Vatnsleysutrönd

Á 20. öldinni urðu miklar breytingar á mannlífi, híbýlum, verfærum og atvinnuháttum á Íslandi.

Ásláksstaðir

Nýibær – Farmal í forgrunni.

Um aldamótin 1900 voru t.d. u.þ.b. helmingur húsa í Reykjavík úr torfi og grjóti, önnur hús voru úr timbri sem og einstaka steinhlaðin. Bílar og dráttarvélar þekktust ekki. Fólk ferðaðist um á milli staða fótgangandi, á hestum eða hestvögnum undir lok aldarinnar. Hér er ætlunin að lýsa u.þ.b. eitt hundrað ára tímabili í aðstæðum og staðháttum á bæjum Vatnsleysutrandar, m.a. með hliðsjón af þeim breytingum sem þar hafa orðið. Til viðmiðunar er t.d. notuð túnakort tveggja bæja; Hlöðuness og Ásláksstaða frá árinu 1919 í samanburði við uppfært túnakort af sömu bæjum árið 2024. Á kortunum má glögglega sjá hinar miklu breytingar sem þar hafa orðið á mannvirkjum á ekki lengri tíma.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – túnakort 1919.

Haustið 1894 hafði Björn Þorláksson frá Munaðarnesi, Mýrasýslu, farið til Noregs þar sem hann keypti sláttuvél og rakstrarvél fyrir búnaðarskólann á Hvanneyri. Það munu hafa verið fyrstu heyvinnuvélarnar sem komu til landsins. Fyrstu heyvinnuvélarnar, sláttuvélar og síðan rakstrarvélar, bárust hingað rétt fyrir aldamótin 1900 og eftir því sem meira var sléttað af gömlu túnunum og nýræktir bættust við breiddist þessi vélanotkun út. Víða nýttust sláttuvélarnar einnig vel á sléttum engjum.
Þessar nýmóðis vélar var í fyrstu beitt fyrir hesta, en eftir að fyrsta fyrsta dráttarvélin var keypt til landsins vorið 1926 tók hún smátt og smátt við af hestaflinu. Líklega er rakstrarvél það vinnutæki sem hestum var hvað síðast beitt fyrir hérlendis. Með tilkomu dráttarvélanna lærðu bændur í fyrstu að aðlaga gömlu heyvinnuvélarnar að þeim, en upp frá því óx tæknivæðingin hröðum skrefum.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Dráttarvélavæðingin náði þó til fæstra grasbýla og þurrabúða á Vatnsleysutrönd því hvorutveggja fór að mestu í eyði um aldamótin 1900. Eftir tórðu enn stærri býlin í nokkra áratugi og náði einstaka bóndi að eignast Farmal Cup áður en yfir lauk.

Akfær vagnvegur fyrir bifreiðir ofan bæjanna á Vatnsleysutröndinni var lagður á fyrstu áratugum nýrar aldar. Áður byggðust samgöngurnar á slóðum millum bæja eða kirkjugötunni til og frá kirkjum sveitarinnar. Byrjað var á Suðurnesjaveginum frá Reykjavík 1904 og árið 1908 náði hann að Stóru-Vatnsleysu. Árið 1909 var byrjað á veginum frá Keflavík og mættust vegavinnuflokkarnir í Vogum árið 1912. Þá fyrst varð fært hestvögnum alla leið frá Reykjavík tilkeflavíkur. Ári seinna tókst að aka bifreið fyrsta sinni til Keflavíkur. Þar með urðu kaflaskil í samgöngumálum á Íslandi. Fyrsta bifreiðin, semvitað er að fór þessa leið, var fyrsti Fordinn sem kom til landsins 20. júni 1913. Ökumaður og farþegar skyldu bifreiðina eftir í Keflavík og fóru sjóleiðina heim til Reykjavíkur.

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Í bókinni „Frá Suðurnesjum“, útgefin 1960, segir í formála m.a.: „Það mun vera allfast í eðli manna, einkum er þeir taka að reskjast, að líta til baka um farinn veg, staldra við, og rekja í huga sér atvikin, stór og smá. Ganga í anda forna slóð og tína upp brotasilfrin, sem hlaupið var yfir í hugsunarleysi, sem vel má verða öðru fólki, í nútíð og framtíð, til fróðleiks og skemmtunar.
Sú kynslóð, sem nú er á förum, hefir lifað þær mestu breytingar, sem yfir okkar þjóð hafa gengið í efnahags- og menningarlegu tilliti. Því lengra, sem líður frá og meiri breytingar verða, því ótrúlegri verða frásagnir eldri eða látinna manna um það, sem einu sinni var.“

Hlöðunes

Hlöðunes – uppdráttur 2024; ÓSÁ.

Nánast allir bændur á Ströndinni voru útvegsbændur, þ.e. höfðu viðurværi sitt af sjósókn og nokkrar skepnur sér til búbóta. Flestir bæir eða bæjarhverfi höfðu selstöður í ofanverðri heiðinni. Í langflestum tilvikum var um fjársel að ræða, en þau höfðu flest lagst af um og eftir 1870. Eftir það var fært frá heima við bæi.
Á flestum þeirra voru jafnan tvær kýr, nokkrar kindur og einstaka hross. Rafmagn þekktist ekki. Vatn fékkst einungis úr nálægum brunnum og vatnsstæðum.

Við útgerðina voru aðallega notuð sexmannaför eða minni skip. Áttæringar voru þó til á stærri bæjum þar sem gert var út frá heimverum. Útver tíðkuðust ekki á norðuströnd Reykjanesskagans, að Hólminum undir Stapa frátöldum.
Skinnklæði vou alíslensk, gerð úr sauðskinni, kálfskinni og hrosshám. Skinnbrækur til skiptanna, sjóhattar sauaðir úr mjúum striga og olíubornir.

Vogar

Minni-Vogavör.

Í byrjun aldarinnar hófst vélvæðing fiskiskipaflotans með því að setja mótora í báta og kaupa kúttera og gufuknúna togara. Þetta markaði m.a. upphaf atvinnubyltingar á Vatnsleysutrönd og gerði það að verkum að fólk leitaði síður atvinnu hjá einstaka bændum. Býli lögðust af við lát ábúendanna og afkomendurnir fluttust í nærliggjandi þéttbýli.
Í kringum 1920 varð fjöldi þéttbýlisbúa orðinn meiri en sveitafólks, og þessi þróun hélt áfram. Í lok aldarinnar bjuggu rúm 90% Íslendinga í þéttbýli, þar af yfir 60% í Reykjavík og nágrenni.

Hlöðunes

Hlöðunes 2024.

Á 20. öldinni breyttist allt. Atvinnulífið varð vélknúið og lífshættir gerbreyttust á skömmum tíma. Vélvæðing varð upphafið að atvinnubyltingu um land allt. Þá urðu miklar breytingar á húsakostinum. Í byrjun aldarinnar voru torfbæir enn algengir, en smám saman tóku steinhús að ryðja sér til rúms. Með aukinni þéttbýlismyndun urðu timburhús algengari, síðar fjölbýlishús og raðhús. Eftir Jamestown-strandið utan við Hafnir árið 1881 þar sem heill timburfarmur af úrvalsviði rataði í land eftir strand, byggðust upp nokkur timburhús á Ströndinni, t.d. Ytri-Ásláksstaðir. Fyrstu steinsteyptu húsin voru síðan reist um 1928 (s.s. Sjónarhóll og Knarranes).

Halldórsstaðir

Halldórsstaðir 2024.

Bæirnir í Hlöðversneshverfinu fóru flestir í eyði um 1900, s.s. Atlagerði, Gerði og Gerðiskot. Búskap var hætt í Narfakoti um 1920, þótt bærinn væri notaður til búsetu eftir það, Hlöðunes fór í eyði 1959 og Halldórsstaðir um 1960. Í Ásláksstaðahverfinu var búið á Innri-Ásláksstöðum til 1930 og á Ytri-Ásláksstöðum til 1980. Ekki er vitað hvenær Fagurhóll fór í eyði, en það hefur að líkindum verið fyrir 1900. Ábúð í Garðhúsum var hætt um 1920 er fólkið flutti að Móakoti. Þar var búskap hætt um 1925. Á Sjónarhóli, arftaka Innri-Ásláksstaða, var búið fram til 1943, en eftir það var húsið notað sem athvarf.

Hlöðunes

Gömlu Halldórsstaðir 2024.

Til er frásögn kaupamanns sem réðst til vinnu á bæ á Vatnsleysuströnd 1925. Þá var 20. öldin tæplega genginn þar í garð, hvorki hvað varðar húsakost eða verkmenningu snerti. Þarna bjó hann í torfbæ, útihús voru öll úr torfi og grjóti, fjósflórinn hellulagður. Akvegurinn hafði verið aðlagaður bílaumferð, en heimkeyrslur flestar gerðar fyrir vagna. Slegið var með orfi og ljá og heyið rakað, sætt og bundið. Myllusteinn var jafnan við bæjarvegginn. Þjóðlífið var í hnotskurn eins og það hafði verið í þúsund ár.

Ásláksstaðir

Útihús við Móakot 2024.

Kolur voru gerðar til ljósa um aldir, síðar lýsislampar. Eldker voru notuð til að flytja eld og ljós milli bæjarhluta og híbýla. Lýsislampar komu síðan til sögunnar og loks olíuluktir. Steinolíulampinn var fundinn upp 1855 og segja má að hann, ekki stærri en hann var, hafi verið fyrsti boðberi tæknivæðingar heimilanna sem gaf til kynna tæknibyltingu nútímans inn í hið rótgróna bændasamfélag, sem hér hafði þá staðið tiltölulega lítið breytt í þúsund ár.

Ásláksstaðir

Fagurhóll við Ásláksstaði 2024.

Í bók Árna Óla, „Strönd og Vogar“ segir m.a. um Vatnsleysuströnd: „Vatnsleysustrandarhreppur er um staðhætti einkennilegasta sveit hér á landi. Þar eru hvergi kúahagar né slægjur. Byggðin er á örmjórri ræmu með fram sjónum, en þó sundur slitin. Bæirnir hafa verið reistir á hraunbrúninni við sjóinn. Með mikilli atorku og erfiðismunum hefur bændum tekist að rækta þar víðlend tún, breyta hraunjaðrinum við sjóinn í iðgræna gróðurspildu. Þetta eru afrek margra kynslóða, en hlýtur að vekja undrun aðkomumanna, því hvergi á byggðu bóli er land jafn-óaðgengilegt til ræktunar sem hér. Allt var grjót upphaflega, jarðvegur sama sem enginn, og í hafstormum bar sædrifið salt á land, en holskeflur muldu kletta og tættu upp túnjaðrana.

Halldórsstaðir

Gamall Famal við Halldórsstaði 2024.

Þá er þessi litla sveit merkileg fyrir það, að hún var um aldir einhver mesta veiðistöð landsins. Það var á árum hinna opnu skipa. Hver einasti bóndi sveitarinnar var þá útvegsmaður, og sumir áttu margar fleytur. Þeir voru atvinnurekendur í stórum stíl. Á hverri vertíð voru þar álíka margir aðkomumenn og fólk var margt í sveitinni, eða jafnvel fleiri. Menn þessir komu úr innsveitum, norðan úr Skagafirði, austan úr Skaftafellssýslu og af öllu svæðinu þar á milli.“ Vinnuhjú fengu í sumum tilvikum að byggja sér kotbýli í námunda við bæina þar sem það bjó uns jarðnæði losnaði annars staðar.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Sveitin á Ströndinni tók miklum breytingum á 20. öld. Minningarnar um mannlífið felast nú í skrifum manna eins og Guðmundar Björgvins Jónssonar, Björns Eiríkssonar og Árna Óla, auk leifa mannvirkjanna; hlaðinna garða, brunna, varða, stekkja, nausta, hrófa og sjóhúsa, auk gróinna og samanfallinna veggja híbýlanna sem þar stóðum fyrrum.

Heimildir:
-https://www.landneminn.is/is/namsefni-fyrir-innflytjendur/saga-landafraedi-og-lifsstill
-https://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/grunnsyning/thjod-verdur-til/timabil/1900-2000-leidin-til-samtimans
-Strönd og vogar, 1981, Árni Óla, bls.7.
-Frá Suðurnesjum, frásagnir frá liðinni tíð, 1960, bls. 7.
-Þjóðlíf í Þúund ár, Daniel Bruun, bls. 11.
-Íslensk þjóðmenning, 1987, bls.364.
-Sjósókn, endurminningar Erlends Björnssonar frá Breiðabólstöðum, 1945.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Dr%C3%A1ttarv%C3%A9l
-Bjarni Guðmarsson, 1997. Saga Keflavíkur 1890-1920, bls. 25-30.
-Guðmundur Gíslason Hagalín. Að duga eða drepast. Saga Björns Eiríkssonar skipstjóra og bifreiðarstjóra, skráð eftir handriti hans, munnlegri frásögn og fleiri heimildum, bls. 157-158. Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1962.

Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd.

Geldingadalir

Á Vísindavefurinn er fjallað um „Eldvirkni á Reykjanesskaga“:

Eldstövakerfi
„Gosbeltið á Reykjanesskaga er sniðreksbelti, það er að segja í senn þverbrota- og gliðnunarbelti. Stefna þess er 70-80 gráður austur, en það sveigir til norðaustlægari stefnu allra vestast. Þarna munar 25-35 gráðum frá rekstefnu.

Misgengi

Misgengi getur verið siggengi, samgengi eða sniðgengi.

Þáttur þverbrotabeltisins kemur fram í norður-suður sniðgengjum með hægri hliðrun. Sniðgengin eru minni háttar skástígar gjár, oft samtengdar með sprunguhólum. Gliðnunarbeltin koma fram sem gígar og gígaraðir, gjár og misgengi í eldstöðvarkerfum skagans. Þau eru sex, að meðtöldu Hengilskerfinu, og liggja norðaustur-suðvestur, skáhallt á gosbeltið. Eldstöðvakerfin eru flest hver miklu lengri en gosmenjar á yfirborði gefa til kynna. Eldvirkni nær yfir stóran hluta þeirra, en á norðausturhlutanum eru svo til eingöngu gjár og misgengi. Þar hefur hraunkvika sjaldan náð til yfirborðs en setið eftir í berggöngum.
Sprunguop
Eldstöðvakerfin mynda grunneiningar í jarðfræði Reykjanesskaga. Þau eru fimm til átta kílómetra breið og flest 30 til 50 kílómetra löng. Í hverju þeirra eru tvær eða fleiri gos- og sprungureinar.

Sprungusveimar

Sprungusveimar.

Fullmótuð kerfi með háhitasvæði og sprungusveim eru fimm. Þau eru kennd við Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengil (sjá mynd hér fyrir neðan). Sjötta eldstöðvakerfið, sem kenna má við Fagradalsfjall, er ólíkt hinum að gerð. Þar er hvorki jarðhiti né sprungusveimur. Skil milli kerfanna eru oftast skýr, en þau skarast þegar kemur norðaustur á gjásvæðin. Milli Reykjaness- og Svartsengiskerfanna er einföld röð dyngna og bólstrabergsfella úr ólivínríku basalti, Háleyjabunga yst og Stapafell innst. Mörk Fagradalsfjallskerfisins við þau næstu markast af löngum gossprungum beggja vegna. Skil Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfanna eru í Kleifarvatnslægðinni með stapana Lönguhlíð og Geitahlíð að austanverðu. Skil Brennisteinsfjalla- og Hengilskerfis eru hér sett við Þrengsli.

Fagradalsfjall

Eldgos í Fagradalsfjalli.

Á Reykjanesskaga skiptast á gos- og gliðnunartímabil á sprungusveimum með stefnu norðaustur-suðvestur og skjálftatímabil með virkni á norður-suður sprungum. Það er afleiðing af því að Reykjanesskagi liggur skáhallt á rekstefnuna og spennusviðið sveiflast á milli lóðréttrar mestu bergspennu og láréttrar með suðvestur-norðausturstefnu.

Kvikuhólf

Kvikuhólf og kvikuþró.

Í báðum tilvikum er minnsti þrýstingur í stefnu reksins. Kvikuinnskot þarf til að gjárnar gliðni, en það getur gerst án þess að gjósi. Gos- og gliðnunartímabilin, hér nefnd gosskeið, standa yfir í nokkrar aldir hvert. Á síðasta gosskeiði fluttist gosvirknin milli eldstöðvakerfanna með 30-150 ára millibili. Gosvirknin einkennist af sprungugosum sem vara í nokkra áratugi, en með hléum á milli gosa. Goshrinur af þessu tagi eru kallaðar eldar. Á milli gosskeiðanna eru löng skjálftatímabil án kvikuvirkni og þá væntanlega eins og á síðustu áratugum með ótal snöggum hrinum sem standa daglangt eða í fáar vikur. Gosskeið síðustu 3500 ára eru þrjú, og vísbendingar eru um fleiri þar á undan. Í Fagradalsfjallskerfinu hefur ekki gosið á þessu tímabili og aðeins einu sinni í Hengilskerfinu.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

Á Reykjanesskaga hefur aðeins gosið basalti eftir að land varð jökullaust. Bergið í hraununum er pikrít, ólivínþóleiíti og þóleiít. Dyngjuhraun eru úr pikríti og ólivínþóleiíti en hraun frá gossprungum yfirleitt úr þóleiíti. Súrt berg er ekki að finna á skaganum nema í Hengilskerfinu. Þar spannar samsetning bergsins allt bilið frá pikríti í ríólít. Í hinum kerfunum nær það einungis yfir í þróað basalt.

Sprungugos

Sprungugos.

Aldursdreifing sprungugosa sem vitað er um á Reykjanesskaga síðustu 3500 árin, er sýnd á næstu mynd hér að ofan. Tímasetning er byggð á sögulegum heimildum, aldursgreiningu með geislakoli (C-14) og öskulagsrannsóknum. Af myndinni má ráða að skipst hafi á gosskeið sem stóðu í 400-500 ár, og goshlé í 600-800 ár. Núverandi hlé er nálægt efri mörkum. Sé hins vegar litið á eldstöðvakerfin ein og sér, verða hléin mun lengri, að meðaltali nálægt 1000 árum. Í engu eldstöðvakerfanna er komið fram yfir lágmarkslengd fyrri hléa, nema ef til vill í Brennisteinsfjöllum. Allt að fjórar aldir þurfa að líða þar til lengstu hléunum er náð. Í Hengilskerfinu varð eina kvikuhlaupið án goss sem vitað er um. Þá er átt við Þingvallasigið árið 1789. Eldri hraun eru of fá tímasett til að rekja söguna lengra aftur. Segja má þó að grilli í fleiri gosskeið, svo sem fyrir 4000 og 8000 árum. Eins og sjá má á myndinni hefur eldvirkni á hverju gosskeiði oftast hafist í Brennisteinsfjallakerfinu og síðan færst vestur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Að frátöldum dyngjunum hefur upphleðsla gosefna í eldstöðvakerfum Reykjanesskaga, öðrum en Henglafjöllum, verið mest þar sem sprungusveimar liggja yfir flekaskilin. Þau markast af skjálftabelti skagans, og þar eru einnig háhitasvæðin.

Dyngjugos

Dyngjugos.

Segja má að þar séu vísar að megineldstöðvum. Ætla má að í rætur þeirra geti safnast kvika sem síðan leitar út í sprungusveimana, myndar ganga og kemur upp í sprungugosum. Hnyðlingar í gjalli og úrkasti sprengigíga í Krýsuvík eru vísbending um að grunnstæð gabbróinnskot, það er kvikuhólf sem voru eða eru þar undir, en greinast ekki í skjálftum.
Á Reykjanesskaga eru dyngjur í þyrpingum, ýmist í virknimiðjum eldstöðvakerfanna, svo sem í Hengils-, Brennisteinsfjalla- og Fagradalsfjallskerfunum, eða utan þeirra. Stærstu dyngjurnar ná yfir 200 ferkílómetra og áætlað rúmmál þeirra stærstu er fimm til sex rúmkílómetrar. Alls eru þekktar um tuttugu dyngjur á Reykjanesskaga. Af þeim eru 12 úr ólivínþóleiíti, hinar úr pikríti.“

Tilvísanir:
-Freysteinn Sigmundsson, 1985. Jarðvatn og vatnajarðfræði á utanverðum Reykjanesskaga II. hluti. Viðaukar um jarðfræði. Orkustofnun, skýrsla, OS-85075/VOD-06, 49 bls.
-Páll Einarsson, 1991a. Earthquakes and present-day tectonism in Iceland. Tectonophysics, 189, 261-279.
-Sigrún Hreinsdóttir og fleiri, 2001. Crustal deformation at the oblique spreading Reykjanes Peninsula, SW-Iceland: GPS measurements from 1993 to 1998. Journal of Geophysical Research, 106(B7), 13803-13816.
-Clifton, A. E. og S. Kattenhorn, 2006. Structural architecture of a highly oblique divergent plate boundary segment. Tectonophysics, 419, 27-40.
-Sigrún Hreinsdóttir og fleiri, 2001. Crustal deformation at the oblique spreading Reykjanes Peninsula, SW-Iceland: GPS measurements from 1993 to 1998. Journal of Geophysical Research, 106(B7), 13803-13816.
-Keiding og fleiri, 2009. Earthquakes, stress and strain along an oblique plate boundary: the Reykjanes Peninsula, southwest Iceland. Journal of Geophysical Research, 114, B09306, doi: 10.1029/2008JB006253. 16 bls.
-Sveinn P. Jakobsson og fleiri, 1978. Petrology of the Western Reykjanes peninsula, Iceland. Journal of Petrology, 19, 669-705.
-Gee, M. A. M., 1998. Volcanology and Geochemistry of Reykjanes Peninsula: Plume-Mid-Ocean Ridge interaction. Doktorsritgerð, Royal Holloway University of London. 315 bls.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65699
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur og fyrrverandi deildarstjóri á Orkustofnun.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur.

Geldingadalir

Eldgos í Geldingadölum í Fagradalsfjalli.

Geldingadalir

Á vefnum Eldey.is má lesa eftirfarandi um „Eldstöðvar og jarðsögu Reykjanesskagans„, auk annars:

Eldvörp

Eldvörp.

„Á Reykjanesskaga má finna allar tegundir eldstöðva sem gosið hafa á Íslandi. Talið er að um tólf hraun hafi runnið þar frá því að land byggðist eða að meðaltali eitt hraun á öld.
Á Reykjanesskaganum eru þrjú háhitasvæði sem eru sérstök fyrir það að í þeim hitnar jarðsjór er hann kemst í snertingu við kólnandi kviku. Þessi háhitasvæði eru Reykjanes, Eldvörp og Svartsengi þar sem jarðsjórinn er notaður til að hita upp kalt vatn fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Reykjanesskaginn er um 1.700 ferkílómetrar að flatarmáli og er þar að finna margvíslegar menjar um eldvirkni undanfarinna 200.000 ára. Reykjanes er til að mynda eini staðurinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum.
Reykjanesskagi dregur nafn sitt af Reykjanesi á suðvesturhorni skagans. Mest af skaganum er innan gosbeltis Íslands og yst á skaganum skríður Mið-Atlantshafshryggurinn á land. Gosbeltið liggur eftir miðjum skaganum frá vestri til austurs þar sem það tengist svo aðalgosbeltum landsins.

Reykjanesskagi

Fjórar sprungureinar eru á skaganum: Reykjanes-, Krýsuvíkur-, Brennisteins-, fjalla og Hengilsreinar. Hver þeirra samanstendur af hundruðum opinna spungna. Þá er þar einnig fjöldi gíga og gígaraða.

Háleyjabunga

Háleyjabunga.

Önnur gerð af eldfjöllum á Reykjanesskaga eru dyngjur, skjaldarlaga bungur sem eru svipaðar og eldfjöllin á Hawaii nema mun minni.
Gosbergið er að mestu af tveimur gerðum. Annars vegar er móberg sem er samanþjöppuð gosaska sem myndaðist við eldgos þegar landið var að mestu hulið jöklum. Hins vegar eru hraun; apalhraun með úfnum karga á yfirborði og helluhraun sem eru slétt og oft með hraunreipum. Eldri hraun hafa verið slípuð af jöklum, og er yfirborð þeirra því jökulrákað.
Jarðskjálftar eru tíðir á svæðinu vegna eldvirkninnar og stöku sinnum valda þeir tjóni. Flestir eru þó minni háttar og finnast sem titringur.

Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Jón Jónsson

Jón Jónsson; jarðfræðikort – Vogar og Stapi.

Elsta bergið á skaganum er á Romshvalanesi (Stapinn) og í grennd við Reykjavík og er talið vera um 500 þúsund ára gamalt. Mest af jarðlögum á skaganum eru hins vegar innan við 100 þúsund ára gömul. Á þessum tíma hefur loftslag verið mjög breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu. Á milli voru tímabil með svipuðu loftslagi og nú er. Kuldatímabilin eru nefnd jökulskeið og hlýrri tímabilin eru nefnd hlýskeið. Við lifum á hlýskeiði.
Þau hraun sem runnið hafa síðan síðasta jökulskeiði lauk eru ekki slípuð af jöklum.
Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Allt gosberg á Reykjanesskaganum er basalt (gosberg með lágt kísilsýrumagn).

Ísöld

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Loftslag hefur verið mjög sveiflukennt síðustu þrjár milljónir ára. Á því tímabili hafa komið um 30 jökulskeið. Meðalhiti var þá 8 gráðum lægri en nú. Hvert jökulskeið stóð í um 100 þúsund ár en hlýskeiðin á milli aðeins í um 10 þúsund ár. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum. Tímabilið sem síðan er liðið nefnist Nútími.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Jöklarnir skófu og hefluðu landið sem þeir skriðu yfir og mýktu það. Þeir mynduðu U-laga dali, rispuðu berggrunninn sem undir var og skildu eftir sig hvalbök og jökulrispur.
Á jökulskeiðunum var gríðarlegt vatnsmagn bundið í jöklum, og meðan þau stóðu yfir lækkaði yfirborð sjávar á jörðinni um allt að 130 m miðað við núverandi sjávarmál. Aftur á móti fergðu jöklarnir landið undir næst sér.
Jökulskeið enda snögglega og meðalhitastig hækkar undrahratt. Þá bráðna jöklar á tiltölulega stuttum tíma. Sjávarborð hækkar og sjór gengur á land. Fornar strandlínur eru því allhátt yfir núverandi sjávarmáli. Munar þar um 110 m á Suðurlandi. Skeljar og bein sávarspendýra finnast í gömlum sjávarsetlaögum. Einn slíkur staður er við Pattersonflugvöll á Njarðvíkurheiði.

Eldgos á Reykjanesskaga

Stampahraunið

Stampahraunið.

Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – eldgos á nútíma.

Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
Eldgosin hegða sér þannig að í upphafi þeirra opnast spunga og landrek á sér stað. Rekið er nokkrir metrar í hverri hrinu. Hvert gos er líka í hrinum. Það stendur í fáeina daga eða vikur og síðan er að draga úr virkninni í mánuði eða ár áður en næsta gos verður.
Neðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.

Eldgos á sögulegum tíma

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.

Reykjaneseldar

Nýjasta goshrinan á Reykjanesskaga er ofan Grindavíkur.

Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.“

Meira HÉR á Wikipedia.

Sogin

Sogin.

Reykjanesskaginn

Í Faxa árið 1998 fjalla nemendur FS á Suðurnesjum um „Áhugaverða staði í Reykjanesfólkvangi„. Frásögnin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að nemendurnir hafa að öllum líkindum lítið kynnt sér vettvangsaðstæður sem og hina fjölmörgu möguleika, sem Reykjanesskaginn hefur upp á bjóða innan fólkvangsins, en taka þarf viljan fyrir verkið því það er jú niðurstaðan hverju sinni er mestu máli skiptir þegar upp er staðið.

Faxi„Náttúran á Reykjanesi er frekar rýr ef bera á hana saman við náttúru annars staðar á landinu vegna þess að svæðinu hefur einfaldlega verið misboðið í svo langan tíma. Þó svo að ekki hafi alltaf verið farið vel með svæðið þá er ýmislegt að sjá ef áhuginn er fyrir hendi. Of margir Suðurnesjabúar og íbúar á höfuðborgarsvæðinu leita oft langt yfir skammt þegar njóta á íslenskrar náttúru. Vill það gleymast að Reykjanesið er spennandi svæði að ferðast um og kynnast. Það er öðruvísi en margir staðir á landinu vegna þess að þar er hægt að sjá mjög greinilega hvernig Reykjaneshryggurin kemur inn í landið. Allt umhverfi okkar er mótað vegna Reykjaneshryggsins því þar hafa orðið mörg eldgos fyrr á tímum og enn í dag er þar mikil eldvirkni í jörðu þó svo ekki hafi gosið á þessu svæði í nokkurn tíma.

Gróður á Reykjanesi er í slæmu ásigkomulagi samanborið við það sem hann var fyrir landnám og þeir sem vilja sjá mikinn gróður fara því á aðra staði á landinu. Allir verða að kynnast auðninni til þess að geta gert sér það ljóst að ekki má halda áfram eins og fram horfir án þess að illa geti farið. Það vekur kannski ekki áhuga margra að ferðast um Reykjanesið en ef vel er að gáð má þó finna eitthvað fyrir alla. Skemmtilegar gönguleiðir eru víðsvegar um svæðið, hraunmyndanir og háhitasvæði eru víðsvegar og reyndar er hægt að finna þar mikinn gróður þó á takmörkuðum svæðum sé. Fuglabjörg eru einnig á svæðinu og einnig er hægt að komast í silungsveiði með alla fjölskylduna. Þegar fólk ætlar að njóta náttúrunnar er oftast farið á þá staði sem eru meira þekktir og þykja merkilegir s.s Þingvelli, Gullfoss og Geysi eða önnur þekkt svæði. Hér á eftir verður fjallað um þau svæði sem okkur þykja merkilegust í Reykjanesfólkvangi.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Þegar Reykjanesbrautin er ekin blasir Keilir við á hægri hönd ef komið er frá Keflavík. Ef beygt er til hægri og ekið sem leið liggur frá Kúagerði og upp að fjöllunum þá er þar komið að mikilli grassléttu. Þessi grasslétta heitir Höskuldarvellir og eru þeir stærsta samfellda graslendið í Gullbringusýslu eða um 100 ha.

Sogalækur

Sogalækur.

Í leysingum liggur lækur úr Sogunum fyrir sunnan Trölladyngju og er talið að lækurinn hafi smám saman borið jarðveg niður á sléttlendið. Frá Höskuldarvöllum eru margar skemmtilegar gönguleiðir t.d á frægasta fjall Suðurnesja, Keili. Einnig er hægt að ganga á Mávahlíðar en það er mjór hryggur sem er brattur á báða vegu og sést hann því vel í næsta umhverfi. Þegar komið er á staðinn er best að velja gönguleiðir um svæðið eftir áhuga og getu hvers og eins.
Mjög fallegt er í kringum Höskuldarvelli á sumrin þegar allt er í blóma en þó er ekki síðra þar á veturna þegar snjór liggur yfir öllu svæðinu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Trölladyngja er ekki langt frá Höskuldarvöllum og er því alveg tilvalið að ganga þangað og skilja bílinn eftir undir fjallshlíðinni við Höskuldavelli. Trölladyngja er móbergsfjall í Reykjanesfjallgarði norður af Núpshlíðum eða Vesturfjalli. Á Trölladyngju eru tveir móbergshnjúkar. Austan við Trölladyngju er annað móbergsfjall, Grænadyngja. Nefnast þær saman Dyngjunnar. Í dyngjunum eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Norðan og sunnan við dyngjurnar eru gígar og gígaraðir.

Sogin

Sogin.

Norður af Trölladyngju eru síðan gufuhverir sem vert er að skoða. Jarðhiti er mikill í Trölladyngju. Sunnan hennar er litskrúðugur skorningur, svokallað Sog. Gaman er að ganga um svæðið og virða fyrir sér þá sérkennilegu liti sem em í dyngjunum. Þar eru mörg litaafbrigði og eru þau breytileg eftir því hvernig veður- og birtuskilyrði eru. Lítill lækjarfarvegur liggur í gegnum dyngjurnar og hefur hann í tímans rás grafið sig sífellt neðar. Dýptin er sumstaðar komin yfir tvær mannhæðir.
Stórkostlegt er að litast þarna um og njóta þeirrar fjölbreytni sem náttúran hefur upp á að bjóða í litavali.
Slæmur vegur liggur áleiðis að Trölladyngju frá Höskuldarvöllum. Frá Trölladyngju er síðan hægt að aka að Grænavatni og Djúpavatni.
Víðsvegar á þessu svæði er jörðin illa farin eftir umferð og nýjar slóðir eru sífellt að myndast og jörðin er á mörgum stöðum uppspóluð. Þetta er til skammar fyrir Reykjanesið og þeir sem aka utanvega ættu að skammast sín fyrir að eyðileggja marga fallegustu staði á Suðurnesjum sem seinna meir gætu orðið ferðamannastaðir sem myndu skapa miklar tekjur fyrir Suðurnesjabúa. Best er að ferðast um svæðið gangandi þegar á það er komið því þannig fæst best yfirlit yfir svæðið, við það skemmist það ekki og einnig er ganga heilsusamleg og nauðsynleg.

Spákonuvatn

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Mjög skemmtileg gönguleið er eftir Vesturhálsi þegar gengið er til suðurs frá Sogunum. Þá er komið að vatni uppá fjallinu og heitir það Spákonuvatn. Vatnið hefur myndast við það að hraun hefur lokað dalverpi og það hefur orðið til þess að vatn safnaðist þar fyrir. Það er mjög sérkennilegt að sjá það með eigin augum hvernig hraunið hefur runnið þannig að dalurinn hefur lokast og vatnið myndast. Ekki er fiskur í Spákonuvatni.

Grænavatn

Grænavatn

Grænavatn.

Vegurinn sem liggur frá Trölladyngju að Grænavatni er aðeins fyrir jeppa því hann er erfiður yfirferðar. Grænavatn er í dalverpi sunnan við Trölladyngju. Það er frekar grunnt og lítið vatn en þó er einhver veiði í því. Umhverfið er allsérstætt og fallegt vegna þess hversu stórgrýttar hlíðarnar eru.

Djúpavatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Djúpavatn er sprengigígur sem hefur fyllst af vatni. Við Djúpavatn er skáli sem hægt er að gista í ef veiðileyfi er keypt. Þó nokkur veiði er í vatninu og hafa þar veiðst ágætlega vænir silungar. Það er því alveg þess virði að kaupa veiðileyfi í vatnið og fara með fjölskylduna og reyna að krækja í þann stóra. Ekki er síðra að dorga á veturna þegar ís er á vatninu. Vatnið er mjög djúpt og af því er nafnið dregið.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Vigdísarvellir er dálítil grasslétta austan undir Núpshlíðarhálsi. Þar er oftast skjól af fjöllunum í nágrenninu. Á Vigdísarvöllum var byggður bær árið 1830 og búið þar fram til ársins 1905 en þá hrundu húsin í jarðskjálfta.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Bæjarrústirnar eru þó nokkuð stórar og þar sést einnig móta fyrir gömlum garði sem hefur verið hlaðinn til að halda skepnunum á sínum stað.
Það er athyglisvert að nokkur hafi lagt það á sig að búa svona langt frá byggð því að lífið hefur sjálfsagt verið erfitt þama eins og annarsstaðar á landinu á þessum tíma. Þó svo að þetta svæði sé langt upp í fjöllum þá er þar ótrúlega mikill gróður á þessu svæði og því er það kannski ástæðan fyrir því að menn vildu búa þarna.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Hentugasta leiðin að Krísuvfkurbergi frá Vigdísarvöllum liggur meðfram Núpshlíðarhálsi. Þaðan er beygl til austurs eftir þjóðveginum og síðan er beygt til sjávar eftir auðsjáanlegum slóða. Krýsuvíkurberg er mesta fuglabjargið á svæðinu. Það er um 7 km langt og 40 – 50 metra hátt.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Áhugavert er að ganga um svæðið, einkum á vorin og snemma sumars þegar fuglalífið er áberandi mest. Hverjum manni væri það gagnlegt að sjá fuglana í sínu náttúrulega umhveifi og geta virt þá fyrir sér í ungauppeldinu og baráttunni við náttúrulega óvini. Tveir lækir falla til sjávar fram af berginu, Eystrilækur og Vesturlækur. Eystrilækur myndar háan foss sem steypist fram af berginu. Í berginu verpa um 57 þúsund sjófuglapör en það er um 65% allra bjargfugla á svæðinu.

Eldborgir

Stóra-Eldborg

Stóra Eldborg.

Eftir að Krýsuvíkurberg hefur verið skoðað liggur leiðin að Eldborgum. Eldborgir eru undir Geitahlíð austan Krýsuvíkur. Þær eru tvær og heita Stóra og Litla Eldborg. Þjóðvegurinn liggur á milli þeirra.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Stóra Eldborg er einn allra fallegasti gígur á Suðvesturlandi, um 50 metra hár, hlaðinn úr hraunskánum og gjalli. Frá Stóru Eldborg liggur hrauntröð þar sem hraunið hefur runnið til sjávar. Vesturlækur fellur til sjávar í Hælsvík og myndar einnig fallegan foss.
Gróðureyðing fyrir ofan Krýsuvíkurberg er óvíða ljótari á Skaganum. Þar skiptast á blásnir melar og rofabörð.
Gróðurfar á þessu svæði er mjög slæmt vegna ofbeitar. Litla Eldborg er austar en hin og öllu fyrirferðanninni, Hún er hluti af stuttri gígaröð eins og Stóra Eldborg. Hraunið frá Litlu Eldborg hefur lagst yfir hraunið frá Stóru Eldborg að hluta og er gaman að virða þetta fyrir sér á góðvirðisdegi. Jarðvegur á þessu svæði er frekar rýr og er mosaþemba aðal gróðurinn á svæðinu.

Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Hverasvæðin á Krísuvíkursvæðinu eru mjög fallegur ferðamannastaður en því miður eru það fáir sem leggja leið sína um svæðið en þangað er fólksbílafært og ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu. Krísuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufuhverum og leirhverum. Á svæðinu eru tvö gígvötn, Grænavatn og Geststaðavatn, sitt hvoru megin við veginn. Vötnin eru merkileg fyrir þær sakir að þau eru gamlar eldstöðvar sem hafa fyllst af vatni í tímans rás. Grænavatn hefur mjög sérkennilegan lit vegna þess hversu mikill þörungagróður er í vatninu.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir

Bæli í Gullbringuhelli.

Fyrir þá sem þora er gaman að fara í hellaskoðun. Þægilegasta leiðin að hellinum er frá þjóðvegi 42 sem er vegurinn sem við förum á leið okkar austur með Kleifarvatni og þarf að ganga síðasta spölinn að hellinum. Gullbringuhellir er eini hellirinn sem er þekktur í hrauninu við Kleifarvatn. Hann er norðaustan við fjallið Gullbringu. Hellirinn er um 170 metra langur en frá opinu liggur hann í tvær áttir. Mjög athyglisvert er að skoða hellinn því að í honum eru hraunstrá og þar er vítt til veggja og hátt til lofts og því þægilegt að ferðast um hann. Þessi hellir er aðgengilegur og því ætti fólk á öllum aldri að geta skoðað hann.

Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Kleifarvatn er þriðja stærsta stöðuvatnið á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt dýpsta stöðuvatnið á Íslandi um 97 metrar að dýpt. Það er á miðjum skaganum inn í Reykjanesfólkvangi. Kleifarvatn hefur írennsli en ekkert sýnilegt frárennsli.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Vatnsmagnið í Kleifarvatni er breytilegt og breytist mest vegna úrkomu. Jarðhiti er syðst í vatninu og er stundum hægt að sjá hverina ofan af Vatnshlíð. Þeir eru öðruvísi á litinn og skera sig því út úr. Á veturna sér maður vakir vegna hitamismunar en annars staðar er vatnið ísi lagt. Silungsveiði er talsverð í vatninu og er gaman að fara með fjölskylduna að veiða í Kleifarvatni vegna þess hversu stutt er að fara úr amstri hófuðborgarinnar og einnig vegna þess að svæðið er öðruvísi en menn eiga að venjast. Það má kannski geta þess að einn af síðustu stórbændunum í Krýsuvík tók silung úr Elliðavatni og flutti yfir í Kleifarvatn svo að hann á heiðurinn af því að þarna er hægt að veiða silung. Við vatnið er fallegt útsýni en þar er mikið af sérkennilegum klettamyndunum.

Hellirinn eini

Maístjarnan

Í Hellinum eina.

Eftir að hafa skoðað Kleifarvatn höldum við áfram eftir þjóðveginum og stoppum hjá Fjallinu eina. Í næsta nágrenni við það eru tveir hellar, annar þeirra heitir Hellirinn eini og hinn heitir Híðið. Hellirinn eini er um 170 metra langur, hann er víða lágur til lofts en víðast hvar er hann þó manngengur. Það eru dropasteinar og hraunstrá í hellinum. Miklar sprungur skerast þvert á hellinn og mynda litla afhella. Jarðfræðilega séð telst þessi hraunrásarhellir merkilegur fyrir það að hann er skorinn af þessum mörgu og stóru sprungum. Mikil litadýrð er í hellinum sem gerir hann áhugaverðari fyrir vikið.

Híðið

Híðið

Í Híðinu.

Híðið er um 500 metra frá Hellinum eina og því getur verið gaman fyrir þá allra hörðustu að skoða hann líka. Híðið er um 155 metra langur hellir og þröngur, hæstur er hellirinn um 2 metrar að hæð en víðast hvar töluvert minni. Erfitt er að fara um hellinn því sums staðar þarf að leggjast niður og skríða. Mikið er um fallega dropasteina og hraunstrá í hellinum, dropasteinarnir eru nokkur hundruð og hraunstráin talsvert fleiri. Híðið er alveg ósnortið vegna þess að hingað til hafa aðallega hellaáhugamenn farið þangað. En það vill oft fara þannig að vinsælir ferðamannastaðir fara illa út úr mikilli umferð ferðafólks sem því miður gengur oft ekki nógu vel um fallega og athyglisverða staði.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fornar leiðir.

Þetta er síðasti viðkomustaður okkar á þessu skemmtilega ferðalagi um Reykjanesfólkvang og héðan er ekki löng keyrsla upp á Reykjanesbrautina aftur en þaðan ættu allir að rata heim til sín á ný. Þessi upptalning er ekki tæmandi fyrir allt það sem hægt er að skoða á svæðinu en við vonum að við lestur þessarar ritgerðar geti lesandi gert sér það ljóst að á heimaslóðunum leynist ýmislegt skoðunarvert í náttúrunni.
Sá misskilningur virðist vera allsráðandi að það þurfi að aka mörg hundruð kílómetra út fyrir höfuðborgina til að komast í spennandi landslag og fallega náttúru. Þetta svæði hefur upp á allt að bjóða sem íslensk náttúra getur á annað borð boðið upp á. Ef fólk gefur sér tíma til að skoða sitt nánasta umhverfi verður það alveg örugglega hissa á því að sjá hversu margt er í boði. Þarna má sjá bæði spillta og óspillta náttúru, gróðumikil svæði og auðnir, háhitasvæði, fuglavarp, hraunhella og vötn. Til þess að skoða svæðið þarf að vera með opinn huga því að mörgum finnst það í rauninni ekki vera neitt ferðalag að fara svona stutt frá heimahögunum. En eins og áður sagði vill það gerast með Íslendinga að þeir leiti langt yfir skammt.
Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, kannski verður það þannig að landinn taki við sér og sjái alla fegurðina sem er við bæjardyr höfuðborgarbúa. Kannski verður það þannig að innan fárra ára verði Reykjanesið eitt mest sótta ferðamannasvæði landsins.“

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 1998, Áhugaverðir staðir í Reykjanesfólkvangi, bls. 28-30.

Reykjanesskaginn

Reykjanesskaginn.

Járnbraut

Í Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998 mátti lesa; „Draumurinn um eimreið austur í sveitir“ eftir Pálma Eyjólfsson.

„Á árunum eftir aldamótin var farið að tala um sjálfrennireiðar eða mótorvagna, en stóri draumurinn var járnbraut oq tvær eimreiðir til að draqa 20 opna 6 smálesta vagna, en þar að auki yrðu 10 lokaðir vagnar og 5 ferðamannavagnar. Dr. Valtýr Guðmundsson vildi veita ensk-íslensku félagi leyfi og fjárstyrk til járnbrautarlagningar oq umræðurnar á þingi 1894 urðu svo miklar, að þær fylltu 345 dálka í þingtíðindum.

Eimreið
Á aukaþingi sem haldið var í ágústmánuði árið 1894 var lagt fyrir Alþingi frumvarp, sem nefndist: „Frumvarp til laga um löggildingu félags með takmarkaðri hluthafaábyrgð til að halda uppi siglingum milli Íslands og útlanda og í kringum strendur Íslands og leggja járnbrautir á Íslandi m.fl.“

Jón Þórarinsson

Jón Þórarinsson (1854-1926).

Flutningsmenn voru þeir séra Jens Pálsson, sóknarprestur á Útskálum, alþingismaður Dalamanna og Jón Þórarinsson, skólastjóri Flensborgarskólans og þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu. En það var einmitt á þessu sama ári 1894 sem fyrsta vélknúna millilandaskipið komst í eigu Íslendinga; Ásgeirsverslun á Ísafirði átti það. Potturinn og pannan í stóra málinu, sem kom á borð alþingismanna á þessu sumarþingi var Sigtryggur Jónasson, umboðsmaður Winnipeg. Sigtryggur var þá á fimmtugsaldri. Hann hafði verið skrifari Péturs Havsteens, amtmanns, og húskennari. Þegar Sigtryggur hafði starfað í átta ár hjá Pétri var amtmanni vikið úr embætti. Sigtryggur flutti þá vestur um haf og varð meðal fyrstu landnámsmanna í Kanada. Hann efnaðist á viðarhöggi við járnbrautarfélög og var duglegur að bjarga sér og hneykslaðist á framtaksleysi heimaþjóðarinnar. Hann reisti sér myndarlegt býli og nefndi það Möðruvelli eins og höfuðból amtmanns við Eyjafjörð. Hér er stuðst við bók Þorsteins Thorarensen, Vaskir menn, sem út kom árið 1971. Og hvert átti svo að verða hlutverk þessa mikla félags? Það var rakið í mörgum greinum frumvarpsins og verður hér aðeins drepið á það, sem varðar Suðurlandið.

Eimreið
„Félagið hefur fullt leyfi og vald til að ákveða legustað fyrir einsporðar eða tvísporðar stál- eða járnbrautar, sem liggi: a) frá Reykjavík suður og austur gegnum Kjósar- og Gullbringusýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Í frumvarpinu var einnig greint frá öðrum sýslum, sem njóta eiga samgöngubóta með járnbrautum, allt norður í Eyjafjörð. Þetta fyrirhugaða félag átti að eiga öll hús við enda; stöðvar á járnbrautunum svo og gistihús. Á járnbrautarstöðvunum átti að selja mat, tóbak, vín og ölföng. Hvað er nú stóriðjan á Íslandi í dag á móti því, sem framkvæma átti eftir frumvarpinu, sem lagt var á borð alþingismanna þjóðarinnar í lok nítjándu aldarinnar?

Vort ferðalag gengur svo grátlega seint
EimreiðinÍ tímariti dr. Valtýs Guðmundssonar, Eimreiðinni, var og farið að skrifa um bifreiðar, sem menn nefndu sjálfhreyfivagna, sjálfrennireiðar, eða mótorvagna þegar árið 1905. Þorsteinn Erlingsson orti „Brautina“, sem ávarpskvæði Eimreiðarinnar. Í ljóðinu eru þessi erindi: En ef við nú reyndum að brjótast það beint, þó brekkurnar verði ekki hærri? Vort ferðalag gengur svo grátlega seint, og gaufið og krókana höfum við reynt og framtíðarlandið er fjarri.

Hvatningarljóðið er tuttugu erindi. Sautjánda erindið er svohljóðandi: Og þó að ég komist ei hálfa leið heim, og hvað sem á veginum bíður, þá held ég nú samt á inn hrjóstuga geim og heilsa með fögnuði vagninum þeim, sem eitthvað í áttina líður. Það þarf átta milljónir króna á næstu tíu árum til að koma atvinnuvegum Íslands til góða og til að bæta samgöngur og verslun landsins.

Eimreið
Stærsti pósturinn í þessari nýsköpun var járnbrautin því með „telgrafþræði“ var áætlun 6 milljónir króna. Þannig skrifaði áðurnefndur Sigtryggur í ársbyrjun árið 1889. Þetta var nefnt „Stóra málið“.

Góðtemplarahúsið

Góðtemlarahúsið við Templarasund.

Fimm árum síðar efndi Sigtryggur til fundar í Góðtemplarahúsinu gamla, sunnan við alþingishúsið, þar sem alþingismenn geyma nú farartæki sín. Enn er gripið í bók Þorsteins Thorarensen, Vaskir menn, og þar segir svo: „Til þess er ætlast, að hinni fyrirhuguðu járnbraut austur í Árnessýslu fylgi 20 opnir vagnar, er taki sex smálestir hver og 10 lokaðir vagnar, jafnstórir. Enn fremur eiga þar að vera sex ferðamannavagnar, III. flokks handa 32 farþegum hver, en tveir I. flokks handa 18 hver og tveir farþegavagnar. Til dráttar eru áætlaðar tvær eimreiðar. Getur hver eimreið dregið 20 vagna með 25 enskra mílna hraða á klukkustundinni, þar sem hallalaust er eða því nær 10 vagna upp halla 1:25.“ Of langt mál er að greina frá umræðum og blaðaskrifum um járnbrautarmálið.

Eimreið

Fyrsta járnbrautarlest og járnbrautarferð á Íslandi. Hópur fólks, nær eingöngu karlmenn að sjá, prúðbúnir með hatta á höfði, hafa komið sér fyrir á tveimur sléttum vögnum tengdum aftan í járnbraut á teinum sem rýkur úr gufan, lestarstjóri og starfsmenn standa þar hjá. Þekkja má borgarstjóra Reykjavíkur og landritara.

Einn af stóru fundunum í Þjórsártúni

Það var hinn 30. júlí árið 1905 sem einn af þessum stóru fundum var haldinn í Þjórsártúni. Bogi Th. Melsteð var fyrirlesarinn eins og ræðumenn voru þá kallaðir. Hann nefndi erindi sitt „Verslun Íslendinga og samvinnufélagsskapur“. Svona eins og í framhjáhlaupi segir hann í erindi sínu: „Ég heyri, menn nefna járbraut hingað úr Reykjavík.

Bogi Th. Melsted

Bogi Th. Melsted (1860-1929).

Ég minntist á járnbraut í bæklingi mínum. Framtíðarmálum, fyrir fjórtán árum en vil nú leiða athygli manna að sporbraut fyrir „elektriska“ vagna. Slík braut er talin þrisvar sinnum ódýrari en járnbraut þótt báðar séu reknar með gufu. Tveir „elektriskir“ „sporvagnar geta flutt 150 manns í einu eða áburð af 150 hestum. Þeir geta hæglega farið á dag fram og aftur jafnlanga leið og héðan til Reykjavíkur. Orkuna til að knýja vagnana mætti fá rétt hjá fundarstaðnum úr Búðafossi í Þjórsá.“

Ræðumaðurinn var nánast á heimaslóðum því hann var frá Klausturhólum í Grímsnesi. Bogi var einn af frumkvöðlum samvinnufélagsskapar og sláturhúsa. Þó að hann hafi á sínum tíma verið þekktastur fyrir sagnfræðirit sitt, hafði hann áhuga á samgöngum með járnbrautum, síma og hitaveitu. En ekki tókst málafylgjumanninum að hrífa þingheim með sér í járnbrautarmálinu. Daufu eyrun voru of mörg. Um aldamótin var talað um járnbrautarferðir frá Reykjavík austur að Þjórsá og var þá höfð í huga samvinna við breska aðila. Dr. Valtýr Guðmundsson var kosinn á þing í Vestmannaeyjum í júnímánuði 1894, en þá um sumarið var aukaþing. Var hann þá helsti forystumaður þess að veita fyrirhuguðu ensk-íslensku félagi leyfi og fjárstyrk til járnbrautarlagningar á íslandi og til að halda uppi beinum gufuskipaferðum milli Reykjavíkur og Englands, ásamt strandferðum umhverfis landið. Innan sjö ára skyldi félagið hafa lagt mjóspora járnbraut frá Reykjavík austur að Þjórsá.

Eimreið

Um 1925. Eimreiðin Minör. Við hlið hennar standa eimreiðarstjórarnir f.v. Guðmundur Guðmundsson og Páll Ásmundsson

Aðalforgöngumaður málsins var áðurnefndur Sigtryggur Jónasson, sem staddur var í Reykjavík um þingtímann og taldi sig hafa 900 þúsund króna loforð frá væntanlegum félagsmönnum, ef alþingi samþykkti það tillag úr landssjóði, sem farið var fram á.

Valtýr Guðmundsson

Valtýr Guðmundsson (1860-1928).

Þetta var mesta nýmæli um verklegar framkvæmdir, sem nokkurn tíma hafði komið fyrir alþingi. Umræðurnar á þingi fylltu 345 dálka í þingtíðindum 1894. Um járnbrautina var mest deilt, en flestir voru samþykkir gufuskipaferðum enda voru þær miklu betri eftir frumvarpi dr. Valtýs, en þær sem Sameinaða gufuskipafélagið hélt uppi. Frumvarpið um járnbrauta- og siglingafélagið var samþykkt í neðri deild, en til efri deildar kom það svo seint, að ekki var tími til að ljúka málinu og féll það þar með úr sögunni.

Heimsborgarhljóð stundvísinnar

Það var hinn 17. apríl árið 1913 að fyrsta og eina járnbrautin á Íslandi var tekin í notkun. Járnbrautarteinar lágu frá Öskjuhlíðinni í Reykjavík, sem þá var enn óbyggð, og niður að Reykjavíkurhöfn, sem nú er hin eldri Reykjavíkurhöfn. Grjótflutningarnir voru miklir í þetta stóra mannvirki. Sagt er frá því í blöðum að hinn 10. nóvember 1913 hafi farþegar verið fluttir í fyrsta og eina skipið með járnbrautarlest.

Eimreið

Eimreiðin Minör – nú minnisvarði við Reykjavíkurhöfn.

Verktakar við Reykjavíkurhöfn breyttu vöruflutningavögnum til að geta flutt blaðamenn og fleiri frá höfninni upp í Öskjuhlíð þar sem grjótnáman var þá. Það mun hafa komið fyrir að Reykvíkingar fengju sér sunnudagsskemmtiferð með Pioneer-eimreiðinni upp í Skólavörðuholt og Öskjuhlíð. Meðan á hafnargerðinni stóð var járnbrautin talsvert notuð til vöruflutninga. Olíubirgðastöð var þá komin í Örfirisey og þangað flutti járnbrautin olíu á tunnum, en á þeim árum var steinolía enn mikið notuð í Reykjavík. Saltað kindakjöt í tunnum, sem þá var góð útflutningsvara, var flutt frá húsi Sláturfélags Suðurlands við Skúlagötu, en skammt þaðan var hið virta fyrirtæki, Völundur og þangað flutti járnbrautin timbur frá skipshlið. Þá var og steypumöl í Landspítalann flutt með járnbrautinni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – grjótnám.

Margir muna enn í dag eftir þungum slögum frá eimreiðinni, járnbrautarteinum og hinum reglubundna hvini. Eimreiðarstgórinn flautaði svo undir tók þegar farið var yfir Hverfisgötuna og Laugaveginn, vestan við gömlu gasstöðina og á þeim slóðum þar sem lögreglustöðin var síðar reist. Einnig var flautað hátt og hressilega þegar farið var yfir Hafharfjarðarveginn gamla. Heimsborgarhljóðin glumdu yfir höfuðborginni, hljóð stundvísinnar, sem einkennir járnbrautarferðir út í hinum stóra heimi. Hafnarsmiðjur, rauðmáluð lágreist hús með svörtu þaki, voru á þeim slóðum þar sem síðar kom Miklatorg, austan við Landspítalann. Hafnarsmiðjan var birgðastöð og skýli yfir eimreiðarnar. Ekki var hægt að snúa eimreiðunum við eða breyta stefnu þeirra að Öskjuhhíðinni þannig að þær drógu ýmist farmvagnana eða ýttu þeim á undan sér. Þann 9. mars árið 1913 varpaði gufuskipið Edvard Grieg akkeram þar sem síðar varð hafnarmynni Reykjavíkurhafnar, en þetta skip kom með verkfæri til hafnargerðarinnar og N.P. Kirk yfirverkfræðing. Hálfum mánuði síðar höfðu hundrað manns hafið vinnu við að leggja járnbrautarteina úr Öskjuhlíðinni yfir Melana og vestur á Granda og var því verki lokið um miðjan apríl. Síðan var önnur braut lögð úr Öskjuhlíð yfir Skólavörðuholt og Arnarhólstún og niður á Batterí, á þeim slóðum, sem Seðlabankinn er í dag.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – grjótnám.

Með áðurnefndu skipi kom ein eimreið, nefnd Minör, og sama sumar kom svo önnur eimreið, nefnd Pioneer. Í árbók Verkfræðingafélags Íslands árið 1914 skrifar Jón Þorláksson, landverkfræðingur, síðar forsætisráðherra, borgarstjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins, grein sem hann nefndi: „Áætlunarferðir með eimreið austur í sveitir“. Hér skal gerð stuttlega grein fyrir aðalatriðum úr áætlun um þessa járnbraut, sem minnst er á í riti þessu á öðrum stað: Lega brautarinnar er ráðgerð frá Reykjavík um Þingvelli og Selfoss til Þjórsár, að lengd alls 112 km. Einnig er gert ráð fyrir hliðarálmu frá Selfossi til Eyrarbakka, að lengd 11 km. Hæð yfir sjávarmál mest 275 m. á þessari leið. Gerð brautarinnar: Breidd undirbyggingar er áætluð 4 m. og fylgt þeirri reglu, að gera brautina allstaðar upphækkaða, en hvergi niðurgrafna, til þess að koma í veg fyrir hindranir af snjóalögum.“ Þar lét Guðjón í Laxnesi, sem þá var vegaverkstjóri mæla snjóþykktina árin 1912-1918 og aftur 1924-1926, af þessum snjómælingum var ályktað að járnbrautarlest gæti komist yfir Mosfellsheiði alla daga ársins. Guðjón var eins og kunnugt er faðir Halldórs nóbelsskálds.

Eimreið

Eimreiðin við gerð hafnargarða Reykjavíkurhafnar.

Stöðvar eru áætlaðar í Reykjavík, við Selfoss og við Þjórsá og auk þess 16 smástöðvar, sem mjög litlu sé til kostað. Fullkomin rannsókn á brautarstæðinu liggur ekki fyrir ennþá, segir í greininni, heldur aðeins bráðabirgðarannsókn, sem þó er byggð á hallamælingum á mestum hluta leiðarinnar. Eftir áætluninni er jarðrask 7.400 tenm. á hverjum km. aðallínunnar.

Eimreið

Eimreiðin í Vatnsmýri.

Kostnaður til bráðabirgða er áætlaður þannig: Aðalbrautin 112 km, krónur 3,5 milljónir. Álma niður á Eyrarbakka 11 km, kr. 300 þúsund. I þessum kostnaði er borgun fyrir landspjöll ekki meðtalin. Fólksfjöldi á brautarsvæðinu er nú sem stendur full 25.000 manns.

Þórarinn Kristjánsson

Þórarinn Kristjánsson, hafnarstjóri.

Þórarinn Kristjánsson, byggingaverkfræðingur vann á skrifstofu landverkfræðings árið 1912, þá nýútskrifaður frá Kaupmannahöfn, og mældi hann fyrir járnbrautarstæðinu frá Reykjavík um Þingvöll að Selfossi. Þórarinn varð síðar hafnarstjóri í Reykjavík. Árið 1920 skrifar svo Jón Ísleifsson verkfræðingur í Tímarit Verkfræðingafélags Íslands og bendir á aðrar leiðir, sem hann nefnir Reykjanesleiðir. Þær leiðir áttu að liggja frá Reykjavík inn að Elliðaám suður í Hafnarfjörð um Vífilsstaði.

Fyrir sunnan Hafnarfjörð á móts við Hvaleyri áttu leiðirnar að skiptast og átti önnur að stefna í hásuður, milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, um Vigdísarvelli og ofan á Krýsuvíkurbjarg vestanvert. Þaðan meðfram sjó yfir Vogsós og Ölfusárós að Eyrarbakka. Frá Eyrarbakka átti leiðin að liggja upp Flóa að Ölfursárbrú og þaðan að Þjórsárbrú. Hin leiðin átti að liggja frá Hvaleyri í vestur, meðfram sjó suður í Voga og beygja þar til hásuðurs meðfram Sandakravegi, yfir Dalahraun niður að Hraunsvík hjá Ísólfsskála, og þaðan meðfram sjó að Krýsuvíkurbjargi, þar átti þessi vestri Reykjanesleið að mæta hinni fyrrnefndu leið. Eystri-Reykjanesleiðin var talin 126 km löng, en hin vestri 146 km. Þessar leiðir áttu að komu öllum íbúum Reykjanesskagans að notum og vera snjóléttar. Við Reykjanesleiðina voru þá 2872, íbúar en við Þingvallaleiðina 827 íbúar.

„Járnbrautarmálið og samgöngumál suðurlandsundirlendisins“

Eimreið

Eimreiðin í Öskjuhlíð.

Þannig hljóðaði yfirskriftin á tveimur erindum, sem Geir G. Zoéga, vegamálastjóri flutti í mars og aprfl árið 1924. Fyrra erindið byrjar þannig: „Járnbrautarmálið er óefað langstærsta samgöngumálið, sem hjá oss hefur verið á dagskrá. Öllum hlýtur að vera það ljóst, að Suðurlandsundirlendið verður að fá samgöngubót, er veitir því greiða og örugga leið til Reykjavíkur jafnt vetur sem sumar ef þess á að vera nokkur von, að fé það allt, sem þar hefur verið lagt í ræktun beri tilætlaðan ávöxt. Þessi samgöngubót hlýtur að verða annað tveggja járnbraut eða fullkominn akvegur til bifreiðaflutninga.“

Eimreið

Eimreiðin Pioneer og gufuvaltarinn Bríet við Árbæjarsafn.

Í greinargerð vegamálastjóra kemur fram að Stóra málið hafði um árabil legið í þagnargildi, en á alþingi 1921 voru samþykkt lög sem heimiluðu landstjórninni að láta framkvæma fullnaðarrannsóknir járnbrautarstæðis frá Reykjavík og austur um Suðurlandsundirlendi.

Valgeir Björnsson

Valgeir Björnsson, bæjarverkfræðingur og hafnarstjóri (1894-1983).

Snéri landstjórnin sér til stjórnar norsku ríkisbrautanna með beiðni um að fá vel hæfan starfsmann þeirra til rannsókna. Var málinu vel tekið og bent á Sv. Möller, járnbrautarverkfræðing. Í janúarmánuði árið 1924 sendir þessi „baneinspektör“ landsstjórninni langa og nákvæma skýrslu með áætlun um stofnkostnað upp á kr. 6.925.000 og er þá miðað við að verkamannakaup sé kr. 1.00-1.10 á klst. Með Sverre Möller vann Valgeir Björnsson verkfræðingur, sem þá starfaði á skrifstofu vegamálastjóra, við mælingarnar og áætlunargerðina. Valgeir varð síðar bæjarverkfræðingur og hafnarstjóri í Reykjavík.

Um járnbrautarstöð í Reykjavík segir norski verkfræðingurinn: „Þar sem hér er aðalstöð og endastöð verður að áætla tiltölulega mikil húsakynni, enda eru stöðvarhúsin, vöruskáli, eimreiðarskáli og smiðja áætluð að kosti um 200 þúsund krónur. Stöðvarstæðið austan við Tjörnina neðst í Laufástúni, neðan við Fjólugötuna, þótti áhugavert en dýrt. Lítum á legu járnbrautarinnar: Járnbrautarstöðin er staðsett austan við Tjörnina og liggur leiðin þaðan til suðurs, en því næst í suðaustur yfir Vatnsmýri, vestan við Eskihlíð yfir Hafnarfjarðarveginn í Fossvogi.

Eimreið
Á þessari leið er hallinn lítill og bugður vel greiðar. Öll leiðin norðan í Fossvogi er mjög hagkvæm, mestur halli 12% vestan við Bústaði, en þar er stuttur láréttur kafli, þar sem stétt verði sett síðar. Því næst er brautin lögð norðan í Breiðholtshálsi að efri Veiðimannahúsum og er þar farið yfir Elliðaárnar. Þá er beygt suður fyrir hálsinn milli Elliðaáanna og Rauðavatns, því næst farið yfir Hólmsá nálægt Baldurshaga, síðan með fram Rauðhólum um túnið á Hólmi og er þar ráðgerð fyrsta stöðin.“

Arnarhóll

Arnarhóll 1787.

Önnur áætlun var og gerð um stöð í Arnarhólstúni austan við Ingólfsstræti, niður undir sjó en það stöðvarsvæði er af ýmsum ástæðum ekki eins heppilegt, sérstaklega kostar miklu meira að jafna svæðið og enn meira tiltölulega, þegar kemur að því að stækka stöðina. Jafnvel þó stöðin verði sett svo austarlega, að gatan með fram sjónum (meðfram Nýborg og Völundi) verði tekin af, mun kosta 165. þúsund krónum meira að jafna þetta stöðvarsvæði og gera nothæft en stöðvarsvæðið austan við Tjörnina, og enn meiri verður munurinn er kemur að því að færa úr kvíarnar. Leiðin frá hafnarstöðinni inn að Elliðaám er heldur ekki eins heppileg og frá Tjarnarstöðinni.“

Járnbraut

Tillaga að legu járnbrautar frá Reykjavík að Ölfusárbrú árið 1924. Lestrarstöðvar á leiðinni áttu að vera: Hólmur, Kolviðarhóll, Þurá og Sandhóll.

Nokkru síðar í skýrslu norska járnbrautarverkfræðingsins er þess getið að Hólmsstöð liggi haganlega með tilliti til Þingvallaumferðar. Eimreiðin verður að staðnæmast hér, segir í skýrslunni, og bæta vatni á ketilinn. Við Kolviðarhólsstöð áttu eimreiðarnar að mætast og enn þarf þar að bæta vatni á ketilinn. Vatnsveitan að Kolviðarhóli er nokkuð dýr eftir áætluninni og eru nefndar 50 þúsund krónur. Kolviðarhóll var á þessum árum þýðingarmikill og vinsæll áfangastaður og rausnargarður. Eftir þessari áætlun átti Ölfusárbrúarstöð að vera fyrst um sinn endastöð austanfjalls. Þar þarf að vera eimreiðarskáli, segir í skýrslunni, – fjölskyldubústaður stöðvarstjóra og herbergi fyrir annað starfsfólk. Verkfræðingurinn telur að 40 km. hraði á klukkustund sé vel fullnægjandi á ekki lengri leið. Í Þrengslunum er brautin hæst yfir sjávarmál, 283 metrar.

Járnbraut

Járnbrautarlest, þe. eimreið með vagna bæði fyrir framan og aftan á ferð. Mun vera járnbrautin sem lögð var uppi í Öskjuhlíð vegna hafnargerðar í Reykjavíkurhöfn.

Framhaldsskýrsla um járnbrautarmálið var lögð fyrir alþingi 1926. Við þá endurskoðun lækkaði stofnkostnaður verulega. Eftir nýju skýrslunni átti að byggja Reykjavíkurstöðina á svonefnt „Skell“ tún austan við Hringbraut, en sunnan við Laugaveg. Þótti sá staður hagkvæmari en neðst í Laufástúninu fyrir neðan Fjólugötu. Í hinni nýju áætlun var gert ráð fyrir sérstöku spori frá Reykjavíkurstöðinni eins og hún er nefnd og niður að höfn og mætti koma fyrir stétt þar, til dæmis við Ingólfsstræti, og nota sem endastöð lesta, ef aðalstöðin þætti vera nokkuð langt frá miðbænum. Í þessari endurskoðuðu áætlun var gert ráð fyrir að Ölfusárstöðin, sem fyrirhuguð var undir brekkunni vestan árinnar gegnt Selfossi, yrði austan Ölfusár og gerir nú járnbrautarverkfræðingurinn ráð fyrir eimreiðarbrú, sem kosta myndi 200 þúsund krónur. Verkfræðingarnir telja að mótorvagnar geti sparað talsverða upphæð með því að nota slík farartæki að einhverju leyti, en segja að sér hafi ekki tekist að gera áætlun þar um. Telur skýrsluhöfundur, að aðalókostur mótorvagna sé, að dráttarafl þeirra upp brekkur sé frekar lítið. Þá kemur greinargerð um rafmagn til rekstrar brautarinnar, en það telur skýrsluhöfundur ekki koma til greina nema að það fáist á mjög vægu verði, enda sé raforkuveitan meðfram brautinni mjög kostnaðarsöm.

Eimreið

Eimreiðin við gerð varnagarða Reykjavíkurhafnar.

Reynsla Norðmanna benti þó í þá átt, að litlar horfur væru á, að rafvirkjun með svo lítilli umferð mundi gerleg. Rekstrarkostnaður bifreiðanna er áætlaður meiri en járnbrautar og munar þar mestu um eldneytiseyðsluna, sem óhætt er að telja að minnsta kosti tvöfalt meiri. Annar liður sem um munar er gúmmí. Þegar hér er komið í skýrslunni er hætt að tala um mótorvagna eins og algengt var í upphafi bílaaldar.

Geir Zoega

Geir Zoëga, verkfræðingur og vegamálastjóri í Reykjavík (1885-1959),

Árið 1918 var mikill mjólkurskortur í Reykjavík. Blöðin fjölluðu um mjólkurskortinn og Guðmundur Björnsson landlæknir og alþingismaður, sem hafði setið í bæjarstjórn Reykjavíkur, taldi að mjólkurskorturinn stafaði af því að hér vantaði járnbrautir. Hermann Jónasson búfræðikandidat, sem verið hafði ritstjóri Búnaðarritsins, taldi og að veigamesta lausnin á mjólkurskortinum væri að flytja hey austan úr sveitum að sumarlagi með járnbraut til Reykjavíkur. Geir G. Zoéga varð vegamálastjóri árið 1917 og 1922 varð hann ráðunautur ríkistjórna í málum er snertu notkun bifreiða og í járnbrauta. Í skýrslu hans, sem hann flutti á fundi Verkfræðingafélags Íslands í febrúarmánuði árið 1926, má lesa: „Hvernig sem á málið er litið verður rekstrarafkoma bifreiðanna miklu lakari en Járnbrautarinnar. En mest gætir þó hins, að þær jafnast alls eigi á við járnbraut um að fullnægja þörfum vaxandi umferðar. Nú verður að gera ráð fyrir því, að ræktun Suðurlandsundirlendisins vaxi til muna jafnvel í náinni framtíð“. Í samanburði á járnbrautinni og bifreiðunum er talið að járnbrautin verði tvær og hálfa klukkustund milli Reykjavíkur og Ölfusár en fólksbifreið yrði þrjár og hálfa klukkustund á leiðinni. Endastöð brautarinnar var eins og það er orðað, fyrst um sinn áætluð við Ölfusá. „Jafnframt verður til frekari tryggingar að banna reglubundnar bifreiðarferðir til almennra vöru- og fólksflutninga á þeirri leið. Flutningsgjöldin fyrir vörur með járnbrautinni eru að vísu áætluð svo lág (20 kr. fyrir 1000 kg. milli Reykjavíkur og Ölfusár, sem nú kostar minnst 60 kr.)“ Eftir áætluninni átti fargjald með járnbrautinni að kosta kr. 6.50, en kostaði 10 krónur með bílum árið 1926. Hér hefur verið stiklað á fóru og aðeins gripið ofaní skýrslur Geirs Zoéga, vegamálastjóra frá árunum 1924 og 1926.

Eimreið

Pioneer við Árbæjarsafn.

En víkjum nú sögunni austur í Rangárvallasýslu: Það var á útmánuðum árið 1922, að sýslunefndarmenn í Rangárvallasýslu voru búnir að koma sér fyrir í kringum stóra fundarborðið á Efra-Hvoli í Hvolhreppi, að oddviti sýslunefhdarinnar, Björgvin Vigfússon, las nefndarmönnum bréf frá stjórnarráði Íslands þar sem það tjáir sig bresta heimild til að veita kaupgjaldsrétt á landsspildu þeirri úr Kálfholtslandi í Ásahreppi sem sýslunefndin hefur tekið á leigu í 100 ár.

Kálfholt

Kálfholt.

Jafnframt tjáir stjórnarráð Íslands sýslunefndinni í Rangárvallasýslu, að það finni ekki næga ástæðu til að útvega heimild til sölunnar með sérstökum lögum. Kálfholt var prestssetursjörð um hundrað ára skeið. Þetta er víðlend kirkjujörð, með land að Þjórsá. Þjórsártún og Lækjartún, sem áður hét Kálfholtshjáleiga, eru byggð úr Kálfholtslandi. Árið 1926 bjó í Kálfholtshjáleigu Jón Jónsson, og kona hans Rósa Runólfsdóttir síðar búandi að Herríðarhóli í sömu sveit. 1. mars árið 1926 skrifar Jón sýslunefndinni í Rangárvallasýslu bréf og óskar eftir meðmælum með því, að hann fái keypta jörðina Kálfholtshjáleigu sem var eign Kirkjujarðasjóðs eins og fjölmargar jarðir í Rangárþingi eru. Eftir sýslufundinn sendi sýslumaður Jóni bónda svarbréf þar sem í meginmáli er skráð: „Meirihluti sýslunefndarinnar telur varhugaverða sölu á Kálfholtshjáleigu, vegna væntanlegrar vatnsvirkjunar Urriðafoss og járnbrautarlagningar austur yfir Þjórsá.“ Urriðafoss er skammt fyrir neðan Þjórsárbrú. Það var mikið talað og skrifað um járnbrautarmálið á öðrum og þriðja áratug þessar aldar. Hinn 20. mars 1919 sótti fossafélagið Títan um sérleyfi til virkjunar Þjórsár allrar. Hafði norskur verkfræðingur, G. Sætersmoen, athugað rennsli hennar um tveggja ára skeið á árunum 1915-1917. Títanfélagið dró umsókn sína síðar til baka. Ekkert skeði svo í virkjunarmálunum við Þjórsá fyrr en en Búrfellsstöðin var byggð eftir lögum um Landsvirkjun árið 1964.

Eimreið

Eimreiðin Pioneer á Árbæjarsafni.

Enn er málið vakið upp á Alþingi eftir að hljótt hafði verið um það í áratugi. Árið 1980 er borin fram tillaga til þingsályktunar um rafknúna járnbraut. Flutningsmenn eru: Þórarinn Sigurjónsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Jóhann Einvarðsson. Upphaf tillögurnar er þannig: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram könnun á hagnýtu gildi þeirra hugmynda, sem upp hafa komið um rafknúna járnbraut til notkunar á mestu þéttbýlisstöð; um Suðvesturlands og austur yfir fjall.“

Þórarinn Sigurjónsson

Þórarinn Sigurjónsson (1923-2012).

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er rætt um orkukreppu, gjaldeyrissparnað með meiru. Svo og telja flutningsmenn að járnbraut auki öryggi og sjálfstæði þjóðarinnar. Flutningsmenn tillögunar telja eðlilegt að gaumgæfilega verði athugað hvort ekki sé hagkvæmt að koma upp rafknúnum farartækjum og rafknúinni járnbraut um þau svæði sunnanog suðvesturlands þar sem flutningar eru mestir.

Í þingskjölum kemur fram, að Þórarinn Sigurjónsson bóndi og alþingismaður í Laugardælum hefur leitað til Hinriks Guðmundssonar, verkfræðings, sem svo aftur leitaði til ráðgjafaverka í járnbrautarmálum í Þýskalandi. Einnig leitar verkfræðingurinn til Almennu verkfræðistofunnar hf. í Reykjavík. Bæði þessi fyrirtæki lýsa sig fús til að vinna saman að þessu verkefni. Þýska fyrirtækið telur að athugun muni taka 6 mánuði og kosta um 450 þús. D.M., um 18,1 milljón krónur. Þórarinn Sigurjónsson segir m.a. í þingræðu 27. janúar 1981: „Með flutningi þessarar tillögu viljum við flutningsmenn fá úr því skorið, hvort ekki sé tímabært að koma upp rafknúinni járnbraut um þéttbýlustu svæði landsins til vöruflutninga og e.t.v. mannflutninga. Meðal annara þjóða er járnbraut talin ódýrasta og afkastamesta flutningatæki á landi sem hægt er að fá, þar sem hún hentar. Og með það í huga, að stöðugt hækkar verð á erlendum orkugjöfum. „Við eigum að nota okkar innlendu orkugjafa og spara þannig erlendan gjaldeyri,“ sagði Þórarinn í þingræðu, þegar hann lagði áherslu á að rækileg athugun færi fram á hagkvæmni á rekstri járnbrautar um Suðurland og Suðurnes.

Járnbraut

Myndin sýnir röð af óhrjálegum skúrum sem standa meðfram járnbrautarteinum. Nýborg við Skúlagötu.

Í um það bil heila öld hafa umræður um járnbrautarlagnir á Íslandi skotið upp kollinum annað kastið þó með hléum allt til Alþingishátíðarársins 1930, en það ár eru 800 bílar í eigu Reykvíkinga og þörfin á betri vegum á allri landsbyggðinni orðin brýn, en hægt miðaði með hestvögnum á vegum sem ruddir voru með hökum og skóflum. Draumurinn um eimreiðina rættist ekki þó að erlendu sérfræðingarnir, sem hingað komu og athuguðu aðstæður sæju engin vandkvæði á því að leggja járnbraut fyrir eimreið austur í sveit. Í dag eigum við raforkuna og virkjunarmöguleikana, en fátt bendir til þess að innlend orka eigi eftir að knýja hraðlestir um Suðurlandsundirlendið í á nýrri öld.

Ný verkmenning við vegagerð hófst hér á landi með tilkomu þungavinnuvéla í seinni heimsstyrjöldinni og bifreiðar og flugvélar hafa í áratugi sannað ágæti sitt sem góð og örugg samgöngutæki.“

Sjá meira um fyrirhugaða járnbrautarlagningu milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar HÉR.

Heimildir:
-Vaskir menn. Þorsteinn Thorarensen, útg. 1971.
-Tímarit verkfræðingafélagsins 1920, 1924 og 1926.
-Alþingistíðindi: 1980 og 1981.
-Sýslufundargerðir Rangárvallasýslu.
-Eimreiðin. Dr. Valtýr Guðmundsson.
-Járnbrautin í Reykjavík: Árbæjarsafn 1982.
-Íslenskir búfræðikandidatar, Guðm. Jónsson, skólastj.
-Þyrnar: Þorsteinn Erlingsson.
-Lesbók Morgunblaðsins 22. ágúst 1998, Draumurinn um eimreið austur í sveitir, Pálmi Eyjólfsson, bls. 4-6.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Selatangar

Í Morgunblaðiðinu 1967 er grein, sem segir frá „Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni„, Eyjólfi J. Eyfells og Jóhannesi Kolbeinssyni af ferð þeirra á Seltanga.

Selatangar

„Við vorum á leið suður á Reykjanesskaga, ætluðum að koma við hjá Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni, þeirri kempu. Ferðinni var heitið að Selatöngum, þar sem gamlar búðatóttir standa enn og vitna um lífsbaráttu fólks með seltu í blóði. Nú hafa þeir safnazt til feðra sinna, sem fundu kröftum sínum viðnám í Tangasundi. Magnús er þaulkunnugur á þessum slóðum. Það eru þeir reyndar einnig félagar mínir í bílnum, Eyjólfur J. Eyfells listmálari og Jóhannes Kolbeinsson smiður, sá vinsæli leiðsögumaður Ferðafélagsins.
Við höfðum áður komið saman að Selatöngum. Það var í fyrravor. Þá var bjart yfir sjó og landi og sæmilegt veður, en hann hryggjaði við ströndina.
Þegar við komum að Selatöngum rýndum við í búðartóttirnar og horfðum yfir sundið. Á meðan dró hann saman í vestrinu. „Hann er fljótur að drífa í“, sagði Jóhannes, og átti við að hann værl fljótur að hvessa. Jóhannes og Eyjólfur eru gamlir sjómenn.
Það má stundum heyra á tungutaki þeirra.
Þegar við ókum heim úr þessari ferð, fórum við fram hjá Hrauni og ákváðum þá að skreppa aftur suður eftir og taka Magnús með.
Nú vorum við aftur á leið að Selatöngum til að uppfylla gamalt loforð, sem við höfðum gefið sjálfum okkur.
SelatangarÍ upphafi ferðar spurði ég Jóhannes um Selatanga.
„Það er bezt að þú spyrjir Magnús á Hrauni um þá“, sagði Jóhannes“. „Ég gæti ímyndað mér að hann kunni skil á sögu þeirra.
Á Seiatöngum var verstöð frá því á 14. öld“, bætti hann þó við. „Þá rann Ögmundarhraun og eyðilagði lendinguna í gömlu Krýsuvík, sem nú heitir Húshólmi og er nokkru fyrir austan Selatanga. Þar má enn sjá gróðurbletti og bæjartóttir“.
Úti var nepjukaldi og það hafði snjóað. Eyjólfur, sem sat í framsætinu, pírði augun og sagði:
„Hann er daufur yfir Reykjanesfjallgarði“.
„Ætli snjói í Grindavík“, spurði ég.
„Ónei“, svöruðu þeir einum rómi.
„Kannski hefði ég átt að koma með koníakspela til að ylja ykkur“, spurði ég.
„Nei“, sagði Eyjólfur, „ég drekk ekki koníak nema í heitu.
Selatangar„Hann vill ekkert kuldaskólp“, sagði Jóhannes. Eyjólfur sagði: „Þegar Helgi lóðs kom eitt sinn fullur heim — hafið þið heyrt það — þá segir konan „Æ“, segir hún, „farðu nú að hátta, Helgi minn, og biddu guð fyrir þér“.
„Ha“, segir karlinn, „guð?
Nei. ég vil engan guð“. „Hann vill ekki einu sinni guð“, segir þá konan“.
Þar með var koníakið úr sögunni.
Jóhannes skimaði í allar áttir eins og gömlum sjómanni sómdi.
„Hann verður líklega hægur í dag“, sagði hann. „Hægur útsynningur, en kular í élinu.
Gæti orðið svolítið brim“.
„Þó það nú væri, þetta opna haf, sagði Eyjólfur.
„En hvað um Selatanga“, skaut ég inn í.
„Þar var útræði fram um 1880″, sagði Jóhannes. „Þá þótti staðurinn útúr og farið að brydda á nýjum tíma í Grindavík og víðar“.

Selatangar

Selatangar – verbúðartóft.

„Ætli þar hafi orðið mikil slys?“ spurði ég.
„Óljósar sagnir eru um slys“, sagði Jóhannes. „En ekki áreiðanlegar“.
„Hefurðu séð nokkuð þar, sem bendir til slysa“, spurði ég Eyjólf.
„Nei, ég heyrði bara délítinn söng úr einni tóttinni, þegar við vorum þar í fyrravor.
Já, reyndar hef ég alltaf heyrt söng úr einni tóttinni, þegar ég hef komið að búðunum. Þeir hafa sungið mikið í gamla daga.
En ég heyrði engan söng, þegar við Jóhannes fórum þangað í vor. Þá var eitthvað bölvað rifrildi í einni tóttinni“.
„Já, þú varst að tala um það“, sagði Jóhanrnes. „Ekki heyrði ég það“.
„Nei, þú heyrðir það ekki“, sagði Eyjólfur. „Ég heyrði það aðeins fyrst þegar við komum að tóttarbrotunum, en svo var eins og það dæi út. Ég kom fyrir mörgum árum í herbergi í húsinu Nýlendugötu 19. Húsráðendur, sem voru kunningjar mínir og vissu að ég só stundum ýmislegt, sögðu: „Sérðu ekki eitthvað?“
„Ojú, ekki get ég neitað því.
Selatangar
Ég sé einhvern slæðing“, segi ég. „Það er gömul kerling úti í horni, hún er að bogra yfir einhverju og öll í keng“.
Ég lýsti henni fyrir fólkinu, sem sagði að lýsingin stæði heima. „Þetta er hún Guðrún gamla í Stafnesi, hún átti heima hér og hafði prjónavélina sína í horninu því arna“. Það hefur orðið eitthvað eftir af henni þarna“.
„Orðið eftir“, endurtók ég.
„Já, tilveran er undarleg.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur á Sveifluhálsi.

Hún skilar öllu. Þetta voru eftirstöðvar af Guðrúnu. Hún var þarna auðvitað ekki sjálf. Ég skynjaði engan persónuleika í mynd bennar. Hér sitjum við og tölum saman, og það geymist. En einhvern þeirra sér eða heyrir einhver til okkar. Þá verðum við kannski komnir langleiðina inn á astralplanið.“
Við hlustuðum á Eyjólf, þögðum. Nú talaði sá, sem hafði sjón og heyrn til tveggja heima. Bílstjórinn dró jafnvel úr ferðinni, og var farinn að leggja við hlustirnar. Eyjólfur átti leikinn.
„Það hefur verið mikill söngur í gamla Kleppsbænum“,
sagði hann. „Þegar ég kom fyrst að bænum, var hann yfirgefinn, en uppistandandi.
Þá heyrði ég sálmasöng. Þeir hafa líklega samvizkusamlega lasið húslestrana sína og sungið sálma, gæti ég trúað, kannski ekki veitt af“.
Það varð þögn.
„Hefurðu séð nokkuð“, gaukaði ég að Jóhannesi.
„Nei, ekkert“.
„Jú, hann hefur séð margt“, sagði Eyjólfur. „Hann hefur séð margt fallegt. Hann befur séð há og tignarleg fjöll í öllum veðrum. Hann hefur horft yfir öræfin og þekkir ótal örnefni. Hann hefur séð það sem er eftirsóknarverðast, landið okkar í allri sinni dýrð“.
„Já“, sagði Jóhannes, „það hef ég. En maður þarf ekki að vera skyggn til þess“. „Þú varst að lýsa fyrir mér dularfullri reynslu, þegar við fórum suður eftir í fyrravor“, fullyrti ég.
„Ekki man ég það“.
Ögmundadys
„Þú varðst var við eitthvað í skálanum á Jökulhálsi“ sagði Eyjólfur.
„Það var óvera“, sagði Jóhannes. „Ég sá eitthvað, en aðrir sáu það ekki síður. Það var atfarsterk fylgja. Maður, sem var dáinn fyrir 16 árum.
Hann hefur líklega verið að fylgjast með þessu ferðalagi okkar“.
„Kannski hann hafi ekki verið þarna sjálfur, ætli það hafi ekki bara verið hugur hans, sem fylgdist svona sterklega með ykkur“, sagði Eyjólfur.
Úlfljótsvatn„Jú, ætli það hafi ekki verið“, sagði Jóhannes. „Og hugur hans hefur þá umbreytzt í persónu hans“.
„Sá sem sézt annars staðar en hann er“, sagði Eyjólfur, „birtist venjulega í réttri mynd sinni. Við skiljum svo lítið brot af tilverunni, skynjum aðeins yfirborð hennar og misskiljum flest. Við erum, þrátt fyrir góðan þroska á veraldarvísu, mjög ófullkomin“.
Jóhannes stóðst ekki freistinguna, en sagði: „Ég er fæddur og uppalinn að Úlfljótsvatni. Einhverju sinni um haust, eða um líkt leyti og nú — já, það var áreiðanlega í byrjun nóvember — var ég bak við hesthúsið að leysa hey handa beljunum. Það var kvöld og svartarnyrkur. Þá beyri ég að hundarnir gelta. Traðirnar lágu hein að hesthúsinu. Það hafði verið frost, en klökknaði þennan dag og holklakinn farinn að slakna.
Ég heyri að einhver ríður traðirnar heim að besthúsinu, stansar og fer af baki. Ég heyri hringlið í beizlisstöngunum, þegar taumarnir eru teknir fram af hestinum. Einhver gengur að dyrunum, ég legg víð hlustirnar —, maðurinn staðnæmist og kastar af sér vatni. Svo heyrist ekki meir og hundarnir hætta að gelta. Ég geng að hesthúsdyrunum og huga að því, hver geti verið þanna á ferð, en sé engan. Það var meiri ákoman“.
Þetta er nú meiri guðfræðin, hugsaði ég. Svo spurði ég Eyjólf:
„Er ekki sjaldgæft að menn séu að kasta af sér vatni hinu megin?“
Hann hristi sitt silfurgráa höfuð.

Úlfljótsvatnskirkja

Úlfljótsvatnskirkja.

„Þú misskilur þetta allt“, sagði hann. „Það sem Jóhannes varð vitni að var ekki annað en gamalt bergmál. Hann upplifir af einhverjum ástæðum, að einhverjum hefur orðið mál fyrir mörgum öldum. Annað er það nú ekki. Ekkert í tilverunni er svo ómerkilegt að það týnist í glatkistuna. En hvernig eigum við, þessir líka maurar í mannsmynd, að skilja að það er ekkert til sem heitir fortíð, nútíð eða framtíð. Það er hægt að sýna kvikmynd eins oft og hver vill, þannig er einnig hægt að upplifa svipmynd þess sem var. Líf okkar geymist á dularfullan hátt“.
Ég sneri mér að Jóhannesi og spurði um dvöl hans á Úlfljótsvatni?
„Faðir minn var bóndi þar í 26 ár“, sagði hann. „Hann dó 25. marz sl. 94 ára gamall.
Hann hét Kolbeinn Guðmundsson. Hann lá ekki rúmfastur nema 3 vikur. Annað hvort voru menn í gamla daga ódrepandi eða ekki“, sagði Jóhannes og brosti.
„Heldurðu að Jóhannes eigi eftir að verða 94 ára“, spurði ég Eyjólf.
„Nei-i“, svaraði Eyjólfur dræmt.

Katlahraun

Kaltlahraun – Selatangar fjær.

„Heldurðu að hann eigi eftir að verða jafngamall og þú?“
„Það efast ég um:“
„Hvað ertu gamall“.
„Karlinn er orðinn 81 árs“.

Tómas Guðmundsson

Tómas Guðmundsson.

„En ég, verð ég 94 ára?“
„Nei, þú verður ekki eins gamall og ég“, sagði hann ákveðið. Ég fór að reikna.
„En verð ég ekki sjötugur?“ sárbændi ég hann.
„Maður skyldi ekki forsvara neitt“, sagði hann.
Ég sá að ekki dugði að freista Eyjólfs, svo að ég sneri mér að Jóhannesi.
„Þú manst auðvitað vel eftir Tómasi Guðmundssyni hinum megin við Sogið“, sagði ég.
Jóhannes hrökk við. Hann hefur líklega einnig verið að reikna, hugsaði ég. „Tómasi“, sagði hann, „jú—ojú, en við þekktumst ekki mikið. Hann var eldri en ég. Það bar við að ég kom heim til hans. Hann var ákaflega feiminn við ókunnuga og faldi sig, ef einhver kom. Ég vissi ekki þá, að hann ætti eftir að varpa svo miklum ljóma á Sogið og sveitina; að hann ætti eftir að verða stórskáld“.
Og Jóhannes varð hugsi.
„Tómas var talfár“, sagði hann. „Foreldrar hans voru gott fólk og höfðingjar. Ég fylgdist með því sem unglingur, þegar hann birti ljóð eftir sig i Heimilisblaði Jóns Helgasonar, þá var hann innan við fermingu. Hann orti um æskustöðvarnar, og þar eru Sundin blá“.

Selatangar

Selatangar – tóft.

„Heldurðu að hann eigi við þau — sundin við Sogið“, spurði Eyjólfur undrandi.
„Já, það hefði ég haldið“, svaraði Jóhannes viss í sinni sök. „Hvergi eru blárri sund en við Brúarey í Sogi. Þau blasa við æskuslóðum skáldsins“.
Nú vorum við komnir að kapellunni, hraunhleðslu norðan við húsaþyrpinguna, þar sem álfélagið hefur reist timburþorp til bráðabrigða.
„Hraunið heitir eftir kapellunni“, sagði Jóhannes og benti.

Hraun

Kapellutóft í Kapellulág austan við Hraun.

„Þeir grófu einhvern tíma í þetta og fundu líkneski, ég held frá kalþólskri tíð. Hér hefur verið eins konar sæluhús í miðju hrauninu, enda hraunið hættulegt yfirferðar ekki sízt fyrir hesta. Ósjaldan kom fyrir að þeir fótbrotnuðu og stundum hröktust ferðamenn út að ströndinni.
„Það var önnur kapella í hrauninu“, sagði Eyjólfur.
„Hún hefur farið forgörðum“, sagði Jóhannes.
Eitt sinn komum við Gísli Jónsson bílasmiður að henni og sá ég þá munkinn, en það var ekkert merkilegt. Hitt var merkilegt að Gísli sá hann líka.
„Þetta er furðulegt“, sagði hann, „Þetta hef ég aldrei séð áður. Hann taldi slíkt hégóma og hirti ekki um framhaldslífið. Hann sagðist ekki trúa því, að hægt væri að skyggnast inn í fortíðina og ekki beldur, að unnt væri að sjá framliðið fólk.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Seinna vorum við í veiðiferð saman austur á Baugsstöðum, það var um vor. Við sváfum í dálitilum heystabba, sem var eftir í hlöðunni. Um morgunin var Gísli eitthvað fálátur. Ég innti hann eftir því, hvort honum liði illa. „Í nótt sá ég draug í fyrsta skipti“, sagði hamn. „Hvernig atvikaðist það“, spurði ég. „Jú, ég vaknaði við það, að einhver gekk yfir stabbann og svo áfram í lausu lofti. Þá varð mér ekki um sel“.

Hróarsholt

Hróarsholt í Flóa.

Mér er nær að halda að Gísli hafi verið látinn sjá þetta til þess að lina hann í vantrúnni, enda var hann ekki eins stífur á meiningunni upp frá því.“
„Var munkurinn draugur“, spurði ég eins og barn.
„Nei, ég sagði Gísla sem var, að munkurinn væri bara gömul spegilmynd, eftirstöðvar frá liðnum tíma. Þannig skiljum við eftir mynd okkar einhversstaðar í tíma og rúmi, og kannski rekast einhverjir á hana, þegar við erum farnir. Ég fór einhvern tíma á fund hjá Hafsteini, þá kom Gísli upp að vanganum á mér og segir: „Heyrðu, Eyjólfur, heldurðu ekki að þú farir að koma?“
„Ég. Ó, ég veit ekki“, svaraði ég.
Hann var alinn upp í Hróarsholti í Flóa. Þar hefur hann alltaf verið með okkur Jóhannesi nema í sumar, þá varð ég hans í fyrsta skipti ekki var. Þó fannst mér eins og hann hugsaði til okkar. En það var allt og sumt. Hróarsholt er með fallegri bæjarstæðum. Sagt er, að þaðan hafi sézt nítján kirkjur.“

Þorbjörn

Þorbjörn – Klifhólahraun.

„Nú eru nokkrar þeirra úr sögunni“, minnti Jóhannes hann á. Og eitthvað þurftu þeir að bera saman bækur sínar um kirkjufjöldann.
Og nú vorum við komnir á Grindavíkurveginn.
„Þarna er Þorbjörn“, sagði Eyjólfur, „fjall þeirra Grindvíkinga“.
„Þá er nú Esjan tilkomumeiri“, sagði ég.
„Ég reri eina vertíð í Grindavík“, hélt Eyjólfur áfram, „þú varst þar líka, Jóhannes“.
„Já, ég reri þaðan eina vertíð. Það gekk ágætlega. Ég reri frá Nesi — það hefur verið 1927. Við höfðum útræði um Járngerðarstaðasund. Það gat verið varasamt á opnum árabátum“.
„Hvenær rerir þú frá Grindavík Eyjólfur?“
„Ég man það nú ekki, jú, það hefur líklega verið 1904.

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Ég reri úr Þórkötlustaðahverfinu“.
„Það var aldrei stórbrim þessa vertíð“, sagði Jóhannes.
„Ekki man ég heldur eftir því“, sagði Eyjólfur.
„Við sýndum ekki af okkur nein þrekvirki“, sagði Jóhannes. „Engin karlmennska eins og þegar Gunnlaugur sýslumaður á Barðaströnd stóð undir mæniás fjóssins og kom í veg fyrir að þekjan hryndi yfir beljuna: „Allþungt þetta hér“, sagði hann. Það var ekki verið að fjasa út af smámunum í þá daga“.
Eyjólfur sagði: „Ég þekkti vel Gísla, bróður Magnúsar á Hrauni, og Margréti konu hans Jónsdóttur frá Einlandi. Þetta var ágætisfólk.
Ég var heimilisvinur á Einlandi. Við strákarnir vorum allir skotnir í Möggu“.
„Þau eru bæði dáin“, sagði Jóhannes.

Einland

Í Einlandi.

„Já, þau Gísli eru bæði farin“, sagði Eyjólfur og bætti við: „Hún var glæsileg stúlka. Ég hélt að Margrímur Gíslason ætlaði að ná í hana. Hann varð seinna lögregluþjónn í Reykjavík, mesti myndarmaður. Þá datt engum í hug að keppa við hann. En hún giftist Gísla“.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Jóhannes sagði: „Þeir bjuggu báðir á Hrauni, bræðurnir Gísli og Magnús. Hafliði, faðir þeirra, var lengi formaður“.
„Hann var eftirminnilegur karl“, sagði Eyjólfur. „Eitt sinn þegar gefin voru saman hjón, bæði ósköp lítil fyrir mann að sjá, var Hafliði svaramaður.
Þegar prestur snýr sér að konunni og spyr, hvort hún vilji manninn, svarar hún ekki. Þá er sagt að Hafliði hafi hnippt í hana og sagt: „Segðu já — segðu já — segðu bara já“.
Og hún álpaðist til að segja já.
„Ætli þetta hafi verið Hákon í Bakka“, sagði Jóhannes: „Það var kot í túnjaðrinum á Hrauni. Ég held að rústirnar standi ennþá. Hákon reri hjá Hafliða og síðan hjá Magnúsi.
Ég held þeir hafi naumast róið nema Hákon væri með“.
Við vorum komnir að Hrauni.
Ég snaraðist út úr bílnum, gekk upp tröppurnar og bankaði. Magnús kom til dyra. Hann var ekki eins hress og oft áður. Þegar ég hafði hitt hann, var hann alltaf nýr eins og Passíusálmarnir.
„Nú erum við komnir“, sagði ég.
„Komnir, hverjir?“

Selatngar

Selatangar – fiskbyrgi.

„Ég er með tvo gamla sjómenn úr Grindavik, Eyjólf Eyfells og Jóhannes Kolbeinsson“.
„Jæja“, sagði Magnús.

Selatangar

Á Selatöngum.

„Við erum að fara að Selatöngum. Þú ferð með“.
„Það efast ég um. Það er víst einhver illska hlaupin í mig.
Læknirinn segir að það sé eitthvað í öðru nýranu“.
„Nú, finnurðu til“, spurði ég.
„Onei, ég hef aldrei fundið til“.
„Þetta eru skemmtilegir karlar“, sagði ég.
„Ha, já er það“, sagði Magnús og klóraði sér á hvirflinum.
Svo strauk hann yfirskeggið og fór í gúmmískóna.
Eyjólfur kom í gættina. Þeir heilsuðust. Magnús virti hann fyrir sér. Þeir tóku tal saman.
Það var selta í Eyjólfi, hann var ekkert blávatn. Það hefur Magnús fundið. Einu sinni munaði mjóu að Eyjólfur drukknaði í Loftsstaðasundi.

Grindavík

Grindavík – Magnús á Hrauni í vörinni.

Karlarnir gengu út í bílinn. Ég á eftir. Svo héldum við af stað.
„Ég var hrifinn af Margréti mágkonu þinni á Einlandi, þegar ég var á vertíð hér strákur“, sagði Eyjólfur.
„Hún hefur verið ung þá“, sagði Magnús.
„Já, um fermingu“, sagði Eyjólfur.
„Og varstu skotinn í henni strax“, sagði Magnús og hló.

Selatangar

Á Selatöngum.

Við ókum sem leið lá að Selatöngum.
„Ég sé ekki betur en þú sért sæmilegur til heilsunnar, Magnús“, sagði ég. Því að nú kjaftaði á honum hver tuska, ekki síður en okkur hinum.
„Ég er alveg stálhraustur“, fullvissaði hann okkur og sjálfan sig, „mér hefur aldrei orðið misdægurt. En ég á að fara í rannsókn til Snorra Hallgrímssonar. Það er gott að eiga góða menn að. Við höfum farið í rjúpu saman“.
„Þú varst oft á sjó með Hákoni á Bakka, sagði ég.
„Ojá“, sagði Magnús. „En af hverju dettur þér hann í hug?“
„Þeir muna eftir því, þegar hann var giftur“.
„Ha? Hann giftist aldrei“.
„Hvað segirðu?“
Og nú sperrtu Jóhannes og Eyjólfur eyrun.
„Nei, hann bjó með konu, en þau voru aldrei gefin saman í hjónaband“.
Eyjólfur segir honum nú söguna um giftingu litlu hjónanna. Magnús slær á lær sér:
„En þetta er ekki rétt. Það voru gift þarna hjón, en þau sögðu bæði nei“.
„Ha“.

Selatangar

Selatangar – minjar.

„Ég sagði að þau hefðu bæði sagt nei“.
„Nú, og hver voru þau“, spurði Eyjólfur.
„Það voru Einar Árnason póstur og Katrín Þorkelsdóttir“.

Einar póstur

Einar póstur.

„Var sú gifting ekki ólögleg?“
„Nei, nei. Þetta var látið duga í þá daga. Menn voru ekki að gera veður út af öllum hlutum. Það þótti skrítið. En Hákon bjó með konu sem hét Guðmunda Gísladóttir, þau komust vel af“.
Fagradalsfjall blasti við okkur. Þangað höfðum við Magnús eitt sinn farið, gengið upp á fjallið, litazt um eins og landnámsmenn. Ég benti í áttina þangað.
„Það dregur undir sig“, sagði Magnús. „Þetta er lengri leið en maður heldur“.
Mig rak minni til þess.
„Einar póstur og Katrín, voru þau lítil“, spurði Eyjólfur hugsi.
„Já“, sagði Magnús.
„En Hákon og Guðmunda?“
„Guðmunda var há kona og snör. Hún var köttur þrifinn, og prýðilega útlítandi var baðstofan, þó hún væri lítil. En þau Einar bjuggu í moldarkofa“.
„Það hefur þá ekki verið Hákon“, sagði Eyjólfur. „Það hafa verið Einar og Katrín“.
„Það hafa verið þau“, sagði Magnús.

Selatangar

Selatangar – minjar.

„Er Einland uppistandandi?“ spurði Eyjólfur.
„Já, þekkirðu ekki Ísleif Jónsson, verkfræðing í Reykjavík?“

Ísleifur Jónsson

Ísleifur Jónson frá Einlandi.

„Við erum skyldir“, sagði Eyjólfur.
„Jæja“, sagði Magnús og virti Eyjólf fyrir sér. „Nú sé ég, að það er sami bjarti svipurinn.
Hann er að skinna Einlandið upp“, bætti hann við.
„Já, einmitt“, sagði Eyjólfur.
Við ókum fram hjá Ísólfsskála, Selatangar skammt þar fyrir austan. Á leiðinni töluðu þeir um sitthvað, og það var engu líkara en maður væri kominn hálfa öld aftur í tímann. Þeir töluðu um karl einn, sem „þótti gott að smakka það“, um fólk, sem „hafði orðið bráðkvatt“. Og margt fleira skröfuðu þeir, sem ómögulegt var fyrir ókunnugan að henda reiður á. Magnús minntist á konu, sem hafði átt hálfsystur, „og hún varð sama sem bráðkvödd líka“. Og síðan barst talið að Jóni heitnum á Einlandi, föður Margrétar, og hann varð einnig bráðkvaddur.
„Hann var dugandi sjósóknari“, sagði Magnús, „— áður en hann varð bráðkvaddur“.
„Já, og myndarmaður“, sagði Eyjólfur.

Selatangar

Seltangar – sjóbúðir.

„Og aðsækinn við sjó“, bætti Magnús við. „En viljið þið ekki sjá leiðið hans Ögmundar, sem hraunið er kennt við. Það stendur norðan við veginn“.
„Förum fyrst niður að Selatöngum“.
„Heyrðu Eyjólfur, lenturðu nokkurn tíma í Stokkseyrardraugnum“, spurði Magnús.

Selatangar

Selatangar – brim.

„Nei, ég var svo ungur. Þegar við strákarnir heyrðum fyrst af honum, treystum við á, að hann kæmist ekki yfir mýrarnar, því að þær voru á ís og flughálar“.
„Hvað ætli þetta hafi verið?“ spurði Magnús.
„Þetta voru engir aumingjar, sem uðru fyrir barðinu á draugnum“, skaut Jóhannes inn í samtalið.
„Fólk var með margvíslegar skýringar“, sagði Eyjólfur.
„Sumir töluðu um kolsýrueitrun í andrúmsloftinu, en það veit enginn“.
„Það flýðu allir úr einni verbúðinni“, sagði Jóhannes, um leið og bíllinn stöðvaðist við Selatanga.
Við lituðumst um.
„Hvar er Magnús?“
„Hann skrapp niður á kampinn að tala við veiðibjölluna“, sagði Jóhannes. „Þeir þekkjast, mávurinn og Magnús. Hann er búinn að skjóta þá svo marga um dagana“.
„Honum er ekki fiskað saman“, sagði Eyjólfur. „Hann er líkur föður sínum, kempukarl“.

Selatangar

Seltangar – sjóbúðir.

Við skoðuðum tóttirnar af verbúðunum og fiskhjöllunum.
Í fyrravor var jörðin algræn, þar sem fiskurinn hafði legið við byrgin. Tólf til fimmtán menn hafa verið við hvern bát, hafði ég lesið mér til. Bragur er til um alla útróðrarmenn, sem eitt sinn voru á Selatöngum, og eru þeir taldir með nafni og hafa þá verið yfir 60.

Selatangar

Sjóbúð og byrgi á Selatöngum.

Tóttirnar eru litlar og ég gizkaði á, að þrír til fjórir hefðu verið í hverri verbúð. Þeir sögðu það hefðu minnsta kosti verið sjö, ef ekki fleiri. Af tóttarbrotunum að dæma er hver búð um fimm metrar á lengd og tveir á breidd. Sumar búðirnar hafa jafnvel verið minni. Kannski þeir hafi haft verbúðirnar svona litlar til að halda á sér hita, datt mér i hug. Þarna sáum við einnig hellisskúta. Jóhannes sagði, að hellarnir væru reyndar tveir og hefði annar verið kallaður sögunarkór, þar sem var smíðað, en hinn mölunarkór, þar var malað korn.
Selatangar eru skarð eða afdrep í Ögmundarhrauni. Þar fundu Krýsuvíkurmenn hentugt athafnasvæði eftir hraunflóðið mikla.
Dákon var hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum. Í honum voru landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Næst austan við Dákon er Vestrihlein, en þá Eystrihlein.
Sundið hefur líklega verið vestan undir Eystrihlein og uppsátrið þar beint upp af. Þar upp með hleininni voru bátarnir settir undan sjó. Vega lengdin fré Krýsuvík á Selatanga er um 6—7 km. og um þriðjungur þess vegar apalhraun, svo það hefur ekki verið skipsganga, sem kallað var, að fara þó leið kvöldið og morgnar. Þess vegna hafa verbúðirnar verið reistar þar. Og enn tala þær sínu máli.

Dágon

Dágon á Selatöngum.

Magnús var kominn í leitirnar. Við horfðum yfir kampinn og sundið. Ólög riðu yfir hleinarnar, en ekki á sundið. Það var hreint.
„Þeir þekktu sjóina, karlarnir“, sagði Magnús.
„Ungt fólk nú á dögum mundi líklega deyja af einni saman tilhugsuninni að eiga að sofa í svona hreysum“, sagði ég og virti fyrir mér tóttarbrotin.

Jón Guðmundsson

Jón Guðmundsson á fer með FERLIR á Selatöngum 2004 – brunnur.

„Manneskjan gerir það, sem hún verður að gera“, sögðu þeir.
„Verbúðirnar hafa verið vindþéttar“, sagði Eyjólfur.
Ég hryllti mig ósjálfrátt í herðunum.
„Þeir hafa sótt í þetta hey og mosa“, sagði Magnús.
Svo benti hann út á sundið. „Þeir hafa lent eitthvað eftir áttum“, sagði hann. „Í útsynningi hafa þeir lent vestar, en austar í landnyrðingum, Það er ekki milkil ló við hleinina núna. Þeir hefðu lent í svona sjó. Þarna er eystri hleinin og þarna sú vestri. Þeir lentu á milli hleinanna, í Tangasundi.
Og nú er Dákon horfinn.“
„Það er talvert brim núna“, sagði ég. „Þú segir að þeir hefðu lent í þessu.
„Ætli ekki það, þetta er svaði“, sagði Magnús. „Þeir kunnu svo sem að biða eftir lagi. En hafið þið ekki heyrt að hér átti að vera draugur“, og hann sneri sér að Eyjólfi.
„Jú“, sögðu þeir.

Selatangar

Selatangar.

„Hann var kallaður Tanga Tómas,“ sagði Magnús.
„Hefurðu séð hann Eyjólfur? “ spurði ég.
„Nei“, sagði Eyjólfur, „séð hann — nei, nei.“

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

„Þú ættir að spyrja hann Þórarin Einarsson um hann“, sagði Magnús. „Hann býr í Höfða á Vatnsleysuströnd. Hann er sonur seinasta formannsins hér á Seljatöngum. Þórarinn er faðir Þorvalds Þórarinssonar, lögfræðings í Reykjavík, svo hann á ekki langt að sækja það, að vera þéttur fyrir. Einar, faðir Þórarins, var óbágur að segja frá Tanga Tómasi. Einu sinni var Einar að smíða ausur úr rótarkylfum hjá okkur á Hrauni, þá sagði hann okkur þessa sögu: Guðmundur, bróðir hans, svaf fyrir framan hann og lá með höfuðið útaf koddanum, en sneri sér við í svefnrofunum og færðist upp á koddann, en í sömu andránni kom vatnskúturinn, sem þeir höfðu með sér á sjóinn, en geymdur var í verbúðinni, aflagður þar sem Guðmundur hafði legið með höfuðið.
Þetta bjargaði auðvitað lífi hans.“
„Það var gott að draugurinn drap ekki Guðmund“, sagði Jóhannes. „Hann, átti eftir að eignast 18 börn.“
„Nei, það var ekki hann, þú átt við Guðmund í Nýja Bæ“, sagði Magnús.

Húshólmi

Húshólmi – sjóbúðartóft frá 1917.

„Já“, sagði Jóhannes, og áttaði sig. „Guðmundur í Nýja Bæ var Jónsson, hann reri 1917 úr Húshólma, en þeir urðu að lenda hér á Töngunum“.
„Guðmundur í Nýja Bæ var skírleikskarl“, sagði Magnús, „það var gaman að vera með honum einum. En þegar fleiri voru, varð hann öfgafullur. Lífsbaráttan varð honum þung í skauti, hann varð að treysta á útigang. Tvö barna hans dóu í vetur.“

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Við vorum komnir upp á þjóðveginn aftur, og ætluðum sem snöggvast að skreppa að gröf Ögmundar. Á leiðinni þangað segir Magnús allt í einu: „Þessi klettur þarna í hrauninu heitir Latur.“
„Hvers vegna“, spurði ég.
„Það gekk erfiðlega að miða hann — hann gekk illa fyrir, eins og sagt var. Hann bar lengi í sama stað.“
Og nú blasti við Ögmundarhraun milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og fyllir hálfan dalinn. Niður við sjó stóð bærinn Krýsuvík, en uppi í dalnum Vigdísarvellir, fjallajörð í hvammi með hlíðinni norð-vestan við Mælifell. Þar sjást tóttir.
„Ég man vel eftir byggð þar“, sagði Magnús. „Gömul sögn segir, að smali hafi, þegar hraunið brann, bjargazt upp á Óbrennishólma, sunnarlega í hrauninu, vestan við Húshólma“.
Jóhannes sagði að þjóðsagan um Ögmund væri á þá leið, að hann hafi átt að vinna sér það til kvonfangs að ryðja veg yfir hraunið, en var drepinn að verki loknu. Aðstandendur konunnar treystu sér víst ekki til að vinna á honum fyrr en hann var orðinn örmagna af þreytu. Þá hertu þeir upp hugann og drápu hann.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

„Ögmundur sofnaði við hraunbrún, þar sem leiðið er og þar drápu þeir hann“, bætti Magnús um frásögn Jóhannesar. „Nú er hrunið úr leiðinu. Þeir ættu að varðveita það betur. Ég er að vísu ekki fylgjandi því að raska ró þeirra dauðu, en það mætti vel ganga betur um leiðið.“
Ég ætlaði eitthvað að fara að minnast frekar á Ögmund, en þeir fóru þá að tala um sjómennsku í gamla daga og ég komst ekki upp með moðreyk. Það var eins og bíllinn breyttist skyndilega í gamlar verbúðir. Það er munur að róa nú eða áður, sögðu þeir.

Áttæringur

Áttæringur við Grindavík.

„Þá var alltaf andæft á árunum“, sagði Magnús til að uppfræða mig. „Þá var línan tvö til þrjú pund og geysisterk og vont að draga hana. Einhverjum hefði minnsta kosti þótt það sárt í dag. Sumir fengu blöðrur.
„Betur á bak og báðum áfram“, var sagt þegar austanátt var og vesturfall, og þegar línan festist sló alltaf á bakborðið. Það þurfti alltaf manni meira á bakborða í andófi. Þess vegna var sagt; Betur á bak. Þá þurfti að nota árarnar til að róa að línunni.“
Og svona héldu þeir áfram að tala saman um löngu liðna daga. Ögmundur var gleymdur. Ég var að hugsa um að koma við hjá Þórarni gamla í Höfða.
Eyjólfur hafði, okkur öllum á óvart, komið með flösku af líkjör. Hann var farinn að hvessa, eða setja í, eins og karlarnir hefðu sagt. Ég sá verbúðirnar gömlu fyrir mér, og skinnklædda karlana. Ég hugsaði um það sem Magnús hafði sagt: „Það er ekki mikil lá við hleinina; það heitir öðru nafni: sogadráttur og þar er lending stórháskaleg. Ég mundi vel eftir lýsingum Magnúsar Þórarinssonar, sem oft kom niður á Morgunblað, á meðan hann var og hét. Hann var einbeittur og ákveðinn, með auga á hverjum fingri Hann var fyrsti mótorbátsformaður í Sandgerði. Það var eins og sjór og reynsla hefðu lagzt á eitt um að tálga persónu hans inn að hörðum kjarnanum.

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

Magnús tók saman bók, sem heitir „Frá Suðurnesjum“. Merkisrit.

Verbúð

Framármaður – málverk Bjarna jónssonar.

Þar segir, að ef skip tók niður að framan, þegar mikil lá var, stóð það strax svo fast, að ómögulegt var að ýta því út aftur, svo þungu. Sogaði þá óðara undan, svo að skipið varð á þurru og lagðist á hliðina. Næsta aðsog fyllti þá skipið, og allt var í voða. Það varð því sífeilt að halda þeim á floti og ýta frá fyrir hvert útsog, en halda í kollubandið. Næsta ólag kom svo með skipið aftur, en þrekmennin settu axlirnar við, svo að ekki tæki niður; stóðu þeir oft í þessum stympingum, þó að sjór væri undir hendur eða í axlir, en ekkert bundnir voru þeir oftast, er þetta starf höfðu.
Þetta hugsaði ég um og myndin skýrðist í huga mínum. Ég sá karlana standa í kampinum á Selatöngum í brók og skinnstakk, hvorttveggja heima saumað úr íslenzkum skinnum. Brókin upp á síður, en stakkurinn niður á læri. Mátti vel svalka í sjó þannig búinn án þess að verða brókarfullur, eins og kallað var ef ofan í brókina rann.

Grindavík

Magnús á Hrauni í vör.

Stundum kom fyrir að láin var svo mikil að ólendandi var á venjulegan hátt. Þá var fiskurinn seilaður úti á lóninu, seilarnar bundnar saman og færi hnýtt við, en einum manni falið að gefa út færið og annast seilarnar að öllu leyti.

Seil

Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.

Og svo var beðið eftir lagi til að lenda skipinu tómu, tóku þá allir til ára eftir skipun formanns, á þriðju stóröldunni, sem var jafnan hin síðasta í ólaginu, eftir hana kom délítið hlé á stórbrotum; var það kallað lag. Þá var róið með fullum krafti, árar lagðar inn í skipið í fljótheitum. Þegar krakaði niður, hlupu allir útbyrðis og brýndu skipinu upp úr sjó, áður en næsta ólag kæmi. Stundum komu aðrir, sem tækifæri höfðu og hjálpuðu til.
Þannig stóðu Selatangar mér fyrir sjónum. Hver myndin tók við af annarri, reis og hneig í huga mínum eins úthafsaldan við ströndina.
„Ég var oftast aðeins með eitt skinn“, sagði Magnús upp úr þurru.
„Jæja“, sagði Eyjólfur.
„Ég var oft holdivotur“, sagði Magnús.
„Það vorum við aldrei fyrir austan“, sagði Eyjólfur.
„Ojú, maður var oft þvalur. Þetta var helvítis vosbúð“, sagði Magnús.
Aftur hljóp í mig hrollur.
Ég var farinn að hlakka til að koma heim og leggjast eins og hundur við sjónvarpið.

Brimróður

Sjómenn komast á kjöl eftir brimlendingu. Bjarni Jónsson.

Við höfðum ekið fram hjá Ísólfsskála á heimleið. Körlunum hafði ekki orðið orðs vant. Nú töluðu þeir um Guðmund á Háeyri.
Magnús sagði: „Rólegir drengir, ekki liggur mér á“ sagði hann þegar var að verða ófært, hann vissi hvað það gilti.“
Eyjólfur sagði: „Guðmundur var kominn að Eyrarabakkasundi og búið að flagga frá, talið ófært. Þá sagði hann: „Við skulum stöðva snöggvast hér rétt utan við sundið“, og stendur upp og horfir þegjandi fram á brimgarðinn og segir svo enn: „Nei, sko andskotans brimið“ — og rétt í sömu svifum: „Takið brimróðurinn“, og þeir höfðu lífið. Hann umgekkst ólögin eins og leikföng. En þau voru það ekki fyrir óvana“, bætti Eyjólfur við og vissi af eigin reynslu, hvað hann söng.
Magnús sagði að Guðmundur hefði stundum hikað við að fara inn af ótta við að önnur skip kæmu kannski á eftir og mundu ekki hafa það. Þá segir Eyjólfur: „Jón Sturlaugsson á Stokkseyri hikaði stundusm líka, vegna þess að hann bjóst við að aðrir mundu fylgja sér eftir. Hann var einnig afbragðs sjómaður. Og honum var ekki heldur fisjað saman, honum Hafliða föður þínum. „Ó, þetta er bara þurraslydda, þurraslydda“, sagði hann . . .

Selatangar

Selatangar – Katlahraun.

„Þetta hefur þú heyrt“, sagði Magnús og glaðnaði við.

Sjóferðabæn

Sjóferðabæn. Bjarni Jonsson.

Svona göntuðust karlarnir, meðan myrkrið datt á. Þeir töluðu um Berg í Kálfhaga og sögðu, að Guðmundur á Háeyri hefði haft hann handa körlunum sínum til að grínast með. Einhvern tíma segir Bergur, „það er óhætt upp á lífið að róa hjá Guðmundi á Háeyri, en aðköllin ósköpin.“
„Róðu nú Bergur, róðu nú Bergur, og róðu nú helvítið þitt Bergur“, sagði Guðmundur víst eitt sinn í róðri.
Og í annað skipti bar það til tíðinda, eins og oft var, að bóndi ofan úr sveit fékk að róa hjá Guðmundi til að fá í soðið fyrir heimili sitt. Þegar þeir höfðu ýtt á flot var venja að taka ofan sjóhattinn og lesa sjóferðabæn. Bóndinn hafði bundið á sig hattinn og átti erfitt með að ná honum af sér. Þá kallar Guðmundur formaður og segir: „Ég held þú getir lesið Andrarímur eða einhvern andskotann, þó þú sért með helvítís kúfinn á hausnum“.

Hraun

Hraun.

Og nú blasir við Hraun.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á starndsstað.

Þarna á ströndinni hafa orðið Skipstapar. Magnús hefur áður sagt mér af þeim: Franska togaranum Cap Fagnet, sem strandaði sunnan undir Skarfatöngum aðfaranótt 24. marz. 1931, og St. Louis, enskum togara, sem strandaði snemma í janúar 1940 í Vondu fjóru. Öll skipshöfnin var dregin í land í björgunarstól nema skipstjórinn. Hann kom ekki út úr brúnni nærri strax. Björgunarmenn biðu eftir honum í allt að 10 mínútur áður en hann sást á brúarvængnum. Hann fetaði sig niður á dekkið og fram að vantinum. En þegar hann var kominn að björgunarstólnum, féll hann allt í einu aftur yfir sig og ofan í ólgandi brimlöðrið. Þar varð hann til.
Magnús á Hrauni hefur margt séð og margt lifað. Hann hefur marga fjöruna sopið.“ – M.

Heimild:
-Morgunblaðið, 264, árg. 19.11.1967, Var munnkurinn draugur?, bls. 1-5.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Slaga

Í Morgunblaðinu 1991 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur m.a. um „Fagradalsfjall og Slögu ofan Ísólfsskála„.

Slaga

Slaga að sunnanverðu.

„Næstkomandi sunnudag verður farinn þriðji áfangi raðgöngu Ferðafélagsins um gosbeltið suðvestanlands. Brottför verður frá Umferðarmiðstöðinni, austanmegin, kl. 10.30 og 13. Hér á eftir er stiklað á stóru í jarðfræði þess svæðis sem farið verður um. Sé gengið frá Bláa lóninu austur yfir, má fara hvort heldur vill norðan Svartengisfells eða suður yfir Selháls og austur eftir hraununum þar fyrir sunnan og austan.

Slaga

Slaga.

Hvor leiðin sem farin er verður gengið þvert yfir gígaröðina, sem Slaga er, þar gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist. Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið.
Sé gengið norðan fellsins, er vert að veita því athygli hvað gróður breytist þegar kemur austur fyrir gilið, sem er upp af samkomustaðnum gamla. Vestan gilsins er fellið gróið upp eftir hlíðinni og þar grænkar fyrr á vorin. Þetta stafar af jarðhita og gilið er tengt sprungu og ummyndun af jarðhita er þar mikil. Á háfellinu er myndarlegur gígur og frá honum hafa hraun runnið og þekja fjallið.

Vatnsheiði

Vatnsstæðið í Vatnsheiði.

Austan við Sundhnúkahraunið tekur Vatnsheiði við. Það er hraunskjöldur (dyngja) eða hraunskildir öllu heldur, því gosopin eru fleiri en eitt. Nyrsti skjöldurinn er þó þeirra mestur en hraunið er pikrít, mjög ólívínauðugt berg, sem sums staðar er nærri grænt af ólívínkristöllum, en þeir eru mjög dreifðir um bergið. Vatnsheiði er eldri en sprunguhraunin í kring og hverfur því hraunið úr dyngjunum undir þau. Dyngjuhraunin hafa verið þunnfljótandi, heit og talið er að þau komi djúpt úr jörðu, jafnvel neðan úr möttli.

Fagradalsfjall

Gígurinn í Fagradalsdfjalli.

Fagradalsfjall er stapi og gígurinn er á norðurhorni þess og er all myndarlegur. Hraunborð er svo ofan á fjallinu og hallar borðinu til suðurs. Er talið líklegt að jökull hafi haldið að á báðar hliðar þegar komið var á lokastig gossins og þannig markað hrauninu rás svo úr verði þríhyrningur. Syðst á fjallinu eru yngri (nútíma) gígar og hraun í og við lítinn sigdal (snoturt umhverfi, góður hvíldarstaður).

Slaga

Slaga – berggangur.

Slaga. Sunnanfrá séð er Slaga mest áhugaverð. Neðst ofan við skriðurnar koma fram gráir stuðlabergshamrar (grágrýti). Að ofan eru þeir rispaðir af jökli (sést ekki nema upp sé klifrað, varúð, grjóthrun getur átt sér stað). Ofan á þessu kemur svört brotabergskennd gosmyndun, sem þó er yngri en jökull sá er heflaði grágrýtið.
Aðrennslisæð þessarar gosmyndunar má sjá norðaustan til í brúninni, ljósgrá brík, gangur, skerst þar upp í brún og fleiri gangar, þunnir, eru þarna. Á síðjökultíma hefur sjór fallið upp að fjallinu. Hraun hafa þarna og nokkuð austar eftir skapað væna sneið af nýju landi.“ – Höfundur er jarðfræðingur.

Heimild:
-Morgunblaðið, 98. tbl. 03.05.1991, Slaga, Jón Jónsson, bls. 25.

Slaga

Slaga.

Þorgautsdys

Í uppgraftarskýrslu um „Dysjar hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi„, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Útdráttur

Dysjar hinn adæmdu

Forsíða „Dysja hinna dæmdu II“.

Grafið var í meinta dys, Þorgautsdys/Þorgarðsdys, á Arnarnesi í Garðabæ í júlí 2019. Uppgröfturinn var hluti af rannsóknarverkefninu „Dysjar hinna dæmdu“. Markmið uppgraftarins var að ganga úr skugga um hvort um dys væri að ræða. Eftir að grjóthrúgan var afhjúpuð og grafnar í hana fjórar könnunarholur sem náðu niður á jökulruðning var ljóst að í henni voru engar mannsvistarleifar. Því var ályktað að ekki væri um dys að ræða heldur geti grjóthrúgan hafa verið landamerki eða orðið til við túnhreinsun og að þjóðsaga hafi spunnist út frá henni.

Forsaga rannsóknar
„Markmið verkefnisins er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi frá 1550–1830 hérlendis. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Með því að grafa upp suma þeirra má varpa frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Loks verða aftökurnar settar í sögulegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta. Dysin sem hér er fjallað um hefur ýmist verið kölluð Þorgarðsdys og Þorgautsdys en talið var að þar væri dysjaður afbrotamaður sem tekinn var af lífi á Kópavogsþingi.

Þorgautsdys

Þorgautsdys – loftmynd.

Dysin er nefnd í Landamerkjalýsingu fyrir þjóðjörðinni Arnarnesi í Garðahreppi sem Gísli Sigurðsson skráði. Þar er einnig vitnað í Landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar segir: „Inn með Nesinu að norðan liggur að því Kópavogur. Inn með nesinu eru nokkrir stórir steinar í fjörunni, nefnast Bæjarsteinar, af hverju sem það nú er. Nokkru þar fyrir innan, spöl uppi í holtinu, er Gvendarbrunnur, lind sem Guðmundur biskup góði á að hafa vígt. Frá brunninum rennur Brunnlækurinn til sjávar. Þar enn innar með fjöru er svo Arnarneskot, Arnarnes gamla eða Arnarnes litla. Ofan til við það er dys, nefnist Þorgautsdys. Þar var réttaður þjófur, og gekk hann mjög aftur og var lengi á ferli í Seltjarnar- og Álftaneshreppum.“

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

Gísli telur að Þorgautur, sá sem dysin hefur gjarnan verið kennd við, hafi verið þjófur sem var réttaður. Nafnið Þorgautur kemur þó hvorki fram í Alþingisbókum né Annálum Íslands 1400-1800 í tengslum við aftökur. Hins vegar er vitað að fjölda dauðadóma, fyrir hin ýmsu brot, var framfylgt á Kópavogsþingi og því ekki ólíklegt að dysjar sakamanna sé að finna á þessu svæði. Ekki langt frá dysinni sem hér um ræðir gróf Guðmundur Ólafsson upp svokallaða Hjónadys árið 1988 og fann þar beinagrindur karls og konu sem greinilega höfðu verið tekin af lífi (Guðmundur Ólafsson 1996). Raunar eru fleiri meintar dysjar afbrotamanna í Kópavogi og nefnir Gísli Sigurðsson tvær dysjar auk Þorgautsdysjar, þ.e. Kulhesdys og Þormóðsdys: „Þarna liggur um holtið Hafnarfjarðarvegurinn. Á háholtinu vestan hans er stór þúfa, og liggur alfaraleiðin rétt hjá. Hér er Þormóðsleiði eða Þormóðsdys. Enn vestar er svo Kulhesleiði eða Kulhesdys. Þormóður var dæmdur á Kópavogsþingi til lífláts fyrir þjófnað, en Kulhes, þýzkur maður, dæmdur þar fyrir mannvíg. Vó mann, íslenzkan, á Bessastöðum.“
Þorgautsdys
Í grein sinni „Nokkrar Kópavogsminjar“, sem birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1929, tekur Matthías Þórðarson Þuríði Guðmundsdóttur Mathiesen tali árið 1926 en hún var fædd árið 1855 í Kópavogi og uppalin þar til 19 ára aldurs (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 29).

Garðabær

Þorgarðsdys í Arnarnesi.

Þuríður nefnir áðurnefnda dys og kennir hana við mann að nafni Þorgarður sem getið er um í þjóðsögum. Matthías veltir fleiri tilgátum fyrir sér en telur í öllu falli líklegast að hún sé dys afbrotamanns: „Neðar [en Kulhesdys], á norðanverðum hálsinum. Kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388-91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá að sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaksmál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita.“ (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 30).
Þorgautsdys/Þorgarðsdys er auk þess skráð í skýrslunni Fornleifaskráning Arnarnes í Garðabæ frá árinu 2018 eftir Ragnheiði Traustadóttur. Þar er oft vitnað í báðar fyrrnefndar ummfjallanir. Í skráningarskýrslunni eftir Ragnheiði segir einnig að Guðmundur Ólafsson hafi skráð staðinn árið 1983 fyrir Þjóðminjasafn Íslands og talið að um Þorgarðsdys væri að ræða. Skýrsla um skráningu Guðmundar var aldrei gefin út en gögnin nýttust við skráninguna árið 2018. Ragnheiður skráði Þorgautsdys/Þorgarðsdys sem dys eða legstað og sagði hana líklegri til að vera dys en hinar tvær, Þormóðsdys og Kulhesdys, vegna þess að staðsetning þeirra í fyrri skráningu virðist vera tóft og fuglaþúfa.“

Niðurstaða
Þorgautsdys
„Eftir að komist var niður á jökulruðning í öllum fjórum holunum sem grafnar voru í grjóthrúguna, án þess að leifar dysjaðrar manneskju hefðu fundist, var áætlað að hér væri ekki um dys að ræða. Þrátt fyrir að það hafi verið örlítil vonbrigði er það áhugaverð útkoma.

Arnarnes

Gamla þjóðleiðin frá Kópavogi yfir Arnarnesháls. Litla-Arnarnes t.v.

Þessi grjóthrúga hefur verið talin vera dys síðan vel fyrir aldamótin 1900, ef marka má frásögn Þuríðar Guðmundsdóttur Matthíansen: „Vert er að nefna það að fyrir nokkrum árum síðan var lagður hjólastígur yfir Arnarneshæðina og niður í Kópavog en hann var sveigður fram hjá dysinni. Ef til vill getur þessi grjóthrúga hafa myndast eftir túnhreinsun og út frá henni spunnist þjóðsaga um Þorgaut/Þorgarð. Venjan var að landamerki eins og vörður væru nálægt þjóðleiðum og að ferðalangar bættu við grjóti í þær á leið sinni fram hjá. Það sama átti við um dysjar sem hafðar voru nálægt alfaraleið til áminningar og viðvörunar. Því getur verið að upphaflega hafi hrúgan verið landamerki eða myndast eftir túnhreinsun og síðan hafi steinum verið bætt á af ferðalöngum árum saman og þannig orðið til þessi stóra sennilega hrúga.“
[Framangreind niðurstaða þarf ekki að koma svo mikið á óvart; nánast engin kum eða dysjar, sem getið er í lýsingum Íslandsbyggðar hvað fyrrum landnámsmenn varðar, hafa átt við rök að styðjast hingað til].

Heimild:
-Dysjar Hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi, Reykjavík 2019.

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

 

 

 

 

 

 

 

Lækjarbotnar

Í rannsókn á „Dysjum hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum„, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:

Rannsókn

Hallberuhellir

Forsíða rannsóknarinnar um Hallberulelli.

Þann 7. ágúst 2019 fór fram rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnalandi. Í hellinum er talið að Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haldið til um tíma en þau voru tekin af lífi á Öxarárþingi árið 1677 fyrir útileguþjófnað og hórdómsbrot. Rannsóknin á hellinum er þáttur í verkefninu Dysjar hinna dæmdu sem miðar að því að afla upplýsinga um einstaklinga sem teknir voru af lífi á Íslandi á árunum 1550 til 1830, bæði með tilliti til brota þeirra og dóma en einnig til bakgrunns þeirra, samfélagsstöðu og búsetu. Tilgangur rannsóknarinnar á Hallberuhelli er að varpa ljósi á aðstæður og lifnaðarhætti einstaklinga sem lifðu á flakki hér á landi og hlutu síðar dauðarefsingu fyrir þjófnað og fleiri brot. Rannsóknin á hellinum fólst fyrst og fremst í úttekt á innréttingu hans og voru gólf og veggir hans því ljósmyndaðir og teiknaðir en auk þess var gerður prufuskurður í gólf hellisins og þaðan tekin sýni.

Forsaga rannsóknar
Hallberuhellir
„Á Íslandi fóru fram um 240 aftökur á tæplega þremur öldum, frá siðaskiptum, þegar rétturinn til refsinga færðist úr höndum kirkjunnar til veraldlegra valdhafa, til ársins 1830 þegar síðustu dauðadómunum var framfylgt hér á landi. Dauðadómar féllu fyrst og fremst fyrir morð, galdra, þjófnað, dulsmál og blóðskömm.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – hellisopið.

Árið 2018 hófst vinna við rannsóknarverkefnið „Dysjar hinna dæmdu“ en markmið þess er að varpa ljósi á dauðadæmda einstaklinga á íslenskri árnýöld með tilliti til brota þeirra og dómsmeðferðar sem og félagslegs bakgrunns þeirra, kyns, aldurs, stöðu, fjölskyldurhags og búsetu. Rannsóknarverkefni þetta hefur leitt í ljós að dauðadómar á Íslandi féllu oftar fyrir þjófnað en nokkra aðra tegund brota og fleiri en 70 þjófar voru teknir af lífi á árunum 1584–1758. Svo virðist sem að flestir þessara þjófa hafi verið heimilislausir einstaklingar sem lifðu á flakki og stálu sér til viðurværis. Rannsóknin á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, þar sem talið er að útilegufólkið Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafi haft aðsetur á síðari hluta 17. aldar, er liður í áðurgreindu verkefni en tilgangur hennar er að kanna aðstæður og lífshætti flakkara og dæmdra afbrotamanna.
HallberuhellirMargrétar Símonardóttur og Eyvindar Jónssonar er getið í fjölmörgum rituðum heimildum og eru mál þeirra gjarnan kölluð Eyvindarmál hin fyrri til þess að greina þau frá málum Fjalla-Eyvindar og Höllu sem lögðust út tæpri öld síðar (Ólafur Briem 1983, bls. 28).
Í annálum kemur fram að Margrét og Eyvindur, sem var þá þegar giftur annari konu, hafi tekið saman og hlaupið úr Ölfusi. Fyrst um sinn munu þau hafa haldið til vestur undir Snæfellsjökli (Fitjaannáll, bls. 427; Hestsannáll, bls. 512). Síðar földu þau sig í helli sunnan við Örfiriseyjarsel sem Árni Magnússon nefnir Hraunhelli en hefur á síðari árum verið kenndur við Hallberu Jónsdóttur sem bjó á Lækjarbotnum á síðari hluta 19. aldar (Árni Magnússon, bls. 60; ferlir.is). Þann 20. október 1677, þegar Margrét og Eyvindur höfðu legið úti í meira en tvö ár, voru þau handtekin við Hallberuhelli og þýfi þeirra, sem samanstóð af nautakjöti og öðrum hlutum, gert upptækt (Alþingisbækur VII, bls. 403 – 405).

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Á Bakkárholtsþingi þá um haustið voru Margrét og Eyvindur dæmd sek um hórdómsbrot með barneign, burthlaup úr héraði sem og foröktun sakramentis og heilagrar aflausnar. Í þetta sinn sluppu þau við dauðadóm en áttu að hljóta þrjár húðlátsrefsingar hvort um sig. Í dómsskjalinu kemur þó fram að sýslumaðurinn, Jón Vigfússon, mætti milda dóm Margrétar ef honum sýndist „vegna hennar nú sýnilegra vesalburða.“ Degi síðar var fyrsta refsingin lögð á þau. Eftir að hafa tekið út allar refsingarnar voru fangarnir svo sendir til Kjalarnessýslu þar sem þjófnaðarmál þeirra var tekið fyrir en samkvæmt lögum átti að dæma í slíkum málum í þeirri sýslu sem þjófnaðurinn fór fram (ÞÍ. Sýslumaðurinn í Árnessýslu 0000 GA/1-2-1).

Engidalur

Engidalur – bæli.

Á Kópavogsþingi voru Margrét og Eyvindur dæmd til líkamlegrar refsingar fyrir þjófnað en eftir að hafa staðið hana og meðtekið sakrament í Skálholtsdómkirkju voru þau aðskilin og tók eiginkona Eyvindar, Ingiríður, hann aftur til hjónabands. Refsingin dugði þó skammt því „þessar vandræðapersónur“ tóku fljótt upp útilegusamvistir á ný og fundust saman í rekkju í hreysi undir bjargskúta við Ölfusvatn með þýfi sitt. Voru þau fangelsuð á heimili valdsmannsins Stórólfshvoli og svo færð í járnum á Öxarárþing þar sem þau voru dæmd til dauða fyrir ítrekuð hórdómsbrot og útileguþjófnað. Þann 3. júlí 1678 var dauðadómnum framfylgt og eftir að hafa meðtekið kristilegar fortölur „til sannrar viðurkenningar, huggunar og trúarstyrkingar í herrans Kristí blessaðri forþénustu” var Eyvindur Jónsson hálshöggvinn en Margréti Símonardóttur drekkt – allt samkvæmt fyrirmælum Stóradóms (Alþingisbækur VII, bls. 403–405).
HallberuhellirEkki er vitað hversu lengi nákvæmlega Margrét og Eyvindur dvöldu í Hallberuhelli, þar sem þau voru handtekin, þann 20. október 1677. Hallberuhellir virðist þrátt fyrir allt ekki alslæmur felustaður; á þessum tíma var enginn bær nálægt hellinum en hann lá þó sennilega ekki algjörlega úr alfaraleið því rétt vestan við hann er talið að Örfirisey hafi átt sel átti til ársins 1799. Hugsanlega nýttu Margrét og Eyvindur sér þetta og stálu fé seljanna til viðurværis.

Viðeyjarsel

Viðeyjar (Örfiriseyjar-) Bessastaðasel).

Sem áður segir rak Örfirisey sel á Lækjarbotnum til ársins 1799. Árið 1868 fékk Þorsteinn Þorsteinsson svo nýbýlaleyfi fyrir landinu og lét Hallberu Jónsdóttur, sem Hallberuhellir er kenndur við, helming jarðarinnar. Á fyrri hluta 20. aldar gaf Guðmundur H. Sigurðsson, sem þá var bóndi að Lækjarbotnum, Skátasambandi Reykjavíkur land á jörðinni. Síðan þá hefur verið starfræktur skátaskáli á Lækjarbotnum (ferlir.is; gardbuar.com).
Fornleifarannsókn hefur ekki áður farið fram í Hallberuhelli en í rannsókn á seljum í Reykjavík, þar sem fjallað er um Örfiriseyjarsel, er hellirinn merktur á kort og hann er því ekki óþekktur. Hellirinn hefur auk þess verið nefndur í ferðahandbókum, t.a.m. í Árbók Ferðafélag Íslands (Egill J. Stardal 1985).“

Niðurstöður

Lækjarbotnar

Hellisopið.

„Sagnir af útilegumönnum eru gjarnar sveipaðar dulúðlegum og þjóðsagnakenndum blæ. Mál Fjalla-Eyvindar og Höllu er sennilega eitt besta dæmi þess. Sem áður segir var útilega og flakk þó raunveruleiki fjölda einstaklinga á íslenskri árnýöld og Eyvindarmálin tvö eru engan veginn einstök. Því er ekki ólíklegt að mannvistarleifar eftir útileguþjófa finnist í hellum þótt sjaldan sé minnst á það í hellarannsóknum.

Lækarbotnar

Lækjarbotnar – Hallberuhellir.

Hallberuhellir er hraunhellir og er hvelfing hans því náttúrusmíð. Þó eru hlutar hellisins greinilega manngerðir; við hellismunnann hefur grjóti verið hlaðið og set hafa verið útbúin upp við norðurvegginn þar sem hægt er að tylla sér og horfa út um hellismunnann. Þó er eftitt að ákvarða hvenær innréttingarnar voru gerðar í hellinum og ekki hægt að fullyrða að þær séu frá tíma Margrétar og Eyvindar. Raunar fannst ekkert í hellinum sem beint var hægt að rekja til dvalar Margrétar og Eyvindar enda voru þar hvorki gripir né jarðlög sem unnt var að aldursgreina. Áhugavert væri þó að framkvæma skordýra- og/eða frjókornagreiningar á jarðvegssýnunum sem tekin voru og í framhaldinu og m.a. nýta þær til kolefnisaldursgreininga.“

Hallberuhellir

Hallberuhellir – teikning.

[FERLIRsfélögum er þrátt fyrir allt framangreint ómögulegt að skilja hvers vegna umræddur hellir hefur fengið nafngiftina „Hallberuhellir“ í  framangreindri rannsókn!?]. Með fullri virðinu fyrir nefndri Margréti, ætti skjólið það arna, fremur að draga nafn sitt af þeirri „mætri“ manneskju. Öll höfum við þurft að takast á við misjafnar aðstæður um lífsins skeið; stundum tekst vel til, stundum ekki. Ef ekki tekst vel til, er og hefur alltaf verið til fólk hér á landi, og jafnvel utan þess, sem er tilbúið að dæma, hvernig til tókst – að þess mati…

Heimild:
-Dysjar hinna dæmdu – Rannsókn á Hallberuhelli í Lækjarbotnum, Reykjavík 2019.

Lækjarbotnar

Hellirinn í Lækjarbotnum.

 

Aftaka

Í áfangaskýrslu um „Dysjar hinna dæmdu“ frá árinu 2018, segir m.a.:

Inngangur

Dysjar hinna dæmdu

Forsíða áfangaskýrslunnar um „dysjar hinna dæmdu“.

„Skömmu eftir siðaskiptin færðist réttur til refsinga frá kirkju til veraldlegra valdhafa. Var þá farið í ríkara mæli en nokkru sinni fyrr að beita líkamlegum refsingum fyrir hvers kyns afbrot. Nýjum lagabálki, Stóradómi, var einnig bætt við gildandi lög en dæmt var eftir honum í siðferðisbrotamálum. Fólk var einkum tekið af lífi fyrir fimm flokka brota. Það var fyrir blóðskömm, dulsmál, morð, þjófnað og galdra en einnig fyrir iðkun kaþólskrar trúar. Fyrsta dómsúrskurði um dauðarefsingu var raunar ekki fullnægt hérlendis fyrr en seint á 16. öld. Árið 1551 voru aftur á móti fimm karlmenn teknir af lífi án dóms og laga í trúarbragðastríði því sem ríkti vegna siðaskiptanna. Frá 1582 urðu aftökur síðan nær árlegur viðburður og allt til ársins 1792 en þá fækkaði þeim verulega aftur. Síðasta aftakan fór svo fram árið 1830 eftir 25 ára langt hlé en dauðarefsingar voru ekki afnumdar úr íslenskum lögum fyrr en árið 1928.“
Það verður að segjast eins og er að stundum ferst fólki ekki fyrir er kemur að uppgreftri hinna dauðu.

Markmið rannsóknarinnar

Kuml

Kuml.

„Markmiðið með rannsókninni sem hér er sagt frá er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi hérlendis frá 1551–1830. Nöfn þeirra, brot og dómar verða skráð en einnig verður bakgrunnur þeirra kannaður með tilliti til stöðu, fjölskylduhags og búsetu. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Stefnt er að því að grafa upp sumar dysjanna svo varpa megi frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Auk þess verða aftökurnar settar í sögulegt og félagslegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta, og tilraun gerð til þess að greina bakgrunn líflátinna og um leið ástæður brotanna. Athugað verður hvort brotum hafi fjölgað í hallærum og sömuleiðis hvort greina megi breytingar í viðhorfi til þeirra á tímabilinu. Loks verður stétt böðla könnuð.

Rannsóknin mun byggja á kenningum um efnismenningu og undirsáta (e. subaltern) en einnig póst-marxisma og femínisma.
Dysjar hinna fordæmdu
Hugmyndafræðileg mótun stétta og stéttskiptingar, kynbundið misrétti og möguleikar undirsáta til að hafa áhrif á ríkjandi viðmið verða þannig í forgrunni (sjá t.d. Spivak 1988; Therborn 1999; 2013; Young 2003).

Kuml

Kuml.

Gert er ráð fyrir að rannsóknin standi yfir í að minnsta kosti fimm ár en hún hófst í maí árið 2018. Vinnan þetta fyrsta ár fólst að miklu leyti í að taka saman heimildir um dauðarefsingar á Íslandi og að gera gagnagrunn yfir þá einstaklinga sem teknir voru af lífi. Nær gagnagrunnurinn yfir öll þau mál sem getið er um í Annálum Íslands 1400–1800 auk örfárra annarra mála sem fundust fyrir tilviljun meðan á vinnslu hans stóð. Listinn yfir þær aftökur sem hér fóru fram er vafalaust ekki tæmandi, því eftir er að fara markvisst yfir héraðsdómsbækur og þjóðsögur, auk þess sem Alþingisbækurnar voru aðeins lesnar að hluta. Við gerð gagnagrunnsins var fyrst og fremst litið til dauðadóma sem var framfylgt.

Kuml

Kuml.

Dæmi þess að dauðadómar væru mildaðir af konungi eru mörg, sér í lagi frá síðari hluta 18. aldar og nær listinn ekki yfir slík mál. Hins vegar voru dauðadæmdir einstaklingar sem létust áður en aftaka þeirra fór fram skráðir enda má ætla að dauðadómum þessara einstaklinga hefði verið framfylgt hefðu þeir lifað. Þá eru talin með tilvik þar sem ekki er vitað hvort dauðadómi var fylgt eftir eða ekki. Farnar voru vettvangsferðir til fjarkannana eða uppgraftar á samtals átta aftökustaði sumarið 2018 og verður sagt nánar frá þeim hér á eftir. Eins voru stakir beinafundir kannaðir en fara þarf betur yfir þá staði þar sem óútskýrð mannabein hafa fundist. Loks var farið yfir þá uppgrefti sem hafa verið gerðir á dysjum dauðadæmdra.

Um líflátsdóma og aftökur á Íslandi
Dysjar hinna dæmdu
Elstu ákvæði um dauðarefsingar er að finna í Járnsíðu frá 1281 og litlu síðar í Jónsbók en heimildir um aftökur fyrir siðaskipti eru þó fáar. Og enda þótt ákvæði um dauðarefsingar hafi verið til í íslenskum lögum allt frá 13. öld og þeim framfylgt að vissu marki, mörkuðu siðaskiptin – líkt og fyrr getur – upphaf hrinu dauðarefsinga sem lauk seint á 18. öld.

Drekkingahylur

Drekkingarhylur, málað á staðnum á Þingvöllum. Höfundur er Guðlaugur Jón Bjarnason.

Við siðaskiptin var iðkun kaþólskrar trúar bönnuð og fólki refsað fyrir slík brot. Stærsta breytingin varð hins vegar þegar Danakonungur fyrirskipaði með bréfi rituðu árið 1554 að sýslumenn skyldu taka við afgreiðslu dóma vegna hvers kyns afbrota í stað kirkjuvaldsins. Um leið var kristniréttur Árna biskups frá 1275 afnuminn (DI XIV, bls. 271–276; Már Jónsson 1993, bls. 90–93). Eftir það var dæmt til dauða hérlendis fyrir alla þá fimm flokka brota sem nefndir eru hér að framan. Það er raunar ekki fyrr en Stóridómur var innleiddur í landslög árið 1564 að dæmt var til dauða fyrir ýmis siðferðisbrot, eins og til dæmis blóðskömm en það var samræði var haft í náinni frændsemi og fyrir þriðja hórdómsbrot. Átti að drekkja konum en hálshöggva menn fyrir slík brot (DI XIV, bls. 271-276).

Þingvellir

Þingvellir – aftökustaðir.

Stóridómur tók reyndar ekki á hinum svokölluðu dulsmálum, þ.e. þegar leynt var farið með fæðingu barns og því fargað. Hins vegar var getið um dauðarefsingu fyrir slík brot í dönskum lögum og var lengi vel dæmt eftir þeim hérlendis þó aðferðir við aftökur væru frekar í takt við ákvæði Stóradóms (Már Jónsson, 2000). Karlar voru því nærri alltaf hálshöggnir og konum oftast drekkt þótt að í sumum tilfellum hafi þær einnig verið höggnar á háls; Ingibjörg Jónsdóttir var til að mynda hálshöggvin fyrir dulsmál árið 1792. Þá gætti áhrifa siðaskiptanna ekki síst í galdramálum þegar kom að dauðadómum. Ýmis konar hvítagaldur sem kaþólska kirkjan hafði réttlætt töldu siðskiptamenn hættulegan og þeir sem fundnir voru sekir um kukl og meðferð galdrastafa voru brenndir á báli (Sigurlaugur Brynleifsson, 1976).
Af samantektinni, sem hér hefur verið gerð yfir dauðadóma, sést glögglega að karlar sem dæmdir voru fyrir morð voru nær alltaf hálshöggnir og sumir pyntaðir að auki.

Þingvellir

Þingvellir – Drekkingarhylur.

Fyrir dauða sinn árið 1596 var svo dæmi sé tekið Axlar-Björn limmarinn með sleggjum og árið 1752 var Kjöseyrar-Jón klipinn fjórum sinnum með glóandi töngum áður en hægri hönd hans og loks höfuð var höggvið af og sett á stöng öðrum til viðvörunar. Eitt dæmi er þess að manni væri drekkt fyrir morð. Hann hét Ögmundur Þorkelsson og hafði sjálfur drekkt syni sínum. Ýmsum aðferðum var beitt við aftöku á konum sem dæmdar voru fyrir morð en líkt og í tilfelli Ögmundar virðist stundum gilda nokkurs konar „auga-fyrir-auga” lögmál. Guðrún Þorsteinsdóttir var til að mynda brennd á báli árið 1608 fyrir að hafa brennt barn í grautarkatli norður í Þingeyjarþingi og árið 1706 var Kristínu Björnsdóttur drekkt en hún hafði sjálf drekkt 6 vetra gamalli dóttur sinni.

Að aftöku lokinni var fólk oftast dysjað á aftökustað, ýmist í gjótum eða í grunnum gröfum sem huldar voru grjóti. Svo virðist þó sem að þeir sem voru hengdir hafi verið látnir hanga í gálganum þar til reipin slitnuðu. Það kemur fram í þjóðsögum en laus bein hafa einnig fundist ofanjarðar við gálgakletta eða gálgagil (sjá t.d. Íslenskar þjóðsögur 1945, bls. 232).

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Eins voru höfuð þeirra sem voru hálshöggnir alla jafna sett á stöng við dysina og látin vera þar þangað til þau féllu sjálf til jarðar. Í einu tilviki er vitað til þess að höfuð tveggja líflátinna í sama máli hafi verið grafin á aftökustað skömmu eftir aftökuna en talið er að sveitungar þeirra hafi gert það þar sem þeim ofbauð meðferðin á líkunum. Um var að ræða síðustu aftöku á Íslandi (Sigrún Huld Þorgrímsdóttir 2005). Þá eru að minnsta kosti tvö dæmi um að líflátnir hafi fengið greftrun í kirkjugarði eða við kirkjugarð – án helgiathafnar. Það voru þær Katrín Þorvarðsdóttir sem tekin var af lífi 1703 og Ingibjörg Sölvadóttir 1758 (Vallannáll, bls. 350; Ölfusvatnsannáll, bls. 46; Már Jónsson 2000, bls. 254).
Fimm dysjar dauðadæmdra hafa verið grafnar upp en auk þess hafa mannabein fundist á stöku aftökustað, einkum þá þar sem fólk var hengt. Hefur sumum þeirra verið skilað til Þjóðminjasafns en ekki öllum.

Gagnagrunnur yfir dauðadóma
Dysjar hinna dæmdu
Þegar gagnagrunnurinn lá fyrir sumarið 2018 var gerð samantekt um aldur og kyn dauðadæmdra, hvar þeir bjuggu og hver staða þeirra var. Þá var kannað í hvaða sýslum var dæmt og hvar aftökustaðirnir voru innan þeirra. Loks var tíðni brota af hverri gerð skoðuð og skoðað hvort samhengi var á milli þeirra og aðstæðna í samfélaginu. Ekki vannst tími þetta fyrsta ár rannsóknarinnar til að skoða bakgrunn böðla á Íslandi eða kanna afdrif barna og annarra afkomenda dauðadæmdra. Það verður gert síðar.

Stakkavík

Stakkavík – Gálgar.

Samantektin á aftökum nær yfir 235 einstaklinga; 69 konur og 166 karla. Aðeins tókst að áætla aldur 112 einstaklinga sem dæmdir voru til dauða en af þeim var sá yngsti 14 ára og sá elsti 80 ára. Algengasta aldursbilið var 35–39.
Oftast féllu dauðadómar fyrir þjófnað, af þeim fimm gerðum brota sem dæmt var til dauða fyrir (morð, blóðskömm, dulsmál og galdra, auk þjófnaðar). Athygli vekur líka að aftökur fyrir þjófnað fóru eingöngu fram á 174 ára tímabili, frá 1584 til 1758, á meðan tekið var af lífi fyrir flest önnur brot allt tímabilið frá 1551–1830. Aftökur vegna galdra skera sig einnig úr fyrir þetta en þær fóru fram á enn styttra tímabili, frá 1625–1685, enda yfirleitt talað um galdrafár í því sambandi.
Hlutföll kynja í þessum tveimur flokkum er sömuleiðis áberandi ójöfn. Alls voru 75 einstaklingar hengdir fyrir stuld og af þeim voru tvær konur. Aðeins ein kona þó var í hópi þeirra 22 einstaklinga sem brenndir voru fyrir galdra. Karlmenn voru raunar einnig í meirihluta í morðmálum; 27 karlar hlutu dauðarefsingu fyrir morð en sex konur. Dauðadæmdar konur eru hins vegar áberandi fleiri en karlar í flokkum siðferðisbrota. Í annálum er getið um 34 konur sem teknar voru af lífi fyrir dulsmál en sex þeirra voru líka dæmdar fyrir blóðskömm. Ellefu karlar voru hálshöggnir fyrir dulsmál og voru sex þar af um leið dæmdir fyrir blóðskömm.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Kynjaskipting þeirra sem einungis hlutu dauðarefsingu fyrir blóðskömm er raunar nokkuð jöfn; 26 konur misstu lífið fyrir slík brot en 23 karlar.
Algengasti aftökustaðurinn voru Þingvellir en að minnsta kosti 72 einstaklingar voru teknir af lífi þar nær allt tímabilið sem hér um ræðir. Undantekningin er flokkur þjófa en þeir voru nær eingöngu teknir af lífi á á Alþingi tímabilið 1678 til 1703 og aðeins einn eftir það, árið 1726.

Kópavogsdysjar

Vettvangur Kópavogsdysja.

Einnig var algengt af aftökur færu fram á Kópavogsþingstað og í nágrenni við hann, í Elliðaá, á Bessastöðum og í Garðahrauni sunnan Bessastaða. Í Gullbringusýslu allri voru 22 teknir af lífi fyrir alla flokka brota. Dæmi um aðra algenga aftökustaði er Laugarbrekkuþing á Snæfellnesi þar sem ekki færri en fimm voru teknir af lífi og Gálgagil í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu. Reyndar fóru fram aftökur víðast hvar um landið. Að Norður-Þingeyjarsýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Skaftafellssýslum frátöldum voru skráðar aftökur í öllum sýslum.
Athygli vekur að tíðni aftaka milli ára var mjög breytileg og á vissum tímabilum má greina bylgjur í aftökum og því væri áhugavert er að skoða þessar bylgjur út frá sögulegu og félagslegu samhengi. Á það ekki aðeins við um galdra og þjófnað en augljós er fylgni milli fjölda aftaka fyrir þjófnað og verðurfars en ljóst er að þjófar voru oftast nær heimilislausir einstaklingar sem stálu sér til matar.

Hannes Finnsson

Hannes Finnsson, biskup.

Hannes Finnsson skrifaði um hallæri: „Á árunum 1627–1641 gekk Hvítivetur harðast að, féll þá margt fólk, svo og í bólunni 1635.“ Engin hallæri voru næstu 30 árin en undir lok 17. aldar geisuðu langvarandi stórharðindi og mannfækkun. Um árin 1697–1701 skrifar hann: „Hallæri, svo og rán og þjófnaður gekk fram úr máta, en breytir til hins betra 1702.” Á fyrri hluta 18. aldar tilféllu engin hallæri en árið 1751 byrjuðu mikil harðindi sem náðu hámarki 1757. Á þessum tímabilum eru aftökur á þjófum áberandi margar og mannfækkun sömuleiðis Þeir Íslendingar sem teknir voru af lífi komu alls staðar af á landinu. Hægt var að finna búsetustað flestra þeirra við aftöku, nema síst þegar þjófar áttu í hlut enda voru margir þeirra heimilislausir flakkarar.

Lokaorð

Þingvellir

Þingvellir – Gálgaklettur.

Samantektin sem hér er sagt frá sýnir að hérlendis var samtals nærri 240 dauðadómum framfylgt fyrir alls fimm flokka brota frá 1550 til 1830 er síðasta aftakan fór fram í landinu. Raunar fóru flestar aftökurnar fram á um tveggja alda tímabili sem stóð frá 1582–1792.

Þingvellir

Í kirkjugarðinum á Þingvöllum.

Áberandi margir eru dauðadómar fyrir þjófnað en allt í allt voru 75 þjófar teknir af lífi á Íslandi og aðeins á 174 árum, sá fyrsti árið 1584 en síðasti árið 1758.
Það voru vissulega vonbrigði fyrir leitarfólk að finna engar dysjar á þeim þremur stöðum þar sem grafið var. En leit verður haldið áfram og aðrar dysjar sem þó sáust ofan jarðar á öðrum stöðum verða skoðaðar nánar síðar.“
[Þrátt fyrir allt framangreint í þessari annars „ágætu“ rannsókn má þó með engu móti sjá að í gagnagrunninum framangreinda sé getið hinna fjölmörgu kumla á vestanverðum Reykjanesskaganum, hvorki í Höfnum, Garði, á Vatnsleysuströnd, við Álftanes né í Kjós, en á þeim nánast öllum hafa áður bæði farið fram opinberar rannsóknir og uppgreftir.]

Heimild:
-Dysjar hinna dæmdu – áfangaskýrsla 2018, Reykjavík 2018.
-https://notendur.hi.is/sjk/DYS_2018.pdf
-https://ferlir.is/kuml-i-gardi/

Þingvellir

Gengið um aftökustaði Þingvalla með Árna Björnssyni 2008.