Í fjölmiðlum að undanförnu (júlí 2008) hefur talsvert verið fjallað um aðstöðuleysi ferðafólks á áhugaverðum áfangastöðum þess, s.s. við Dettifoss, Kerið og reyndar víðast hvar um landið, nema ef vera skyldi á Þingvöllum, við Geysi og við Gullfoss (sjá t.d. umfjöllun HÉR). Lítið hefur reyndar verið bent á allt hið jákvæða sem gert hefur verið í þessum efnum, auk framangreind, s.s. í Skaftafelli, Ásbyrgi og á Reykjanesskaganum.
Segjast verður eins og er að þrátt fyrir fyrirliggjandi vitneskju og nægan tíma til markvissrar uppbyggingar á aðstöðu fyrir sívaxandi fjölda ferðafólks hér á landi er aðstaðan því til handa yfirleitt bæði til háðungar og vandræða fyrir alla. Þar sem komið hefur verið upp salernisaðstöðu, s.s. við Dettifoss, er hún tæpast fólki bjóðandi. Gripið hefur því verið til þess ráðs að læsa hurðum til að hindra aðgengið að viðbjóðnum. Þar sem enn er opið vogar fólk sér ekki inn af sömu ástæðu.
Á Reykjanesskaganum hafa sveitarfélög útbúið virðingarferða aðstöðu til handa ferðafólki, auk þess sem auðvelt aðgengi fólks er að salernisaðstöðu hvarvetna sem numið er staðar innan þéttbýlismarkanna.
Til að auka enn við þjónustuna voru settir upp opnir skálar, mjög góðir, á völdum gönguleiðum, s.s. undir brún Illahrauns við Lágafell ofan við Grindavík og við Lækjarvelli norðaustan Djúpavatns, auk þess sem salernum var komið fyrir í Króksmýri og á Vigdísarvöllum – og jafnvel við Selatanga. Segja verður hlutina eins og þeir eru – hvarvetna hefur aðstaðan orðið skemmdarvörgum að bráð; við Illahraun hafa rúður og hurðir verið brotnar (sjá HÉR), við Lækjarvelli var allt brotið sem hægt var brjóta, við Vigdísarvelli og Selatanga voru salernin gjöreyðilögð af brjáluðum skotmönnum og svona mætti lengi telja. Orkuveitan hefur lagt fram opna aðstöðu í Engidal undir Hengli og í Reykjadal á Ölkelduhálsi. Það mun vera eina aðstaðan, sem sómasamlega hefur verið gengið um. Auðvitað hefði átt að vera búið að gera miklu mun meira í þessum efnum.
Af framangreindu má þó leiða a.m.k. tvennt; nauðsynlegt er að koma upp aðstöðu fyrir ferðafólk á áfangastöðum þess, en umgengni um slíka aðstöðu sem komið hefur verið upp er mjög slæm. Hvernig á þá að réttlæta kröfuna um betri og bætta aðstöðu að fenginni reynslu? Hér þarf allt fólk sem hefur framangreindar þarfir og vill sýna öðru fólki gestrisni að taka sér tak – og það verulegt. Ef gera á þá kröfu að sveitafélög og ríki bregðist við frumþörfum fólks og setji upp aðstöðu á völdum stöðum þarf allt fólk, án undantekninga, að umgangast hana sem slíka. Segja má með nokkurri sanngirni að ferðafólk hafi verið fórnarlömb í tvennum skilningi; annars vegar úthaldsleysi hlutaðeigandi yfirvalda og hins vegar ofvirkni fárra skemmdarvarga.
En það er ekki ásættanlegt markmið að geta boðið ferðafólki að gegna frumþörfum sínum með sómasamlegum hætti. Merkingar og leiðbeiningar því til handa á sögustöðum eru ýmist litlar eða engar. Venjulegur ferðamaður getur því ferðast um þjóðvegi Íslands án þess að eiga þess kost á að upplifa sögu þess, nema ef vera skyldi með mikilli yfirlegu fyrir ferð eða miklu magni upplýsinga meðferðis. Tökum Auðartóftir á Reykjanesinu vestra sem dæmi. Um eru að ræða fyrstu búðir landnámsmannsins Auðar djúpúðgu undir Krosshólaborg, enda augljóslega auðvelt að lenda víkingaskipi þar þvert á eyrunum í ofanverðum Berufirði. Þegar ferðast var um svæðið (júní 2008) var hvergi að finna hinar minnstu vísbendingar um staðinn. Samt sem áður er hann innan seilingar frá þjóðveginum. Skammt þarna frá er landnámsjörðin Skarð.
Sagt er að engin önnur jörð á landinu hefur verið í eigu sömu ættar lengur en Skarð. Landnáma segir frá landnámi Geirmundar heljarskinns, sem gerði sér bæ og kallaði Geirmundarstaði undir Skarði, en síðan fer fáum sögum af staðnum fyrr en í kringum aldamótin 1200. Björn Þorleifsson (1408-67), hirðstjóri, bjó þar. Englendingar drápu hann á Rifi og ekkja hans, Ólöf ríka Loftsdóttir, dró að sér mannsöfnuð til að hefna bónda sins. Um var að ræða forsögu að uppgjöri enskra hér á landi (sjá Grindavíkurstríðið). Þar var og Skarðsbók Landnámu afrituð. Tóftir Geirmundarstaða eru í túninu á Skarði, en engin vísbending að þeim til handa ferðafólki, hvorki innlendu né útlendu. Hér er verulegra úrbóta þörf. Segja má með nokkurri sanni að menntamálayfirvöld hafi um of allt og langa stund sofið á ráðuneytisgáttinni hvað þennan þátt atvinnuþróunnarinnar varðar. Í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og spáa ku ferðaþjónustan vera sú atvinnugrein hér á landi er vaxa mun hvað mest á næstu misserum og árum. Því er von að fólk spyrji; hvað dvelur orminn langa?
Sjá nýlega skýrslu um nánast ekki neitt HÉR. Sjá einnig útvarpsumfjöllun 2011 HÉR.