Færslur

Stórasel

“Nafn býlisins Sels bendir til þess, að þar hafi upphaflega verið selstaða frá Vík.“ Áður fyrr voru stundum útihús í högum oft langt frá bæjum, þar sem búfénaður var látinn ganga á sumrum. Slík hús voru nefnd sel og var þetta kallað að hafa í seli.
Storasel 201Árið 1367 er Sel talið sem eign Jónskirkju postula í Vík, samkvæmt Hítardalsbók. Litlum sögum fer af Seli næstu aldirnar. Í Jarðbókinni frá 1703 er jarðadýrleiki óviss, ábúandi er einn Ólafur Benediktsson. Heimilismenn 8 og níundi heilsuveikur mágur bóndans, torfrista, stunga og móskurður í Víkurlandi frí. Heimræði er árið um kring og lending sæmileg, ganga skip ábúandans eftir hentugleikum.
Jarðardýrleki er en óviss um 1835-1845 þegar Johnsen skráir, en þá er Bráðræði skráð sem hjáleiga Sels. 1803 segir fyrst frá Bráðræði, sem hjáleigu frá Seli, og Litla-Sel nefnir bæjarfógeti einn, sem hjáleigu þaðan. Prestur telur 5 býli á öllu Seli, en bæjarfógeti telur eigi ábúendur. Prestur, en enginn annar telur Sauðagerði með 5 býlum.
Seint á 18. öld bjó í Seli Þorfinnur Þorbjarnarson frá Skildinganesi. Hann var lögréttumaður um skeið og er þess getið í heimildum að hann hafi setið á Alþingi á tímabilinu 1787-1793. Með konungsúrskurði 1809 var ákveðið að prestsetur skyldi vera í Seli. Þangað fluttist Brynjólfur Sigurðsson (Sívertsen) dómkirkjuprestur (d. 1837). Sel var innlimað í Reykjavík 1835. Það átti jarðamörk að Hlíðarhúsum og Reykjavík. Sels bæirnir voru síðast fimm. Á lóðinni Holtsgata 41b stendur Stóraselsbærinn enn, reistur um 1885. Ívarssel, nú Vesturgata 66b, reis um 1870. Litlasel og Jórusel eru sambyggð hús á lóðinni Vesturgata 61. Litlasel mun vera reist fyrir aldamót en Jórusel síðar.
Litlasel 201Hér voru varir, Litla-Selsvör, og aðeins suðvestar, norðan við Sóttvarnarhúsið, sem nú er Mið- Selsvör, suðvestan hennar er svo Stóra-Selsvör, og Lágholtstangi gengur hér fram í sjó.
Á mbl.is árið 2005 segir eftirfarandi: “ÍVARSSEL kvaddi Vesturgötuna í nótt. Húsið þurfti að víkja af sinni upprunalegu lóð vegna fyrirhugaðs deiliskipulags á svæðinu. Húsið, sem var byggt árið 1869, var flutt á Árbæjarsafnið þar sem það mun standa sem sýningarhús.
Ívarssel var einn af Selsbæjunum svokölluðu en hinir nefndust Stórasel, Litlasel og Jórunnarsel. Húsið mun vera elsta hús í vesturbæ Reykjavíkur, vestan Garðastrætis.
Þau tómthúsbýli sem byggðust upp í landi Sels drógu mörg nafn af heimajörðinni og breyttist nafn Sels þá í Stórasel. Selsbæirnir voru síðast taldir fimm og voru, auk Stórasels, Miðsel, Litlasel, Jórunnarsel og Ívarssel. Síðasta bæjarhús Stórasels, steinbær sem reistur var 1884, stendur enn á lóðinni Holtsgötu 41b. Einn ábúandi var í Seli 1703. Heimili í Stóra-Seli voru 3 samkvæmt manntalinu 1845 og er eitt af þeim Pálshús. Steinbærinn frá 1884 stendur enn á dálítilli torfu á sameiginlegri baklóð Sólvallagötu 80-84, Ánanausta 15 og Holtsgötu 31-41. Er stærstur hluti bakgarðsins tekinn undir bílastæði og virðist Jorunnarsel 201hann hafa verið lækkaður eitthvað ef miðað er við hæð torfunnar sem bærinn stendur á. Sé um að ræða elsta bæjarstæði Sels, þá verður það að teljast nokkuð raskað, en vegna þeirrar torfu sem enn er eftir í kringum steinbæinn og að um er að ræða bæ með nokkuð langa búsetu er mögulegt að enn geti verið að finna nokkuð þykk mannvistarlög á þessum slóðum.
Býlin Litlasel og Miðsel munu hafa byggst upp í tíð Steingríms Ólafssonar sem var bóndi á Seli í kringum 1840. Litlasels er fyrst getið sem hjáleigu frá Seli í jarðalista bæjarfógeta frá árinu 1844. Árið 1848 var sonur Steingríms, Ólafur, talinn eigandi að þeim hluta Selslands þar sem Litlasel var byggt. Á Litlaseli munu um tíma hafa verið mörg býli og bjó Ólafur Steingrímsson á einu þeirra, á öðru Jakob bróðir hans, á þriðja býlinu bræðurnir Jón og Grímur Guðnasynir og á því fjórða Ívar Jónatansson, en það býli var alltaf kallað Ívarssel til aðgreiningar frá hinum. Árið 1881 byggði Magnús Pálsson tómthúsmaður timburhús rétt suðvestan við bæinn á Litlaseli sem síðar var kennt við Jórunni Eiríksdóttur ekkju og kallað Jórunnarsel. Þremur árum síðar reisti Grímur Jakobsson íbúðarhús úr bindingi og múrsteini austan við Litlasel, nálægt því þar sem Vesturgata og Seljavegur mætast nú. Ivarssel 201Árið 1885 seldi Ólafur Steingrímsson syni sínum, Guðmundi Kristni Ólafssyni skipstjóra, hálfan Litlaselsbæinn og fjórum árum síðar fékk Guðmundur leyfi til að „byggja um bæ sinn á sama stað og með sama lagi og áður“. Þá byggði hann steinbæinn sem enn stendur á lóðinni.
Árið 1895 seldi Guðmundur eign sína Sigurði Einarssyni útvegsbónda. Tíu árum síðar var Sigurður látinn en ekkja hans, Sigríður Jafetsdóttir, bjó enn í Litlaseli ásamt dætrum þeirra. Litlasel var þá einnig heimili Magnúsar Einarssonar og fjölskyldu hans en í Jórunnarseli bjuggu Jóhann Þorbjörnsson tómthúsmaður, Halldóra kona hans og tveir synir. Árið 1913 seldi Sigríður Jafetsdóttir eign sína Karveli Friðrikssyni sjómanni og árið 1924 voru Litlasel og Jórunnarsel virt saman sem húseign hans. Ári síðar lét ekkja Karvels, Guðbjörg Kristjánsdóttir, stækka og endurbæta Litlasel og var þá innréttuð sérstök íbúð í risinu. Árið 1935 eignuðust Axel R. Magnússen og Margrét Ólafsdóttir húsin að Vesturgötu 61 og bjuggu þar síðan lengi og afkomendur þeirra eftir þau. Á síðari hluta 19. aldar og fram á 20. öld höfðu íbúar Litlasels og Jórunnarsels flestir framfæri sitt af fiskveiðum, líkt og ábúendur hinna Selsbæjanna. Þeir sem gerðu út árabáta réru frá þremur vörum á þessum slóðum, Litlaselsvör sem var rétt neðan við vesturenda Vesturgötu, Miðselsvör dálítið suðvestar, neðan Miðselstúns, og Stóraselsvör enn suðvestar, þar sem göturnar Hringbraut og Eiðsgrandi mætast nú. Ekki er ljóst hvort húsin frá 1881 og 1889 sem eru númer 61 við Vesturgötu eru á elsta bæjarstæði Litla-Sels. Þó má gera því skóna að þau séu á svipuðum slóðum ef marka má textann úr skráningargögnum Minjasafns Reykjavíkur hér að framan þar sem segir að þau hafi verið byggð „á sama stað og með sama lagi” og eldri bæir.
Miðsel, steinhús reist 1874, er nú horfið en stóð þar sem nú er húsið nr.19 við Seljaveg… Býlin Litlasel og Miðsel munu hafa byggst upp í tíð Steingríms Ólafssonar sem var bóndi á Seli í kringum 1840. Eru örlitlar líkur á að einhverjar leifar Miðselsbæjarins sé að finna í bakgarðinum fyrir aftan Seljaveg 19 eða í götunni fyrir framan húsið.”

Heimildir:
-mbl.is, 4. maí 2005 (lesið 14. mars 2012).
-Húsakönnun, drífa Kristín Þrastardóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Minjasafn Reykjavíkur 2007.
-Páll Líndal, Reykjavík. Sögustaðir við Sund. 3 bindi, bls.38.
-Íslenskt fornbréfasafn III. bindi, bls.220.
-J.Johnsen. Jarðatal, bls.121..neðanmálsgrein.
-Pál Líndal. Reykjavík. Sögustaður við Sund. 3. bindi, bls. 39.
-Vigfús Guðmundsson (1936).
-Ari Gíslason. Örnefnaskrá Reykjavíkur og Seltjarnarnes.
-Drífa Kristín Þrastardóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir. Húsakönnun. Seljavegur-Ánanaust-Holtsgata-Vesturgata. Minjasafn Reykjavíkur. Skýrsla nr. 135, bls. 10-11.
-J. Johnsen: Jarðatal á Íslandi, bls. 121, 462.
-Jón Helgason: Reykjavík. Þættir og myndir úr sögu bæjarins 1786-1936, bls. 47.
-Klemens Jónsson: Saga Reykjavíkur. 1. bindi, bls. 269.
-Guðjón Friðriksson: Indæla Reykjavík, bls. 79.
-Borgarskjalasafn: Skjöl byggingarfulltrúa (B) fyrir Vesturgötu 61 (B-nr. 1560) – Borgarskjalasafn: Aðf. 751-757. Brunatrygging húsa 1896-1943 (Br.nr. 200 og 327;; – -Guðjón Friðriksson: Indæla Reykjavík, bls. 79.
-Ágúst Jósefsson (1959) Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, bls. 85 -Ari Gíslason. Örnefnaskrá Reykjavíkur og Seltjarnarness –Páll Líndal. Reykjavík. Sögustaður við Sund. 4. bindi, Lykilbók, bls. 66-67.
-Guðjón Friðriksson (1991). Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar. 1870-1940. Fyrri hluti, bls. 87.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 3. bindi. Gullbringu- og Kjósarsýsla, bls. 252.
-Borgarskjalasafn: Skjöl byggingarfulltrúa (B) fyrir Vesturgötu 61 (B-nr.1560).

Sel

Heimildir eru um Sel frá 14. öld og var það lengst af kirkjujörð auk þess sem útræði var mikið úr Selsvör, enda upphaflega um sel frá Víkurbænum að ræða. Bærinn var síðar oft nefndur Stóra-Sel. Steinbær var reistur þar árið 1884 sem stendur enn.
Uppdráttur Hoffgards frá árinu 1715 sýnir m.a. Sel enda eitt af höfuðbýlum á þessu svæði og prestsetur. Nýlegar fornleifarannsóknir sýna að undir steinbænum eru leifar af torfbæ. Selsbærinn stóð þar sem í dag er Holtsgata 41b.

Nes

Eftirfarandi frásögn um kirkjur við Nes á Seltjarnarnesi birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1995:
“Einn dag í lok júní árið 1791 var Hannes Finnsson Skálholtsbiskup á vísitasíuferð í Nes-22Seltjarnarneshreppi og hinum nýja kaupstað Reykjavík, sem aðeins var tæplega fimm ára. Biskup hafði verið í Laugarnesi og skoðað þar kirkju, skoðað framkvæmdirnar við Reykjavíkurkirkjuna nýju, sem nú átti að verða dómkirkja landsins. Þeim framkvæmdum miðaði svo hægt, að veggirnir voru ekki komnir upp að þakbrún, þó að liðin væru nú tvö ár frá því að þær hófust. Vorið hafði verið svo kalt, að frost fór ekki úr jörðu um sumarið. Það voru því víða forarvilpur á leið biskups og sveina hans fram á Nesið að læknissetrinu. Hannes biskup hafði haft spurnir af því, að þar á staðnum væri fyrir 6 árum risin ágæt ný kirkja og hann vissi einnig að þeir konunglegu embættismenn, sem þar bjuggu, hðfðu verið örlátir í gjöfum sínum til byggingar þessa góða guðshúss.
Neskirkja hin nýja var í 8 stafgólfum, öll gerð af timbri, en fram af henni var klukknaport, sem átti fáa sína líka og bar það hæst, þegar menn komu Nes-8að staðnum. Það var litlu minna að formi en kirkjan sjálf, þrjár hæðir og toppur upp af, alls vel á 16. alin á hæð. Uppi á klukknaportinu blasti við vindhani, úthöggvinn í kopar og sat á járnstöng, sem þrjár kúlur eða smáhnettir voru festir við. Inni í portinu var stigi til þess að ganga upp í neðstu etagu portsins og þaðan frá annar laus til þess að stíga hærra. Fyrir portinu voru vængjahurðir á hjörum með skrá, lykli og sterkum, löngum járnkrókum og lykkjum til að skorða hurðarvængina með, þegar þeir stóðu opnir.
Í ársreikningum fyrir 1790 sá biskup, að kirkjan hafði enn tekjur af þriðjungi heimalands í Nesi og af jörðunum Bakka og Bygggarði svo sem verið hafði frá því um daga Vilchins biskups að minnsta kosti. Hún hafði einnig tekjur af ljóstollum og legkaup hafði verið greitt fyrir 3 fullorðna og 9 börn á þessu ári. Tekjustofnar kirkjunnar voru því traustir sem fyrr, en hún hafði safnað nokkrum skuldum vegna byggingar nýju kirkjunnar. Þá hafði ekkert komið á reikning kirkjunnar vegna byggingar klukknaportsins, heldur var hann að öllu leyti reistur á kostnað sóknarfólksins. Portið kostaði 79 rd. og 52 sk. og af því greiddi Björn Jónsson apótekari helminginn. Skuldir kirkjunnar námu alls um 200 ríkisdölum.
Nes-24Eftir að hafa litið yfir reikningana lá næst fyrir að ganga til kirkju og skoða hana að innan. Og hér sýndist allt í góðu ástandi. Kirkjudyrnar voru með stórri panelhurð á hjörum og annarri minni að innan. Í framkirkjunni var fjalagólf á öllum gangveginum en hellulagt til hliðar undir þversætunum, sem voru 9 að sunnan og 10 að norðan, öll með bekkjum, bríkum og þverslám. Allbjart var í kirkjunni, því að á framkirkjunni eru 3 gluggar á hvora hlið með sex rúðum hver og uppi yfir hverjum þeirra er annar minni með fjórum rúðum hver. Milli kirkju og kórs gat að líta hálfþil með pílárum yfír og á því dyr með súluformuðum dyrastöfum, allt málað. Þegar horft var yfir hálfþilið blasti altarið við og var það gert af panelverki með gráður fyrir og grindverki í kring. Yfir altarinu var prédikunarstóll, einnig af panelverki, málaður og gylltur og með himni yfir.

LOK KIRKJUHALDS Í NESI
Í kórnum voru 4 gluggar, tveir á hvora hlið. Innan af kórnum var skrúðhús í einu stafgólfi og lágu úr því dyr út til norðurs, en glergluggi var til hliðar með 4 rúðum. Biskup sá, að hálfþil, altari og prédikuarstóll höfðu verið í gömlu kirkjunni og fleira hafði verið notað úr henni.
Biskup gat séð af eldri vísitasíum, að kirkjan hafði verið allvel búin skrauti og skrúða og var það flest á sínum stað. Sumt hafði verið endurbætt frá síðustu vísitasíu eins og yfirdekkið á prédikunarstólsröndinni, sem danska yfirsetukonan hafði látið lagfæra á sinn kostnað. Frá síðustu vísitasíu hafði kirkjunni svo bætzt ágætur gripur, skírnarfontur með himni yfir, ágætt snikkaraverk og fylgdi útskorin dúfa. Þennan grip hafði velgjörðarmaður kirkjunnar, Björn Jónsson apótekari, gefið henni.
Síðasta verk Hannesar biskups í Nesi þennan júnídag 1791 var að skoða kirkjugarðinn og þar gat hann fundið að við sóknarbörnin, því að þau höfðu vanrækt að halda honum við og var veggur hans allur fallinn nema til vesturáttar og í útsuður, þar sem hann var nýuppbyggður af steini. Setti biskup sóknarmönnum það verk fyrir næstu Jónsmessu, að byggja upp kirkjugarðinn sómasamlega og hótaði sektum, ef ekki yrði að gert. Lauk svo þessari vísitasíu og þar með síðustu opinberu heimsókn biskups á hinn forna kirkjustað í Nesi við Seltjörn.

ELDRI KIRKJUR í NESI
Nes-9Í kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti frá því um 1200 er fyrst getið um kirkju í Nesi við Seltjörn og var hún helguð heilögum Nikulási. Kirkjan var prestsskyldarkirkja sem kallað var, en það þykir sýna, að Nes hafi verið í tölu stórbýla og kirkjan þá væntanlega átt einhverjar eignir, e.t.v. þriðjung úr landi Ness eins og hún átti samkvæmt fyrsta máldaga hennar, sem kunnur er, en það er Vilchinsmáldagi frá 1397. Nes var að fornu talin 120 hundraða jörð. Afar lítið má ráða af máldaganum frá 1397 um kirkjubygginguna í Nesi í lok 14. aldar. Þar er aðeins talað um tvo glerglugga á henni og hinn þriðja, sem sé brotinn. Hörður Ágústsson telur gluggafjöldann benda til þess, að kirkjan í Nesi þá hafi verið timburkirkja. Það vekur athygli, að samkvæmt þessum eina máldaga, sem til er úr kaþólskum sið, hefur Neskirkja verið mun auðugri að jörðum en kirkjan í Reykjavík. Þykir það benda til þess, að lengi hafi mun ríkari höfðingjar búið að Nesi en í Vík.
Í fyrstu máldagabók, sem til er í Skálholtsbiskups-dæmi eftir siðaskipti, og kennd er við Gísla biskup Jónsson, kemur fram, að jarðeignir kirkjunnar í Nesi eru hinar sömu og voru fyrir siðaskiptin. Hins vegar vekur athygli, að Neskirkja virðist nú fátæk orðin af skrúða og áhöldum (ornamenta og instrumenta). Aðeins eru nefnd fern messuklæði, tveir kaleikar og tvö altarisklæði. Kirkjan í Vík var í lok 16. aldar orðin auðugri af þessum lausu munum en Neskirkja. Við þetta vakna ýmsar spurningar eins þær, hvort Nes hafi orðið sérlega hart úti við eignaupptöku siðaskiptanna. Brynjólfur Sveinsson var biskup í Skálholti á 17. öld og hann vísiteraði kirkjuna í Nesi fjórum sinnum. Nes var þá restssetur og þar bjó séra Stefán Hallkelsson. Kirkjunni er svo lýst 1642, að hún sé stæðileg að máttarviðum í 6 stafgólfum, en vafalaust hefur hún að mestu verið úr torfi og grjóti. Tuttugu árum seinna var meistari Brynjólfur enn á ferðinni í Nesi og nú voru þau umskipti orðin, að séra Stefán Hallkelsson var andaður, en ekkja hans, Úlfhildur Jónsdóttir, hafði ábúð á jörðinni. Í vísitasíugerðinni kemur fram, að séra Stefán hafi látið byggja kirkjuna upp „sterka og stæðilega”. Segir biskup, að svo myndarlega hafi verið að uppbyggingunni staðið, að kirkjan sé fremur skuldug erfingjum séra Stefáns en þeir henni. Úlfhildur bætti síðan um betur árið 1675 og lét stækka kirkjuna og endurbyggja. Þórður biskup Þorláksson segir í vísitasíu sinni 1678, að kirkjan hafi fyrir þremur árum verið „uppsmíðuð af nýjum viðum og góðum kostum uppá kostnað Úlfhildar Jónsdóttur”. Þessari nýuppsmíðuðu kirkju er svo lýst, að hún sé í átta stafgólfum og hafi verið stækkuð um tvö. Má vera að kirkjan hafi verið svonefnd útbrotakirkja, en þær voru mjög fáar í landinu.
Utan að sjá hefur Úlfhildarkirkja verið stæðileg, því að sagt er, að grjótveggir hafi verið utan um hana „uppað miðjum hliðum allt annað torflaust”. Þá er þess getið, að vindskeiðar hafi sett svip sinn á húsið „bak og fyrir”.
Nes-10Árið 1703 var margt manna í Nesi. Þar bjó þá sýslumaðurinn Jón Eyjólfsson og hafði mikið umleikis. Ekki færri en 12 hjáleigur voru þá í byggð í Neslandi. Þetta ár manntalsins fræga vísiteraði Jón Vídalín Nes og segir um kirkjuna, að hún sé stæðilegt hús en „nokkuð tilgengin suður”. Næstu áratugi hrakaði kirkjunni smám saman og kemur þetta glöggt fram í hverri vísitasíunni á fætur annarri. Fyrsta heimsókn biskups í Nes, eftir að staðurinn varð landlæknissetur, var árið 1769, en þá var Finnur Jónsson á ferðinni. Sér þess stað í því, áð Bjarni Pálsson landlæknir hefur gefið kirkjunni skírnarfat úr messing „vel sæmilegt” og einnig Þorláksbiblíu í sæmilegu bandi. Annars er hann nú ábúandi í Nesi og því umsjónarmaður kirkjunnar. Segir biskup, að hann verði að láta endurbæta syðri kirkjuvegginn, sem nú sé að falli kominn.
Árið 1780 var Hannes Finnsson orðinn biskup í Skálholti. Hann vísiteraði Nes í ágúst þetta ár og kallar reyndar staðinn Læknisnes í vísitasíugerð sinni. Nú var Bjarni Pálsson dáinn, en nýr landlæknir var ekki tekinn við. Hins vegar var kominn apótekari í Nes, Björn Jónsson, og hann er sagður hafa gefið kirkjunni brauð og ljósmeti. Þá segir einnig frá því, að danska yfirsetukonan, mad. Margarete Cathrine Magnussen, hafi „þessu guðshúsi til prýði gefið … skírnarvatnskönnu af eingelsku tini”. Það kemur því greinilega fram, að kirkjan í Nesi hafði fengið góða styrktarmenn í embættisfólkinu á staðnum. Og fleiri höfðu styrkt hana síðustu árin, því að Hans Klog, kaupmaður í Vestmannaeyjum, hafði gefið málaða altaristöflu prýðilega með 2 colonner. Hannes biskup taldi upp það, sem kirkjunni hafði verið gefið og var auðvitað ánægður með það. En hann var ekki eins ánægður með ástand kirkjunnar sjálfrar, Úlfhildarkirkju frá 1675. Um það segir hann: „Húsið er víða gallað og aungvan vegin stæðilegt, hallt að veggjum,” og hann bætir við, að það þurfi að „uppbyggjast” svo stórt er hæfi söfnuðinum. Þá er hann einnig óánægður með ástand kirkjugarðsins og segir, að veggir
hans séu víða gjörfallnir. Við þetta bætist, að garðurinn sé of lítill „handa sóknarinnar
framliðnum til greftrunar” og þurfi að víkka hann út á næstunni. Þetta var skrifað um kirkju og kirkjugarð árið 1780. Nú er ekki nákvæmlega vitað um viðbrögð safnaðarins við þessum áminningum biskups, en árið eftir, 1781, tók Jón Sveinsson við embætti landlæknis. Hann og Björn Jónsson apótekari urðu fjárhaldsmenn kirkjunnar og þeir höfðu forystu um að reisa nýja kirkju í Nesi, þá sem kölluð var einhver prýðilegasta kirkja í Skálholtsstifti og áður var fjallað var um.

Nes-11Síðasta kirkja í Nesi, timburkirkjan góða, ein af fáum timburkirkjum á landinu, stóð aðeins í 14 ár, 1785-1799, og var síðustu tvö árin rúin helgi og að líkindum gripum sínum. Til þess að finna skýringar á þessu, verður að leita allt aftur til ársins 1784. Þá hrundu byggingar í Skálholti í jarðskjálfta og ákveðið var að flytja biskupsstól og skóla þaðan. Áðurnefndur biskup, Hannes Finnsson, bjó þó áfram í Skálholti til dauðadags 1796, en gert var ráð fyrir því, að biskup kæmi til með að búa í Reykjavík eða nágrenni. Því var ákveðið, að Reykjavíkurkirkja yrði dómkirkja, en hún var eigna- og tekjulítil kirkja og því þróaðist sú hugmynd hjá Ólafi Stefánssyni stiftamtmanni og Hannesi Finnssyni biskupi að leggja niður kirkjurnar í Laugarnesi og Nesi og láta eignir þeirra og tekjur af sóknarbörnum renna til dómkirkjunnar í Reykjavík. Sá var þó munur á þessum kirkjustóðum, að í Laugarnesi var gömul kirkja, komin að falli en í Nesi var ný kirkja. Það er 1793, sem þessi hugmynd kemur fram og í bréfi biskups til stiftamtmanns 5. september það ár segir, að leggja beri Laugarneskirkju niður og svo stutt sé á milli Neskirkju og dómkirkjunnar í Reykjavík, að hætta megi helgihaldi í Nesi. Segir biskup, að stiftamtmaður megi ráða ferðinni í þessu máli. Ekki verður vart mikilla bréfaskrifta um þetta mál næstu ár, en þó lætur Magnús Stephensen í það skína í Minnisvérðum tíðindum að íbúar í Nesi og aðrir hafi haft uppi einhver mótmæli. Á það ber raunar að líta, að Jón Sveinsson landlæknir hafði nokkru fyrr komið fram með þá hugmynd, að eignir Neskirkju rynnu til spítalahalds þar og Nesbúar sæktu kirkju í Reykjavík.
Ákvörðunin um lok kirkjuhalds í Nesi kom í formi konungsbréfs 26. mai 1797. Þar sagði, að Neskirkja á Seltjarnarnesi skuli afleggjast. Húsið skuli selja á uppboði og skuld kirkjunnar borgast af andvirðinu, en það sem umfram verði skuli leggjast til Reykjavíkurdómkirkju. Skrúði og áhöld kirkjunnar skuli gefin næstu fátækum kirkjum eftir ákvörðun biskups, en þá var Geir Vídalín, sem reyndar bjó á Lambastöðum, orðinn biskup. Sérstaklega er tekið fram, að klukkur kirkjunnar skuli selja á uppboði og andvirði þeirra renna til hjálpar fátækustu prestaköllum í stiftinu. Eignir Neskirkju og gjöld renni til dómkirkjunnar sem og sóknarmenn allir.
Ekki leið langur tími, þangað til farið var að framkvæma þetta konungsbréf og hefur síðasta guðsþjónustan væntanlega verið haldin í Neskirkju um mitt sumar 1797, því að 14. ágúst þetta ár var kirkjan seld á uppboði í Reykjavík. Það var Sigurður Pétursson sýslumaður og skáld, sem bauð upp tvær kirkjur þennan dag, því að hann seldi bæði Laugarneskirkju og Neskirkju. Fyrrnefnda kirkjan seldist á aðeins 17 ríkisdali og 56 skildinga, en Neskirkja á 125 ríkisdali og 48 skildinga. Það var Magnús Ormsson lyfjafræðingur og frá 1798 apótekari í Nesi, sem keypti kirkjuna. Skuld hennar við fjárhaldsmennina Jón Sveinsson og Björn Jónsson var þá 91 ríkisdalur og 72 skildingar og fengu þeir það fé greitt, en afgangurinn, 33 ríkisdalir og 72 skildingar, rann til dómkirkjunnar í Reykjavík, eins og mælt var fyrir um í konungsbréfi. Sigurður Pétursson afhenti fjárhaldsmönnum dómkirkjunnar þessa peninga. Hvergi er getið um uppboð á klukkum kirkjunnar og ekki verður séð, hvað orðið hefur um skrúða hennar og áhöld.
En hvað ætlaði Magnús Ormsson sér með kirkjuna? Þetta er ekki ljóst, en gott timbur mátti auðvitað nota til margs. Hins vegar er þess getið í bréfum Magnúsar og Jóns Sveinssonar til stiftamtmanns um lyfjamál í ágúst 1798, ári eftir að kirkjan var seld, að hún hafi verið notuð til þess að þurrka lækningajurtir fyrir apótekið.
En nú leið aðeins tæpt hálft ár, þar til æðri máttarvöld bundu enda á niðurlægingu Neskirkju við Seltjörn og það með eftirminnilegum hætti. Þetta gerðist aðfaranótt 9. janúar 1799, en þá brast á ofsaveður fyrst á landsunnan en síðan á útsunnan. Í þessu svokallaða Bátsendaveðri urðu gífurlegar skemmdir af völdum sjávarflóða og tvær kirkjur fuku, Hvalsneskirkja og Neskirkja, sem er sögð hafa fokið í heilu lagi af grunni sínum og dreifðist brakið viða um Framnesið. Það er óneitanlega dálítið skrítið, að það er fyrst tveimur dögum eftir veðrið mikla, 9. janúar, sem Ólafur Stefánsson stiftamtmaður í Viðey sezt niður og skrifar yfirvöldum í Kaupmannahöfn um það, að búið sé að framkvæma þann vilja þeirra að selja Neskirkju. Hitt er svo annað mál, að auðvitað voru það íslenzk yfirvöld, Ólafur sjálfur og biskuparnir Hannes Finnsson og Geir Vídalín, sem réðu því, að þetta ágæta guðshús var selt og lenti síðan í niðurníðslu.

EFTIRMÁLI
Nes-12Nú skortir aðeins tæp tvö ár í það, að 200 ár séu liðin frá því að síðast var messað kirkjunni í Nesi við Seltjörn. Eftir að hún var horfin, fóru Nesbúar að sjálfsögðu að sækja messur til Reykjavíkur og Seltirningar áttu þar lengi sæti í sóknarnefndum. Þeir héldu þó um hríð tryggð við kirkjugarð sinn í Nesi og voru menn greftraðir þar að minnsta kosti til 1813. Meðal þeirra, sem bornir voru þar til grafar, eftir að helgihaldi lauk í Nesi, var Björn Jónsson apótekari, velgerðarmaður kirkjunnar. Hann var jarðsettur í Neskirkjugarði í október 1798. Er hann er í kirkjubók sagður hafa verið „góður maður og guðhræddur” og því bætt við með nokkurri lotningu, að hann hafi verið „fyrsti Apótekari
Íslendinga”.
Eftir því sem leið á 19. öld hefur fyrnzt yfir minjar um Nes sem kirkjustað. Árið 1890 segir Jónas Jónassen landlæknir, að kirkjugarðurinn gamli sé orðinn að kálgarði. Þegar að því dró um 1975, að í Nesi yrði safnsvæði helgað læknisfræði og lyfjafræði, vissu fróðustu menn, eins og Jón Steffensen prófessor og velgjörðarmaður Ness, ekki um staðsetningu síðustu kirkjunnar þar eða umfang kirkjugarðsins, þar sem forvígismenn þessara fræða beggja á Íslandi, Bjarni Pálsson, fyrsti landlæknirinn og Björn Jónsson, „fyrsti Apótekari Íslendinga”, liggja grafnir. Vitað er, að Bjarni Pálsson var grafinn innan við kirkjudyr í síðustu kirkjunni í Nesi. Auðvelt er því að merkja og kynna
legstað hans, ef síðasta kirkjustæðið fyndist.
Til þess að leggja traustari grunn að minjasvæðinu í Nesi, gekkst Rótarýklúbbur Seltjarnarness fyrir því, með stuðningi bæjarsjóðs Seltjarnarness og Læknafélags Íslands, að reyna með nýtízku aðferðum að finna kirkjustæðið. Klúbburinn hugðist síðan merkja það og láta umfang kirkjugarðsins koma fram með viðeigandi hætti. Minningu kirkjuhalds í Nesi og kirkjuhaldara þar úr hópi lækna og apótekara yrði því haldið á loft.
Vorið 1994 fékk Rótarýklúbburinn fyrirtækið Línuhönnun til þess að framkvæma þessa rannsókn með svokallaðri jarðsjá, en sérfræðingar í notkun hennar eru Þorgeir Helgason jarðfræðingur og Sigurjón Páll Ísaksson mælingamaður. Er skemmst frá því að segja, að rannsókn þeirra félaga leiddi til mjög ákveðinnar niðurstöðu um staðsetningu síðustu kirkjunnar í Nesi og sterkra ábendinga um umfang kirkjugarðs. Vakti rannsókn þessi töluverða athygli og þótti gefa vonir um, að jarðsjárrannsóknir mundu framvegis hjálpa fornleifafræðingum til þess að komast á sporið til frekari kannana á fornum minjasvæðum víðs vegar um land. Í framhaldi af þessu veitti bæjarsjóður Seltjarnarness fjármunum til þess að vinna að fornleifarannsóknum í Nesi og þá m.a. að því að athuga þann stað, þar sem jarðsjárrannsóknin benti til, að undirstöður síðustu kirkjunnar væru og þar með legstaður fyrsta landlæknisins. Þessi staður reyndist vera inni á einkalóð.
En nú bar ýmislegt til tíðinda. Áhugi fornleifafræðinganna reyndist takmarkaður á þessu verkefni, enda virðist algengt nú um stundir, þeirra á meðal, að ekki megi leita að einhverju ákveðnu, heldur eigi fræðimenn í þessari stétt ávallt að koma að óplægðum akri, ef svo mætti segja.
Rothöggið á framhald leitarinnar að kirkjustæðinu í Nesi kom svo með þeim hætti, að landeigandi neitaði um leyfi til þess að grafa könnunarskurð inni á lóð sinni og bætti síðan um betur með því að flytja til grjótgarð einn gamlan og þar með girða kirkjustæðið og legstað fyrsta landlæknisins frá safnasvæðinu í Nesi. Hvorttveggja er þannig nú í einkaeign og almenningi óaðgengilegt.”
Grein þessi er að hluta áður birt í Seltirningabók.
Þessa dagana (jan. 2012) er verið að “endurgera” svonefnda Þorláksbúð í Skálholti. Ef sanngirnis væri gætt mætti vel hugsa sér að endurgera Úlfhildarkirkju sem og nokkrar tugi annarra sambærilegra á landinu, ekki síður merkilegar.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, Heimir Þoreifsson, 18. des. 1995, bls. 40-41.
-Kristín Halla Baldvinsdóttir, Búseta í Nesi 1760-1900. Miðlun rannsókna (Seltjarnarnes, 2009).
-Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, Fornleifarannsókn við Nesstofu 1989 Þjóðminjasafn 1989.
-Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Uppmælingar á fornleifum við bæjarhólinn á Nesi á Seltjarnarnesi vegna deiliskipulags á vestursvæðunum  Náttúrustofa Vestfjarða NV nr. 02-10 (mars 2010).
-Þorgeir S. Helgason og Sigurjón Páll Ísaksson, Kirkjan í Nesi við Seltjörn. Jarðsjármælingar austan Nesstofu og yfir hringa í túni (Reykjavík, 1994).

Suðurnes

Þegar gengið er um Suðurnes norðvestast á Seltjarnarnesi ber margt forvitnilegt fyrir augu.
Golfvöllur þarlendra er á Nesinu, en umleikis hann með allri ströndinni er göngustígur sem varinn Sudurnes-222hefur verið með sjóvarnargarði svo Mar geti ekki gengið upp á völlinn. Á vefsíðu golfklúbssins Ness sést m.a. þetta um svæðið: “Í upphafi var golfvallarstæðið á helmingi Suðurnessins, suðvestur hluta þess. Túnin höfðu verið nýtt af hestamönnum. Vestast á Suðurnesi við innsiglingarmerki sem þá var uppistandandi, voru öskuhaugar Seltjarnarnesbæjar. Þar sem nú er önnur braut var æfingaskýli lögreglunar sem þá stundaði handtöku- og skotæfingar þar. Á núverandi æfingarsvæði voru fiskverkunartrönur og hesthús voru við Daltjörn.”
Sudurnes-223Þegar skoðað er aðalskipulag Seltjarnarness 2006-2024 má sjá að Suðurnes þetta er í raun eyja tengt landi með granda eða samföstum gröndum; Bakkagranda í suðri og Kotagranda í norðri. Utan við hinn síðarnefnda er Seltjörnin en Bakkavík við hinn fyrrnefnda. Helstu örnefnin á Suðurnesi eru, ef gengið er réttsælis með Bakkavík, Leirur og suðvestast Suðurnestangi. Innan við tangann er Búðatjörn. Norðvestar er Helguvík og Urðin nyrst. Á henni voru sjóbúðir fyrrum sem síðar verða nefndar. Á miðju Suðurnesi var Réttin og norðan hennar Dældir eða Dalurinn. Bakkatjörn er framar, milli grandanna fyrrnefndu.
Lionsklúbbur Seltjarnarness hefur komið upp nokkrum upplýsingastólpum á strandleiðinni. Við Búðatjörnina stendur: “Búðatjörn (Fúlatjörn) – Fjaran suðaustan við trjörnina heitir Búðagrandi og sunnan við hana hafa staðið verbúðir eins og  Sudurnes-226Morastaðabúð, Hannesarbúð og Stórabúð. Tanginn út frá Búðagranda heitir Suðurnestangi”.
Við vörðu á Urðinni stendur: “Fyrst var reist hér varða eða sundmerki um 1780 til þess að auðvelda siglingu um Valhnúkasund. Endurreist oftar en einu sinni, síðast í atvinnubótavinnu 1930. Varðan eyðilagðist í stórviðri í febrúar 1996”.
Í Morgunblaðinu 26. október árið 1990 er fjallað um endurhleðslu leiðarmerkisins: “Viðgerð á leiðarmerkinu í Suðurnesi á Seltjarnarnesi er lokið. Nesskip hf. og Björgunarsveitin Albert gerðu með sér samkomulag um viðgerð á vörðunni sem var að hruni komin. Leiðarmerkið í Suðurnesi er merkt inn á sjókort sem gerð voru á seinni hluta 18. aldar. Danskur sjómælingamaður, kapteinn H. Mi nor, notaði leiðarmerkið í Suðurnesi sem mælingapunkt þegar hann Sudurnes-224var við sjómælingar á innanverðum Faxaflóa sumarið 1776. [Árið] 1930 fór fram umtalsverð viðgerð á innsiglingarvörðunni, en verkinu stjórnaði Albert vitavörður í Gróttu. Björgunarsveitin Albert á Seltjarnarnesi, sem ber nafn vitavarðarins í Gróttu, stóð hins vegar að viðgerð vörðunnar nú, 60 árum síðar. Seltjarnarneskaupstaður hefur ákveðið að laga umhverfi vörðunnar og tryggja að ágangur sjávar brjóti hana ekki niður aftur.” Nú var að að sjá að enn einni viðgerðinni væri nýlokið.
Skammt utar (norðar) er skilti: “Ljóskastarahús – Stríðsminjar frá seinni heimstyrjöld. Héðan var fylgst með umferð skipa og flugvéla”. Og þar rétt hjá: “Setlög – jökulberg. Efst í fjörunni eru setlög með skeljabrotum ofan á jökulrúnum grágrýtisklöppum. Setlögin eru talin vera frá síðasta hlýskeiði um 70 – 100 þús. ára gömul”. (Á skiltinu er mynd af hávellu).
Sudurnes-225Fremst, þar sem grandarnir mætast, er skilti með ljósmynd. Á því eru öll helstu örnefni þegar horft er til norðurs yfir vestanvert Seltjarnarnes.
Í örnefnalýsingu fyrir Seltjarnarnes skráða eftir Kjartani Einarssyni á Tjarnarbóli 4, f: 1914, árið 1976, kemur m.a. eftirfarandi fram um Suðurnes: “Mótekja var neðan við Bakkagranda en ekki hægt að taka hann nema um fjöru. Seinast var þar tekinn mór 1939. Í honum voru stórir lurkar, lærissverir.
Nesið fyrir vestan, sem byrjaði áður fyrr við Ósinn, kallst Suðurnes. Hæsti blettur á því er Svartibakki, að austan við sjóinn. Leirur voru nefndar fram af útfalli Óssins. Á þeim voru maðkafjörur Framnesinga, þ.e. þeirra sem áttu heima vestan Þvergarðs. Syðst á Suðurnesi er Búðatjörn. Í daglegu tali var hún nefnd Fúlatjörn; í henni safnaðist fyrir þari, sem úldnaði. Vestan við tjörnina voru Búðir. Þrjú nöfn voru notuð, svo að Kjartan vissi til, Morastaðabúð, Hannesarbúð og Stórabúð, talið frá austri. Grandinn austan við Búðatjörn heitir Búðagrandi og tanginn út frá honum Suðurnestangi. Skerið víkurmegin við hann nefnist Selsker. Vík suðvestan á nesinu nefnist Helguvík. Lítið sér nú fyrir henni. Frá henni er svokölluð Urð, sem nær alla leið að Seltjarnarrifi. Vestast á (í) nesinu er innsiglingarmerki, hlaðin grjótvarða, sem nefnist Suðurnesvarða. Í suðvestur af henni er sker, sem Sudurnes-227nefnist Kerlingasker. Sú saga er um nafnið, að Seltirningar hafi eitt sinn farið í róður og haft kerlingu nokkra með sér, sveitarómaga. Hún átti að tína öðu í beitu á skerinu, meðan þeir skryppu úr á Svið. Þeir voru lengur í róðrinum en þeir hugðu, og þegar þeir komu aftur, var kerlingin flotin af skerinu. Sker, sem heitir Keppur, er suðaustur af Kerlingarskeri, kemur upp um stórstraumsfjöru.
Um það bil á (í) miðju Suðurnesi er merki, sem landmælingamenn danska herforningaráðsins settu upp [í byrjun 20. aldar]. Við það var svonefnd Rétt, fjárrétt, sem síðast var notuð 1930. Þar var haft í kvíum frá Hrólfsskála um 1880. Nokkur lægð er austarlega á Suðurnesi. Hún nefnist Dældir, í seinni tíð stundum kölluð Dalur. Það er smátjörn, sem áður fyrr hafði útfall í Ósinn.
Sudurnes-228Grandinn, sem liggur vestan á Seltjarnarnesi, nefnist Kotagrandi. Hann er milli Bakkatjarnar og Seltjarnar, sem nú er komin í sjó. Geta má þess, að á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar frá 1835 er Bakkatjörn nefnd Seltjörn. Utan við Seltjörn liggur Seltjarnarrifið, sem áður er getið”.
Í nefndri örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir um Suðurnes: “Sunnan hennar [Bakkatjarnar] heitir Bakkagrandi, malarkamburinn, sem þar er, og gegnum hann er Ós. Vestan við Bakkatjörn er svo annar skerjagrandi, sem heitir Kotagrandi.  Hann er milli Bakkatjarnar og Seltjarnar. Kotagrandinn liggur út í grasi vaxið landssvæði, ekki stórt um sig, sem heitir Suðurnes.  Þetta er láglent svæði frekar; norðaustur úr því liggur langt rif, sem heitir Suðurnesrif.  Það eru leifar þess lands, er eitt sinn myndaði Seltjörnina að norðvestan. Syðst á Suðurnesi er Búðatjörn og fram Sudurnes-229af henni er Búðagrandi; þar sem koma saman grandarnir, Bakkagrandi og Kotagrandi, er forarvilpa, sem heitir Dalur.  Norðan við Búðatjörn eru gamlar sjóbúðir.  Þarna voru 1703 þrjár búðir: Stórabúð, Morastaðabúð, Hannesarbúð. Vestast í nesinu er Suðurnesvarða, nýlega hlaðin upp, og er innsiglingarmerki á Skerjafjörð. Svo var uppi á hánesinu Rétt og gerði í hring.”
Í bréfi um matsskyldu vegna fyrirhugaðra sjóvarnargarða á Suðurnesi má m.a. lesa eftirfarandi um jarðmyndanir, fuglalíf o.fl.: “Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að innan fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis sé að finna merkar jarðfræðiminjar, þ.e. jarðlög með skeljaleifum frá síðasta hlýskeiði ísaldar og ísaldarlokum m.a. í víkinni inn af Svörtubökkum. Fyllt hafi verið yfir setlögin að hluta til og sandur hylji þau að einhverju leyti við núverandi sjóvarnargarða en setlögin verði sýnileg þegar fjari út. Ef umfang sjóvarnargarða aukist megi búast við því að sá hluti fjörunnar þar sem sandur safnist fyrir færist utar og þar með muni meira af setlögunum hyljast sandi. Með því verði bæði þrengt að setlögunum sjálfum og fjörumónum. Fram kemur að setlögin séu aðgengileg og gegni hlutverki við kennslu í Háskóla Íslands, sem og við komu erlendra rannsóknarhópa til landsins. Á kaflanum frá miðjum „tanganum” við austurhluta golfvallarsvæðisins og út með víkinni inn af Svörtubökkum. Fram Sudurnes-230kemur að við ljóskastarahúsið, á um 100 m breiðu svæði, sé að finna merkileg setlög með steingervingum og jökulrákaðar klappir. Á þeim kafla sé mikilvægt að fláar fyrirhugaðrar sjóvarnar nái ekki lengra niður í fjöruna en núverandi sjóvörn. Umhverfisstofnun telur að fyrirhugaðar framkvæmdir geti haft umtalsverð áhrif á merkar jarðfræðiminjar ef farið verði með fyllingu og grjótvörn lengra út í fjöruna. Setlög með steingervingum er að finna í fjörunni. Það sama eigi við um 100 m breitt belti neðan við Ljóskastarahúsið ef hækkun sjóvarna hafi í för með sér að grjótvörn nái lengra niður í fjöruna.
Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram aðí  Bakkavík sé auðugt smádýralíf og í víkinni sé mikilvægt fæðuöflunarsvæði fugla og því beri að leggja áherslu á að eins litlu fjörusvæði verði raskað við framkvæmdirnar og kostur sé. Bent er á að ef sandsvæði í fjörunni færist utar í kjölfar fyllingar geti það haft áhrif á fæðuöflunarsvæði fugla. Umhverfisstofnun bendir á að þarna séu einnig flóðsetur og hvíldarstaðir fugla, sem og fæðuöflunarsvæði auk þess sem varpstaðir kríu við Búðatjörn séu við framkvæmdasvæðið. Á þessu svæði sé því einnig mikilvægt að halda öllu jarðraski í lágmarki og athuga hvort ekki megi draga úr fyrirhuguðu umfangi grjótvarnar.
Fram kemur að til að tryggja leið andfugla frá varpstöðvum til sjávar telji Umhverfisstofnun að vænlegast sé að koma fyrir sniðbrautum á Sudurnes-231görðunum.”
Þótt ekki sé um langan hringveg að fara um Suðurnes er leiðin sérstaklega skemmtileg, ekki síst vegna framangreindra minja, fuglalífs og jarðlaga að ógleymdu útsýninu yfir hafflötinn við æði misjöfn birtustig.
Þegar hringleiðin var gengin í aprílmánuði fylltu margæsir á leið þeirra til Grænlands og Kanada golfvallaflatirnar og nálægar tjarnir. Allt umleikir spígsporuðu vorboðarnir, auk fjölda annarra ágætra fargesta. Þrátt fyrir ánægjuaugað verður að segjast eins og er að það er synd að verbúðirnar framangreindu skulu hafa farið forgörðum vegna augnabliks andvararleysis fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Kjartans Einarssonar.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Mbl föstudaginn 26. október, 1990, leiðarmerki endurhlaðið.
-Endurbætur á sjóvarnargörðum á Suðurnesi, Seltjarnarnesi. Ákvörðun um matsskyldu, Skipulagsstofnun 2004.
-nkgolf.is

Grótta

Gengið var um Seltjarnarnes umhverfis Bakkatjörn og skoðaðir hringirnir á túninu, sem sjást vel úr flugvél, einkum er sól er lágt á lofti.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes.

Þarna er um nokkra misstóra hringi að ræða. Á teiknuðu korti af Seltjarnarnesi frá árinu 1802 er einn þeirra nefndur Nesborg. Stekkur er í holtinu vestan Valhúsahæðar og ekki er ólíklegt að sel hafi verið þar áður frá öðrum Reykjavíkurbænum og dragi nesið nafn sitt af því. Hitt var í Ánanaustum og var nefnt Reykjavíkursel. Seltjörn sést ekki lengur, en þó má grilla í umgjörð hennar utan við ströndina milli Suðurness og Gróttu. Mikið landrof hefur orðið þarna á síðustu öldum.
Grótta er fyrst nefnd í fógetareikningum frá árunum 1547-52. Nafnið þykir fornlegt og benda til þess að þar hafi lengi verið búið. Á fyrri árum stóð bærinn Grótta ekki á eyju heldur á breiðu nesi. Árið 1703 er talin hjáleiga frá Nesi. Er jörðin alla öldina nefnd meðal átta bestu jarða Framnessins. Í Básendaflóðinu 1799 varð Grótta að eyju og var jörðin talin óbyggileg eftir það. Kveikt var á fyrsta vitanum í Gróttu þann 1. september 1897 og síðan var núverandi viti reistur árið 1947 og hefur lýst sjófarendum æ síðan.
Landslæknisembætti Íslands var stofnað með konunglegri tilskipan árið 1760. Í framhaldi af því var Nesstofa byggð 1761-63, sem læknissetur, lyfjaverslun og vísir að fyrsta læknaskóla landsins. Landlæknar gegndu þá einnig uppfræðslu yfirsetukvenna og tilvonandi læknisefna.

Grótta

Grótta.

Landlæknar og lyfsalar sátu um lengri tíma í Nesi og meðal annars fyrsti apótekarinn, Björn Jónsson. Oddur Thorarensen var síðastur lyfsala í Nesi en hann flutti apótekið með sér til Reykjavíkur árið 1834. Eftir það var Nes í einkaeign fram til 1975 er ríkið keypti húsið og gerði að lækningaminjasafni.
Byggð á Seltjarnarnesi er vafalaust frá þjóðveldisöld, en athafna manna í Seltjarnarneshreppi hinum forna er fyrst getið árið 1851. Seltjarnarneshreppur hinn forni náði yfir allt nesið, sem liggur milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla. Austasta jörðin var Kópavogur. Elliðaárnar mörkuðu skil við Mosfellssveit. Eyjarnar Örfirisey og Engey voru í Seltjarnarneshreppi árið 1703 og Viðey bættist við seinna. Margar jarðir voru smám saman teknar undir Seltjarnarneshrepp og kom hluti jarðarinnar Reykjavík þar fyrst ásamt Arnarhóli og Örfirisey. Landamörk milli jarða í Seltjarnarneshreppi hinum forna hafa síðan orðið að mörkum sveitarfélaga og má í því sambandi minna á mörk Reykjavíkur og Seltjarnarneskaupstaðar. Þau munu að verulegu leiti markast af landamerkjadómi, sem dæmdur var um 1600 um mörk Víkur annars vegar og Eiðis og Lambastaða hins vegar.
Fyrsta hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps var valin á hreppaskilaþingi í júní 1875. Helstu viðfangsefni hreppsnefndar voru einhvers konar peningamál. Nefndin gerði árlega áætlun um útgjöld hreppsins og jafnaði niður útsvörum til þess að mæta útgjöldum. Helstu útgjaldaliðir var framfærsla ómaga og til þess að spara var ómögunum eins útsvörunum jafnað niður á búendur. Eini starfsmaður hreppsins í fullu starfi fyrstu áratugina eftir 1875 var kennarinn við Mýrarhúsaskóla.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Grótta nær.

Margir útvegsbændur voru á Seltjarnarnesi og árið 1884 áttu Seltirningar 40 sexæringa og 9 áttæringa, en eiginlegt upphaf þilskipaútgerða hófst 1883-84. Fyrstu þilskipin voru skonnortur og á árunum 1884-85 eignuðust Seltirningar 8 skonnortur. Árið 1897 er tímamótaár í sögu þilskipaútgerðar á Seltjarnarnesi því þá komu tveir fyrstu enskbyggðu kútterarnir í eigu Nesbúa. Skútu- og þilskipaútgerð frá Seltjarnarnesi náði hámarki 1904. Eftir það fækkaði skipum sem gerð voru út frá Seltjarnarnesi og má segja að árið 1908 hafi verið síðasta árið í sögu skútuútgerðar á Nesinu. Ástæður þess, að skútuútgerð Seltirninga fékk svo skjótan endi, eru efalaust ýmsar, en stór verslunarfyrirtæki í Reykjavík keyptu skútur Seltirninga og héldu áfram útgerð þeirra. Að lokum skal á það minnst að hafnleysi og annað aðstöðuleysi í landi var útgerð Seltirninga ávallt erfitt og erfiðara eftir því sem skipin urðu stærri.
Vegna landsigs á síðari öldum hafði sjór brotið land við Gróttu og árið 1788 segja danskir mælingamenn að 5 álnir séu milli flóðafara á nyrðri grandanum og hafa því náttúruhamfarir á borð við Básendaflóðið átt hægt um vik að eyða landinu við Gróttu á þann hátt að hér eftir varð hún eyja í hafi, að vísu landtengd með granda sem stendur upp úr á fjöru.
Þessu ógurlega sjávarflóði; Básendaflóðinu er lýst svo: Aðfaranótt 9. janúar brá til útsuðuráttar um allt Suður- og Vesturland, með þeim býsnum, sem fæstir höfðu áður lifað. Um öll Suðurnes, allt austur að Eyrarbakka, gerði feikna hafrót og stórflóð sem olli gífurlegum skemmdum.

Seltjarnarnes

Útsýni af Seltjarnarnesi.

Básendakauptún á Miðnesi lagðist af með öllu, því að sjór og veður braut þar öll bæjar- og verslunarhús; fékk kaupmaðurinn með naumindum forðað lífi sínu og fjölskyldu sinnar að Loddu á Stafnesi. Fiskgarðar og túngarðar þar syðra sópuðust heim á tún, sumstaðar tók jafnvel af túnin, skipauppsátur og brunnar. Tvær kirkjur fuku, Hvalneskirkja og kirkjan að Nesi við Seltjörn sem sögð hafa fokið í heilu lagi af grunni sínum. Á Seltjarnarnesi gerði óveður þetta mikinn usla og olli miklum skemmdum. Um 18 skip og minni róðrarbátar brotnuðu, svo að sum fóru í spón, en önnur löskuðust svo, að ekki gátu sjófær talist. Fyrir innan Lambastaði gekk sjór yfir þvert nesið milli Skerjafjarðar og Eiðsvíkur, svo að ekki var fært mönnum né hestum. Er haft eftir jafnathugulum heimildarmanni og biskupinum á Lambastöðum, að 5 álnum hefði sjór gengið hærra, þverhníptu máli, en í öðrum stórstraumsflóðum.
Í Örfirisey spilltist land svo af sand- og malarburði, að eyjan mátti lítt byggileg teljast, enda lögðust býli þar úti í eyði.
Undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar var farið að huga því að gera skipulagsuppdrætti að landi vestan í Valhúsahæð, þ.e. landi Bakka og Bygggarðs. Var þetta land í eigu Neskirkju og skyldi það selt undir íbúðarhús til fjáröflunar fyrir kirkjuna. Flestir fundir hreppsnefndar vour um þetta leyti haldnir á heimili oddvita i Kópavogi. Um sumarið 1947 gengu undirskriftarlistar um Nesið, þar sem farið var fram á skiptingu hreppsins í tvo hreppi. Sýslunefnd Kjósarsýslu var hlynnt skiptingu hreppsins í tvo hreppi og lá stefnumarkandi ákvörðun Félagsmálaráðuneytis um skiptingu í nóvember 1947 sem tók gildi á áramótum sama ár.

Heimild m.a.:
-http://www.seltjarnarnes.is/

Seltjarnarnes

Brunnur á Seltjarnarnesi.