Suðurnes

Þegar gengið er um Suðurnes norðvestast á Seltjarnarnesi ber margt forvitnilegt fyrir augu.
Golfvöllur þarlendra er á Nesinu, en umleikis hann með allri ströndinni er göngustígur sem varinn Sudurnes-222hefur verið með sjóvarnargarði svo Mar geti ekki gengið upp á völlinn. Á vefsíðu golfklúbssins Ness sést m.a. þetta um svæðið: “Í upphafi var golfvallarstæðið á helmingi Suðurnessins, suðvestur hluta þess. Túnin höfðu verið nýtt af hestamönnum. Vestast á Suðurnesi við innsiglingarmerki sem þá var uppistandandi, voru öskuhaugar Seltjarnarnesbæjar. Þar sem nú er önnur braut var æfingaskýli lögreglunar sem þá stundaði handtöku- og skotæfingar þar. Á núverandi æfingarsvæði voru fiskverkunartrönur og hesthús voru við Daltjörn.”
Sudurnes-223Þegar skoðað er aðalskipulag Seltjarnarness 2006-2024 má sjá að Suðurnes þetta er í raun eyja tengt landi með granda eða samföstum gröndum; Bakkagranda í suðri og Kotagranda í norðri. Utan við hinn síðarnefnda er Seltjörnin en Bakkavík við hinn fyrrnefnda. Helstu örnefnin á Suðurnesi eru, ef gengið er réttsælis með Bakkavík, Leirur og suðvestast Suðurnestangi. Innan við tangann er Búðatjörn. Norðvestar er Helguvík og Urðin nyrst. Á henni voru sjóbúðir fyrrum sem síðar verða nefndar. Á miðju Suðurnesi var Réttin og norðan hennar Dældir eða Dalurinn. Bakkatjörn er framar, milli grandanna fyrrnefndu.
Lionsklúbbur Seltjarnarness hefur komið upp nokkrum upplýsingastólpum á strandleiðinni. Við Búðatjörnina stendur: “Búðatjörn (Fúlatjörn) – Fjaran suðaustan við trjörnina heitir Búðagrandi og sunnan við hana hafa staðið verbúðir eins og  Morastaðabúð, Hannesarbúð og Stórabúð. Tanginn út frá Búðagranda heitir Suðurnestangi”.

Sudurnes-226

Við vörðu á Urðinni stendur: “Fyrst var reist hér varða eða sundmerki um 1780 til þess að auðvelda siglingu um Valhnúkasund. Endurreist oftar en einu sinni, síðast í atvinnubótavinnu 1930. Varðan eyðilagðist í stórviðri í febrúar 1996”.
Í Morgunblaðinu 26. október árið 1990 er fjallað um endurhleðslu leiðarmerkisins: “Viðgerð á leiðarmerkinu í Suðurnesi á Seltjarnarnesi er lokið. Nesskip hf. og Björgunarsveitin Albert gerðu með sér samkomulag um viðgerð á vörðunni sem var að hruni komin. Leiðarmerkið í Suðurnesi er merkt inn á sjókort sem gerð voru á seinni hluta 18. aldar. Danskur sjómælingamaður, kapteinn H. Mi nor, notaði leiðarmerkið í Suðurnesi sem mælingapunkt þegar hann var við sjómælingar á innanverðum Faxaflóa sumarið 1776.

Sudurnes-224

[Árið] 1930 fór fram umtalsverð viðgerð á innsiglingarvörðunni, en verkinu stjórnaði Albert vitavörður í Gróttu. Björgunarsveitin Albert á Seltjarnarnesi, sem ber nafn vitavarðarins í Gróttu, stóð hins vegar að viðgerð vörðunnar nú, 60 árum síðar. Seltjarnarneskaupstaður hefur ákveðið að laga umhverfi vörðunnar og tryggja að ágangur sjávar brjóti hana ekki niður aftur.” Nú var að að sjá að enn einni viðgerðinni væri nýlokið.
Skammt utar (norðar) er skilti: “Ljóskastarahús – Stríðsminjar frá seinni heimstyrjöld. Héðan var fylgst með umferð skipa og flugvéla”. Og þar rétt hjá: “Setlög – jökulberg. Efst í fjörunni eru setlög með skeljabrotum ofan á jökulrúnum grágrýtisklöppum. Setlögin eru talin vera frá síðasta hlýskeiði um 70 – 100 þús. ára gömul”. (Á skiltinu er mynd af hávellu).
Sudurnes-225Fremst, þar sem grandarnir mætast, er skilti með ljósmynd. Á því eru öll helstu örnefni þegar horft er til norðurs yfir vestanvert Seltjarnarnes.
Í örnefnalýsingu fyrir Seltjarnarnes skráða eftir Kjartani Einarssyni á Tjarnarbóli 4, f: 1914, árið 1976, kemur m.a. eftirfarandi fram um Suðurnes: “Mótekja var neðan við Bakkagranda en ekki hægt að taka hann nema um fjöru. Seinast var þar tekinn mór 1939. Í honum voru stórir lurkar, lærissverir.
Nesið fyrir vestan, sem byrjaði áður fyrr við Ósinn, kallst Suðurnes. Hæsti blettur á því er Svartibakki, að austan við sjóinn. Leirur voru nefndar fram af útfalli Óssins. Á þeim voru maðkafjörur Framnesinga, þ.e. þeirra sem áttu heima vestan Þvergarðs. Syðst á Suðurnesi er Búðatjörn. Í daglegu tali var hún nefnd Fúlatjörn; í henni safnaðist fyrir þari, sem úldnaði. Vestan við tjörnina voru Búðir. Þrjú nöfn voru notuð, svo að Kjartan vissi til, Morastaðabúð, Hannesarbúð og Stórabúð, talið frá austri. Grandinn austan við Búðatjörn heitir Búðagrandi og tanginn út frá honum Suðurnestangi. Skerið víkurmegin við hann nefnist Selsker. Vík suðvestan á nesinu nefnist Helguvík. Lítið sér nú fyrir henni. Frá henni er svokölluð Urð, sem nær alla leið að Seltjarnarrifi. Vestast á (í) nesinu er innsiglingarmerki, hlaðin grjótvarða, sem nefnist Suðurnesvarða. Í suðvestur af henni er sker, sem nefnist Kerlingasker. <

Sudurnes-227

Sú saga er um nafnið, að Seltirningar hafi eitt sinn farið í róður og haft kerlingu nokkra með sér, sveitarómaga. Hún átti að tína öðu í beitu á skerinu, meðan þeir skryppu úr á Svið. Þeir voru lengur í róðrinum en þeir hugðu, og þegar þeir komu aftur, var kerlingin flotin af skerinu. Sker, sem heitir Keppur, er suðaustur af Kerlingarskeri, kemur upp um stórstraumsfjöru.
Um það bil á (í) miðju Suðurnesi er merki, sem landmælingamenn danska herforningaráðsins settu upp [í byrjun 20. aldar]. Við það var svonefnd Rétt, fjárrétt, sem síðast var notuð 1930. Þar var haft í kvíum frá Hrólfsskála um 1880. Nokkur lægð er austarlega á Suðurnesi. Hún nefnist Dældir, í seinni tíð stundum kölluð Dalur. Það er smátjörn, sem áður fyrr hafði útfall í Ósinn.
Sudurnes-228Grandinn, sem liggur vestan á Seltjarnarnesi, nefnist Kotagrandi. Hann er milli Bakkatjarnar og Seltjarnar, sem nú er komin í sjó. Geta má þess, að á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar frá 1835 er Bakkatjörn nefnd Seltjörn. Utan við Seltjörn liggur Seltjarnarrifið, sem áður er getið”.
Í nefndri örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir um Suðurnes: “Sunnan hennar [Bakkatjarnar] heitir Bakkagrandi, malarkamburinn, sem þar er, og gegnum hann er Ós. Vestan við Bakkatjörn er svo annar skerjagrandi, sem heitir Kotagrandi.  Hann er milli Bakkatjarnar og Seltjarnar. Kotagrandinn liggur út í grasi vaxið landssvæði, ekki stórt um sig, sem heitir Suðurnes.  Þetta er láglent svæði frekar; norðaustur úr því liggur langt rif, sem heitir Suðurnesrif.  Það eru leifar þess lands, er eitt sinn myndaði Seltjörnina að norðvestan. Syðst á Suðurnesi er Búðatjörn og fram af henni er Búðagrandi; þar sem koma saman grandarnir, Bakkagrandi og Kotagrandi, er forarvilpa, sem heitir Dalur.

Sudurnes-229

Norðan við Búðatjörn eru gamlar sjóbúðir.  Þarna voru 1703 þrjár búðir: Stórabúð, Morastaðabúð, Hannesarbúð. Vestast í nesinu er Suðurnesvarða, nýlega hlaðin upp, og er innsiglingarmerki á Skerjafjörð. Svo var uppi á hánesinu Rétt og gerði í hring.”
Í bréfi um matsskyldu vegna fyrirhugaðra sjóvarnargarða á Suðurnesi má m.a. lesa eftirfarandi um jarðmyndanir, fuglalíf o.fl.: “Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að innan fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis sé að finna merkar jarðfræðiminjar, þ.e. jarðlög með skeljaleifum frá síðasta hlýskeiði ísaldar og ísaldarlokum m.a. í víkinni inn af Svörtubökkum. Fyllt hafi verið yfir setlögin að hluta til og sandur hylji þau að einhverju leyti við núverandi sjóvarnargarða en setlögin verði sýnileg þegar fjari út. Ef umfang sjóvarnargarða aukist megi búast við því að sá hluti fjörunnar þar sem sandur safnist fyrir færist utar og þar með muni meira af setlögunum hyljast sandi. Með því verði bæði þrengt að setlögunum sjálfum og fjörumónum. Fram kemur að setlögin séu aðgengileg og gegni hlutverki við kennslu í Háskóla Íslands, sem og við komu erlendra rannsóknarhópa til landsins. Á kaflanum frá miðjum „tanganum” við austurhluta golfvallarsvæðisins og út með víkinni inn af Svörtubökkum. Fram kemur að við ljóskastarahúsið, á um 100 m breiðu svæði, sé að finna merkileg setlög með steingervingum og jökulrákaðar klappir. Á þeim kafla sé mikilvægt að fláar fyrirhugaðrar sjóvarnar nái ekki lengra niður í fjöruna en núverandi sjóvörn.

Sudurnes-230

Umhverfisstofnun telur að fyrirhugaðar framkvæmdir geti haft umtalsverð áhrif á merkar jarðfræðiminjar ef farið verði með fyllingu og grjótvörn lengra út í fjöruna. Setlög með steingervingum er að finna í fjörunni. Það sama eigi við um 100 m breitt belti neðan við Ljóskastarahúsið ef hækkun sjóvarna hafi í för með sér að grjótvörn nái lengra niður í fjöruna.
Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram aðí  Bakkavík sé auðugt smádýralíf og í víkinni sé mikilvægt fæðuöflunarsvæði fugla og því beri að leggja áherslu á að eins litlu fjörusvæði verði raskað við framkvæmdirnar og kostur sé. Bent er á að ef sandsvæði í fjörunni færist utar í kjölfar fyllingar geti það haft áhrif á fæðuöflunarsvæði fugla. Umhverfisstofnun bendir á að þarna séu einnig flóðsetur og hvíldarstaðir fugla, sem og fæðuöflunarsvæði auk þess sem varpstaðir kríu við Búðatjörn séu við framkvæmdasvæðið. Á þessu svæði sé því einnig mikilvægt að halda öllu jarðraski í lágmarki og athuga hvort ekki megi draga úr fyrirhuguðu umfangi grjótvarnar.
Fram kemur að til að tryggja leið andfugla frá varpstöðvum til sjávar telji Umhverfisstofnun að vænlegast sé að koma fyrir sniðbrautum á Sudurnes-231görðunum.”
Þótt ekki sé um langan hringveg að fara um Suðurnes er leiðin sérstaklega skemmtileg, ekki síst vegna framangreindra minja, fuglalífs og jarðlaga að ógleymdu útsýninu yfir hafflötinn við æði misjöfn birtustig.
Þegar hringleiðin var gengin í aprílmánuði fylltu margæsir á leið þeirra til Grænlands og Kanada golfvallaflatirnar og nálægar tjarnir. Allt umleikir spígsporuðu vorboðarnir, auk fjölda annarra ágætra fargesta. Þrátt fyrir ánægjuaugað verður að segjast eins og er að það er synd að verbúðirnar framangreindu skulu hafa farið forgörðum vegna augnabliks andvararleysis fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Kjartans Einarssonar.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Mbl föstudaginn 26. október, 1990, leiðarmerki endurhlaðið.
-Endurbætur á sjóvarnargörðum á Suðurnesi, Seltjarnarnesi. Ákvörðun um matsskyldu, Skipulagsstofnun 2004.
-nkgolf.is

Grótta

Grótta.