Í bók Árna Óla „Strönd og Vogar„,- úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, er fjallað um „Gömlu veiðistöðina“ Hólmabúð undir Stapanum vestan Voga.
„Ég fór að skoða Hólmabúðir, hina gömlu veiðistöð undir Vogastapa. Með mér var Egill kennari Hallgrímsson, sem fæddur er og upp alinn í Minni-Vogum og þekkir hvern stein og hverja þúfu þar í grenndinni. Hann man og þá tíma, er aldahvörf urðu í útgerðarháttum hér.
Við gengum inn fyrir Vogavíkina, þar sem nefnist Vogasandur. Austan megin víkurinnar blasir þá við hin nýja byggð, þorpið, sem er samvaxið gamla bæjahverfinu. En sá er enn munur á þorpinu og gamla hverfinu, að í hverfinu eru stór tún umhverfis hin nýju hús, er reist hafa verið á jörðunum. Yst á tanganum er svo frystihúsið og sjóbúðir, en fram af þeim hafnargarður og bryggja, sem hreppurinn á. Við bryggjuna eru bundnir nokkrir vélbátar. Hér er nýi tíminn að ryðja sér til rúms.
Hér voru áður tvær jarðir, Stóru-Vogar og Minni-Vogar, og fylgdu þeim nokkrar hjáleigur, og em orðnar að sérstökum býlum sumar, en aðrar hafa lagst niður. Hér er Suðurkot og Nýibær, Hábær (er áður hét Tuðra) og Tumakot, Austurkot og Norðurkot. Þessi „kota“-nöfn eru löngu orðin úrelt, því að hér eru engin kot. En sjálft höfuðbólið Stóru-Vogar, sem mun vera landnámsjörðin Kvíguvogar, hefir lengi staðið í eyði og er nú að hruni komið. Þarna var þó einu sinni hæsta timburhúsið í Vogunum.
En grunnur þess er óbifanlegur. Það eru útveggir steinhúss, sem Jón Magnússon Waage reisti árið 1871 og mun hafa verið fyrsta steinhús, sem íslenskur bóndi lét reisa. Smiðurinn var Sverrir Runólfsson steinhöggvari, og segir í Iðnsögu íslands, að þetta hafi verið eitthvert helsta verk Sverris, og smíðaði hann þó bæði Skólavörðuna í Reykjavík og Þingeyrarkirkju. (Í Iðnsögunni er sú villa, að húsið hafi verið reist í Minni-Vogum). Veggir hússins voru tvíhlaðnir úr hraungrýti, sem lagt var í kalk og er veggjaþykktin 1 al. 6”—1 al. 9”. Loft, gólf og þaksúð var úr plægðum borðum og helluþak á húsinu. Sjórinn er alltaf að brjóta bakkann hjá Stóru-Vogum og er kominn alveg heim að húsinu. Nú seinast hefir hann brotið skarð í sjóvarnargarð, sem þar var gerður, svo að undirstaða hússins er í hættu.
Fram af Austurkoti er tjörn á sjávarbakkanum og grandi fyrir framan.
Á þessum granda stóð áður ein af hjáleigunum og hét Eyrarkot, en grandinn Eyrarkotsbakki. Þar var útræði fyrrum. í tjörninni er stór og grasgefinn hólmi og þar verpur fjöldi af kríum. í miðri byggðinni er hár hóll, sem Arahóll nefnist, og stendur á honum varða mikil, sem heitir Aravarða. Undir hólnum er fagur hvammur, og þar á með tímanum að koma skrúðgarður og skemmtigarður þorpsins. Fram undan er svo Vogavíkin, lygn og svipfríð, og í henni speglast Stapinn með grænum geirum, skriðum og klettabeltum. Hann setur og sinn svip á allt umhverfið. Það er fagurt í Vogum, og hvergi hefi ég séð fegurra sólarlag en þar.
Þegar staðið er innan við Vogavíkina, er auðséð, að hér hefir sjórinn brotið mikið land. Er ekki ósennilegt, að í fornöld hafi verið graslendi fyrir botni víkurinnar og út með Stapanum að vestan. En það er þá allt horfið og eftir standa svört sker og tangar. Mestur er Kristjánstangi fyrir miðjum víkurbotninum. Þar stóð einu sinni salthús, og ef til vill hefir verið þar útræði einhvern tíma, en þess sjást nú ekki merki og enginn veit neitt um það að segja. Saltgeymslan hefir ef til vill aðeins verið fyrir Stóru-Voga.
Við höldum nú vestur að Stapa. Á þeirri leið eru réttir þeirra Vogamanna, hlaðnar úr grjóti undir klapparholti nokkru. Þetta eru gömlu réttirnar á Suðurnesjum, og þangað kom fé úr öllum nálægum hreppum og margt fólk, meðan réttadagurinn var einn af hátíðardögum ársins. Skammt fyrir ofan er Suðurnesjavegurinn og liggur upp á Stapann sunnanverðan. Við höldum gamla veginn, sem lá út með Stapanum, og verður þá brátt fyrir okkur dæld eða skarð í Stapann. Þetta er hið alkunna Reiðskarð, þar sem alfaravegurinn lá öldum saman, brattur nokkuð og stundum ófær á vetrum vegna fannkyngi í skarðinu.
Utan við skarðið hækkar Stapinn mjög, og með flóði fellur sjór þar upp að honum, svo ekki verður komist nema klöngrast hátt í skriðum. Nú var fjara og leiðin greið. Utan við þessa forvaða er svo komið að Hólmabúðum, sem eru gegnt Vogabæjunum. Hér er enn nokkur undirlendisskák með fram Stapanum. Þar eru háar og grýttar skriður á aðra hönd, með nokkrum grasgeirum á milli, en klettabelti efst í brúnum. Á hina höndina skagar nes út í víkina. Þetta er Hólminn, og hér hefir eflaust verið veiðistöð um margar aldir. Saga þeirrar útgerðar er nú glötuð, nema hvað nokkuð er vitað um sögu Hólmans síðan um 1830—40, að hið svonefnda „anlegg“ rís þar upp. En svo nefndu menn í daglegu tali hús þau, er Knudtzon lét reisa þarna, salthús og fisktökuhús. Knudtzon var aldrei kallaður annað en „gróssérinn“.
Mjór tangi tengir Hólminn við land. Þar standa skrokkar af tveimur gömlum vélbátum og hallast hvor upp að öðrum í sameiginlegu umkomuleysi. Þetta voru einu sinni glæsilegar fleytur, sem drógu björg í þjóðarbú, en eru nú ekki annað en tvö útslitin hró, sem lokið hafa ætlunarverki sínu. Og á skeri þar rétt fyrir innan er ferlíki nokkurt, hálft í sjó og hálft uppi á skerinu. Þetta er einn af innrásarprjámum þeim, er bandamenn smíðuðu til þess að flytja á herlið sitt til Frakklands 1944.
En hvernig stendur á því, að slíkt fartæki er komið hér inn á Vogavík? Sú er saga til þess, að Óskar heitinn Halldórsson keypti nokkra af þessum stóru prjámum eftir stríðið og lét draga þá hingað.
Síðan hafa þeir allir, nema þessi eini, verið notaðir til hafnargerðar á þann hátt, að þeir hafa verið fylltir með steinsteypu og síðan sökkt sem steinkerjum, þar sem hafnargarðar hafa verið gerðir.
Þegar komið er út í Hólminn, er hann nokkuð stór og hringlaga. Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefir verið fisktökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefir verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt.
Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefir sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum, svo að nú verður eigi séð, hve mörg þau hafa verið, en heillegar tóftir standa eftir af sumum. Þarna eru og leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðalkálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, og getur verið, að annað þeirra hafi verið bátaskýli, og hafi menn dregið inn í það báta sína þegar mjög hvasst var, svo að þá tæki ekki upp. Þessi rétt eða skýli hefir verið rétt við lendinguna innan á Hólmi, en svo var önnur lending utan á honum. Seinustu útgerðarmenn þarna, meðan „anleggið“ var, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík. Er talið, að þeir hafi haft þar 18 báta.
Seinasti „útlendingurinn“, sem gerði þarna út, var Haraldur Böðvarsson kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn, „Höfrung“, árið 1908 og gerði hann út í Vestmannaeyjum á vertíð 1909. Þetta var ekki nema 8 tonna bátur, og Haraldi leist ekki á að hafa hann þar. Og eftir að hafa athugað alla staði hér nærlendis, taldi hann Hólmabúðir á Vogavík heppilegasta útgerðarstaðinn fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn, og þar mátti draga þá á land, ef þurfa þótti.
Að vísu var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en hann reisti þarna dálítið hús í félagi við annan útgerðarmann, og gerði síðan út þar í þrjú ár, eða þar til hann fluttist til Sandgerðis með útveg sinn. Tveir af kunnustu útvegsmönnum við Faxaflóa, Geir Zoega og Haraldur Böðvarsson, byrjuðu því báðir útgerð sína í Vogunum.
Þurrabúð rís fyrst í Hólmi 1830. Bjarni Hannesson hét sá, er þar bjó fyrstur. Hann mun hafa dáið um 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, giftist síðan Guðmundi Eysteinssyni, er verið hafði vinnumaður hjá þeim, og voru þau í Hólmabúðum fram til 1848.
Það er á þessu tímabili, að Knudtzon byrjar „anleggið“ þarna. Mun hann hafa haft þar sérstaka afgreiðslumenn, sem ekki hafa dvalist þar nema tíma og tíma. Hólmabúðir munu þá hafa verið orðnar grasbýli. Leggur Knudtzon það undir sig, þegar Guðmundur fór þaðan, og fylgir það síðan stöðinni.
Árið 1850 kemur að Hólmabúðum Jón Snorrason dbrm. á Sölvahóli í Reykjavík, og er hann fyrst nefndur verslunarþjónn, en síðar verslunarstjóri. Fær Jón þann vitnisburð, að hann sé „prýðilega að sér og gáfaður dánumaður“. Hann var þarna í sex ár. Næstur honum er Kristján Jónsson, og er hann þar í þrjú ár. Síðan er Guðmundur Magnússon þarna eitt ár.
Árið 1860 koma þau þangað Jón Jónsson prentari, sem kenndur var við Stafn í Reykjavík, og kona hans Sólveig Ottadóttir, Guðmundssonar sýslumanns. Þau eru þar í þrjú ár. Þá tekur við Egill Ásmundsson, en næsta vetur hrapaði hann í Vogastapa og beið bana.
Árið 1864 koma svo Jón Breiðafjörð og Arndís Sigurðardóttir að Hólmabúðum, og var Jón forstjóri stöðvarinnar um 12 ára skeið. Á sama tíma rak hann einnig útgerð fyrir sjálfan sig, og var þarna oft 14 manns í heimili hjá þeim. Vorið 1876 fluttust þau svo að Brunnastöðum, eins og fyrr er getið.
Næsti forstjóri Hólmabúða var Stefán Valdimarsson Ottesen, og gegndi hann því starfi fram til 1882. Þá er mjög farið að draga úr útgerð þarna. Eftir það kom þangað Björn nokkur Guðnason og var þar til ársins 1898. Hann hefir sennilega verið seinasti stöðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður, sem þar bjó, hét Elís Pétursson, og var hann þar aðeins árið. Síðan fara engar sögur af stöðinni, og munu húsin hafa verið rifin um aldamót.
[FERLIR barst síðar eftirfarandi tölvupóstur frá Ferne Gudnason, Mirror, Alberta, Canada: „Thank you for the Information on FERLIR about Hólmabúð which mentions my great grandfather, Bjorn Gudnason who was born in 1834 and moved to Canada in August of 1900 and then returned to Iceland in 1916 and died at Narfakot in December 1916. He is buried at Kalfatjornkirkja.
I have been to Hólmabúð twice with Viktor Gudmundson from Vogar as a guide. It is very emotional to stand on the land where one’s ancestors worked and lived. – Thank you.„]
Á undirlendinu með fram Stapanum eru rústir af tveimur býlum, sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka. Þetta býli reisti Guðmundur Eysteinsson, er hann fór frá Hólmabúðum 1848, og bjó hann þar fram til 1861. Síðan eru þar nokkrir ábúendur skamma hríð, en 1869 flyst þangað Guðmundur Jónsson og bjó þar í full 30 ár og hafði oft húsmennskufólk á vegum sínum. Árið 1899 koma þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex uppkomnum börnum sínum. Pétur bjó þarna til dauðadags 1916, og var þar þá oft mannmargt. Síðan bjó ekkja hans þar eitt ár, en þá tók við búinu tengdasonur hennar, Magnús Eyjólfsson, og bjó þar fram um 1930, en hafði þó býlið undir miklu lengur. Á Brekku stendur enn stofuveggurinn, hlaðinn forkunnarvel úr grjóti.
Kippkomi utar eru rústir hins býlisins, en það hét Stapabúð. Það reisti fyrst Jóhannes nokkur Guðmundsson 1872 og bjó þar tvö ár. Næsti ábúandi, Pétur Andrésson, bjó þar þrjú ár. Þá fluttist þangað ekkja, Herdís Hannesdóttir, ásamt 4 börnum sínum og bjó þar til 1885. Seinustu árin bjó þar á móti henni tengdasonur hennar, Eiríkur Eiríksson, sem var kvæntur Guðlaugu Helgadóttur.
Eftir það koma þangað hjón, er bjuggu þar aðeins árið. En síðan flytjast þangað Jón Jónsson og Kristín Illugadóttir og búa þar til ársins 1896. Þegar þau fluttust þaðan, lagðist Stapabúð í eyði, en bóndinn á Brekku mun hafa nytjað tún það, sem þar hafði verið ræktað og mun hafa verið um kýrfóðursvöllur. Á Stapabúð er járnþak baðstofunnar enn uppi hangandi. Hér mótar fyrir gömlum grjótgörðum, og má vera, að sumir af þeim hafi verið gerðir til að þurrka á þeim skreið, því að útræði var hér og á Brekku áður en býlin komu. Hjá Stapabúð eru einnig rústir af saltfiskbyrgjum, en þau hafa ekki verið gerð fyrr en farið var að salta fisk, og saltfiskverkun hófst ekki hér við Faxaflóa fyrr en á árunum 1820—1840. Enn utar með Stapanum eru hinar svonefndu Kerlingabúðir. Þar hefir aldrei verið neitt býli, heldur aðeins sjóbúðir og sést nú lítið af þeim, því að sjór hefir brotið þær að mestu leyti.
Hérna undir Vogastapa, þar sem nú eru aðeins gamlar rústir, hefir sjálfsagt verið mikil verstöð fyrrum, jafnvel allt frá Hrolleifs dögum, því að hér hefir hagað enn betur til um sjósókn heldur en á Gufuskálum, þar sem Steinunn gamla ákvað að vera skyldi vermannastöð frá Hólmi í Leiru.
Vermenn hafa átt hér búðir öldum saman, þó að þeirra sjáist nú engar minjar. Sumar hefir sjórinn tekið, en aðrar hafa breyst með tímanum og grjótið úr þeim notað í nýjar byggingar. Hér hafa verið góðir lendingarstaðir, meðan sjór var sóttur á opnum bátum, og sjaldan brást afli undir Stapanum. Eftir að fyrstu, litlu vélbátarnir komu, var gott vetrarlægi fyrir þá innan við Hólminn. En þegar stóru vélbátarnir komu, þá var þar ekki lengur griðastaður, og þá varð að gera höfn og hafnargarð.
Útgerðarhættir breytast og veiðiskapur breytist. Eitt er víst, að róðrarbátaútgerð hefst ekki aftur, og þess vegna eru nú gömlu varirnar og lendingamar til einskis nýtar. En staðhættir breytast ekki að sama skapi, og enn liggur Vogavík vel við útgerð. Sú útgerð verður mjög breytt frá því sem áður var, og jafnvel frá því sem nú er.
Og þá minnist ég fyrsta mannsins, sem hafði hug á því að veiða síld í Faxaflóa til söltunar. Hann átti heima hér í Vogunum og var þarna langt á undan sínum tíma. Það er ekki fyrr en nú á seinni árum, að augu manna hafa opnast fyrir því, að hægt muni að stunda síldveiðar með góðum árangri hér í flóanum. Þar hefir Haraldur Böðvarsson verið brautryðjandi, og get ég ekki stillt mig um að taka hér upp það, sem eftir honum var haft á sjötugsafmæli hans: „Faxasíldin er gullnáma, sem enn hefir ekki verið unnin, nema að nokkru leyti, en enginn vafi er á því, að hún verður drjúg tekjulind fyrir þjóðarbúskapinn í náinni framtíð. Síldina er líklega hægt að veiða flesta mánuði ársins.“
Ég held, að útgerðin í Vogunum eigi eftir að breytast bráðlega, að þar sé ný aldahvörf í aðsigi. Ég held, að Voganir eigi eftir að verða að síldarbæ — stórum síldarbæ.“
Heimild:
-Árni Óla – Strönd og Vogar, úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, Gömul veiðistöð, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1961, bls. 152-159.