Rauðshellir

Gengið var um Lambagjá frá Kaldárseli með viðkomu í Níutíumetrahellir ofan við enda gjárinnar.

Helgadalur

Helgadalur – tóft.

Síðan var haldið yfir í Vatnshelli, sem er við gömlu Selvogsgötuna þar sem hún liggur niður í Helgadal. Á leiðinni var gegnið fram á þrastarungakríli, sem fallið hafði úr hreiðri sínu, en móðirin fylgdist gaumgæfilega með öllu. Forn tóft í Helgadal var barin augum. Rauðshellir var skoðaður, en hans er getið í kirkjuannálum allt frá því á 17. öld, auk þess sem litið var inn í Hundraðmetrahellinn. Rauðshellir er stundum nefndir Pólverjahellir. Nafnið er tilkomið frá drengjum úr Pólunum í Reykjavík er voru við dvöl í Kaldárseli. Friðrik Friðriksson stofnaði knattspyrnufélagið Val þar sem þessir drengir voru aðaluppistaðan. Þá stofnaði hann ungmennafélagið Hvöt, sem hafði aðstöðu í Hvatshelli í Þverhlíð.

Helgadalur

Helgadalur – Vatnshellir.

Þá var gengið í gegnum Fosshelli þar sem hinn fallegi flór var skoðaður, upp í Valaból og áð í Músarhelli. Maríustakkur vex þar utan við sem og einstaka holurt á stangli. Annars er svæðið orðið mjög vel gróið og trén hafa dafnað vel í sumar.
Haldið var upp á Valahnúka (201 m.y.s.), heilsað upp á tröllinn og og hrafninn, sem á sér laup í austanverðum vestasta hnúknum. Hann sést vel þar sem gengið er yfir í Valabók um hálsinn frá Helgafelli. Frá tröllunum var gengið yfir malarslétt helluhraunið niður í Gvendarselsgíga, upp á Kaldárbotna syðri og með vatnsverndargirðingunni niður að Kaldá.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Kolhólasel

Gengið var að Kolgrafarholti á Strandarheiði (ofan Vatnsleysustrandar). Holtið sést vel frá Reykjanesbrautinni. Þar var skoðaður hlaðinn stekkur eða rétt, aðhald a.m.k.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Vestan við holtið eru tvær grónar lægðir er gætu hafa verið notaðar til kolagerðar ef taka á mið af nafninu.
Frá holtinu var gengið að hlöðnu byrgi á klapparhól sunnan við það. Á leið að Fornuseljum í Sýrholti var gengið fram á hlaðna kví eða stekk í gróinni gjá. Skammt sunnan við gjána er tóft á torfu (6359266-2214691), en erfitt er að koma auga á hana nema gengið sé svo til beint að henni. Talsverð landeyðing er allt í kring. Skoðaðar voru tóftir í vesturhlíð Sýrholts. Þar sést vel móta fyrir þremur rýmum. Selið er greinilega mjög fornt og er að verða jarðlægt.

Kolhóll

Kolhóll.

Markmiðið með þessari ferð var m.a. að finna svonefnda Kolhóla og hugsanlega fornar minjar, sem þar áttu að vera. Hólarnir eru í heiðinni, en í landi Vatnsleysu. Eftir svolitla leit fundust rústirnar norðaustan undir hól á vel grónu svæði; tóftir af tveimur húsum með tveimur rýmum hvort. Austast var stekkur. Af nafninu að dæma gætu þarna hafa verið unnin kol á meðan enn var hrís í heiðinni. Annar Kolhóll er þarna nokkuð sunnar í heiðinni. Í hann er nokkuð djúp gróin skál. Tóftirnar virðast vera mjög gamlar. Líklegt er að Vatnsleysa hafi haft þarna í seli umtíma, en síðar fært sig ofar, í Rauðhólssel og undir Oddafellið. Forvitnilegt væri að kanna tóftirnar betur. Þessa er hvergi minnst í seinni tíma ritum, s.s. Jarðabókinni 1703 eða í yfirferð Brynjúlfs Jónssonar um reykjanesskagann á 19. öld.
Í bakaleiðinni niður heiðina var komið að fallega hlaðinni vörðu ofan við Auðnasel og sunnan Fonruselja í Sýrholti. Varðan er á hraunhól, en norðvestan undir henni er gróinn hvammur.
Veður var frábært. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kolhólasel

Í Kolhólaseli.

Fjárskjólshraun

Gengið var niður Fjárskjólshraun og að opi Fjárskjólshraunshellis, sem fannst fyrir skömmu í grónu jarðfalli í hrauninu. Erfitt er að koma auga á það í víðfeðmninu. Það sést ekki nema staðið sé á brún þess.

Fjárskjólshraun

Á leið í Fjárskjólshraun. Keflavík að handan.

Komið var niður í skúta undir berghellunni, en með því að fara til hægri var komið niður í rúmgóða mannhæðaháa hraunrás. Rásin var alveg heil. Hún er um 100 metra löng og endar í fallegum hraungúlp, sem hefur runnið þarna niður í rásina og storknað. Svo virðist sem gúlpurinn hafi bæði þrengt sér upp úr gólfinu og komið út úr veggnum að ofan. Sérkennilegt jarðfræðifyrirbrigði. Gólfið er alveg slétt. Rásin lækkar á tveimur stöðum, en hægt er að ganga hálfboginn þar um. Breidd rásarinnar er um 6 metrar og jafnvel meira á köflum. Neðst er op til hægri.

Fjárskjóshraun

Í helli í Fjárskjóshrauni.

Þegar komið er inn fyrir hana tekur við lágur salur. Rás liggur inn úr honum, tvískipt. Þessi rás er um 40 metra löng. Í heild er hellirinn því um 140 metra langur. Litlir dropsteinar sáust, en að öðru leyti virðist vera lítið um skraut í hellinnum. Flögur eru utan á veggnum á einum stað, líkt og í Leiðarenda. Neðst, þar sem hliðarrásin er, er mikill hraungúlpur, líkur þeim, sem er efst í hellinum. Þetta er fallegur hellir og vel þess virði að skoða hann. Hellir, sem ekki er hægt að skemma og því tilvalinn fyrir áhugafólk.
Leitað var að opum bæði ofan og neðan við jarðfallið. Neðan við það er annað jarðfall, sennilega hluti af sömu rás. Farið var þar inn og reyndist vera um gamalt greni að ræða. Ekki var komist inn í meginrásina að þessu sinni. Líklega má telja svæðið í kring hellavænlegt og því vel þess virði að gefa því nánari gætur við tækifæri. Frést hefur af opi þarna nokkru austar, skammt neðan við þjóðveginn, sem á eftir að staðsetja og skoða.
Frábært veður.

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshraunshelli.

Skessuhellir

Í Fréttablaðinu árið 2008 mátti lesa eftirfarandi um Svartahelli í Reykjanesbæ (Keflavík):
svartihellir-1Nýverið flutti óvenjulegur nýr íbúi inn í helli í Hólmsbergi við smábátahöfnina í Gróf í Reykjanesbæ. Það er fimm metra há og fjögur hundruð ára gömul skessa sem þó er með barnshjarta.
Það var Herdís Egilsdóttir rithöfundur sem skapaði skessuna og hún átti líka hugmyndina að því að skessuhellirinn yrði reistur á Reykjanesi nú. „Víða um lönd hafa verið gerð söfn í kringum sögupersónur úr barnabókum. Ég nefndi þetta við Árna Sigfússon bæjarstjóra og hann tók verkefnið strax upp á sína arma.“
Fjöllistahópurinn Norðanbál vann verkefnið í samstarfi við Ásmund Friðriksson verkefnisstjóra og réð útliti og stærð hellisins. Hann er hlaðinn í kringum smá skúta sem heitir Svartihellir en byggingin kostar tæplega sautján milljónir.
Allt sem tengist safninu er stórt í sniðum. Krakkar geta farið ofan í skóna hennar og stór fótsporin. Innanstokksmunir hellisins eru í sama stærðarflokki, borð, stólar og risarúm sem má skríða upp í. „Augu skessunnar eru á stærð við fótbolta og þau hreyfast. Svo andar hún og situr í ruggustól og prjónar þannig að safnið verður líflegt,“ segir Herdís. „Svo er hugmyndin að hengja fötin hennar á snúru meðfram veginum og mála sporin hennar á götur Reykjanesbæjar svo krakkarnir sjái hvar hún hafi verið.“
Herdís hefur skrifað fimmtán bækur um skessuna og vinkonu hennar hana Siggu. Nú er ný bók á leiðinni sem mun fjalla um ævintýri skessunnar í nýja bústaðnum á Suðurnesjum.

Heimild:
-Fréttablaðið 29 ágúst 2008, bls. 42.

Reykjanesbær

Svartihellir (Skesuhellir).

Tóustígur

Gengið var frá Hvassahrauni að Afstapahrauni (Arnstapahrauni) og inn í hraunið. Það virtist ógreiðfært við fyrstu sýn, en raunin var önnur. Það er vel gróið á kafla og auðvelt yfirferðar. Að austanverðu eru falleg gróin svæði strax og komið er inn í hraunið með fallegum klettamyndunum.

Tóustígur

Stórvirkar vinnuvélar komnar að hlöðnum garði við Tóustíg.

Sjá mátti fyrirhleðslu á einum stað. Stígur liggur þar í gegnum. Gengið var upp á línuveginn og eftir honum til vesturs uns komið var inn í Tóu tvö. Jarðvinnuvélar voru að moka hrauninu vestan hennar, u.þ.b. tveimur metrum frá Tóustígnum og hlöðnu görðunum, fornminjum, sem þar eru. Sorglegt á að horfa. (FERLIR vakti athygli MBL á aðstæðum. Það birti mynd af jarðvinnuvélunum og sagði frá nálægðinni við garðana. Vegagerð ríkisins stöðvaði framkvæmdir og þáði afsökun verktakans. Hann hafði ekki áttað sig, að sögn, á hversu nálægt hann var kominn, þrátt fyrir skráða skilmála þess efnis).

Toustigur

Tóustígur.

Gengið var til suðurs upp eftir Tóustígnum, upp í Tóu þrjú. Þar er jarðfall og hleðsla fyrir. Bændur munu hafa hýst fé þar í skjóli. Bein voru ofan við jarðfallið eftir refaveiðimenn, en þeir munu hafa borið þar út æti með það fyrir augum að veiða refinn. Greni eru þarna í hraunkantinum. Haldið var eftir stíg í Hrístóu. Hún er vel gróin að hluta. Gengið var með Seltóunni og var stígurinn þræddur til austurs í gegnum gróft hraunið uns komið var í slétt mosahraun – Dyngnahraun. Í því voru greni og mjög fallega hlaðið refabyrgi. Mjög erfitt er að koma auga á það – svo vel fellur það inn í landslagið. Sennilega er þarna fundið byrgi er Jónas Bjarnason var að reyna að lýsa fyrir FERLIR fyrir u.þ.b. tveimur árum og nokkrum sinnum hefur verið reynt að hafa uppi á. Allt finnst þetta þó að lokum.

Tóustígur

Tóustígur.

Efst suðvestan í efstu Tóunni liggur varðaður stígur til suðvesturs yfir Afstapahraunið. Stígurinn er mjög greinilegur og hefur verið fjölfarinn fyrrum. Greinilegt er að þarna hefur verið um hrísgötu að ræða, enda lagaður til umferðar. Hún hefur legið upp með vesturjaðri Afstapahrauns og beygt inn á hraunið að efstu Tóunni þar sem haunhaftið er mjóst. Með því að fara upp með gróningunum vestan hraunsins hefur meðferð hesta verið mun meðfærilegri en að fara með þá niður Tóurnar, yfir hraunhöft og torleiði þar sem hrísið var m.a. annars vegar.

Upp af Tóunum tók við hraunkantur, sem stígurinn lá í gegnum.
Þegar út úr hrauninu var komið var haldið til austurs uns komið var í hraunkrika Dyngnahrauns.

Skógarnef

Skógarnefsgreni.

Haldið var upp í krikann og stígur þræddur yfir úfið hraunið. Þegar yfir það var komið tók við gróinn Almenningur skammt vestan við Gömlu þúfu. Gengið var spölkorn norður með hraunkantinum og þá komið að Búðarvatnsstæðinu. Það reyndist því miður þurrt með öllu. Vatnsbirgðirnar voru því látnar duga. Girðing hefur legið í gegnum vatnsstæðið og beygt þar hornrétt. Eftir að hafa áð við vatnsstæðið var gengið með hraunkantinum og stefnan tekin á Hvassahraun.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Gengið var í gegnum gróið hraun, niður í gegnum Skógarnefið, sem er þarna skammt frá, og áfram í genum gróið mosahraun vestan þess. Gerð var leit að Skógarnefsskúta, en án árangurs. Gengið var um Jónshæð og niður að Öskjuholti. Staldrað var við Öskjuholtsskúta og hann skoðaður. Þá var gengið áfram til norðurs, niður með Bláberjahrygg og að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 19.4 km.

Víkingaskip

“Víkingaskip” í Afstapahrauni.

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um “Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

“Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.”

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni “Vanhugsað fálm“:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

“Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar”, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg” — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa” á grundvelli misskilnings og „rannsóknar”, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels”, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður” eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.” – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, “Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog”, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, “Vanhugsað fálm”, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola í nótt [02.01.2010]. Slökkvilið Grindavíkur var kallað út laust eftir klukkan tvö í nótt.
Krýsuvíkurkirkja á afmælinuÁsmundur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, sagði að útkallið hafi komið frá Neyðarlínunni kl. 02:04 og að einn bíll hafi verið sendur á vettvang. Leiðin úr Grindavík í Krýsuvík er ekki auðfarin á þessum árstíma og var slökkviliðið um hálftíma að Krýsuvíkurkirkju.
Þegar slökkviliðsmennirnir komu á vettvang var kirkjan fallin og gátu þeir ekki gert annað en að slökkva í glæðunum. Fenginn var tankbíll með vatn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í Hafnarfirði.
Ekkert rafmagn er á staðnum og ekki er vitað um eldsupptök. Nokkuð ljóst þykir að aðeins komi þar tvennt til greina: Íkveikja eða mannleg mistök. Lögreglan mun rannsaka eldsupptökin í dag.
Krýsuvíkurkirkja eftir brunanAltaristafla Sveins Björnssonar listmálara prýddi kirkjuna að sumarlagi. Hún bjargaðist enda geymd í Hafnarfjarðarkirkju yfir veturinn.
„Þetta er skelfilegt. Það er eina orðið sem ég á yfir þetta,“ sagði séra Þórhallur Heimisson, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju. Krýsuvíkurkirkja er í Hafnarfjarðarprestakalli. „Það var dýrgripur sem var þarna í Krýsuvík, einstök kirkja og gríðarlega mikið heimsótt.“
Í kirkjunni var gestabók og þúsundir gesta skrifuðu nöfn sín í hana á hverju ári. Þegar messað var í kirkjunni var hún alltaf setin til þrengsla og fjöldi fólks utandyra, að sögn Þórhalls. Hann sagði marga hafa borið vinarhug til gömlu kirkjunnar í Krýsuvík. Missir hennar sé því mikið áfall.
Leiði Sveins BjörnssonarÞórhallur sagði að altaristafla Sveins Björnssonar, sem hann málaði sérstaklega fyrir kirkjuna, hafi bjargast.  Venjan var að messa í Krýsuvíkurkirkju í lok september ár hvert. Eftir þá messu var altaristaflan tekin niður og geymd ásamt öðrum lausum kirkjugripum í Hafnarfjarðarkirkju yfir veturinn.
Krýsuvíkurkirkja var byggð árið 1857, fyrir 153 árum, og endurbyggð og endurvígð árið 1964. Kirkjan var í vörslu þjóðminjavarðar.
Krýsuvíkurkirkja var reist árið 1857 og var í umsjá Þjóðminjavarðar. Hún var aflögð fyrri hluta síðustu aldar og endurbyggð og endurvígð árið 1964. 

Krýsuvíkurkirkja á 150 ára afmælinu

Gunnþór Ingason er sérþjónustuprestur á sviði þjóðmenningar og helgihalds og hefur verið umsjónarmaður Krýsuvíkurkirkju sem helgidóms. Hann segir kirkjuna vera merka fyrir látleysi sitt. Hún hafi sögulegt gildi og bera helgihaldi fyrri tíðar vitni. Upphaf messuhalds í kirkjunni má rekja til jarðarfarar Sveins Björnssonar listmálara fyrir rúmum áratug, en hann hafi látið sig kirkjuna miklu varða. Sú hefð hefur skapast að hengja altaristöflu eftir hann í kirkjunni á vorin en taka hana niður á haustin. Altaristaflan og aðrir helgigripir hafi því ekki verið í í kirkjunni þegar hún brann.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar brunann. Varðstjóri lögreglunnar segir ekkert hægt að segja um tildrög eldsvoðans á þessari stundu. Ekki sé hægt að útiloka íkveikju.
150 ára afmælis kirkjunnar var minnst með hátíðarmessu árið 2007. Matthías Johannessen orti ljóð sérstaklega fyrir 150 ára afmælið og Atli Heimir Sveinsson tónskáld samdi tónverk við ljóðið.
Kirkjan„Menn eru í áfalli vegna þess að við upplifum þetta sem árás á varnarlaust lítið barn,“ segir Þórhallur Heimisson prestur í Hafnarfirði um Krýsuvíkurkirkju sem brann í nótt. Kirkjan heyrði undir Hafnarfjarðar-prestkall og segir Þórhallur hafa messað þar tvisvar á ári. Kirkjan var fjölsótt bæði af Íslendingum og erlendum ferðamönnum. Þórhallur segist hafa talað við slökkvilið og lögreglu um brunann.”
Um eldsupptök er ekki vitað. Sumir telja að þau megi rekja til þess að skemmtanahald meðal álfa hafi farið úr böndunum á nýársnótt, en að sögn lögreglunnar er líklegt að kviknað hafi út frá kerti eða kertum. Sjónarvottur, sem kom í kirkjuna daginn áður, tók eftir tveimur kertum á altarinu. Þar var og gestabókin.
KrýsuvíkurkirkjaLíklegt má telja að einhver eða einhverjir, sem komu í kirkjuna á nýársdag eða nýársdagkvöld, hafi kveikt á kertunum, hugsanlega til að skrifa í gestabókina, og síðan farið óviljandi án þess að slökkva logana. Eldsupptökin virðast hafa orðið austast í kirkjunni þar sem altarið var.
Þjóðminjavarslan mun án efa íhuga að láta af endurbyggingu kirkjunnar á þessum stað. Með því getur hún sparað einhverja aura. Aðrir vilja að kirkja verði byggð að nýju í Krýsuvík og mun það væntanlega ganga eftir.

Heimild:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/02/krysuvikurkirkja_brann_i_nott/
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item319188/
http://www.dv.is/frettir/2010/1/2/kirkjubruninn-menn-eru-i-afalli/

Krýsuvíkurkirkja

Ný Krýsuvíkurkirkja.

Brunnastaðasel

Gengið var yfir Hrafnagjá frá Reykjanesbraut, upp Vogaheiði áleiðis upp í Knarrarnessel og Brunnastaðasel, síðan niður heiðina á ný, niður að Snorrastaðatjörnum með viðkomu í Nýjaseli.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Hrafnagjá liggur, að sumir segja, frá Háabjalla og alla leið í sjó fram í túninu á Stóru-Vatnsleysu. Af loftmyndum að dæma eru skil á milli Hrafnagjá Vatsleysumanna og Hrafnagjár Vogamanna. Hvað sem því líður er gjáin falleg og gefur Almannagjá lítið eftir á köflum. Hæst er Hrafnagjá um 30 metrar, þ.e. ofan Voganna.
Gjárnar upp Vogaheiðina eftir að gengið hefur verið yfir Hrafnagjá heita m.a. Huldugjá, Litla-Aragjá, Stóra-Aragjá, Klifgjá, Gjáselsgjá, Holtsgjá og Brunnastaðaselsgjá.
Á Huldugrjárbarmi er Pétursborg. Gjáin er nokkuð há á kafla. Litla-Aragjá og Stóra-Aragjá eru óljóslega sagðar heita eftir Ara, fornmanni í Vogum, en ekki eru til skráðar heimilir um það. Sá möguleiki er fyrir hendi að Aranafnið sé jafnvel tilkomið af fuglsnafninu örn. Þar sem bergveggurinn er hæstur í Stóru-Aragjá heitir Arahnúkur.

Arasel

Arasel.

Undir Arahnúk er Arahnúkasel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist. Arahnúkaselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn og þar finnast tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið og líklega hefur vatn verið sótt alla leið í Snorrastaðatjarnir.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Í bergveggunum á Arahnúk er hrafnsóðal og þar sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Heimildir er um tvö önnur nöfn á Stóru-Aragjá, Aragjá og Stór-Aragjá. Stóra-Aragjá nær allt að Skógfellahrauni til suðvesturs, en þegar komið er nokkuð norðaustur fyrir Arahnúk þrengist gjáin til muna og er svo til horfin í Brunnastaðalandi. Nokkrar heimildir segja að Stóra-Aragjá sé sama gjá og Klifgjá þegar komið er austar í heiðina.
Í norðaustur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta klifgjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring. Um aldamótin 1900 hrapaði Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jólin. Mikil leit var gerð, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – stekkur.

Brunnastaðaselið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir, en aðeins norðar og neðar á grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni er lítil heilleg kví og hafa gjárveggirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltatíma. Ofar er Brunnastaaðselsvarða og heimildir eru um Brunnastaðaselsvatnsstæði.
Gengið var niður heiðina áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Þegar skammt var eftir að tjörnunum var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla. Selið hefur tilhyert bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Í gömlum heimildum er getið um Snorrastaði einhvers staðar við Snorrastaðatjarnir, en hvergi sést merki um þann bæ. Í Jarðabókinni 1703 segir um Snorrastaði: “Forn eyðijörð og hefur um langan aldur í eyði legið… Nú er allt land þessarar jarðar lagt undir brúlkun ábúenda í Vogum hvoru tveggja, og hefur yfir hundrað ár verið svo”. Tjarnirnar eru oftast sagðar þrjár, en eru í það minnsta fimm ef ekki er því meiri þurrkur.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnseysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Gjasel-210

Gjásel.

Rauðhólssel

Gengið var upp í Fornasel á Strandarheiði ofan Reykjanesbrautar, í Auðnasel og áfram upp í Rauðhólssel. Þaðan var gengið til baka niður heiðina með viðkomu í Flekkuvíkurseli.

Flekkuvíkursel

Stekkur í Flekkuvíkurseli.

Fornasel er austan við svofnefnda Strokka. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og verið frá Landakoti. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annaðs el á þessm slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni. Selið sést vel frá Strokkum og er stutt að ganga að því, hvort sem er frá Reykjanesbrautinni eða línuveginum. Það liggur utan í hól mót vestri og sjást þar þrjár eða fjórar tóftir og lítil kví neðan við þær. Rétt ofan við hólinn að austanverðu er lítið vatnsstæði í klöpp, 3-4 m á lengd, um 2 m á breidd og er grjóthleðsla í kring.

 

Fornasel

Í Fornaseli.

Auðnasel er norðaustur af Knarrarnesseli. Þangað var um 15 mín. gangur. Selið liggur suðvestan við hæð eina sem heitir Sýholt. Margar tóftir er þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestan af því nokkurn spöl neðan þess og sunnan við háan og brattan klapparhól.

Fornusel

Fornusel í Fornuselshæðum (Sýrholti).

Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir, en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræðslu.
Í landamerkjalýsingu Auðna og Landakots frá árinu 1886 er Stórhæð nefnd og sagnir eru til um að setið hafi verið yfir sauðum í Stórhæð.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ofarlega í heiðinni eru nokkir grónir rauðamelshólar. Rauðhólar standa við vesturjarðar Afstapahrauns, en í kring um þá að hluta hefur hraunið runnið. Þetta eru fjórir hólar eða hæðir og tveir sem standa fjærst hrauninu heita Stóri-Rauðhóll eða Rauðhóll og Litli-Rauðhóll, sem stendur neðan hans. Undir þessum hólum að norðaustanverðu er Rauðhólssel, en þar var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsbvól. Aðalbláberjalyng er mjög skaldgæf jurt í hreppslandinu, en við hólana má sjá það teygja sig upp úr þröngum gjám.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Á leiðinni til baka niður heiðina var komið við í Kolhól og Kolgrafarhólum í leiðinni niður að Flekkuvíkurseli. Það er suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásunum norðan kofatóftanna og fáeinir steinar við það. Kálfatjarnarbræður sögu Herdísi Jónsdóttur, f: 1858, hafa komið í selið sem barn. Þar voru þá eingöngu hafðar kindur.

Flekkuvíkursel

Bræður.

Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft. Norðan Flekkuvíkursel, mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður er standa mjög þétt saman. Þær heita Bræður.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.
Örnefni og göngileiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Staðarbrunnur

Gamlir brunnar teljast til fornleifa. Samkvæmt skilgreiningu þjóðminjalaga þá eru fornleifar allar leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða manna verkverk eru á, og eru 100 ára eða eldri. Sem dæmi um fornleifar eru nefndar; “brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð…”

Brunnur á Reykjanesskaganum - frá því í byrjun 20. aldar

Í Þjóðháttaskrá Þjóðminjasafnsins (41) er fjallað um neysluvatn og öflun þess. Þar er m.a. spurst fyrir um vatnsstæði, vatnsból, vatnsþrær, brunna, uppsprettur, lækningalindir og vatnsleiðslur: “Öll mannavist í landinu er tengd öflun neysluvatns fyrir fólk og fénað. Landnámsmenn, sem reistu fyrst byggð hérlendis, hafa m.a. sælst til þess að rennandi vatn félli hjá bæjarstæðinu og til skamms tíma hefur það þótt góður kostur á sveitabýli að eiga góðan bæjarlæk rétt hjá bæjarveggnum. Allt hefur þetta breyst á þessari öld [20. öld], flest byggð ból eiga nú kost á streymandi lindarvatni eftir vatnsleiðslum um lengri eða skemmri veg. Þessi breyting hefur gerst á svo skömmum tíma í sögu þjóðarinnar að enn muna fjölmargir Íslendingar til þess að bera þurfti allt neysluvatn frá brunni eða bæjarlæk í hús.
Hvað felst í orðinu vatnsból? Er það eingöngu notað um þann stað sem neysluvatn heimilisins er tekið úr? Vatnslind á ReykjanesskaganumGilti þá einu hvort vatnið var sótt í læk, tjörn eða jafnvel brunn? Var ábýlisjörðum talið gott vatnsból til kosta í umræðu manna á milli? Var þá einnig talað um langan eða stuttan vatnsveg og miðað við það hve langan veg þurfti að sækja neysluvatn? Voru dæmi þess að sækja þyrfti neysluvatn á hestum um langan veg?
Hvað um bæjarlækinn? Var hlaðin þar sérstök vatnsþró? Var hlaðið þrep í farveginn til að mynda smáfoss (lækjarbuna) við vatnsbólið? Var sérstakur, flatur steinn við vatnsbólið, ætlaður til að klappa á þvott (þvottasteinn)? Var vegur lagaður með einhverjum hætti að vatnsbóli (stíflur, upphækkun)? Var vatnsbólið haft til þess að afvatna í saltfisk og e.t.v. kjöt? Voru dæmi þess að bæjarlæknum væri veitt gegnum hús, innanbæjar, eða að byggt væri hús eða skýli yfir vatnsbólið? Var neysluvatn sótt í tjörn nálægt bænum? Var einhver umbúnaður í sambandi við vatnstöku þar, t.d. hleðsla útí tjörnina eða grafin þró í tjarnarbotninn? Voru til upphlaðin vatnsból, án aðrennslis eða frárennslis ofanjarðar. Eru til sagnir eða munnmæli varðandi slík vatnsból, t.d. hvað varðar öryggi vatns til nota (að engum skyldi verða meint af vatninu ef vissum skilyrðum var fullnægt)?

Vatnsstæði á Reykjanesskagagnum

Brunnar voru víða, einkum í seinni tíð, einkum þar sem ekki var völ á neysluvatni nema með því að grafa brunn. Einstakir menn, öðrum fremur, unnu víða að brunntöku og hleðslu brunna og hlutu jafnvel viðurnefni af því. Var bæjarbrunnurinn innanbæjar, t.d. í fjósi? Var ranghali eða gangur til brunns innanbæjar og byggt sérstakt hús þar yfir brunninn? Var e.t.v. sérstakt brunnhús utanbæjar? Lýsið brunntöku og brunnhleðslu ef tök eru á. Var sprengiefni notað við brunntöku þar sem hraun eða klettar voru til hindrunar? Voru brunnar yfirleitt hringhlaðnir? Hvað með hleðsluefnið. Hvað vita menn dæmi til þess að brunnar hafi verið grafnir djúpt niður? Hvernig var umbúnaði yfir brunnopum (yfirgerslu með hlemmi og brunnvindu t.d.) háttað? Vita menn dæmi þess að brunnar hafi jafnan verið opnir vegna gamalla ummæla? Fylgdi sérstök vatnsfata brunni (vatnsponta)? Voru dæmi þess að silungur (eða silungar) væri hafður í brunni (brunnsilungur) til að útrýma þar brunnklukku t.d.? Voru vatnsleiðslur síðar tengdar við gamla brunna? Voru brunnar hreinsaðir að jafnaði einu sinni á ári (eða oftar)? Eru gamlir brunnar e.t.v. enn í notkun? Hvað nefndist járnborið vatn í brunni (járnláarvatn t.d.)? Er orðið brunnur (brunnar) einnig notað um uppsprettur vatns, t.d. í örnefnum? Þekkja menn sagnir, orðtök eða kveðskap um brunna?
Mjög forn brunnur á Reykjanesskaganum - líkt og Írskibrunnur á SnæfellsnesiRegnvatn gegndi þýðingamiklu hlutverki og v ar safnað víða. Með tilkomu rennuhúsa urðu tök á því að safna regnvatni í tunnur eða vatnsgeyma. Þetta varð á tímabili þýðingamikill þáttur í vatnsöflun margra sveitaheimila og sumra þéttbýlisstaða.
Hvernig voru vatnsgeymar og söfnunarílát regnvatns, hreinsun þeirra og annað, er efnið varðar. Sá þetta allri neysluvatnsþörf heimila borgið á vissu tímabili?
Vatn á vetrardegi gat verið miklum erfiðleikum bundin. Vatn þvarr í langvarandi frostum, eigi síður en í þurrkum, og vatnsból lögðust undir ís. Hvernig var unnin var bót á þeim vanda, m.a. með því að vaka læki og tjarnir fyrir búfénað. Var sérstakt áhald til þeirra nota (vakarbroddur t.d.)? Voru dæmi þess að snjór væri bræddur til vatnsöflunar, t.d. í fjósi?
Vatnsburður frá vatnsbóli til bæjar var eitt af húsverkunum. Hafði viss heimilismaður einkum það starf að bera vatn í bæ eða fjós? Kunna menn af eigin raun eða eftir annarra sögn að segja frá fólki sem vann fyrir sér með því að bera vatn í hús frá vatnspósti eða vatnsbóli? Hvernig voru áhöld sem notuð voru við vatnsburð og hver voru nöfn þeirra (vatnsfötur,
vatnsgrindur, og o.s.frv.). Voru vatnsker eða vatnstunnur til að hella í vatninu innanbæjar svo jafnan væri þar tiltækur nægilegu vatnsforði?
Lækningalindir hafa verið víða hér á landi, margar að sögn tengdar vígslum Guðmundar góða. Hér er leitað eftir fróðleik um lækningalindir, nöfnum þeirra, notum og sögnum tengdum þeim. Þekkjast nöfn eins og Gvendarlind eða Maríulækur í nánd bæja eða byggða? Var einkum sótt vatn í þessar lindir handa veiku fólki? Voru dæmi þess að þangað væri sótt neysluvatn til drykkjar og matarsuðu en vatn til annarra nota (t.d. þvotta) sótt í annað vatnsból?

Brunnmynd

Var sama á hvaða tíma sólarhrings vatn var sótt í lækningalindir? Eru til sagnir um það að lækningalindir hafi verið saurgaðar með einhverjum hætti þannig að þær misstu kraft sinn? Hvenær var hætt að sækja vatn í lækningalindir þar sem þeirra var annars völ? Er trú á lækningalindir e.t.v. enn fyrir hendi?
Vissa varúð þurfti að hafa við öflun vatns á víðavangi, einkum er menn lögðust niður við vatn úti á víðavangi til að svala þorsta sínum (að signa yfir vatnið eða drekka gegnum dúk eða síu einhverskonar)? Var e.t.v. algengasta aðferðin sú að drekka úr lófa sínum?
Vatnsleiðslur með sjálfrennandi vatni eða tengdar dælum eða vatnshrútum koma til sögunnar undir lok 19. aldar og þó einkum á þessari öld. Í fyrstu var um stein- og tréstokka að ræða. Einstakar sveitir hafa lagt samveitur vatns um langar leiðir nú í seinni tíð. Þessar framkvæmdir hafa létt miklu oki af fólki og eru þýðingamikill þáttur í framför aldarinnar. Um þetta er völ margra heimilda en annað liggur engan veginn ljóst fyrir og þá allra helst um það hverjir fyrst hófust handa við að leiða vatn í bæjarhús og útihús í einstökum sveitum eða byggðum. Höfðu einstakir menn forgöngu um það, öðrum fremur, að leggja vatnsleiðslur til heimila og fóru til þeirra starfa bæ frá bæ?”
Af þessum umleitunum má sjá að vatnsöflun og -neysla hefur þótt áhugaverð fornsöguleg arfleifð – og þarf engan að undra því hér hefur verið um að ræða einn af grundvallarþáttum afkomunnar frá upphafi lífs á jörðinni – allt til þessa dags.
Brunnur við Reykjanesvita - 1878 skv. danskri fyrirmynd