Víkingaskip

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1951 fjallar Árni Óla um “Skilnað Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps” í sögulegu samhengi. Spurning Árna er hvers vegna, þrátt fyrir allar tilfæringarnar á landamerkjum, geti landnámið Vík ekki verið í dag eitt og hið sama.

Árni Óla

Árni Óla.

“Upphaflega var Reykjavík stærsta jörð, sem nokkru sinni hefir verið á Íslandi. Land hennar náði yfir Kjósarsýslu, Gullbringusýslu og fjóra hreppa Árnessýslu, Wngvallasveit, Grafning, Ölfus og Selvogshrepp. En brátt saxast á land þetta, þyí að Ingólfur var óspar á að miðla öðrum af landnámi sínu. Eru táldir 18 landnámsmenn, er hann fekk lönd, og er þá svo komið að land Reykjavíkur nær ekki yfir meira en Seltjarnarneshrepp og vestasta hluta Mosfellssveitar. Og enn skerðist þetta land, því að sjálfstæðar jarðir rísa þar upp snemma, svo sem Nes við Seltjörn og Laugarnes. Örlyndi Ingólfs, sem kemur fram í því hvernig hann brytjar niður landnám sitt, verður trauðlega skýrt á annan veg en þann, að hann hafi ætlað sjer og afkomendum sínum að vera höfðingjar í þessu landi. En höfðingi gat enginn orðið nema sá, er hafði mannaforráð. Og að þeir feðgar hafi haft mannaforráð um alt landnámið, sjest á því er Þorsteinn Ingólfsson stofnar Kjalarnesþing.
Landnám Ingólfs
Reykjavík var enn góð jörð, þrátt fyrir alt, og höfuðból hefir hún verið fyrstu aldirnar. Hafa þar um ráðið hin miklu hlunnindi hennar, svo sem selalátur í Örfirisey, trjáreki, æðarvarp í eyjunum, laxveiði í Elliðaánum. Þá hafa og verið hjer ágæt fiskimið og fiskur oft gengið inn í Sundin. Þess vegna hefir jörðin getað framfleytt fjölda fólks og þess vegna rísa stöðugt upp nýar jarðir í landi hennar, þangað til svo er komið, að þetta höfuðból er orðið að kotjörð, hlunnindin hafa lent hjá öðrum eða farið forgörðum, og avo verður Danakonungur eigandi jarðarinnar. Niðurlægingarsagan er löng og ömurleg. Og þegar konungur gefur svo verksmiðjunum heimajörðina, þá er það ekki annað en kvosin, þar sem Miðbærinn stendur nú. Reykjavík var þá jörð í Seltjarnarneshreppi. En árið 1803 er hún gerð að sjerstöku lögsagnarumdæmi og fær sjerstakan bæjarfógeta. Lögsagnarumdæmið var miklu stærra en verslunarlóðin, því að innan þess voru Þingholt, Stöðlakot, Skálholtskot, Melshús, Melkot, Götuhús og Grjótaþorpið, og brátt bættist Landakot við.

Landnám Ingólfs

Landnám Ingólfs.

Þrátt fyrir þetta helst enn sambandið við Seltjarnarnes að nokkru leyti, því að fátækramálin voru sameiginleg og voru til þess alveg sjerstakar ástæður. Þegar eftir að verksmiðjurnar voru reistar hjer, og þó einkum eftir að verslunin var gefin frjáls og Reykjavík fekk kaupstaðar rjett indi, fór fólk að flykkjast þangað í atvinnuleit og margir settust þar að og komu sjer upp tómthúsbýlum, eða hinum svonefndu kotum. Margt af þessu fólki var blásnautt og upp á aðra komið hvenær sem versnaði í ári. Jukust því sveitarþrengsli óðum af þessum sökum.

Sölvhóll

Sölvhóll á Arnarhóli. Teikning eftir Árna Elfar.

Kotin voru ekki öll innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, því að mörg höfðu verið reist í löndum Hlíðarhúss, Sels og Arnarhóls, en þær jarðir voru í Seltjarnarneshreppi. Þeir, sem í þessum kotum bjuggu, höfðu aðalatvinnu sína hjá kaupfnönnum bæjarins, og það var sú atvinnuvon, sem hafði dregið þá hingað. En þegar nú þessir menn gátu ekki sjeð fyrir sjer og sínum og urðu bónbjargarmenn, þótti það ekki sanngjarnt, að Seltjarnarneshreppur kostaði framfærslu þeirra. Myndi það hafa orðið honum ofraun fjárhagslega, ef hann hefði orðið að setja þessu bjargþrota fólki farborða. Þótti því sanngjarnt að Reykjavík tæki þátt í framfærslu þess, þar sem hún naut vinnukrafta þess. Þessi var megin ástæðan til þess að bær og hreppur höfðu sameiginlegt fátækraframfæri um langt skeið.
Seltjarnarnes
Það er dálítið einkennilegt, að vaxandi bygð varð upphaflega til þess að þröngva svo kosti Reykjavíkur, að höfuðbólið varð að kotjörð. Og nú þegar Reykjavík er orðin sjerstakt lögsagnarumdæmi, þá er það vaxandi bygð, sem þröngvar enn kosti hennar. Óáran og fiskleysi hjálpaði þar einnig til. Og árið 1806, eða þremur árum eftir að bærinn var gerður að sjerstöku lögsagnarumdæmi, er ástandinu hjer lýst á þennan hátt: „Fjöldi tómthúsmanna er hjer allrar bjargar laus, jafnvel bændur og það ekki einn, heldur allur fjöldi, sem við vissum að fyrir fáum árum voru velmegandi og áttu drjúga peninga fyrirliggjandi, eru nú ekki alleina fjelausir, heldur komnir í stórskuldir. Verslun öll hin versta. Kaupmenn neita um lán og halda vörum sínum dýrum, sjer í lagi móti peningum, sem þeir nú hafa sett niður um 10—20% móti sveitar og sjávarvörum“. Þá voru innan lögsagnarumdæmisins 446 íbúar, þar af ekki nema 134 vinnufærir menn. Þótti forráðamönnum nú þunglega horfa og var gripið til þess ráðs, sem enn þykir hið mesta þjóðráð á ýmsum stöðum, að reyna að hefta aðflutning fólks, og þá einnig að koma þurfamönnum af höndum sjer.

Finnur magnússon

Finnur Magnússon.

Finnur Magnússon var þennan vetur settur bæjarfógeti í stað Frydensberg, sem var ytra. Hann gaf út auglýsingu í mars og var hún kynt almenningi með því að lesa hana í prjedikunarstóli kirljunnar. Þar er öllu útánveitarfólki í kaupstöðum og tilheyrandi kotum“ skipað að hafa sig á burt fyrir fardaga, ef það geti ekki sannað að það sje sjálfbjarga. Ennfremur er öllum húsráðendum í kaupstaðnum og kotunum stranglega bannað að hýsa utansveitarfólk, nema með samþykki bæjarfógeta. Afleiðingin af þessu varð sú, að á næstu tveimur árum fækkaði fólki hjer um 90 manns, eða rúmlega 20 af hundraði. En þrátt fyrir það jukust sveitarþyngsli meira en um helming.

Um þessar mundir var það að Gunnlaugur Briem sýslumaður kom frarn með þá uppástungu að leggja Seltjarnarneshrepp undir Reykjavík. Vildi hann að embættismenn fengi jarðirnar á Seltjarnarnesi til afnota, svo að þeir gæli haft þar búskap og framleitt landbúnaðarafurðir. Jafnframt yrði þá lokið allri óánægju út af fátækramálunum. En þeir Frydensberg bæarfógeti og Trampe stiptamtmaður snerust báðir öndverðir gegn þessari tillögu.

Gunnlaugur Briem

Gunnlaugur Briem.

Trampe var algjörlega mótfallinn því að embættismenn fengi bújarðir, en Frydensberg óttaðist að sveitarþyngsli mundu mjög aukast. Er líklegt að hann hafi þá borið fyrir brjósti hag hinna dönsku kaupmanna, því að þeir voru altaf að rífast út af því að þurfalingar settust hjer að. Er álit Frydensberg mjög í samræmi við álit kaupmannanna, að til Reykjavíkur og Seltjarnarness flykkist allskonar hrakmenni (Uuskud) þegar vel fiskast, hlaði þar niður börnum, og þar sem fæðingarhreppur hafi framfærslu skyldu, þá sitji hreppurinn og bærinn uppi með það alt þegar harðnaði í ári. Tveimur árum seinna hófst ófriðurinn milli Dana og Englendinga og var þá alt á hverfandi hveli hjer og menn höfðu um annað að hugsa en þessa smámuni, sem samband Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps um framfærslu þurfamanna. Dýrtíð og vöruskortur svarf meir og meir að fólkinu og eru þar um hörmulegar sögur.
Árið 1813 segir bæjarfógeti svo í skýrslu til stjórnarinnar, að þá gangi neyðin nær mönnum heldur en hann viti til af eigin reynd og nú stórsjái á 2/3 af íbúunum í Reykjavík. Castenskjöld var þá orðinn stiftamtmaður, og hóf hann nú máls á því, að rjett væri að slíta sambandi Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps. En bæjarfógeti var því andvígur og kvað það ekki geta komið til mála, því að aldrei hefði ástandið verið alvarlegra en nú. Og við það sat í það skifti.

Arnarhóll

Arnarhóll.

Leið nú og beið fram til ársins 1834. Á því ári öndverðu voru gefnar út reglur um fátækramálefni. Segir þar að hver hreppur skuli vera sjerstök framfærslusveit, með þeirri undantekningu að Reykjavík skuli vera í sambandi við Seltjarnarnesshrepp um fátækramál. Segir þó, að ef ráðlegt teljist að þessu sje breytt þá skuli amtmaður senda álit og tillögur um það til Kansellí.
Árið eftir gerist svo það, að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur er stækkað að mun. Er þá bætt við það Hlíðarhúsum, Ánanaustum, Seli, Örfirisey, Arnarhóli og Rauðará, ásamt öllum kotum í landi þeirra. Urðu þá takmörk lögsagnarumdæmisins þessi: Að vestan lönd Eiðis og Lambastaða, að sunnan Skildinganesland, að austan Laugarnessland. Með þessari breytingu fékk Reykjavík í sinn hlut flesta þá tómthúsmenn, er hjer höfðu sest að.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Reykjavík var nú orðin svo stór, að full ástæða þótti til að hún fengi reglugerð um bæjarmálefni sín. Því var það á öndverðu ári 1839 að amtmaðurinn í Suðuramtinu skrifaði Kansellíbrjef um þetta og sendi með frumvarp að slíkri tilskipun. Var hún alveg sniðin eftir tilskipun um bæjarmálefni í Danmörk, nema hvað gert var ráð fyrir því að enn heldist samband kaupstaðarins og hreppsins um fátækramálefni. Kansellí sendi frumvarpið til embættismannanefndarinnar, sem settist á rökstóla þá um sumarið, og bað um álit hennar. Nefndin varð sammála um að gera þá höfuðbreytingu á frumvarpinu, að sambandi Reykjavíkur og Seltjarnarness skyldi slitið og fjárskifti fara fram að bestu manna yfirsýn. Nefndin rökstyður þetta á þann hátt, að ástæðan fyrir fjelagi bæar og hrepps um fátækramál hafi fallið niður um leið og lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var stækkað. Áður hefði það ekki verið nema sanngjarnt að Reykjavík tæki þátt í fátækraframfærslu tómthúsmanna, sem bjuggu utan lögsagnarumdæmisins en stunduðu vinnu í bænum.

Landnámið

Landnám Ingólfs – sveitarfélög.

Áður en tillögur embættismannanefndar væri sendar Kansellí, leitaði stiftamtmaður álits bæjarstjórnar Reykjavíkur og hreppstjórans í Seltjarnarnesshreppi. Álit bæjarstjórnar fór í þveröfuga átt við skoðanir embættismannanefndarinnar. Segir svo í því: „Áður en lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var stækkað var fult af þurfamönnum á næstu bæjum, Hlíðarhúsum, Ánanaustum, Sauðagerði, Seli, Rauðará o.s.frv. Voru þeir aðallega hjer úr sýslunni, en þó víðs vegar að af landinu. Það gerði ekki svo mikið til á meðan fátækraframfærslan var sameiginleg, þótt lögsagnarumdæmi Reykjavíkur væri stækkað, en hefði menn þá grunað að aðskilnaður fátækramálefnahreppsins og bæjarins væri aðsigi, hlutu menn að sjá að stækkun lögsagnarumdæmisins yrði til tjóns fyrir bæinn og mjög þungbær, því að á þessu svæði býr fjöldi þurfamanna úr sýslunni.
Reykjavík
Það hefði því verið happadrýgst fyrir Reykvíkinga, að lögsagnarumdæmið hefði ekki verið stækkað, því að þótt hreppurinn tæki nú við öllum þeim þurfamönnum, sem þar eru, þá er hætt við að fátæktin verði þar svo arfgeng, að fjöldinn allur af þeim tómthúsmönnum, sem eftir verða, muni þurfa á mikilli fátækrahjálp að halda, einkum ef harðnar í ári. Vjer teljum því, að skilnaður bæjar og hrepps muni verða bænum mjög þungbær þegar fram í sækir, nema því aðeins að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur verði aftur minkað, og látið vera eins og það var fyrir breytnguna 1835“, Hjer kemur allgreinilega fram sú einangrunarstefna, sem þá ríkti hjer í bænum, og átti eflaust upptök sín hjá hinum dönsku kaupmönnum, sem sáu eftir hverjum eyri til almenningsþarfa, þótt þeir lifðu sjálfir í sukki og sællífi. Bænum var orðin hin mesta nauðsyn á því að færa út kvíarnar en samt vildi bæarstjórn nú vinna það til fyrir meðlag nokkurra þurfamanna að marka bænum sinn upphaflega bás á landi jarðarinnar Víkur. Þetta var þó aðeins fljótfærni hjá bæjarfulltrúunum, eins og þeir sáu síðar.

Arnarhóll

Arnarhóll og nágrannajarðir 1703.

Vegna þessarar afstöðu bæjarfulltrúanna þótti Kansellí viðsjárvert að fara fram á skilnað bæjar og hrepps. Sendi það því frumvarpið aftur til embættismannanefndarinnar og bað hana að taka það til athugunar að nýju. Jafnframt ljét Kansellí þess getið að það teldi að Seltjarnarneshreppur mundi bíða tjón af skilnaðinum, er Reykjavík græða á honum. Hœtta væri og ef til vildi á því, að Reykjavík reyndi að stjaka mönnum frá sjer og fá þá til að setjast að í Hreppnum, og geta þannig haft hagnaðinn af vinnu þeirra, en varpað framfærsluþunganum yfir á hreppinn.
Áður en stiftamtmaður lagði frumvarpið að nýju fyrir embættismannanefndina (1841), leitaði hann álits bæjarfulltrúa og fátækrastjórnar bæjar og hrepps. Og nú brá svo undarlega við, að þeir æsktu allir eftir skilnaði. Hafði fátækrastjórnin athugað útgjöld bæar og hrepps til þurfamanna seinustu 12 árin, og á þeim tíma höfðu Reykvíkingar greitt 5181 rdl., en hreppurinn 2220 rdl. Eftir því gæti skifting farið fram eftir hlutfallinu 26:11 og væri sú tala líka rjétt, ef tekið væri tillit um mannfjölda í hrepp og bæ.

Seltjarnarnes

Mörk Seltjarnarness og Reykjavíkur árið 1700. Eiði og Örfirisey.

Með þessu var hnúturinn leystur að kalla, áður en málið kæmi til embættismannanefndarinnar. Ræddi hún því aðallega um hvernig skilnaðinn skyldi framkvæma að öðru leyti. Taldi hún víst að í fyrstu myndi rísa upp ýmis vafamál, en á hitt bæri fremur að líta, að eftir skilnaðinn yrði stjórn fátækramálanna einfaldari og óbrotnari og „stjórnendur fátækramálefnanna fengi meira ráðrúm og næði og meiri festu í störf sín en ella.“

Mosfellssveit

Mosfellssveit og Mosfellsheiði – mörk (rauð) 2022.

Eitt af vandamálum skilnaðarins var það, hvar ætti að lenda þeir þurfamenn, sem dvalist höfðu sitt á hvað í hreppnum og bænum. „Nefndin áleit að leysa mætti þetta þannig, að bæinn og hreppinn væri í tilliti til annara hreppa að álíta hin fyrstu árin eftir skiftin sem eitt, en að því leyti vafi væri á hvort hreppur eða bær ætti að annast einhvern þurfaling, þá skyldi þessi vera þar sveitlægur er hárin hefði dvalist hinn mesta hluta af 5 árum, ellegar þó heldur sjerhver þurfamaður verða sveitlægur þar sem hann væri, þó hann eftir skilnaðinn þyrfti á styrk að halda, þegar hann fyrir og eftir skilnaðinn hefði dvalist til samans í bænum og hreppnum um 5 ára tíma“. Lagði nefndin svo til að sjerstakri nefnd yrði falið að sjá um skilnaðinn og skiftin og ætti í henni að vera þáverandi fátækrastjórn og nokkrir dánumenn, sem amtmaður tilnefndi.

Reykjavík

FYRIR nær réttum 160 árum, í október, var kveðinn upp úrskurður sem leiddi af sér að torfbæir hurfu úr miðbæ Reykjavíkur. Það var Stefán Gunnlaugsson bæjarfógeti sem kvað upp þennan dóm í framhaldi af því að Jóhannes Zoëga ætlaði að laga hesthúskofa og torfbæ sinn. Faðir þessa Jóhannesar var Jóhannes Zoëga eldri sem að sögn Árna Óla í bókinni, Reykjavík fyrri tíma, var ættaður frá Slésvík. Frá honum og konu hans, Ástríði Jónsdóttur, er Zoëgaættin komin. Hinn 29. maí 1839 hafði Friðrik VI gefið út opið bréf um stofnun byggingarnefndar í Reykjavík, sem ekki var vanþörf á, því áður höfðu menn getað byggt þar sem þeim sýndist. Það var í verkahring byggingarnefndar að sjá um skipulag bæjarins, ákveða hvar götur og torg skyldu vera og úthluta lóðum undir byggingar. Í Suggersbæ Jóhannesar Zoëga, 90 ára torfbæ, var þakið tekið að leka og vildi eigandinn gera við það en hóf framkvæmdir án þess að bíða álits byggingarnefndar. Byggingarnefnd skaut málinu til yfirvalda sem kváðu upp fyrrnefndan úrskurð. Út af þessu máli var svo bannað að byggja torfkofa í miðbænum í Reykjavík og jafnframt ákveðið að uppistandandi torfbæir skyldu rifnir þegar þeir þörfnuðust viðgerðar.

Það er sennilega Stefáni Gunnlaugssyni mest að þakka að svo hljóðalítið náðist samkomulag um þetta mál. Hann var einn í þeirri nefnd er embættismannanefndin fól að athuga málið, og hann var einnig bæjarfógeti hjer og formaður bæjarstjórnar. Hann hafði frá öndverðu talið að báðir aðilar hefði hag af skilnaðinum og gat beitt áhrifum sínum í embættismannanefndinni og bæði gagnvart bæarfulltrúum og fátækrastjórn. Hitt hefir hann ekki látið sig neinu skifta hvað kaupmannaklíkan í bænum vildi.
Málið var nú aftur sent Kansellí. Það ráðgaðist við Rentukammer um það, og var Rentukammer því fylgjandi að skilnaður færi fram. En málið var þó saltað um sinn, vegna þess að nú stóð til að endurreisa Alþingi og mun Kansellí hafa þótt rjett að málið kæmi til þess kasts.
Alþingi kom svo saman sumarið 1845. Stjórnin lagði þá fyrir það frumvarp til reglugerðar um stjórn bæarmálefna í Reykjavík, og segir svo í 1. gr. þess: Kaupstaðurinn Reykjavík skal framvegis eins og áður eiga þing sjer með takmörkum þeim, sem þinghánni eru sett í konungsúrskurði 24. febr. 1835. Skal þó sambandi því, sem er á milli fátækrastjórnar kaupstaðarins og Seltjarnarnesshrepps slitið. Skal skilnaður þeirra hefjast um byrjun hins fyrsta reikningsárs eftir að þessi tilskipun vor er flutt til Reykjavíkur. Upp frá þessum tíma skal fátækramálefnum í Seltjarnarneshreppi stýrt á sama hatt, sem í öðrum hreppum, en í Reykjavík skal stjórn á fátækramálefnum löguð samkvæmt reglum þeim, sem settar eru í reglugerð um fátækrastjórnir hvorutveggja, þó skulu í nefnd þeirri, er stjórn hefir á hendi, einungis sitja dómkirkjuprestur, bæjarstjóri og 2 fátækrastjórar. — Fje því, er fátækrahrepparnir eiga saman, svo og álögum, skal skift eftir hlutfalli 26:11. — Þessi skifti skulu gerð af nefnd þeirri, er hefir haft sameiginlega fátækrastjórn í báðum hreppum, ásamt 5 dánumönnum, 2 úr Reykjavík og 3 úr Seltjarnarneshreppi og skal amtmaður kjósa þá.

Arni Helgason

Árni Helgason.

Þingið kaus þegar í upphafi nefnd 5 kunnugra manna til þess að athuga málið og voru í henni Þorgr. Thomsen skólaráðsmaður, Árni Helgason stiftprófastur, Helgi G. Thordersen prófastur, J. Johnsen assesor og Jón Sigurðsson stúdent. Var og farið fram á það að Jón Guðmundsson veitti nefndinni aðstoð sem sá maður er best vit hefði á þessu. Helstu breytingar sem nefndin gerði voru þær, að fátækrafulltrúar í Reykjavík, yrði þrír, og að amtmaður tilnefndi ekki menn í skilanefndina heldur yrði þeir kosnir af bæjarstjórn og hreppsbúum, „þar eð vjer getum ekki treyst amtmanni eins vel og hverjum þessara fyrir sig til að kjósa þá, sem best sje kjörnir til þessa starfa“. Konungsfulltrúi lagðist fast á móti því, að Seltirningar fengi sjálfir að kjósa fulltrúa sína, en því var ekki skeytt og frv. samþykt með þessum breytingum. Konungur staðfesti síðan frv. eins og Alþingi gekk frá því (27. nóv. 1846).

Helgi G. Thodrarensen

Helgi G. Thodrarensen.

Þá lá næst fyrir að kjósa skilanefndina. Reykvíkingar kusu þá Jón Markússon kaupmann og Sveinbjörn Jakobsen kaupmann, en Seltirningar kusu Helga G. Thordersen, Þórð Sveinbjörnsson háyfirdómara og Pjetur bónda Guðmundsson í Engey. Sjálfkjörnir í nefndina voru bæarfógeti, bæjargjaldkeri, Moritz Biering kaupmaður, Ásgeir Finnbogason í Bráðræði og Sigurður Ingjaldsson í Hrólfsskála, en þeir höfðu fram að þessu stjórnað sameiginlegum fátækramálum.
Nefndin hélt fyrsta fund sinn á Jónsmessu 1847 og varð þegar nokkurn veginn ásátt um það hvernig skiftum skyldi haga. Þá voru hjer 33 ómagar, en auk þess fengu 12 heimilisfeður nokkurn styrk. Alls var fátækraframfærið 106% tunna af rúgi, og tók Seltjarnarneshreppur að sjer ákveðna ómaga og heimilisfeður, sem fengið höfðu 32 tunnur af rúgi, en Reykjavík sat með hina. Um haustið (5. nóv.) fóru svo fullnaðarskifti fram. Sameiginlegar eignir voru taldar 2650 rdl. 12 sk. Urðu menn vel ásáttir um skiftin og komu 1862 rdl. 24 sk. í hlut Reykjavíkur, en 787 rdl. 84 sk. í hlut hreppsins. Var samningur þessi staðfestur af stjórninni og þar með var fullkomnaður skilnaður Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – herforningjaráðskort frá 1908.

En svo hafa örlög þeirra verið nátengd, að skiftingin hlaut að leiða til margskonar árekstra. Seltjarnarnesshreppur varð mesta uppgangssveit, en Reykjavík óx henni þó yfir höfuð og varð æ voldugri og ágengari nágranni, vegna þess að henni var lífsnauðsyn á útþenslu. Hefir þetta aðallega bitnað á Seltjarnarnesshreppi og er nú svo komið að manni verður á að spyrja hvort ekki hefði verið happadrýgst fyrir báða aðila að tillaga Gunnlaugs sýslumanns Briem um sameiningu kaupstaðar og hrepps hefði náð fram að ganga fyrir tæpum 150 árum. Eftir öllum sólarmerkjum hlýtur þessi sameining að fara fram. Viðburðarásin stefnir öll að því og skal hjer drepið á hið helsta.

Reykjavík

Reykjavík – lögbýli 1703.

Þegar hið forna Kjalarnesþing skiftist í tvær sýslur fengu þær ný nöfn og var önnur nefnd Gullbringusýsla en hin Kjósarsýsla. Sýslumörkin voru Elliðaár, Hólmsá upp í Vötn og þaðan í Lyklafell að sýslumörkum Árnessýslu. Halda margir enn í dag að þessi sje sýslumörkin og þar mætist þrjár sýslur. En svo er ekki. Sýslumörkin færðust vestur í Bláfjöll, vegna þess að Seltjarnarneshreppi var svo að segja rænt frá Gullbringusýslu og honum skeytt við Kjósarsýslu. En um það er þessi saga.
Sýslurnar höfðu um nokkurt skeið verið sameinaðar og var sýslunefnd þannig skipuð að í henni voru 3 fulltrúar frá Kjósarsýslu en 9 frá Gullbringusýslu. Urðu stundum ýmsar greinir í með fulltrúunum vegna þess hvað atvinnuhættir voru ólíkir í sýslunum. Í Kjósarsýslu stunduðu allir landbúnað, en í Gullbringusýslu var mest treyst á sjóinn. Og er nú kom að því að útlend skip spiltu svo veiðum í Faxaflóa að afli brást á opna báta og bágindi urðu meðal Suðurnesjamanna, þá tóku Kjósarmenn að ókyrrast. Út af því var það, að sjera Þórarinn Böðvarsson bar fram á Alþingi 1877, að þeirra ósk, frumvarp um skilnað sýslanna.

Mosfellsbær

Mosfellsbær.

Það féll í Neðri deild með jöfnum atkvæðum og varð því það að fótakefli að málið hafði ekki verið borið undir sýslunefnd. Tveimur árum seinna kom frv. aftur fram á Alþingi, en dagaði uppi. Þá var farið með málið til sýslunefndar og felst hún á það 1880 að skilnaðurinn færi fram og skyldi hin gömlu sýslumörk haldast. Enn kom málið fyrir Alþingi 1881 og var fyrst tekið til meðferðar í neðri deild. Þingmenn litu svo á að Kjósarsýsla yrði alt of lítil, aðeins 3 hreppar og bættu því inn í frumvarpið að Seltjarnarshreppur skyldi leggjast við Kjósarsýslu. Þegar til efri deildar kom var frumvarpið felt vegna þessarar breytingar og sýslunefnd tjáði sig einnig mótfallna því að hinum gömlu sýslumörkum væri raskað.

Kópavogur

Kópavogur – umdæmismörk 2020.

Nú lá málið niðri þangað til árið 1903. Þá bar Björn Kristjánsson fram frv. á Alþingi um skilnað sýslanna og skyldu ráða hin gömlu sýslumörk. En þá reis landshöfðingi og sagði að það væri fásinna að gera 3 hreppa að sýslu. Kvaðst hann mundu verða á móti frv. ef Seltjarnarnesshreppi væri ekki bætt við Kjósarsýslu. Var svo farið að vilja hans og málið afgreitt sem lög. Sýslunefnd var nú alls ekki spurð hvort henni þætti betur eða ver, og enginn mælti gegn frv. nema Skúli Thoroddsen. Vildi hann að hreppsbúar á Seltjarnarnesi væri að því spurðir hvort þeir vildu heldur vera í Kjósarsýslu eða Gullbringusýslu, en því var ekki sint.

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

Þannig skeði það rjettum 100 árum eftir að Reykjavík var gerð að sjerstöku lögsagnarumdæmi, að Seltjarnarnes, sem altaf hafði verið í Gullbringusýslu, var lagt undir Kjósarsýslu án þess að sýslunefnd og hreppsbúar fengi þar neitt um að segja.

Seltjarnarnes

Nes og Neskirkja fyrrum.

Upphaflega voru þrjár kirkjusóknir í Seltjarnarnessókn, Nessókn, Víkursókn og Laugarnessókn. Víkurkirkjan var aðalkirkja, hitt voru annexíur. Árið 1794, þegar byrjað var á dómkirkjusmíð í Reykjavík, var birt konungleg tilskipun um að leggja niður Laugarnesskirkju, vegna þess að hún væri komin að hruni, og bæta sókninni við Víkursókn. Þremurr árum seinna kemur svo annar Konunglegur úrskurður um það að Neskirkja skuli lögð niður og sókninni bætt við Víkursókn. Segir Jón biskup Helgason að Seltirningar hafi tekið þessu dauflega, en ekki fengið við ráðið, Neskirkja hafði þá verið endurbygð fyrir skömmu og var hið stæðilegasta hús. En í ofviðrinu mikla hinn 9. janúar 1799 (þegar sjávarflóð sópaði burt Básendakauptúni) fauk Neskirkja.
Upp frá því var Dómkirkjan eina guðshúsið á Seltjarnarnesi og þangað áttu allir hreppsbúar kirkjusókn upp frá því, svo að í kirkjumálum hefir samband hrepps og kaupstaðar haldist síðan.

Reykjavík

Reykjavík – Laugarnes 1836.

Næst er svo að segja frá útþenslu Reykjavíkur.
1894 voru sett lög um það, að jarðirnar Laugarnes og Kleppur skyldu lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur frá fardögum. Höfðu Seltirningar þó barist með hnúum og hnefum gegn því.
1923 voru sett lög um það, að jarðirnar Breiðholt, Bústaðir og Eiði skyldu lagðar undir lögsagnarumdæmi og bæarfjelag Reykjavíkur, og jafnframt heimilaðist Seltjarnarneshreppi vatn og rafmagn frá Reykjavík, gegn því að greiða kostnað við að koma því þangað. „Frá sama tíma var og rafmangsstöðin við Elliðaár ásamt íbúðarhúsi og lóð, svo og Elliðaárnar með árhólmanum, árfarvegunum og landi á austurbökkum ánna er þarf til byggingar þeirra mannvirkja, er þurfa þykir framvegis til hagnýtingar vatnsorkunnar að fullu og vegna laxveiðinnar og starfrækslu hennar, úr landi jarðanna Ártúns og Árbæjar í Mosfellssveit, lögð undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur“.

Seltjarnarnes

Nesstofa – Esja í bakgrunni.

Eftir þessa breytingu var Seltjarnarnesshreppur orðinn einhver einkennilegasti hreppur á landinu, vegna þess hvað hann var í mörgum molum. Fyrst var nú Framnesið sjálft, svo var Skildinganes umlukt Reykjavíkurlandi, svo voru bæirnir Digranes, Kópavogur og Fífuhvammur á einni skákinni, á fjórðu skákinni voru bæirnir Vatnsendi, Elliðavatn, Hólmur og Lækjarbotnar, og svo voru eyjarnar hjer úti fyrir.
1929 voru svo jarðirnar Ártún og Árbær að fullu innlimaðar lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Elliðavatn

Elliðavatn – bærinn.

1931 voru enn sett lög um stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Þá voru undir hana lagðar jarðirnar Þormóðsstaðir og Skildinganes „ásamt öllum lóðum og löndum, sem seldar hafa verið frá þeim, svo og verslunarstaðurinn Skildinganes við Skerjafjörð“. Var svo ákveðið að fyrir árslok 1932 skyldu fara fram endanleg fjárskifti milli Reykjavíkur og Seltjarnarnesshrepps, þar á meðal væntanleg skaðabótagreiðsla til hreppsins og Kjósarsýslu vegna laga þessara, og Reykjavík var gert að skyldu að kaupa vatnsveitu Skildinganesskauptúns.

Vatnsendi

Vatnsendi.

1942 voru sett lög um að Reykjavík mætti taka eignarnámi spildu af landi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarnesshreppi til þess að auka við fyrirhugað friðland Reykvíkinga á Heiðmörk.
1943 fer svo fram mesta stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Þá eru undir hana lagðar jarðirnar Elliðavatn og Hólmur í Seltjarnarnesshreppi, „ásamt lóðum og löndum, er úr þeim hafa verið seldar, svo og spilda sú úr landi Vatnsenda, er Reykjavík kann að taka eignarnámi“. Ennfremur jarðirnar Grafarholt (að svo miklu leyti sem eignarnámsheimild nær til), Gufunes, Keldur, Eiði, Knútskot, Korpúlfsstaðir, Lambhagi, nýbýlið Engi, Reynisvatn og jarðarhlutinn Hólmsheiði í Mosfellssveit ásamt öllum lóðum og löndum, sem seldar hafa verið úr þeim.

Landnám

Landnám Ingólfs – hluti af Íslandskorti 1550.

Skömmu eftir að þetta var, fer Digranesháls að byggjast, alt út á Kársnes. Ríkissjóður á þetta land og úthlutaði því til ræktunar, en ekki var til þess ætlast upphaflega að þar risi bygð, nema hreppsnefnd Seltjarnarness leyfði. Mikil eftirsókn var að löndum þarna og fengu færri en vildu. Sýnir það best hvað Reykvíkingar eru sólgnir í að fá land til ræktunar og komast í samband við gróðurmoldina, því að það voru Reykvíkingar, sem lögðu Digranesháls undir sig. Til þess að geta hagnýtt löndin urðu þeir að byggja þar skýli, og vegna húsnæðiseklunnar í Reykjavík, urðu brátt úr skýlunum íbúðarhús. Þau þutu þarna upp, hvað sem hreppsnefndin sagði, og hún rjeði ekki neitt við það hverjir fluttust inn í hreppinn á þennan hátt. Út af þessu varð svo óánægja, sem leiddi til þess, að nýbýlahverfið sagði sig úr lögum við Seltjarnarnesshrepp. Var þar stofnaður sjerstakur hreppur árið 1947 og heitir Kópavogshreppur, og undir hann lagðar jarðirnar Digranes, Kópavogur, Fífuhvammur, Vatnsendi, Geirland, Gunnarshólmi og Lögberg (Lækjarbotnar). Hreppur þessi er í þremur skákum, nesið sjálft, Vatnsendaland umkringt Reykjavíkurlandi og efst þrjú býli út af fyrir sig. En Seltjarnarnesshreppur er nú ekki orðinn annað en totan fyrir framan Lambastaði og svo eyjarnar.
Þess getur áreiðanlega ekki orðið langt að bíða, að lögsagnarumdæmi Reykjavíkur verði látið ná yfir alt Seltjarnarnes, og hverfur þá Seltjarnarnesshreppur úr sögunni. En Kópavogshreppur hinn nýi á líka að sameinast Reykjavík. Hann er hvort sem er ekki annað en úthverfi Reykjavíkur og verður að byggja tilveru sína á Reykjavík. Þar eru engin atvinnufyrirtæki, er geti veitt íbúunum atvinnu. Hana verða þeir að sækja til Reykjavíkur. Þeir eru og algjörlega upp á Reykjavík komnir með vatn og rafmagn, og eðlilegast er að Reykjavík sjái þeim fyrir bættum samgöngum.

Íslandskort

Íslandskort (Nova et accurata Islandiæ delineatio) frá árinu 1670, gert af Þórði Þorlákssyni biskupi í Skálholti. Fyrir neðan Íslandskortið er Lofkvæði til Kristjáns konungs V, skrifað í fjóra dálka, á latínu, dönsku og íslensku með venjulegu letri og rúnaletri. Efst á kortinu eru myndir af sjávardýrum og skjaldarmerki Íslands, sem er flattur þorskur borinn af tveimur fuglum, í hægra horni, þar fyrir neðan er titill. Í neðra horni vinstra megin er skjöldur með táknmyndum og tileinkun til Kristjáns V. Danakonungs. 

Rás örlaganna verður ekki stöðvuð. Sá búhnykkur Magnúsar Stephensen landshöfðingja, að taka Seltjarnarnesshrepp af Gullbringusýslu og skeyta honum við Kjósarsýslu, hefir ekki reynst haldbært nje heppilegt fyrirtæki. Lögsagnarumdæmi Reykjavíkur er komið sem fleygur milli sýslanna, alt suður að takmörkum Árnessýslu í Bláfjöllum, en með smáblettum inn á milli, sem enn teljast sjerstakir hreppar. Að því hlýtur að koma, áður en langt um líður, að þessir blettir allir hverfi inn í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.
Innilokunarstefnan hefti mjög vöxt og viðgang Reykjavíkur fyrrum. Sumum finst nú nóg um frjálsræðið, þar sem svo virðist að hver sem vill geti sest hjer að. En þetta tímanna tákn hefir haft endaskifti á fyrri reynslu. Aðstreymi fólks og vaxandi bygð er áður kom Reykjavík í kútinn, hefir nú reist hana á legg til meiri virðingar en nokkuru sinni áður. Hún hefir þurft og þarf enn aukið alnbogarúm. Og alt bendir til þess, að þess verði ekki langt að bíða, að land hennar nái yfir alt land jarðarinnar Víkur, eins og það var á Ingólfs dögum, eftir að hann hafði skift landnámi sínu milli þeirra manna, er seinna komu.” – Á.Ó.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 4. tbl. 28.01.1951, Skilnaður Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps – Árni Óla, bls. 45-51.
Landnám