfskinn. Eftir að skinnið var afhárað, skafið og þurrkað var það gjarnan fægt með vikursteini svo yfirborðið gljáði til þess að hægara væri að skrifa á það, skinnið var oftast annars of hrjúft. Vikursteinn var einnig notaður til þess að fægja járn og halda því gljáandi, til dæmis hnífa.
Vikur finnst oft við uppgrefti. Oft er hann í ómótuðum molum, en stundum er greinilegt að hann hafi verið notaður. Eins og áður segir var hann notaður til að fægja með, einnig til að pússa tré. Til eru einstöku gripir úr vikri. Líklegt má telja að vikursteinninn sé fenginn hérlendis. Það er þó ekki hægt að vita með fullri vissu nema með efnagreiningum.

Heimild:
-Steinar í íslenskri fornleifafræði, ritgerð til B.A.-prófs – Guðrún Jóna Þráinsdóttir, 2011, bls. 15-16.

Jobbasteinn

Jobbasteinninn í Garðaholti – vaðsteinn.

Fornleifar

Fornleifafræði er fræðigrein, sem fjallar um manninn út frá margvíslegum hliðum, t.a.m. út frá beinum (dýra- og manna), gripum (þ.m.t. byggingum), landslagi, ljósmyndum, kortum og öðrum skjölum. Helstu aðferðir fornleifafræðinga er fornleifaskráning og fornleifauppgröftur. Fornleifafræðingar fást við rannsóknir á ólíkum tímum, t.d. forsögulegum, miðöldum, og á minjum nútímasamfélaga.

Saga fornleifafræði á Íslandi fram til 1850

Ólafía Einarsdóttir

Ólafía Einarsdóttir (1924-2017). Margir hafa verið á þeirri skoðun, að dr. Ólafía Einarsdóttir hafi verið fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn. Þess vegna er eitt af tímaritum fornleifafræðinga á Íslandi kallað Ólafía. Ólafía lauk gjaldgengu prófi í greininni. Hún stundaði nám í Lundúnum og í Lundi. Ekki gróf Ólafía þó mikið á Íslandi, og hvort það var karlremba í Kristjáni Eldjárn eða kvenremba í Ólafíu, þá var Ólafíu ekki stætt á Þjóðminjasafni Íslands, þar sem Kristján réði ríkjum. Ólafía meistraði í staðinn sagnfræðina og tímatal í fornbókmenntum og er ekki síðri fornleifafræðingur fyrir það. Ólafía er með vissu fyrsta íslenska konan sem varð fornleifafræðingur.

Á meginlandi Evrópu fór áhugi á fornminjum vaxandi samhliða hugmyndum um ríkisvald á 16. og 17. öld. Nýstofnuð ríki þurftu að geta sýnt fram á að ríkisbúar sínir ættu sameiginlega fortíð og upprunasögu; vegna þess beindist áhugi fólks að slíkum gripum og minjastöðum. Álíka var að gerast á Íslandi þar sem fornfræðingar heimsóttu merkilega sögustaði sem nefndir voru í Íslendingasögum.
Fyrsta heildarskráning fornleifa á Íslandi var á vegum dönsku fornleifanefndarinnar á árunum milli 1817 og 1823. Konungur Danmerkur sendi skipunarbréf árið 1807 um að skrá fornleifar í Danmörku og áttu skrásetjarar að vera sóknarprestur sem mundu skrifa ritgerð um fornleifar í sinni sókn. Prestar áttu að líta sérstaklega til staðbunda minja um fornsögur og elstu leifar stjórnvalds, t.d. dómhringi og þingstaði.

Fornleifaskráning

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel við Hvalfjörð. Selsins er getið í örnefnalýsingu, en í fornleifaskráningu er staðsetningin óviss.

Fornleifaskráning er það að leita að minjum á afmörkuðu svæði, hvort sem það er á landi eða í sjó, til skráningar.

Bæði í jörðu og á sjó eru minjar sem hver kynslóð skilur eftir sig og eru þær heimildir um líf fólks. Í tímanna rás hefur það tekið breytingum hvað telst sem fornleifar. Framan af voru aðeins skráðar byggingar og gripir frá víkingaöld en færst hefur í vöxt að skrá minjastaði hvað sem líður aldri þeirra og fremur horft til rannsóknar eða táknrænt gildi þeirra, enda lýkur sögu ekki við ákveðið ártal, eins og 1900 e. Kr.

Skráning minjastaða

Brynjudalur

Brynjudalur – Þórunnarsel.

Fornleifaskráning felur í sér að leita að upplýsingum í rituðum heimildum, taka viðtöl við staðkunnuga og mæla upp minjar á vettvangi. Skipta má verklagi fornleifaskráningar í þrennt í samræmi við þrjú stig skipulagsvinnu:
Svæðisskráning: Í svæðisskráningu er upplýsingum safnað saman um staðsetningu og gerð minja úr rituðum heimildum. Skjöl eru til að mynda lesin og túnakort skoðuð. Úr þessu fæst grunnur að fjölda og dreifingu minja á tilteknu svæði. Það gefur möguleika á að finna staði sem þykja sérstaklega athyglisverðir til kynninga eða rannsókna og svæði sem eru í hættu. Þessu til viðbótar er svæðisskráning undirbúningur fyrir aðalskráningu.

Dyljáarsel

Í Dyljáarseli.

Aðalskráning: Á þessu stigi er farið út í mörkina og rætt við ábúendur eða aðrar manneskjur sem eru staðfróðar. Að svo búnu er farið af stað og leitað á svæðum sem sennilegt er að minjar leynist á. Þegar minjastaður er fundinn er hann skráður á staðlaðan hátt og lagt mat á ástand hans, hnattstaða fundin, staðurinn ljósmyndaður svo og uppdráttur teiknaður eftir því sem tilefni er til. Einnig er reynt að meta hvort staðurinn sé í hættu og þá af hvaða völdum.

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2022 – fyrrum hluti af sögu Hafnarfjarðar; nú einangraður millum húsa.

Deiliskráning: Tilgangur deiliskráningar er að fá upplýsingar um minjastaði á (litlum) afmörkuðum svæðum. Verklag við deiliskráningu er álík og við aðalskráningu nema í deiliskráningu er gengið skipulega yfir allt svæðið og minjar mældar upp á nákvæmari hátt. Öðru hverju gæti verið nauðsynlegt að grafa könnunarskurð til þess að kanna aldur og hvort að um mannvirki sé ræða.

Minjavarsla

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum – nú horfið vegna framkvæmda og áhugaleysis yfirvalda á varðveislu minja.

Fornleifaskráning er eitt mikilvægasta – ef ekki það mikilvægasta – verkefni fyrir minjavörslu hvers lands. Talið er að á Íslandi séu að minnsta kosti 130 þúsund fornleifastaðir en á ári hverju verður fjöldi þeirra fyrir eyðileggingu, til dæmis vegna byggingaframkvæmda, túnasléttunar eða sjávarrofs. Slík eyðilegging getur afmáð sögu sem aðrar heimildir eru fáorðaðar um. Fyrir þá sök er nauðsynlegt að vita hvar staðirnir séu og hvert ástand þeirra svo að hægt sé leggja mat á hvaða sögu samfélagið vill varðveita fyrir framtíðina.

Vísindarannsóknir

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar, nú horfnar vegna framkvæmda.

Fornleifaskráningar eru iðulega gerðar í tengslum við framkvæmdir, en skráning minjastaða getur að auki verið gerð í vísindalegum tilgangi (eða gögn framkvæmdaskráninga séu nýttar í rannsóknir). Markmið fornleifaskráninga í rannsóknarskyni er t.d. að finna minjastaði, kanna ævisögu landslags eða greina ákveðið mynstur minja. Allt er þetta gert í því skyni að svara ákveðnum spurningum. Þess konar rannsóknar geta verið allt frá því að rannsaka skipulagningu einstakra grafreita upp í feiknastór landsvæði. Með því að skrá form garðsins, staðsetningu minja innan hans og vísun þeirra í klassíska fornöld, þá sýndi rannsóknin fram á hvernig garðurinn var efnislegur vitnisburður sem voldugt tákn um samfélagslegt vald húsráðandans og hafði garðurinn mótandi áhrif á gesti og gangandi.

Viðey

Fornleifarannsóknir sýna að byggð var hafin í Viðey á 10. öld en árið 1225 var stofnað þar klaustur af reglu heilags Ágústínusar. Í meira en 300 ár var Viðeyjarklaustur mesta helgisetur í Sunnlendingafjórðungi af Skálholti frátöldu. Alþjóðleg hefð er fyrir því að klausturbyggingar myndi umgerð um klausturgarð. Túlka má rannsóknir á svæðinu á þann veg. Byggingar merktar A, B og C hafa verið grafnar upp og sýna langhús (stofu, skála og búr). Þar austur af er sennilega smiðjukofi (D). Aftur af langhúsinu eru lítið rannsökuð bakhús. Kirkjan (E) er tilgátuhús en fyrir myndir eru sóttar í kirkjur á Þingeyrum og á biskupsstólunum. Jarðsjármælingar sýna að fyrir framan Viðeyjarstofu og kirkju hafi verið byggingar, trúlega sjálf klausturhúsin (F), þau eru einnig tilgátuhús.

Í fornleifaskráningu í vísindaskyni eru samskonar verklagi beitt og í hefðbundinni fornleifaskráningu, einkum deiliskráningu. Tilgangurinn er að fá nákvæmar upplýsingar um minjastaðinn. Af þeim sökun er í fáeinum tilvikum notuð ýmis jarðsjátæki, til dæmis viðnámsmælir, til að skima eftir minjum undir jarðvegi. Í sumum tilvikum eru teknir könnunarskurði til þess að athuga hvort um mannvirki sé að ræða, vita aldur þess eða ná í sýni til efnagreiningar.

Hvað eru fornleifar?
Fornleifar eru það sem hefur orðið eftir frá gamalli tíð. Flest af því sem við höfum með höndum eyðist í tímans rás. Sumu er alls ekki ætlað að endast; við neytum matar og brennum kerti, föt endast sjaldan meira en í nokkur ár en aðrir hlutir geta enst í áratugi og jafnvel aldir, til dæmis hús og bækur.
Hlutir sem við notum mikið slitna, brotna og skemmast, sumt er hægt að endurnýta og gera við en fyrr eða síðar endar langflest af því sem við höfum í kringum okkur (oft með langri viðdvöl í kompu eða á háalofti) á öskuhaugum, þar sem því er annað hvort brennt eða það rotnar og eyðist smátt og smátt.

Öskuhaugur

Öskuhaugur í rannsókn.

Öskuhaugarnir sjálfir verða svo eyðingu að bráð; fyrir utan niðurbrot efnanna í jarðveginum geta þeir horfið vegna vind- og vatnsrofs, landbrots og framkvæmda og þess vegna getur verið mjög erfitt að finna nokkur einustu ummerki eftir fólk að nokkrum öldum eða árþúsundum liðnum.
Það sem varðveitist, annað hvort af því að því hefur verið haldið til haga, til dæmis handrit og listaverk, eða vegna þess að skilyrði í jarðvegi hafa verið góð, er því aðeins brot af því sem upphaflega var, en það brot getur gefið mikilvægar vísbendingar um þá tíma sem leifarnar eru frá. Það er vegna þess sem fornleifar eru rannsóknarefni sérstakrar fræðigreinar, fornleifafræði, en hún fæst við að finna fornleifar og túlka þær sem heimildir um liðna tíð.

Bárujárn

Fyrrum hús Brennisteinsfélagsins í Seltúni, elsta hús klætt bárujárni hér á landi, nú við Suðurgötu 10, Hafnarfirði.

Misjafnt er hvað hlutir þurfa að vera gamlir til að teljast fornleifar. Í íslenskum lögum er miðað við að allt sem er eldra en 100 ára teljist fornleifar en einnig þekkist að miðað sé við 500 ár eða allt sem er eldra en miðaldir (það er eldra en 1500 ára). Það er hins vegar ekki einber aldurinn sem gerir gamla hluti að fornleifum heldur fremur hvort þeir geta talist í einhverjum skilningi úreltir og hversu sjaldgæfir þeir eru. Við getum tekið sem dæmi að fáir myndi telja klaufhamar úr ryðfríu stáli sem framleiddur var árið 1927 til fornleifa. Slíkur hamar er eins og hamrar sem framleiddir eru í dag og hefur sama notagildi. 5 ¼ tommu tölvudiskur frá 1986 er hins vegar úrelt fyrirbæri sem erfitt er eða ómögulegt að nota lengur og við myndum því, í hálfkæringi að minnsta kosti, geta talað um sem fornleifar. Notagildið veldur því líka að hamrar geta auðveldlega orðið langlífir og sennilega leynast býsna gamlir hamrar víða í verkfærakistum en úreltir tölvudiskar eru hinsvegar orðnir mjög sjaldgæfir og þegar komnir á dagskrá hjá söfnum og áhugafólki um varðveislu gamalla hluta.

Kuml

Kuml.

Oft er gerður greinarmunur á hlutum sem hafa varðveist af því að passað hefur verið upp á þá, til dæmis kirkjuskrúð, handrit og gömul málverk, og hlutum sem varðveist hafa í jörðu. Jarðfundnum fornleifum má svo aftur skipta í tvennt eftir því hvort hlutirnir hafa verið skildir vísvitandi eftir undir mold, (einkum legstaðir manna og dýra, sumir með haugfé, og faldir fjársjóðir), eða hvort þeir eru úrgangur eða annað sem hefur verið hent eða skilið eftir (stundum óvart).
Þróunin innan fornleifafræðinnar hefur verið frá upphaflegri áherslu á að finna fagra gripi í átt að sífellt nákvæmari rannsóknum á úrgangi í víðasta skilningi. Þær rannsóknir beinast ekki eingöngu að rústum bygginga og gripum sem finnast í þeim og gömlum öskuhaugum, heldur einnig að dýrabeinum og öðrum matarleifum; ösku, gjalli og öðrum leifum eftir eldamennsku og iðnað; skordýra- og jurtaleifum og efnasamböndum sem geta gefið vísbendingar um lífshætti fólks til forna.

Fornleifar

Fornleifauppgröftur á bæjarstæði.

Fornleifafræðingar hafa þróað aðferðir til að setja saman mynd af horfnum samfélögum byggða á slíkum brotakenndum heimildum. Aðeins örlítill hluti af því sem var hefur varðveist og margt af því hefur varðveist fyrir eintóma tilviljun. Það er flókið mál draga skýrar ályktanir af slíkum efnivið en aðferðirnar sem hafa verið þróaðar til þess hafa einnig reynst vel til að rannsaka samtímann – það er ruslið sem við framleiðum og hvað það segir um okkur.
Allt rusl, gamalt og nýtt, er því viðfangsefni fornleifafræðinnar, en fornleifar má telja allt sem er nógu gamalt til að vera orðið úrelt og/eða sjaldgæft.

Hvaða aðferðir nota fornleifafræðingar við að tímasetja fornleifar?

Rúnasteinn

Rúnasteinn – sænskur.

Aðeins er hægt að tímasetja hluti sem bera læsilegar áletranir, nema eitthvað annað sé vitað um þá. Fyrir iðnbyltingu eru það einkum legsteinar og mynt sem bera áletranir. Tímasetningar slíkra áletrana eru sjaldnast ákveðin ártöl heldur til dæmis veldistími konunga eða annars konar tilvísanir í fólk eða atburði sem ritheimildir eru til um.
Áletranir eru mikilvægar en þær finnast aðeins á örlitlu brotabroti allra fornleifa og því hefur þurft að þróa sérstakar aðferðir til að aldursgreina fornleifar. Engin ein aðferð er til sem hægt er að beita á öll efni eða hluti undir öllum kringumstæðum heldur nota fornleifafræðingar yfirleitt margar aðferðir saman til að komast að niðurstöðu um aldur minjanna sem þeir rannsaka.
Þessar aðferðir má flokka í tvennt: annars vegar eru afstæðar tímasetningaraðferðir sem geta greint hvort tilteknar fornleifar eru eldri eða yngri en aðrar en ekki endilega hversu gamlar, og hins vegar algildar aðferðir sem gefa raunaldur hlutanna. Í fljótu bragði mætti ætla að síðarnefndu aðferðirnar væru augljóslega betri en þær eru ýmsum takmörkunum háðar og því liggja afstæðu aðferðirnar að mörgu leyti til grundvallar.
Afstæðar tímasetningaraðferðir

Christian Jörgensen

 Christian Thomsen (1788-1865).

Það var danski fornleifafræðingurinn Christian Thomsen (1788-1865) sem lagði grundvöllinn að flokkun fornleifa eftir aldri á fyrri hluta 19. aldar. Þá setti hann fram svokallaða þriggja alda kenningu. Hann hafði tekið eftir því að úr elstu jarðlögum komu eingöngu áhöld og gripir úr steini, en úr yngri lögum kæmu líka hlutir úr bronsi og úr enn yngri lögum gripir úr steini, bronsi og járni. Kenning hans var því sú að fyrst hefði verið steinöld, síðan bronsöld og síðast járnöld.
Þessi kenning liggur enn til grundvallar tímabilaskiptingu forsögunnar í Evrópu og Vestur Asíu en hún er fyrst og fremst mikilvæg fyrir það að með henni er hægt að raða hlutum í aldursröð eftir efni þeirra og fundarsamhengi. Elstu leirker finnast til dæmis iðulega í sömu lögum og pússuð steináhöld sem eru ólík slegnum steináhöldum í enn eldri lögum. Á þessari athugun byggir skipting steinaldarinnar í fornsteinöld og nýsteinöld og frá dögum Thomsens hafa fornleifafræðingar unnið sleitulaust að því að greina slík samhengi og skipta “öldunum” niður í æ styttri tímabil.

Leirker

Leirker eru afar sjaldgæfur fundur við fornleifarannsóknir frá landnámi og fram á 11 öld, tvö brot fundust í Vogum á Höfnum á Reykjanesi og þrjú brot við höfnina á Kolkuósi í Skagafirði.
Í öskuhaugnum í Firði hafa nú fundist yfir 20 brot sennilega öll af sama kerinu. Öskuhaugurinn er aldursgreindur frá 940-1100.

Þó að grófa flokkunin haldi fyrir heilar heimsálfur geta styttri tímabilin verið ólík frá einu landi eða svæði til annars en það helgast af því að skilgreining þeirra byggir á atriðum eins og tísku sem er oft staðbundin. Því má segja að efnin (steinn, kopar, brons, járn, en líka gler, stál, silki og gúmmí) gefi grófa rammann en tæknin (bæði aðferðir við að búa til hluti, til dæmis málmsteypa og postulínsgerð, og við að nýta þá, til dæmis plæging og tedrykkja) og tískan hjálpa til við að tímasetja með meiri nákvæmni. Tíska er lykilatriði í þessu, því að margir hlutir (einkum skartgripir og allskonar skreyti og munstur) geta breyst hratt og því meiri sem breytileikinn er þeim mun styttri eru tímabilin og þeim mun nákvæmar hægt að tímasetja. Það eru ekki bara manngerðir gripir sem fornleifafræðingar líta til í þessu samhengi heldur líka atriði eins og villt dýr í umhverfi bólstaða, hvaða jurtir eru ræktaðar, húsdýrahald og margskonar aðrar vísbendingar um líf og störf mannanna sem taka breytingum með tímanum.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Allt þetta byggir á því einfalda en mikilvæga lögmáli að afstaða jarðlaga og mannvistarlaga segir til um aldur þeirra: lagið sem er undir er eldra en það sem er ofan á. Ef gripasafn úr eldra lagi er til dæmis með ákveðna tegund af leirkerjum en það yngra ekki þá getur verið að sú tegund hafi fallið úr tísku, og ef sú breyting sést á mörgum stöðum má hafa þá breytingu sem aldursviðmiðun. Hún segir okkur hinsvegar ekki hvenær þessi leirker hættu að vera í tísku.
Fram um miðja 20. öld áttu fornleifafræðingar í erfiðleikum með að tengja tímabilin sín við rauntíma. Eina aðferðin var að nota gripi með áletrunum sem hægt var að tengja við sögulega atburði og einstaklinga en sú aðferð kemur aðeins að gagni eftir að ritmál var fundið upp, fyrir um 5000 árum síðan í gamla heiminum, en allt sem var eldra en það var erfitt eða ómögulegt að tengja við rauntíma. Þetta breyttist eftir 1950 með tilkomu aldursgreiningar með geislakoli en hún hefur valdið byltingu í tímasetningum í fornleifafræði.

Algildar tímasetningaraðferðir

C-14

C-14.

Áletrun getur gefið algilda tímasetningu, til dæmis má yfirleitt treysta því að mynt með nafni kalífa eða konungs sé frá veldistíma hans, en sú tímasetning segir bara til um aldur myntarinnar. Aðrir gripir sem finnast í sama lagi geta ekki hafa lent þar fyrr en eftir að myntin var slegin, en þeir geta annaðhvort verið eldri en hún (það er þeir voru gamlir þegar þeir lentu í laginu) eða miklu yngri (myntin var gömul þegar hún lenti í laginu).
Sú algilda tímasetningaraðferð sem mest áhrif hefur haft og mestu máli skiptir í fornleifafræði nútímans er hins vegar geislakolsaldursgreining, líka þekkt sem kolefnisaldursgreining eða C14. Þessi aðferð byggist á því að þrjár samsætur kolefnis (C) eru í andrúmsloftinu og hlutfallið á milli þeirra er stöðugt. Sama hlutfall er svo í öllum lífverum. Ein af þessum samsætum, C14, er geislavirk sem þýðir að hún er óstöðug og breytist í stöðugu samsætuna N14. Það sem skiptir máli fyrir tímasetningar er að geislavirk efni eyðast með stöðugum og ákveðnum helmingunartíma sem er hægt að ákvarða með mælingum í rannsóknastofu.

C-14

C-14.

Helmingunartími C14 er 5730 ár og með þessu má aldursgreina allar lífrænar leifar aftur til um 40.000 ára. Fara má nærri um raunaldur jarðlags með því að tímasetja hluti eins og fræ og dýrabein sem sjaldnast eru meira en nokkurra ára þegar þau lenda undir torfu, en aðalkosturinn við þessa aðferð er að hún er sjálfstæð, óháð bæði ritheimildum og flokkunarkerfum forngripa; og að henni má beita á öll lífræn efni, meðal annars þau sem lent hafa í eldi og kolast en kolaðar leifar geta varðveist þar sem varðveisluskilyrði eru að öðru leyti slæm fyrir lífrænar leifar.
Með þessu er ekki allur vandi leystur; ýmis vandamál eru við meðferð og túlkun geislakolsaldursgreininga, og aðferðin nær ekki til eldra skeiðs fornsteinaldar, langlengsta tímabils mannkynssögunnar (nærri 2 milljónir ára). Aðrar aðferðir sem einnig byggjast á stöðugri eyðingu geislavirkra efna (til dæmis úrans og kalín-argons) eru þó til og má nota þær á eldri hluti, fyrst og fremst berg.
Margar aðrar aðferðir eru til en þær eiga allar sammerkt að vera annað hvort staðbundnar (eins og gjóskulagatímatalið sem íslenskir fornleifafræðingar styðjast mikið við) eða að aðeins er hægt að beita þeim á sérstök efni. Þar á meðal er trjáhringaaldursgreining sem er nákvæmasta tímasetningaraðferð sem til er en henni er aðeins hægt að beita á sæmilega stóra búta úr tilteknum trjátegundum (til dæmis eik en ekki birki, enn sem komið er að minnsta kosti).

Kléberg

Kléberg í Glúfurgili í Esju.

Þegar fornleifafræðingur stendur frammi fyrir því að tímasetja fornleifar byrjar hann yfirleitt á því að reyna að staðsetja sig gróflega í tíma út frá efnum og gerð gripanna. Hér á Íslandi myndum við til dæmis næsta hiklaust telja að safn sem innihéldi svínabein, glerperlur og kléberg væri frá víkingaöld en að safn með leirkerjum og glerbrotum væri frá 17. öld eða yngra, og það þó að söfnin væru að uppistöðu hlutir úr járni og steini sem væru í aðalatriðum eins í báðum. Til þess að fá nákvæmari tímasetningu myndum við svo líta til gjóskulaga, en það getur verið háð aðstæðum hvort til staðar eru gjóskulög sem hægt er að nota sem tímatalsviðmið. Jafnframt myndum við láta gera geislakolsaldursgreiningar á völdum hlutum. Í öðrum löndum er samsetning aðferðanna oftast önnur en alls staðar á það við að efni og gerð hlutanna gefa rammann, en síðan beita menn öðrum aðferðum eftir efnum og aðstæðum, og oftast er geislakolsaldursgreining þar á meðal.

Hvar hafa leifar um víkinga varðveist?

Víkingar

Víkingur.

Þegar fjallað er um leifar eftir víkinga þarf fyrst að ákveða hvað við er átt með hugtakinu víkingur. Í íslenskum miðaldaritum hefur orðið alltaf þrönga merkingu, það þýðir „sæfari, sjóræningi“ og er fyrst og fremst notað um norræna menn þó að merkingin virðist ekki endilega bundin þjóðerni. „Víkingur“ er með öðrum orðum starfsheiti en fyrir löngu hefur skapast sú hefð að nota það sérstaklega um þá norrænu menn sem tóku að ræna, rupla, versla og berjast til landa í Norður-Evrópu á níundu og tíundu öld e. Kr.

Þetta tímabil er oft nefnt víkingaöldin og látið ná frá 793/800 til 1050/1066/1100 e. Kr. Það einkenndist í fyrstu af ránsferðum og strandhöggi norrænna manna við Eystrasalt, á Bretlandseyjum og í strandhéruðum Norður-Evrópu, en fljótlega einnig skipulegum hernaði og landvinningum sem leiddu til þess að þeir settust að í norðurhluta Englands, í borgum eins og Dublin (Dyflinni) á Írlandi, í Normandí í Frakklandi og á svæðinu í kringum Starja Ladoga (Aldeigjuvatn) í Rússlandi.

Víkingar

Víkingar.

Lítið er vitað um hversu stórar byggðir norrænna manna voru á þessum stöðum og víst að þeir samlöguðust fljótt þeim þjóðum sem þar voru fyrir.
Á sama tíma fundu norrænir menn áður óbyggð lönd í Norður-Atlantshafi – Færeyjar, Ísland og seinna Grænland – þar sem þeir settust að. Þeir settust líka að á svæðum sem lengi höfðu verið byggð í Skotlandi: á Hjaltlandi, Orkneyjum, Suðureyjum, Katanesi og einnig á eynni Mön í Írlandshafi. Öfugt við hinar norrænu byggðir í Englandi, Frakklandi og Rússlandi náðu norrænir menn algerum menningarlegum og pólitískum undirtökum á þessum svæðum og var til dæmis talað norrænt mál á Hjaltlandi og Orkneyjum fram yfir siðaskipti.
Vegna þess hve víkingaöldin er litríkt tímabil í sögunni og hve ránsferðir og hernaður norrænna manna skipti miklu fyrir þróun efnahags og stjórnkerfis í Norður Evrópu á þessu tímabili hefur hugtakið „víkingar“ fengið merkinguna „allir norrænir menn á víkingaöld“ í hugum margra.

Víkingur

Íslenskur víkingur á alþingishátíðinni 1930.

Þetta á einkum við um enskumælandi þjóðir en frá sjónarmiði íbúa Bretlandseyja voru sjóræningjar frá Norðurlöndum og norrænir menn almennt einn og sami hópurinn. Af þeim sökum er hugtakið „Viking“ á ensku mjög oft notað sem samheiti fyrir Norðurlandabúa á víkingaöld, friðsamt fólk jafnt sem atvinnusjóræningja. Á Norðurlöndum hefur hinsvegar tíðkast að gera greinarmun á þeim tiltölulega litla hópi sem lagðist í víking og hinum sem heima sátu eða námu óbyggð lönd í úthöfum til að búa þar í friði og spekt. Landnemar á Hjaltlandi og Íslandi voru því ekki víkingar – í mesta lagi fyrrverandi víkingar – samkvæmt íslenskum málskilningi.
Annað starfsheiti frá sama tíma sem einnig hefur fengið merkingu þjóðernis er „væringjar“ en það hugtak var upphaflega notað eingöngu um Norður-Evrópumenn sem mynduðu lífvarðasveit keisarans í Miklagarði (nú Istanbúl). Í henni voru alls ekki bara norrænir menn, heldur líka Engilsaxar og Þjóðverjar, en hugtakið er samt oft notað almennt um norræna menn sem versluðu, rændu og settust að í austurvegi, það er við austanvert Eystrasalt og í Rússlandi.
Leifar sem varðveist hafa eftir víkinga og væringja, það er norræna sjóræningja, kaupmenn og hermenn á 9.-11. öld e. Kr., eru ekki miklar. Það sem vitað er um þetta fólk er mest úr írskum, enskum, þýskum, frönskum og grískum annálum og sagnaritum frá þessu tímabili. Nokkrir rúnasteinar, flestir frá 11. öld og í Svíþjóð, geta einnig um ferðir nafngreindra manna í austur- og vesturvíking. Yngri heimildir, til dæmis íslenskar fornsögur, eru miklu meiri að vöxtum en ekki að sama skapi áreiðanlegar.

Þórshamar

Þórshamar eftir uppgröft.

Á sumum svæðum þar sem norrænir menn settust að, til dæmis í Englandi og Normandí, eru örnefni helstu heimildirnar um þá. Það eru bæði nöfn sem norrænir menn hafa gefið bólstöðum sínum og nöfn sem innfæddir hafa gefið stöðum sem tengdust norrænum mönnum með einhverjum hætti. Í Englandi og í Rússlandi hafa einnig fundist nokkur kuml, heiðnar grafir með haugfé, sem greinilega eru norræn. Mun erfiðara hefur verið að bera kennsl á byggingar norrænna manna á þessum svæðum og virðast þeir hafa samið sig mjög fljótt að siðum innfæddra.
Í Englandi og á Írlandi hafa verið gerðir umfangsmiklir uppgreftir í bæjum sem norrænir menn réðu á víkingaöld. Stærstu og frægustu uppgreftirnir eru í York (Jórvík) á Englandi og Dublin á Írlandi. Leifarnar sem hafa fundist á þessum stöðum eru ekkert sérstaklega norrænar – þær skera sig lítið sem ekkert frá leifum úr öðrum bæjum í Norður-Evrópu á sama tíma sem tengjast norrænum mönnum minna (til dæmis Dorestad í Hollandi, Hamwic á Englandi og Novgorod í Rússlandi). Hins vegar er vitað að York og Dublin voru undir stjórn norrænna manna, einkum á 10. öld, og að uppgangur þeirra tengist verslun á vegum víkinga.

Fornleifar

Munir uppgötvaðir eftir fornleifagröft.

Það á líka við um bæi sem urðu til á Norðurlöndum á víkingaöld, til dæmis Ribe og Hedeby í Danmörku, Birka í Svíþjóð og Kaupang í Noregi, en við uppgrefti á þessum stöðum hefur fundist ýmiskonar varningur sem ber verslunarsamböndum víkinga vitni. Norðurevrópskir og arabískir peningar frá víkingaöld hafa fundist í þúsundatali á Norðurlöndum, ekki síst á Gotlandi, og eru þeir mjög mikilvæg heimild um verslunarsambönd á þessum tíma.
Á Norðurlöndum hafa menn einnig talið sig geta bent á gripi, yfirleitt úr kumlum, sem gætu verið afrakstur ránsferða utan Norðurlandanna. Það eru til dæmis kirkjugripir og skraut af bókum sem ætla má að hafi verið rænt úr kirkjum eða klaustrum. Slíkir fundir eru þó fáir.

Fornleifar

Gripur endurheimtur eftir fornleifauppgröft. Hér verður vitleysunni í kringum klaustursrannsóknir ekki gerð séstök skil.

Miklu sjaldgæfara er að menn hafi talið sig finna ummerki um víkinga utan Norðurlanda (það er önnur en örnefni og ótvíræð kuml). Gripir sem eru klárlega norrænir, eins og til dæmis kúptar nælur sem voru hluti kvenbúnings og norræn mynt, hafa mjög litla útbreiðslu utan Norðurlanda. Sérstæðar leifar eftir norræna menn eru til dæmis rúnarista á styttu af ljóni sem nú er í Feneyjum en var upphaflega í Aþenu, og önnur sem Hálfdan nokkur risti í Hagiu Sofiu, kirkju í Istanbúl.

Mjög mikilvægar leifar sem tengjast víkingum eru skip sem fundist hafa, bæði í grafhaugum (til dæmis Ásubergs- og Gauksstaðaskipin í Noregi) og á hafsbotni (til dæmis fjölmörg í Hróarskeldufirði í Danmörku). Skipin voru tæknileg forsenda fyrir víkingaferðunum og landnámi norrænna manna í Norður-Atlantshafi.

Ásubergsskipið

Ásubergsskipið.

Þau eru flest geymd og mörg höfð til sýnis í víkingaskipasöfnunum í Osló og Hróarskeldu (Roskilde).
Leifar eftir norræna menn á víkingaöld er því fyrst og fremst að finna á Norðurlöndum, og eru gripirnir yfirleitt varðveittir á söfnum, bæði þjóðminjasöfnum viðkomandi lands og hérðassöfnum. Í Noregi er hægt að skoða aðfangaskrár forngripasafnanna á dokpro.uio.no.
Sama gildir um gripi sem hafa fundist utan Norðurlanda. Þeir eru flestir varðveittir á þjóðminjasöfnum (til dæmis Skotlands, Bretlands og Írlands) eða á héraðsminjasöfnum. Á svæðum þar sem norrænir menn settust að má víða skoða uppgrafnar byggingar (til dæmis á Jarlshof á Hjaltlandi), tilgátuhús (til dæmis á Borg í Lófóten) og sýningar (til dæmis í York).

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Fornleifafr%C3%A6%C3%B0i
-https://is.wikipedia.org/wiki/Fornleifaskr%C3%A1ning
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28898
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=50983
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4377

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið.

Merkinessel

Í ritgerð um „Sel og selstöður í Dýrafirði„, skrifuð af Bjarna Guðmundssyni 2020 er fjallað um sel og selsbúskap í þeim landsfjórðungi. Auðveldlega má hins vegar heimfæra þau skrif, einkum hvað varðar upphaf búskaparins upp á selsbúskap annars staðar á landinu á þeim tíma – þótt ekki væri til annars en til uppfræðarfærslu hins almenna um selsbúskap þess tíma:

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – meint seltóft Víkursels, þess fyrsta frá Reykjavíkurbæ Ingólfs.

„Dalirnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“

Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum.

Selin í sögu og lögum

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Seljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu. Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.

Fornasel

Fornasel.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi.
Lars Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: „Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden).

Fornasel

Fornasel – vatnsból.

Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða.

Straumsel

Straumssel – efri Straumselshellar.

Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur. Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða. Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður.

Njarðvíkursel

Stekkur norðan Njarðvíkursels sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta. Cabouret benti á að það var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.

Selsvellir

Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.

„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 191912 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.

Annars eru innlendar heimildir býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur en úr þeim síðari til dæmis verk Eyfirðingsins Hólmgeirs Þorsteinssonar og Skaftfellingsins Einars H. Einarssonar. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu www.ferlir.is með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum.

Selsvellir

Gömlu selin á Selsvöllum.

Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra: Úr Grágás (tölur vísa til blaðsíðu).

20: Manni er rétt að fara, þótt drottinsdagur sé, til sels með byttur…

Straumssel

Straumssel.

146:… þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum…

147: Sá skal boð bera bæja í milli… En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.

177: Engi maður skal fyrir öðrum brenna með heiftugri hendi hús né heyhlaða, sætur, búð né skip. En ef hann brennir og verður að því kunnur og sannur, þá er hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur, og hefir fyrirgert hverjum peningi fjár síns í landi og lausum eyri . . .

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.

En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa.

Brynjudalur

Brynjudalur – í Þórunnarseli.

Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.

186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]

Stakkavíkursel

Selstígurinn í Stakkavíkursel – Hlíðarvatn fjær.

186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið … Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.

Það var vinnan sem á hverjum tíma var sá þátturinn er helst takmarkaði rekstur seljanna: Hún var mikil og ekki eftirsóknarverð, sennilega sakir aðstöðu, aðbúnaðar og fásinnis.

319: Of selför: Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.
320: Enn of selför: Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók. Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .
330:… Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.

Sel og verstöðvar

Selatangar

Selatngar – verkhús.

Á sama grunni og selstöðurnar voru handan mæra menningar (kultur) og náttúru (natur) má segja að verstöðvarnar hafi verið það hvað snerti sókn til sjávarins. Með verstöðvunum tóku menn sér tímabundna búðsetu til þess að auðvelda nýtingu auðlindar hafsins, rétt eins og menn gerðu með selstöðunum hvað gróðurlendið snerti. Á vertíðum annarra tíma ársins, einkum vor og haust, fóru menn með hliðstæðum hætti til fiskivera sinna. Markmið beggja ferðanna voru hin sömu: Að afla próteins og feitmetis til eigin viðurværis en einnig sem gjaldmiðla til leigugreiðslna og þeirra takmörkuðu viðskipta er stunduð voru.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Í seljunum stóð ríki kvenna. Í verstöðvunum ríktu karlar. Var það ef til vill eitt form þeirrar tíðar er markaði (annabundið) frelsi og jafnrétti kynjanna? Og þá má líka spyrja hvort aflögn seljabúskaparins hafi haft sambærileg áhrif á afkomugrundvöll heimilanna og hvarf þeirra frá notkun verstöðva til einhliða heimræðis hefði haft? Að þeirri spurningu kom þó ekki því þörfin fyrir selför og sauðamjaltir þvarr með gerbreyttum þjóðfélagsháttum – og nútíma.

Enginn veit lengur með fullri vissu hvernig hús og önnur mannvirki á selstöðunum litu út á meðan þau stóðu heil og voru í fullri notkun. Það má hins vegar giska á það, m.a. á grundvelli mælinga á tóftum og öðrum minjum sem enn sjást.

Fráfærur lagðar af og búháttum breytt

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Rétt undir lok nítjándu aldar skrifaði Pétur Jónsson á Gautlöndum rækilega grein þar sem hann færði rök fyrir og hvatti til stofnunar samlagsselja, til dæmis 6-8 bæja með þá 6-800 ám. Kvað hann mikla umræðu hafa farið fram í Þingeyjarsýslu um málið þótt ekki hafi þá enn orðið af framkvæmdum. Torfi Bjarnason í Ólafsdal skrifaði rækilega grein um fráfærur og samlagssel árið 1908, studdi hana glöggum hagreikningum og hvatti til stofnunar samlagsselja: „Það væri vert að athuga, hvort vér höfum haft gilda ástæðu til að leggja selin niður, eða þau hafa verið lögð niður í hugsunarleysi og af óframmsýni, eins og sumt annað gamalt og gott, sem týnst hefur.“
Fleiri ræddu málið en ástæðan fyrir endurreistum áhuga á selförum hefur líklega verið sú að nokkru fyrr hafði tekið fyrir sauðasöluna til Bretlands sem gefið hafði ýmsum bændum í stöku héruðum vel þegnar tekjur. Ein leið til þess að mæta tekjubrestinum var talin vera framleiðsla smjörs fyrir erlendan markað, leið sem reynd var og gaf góðan en skammæan ábata.

Mosfellsbær

Í stekknum.

Menn gerði bæði sárt og að klæja eins og haft var eftir Sigríði Jónsdóttur húsfreyju í Alviðru í Dýrafirði, f. 1896, um fráfærsluna: „Þetta var svo mikið tilstand. Það þurfti að þrífa kollur og kirnur en það kom svo gríðarmikið smjör úr sauðamjólkinni.“ Erfiðir tímar urðu svo til þess að árið 1918 lagði Sigurður Jónsson atvinnumálaráðherra fram frumvarp á Alþingi um heimild til landsstjórnarinnar að fyrirskipa „fráfærur ásauðar“, fyrst og fremst í þeim tilgangi „að reyna að bæta úr feitmetisskortinum, sem nú er að verða mjög tilfinnanlegur í kaupstöðum og sjávarþorpum og jafnvel einnig í sveitum,“ sagði í greinargerð með frumvarpinu. Málið var rætt allrækilega en því síðan vísað frá með rökstuddri dagskrá „í því trausti, að landsstjórnin stuðli að því eftir föngum, að bændur geti fengið sem ódýrastan og hentugastan vinnukraft, til framkvæmdar fráfærum ásauðar, og gefi þeim upphvatningu til þess á annan tiltækilegan hátt“…

Færikvíar

Færikvíar.

Annmarkar á fráfærum voru helst taldir vera hve erfitt og dýrt yrði að útvega nauðsynlegan vinnukraft, að heyafli bænda mundi minnka sakir fólkseklu og að minna yrði framleitt af góðu kjöti og spilla kjötmarkaði erlendis sem þá var til staðar.176 Engu breytti þetta, selin voru að hverfa.

Mótstaðan gegn fráfærunum er aðallega bygð á fólkseklunni. Bændur kvarta um, að þá vanti kvenfólk til að nytka ærnar, og að ekki fáist unglingar til að smala eða sitja hjá …

Í Alþingistíðindi 1918 skrifaði Sigurður Sigurðsson í grein um viðbrögð við dýrtíð árið 1918.. „Svo virðist sem síðasta bára eljabúskaparins, hafi hnigið með framtaki bolvíkskra bænda sumurin 1952-1954.“

Flekkuvíkurstekkur

Flekkuvíkurstekur/rétt – uppdráttur ÓSÁ.

Sum mannvirkin geta hafa verið fullburðug íveru- og mjólkurvinnslu hús en önnur aðeins næturskýli eða smalakofar – mannvirki sem líka geta verið frá ýmsum tímum og breytileg frá einni jörð til annarrar. Í þriðja lagi eru það svo stekkarnir, þessar einkennandi réttir eða kvíar sem mörg örnefni eru tengd og lágu í dálítilli fjarlægð – stekkjarveg – frá býli. Vegalengdin var að sönnu ekki stöðluð en líklega ekki höfð meiri en svo að á stekkinn og af honum mætti ganga á skaplegum tíma og með tilheyrandi byrði (málnytuna). Ég hef ekki gert sérstaka rannsókn á stekkjaminjum á svæðinu en lausleg athugun sýnir að stekkir hafa, að minnsta kosti sumir hverjir, verið býsna íburðarmikil mannvirki. Í ljósi þess má velta því fyrir sér hvort menn hafi komið þeim upp til þess eins að nota þau um stekktíð, á meðan lömb voru vanin undan mæðrum sínum – á svo sem 2-3 vikna tíma á hverju ári.

Mundastekkur

Mundastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ég tel ekki fráleitt að ætla að stekkur kunni á tíðum að hafa þjónað hlutverki sels (mjaltasels); að vegna fjarlægðar frá bæ, þótt takmörkuð væri, hafi hann dugað til þess að halda uppi hinni nauðsynlegu tvískiptingu landnýtingarinnar: húshaga og selhaga. Sú skipting var sýnilega ekki landfræðilega fastbundin heldur kvik eftir eftir ýmsum aðstæðum. Þarft væri að kanna þátt stekkanna í þessu efni nánar. Hvernig tókst að hagnýta þessa hugmyndafræði á heimilunum mörgu og á ýmsum tímum sögunnar markaði efnalega afkomu einstaklinganna – og úr því spunnust hvort heldur bláþræðir eða gildir kaflar á hnökróttu bandi kynslóðanna.

Vinnubrögðin, mjólkin og smjörið

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Hvernig var vinnubrögðunum hagað í seljunum? Sjálfsagt hafa þau verið með ýmsu móti, allt eftir aðstæðum.
2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum.

Ærnar voru aftur á móti strax reknar fram í sel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannske einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærnatímann. Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram fyrir á. – Ekki er nema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að á eða tæplega það.

Ássel

Ássel – tilgáta; ÓSÁ.

Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.

Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að bæ í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestinum.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel- tilgáta; ÓSÁ.

Selkonurnar fóru oft heim að bæ á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.

Þegar heyjað var í selinu, en það eru brekkurnar heiman til við á, grasgefnar mjög, munu tveir karlmenn hafa dvalið þar framfrá vikutíma eða svo. Heyið var flutt heim í selið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – tilgáta (ÓSÁ).

Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að bæ og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag.

Féð var haft heima í bæ fram undir snjóa, en þá voru ærnar reknar í selið að nýju og hafðar þar fram undir hátíðar eða meðan selheyið entist.

Mjólkurfata

Mjólkurfata.

Svo má nú ekki síðar verða í þessari ritsmíð að vikið sé að afurðinni sem fráfærur og seljabúskapur snerist um – mjólkinni – magni hennar og gæðum. Skiljanlega vitum við fátt um slíkar tölur frá tímum seljanna en þegar dró að lokum mjólkurframleiðslu með sauðfé og kjöt tók að hækka í verði sakir vaxandi eftirspurnar birtust niðurstöður athugana glöggra bænda. Fróðlegum athugunum er sagt frá í búnaðarblöðum á fyrstu tveimur áratugum tuttugustu aldar. Þá hvöttu nefnilega ýmsir til eflingar fráfærna, eins og nánar verður vikið að.

Ungur smali, aðeins fimm ára gamall, sat yfir ám frammi á dal sumarið 1910, ef til vill nálægt Fremraseli . . . „honum leið illa og var hræddur . . . hann hafði misst móður sína skömmu áður“. . .: Ungum var börnum falin hjásetan. Fjarlægð frá heimabæ, framandi umhverfið og hinar persónulegu aðstæður kunna að hafa valdið óttanum þótt hugur reiki líka að reimleikum sem skýringu.

Dyljáarsel

Í Dyljárseli í Eilífsdal.

Að áliti Kjartans Ólafssonar virðast bændur víðast hvar hafa verið fastheldnari á forna búskaparhætti en almennt var í nálægum byggðum og „á það einkum við um seljabúskapinn“, skrifaði Kjartan, og um 1820 „var búsmali frá eigi færri en þrettán jörðum og enn eru hafðar í seli á sumrin.

Lýsingarnar benda til þess að selstöðurnar hafi verið notaðar af og til, legið niðri um hríð og síðan jafnvel teknar upp aftur.

Selin eru jafnan æva gömul ef marka megi gróður og gerð tóftanna. Það er eins og landslagsarkitekt alheimsins hafi úr gróðrinum ofið snotran krans og lagt hann mildilega yfir seltóftina – líkt og í virðingarskyni og til minningar um löngu horfin störf, og blessað fólkið sem störfin vann þarna af trúmennsku sinni og elju.

Heimild:
-Sel og selstöður í Dýrafirði, Bjarni Guðmundsson, landbúnaðarháskóli Íslands 2020 – uppfært til hins almenna.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Seljadalur

Í „Lögbók konungs, Lagabætis, handa Íslendingum eður Jónsbók hin forna, lögtekin á alþingi 1281„, útg. 1856, er m.a. fjallað um þegnskylduvinnu og landsleigu. Í síðarnefnda dálknum eru ákvæði um „sætr“ eða selstöður, einkum aðgengi bænda að slíkum nytjastöðum:

1. Um þegnskyldu við konung ok skattgjald

Jónsbók

Jónsbók hin forna.

Í nafni várs herra Jesú Christi, þess sem vár er vernd ok varðveizla, líf ok heilsa, skulum vér konungi várum, eðr hans lögligum umboðsmanni, eigi synja slíkrar þegnskyldu, sem vör höfum honum játað: at hverr sá bóndi er skyldr at gjalda skatt ok þingfararkaup, er hann á fyri sjálfan sik ok hvert skuldahjón sitt, kú eðr kúgildi, skip eðr nót, ok skal hann eiga um fram eik, uxa eðr hross, ok alla bús búhluti, sem þat bú má eigi þarfnast. En skylduhjú hans eru þeir menn allir, sem hann á at skyldu fram at færa, ok þeir verkamenn, sem þar þurfa at skyldu fyri at vinna. En þetta eru alls 20 álnir, af hverjum bónda. Skal konungr taka 10 álnir, en aðrar 10 álnir sá sem kongr skipar sýslu, með slíkri afgreiðslu, sem lögbók váttar, af þeim 10 álnum, sem þingfararkaup heitir.
(R. R. H. K. Svá skal ok hverr maðr gjalda skatt einhleypr, karl ebr kona, þó at hann sé búlaus, ef hann á 10 hundruð fyri sjálfan sik skuldlaust ok hundrað fyri hvern ómaga sinn, ok eitt hundrað um fram).
ÍsólfsskáliEn eigi skal meira gjaldast en einar 20 álnir, þar sem bóndi eðr húsfreyja andast frá, ok halda feðgin, systkyn eðr mæðgin, eðr aðrir arfar, saman þeim bóndi, hvárt sem er meiri eðr minni. En sá sem í burt fer með sinn hlut, gjaldi sem fyr váttar. En hverr sem þetta geldr eigi forfallalaust, áðr menn ríða til þing, sekr 6 aurum við konung. Skal þetta fé greiðast í vaðmálum, ok í allri skinna vöru, í ullu ok húðum, ok gjaldi þar sem hann hefr heimili átt fyri næstu fardaga, þó at hann færi heimili sitt á annan stað.
(H. B. E. K. Sá skal skatt gjalda, sem búnað reisir, en eigi sá er bregðr búi, ef hann hefr rninna fé en 10 hundruð, skuldlaust ok ómagalaust).

42. Um sætr ok selfarir

Villingavatn

Villingavan – Gamlasel odan Gamlaselsgils.

Hvervetna þar sem sætr eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, ok hafi fornar götur, ef til eru, ok hafi í togi laus hross, ef yfir eng er að fara. En ef keldr eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brúar yfir, ok vinna þann áverka á jörðu hins. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt, þá tveir mánuðir eru af sumri, utan þeim þyki öllum annat hentara, er burtfærslu eigu. En ef einhverr sitr lengr niðri, þá skal sá er at telr fyrirbjóða honum þar setu.
Nú sitr hinn heima eigi at síðr, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyri grasrán ok þrásetu.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Þá eiga þingmenn at dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán, en grönnum hans hálfa mörk fyri grasverð, þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svá marga bændr liðs, sem hann þarf at færa fé hins úr haga (húshaga) sínum. Sekr er sá hverr 2 aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafðr. Slíkt hit sama liggr við, ef maðr fer heim í húshaga fyrir tvímánað.

43. Um almennings vegu
Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki, sem at fornu fari hefr verit. Ok færa sætr eigi úr stað, utan hann færi engum manni til skaða. Ok svá skulu þeir hit sama sætrum halda. Engi maðr skal setja sætr sitt við annars land eðr haga, þar sem eigi hefr at fornu verit. Þar skal mæta horn horni ok hófr hófi.

44. Um þjóðgötur

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur).

Þjóðgata ok sætrgata, ok allir rekstrar skulu vera sem at fornu fari hafa legit, utan færa má götu ef vill sem fyr segir. Nú skal þjóðgata vera 5 álna breið. En ef hann spillir víðar akri eðr eng, þá skal hann bæta sem 6 skynsamir menn meta, skaða þann, ok landnám með. Nú rænir maðr annan mann þjóðgötu, þá skal hann gjalda konungi hálfa mörk, ok svá fyri handrán, en þeim fullrétti eptir dómi er ræntr var. (R. B. E. K. Skylt er bændum at gjöra vegu færa um þver héruð ok endilöng, þar sem mestr er almanna vegr, eptir ráð i lögmanns ok sýslumanns. Sekr er hverr eyri, er eigi vill gjöra, ok leggist þat til vegabóta. Nú brýtr maðr brú af þjóðgötu eðr sætrgötu, gjöri aptr aðra brú jafngóða sem áðr var, ok bæti þeim mörk er brú átti.
Ef maðr rænir annan mann sætrgötu eðr rekstri, þeim sem at fornu fari hefr verit, bæti konungi hálfri mörk fyri vegarán, ok hafi hinn þó götu sem áðr.

52. Um almenninga

Selsvellir

Selsvellir – rétt.

Svá skulu almenningar vera sem at fornu hafa verit, bæði hit efra ok hit ytra. En ef menn skilr á, ok kallar annarr sér almenning eðr afrétt, þá festi sá lög fyri, er sér kallar, ok stefni þing, þar er menn eiga því máli að skipta, ok skeri upp þingboð fyri fimmt. En ef hann gjörir eigi svá, þá er ónýt lögfesta hans at því sinni. En á þingi skulu þeir nefna 12 bændr hina skynsömustu, 6 hverr þeirra, í þinghá þeirri, ok hafa þá 2 af þeim 12 at bera megi ok sverja, hvárt sú afrétt er hans eign eðr almenningr.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

En af því þingi leggi sá fimmtarstefnu, er sér kallar þá jörð, ok njóti þar vitnis þess, er á þingi var nefnt. Ef fimmt ber á helgan dag, þá sé fimmtarstefna hinn næsta rúmhelgan dag eptir, ok færi þar þá vitni fram at jafnfullu sem á fimmtarstefnu. En svá skal þann eið sverja, at því skýtr hann til guðs, at þat hefr hann sér eldri skynsama menn heyrt segja, at þar skilr mark millum eignar bónda ok almennings, eðr afréttar, ok eigi veit ek annat sannara fyri guði í þessu máli. En síðan sé sett fimmtarstefna, ok dæmist þá hverjum þat sem hafa skal.

Heimild:
-Lögbók konungs, Lagabætis, handa Íslendingum eður Jónsbók hin forna, lögtekin á alþingi 1281, Akureyri 1856, bls. 28-29, 151-152 ofg 162-163.

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða á Laufhöfða við Gjásel.

Hjálmagjá

Í skráningu „Menningarminja í Grindavíkurkaupstað“ árið 2001 er getið um helstu nafngreindar gjár miðsvæðis í bænum og nágrenni, þ.e. í Járngerðarstaðahverfi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

125 hdr. 1847, óviss 1703. Eign Skálholtsstaðar. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir…Hjáleigur: Vallarhús, Lambhús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús, Hlaðhús.
Búðir til forna: Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu Gjáhús.“ JÁM III, 15. 1803: Hjáleiga: Nyrðra Garðshorn, 1847: Hjáleigur eru: Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. JJ, 84. Stundum talað um Járngerðarstaðahverfi.
1703: „Heimræði er árið um kríng og lendíng í betra lagi…Engjar öngvar.“JÁM III, 16. „Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér.“

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – garðhlið.

1840: „Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt.- Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utantúns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð.

Grindavík

Grindavík – Silfra.

Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóttum.“

Silfra – þjóðsaga
„…og haldið er til heiðarinnar. Skammt fyrir ofan þorpið er gjáin Silfra.“, segir í örnefnaskrá AG. „Er sagt, að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum.“

Í öllum upptöldum gjám og svo í dalnum og Vatnsstæði var fram um aldamót töluvert af ál, en heldur var hann smár, stærstur í Silfru. Þó var hún lengst frá sjó. Þó var ég ekki viss um Stamphólsgjá, að áll væri þar. Um álaveiðar okkar strákanna á ég uppskrifað.

Grindavík

Nautagjá; „Hún er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar. Allt vatn í þvotta og handa kúm var tekið úr Nautagjá, og þar voru líka þvottar þvegnir… Kýr voru fjarska oft reknar til vatns í Nautagjá á vetrum, ef gott var, og þannig látnar bera vatnið sjálfar. Þessi vegalengd mun hafa
verið nær eitt hundrað faðmar eftir túninu og gæti hugsazt, að nafn gjárinnar væri frá þessu komið í fyrstunni, að nautpeningur var þar oft við drykk.“ Magnúsargjá er framhald Nautagjár, nær Vatnsstæðinu.

Allar gjár stefna eins, frá norðaustri til suðvesturs. Í raun og veru má rekja þessa gjá alla leið ofan úr Hópsheiði og gegn um allt: Krosshúsagjá, Gjáhúsagjá, Vallarhúsagjá og Flúðagjá, þetta er allt í sömu stefnu, þó höft séu heil á milli og endar út í sjó vestast á Flúðum.

Nautagjá
„Nautagjá. Hún er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar á svo sem 20 faðma lengd.“, segir í athugasemdum við örnefnaskrá.
„Allt vatn í þvotta og handa kúm var tekið úr Nautagjá, og þar voru líka þvottar þvegnir…Kýr voru fjarska oft reknar til vatns í Nautagjá á vetrum, ef gott var, og þannig látnar bera vatnið sjálfar. þessi vegalengd mun hafa verið nær eitt hundrað faðmar eftir túninu Drumbar, og gæti hugsazt, að nafn gjárinnar væri frá þessu komið í fyrstunni, að nautpeningur var þar oft við drykk.“

Nautagjá er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar á svo sem 20 faðma lengd. Ekki er hún breið, en þó stökkva hvorki menn né skepnur yfir hana. Öll talin er hún ekki lengri en 40-50 faðmar, og í hanni [svo] er hylur á einum stað nærri norðurenda. Hylji köllum við þar, sem ekki sést í botn, en þeir eru mjög misdjúpir. Í hana kemur Ræsirinn, það er rás úr Vatnsstæðinu. Stundum kom fyrir, að skepnur syntu þar inn á túnið, þegar þær sáu þar grængresið fyrir innan, en úthagar voru litlir.

Magnúsargjá – þvottastaður

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ eftir Guðjóni í Vík.

„Magnúsargjá var í raun og veru sama sprungan [og Nautagjá]. Hún var í sömu stefnu og svo sem 15 faðmar á milli endanna.“, segir í athugasemdir við örnefnaskrá.
„Allt vatn í þvotta og handa kúm var tekið úr Nautagjá, og þar voru líka þvottar þvegnir, en ull í Magnúsargjá.“
Magnúsargjá var í raun og veru sama sprungan. Hún var í sömu stefnu og svo sem 15 faðmar á milli endanna. (Allar gjár stefna frá norðaustri til suðvesturs.) Á þeirri leið var þó opin „gjóta“ með vatni í; þó var hún nafnlaus. Magnúsargjá var öll fremur grunn. Þar var enginn hylur, og á einum stað mátti stökkva yfir hana. Þar var hún svo sem einn og hálfur metri. Ég tel, að þessar gjár báðar hafi verið svo sem eitt hundrað og þrjátíu faðmar enda á milli, að meðtöldum þeim föðmum, sem á milli þeirra voru.

Kettlingapyttur (Kattargjá)

Grindavík

Grindavík – gjár.

Kettlingapyttur var þarna svo sem fimmtán faðma vestur af Magnúsargjá. Þar voru nokkrar gjótur með vatni í, og sú stærsta og dýpsta var Kettlingapyttur. Það nafn kom af því, að þar var öllum kettlingum drekkt. Pytturinn var vel djúpur. Oft voru þessi litlu dýr, blind, nýfædd, sett í lítinn poka og svo bundinn stór steinn við. Það þótti hreinlega gengið að verki þá. En aldrei var hvolpum drekkt þarna. Þeim var oftast drekkt í sjó, í Litlubótarpyttinn. Ekki vissi ég, hvernig á því stóð, en svona var þetta, þegar eg var að alast upp um aldamótin 1900, og varð ég stundum að framkvæma þetta eins og hvað annað, sem þurfti að gera. Þó fannst mér það alltaf óskemmtilegt.

Stamphólsgjá

Grindavík

Grindavík – Stamhólsgjá; loftmynd 1954.

„Beint vestur af bænum Hópi austan við veginn er hraunhóll, sem heitir Stamphóll, og gjá inn með hrauninu á Járngerðarstöðum, austur með veginum, heitir Stamphólsgjá. Austar er Gjáhólsgjá…Austan við [Gjáhóls]gjána er Gjáhóll…Þar austur af er stór hóll, sem heitir Langhóll. Álfarnir sem þar bjuggu, sóttu kirkju í Álfakirkjuna…“, segir í örnefnaskrá AG.

Bjarnagjá

„Fyrir vestan Markhól er Hvalvík… Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður… Vestan Jónsbáss er hár malarkampur, sem kallaður er Stekkjartúnskampur.“, segir í örnefnaskrá.
„Tóftabrunnur er fast vestan við gamla veginn, vestan við Bjarnagjá. Þá er Stekkjartúnsbarð og vestan við það Stekkjartún, sem er upp af Jónsbás og Stekkjartúnskampi…

Grindavík

Grindavík – Bjarnagjá.

Ofan við Stekkjartún er Stakibrunnur.“, segir í örnefnaskrá.

Baðstofa

„Norðaustur af Tóftatúni er Baðstofa, mikil gjá 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar 9 faðmar.“, segir í örnefnaskrá. „

Húsatóftir

Grindavík – Baðstofa.

Í Baðstofu var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott. Svo sagði Lárus Pálsson hómópati, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestar hafi
fengið að sækja vatn í Baðsofu gegn því, að Húsatóftarbændur fengju að taka söl í landi Staðar.“, segir í örnefnaskrá.

Klifgjá
„Gamli vegurinn frá Grindavík liggur austan við túnið á Húsatóftum, og liggur hann um Klifgjá vestast í jaðri hennar. Þar er svokallað Klif snarbratt niður í gjána. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta.“, segir í örnefnaskrá.
„Syðsti vegurinn, sem bæði kallast Staðar- og Tóttavegur, liggur til norðurs, mjög krókótt, fyrir sunnan Þórðarfell, en þó fram með því að norðanverðu, milli þess og Súlna og Stapafells, og kemur á Járngerðarstaðaveginn á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga, fyrir norðan Stapafell, efst í svonefndri Njarðvíkurheiði.“, segir í sóknarlýsingu.

Hjálmagjá

Húsatóftir

Húsatóftir – örnefni og minjar; ÓSÁ.

„Vestast (efst) í túni Húsatófta byrjar gjá, grasi gróin í botninn…Gjá þessi heitir Hjálmagjá.“, segir í örnefnaskrá. „Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsta með dýrlegum ljóshjálmum, sem báru mjög af lýsiskollum í mannheimi…Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika þar listir sínar á skautum í tunglsljósinu [þ.e.a.s. í lægð í Húsatóftatúni sem kallaðist Dans og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum].“, segir í örnefnaskrá.

Draugagjá

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

„Sandgjá, svört og dimm. liggur þvert yfir Hvirflana [á merkjum Staðar og Húsatófta]. Hún er kölluð Draugagjá. Nú er hún orðin nær full af sandi.“ segir í örnefnalýsingu.

Gjár og sprungur hafa verið þekktar í Grindavík frá því búseta hófst þar, enda eru þær um 2000 ára eða eldri samkvæmt rannsóknum. Mest er um þær vestantil í bænum og suðvestast (í Járngerðarstaðahverfi). Þekktust er líklega Stamphólsgjáin og gjárnar Silfra, Magnúsargjá og Nautagjá. Merki um Hópssprungu og Strandhólssprungu voru líka þekkt í
norðanverðum bænum fyrir 10. nóvember. Samfara uppbyggingu bæjarins hefur verið fyllt upp í gjár og sprungur og í sumum tilfellum byggt ofan á þeim.

Heimildir:
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað, Svæðisskráning, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
-https://www.almannavarnir.is/wp-content/uploads/2025/03/Jardkonnun-Grindavik-Lokaskyrsla-ID-456140.pdf
-Járngerðarstaðir – Athugasemdir skráðar af Sæmundi Tómassyni, er hann hafði lesið yfir endurskoðaða örnefnaskrá Járngerðarstaða.

Grindavík

Grindavík – Vatnsstæðið; gjár (loftmynd frá 1954).

Reykjavík

Í Öskjuhlíð, við göngustíg austan við Háskólahús Reykjavíkur, er skilti með fyrirsögninni „Stríðsminjar í Öskjuhlíð og við Nauthólsvík„. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Reykjavík

Öskjuhlíð – upplýsingaskilti.

„Í Öskjuhlíð og við Nauthólsvík eru ýmsar minjar frá síðari heimstyrjöldinni, 1939-1945. Bretar hernámu Ísland voruið 1940, ekki síst til að koma sér upp aðstöðu fyrir flughernað og lögðu Reykjavíkurflugvöll á árunum 1940-1942. Frá flugvellinum voru sendar sprengjuflugvélar til verndar skipalestum Bandamanna sem fluttu vopm og vistir frá Ameríku til bretlands. þeim stóð mikil ógn af þýskum kafbátum. meðal minja á þessu svæði eru eftirtaldar:

a. Dúfnahús. Enn mótar fyrir grunni þess sem var um 20×30 m að stærð. Það var tveggja hæða og geymdi fjölda fugla. Flugmennirnir tóku meðs ér dúfnakassa í öll flug. Ef þeim hlekktist á slepptu þeir dúfunum með upplýsingum um hvar þeir væru niðurkomnir.

Reykjavík

Öskjuhlíð – malarvegur.

b. Malarvegir. Setuliðið lagði malarvegi um Öskjuhlíðina. Að norðvestanverðu lágu þeir meðal annars að rafstöðinni og geymunum. Að sunnanverðu lágu vegir að sprengjubyrgjum flugvallarins, 12-14 talsins, sem náðu allt inn undir Fossvogskapellu. Skömmu áður en herflugvélaranar lögðu af stað í leiðangra var komið með sprengurnar á sérstökum vögnum og þær hífðar um borð.

Reykjavík

Öskjuhlíð – skotgröf.

c. Skotgrafir. Þær voru oftast hlaðnar úr strigapokum sem fúnuðu fljótt og hurfu. En sumar voru úr varanlegra efni og er ein þeirra hér skammt frá, hlaðin úr grjóti og torfi, að mestu horfin undir gróður. Svipuð skotgröf er norðvestan megin í hlíðinni, skamt neðan við eldneytisgryfjurnar, um 25 m löng og hefur verið sprengt fyrir henni að hluta.

d. Niðurgarfnir vatnstankað. tankarnir voru aðallega hugsaðir fyrir brunavarnir og voru hér og þar í öskjuhlíð og við rætur hennar. Sumir vatnstankanna voru eftir stríðið gerðir að kartöflugeymslum.“

Reykjavík

Reykjavíkurflugvöllur og nágrenni 1942.

Víkursel

Getið er um Víkursel í heimildum, sjá meðfylgjandi neðangreint. Skv. þeim átti sel þetta, frá fyrsta norrænu byggðinni hér á landi, þ.e. í Reykja[r]vík að hafa verið í Öskjuhlíð.

Reykjavík

Öskjuhlíð – minjar.

Staðsetningin verður, bæði að teknu tilliti til fjarlægðar frá bæ og aðstæðna (í skjóli fyrir austanáttinni), hlýtur að hafa þykið hentug á þeim tíma. Í nokkrum misvísandi fornleifaskráningum á svæðinu hafa leifar selsins, þrátt fyrir fyrirliggjandi upplýsingar um sel og selstöðmannvirki frá fyrri tíð, ýmist verið staðsettar vestast í hlíðinni eða miðsvæðis í henni vestanverðri. Á síðarnefnda svæðinu hafa jafnframt verið staðsettir tveir stekkir, m.a. Skildingarnesstekkur (gæti hafa verið heimasel frá samnefndum bæ), stakur stekkur og nálæg fjárborg (væntanlega nátthagi frá selinu).

Í núverandi skógi, skammt vestan nefndra tófta eru greinilegar selsminjar líkt og sjá má á fyrrum umfjöllunum FERLIRs um Víkursel (sjá neðangreint).

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Allar vangaveltur um efnið eru jafnan vel þegnar, en stundum þarf að staldra við og gaumgæfa aðstæður að teknu tilliti til fyrrum búskaparhátta. Ljóst er að fyrrum herminjar hafa að einhverju leiti villt skráningaraðilum sýn þegar kemur að samhengi hlutanna, en þó ekki að öllu leiti.

Í Öskjuhlíð eru fjölmargar minjar, flestar frá hernámsárunum, en einnig frá fyrrum nálægrar búsetu sem og selsminjanna. Leifar margra skotgrafa má enn sjá í suðvesturhlíðum Öskjuhlíðar, um 160 m norðaustan við Háskólann í Reykjavík. „Þar eru nokkrar skotgrafir sem liggja í sveig 25 m norðvestan við gamlan herveg sem lá að sprengigeymslunum og er nú notaður sem gangstígur. Fast við hann er stekkur og um 28 m norðan við skotgröf er fjárborg“. Stundum mætti ætla, með teknu tiliti til aðstæðna, að um fornar minjar væri um að ræða.

Reykjavík

Öskjuhlíð – leifar Rockfort Camp.

Í vestanverðri Öskjuhlíðinni var lítill kampur, geymsla fyrir skotfæri, er nefndist Rockfort Camp. Enn má sjá leifar hans í hlíðinni.

Í fornleifaskrá um „Göngustíg í Öskjuhlíð“ frá árinu 2020 má lesa eftirfarandi: „Um selstöðu greinir Jarðabók Árna og Páls: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn; (Jarðabók, III.bindi, s. 262).
Elín Þórðardóttir minnist á sel það sem faðir hennar hefði átt sunnan undir Öskjuhlíð „sem faðir minn sagði stæði í Reykjavíkurlandi; (Ö.Skild.1).

Reykjavík

Öskjuhlíð – meint Víkursel skv. fornleifaskráningu.

Eftir máldaga kirkjunnar, er Oddgeir biskup setti árið 1379, átti Reykjavíkurkirkja Víkurholt, með skóg og selstöðu. Þessi hlunnindi eru ekki nefnd í Wilchinsmáldaga 1397. Samkvæmt Oddgeirsmáldaga má ætla að Víkurholt sé sama örnefnið og Öskjuhlíð því að ótrúlegt er að sel hafi verið í Skólavörðuholti. Þess vegna getur fullyrðing Georgs Ólafssonar um Víkurholt, sem hið sama og Skólavörðuholt, ekki staðist. Ekki er unnt að segja nákvæmlega til um hvar selið hefur verið en líkur benda til að það hafi verið norðaustan við Nauthól og Seljamýrin því verið fram undan til (Ö.Skild 1). Rústin er í skógajaðri austan við göngustíg.

Reykjavík

Öskjuhlíð – meintar leifar sels.

Selið er um 11×6 m (NNV-SSA). Veggir úr torfi, breidd veggja er um 1,5 – 2,0 m og 0,3 – 0,5 m hæð. Gólf er niðurgrafið. Fornleifarnar eru ógreinilegar og ekki hægt með vissu að skera úr hvort um sel sé að ræða. En það sem styrkir þá tilgátu er: 1) Lækjarspræna rennur við fornleifarnar A – verða. 2) Nánasta umhverfi mjög gott beitiland. Inni í fornleifunum vaxa 6 grenitré. Ekki er ósennilegt að í nánasta umhverfi fornleifarinnar séu fleiri fornleifar.“

Hér að framan er í fornleifaskrá lýst meintum leifum Víkursels. Auk þess segir um eldri byggð í Öskjuhlíð: „Vitað er að í Öskjuhlíð voru áður fyrr beitilönd Víkur og Skildinganess, en auk þess var þar Víkursel.“

Öskjuhlíð

Í Öskjuhlíð.

Í „Fornleifaskrá, Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024“ er getið um endurtekningu á framangreindu Víkurseli, sbr.: „Neðarlega í suðvesturhlíðum Öskjuhlíðar er tóft sem talin er hafa verið Víkursel. Um 70 m norðaustur af Háskólanum í Reykjavík og um 20 m austur af gangstígnum Bæjarleið, sem liggur norður-suður með vestanverðri Öskjuhlíð. Norðaustan við tóftina er lækjarfarvegur. Suðaustan við er rás sem sést vel á gömlum loftmyndum, sennilega eftir herinn, sem hefur raskað suðurgafli.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Undirhlíðar voru í Öskjuhlíð að sunnan- og vestanverðu. Í lýsingu Reykjavíkur og Seltjarnarness segir: „En Seljamýri var kennd við sel frá Hlíðarhúsum, sem var undir Öskjuhlíð.“ Hlíðarhús var hjáleiga frá Vík en var orðin sjálfstæð jörð um 1600. Síðasta selráðskonan í Öskjuhlíð var Elín Þórðardóttir, Sighvatssonar úr Hlíðarhúsum, og segir í örnefnalýsingu frá selinu sem faðir hennar sagði að stæði í Reykjavíkurlandi: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð.“
Lýsing: Jarðlæg sporöskjulaga tóft. Inngangur er ekki greinilegur, gæti hafa verið á suðausturgafli sem hefur raskast vegna rásar sem liggur um 15 m suður af henni. Veggjahæð 20 𝑥𝑥 50 cm.

Víkursel

Skotgrafir í Öskjuhlíð.

Í „Fornleifaskráningu lóðar Háskóla Reykjavíkur í Öskjuhlíð – Nauthóll, Reykjavík 2006“ segir um Skildingarnesstekk: „Stekkurinn er í Öskjuhlíð um 3 m vestan við miðjustíginn þar sem hann beygir fyrir stóra klöpp. Undir hamri í skógrækt (barrtré). Lóðréttur klettastallur er á einn veginn og leifar af hlöðnum vegg fyrir framan. Nafnið Skildinganesstekkur virðist vera munnmæli. Stekkurinn er mældur inn á kort frá 1933.24. Stekkurinn er 6×3,5 m (N-S). A-veggurinn er hamar en aðrir veggir eru um 0,3-0,4 m háir og 0,7-1,0 m breiðir. Eru veggirnir úr 0,3-0,7 m stórum steinum auk stærri jarðfastra steina. Í N-hlutanum vottar fyrir þvervegg sem afmarkar lambakróna. Engar dyr eru sjáanlegar en líklegast hafa þær verið gengt lambakrónni í S-hlutanum. Veggir hafa verið endurbættir í seinni tíð.“

Reykjavík

Öskjuhlíð – stekkur.

Um hinn stekkinn í Öskjuhlíðinni segir: „Í Öskjuhlíð vestanverðri er stekkur, neðan við miðjustíg suðaustan við Skildinganesstekk, í skógarjaðri. Stekkurinn er 8×8 m og liggur N – S. Veggir úr grjóti, 1,0-1,3 m breiðir og allt að 1,0 m háir (að innanverðu). A-hlutinn er meira og minna hamar, en aðrir hlutar hlaðnir úr 0,3 – 0,7 m stóru grjóti. Dyr eru í vestur. Grjótveggur liggur úr A-V vegg (N-S) 0,5 – 0,7 m breiður og 0,2 – 0,4 m hár. Við norðurenda garðsins er 1–2 m stór steinn, sem liggur dálítið frá vegg að innanverðu. Um 9 m NV af stekknum eru nokkrar holur sem vafalaust hafa tilheyrt hernum á sínum tíma. Í námundann við þessar holur eru fleiri mannvirki sem tilheyrt hafa hernum og er um 10 rústir að ræða. Rústin gæti hugsanlega hafa verið notuð af hernum og breyst eitthvað í því sambandi.“

Reykjavík

Öskjuhlíð – fjárborg.

Um fjárborgina segir: „Í Öskjuhlíð að vestanverðu. Um 6 m norður af malarstíg í stórgrýttu landi og skógrækt, fjárborgin er merkt inn á kort frá 1933. Fjárborgin er um 5,5×5 m. Veggir úr grjóti um 0,5-1,0 m á breidd og 0,3 – 1,3 m á hæð. Hluti veggjanna er stórt jarðfast grjót en á milli hefur verið hlaðið minna grjóti.“

Um Víkusel segir: „Um selstöðu greinir Jarðabók Árna og Páls: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ „Elín Þórðardóttir minnist á sel það sem faðir hennar hefði átt sunnan undir Öskjuhlíð“ sem faðir minn sagði stæði í Reykjavíkurlandi.“

Reykjavík

Öskjuhlíð – fjárborg.

„Eftir máldaga kirkjunnar, er Oddgeir biskup setti árið 1379, átti Reykjavíkurkirkja Víkurholt, með skóg og selstöðu.“
Rústin er í skógarjaðri austan við malbikaðan göngustíg. Selið er um 11×6 m (NNV-SSA). Veggir úr torfi, breidd veggja er um 1,5-2,0 m og 0,3-0,5 m hæð. Gólf er niðurgrafið. Fornleifarnar eru ógreinilegar og ekki hægt með vissu að skera úr hvort um sel sé að ræða. Nánasta umhverfi er mjög gott beitiland. Inni í fornleifunum vaxa sex grenitré. Ekki er ósennilegt að í nánasta umhverfi fornleifarinnar séu fleiri fornleifar.“

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Í ljósi framangreindrar fornleifaskráningar verður, að teknu tilliti til sýnilegra minja á vettvangi Öskjuhlíðarinnar, að Víkursel hafi ekki verið á nefndum stað heldur svolítið austar  og ofar í hlíðinni. Þar eru og a.m.k. leifar tveggja stekkja, auk þess sem lækjarfarvegur hefur runnið þar skammt frá. Tóft sú er vísað er til í skráningunni ber ekki með sér að hafa verið seltóft heldur miklu frekar útihús og þá væntanlega frá Skildinganesi eða jafnvel Nauthóli.

Sjá meira um Víkursel HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Heimildir:
-Göngustígur í Öskjuhlíð – Fornleifaskrá, Reykjavík 2020.
-Fornleifaskrá, Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Fornleifaskráning lóðar Háskóla Reykjavíkur í Öskjuhlíð – Nauthóll, Reykjavík 2006.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – meint seltóft skv. fornleifaskráningu.