Í Morgunblaðinu árið 1967 var „rabbað við Jón Jónsson, jarðfræðing, sem vinnur að því á sumrin að gera jarðfræðikort af skaganum. Fyrirsögnin var: „Er Eldgos væntanlegt á Reykjanesskaga?“
Jón Jónsson, jarðfræðingur, er einn þeirra íslenzku vísindamanna sem á sumrin ferðast vítt og breitt um landið til ýmiskonar starfa. Dagurinn er oft langur og erfiður, hann leggur af stað með malpokann eldsnemma á morgnana og það er ekki óalgengt að hann komi ekki heim fyrr en undir miðnætti. En hann kvartar ekki því að eins og hann segir: „Þegar tómstundaiðjan og starfið eru eitt og hið sama, þá er þetta allt í lagi“.
Jón er maður hraustlegur og útitekinn, með snör augu og er létt um bros.
„Ég starfa hjá jarðhitadeild Orkustofnunarinnar og aðalstarf mitt er jarðfræðirannsóknir í sambandi við jarðhita. Það hefur svo komið af sjálfu sér að ýmis önnur verkefni hafa hlaðist á mig, t.d. hef ég unnið að því að finna kalt vatn og held að mér sé óhætt að segja að ég hafi staðsett svo til allar kaldavatnsboranir í seinni tíð“.
„Hvernig er það með kalda vatnið, það gýs víst ekki upp eins og það heita?“
„Nei, það þarf alltaf að nota dælur til að ná því upp, en það er ekki svo erfitt. Það er tiltölulega auðvelt að koma dælunum fyrir“.
„En nú er það ekki svo vel að þið getið fundið einhver merki um vatnsból ofanjarðar, eins og þegar leitað er að heitu vatni. Hvaða tæki notar þú til að finna kalt vatn?“
Jón brosir kankvíslega: ,Engin önnur en þau sem guð gaf okkur, við verðum bara að sjá það með berum augum, og það er ekki eins erfitt og það kann að virðast.
„Hvað hefur þér oft skjátlast?“
Stapafell.
„Það hefur mjög sjaldan komið fyrir að mér hafi skjátlast algerlega, en stundum hefur ekki komið nærri nóg vatn upp úr holunum. Verstu „feilskotin“ voru á Akureyri í fyrra sumar og svo aftur núna, en ég vona að við séum nú búnir að finna lausn á því vandamáli.
Það er erfitt að nota tæki til kaldavatnsleitar, en viðnámsmælingar hafa þó gefist vel á einum stað a.m.k. Vatnið er á sífelldri hreyfingu undir yfirborði jarðar, og straumar liggja víða til sjávar. Þau eru skilin víða mjög skörp. Ég get nefnt þér sem dæmi, að þegar við vorum að bora við Stapafell fyrir tveimur árum vorum við með snúningsbor og þurftum því að bora aukaholu til að fá skolvatn. Við þurftum svo að steypa í tilraunaholuna og helltum í hana mörgum pokum af sementi, en hin holan gruggaðist ekki, þótt hún væri aðeins tuttugu metra í burtu“.
„En svo að við snúum okkur að sumarstarfinu þau á þessu ári, hvað hefur þú verið að fást við?“
Jón Jónsson – jarðfræðikort.
„Í sumar hef ég snúið mér algerlega að rannsóknum á Reykjanesi, ég er að gera nákvæmt jarðfræðikort af öllum Reykjanesskaganum, og hefunnið að því eftir því sem ég hef getað í nokkur ár. Því miður hef ég ekki alltaf haft mikinn tíma aflögu til þessa, svo að það má segja að ég vinni þetta í hjáverkum. Ég byrja með því að merkja sprungukerfi, því að jarðhitinn eins og hann kemur fyrir á yfirborðinu, er ákaflega tengdur sprungunum. Við erum bara tveir við þetta, ég og Karl Grönvold, ungur maður sem er að læra jarðfræði“.
„Og dagurinn er strangur?“
Jón Jónsson – jarðfræðikort – Þríhnúkar.
„Já, það er hann oft. Við föum yfirleitt upp um klukkan átta á morgnana og erum sjaldan komnir heim fyrr en 9—10 á kvöldin, oft seinna, en þegar tómstundaiðjan og starfið fara saman er ekki yfir neinu að
kvarta“.
„Er það ekki áratuga verk að labba um allan skagann til að gera kort af honum?“
Jón Jónsson – jarðfræðikort – Brennisteinsfjöll.
„Nei, svo slæmt er það nú ekki, en það er satt að þetta er yfirgripsmikið starf. Við notum mikið loftmyndir og þær koma okkur að ómetanlegu gagni. Við leggjum gegnsæjan pappír yfir loftmyndirnar og merkjum inn á hann gíga, sig, sprungur og þessháttar. Við verðum auðvitað að ganga mikið, en það er nú ekkert annað en það sem maður er vanur.
Krýsuvík – Seltún.
Eg byrjaði árið 1960 og þá á Krýsuvíkursvæðinu. Ég var bara að þrjár vikur það sumarið og hef svo haft það í ígripum eins og ég sagði áðan. Mér tekst sjálfsagt ekki að ljúka við þetta í sumar, en fer þó yfir mestan hluta þess svæðis sem eftir er. Í dag fórum við á jeppanum upp með Bláfjöllum að vestan. Við fórum ekki upp á háfjall þó að hægt sé að komast yfir í Selvog. Það er gott að hafa jeppann, mikill munu frá því að ég byrjaði fyrst, þá átti ég ekki bíl og varð að fara allra minna ferða gangandi eða reyna að ferðast á þumalfingrinum“.
„Hefur eitthvað komið þér á óvart við þessar rannsóknir?“
Jón Jónsson – jarðfræðikort – Hrútargjárdyngja.
„Nei, ég get varla sagt það.
Við Lönguhlíð austanverða og suðvestur með Þríhnúkum er þó mikið um ketilmynduð sig sem ekki eru algeng hér á landi. Askja er eitt líkt sig, en þessi komast að sjálfsögðu ekki í hálfkvist við hana. Það má eiginlega segja að það hafi komið mér á óvart þvílík firn af eldstöðvum er á þessum slóðum, margar þeirra eru ekki merktar á neitt kort, og liggja mjög þétt víða“.
„En hefur þú orðið var við einhverjar breytingar á jarðveginum á þessum slóðum?“
„Á hluta á svæðinu held ég að umbrot eða hræringar séu að aukast og hiti að hækka.
Gígur í Bollum ofan Lönguhlíða.
Það er meiri kraftur í hverunum en því miður höfum við ekki eldri hitamælingar yfir svæðið svo að það er erfitt að segja nákvæmlega til um. Ég er þó ekki einn um þessa skoðun, því að einn af mönnunum sem fæst við innrauðu „hitaljósmyndunina“ nefndi þetta sama við mig af fyrra bragði.
Við vitum ekkert um ástæðuna ennþá, en ég myndi ætla að svona yrði undanfari eldgoss.
Það hafa ekki orðið eldsumbrot þarna síðan um 1340, þegar Ögmundarhraun rann. Þá rann hraun yfir bæ suð-vestur af Krýsuvík, og ég held að það gæti orðið gaman fyrir fornleifafræðinga að líta nánar á þann stað. Það eru til Húshólmi og Óbrennishólmi í hrauninu, og bæjarrústirnar standa að nokkru leyti út undan hrauninu og má telja víst, að undir því sé einhverja muni að finna frá þessum tíma.
Húshólmi – skáli.
Hraunlagið er ofur þunnt á þessum stað, innan við metra held ég og það væri ekki mikið verk að rífa það ofan af bænum. Ég býst ekki við að neitt fólk hafi farist, en það ætti t.d. að vera hægt að finna þarna viðarkol sem hægt væri að aldursákvarða, og jafnvel eitthvað af húsunum. Mér myndi þykja mjög gaman að taka þátt í rannsókn á staðnum. Jarðvegurinn undir hrauninu er valllendi, þurrlendismói“.
„Fyrst við erum farnir að tala um fornminjar og slíkt Jón, þá minnist ég þess að nálægt bæ í Kjósinni, þar sem ég var í sveit, fundust margir gamlir trjálurkar í mýri sem verið var að ræsa fram, ætli þeir hafi verið frá landnámstíð, þegar landið var skógi vaxið milli fjalls og fjöru?“
„Það held ég ekki. Mér finnst líklegra að þeir hafi verið af skógi sem fenginn var undir löngu fyrir landnámstíð.
Það er vitað að miklar loftlagsbreytingar hafa orðið á Skandinavíu og það má sjá þess merki á hinum Norðurlöndunum að skógar hafa gengið um 200 metra hærra upp í fjallshlíðar. Það hefur líka verið á hlýindatímabilinu eftir ísöld“.
„Hver eru nú þín uppáhalds verkefni, Jón?“
„Þau eru svo mörg að ég veit ekki hvar ég á að byrja.
Ég hefi til dæmis mjög mikið gam«n að öllum rannsóknum, og eins að kortleggja, kanna sprungur, fellingamyndanir, misgengi og þessháttar. Ein af mínum uppáhaldsiðjum er líka að skoða berg í smásjá.
Í Þríhnúkagíg.
Þá límum við steinflís á glerplötu og sögum af henni eins nálægt glerinu og hægt er.
Síðan er flísin slípuð þar til hún er ekki nema 1/300 úr millimetra og svo skoðum við hana í smásjánni. Þá er hún orðin gegnsæ þannig að við sjáum gegnum alla krystalla og efni nema málma. Svona rannsóknir — sem og aðrar rannsóknir — krefjast mikils og góðs samstarfs, og það er nokkuð sem tilfinnanlega vantar. Ekki þar fyrir að samkomulag er mjög gott milli okkar allra og við erum allir reiðubúnir að rétta kollega hjálparhönd, en aðstaða til raunhæfs samstarfs er ekki fyrir hendi til þess skortir aðstöðu, vonandi verður bætt úr því sem fyrst. – ótj
Jón Jónsson skrifaði grein í Vikuna árið 1964 undir fyrirsögninni: „Það má búast við gosi á Reykjanesi„.
Jón Jónsson – jarðfræðikort.
„Það er óhætt að slá því föstu að alls engar líkur eru til þess að eldgosum sé að fullu og öllu hætt á Reykjanesskaga. Það verður þvert á móti að teljast í fyllsta máta líklegt, að gos muni enn verða þar…
Reykjanesskagi er meir eldbrunninn en nokkur annar hluti þessa lands. Ég ætla að engin viti hversu margar eru þær eldstöðvar og því síður hversu mörg þau hraun eru, sem þar hafa brunnið frá því að jökla leysti af landinu hraunflákana á þessu svæði fær maður nokkra hugmynd ef það er athugað að hægðarleikur er að ganga alla leið frá Þingvallavatni út á Reykjanestá án þess að stíga nokkurn tíma af hrauni.
Jón Jónsson; jarðfræðikort – Kristnitökuhraun og nágrenni.
Fyrsta gos, sem sögur fara af á þessu svæði er það, sem átti sér stað árið 1000 og sem getið er um í Kristnisögu. Það gos var á Hellisheiði norð-austur og austur af Hveradölum og eru eldstöðamar vel sýnilegar hverjum þeim, sem um Hellisheiði fer. Ekki fara sögur af fleiri gosum á austanverðum Reykjanesskaga. Þó hefur þar gosið síðar a.m.k. tvisvar sinnum, í Eldborg nyrðri og syðri, milli Lambafells og Bláhnjúks, því hraun frá þeim gosum hafa runnið út á hraunið frá 1000. Í námunda við þær eldstöðvar, hefur áður gosið oftar en einu sinni eftir ísöld, og þaðan er komið það hraun, sem næst hefur komizt höfuðborginni, en það er hraunið sem runnið hefur út í Elliðaárvog. Samkvæmt rannsóknum Þorleifs Einarssonar er þetta hraun komið úr stórum gíg er nefnist Leitin sunnan við Ólafsskarð austan undir Bláfjöllum. Yngri hraun þekja þetta að mestu vestur að Draugshlíðum, en þaðan er auðvelt að rekja það alla leið til sjávar. Þetta hraun hefur verið mjög þunnfljótandi og væntanlega runnið hratt. Það er helluhraun og myndar hvergi kraga það ég veit, en í því eru gervigígir á nokkrum stöðum og þekktastir þeirra eru Rauðhólar við Elliðavatn. Skammt ofan við brúna yfir Elliðaár á Suðurlandsvegi er mór undir hrauninu. Hann hefur verið aldursákvarðaður með C1 4 aðferð og reynzt vera 5300 -4- eða -j- 340 ára. Vestan við Bláfjöll eru allmargir gígir og sumir þeirra stórir. Meðal þeirra er sá sem gerður hefur verið hinn mesti ógnvaldur í VIKUNNI á undanförnum vikum.
Eldborg í Kristnitökuhrauni.
Frá eldstöðvum á þessum slóðum hafa hraun runnið norður á Sandskeið, milli Sandfells og Selfjalls og vestan við Selfjall, milli þess og Heiðmerkur. Á síðastnefnda svæðinu ber hraun þetta nafnið Hólmshraun.
Hólmshraun – uppdráttur Jón Jónsson.
Þarna er þó um a.m.k. 5 mismunandi hraunstrauma að ræða, og verða þeir nefndir Hólmshraun I—V hér. Hólmshraun I er þá þeirra elzt og V yngst. Ekki hafa þessi hraun ennþá verið rakin til einstakra eldstöðva, og er raunar óvisst hvort það er mögulegt, a.m.k. með öll þeirra. Af þessum slóðum hafa þau samt komið. Engar sagnir eru til um gos á þessum slóðum. Hólmshraun I hefur runnið út á Leitahraunið rétt austan við Gvendarbrunna og langleiðina yfir það þar skammt fyrir austan. Hólmshraun II hefur einnig runnið út á það austan við Lækjarbotna og myndar hina áberandi, háu hraunsbrún ofan við gamla Lögbergsbæinn aðeins norðan við Suðurlandsveginn. Af þessu er ljóst að Hólmshraunin öll eru yngri en Leitahraunið, en um aldur þess var áður getið.
Gígur vestan við Stóra-Kóngsfell.
Samkvæmt því sem hér hefur verið sagt hafa orðið a.m.k. 9 eldgos á austanverðum Reykjanesskaga á síðastliðnum 5300 árum. Auk þess er Nesjahraun í Grafningi, en það er samkvæmt rannsóknum Kristjáns Sæmundssonar 1880 + eða — 65 ára, C11 aldursákvörðun. Þar með eru gosin orðin 10. Milli Selfjalls og Helgafells virðist ennfremur vera nokkuð á annan tug mismunandi hrauna, sem öll eru runnin eftir ísöld, eru þá ekki talin með áðurnefnd fimm Hólmshraun né heldur hraun það sem komið er úr Búrfellsgígnum, og sem nefnt er ýmsum nöfnum, svo sem Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun o.s.frv., en sem ég mun nefna Búrfellshraun. Á þessu hrauni stendur meginhluti Hafnarfjarðarbæjar.
Hraunakort ofan Hafnarfjarðar.
Ekki skal nú haldið lengra vestur skagann að sinni, en aðeins geta þess að fjöldi hrauna og eldstöðva eru þar, og hafa sumar þeirra verið virkar eftir að land byggðist.
Ögmundarhraun – yfirlit.
Það er óhætt að slá því föstu, að engar líkur eru til þess að eldgosum sé að fullu og öllu hætt á Reykjanesi. Það verður þvert á móti að teljast í fyllsta máta líklegt að gos muni enn verða þar. Sé jafnframt litið á, hversu oft hefur gosið þar og hvað langt er liðið frá síðasta gosi, en það hefur líklega verið um 1340 er Ögmundarhraun brann, þá vaknar sú spurning hvort ekki muni nú líða að því að gos verði einhvers staðar á þessu svæði. Vitanlega er þetta nokkuð sem enginn veit, ekki jarðfræðingar fremur öðrum. Það er þó ljóst að a.m.k. verulegur hluti þeirra mynda, sem — sumar í allsterkum litum — hafa verið dregnar upp í undangengnum blöðum VIKUNNUR gætu áður en varir verið komnar í hinn kaldhamraða ramma veruleikans. Við höfum ekki leyfi til að haga okkur eins og við vitum ekki, að við byggjum eitt mesta eldfjallaland jarðarinnar. Það er skoðun mín að það sé í fyllsta máta tímabært að hlutaðeigandi geri sér nokkra grein fyrir því, hvað komið getur fyrir og hvernig við því skal bregðast. Sumt af því er svo augljóst að ástæðulaust er um það að fjölyrða. Ég á þar við truflanir á samgöngum og beina skaða á mannvirkjum.
Gvendarbrunnar – flugmynd.
Því er ekki að neita að vatnsból Reykjavíkur og Hafnarfjarðar geta legið nokkuð illa til í þessu sambandi. Vatnsbóli Hafnarfjarðar í Kaldárbotnum hagar þannig til að vatnið kemur úr misgengissprungu, sem klýfur Kaldárhnjúk, Búrfell og myndar vesturhlið Helgadals.
Búrfellshraun – kort. Hér má sjá hverning hraunið mótaði umhverfi Hafnarfjarðar fyrir 5000 árum.
Svo sem 1—1,5 km. sunnan við Kaldárbotna hefur sama sprunga gosið hrauni. Það er að vísu lítið hraun, en hætt er við að gos á þessum stað eða með svipaða afstöðu til vatnsbólsins gæti haft óheppileg áhrif á vatnið. Þess skal getið að ólíklegt virðist að gos mundi hafa veruleg eða jafnvel nokkur áhrif á vatnsrennslið. Um Gvendarbrunna er svipað að segja. Vatnið kemur þar líka úr sprungum, sem a.m.k. tvö og líklega þrjú Hólmshraunanna hafa runnið yfir. Vatnið í Gvendarbrunnum kemur því ekki aðeins undan hrauninu í venjulegum skilningi heldur dýpra úr jörðu og af miklu stærra svæði. Því er ekki líklegt að gos hefði áhrif á rennslið, en kæmi enn eitt Hólmshraun, gæti það hæglega runnið yfjr vatnsból Reykjavíkurborgar. Bullaugu eru hirfs“ vegar ekki á sambærilegu hættusvæði. Vel gæti komið til mála að hægt væri að segja fyrir gos á því svæði, sem hér er um að ræða með því að fylgjast stöðugt með efnasamsetningu vatnsins. Þetta hafa Japanir gert, en á þessu sviði sem alltof mörgum öðrum fljótum við ennþá sofandi að feigðarósi.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.
Eldstöðvarnar á Reykjanesi eru aðallega tvennskonar: dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri a.m.k. á vestanverðu nesinu. Frá þeim eru stærstu hraunin komin, og ná sum þeirra yfir mjög stór svæði.
Grænavatn (t.h.) og Stampar. Gígar eftir sprengigos.
Sprungugosin virðast hins vegar flest hafa verið tiltölulega lítil og ekki hafa gert mikinn usla. Mörg þeirra hafa ekki verið öllu meiri en Öskjugosið síðasta og sum minni. Þau virðast einnig hafa verið samskonar, þ.e. hraungos með sáralitlu af ösku, og hafa yfirleitt ekki staðið lengi. Svo er að sjá sem þannig sé um Hólmshraunin. Nokkuð öðru máli gegnir um gosið í Búrfelli. Það hefur verið mikið gos, og er hraunið víða um og yfir 20 m þykkt. Ekki verður séð að Búrfell hafi gosið nema einu sinni. Um aldur þess hrauns er ekki vitað, en líklegt virðist mér að það sé með eldri hraunum hér í grennd. Ekki er því að leyna að allófýsilegt væri að búa í Hafnarfirði ef Búrfell tæki að gjósa á ný, sérstaklega á þetta við um þann hluta bæjarins, sem stendur á hrauninu eða við rönd þess. Sama er að segja um Grindavík, ef eldstöðvarnar, sem þar eru næst færu aftur að láta til sín taka. Aðeins eru um 5 km. frá Búrfelli til Hafnarfjarðar og mun skemmra til Grindavíkur frá gígunum, sem þar eru næstir. Í þessu sambandi má benda á að hraunið frá Öskjugosinu síðasta mun hafa runnið um 11 km. á 2—2 1/2 sólarhringum. Hveragerði gæti verið hætta búin af gosum á Hellisheiði.
Rit Jóns Jónssonar.
Vera má að sumum lesenda finnist hér hafa verið málað svart, að ég sé hér að spá illu og jafnvel að hræða fólk að ástæðulausu. Því fer fjarri að það sé ætlun mín. Ég, sem allir aðrir vona að sjálfsögðu að þær byggðir sem um hefur verið rætt fái um alla framtíð að vaxa og dafna í friði. Hins vegar er í hæsta máta óheppilegt í þessu sem öðru að loka augunum fyrir staðreyndum.
Enginn veit hvar eða hvenær eldur kann næst að brjótast upp á Reykjanesskaga. Þeir sem nú byggja Þessar slóðir sjá kannski ekkert af honum, kannski ekki heldur þeir næstu, en persónulega efast ég ekki um að, ef ekki við, þá muni einhver eða öllu heldur einhverjar komandi kynslóða verða að taka afstöðu til þess, hvað gera skuli er glóandi hraunflóð stefna að byggðu bóli — og þá væri gott að vera ekki alveg óviðbúinn.“ – Jón Jónsson.
Sjá má viðtal við Jón í Morgunblaðinu árið 1965 á FERLIRssíðu undir fyrirsögninni: „Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga„, HÉR.
Þá má sjá rit Jóns og „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga : 1. Skýringar við jarðfræðikort ; 2. Jarðfræðikort“ HÉR.
Heimildir:
-Morgunblaðið, 207. tbl. 14.09.1967, Er Eldgos væntanlegt á Reykjanesskaga, Rabbað við Jón Jónsson, jarðfræðing, sem vinnu að því á sumrin að gera jarðfræðikort af skaganum, bls. 17-18.
-Vikan, 7. tbl. 13.02.1964, Það má búast við gosi á Reykjanesi, Jón Jónsson, jarðfræðingur, bls. 20-21 og 30.
Jarðfræðikort af Íslandi – ÍSOR.