Hleinar

Jóhann Guðni Reynisson hefur tekið saman sögu golfklúbbsins Keilis, golfvallargerð á Hvaleyri, örnefnin og sögustaðinn:

Jóhann Guðni Reynisson

Jóhann Guðni Reynisson.

„Keilismenn hafa varðveitt gömul örnefni á og við völlinn með því að gefa öllum brautum nöfn eftir örnefnum á Hvaleyri. Þetta sást strax á fyrsta árinu (1967 ) gat Jónas formaður þess í ræðu sinni á fyrsta aðalfundi klúbbsins að haft hafi verið samband við Gísla Sigurðsson lögregluþjón vegna þessara áforma og hefur Gísli eflaust haft mikla þekkingu á örnefnum og staðháttum á Hvaleyri. Ekki hafði mikið verið gert í málunum á þessum tíma en fyrirheitin voru fyrir hendi, ekki síst ef og þá þegar Keilisfólk hefði afnot af eyrinni allri. Leitast var við að hrófla ekki við neinu sem sögulegt kynni að teljast. Hlutar vallarins eru friðaðir og má þar nefna rúnasteinana, hólinn þar sem gamli Hvaleyrarbærinn stóð og túngarðinn sem er elsta mannvirkið á eyrinni.
Kortið sem hér fylgir gerði Jónatan Garðarsson og það sýnir prýðisvel byggð og starfsemi, örnefni og fornar minjar sem ýmist eru enn sýnilegar eða horfnar af ýmsum ástæðum. Í ljósi þess hve mikilvæg þessi atriði eru í sögu Keilis og mikilvæg kennileiti um staðhætti og sögu á Hvaleyri er rétt að gera þeim sérstök skil í riti sem þessu. Því var Jónatan fenginn til þess að ganga með höfundi um eyrina og segja frá því helsta sem fyrir augu ber.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur.

Óhjákvæmilega verður að tala hér í áttum og því er líklega best að skilgreina áttirnar lauslega þannig að norður er í átt að Esjunni, vestur í átt að Snæfellsjökli, suður í átt að álverinu og austur í átt að athafnahverfinu á Hvaleyrarholti, þegar staðið er við golfskála Keilis þar sem hann stendur árið 2017.

Hvaleyri

Hvaleyrarrétt.

Við byrjum á því að ganga í austur að gömlu réttinni en hún er rétt neðan við vörðuna, sem við segjum frá síðar. Réttin er við veginn sem liggur að golfskálanum sem stendur við Steinholt. Vegurinn ber heitið Miklaholt en ekið er inn á það af Hvaleyrarbraut. Réttin er ævaforn, hlaðin úr grjóti, og enginn veit í raun hversu gömul hún er. Eitthvað hefur réttinni verið raskað og segir Jónatan að það hafi hermenn líklega gert og búið þá til garð úr grjótinu frá kvínni sem er sunnan við réttina og má greina grjótröð sem hefur verið veggur frá kvínni að réttinni. Að öllum líkindum hafa hermennirnir hlaðið vegg þennan úr grjótinu og hefur hann því ekki verið upprunalegur. Tóftir réttarinnar eru þó greinilegar þegar þarna er staðið. Ef horft er í norðvestur frá réttinni, með stefnu nokkurn veginn milli Esjunnar og Snæfellsjökuls, og þá eftir hábungu Hvaleyrarinnar, sést bæjarstæði gamla Hvaleyrarbæjarins á efsta leitinu sem kalla má bæjarhól. Við göngum í átt að bæjarstæðinu.

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum. Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið, í forgrunni.

Næst verður á vegi okkar mjög gamall túngarður sem er m.a. kallaður Fornigarður sem eflaust hefur einnig gegnt landamerkjahlutverki á sínum tíma. Þessi garður markaði heimatúnið og varnaði því að lausafé kæmist inn í túnið.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Fornigarður liggur samsíða gömlu þjóðleiðinni milli Innnesja og Suðurnesja, svonefndri Alfaraleið eða Suðurvegi. Garðurinn liggur nokkurn veginn í stefnuna austur/vestur og afmarkar að hluta (Suðurtún) Suðurvöll norðaustanvert við hábunguna, en hann tilheyrði Hjörtskoti. Suðurvöllur endar þar sem gamli Kotagatan lá og neðan hans stóð Sveinskotí láginni á eyrinni austanverðri. Þar er Sveinskotstún, en Ársæll Grímsson, síðasti ábúandinn á Hvaleyri, bjó í Sveinskoti. Sjá má það litla sem eftir er af Sveinskoti rétt neðan við vélageymsluna sem stendur eins og eyland á vellinum norðaustanverðum en hún er eitt af þeim mannvirkjum sem breskir hermenn skildu eftir á Hvaleyri eftir hersetu sína hér á landi í síðari heimstyrjöldinni.

Hvaleyri

Hvaleyri – Hvaleyrarbærinn síðasti.

Þegar gengið er eftir eyrinni í góðum skilyrðum sjást vel í landslaginu margvísleg form sem gefa hugmynd um ýmiskonar mannvirki. Til dæmis má sjá gamla veginn sem lá að Vesturkoti, svokallaða Kotagötu, en hann er nú hulinn gróðri þótt glögglega megi sjá móta fyrir slóðinni í landslaginu.

Hvaleyri

Hvaleyri – Fornigarður.

Ef litið er í vestur eða suðvestur þegar gengið er eftir eyrinni frá réttinni við vörðuna og út á hábunguna, þ.e. til vinstri, má sjá svæði sem kallað er Sandbrekknatún og skiptist í tvennt, syðra og nyrðra tún. Sand-brekknaheitið er ágæt heimild fyrir ástandi túnsins áður en Þorsteinn Jónsson stóð fyrir sandgræðslu á eyrinni en hann byggði þar upp þrjú kot austan og vestan við Hvaleyrarbæinn: Bindindi 1778 eða Halldórskot, Lásastaði 1781 eða Vesturkot og Ásgautskot 1785 sem fékk seinna nafnið Sveinskot. Þannig stuðlaði hann bæði að landgræðslu á Hvaleyri og öðrum náttúrunytjum og það fól í sér að ábúendur á svæðinu gátu goldið kónginum það sem kónginum bar.

Hvaleyri

Hvaleyri – Vesturkot.

Þorsteinn fékk síðan ábúðarrétt til æviloka fyrir sig og afkomendur sína að launum frá kónginum. Þorsteinn virðist hafa gert sér ágæta grein fyrir því hvað þyrfti til þess að hjól atvinnulífsins og þar með framþróunar á Hvaleyri snerust svo gagn væri af. Hann endurreisti Hvaleyrarbæinn eins og sést á mynd úr Íslandsleiðangri Sir Joseph Banks frá 1772 og byggði ennfremur stóra bátasmiðju, þá stærstu á landinu að því er Jónatan Garðarsson segir. Þar voru smíðaðir fiskibátar og lét Þorsteinn bændur og búalið á Hvaleyri fá báta til afnota svo að þeir gætu róið til fiskjar og bætt þar með afkomu jarðarinnar. Því þeir fiska sem róa, segir máltækið, og til þess að róa þarf víst báta. Þorsteinn kveikti á þessu og stuðlaði þannig að því að bændur sköpuðu tekjur sem gáfu skatta og kóngurinn fékk sitt. Allir ánægðir. Jón sonur Þorsteins tók við ábúðinni 1805 en hann drukknaði 1812 í Hvaleyrarvör. Eftir það tók Bjarni Sívertsen jörðina á leigu og keypti hana af konungi 1816, en afkomendur Þorsteins misstu ábúðarréttinn. Þar sem Hvaleyrarbærinn stóð fyrrum er nú teigur en þar er hæsti punkturinn á Hvaleyrinni og umhverfis bæinn var Hvaleyrartún.

Hvaleyri

Hvaleyri – málverk Sveins Björnssonar.

Þegar gengið er aðeins lengra í sömu átt er komið að hjartalaga glompu á golfvellinum en þar nærri segir Jónatan að allar líkur bendi til að kirkja hafi staðið forðum enda segi í gömlum heimildum að kirkjan hafi staðið beint upp af Gestalág sem svo er kölluð. Við göngum því í vestur og niður í fjöru. Þar er vissulega lág í landslaginu, rétt upp af lítill vík og segir sagan að þar hafi fundist sjórekin lík erlendra sjómanna í eina tíð og er nafngiftin rakin til líkfundarins. Þar var jafnframt svonefnd Jónasarlending, sumarlending Jónasar Jónassonar bónda í Tjarnarkoti 1875-77 og Sveinskoti 1890-97. Við göngum í norður upp úr Gestaláginni og komum að gömlu skotbyrgi sem breski herinn lét byggja þarna á eyrinni. Byrgið er hlaðið og steypt og að hluta er það hulið torfhleðslu einhvers konar. Þakið er steypt og sjá má að á því hafa verið skotraufar sem nú eru fylltar steypu. Norðvestur af skotbyrginu eru fleiri byrgi sem augljóslega hafa þó verið ætluð aðeins einum hermanni hvert, hlaðin og steypt með braggalaga bárujárnsþaki eða yfirbyggingu. Hefur þá verið gert ráð fyrir að hermaðurinn skriði þarna ofan í byrgið og stæði – eða lægi – vaktina ef til þess kæmi að ráðist yrði á landið af sjó.

Hvaleyri

Hvaleyri – skotbyrgi.

Nokkur slík byrgi eru þarna og verða þau að teljast allmerkileg fyrirbæri. Og ekki er síður merkilegt fallbyssustæði þarna frammi á tanganum en þar var nokkuð stór fallbyssa. Jónatan Garðarsson segir hinsvegar að tvennum sögum fari af því hvort þar hafi verið alvöru fallbyssa eða ekki. Allavega var þar svo að á nokkrum stöðum á landinu voru grámálaðir símastaurar í felubúningi, sem sagt dulbúnir sem fallbyssur. Þar er væntanlega komin skýringin á því að engin þjóð þorði að gera innrás á Íslandi í stríðinu, allavega ekki á Hvaleyri. Við svo búið er haldið í vestur frá byrgjunum þangað til við komum að nokkrum flötum steinum, en inn á milli þeirra eru fleiri skotbyrgi.

Flókaklöpp

Flókaklöpp.

Einn þessara steina er jafnan nefndur Rúnasteinn og er frægur af ýmsum ástæðum. Hann hefur meðal annars einnig verið kallaður Flókaklöpp, þá ekki síst vegna þess að sjálfur Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur – sá eini sanni, mun hafa rannsakað steininn á 19. öld og talið að áhafnarmeðlimir á skipi Flóka hafi fyrstir letrað nöfn sín í grjótið. Þau sannindi eru þó ekki meitluð í stein. Steinninn er friðaður sem fornminjar. Kringum hann virðist hafa verið einhvers konar hringlaga garður og má sjá menjar um hann. Á steininn er ýmislegt letrað og þarf líklega talsvert hugmyndaflug til þess að ætla honum verðugt hlutverk í norrænni menningarsögu þótt Jónas hafi getað séð þar ýmislegt merkilegt sem ekki verður fjölyrt um hér en fróðlegt er að lesa um þetta á ferlir.is:

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

„Litið var á rúnasteinana á Hvaleyrartanga. Rúnir eru vel sýnilegar á a.m.k. þremur steinanna. Fundist hafa nokkrar gamlar umsagnir um steinana og áletranirnar, sem margar hverjar virðast mjög gamlar. Jónas Hallgrímsson gengur svo langt að segja að innan um þær séu fangamerki áhafnar Hrafna-Flóka, sem kom við á Hvaleyrinni (Herjólfshöfn) á leið sinni út. Nefnir hann steininn þann Flókaklöpp.
Aðrir hafa bent á að fátt sé því til stuðnings að þarna megi merkja áletranir nefndrar skipshafnar. Bæði sýna dæmin að letur á klöppum endist ekki nema tímabundið. Þannig hafa ekki fundist eldri letursteinar á Reykjanesskaganum en frá því um 1500. Steinninn eyðist smám saman vegna veðrunar (vatn, frost og vindur) og letrið afmáist því óhjákvæmilega. Á steinunum eru hins vegar margar áletranir, sumar eldri en aðrar. Breski herinn var með aðstöðu þarna á stríðsárunum og ljóst er að einhverjir hermannanna hafa bættvið fyrri skrif. Þeir notuðu m.a. einn steinninn sem pall til að að hræra steinsteypu. Ber hann þess enn merki.Ýmis ártöl má lesa af steinunum og sumir stafirnir líkjast rúnum. Hvað sem öllu tali og vangaveltum um að áhöfn Hrafna-Flóka hafi klappað fangamörk sín á steinana, sem alls ekki er með öllu útilokað, er greinilegt letur á þeim og sumt af því eldra en annað. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi minnist ekki á Flókaklöppina í skrifum sínum um Hvaleyri í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1903; „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“. Þar segir hann m.a. með vísan í Landnámu: „Flóki kom í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum ok kölluðu þar Hvaleyri“. Síðan segir hann: „Þar hefir Herjólfur leitað lendingar og svo kennt höfnina við nafn hans: Herjólfshöfn. Á Hvaleyri er að sjá að kirkja hafi verið 1650, því á 2 ljósastökum, sem Krýsuvíkurkirkja á, stendur, að það ár hafi Helmer Dirichsen Roode, undirkaupmaður í Hafnarfirði, gefið þá Hvaleyrarkirkju.““

Flókaklöpp

Flókaklöpp – tákn.

Hvaleyrarbærinn hefur verið þó nokkurt býli og má sjá ýmsar minjar á þessum slóðum sem tengja má viðbúskapinn í kotinu. Vestur af honum stóð Vesturkot, sem var um tíma notað sem golfskáli. Þessi staður var stundum nefndur Drundur sem er annað orð yfir það þegar naut leysa vind. Það hefur eflaust þótt hinn prýðilegasti viðburður á þessum árum, þ.e. á 19. öld eða þar um bil, þegar aðeins fína fólkið gat leyft sér að eiga naut og kýr. Nafngiftin hlýtur því að hafa haft á sér talsvert virðulegra yfirbragð heldur en ef íslenskur sveitabær væri kallaður þetta árið 2017. Almennt mun þó drundur hafa þróast yfir í heldur óvirðulegri merkingueftir því sem árin hafa liðið. Þegar gengið er norður eftir eyrinni frá Drundi og út að sjó er komið að Hvaleyrarbakka en þar hafa fundist mannabein, til dæmis árið 1923 þegar Magnús Benjamínsson bóndi í Hjörtskoti fann höfuðkúpu af manni og nokkra hálsliði í bakkanum „og gróf í kistli í mónum þar hjá, fjær sjó“ eins og segir í grein Matthíasar Þórðarsonar um þetta í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1926. Yfirskriftin er „Fundin á Hvaleyri bein þriggja manna„, en Magnús fann síðar tvær höfuðkúpur í viðbót og fleiri bein. Jónatan Garðarsson segir söguna af því þegar Pálína Margrét Þorleifsdóttir sem hélt heimili fyrir þá þjóðfélagsþegna sem minna máttu sín í Hjörtskoti, tók til sinna ráða varðandi beinin í kistlinum á þriðja áratug síðustu aldar. Þótti henni þessum mönnum lítill sómi sýndur og vildi láta jarðaleifar þeirra í vígðri mold. Leitaði hún þá til Árna Björnssonar sóknarprests í Hafnarfjarðarkirkju sem setti upp tiltekið verð fyrir þjónustu sína. Það hugnaðist Pálínu ekki svo hún leitaði til Ólafs Ólafssonar fríkirkjuprests í Hafnarfirði. Tókust samningar með þeim svo hann annaðist jarðsetningu í kirkjugarðinum í Hafnarfirði. Sagði Pálína svo frá því að eftir þetta hefði maður vitjað hennar í draumi og þakkað henni fyrir að koma þeim félögum í vígða mold.

Hvaleyri

Hvaleyri – brunnur.

Sem kunnugt er stóð Hvaleyrinni mikil hætta af landbroti og varð það úr að Hafnarfjarðarhöfn og Hafnarfjarðarbær létu hlaða umtalsverðan varnargarð þarna á Hvaleyrarbakkanum, norðan í eyrinni. Myndar þessi garður nú fallega umgjörð og ver Hvaleyri fyrir ágangi sjávar. Þegar gengið er meðfram bakkanum norðan frá og suður og austur með ströndinni er komið í svolitla geil sem kölluð er Þórðarvik og er nefnd eftir Þórði Jónssyni lóðs og kotbónda í Þórðarkoti sem síðar var nefnt Beinteinskot eftir ábúendaskipti þar. Þórður þessi mun hafa dregið bát sinn upp úr lendingunni í geilinni og alveg upp á bakkann. Þetta er talsvert bratt og hátt og má kallast þrekvirki að nokkrum manni hafi tekist að draga bát þar upp á þurrt land. Og áfram höldum við í áttina inn að Hvaleyrargranda og Hvaleyrartjörn. Rétt áður en komið er að tjörn-inni og grandanum, förum við um svæðið þar sem bátasmiðja Þorsteins Jónssonar stóð og þar hjá var Hvaleyrarvörin og nokkru innar á Hjallanesi var Hvaleyrarhjalli. En framundan er Hvaleyrartjörn sem þjónaði sem skipalægi á tímum Innréttinga Skúla fógeta Magnússonar. Þar voru húkkortunum eins og fiskiskipin kölluðust siglt inn og þær hafðar í vari. Yfir háveturinn voru skipin dregin á þurrt upp á Skipasand sem kallað var þar sem verbúðarskýlin eru núna að sögn Jónatans. Hvaleyrargrandi var mun lengri og meiri en hann er í dag. Hann mun hafa náð langleiðina að Flensborgarhöfn á móts við Óseyri, en þar stendur veitingahúsið Kænan. Grandinn fór illa í sjógangi á seinni hluta 18. aldar og Óseyrartjörn var smám saman fyllt upp um miðja síðustu öld. Á grandanum voru ýmis kennileiti eins og Skiphóll á móts við Hafnargarðinn en Hvaleyrartjörn var í eina tíð nefnd Herjólfshöfn. Þess má svo til gamans geta að ef staðið er á Hjallanesi á grandanum og horft eftir nesinu og upp í holtið má sjá eldgamla rétt þar sem allt eins gæti verið gerð af landnámsmönnum.

Ársæll Grímsson

Ársæll Grímsson.

En nú beygjum við til hægri eða til suðurs og göngum upp að þústinni sem myndar rústirnar af Sveinskoti – sem reyndar var kallað Sælakot í seinni tíð eftir Ársæli Grímssyni, síðasta ábúanda þar og fyrsta starfsmanni Keilis, rétt neðan við gömlu vélageymsluna, steinhúsið sem enn stendur. Þar fyrir neðan er önnur þúst, aðeins minni, en það er gamli Hvaleyrarbrunnurinn. Þangað sóttu allir bændur og búalið á Hvaleyri vatn sitt um langtskeið og þurfti þá að ganga með skjólur og kyrnur að brunninum og bera í þeim vatnið heim á alla bæi. Þetta hefur verið ærinn starfi. Og nú fer að styttast í gönguferðinni því við erum komin að Hjörtskoti. Það varfyrst nokkuð neðan við síðari staðsetn-ingu en síðast var það rétt neðan viðtóftirnar af Poltzhúsi sem enn sjást. Poltz-hús var timburhús byggt fyrir Legh Poltzárið 1775, en tekið niður nokkrum árum seinna og viðirnir seldir. Legh Poltz var starfsmaður Skúla Magnússonar fógeta og hafði yfirumsjón með skipaflota hans í Hafnarfirði. Það má sjá vinkillaga járnstöng eða rör þar sem hús Legh Poltz stóð en Hjörtskot er hins vegar alveg horfið.
Það var byggt árið 1829 og hét upphaflega Daðakot en fékk nafnið Hjörtskot 1868. Suðurvöllur eða Suðurtún tekur við þegar gengið er í átt að golfskála Keilis og má sjá túngarð á hægri hönd og annan ávinstri hönd. Hinum megin við hann, nærveginum, er gamli Suðurnesjavegurinn enn sjáanlegur en þess má til gamans geta að þarna lá leiðin frá Hafnarfirði til Keflavíkur framyfir aldamótin 1900. Þetta var reiðleið þá en fyrsta bílnum á Íslandi, sem kenndur var við Thomsen kaupmann, var ekið eftir þessum vegi til Keflavíkur árið 1904. Það var í fyrsta sinn sem farið var á bíl þessa leið.

Hvaleyri

Hvaleyri – Poltzhús; byggt 1776.

Við erum loks komin hringinn og endum við vörðuna sem hlaðin var til minningar um ferð Hrafna-Flóka til Íslands. Efniviðurinn í hana var fluttur á Hvaleyri frá Sveio í Noregi þaðan sem Flóki Vilgerðarson hélt af stað í för sína norður á bóginn. Sagan segir að hann hafi gefið Íslandi nafn en við upphaf ferðarinnar hafi hannfórnað þremur hröfnum og síðan haft þrjá unga hrafna með sér til að finna landið. Einn þeirra hafi snúið afturheim, annar lent aftur niðri á skipinu en sáþriðji tekið stefnuna á landið sem síðar fékkheitið Ísland. Með Hrafna-Flóka var maður að nafni Herjólfur og heitir Herjólfshöfn eftir honum. Sagan segir að Flóki, Herjólfur og félagar hafi fundið rekinn hval á eyri við fjörðinn og það hafi orðið þeim innblástur í nafngift fyrir tangann sem þeir hafi þá nefnt Hvaleyri. Um þetta og fleira má lesa á ferlir.is og ágætt að rifja upp þessar gömlu sagnir áður en við segjum skilið við tengingar landnáms og Hvaleyrar:

Hvaleyri

Minnismerki um Hrafna-Flóka á Hvaleyri.

„Víkingurinn Hrafna-Flóki kom hér að landi um 860 ásamt Þórólfi og Faxa hinum suðureyska sem Faxaós (Faxaflói) er kenndurvið. Þegar Flóki ætlaði að halda aftur til Noregs eftir ársdvöl íVatnsfirði lentu skip hans í óveðri og náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes.Herjólfur varð viðskila við félaga sína og tók land í Herjólfshöfn. Óvíst er hvar Herjólfshöfn hefur verið. Flóki og menn hans voruum veturinn í Borgarfirði en freistuðu heimfarar næsta sumar. Komu þeir í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum ogkölluðu hana Hvaleyri. Þar fundust þeir Herjólfur. Áður en Flóki Vilgerðarson fór að leita Garðarhólms hlóð hann vörðu við Smjörsundí Noregi og blótaði þrjá hrafna sem áttu að vísa honum veginn yfir hafið. Árið 1997 var samskonar varða hlaðin við Hvaleyri úr grjóti frá Smjörsundi, til að minnast þessa atburðar. Hvaleyri var ein af helstu bújörðum í Hafnarfirði frá fornu fari. Fyrir siðaskiptin átti Viðeyjarklaustur Hvaleyri, sem varð síðan kóngsjörð. Þar stóð hálfkirkja uppi til 1765 sem var í eigu Viðaeyjarklausturs en þjónað frá Görðum. Útræði var frá Hvaleyri fyrr á tímum og margar hjáleigur fylgdu.

Hvaleyri

Málverk sem sýnir Hvaleyrina fyrir tíma landnáms Keilis. Myndina málaði sænskur málari sem bjó á Íslandi og gekk undir listamannsnafninu Thy-Molander. Myndina gaf Magnús Guðmundsson, barnabarn Ársæls Grímssonar, fyrsta starfsmanns Keilis. Taliðer að myndin sé máluð í kringum 1950.

Í Íslendingabók segir að FlókiVilgerðarson hafi verið “víkingr mikill; hann bjósk af Rogalandi at leita Snælands. Þeir lágu í Smjörsundi. Hann fekk at blóti miklu ok blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið visa…. ok sleit frá þeim bátinn, ok þar á Herjólf. Hann tók þar land, sem nú heitir Herjólfshöfn. ”Hafnarfjörður byggir grundvöll sinn á höfninni sem hefur veitt skipum öruggt skjól um aldir. Þegar norður evrópskir sæfarar leituðu á hin gjöfulu fiskimið við Íslandsstrendur í lok miðalda þótti fjörðurinn bera af vegna náttúrulegra hafnarskilyrða.

Hvaleyri

Hvaleyri – loftmynd 1954.

Snemma á 15. öld settu enskir farmenn upp kaupbúðir við fjörðinn og lögðu grunninn að verslunarstaðnum Hafnarfirði. Alla tíð síðan hefur verslun og sjávarútvegur stýrt vexti og viðgangi Hafnarfjarðar. Þýskir kaupmenn hröktu þá ensku í burtu seint á 15. öld. Hansakaupmenn höfðu mikil umsvif á 16. öld, allt þar til einokunarverslunin danska tók við 1602. Síðan hefur höfnin tekið sífelldum breytingum og er unnið að frekari stækkun hennar út með Hvaleyrinni. Sumir segja, þ.á.m. Jónas Hallgrímsson, að áhöfn Hrafna-Flóka hafi klappað fangamörk sín á Flókaklöppina, en aðrir eru efins. Hvað sem því líður hefur mikið verið klappað á hana í gegnum tíðina og eru áletranirnar greinilega misgamlar.“

Heimild:
-http://gunnar.vinnsla.com/keilir/files/assets/basic-html/page40.html

Hvaleyri

Hvaleyri – örnefni.

Hestbak

Skoðaðar voru minjar á og við Geitháls. Í bókinni Áfangar, ferðahandbók hestamannsins, segir m.a. um staðinn: „Gjótulág er á mörkum þeirrar jarðar í Mosfellssveit, sem áður hét Vilborgarkot, og Hólmsheiðar.

Vilborgarkot

Vilborgarkot – loftmynd 1953.

Þarna við norðaustanverð vegamót Suðurlandsvegar og vegar yfir Mosfellsheiði (lagður um 1887) reis býlið Geitháls. Veginum við Gjótulág var breytt 1984 og hann færður vestar.
LeifarBærinn í Elliðakoti stóð við brún Mosfellsheiðar. Þar komu saman ofan af heiðinni gamlar lestarleiðir bæði austan úr Grafningi og austan yfir Hellisheiði. Aðrar leiðir voru litlu norðar. Í Elliðakoti bjó um aldamótin og hafði lengi búið Guðmundur Magnússon (1842-1929). Hann var lærður smiður og einn af framámönnum í Mosfellssveit um sína daga. Haraldur Norðdahl telur og víst að afi sinn hafi jafnframt haft allnokkrar tekjur af ferðamönnum. Auk Elliðakots átti Guðmundur Vilborgarkot handan við Ósinn, eða Gudduós.
TröppurÍ ljósi nýrra ferðahátta færði Guðmundur Magnússon sig um set og byggði árið 1906 við krossgöturnar austan Gjótulágar reisulegt hús ásamt útihúsum, meðal annars fyrir hesta. Nefndi hann staðinn Geitháls eftir hálsinum eða ásnum fyrir ofan. Í ásnum átti áður að hafa verið geitakofi frá ábúanda í Vilborgarkoti. Enginn virðist veita nú hvar ásinn er. Norður af bæjarstæðinu og rétt austan vegar úr Gjótulág er þó ás eða háls með vallgróinni rúst, sem gæti verið Geithálsinn (Geitásinn).
Stuttu síðar lagðist byggð af í Vilborgarkoti og nytjaði Guðmundur landið frá Geithálsi. Festist það nafn svo við landið og jörðina. Guðmundur rak greiðasölu á Geithálsi til ársins 1919. Seldi hann þá landið og fluttist burt. Var Geitháls á þessum árum vinsæll áningarstaður manna, sem fóru um veginn í hestvögnum eða ríðandi.

Geitakofinn

Blómaskeið veitingareksturs að Geithálsi var um það bil tuttugu ár eða svo. Eftir því sem bílaumferð óx, eftir 1919, dró úr vægi slíkra veitingastaða og þeir áttu örðugar uppdráttar. Á Geithálsi skipti það svo sköpum er umferð til Þingvalla lagðist af yfir Mosfellsheiði eftir Alþþingishátíðina 1930. Vegurinn fékk þá nafnið gamli Þingvallavegur.
Geitháls lenti í hers höndum árið 1940. Tóku Bretar húsin og hlóðu þar garða mikla og höfðu birgðastöð. Þá tóku þeir efri hæðina af húsinu. Þeir byggðu og mikla braggaþyrpingu til norðurs beggja vegna við veginn úr Gjótulág. Eftir stríðið hélst þó enn um hríð greiðasala í gamla húsinu á Geithálsi. Ekki er okkur kunnugt um hvenær hún lagðist af, en húsið mun hafa verið rifið stuttu eftir 1955.

Geitháls

Geitháls.

Síðar reisti Olíuverslun Íslands skála á Geithálsi og var þar með bensínsölu og nokkra verslun og greiðasölu á árunum 1958-1972. Þá var kominn nýr vegur fyrir sunnan Suðurlandsveginn gamla og Geitháls [féll] aftur úr leið.

Geitháls

Geitháls 1920-1935.

Á Geithálsi sér nú fyrri mannvirkja engan stað, ef undan eru skildir nokkrir grunnar og hleðslur. Það mannlíf, sem þar var í nær sjötíu ár, er nú þegar að miklu gleymt.

Geitháls

Geitháls 1907 – útihús.

Þegar Guðmundur Magnússon fluttist frá Geithálsi kom þangað Helgi Jónsson, sem oftast var kenndur við Tungu í Reykjavík. Var hann þekktur hestamaður og var mikið um að vera á Geithálsi í hans tíð. Helgi flyst frá Geithálsi að því best verður séð árið 1928. Sama ár kaupir Gunnar Sigurðsson kaupmaður í Von (1884-1956) Norðurhólma af eiganda Geitháls, væntanlega Helga Jónssyni, og reisti þar nábýli og nefndi Gunnarshólma. Ólafur Sigurjónsson frá Geirlandi segir þó að Gunnar muni hafa byrjað þarna framkvæmdir fyrr, á árunum 1926-1927.
Gunnar byggði á jörð sinni myndarleg íbúðarhús og peningshús, sem enn standa, og ræktaði mikinn töðuvöll svo sem sjá má. Þegar mest var bú á Gunnarshólma voru þar nær þrjátíu nautgripir, á annað hundruð fjár, mikið af fuglum og svínum, svo og minkar og refir. Var þetta mikið bú og mikið í lagt. Erfiðust var þó túnræktin.“

Geitháls

Geitháls 1925.

Forvitni lék á staðsetningu nefnds „geitakofa“ á Geithálsi. Auðvelt var að finna hann m.v. lýsinguna. Reyndar fellur hann nokkuð vel inn í ásinn, en þegar nær var komið mátti glögglega sjá minjarnar. Annars eru geitur skondnar kýr.

Geithals-26

Erla Norddahl sendi FERLIR eftirfarandi ábendingu um Geitháls frá Noregi:
„Bara smá upplýsingar um Geitháls, sem tilheyrði Kópavogi. Þótt ég hafi alist upp á Hólmi, fædd árið 1954, upplifði ég að fara inn i gamla veitingahúsið, sem langafi minn byggði. Veitingarekstri var hætt þar um 1960.
Sløkkvilið Reykjavíkur kveikti i gamla húsinu eitt dimmt vertarkvøld (1961) sem „æfingu“. Mikið hefur farið forgørðum, bæði hér og þar í nafni framfara.
Annars góður vefur hjá ykkur og þakkir fyrir það, en reynið endilega að leggja inn fleiri gamlar ljósmyndir.“

Heimild:
-Áfangar – ferðahandhók hestamanna, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Geitháls

Geitháls – minjar.

Douglas

Enn átti eftir að staðsetja tvö flugvélaflök sem vitað var um, þ.e. Douglasvél, sem fór niður á „hraunssléttu SA Helgafells“ 1944 og aðra, sem fórst í Lönguhlíðarfjöllum, Hudson eða sama ár. Líklega er þó hér um eina og sömu flugvélina að ræða. Í skýrslu ameríska hersins frá 11. júní 1944 segir: „An Icelandic sheepherder reported a crashed in a lava bed about 8 miles southeast of Hafnarfj0rdur. The plane was idendified as the RAF C-47, missing since 7 March, 1944.“

BrakÍ viðtali, sem Sævar Jóhannsson tók fyrir nokkrum árum (óbirt) segir viðmælandinn, Ingólfur Guðmundsson, m.a. frá slysstaðnum í Huldum í Sveifluhálsi (í des. 1944).
Um atvikið í Kistufelli segir: „Við fórum oft í „kröss“ hjá hernum. Í eitt skipti, það hefur verið 1944, fórum við í veðurathugunar Hudson, sem „krassaði“ í Lönguhlíðarfjöllunum. Hún var að koma inn yfir land utan af sjó. Það var slæmt skyggni, flugmaðurinn hefur séð hæð framundan og rifið snöggt í þannig að vélin fór ekki upp heldur „massaði“ inni í hæðina. Við fundum vélina og það var ömurleg aðkoma. Daginn eftir fór Björn Jónsson og fleiri dugmiklir kappar með hermönnum að sækja líkin og ýmislegt úr vélinni. Þeir villtust og voru villtir í 2 eða 3 daga. Það var þannig, að Björn átti að vera leiðsögumaður, enda öllum staðháttum kunnur, en officerinn, sem fór fyrir leiðangrinum og Björn átti að lóðsa, þóttist vita betur en Björn og því fór sem fór. Björn vissi upp á hár, hvar vélin var. því hann fann hana daginn áður. Hermennirnir sem voru aðal „burðardýrin“ voru með ferkantaða vatnsdunka með sér, því þeir máttu ekki drekka vatn úr lækjum sem urðu á vegi þeirra. Það gerði frost svo vatnið fraus í dunkunum og svo gerði vitlausa austanátt. Þeir komu ekki niður fyrr en tveimur eða þremur dögum seinna og að mig minnir á Vatnsendahæð. Björn skilaði sér til byggða á eðlilegum tíma enda öllum leiðum vel kunnugur“. (Slys þetta er skráð 31. mars 1945. Fjórir fórust)
Áður hefur verið lýst að „fjárhirðir“ hafi fundið flak um 8 mílur suðaustur af Hafnarfirði sbr. skrá hersins (Record of Events): „11. júní 1944: Íslenskur fjárhirðir tilkynnti um hrap flugvélar í hraunið u.þ.b. 8 mílur suðaustur af Hafnarfirði. Um var að ræða breska flugvél, C-47, er saknað var síðan 7. mars sama sama ár.“ Sennilega er þetta sama vélin og sögð er hafa farist efst í Kerlingargili eða „Lönguhlíðarfjöllum“ sbr. framangreint. Sú vél átti einnig að hafa verið Douglasvél, en leifar hennar má m.a. sjá í Óbrinnishólabruna norðvestan Lönguhlíða.
BrakUm skoðun á því brakinu kom fram eftirfarandi hugleiðing: „Ljóst er að að skoða þarf nánar svæðið „undir Lönguhlíðum inn við Grindarskörð“ með hliðsjón af því hvort þar kunni að leynast álpjötlur, skinnur, rær og/eða leiðslur úr flugvélinni. Hafa ber þó í huga að flugvél, sem var að flytja varahluti, fórst þarna á svæðinu á 5. áratug síðustu aldar. Brak úr henni sást lengi vel.
Sagnir um að flugvélahlutar eftir flugslys hafi síðar verið dregnir til Hafnarfjarðar eru nokkrar, t.d. flak Canso-vélar (Canadian-Vickers Canso A), sem fórst efst í Sveifluhálsi utan við Huldur. Brak úr henni fannst mörgum árum síðar í Hrútagjárdyngju. Það gæti hafa hent flugvélina undir Lönguhlíðum því brak er að finna í hrauninu norðvestan við meintan nauðlendingarstað. Á því braki má lesa stafina .032 ANRA. Skv. upplýsingum þess manns, sem best þekkir til flugslysasögunnar fyrrum, Eggerts Norðahls, mun „.032“ vera þykktin á álinu, en ANRA gæfi til kynna að þarna gætu verið leifar breskrar Douglas flugvélar, sem fórst á hraununum suð-austan við Helgafell (átta mílur suð-suð-austur af Hafnarfirði 7. mars 1944. Flakið fannst fyrst 11. júní 1944). Á hlutum, sem þar fundust áður var einmitt áletrunin .032 AN eða .032 ANRA stimplað á plöturnar að innanverðu. „Hugsanlegt er að ANRA standi fyrir Army Navy Rolled Aluminium eða eitthvað álíka. Á öðrum hlutanum er merki Breska flughersins svo enginn vafi er á hvers þjóðar hún var„.
BrakÞá var ekki um annað að ræða en fara á vettvang og leita uppi slysstaðinn. Eftir að hafa gengið brúnir Lönguhlíðar sunnan við Kerlingargil kom í ljós að flugvélinni hafði verið flogið í hlíðina eins og fram kemur í framangreindri lýsingu. Undir hlíðinni er brak úr vélinni, s.s. pústgrein frá mótor og ýmislegt annað. Ofan þess eru smásteinóttar skriður, sem hafa verið að hylja brakið smám saman síðustu 65 árin (skrifað 2009). Ekki er útilokað að hluti braksins kunni að vera ofar á brúninni. (Sjá meira undir Lönguhlíð – flugvélaflak II.)
Nú má segja að tekist hefur að staðsetja öll þekkt flugvélaflög á Reykjanesskaganum frá stríðsárunum. Enn á þó eftir að skoða svæðið sunnan við Leiti austan Bláfjalla, en þar sagt vera heillegt brak úr herflugvél. Auk þess á eftir að skoða betur í Lakadal, en þar var gengið fram á brak úr flugvél árið 2005.

Frábært veður. 

Heimild m.a.:
-Sævar Jóhannsson.
-Dagbókafærslur ameríska hersins (MACR) hér á landi 1944 og 1945.

Lönguhlíð

Brak við Kerlingagil.

Óttarsstaðaganga

Í Smalaskálahæð er Smalaskálaker, rauðamalarhóll í jarðfalli Hrútagjárhrauns. Árið 1974 var komið fyrir þar „listaverki„.
Hreinn Fridfinsson„Húsbyggingin“ (Das Haus Projekt) er þekkt verk eftir Hrein sem einnig varð til á 8. áratugnum. „Húsbyggingin“ byggir á sannri sögu eftir Þórberg Þórðarson, Íslenskum aðli, um sérvitring sem afræður að byggja hús þar sem innihliðin snýr út. Hreinn ákvað að taka þessa hugmynd upp og byggði húsið þannig að veggfóður þess og gardínur lágu utan á. Þegar húsinu hafði verið snúið við þurfti hið sama að gilda um heiminn fyrir utan, þ.e. öllu sem var úti fyrir þurfti nú að finna stað inni í húsinu. Sem listmunur er húsið lítils virði að mati listamannsins. Nauðsynlegt var að reisa það til þess að fullkomna þessa hugmynd, en það nægir að það sé til sem vitnisburður á ljósmyndaformi. „Mér líkar vel að uppgötva hið óvenjulega í hinu venjulega. Það er þetta sem ég fæst við, fyrst og fremst.“ Hreinn Friðfinnsson vinnur með nánast hvaða efnivið og hvaða miðla sem er, jafnt ljósmyndir, hús, fíngerðar teikningar og efnivið sem hann hefur fundið. Í þeim og með aðstoð þeirra rannsakar hann venjubundna skynjun, tilfinningar og skilning. Jafnvel smæstu verk hans og þau sem minnst ber á búa yfir mikilfenglegri hugmyndaauðgi og tilfinningu.“
Slunkariki - myndir„Hér má sjá sex af sextán myndum af Slunkaríki Hreins Friðfinnssonar sem teknar voru sumarið 1974. Myndirnar er fengnar af heimasíðu listamannsins. Hreinn setti listaverkið upp það árið í Smalaskálakeri, en það er jarðfall í Smalaskálahæð. Jarðfallið er sunnan í Smalaskálahæð í Hraunum suðvestur af Straumsvík, nánar tiltekið skammt frá Óttarstaðafjárborg, sem nefnist einnig Kristrúnarborg. Þangað liggur vegslóði af gamla Suðurnesjaveginum og Gamlavegi (eldri vegurinn), en afleggjarinn er til móts við Lónakots heimreiðina.
Myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson tilheyrði SÚM hópnum þegar hann gerði listaverkið. Þetta var lítið hús sem var forsmíðað og síðan flutt í einingum. Þegar það var risið voru teknar af því sextán ljósmyndir úr ýmsum áttum, bæði ofan frá og neðan frá og myndaði ljósmyndasyrpan sjálft listaverkið.
Slunkariki-21Þegar þessi gjörningur var afstaðinn var hlutverki hússins sem listaverks í rauninni lokið en eftir stóð lítil bygging á röngunni, ef svo mætti segja. Hreinn vann verkið undir áhrifum frá kafla í bókinni Íslenskum aðli sem skáldið Þórbergur Þórðarson ritaði 1938 og fyrr er getið. Í einum kafla bókarinnar fjallaði Þórbergur um sérkennilegan mann sem hét Sólon og bjó rétt utan við þéttbýlið í Ísafjarðarkaupstað við Skutulsfjörð.
Sólon byggði sér einkennilegt hús og lét bárujárnið snúa inn í húsið en setti veggfóður á útveggina. Veggfóður var nýjung á þessum tíma en bárujárnið hafði verið notað um árabil. Sólon var svo hrifinn af veggfóðrinu og vildi leyfa öllum íbúum staðarins að njóta fegurðarinnar með sér. Það var því eðlilegt að hafa það utan á húsinu, sem gekk undir nafninu Slunkaríki. Samneft myndlistar gallerý hefur verið starfrækt á Ísafirði um nokkurra ára skeið og er það til minningar um þennan merka mann, sem var sennilega fyrsti íslenski konsept listamaðurinn, án þess að hafa hugmynd um það sjálfur.
Slunkariki-22Það sem eftir er af Slunkaríki er aðeins brak á víð og dreif um Smalaskálaker. Eftir að búið var að mynda húsið lét Hreinn það afskiptalaust, enda tilgangur hans aðeins að koma því á þennan stað og útbúa myndröð í anda SÚM-aranna. Gjörningnum var lokið og síðan beið hússins að ummyndast með veðrinu sem lék um það og setti mark sitt á náttúruna allt í kring. Húsið var eins og sérkennilegur hlutur á sjálfu tunglinu, bygging í miðri náttúruperlu, enda er jarðfallið afar sérstakt og fallega mótað.

Slunkariki-23Húsið stóð af sér flest veður um árabil þó svo að myndirnar létu fljótlega á sjá eins og veggfóðrið, sem flettist af veggjunum. Hurðin fauk upp einn veturinn og losnaði eftir það af hjörunum. Skotglaðir Hafnfirðingar notuðu húsið til að æfa hæfni sína, eins og þeir virðast hafa gert svo óralengi á þessum slóðum. Smám saman drukku spónaplöturnar sem mynduðu útveggina í sig regnvatnið og grotnuðu niður, en bárujárnið hélt húsinu uppi. Stoðirnar blöstu við og innan þeirra var bárujárnið heilt og óryðgað enda vel galvaniserað. Stuttu eftir 2000 sprakk húsið í vindhviðu einn veturinn og dreifðust stoðir og  járnplötur vítt og breitt um jarðfallið, en restin af húsinu varð að einni grautarhrúgu efst á gjallhaugnum. Eftir það stóð grunnurinn efst á haugnum í gjótunni ásamt spýtnadóti og öðru smálegu og má enn sjá brotin í Smalaskálakeri.
ottarsstadaborg-21Laugardaginn 17. júlí 2010 voru einhverjir á ferð í Smalaskálakeri og kveiktu í því sem eftir var af Slunkaríki. Það sem viðkomandi aðilar gerðu var ekki bara skemmdarverk á listaverki sem var að veðrast með eðlilegum hætti, því eldurinn læsti sig í trjágróður, lyng, mosa og annan lággróður sem hefur verið að sækja í sig veðrið og vaxið þarna um langa hríð. Magnaðist upp mikið bál og varð að kalla út slökkvilið sem réð ekkert við eldinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var þá kölluð á vettvang til að hjálpa við slökkvistarfið og fór margar með sérstakann sekk sem notaður er til að sækja vatn í sjó eða stöðuvötn þegar erfitt er að athafna sig við slökkvistarf úti í náttúrunni.“

Smalaskálaker

Smalaskálaker – Slunkaríki. Minnismerki um fyrrum listaverk komið fyrir í skálinni.

Þrátt fyrir listaverkið og gjörning þann er að framan greinir er rauðhóllinn í Smalaskálakeri hvað merkilegastur. Þessi gamli „litli“ rauðamelshóll áorkaði að stöðva framrás hrikaleika Hrútagjárdyngju-hraunsins á þessu svæði. Augljóslega má sjá að mikil kvikusöfnun hefur átt sér stað allt umleikis og hún lyft storkuðu yfirborðinu. En þrátt fyrir álagið hefur rauðhóllinn staðið fyrir sínu og ekki látið hið mikla hraunálag yfir sig ganga. Sambærilega gjallhóla má sjá í Stóra Rauðamel og Litla Rauðamel skammt norðar.
Nú hefur verið komið fyrir minnismerki um listaverkið í Smalaskálakeri, þ.e. járngrind, sem sína á stærð þess. Upphaflega kom Hreinn fyrsta húsinu fyrir í kerinu árið 1974 en veður og vindar unnu á því húsi og að endingu var ruslinu brennt árið 2010.

Heimild:
-hraunavinir.net
-Morgunblaðið 23. apríl 2005.

Smalaskáli

Smalaskáli í Smalaskálahæð.

Kerlingabúðir

Af og til hefur verið leitað að letursteini við Kerlingarbúðir undir Stapanum. Á hann er, skv. heimildum, klappað ártalið 1780.
Túnakortið frá 1919Ef skoðað er túnakort frá Brekku frá árinu 1919 má lesa eftirfarandi á handritinu undir uppdrættinum af búðunum: “Aths. Kerlinga(r?)búðir eru stuttan spöl s.v. frá vestri túnfætinum (sem áður hefur verið sérbýli). Þar er í líkri afstöðu og sýnt er: 1. tótt af íbúð kerlingar, 2. tótt af sjóbúð, 3. af eldhúsi, er stór klettur hefur brotið, 4. klettur lágur eftst í fjöruþanggróðri með ártalinu 1780.
NB. Steinninn aðeins er stækkaður tífalt móti öðru (1:200) og ártalið mikið meira. 3. fiskihjallaleifar milli kletta er þar í nánd frá konungsútvegi (og má vel vera meira – Fljótlega skoðað í rökkri).”
Þegar gengið var eftir kortinu virtist það allnákvæmt hvað Brekku (Stapabúðarhlutann) varðaði. Austast eru tóftir hússins og kálgarður norðvestan við það. Sunnan þess er tóft. Innan garðs vestan við kálgarðinn mótar fyrir tóft, brunnur enn vestar sést enn svo og tóft norðvestan hans. Kerlingarbúðir eru spölkorn norðvestar með ströndinni, undir hamrahlíð.
Ef tekið er mið af hlöðnum grónum vegg svo til alveg á fjörubakkanum þaðan sem sjá má í fiskihjallaleifarnar fyrrnefndu á kortinu (við stóran klett), má sjá hvar steinninn var 1919. Tóftir merktar nr. 3 og 2 á uppdrættinum eru horfnar í sjó. Eftir stendur suðurveggur tóftar nr. 1. Skv. því ætti steinninn að vera skammt norðaustan við vegginn, niðri í fjöruborðinu (ef sjórinn hafði ekki fært hann annað).
Kerlingarbúðir heita svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann Tóftarveggurinnað róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri. Þannig hefndi kerling þessa verknaðar.
Við nákvæma leit í fjörunni þar sem hver einasti steinn var skoðaður nákvæmlega í línu austan við tóftir nr. 1-3, sem sýndar voru á uppdrættinum frá 1919, allt út að sjólínu. Yst var brimsorfið grágrýti, en nær kambinum var stórt grjót, sem fallið hafði úr hlíðinni fyrir ofan og sjórinn fært síðan til á meðan hann hafði dundað við að rífa niður gróðurræmuna á bakkanum.
Um það leiti sem gefast átti upp á leitinni, enn eini sinni, var ákveðið að gera enn eina atlöguna. Grjót var fært ofan af grjóti í veikri von – og þá birtist eitthvað er virtist vera talan 17. Svartar skófir voru fjarlægðar með vírbursta, olíu í nálægum brúsa makað yfir og
 skafið á ný. Þá virtust sjást tölustafirnir 1, 7, 8, og 0. Og með því að maka mold úr bakkanum efra yfir steinflötinn birtist ártalið – Letursteinninn1780. Skynja mátti að þarna hefði kerlingin haft einhver áhrif því hefur ekki verið einleikið hversu þrálátlega leit hefur verið gerð að steini þessum.
Nú getur vörslufólk fornleifa í landinu andað léttar því nú á það a.m.k. að geta gengið þurrum fótum (í fjöru) að enn einni fornleifinni hér á landi.

Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Túnakort 1919.
-Örnefnaskrá.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

 

Njarðvíkursel

Um miðbik 19. aldar munu hreppsmörk Vatnsleysustrandarhrepps að sunnan- og vestanverðu hafa verið eftirfarandi: „…úr Hraunsvatnsfelli og þaðan í Vatnskatla í Vatnsfelli norðan Fagradalsfjalls. Úr vatnskötlum liggja mörkin til útsuðurs um Kálffell og í kletta við götuna nyrst í Litla-Skógfelli. Úr Litla-Skógfelli liggja mörkin á Arnarklett, allháan klett og auðkennilegan í brunahrauninu sunnan Snorrastaðatjarna, en þaðan til sjávar yst í grunnri skoru á Vogastapa.“ Það skal tekið fram að lýsing þessi er ekki villulaus. Auk þess eru til fleiri en ein útgáfa af markalýsingum, jafnvel frá sama tímabili.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Kolbeinsvarða var sögð standa á mörkum Gamla-Keflavíkurvegarins og Vatnsleysustrandarhrepps fyrir ofan Grynnri Skor, „grunnri skoru“ sbr. framangreint, (Kolbeinsskor), sem einnig er kölluð Innri Skor. Á þeim slóðum, líklega í Njarðvíkurlandi, er stór varða, nýlega endurbyggð, sem kölluð er Brúnavarðan og er hún mið af sjó. Fleiri nálægar vörður eru tilgreindar, en ofar í Njarðvíkurheiðinni, s.s. Mörguvörður, Stúlkuvarða og „Tyrkjavörður“.
Rétt er að geta þess að frá Mörguvörðum ofan við Stapann liggur gömul gata (akvegur, byrjað á honum 1913) svo til beint niður móana að Selbrekkum (Sólbrekkum/Seltjarnarhjalla)), á ská niður þær og að Seltjörn (Seljavatni).
Gatan hefur eflaust haldið áfram til Grindavíkur, en nýi vegurinn liggur ofan á henni. Ennþá eldri gata (hestagata) liggur svo til samhliða nýrri götunni, en allnokkru austar. Hún sést einnig mjög vel þar sem hún liðast niður Selbrekkur (vestar) og áfram niður að austanverðu Seljavatni (Seltjörn).

Selbrekkur

Varða við gömlu reiðleiðina ofan við Selbrekkur (Seltjarnarhjalla).

Þegar þessi gata er skoðuð er líklegt að hún hafi greinst við vatnið og austari hluti hennar legið áfram til austurs með hraunkantinum, að Snorrastaðatjörnum. Einungis vantar kaflann frá þessari götu og upp að Litla-Skógfelli til að tengja þessa gömlu leið og aðrar þær, sem þar eru, saman.

Njarðavíkurheiði

Varða á Njarðvíkurheiði.

Á heiðinni, stutt frá gamla akveginum, er stór hringlaga vörðufótur og leifar af vörðu. Gróið er að fætinum. Þarna mun fyrrum hafa staðið myndarleg varða, að öllum líkindum landamerkjavarða af stærðinni að dæma sem og skv. heimildum. Ólafur frá Knarrarnesi man eftir vörðunni þarna. Enda passar staðsetning hennar við „sjónhendingu“ úr Brúnavörðu ofan Stapabrúnar, jafnvel í Innri Skor, og frá henni í Arnarklett ofan við Snorrastaðatjarnir. Grjótið í vörðunni var tekið úr henni á fyrri hluta 20. aldar og sett undir bryggjuna í Vogum. Það að Vogamenn hafi tekið grjótið bendir til þess að það hafi verið í þeirra landi, a.m.k. helmingurinn. Ef þetta reynist rétt er núverandi „Hollywood“-stafaskilti Reykjanesbæjar innan fyrrum landamerkja Voga.

Njarðvíkursel

Stekkur við Njarðvíkursel.

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: „Suður af tjörninni (Seljatjörn) eru tættur, sem heita Sel. (Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: „Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Seljavatn“). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum“.
Byrjað var á því að skoða Njarðvíkursel sunnan Seltjarnar/Selvatns.

Njarðvíkursel

Varða ofan Njarðvíkursels.

Selstóttirnar liggja í röð undir hraunbakkanum skammt frá veginum að Stapafelli. Segja má að vegurinn liggi í gegnum selstöðuna. Um er að ræða tvö hús. Annað þeirra, það syðra er stórt með tveimur rýmum. Hleðslur sjást enn vel í innveggjum. Nyrðra húsið er mun stærra og lengra, með a.m.k. sex rýmum. Hleðslur í syðstu tóftunum standa enn vel. Líklegt má telja að vegavinnumenn, sem unnuð við Grindavíkurveginn (1914) hafi nýtt aðstöðuna þarna, einkum syðsta hlutann, enda selið þá aflagt fyrir allnokkru.
Norðan vegarins er hlaðin rétt og stór tvískiptur stekkur, tvöfaldur. Hæðin nú er um 60 cm og sjást a.m.k. þrjú umför greinilega.

Njarðvíkursel

Aðhald við Njarðvíkursel.

Miðað við hversu volduglega stekkurinn er hlaðinn má telja líklegt að hann hafi verið notaður fyrir kýr fremur en fé. Af fjölda rýma í selinu og mismunandi stærð þeirra að dæma gæti þarna hafa verið bæði selstaða fyrir fé og kýr, enda ákjósanlega aðstaða við vatnið.
Þarna hefur einnig verið hin ágætasta aðstaða miðja vegu á milli þjóðleiðanna (Skipsstígur) á milli Njarðvíkur og Grindavíkur annars vegar og Voga og Grindavíkur (Skógfellavegur) hins vegar. Grindvíkingar, og jafnvel fleiri, sóttu lengi vel í ís á tjörninni. Steypta mannvirkið norðvestan hennar er m.a. frá hluta þess tímaskeiðs.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG (1995).

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Þórkötludys

Austan við Bótina, í klettunum af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlungavör. Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þá Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveimur stöðum. Þetta breyttist, þegar vélarnar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent á Nesinu.
Botin-139Austan við Buðlungavör koma Slokin; út af þeim svonefndur skerjatangi, sem gengur vestur og út í Þórkötlustaðavík, og er sundið inn í víkina á milli þessara tanga og þeirra, sem liggja út frá Leiftrunarhól og áður er getið.
Þarna á Slokunum er álitið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Það var nóttina áður en mb. Aldan frá Vestmannaeyjum rak upp í Nesið að vestanverðu, sem áður er sagt, að annan vélbát frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélbilun í sama veðrinu, rak þar upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðru vísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótt allt væri mjög maskað niður, sást þó, að þarna hafði Þuríði formann rekið upp og hún farist með allri áhöfn.
Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði einhvers staðar hjá Grindavík, að því er skipstjórinn hélt. Togarinn losnaði sjálfur fljótlega úr strandinu, en hafði laskast svo mikið, að hann fór fljótlega að síga niður og sökk svo eftir lítinn tíma. Áhöfnin komst í björgunarbátinn og hélt síðan undan sjó og vindi, þar til þá allt í einu bar að landi og upp í stórgrýtiskamp. Mennirnir komust allir ómeiddir í land. Þar, sem þeir tóku land, reyndist vera Blásíðubás á Reykjanesi, sem áður er getið, og var þetta því önnur skipshöfnin, sem bjargaðist þar í land. Mennirnir komust svo heim á Reykjanes um morguninn, allir sæmilega hressir.
Sloki-139Skiptar eru skoðanir manna um, hvar togari þessi hafi strandað, en Þórkötlustaða- menn töldu, að eftir strand þetta hafi komið festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði  verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp. Því var giskað á, að togarinn hafi lent annað hvort á Slokunum eða nálægt Leiftrunarhól, þ.e. öðru hvoru megin við Þórkötlustaðavík.
Næsta örnefni við Slokin er svo Markabás. Þar eru landamerki milli Þórkötustaða og Hrauns. Næsta örnefni við Markabásinn er Hádegisklettur og fram af honum út í sjóinn Hádegistangi, næst Skarfatangi, klapparhlein nokkur þvernípt að norðan, líkust bryggju, en að sunnan ávala líðandi niður á bás. Ekki hefir Skarfatanginn orðið afskiptur af ströndunum, því skip hafa strandað báðum megin við hann. Og vegna þess, að við erum á leið frá vestri til austurs, er fyrst að geta um franska togarann „Cap Gagnet“, sem strandaði þarna sunnan undir Skarfatanganum aðfaranótt 24. mars 1931. Þetta er að mörgu leyti minnisstætt strand, því þar voru í fyrsta skipti í allri strandsögu Grindavíkur notuð nýtísku björgunartæki af björgunarsveit, sem var búin að æfa sig svo vel að nota tækin, að hún stóðst pryðilega þá eldskírn, sem hún fékk þarna við að nota þau í alvöru í fyrsta sinni. Þá var það og, að merkilega virtist hittast á, að þessi björgun fór fram þann eftirminnilega 24. mars, sem áður er getið og hefir gengið undir nafninu hrakningadagurinn, og einnig að, að bjargað var þarna jafnmörgum mönnum og Grindvíkingarnir voru, sem kútter Ester bjargaði hinn 24. mars 1916, eða 38 að tölu.
S.a. stormur var og nokkurt brim, þegar skipið strandaði. Þetta var stór togari, 600-700 tonn, sem gera mátti ráð fyrir, að þyldi eitthvað þarna í fjörunni. Stórstreymt var, flóð um kl 6 f.h. Nokkru fyrir flóðið var búið að koma sambandi frá landi í skipið. En brimið var það mikið og hreyfing á skipinu, að hægt gekk, fyrst í stað, að draga mennina í land. Þegar svo fór að falla út, fór skipið að verða kyrrara og þá fór að ganga betur með björgunina og fyrir hádegi var allri áhöfninni bjargað, 38 manns. Allir skipsbrotsmennirnir voru fluttir heim að Hrauni, til eirra bræðra Gísla og Magnúsar Hafliðasona. Það vildi til að þeir höfðu hýsrými nóg. Ekki er ég viss um að allar konur nú í dag kærðu sig um að fylla hús sín af mönnum, sem verið væri að draga upp úr sjó svo úr þeim læki í stríðum straumum, en Hraunskonurnar, sem á voru Margrét Jónsdóttir og Katrín Gísladóttir, voru ekki að hugsa um, hvort húsin blotnuðu eða óhreinkuðust, heldur að hjúkra mönnunum, jafnóðum og þeir voru leiddir eða bornir heim. Kvenfólk var og fengið af næstu bæjum til að hjálpa til og stjórnuðu þær hjúkruninni og lögðu sig fram um að hressa þá, sem helst þurftu þess, án allra úrtalna. Það var áberandi með sjómennina af skipi þessu, hvað þeir voru illa búnir; margir í einum nankins-samfesting og engu öðru, enda voru þeir illa á sig komnir vegna kulda. Þeir voru allir háttaðir niður í rúm til að fá til að hitna. Síðan voru fengin lánuð föt um allt Þórkötlustaðahverfi að færa þá í. Hreppstjórinn varð svo, sem á tíðkaðist, að koma mönnunum fyrir og sjá um kostnað með föt og annað. En vegna þess, að þarna gátu allir þessir menn ekki verið lengi, símaði hreppstjóri til Hjalta Jónssonar, sem þá var franskur konsúll, að hann sæi um að flytja hópinn til Reykjavíkur.
Hraun-139Hjalti kom sjálfur suður kl. 3-4 um daginn með tvo kassabíla að sækja mennina. En þegar að því kom, að Frakkarnir færu að klæða sig, reyndist ómögulegt að láta þá fara í föt sín aftur. Þau voru bæði blaut og meira og minna ötuð í smurningsolíu. Hjalti var ekki lengi að ráða fram úr því. Hann sendi hreppstjóra til að kaupa fatnað á alla skipshöfnina. Hann fór í verslun Einars í Garðhúsum og það heppnaðist að fá fatnað yst sem innst á alla; gallinn var bara sá, að yfirleitt voru þeir frönsku mjög smávaxnir, en verulegur partur af fötunum hafði lagst fyrir, vegna þess, hve stór þau voru. Fljótlega var komið með fatnaðinn og skipsbrotsmennirnir látnir fara að klæða sig. Var þeim sagt að fara úr þeim nærfötum, sem þeir höfðu verið færðir í. Þegar hópurinn var klæddur kom í ljós, að mikið vantaði af hinum lánuðu nærfötum. Annaðhvort hafa þeir ekki skilið skipunina eða viljað hafa fötin. Mest vantaði af ullarnæsbuxum. Þá var farið að kanna piltana, hverjir voru klæddir aukafötum, og reka þá úr, sem í þeim voru. Þegar búið var að yfirfara nokkra karla, brast Hjalta þolinmæði, og lofaði hann að sjá umgreiðslu fyrir þau föt, sem vantaði. Ég býst við, að margir, sem á horfðu, minnist þeirra frönsku, er þeir voru að spígspora um hlaðið á Hrauni í núju fötunum, flestir eins og marflóétnir gemlingar innan í þeim, með margbrotið upp á buxnaskálmar og jakkaermar. En búnaðinn virtust þeir ekkert setja fyrir sig; voru allir glaðir og kátir, Áður en skipstjórinn fór, gerði hann grein fyrir því víni, sem ætti að vera um borð í skipinu, taldi það vera 4 kvartel af koníaki, með 120 l hvert, og 6 tunnur af rauðvíni, með 250 l hverja.
Hraun-uppdrattur-139Hjalti Jónsson fór svo með þá frönsku kl. langt gengin í 6 um kvöldið. Þá fór og hreppstjórinn frá Hrauni, en varla var hann kominn heim til sín um kvöldið, út í Staðarhverfi, þegar Gísli á Hrauni var kominn á eftir honum að tilkynna, að togarinn væri alveg horfinn; hefði brotnað í spón í flóðinu, svo að ekkert sæi eftir af honum, en mikið rekald væri að koma upp í fjöruna. Þegar þetta var, var kominn dagur að kvöldi og ekkert hægt að gera við að bjarga. Það hefir löngum verið viðbrugðið þjófnaði á ströndum, eða svo að það þótti slöttungs heiðvirðir menn, þótt sannast hefði á þá þjófnaður á strandi. Þess vegna var talin nauðsun að hafa vörð á þeim ströndum, sem hægt var komast að, til þess að ekki reyndi of mikið á heiðarleika manna. Í þessu tilfelli var Gísli beðinnn um að láta líta eftir strandinu um nóttina.
Morguninn eftir setti hreppstjóri sig símeiðis í samband við Hjalta Jónsson, um hvað ætti að gera við strandið, bjarga undan sjó eða láta það eiga sig. Ekki gat Hjalti svarað á stundinni, taldi sig þurfa einhvern tíma til að taka ákvörðun; aðeins bað hann um að láta líta eftir, að engu yrði stolið eða skemmt af strandgóssinu.
Engin ákvörðun var komin frá Hjalta næsta morgun, þegar Gísli á Hrauni tilkynnti hrepsstjóra, að mikið rekald væri komið upp í fjöruna, þar sem Cap Fagnet strandaði, og að vart hefði orðið við tvær víntunnur, sem ekki hefðu brotnað í lendingu. Annað var koníakskvartel og hafði því strax verið bjargað og sett undir lás. Hitt var rauðvínstunna, en hún hafði farið þannig, að brotinn hafði verið úr henni botninn og mannfjöldi var sestur að henni við drykkju. Nú þótti ekki til setunnar boðið, og fór hreppstjóri með Gísla þegar á strandstaðinn. Þegar þangað kom, gaf á að líta. Tunnunni hafði verið velt hátt upp á kampinn – bjargað undan sjó – og reist þar á annan endann, vegna leka á annarri lögginni. En kampurinn var snarbrattur, þar sem tunnan stóð. Í kringum tunnuna voru svo milli 30-40 menn, allir að gæða sér á rauðvíninu. Enginn hafði gefið sér tíma til að fara frá, til að ná í ílát að drekka úr, heldur notað það, sem tiltækt var þarna í fjörunni. Þeir heppnari höfðu náð í hinar og aðrar dósir eða fundið flöskur til að drekka úr; og þeir sem höfðu fundið ílát, sem dálítið tóku, gátu veitt sér þann munað að leita eftir þægilegum steinum í kampinum til að sitja á og rabba saman meðan á drykkjunni stóð. Aðrir höfðu verið óheppnir með ílátin og ekkert undið nema öður eða kúskeljar eða brotnar kúlur. Þeir gátu vitanlega ekkert farið frá tunnunni, heldur urðu að standa við hana og bera sem örast á, svo eitthvað gengi að taka til sín mjöðinn. Ekki lest hreppstjóra á aðkomuna, óttaðist eftirmál um skemmdir á verðmætum og sérstaklega, að ölæði yrði svo mikið, að róstur hlytust af. Hann rést því inn í hópinn að ofanverðu við tunnuna, sagði í gamansömum tón, að rauðvín hefði hann aldrei bragðað, og spurði viðstadda, hvernig þeim líkaði það. Sjálfsagt þótti að gefa honum pláss til að komast að, svo hann gæti bragðað á miðinum. En þegar hann var kominn að tunnunni, setti hann í hana fótinn, svo hún hraut á hliðina og allt hvolfdist úr henni.
Hraunsfjara-139Það kvað við margraddað org og óp, þegar menn sáu rauðvínið hvolfast niður í kampinn. En að sýndi sog þá, að óþarfi hafði verið að meina þeim að þamba rauðvínið vegna áflogahættu. Aðeins einn réðst á hreppstjórann, er hann hafði velt tunnunni, og bróðir árásarmannsins kom þá og tók hann samstundis. Hitt var svo annað mál, að hreppstjóra, voru sendar margar ómjúkar kveðjur fyrir að gera þetta En hann taldi sig ekki hafa fengið neitt samviskubit af verknaðinum, nema þá helst vegna eins fullorðins manns, sem fór að hágráta yfir því mikla óhappaverki, að skemma svona mikið af rauðvíninu.
Þegar hér var komið sögu, fékk hreppstjóri fréttir af því, hvernig gengið hafði til að ráðist var svona á tunnuna. Hún var sú eina, sem komst heil upp á kampinn, hinar allar brotnuðu, en eitthvað var hún þó löskuð á löggum við annan botninn. Menn höfðu farið að hópast á strandstaðinn, strax eftir að bjart var orðið og flestir stansað hjá tunnunni. Hófust vangaveltur og umtal, að víst læki tunnan og sennilega myndi hún tæmast. Þetta gekk lengi morguns, þar til maður kom í hópinn, sem ekki hafði verið þar áður. Sá stóð þar þegjandi nokkra stund, tók síðan upp stein, sló honum í botninn leka, sem sneri upp, svo hann brotnaði úr, og sagði um leið og hann gekk í burtu; „Jú, vist lekur tunnan“, og lét svo eki sjá sig framar. Hann hefir sennilega hugsað svipað og Egill Skallagrímsson forðum, þegar hann vildi komast til Alþingis með silfurkistur sínar.
Hraunsvík-139Þá er að fara yfir Skarfatangann, en norðan undir honum strandaði hinn 9. maí 1926 kútter Hákon frá Reykjavík, eign Geirs Sigurðssonar. Þennan dag var veðri svo háttað, að það var n.a. rok með snjókomu svo mikilli, að ekki var meira en 100-200 metra kyggni. Frá bænum Hrauni er ca. 400-500 metrar á Sarfatangann og blasir hann við gluggum þar. Hákon hafði strandað þarna fyrir miðjan dag, en engin á Hrauni sá skipið. Það var ekki fyrr en undir kvöld, að Eyjólfur Jónsson bóndi í Buðlungu sá skipið þarna, er hann var á gangi í fjörunni í leit að kindum. Fyrst var farið frá Hrauni að athuga, hvort menn voru um borð, en þar var ekki vart neinnar hreyfingar, og greinilega þótti, að skipsbáturinn væri horfinn. Þá var sent um allt Þórkötlustaðahverfi, að fá menn til að leita á fjörunni, bæði austur og vestur. Var almennt brugðist vel við að fara í leitina, þótt þá væri ekki orðið greitt um ferðalag því þá var kominn klofsnjór, svo ekki var fært um jörðina, nema þá helst eftir fjörunum. leitað var fram á nótt, en án árangurs.
Þá er að segja frá skipshöfninni á kútter Hákoni. Þar sem skipið strandaði í lágum sjó, fór það ekki að öllu leyti inn í landsjóina; var víst utan til í broti þeirra. Eins og áður er getið, var bylurinn svo svartur, að erfitt var að átta sig á umhverfinu. Og þótt talið væri af kunnugum, að áhöfnin hefði getað komist þarna í land vegna brims, má gera ráð fyrir, að brotsjóirnir hafi ekki sýnst árennilegir fyrir innan, þar sem í dimmviðri sýnist allt stærra og fyrirferðameira en að raunverulega er. Skipshöfnin tók líka þann kostinn að fara í björgunarbátinn og út á rúmsjó; en að það skyldi vera hægt á þessum stað, sýndi raunverulega, að mjög lítið brim var, eftir mati okkar Grindvíkinga.
Festarfjall-139Eftir að báturinn var kominn út fyrir botin, hafði hann svo borist undan vindinum, sem stóð þarna meðfram landinu. Landkenningu höfðu þeir svo fljótlega tvívegis, sennilega á Slokunum og svo við Þórkötlustaðanes. En þar sem ekkert var hægt að átta sig á umhverfinu, urðu bátverjar ekki varir við neitt nema brimsjóina á töngunum, svo þeir hefir ekki þótt árennilegt að leita í land. Þennan dag voru lendingar allar taldar færar í Grindavík, en þar sem þær eru allar inni á víkunum hafa þeir ekki getað gert sér grein fyrir því. Næst munu þeir svo hafa orðið varir við land undir Staðarbergi. hvort tveggja var, að þeir urðu varir við sorta af bergveggnum, og hitt, að þar lentu þeir í meiri bulsorta en bæði undan og eftir. Sennilegt, að bylurinn hafi orðið hvað þéttastur í skjólinu, eftir að hafa þyrlast fram af bjargbrúninni. Bátinn hélt áfram að reka, en undir kvöldið bar þá allt í einu að landi. Sjórinn skellti bátnum uppá stórgrýtiskamp og mennirnir komust allir í ad, án meiðsla. Þar sem þeir lentu, reyndist vera Blásíðubás, svo þetta var þriðja skipshöfnin, sem þar hefir bjargast í land. heim að Reykjanesi komust þeir svo um kvöldið.
Hraun-fontur-139Ekki fréttist neitt af skipshöfninni af Hákoni í Grindavík fyrr en morguninn eftir, og fannst öllum þeir úr helju heimtir. Ekki hefi ég fullar heimildir fyrir því, en nokkrar líkur, að skipstjóri sá, sem var með Hákon, er hann strandaði, hafi verið stýrimaður sá á Resolút, er best gekk fram við að bjarga sér og öðrum skipverjum af henni í land, svo sem áður er getið.
Næsta örnefni innan við Skarfatanga er Kobbasker. Munnmæli er, að það hafi komið upp, þegar bænahúsið var lagt niður á Hrauni. Þá hafi og tekið af gömlu Hraunsvör. Þar fryir innan Vatnstangi, atnagarðar, Suðurvör og Norðurvör. Á milli varanna er sker, sem heitir Rolla. Innan við Norðurvörina er sker, sem heitir Baðstofa, þá Bótin, Barnaklettur, Skeljabót og Vonda fjara.
Í Vondufjöru strandaði eftir 1940, snemma í janúar, enskur togari, St. Louis. Veðri var þannig háttað, að s.a. rok var allan daginn með slydduéljum og miklu brimi. tekið var eftir strandinu frá Hrauni, rétt fyrir rökkrið, og björgunarsveit Slysavarnarfélagsins var þegar látin vita. En þegar hún kom á strandstaðinn, var orðið dimmt. Mjög þægilegt var að flytja björgunartækin, því að segjamátti, að bílar kæmust fast að kampinum, þar sem togarinn var niður undan. Þar sem strandið var svo nærri byggð, hópaðist mikið af fólki þangað, bæði konur og karlar, til að horfa á björgunina, en varð mjög til hjálpar, þar sem þetta var með erfiðari björgunum, sem björgunarsveitin hefir framkvæmt, aðallega vegna þess, hversu mikil hreyfing var á skipinu. Þannig hagaði til, að lágsjávað var. Skipið lá alveg þversum á tiltölulega sléttum klöppum fyrir brotsjóum, sem á það gengu. Þegar svo brotin skullu á það að utan, lagðist það alveg flatt en reisti sigá útsogunum, svo að það varð alveg kjölrétt. Það gekk ágætlega að skjóta línunni um borð í skipið og koma dráttartaug um borð. Skipshöfnin festi taugina neðan til í miðjan forvantinn, en þegar átti að fara að strengja dráttartaugina í landi, kom í ljós, að það mátti ekki gera vegna hreyfingarinnar á skipinu, sem áður er lyst. Þá komu i góðar þarfir allir áhorfendurnir, sem safnast höfðu þangað, því með nógum mannafla í taugarendanum var mikið hægt að fylgja hreyfingum skipsins eftir. En þrátt fyrir þetta urðu mennirnir í björgunarstólnum stundum eins og fuglar uppi í loftinu, en köstuðust svo niður í sjóinn aftur, þegar skipið lagðist á hliðina. Til að verja skipsbrotsmennina meiðslum, er þeir skullu niður, þegar nær kom landi, stóðu menn úti í sjónum, svo langt úti sem hakað var, til að taka af þeim fallið.
Isolfsskali-139Þegar björgunarsveitin hafði skipulagt björgunina og hún var kominm af stað, mátti segja að hún gengi vel. Hver maðurinn af öðrum var deginn í land, þar til allir voru komnir nema skipstjórinn, sem venja mun til að fari síðastur af strönduðu skipui. Þegar björgunarstóllinn var að síðustu kominn um borð eftir honum, kom hann ekki út úr brúnni nærri strax. Var búið að bíða með stólinn allt að 10. mín., áður en hann bir tist á brúarvængnum. Hann fetaði sig niður á dekkið og fram að vantinum, síðan uppá vantinn að björgunarstólnum, en er hann var kominn upp undir stólinn féll hann allt í einu aftur fyrir sig og niður í ólgandi brimlöðrið og drukknaði þar. Skipsbrotsmenn voru vitanlega fluttir heim að Hrauni og hresstir þar við, áður en farð var með þá til Reykjavíkur, enda var það ekki talið eftir, frekar en fyrri daginn.
Fyrir innan Vondu fjöru kemur Fremri- og Efri-Hrólfsvík. Í Hrólfsvíkinni hafði fyrir eða um miðja 19. öld rekið mannlaust seglskip (skonnortu). Þetta var í tíð Jóns dannebr.m. Jónssonar, sem var merkisbóndi þar á Hrauni. Skip þetta hafði komið heilt upp í fjöruna og var hlaðið bankabyggi, sem var laust ílestinni. Giskað var á, að áhöfnin hefði yfirgefið skipið vegna leka, en það svo ekki getað sokkið með þennan farm.
Bankabygginu hafði öllu verið bjargað í land, þurrkað á seglum og selt á uppboði. Talið var, að það hefði allt verið notað til manneldis og þótti hið mesta happ. Á þeim tímum voru hlutirnir nýttir og engu hent, sem hægt var a borða.
Innan við Hrólfsvík er Skerjaklettur, Hvalvík, Skarfaklettur og Dunkshellir. Í kringum 1890 fannst þarna rekin á hvolfi frönsk fiskiskúta. Erfitt var að gera sér grein fyrir. hvort áhöfn hefði farist með skipi þessu. En meðþví að engan mann hafði rekið úr því, var rekar hallast að því, að skip þetta hafi verið yfirgefið, en skipshöfninni bjargað af öðru skipi, áður en það rak upp. Í þennan tíma var gert út frá Ísólfsskála. Þeir bræður, Hjálmar og Brandur Guðmundssynir frá Ísólfsskála, voru þar formenn, með sinn bátinn hvor. Dag nokkurn á vertíðinni voru þeir á sjó austur í Hæslvík. Þar var þá mikið af frönskum fiskiskútum. Ein skúta var þar, sem þeir veittu sérstaka athygli, vegna þess hve segl hennar voru mislit, líkast því sem þau væru bætt. Seinni part þessa dags gekk svo í hvassa s.a. átt með slyddubyl. Þeir bræður héldu til lands, þegar veðrið fór að versla.

Isolfsskali-botin-139

Um kvöldið eða nóttina gekk síðan í hvassa s.v. átt. Morgunin eftir, þegar þeir á Ísólfsskála komu niður að sjónum þar, tóku þeir eftir miklu rekaldi þar úti fyrir og eitthvað var í fjörunni. Það var þegar giskað á, að skip hefði strandað vestur á Hraunssandi eða þar í kring og var fljótlega sent af stað að líta eftir þessu. Á leiðinni frá Ísólfsskála og út að Hrauni er mikið að þverhníptum háum klettum meðfram sjónum og sums staðar illt ap sjá greinilega niður í fjöruna, enda komust leitarmenn alla leið út að Hrauni, án þess að finna nokkuð. Frá Hrauni var svo snúið við aftur sömu leið og bættust þaðan menn við í leitina. Þegar upp að Dunkshelli kom, fannst svo þetta strand, sem áður er getið. Og þeir Ísólfsskálamenn töldu sig þekkja þar aftur frönsku skútuna með bættu seglin, sem þeir sáu í Hælsvík deginum áður. Engan hefi ég hitt, sem kann nánar að segja frá strandi þessu, en nú hefir verið gert.
isolfsskali-ornefni-139Fyrir innan Dunkshelli byrjar Hraunssandur og er hann í boga fyrir botni Hraunsvíkurinnar, hátt berg ríst alls staðar upp af Hraunssandi, og aðeins á einums tað er hægt að komast niður á sandinn, þar sem klettarnir eru lægstir. Alveg fyrir botni Hraunsvíkur, þegar ströndin byrjar að beygja út að austanverðu, rís Festarfjall upp af sandinum.
Í Festi eru Vestri-Nípa og Eystri-Nýpa, sem eru mörk milli Hrauns og Ísólfsskála, og frá Estri-Nípu heitir sandurinn Skálasandur. Munnmæli eru um að í skerjum, sem heita Selsker og eru fram undan Eystri-Nýpu, hafi í fyrndinni verið festiboltar fyrir skip og að þarna hafi þá verið skipalega. En miklar breytingar hafa þá orðið á landslagi þarna, hafi það nokkru sinni verið, því yfirleitt á öllum sandinum er sjaldan svo kyrrt, að hægt sé að lenda þar.
Upp úr 1890 hafði frönsk fiskiskúta siglt upp á Hraunssand og orðið þar til. Það var í besta veðri, svo margir bátar úr Þórköt lustaðahverfi voru á sjó. Eftir hádegi kom „fransari“ siglandi á þær slóðir, sem bátarnir héldu sig helst á, og virtist vilja hafa tal af þeim, því hann sigldi að hverjum bátnum eftir annan, og þeir héldu að vera skipstjórann sem var með köll og bendingar, en enginn á bátunum skildi, hvað hann vildi. Eftir að hafa siglt þannig á milli bátanna nokkra stund tók hann stefnu beint upp á Hraunssand og ar í strand. Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni segist muna það, að faðir sinn, Haflði Magnússon, sem lengi bjó á Hrauni, hafi oft minnst þessa fransa skips eða siglingar þess, þennan dag. Hann hafði verið í landi um daginn, en bátarnir voru svo nærri landi, að fljótlega var tekið eftir því, þegar franska skipið fór að sigla á milli þeirra, hvers af öðrum. Það þótti strax eftirtektarvert, því venja var að þegar „fransari“ sigldi að bati, sem oft hafði komið fyrir, þá var erindið að biðja þá fyrir bréf í póst, eða að hafa viðskipti. Sérstaklega höfðu þeir frönsku sóst eftir sjóvettlingum.

Gvendargjogur-139

Allt, sem þeir keyptu, var aðallega borgað í kexi. Einstaka sinnum var gefið í staupinu, svo karlarnir höfðu stundum komið góðglaðir í að, berhentir en með kex, og það þótti alltaf góð hlutarbót. Þeir frönsku þurftu því að jafnaði ekki að sigla milli margra báta til að fá afgreiðslu. Þess vegna var fari að veita siglingunni athygli, þegar svo að skipið tók stefnu til lands. Beið heimafólk á Hrauni þess með eftirvæntingu, hvað skipið ætlaðist fyrir. En þegar svo að siglingin hvarf frir hamranefið, sem lengst skagar fram sunnan við Hraunssand, þar sem Dunkshellir er, var séð hvert stefndi.
Hafliði fékk orð fyrir að vera léttur á sér og fljótur á fæti allt fram á elliár, en það hafi hann sagt, að aldrei mun hann hafa verið fljótari upp á Hraunssand en í þetta skipti. En þótt hann væri fljótur, var skipið strandað og landsjórinn búinn að setja það þversum í fjöruna. Öllu verðmæti hafði  verið bjargað úr skipi þessu og það svo liðast sundur þarna í fjörunni.
Magnús Hafliðason segir og, að Hraunssandur sé oft á mikilli hreyfingu, þannig, að sjórinn hreinsi stundum allan sand af einum staðnum og flyji á annan, svo klappirnar verði berar, þar sem sandurinn hverfur. Í einu slíku umróti segir hann að gríðarstórt akkeri hafi sést í klöppunum, en sandurinn hafi hulið það svo fljótt aftur, að ekki hafi unnist tími til þess að ná því, svo að það týndist aftur. En akkeri þetta telur hann víst að sé af þessu franska skipi.
Dagon-139Austan við Skálasand kemur Lambastapi, þá Bjalli og næst Skálabót; upp af henni er bærinn Ísólfsskáli. Fyrir austan Skálabót er Gvendarvör; það var víst aðallendingin meðan útræði var á Ísólfsskála. Þar fyrir austan Gvendarsker, Trantar, Hattvík, Hattur, Rangagjögur, Skálabás, Veiðibjöllunef, Mölvík, Katlahraun, Nótarhellir, Nótarhóll og Dágon. Þá er komið á Selatanga.
Dágon er hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum, eru í honum landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Kirkjunar komu víða við með ítök í gamla daga, og þarna fyrir Ísólfsskálalandi, frá Dágon að austan og vestur um Veiðibjöllunefn, átti Kálfatjarnarkirkja allan stórviðarreka, þ.e. ábúandinn mátti sjálfur hirða það sem kallað var morkefli. Ítak þetta var svo keypt af núverandi ábúanda og eiganda Ísolfsskála um 1920, svo það er ekki kirkjueign lengur.
Næst austan við Dágon er Vestri-Hlein, þá Eystri-Hlein. Þarna á Selatöngum var útræði frá Krýsuvík. Sundið hefir verið vestan undir Eystri-Hlein og uppsátrið þar beint upp af. Þar upp með hleininni hafa bátarnir verið settir undan sjó. Verbúðir hafa verið þarna, því 6-7 km vegalengd er frá Krýsuvík á Selatanga og allt að þriðjungi þess vegar apalhraun, svo það hefði verið erfið skipsganga – sem kallað var – að fara kvölds og morgna. Tóftir verbúðanna standa nokkurn veginn uppi ennþá, hafa verið hlaðnar úr vel löguðu hellugrjóti, svo glögga grein er hægt að gera sér grein fyrir því, hvert húsurými og aðbúnaður útróðramanna hefir verið þarna.
selatangar-139Það má gera ráð fyrir, að 12-15 menn hafi verið við hvern bát, eftir því hvað stórir þeir voru, og verbúðin þá verið fyrir alla skipshöfnina. Varla getur það trúlegt talist nú, að fyrir tæpum 100 arum hafi þetta stór hópur manna hafst við í húsnæði, sem ekki var nema 5.5 m á lengd og 2.5 má breidd, en það er stærðin á búðartóftunum þarna.
Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja sögu útræðisins á Selatöngum, þar sem þess er ð nokkru getið bæði í annálum og þjóðsögum. En geta vil ég þess, að Sigurður Jónsson frá Hópi í Grindavík kann brag nokkurn, þar sem allir útróðramenn, sem þá voru á Selatöngum, eru taldir með nafni, og samkvæmt bragnum hafa þeir þá verið yfir 60 talsins.
Fyrir austan Eystri-Hlein koma Vestri-Látur, þá Eystri-Látur, Miðrekar, Selhella, Þjófabásnefn, Þjófabásar og Húshólmi; þar upp undan er talið, að til forna hafi Krýsuvíkurbærinn staðið, en hraunflóð hafi runnið á bæinn, og sjást tóftarbrot á einum stað út úr hárri hraunbrún. Þarna í Húshólma bjargaðist í land áhöfn af skipi, sem sökk þar  rétt fram undan. Skip þetta hét Kópur og var frá Reykjavík, ekki veit ég nákvæmlega, hvenær þetta gerðist, en það var að hausti til, sennilega fryir eða um 1920.
husholmi-139Austan við Húshólmann byrjar svo Krýsuvíkurberg og er það fyrsta örnefnið Bergsendi. Þá koma Mávaflár og Hællinn, af honum dregur Hælsvík nafn; hún er frá Selatöngum og að Fuglasteini. Á Hæslvíkinni er talið vera mjög aflasælt. Fram undan Hælnum er sker eða klettadrangur; hann heitir Þyrsklingasteinn. Þá kemur ækurinn, það er svokallaður Vestri-Lækur, sem rennur skammt fyrir ofan bergbrúnina, og sér þar fyrir túni og tóftum.
Fyrir austan Lækinn er Skriðan, þá Lundapallur og  Ræningjastígur; fram undan honum, nokkuð úti í sjónum, er Fuglasteinn. Þar verpir mikið af sjófugli, þegar vel viðrar á vorin. En þegar a. eða s.a. áhlaup gerirm skolar hátt upp í hann, svo mikið fer af varpinu. Hægt er talið að komast í Fuglastein í aflandsvindi, þegar kyrrt er í sjó, og er þá farið þangað stöku sinnum.
Um Ræningjastíg er sú þjóðsaga, að ræningjarnir hafi komið þar á land í Tyrkjaráninu og farið alla leið heim til Krýsuvíkur. Þetta hafi verið á sunnudegi, þegar presturinn var með allan söfnuðinn í krikju. Eitthvað hafði klerkir vitað um ferðir Tyrkjanna, þótt hann væri að fræða fólkið um eilífa sáluhjálp, því þegar þeir komu heim á Krýsuvíkurtúnið, lét hann þá fara að berjast hvern við annan, þar til allir voru fallnir. Það var dálítið gagn í prestunum í gamla daga og varla yrði slíkum körlum skotaskuld úr því nú á dögum að fylla hjá sér kirkurnar svið og við. Ræningjarnir höfðu verið dysjaðir í túninu, þar sem þeir lágu, en klerkur hafði sagt, að notið hefðu þeir þess að það var sunnudagur, því annars hefði hann látið þá éta hvern annan. Fyrir dysjunum á að hafa sést, allt þar til nýi tíminn reið í garð þar í Krýsuvík og Hafnarfjarðarbúið jafnaði allar misfellur og gerði alla jörð að sléttu túni. 
krysuvikurberg-139Fyrir austan Ræningjastíg kemur Nýipallur og Vondasig. Þá koma örnefni, sem virðast benda til skipta á berginu til nytja, því fyrir austan Vondasig heitir Krýsuvíkurberg, þá Kotaberg, þar rennur eystri Lækur fram af berginu, og næst Strandarberg. Til forna hafði Strandarkirkja átt ítök til eggjatöku og fuglaveiða í Strandarbergi. Undir Krýsuvíkurbergi, sem þarna er sérnafn á berginu, eru sker nokkur, sem upp úr standa á fjörum og hita Selsker, og milli þeirra Selalón.
Á árunum 1900-1907 hafði enskur togari strandað þarna undir berinu. Enginn vissi, hvenær það hefði gerst, því ekki hafi verið gengið á fjörur nema endrum og eins, og var fyrst vart við það þannig, að nokkuð mikið brak fannst í Húshólma og vestur á Selatanga, Nokkru seinna sást svo skipsflakið sjálft ofan af bergbrúninni, þarna í Selalóninu.
Af brakinu var hægt að sjá, hvað skipið hafði heitið og hvaðan það var.

seljabot-139

Ekkert varð vart við áhöfnina; hún vitanlega farist með skipinu. Aðeins eitt lík eða part af líki hafði rekið í Húshólma og það verið jarðað í Krýsuvík.
Árið 1947 eða 48 strandaði og þarna á skernaddi undir Krýsuvíkurbergi vélbáturinn Árni Árnason úr Garðinum. Þetta var seint í apríl eða byrjun maí. Báturinn var í fiskiróðri og, að sagt er, að leggja línuna er það vildi til, en fiskur gengur þarna oft mjög nærri landi, enda aðdýpi víðast hvar. Fleiri bátar voru á þessum slóðum og ekki allir langt frá landi, svo bátshöfninni var fljótlega bjargað, en báturinn brotnaði þarna og hvarf.
Fyrir austan Strandarbergið er Strandarbergs- kriki. Þá er bergið farið að lækka, svo hægt er að komast niður í bás í krikanum. Þá kemur Keflavík; þar eru og básar, sem hægt er að komast niður í.
Þá kemur austasta örnefnið við sjó í Krýsuvíkurlandi. Það heitri Seljabót og eru þar mörk milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, ásamt sýslu– og hreppamörkum.
Þá hefir verið farið með öllum fjörum meðfram Grindavíkurlandi, af Valahnjúkamöl að vestan og í Seljabót að austan.
Ég hefi leitað til margra eldri manna, sem ég vissi að voru fróðir um örnefni og ýmsar sagnir, og eru það aðallega þessir: Gamalíel Jónsson, bóndi, Stað, Jón Gíslason frá Merki, Sæmundur Tómasson frá Járngerarstöðum, Ólafur Árnasonm, Gimli, Guðmundur Beónýsson, Þórkötlustöðum, Magnús Hafliðason, Hrauni, og Guðmundur Guðmundsson, Ísólfsskála.
Það vannst ekki tíma til að leita til fleiri manna eða að fá að öllu staðfest það, sem sagt er frá, svo að lítilsháttar getur borið á milli í smærri atriðum. En í höfuðatriðum tel ég, að sé farið nærri því rétta.“
Sjá framhald.

Heimild:
-Guðsteinn Einarsson: Frá Valahnúk til Seljabótar – Frá Suðurnesjum 1960, bls. 9-52.

Hraun

Dys við Hraun.

Dyljáarsel

Árið 1902 skrifaði Sigurður Siguðrsson eftirfarandi um „Selstöður og sauðamjólk.

Hlíðarsel

Hlíðarsel.

„Nú í seinni tíð hefir sú spurning gert vart við sig og komið fram, hvort eigi mundi hagur að því, að taka upp hinn gamla sið og hafa ær í seli að sumrinu. Um þetta efni hafa mér borist nokkur bréf, og þeim fyrirspurnum beint til mín, hvort selstaðan mundi borga sig, og hvernig henni yrði bezt komið fyrir. Hugsun þeirra, sem um þetta hafa rætt við mig, er sú, að komið sé á fót selstöðubúum í félagi, er rekin séu á svipaðan hátt og sameignarmjólkurbúin. Það er næsta eðlilegt, þótt slíkar fyrirspurnir komi fram, því hugmyndin er að vissu leyti álitleg og á að sjálfsögðu framtíð.

Straumssel

Straumssel.

Þess er einnig að gæta, að heimalönd eru víða rýr og málnytupeningur, einkum ær, þar af leiðandi gagnslitlar. En á hinn bóginn dylst það ekki, að selstaðan hefir ærinn kostnað í för með sér, ýms aukaútgjöld, og það er hætt við, að mönnum sé það miður ljóst, hve þessi kostnaður er mikill, eða hvernig honum er háttað. Það er því eigi að ófyrirsynju, þótt sé reynt fyrir sér, og litið á það frá ýmsum hliðum.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Fyrir tveimur árum síðan reit eg grein í blaðið Austra um þetta efni; en eftir því, sem eg hefi athugað þetta mál betur, og fengið reynslu í því, þó lítil sé, þá sé eg nú, að selstöðubúunum hefir þar verið gert heldur hátt undir höfði.
Nú fyrir skömmu hefir Daniel Hjálmsson skrifað grein í Ísafold (tbl. 8 þ. á.) um selför, og kemur þar með áætlun um kostnað við stofnun selbús og rekstur þess. En því miður er þessi áætlun alveg bygð í lausu lofti, og í sumum greinum svo fjarri öllum sanni, að óþarft er að eyða orðum að henni.
Það er öllum kunnugt, að í fornöld höfðu bændur í seli, og má finna þess mörg dæmi í sögum vorum. Þessi siður hélzt lengi við, en varð eigi eins almennur er tímar liðu fram.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Um aldamótin 1800 var selför enn almenn í sumum sveitum landsins, en er leið á öldina, lagðist hún smátt og smátt niður. Nú eru það 3—4 menn á öllu landinu, er hafa í seli að sumrinu, og valda því alveg sérstakar ástæður. Vanalega var farið til sels þá er 2 mánuðir voru af sumri, og var þá rekinn þangað nálega allur málnytupeningur. Selstaðan stóð yfir til ágústmánaðarloka og stundum fram í september. Á seljunum var oft flest vinnandi fólk heimilanna, lengri eða skemri tíma. í Biskupasögum (II. bls. 359) segir um dóttir Þorleifs Grímssonar á Möðruvöllum, að hún hafði verið „heima og nokkur ungmenni, en fólk alt annað í seli“.

Hálssel

Hálssel – Sauðhóll fjær.

Menn stunduðu heyskap á seljunum. Heyið var flutt að selinu, en að vetrinum var því annað hvort ekið heim, eða fénaður hafður á því framan af vetri.
Húsakynni voru góð á seljunum, að minnsta kosti framan af öldum. Húsin voru oftast 2 —4 að meðtöldu búri, eldhúsi og fjósi er þeim fylgdi stundum. Selstöðu tíminn þótti skemtilegur, og flestir undu sér vel á seljunum. Oft er getið um, að húsbændurnir eða hjónin hafi dvalið á þeim. Konan annaðist stundum sjálf búverkin og bændurnir voru þar einlægt með annan fótinn meðan heyannir stóðu yfir. Í Harðarsögu segir, að Þorsteinn í Saurbæ hafi verið í seli, er Hörður og hans menn sóttu hann heim (Harðars. 26. kap.)

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel – Dalagata.

Bolli Þorleifsson var að seli, þá er hann var veginn (Laxd. 54. kap.), og sömuleiðis Helgi Harðbeinsson (Laxd. 62. kap.). Þessi siður að hafa í seli, fluttist hingað frá Noregi. Þar er selför almenn þann dag í dag, og hlýtur svo að verða framvegis í mörgum sveitum, og veldur því þéttbýli og landþrengsli heima fyrir.
Flestir telja, að selför og selstaða hafi lagst hér niður fyrir ódugnað landsmanna og vesaldóm. Vel má vera, að þetta sé rétt að nokkru leyti, en þó eigi öllu.

Setbergssel

Setbergssel. Helgafell fjær.

Breyttar ástæður valda hér nokkru um, og eins og nú er háttað högum vorum, tel eg víst, að selförin í hinum gamla stíl mundi eigi reynast hagkvæm, eða auka búsæld bænda. í þessu efni er marklaust að vitna til Noregs, því þar stendur alt öðru vísi á. Heimalönd eru þar víða engin önnur en ræktað land og skógur. Þar verða bændur því að sjálfsögðu að hafa í seli, því enginn kostur er að hafa fénaðinn heima að sumrinu.

Víkursel

Víkursel.

Sumstaðar eru selin þar einskonar útibú t. d. í Guðbrandsdalnum víða, og svo bæði kýr og geitur látnar vera á þeim meiri hluta ársins. En hér á landi hagar alt öðruvísi til og dugir því eigi að vitna til Noregs i þessu efni. En þá er spurningin um það, hvort eigi væri reynandi að koma upp félagsseljum í stórum stíl. Það atriði er vert að athuga litið eitt nánar. Það, sem virðist einkum mæla með þessari hugmynd, er vinnusparnaður og meiri eftirtekja af málnytu peningnum eða ánum. En hér kemur ýmislegt til greina, sem hefir áhrif í þessum efni og dregur úr hinum ímyndaða hag við selförina.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – tóft; sennilega kolagröf.

Sumarið 1900 tóku 3 bændur sig til í Hrunamannahreppi í Árnessýslu og höfðu ær sínar í seli um sumarið. Ærnar voru samtals rúm 200. Sellandið var víðáttumikið og gott, en mishæðótt nokkuð og leitótt. Ánum var haldið í einum hóp, og þurfti 7 menn — sumt voru unglingar — til þess að sitja þar fyrsta hálfa mánuðinn. Þegar á leið, og ærnar fóru að spekjast, mátti fækka hjásetu fólkinu, og síðast voru þeir, þegar gott var veður, aðeins 3, er sátu þær. Í misjöfnu veðri, einkum ef þoka var, þurfti fleiri.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkurel – stekkur.

Að nóttunni lágu ærnar inni, en að eins stuttan tíma; þær voru látnar seint inn og snemma út. Framan af sumrinu voru mjaltakonurnar 6 að ráðskonunni meðtalinni, en er á leið sumarið voru þær 4. Auk þess þurfti menn til að flytja heim frá selinu bæði skyrið og sýruna, og var það gert vikulega fyrri part sumarsins. Smjörið eða mestur hluti þess var fluttur til Reykjavíkur. — Mörgum mun nú virðast, að hér hafi verið ósparlega haldið á vinnukrafti, en við nánari athugun hljóta menn að skilja, að svo muni eigi hafa verið. Vinnukrafturinn er nú á tímum svo dýr, og erfitt að fá fólk, að flestir verða að láta sér nægja með það allra minsta, er komist verður af með. Og svo var það einnig á selbúinu, sem hér befir verið minst á.

Breiðagerðissel

Í Breiðagerðisseli.

En selstaðan eða selbúskapurinn reyndist miklu fólksfrekari en gjört hafði verið ráð fyrir, og studdi það mest að því, að selförin hætti.
Þegar um það er að ræða að koma á fót selstöðubúum, þá er ýmislegt að athuga við það. Það, sem fyrst og fremst kemur til skoðunar er sellandið, og undir víðáttu þess og gæðum er það komið, hve margar ær má hafa á selinu. Setjum nú svo, að landrýmið og aðrar ástæður leyfi að ærnar séu 400—600 alls. En þá kemur annað til athugunar, sem taka verður til greina, og það er skiftingin á ánum í hagann. Það fer ekki vel, að sitja margt fé i einu lagi eða einum hóp. Þegar mörgu fé er beitt á sama svæði, gerir það troðninga mikla, og spillir brátt beitinni. Fyrir því er ávalt nauðsynlegt að skifta því í minni hópa og sitja þá sinn í hverju lagi, og beita eigi hópnum lengi á sama blett.

Hafnasel

Hafnasel – vatnsstæði.

Helzt mætti ekki fleiri ær vera í hóp en 200. Séu því ærnar um 400, ætti að skifta þeim í tvo flokka og sitja þá sinn í hvoru lagi. En afleiðing af þessu er sú, að fleiri menn þurfa til hjásetunnar en ella. Þá eru það mjaltirnar. Það er áríðandi, að þær standi sem styztan tíma yfir. En því verður naumast framgengt, nema mjaltakonurnar séu nægilega margar. En hvað er svo lengi verið að mjalta t. d. 200 ær? Mér mun svarað, að það fari eftir því, hvað mjaltakonurnar eru margar og duglegar. Það hafa sagt mér reyndar og vanar mjaltakonur, að meðal-kvenmaður mjólki 40—50 ær á klukkustund, ef það eigi að vera viðunanlega af hendi leyst.

Hraunssel

Hraunssel.

Af þessu sést, að selstöðu-búin hljóta að verða æði fólksfrek, ef vel á að fara. En sé aftur á móti um það eitt hugsað, að spara sem mest vinnukraft eða fólkshald, þá er hætt við að svo geti borið undir, að hjásetan fari í handaskolum, ánum verði  par haldið eða að þær tíni tölunni og að mjaltastörfin lendi ekki í klúðri og vanrækslu. En þá eru einnig og um leið allmikil líkindi til, að selstaðan verði eigi að þeim notum, er búist var við, og að eftirtekjan verði minni en vænta hefði mátt. — Þegar haft er í seli, einkum ef það er frá mörgum bæjum í sameiningu, má gera ráð fyrir, að ærnar séu óspakar framan af sumrinu. Það getur einnig komið fyrir, að ær týnist ef þoku gerir, og þá þarf að leita þeirra.

Fornasel

Í Fornaseli.

Ánum má ekki sparhalda um of, heldur lofa þeim að njóta haganna og hafa frjálsræði. En þetta sýnir, hve hjásetan er vandasöm, og að eigi gildir einu, hvernig hún er af hendi leyst. Til þess að hún geti farið í lagi, þurfa því hjásetumennirnir að vera nægilega margir.
Ef á selbúinu eru 400 ær, sem skift er í tvo hópa, þá þarf tvo menn — ungling og fullorðinn mann — til að sitja hvern hóp, eða 4 menn alls. Mjaltakonur þurfa 4—6, og hafa þær um leið á hendi alla mjólkurmatseldina. Hvað myndi nú kostnaðurinn verða við rekstur selstöðubús af svipaðri stærð og hér hefir verið minst á?
Um kostnaðinn við að koma á fót selstöðubúi er það að segja, að hann hlýtur að verða mismunandi eftir stærð búsins og öðrum atvikum. Það er því eigi unt að ákveða nákvæmlega um, hve miklu hann nemur i hverju einstöku tilfelli. En það má fara all-nærri um það, miðað við ákveðna stærð búsins, eða ærfjölda sem hafður væri á selinu.

Óttarstaðasel

Óttarsstaðasel – vatnsból.

Í fyrra gerði eg ásamt öðrum manni áætlun um kostnað við selstöðu, eftir áskorun. Það var sem sé verið að bollaleggja að koma á fót selstöðu, en við nánari athugun þótti eigi hyggilegt að ráðast í það, að því sinni. Gert rar ráð fyrir 400 ám, og að hver ær mjólkaði til jafnaðar 40 potta yfir sumarið eða selstöðutímann, sem áætlað var 10 vikur. Meðferð mjólkurinnar, að því er tekur til afurða hennar, var búist við, að yrði svipuð því, sem gerist alment. Það var með öðrum orðum gert ráð fyrir, að búa til úr henni smjör og skyr. Smjörið átti sumpart að selja og sumpart að nota til heimilisþarfa sem feitmeti. Skyrið skyldi og flytjast til heimilanna. Með þetta fyrir augum var nýmjólkurpotturinn af ærmjólkinni reiknaður á 12 aura. Öll mjólkin úr 400 ám nam samkvæmt þessu (1600 X 12 = ) 1920 kr. eða kr. 4,80 á hverja kind eða ásauð.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel.

Kostnaðurinn við rekstur selbúsins var á þessa leið:
1. Hjásetumenn 4, tveir unglingar og tveir vaxnir karlmenn. Kaup 6 kr. og 9 kr. um vikuna í 10 vikur; það gerir kr. 300,00
2. Mjaltakonur 6 framan af sumrinu, svo aðeins 4. Kaup þeirra 7 kr. til jafnaðar um vikuna; það gerir kr. 350,00
3. Fæði handa þessu fólki yfir þann tíma, sem það dvelur á selinu 60 aura til jafnaðar á dag; það gerir kr. 378,00
4. Vextir af fé því, sem varið hefir verið til þess að gera mjólkurskálann, og áætla eg, að hann hafi kostað 500 kr. — vexti og viðhald geri eg 10%; það eru kr. 50,00
5. Skilvinda, strokkur, færikvíar og önnur áhöld 400 kr.; vextir af þeirri upphæð og viðhald 12 kr., það eru kr. 48,00

Ássel

Ássel við Hvaleyrarvatn.

6. Smjörílát, samtals . . . . kr. 60,00
7. Hagatollur kr. 40,00
8. Annar kostnaður svo sem salt og litur, bókfellspappír, margt fleira . . kr. 24,00
Samtals kr. 1250,00.
Samkvæmt þessari áætlun verður mismunurinn (1920 -h 1250 =) kr. 670,00. Og þegar svo þessari upphæð er deilt með ærtölunni, þá koma á hvern ásauð, að frádregnum kostnaði, kr. 1,67. Kostnaður við rekstur selbúsins verður þá eftir þessu kr. 3,13 fyrir hvern ásauð.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel- tilgáta; ÓSÁ.

Vel má vera, að kostnaðurinn sé gerður hér lítið eitt of hár; miklu munar það ekki. En hér hefir heldur eigi verið talinn flutningur á afurðum selbúsins frá því, hvorki smjöri eða öðrum nytjum þess.
Ef hægt væri að stunda heyskap á selinu, þá mundi það að sjálfsögðu draga nokkuð úr kostnaðinum við fólkshaldið. Hluturinn er sá, að þetta fólk, sem ráðgert er, hefir eigi ávalt fullkomlega nóg að starfa við selverkin.

Brynjudalur

Brynjudalur – í Þórunnarseli.

En á vissum tímum dagsins hefir það meir en nóg að gera, svo sem á málum, og málaverkin mundu eftir þessari áætlun taka langan tíma. Þess vegna mun erfitt að komast af með færra fólk, en hér hefir verið ráðgert. En ætla má, að stúlkurnar hefðu einhverja stund afgangs um miðjan daginn til þess að sinna heyvinnu. Líkt er að segja um þá er ærnar sitja. Þegar gott er veður gætu þeir oft, er fram á sumarið kæmi, verið við slátt part úr miðdeginum, án þess að vanrækja hjásetuna. En svo er þess að gæta, að á mörgum stöðum, þar sem selland er lengst uppi á heiðum og fram til dala, þar er litið um slæjur, og oft alls engar.

Stafnessel

Stafnessel.

Þegar því á alt er litið, þá leynir það sér ekki, að selförin hlýtur að verða kostnaðarsöm, og þar af leiðandi eigi eins ábatavænleg og margir munu ímynda sér. Og það sem hér mestu veldur er einmitt fólkshaldið. Kostnaðurinn við það dregur úr þeim hagnaði, sem ætla mætti að selförin að öðrum kosti hefði i för með sér.
Alt öðru máli mundi gegna, ef ostagerð væri hér í góðu lagi, og osturinn nyti álits sem verzlunarvara. Þá má telja víst, að selstaðan borgaði sig, enda yrði hún þá sjálfsögð alstaðar þar, sem henni mætti koma við.

Hraunssel

Hraunssel í Ölfusli.

En eins og nú er högum háttað, þá er mjög vafasamt, að hún svari kostnaði. Það getur auðvitað átt sér stað, undir sérstökum kringumstæðum, að hagur mundi að því að hafa ær í seli, eða koma upp selstöðubúum. Þetta getur átt við, þar sem kostur er á góðu og miklu sauðlendi á heiðum uppi eða fram til dala, en heimahagar þröngir og rýrir, og ef svo er háttað um leið, að hjásetan er hæg, ærnar spakar, og flutningur á afurðum selbúsins til heimilanna eigi mjög tilfinnanlegur. Þar sem ástæðurnar eru slíkar, má ætla, að selförin gæti komið að góðum notum.

Breiðabólstaðasel

Breiðabólstaðasel.

Þess var getið hér að framan, að ef ostagerð væri í góðu lagi og markaður fenginn fyrir ostinn, þá mundu selstöðubúin reynast hagkvæm, og selförin avðvænleg. En nú er eigi um slíkt að ræða, þar sem ostagerð er héi- svo að segja engin og að sama skapi ófullkomin. En þá kemur það til álita, hvort heppilegt mundi, eins og nú er ástatt, að hætta skyrgerðinni, en búa til osta og nota þá til fæðis í stað skyrsins. Sumir hafa haldið þessu fram, og talið það hagfærilegra, en það er miög vafasamt, að svo sé.

Breiðabólstaðase II

Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II).

Það er hætt við, að slík breyting mundi eigi reynast neinn verulegur búhnykkur í framkvæmdinni. Skyrið er gömul og góð fæða og uppáhaldsmatur flestra Íslendinga. En að því sleptu þá hef ég heyrt bæði búmenn og búkonur segja, að osturinn mundi eigi þykja eins drjúgur og notasæll til búsílags og skyrið er. Annars skal eg ekki fara lengra, út i þetta efni; en hins vil eg geta, að menn ættu að leggja sig eftir ostagerð meir en verið hefir. Meðan ostagerðin er ófullkomin, má nota ostana til heimilisþarfa.

Mosfellssel

Mosfellssel.

Í stað þess, að nú er mestöll miólkin tekin til skyrgerðar, þá ætti jöfnum höndum að búa til ost og skyr úr henni til heimilisnotkunar. En að hverfa algerlega frá því, að búa til skyr og til ostagerðar mun eins og nú stendur naumast hyggilegt. En þá kemur það til skoðunar, hvort ostagerð til útflutnings eða sölu innanlands mundi geta átt sér stað, svo hagnaður væri að fyrir landsmenn. Hvað innanlandsmarkað snertir fyrir ost, þá er hann mjög takmarkaður. Hér á landi er tiltölulega lítils neytt af osti, og sízt hinum dýrari.

Njarðvíkursel

Stekkur norðan Njarðvíkursels sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

Árið 1399 voru flutt hingað 22,645 pd. af alls konar osti, er nam 11,137 kr. Það er því hætt við, að innanlandsmarkaður fyrir ost reyndist ónógur, ef alment yrði farið að leggja stund á ostagerð. En einstaka menn geta ef til vill haft gott af því að búa til ost til sölu hér, en færu margir til þess, er hætt við að markaðinn brysti brátt, og osturinn félli í verði. — En þá kemur hitt til álita, hvort vér höfum tök á að framleiða ost til útflutnings.
Það má búast við, að um það atriði geti orðið skifrar skoðanir. En eins og nú stendur og öllu er háttað, þá tel ég litlar líkur til, að því megi framgengt verða.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel (Selið) sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

Ostagerð er hér svo að segja óþekt, og kunnátta í þeirri grein sama sem engin. Það er því barnaskap næst að ætla, að vér nú þegar getum búið til osta, sem boðlegir séu á mörkuðum erlendis.
Áður en farið er að hugsa urn útflutning á osti, þurfa menn að læra að búa hann til. En slíkt lærist ekki af sjálfu sér eða alt í einu. Regluleg ostagerð er mjög vandasöm, og þarf all-langan tíma til að fullkomnast svo, að von sé um, að ostarnir verði seldir háu verði á mörkuðum erlendis. Dönum hefir enn ekki tekist að búa til osta, er náð hafi verulegu eða föstu áliti. En allir ættu að vita nú orðið það, að engin þjóð stendur þeim jafnfætis, auk heldur framar í smjörgerð.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Danskt smjör er talið betra en alt annað smjör og hefir nú um mörg ár skipað öndvegið á enska smjörmarkaðinum Þegar því á þetta er litið, þá mun það skiljast mönnum, að hér þarf meira en að segja það, að vér eigum að búa til osta. Það, sem hér aðallega brestur, er þekking og kunnátta í ostagerð. Hinu neitar enginn, að ostagerðin sé framtíðarmál. En málið þarf mikinn og góðan undirbúning til þess að því geti orðið farsællega framgengt, og komið oss að haldi. — Hér á landi er það sauðamjólkin, sem nota ætti til ostagerðar. Hún er vel til þess fallin, og úr henni ætti að mega búa til dýra og vandaða osta.

Straumssel

Straumssel – Tilgáta ÓSÁ.

Og þegar að því kemur — og það ætti aldrei að verða langur tími eða mörg ár — þá verður selstaðan nauðsynleg og sjálfsögð og selstöðubú munu þá rísa upp um land alt í sambandi við þetta selstöðumál, sem hér hefir verið gert að umtalsefni, vil ég geta þess, að þeirri skoðun hefir verið hreyft, að bezt mundi að hætta fráfærum, færa ekki lömbin frá ánum, en láta þær ganga með dilkum. — Eins og nú er gæti þetta víða komið til álita, og í sumum héruðum landsins mundi það að líkindum skila hagnaði.

Fornasel

Fornasel – tilgáta.

Ég hef minst á þetta í skýrslu um ferð mína um Austurland („Búnaðarrit“ 1. hefti þ. á.) og haldið því fram, að á Fljótsdalshéraði og víðar þar eystra, mundi ef til vill hyggilegt „að færa ekki frá“. Fyrir þessari skoðun minni geri eg stuttlega grein í áðurnefndvi skýrslu. En þótt nú svo sé, að í sumum sveitum væri hagur að því að taka upp þennan sið, þa ætti það ekki að hafa nein hindrandi áhrif á það, að gerðar væru tilraunir með ostagerð. Ef það kemur í ljós, er tímar líða fram, að ostagerðin borgi sig betur en að lata ærnar ganga með dilkum, þá er að breyta til og byrja aftur á þvi að færa frá. En þá kem eg að þeirri spurningu, hvernig þessu máli — ostagerðarmálinu — verði bezt þokað áfram.

Nærsel

Nærsel.

Síðastliðið sumar áttum við Pétur Jónsson alþingismaður á Gautlöndum tal um þetta, og kom hann með þá uppástungu, að maður væri sendur utan til þess að læra ostagerð. Með því að dvelja ytra, ferðast um og kynna sér og læra sem flestar aðferðir við tilbúning osta, ætti slíkur maður að geta bent á, hvaða ostategund vér ættum helzt að leggja stund á að framleiða, og leiðbeina í því. Ef til vill tækist honum að finna upp aðferð við ostagerð, sem hentug væri hér og samkvæm okkar ástæðum. Hluturinn er sá, að vér þurfum að læra að búa til vandaða osta, er geti náð áliti, en með sem minstum kostnaði.

Keldnasel

Keldnasel.

Þetta getur að vísu eigi orðið alt í einu, en með æfingu og reynslu ætti það að geta heppnast. En eitt af aðalskilyrðunum fyrir því er einmitt það, að vér höfum manni á að skipa, er lært hafi ostagerð, og kynt sér alt, er að henni lýtur. Til þess nú að hrinda þessu máli á stað, ætti Búnaðarfélag Íslands að taka það að sér. Það ætti að útvega mann til þess að fara utan og leita til alþingis um styrk handa honum.
Mál þetta er annars mikils vert og hefir í sér fólgna möguleika til framfara búnaðinum, ef rétt er farið af stað. Það verðskuldar því athygli allra þeirra, er láta sér nokkuð ant um landbúnað Íslands og velfarnað hans. Það má því eigi lengur dragast, að eitthvað sé gert í þessu efni, er geti orðið að gagni og hrundið málinu áleiðis.“

Heimild:
-Fjallkonan, 19. árg. 1902, 13. tbl. bls. 3-4.
-Fjallkonan, 19. árg. 1902, 14. tbl. bls. 2.

Knarranessel

Knarrarnessel.

Staðarvör

Guðsteinn Einarsson lýsir Grindavíkurfjörum „Frá Valahnúk til Seljabótar“ í bókinni „Frá Suðurnesjum“ árið 1960. Hér á eftir fer frásögnin í þremur köflum:

valahnukur-139

„Það mun rétt, að fróðlegt sé að halda við örnefnum, nú þegar þeir umbrotatímar eru með þjóðinni, að mjög fækkar því fólki, sem stundar starf úti í sjálfri náttúrunni, svo sem smalamennsku, göngu á reka o.fl. – Við þessi störf voru örnefnin nauðsynleg, svo sem hvar kind hefði tapast, hvar fundist hefði reki, sem þyrfti að bjarga undan sjó o.s.frv.
Það sem jög fækkar fólki við þessi störf og þau að verða sem aukaatriði í afkomu fólksins, má og gera ráð fyrir, aðverulegur partur örnefnanna gleymist fljótlega, nema reynt sé að skrásetja þau, áður en til gleymsku kemur.
Vegna þess vil ég nú gera tilraun að því að taka upp öll örnefni, sem þekkt eru í fjörum og meðfram sjó fyrir Grindavíkurlandi. Þetta er löng leið, utan af Reykjanestá og alla leið austur að Selvogi eða að landi Herdísarvíkur, sennilega 70-80 km leið öll strandlengjan. Vitanlega væri það fljótlegast að byrja á öðrum hvorum endanum og þylja svo nöfnin eftir röð til austurs eða vesturs. En svo vill til að einmitt þessi strönd á sér mikla sögu, sem má og telja þess virði, að ekki falli alveg í gleymsku. Frá því er siglingar hófust til landsins, mun það vera ein fjölfarnasta skipaleið meðfram þessari strönd, og „í Húllið er allra vegur“, segir í vísunni, en það. Húllið, er sundið milli Eldeyjar og Reykjaness.
Strönd meðfarm svo fjölfarinni siglingaleið hlýtur því að eiga mikla sögu, þar sem örlög hafa oft og tíðum ráðist á skömmum tíma, örlög, sem ekki aðeins hafa snert okkur hér á ströndinni, heldur hafa náð langt út í heim og í aðrar heimsálfur.
Vegna þessa mun ég því reyna, um leið og ég tel upp örnefnin, að geta þeirra atburða, skipstranda eða björgunar, sem bundin eru við örnefni og gerst hafa síðustu 60-70 árin.
Valahnuksmalir-139Þegar ég byrja á örnefnum, tel ég eðlilegast að byrja á landmerkjum milli Hafna og Grindavíkur eða jarðanna Kalmanstjarnar og Staðar í Grindavík. Ekki eru sjálf merkin milli jarðanna ágreiningslaus, því máldagar munu fyrir, að þau séu á þremur stöðum, í Valahnúksmöl, austast, vestast og í miðja möl. Án þess að slá nokkru föstu um landamerki ætla ég að byrja við Valahnúkinn – sem óumdeilanlega mun vera í Kalmanstjarnar-landi, en það er örnefni, sem sker sig úr umhverfinu.
Valahnúksmöl er þá fyrsta örnefnið í Grindavíkurlandi. Frá henni taka við básar og hleinar. Í aðalbásnum, rétt austan við mölina, varð eitt af stærstu sjóslysum, sem orðið hafa á þessum slóðum, þegar olíuskipið „Clam“ strandaði þar og 27 menn drukknuðu. Þetta mun vera með hörmulegri slysum, sem orðið hafa, þannig, að menn þessir fórust allir vegna hreinna mistaka. Eitthvert ofboð hlýtur að hafa gripið skipshöfnina, eftir að skipið hafði strandað. Vitanlega gengu þarna stórir sjóir á skipið, svo það hefir sennilega látið illa meðan það var að festast í fjörunni, og þá var gripið til þess ráðs að setja út björgunarbáta. Það mun og hafa aukið slysið, að smá-var var undir síðunni andmegin, og fyrir það komust fleiri menn í bátana. En þegar aðeins nokkra metra var komið frá síðunni, náðu holskeflurnar þeim og veltu um á augabragði. Meðan skipið var að stranda, hafði verið dælt miklu af jarðolíu í sjóinn; hún myndar húð á sjónum, ekki ólíka tjöru. Þegar svo mennirnir lentu þarna í sjónum bæði í brimgarðinn og olíubrákina var ekki að undra, þó illa færi. Ekki voru nema 20-30 m í land, en alls staðar klettar í landtökunni. Þrátt fyrir allar þessar aðstæður skolaði þremur mönnum lifandi upp í klappirnar, og var þeim öllum bjargað. Bátarnir höfðu verið settir á flot, áður en björgunarsveitin héðan úr Grindavík kom á vettvang, svo þá var þetta allt um garð gengið. 

Reykjanes-239

Það voru 24 menn eftir í skipinu, þegar björgunarsveitin kom, og var þeim öllum bjargað, við einhverja bestu aðstöðu, sem sveitin hefir nokkru sinni haft, þar sem skipið lá undir kletti, álíka háum og skipið sjálft og rúmlega 20 m á milli. Þegar búið var að koma línusambandi á milli skips og lands, voru skipverjar dregnir í land hátt fyrir ofan sjó, svo enginn þeirra vöknaði í fót, hvað þá meira. Skipshöfnin var sögð 54 manns, og réttur helmingur af hvorum, Bretum og Kínverjum. Það var og talið, að um helmingur af hvorum hefði farist, svo ekki virtist þá orðinn mikill munur á kynþáttunum, þegar í þetta óefni var komið. Sama ofboðið eða hræðslan getur gripið jafnt, hvort maðurinn er hvítur eða gulur á litinn. Það sýndi sig og við að fara um vistarverur skipshafnarinnar að hugaðarefnin voru svipuð hjá báðum litunum; víðast hvar var mikið af fjölskyldumyndum, ýmist uppstillt eða í geymslum, myndir af konum og börnum og heilum fjölskyldum.
Það sýndi sig allt á eftir, hversu hörmulega hafði tiltekist hjá skipshöfninni, að ryðjast í bátskeljarnar úr hina stóra skipi, einu hina stærsta, sem strandað hefir hér við land, um 10 þúsund tonn, því það stóð að mestu óhaggað í fjörunni fram á næsta haust.
Austan við hleinarnar kemur Blásíðubás. Það er klettabogi undir stórgrýtiskampi undir klettunum. Uppi á klettunum stendur viti, kallaður Litli viti, og mun þar staðsettur, vegna þess að stóri vitinn á Reykjanesi er í hvarfi við Skálafellið á kafla nokkuð austur í Grindavíkursjó. Í Blásíðubás er vitað, að þrisvar hafa skipshafnir lent og bjargast þar á síðustu stundur frá því að lenda í Reykjanesröst og sogast þannig til hafs, út í stórsjó, og þá vafasamt um björgun.
Litliviti-139Fyrst hinn 24 mars 1916 lenti bátur þar með 11 manna áhöfn, formaður var Einar Einarsson frá Merki í Grindavík. Áhöfnin bjargaðist í land, en báturinn brotnaði að heita mátti í spón í lendingunni. Umgetinn mánaðardagur er mjög minnisstæður öllum eldri Grindvíkingum, vegna þess að þann dag urðu hinir mestu hrakningar, sem vitað er um í sjóferðasögu Grindavíkur; aðeins einn bátur af 26 náði sinni lendingu; hina hrakti alla, svo að þeir lentu þar sem þá bar að landi, með því að áhafnir, með þeim tækjum, sem þá voru árar og segl, réðu ekki við neitt. Upp úr hádegi þennan dag, þegar allir bátar voru í veiðifærum sínum á miðunum, skall á, að heita mátti allt í einu, norðanveður, sem nú mundi talið 10-12 vindstig. Umgetinn bátur, sem lenti í Blásíðubás, var sá utasti, sem lenti á Reykjanesinu, en þeir bátar, sem ekki náðu landi á Nesinu höfðu þá jafnframt tapað öllum skilyrðum til að ná landi, og þeir voru fjórir, bátarnir úr Grindavík, sem þannig fór með þannan dag, að þeir náðu ekki Reykjanestá og hrakti því undan sjó og vindi til hafs.
Hamingjan var hliðholl Grindavík þennan dag, því í þessu veðri urðu engir mannskaðar, og var það allt að þakka því að s.a. af Reykjanesinu, seinni part hins eftirminnilega dags, var staddur kútter Ester frá Reykjavík, einmitt á þeim tíma, sem hina fjóra báta tók að hrekja beint til hafs, eftir að þeir höfðu ekki náð Reykjanestánni. Skip þetta mun haaf verið að fara til lands með fullfermi af afla, en hikað við að leggja á „Húllið“ og fá hið mikla norðanveður beint á móti, þegar komið væri fyrir Reykjanesið. Þrátt fyrir að skipið hafi verið hlaðið, bjargaði það öllum af þeim fjórum bátum, sem þarna var að hrekja til hafs, það er um 40 mannslífum, sem um var að ræða. Það segir sig sjálft, hver aðstaða hefir verið að taka á móti svona stórum hóp manna um borð ís kip, sem var innan við 100 tonn að stærð og fullhlaðið. En þegar einbeitur vilji ásamt framsýni er til framkvæmda, er oft hægt að gera það sem lítt sýnist framkvæmanlegt. En þetta heppnaðist allt hjá skipstjóra og skipshöfn á kútter Ester hinn eftirminnilega dag, og þeir skiluðu heilu og höldnu hinum fjórum skipshöfnum, eftir að hafa annast allan hópinn í þrjá daga.
Þetta mun með mestu björgunarafrekum, sem unni hafa verið við strendur landsins. Það er staðreynd, að þegar taka þarf skjótar og mikilsverðar ákvarðanir um borð í skipi, er allt undir skipstjóranum komið, að hann sé nógu úrræðagóður. Maður sá, sem þarna stjórnaði, var Guðbjartur Ólafsson, sem lengi hefir verið forseti Slysavarnarfélags Íslands, en Grindvíkingar telja þar vera réttan mann á réttum stað.
ESkemmur-139kkert örnefni er svo fyrr en kemur á s.a. horn Reykjanessins. Það er klettagjögur, sem heitir Skarfasetur, þá beygir ströndin inn á svo kallaðar Víkur. Skemmur heita klettarnir frá Skarfasetri og þar til þeir lenda í malarbás. Í Skemmum eru hellar og skútar nokkrir, þar sem sjórinn hefir skolað mýrki bergtegund á burtu, en þær harðari standa eftir. Það eru oft þungar drunur, þegar úthafsaldan sogast um skútana.
Malarbás sá, er byrjar við skemmurnar, heitir Básinn. Þar strandaði vélskipið Búðaklettur frá Hafnarfirði hinn 23. desember 1943 eða 44, í s.a. stórviðri og vitanlega veltubrimi. Með skipinu voru, auk skipshafnar, tveir farþegar. Brimið mun hafa skolað skipinu alveg upp í fjöru, því allir mennirnir komust úr því og niður í fjöruna, skömmu eftir að það strandaði, En svo slysalega tókst til, að sjórinn náði báðum farþegunum, og fórust þeir þar, en hinir björguðust. Daginn eftir var skipið brotið í parta, og þannig hefir það verið með þau skip, sem strandað hafa að utanverðu á Reykjanesinu, að hin þunga alda hefir sundrað þeim fljótlega.
Þá tekur við Krossavíkurberg, sem ég hefi heyrt einnig kallað Rafnskelsstaðaberg, en geri ráð fyrir að fyrra nafnið sé rétt. Þetta er nokkuð mishátt berg, 10-40 m á hæð, en hægt að ganga undir því alltaf á fjörum þegar lítið er í sjó. Undir þessu  bergi lenti til botns einn bátur hinn umtalaða dag, 24. mars, með 10 eða 11 manna áhöfn; formaður á honum var Ívar Magnússon frá Görðum í Grindavík. Sumir af skipshöfninni töldu, að Kristján Jónsson frá Eri-Grund hefði sennilega bjargað allri skipshöfninni með því að halda skipinu föstu í klettunum, meðan skipshöfnin var að komast úr því, og það síðan dregist út og brotnað. Þetta kom þó skipshöfninni ekki ssman um, og töldu sumir þeirra það fjas eitt. Eitt er það í minni manna hér, frá því er skipshöfn þessi var laus úr sjónum og komin upp í urðina undir berginu, sem sýnir þess tíma hugsunarhátt. Einn af skipshöfninni, sá hét Bárður Jónsson, var orðinn nokkuð fullorðinn og hafði það að aukastarfi að hirða gemlinga sem húsbjóndi hans, Dagbjartur Einarsson, átti. Er Bárður leit upp eftir berginu og sá hvergi upp af brúninni fyrir bylkafaldi, átti hann að hafa sagt: „Seint verður það, sem þeir fá gjöfina sína í kvöld, gemlingarnir hans Dagbjartar“.

jon baldvinsson-139

Þarna undir Krossavíkurberginu, þar sem það er farið að lækka að innanverðu, skeði og það hrapallega slysa, að togarinn Jón Baldvinsson strandaði þar. Sem betur fór, varð þó mannbjörg þarna, enda sæmilega góð aðstaða, sem alltaf telst vera, þegar hægt er að festa dráttartaugina í landi á heldur hærri stað en hið strandaða skip er. Togarinn brotnaði ekki strax, en þá skeði annað, sem sýnir best þunga og afl öldunnar á þessum slóðum. Hann fór bara á hvolf, þannig að kjölurinn vissi beint upp í loftið.
Þá taka við Krossvíkur, fyrst mölin, þar lenti til brots hinn 24. mars bátur með sex mönnum; formaður á honum var Magnús Guðmundsson frá Akraból. Áhöfnin bjargaðist, en báturinn brotnaði í spón.
Krossvíkurbásar eru að norðan – innan – við Mölina. Í berghlein innst á básunum rak upp hinn 14. apríl 1926 vélbátinn Öðling frá Eyrarbakka, um 12 tonn að stærð. Talsvert varð utan um þetta rek bátsins, vegna þess að upp úr hádegi greindan dags sást báturinn á reki framundan Staðarmölum og var á tímabili gert ráð fyrir, að hann ræki þar upp. Hann hafði flagg uppi í afturmastri og lá alltaf eins í sjónum, „hálsaði“ hverja öldu svo fallega, að sjánlega kom varla dropi á dekk. Vegna flaggsins, sem hann hafði uppi, var búist við því, að menn væri um borð og því sendur mannafli á fjöruna til að reyna að bjarga, ef með þyrfti. Báturinn slapp fyrir Staðarmalir og rak svo vestur yfir Víkurnar. Um leið og sent var á fjörurnar, var og sendur maður í síma, sem þá var á einum stað éi hreppnum, í Járngerðarstaðahverfinu. Ekki fékkst vitneskja um bátinn fyrr en kl. 5 að kvöldi þessa dags. Þá fréttist lokksins, að báturinn mundi vera frá Eyrarbakka og mannlaus, með því daginn áður hafði snögglega gengið í mikið austanveður, svo tveir bátar þaðan höfðu orðið að snúa frá lendingu, en úti fyrir hafði og útfallið verið svo slæmt, að þeir höfðu leitað til togara, sem var grunnt á Selvogsbankanum. Höfðu þeir bjargað áhöfnunum, en ekki getað ráðið við að bjarga bátunum. Þá var og vitað að í öllum flýtinum við að komast um borð í togarann hafði gleymst að draga niður fánann á Öðling.
haleyjar-toft-139Að fengnum þessum upplýsingum sneri sendimaður til baka, og þegar út í Staðarhverfi kom, varð hann að halda áfram út í Víkur, því þar var hópur manna að bíða eftir að taka á móti bátnum, og reyndust þeir vera komnir alla leið á Krossvíkur. Þar var og báturinn fram undan og kominn fast að brimgarðinum, en lá alltaf jafn fallega, hálsaði hvern sjó. En svo kom sá aflmesti fyrir Öðling og sá stærsti og tók sig upp utar en aðrir. Öðlingur tók hann jafn fallega og hina, en náði ekki upp í toppinn á sjónum, áður en hann féll, heldur lenti í lykkjunni á sjónum, sem velti honum eins og kefli alla leið til lands, ca. 400-500 metra, og að síðustu skellti honum á réttum kili niður á klapparsyllu, svo hátt uppi, að hann hreyfðist ekki meira.
Það þótti og merkilegt, að þegar farið var að skoða ofan í bátinn, sem var eftir litla stund, kom í ljós, að enginn sjór var í lúkarnum og fatnaður og veiðarfæri í lúkar allt þurrt. Virðist hafa fengið svo fljótar veltur, að enginn sjór fór í hann.
Þá tekur við Háleyjaberg, 10-20 m hátt, með stórgrýttri möl undir. Í þeirri möl rak lík þess óþekkta sjómanns, sem jarðaður er í Fossvogskirkjugarði undir minnismerkinu.
Háleyjar eru næst, og er talinn merkisstaður, kannske mest fyrir það, að þar voru talin góð fiskiið fram undan, í þá daga, sem eingöngu voru notuð handfæri, sbr. vísupartinn: „…á Háleyjum er hugurinn Hafnaformannanna“. En í landi er það og sérstakt, að þar er eini staðurinn, sem heitið geti að lendandi sé á, frá Grindavík og út á Reykjanes. Þó er þarna ekki lendandi nema í góðu verði og tiltölulega öldulitlum sjó.
Haleyjahlein-139Þarna mun hafa verið eitthvert útræði, því tóftarbrot er þar á bakka fyrir ofan kampinn, sem sagnir eru um að hafi verið til viðlegu. Landslagi er þarna þannig háttað, að hár stórgrýtiskampur liggur frá norðurenda Háleyjabergs að Sandvíkurbásum, sem er lágt klettabelti. Þar sem kampurinn kemur að klettunum, kemur klettahlein, kölluðu Háleyjahlein, sem liggur út í sjóin og um fjöru ca. 400 m út á móti Háleyjakampinum. Þannig myndast nokkuð djúp renna á milli hleinarinnar og kampsins. Háleyjahlein er þannig eins og bryggja út í sjóinn, þvertnípt báðum megin, og sjómegin er svo djúpt, að hvergi sér til botns um fjöru.
Þarna á Háleyjum lentu fjórir bátar hinn eftirminnilega dag, 24. mars. þeim var öllum bjargað undan sjó án skemmda. Þá mætti það og gjarnan geymast, að tveir af bátunum, sem þarna lentu, voru settir af handafli einu saman alla leið austur í Staðarhverfi, ca. 8-10 km leið, mest yfir apalhraun. Alls voru fjórir bátar settir þannig; aðrir tveir, sem lentu á svo nefndum Kletti. Þannig var farið að, að settir voru tveir bátar, saman hvor á eftir öðrum, svo tvær skipshafnir voru þannig saman. Timbur var mikið á fjörunum þarna og var það notað fyrir „hlunna“, en það voru spýtur kallaðar, sem notaðar voru við setningu báta. Stóra staura varð að nota til að tæki vel upp yfir standana í hrauninu, svo síður bátanna rækjust ekki í þá, enda minnist ég þess, að margir kvörtuðu um aumar axlir, sem voru við þennan stauraburð. En þetta heppnaðist, og ekki var verið nema rúman dag með hverja tvo báta.
Einhvern tíma um árið 1930 vildi það til, er báturinn Elliðaey frá Vestmannaeyjum var við dragnótaveiði austan við Reykjanesið, að í honum kviknaði, svo að bátverjar réðu ekki við eldinn, og tóku þeir það til ráðs að sigla bátnum upp og fóru inn á Háleyjar og björguðust þar í land, en báturinn eyðilagðist alveg.
Stadarberg-kort-139Fyrir austan Háleyjar taka við Sandvíkurbásar, klettarani með básum í. Þá kemur Sandvíkin sjálf; fyrir austan hana koma klappir; austast í þeim er nefndur „Klettur“, þar sem Mölvíkin tekur við. Fyrir austan „Klettinn“ er og talið hægt að lenda í góðu veðri, og þar lentu þrír bátar í hrakningunum 26. mars og voru tveir af þeim „settir“ austur í Staðarhverfi, sem áður er sagt.
Mölvíkin sjálf er nokkur hundruð metra malarkampur. Fyrir austan hana eru Hróabásar. Þá taka við Sölvabásar og er þá komið austur að Staðabergi vestanverðu. Í því eru tvö örnefni: Vestri- og Eystri-Fiskivörður, þær skera sig úr þannig, að þær er klapparnípur, sem standa upp úr berginu og er að jafnaði hvítar af fugladriti en umhverfið um kring.
Austarlega í Staðarbergi eru svo kallaðar „Klaufir“ og sjálfur austurendinn kallaður Bergsendi. Þar í Bergsendanum er gatklettur mikill. Fyrir austan Staðarberg taka við Staðarmalir og ná þær langleiðina austur undir byggðina, en eru svo með mörgum örnefnum og minningum válegra viðburða. Bergsendaker er vestasta örnefnið á Staðarmölum. Skagar úr kampinum og nokkuð út í sjóinn. Þarna skeði það á sumardaginn fyrsta 1933 eða 34, að trillubátur lenti upp á klettana, og þrátt fyrir að á þessum slóðum virðist helst aldrei kyrrt, en alltaf þannig úthafsalda við klettana, þá skeði það þó í þessu tilfelli að mennirnir björguðust allir og báturinn einnig, svo til óskemmdur. Aðdragandi að þessu var sá, að þennan dag var ágætisveður og ágætis fiskafli. Margir bátar í Grindavík lögðu á sjó um miðjan dag, þegar búið var að draga fyrra kastið, sem kallað var. Þar á meðal var trillubáturinn „Gísli Jónsson“, sem Gunnar Gíslason frá Vík var formaður á. Undir kvöldið gekk í snögga austanátt með stormi og snjókomu. Nokkru eftir að bylurinn skall á, bilaði vélin í Gísla Jónssyni, og varð þá að yfirgefa línuna og setja upp segl og sigla til lands. Þá var byrjað að skyggja að nóttu og einnig vegna bylsins; vissu þeir ekki fyrr en komið var fast að landi; höfðu aðeins svigrúm til að fella seglið og leggja út árar, þegar sjórinn tók bátinn sem skilaði honum fyrir hátt sker, sem þeir voru framan við…
Stadarberg-139Þegar í land var komkið gátu mennirnir, fimm að tölu, í rólegheitum stigið úr bátnum og upp á kampinn. Sjórinn náði ekki bátnum neitt að ráði meira, enda var útfall. Bátnum var síðan bjargað af fjölmenni fyrir næsta flóð. Þegar bátnum var bjargað, kom í ljós, að hann hafði lent á klapparnefni, sem stóð upp úr kampinum, og svo mjúklega, að varla sást á byrðing bátsins, sem ekki var þó nema 3/4″ á þykkt. Þannig geta hin trylltu náttúruöfl tekið mjúklega á hinum ósjálfbjarga mannim þegar því er að skipta, en það er því miður ekki oft á þessums lóðum sem slíkt hefir skeð. Ofar að það hafi kostað farið og stundum alla ahöfnina að lenda þarna í fjörunni. Og slíkur viðburður er og bundinn við þetta Bergsendasker.
Hinn 1. apríl 1924, var að ganga niður mikið s.v. veður. Þann dag varð vart við eitthvert rekald úti á Staðarmölum og þegar farið var að athuga, reyndist þar hafa farist með öllu saman færeyskur kútter að nafni Anna frá Tofte. Það benti til, að skipið hefði farist á Bergsendaskerinu, að framundan því var afturmastrið á floti og hékk þar fast í botni fram á sumar, en losnaði þá og rak vestur á Sandvík. Þegar skipið fannst, var það þegar brotið í spón og dreift meðfram öllum Staðarmölum. T.d. var stórmastrið í fjórum eða fimm bútum. Ekki man ég, hve margir emm voru á skipi þessu, en 14 eða 15 lík rak úr því, og voru þau jörðuð í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík.
Stadarhverfi-uppdrattur-139Næst fyrir austan Bergsendasker er Ræningjasker. Það er nokkru stærra og skagar út í sjóinn frá kampinum eins og hitt. Þar segja munnmælin að Tyrkinn hafi gengið á land í ránsförinni 1627, en prestuinn á Stað hafi kunnað nokkuð fyrir sér og hann snarast upp á hæðirnar fyrir vestan Húsatóftir, hlaðið þar í snatri 3 vörður og gengið svo frá, að Tyrkjanum sýndist það her manns. Jafnframt hafi hann mælt svo um, að Staðarhverfi skyldi ekki verða rænt, svo lengi sem steinn stæði yfir steini í vörðunum, enda hafði Tyrkinn snúið við hið skjótasta.
Um vörðurnar er svo aftur það að segja, að þær voru hið meta þarfaþing. Fyrir utan það að vera ræningjavörn voru þær notaðar sem eyktarmörk frá Húsatóftum og kallaðar Nónvörður. Fyrir austan Ræingjasker kemur smávik inn í Malirnar. Það heitir Olnbogi (í daglegu tali Albogi). Þarna hefir verið skammt stórra höggva á milli með slysin, því í þessu viki strandaði Skúli fógeti hinn 10 apríl 1933. Þarna fórust 17 manns, en 26 var bjargað. Með það slys var eins og allt hneigðist að því, að það yrði sem stórkostlegast, þar sem skipið strandaði fullhlaðið, á strórstarumsfjöru, í brimi og vaxandi austanátt og fjaran eintómir klettar. Skipið lagðist strax á botninn, svo sjórinn féll yfir það eins og sker. Býst ég við, að það muni seint gleymast þeim, sem viðstaddir voru um það leyti sem verið var að skjóta línunni um borð, nálægt háflóði um morguninn. Þá gengu sjóirnir alveg yfir skipið, og hvalbakurinn, þéttsettur mönnum, fór í kaf í löðrið, svo búsist var við á hverri stundi, að eitthvað bilaði og áhöfnin sópaðist í hafið. Það fór þó betur en á horfðist, enda batnaði ástandið fljótlega, þegar fór að falla út. Það þótti rösklega gert af öðrum stýrimanni, Kristni Stefánssyni, og bátsmanni, Guðjóni Marteinssyni, að þegar búið var að bjarga mönnunum, sem voru á hvalbaknum, fóru þeir í stólnum út í skipið aftur, með heitt kaffi til að hressa þá tvo menn, sem allt aðfallið höfðust við í afturmastrinu og urðu að bíða þar, þangað til meira lækkaði í. Menn þeir, sem voru í afturmastrinu, voru fyrsti stýrimaður og einn háseti. Höfðu þeir verið að opna lifrar- eða lýsistunnur, en orðið að flýja frá því upp í mastrið og binda sig þar fasta. Undir fjöruna komast þeir fram á hvalbakinn og voru síðan dregnir í land í björgunarstólnum. Ekki vissi ég til, að komist hefði verið um borð í Skúla fógeta, frá því hann strandaði og þar til hann hvarf alveg í maímánuði næsta á efir.
Stadarhverfi-uppdrattur II-139Fyrir austan Olnboga eru Stekkjarklappir, þá Stekkjarnef – lítill tangi út í sjóinn, og þar fyrir austan Malarendi, og er það austurendinn á Staðarmölum. Þar í Malarendanum strandaði í ársbyrjun 1924 þýskur togari, Schluttup að nafni. Þetta var allra rólegasta strand. Skipið lenti um háflóð upp á kampinn, svo ekki voru meira en ca. 15-20 m út í dallinn. Skipshöfnin henti kastlínu í land, og á kaðli handlangaði sig einn lipur drengur í land; hinir biðu svo, þangað til féll út, og gátu þá gengið þurrum fótum í land. Skipstjórinn var mjög feitur og þótti víst óefnilegt að feta sig upp í hála fjöruna, svo það var tekið til ráðs að leggja planka úr dallinum eftirfjörunn handa skipstjóra að ganga eftir.
Skipshöfnin var flutt samdægurs til Reykjavíkur og skipstjóri fór fyrir sjórétt í Hafnarfirði hjá Magnúsi Jónssyni sem þá var sýslumaður Gullbringusýslu, Magnús sagði, að skipstjórinn hefði í réttinum mikið lofað Grindvíkinga fyrir þá dirfsku og dugnað, sem þeir hefðu sýnt við björgunina. „Margur fær af litlu lof og last fyrir ekki parið“. Þá var það og við þetta strand, að mikil vinna var við að bjarga úr skipinu. Allt, sem einhvers virði var, var losað og flutt upp á græn grös og geymt fram á næsta sumar, að það var flutt sjóleiðis til Reykjavíkur. En skipsskrókkurinn sjálfur lá eftir í malarendanum, en veltist svo um allar fjörur, þannig, að hann færðist alltaf til í hverju stórflóði, sem gerði til ársins 1938 eða 30, að hann var rifinn sundur og seldur sem brotajárn til Englands.
Fyrir innan Malarendann heitir Fæðikrókur, þá Móakotssandur, Staðarból, Brunnklettur og Kvíadalssandur. Fyrir austan Kvíadalssand kemur Skítaklettur, þá Litla-Gerðisfjara og Stóra-Klöpp; hún er framan við túngarðinn, á móti þar sem bærinn í Stóra-Gerði stóð. Framundan Stóru-Klöpp, nokkuð úti í sjónum, sér  skerstand með lágum sjó. Það heitir Skuggi. Austan við STóru-Klöpp tekur við Gerðismölin, þar út af Gerðistangar; innan undir henni að innanverðu er Kasalón. Á árunum 1880-90 hafði frönsk skúta siglt í góðu veðri upp á Gerðismölina – eða í Kasalónskjaftinn, að sagt var vegna leka. Engar sagnir veit í sérstakar um það strand, aðrar en að gamalt fólk í Staðarhverfinu taldi, að klukka sú, sem nú er í sáluhliðinu í Staðarkirkjugarði, væri skipsbjalla úr því skipi. Að innanverðu við Kasalónið er Staðarklöpp. Að norðanverðu í Staðarklöpp eru tvær varir, ar sem skip lentu að losa aflann; hétu Skökk og Litla-Vör. 

Bindisker-139

Fiskhjallur eða þeirra tíma söltunarhús var á klöppinni; tóftin að því stóð fram um 1930 og var þá undir því moldarjarðvegur, ca. 2 m. á hæð, en er nú öllu skolað í burtu og klöppin ber. Innan undir Staðarklöpp er Staðarvör, þar sem bátarnir voru settir í land. Utan við Staðarklöpp er lítil klöpp, Vatnstangi, slétt að ofan og í henni miðri stendur járnbolti, ferkantaður, ca. 6″ á kant og með ca. 4″ gati í uppendanum. Utan um boltann hefir verið rennt blýi. Bolti þessi er talinn vera frá Kóngsverslunar-tímanum, þegar skipin voru, sem kallað var, svínbundin. Innan við Staðarvörina er Bjarnasandur. Þá koma Hvirflar; þar eru merki fyrir grunnleiðina inn á víkina. Þau sundmerki eru og landamerkjavörður milli Staðar og Húsatófta, og tekur þá við Húsatóftaland. Í Hvirflum, rétt norðan við landamerkin, var árið 1933 byggð bátabryggja fyrir Staðarhverfið. Þá kemur Búðarsandur, og er þar talið að verslunarhús kóngsverlsunarinnar hafi staðið. Frá þeim tímum er og fleira þarna af örnefnum. Í Búðasandinum man að við krakkarnir fundum múrsteina, sérstaklega eftir stór flóð, allt til ársins 1910. Fyrir austan Búðarsand er stórt skerjasvæði eða tangi út í víkina, sem heitir einu nafni „Garðafjara“, en í henni eru nokkur örnefni. Uppi í sandinum er fyrst Búðarsandsklöpp; utar er svo Kóngsklöpp, þá Kóngshella og utast á tanganum heitir Barlest eða Ballest; þar hafði hinn bindisboltinn verið, móti þeim, sem áður er getið utan undir Staðarklöppinni. Sá bolti hafði verið losaður og fluttur heim að Húsatóftum og hafður fyrir „hestastein“. Kóngsverslunin eða hús hennar eru talin hafa farið í sjó og verslunin lagst niður í hinu svo nefnda Básendaflóði 1799, en ekki veit ég til, að þess sé getið í annálum. Hæsta klöppin í Garðafjörunni heitir Tóftaklöpp; þar hafði lengi staðið sjávarhús frá Húsatóftum, en þau voru farin fyrir síðustu aldarmót og þá komin upp á bakkann fyrir ofan. Að norðanverðu í Garðafjöru eru tvö sker með nafni, Selsker og út af því Bryggjan.
Gardafjara-139Í prestskapartíð séra Kristjáns Eldjárns á Stað, frá 1871-1878, vildi það til í góðu veðri, að fólk, sem var við heyvinnu ofarlega á Húsatóftatúninu, tók eftir svartri þúst út við sjóndeildarhring, s.a. í hafi. Þústa þessi sýndíst alltarf vera að breyta um lögun, verða stærri eða minni um sig í sífellu, fljótlega skýrðist hún, virtist fara nokkuð hratt og stefna beint til lands.
Þegar upp undir landið kom, þóttist fólkið sjá, að hér væru höfrungar á ferðinni, en því sýndist og, að einhver stór skepna væru þarna á ferðinni, sem höfrungarnir eltu og berðu á. Hópverð þessi hélt beinustu leið til lands og stoppaði ekki fyrr en uppi í Garðfjöru að innanverðu. Þarna reyndist stór steypireyður að vera á ferðinni að flýja undan höfrungunum; hún hafði nokkuð verið rifin og tætt eftir höfrunguna, sérstaklega á hausnum.
Flestir sem rólfærir voru í Staðarhverfinu, höfðu verið komnir á fjöruna, þar sem hvalurinn lenti, og þar á meðal séra Kristján Eldjárn. Hann hafði átt „korða“, og strax og hvalurinn var „landfastur“ hafði prestur lagt hann undir bægslið öðrum megin. Í þennan tíma þótti það merkur atburður, þegar hvalreki varð, gilti mikinn mat, sem venjulega var of lítið til af. En þarna var sagt að hefði farið eins og fyrri daginn, þegar átti að fara að skipta verðmætunum, því eitthvert ósætti hafði orðið milli prestsins og jarðeigandans, út úr því, hvað stóran hlut prestur skyldi fá fyrir sverðlagið í hvalinn. Jarðeigandinn hafði talið það óþarfa, því hvalurinn hefði drepist án hans.
Það gamla fólk, sem sagði mér þessa sögu, vissi ekki hvernig hvalskiptin höfðu orðið endanlega, en taldi, að þetta ósætti hefði flýtt fyrir því, að séra Kristján sótti frá Stað nokkru síðar.
Husatoftir-139Norður af Garðafjöru er Tóftarvikið. Þar er ægisandur, og var þar mikið grafið eftir fjörumaðki til beitu. Þá taka við „Þvottaklappir“. Á lágum sjó er þar mikið vatnsrennsli niður fjöruna, og þangað var farið með þvott frá Húsatóftum og hann skolaður þar, kallað „að fara í Vötnin“. Þá tekur við Vatnslón, eiginlega tvö sandvik, sem skiptast af klappabelti, kallað Vatnslónsklappir. Milli Vatnslónsklappa og Garðafjöru þvert fyrir Tóftavikinu eru tvö sker, sem heita Flæðiklettar. Þar varð í alla stórstrauma að líta eftir að sauðfé færi ekki út í, því venjulega hafði það ekki af að synda til lands; drapst á leiðinni.
Árið 1896 eða 97 bar það við, að þarna á Flæðaklettinum innri sást ein ferleg skepna, sem reyndist vera rostungur. Til atlögu við rostunginn lagði bóndinn á Húsatóftum, sem þá var Helgi Þóraðarson, vopnaður byssu (framhlaðning) og hafði af að drepa hann með henni. Ekki hafði þótt mikið varið í kjötið af rostungnum, bæði lítið og seigt; þótti vera mjög horaður, hefir sennilega verið kominn verulega frá sínu umhverfi og lifnaðarháttum. Hins vegar höfðu tennurnar þótt dýrgripir miklir, og húðin hafði öll verið notuð í reipi og þótt góð til þeirra hluta, sérstaklega að þau hörnuðu minna í þurrkum en önur ólarreipi, sem kölluð voru.
Í kringum 1890 sigldi frönsk skúta, „Fransari“, inn á milli Flæðiklettana og strandaði þar. Þetta hafði verið í austan golu, en sæmilegu veðri. Nafn þess var „Bris“. Mikill matur, línur og kaðlar hljíta að hafa verið í þessum skipum, sem áttu að halda úti marga mánuði samfleytt, með 30-40 manna áhöfn, enda töldu strandbyggjarnir slík strönd með stórhöppum, þegar þau lentu á kyrrum og góðum stöðum, þar sem ekkert fór til spillis, en öllu var hægt að bjarga. Þarna höfðu og unnið við björgunina allflestir rólfærir karlmenn, sem þá hafa verið margir í Grindavík, þar sem þetta var seinni part vertíðar. Allt var borið á bakinu og hægt að komast að skipshliðinni á lágum sjó, en langt þurfti að vaða og höfðu flestir verið í skinnbrókum, sem voru þeirra tíma hlífðarföt. Ekki heyrði ég gamla menn segja sérstakar sögur um þessi verðmæti.

Skuli fogeti-139

En um borð í „Frönsurunum“ var líka kóníak og um það heyrði ég gamla menn tala og segja sögur af með lifandi áhuga. Aðal sögnin var það, að þegar verið var að bjarga koníakstunnunum, vildi það óhapp til, að annar botninn bilaði í einni tunnunni, svo mikið að rétt þegar hún var komin undan sjó, fór hann alveg. egar svo var komið, hafði þótt eðlilegast að karlarnir fengi hressingu, og tóku víst margir hraustlega til drykkjarins. En þrátt fyrir að flestir drukku sem þeir gátu, var enn eftir í tunnunni. Þá var ekki siður, að menn hefðu með sér kaffi eða aðra drykki til vinnu og því voru engin ílátin til nú þegar vökvunin bauðst. En ekki voru menn ráðalausir, því þá var gripið til brókanna og kóníakið látið í brókarskálm og þannig bjargað úr tunninni. Leiðin austur í hverfi, Járngerðar- og Þórkötlustaða, hafði sóst seint hjá mörgum með hinn dýrmæta dropa, og voru margar sagnir um það sem ég kann ekki að segja í einstökum atriðum. En margir höfðu lagt sig á leiðinni og nokkrir ekki náð heim fyrr en næsta dag.
Sérstaklega man ég eftir Þorgeir Björnssyni frá Staðarhverfi. Það var léttlyndur karl, sem virtist ekki taka lífið mjög alvarlega. Hann kunni margar sögur um Brisstrandið og talaði um það sem mestu óhamingju lífs síns, að nokkrum dögum áður en hún strandaði, hafði hann lagst í lungnabólgu, legið fram yfir alla björgun og þannig orðið af öllu koníakinu.
Flaedisker-139Austan við Vatnslónið kemur Vörðunestanginn. Frá Hvirflum og austur að Vörðunestaknfa eru sendnir grasbakkar, fyrir neðan Húsatóftir, það heitir Arfadalur, daglega kallaður „Dalur“. En víkin öll, milli Vörðunestanga og Gerðistanga, hét Arfadalsvík, nú venjulega kölluð Staðarvík, leiðina inn í víkina, „sundið“, hefi ég heyrt kalla annað en Staðarsund.
Austan við Vörðunestangann er sjálft Vörðunesið. Þá taka við „Karfabásar“ og austan við þá Jónsbásaklettar. Þar varð það slys árið 1902, snemma í janúarmánuði, að enskur togari strandaði og fórust allir, sem á honum vour, 11 manns. Þetta strand átti að heita nokkuð sögulegt. Skipið hét Alnaby, og skipstjórinn á því var einn rómaðasti landhelgisbrjótur, sem hefir verið hér við land fyrr og síðar á enskum togurum, og er þá mikið sagt. En hann var með togara þann, er rétt um aldamótin varð þremur mönnum að bana vestur á Dýrafirði. Hannes Hafstein, þáverandi sýslumaður, fór um borð í togarann, sem var að veiðum uppi í landsteinum. var grunur á að sleppt hefði verið vír úr tolla á togaranum, sem hefði hvolft bátnum. Ekki hafði verið sýnd tilraun frá togaranum að bjarga mönnum þeim, sem voru að hrekjast í sjónum, svo hér hefir verið u verulegan þrjót að ræða. Ekki var hann tekinn þarna, en kæra hafði verið send út af verknaði þessum til hinna dönsku yfirvalda í Kaupmannahöfn. En sennilega hefði það ekki komið að miklu gagni, ef þessi sami skipstjóri hefði ekki svo víða komið við, að hann var tekinn í landhelgi við Jótlandsstrendur ekki löngu seinna, og fyrir tilviljun mun hann hafa fengið dóm fyrir þennan verknað sinn í Dýrafirðinum. Sagt var, að hann hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og verið í sinni fyrstu ferð hingað til landsins eftir að hafa tekið út sína fangelsisvist.
Skipstjóri þessi hafði heitið Carl Nilson og verið kallaður Sænski Carl. Það voru og sagnir um, að hann hefði verið búinn að heita því að velgja Íslendingum undir uggum, þegar hann kæmi þar á miðin aftur, en hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna í Jónsbásarklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna….
Sjá framhald.

Heimild:
-Guðsteinn Einarsson: Frá Valahnúk til Seljabótar – Frá Suðurnesjum 1960, bls. 9-52.

Sjóslysaskilti

Sjóslysaskilti á Þórkötlustaðanesi.

Másbúðir
Magnús Þórarinsson skrifar um Másbúðarhólma í bókina „Frá Suðurnesjum„, sem gefin var út árið 1960. Þar segir hann m.a.:
„Þar er Másbúðarvarða, gild og gömul mjög, á háum kletttanga, sem er norðvestur úr Fitinni… innan ekki mjög langs tíma mun Másbúðarvarða standa á klettinum úti á sjó á flóði. Sunnan við vörðuna er breitt sandvik, en sunnan við vikið hefir staðið fjárrétt Nesjamanna, stór og vel hlaðin; dregur vikið nafn af réttinni og kallast Réttarvik….

Másbúð

Brúin út í Másbúðarhólma.

Másbúðir, sýnist mér, hafa verið fornmerkur staður og stórbýli á sinni blómatíð. Þar var oftast fjölmennt, einkum á vertíðum. Þar var konungsútgerð, við Másbúðir er sundið kennt og sundvarðan stóra og myndarlega, sem enn stendur, umhirðulaus um langa tíð….
Másbúðir hafa verið höfuðbólið á þessum slóðum á fyrri tíð. Másbúðarhólmi, sem nú er stór eyðiklettur úti í sjó, 80-100 faðma frá sjávarkampi fyrir ofan, var áður áfastur við land og virðist hafa verið víðátta graslendis, sem nú er þangi vaxin fjara….

Másbúðarhólmi

Tóft í Másbúðarhólma.

Á 17. öld hefir Másbúðarhólmi hlutast frá fastalandinu, en þangað til var samgróið tún á öllu því fjörusvæði, sem nú er milli lands og Hólma…
Síðasti búandi á Másbúðum var Jón Jónsson, frá 1884 til 1895….
Í Hólmanum má finna Kóngsvör. Sáust þar kjölför í klöppunum fram undir síðustu aldamót (1900), en munu varla greinast nú. Eitt ártal er höggvið í klappir þar – 16 hundruð og eitthvað -. Um 1890 var rótað upp gömlum öskuhaug, sem var þar í námunda við bæinn og fannst þá heilmikið af brotnum krítarpípum…
Sjávarhúsin stóðu flest vestan við bæinn, þar var Hólminn hæstur. Þar var líka hróf skipanna. Þar var traustur tvíhlaðinn grjótgarður, vinkillagaður, sem var skipunum til öryggis fyrir veðrum og sjógangi.
Útgerð lauk í Másbúðarhólma fyrir 50 árum. Hólminn er að fjarlægjast fastalandið, hægt en öruggt… En Másbúðarhólmi er harður haus og verður til langt fram í aldir og loks grynning, sem boði fellur á, og það verður stór boði, hvert nafn sem hann kann að fá.
Nú (2000) sjást einungis leifarnar af Másbúðarvörðu ofan við Másbúðarhólma.

Másbúðir

Áletrun í Másbúðarhólma.