Grótta

Fyrst var byggður viti í Gróttu árið 1897 að fyrirsögn starfsmanna dönsku vitastofnunarinnar.
grotta-22Núverandi viti var reistur hálfri öld síðar, árið 1947, sívalur kónískur turn úr steinsteypu með ensku ljóshúsi, 24 m að hæð, hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi. Upphaflega var vitinn húðaður utan með ljósu kvarsi en hefur nú verið kústaður með hvítu þéttiefni.
Linsan sem sett var í vitann frá 1897 er enn í notkun í Gróttuvita. Gastæki var sett í vitann er hann var tekinn í notkun en hann var rafvæddur árið 1956.
Vitavörður var búsettur í Gróttu frá 1897 til 1970. Vitaverðirnir voru aðeins tveir, Þorvarður Einarsson og Albert sonur hans. Vitavarðarhúsin hafa nú verið gerð upp og eru í eigu Seltjarnarnesbæjar.
Grótta er fyrst nefnd í fógetareikningum frá árunum 1547 til 1552, en nafnið þykir fornlegt og benda til að þar hafi lengi verið búið.
Glöggt má sjá af elstu kortum af Seltjarnarnesi að Grótta var ekki eyja heldur breiður nyrsti hluti nessins.
Árið 1703 er hún talin hjáleiga frá Nesi. Það er þó tekið fram, að hjáleigumaður megi hafa sína eigin skipaútgerð og virðist það hafa verið svo ábatasamt, að þar bjuggu menn góðu búi á 18. öld.

grotta-23

Er jörðin alla öldina nefnd meðal hinna 8 bestu jarða á Framnesi og þar bjó um tíma lögréttumaðurinn Ólafur Jónsson. Grótta er þó áfram hjáleiga frá Nesi, en er kölluð hálflenda 1755. Eftir Básendaflóðin miklu 1799 hallar undan fæti, enda var jörðin þá um tíma talin óbyggileg.
Vegna landsigs á síðari öldum hafði sjór brotið land við Gróttu og árið 1788 segja danskir mælingamenn að 5 álnir séu milli flóðafara á nyrðri grandanum og hafa því náttúruhamfarir á borð við Básendaflóðið átt hægt um vik að eyða landinu við Gróttu á þann hátt að hér eftir varð hún eyja í hafi, að vísu landtengd með granda sem stendur upp úr á fjöru.
Þessu ógurlega sjávarflóði; Básendaflóðinu er lýst svo:  Aðfaranótt 9. janúar brá til útsuðuráttar um allt Suður- og Vesturland, með þeim býsnum, sem fæstir höfðu áður lifað.  Um öll Suðurnes, allt austur að Eyrarbakka, gerði feikna hafrót og stórflóð sem olli gífurlegum skemmdum.  Básendakauptún á Miðnesi lagðist af með öllu, því að sjór og veður braut þar öll bæjar- og verslunarhús;  fékk kaupmaðurinn með naumindum forðað lífi sínu og fjölskyldu sinnar að Stafnesi.

grotta-24

Fiskgarðar og túngarðar þar syðra sópuðust heim á tún, sumstaðar tók jafnvel af túnin, skipauppsátur og brunnar.  Tvær kirkjur fuku, Hvalneskirkja og og kirkjan að Nesi við Seltjörn sem sögð hafa fokið í heilu lagi af grunni sínum.
Á Seltjarnarnesi gerði óveður þetta mikinn usla og olli miklum skemmdum.  Um 18 skip og minni róðrarbátar brotnuðu, svo að sum fóru í spón, en önnur löskuðust svo, að ekki gátu sjófær talist.  Fyrir innan Lambastaði gekk sjór yfir þvert nesið milli Skerjafjarðar og Eiðsvíkur, svo að ekki var fært mönnum né hestum.  Er haft eftir jafnathugulum heimildarmanni og biskupinum á Lambastöðum, að 5 álnum hefði sjór gengið hærra, þverhníptu máli, en í öðrum stórstraumsflóðum.
grotta-25Á fyrri hluta 19. aldar var Grótta í eyði.  Á seinni hluta aldarinnar bjuggu þar útvegsbændur og skipasmiðir en árið 1897 var risinn þar viti og varð Þorvarður Einarsson vitavörður þar.
Þorvarður og kona hans Guðrún Jónsdóttir hófu búskap í Gróttu árið 1895.  Í tíð þeirra var túnið í Gróttu stækkað til muna, en sjór braut land og brotnaði úr sjógarði þar veturinn 1926 /1927 en hann var hlaðinn upp myndarlega.  Síðar var svo ekið stórgrýti á grandann milli Snoppu og Gróttu til að verja hann frekari niðurbroti.

Er Þorvarður lést 1931 tók sonur hans Jón Albert  við vitavörslunni og gengdi þeim starfa til dauðadags, en hann drukknaði í róðri 12. júní 1grotta-26970.  Síðan þá hefur íbúðarhúsið í Gróttu verið í eyði.  Albert stundaði mest sjó á meðan hann bjó í eynni en hafði lítilsháttar búskap með útgerðinni.
Nýr viti var sem fyrr sagði reistur í Gróttu eftir síðari heimstyrjöld, allnokkru austar en gamli vitinn og voru ljós nýja vitans tendruð í nóvember 1947.  Lendingaraðstaða í eynni var bætt á búskaparárum Alberts í Gróttu og var gerð bryggja framan við sjóbúð hans og við hlið hennar dráttarbraut og gat Albert þar dregið bát sinn upp.
Á árinu 1978 var sjóbúðin í Gróttu að falli komin, en þá fékk Rótaryklúbbur Seltjarnarness hana til eignar og lét gera hana upp.
Hinn 8. nóvember 1994 komust húsin í Gróttu í eigu Seltjarnarneskaupstaðar og tóku bæjaryfirvöld ákvörðun um að koma upp fræðasetri í eynni og hefur síðan verið unnið markvisst að endurnýjun húsa með þetta markmið í huga.
Seltjarnarneskaupstaður hefur lagt mikinn metnað í verkefnið, endurgert húsin á myndarlegan hátt.  Þann 23. október árið 2000 var formlega opnað Fræðasetur í Gróttu.

Byggt er á eftirfarandi heimildum:
-Heimir Þorleifsson; Seltirningabók 1991.
-Dr. Jón Helgason; Árbækur Reykjavíkur 1786 – 1936.
-Fræðasetur í Gróttu. Tillögur undirbúningsnefndar 1999.
-Munnleg heimild; Sigurgeir Sigurðsson, bæjarstjóri.

Heimild:
-seltjarnarnes.is

Grótta

Gróttuviti.