Grafarkot

Í Örnefnalýsingu fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967, er getið um sel frá Árbæ á Nónhæð, “austanverðum ásnum” ofan Grafar, suðaustan Grafarvogs. Í þá daga hafði jörðin Gröf ekki verið byggð eftir að hafa verið í eyði um tíma. Sömu sögu var að segja um Grafarholt og Grafarkot (Holtastaði).

Grafarkot

Grafarkot, Grafarholt og Gröf – kort 1908.

“Um Grafarkot segir í A.M. 1703; „byggð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina, að forn eyðijörð verið hafi og hún fyrir svo löngum tíma í auðn komin, að fæstir vita, hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa, að þessi jörð hafi heitið að fornu Holtastaðir“. Fornu rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefur verið mikið stærra fyrrum og girt, en utan við það afar fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.

Grafarkot

Grafarkot 2022.

Á sauðaútflutningsárunum vóru hér geymdir 2200 sauðir um tíma, gerði næturbyrgingar búið til á þann hátt, að í túninu var rist ofan af löngum flögum og þökunum hlaðið í garða á ytri brúninni.
Sel hefur verið suðaustan undir ásnum [Nónhæð]. Það er í Árbæjarlandi.”

Gröf var við Grafará. Ofar var Grafarholt, eða Suður-Gröf. Enn ofar í hallanum var Grafarkot. Tóftir þeirra fyrstnefndu og síðastnefndu sjást að hluta til enn.

Árbæjarsel

Árbæjarsel í Nónhæð.

Í annars óaðgengilegri fornleifaskráningu Bjarna Einarssonar fyrir Reykjavík 1995 segir m.a. um fornleif í Nónæð, skammt vestan mýrarlækjar, sem rennur í Grafarlæk:

“Sel; 7x5m (A-V). Veggir úr torfi og grjóti, br. 0,6-1,3m og h. 0,2-0,5m. Fornleifarnar samanstanda af 2 hólfum (A og B). Dyr á báðum hólfum í N. Við NA- horn, er rúst 4x 3m (N – S).
Veggir úr torfi, dyr trúlega í N. Í A-vegg er stór steinn, 0,3×0,8 m. Nýlegur troðningur liggur yfir NA-horn hólfsins. 5m S af selinu er vegur (A-V), br. 2,5 m (gróinn) og l. 4 m.”

Árbæjarsel

Árbæjarsel – stekkur í Nónhæð.

Hér þrennu við að bæta; í fyrsta lagi er þriðja tóftin ekki við NA-horn selsins. Hún er við SV-horn þess. Í öðu lagi vantar í skráninguna forna fjárborg eða aðhald SV við selið. Og í þriðja lagi vantar stekkinn, sem tillheyra öllum öðrum selstöðum á Reykjanesskaganum. Hann er að finna á grónu svæði skammt vestan við selið.

Grafarsel

Grafarsel.

Í Örnefnalýsingunni segir auk þess: “Gröf/Grafarholt er býli sunnanvert við botn Grafarvogs. Það hét áður Gröf en þegar bæjarstæðið var flutt á núverandi stað árið 1907 var nafninu breytt. Gröf er eign Viðeyjarklausturs árið 1395 og varð konungseign við siðaskipti. Um 1840 var jörðin sel en árið 1943 var hún lögð undir Reykjavík og meginhluti hennar tekinn eignarnámi 1944. Í landi Grafar voru meðal annars Baldurshagi, Engi, Rauðavatn, Selás og Smálönd.144 Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Grafar; „Selstöðu á jörðin í heimalandi, sem nauðsynleg er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“ Í örnefnalýsingu fyrir Gröf segir; „Djúpidalur er suðvestur af Grenisás, djúpur dalur. Hann er lokaður inni, en opnast suður að Hvömmum, skáhalt að svonefndum Selbrekkum. … .Þá eru Selbrekkur, er ná alveg frá Rauðavatni upp að Tvísteinum. Þar sér fyrir seltóftum efst í aðalbrekkunni.“ Grafarsel er enn vel sýnilegt ofarlega í grasigróinni brekku norðaustur af Rauðavatni.”

Árbæjar er ekki getið í Jarðabókinni 1703.

Árbær

Árbær – fornleifauppgröftur.

Í “Byggðakönnun – Árbær – 2017” segir: “Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd.

Saga Árbæjar er hins vegar mun eldri en þekktar heimildir gefa til kynna því árið 2016 leiddu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu í ljós að þar var búið á 11. öld og jafnvel þeirri tíundu. Leiða má að því líkur að það sama eigi við um búsetu á öðrum þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar.”

Heimildir:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. III: 296
-Bjarni F. Einarsson 1995, Fornleifaskrá Reykjavíkur.
– Örnefnalýsingu fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967.
-Byggðakönnun – Árbær – 2017.

Árbæjarsel

Árbæjarsel á Nónhæð – uppdráttur ÓSÁ.