Bollasteinn

Úti við Gróttu á Seltjarnarnesi er útilistaverk Ólafar Nordal (fædd 1961); Bollasteinn. Það er gert úr heilum grágrýtissteini sem í er sorfin hringlaga fótbaðs- eða vaðlaug. Listaverkið var sett upp um 2005 og er á svonefndum Kisuklöppum.

Bollasteinn

Bollasteinn.

“Laugin er lýst upp með mildu rafljósi að innanverðu og í hana rennur stöðugt óblandað, forkælt jarðhitavatn úr borholum Seltjarnarness, en það hefur einstaka samsetningu og jafnvel lækningamátt.

Ólöf er fjölhæfur listamaður sem hefur unnið með margs konar efni. Viðfangsefni sín sækir hún gjarnan í þjóðlega arfleifð og menningarleg minni sem hún setur í nútímalegt samhengi. Náttúran og tengsl okkar við landið eru henni einnig hugleikin.

Þúfa

Þúfa – listaverk Ólafar Nordal í Örfirisey.

Í Bollasteini vísar hún til fornrar laugarhefðar Íslendinga um leið og hún hvetur fólk til að upplifa hita og kraft jarðar með því að fara úr sokkum og skóm og verða eitt með náttúrunni í fjöruborðinu. Þannig verður það þátttakendur í eins konar gjörningi „á mörkum byggðar og náttúru, lands og sjávar, himins og jarðar”, segir listakonan. „Með heita fætur streymir blóðið um kroppinn, líkamleg og andleg skynjun vex, næmi fyrir umhverfinu vaknar og tengsl við náttúruöflin myndast.”

Heimild:
-Texti eftir Ásdísi Ólafsdóttur, listfræðing – https://www.seltjarnarnes.is/is/mannlif-nattura/menning/listaverk-baejarins/olof-nordal-bollasteinn.

Alþingi

Alþingi – Vituð ér enn – eða hvat? Grásteinn og hljóð. Alþingi. Reykjavík. 2002; listaverk Ólafar Nordal.