2007 – 12. maí (fyrsta daginn eftir lokadag – upprifjun);
FERLIR-001: Helgafell. Fyrsta FERLIRsferðin. Þátttakendur mættu og voru við öllu búnir. Takmarkið var að komast fyrstu ferðina – allt til enda. Þegar öllum lúnum, og sumum mjög þreyttum, hafði tekist það, loksins, var markmiðið sett á a.m.k. eitt hundrað ferðir um Reykjanesskagann með það fyrir augum að skoða hann svo til allan – næstu mánuðina.
FERLIR-100 – ákveðið var að fara a.m.k. eitt hundrað FERLIRsferðir til viðbótar um Reykjanesskagann því ljóst var nú að mikið var enn óskoðað. Orðið þreyta var ekki lengur til í orðaforðanum. Öllum var nú meðvitað um að því meiri vitneskja sem fékkst því minna töldu þeir sig vita um svæðið.
FERLIR-200 – ákveðið að reyna að halda áfram og freysta þess að komast yfir sem flestar minjar og sögulega staði á Reykjanesi áður en skósólarnir væru allir. Svolítill styrkur fékkst frá Menningarmálanefnd Hafnarfjarðar til að skrá og ljósmynda minjar og minjastaði á Reykjanesi. Gerðar voru exel-skrár yfir helstu tegundir minja og gps-punktar þeirra skráðir. (Gps-tæki var fengið að láni hjá Jóni Svanþórssyni, ljósmyndavél hjá ónafngreindu fólki og ljósmyndarinn hverju sinni kostaði framköllun).
FERLIR-300 – í ljós hafði komið að af ótrúlega miklu var af að taka. Listinn yfir óskoðuð svæði og áður fundnar, en týndar, og líklegar ófundnar minjar lengdist óðfluga. Ákveðið var að ganga a.m.k. eitt hundrað ferðir til viðbótar og reyna að “tæma” svæðið ” af “skráningarskyldum” minjum.
FERLIR-400 – skráning minja hafði gengi vel og ótrúlega margar minjar og minjastaðir fundist við “leitir” á einstökum svæðum. Til að varðveita samhengið var og ákveðið að rissa upp helstu minjasvæðin til varðveislu og sem hugsanleg gögn til varanlegri framtíðar. Í fyrstu umferð voru teiknuð upp um 100 svæði. Uppdrættirnir hafa verið varðveittir í Reykjanesskinnu, sem verður, um sinn a.m.k., einungis til í einu órafrænu eintaki.
FERLIR-500 – þátt fyrir að búið væri að ganga og fara yfir einstök svæði og skoða, leita og skilgreina, komu enn í ljós minjar, sem ekki hafði verið vitað um áður, s.s. garðar, refagildrur, gamla leiðir, borgir, fjárskjól, brunnar, vatnsstæði o.fl. Ákveðið var að halda áfram enn um sinn, en láta síðan staðar numið við FERLIR-600.
FERLIR-600 – ljóst var að ekki yrði komist yfir allt svæðið með það fyrir augum að skrá allt, sem þar væri að finna. Ákveðið var að fresta ferð nr. 600, fara beint í nr. 601, en beina athyglinni fyrst og fremst að áhugaverðustu svæðunum, s.s. í umdæmi Grindavíkur og Hafnarfjarðar, en önnur sveitarfélög á svæðinu hafa ekki sýnt fornum minjum sínum jafn mikinn áhuga og þau. Fyrir lá að hér var um mikil verðmæti til framtíðar að ræða. Áhugi á umhverfi, útivist og hreyfingu fóru greinilega stigvaxandi.
FERLIR-700 – minjar og saga eru ekki einu auðævi Reykjanesskagans. Jarðfræði, umhverfi, dýralíf, flóra sem og annað er lítur að áhugaverðum útivistarmöguleikum á svæðinu er í rauninni ótæmandi ef vel er að gáð.
Svæðið nýtur nálægðar um 2/3 hluta þjóðarinnar, en þrátt fyrir það er það eitt hið vannýttasta á landinu. Mikill áhugi hefur verið á að reyn að “opinbera” minjar, minjasvæði og forn mannvirki á Reykjanesi og gera þær aðgengilegar áhugsömu fólki. Í byrjun árs 2004 var afráðið að sækja um styrk úr Þjóðhátíðarsjóði, sem er í vörslu Seðlabanka Íslands, með það fyrir augum að leggja drög að slíkri “opinberun”, hvort sem væri með rafrænum hætti eða blaðrænum. Þann 9. júní 2004 barst tilkynning frá sjóðsstjórninni um að FERLIR hafi verið veittur umbeðinn styrkur. Nú verður ekki aftur snúið. Stefnt var að opinberri og birtingu uppsafnaðra upplýsinga og fróðleiks (sem birtist nú lesendum hér á vefsíðunni).
Og enn er haldið áfram – á meðan að einhverju er að stefna. Síðasta FERLIRsferðin var nr. 2000. Nú er stefnt að því að ferðirnar um Reykjanesskagann, fyrrum landnám Ingólfs, verði a.m.k. 3999 talsins…