Viðfangsefni FERLIRs er og hefur verið “landnám Ingólfs”, þ.e. allt tiltekið (og afmarkað) svæði landsins í vestur frá Hvalfjarðarbotni og Ölfusárósum.
 Á vefsíðunni er þegar að finna áhugaverðar upplýsingar um mjög nærtæka staði (í u.þ.b. 20 mínútna fjarlægð íbúanna, ef sjálfrennireiðin er notuð). Úrvalið er ótrúlegt. Sagan spannar tímabilið allt frá landnámi til nútíma. Vanþekkingin ein hefur hingað til takmarkað áhuga njótendanna. Þeir, sem þekkja til, vita að varla verður þverfótað fyrir mannvistarleifum og sagnastöðum á svæðinu. Fornleifarnar eru hin áþreifanlegu tengsl okkar við forfeður og -mæður okkar – líkt og hin verðmætu handrit, sem varðveitt eru bæði vel og vandlega. Líklega geta fá önnur landssvæði (og þá er átt við allt Ísland) státað af gagnmerkari upplýsingaveitu um sögu sína og áþreifanlegar minjar og finna má á vefsíðunni.

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

 

Landnáma

„Í aldarfarsbók þeirri, er Beda prestur heilagur gerði, er getið eylands þess er Thile heitir og á bókum er sagt, að liggi sex dægra sigling í norður frá Bretlandi; þar sagði hann eigi koma dag á vetur og eigi nótt á sumar, þá er dagur er sem lengstur. Til þess ætla vitrir menn það haft, að Ísland sé Thile kallað, að það er víða á landinu, er sól skín um nætur, þá er dagur er sem lengstur, en það er víða um daga, er sól sér eigi, þá er nótt er sem lengst. En Beda prestur andaðist sjö hundruð þrjátigi og fimm árum eftir holdgan dróttins vors, að því er ritað er, og meir en hundraði ára fyrr en Ísland byggðist af Norðmönnum.

Landnám En áður Ísland byggðist af Noregi, voru þar þeir menn, er Norðmenn kalla papa; þeir voru menn kristnir, og hyggja menn, að þeir hafi verið vestan um haf, því að fundust eftir þeim bækur írskar, bjöllur og baglar og enn fleiri hlutir, þeir er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn. Enn er og þess getið á bókum enskum, að í þann tíma var farið milli landanna.

Þá er Ísland fannst og byggðist af Noregi, var Adríánus páfi í Róma; þá var Haraldur hárfagri konungur yfir Noregi.

Svo segja vitrir menn, að úr Noregi frá Staði sé sjö dægra sigling í vestur til Horns á Íslandi austanverðu, en frá Snæfellsnesi, þar er skemmst er, er fjögurra dægra haf í vestur til Grænlands. En svo er sagt, ef siglt er úr Björgyn rétt í vestur til Hvarfsins á Grænlandi, að þá mun siglt vera tylft fyrir sunnan Ísland. Frá Reykjanesi á sunnanverðu Íslandi er fimm dægra haf til Jölduhlaups á Írlandi (í suður; en frá Langanesi á norðanverðu Íslandi er) fjögurra dægra haf norður til Svalbarða í hafsbotn.

Svo er sagt, að menn skyldu fara úr Noregi til Færeyja; nefna sumir til Naddodd víking; en þá rak vestur í haf og fundu þar land mikið. Þeir gengu upp í Austfjörðum á fjall eitt hátt og sáust um víða, ef þeir sæju reyki eða nokkur líkindi til þess, að landið væri byggt, og sáu þeir það ekki.

Landnám

Þeir fóru aftur um haustið til Færeyja; og er þeir sigldu af landinu, féll snær mikill á fjöll, og fyrir það kölluðu þeir landið Snæland. Þeir lofuðu mjög landið.

Þar heitir nú Reyðarfjall í Austfjörðum, er þeir höfðu að komið. Svo sagði Sæmundur prestur hinn fróði.

Landnám

Maður hét Garðar Svavarsson, sænskur að ætt; hann fór að leita Snælands að tilvísan móður sinnar framsýnnar. Hann kom að landi fyrir austan Horn hið eystra; þar var þá höfn. Garðar sigldi umhverfis landið og vissi, að það var eyland. Hann var um veturinn norður í Húsavík á Skjálfanda og gerði þar hús.

Um vorið, er hann var búinn til hafs, sleit frá

honum mann á báti, er hét Náttfari, og þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfaravík.
Garðar fór þá til Noregs og lofaði mjög landið. Hann var faðir Una, föður Hróars Tungugoða. Eftir það var landið kallað Garðarshólmur, og var þá skógur milli fjalls og fjöru.

Flóki Vilgerðarson hét maður; hann var víkingur mikill; hann fór að leita Garðarshólms og sigldi þar úr er heitir Flókavarði; þar mætist Hörðaland og Rogaland. Hann fór fyrst til Hjaltlands og lá þar í Flókavogi; þar týndist Geirhildur dóttir hans í Geirhildarvatni. Með Flóka var á skipi bóndi sá, er Þórólfur hét, annar Herjólfur. Faxi hét suðureyskur maður, er þar var á skipi.

Landnám

Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið.

En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: „Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnföll stór“. Síðan er það kallaður Faxaóss.

Landnám

Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Þá var fjörðurinn fullur af veiðiskap, og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk

 Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið.

Þeir Flóki ætluðu brutt um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og þar á Herjólf; hann tók þar sem nú heitir Herjólfshöfn. Flóki var um veturinn í Borgarfirði, og fundu þeir Herjólf. Þeir sigldu um sumarið eftir til Noregs.

Og er menn spurðu af landinu, þá lét Flóki illa yfir, en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið; því var hann kallaður Þórólfur smjör.

Landnám

Björnólfur hét maður, en annar Hróaldur; þeir voru synir Hrómundar Gripssonar; þeir fóru af Þelamörk fyrir víga sakir og staðfestust í Dalsfirði á Fjölum. Sonur Björnólfs var Örn, faðir þeirra Ingólfs og Helgu, en Hróalds son var Hróðmar, faðir Leifs.
Þeir Ingólfur og Leifur fóstbræður fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum, þeim Hásteini og Hersteini og Hólmsteini. Með þeim fóru öll skipti vel, og er þeir komu heim, mæltu þeir til samfara með sér annað sumar.

En um veturinn gerðu þeir fóstbræður veislu sonum jarlsins. Að þeirri veislu strengdi Hólmsteinn heit, að hann skyldi eiga Helgu Arnardóttur eða öngva konu ella. Um þessa heitstrenging fannst mönnum fátt, en Leifur roðnaði á að sjá, og varð fátt um með þeim Hólmsteini, er þeir skildu þar að boðinu.

Þá fóru þeir Leifur í hernað. En um veturinn eftir fór Hersteinn að þeim Leifi og vildi drepa þá, en þeir fengu njósn af för hans og gerðu mót honum. Varð þá enn orusta mikil, og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.

Landnám

En þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeim virðist landið betra suður en norður. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs.

Eftir það varði Ingólfur fé þeirra til Íslandsferðar, en Leifur fór í hernað í vesturvíking. Hann herjaði á Írland og fann þar jarðhús mikið. Þar gekk hann í, og var myrkt, þar til er lýsti af sverði því, er maður hélt á. Leifur drap þann mann og tók sverðið og mikið fé af honum; síðan var hann kallaður Hjörleifur.

Hjörleifur herjaði víða um Írland og fékk þar mikið fé; þar tók hann þræla tíu, er svo hétu: Dufþakur og Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór og Drafdittur; eigi eru nefndir fleiri. En eftir það fór Hjörleifur til Noregs og fann þar Ingólf fóstbróður sinn. Hann hafði áður fengið Helgu Arnardóttur, systur Ingólfs.

Þenna vetur fékk Ingólfur að blóti miklu og leitaði sér heilla um forlög sín, en Hjörleifur vildi aldri blóta. Fréttin vísaði Ingólfi til Íslands.

Landnám

Eftir það bjó sitt skip hvor þeirra mága til Íslandsferðar; hafði Hjörleifur herfang sitt á skipi, en Ingólfur félagsfé þeirra, og lögðu til hafs, er þeir voru búnir.

Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár.

Þeir höfðu samflot, þar til er þeir sá Ísland; þá skildi með þeim.

Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.

Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleif rak vestur fyrir land, og fékk hann vatnfátt. Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða, og var þar þá fjörður, og horfði botninn inn að höfðanum. Hjörleifur lét þar gera skála tvo, og er önnur tóftin átján faðma, en önnur nítján. Hjörleifur sat þar um veturinn.

Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs.

Eftir það fór Ingólfur vestur til Hjörleifshöfða, og er hann sá Hjörleif dauðan.

Landnám

Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. Þar heitir Dufþaksskor, er hann lést. Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.

Þeir Ingólfur höfðu með sér konur þeirra, er myrtir höfðu verið; fóru þeir þá aftur til Hjörleifshöfða; var Ingólfur þar vetur annan. En um sumarið eftir fór hann vestur með sjó. Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.

Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði.

Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.“

Getur verið að þá og þegar hafi fólk staðið á ströndinni þar sem Reykjanesskaginn er nú og horft forvitnum augum á skip Ingólfs þar sem því var siglt skammt utan við á leið hans til Reykjavíkur?

Heimild m.a.:
-http://anamnese.online.fr/islensk/textesis3.html

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Girðingarrétt

Ætlunin var að ganga frá Strandarhæð (Strandarhelli og Bjargarhelli) að Ólafarseli, upp á Vörðufell að Vörðufellsréttinni, í Vindássel og Eimuból, upp í Hellholt og að Girðingarréttinni (Selvogssréttinni gömlu). Þaðan var ætlunin að halda niður í Staðarsel undir Svörtubjörgum og skoða nokkrar óþekktar tóftir í bakaleiðinni um heiðina. Séra Eiríkur Magnússon á Vogsósum fylgdi ferðalöngunum um heiðina.
Vordufellsgata-21Á 
 leiðinni var gengið fram á óþekktar mannvistarleifar á nokkrum stöðum og þó einkum á einum milli Vindássels og Staðarsels. Þar reyndust vera hús, líklega selstöður, á fjórum stöðum, stórt fjárskjól með miklum fyrirhleðslum og stór hellir með hlöðnum niðurgangi og fyrirhleðslu er niður var komið. Botninn var rennisléttur svo sæmandi væri hverju öðrum samkomustað. Telja verður að þarna hafi 2-3 bæir (hjáleigur) frá Strönd hafst sameiginlega selstöðu í heiðinni um skamman tíma fyrir nokkrum öldum.
Strandarhelir-21Sama verður sagt um Staðarselið. Í því eru fimm  hús; eitt greinilega stærst og annað greinilega nýjast. Alllangur stekkur er þar til hliðar, fjárhellir sunnar og fleiri minni tóftir og brunnstæði vestar. Telja verður líklegt að þarna hafi prestssetrið haft selstöðu undir það síðasta. Annað hvort eru þetta hús frá mismunandi tíma eða að fleiri Strandarbæir hafi haft þarna selstöðu, sem telja verður líklegt, en á Strandartorfunni voru allnokkrar hjáleigur á síðari öldum.
Strandarselið (sem jafnan hefur verið Olafarsel-21nefnt Staðarsel, væntanlega eftir prestsstaðnum) er á mjög fallegu, sléttu og grónu graslendi efst og suðaustan undir Svörtubjörgum. Þaðan er víðsýnt til vesturs sem og heim að bæ í suðsuðvestri.
Í Hellholti eru greinilega smalaskjól. Gólf hafa verið slétt og hlaðið fyrir op skúta (hella). Varða er á norðvesturbrún Hellholts, greinilega markavarða.

Suðvestan undir Vörðufelli er greinilega gleymd forn fjölfarin gata. Hún mætir Selvogsgötunni (Suðurferðavegi) milli Strandarhæðar og Selvogsheiðar (Strandarheiðar). Þessi gata virðist hafa verið fjölfarnari en hin, en ástæðan gæti hafa verið fjárrekstrar frá réttum þeim er hér koma við sögu.

Hnúkar rísa eins og steingerð tröll efst á Selvogsheiði. Heiðin er dyngja en erfitt er að átta sig á því Vordufell-22nema með því að skoða landakort. Á Vörðufelli er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, hringlaga almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924.
Suðvestan undir Vörðufelli er Ólafarsel, mjög gamalt sel í grónum hraunkrika Vörðufellshrauns. Skammt suðaustan við selið er hlaðinn stekkur utan í kletti.
Í þjóðsögunni „Vörðurnar á Vörðufelli“ segir m.a.: „Sagt er að ræningjar hafi komið á land ekki langt frá Krýsuvík. Komu þeir gangandi og stefndu fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var sendur maður til séra Eiríks prests, sem fór með honum og er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn numið staðar á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo þeir drápust fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heim að bænum.
Nokkru Vordufell-21seinna fór prestur austur á Selvogsheiði og nam staðar á felli einu lágu, hann byggði upp margar vörður og sagði að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur. Heitir fellið síðan Vörðufell.“

Í þjóðsögunni „Eiríksvarða og Vörðufell“ segir m.a.: „Eiríkur prestur hlóð vörðu þá sem við hann er kennd og kölluð Eiríksvarða, hún stendur fyrir ofan Hlíð á Hellisheiði. Eiríkur sagði að Selvogur mundi ekki verða rændur á meðan varðan stæði. Margar vörður hlóð hann á hæð þeirri er heitir Vörðufell, ránsmönnum þeim sem fóru um landið sýndist að herflokkar væru þar sem vörðurnar voru, en þær standa í röðum og eru um þrjátíu talsins og allar eru þær með klofi.“

Vordufell-23Margt hefur verið ritað um séra Eirík. M.a. skrifaði Konráð Bjarnason eftirfarandi um hann í Lesbók Morgunblaðsins 1997: „Séra Eiríkur Magnússon varð eftirmaður séra Gríms Ingimundarsonar að Strönd, en með búsetu að Vogsósum. Um hann þyrlaðist upp mikið moldviðri þjóðsagna, sem erfitt hefur reynst að kveða niður.
Séra Eiríkur Magnússon var fæddur 1638, sonur Magnúsar Eiríkssonar lögréttumanns að Njarðvíkum í Gullbringusýslu og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur bónda í Reykjavík á Seltjarnarnesi, Oddssonar. Yngri bróðir séra Eiríks var Jón Magnússon lögréttumaður að Marteinstungu í Holtum fæddur l642. Afi þeirra var Eiríkur Magnússon lögréttumaður að Djúpadal í Skagafirði fæddur um 1575. En langafi hans var Jón Arason skáld og biskup að Hólum í Hjaltadal fæddur 1484. Séra Eiríkur á Vordufell-24Vogsósum var því í beinan karllegg frá Jóni biskupi Arasyni kominn.
Öllum ber saman um að séra Eiríkur hafi frá unga aldri alist upp og lært undir Skálholtsskóla hjá séra Jóni Daðasyni í Arnarbæli Ölfusi. Séra Jón Daðason í Arnarbæli var maður vel að sér, lögvís, náttúrufróður, búhöldur góður og eignaðist fjölda jarða. En hann var haldin þeim veikleika margra sautjándu-aldarmanna, að hægt væri að virkja ill öfl og senda þau óvildarmönnum. Séra Jón Daðason varð bráðkvaddur á túninu í Arnarbæli 13. janúar 1676, þá sjötugur að aldri.
Þann 31. maí 1668, var séra Eiríkur Magnússon vígður af Brynjólfi biskupi í Skálholti Sveinssyni aðstoðarprestur séra Jóns Daðasonar í Arnarbæli, samkvæmt kappelláns köllun frá honum og var vígslubréf séra Eiríks gefið út samdægurs, 31. maí 1668 í Skálholti.
Selvogsmönnum var fullljóst við áramót 1676-7, að þeir þyrftu nú þegar prest til Strandar- og Krýsuvíkursókna, vegna þess hve séra Grímur prestur þeirra að Strönd Ingimundarson var langt leiddur í ólæknandi sjúkdómi sínum. Þeir hafa þegar notið þjónustu séra Eiríks Magnússonar og þekktu mannkosti hans og sækja fast og með lagni að koma honum til embættis að Strönd, með því að fá prófastinn í Gaulverjabæ séra Torfa Jónsson til liðs við sig. En honum er það ljúft, einkum vegna þess að hann nýtur nú Selvogssveitar eftir að frændi hans Brynjólfur biskup arfleiddi hann að skipi sínu og sjóbúð innan við malarkamp Strandar, ásamt uppsátri.

Vindassel-21

Þann 25. febrúar 1677 var að Strönd í Selvogi séra Eiríkur Magnússon kallaður til prests að Strönd og Krýsuvík. Veitingabréf séra Eiríks fyrir Selvogsþingum var gefið út af Þórði Þorlákssyni biskupi og dagsett í Skálholti 5. mars 1677.
Þegar séra Eiríkur tekur við embætti sínu í Selvogssveit fer hann að Vogsósum við Hlíðarvatn. Þar hafa Selvogsprestar haft ábýlisréttindi frá trúarsiðskiptum, en jarðareigendur eru kirkjustaðurinn að Strönd og Strandarkirkja á meðan Strönd er enn í byggð.
Séra Eiríkur verður því ábúandi að Vogsósum, en vegna þess að hann er einhleypur og lítt gefin fyrir búskaparvafstur leigir hann í ábúandarétti sínum fjölskyldubónda, næra allan búskaparmöguleika jarðarinnar með sérsamningi þeirra í millum. Þegar séra Eiríkur kemur i Selvogsbyggð eru þar 42 búendur (vegna gjöfulla fiskislóða upp að sjávarströnd með lendingarvörum). Þá enn 7 búendur á höfuðbólinu Strönd. Það kom í hlut séra Eiríks að jarðsyngja starfsbróður sinn séra Grím Ingimundarson á árinu 1678.

Eimubol-21

Séra Eiríkur verður þolandi þess að sjá höfuðbólið Strönd fara í eyði á tíunda áratug 17. aldar og sandágang teygja sig upp að Strandarkirkjugarði. En án vafa hefur séra Eiríkur notið kyrrðar og friðar á bökkum hins gjöfula veiðivatns og við mófugla- og beitilandsheiðina, er teygðist upp að Hlíðarfjalli og brekkum. Hann er afkomutryggður emættismaður í húsmennsku og nýtur góðhesta sinna á reiðgötu undir Herdísarvíkurfjalli og Geitahlíð á leið til útkirkju sinnar í Krýsuvík, sem og hinnar litríku kaupstaðarleiðar yfir Grindarskörð til Hafnarfjarðar.
Árið 1688, þann 20. maí, fól Þórður biskup séra Eiríki á Vogsósum, að taka út Stað í Grindavík af séra Rafni Ólafssyni og setja þar inn séra Stefán Hallkelsson.

Hellholt-21

Þetta verk leysti séra Eiríkur fljótt og vel af hendi. En frá þessu verki hafði biskup orðið að ganga árið áður, með því að séra Rafn neitaði að láta af hendi kirkjulyklana við biskup sjálfan. En séra Rafn hafði það eitt brotið af sér við kirkjuvald að hann neitaði að halda kóngsbænadag sem lögboðinn var á árinu 1686.
Með tilliti til manntalsins 1703 er sýnt að laust fyrir aldamót 1700 hafa ung hjón í frumbúskap sínum tekið við Vogsósabúi í ábúð séra Eiríks. Þau voru Jón Jónsson fæddur 1677 og kona hans Helga Gísladóttir honum fjórum árum eldri. Yngri dóttir þeirra Vigdís var fædd 1700 og varð móðir Jóns Halldórssonar lögréttumanns að Nesi, fyrri manns Rannveigar Filippusdóttur, er átti að seinni manni Bjarna Sívertsson dbrm. og kaupmann í Hafnarfirði.
Hellholt-22Samkvæmt jarðabók Árna og Páls 1706 er ljóst að Jón bóndi að Vogsósum hefur gott kúa- og fjárbú, ásamt hlunnindum jarðar í selveiði, fjörureka og eggjatöku. Þar kemur fram, að jörðinni fylgja þrjú leigukúgildi og af þeim greiðir bóndi með smjöri til prests og að hluta til jarðareigenda, en landskuld af allri jörðinni greiðist til prests inná reikning jarðeiganda. Bóndinn hefur þá sjö kýr, kvígu og kálf, að auki prestsins tvær eigin kýr. Þá hefur sóknarpresturinn séra Eiríkur Magnússon herbergi fyrir sjálfan sig og einn þjónustukvenmann og forsorgar sig og hana á eigin kosti (þjónustustúlka séra Eiríks árið 1703 var Oddný Ólafsdóttir þá 29 ára en, séra Eiríkur 65 ára).

Girdingarrett-23

Meðal hinna mörgu sjávar- og landbænda í Selvogssveit fyrir aldamót 1700 voru Páll Björnsson bóndi og lögréttumaður að Bjarnastöðum, fæddur að Teigi í Fljótshlíð og afkomandi Önnu á Stóruborg. Dóttir hans Guðrún átti Bjarna Sigurðsson bónda í Nesi albróður Péturs einnig bónda þar afa Bjarna riddara í Hafnafirði. Svo og Jón Jónsson óðalsbóndi og skáld að Nesi, fæddur laust fyrir 1630. Hann orti „Sveitarbrag“ á árabilinu 1677­80, og margt sálma, kvæða og gátna. Hann var vel metinn maður á sinni tíð, átti Nes og bjó þar til dánardægurs. Hann var talinn fornlyndur og trygglyndur og hélt við hinni fornu Neskirkju. Um hana segja þeir Árni og Páll í jarðabók l706, að enn fari þar fram altarisþjónusta fyrir heimilisfólk í Nesi, en tíundir allar komnar undir Strönd. Embættisgerðir þessar í hinni fornu Neskirkju hafa því komið í hlut séra Eiríks að Vogsósum, enda bað Jón óðalsbóndi séra Eirík um að sjá til þess að hann yrði jarðsettur í Neskirkjugarði.

Svortubjorg-21

Í byrjun mars 1702, lést Jón skáld og óðalsbóndi að Nesi í hárri elli. Skrifar séra Eiríkur þá Jóni biskupi Vídalín bréf og skýrir honum frá því að Jón hafi beiðst þess að vera grafinn í Nesi. Í svarbréfi Jóns biskup til séra Eiríks 23. mars 1702. Kemur fram eftirfarandi: „Þar er nú enginn nýlega greftraður (í Neskirkjugarði), og engin skikkun (regla) finnst fyrir um kirkjugarðinn.“ Leyfir Jón biskup að „sá erlegi heiðursmann Jón Jónsson, sem var að Nesi, megi grafast þar innan kirkju á sinni heimilis- og eignarjörð.“ Þar undir kirkjugólfi í Neskirkju jarðsetti séra Eiríkur Jón Jónsson vin sinn og þar var síðar við hlið hans lögð til hinstu hvíldar Guðrún Jónsdóttir, ekkja hans.

Eiríksvarda-2

Skömmu síðar sama árs bar það til tíðinda á Nesþingi í Selvogi 15. maí 1702, að þar var hýddur N.N. meðal annnars fyrir stuld frá séra Eiríki á Vogsósum á hálfum fjórðungi smjörs, tvennum leðurskæðum og malpoka, er hann hafði tekið úr læstu húsi gegnum vindauga (loftop). Staðreynd þessi er ekki hliðholl þjóðsögum um að séra Eiríkur á Vogsósum hafi skotið hlífiskildi yfir sakamenn. Eftir 1708 er séra Eiríkur á áttræðis aldri og gegnir án aðstoðar báðum sóknum sínum.
Síðasta vitneskja um séra Eirík á lífi er samkvæmt dr. Hannesi Þorsteinssyni 1. desember 1716. Þá bað Jón Vídalín biskup séra Árna Þorleifsson prest í Arnarbæli að messa á Strönd einhvern hátíðisdaginn á jólum með því að hann hafi heyrt, að séra Eiríkur væri lasburða af elliburðum og tilfallandi veikleika. Þann 14. desember 1716 segir Jón biskup í bréfi til séra Árna Þorleifssonar í Arnarbæli (hann varð prófastur í Árnesþingi) að nú sé séra Eiríkur á Vogsósum látinn og sjái hann um hinstu athöfn.

Eirksvarda-3

Dr. Hannes Þorsteinsson ályktar því að séra Eiríkur hafi dáið snemma í desember fremur en síðast í nóvember, ókvæntur og barnlaus.
Séra Eiríkur Magnússon var að áliti greindra manna fyrst og fremst mannþekkjari, sálfræðingur og mannvinur, sem beitti þekkingu sinni í þágu meðbræðra sinna, svo sem í hlutrænum verndartáknum. Hafa Selvogsmenn enn munnlega geymd og tákn þessu til staðfestingar þegar séra Eiríkur létti af sóknarbörnum sínum viðvarandi ótta við landgöngu erlendra ránsmanna á úthafsströnd með því, að taka með sér hleðslumenn upp á Svörtubjörg. Hann lætur þá bera hleðslusteina langt að svo varða hans njóti uppstreymis vindbrots á ystu bjargbrún. Hún er ílöng eftir bjargbrún og gengur upp til einhleðslu efst. Að verki loknu afhendir séra Eiríkur Selvogsbyggð í votta viðurvist vörðuna, sem verndartákn með eftirfarandi orðum: „Meðan enn stendur steinn yfir steini í vörðu þessari verður ekki aðsteðjandi ófriður í Selvogi.“

Stadarsel-21

Þar með blasti Eiríksvarða á ystu brún Svörtubjarga við augum Selvogsmanna á úthafsströnd frá morgni til kvölds, ásamt með vitneskjunni um verndarhlutverk það er hún skyldi þjóna. Og sóknarbörnin minnast sálusorgara síns í þakklátum huga, leyst úr hlekkjum óttanns. Að 300 árum liðnum, stendur Eiríksvarða enn í fullri reisn sinni og aldrei á hinum mörgu liðnu árum steðjaði ófriður að Selvogsbyggð.“

Í riti um galdrapresta frá 1882 er getið um lokadægur séra Eiríks: „Svo er sagt, að fyrir andlát sitt hafi Eiríkur prestur dysjað forneskjubækur sínar í Kálfsgili í Urðarfellum; þau eru norður af Svörtubjörgum. Áður Eiríkur dó, bað hann færa líkama sinn í kirkju, þegar er hann dæi, og leggja í kistu, og bað menn vaka yfir líkinu hina fyrstu nótt og kveikja 3 ljós á kistulokinu, og mundu þau ekki leingi lifa; en þess bað hann þá gæta, að kveikja jafnskjótt aptur, ef eitt dæi, svo ávalt væri eitt lifandi; því ella mundu illir andar taka sig. En ef ljós lifði alla hina fyrstu nótt á kistu sinni, þá hefðu þeir ekkert vald yfir sér. þetta var gjört, og lifði ávalt eitthvert ljósið alt til dags. Svo hafði Eiríkur sagt, að ef hann yrði sáluhólpinn, þá mundu daggardropar koma úr heiðu lopti, á meðan lík hans væri lesið til moldar, og er sagt, að svo hafi orðið.

Stadarsel-22

Það er önnur sögn um dauða Vogsósa-Eiríks, að þegar hann var að bana kominn, tiltók hann, hverjir vera skyldu líkmenn að sér. Sagði hann, að gjöra mundi haglél mikið, þegar hann væri borinn út til kirkjunnar, en bað, að ekki væri kistan sett niður, frá því hún væri tekin upp, fyrr en í kirkjunni. Sagði hann, að þá mundi upp stytta élinu. En þá mundu sjást fuglar tveir, annar hvítur, en annar svartur, yfir kirkjunni, og mundu þeir rífast mjög. Bað hann þess, að ef hvíti fuglinn sigraði, og næði að setjast á kirkjubustina, þá græfu menn sig í kirkjugarði, en ef sá svarti hefði sigurinn, og settist á kirkjuna, þá skipaði hann að dysja sig utangarðs; því þá væri úti um sig. Þetta kom alt fram, þegar Eiríkur prestur dó, bæði um élið og fuglana, og vann hinn hvíti fuglinn sigur á þeim svarta, svo Eiríkur var grafinn í kirkjugarði.“

othekkt sel i selvogsheidi-2Í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir að Vörðufellsvörður hafi verið hlaðnar af unglingum. „Það brást þeim aldrei, er þeir voru að leita að skepnum, að þeir fundu það, sem leitað var að, ef þeir settu stein í vörðu eða hlóðu nýja.“
Skv. örnefnalýsingum á stafurinn M að vera markaður á jarðfastan stein sunnan við Markavörðuna syðst á fellinu. Þegar betur er að gáð er þar um að ræða kross, en sprungur beggja vegna Efri hluti steinsins hefur brotnað af skammt ofan við krossinn. Á fellinu eru enn urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum.

othekkt sel i selvogsheidi

Austan við Vörðufell eru þrjú sel. Fyrst er komið að Vindásseli, miklum tóttum á hól. Ofar er Eimuból á bakka jarðfalls. Hefur hellir, sem þar er verið nýttur sem fjárhellir, enda má sjá hringlaga hleðslur á og ofan við opið. Skammt sunnar, í grónu ílöngu jarðfalli, er forn tóft. Við það er fjárhellir. Í honum er hlaðinn stekkur. Skammt austar er Skyrhellir í hraunhól, en þar var skyr seljafólks geymt fyrrum.

othekkt sel i selvogsheidi-3

Eimuból er norðan við Vörðufell. U.þ.b. 10-15 mínútna gangur er á milli seljanna í heiðinni. Bæði er seltóft ofan við gróið jarðfall og niður í því. Í Eimuhelli í jarðfallinu er hlaðinn stekkur. Umhverfis jarðaflið er hlaðið gerði. Kví er og ofan við það. Í örnefnaskráningu fyrir Eimu segir m.a.: “Fyrir norðan [Vörðu]fellið er Eimuból alveg við mörkin. Þar eru hellar með húsveggjum.“ Vindássel er skammt vestar, nokkur tóft og stekkur.
Haldið var upp eftir heiðinni, á Hellholt. Í því er Hellholtshellir, stór inngöngu en frekar stuttur. Botninn er flóraður að hluta. Nokkir smáhellar er undir Hellholti, flestir með mannvistarleifum í. Líkast til hafa þeir verið notaðir sem fjárskjól í gegnum tíðina. Ofan við Hellholtið er Girðingarréttin (Selvogsréttin nýrri). Gamla réttin er á Vörðufelli, stór og dilkrík með löngum leiðigarði til norðurs sem fyrr er lýst. Á leiðinni niður að fellinu var komi við í Skjólinu, merkilegu fyrirbæri. Það er hellisskúti að sjá, en þegar að er komið eru miklar hleðslur, grónar, fyrir munnanum. Gangur liggur niður og þegar þangað er komið tekur við slétt hellisgólf, salur. Varla er arða á gólfi, utan eitt bein inn undir skilum lofts og veggjar. Þarna sést hin mikla hleðsla vel. Hægt er að fara inn fyrir hana hægra megin og inn í afhelli, sem þar er. Ekki er vitað hvaða tilgangi þetta mannvirki hefur átt að þjóna í heiðinni, nema ef vera skyldi forðabúr eða geymsla. Strandarsel (Staðarsel) er þarna skammt vestar og fyrrnefnd sel sunnar. Fjárskjól er skammt austar. Ofan við opið er hlaðinn stekkur. Þarna gæti hugsanlega hafa átt að vera selstaða frá einhverjum bænum ef tekið er mið af mannvirkjunum næst Skjólinu.

Strandarheidi - tankurFrá Hellholti var stefnan tekin í austurátt að Girðingar-réttinni við enda Strandargjár, sem einnig hefur verið nefnd Gamlarétt eða Selvogsréttin eldri. Hún var aflögð árið 1957.

Vestan við holtið, suðaustan Svörtubjarga, eru greinilegar fyrstnefndar tóftir selstöðva. Utan í hól eru a.m.k. tvö fjárhús, stakt hús (að sjá nýjast) og eitt tvískipt. Ekki eru til heimildir um sel þetta, en líklegt má telja að þarna hafi verið selstaða frá Strönd eða Strandarbæjunum sem fyrr sagði. Bæði er staðurinn í Strandarlandi og selstaðan virðist fyrir margt veglegri en aðrar selstöður í heiðinni.

Selvogsheiðin virðist geyma ótrúlega margar mannvistarleifar frá fyrri tíð. Minjarnar eru arfleifð fyrri búskaparhátta og ætti hiklaust að umgangast þær sem slíkar.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir m.a.:
-Vörðurnar á Vörðufelli, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Eiríksvarða og Vörðufell, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði.
-Örnefnalýsing fyrir Eimu.
-Lesbók Morgunblaðsins 26. júlí 1997, séra Eiríkur á Vogósum, Konráð Bjarnason,bls. 4-5.
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, J.C. Hinrichs, 1882, bls. 580-581.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt.

Kópavogskirkja
Í Kópavogi eru nokkrir staðir, sem hafa skírskotun til sagna og munnmæla. Þeim hefur flestum verið hlíft við raski. Má þar nefna stekk nálægt Fífuhvammsvegi og sel í Rjúpnahæð. Jafnframt eru í bænum nokkrir staðir s.s. Álfhóll, Víghólar, Borgarholt, Latur og Þinghóll þar sem fyrrum er talinn hafa verið þingstaður. Kórsnesið eða Kársnesið, þar sem ormurinn langi bjó í helli, er þó horfið undir landfyllingu – og þar með gull hans.
Mikilvægt er að gæta þess vel að spilla ekki sagnatengdum stöðum, hvorki með jarðraski né skógrækt, eins og svo allt of mörg sorgleg dæmi eru um. Ástæðulaust er þó að sýta súrt, en gleðjast yfir því sem til er og nýta það til fróðleiks og ánægju.

Álfhóll

Álfhóll

Álfhóll í Kópavogi.

Álfhóllinn er líklega kunnasti bústaður álfa í Kópavogi. Hann stendur sunnanvert við Álfhólsveg skammt þar frá sem Digranesskóli er nú. Hóllinn, sem er nokkuð aflíðandi, mun vera um það bil þriggja metra hár ef mælt er frá götu.
Álfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Hann er að miklu leyti hulinn grasi og mosagróðri, sérstaklega að norðan og austan. Í Álfhólnum er nokkurt stórgrýti sem líkist litlum klettastöllum og liggja þessir smáklettar að mestu um sunnanverðan og vestanverðan hólinn.

Kópavogur

Álfhóll.

Lengi hefur verið talað um að álfar hafi tekið sér búsetu í Álfhólnum og margir segjast hafa séð þá með vissu. Ekki er ljóst hve gamlar þær sögusagnir eru; engar heimildir eru til um atburði fyrr en nokkuð er liðið á þessa öld.
Seint á fjórða áratug þessarar aldar var hafist handa við að leggja Álfhólsveginn. Byrjað var á honum við Hafnarfjarðarveg og ætlunin var að halda áfram í austurátt þar til komið væri að Álfabrekku sem skyldi tengja Álfhólsveginn við Nýbýlaveg. Vegurinn átti að liggja þar um sem Álfhóllinn er en hann yrði jafnaður við jörðu eftir því sem framkvæmdum miðaði. Vel gekk að leggja veginn austur eftir Digranesinu að Álfhólnum.

Kópavogur

Álfhóll.

Þegar kom að því að sprengja hólinn gerðust atburðir sem leiddu til þess að ekkert varð af sprengingu. Vildi svo til að fjármagn það, sem veitt hafði verið til lagningar Álfhólsvegarins, var á þrotum. Féllu þá framkvæmdir niður við ólokið verk og Álfhóllinn stóð óhaggaður.
Árið 1947 var á ný hafist handa og átti að leggja veginn áfram í gegnum Álfhólinn. Þegar vinna hófst á hólnum komu upp vandamál sem áttu sér ókunnar og dularfullar orsakið að margra áliti. Vinnuvélar biluðu og ýmis verkfæri skemmdust eða hurfu jafnvel. Varð það úr að vegurinn var lagður í bugðu fram hjá hólnum norðanverðum en ekki í gegnum hann eins og ætlunin hafi verið. Sagt er að þá hafi framkvæmdir gengið eins og venja var til og hafi álfarnir ekki gert vart við sig að sinni.
Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.

Borgarholt

Kópavogur

Kópavogskirkja á Borgarholti.

Holtið þar í kring, sem Kópavogskirkja stendur nú, hefur verið nefnt Borgarholt. Þar hefur álfabyggð verið talin hvað blómlegust í Kópavogi.
Þegar Borgarholtsbraut var lögð á sínum tíma þurfti að sprengja nokkuð í Borgarholtinu á þeim slóðum sem álfar bjuggu. Um það leyti er fréttist að fyrirhugað væri að leggja veg um Borgarholtið mun maður að nafni Sveinn hafa gengið út á holtið og aðvarað álfana.
Segir sagan að íbúar Borgarholtsins hafi tjáð honum að þeir myndu ekki hindra framkvæmdir heldur flytja sig um set. Kom það á daginn að greiðlega gekk að leggja Borgarholtsbrautina og urðu þar engin óhöpp eða undarlegir atburðir.
Nokkrar heimildir eru um álfabyggðina í Borgarholti og segjast skyggnir menn hafa séð þar bústaði og byggingar álfanna. Hefur húsum álfanna verið lýst nokkuð nákvæmlega og eru til teikningar af þeim eftir lýsingu hinna skyggnu. Þá hefur það borið við að börn frá leikskóla þar í grenndinni hafi séð álfa í holtinu og jafnvel tekið þá tali.

Latur

Latur

„Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé
álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Latur er nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Annars er Latur hinn ágætasti drykkjarsteinn.

Þinghóll

Þinghóll

Þinghóll.

Þinghóll er hóllinn sem stendur við Kópavogsbotn hjá gamla þingstaðnum í Kópavogi. Helsta sögnin af Þinghólnum er tengd nafni hans. Það hefur verið trú manna að á hólnum hafi álfar haldið sitt eigið þing á svipuðum tíma og mannfólkið. Eiga álfarnir að hafa komið þar saman og þingað en ekki fóru aftökur þar fram enda þekkist það ekki á meðal álfa.
Til er önnur sögn tengd Þinghólnum en hún segir að þar í grennd hafi sést til huldukonu einnar og mun það hafa verið á sama tíma á hverjum degi. Sást hún ganga frá Þinghólnum í átt að Borgarholtinu.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.

Þinghóll

Minningarsteinn um erfðahyllinguna á Þinghól.

Á fyrri hluta aldarinnar bjó sérkennileg kona á Skjólbraut í vestanverðum Kópavogi. Var hún komin nokkuð á efri ár en heilsuhraust þó og skörp í hugsun. Ekki var hún þekkt fyrir annað en að vera góðhjörtuð og hjálpleg á allan hátt en mörgum þótti hún dularfull enda vissu menn að hún var skyggn. Sagði hún stundum sögur af sérkennilegum atburðum og var fullviss um tilvist huldufólks.
Það var á flestra vitorði að gamla konan hefði séð álfa og huldufólk. Eitt þótti öðru merkilegra en það var að um sama leyti hvern einasta dag sá hún huldukonu á gangi. Var huldukonan í svörtu pilsi og með gráa hyrnu á höfði. Ætíð gekk hún sömu leið sem lá frá Þinghól og upp að Borgarholtinu í austri þar sem Kópavogskirkja stendur nú. Hvarf hún gömlu konunni þar sjónum.
Ekki hefur heyrst af öðru fólki sem sá þessa dularfullu konu á gangi og ekki eru allir á sama máli um hver hún var. Telja sumir að hún tengist dysjum sem eiga að vera víða í grenndinni. Þeir eru þó fleiri sem segja að þarna hafi verið huldukona á ferð og hafi hún annaðhvort búið í Þinghólnum sjálfum eða í Borgarholtinu.

Einbúi

Einbúi

Einbúi.

Einbúi er hóll sem rís austan í Digraneshálsi í austasta hluta Kópavogsbæjar fast við Reykjanesbraut. Við hólinn eru stakir steinar en þar hjá munu áður hafa legið landamerki.
Hólnum tengist sú saga að þar hafi búið álfur eða huldumaður. Ekki skal hér fullyrt um hvort hann búi þar enn. Þegar framkvæmdir stóðu yfir við byggingu iðnaðarhúss sem þar átti að rísa skammt frá er sagt að íbúi hólsins hafi látið á sér kræla. Hafi hann séð til þess að vélar biluðu með þeim hætti að ómögulegt var að beita þeim á hólinn.
Sagan segir að þegar lóðaúthlutun stóð sem hæst í Kópavogi var húsbyggjanda fengin lóð við hól í austurbæ Kópavogs sem kallaður var Einbúi. Fékk hann lóðina með því skilyrði að hann kæmi ekki nærrri hólnum er hann færi að grafa fyrir húsinu. Þótti húsbyggjanda sjálfsagt að verða við þeirri bón.
Einhvern tíma á föstudegi var komið að því að grafa fyrir grunni og fékk húsbyggjandinn jarðýtu á staðinn til að sinna því verki. Gekk verkið vel og var langt komið þegar vinnu var hætt um kvöldið. Næsta dag var haldið áfram þar sem frá var horfið en þegar nokkuð var lliðið á daginn þurfti lóðareigandinn að bregða sér frá. Varð það að samkomulagi að ýtustjórinn lyki verkinu en húsbyggjandinn tók honum vara fyrir því að fara of nærri hólnum.

Einbúi

Einbúi.

Ekki hafði ýtustjórinn verið lengi að er honum varð það á að bakka utan í hólinn. Stöðvaðist jarðýtan þar við hólinn og bilaði vél hennar svo að ekki var hægt að koma henni í gang. Kallaði stjórnandi ýtunnar til viðgerðarmenn sem komu þar á staðinn. Eftir að hafa skoðað vélina voru viðgerðarmennirnir sammála um að bilunin væri mikil og alvarleg. Var því kallað á dráttarvagn og ýtan færð á verkstæði til viðgerðar.
Þegar húsbyggjandinn hafði lokið verkum sínum í bænum og kom á staðinn sá hann enga jarðýtu og greinilegt var að ekkert hafði þokast við bygginguna síðan hann fór. Segir ýtustjórinn honum hvernig komið er og verður húsbyggjandinn óánægður með gang mála. Fara þeir saman á verkstæðið. Þegar þangað kom sneri húsbyggjandinn sér að ýtustjóranum og bað hann að setjast í ýtuna og kanna hvort hún færi ekki í gang. Þrátt fyrir vantrú sína verður ýtustjórinn við óskinni og ræsir vélina. Við það hrekkur hún í gang eins og ekkert hafi í skorist. Urðu menn þá mjög undrandi en þó mest viðgerðarmennirnir sem höfðu skoðað ýtuna.
Er nú aftur farið með ýtuna út að Einbúa þar sem framkvæmdum er haldið áfram. Reyndist hún þá í góðu lagi. Fór lóðareigandinn aldrei frá verkinu eftir það og urðu upp frá því engin vandræði. Þóttust menn vissir um að íbúi hólsins hefði hér átt hlut að máli og séð til þess að Einbúinn fengi að standa óhreyfður.

Víghólar

Víghólar

Víghólar.

Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus.

Kórsnesormurinn

Kársnes

Kársnes.

Skammt undan ysta odda Kársness er sker sem vel má greina þegar fjarar. Sögur eru til sem segja frá miklum ormi er bjó í skerinu. Lá hann þar á gulli og beit í sporðinn á sér. Mun skerið hafa verið nokkru stærra og meira en nú er og hafi þá frekar talist hólmi. Hólmi þessi var heimili ormsins en þar hélt hann til í hellisskúta einum sem kallaður var kór. Þar lá hann ófrýnilegur mjög og gætti fjársjóðs síns.
Sagt er að nesið allt hafi verið kennt við kór þennan. Hafi það því ekki alltaf verið nefnt Kársnes heldur kallað Kórsnes. Þá var oftar en ekki talað um kórinn í nesinu.
Nú er Kórsnesið/Kársnesið horfið undir landfyllingu – og sennilega hvílir ormurinn undir henni.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/
-http://www.kopavogur.is/

Þinghóll

Þinghóll – minjar.

Sandakaravegur
Sesselja Guðmundsdóttir þekkir vel til örnefna og minja í Vatnsleysustrandarhreppslandi – sem og víðar. Um Sandakraveg sagði hún m.a. þetta árið 2006:
Varða „Í upphafi heyrði ég Einar Egils hjá Útivist tala um Sandakraveginn fyrir tugum ára. Ég sá hann fyrst fyrir ca. 15 árum, en fann ekki nyrsta hluta hans fyrr en fyrir ca. 4 árum. Það sem ruglaði flesta í upphafi var að kort sögðu hann á röngum stað, t.d. kort frá 1910 og með því byrjaði villan. Ásgeir Sæmundsson (1915-1992) frá Minni-Vogum talar um þennan veg á segulbandsupptöku (segir hann mjög klappaðan), sem ég á, og Ísólfur á Skála líka. Greinin hans Gísla pól í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1972 nefnir þennan veg og kort Björns Gunnlaugssonar setja hann inn á réttan stað og sóknarlýsingar frá 1840. Þær lýsa honum nokkuð vel. Lárus á Brunnastöðum sem og gamlir malar sunnar í hreppnum könnuðust aldrei við veg frá Stóru-Aragjá og upp að Nauthólaflötum (líkt og kortiðf frá 1910 gaf til kynna).

Á bls. 46, 47, 54, 57, 128-132 í bókinni minni (Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 1995 (endurútg. 2007)) er fjallað um Sandakraveginn. Á bls. 47 segir: “Björn Gunnlaugsson skráði Sandakraveg inn á kort sín árið 1831 og 1844 og þar er vegurinn strikaður frá vesturenda Vogastapa yfr Skógfellahraunið að Litla-Skógfelli, þaðan að syðri enda Fagradalsfjalls Sandakravegurog síðan áfram suður úr.“

Einar Egils lét okkur leita nokkuð vestur yfir Skógfellahraunið sunnan Litla-Skógfells, en við fundum ekkert. Við leituðum aldrei út frá Snorrastaðatjörnum því hann taldi víst að þeir hefðu komið að Seltjörn. Nú er þetta allt orðið ljóst og vantar bara bútinn yfir tjarnirnar, eins og áður hefur verið getið.

Gunnar Ben., tannlæknir í Garðabæ, þrjóskaðist lengi við að halda að vegurinn lægi um Mosadalinn að Nauthólaflötum, en enginn merki sjást um veg þar. Það verður að hafa sönnun um mannaverk á þjóðleiðum, ekki nóg að hafa óljósan troðning. Sandakravegurinn er mjög djúpur, unnin og gamall yfir Bjallana en þegar kemur að Grindavíkurvegamótum er hann horfinn í uppblástur. Það rétta er að kalla veginn allan frá Drykkjarsteini og að Mörguvörðum Sandakraleið sem og hann hét samkv. gömlum heimildum. Það er líka nauðsynlegt að lesa heimildir og styðjast ekki eingöngu við nýjustu tækni, t.d. loftmyndir.“ (Skógfellavegur/-gata hefur kafli leiðarinnar og verið nefndur, jafnvel Vogavegur af Grindvíkingum, þ.e. sá hluti er lá millum Voga og Grindavíkur.

uppréttarRétt er að geta þess að frá Mörguvörðum ofan við Stapann liggur gömul gata svo til beint niður móana að Selbrekkum (Sólbrekkum), á ská niður þær og að Seltjörn (Selvatni). Gatan hefur eflaust haldið áfram til Grindavíkur, en nýi vegurinn liggur ofan á henni. Einungis vantar kaflann frá þessari götu og upp að Litla-Skógfelli til að tengja þessar leiðir saman.

Á Njarðvíkurheiðinni er stór vörðufótur. Þarna mun fyrrum hafa staðið myndarleg varða, að öllum líkindum landamerkjavarða af stærðinni að dæma, sem og skv. heimildum. Ólafur frá Knarrarnesi man eftir vörðunni þarna. Enda passar staðsetning hennar við „sjónhendingu“ úr Brúnavörðu ofan Stapabrúnar og Arnarkletts ofan við Snorrastaðatjarnir. Grjótið í vörðunni var tekið á fyrri hluta 20. aldar og sett undir bryggjuna í Vogum. Það að Vogamenn hafi tekið grjótið bendir til þess að efnið hafi verið í þeirra landi, a.m.k. helmingurinn. Ef þetta reynist rétt er núverandi „Hollywood“-stafaskilti Reykjanesbæjar innan landamerkja Voga. En þetta var nú bara svolítill útidúr.

Á skömmum tíma, ekki síst vegna áhuga og þrautseigju einstaklinga langt utan launaðra opinberra minjastofnana eða svæðisbundinna ferðamálasamtaka (sem standa ættu efninu nær), hefur tekist að staðsetja Sandakraveginn nokkuð nákvæmlega, enda gatan enn vel merkjanleg í landslaginu.

Sandakravegur

Genginn Sandakravegur.

 

Eiríksvarða

Á Svörtubjörgum ofan Selvogs er Eiríksvarða.
Í þjóðsögunni „Vörðurnar á Vörðufelli“ segir m.a.: Eiríksvarða„Sagt er að ræningjar hafi komið á land ekki langt frá Krýsuvík. Komu þeir gangandi og stefndu fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var sendur maður til séra Eiríks prests, sem fór með honum og er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn numið staðar á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo þeir drápust fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heim að bænum. Nokkru seinna fór prestur austur á Selvogsheiði og nam staðar á felli einu lágu, hann byggði upp margar vörður og sagði að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur. Heitir fellið síðan Vörðufell.“
Í þjóðsögunni „Eiríksvarða og Vörðufell“ segir m.a.: „Eiríkur prestur hlóð vörðu þá sem við hann er kennd og kölluð Eiríksvarða, hún stendur fyrir ofan Hlíð á Hellisheiði. Eiríkur sagði að Selvogur mundi ekki verða rændur á meðan varðan stæði. Margar vörður hlóð hann á hæð þeirri er heitir Vörðufell, ránsmönnum þeim sem fóru um landið sýndist að herflokkar væru þar sem vörðurnar voru, en þær standa í röðum og eru um þrjátíu talsins og allar eru þær með klofi.“

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

Í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir að Vörðufellsvörður hafi verið hlaðnar af unglingum. „Það brást þeim aldrei, er þeir voru að leita að skepnum, að þeir fundu það, sem leitað var að, ef þeir settu stein í vörðu eða hlóðu nýja.“
Skv. örnefnalýsingum á stafurinn M að vera markaður á jarðfastan stein sunnan við Markavörðuna syðst á fellinu. Þegar betur er að gáð er þar um að ræða kross, en sprungur beggja vegna Efri hluti steinsins hefur brotnað af skammt ofan við krossinn. Á fellinu eru enn urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum.
Eiríksvarða, var sem fyrr sagði, reist af Eiríki, presti og galdramanni, í Vogsósum árið 1710.

Heimild:
-Vörðurnar á Vörðufelli, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Eiríksvarða og Vörðufell, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri (Reykjavík, 1954-61), III, 505.
-Örnefnalýsing fyrir Þorkelsgerði.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Hrútadalur

Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Miðdal, fremsta bæ Kjósarinnar:
„Jörðin er afdeild í fjögur býli, þrjú af þeim, sem þó eru þrír aðgreindir bæir, standa öll til samans og kallast öll heimajarðar nafninu; Middalur-21fjórða stendur á túninu góðan snert frá hinum, og er kallað Miðdalskot.“ Ekki er getið um selstöðu frá Miðdalsbæjunum í Jarðabókinni. Fjölmargar selstöður eru þó þekktar á Reykjanesskaganum sem ekki er getið í þeirri ágætu bók. Annað hvort hafa þær verið aflagðar fyrir skráninguna (sem reyndar fór fram í Kjósinni „17. júní og og næstu daga árið 1705“, eða voru upp teknar upp síðar. Einn var sá dalur í sveitinni, sem FERLIR hafði ekki gaumgæft, en það er Hrútadalur inn af Miðdal. Stefnan var tekin þangað, m.a. til að ganga úr skugga um hvort þar gætu leynst minjar eður ei.
Miðdalur mun áður hafa heitið
Mýdalur [Mýrdalur]. „Mýrdalur heitir jörðin í ævagömlum máldaga Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi frá c. 1220 (Fbra. I), en Mýdalur í máldaga frá c. 1269 (Fbrs. II, 64 – (Þessi tilvitnun á einmitt við Mýdal i Kjós, en ekki Miðdal í Mosfellssveit (sbr. registur við Fbrs.jII)), Vilkinsmáld. og síðan optastnær, þar á meðal í A. M. Þykir þvi rétt að halda því nafni, þótt Mýrdalur sé eldra.“
Hrutadalur-22Áður en haldið var upp í hinn hömrumgirta Hrútadal var bóndinn í Miðdal tekinn tali. Aðspurður um selstöðu frá bænum spurði hann á móti hvað selstaða væri. Að því útskýrðu sagðist hann ekki minnast þess að slíkt útgerð hafi verið frá Miðdal. Hins vegar væru tóftir skammt ofan bæjarins er bentu til þess að þar hafi verið hálfkirkja og jafnvel grafreitur. Ofan fjallsbrúnarinnar þar efra væru tóftir er með góðum vilja mætti greina sem slíkar. Líklega hefði þar verið sauðakofi eða beitarhús. Það væri þó vel þess virði að skoða nánar. Ekki kannaðist hann við minjar í Hrútadal. Aðspurður um staðsetningu Miðdalskots benti hann á stað þar sem heimkeyrslan að bænum kemur á þjóðveginn skammt norðvestar. Sagði hann að þar hefðu áður verið tóftir, en þær hefðu verið jafnaðar út þegar vegurinn var lagður og túnið sléttað. Bóndinn í Miðdal var bæði vinsamlegur og áhugasamur um efnið, ekki síst þegar upplýst var að FERLIR væri ekki að skrá fornleifar á svæðinu heldur væri umleitunin fyrst og fremst fyrir forvitninnar sakir.
Neðst í Hrútadal vottar fyrir hleðslum stekks. Ekki eru aðrar minjar þar sýnilegar. Gengið var alveg upp í dalinn til að sannreyna fyrirliggjandi vitneskju.
Hrutadalur-23Efst í dalnum var sest niður og rifjuð upp eftirfarandi frásögn af atburðum er áttu sér stað í Miðdalskoti fyrrum:
„Kjósin er sveit, sem leynir á sér. Laxá rennur fram til sjávar um megindalinn, breiða byggð og búsældarlega, en út frá honum ganga suður í Esjuna aðrir dalir smærri, umgirtir dökkum og skuggalegum hamraveggjum og snarbröttuna hlíðum. Fannir, sem liggja lengi sumars í dalbotnum og fjallaskálum norðan í Esjunni, gera svip þessara afdala enn hrikalegri. Ósjálfrátt flýgur manni í hug, að hér hafi verið heimkynni trölla í forneskju. Einn þessara dala, sem gengur suður úr Kjósinni utanverðri, liggur í stórum sveig að fjallabaki, og horfir annað mynni hans vestur til Hvalfjarðar. í miðjum þessum dal, sem sker hálendið þannig sundur, er bærinn Miðdalur í kreppu hárra fjalla. Þar sér ekki sól fimmtán vikur í skammdeginu, ,og er þó enn skemmri sólargangur á sumum öðrum bæjum í Kjósinni, þeim sem í hrikalegustu nágrenni eru við suðurfjöllin. Annar bær, sem nú er kominn í eyði, var í grennd við Miðdal. Þar hét Miðdalskot, Ekki munu dalbúarnir hafa verið miklir efnamenn að jafnaði, en börðu furðanlega ofan af fyrir sér, og margir voru grónari við torfuna en títt var um þetta leyti. Búin voru smá og húsakynnin lágreist, en fólkið var þrautseigt og æðrulaust. Á síðari hluta vetrar fóru þeir karlmenn, sem heimangengt áttu, til sjóróðra á Seltjarnarnesi, Álftanesi og Vatnsleysuströnd, en kvenfólk og unglingar sinnti bústofninum heima og beið vorkomunnar, sem æðioft dróst svo lengi, að skörð voru komin í hjörðina, þegar sólin tók að ylja hlíðarnar og grænar nálar, hlaðnar frjómagni, gægðust loks upp úr moldinni.
Hrutadalur-24Í kringum 1820 bjó í Miðdal roskinn bóndi, Þorsteinn Þórðarson að nafni. Var hann maður ólæs og lítt kunnandi og enginn skörungur. Hann var ekkill og hafði misst tvær konur sínar, Þuríði Björnsdóttur og Guðrúnu Gissurardóttur, en bjó nú með uppkomnum börnum sinum. Heima hjá honum voru enn Björn og Kristín, bæði börn fyrri konunnar, og Eyjólfur, sonur seinni konunnar. Kristín hafði alizt upp frá frumbernsku hjá frænda sínum einum, Árna bónda Jónssyni á Sandi og í Eyjum, en farið til föður síns að Miðdal, er hún var um tvítugt. Nú var hún fyrir innan stokk hjá þeim feðgum, komin talsvert á þrítugsaldur. Kristínu í Miðdal er svo lýst, að hún var lág vexti, en mjög þrekin, hárið jarpt og sítt, augun stór og blágrá á lit, nefið meðalstórt og þykkt að framan, kinnbeinin há og munnur nokkuð stór, hakan breið og framstæð, hendur breiðar, hörundið fölt, en þó nokkur dreyri í kinnum. Björn, bróðir hennar, sem var á svipuðum aldri, var nokkru hærri vexti og mjög grannur, hárið dökkjarpt og hrokkið og skörin klippt í kring, augun blágrá, nefið hátt og breitt að framan, andlitið stutt og kringluleitt og litaraftið dökkt, kinnbein nokkuð há og skeggið lítið sem ekkert.
Í Miðdalskoti bjó annar ekkill, Björn Hallvarðsson, og hjá honum var uppeldispiltur, honnum vandabundinn, Ásmundur Gissurarson að nafni. Hann var um tvítugt. Ráðskona Björns hét Sólveig og var systir bónda. Ásmundur í Miðdalskoti lagði nokkurn hug á Kristínu, en fyrirstaða virðist hafa verið af hennar hálfu. Hefur pilturinn í Kotinu sjálfsagt verið örsnauður, en einhver efni í garði í Miðdal.
Svo gerðist það seint á engjaslætti sumarið 1819, að Kristín varð léttari að barni, og vissu menn eigi, hver vera mundi faðir þess. Morguninn eftir að barnið fæddist, gaf Björn í Miðdal sig á tal við Ásmund og kallsaði það við hann, hvort hann vildi ekki gangast við faðerninu. Ekki gat hann þess, hvers vegna hann bað Ásmund að gangast við barninu, en sagði þó, „að það stæði illa á því“. Ásmundur tók lítt undir þetta. Þó vísaði hann ekki tilmælunum með öllu á bug, enda var að því vikið um leið, að hann gæti fengið Kristínu fyrir konu. Þegar Þorsteinn, faðir Kristínar, færði þetta einnig í tal við hann, vísaði hann til Björns, fóstra síns, og Sólveigar, systur hans. Ræddi Þorsteinn síðan við þau í tómi, og að því samtali loknu töluðu þau við Ásmund, og hvöttu þau hann heldur til þess að víkjast vel við bón nágrannans og „hjálpa upp á karlinn kærleikans vegna“. Þegar séra Gestur Þorláksson í Móum spurði svo Ásmund, hvort hann vildi meðganga barnið, svaraði hann: „Það held ég.“ Var síðan aldrei á þetta minnzt, hvorki fyrr né síðar, enda dó barnið eftir fáar vikur. Engu var vikið að Ásmundi fyrir þennan greiða, og ekki varð honum fremur ágengt með Kristínu eftir en áður, þrátt fyrir þann ádrátt, sem hann hafði fengið. Þóttist hann frekar kenna kulda en hlýju hjá Miðdalssystkinum, en þó einkum henni. Ekki er ljóst, hvort orðrómur barst út um það, að barnið hefði verið rangfeðrað, en ekki er það ólíklegt, þar sem það var á vitorði fólks á tveimur bæjum. Menn kunnu engu betur að þegja yfir leyndarmálum þá en nú. Enginn reki var samt gerður að því að grafast fyrir um sannleikann.
Nú liðu nokkur misseri. Annan dag páska veturinn 1822 bar gest að garði í Miðdal. Var það vinnumaður af Kjalarnesi og hét Torfi Steinólfsson.
Miðdalsmenn voru ekki farnir til róðra, og voru þeir feðgar allir úti í heygarði eða annars staðar við gegningar, en Kristín var í baðstofu og virtist sjúk. Kvöld var komið og rokkið í baðstofunni. Heyrði gesturinn, að stúlkan stundi og hljóðaði lítið eitt, líkt og hún hefði létta jóðsótt. Að nokkurri stundu liðinni snaraðist Björn, bróðir hennar, inn í baðstofuna, og um svipað leyti datt allt í dúnalogn. Nokkru síðar komu þeir Þorsteinn og Eyjólfur inn, og svaf fólkið af nóttina, eins og ekkert hefði í skorizt, og ekki var neinnar hjálpar leitað afbæjar.
Hrutadalur-25Litlu síðar barst sá kvittur bæ frá bæ um Kjós og Kjalarnes, að Kristín í Miðdal hefði alið barn á laun og borið út, og fylgdi sögunni óviðfelldinn orðrómur um faðerni þess. Þegar séra Þorlákur Loftsson í Móum, sem nýlega var orðinn prestur í Kjalarnesþingum, heyrði þennan orðróm hjá sóknarbörnum sínum, skrifaði hann Lofti hreppstjóra Guðmundssyni á Neðra-Hálsi og fór þess á leit við hann, að hann færi að Miðdal og krefðist þess að sjá barnið. Innti Loftur hreppstjóri þetta erindi röggsamlega af hendi, færði presti burðinn út að Móum, en hann lét sýslumanninn, Ólaf Finsen, son Hannesar biskups, vita, hvernig komið var.
Talsverðar embættisannir hvíldu á sýslumanni um þetta leyti, en eigi að síður hélt hann með föruneyti sínu upp að Miðdal, svo skjótt sem við varð komið. Var heimilisfólkið yfirheyrt, og kannaðist það allt við, að Kristín hefði alið ófullburða fóstur, sem það vissi, að Björn var faðir að. Kristín og Björn gengust undir eins við þessu og könnuðust við burðinn, sem hafður var til sýnis við yfirheyrsluna. Kvaðst Kristín hafa alið burðinn lífvana að hálfnuðum meðgöngutíma og hefði enginn verið í baðstofunni, þegar það gerðist, nema Torfi Steinólfsson, en Björn hefði komið að, í sömu andrá og hún varð léttari. Engir höfðu séð fóstrið, nema Kristín og Björn, er sagðist hafa grafið það í moldina undir rúmi móðurinnar. Nú rifjaðist líka upp fyrri barneign Kristínar, en Björn neitaði, að hann hefði átt það barn. Kristín bar einnig á móti því og vitnaði til prestsþjónustubókarinnar: „Kirkjubókin útvísar það!“
Að þessu dagsverki loknu skipaði sýslumaður Birni bónda í Miðdalskoti og Ólafi bónda Andréssyni í Eilífsdal að taka við systkinunum og hafa þau í varðhaldi um nóttina, en flytja síðan. snemma næsta morguns að Hálsi til Lofts hreppstjóra, sem ekki hafði komið að Miðdal þennan dag sökum lasleika.
Hrutadalur-26Daginn eftir setti sýslumaður rétt að Neðra-Hálsi, og var þá sjálfur hreppstjórinn kvaddur til þess að segja frá hlutdeild sinni í því, að þetta komst upp. Loftur Guðmundsson var röggsamur bóndi og dugandi hreppstjóri og líklega sízt eftirbátur annarra starfsbræðra sinna. Þess vegna er frásögn hans af Miðdalsförinni dágóð mynd af því, hvernig hreppstjórar á þessum árum brugðust við, þegar þeim bar að höndum einhvern meiri vanda en að ráðstafa hreppakerlingum eða byggja út kotkörlum. Ekkert skorti á, að hann ræki erindi sitt af dugnaði, og milli línanna má lesa talsverð drýgindi yfir því, hvernig hann tók á málinu.
Óneitanlega er lýsing hans á tiltektum sínum allhláleg, þrátt fyrir alvöru heimsóknarinnar að Miðdal. En það hefur hreppstjórinn áreiðanlega ekki fundið. Birtist frásögnin hér orðrétt, svo að hún missi einskis í: „Þriðjudaginn fyrstan í einmánuði fór ég af stað að Miðdal af tali fólks um þetta tilfelli, einsamall í versta veðri, og undir eins og ég kom þangað, sagðist ég vera kominn einn og skyldi Kristín Þorsteinsdóttir láta í ljós við mig, það sem hún hefði fætt, og ég krafðist þess af henni að láta það til, svo yel sem af Birni Þorsteinssyni, hróður hennar, að hann segði ’til þess. Þá kom tregða á og stanz. Ég varð þá alvarlegri við þau, og sagðist ég lofa þá járnunum — ekki á morgun, heldur hinn daginn. Svo var kveikt Ijós, og Björn för þá að grafa til undir rúmi Kristínar — ég má segja rúmlega hálft annað kvartil niður í gólfið. Björn kom þá með fóstrið úr gryfjunni og fylgjuna áfasta við og lagði upp á grafarbarminn og sagði: „Þarna er það!“ Undir eins fer ég með hnén nærri á gólfið, tek þetta upp í lúku mína og slít fylgjuna frá fóstrinu og segi við Björn: 

Hrutadalur-27

„Láttu þetta ofan í gryfjuna aftur!“ Svo stend ég upp með þetta og skoða fóstrið. Sá ég þá á því, að það voru á því augnatóftir, nef og enni í mannslíki. Heldur sýndist mér vera eins og kambur eða röst upp úr höfðinu, en afturdregið frá hausnum með fjórum löppum. Á þeim urðu þrjár klær, eftir sem mér sýndist. Ég fór svo með fóstrið rétt að andlitinu á Kristínu og krafðist af henni að segja mér það sannasta um það, hvort þetta væri það, sem hún hefði fætt og ekki annað, og svaraði hún því óhikað: Já. Tók ég svo stokk og lét það þar í, vafið innan í ull. Fór ég svo þaðan út að Móum með það til prestsins, séra Þorláks Loftssonar, og afhenti honum það og beiddi hann að láta það ei forberast, svo að fleiri gætu séð það og hann gæfi það öðrum til kynna.
Enn á ný sýndu valdsmennirnir móðurinni fóstrið, sem nú var búið að reiða fram og aftur um héraðið, og jafnframt skoðuðu þeir það sjálfir, ásamt réttarvitnunum. Kvaðst Loftur þekkja það aftur, þótt það væri) orðið samanskroppið og visið og brotnar af því klærnar þrjár, sem hann hafði séð á því. Nú þótti allt fullrannsakað, er vék að þessum barnsburði, og var því farið að leita að föður fyrra barnsins, sem Kristín hafði átt. Ásmundur Gissurarson harðneitaði því, að hann hefði átt það, enda meðgekk Miðdalsfólk, að Björn hefði líka verið faðir að því. Þegar Þorsteinn, faðir systkinanna, var að því spurður, hvers vegna hann hefði ekki stíað systkinunum í sundur, þegar svo var komið, kvaðst hann að sönnu hafa ýjað að því við Kristínu, en hún hefði talið það þarflaust, því að þau myndu ekki hrasa í annað sinn. Vegna fávizku sinnar og dugnaðarleysis hefði hann ekki leitað aðstoðar annarra til þess að skilja þau. — Gruna má þó, að hitt hafi eins miklu valdið, að karl hafi horft í það að missa annaðhvort systkinanna frá bústörfum.
Hrutadalur-28Loks var málið tekið í dóm. Pétur Pétursson, bóndi í Eyjum, var skipaður sækjandi, en Gísli Skæringsson, bóndi á Hvítanesi, verjandi. Lítið mun hafa orðið um sókn og vörn, enda var slíkt að jafnaði formsatriði, sem litlu eða engu breytti. Var dómur kveðinn upp og Björn og Kristín talin hafa fyrirgert lífi sínu. Þessum líflátsdómi skyldi þó vikið undir atkvæði æðri dómstóls og leitað konungs náðar. Þorsteini var gert að greiða tuttugu ríkisdali í sekt til Kjósarhrepps. Nokkrum vikum síðar staðfestí landsyfirréttur þennan dóm, að öðru leyti en því, að lausafé systkinanna skyldi falla til konungs og sekt Þorsteins var lækkuð. í tíu dali. Um haustið staðfesti hæstiréttur dóm landsyfirréttar. Horfði nú illa fyrir systkinunum frá Miðdal. Þó var ekki öll von úti. Enn hafði ekki reynt á konungsnáðina. Varla hefur þess þó verið vænzt, að þau systkinin slyppu við langa fangelsisvist í Kaupmannahöfn. En að þessu sinni var óvenjulega skjótt við vikizt í stjórnarskrifstofunum dönsku. Konungur náðaði systkinin þegar þetta sama haust og akvað, að hýðing, þrisvar sinnum tuttugu og sjö vandarhögg, skyldi koma í stað dauðarefsingarinnar. Það var vissulega nokkuð ströng refsing, ef hún var harkalega á lögð, en tók þó fljótt af. Þorsteinn mun hafa hrökklazt frá búskap í Miðdal um þetta leyti eða litlu síðar. En margt af því fólki, sem þarna kom við sögu, bjó síðar á Kjalarnesi og í Kjós. Þorsteinn dó úr ellilasleika hjá Eyjólfi, syni sínum, er gerðist bóndi á Mora-Stöðum. Ásmundur Gissurarson bjó lengi í Stekkjarkoti á Kjalarnesi, öðru nafni Bjargi, skammt frá Saurbæ. Björn bjó í Snússu og átti að konu — bróðurdóttur hreppstjórans, er sótti hann heim í Miðdal á útmánuðum 1822.“
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Helztu heimildir: Dóma- og þingabók Gullbringu- og Kjósarsýslu, prestsþjónustubækur og sóknarmanntöl Kjalarnesþinga og Reynivalla Annál 19. aldar, Landsyfirvéttardómar.)

Heimild:
-Jarðabók ÁM og PV 1703, III. bindi, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 385.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 37. árg., 1923, bls. 34.
-Frjáls þjóð, 8. árg 1959, 4. tbl. bls. 4 og 7.

Miðdalur

Miðdalur og Hrútadalur – kort.

Selvogsgata

„Gísli Sigurðsson, fyrrverandi lögregluþjónn, er margfróður um sögu Hafnarfjarðar og Reykjaness. Hann þekkir gamlar slóðir um Reykjanes eins vel og lófann á sér, og hefur gengið þær flestar margoft. Það er þess vegna ærin upplyfting að fara með honum í gönguför suður í Selvog. Seinna geta svo lesendur farið sjálfir af stað og látið þessa leiðarlýsingu Gísla vísa sér veginn. Lagt af stað úr Firðinum.
grinda-3 Ein er sú gönguleið, sem ég tel með þeim skemmtilegri hér í nágrenni við höfuðborgina, það er Selvogsgatan eða Selvogsleiðin, sem ég ætla að fara með ykkur um, og við skulum fylgja lestum þeirra Selvogsinga. Þeir hafa verið í kaupstaðarferð. Hafa búið vel upp á hesta sína. Þeir leggja upp frá plássinu, Akurgerði, og leiðin liggur suður yfir Hamarskotslæk suður á Mölina upp í Illubrekku, og sveigir til austurs neðan undir Austurhamri. Og því er nú til Selvogsgata í Hafnarfirði, að Selvogsingar fóru þessa leið. Við förum með lækjarsytru sem rennur með Hamarskotstúngarði upp á Öldurnar þar ofan. Á leiðinni verða fyrir okkur nokkur móabörð og austasta barðið heitir Hvíldarbarð og er þar nú kirkjugarðurinn.
Mosahlíðin blasir nú við okkur, og við förum upp á Hrygginn, þaðan liggur leiðin niður undir Hraunið og yfir hraunrimann, og höfum við þá Lækjarbotnana á hvora hönd. Á vinstri hönd eru Neðri-Lækjarbotnar þar sem tekið var vatnið í fyrstu vatnsleiðsluna til Hafnarfjarðar. En á hægri hönd eru Efri-Lækjarbotnar, nokkrar lautir í hrauninu með tæru vatni og fersku. Þegar yfir Hraunrimann er komið, er þar lækjarfarvegur, venjulega þurr nema á vetrum, og er þá Svínholt á vinstri hönd, en Gráhelluhraunið á hægri. Nokkru sunnar eru Moldir og er þá Setbergshlíð á vinstri hönd, allhá hlíð vaxin birkikjarri. Innar gengur fram svo kallað Háanef, en fyrir innan það hallar landinu móti okkur og er þar upp hraunbrekku að fara.
Þar komum við að helli, sem heitir Kethellir. Suður af honum er hellir, sem mun hafa verið bæði í landi Setbergs og Hamarskots. Þarna var í eina tíð sel, að líkindum frá báðum þessum bæjum. Á tímum hraungosanna miklu úr Búrfelli hefur um þessa brekku runnið mikill hraunfoss. Við færumst fet fyrir fet upp brekkuna, en á brúninni komum við á grágrýtisklappir, Sléttuhlíðarhorn, og niður af þeim er þá Sléttahlíðin á hægri hönd en Smyrilbúðarhraun á vinstri.
Svæðið, sem leiðin liggur um, kalla grinda-1Selvogsingar Torfur og ná þær allt að gjá þeirri, sem er framhald af Hjöllunum. Gjáin er mjó en á þó sína sögu. Maður nokkur Kristján að nafni var þarna á ferð með folaldsmeri. Hann missti folaldið í gjána. Varð hann að fara til Hafnarfjarðar eftir mannhjálp til að ná folaldinu upp úr gjánni. Þvi kölluðu Hafnfirðingar gjána Folaldagjá, en Selvogsingar Stjánagjá. Frá Gjánni liggur leiðin suður eftir sléttu hrauni, sem heitir Helluhraun allt að okkar fagra Helgadal. Þar er gjá yfir að fara niður í dalinn. Leiðin upp úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjúlfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897.
En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1427: „Þjófnaðaröld mikil um Suðurland. Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli einum í fjalli einu eða felli, þar sem nefnt er Húsfell. Voru allir hengdir um sumarið“. Í hraunrima þessum er hellir, og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á, hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra.
grinda-3Við höldum svo yfir Helgadalsás og niður af honum og austur um og förum þar eftir móbergsklöppum, og erum við þá komnir að Valahnúkum, norð-austan við Helgafell, okkar tignasta fell, sem ég trúi að margur Hafnfirðingur óski sér að deyja í og sitja þar að sumri og skrafa saman við langelda. Í Valahnúkum er Músarhellir. Þar sváfu eina nótt fjárleitarmenn á haustum, þeir sem smöluðu Norðurfjallið. Nú hefur helli þessum verið annað nafn gefið, heitir Valaból.
Og áfram höldum við og komum í grunnar dalkvosir sem heita Mygludalir. Líklega hefur einhver áð þar á gæðing sínum, henni Myglu, sem skeiðaði allra hrossa mest. Nú liggur leiðin upp yfir hraunrima allbreiðan og er þar í gjá, sem nefnist Húsfellsgjá. Þegar kemur upp fyrir hraunið taka við melhæðir með hraunrimum á milli. Svæði þetta heitir Strandartorfur, og segja munnmælin, að þar hafi Strandarkirkja átt skógarítak. Þar fer nú litið fyrir skógi eða kjarri. Síðar hefur svæði þetta fengið nafnið Kaplatóur.
grinda-4Þega
r kemur suður fyrir taka við Hellurnar; er það helluhraun mikið og liggur upp undir Grindarskörð, sem blasað hafa við sjónum allt frá því, að við vorum hjá Músarhelli. Hér má sjá að um hafa farið langar lestir hesta, því víða eru götur sorfnar í klappirnar. Hér hefur líka verið farið með rekstra, ekki sízt þegar aðalsláturhöfnin var í Hafnarfirði. Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar sem heita Gálgaklettar. Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar. Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðafall mikið, þar í eru hellar nokkrir. Árið 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum , sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna við nokkrar nætur. Þórðarhelli kalla ég þennan helli og kenni hann við Þórð nokkur Eyjólfsson, sem bjó á Brúsastöðum.
Þegar hér er komið taka við Mosarnir, og nokkru ofar er svæðið nefnt Flá, og er þá komið að örðugasta hjallanum, Kerlingarskarði. Þarna deildust vegir. Stígur lá upp hraunbungu á vinstri hönd, Grindarskarða- stígur. Lá hann suður um austurenda Stórkonugjár upp að Heiðartoppi á Heiðinni há og austur áfram að Vindheimum í Ölfusi. Við höldum nú upp þennan örðuga hjalla. Brekkan er svo brött að kunnugir segja mér, að þeir hafi orðið að hvíla hestana minnsta kosti einu sinni áður en upp var komið. Svo komumst við á brekkubrúnina. Þá höfum við austan okkur Mið-Bolla, sem eru tveir, og vestan eru svo Þríbollar, sem Selvogsingar kalla Kerlingahnúka. Við hnúk næsta tökum við eftir stíg sem liggur vestur. Þetta er Námastígurinn og liggur vestur í Brennisteinsnámur. En við höldum áfram og liggur leiðin um austurenda Draugahlíðar. Þar hefur bæði verið ruddur vegur og hlaðinn. Þegar niður kemur liggur leiðin yfir hraun, sem nefnist Skarðahraun, kennt við Grindaskörð. Þar förum við gegnum girðingarhlið og lítið eitt austar eru svo tvær vörður, sem við köllum Tvívörður. Liggur nú leiðin austur og upp undir Kóngsfellið litla. Í hrauntröðum, sem þar eru, blasir við okkur litill skúti. Hann er kallaður Dauðsmannsskúti. Þar varð úti maður um 1860. Skörðin búa yfir mikilli dul, því 1633 hvarf þarna maður og hefur ekkert af honum fengizt. Haldið var að tröll hafi heillað hann.
selvogsgata-221Nú tekur leiðin á sig hlykk og stefnir vestur og liggur þar um svonefndan Grafning. Við Þrívörður eru vegamót. Þar niður eftir sléttu klapparhrauni liggur Stakkavíkurvegur, fyrir endann á vestari Hvalhnúk og síðan niður Fjallið niður um Selstíg að Stakkavík og vestur að Herdísarvík. Annar stígur liggur nokkru austar niður Fjallið og heitir hann Hlíðarvegur, liggur í Hlíðarskarð og niður skarðið að Hlíð. Þessir vegir eru nú sjaldan farnir.
Þegar komið er niður úr Grafningi er komið í fagran dal, sem heitir Stóri-Leirdalur. Þar er grösugt og sléttar flatir norður með Hvalhnúknum. Úr Leirdal liggur leiðin upp í Hvalhnúkaskarð og niður úr því sunnan við gil, sem þar er. Blasir nú við Fjallið, sem þeir kalla svo Selvogsingar, Herdísavíkurfjall, Stakkavíkurfjall og Hlíðarfjall, og er þetta afréttur þessara bæja í Selvogi. Þegar kemur fram úr Hvalhnúkaskarði liggur leiðin vestur undir hlíðartöglum Heiðarinnar háu, er þar víða grösugt, og heita á vinstri hönd Hvalhnúkabrekkur.
Góðan spöl suður frá Skarðinu er hraunhóll mikill og heitir Þorvaldshóll. Þegar honum sleppir taka við móar og er gatan heldur ógreið um þá. Þá er komið í Litla-Leirdal, sem eiginlega er slakki utan í Heiðinni. Þar nokkru neðar er svo uppspretta og kringum hana flöt, og er þetta kallað Rituvatnsstæði. Nokkru neðar verða á vinstri hönd við okkur fell, sem heita Urðarfell. Þau eru tvö, Urðarfellið stóra og Urðarfellið minna. Þau eru aðskilin af gili er nefnist Kálfsgil. Í því er uppspretta nefnd Sælubuna. Gott vatn ungum sem gömlum.

Hlíðardalur

Tóft í Hlíðardal.

Utan í Urðarfelli stóra er Strandardalur, en í Urðarfelli litla eru Hlíðardalirnir tveir. Þá komum við í Katlana og Katlahraun. Við sniðskerum það vestur á við og erum þá komnir á fjallsbrúnina. Heita hér Katlabrekkur þar sem leiðin liggur niður af fjallinu. Þar í grasivaxinni laut eru vegamót. Liggur ein leiðin þaðan út með Hlíðarfjalli og heitir þar Hlíðarvegur. Önnur leið er þarna og heitir Vogsósaleið. Liggur hún niður svæði sem kallast Rofin um Aldindal og Stekkjardali í Hlaupandahóla heim til Vogsósa.
En við skulum halda áfram og stefna á byggðina. Leiðin liggur um Austur-Rofin,og sunnar er fell á vinstri hönd, sem heitir Vörðufell. Þar voru lögréttir þeirra Selvogsinga. En fell þetta er einnig frægt fyrir sínar mörgu vörður. Svo er mál með vexti, að þegar unglingar voru sendir að leita fjár eða annars búpenings, þá kom oft fyrir, að þeir fundu ekki gripina. Fóru þeir þá á Vörðufell, og ef þeir hlóðu vörðu brást það ekki að þeir fundu gripina. Leiðin liggur þarna upp svo nefndar Eymu-Illhæðir eða Eymu-Hellhæðir, og svo er komið að Kökhól og Skálinn er þar ekki langt frá. Austan leiðarinnar eru nokkrar hæðir, svo sem Strandarhæð og Strandarhellir, og þar skammt frá er hellirinn Gapi, og enn sunnar er Bjarnarhellir. Á þessum stöðum eru rúmgóðir fjárhellar.
Nú erum við komnir niður á þjóðveginn og þar hittum við á vegamót. Við höldum svo niður í Klifið og eru þá Dalhólalágar á hægri hönd, en nokkru neðar á vinstri hönd eru Bjarnastaðahólar. Þeir sem byggja Þorkelsgerði fara nú í suð-vestur, en Bjarnastaðamenn og Nesmenn halda niður undir túngarð. Þar skilja enn leiðir, og halda Bjarnastaðamenn suður og heim, en Nesmenn austur með garði um slétta velli, sem heita Flatir, síðan í túngarðshliðið og heim til bæjar.
Við köllum þetta Selvogsleið eða Selvogsveg, en Selvogsingar kalla hana Suðurferðaleið, og er það einkennilegt, því leiðin liggur því sem næst í norður. Þessi leið sem við höfum nú farið er ágæt gönguleið að sumri til, tekur 6 klukkustundir að ganga hana þegar rólega er farið. Ráðlegg ég öllum sem vilja halda sér ungum að ganga hana tvisvar til þrisvar á sumri. – Gísli Sigurðsson“

Heimild:
-Þjóðviljinn 15. júlí 1973, bls. 6-7.

Strandardalur

Strandardalur – minjar. Loftmynd.

Hraun

Ólafur Þ. Kristjánsson skrifaði um „Kapelluna í hrauninu og heilaga Barböru“ í jólablað Alþýðublaðs hafnarfjarðar árið 1961:

„Sunnan Hafnarfjarðar er land hrjóstugt og hraunótt. Það er ekki aðeins, að þar sé hraun við hraun, heldur liggur þar víða hraun á hrauni. Mjög eru þessi hraun misgömul, en flest eru þau miklu eldri en mannabyggð á landi hér.
Ólafur Þ. KristjánssonEitt þessara hrauna er svonefndur Bruni, úfið hraun, lítt gróið og illt yfirferðar. Eru hæg heimatökin hjá Hafnfirðingum að kynna sér útlit og yfirborð hraunsins sjálfir, eins og margir þeirra hafa raunar gert, en til fróðleiks og samanburðar skal hér sýnt, hvernig þetta hraun kom útlendum mönnum fyrir sjónir 5. september 1772, en þann dag var hinn nafnkunni Englendingur, Sir Joseph Banks, þar á ferð, og segir hann frá á þennan veg (þýðing dr. Jakobs Benediktssonar í Skírni 1950, bls. 218-219): „Herra Troil og ég gengum í dag framhjá stað sem á kortinu er kallaður Hvaleyri og rákumst þar af tilviljun á hraunstraum sem virtist geysi-viðáttumikill og þakti allt landið eins langt og augað eygði og fyllti hvern dal á hvora hlið sem var meðfram rennsli sínu. Frá jaðrinum og hér um bil hálfa mílu í áttina að miðjunni var hann eintómar smáhæðir, og yfirborð þeirra var yfirleitt fremur slétt, en gárótt alveg eins og málmur eftir bræðslu, þegar gjallið fer að harðna ofan á honum. Þessar gárur höfðu fengið á sig þúsundir ólíkra myndana, líklega eftir því sem vindur eða aðrar orsakir höfðu haft áhrif á hið bráðna efni. Inni í hrauninu var staður sem hægara er að ímynda sér en lýsa. Hraunstraumurinn hafði hér verið hraður og stöðugt brotið flögur af yfirborði sínu jafnóðum og það storknaði. Þessar flögur hafði hann borið með sér, oft á rönd, og hlaðið upp hólum sem voru aðallega úr steinhellum, oft mjög stórum, sem stóðu á rönd. Óþolandi var að ganga á þeim og auganu voru þær sundurtættari en nokkur hlutur sem ég hef áður séð. Þetta svæði var nærri tvær mílur á breidd, en hinum megin var flatlendi, þakið sléttu hrauni eins og áður var lýst, eins langt og augað eygði, sennilega allt frá rótum næstu fjalla, hér um bil tíu mílur frá okkur. Fyrir neðan okkur var sjórinn, en í hann hafði þessi gífurlegi eldstraumur runnið.“

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Hraun þetta, Bruninn, helur komið úr gígaröðum uppi við Undirhlíðar og fallið í sjó fram. Telja jarðfræðingar, að það hafi verið eftir að land byggðist, en þó á fyrstu öldum byggðarinnar. Má telja víst, að það sé þetta hraun, sem í annálum er kallað Nýjahraun fyrir utan Hafnarfjörð. Svo Ber og að orði komizt í landamerkjaskrám, að mörkin milli Hvaleyrar og Straums séu í norðurbrún Nýjahrauns.
Ekki er að efa, að ferðalög á landi hafa verið töluverð suður með sjó þegar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, og vegurinn sennilega legið suður frá Hafnarfirði á svipuðum slóðum og hann liggur enn. Þegar svo hraunið rann, hefur sú leið teppzt með öllu, og hefur þá orðið að krækja upp á Undirhlíðar, ef á landi átti að fara. Má nærri geta, hve þægilegt það hefur verið, eins og land á skaganum er yfirferðar. Það hefur þess vegna efalaust verið reynt að ryðja veg yfir hið nýrunna hraun eins fljótt og lært hefur þótt. Sjálfsagt hefur það verið gert, meðan hraunið var enn volgt eða jafnvel heitt undir niðri, þótt ylirborðið væri orðið storkið. Mætti ætla, að ýmsum hafi þótt þetta dirfskuverk mikið og ekki hættulaust.

Kapella

Kapellan og Alfaraleiðin t.h.

Vegurinn hefur legið yfir hraunið öldum saman á sama stað og hann var lagður í öndverðu, því að engar minjar sjást um reiðgötu yfir það nema þar. Var sá vegur notaður þar til akvegur var lagður yfir hraunið nokkru ofar. Gamli vegurinn var sléttur og vel ruddur, hvort sem svo vandlega hefur verið frá honum gengið í byrjun eða bætt um síðar. En krókótt hefur hann legið, eins og vænta mátti, þar sem reynt var að rekja sléttustu leiðina og sneiða hjá mishæðum.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Rétt neðan við veginn svo sem miðja vega í hrauninu stendur rúst eða tóft hlaðin úr grjóti. Hún hefur lengi gengið undir nafninu Kapella, og hefur neðsti hluti hraunsins tekið nafn af henni og nefnist Kapelluhraun.
Séra Árni Helgason í Görðum nefnir Kapelluna í sóknarlýsingu 1842 og getur þess, að fólk segi, að „þar séu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir hafi verið í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551, er ólíklegt þykir satt geti verið.“ — Það er víst óþarfi að taka það fram, að þarna liafa aldrei neinir menn verið dysjaðir.
Önnur sögn hermir, að eftir að Norðlendingar höfðu drepið Kristján skrifara suður á Kirkjubóli á Miðnesi seint í janúar 1551, hafi lík hans verið flutt landleið til Bessastaða til greftrunar. Hafi dagur ekki enzt til fararinnar og Kapellan svonefnda þá verið hlaðin til þess að geyma líkið í til næsta dags.

Joseph Banks

Joseph Banks – 1743-1820.

Þessi saga nær auðvitað engri átt. Það hefur verið miklu meira verk að hlaða Kapelluveggina en flytja líkið inn á Hvaleyri, en þar var þá byggð, svo að hægt hefði verið að setja það inn í hús. Hitt gæti frekar átt sér stað, ef færð hefur verið slæm og flutningsmenn orðið dagþrota í Kapelluhrauni, að lík Kristjáns hafi verið geymt náttlangt í Kapellunni, hafi hún staðið þar fyrir, eins og líklegt má þykja, að verið hafi. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir heldur ekki annað í grein sinni um Kapelluna í Árbók Fornleifafélagsins 1903 (bls. 34) en að þar sé sagt „að lík Kristjáns skrifara hafi verið náttsett“.
Ekki virðist það ólíklegt, sem menn hafa gizkað á, að Kapellan hafi verið reist í hrauninu miðju, þegar vegurinn var ruddur yfir það nýrunnið, og hafi hún verið raunveruleg kapella eða bænhús, ætlað til þess að menn bæðust þar fyrir, ekki einungis þeir menn, sem lokið höfðu hinu háskasamlega verki, vegarruðningu í heitu hrauni, heldur og aðrir ferðamenn, er leið ættu hér um. Var þetta allvíða gert í kaþólskum löndum, að reisa lítil bænhús við vegi, ekki sízt þar sem vandfarið var eða hættulegt.

Uno von Troil

Uno von Troil – 1746-1803.

Vorið 1950 rannsakaði dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður Kapelluna ásamt fleiri mönnum. Hefur hann ritað glögga skýrslu um þá rannsókn í Árbók Fornleifafélagsins 1955—1956, bls. 5—15. Er hér farið eftir þeirri frásögn um allt, er Kapelluna varðar og þá gripi, sem í henni fundust, en miklu ýtarlegri er þó skýrsla fornminjavarðar, og verður að vísa þeim til hennar, er meira vilja vita um þetta efni.
Kapellan snýr nokkurn veginn frá austri til vesturs, og hafa dyrnar verið á vesturgafli, eins og tíðkast hefur á guðshúsum. Hún er 2,40 m á lengd að innan, en breiddin er 2,20 m við vesturgaflinn, en 2,10 m við austurgafl. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr hraunhellum og vel og vandlega frá hleðslunni gengið. Þykktin hefur verið um einn metri.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Ekki er vitað, hvernig þakið hefur verið. Ætlar þjóðminjavörður helzt, að það hafi verið uppreft og hvílt á mæniás. Hefur húsið verið vel manngengt, að minnsta kosti í miðjunni. Allt telur þjóðminjavörður benda til þess, að hús þetta hafi verið kapella, enda mæli ekkert á móti. Segir þá nafnið á rústinni rétt til um upphaflega notkun hennar. Dýrlingslíkneski lítið, er þar fannst, bendir og til hins sama.
Það er langt frá Kapelluhrauni til Litlu-Asíu, en þó víkur nú sögunni þangað, til borgar þeirrar, er Nikomedia hét og stóð í miklum blóma á öldunum fyrir og eftir Krists fæðingu, þrátt fyrir jarðskjálfta og árásir óvina.
Snemma á 3. öld eftir Krist var í borg þessari heldri maður, sem átti dóttur forkunnarfríða, sem Barbara hét. Var hann svo gagntekinn af fegurð dóttur sinnar, að hann tímdi engum manni að gefa hana og læsti hana inni í rammgerðum turni, til þess að gárungarnir gleptu hana ekki. Þó lánaðist einum af hinum vísu kirkjufeðrum, þeim er Origenes hét, að komast inn til hennar, og kenndi hann henni kristna trú með þeim árangri, að hún lét skírast. Af þeim sökum lét hún gera þrjá glugga á baðherbergi sitt, þar sem ekki áttu að vera nema tveir, og gerði hún það til að minna á heilaga þrenningu. Jafnframt lét hún gera krossmark í vegginn. Líkaði föður hennar illa, er hann komst að þessu, því að hann var trúmaður mikill í gömlum stíl. Segja sumir, að nú hafi hann gjarnan viljað gifta hana, en hún neitað öllum biðlum og sagzt vera brúður Krists og engum dauðlegum manni gefast. Hitt ber öllum saman um, að faðir hennar reiddist svo þrákelkni hennar, því að hún vildi með engu móti leggja niður kristinn sið, að hann seldi hana í hendur yfirvöldum borgarinnar. Höfðu þau við hana hvers konar fortölur, en hún lét ekki skipast við þær. Var hún þá beitt margvíslegum harðræðum, en allt kom fyrir ekki, hún var staðföst í kristinni trú. Var hún þá að lokum hálshöggvin, en elding af himni laust jafnskjótt böðul hennar til bana.
Heilög BarbaraEnginn veit með vissu, hve mikill sannleikur felst í þessari fornu frásögn. Hitt er víst, að Barbara var snemma tekin í helgra manna tölu, og er með vissu vitað, að hún var dýrkuð á 7. öld. Seinna var hún talin ein af fjórum fremstu kvendýrlingum kirkjunnar, en hinir voru þær Katrín helga, Margrét helga og Dórótea helga.
Gott þótti að heita á Barböru helgu í þrumuveðri og hvers kyns óveðri og einnig til varnar gegn húsbruna. Þá varð hún og verndardýrlingur þeirra manna, sem að sprengingum störfuðu, svo sem námumanna og stórskotaliðsmanna. Púðurgeymslur í frönskum og spænskum herskipum voru kallaðar nafni hennar (Saint Barbre og Santa Barbara). — Enn þótti gott að heita á hana, þegar búast mátti við bráðum bana.
Ekki er vitað með vissu, hvort tilbeiðsla heilagrar Barböru hefur verið meiri eða minni hér á landi. Sennilega hefur hún verið allmikil eins og annars staðar. Engin kirkja hér á landi var þó helguð henni fyrst og fremst, en hún var meðal verndardýrlinga tveggja: Reykholtskirkju í Borgarfirði og Haukadalskirkju í Biskupstungum. Getið er um líkneki af henni í kirkjum. Myndir af henni voru á ýmsum altaristöflum, sem enn eru til, og einnig voru þær saumaðir í prestsskrúða, til dæmis að taka í kórkápu Jóns biskups Arasonar. Sagan um hana var snemma þýdd á norrænt mál, og um hana var ort kvæði (Barbárudiktur).

Barbara

Heilög Barbara – altaristafla í Varsjá í Póllandi.

Barbara hefur aldrei orðið algengt kvenmannsnafn hér á landi. Þó hafa nokkrar konur borið það nafn bæði fyrr og síðar. Á myndum er Barbara iðulega látin standa á turni, sem oft er með þremur gluggum. Stundum er fallbyssum komið fyrir hjá turninum. Það ber og við, að mærin heldur á turninum í fangi sér.
Þegar rústin í Kapelluhrauni var rannsökuð 1950, fundust þar ýmsir smáhlutir, þar á meðal brot úr rafperlu, 3 leirkersbrot rauðleit, krítarpípuleggur og 3 skeifubrot. En miklu merkast af því, sem þar fannst, var líkneski heilagrar Barböru. Lýsir dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður því á þennan veg í áðurnefndri ritgerð í Árbók Fornleifafélagsins: „Mynd af heilagri Barböru, telgd úr grágulum leirsteini, aðeins efri hluti eða vef niður fyrir mitti, fannst í þremur hlutum, sem auðvelt var að fella saman.
Kapella
Myndin eða líkneskið er nú aðeins 3,3 sm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 sm heilt. Það er haglega telgt, andlitið nokkuð máð, hár mikið og hrokkið og nær niður á herðar og sveigur um yfir ennið. Barbara er í flegnum kjól, aðskornum í mitti, barmurinn hvelfdur, kjóllinn í miklum fellingum neðan beltis. Hún grípur hægri hendi í kjólinn, og sést, að hann er ermalangur. Skikkju slegna hefur hún yfir um axlir, og fellur hún með stórum, mjúkum fellingum á baki. Í vinstri hendi heldur Barbara á einkunn sinni, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Turninn er ferstrendur með undirstöðu neðst, síðan nokkru grennri bol, þar sem tveir gluggár sjást, sinn á hvorri hlið, slær sér síðan aftur út líkt og neðst, en upp úr hefur loks verið toppur, sem nú er að miklu leyti brotinn af. Sýnilegt er, að einhvern tíma hefur verið brugðið knífi á líkneskinu, sennilega til að kanna efnivið þess, eins og menn gera oft fyrir forvitni sakir. — Lítið brot úr samskonar eða mjög líkum steini fannst einnig í tóftinni skammt frá Barbörulíkneskinu. Það er tiltelgt og mætti vel vera úr neðri hluta myndarinnar, þótt ekki sé hægt að koma því í samhengi nú.“ Við þessa lýsingu þjóðminjavarðar er engu að bæta öðru en því, að líkneskið skipar nú virðulegt sæti í sýningarsal Þjóðminjasafns.
Kapella
Það er augljóst af stærð líkneskisins, að það hefur verið ætlað til þess að menn bæru það á sér sem verndargrip og tækju það gjarnan upp og gerðu til þess bæn sína, þegar þeim þótti mikils við þurfa á ferðalögum eða við aðrar aðstæður.
En hvernig var þetta líkneski komið í kapelluna í Nýjahrauni? Gæti hugsazt, að það hafi verið sett upp í kapellunni, þegar hún var nýreist, og kapellan gerð, þegar vegurinn var ruddur yfir Nýjahraun? Kristján Eldjárn minnir á, að gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna og sprengingum, og segir síðan: „Mundi hún þá ekki einnig hafa dugað vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna? Ef rennsli Nýjahrauns og háski þess á einhvern þátt í upphafi kapellu á þessum stað, er máske Barbara mær sá meðal helgra manna, sem eðlilegast er að hitta þar fyrir, úr því á annað borð svo ótrúlega heppilega vildi til, að nokkur dýrlingsmynd fannst.“
En það gæti líka hugsazt, að ferðamaður hefði gleymt líkneskinu þarna eða týnt því. Kannske það hafi verið unglingur, sem í fyrsta sinn fór í verið til Suðurnesja og hafði fengið líkneskið að gjöf sér til verndar, þegar hann kvaddi móður sína fyrir norðan eða kannske ömmu sína, og tók nú líkneskið upp, þegar hingað kom, til þess að biðja hina helgu mey verndar í ókomnum háska?

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Kannske það hafi líka verið aldurhniginn maður, sem marga bratta báru hafði séð og aldrei látið undir höfuð leggjast að biðja Barböru að vernda sig á vertíðinni? Og vissi það á eitthvað, að líkneskið týndist? Boðaði það feigð? Eða átti það kannske öldungur, sem fór frá sjó í síðasta sinn og tók það upp til þess að þakka Barböru helgu fyrir vernd og varðveizlu á langri ævi? Skyldi hann það kannske eftir vísvitandi þarna í kapellunni? Var það þá gert í þakkarskyni? Eða var kominn nýr siður í land, svo að öruggast væri að láta ekki líkneski heilagra manna finnast í fórum sínum?
Við getum spurt og spurt. En heilög Barbara, gerð úr tálgusteini, horfir með heiðum svip og óræðum augum fram undan sér og svarar engu. Þó flytur hún, þar sem hún situr í skáp sínum í Þjóðminjasafni, með sér andblæ frá þjóðlífi, sem var, en er ekki lengur.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 16.12.1961, Kapellan í hrauninu og heilög Barbara – Ólafur þ. Kristjánsson, bls. 4-5 og 12.

Kapella

Kapellan 2022.

Öskjuholtsskjól

Gengið var með Jónatani Garðarssyni um nokkra skúta í landi Hvassahrauns, Straums og Þorbjarnarstaða. Byrjað var á að rölta upp í skúta í Öskjuholti með viðkomu í Virkinu undir Virkishólum, þaðan var haldið í skúta í Smalaskála, þaðan eftir Alfaraleiðinni yfir að Þorbjarnarstöðum, að Loftskúta (Grænudalaskúta) og stefnan tekin á Gránuskúta og síðan Kápuskjól og Kápuhelli í Jónshöfða með viðkomu í stóru Tobburétt (Grenigjárrétt) og litlu Tobburétt.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Virkið var nota til tilhleypinga í brundtíð.
Sunnan undir Öskjuholti, klofnum ílöngum hraunhól skammt ofan línuvegarins um Hvassahraun, er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið sást vel hvar hlaðið hafði verið efst fyrir skútann, en að utan er vel gróið yfir hleðsluna. Um er að ræða lágt, en rúmgott fjárskjól. Innst undir hlöðnum veggnum voru nokkur bein. Erfitt er að koma auga á opið, nema komið sé að holtinu úr suðri.
Á Smalaskálahæð er varða. Önnur er norðar og sú þriðja skammt austar. Sunnan undir holtinu, sem þar er miðsvæðis er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið blasti við rúmgott fjárskjól. Fyrirhleðsla er innar í því til að varna fé áframhaldandi för inn eftir hvolfinu. Skjólið er nokkuð þurrt. Nokkrir smalaskálar eru í hraununum. Yfirleitt var nafnið notað um skála eða skjól, en það virðist ekki eiga við á Reykjanesskaganum. Þar virðist heitið hafa verið notað um hæðir, nema nöfnin hafi verið tengd hæðum með skjólum í, líkt og þarna.
Skoðaðar voru landamerkjavörður milli Hvassahrauns og Lónakots sem og leiðarvörður við Alfaraleiðina og komið við í Loftskúta, fallegu fjárskjóli. Þar eru og sagnir um að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpnafeng sinn er þeir voru við veiðar í hrauninu.
Nokkur leit hefur verið gerð að Gránuskúta, Kápuskjóli og Kápuhelli, en tveimur þeirra er lýst í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var um heimatún Þorbjarnastaða, rústir síðasta torfbæjarins í landi Hafnarfjarðar. Búið var að Þorbjarnastöðum fram undir seinna stríð (1940). Þar bjuggu síðast Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Guðmundssonar á Setbergi, og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Þau eignuðust 11 börn – og það þótt húsbóndinn hafi yfirleitt verið fjari bæ til að afla lífsviðurværis. Það færi vel að gera bæinn upp og hafa hann til sýnis sem dæmi um slíka bæi er voru víða í umdæminu. Hann hefur allt til að bera; heimagarð, vörlsugarð, heimtröð, brunn, selstíg, stekk og fjárskjól.
Gránuskúti er ekki auðfundinn. Hann er sunnan við Þorbjarnastaði, austan Miðmundarhæðrar. Falleg hleðsla er um munnann, en þegar inn er komið tekur við flórað gólf að hluta og fyrirhleðslur. Skjólið er mjög rúmgott og hefur verið vel lagfært. Þá er það óvenjuþurrt. Grána gæti verið nafn á á frá Þorbjarnarstöðum, líkt og Grákolla í frásögninni af Arngrímshelli í Klofningum, þeirri er allt fé Krýsuvíkurbænda átti að hafa verið komið frá.
Haldið var upp í gegnum Selhraun og upp í stóru Tobburétt í Grenigjá. Um er að ræða fallegar hleðslur í og um gjána. Greni er skammt norðan við hana. Steintröll vakir yfir gjánum. Svæðið er allvel gróið. Austar er litla Tobburétt. Gengið var að henni í bakaleiðinni.

Tobburétt

Tobba við Tobburétt.

Straumsselsstígnum var fylgt upp í Jónshöfða. Þar í Laufhrauni komu bæði Kápuskjól og Kápuhellir í ljós. Þessa skúta er einnig erfitt að finna. Lítil varða er á höfðanum ofan við skjólin. Hún er á landamerkum Þorbjarnarstaða og Straums. Skjólið er í landi Straums, en hellirinn í landi Þorbjarnastaða. Fallegar fyrirhleðslur er fyrir þeim báðum. Hellirinn er heldur stærri. Fjárkyn Þorkels á Þorbjarnastöðum var sagt kápótt og þótti allsérstakt. Þá var það ferhyrnt og snúið upp á hornin, sem einnig þótti sérstakt.
Straumsselsstíg var fylgt niður að litlu Tobburétt í Tobbuklettum. Fyrirhleðsla er í stórri hraunsprungu, en ef vel er að gáð má sjá að hlaðinn bogadreginn veggur hefur verið framan við hana. Hann hefur verið leiðigarður fyrir fé, sem rekið var að réttinni að ofanverðu. Stígurinn liggur nú í gegnum garðinn. Þegar horft var á þverklett sprungunnar mátti vel sjá móta fyrir andliti í honum. Ekki er ólíklegt að ætla að álfarnir hafi viljað með því láta vita af tilvist sinni á svæðinu með þeim skilaboðum að fólki gæti þar varfærni.
Annars eru álfa- og huldufólksáminningar víða í hraununum. Þeir, sem gaumgæfa og kunna að lesa landið vita og þekkja skilaboðin. Þegar farið er eftir þeim er engin hætta búin, en ef einhver gleymir sér að er ólæs á landið – guð hjálpi honum.
Gengið var til baka eftir Straumsselsstíg í gegnum Selhraunið og niður að Þorbjarnastöðum.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.