Sveifluháls

Árið 2004 vann Sigrún Helgadóttir skýrslu fyrir stjórn Reykjanesfólkvangs um fólkvanginn, upphaf hans, markmið og framtíð. Hér birtist útdráttur úr skýrslunni, sem er 43 bls. með margvíslegum fróðleik og tillögum.
Auk þess að lýsa Reykjanesfólkvangur - kortReykjanesfólkvangi getur höfundurinn um menningar- og samfélagsverðmæti hans m.t.t. sögu, minja og þjóðtrú, náttúrufegurð (hughrif), útivist og ferðamennsku, lista, náttúruvísindastarfa og fræðslu og umhverfismenntar. Árið 2005 varð fólkvangurinn 30 ára, en hann var stofnaður formlega með auglýsingu í Stjórnartíðindum 1. desember 1975 (520/1975).
“Stofnun Reykjanesfólkvangs er samofin sögu náttúruverndar á Íslandi. Framkvæmdir við Grænavatn í Krýsuvík áttu þátt í að menn áttuðu sig á mikilvægi þess að almenn náttúruverndarlög giltu í landinu. Hugmynd að stofnun fólkvangs á Reykjanesi var samþykkt samhljóða í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1969 og lögð áhersla á að land frá Elliðavatni til Krýsuvíkurbergs yrði gert að friðlýstu útivistarsvæði fyrir almenning. Fólkvangurinn var stofnaður 1. des. 1975.

Seltún

Í Seltúni.

Fólkvangar eru í umsjón sveitarfélaga ólíkt öðrum friðlýstum svæðum á Íslandi. Landið er í lögsögu Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Álftaness og Garðabæjar en vegna mikilla hagsmuna annarra þéttbýlisbúa standa Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Grindavík saman að fólkvanginum. Hvert sveitarfélag skipar einn fulltrúa í fólkvangsstjórn og fjárframlög eru í hlutfalli við íbúatölu sveitarfélaganna. Fulltrúi Reykjavíkur er formaður stjórnar. Frá 1981 hefur verið starfsmaður í hlutastarfi á sumrin til eftirlits.
Hellir í fólkvanginumSvæðið fellur ekki að íslenskum eða alþjóðlegum skilgreiningum á fólkvangi en er þjóðgarðsígildi og hluta þess mætti friðlýsa sem víðerni. Jarðfræði svæðisins er merkileg á heimsvísu en þar eru plötuskil með tilheyrandi eldstöðvum af ýmsum gerðum og gömlum og nýjum hraunum. Svæðið var byggt frá landnámi fram á síðustu öld og þar er mikið af minjum um lífshætti fólks á fyrri tímum til lands og sjávar.
Landið var vel gróið en hefur verið ofnýtt og gróður er nú mjög illa farinn, mikil ofbeit og landeyðing. Það er enn notað sem beitiland bæði er þar lausaganga búfjár og beitarhólf fyrir hross og sauðfé. Ýmsir áhugahópar hafa helgað sér svæðið m.a. til torfæruaksturs utan vega og er landið víða mjög illa farið af þeim sökum. Mikilvægt er að ná tökum á þessum vandamálum. Stefnt skyldi að friðun fólkvangsins fyrir beit og utanvegaakstri og leitast við að endurheimta fyrra gróðurfar (vistheimt).

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Vegir í fólkvanginum eru að mestu malarvegir. Sumir þeirra eru illa færir fólksbílum. Verið er að undirbúa lagningu Suðurstrandarvegar þvert í gegn um fólkvanginn. Tilkoma vegarins mun auka mjög umferð um fólkvanginn og nauðsynlegt er að bregðast við auknum gestafjölda með merkingum, upplýsingum og annarri þjónustu. Þá þjónustu þarf að veita um allan fólkvanginn, fyrst og fremst þarf að merkja áhugaverða staði og stika fjölbreyttar leiðir.
Þegar borin eru saman fjárframlög og stuðningur við Reykjanesfólkvang og önnur útivistarsvæði í nágrenninu, s.s. Bláfjallafólkvang og Heiðmörk, sést að fólkvangurinn er mikið olnbogabarn.
Minjar í fólkvanginum - frá fyrstu tíð landnámsSvæðið verður þó sífellt mikilvægara til útivistar fyrir þéttbýlisbúa SV-lands. Það gæti einnig haft mikið aðdráttarafl fyrir þá erlendu ferðamenn sem sækjast eftir menningarlegri og fræðandi útivist. Það form ferðmennsku er nú í mikilli sókn. Sú sérstaða að hægt sé að upplifa víðernisáhrif á daginn en stunda menningarlíf og fá góða þjónustu í þéttbýli um kvöld og nætur er mikill styrkleiki fyrir nálæg sveitarfélög.
Árið 2005 verður Reykjanesfólkvangur 30 ára og vonandi verður það tilefni til átaks í málefnum hans.”

Sog

Í Sogum.

Á lofti eru bæði blikur og sól. Blikurnar felast bæði í áhuga orkufyrirtækja að virkja háhitasvæði innan og utan fólkvangsins með tilheyrandi háspennulínum og járnleiðslum þvers og kruss um landssvæðið svo og þeirri áráttu sveitarstjórnarfólks að heimila á því hömlulitla malarnámuvinnslu. Sólin er vonin um að vitsmunalegt fólk geri sér grein fyrir þeim verðmætum er felast í ósnortinni náttúru, möguleikum skipulegrar nýtingar til útivistar og ferðamennsku sem og mikilla möguleika ókominna kynslóða til enn frekari nýtingar í heimi þar sem slík svæði eru þegar orðin sjaldgæf – og í rauninni alveg einstök.

Heimild:
-Sigrún Helgadóttir – Reykjanesfólkvangur, upphaf, markmið og framtíð – skýrsla unnin fyrir stjórn Reykjanesfólkvangs 2004.
Duldar minjar í fólkvanginum