Færslur

Grásteinn

“Grásteinn nefnist klofinn steinn við Vesturlandsveg austan Grafargils og hafa álfar verið sagðir búa í honum.
Grásteinn 1989Vegna vegaframkvæmda á árunum 1970-1971 var hann fluttur þangað sem hann stendur nú, en óhöpp voru sett í samband við þann flutning og álfasögur kviknuðu og fengu byr undir báða vængi.
Af þessum sökum var Grásteinn tekinn með við fornleifaskráningu Þjóðminjasafns Íslands á svæðinu árið 1983. Af því leiddi að steinninn var talinn njóta verndar þjóðminjalaga. Var Vegagerð ríkisins bannað að færa steininn aftur nema hún fengi samþykki fornleifanefndar fyrir því. Vegna áforma um að breikka Vesturlandsveg óskaði vegagerðin eftir slíkri heimild árið 1998, og fékk hana, en með því skilyrði, að áður skyldi leita allra leiða til að komast hjá því að hrófla við steininum.
Grásteinn 1989Álitamál er hvort steinninn eigi að vera verndaður, en kastljósi fjölmiðla hefur fremur verið beint að deilunni um tilvist álfa í honum. Tilgangurinn með þeirri athugun, sem hér verður greint frá, var að grafast fyrir um hvort Grásteinn tengdist þjóðtrú að því leyti, að hann heyrði með réttu og lögum samkvæmt undir þjóðminjavörsluna.
Segja má að hér kristallist ýmis vandamál sem minjavarslan í landinu stendur andspænis vegna síaukins eftirlits með skipulags- og umhverfismálum.
Elsta heimild um Grástein mun vera ítarleg örnefnalýsing sem Björn Bjarnason í Gröf (síðar Grafarholti) ritaði fyrir jörð sína og gaf Landsbókasafninu 2. maí 1918. Ekki er annað sagt um steininn í þeirri lýsingu en hvar hann stóð.
Grásteins virðist svo hvergi vera getið síðan fyrr en í sambandi við vegaframkvæmdirnar við Vesturlandsveg árið 1971 – og þá í fyrsta sinn í tengslum við huldufólk.

Grásteinn 2008

Greindi frá því á forsíðu Vísis hinn 29. júlí það ár hvernig álfatrú tengd steininum hafði áhrif á vegavinnuna. Hafði hann þá verið fluttur af þeim stað sem hann stóð frá fyrstu tíð:
“Vegavinnumennirnir fullyrða nú, að þeir sem áttu þátt í að flytja steininn um áramótin hafi allir orðið fyrir einhverjum óhöppum og slysum. – Sá kvittur kom upp fyrir skömmu að nú ætti að flytja steinana á nýjan leik, en vegavinnumennirnir eru ekki hrifnir af þeirri hugmynd, og þeir, sem Vísir talaði við, sögðu afdráttarlaust, að þeir myndu neita að koma nálægt því verki.”
Í grein á innsíðum blaðsins segir m.a. að steinarnir séu þrír að tölu: “Klettarnir voru fluttir úr stað um síðustu áramót, en þá voru þeir í vegi fyrir framkvæmdunum. Þrjár kröftugar jarðýtur sáu um um að róta þeim til, en ekki nógu langt, því að nú eru klettarnir fyrir enn einu sinni.”
Fram kemur í vitaði með umfjölluninni að þrír menn hafi slasast eftir að þeir áttu við steinana, þar af einn alvarlega á fæti. Stærsti steinninn hafi heitið Grásteinn 2008Grásteinn en sá minnsti Litli bróðir. Kristín Bæringsdóttir, húsfreyja í Grafarholti í 29 ár kannaðist ekki við að huldufólk tengdist steinunum að öðru leyti en því að fólk hefði sagt að í svona stórum steinum hlyti að vera huldufólk. Í endurminningum Skúla Pálssonar í Laxalóni kemur fram að 90 þúsund laxaseiði hefðu brepist þegar jarðýtustjóri tók í sundur vatnsinntak fiskeldis hans í nóvember árið 1970, daginn eftir að Grásteinn hafði verið færður til. Sumir töldu ástæðuna fyrst og fremst hafa verið að ræða fljótræði ýtustjórans. Ágúst Ólafur Georgsson, þjóðháttafræðingur, hafði sumarið 1980 efir Jóel Jóelssyni, bónda í Reykjahlíð II, að Halldór Laxnes, skál í Gljúfrasteini, teldi að umræddur steinn væri álagasteinn. Â Fornleifadeild Þjóðminjasafnsins setti steininn í svokallaðan A-flokk fornleifa í fornminjaskrá, þ.e. með þeim minjum sem hafa mest minja- og varðveislugildi.
Grásteinn 2008Grásteinn var aftur í fréttum í júní 1994 vegna þess að hann var fyrir áformuðum vegaframkvæmdum, er breikka átti Vesturlandsveginn. Í fréttþættinum 19.19 á Stöð 2 sagði frá því hinn 20. júní það ár að færa þyrfti steininn um 25 m leið, en Erla Stefánsdóttir, sem þjóðkunn sé fyrir tengsl sín við huldufólk, sæi hús í báðum steinunum og í þeim litlar verur glaðlegar. Var haft eftir Erlu að þessar verur hefðu flutt í steininn eftir að hann var síðast færður.
Var nú kyrrt um þetta mál til ársins 1998 að vegagerðin vildi ráaðst í framkvæmdir við Vesturlandsveg. Við mat á umhverfisáhrifum vegna breikkunar vegarins benti Árbæjarsafn á að veglínan færi nærri Grásteini, en taka yrði tillit til hans með því að hann væri á Fornleifaskrá Reykjavíkur.
Verkfræðistofa komst að raun um að færa þyrfti Grástein. Borgarminjavörður féllst á þá niðurstöðu.
Grásteinn varð enn á ný fréttaefni í janúar 1999, þegar leyfi til að flytja hann var fengið. Helgi Hallgrímsson, vegamálstjóri, sagði í Morgunblaðinu að steinninn væri fluttur til af tveimur meginástæðum, annarsvegar þar sem um skemmtilegt og nokkuð áberandi kennileiti væri að ræða, en hins vegar vegna sögusagna um álfabyggð í steininum.
Í sömu grein er haft eftir Sigurði Sigurðssyni, dýralækni, sem býr í grennd við steininn, að þegar hann var færður fyrra sinnið hefði hann klofnað og snúist, þannig að það sem áður sneri upp snúi nú niður.
Grásteinn 2008Málið snýst ekki um hvort álfar búi í Grásteini í Grafarholti, heldur hvort álagatrú á hann eigi rætur sínar að rekja svo langt aftur í tíma að hann skuli telja með fornleifum í skilningi 16. greinar þjóðminjalaga og þar með heyra undir þjóðminjavörsluna. Heimildakönnun bendir eindregið til þess að álfasögur hafi ekki verið tengdar Grásteini fyrr en í lok árs 1970. Af því leiðir að Grásteinn getur hvorki talist til fornleifa fyrr en í fyrsta lagi árið 2070. – þegar álagtrú á steininn á sér að minnsta kosti aldarlanga sögu – , né heyrt undir þjóðminjavörsluna í landinu, nema hann verði friðlýstur skv. 16. og 18. gr. þjóðminjalaga.
Grásteinn er og hefur fyrst og fremst verið áberandi kennileiti í landslaginu frá ómunatíð. Ekkert bendir til að hann hafi tengst trú álfa fyrr en í seinni tíð. Engar sagnir eru þekktar um hann eldri en 30 ára. Steinninn stendur ekki á upphaflegum stað, en hefur verið færður, a.m.k. tvisvar, við lagningu Vesturlandsvegar árin 1970 og 1971. Bjargið er talið vera um 50 tonn að þyngd, en þegar því var bylt klofnaði það.
Grásteinn var fluttur mánudaginn 18. október 1999 um 37 m til norðurs og vesturs. Flutningurinn tók um fjórar klukkustundir. Allt gekk vel utan hvað ein tréskófla brotnaði. Stærra bjargið vóg 35 tonn og hið minna 15 tonn. Álfanna vegna var þeim komið fyrir á sama hátt og þau stóðu síðast, – á hvolfi.”

Heimild:
-Ragnheiður Traustadóttir, Grásteinn í Grafarholti, um minjagildi ætlaðs álfasteins – Árbók fornleifafélagsins 1998, bls. 151-164.

Grásteinn 2008

Björn Bjarnason

Í skýrslu Árbæjarsafns um “Grafarvog – minjar og sögu” frá árinu 1998 er fjallað um Gröf (Grafarholt), Grafarkot (Holtsstaði), Oddgeirsnes, Keldur og Keldnakot (Lausingjastaði):

Gröf – Grafarholt
“Jörðin Gröf fékk nafnið Grafarholt þegar bærinn var fluttur á núverandi stað 1907.

Grafarholt

Grafarholt – byggt 1907.

Ekki er Grafar getið í Landnámu en byggð hefur trúlega hafist þar fljótt. Fyrst er hennar getið í máldaga Maríukirkju á Bessastöðum 1352 og seinna sem eign Viðeyjarklausturs 1395. Árið 1503 er gefið út skiptibréf þeirra Áma ábóta í Viðey og Halldórs Brynjólfssonar ájörðunum Strönd í Hvolhreppi og Gröf í Mosfellssveit. Við siðaskipti um 1550 sló konungurinn eign sinni á allar klausturjarðir á Íslandi og varð Gröf í Mosfellssveit því konungsjörð.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason 90 ára. Hér þakkar hann fyrir góðar kveðjur honum til handa.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 er konungur talinn eigandi, en ábúandi er Einar Þórðarson. Leiga var greidd konungi í smjöri til Bessastaða. Kvaðir um mannslán, hestlán til Þingvalla og annarra staða, jafnvel stundum norður í land og í ýmsar áttir. Skila átti tveimur dagsláttum, tveimur hríshestum og einum eða tveimur móhestum. Skera átti torf, flytja lax úr Elliðaánum, sjá um skipaferðir, sækja timbur til Þingvalla, hússtörf á Bessastöðum og fleira. Engjar jarðarinnar voru mjög litlar.
Kvikfénaður er skráður 6 kýr, 1 kvíga tvævetur, 8 ær með lömbum og 4 hestar. Heimilismenn eru skráðir 10. Kostir jarðarinnar eru taldir litlir. Hjáleigur eru taldar tvær, það eru Grafarkot sem byggðist upp þá fyrir 50 árum og hét hugsanlega Holtsstaðir áður og hjáleigan Oddgeirsnes sem er búin að vera eyðijörð í allra manna minni.
Litlum sögum fer af jörðinni en skömmu fyrir 1840 er hún seld eins og flestar konungsjarðir á þessum slóðum. Gröf var mjög landstór jörð.

Grafarholt

Fjölskyldan í Grafarholti. Efri röð frá vinstri: Kristrún Steindórsdóttir (1915-1998), Björn Steindórsson (1921-1974), Einar Þórir Steindórsson (1916-1991), Steindór Björnsson (1885-1972), Gunnar Steindórsson (1918-1966) og Guðni Örvar Steindórsson (1913-1981). Neðri röð frá vinstri: Steinunn María Steindórsdóttir (1922-2005), Vignir Guðbjörn Steindórsson (1919-1945), Rúnar Geir Steindórsson (1925-2012) og Guðrún Eybjörg Steindórsdóttir (1921-1948).

Framan af öldinni bjó í Grafarholti bændahöfðinginn Björn Bjarnason hreppstjóri og um skeið alþingismaður, fróðleiksmaður mikill, en sérkennilegur í mörgu.
Árið 1943 var jörðin Grafarholt lögð undir Reykjavík samkvæmt lögum og meginhluti hennar síðan tekin eignarnámi 1944.

Keldur

Keldur

Keldur.

Jörðin Keldur er norðaustan við Grafarvog. Bærinn sjálfur hefur alla tíð verið á svipuðum stað eða þar sem tilraunastöðin í meinafræðum er núna. Ekki er vitað hvenær byggð hófst á Keldum, en jörðin var talin meðal eigna Viðeyjarklausturs árið 1395, verður síðan konungseign við siðaskiptin eins og aðrar klausturjarðir. Litlar sögur fara af ábúendum í gegnum aldirnar. Samkvæmt Jarðabók árið 1704 voru ábúendur á Keldum, Sveinn Jónsson og ekkjan Vigdís Ketilsdóttir sem bjuggu á sitthvorum helmingi jarðarinnar.

Keldnasel

Keldnasel.

Leigajarðarinnar átti að borgast með smjöri til Bessastaða eða Viðeyjar. Kvaðir um mannslán voru eitt frá báðum, hestlán til alþingis meðan hestar voru til, hafa reipi, reiðinga og klyfbera til fyrir alþingisreiðina, dagslættir í Viðey tveir, hríshestar tveir og móhestar einn frá báðum, fóðra misjafnt eitt sinn hest og eitt sinn naut og ekki minna en tvö lömb, auk fleiri hvaða. Landþraung var mikil. Sveinn átti tvær kýr, tvær ær með lömbum, tvo veturgamla sauði, einn kálf og eitt hross. Vigdís átti fjórar kýr, einn kálf, þrjár ær með lömbum og ein gelda, einn sauð tvævetur og tvo veturgamla. Heimilismenn hjá Sveini voru fjórir en fimm hjá Vigdísi. Torfskurður til húsagerðar var nógur, en til eldiviðar var mótekja lök. Um vetur leggur bæ allan í fönn.

Keldnakot

Keldnakot.

Hjáleiga Keldna var Keldnakot. Það hafði árið 1704 verið í eyði í 20 ár en byggð þar fyrir um 20 ár. Sagt er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að þar hafi forn jörð verið og heitið Lausingjastaðir að sögn gamalla manna.

Jörðin var seld skömmu fyrir 1840 og var í einkaeign rúmlega eina öld þar til ríkissjóður kaupir hana árið 1941. Ýmsar byggingar hafa risið þar síðan á vegum háskólans, t.d. tilraunastöðin í meinafræðum sem reist var á árunum 1945-1948.”

Sjá meira um svæðið HÉR.

Björn Bjarnason

Björn Bjarnason (14.08.1856-
15.03.1951).

Í Morgunblaðinu 21. mars 1951 segir: “Björn Bjarnason í Grafarholti jarðsunginn í dag“:

“Hinn landskunni bændaöldungur, Björn Bjarnarson í Grafarholti verður jarðsunginn í dag að Lágáfelli í Mosfellssveit. Hann var á 95. aldursári, fæddur 1856 í Skógarkoti í Þingvallasveit.
Hann var einn þeirra Íslendinga, sem seint á öldinni, sem leið stunduðu bufræðinám við búnaðarskólann að Stend í Noregi og hóf síðan búskap hjer heima samkvæmt þeirri hagnýtu þekkingu, er hann aflaði sjer við þessa ágætu menntastofnun norskra bændaefna.
Nokkru eftir að hann kom heim, gerðist hann forgöngumaður að stofnun Hvanneyrarskólans. Á hann hlóðust fjölmörg trúnaðarstörf, sem of langt yrði upp að telja. Hreppstjóri Mosfellshrepps var hann í áratugi og þátttakandi í flestum meiri háttar fjelagssamtökum sunnlenskra bænda, er stofnað var til um og upp úr síðustu aldarmótum.

Grafarholt

Guðrún Björnsdóttir (1889-1935) árið 1911 – húsfreyja.

Björn heitinn var fæddur gætinn umbótamaður er unni þjóð sinni, velgengni hennar og bar hagsmuni sveitarfjelags síns mjög fyrir brjósti. Um tíma var hann þingmaður Borgarfjarðarsýslu.
Er hann hafði látið af búskaparstörfum og flestum trúnaðarstörf fyrir fyrir aldurssakir lagði hann stund á ýms íslensk fræði, málvöndun og hagnýtan fróðleik er hann hugði að komið gæti bændum og búaliði að gagni.
Hann átti lengi sæti á Búnaðarþingi og var árið 1932 kjörinn heiðursfjelagi Búnaðafjelags Íslands eftir 50 ára fjelagsstarf.
Á langri æfi átti hann í fórum sínum meira af lifandi fróðleik úr sögu íslenskrar bændastjettar en aðrir samtíðamenn hans.”

Heimild:
-Grafarvogur, Borgarhluti 8 – Minjar og saga, Reykjavík 1998 (Skýrslur Árbæjarsafns).
-Morgunblaðið 21. mars 1951, Björn Bjarnason í Grafarholti jarðsungin í dag, bls. 2.

Keldur

Keldur og Grafarholt – loftmynd.

Grafarkot

Í Örnefnalýsingu fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967, er getið um sel frá Árbæ á Nónhæð, “austanverðum ásnum” ofan Grafar, suðaustan Grafarvogs. Í þá daga hafði jörðin Gröf ekki verið byggð eftir að hafa verið í eyði um tíma. Sömu sögu var að segja um Grafarholt og Grafarkot (Holtastaði).

Grafarkot

Grafarkot, Grafarholt og Gröf – kort 1908.

“Um Grafarkot segir í A.M. 1703; „byggð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina, að forn eyðijörð verið hafi og hún fyrir svo löngum tíma í auðn komin, að fæstir vita, hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa, að þessi jörð hafi heitið að fornu Holtastaðir“. Fornu rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefur verið mikið stærra fyrrum og girt, en utan við það afar fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.

Grafarkot

Grafarkot 2022.

Á sauðaútflutningsárunum vóru hér geymdir 2200 sauðir um tíma, gerði næturbyrgingar búið til á þann hátt, að í túninu var rist ofan af löngum flögum og þökunum hlaðið í garða á ytri brúninni.
Sel hefur verið suðaustan undir ásnum [Nónhæð]. Það er í Árbæjarlandi.”

Gröf var við Grafará. Ofar var Grafarholt, eða Suður-Gröf. Enn ofar í hallanum var Grafarkot. Tóftir þeirra fyrstnefndu og síðastnefndu sjást að hluta til enn.

Árbæjarsel

Árbæjarsel í Nónhæð.

Í annars óaðgengilegri fornleifaskráningu Bjarna Einarssonar fyrir Reykjavík 1995 segir m.a. um fornleif í Nónæð, skammt vestan mýrarlækjar, sem rennur í Grafarlæk:

“Sel; 7x5m (A-V). Veggir úr torfi og grjóti, br. 0,6-1,3m og h. 0,2-0,5m. Fornleifarnar samanstanda af 2 hólfum (A og B). Dyr á báðum hólfum í N. Við NA- horn, er rúst 4x 3m (N – S).
Veggir úr torfi, dyr trúlega í N. Í A-vegg er stór steinn, 0,3×0,8 m. Nýlegur troðningur liggur yfir NA-horn hólfsins. 5m S af selinu er vegur (A-V), br. 2,5 m (gróinn) og l. 4 m.”

Árbæjarsel

Árbæjarsel – stekkur í Nónhæð.

Hér þrennu við að bæta; í fyrsta lagi er þriðja tóftin ekki við NA-horn selsins. Hún er við SV-horn þess. Í öðu lagi vantar í skráninguna forna fjárborg eða aðhald SV við selið. Og í þriðja lagi vantar stekkinn, sem tillheyra öllum öðrum selstöðum á Reykjanesskaganum. Hann er að finna á grónu svæði skammt vestan við selið.

Grafarsel

Grafarsel.

Í Örnefnalýsingunni segir auk þess: “Gröf/Grafarholt er býli sunnanvert við botn Grafarvogs. Það hét áður Gröf en þegar bæjarstæðið var flutt á núverandi stað árið 1907 var nafninu breytt. Gröf er eign Viðeyjarklausturs árið 1395 og varð konungseign við siðaskipti. Um 1840 var jörðin sel en árið 1943 var hún lögð undir Reykjavík og meginhluti hennar tekinn eignarnámi 1944. Í landi Grafar voru meðal annars Baldurshagi, Engi, Rauðavatn, Selás og Smálönd.144 Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Grafar; „Selstöðu á jörðin í heimalandi, sem nauðsynleg er, því jörðin stendur á horni landsins, en er mjög landljett heima.“ Í örnefnalýsingu fyrir Gröf segir; „Djúpidalur er suðvestur af Grenisás, djúpur dalur. Hann er lokaður inni, en opnast suður að Hvömmum, skáhalt að svonefndum Selbrekkum. … .Þá eru Selbrekkur, er ná alveg frá Rauðavatni upp að Tvísteinum. Þar sér fyrir seltóftum efst í aðalbrekkunni.“ Grafarsel er enn vel sýnilegt ofarlega í grasigróinni brekku norðaustur af Rauðavatni.”

Árbæjar er ekki getið í Jarðabókinni 1703.

Árbær

Árbær – fornleifauppgröftur.

Í “Byggðakönnun – Árbær – 2017” segir: “Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd.

Saga Árbæjar er hins vegar mun eldri en þekktar heimildir gefa til kynna því árið 2016 leiddu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu í ljós að þar var búið á 11. öld og jafnvel þeirri tíundu. Leiða má að því líkur að það sama eigi við um búsetu á öðrum þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar.”

Heimildir:
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. III: 296
-Bjarni F. Einarsson 1995, Fornleifaskrá Reykjavíkur.
– Örnefnalýsingu fyrir Grafarholt, Björn Bjarnason 1967.
-Byggðakönnun – Árbær – 2017.

Árbæjarsel

Árbæjarsel á Nónhæð – uppdráttur ÓSÁ.

Elliðakot

Í Alþýðublaðinu 1. nóv. 1963 fjallar Hannes á horninu m.a. um Elliðakot.

Elliðakot

Elliðakot.

“Um daginn vakti ég máls á því, að nýju elliheimili yrði valinn staður við Rauðavatn, og ræddi ég um þetta af tilefni þeirrar hugmyndar Gísla Sigurbjörnssonar að reisa smáhýsi við stærri elliheimili, sem aldrað fólk gæti fengið leigt eða að einhverju leyti til eignar en notið aðstoðar og fyrirgreiðslu starfseminnar í aðalbyggingunni. Hugmynd Gísla hefur nokkrum sinnum verið rædd opinberlega og ég minnist þess, að fyrir um tveimur áratugum minntist ég á svipað og þetta eftir að hafa kynnzt starfsemi fyrir aldrað fólk erlendis. Nú hefur mér verið bent á annan stað, sem gæti reynzt alveg eins heppilegur og við Rauðavatn, en það er jörðin Elliðakot, sem nú hefur verið í eyði í nokkur ár. Það var ræktað land og þar er fallegt vatn, skjólsamt og mátulega langt frá Reykjavík. Gott væri ef ráðamenn vildu athuga þessi mál. Elliheimili eiga ekki að vera inni í miðbiki borga. Þau mega heldur ekki vera langt í burtu. Rauðavatn og Elliðakot, virðast uppfylla flest skilyrði.”

Elliðakot

Elliðakot.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1914 fjallar Björn Bjarnason um örnefnin ofan Grafar, einkum þó hinar fornu þjóðleiðir.
“Eg hefi gert skrá yfir örnefni sem nú eru kunn á jörð þeirri, er eg hefi búið á nú síðastliðin 16 ár. Hún er sýnishorn af örnefnafjölda á einni jörð. Alt landið er nöfnum stráð. Verða mætti þetta öðrum til hvatningar er rita vildu slíka skrá fyrir jörð sína og þannig geyma örnefni hennar frá röskun og ef til vill glötun. Um notkun fornveganna má fræðast af rúnum þeim, sem hestafæturnir hafa rist á jörðina, þar sem tönn tímans eigi hefir til fulls afmáð þær eða útskafið, og sumstaðar hjálpa örnefnin til að skilja. Greinilegastar eru rúnir þessar sem spor í klappir, gatnafjöldi í grónu valllendi, sem ekki hefir legið undir árensli, og troðningar í móum. Þó þeir sé grónir aftur sjást göturnar af því, að þar eru geilarnar dýpri og beinni í sömu stefnu, en annarsstaðar. Í melum og lausagrjótsholtum má einnig finna fornvegina, stundum sem laut eða skoru, en þó einkum með því að athuga grjótið. Í götunni er það troðið, máðar af því nybbur líkt og brimsorfnu grjóti. Af því stafa litaskifti, sem sjást á því, þar sem umferð hefir verið, þó hún sé hætt fyrir löngu.

Austurleið

Austurleið.

Alla tíð síðan landið var bygt hlýtur umferð að hafa verið mikil milli austurhéraðanna annars vegar og sveita og hafna við sunnanverðan Faxaflóa hins vegar. Uppsigling kaupmanna hefir verið þar tíðari og sjávarafli vissari en á brimströndunum ofanfjalls, en aftur á móti betri landbúnaður eystra, og vöruskifti þvi mikil milli þessara staða. Hestar voru einu flutningatækin. Þó ferjur væru við stórárnar hafa menn heldur kosið að fara þær á vöðum, er þess var kostur. Flóann hafa menn forðast vegna foræðanna og hraunin vegna ógreiðfærni og járnafrekju. Aðalvegurinn austan að, úr Rangárvallasýslu, hefir verið fyrir ofan Flóann, Þjórsá farin á Nautavaði eða Kallaðarholtsferju. (Sá bær er nú nefndur Kaldárholt, sbr. Árbók Fornl.fl. 1907, bls. 36. Norðan við túnið þar er Naustanes og Skipaklettur við Þjórsá og bærinn er í stefnu við veginn norðan Flóans. Engin Kaldá er þar til, en hverir í Þjórsá við túnið). Síðan hefir vegurinn legið yfir Skeið, sunnan undir Vörðufelli, og þá ofan með Hvítá. Vegarskoran í Árhrauni og gatnafjöldinn á Brúnastaðaflötum ber vott um, að sá vegur hefir verið fjölfarinn, en nú er þar að eins bæjaslangurs-umferð. Hvítá hefur verið farin á ferjum eða vaðinu, sem Vaðnes dregur nafn af. En á Soginu var almenningsvað, oftast fært, yfir Álftavatn, fram um miðja næstliðna öld. Þaðan lá leiðin upp Grafning, Dyraveg og Mosfellsheiði til Almannadals. Þessi leið var einnig beinust fyrir þá, sem fóru Hvítá á Tunguvaði og út Tungur, eða á ferjum þar fyrir neðan alt að Laugardælum. Á allri þessari leið er aðeins ein brekka, svo teljandi sé, og hún ekki há, upp á Dyrafjöllin að austan hjá Nesjavöllum, lítið um votlendi og engin hraun nema stuttan spöl á tveim til þrem stöðum.

Sporið

Sporhellan ofan Dyradals.

Þenna veg hafa t. d. Skálholtslestirnar farið til Suðurnesja öldum saman, og hefir munað um sporin þeirra. Allstaðar er graslendi og hagar góðir með þessum vegi. Þar sem vegurinn liggur yfir Dyrafjóllin eru þau aðeins lítill háls með ásum og vellisdölum. Á einum ásnum verður að fara yfir hallandi klöpp, sem nefnd er Sporhella. Hefir myndast sporaslóð i bergið, efst fyrst, en sporin síðan stigist niður eftir klöppinni. Eru nú sporarákarnar með bálkum á milli orðnar um 2 fðm. að lengd (líkist tönnum í greiðu). Vegur þessi hefir nú lengi verið sjaldfarinn. Dyrnar, sem nafnið er dregið af, eru á veginum milli Dyradals og Skeggjadals; er rétt klyfjagengt milli standklettanna. Af vestasta ásnum blasir við útsýn yflr Faxaflóa og Nesin. Vestur eftir Mosfellsheiði sést enn dökk, breið rák eftir umferðina. Þar eru víðir mosamóar, sem margar götur hafa myndast í, og eru enn ekki að fullu grónar. Og þessi vegur hefir á fyrri öldum legið um Hofmannaflöt til Almannadals.
Önnur aðalleiðin austanað hefur verið út með sjó, sunnan Flóa, um Sandhólaferju og Óseyrarferju, og þeir, sem áttu leið vesturyfir heiði, hafa einkum farið Ólafsskarðsveg. Hann er því nær brekkulaus og hrauna. Hellisheiði og Lágaskarð hafa verið sjaldfarnari. Þeir vegir koma saman á Bolavöllum, »Völlum hinum efri« liggja norðan Svínahrauns, um »Völlu hina neðri«, og saman við Dyraveg hjá Lykla (Litla-?) -felli, og þar litlu neðar hefir Ólafsskarðsvegur einnig komið saman við þá. Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð. En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkot (sögn er sú, að Gizur biskup hafi átt samleið með þeim „upp undir Hellisheiði” hendir til, að þangað hafi Dyra- og Ólafsskarðsvegir legið saman, eins og hefi hér bent á. Vegaskiftin eru vestast á heiðinni niður frá Lyklafelli; Viðeyjarsel hefir líklega verið litlu neðar, og þar gátu þeir hafa skilið) (Helliskot=Elliðakot), hafi þá verið lítt bygt eða í eyði, og hið góða og mikla sumarbeitarland þess notað til beitar fyrir selfénað klaustursins.

Austurleið

Austurleið.

Úr Almannadal hefir legið:
1) vegur til norðurs hjá Reynisvatni niður til veiðistöðvanna við sunnanverðan Kollafjörð, í Blikastaðagerði (þar sjást enn fiskbyrgin), Geldinganesi(?) og Gufunesi, og til verzlunar við kaupmenn, sem þar hafa legið á hinum góðu höfnum (t. d. Hallfreð vandræðaskáld á Leiruvogi), og til Viðeyjar;
2) vegur til vesturs um Árbæ til Seltjarnarness;
3) vegur til útsuðurs yfir Elliðaár á (Vatnsenda-) Skygnisvaði um Vatnsenda, Vífilsstaði til Hafnarfjarðar, Álftaness og suður með sjó;
4) vegur fyrir ofan Rauðhóla og sunnan Elliðavatn, er farinn hefir verið þá er Elliðaár þóttu torfærar á vöðunum fyrir neðan Vatn.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur – Lyklafell.

5) vegurinn austur frá öllum fyrrnefndum stöðum, sameiginlegur upp undir Lyklafell, hverja leið er svo skyldi fara austur yfir hálendið (= fjallið), eins og fyr segir. Einnig til selfara upp í heiðina; Nessel, frá Nesi við Seltjörn, var t. d. í Seljadal í Þormóðsdalslandi, Viðeyjarsel við Selvatn? o. s. frv. Þá hefir Almannadalur borið nafnið með réttu. En hvenær vegarstefnurnar hafa breyzt má sjálfsagt finna með sögurannsókn, sem eg hefi eigi hentugleika til. Það hefir líklega orðið um sama leyti sem stefnu Mosfellsheiðarvegarins var breytt og hann lagður um Seljadal. Þá hefir Dyravegur hallast norður saman við hann hjá Miðdal (Mýrdal?). Mosfellsheiðarvegur lá áður um Illaklyf sunnan við Leirvogsvatn og ofan Mosfellsdal. Í Illaklyfi eru djúp spor í klappirnar og vegurinn auðrakinn alla leið, þó sjaldan hafi farinn verið á síðari öldum. Á þeirri leið er Tjaldanes, þar sem Egill fyrst var heygður, (nú nefnt Víðiroddi).
Grafirnar, sem margt af bæjum á landi hér dregur nafn af, eru oft grónar, djúpar geilar eftir læki; svo er hér.
Það er allvítt svæði sem hér er kent við Hádegi, enda voru 4—5 bæir i »Grafarhverfinu« og hafa allir haldið hádegi þar, en lítið eitt mismunandi, sumir á hæðinni, aðrir á vörðunni, o. s. frv. Hér var bygt ból snemma á næstl, öld, og síðar fjárhús frá Gröf. Nú er þar greiðasöluhúsið »Baldurshagi«, er dálítill landblettur fylgir.
Hefir á síðari tímum verið nefnd Margróf (latmæli) og var ágreiningur um merki milli Grafar og Árbæjar. Nú er þetta lagfært og merkin ákveðin.
Norðlingaholt. Um uppruna þessa órnefnis er ókunnugt,  en mér þykir líklegt að það stafi af umferð Norðlinga þar. Þegar þeir fóru til Suðurnesja, lá leið þeirra um Mosfellsheiði og yfir Mosfellssveit. Á fyrri öldum var lítið að erinda til Reykjavíkur, sem þá var að eins eitt býli. Lá þá beinast við að slá sér á austanveginn hjá Rauðavatni; er örstutt úr Grafarvogi suður á hann, enda er enn sýnileg skýr fornvegarskora yfir Hádegismóa hjá Hádegisvörðu í þá stefnu, ótrúlega djúp til að geta verið heimilisgata frá Gröf, og að öllu leyti lítil ástæða til slíkrar umferðar þar þaðan.

Austurleið

Varða við Austurleið.

En hafi Norðlingar farið þá leið, lá vegur þeirra meðfram Norðlingaholti að austan og sunnan. Á suðurleið sást þar fyrst til ferða þeirra frá næstu bæjunum þar, Elliðavatni og Vatnsenda, Oddagerði (Oddgeirsnes ?) o. s. frv. Hér virðist reik og ruglingur kominn á örnefni. Oftast nefnt »suður í nesi« eða Odda. Í afskrift sem eg hefi af jb. Á. M. frá 1704 stendur: Oddageirsnes, forn eydi jörd, og hefur í auðn verið fyrir allra manna minni sem nú eru á life … . Meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrer því að tún öll sem að fornu hafa verið eru upp blásin og komin í mosa«.
Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur fram með honum, og myndar þannig langt og eigi breytt nes eða odda. Syðst á oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefir bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnes.
Þvert yfir nesið er afarforn girðing, frá Bugðu austan við Skygnirinn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs og vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suð-vestan undir Skygninum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegt að býlið hafi heitið Oddagerði (af garðinum yfir Oddann?), og hefi eg hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafn-fornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.
Um Grafarkot segir í A. M.: »bygð upp að nýju fyrir 50 árum, þar menn meina að forn eyðijörd verið hafi, og hún fyrir svo löngum tíma í audn komin að fæstir vita hvað hún hafi til forna kölluð verið; eftir sögn eins gamals manns þykjast nokkrir heyrt hafa að þessi jörd hafl heitið Holtastadir«. Forn-rústirnar eru miklar um sig. Túnið hefir verið mikið stærra fyrrum og girt. Eru utan (á því “byggði Bened. heit. Sveinsson í fyrstu flóðstíflu sína til að veita á Elliðavatnsengjarnar, en hún sprakk, og hraut um leið af nesinu) við það afar-fornir (alsokknir) garðar og fjárbyrgi. Borgir og byrgi hafa víða verið hér, enda ætíð fremur á beit en gjöf að byggja fyrir sauðfé.
Sel hefir verið suð-vestan undir ásnum. Það er í Árbæjarlandi. _ ;.  Garður mikill hefir verið bygður út í Grafarvog frá báðum löndum, en líklega hafðir kláfar í miðju; þar er grjótið í  hrúgum, með skörðum í milli. Nú hefir safnast eyri að syðri garðinum svo að þar er nú sandtangi, en garðurinn sokkinn. Brekkan er upp frá honum. Í stórstraum fjarar út fyrir hann.
Eins og venjulegt er um fjölda örnefna, eru þau flest hér leidd af staðháttum og auðskilin. En þau, sem kend eru við menn (mannanöfn), veit nú enginn hvernig til eru komin, nema fáein er nýlega hafa myndast. – Grafarholti, 9. des. 1914.”

Í Tímanum í maí 1948 segir um Elliðakot:

Elliðakot

Elliðakot.

“Bær brennur Á föstudagskvöldið brann bærinn Elliðakot í Mosfellssveit til kaldra kola. Nær því engu af húsmunum og fatnaði var bjargað úr eldinum. Útihúsin tókst að verja vegna fádæma snarræðis með því að bera á þau vatn, sem sótt var úr mýri, þaðan skammt frá.”

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1914, Um örnefni eftir Björn Bjarnarson, bls. 9-16.
-Alþýðublaðið, 1. nóv. 1963, Hannes á horninu, bls. 2
-Tíminn, 103. tbl. 11.05.1948, bls. 8.

Elliðakot

Elliðakot.