„Gengið vestur með sjó“ – Stefán Júlíusson
Eftirfarandi grein Stefáns Júlíussonar undir fyrirsögninni „Gengið vestur með sjó“ birtist í Fjarðarfréttum árið 1984:
„Fyrir nokkru komu ritstjórar Fjarðarfrétta að máli við mig og spurðu hvort ég vildi ekki taka saman fyrir blaðið pistil sem kallast gæti „Byggðin í hrauninu“. Vísuðu þeir til þess að á námskeiði sem haldið var á síðasta vori um Hafnarfjörð, og raunar var kallað Byggðin í hrauninu, sagði ég frá ýmsum atvikum og staðháttum á bernsku- og æskudögum mínum í vesturbænum og út með sjónum.
Fyrir 12 árum kom út eftir mig bók sem ber heitið Byggðin í hrauninu og eru í henni minningaþættir frá uppvaxtarárum mínum í hraunkotabyggðinni fyrir vestan bæinn. Varð það að samkomulagi milli mín og ritstjóranna að við færum vestur meö sjónum, tækjum nokkrar myndir og síðan tvinnuðum við saman kafla úr bókinni og frásagnir út frá myndunum.
Laugardaginn 10. nóvember fórum við svo í myndatökureisu og hér birtist afraksturinn af þessari samvinnu. Við vorum sammála um að styðjast að mestu leyti við lokakaflann í Byggðinni í hrauninu en í honum lýsi ég göngu um fornar slóðir vestur með sjónum.
Á fyrstu tveimur myndunum erum við stödd á Krosseyrarmölum eða rétt vestan við Svendborg. Um þessi örnefni segir svo í Byggðinni: „Margar ferðir átti ég hérna gegnum Svendborg á bernskuárum minum. Þegar ég man fyrst eftir var þetta athafnasvæði Booklessbræðra, hinna bresku togaraeigenda sem höfðu umfangsmikla útgerðarstarfsemi í Hafnarfirði í meira en áratug en urðu gjaldþrotaárið 1922. Sá atvinnurekstur átti ekki hvað minnstan þátt í því að auka aðstreymi fólks til bæjarins á þessum árum. — Enn taka Hafnfirðingar sér í munn nafnið Svendborg þótt fæstir viti nú orðið hvernig nafnið er til komið. En nafngiftin lýsir kímni Hafnfirðinga á þeirri tíð, ef til vill blandaðri ofurlítilli meinfýsi eins og stundum verður vart hjá Íslendingum.
Árið 1903 fluttist kaupmaður austan frá Norðfirði til Hafnarfjarðar. Hann hét Sveinn Sigfússon. Hóf hann þegar að reisa verslunar- og útgerðarstöð hjá Fiskakletti við Krosseyrarmalir og var stórhuga í fyrirætlunum. En örendið entist ekki sem hugur og á sama ári selur Sveinn Augusti Flygenring lóðaréttindi og byggingarog flyst til Reykjavíkur. En nafngiftarmennirnir eru komnir til skjalanna: Svendborg skyldi staðurinn heita og auðvitað upp á dönsku! Það er oft furðulegt hvað uppnefni geta orðið að lífseigum örnefnum.
En Svendborg er stærsta útgerðarstöðin í, Hafnarfirði í hartnær þrjá áratugi og á mikinn þátt í vexti bæjarins. Hún gengur að vísu allmjög kaupum og sölum fram til ársins 1910 en næstu tvo áratugina eru eigendur aðeins tveir, og þeir engir aukvisar, Booklessbræður til ársins 1923 en síðan Hellyersbræður. En árið 1929 líður þessi mikla útgerðarstöð undir lok og síðan hefur tímans tönn verið að naga hin margvíslegu mannvirki á eigninni.
Nú eru Krosseyrarmalir að mestu horfnar undir Vesturgötu og Herjólfsgötu svo að naumast sést eftir af þeim tangur eða tetur nema í bláfjörunni. Áður var hér annasamt athafnasvæði og á sólrikum sumardögum var jörð öll hvít af saltfiski. Útgerðarstöðvar í Hafnarfirði voru yfirleitt reistar á fjörumölunum en nú eru þær allar horfnar undir götur og byggingar nema Langeyrarmalir að nokkru.
Fátt vitnar nú um athafnasemi hinna ensku útgerðarmanna en þó stendur bungaló Bookless hér ennþá, hábreskt hús sem enn er búið í og sker sig úr öðrum byggingum að stíl og útliti. Lítið eitt ofan við það stendur annað enskbyggt íbúðarhús. Þar bjó Hellyer þegar ég var innan við fermingu. Í því húsi var ráðskona á þeirri tíð ung og glæsileg stúlka, Matthildur Sigurðardóttir að nafni. Um hríð bar ég þangað daglega mjólk utan úr Víðistöðum.
Ráðskonan vék þá stundum mjólkurpóstinum unga ávöxtum og öðru fáséðu munngæti og var það vel þegið. Þá gafst tækifæri að gægjast inn fyrir dyrastafinn, inn ( stofur búnar ævintýralegum húsgögnum. Húsgögn sem nú eru nefnd því nafni voru í fáum húsum í Hafnarfirði á bernskudögum mínum. Auðvitað voru þau kölluð mublur, og vafalaust mætti telja á fingrum sér þau hús í Hafnarfirði í þá tíð þar sem eiginlegar mublur voru í stofum. Ein stórkostlegasta breytingin sem orðið hefur á Íslandi á síðustu áratugum er án efa húsgagnaeign landsmanna.
Hér er skarð í klettarana sem skar Krosseyrarmalir í sundur og teygir sig langt í sjó fram. Nú er hér breið og slétt gata en þegar ég átti oftast leið hér um var hér lengsta járnbraut bæjarins. Þá voru járnbrautir á öllum fiskverkunarstöðvum og sömuleiðis á hafskipabryggjunni. En járnbrautin í Svendborg var langlengst, áreiðanlega hartnær kílómetri. Hún lá milli fiskhúsanna við höfnina og svokallaðs Verkamannareits á móts við Víðistaði. Þessi fiskreitur fékk nafn sitt af því að VMF Hlíf beitti sér fyrir reitarlagningunni í atvinnubótaskyni á öðrum áratugnum en síðan seldu verkamennirnir útgerðinni reitinn fullbúinn.
Vegur var lagður undir járnbrautarteinana milli malar og reits. Var hann að sjálfsögðu örmjór því að ekki var nema 70-80 sentimetrar milli teinanna á þessum brautum en allhár á köflum og halli var talsverður. Reiturinn lá miklu hærra en mölin. Fiskkerrurnar sem gengu á þessum brautum voru ekki ýkjastórar, pallurinn svona einn til tveir metrar á breidd og tveir til þrír metrar á lengd. En þegar þær komu brunandi niður brautina á fleygiferð, hvort sem þær voru hlaðnar þurrfiski eða tómar, var mikil hætta á ferðum og eins gott fyrir vegfarendur að forða sér.
Mikill hvinur heyrðist langar leiðir þegar hraði var kominn á kerrurnar hvort sem þær voru fullar eða tómar, svo mjög söng í teinum og hjólum. Hrópað var hástöfum viðvörunarkall uppi á reitnum áður en kerrunum var sleppt. Allmjög dró úr hraðanum þegar kerrurnar komu niður á jafnsléttu en þó entist brunið alla leið inn í hús. Var þetta ódýr kraftur. Hesti var beitt fyrir kerrurnar fullar af blautfiski upp á reitinn og eins fyrir langa lest af tómum kerrum við innkeyrslu.
Gamla Svendborgarjárnbrautin var endurreist á stríðsárunum síðari, þegar hafnargarðurinn vestari var reistur. Þá var brautin notuð til grjótflutninga í garðinn. Nú er hún löngu horfin og breið gata, Flókagata, komin í staðinn.
Þegar ég átti leið hér um á árunum innan við fermingu var á sumrin krökkt af fáklæddum börnum á þessum slóðum. Þá var sund kennt í sjónum við Krosseyrarmalir og klettana fyrir vestan þær. Fyrstu sundkennarar sem ég man eftir voru þeir Jakob Sigurðsson kaupmaður og Grímur Andrésson bílstjóri. Og hérna við klettótta ströndina og í malarvikinu sunnan við Gatklettinn sem þá var byrjaði Hallsteinn Hinriksson að kenna sund eftir að hann fluttist til Hafnarfjarðar árið 1929.
Þá skiptu sundnemendur hundruðum og var oft farið í sjóinn tvisvar á dag. Nú er hrunið ofan af Gatkletti, eitt mesta holræsi bæjarins liggur hér út í sjóinn, breið Herjólfsgatan hefur lagt undir sig möl og hraun, og við hana stendur sundhöllin þar sem nú er kennt og synt í upphituðu vatni. — Þróun og sögu má lesa hér við sérhvert fótmál.“
Á þriðju og fjórðu mynd erum við stödd við ströndina í nánd við Sundhöllina og vitnum í bókina: ,,Á þessum slóðum þar sem sundhöllin stendur nú við breiða og slétta Herjólfsgötuna var hraunströndin einna úfnust og stórhrikalegust á bernskudögum mínum.
Hér var Draugaklifið svokallaða. Há strandberg stóðu hér í sjó frammi, þung og staðfestuleg björg, en á milli þeirra skárust dökk og brimhefluð vík inn í hraunstorkuna. Þar súgaði sjór og gnauðaði við minnstu kviku og þegar stórstreymt var gekk hvítt löður yfir kletta og klif og kastaðist upp á gangstíginn. Þá var brautin harla mjó og ógreiðfær, malir, gjótur og klif. Í snjóum á veturna þegar svellalög voru og vestanáhlaup var þetta ekki greiðfarin leið. En í kyrrum og blíðu sumarsins bauð hún fólki heim.
Ekki grunaði okkur hraunbúana á þeirri tíð að svo skammt yrði hér í breiða götu og húsaröð meðfram henni alla leið út á Malir. Nú er ekkert svipað því sem áður var þegar ég geng hér eftir götunni.
Þarna syndir þó æðarkolla með fjölskyldu sína úti fyrir gamla Gatklettinum og hátignarlegur blikinn setur svip á umhverfið sem fyrr. Fuglalíf var hér fjölskrúðugra áður en ég gleðst þó af að sjá þessa heimakæru fjölskyldu; hún tengir horfna tíð við göngu mína hér í dag.“
Þá erum við komin að Langeyri. Á Langeyri versluðu danir áður fyrr eins og sést á gömlum kortum af Hafnarfirði. Þar mun hafa verið þurrkaður fiskur á eyrinni eða mölinni um aldir.
Eins og alkunnugt er voru þessar eyrar eða malir snemma athafnasvæði fiskverkunar, fyrst erlendra kaupmanna og útgerðarmanna og síðan hinna innlendu. Þar risu útgerðarstöðvar enda voru þessar malir kjörnar til að þurrka á saltfiskinn: Hamarskotsmöl, Krosseyrarmalirog Langeyrarmalir.
Byggðin í hrauninu hefur þetta að segja um staðhætti á fimmtu og sjöttu mynd: ,,Ég staðnæmist neðan við Langeyri sem enn stingur í stúf við húsaröðina meðfram götunni, byggingar eru frá fyrri tíð, lóðin miklu stærri, grasblettir, kálgarðar og gróðurreitir, og girðingin umhverfis minnir á handtök fyrir daga skipulags, reglugerða og samþykkta. Á uppvaxtarárum mínum var Langeyri það hraunkotið sem næst var bænum og þótti allnokkur leið hingað út eftir.
Neðan við götuna eru leifar af steyptri þlötu á sjávarbakkanum. Þetta eru menjar lifrarbræðslustöðvar sem hér var reist af Augusti Flygenring um síðustu aldamót þegar hann nam land undir fyrstu fiskverkun sína á Langeyrarmölum. Hér voru talsverðar rústir þegar ég man fyrst eftir þótt lifrarþræðslan væri liðin undir lok, steinsteyptar tóttir og þrær. Sérstaklega er mér þó minnisstæður heljarmikill þottur eða þottker sem trónaði hér í rústunum. Þetta var kjörinn leikstaður, ekki síst í feluleik og ámóta athöfnum og áttum við krakkarnir hér mörg spor, ærsli og óp.“
Um sjöundu mynd mætti margt segja. Herjólfsgatan liggur hér að Mölunum. Brunarústir eru þar sem gamla vaskhúsið stóð. En á öllum fiskverkunarstöðvum fyrr á tímum, þegar lífið var saltfiskur, þurfti vaskhús eða vaskahús þar sem fiskurinn var þveginn, þurrkhús ef sumarveðrið brást og geymsluhús undirsalt, blautfisk og þurran fisk. Oft voru þó blautfiskstaflar úti áður en fiskurinn var þveginn. T.h. á 7. mynd voru þurrkhús og fiskgeymsluhús, þar sem frystihús var seinna reist. T.v. teygir Rauðhúsnef sig út í sjóinn en upp af því var sagt að verið hefði rautt verslunarhús danskra kaupmanna. Þar átti eitthvað voveiflegt að hafa gerst því þar var talið reimt þótt hvergi væri þó annar eins draugagangur og í Svendborg á sinni tíð.
En vitnum nú í Byggðina út frá 7. mynd: ..Langeyrarmalir voru lengstar malanna og þar reisti August Flygenring fiskverkunarstöð um síðustu aldamót þegar hann hafði hætt skipstjórn og gerðist aðsópsmikill athafnamaður í Hafnarfirði. Áður á öldum höfðu danskir kaupmenn haft aðsetur á Langeyri en það var löngu liðin saga þegar hér var komið. August Flygenring átti ekki Malirnar mjög lengi og þegar við fluttumst að Eyrarhrauni voru þær komnar í eigu hlutafélagsins Höfrungs sem gerði út lítinn happatogara, Rán að nafni, og fékk auk aflans að honum dálítið af fiski til verkunar annars staðar að. Malirnar voru ekki stór fiskverkunarstöð á uppvaxtarárum mínum en þó veittu þær töluverða atvinnu. Lá í hlutarins eðli að fólkið í hraunkotunum þarna í kring ynni á Mölunum eftir því sem ástæður leyfðu.
Og við saltfiskþurrkunina á sumrin fengu krakkarnir sína fyrstu atvinnu. Segja má að þau börn og unglingar í Hafnarfirði sem ekki voru svo gæfusöm að komast í sveit á sumrin væru alin upp á fiskreitunum. Við breiðslu og samantekningu saltfisksins fengu allir vinnu sem vettlingi gátu valdið, svo mörg voru handtökin við þessa atvinnugrein. Var algengt að börn frá sjö ára aldri kæmust í breiðslu og fengju kaup fyrir. Þannig komst ég átta ára kettlingur í vinnu á Mölunum þegar þurrkur var og fékk að mig minir 25 aura um tímann. Þóttumst við rollingarnir þá heldur menn með mönnum þegar við vorum teknir í vinnu fyrir kaup.
Starfsræksla mun aldrei hafa stöðvast hér alveg síðan stöðin var reist um aldamótin. Steypta planið milli fiskhúsanna er líkt því sem áður var og hér áttum við kotakrakkarnir mörg spor í skemmtilegum leikjum. Þetta plan var forréttindi okkar og friðland; fáir áttu sér svo kjörinn og afmarkaðan leikvöll á þeirri tíð, sléttan og steyptan, hvort sem var í risaleik, boltaleikjum allskonar, hlaupum eða parís, sem við kölluðum hoppuleik. Oft voru plankar og búkkarskildir eftir einhvers staðar utan dyra við fiskhúsin og þá var auðvelt að bera þá inn á planið til að rambelta á þeim.
Þá þekktu Hafnfirðingar ekki annað orð yfir að vega salt en að rambelta. Að vega salt lærðist seinna af bókum. Enn kalla börn í Hafnarfirði leikinn að rambelta og það gleður mig alltaf þegar ég heyri orðið. — Einu sinni ætlaði ég að kalla eina skáldsöguna mína Rambeltu, — mér fannst nafn hæfa efni, — en útgefandi vildi ekki hætta á þetta hafnfirska heiti.
Við hraunkotabörnin sem lékum okkur hérna á planinu á Mölunum vorum oft fram undir tuttugu, auk aðkomu krakka, en aldrei man ég til að neitt væri skemmt hér af ásettu ráði.
Fyrir kom að vísu að rúða brotnaði en þá sögðum við ævinlega til þess og Guðmundur verkstjóri Jónasson lét það þá gott heita. Hann var mikill vinur okkar hraunbúanna og amaðist aldrei við leikjum okkar.“
Á áttundu og níundu mynd erum við stödd hjá bernskuheimili mínu Eyrarhrauni sem í raun varð hvati þess að ég skrifaði Byggðina í hrauninu.
Þetta var sérstakt umhverfi og um margt voru þetta heillandi heimkynni á þeirri tíð. Burstin á gamla bænum á Eyrarbraut sést enn t.h. á 8. mynd en annars er allt breytt. Á 9. mynd stend ég fyrir neðan tignarlega vörðu sem steypt var á háum kletti rétt neðan við bæinn á Eyrarhrauni. Fyrir neðan vörðuna var mikill kálgarður sem verkstjórinn á Mölunum nytjaði.
Önnur álíka varða var steypt á kletti ofan við Rauðhúsnef, við skýli Slysavarnafélagsins. Á þeirri vörðu er stórt A greypt í steypuna en á þeirri á myndinni stendur stórt F. Þannig markaði August Flygenring sitt land af þegar hann settist að á Mölunum með starfrækslu sína upp úr aldamótunum.
Grasskvompurnar milli klettanna á þessum myndum voru allar slegnar á minni tíð þarna enda ræktaðar með ærinni fyrirhöfn af frumbyggjunum á hraunkotunum. Skemmurnar t.v. á 9. mynd voru reistar þegar skreiðarverkunin kom til sögunnar en þær standa á gömlum, lögðum reit frá Mölunum.
En vitnum nú til bókarinnar: „Eyrarhraun stendur í úfnu hrauni, þar sem kraumandi eldkvika og kaldur sjór hafa endur fyrir löngu farið hamförum í tröllslegum leik uns eldur og brim sættust á hina hrikalegu storku. Vatn og veðrun öld fram af öld milduðu svip storkunnar smátt og smátt en þó hefur þetta verið tröllaskeið uns gróðurinn tók að næla sig í sprungur og lesa sig eftir grunnum moldargeirum í lautum og klettum. Þá tók landslagið að mildast og hýrnaði síðan meira og meira við hvert hlýindaskeið. Þetta hraun rann árþúsundum fyrir Íslandsbyggð.
Eins og áður getur, stendur Eyrarhraun rétt ofan við fiskverkunarstöðina Malirnar sem dregur nafn sitt af gerð fjöruborðsins á þessum slóðum eða Langeyrarmölum. Fjaran er þarna á löngum kafla allhár malarkambur, gerður af hnefastórum og þaðan af minni fínsorfnum steinvölum sem vestanbrimið hefur malað, fægt og fágað um aldaraðir. Fjaran á austurströnd Hafnarfjarðar var víðast hvar svona fínsorfin, ljósleit möl, völurnar misstórar og margvíslegar að gerð en yfirborð þeirra slétt og fægt.
Bernskuheimili mitt, Eyrarhraun, stendur enn á sínum gamla stað ofan við Malirnar. En þar er nú allt breytt frá því sem áður var, bæði húsakynni og umhverfi.
Tjörnin fyrir neðan kotið sem áður setti mikinn svip á landslagið er nú uppfyllt að mestu, aðeins smápollur eftir og bílvegur er kominn heim að dyrum. Mörg íbúðarhús, skúrar og skemmur og kumbaldar hafa nú verið reist í nágrenni Eyrarhrauns. Heimahagarnir breytast með hverju ári.
Ég held áfram vestur fjöruna. Mig furðar, hvað hún er orðin óhrein, spýtnabrak og úrgangsreki um alla möl. Áður á tíð var tjáviðurinn kirfilega hirtur í eldinn. Þá þótti dýrt að kaupa eldivið og því var allt notað sem tiltækt varð, hver rekaspýta og jafnvel stundum þangið úr fjörunni. Þangið var einnig notað til áburðar.
Af þessum sökum voru fjörurnar hreinar á bernskudögum mínum enda mikill ævintýraheimur okkar barnanna. Fjaran er ungum börnum mikið rannsóknarefni. Þar er aldrei kyrrstaða, heldur sífelld breyting og umskipti. Í aðfalli nemur aldan sér æ meira land en í útfallinu stækkar fjöruborðið með hverju sogi. Allt vekur þetta undrun og íhugun. Og í hrauninu ofan við malarkambinn eru tjarnir sem einnig taka sífelldum breytingum. Sumar tæmast alveg við fjöru og þá minna þær á stóra, hola skemmd í jaxli. Brúnn þaragróðurinn og dökkt grjótið stinga í stúf við gras, mosaog fléttur í grónu hrauninu. En þegar að fellur,og vatnið teygir sig upp á grasgeira og blómskreytta kletta, eru þessar tjarnir eins og vökul augu og auka á fegurð hrauns og strandar.

Við Brúsastaði.
Þegar flóð er í tjörnunum er hér kyrrð og ró og samstilling, eins og land og sjór hafi samið frið um eilífð. En einstaka tjörn er svo djúp að úr henni fellur aldrei. Þar búa kynjaskepnur og furðufiskar að sögn. Því er oft stansað og dokað við á bakkanum ef vera kynni að þessi kynjadýr sýndu sig.“
Víða voru stórar lóðir eða landareignir hraunkotanna afgirtar með hlöðnum grjótgörðum. Þessir löngu og miklu garðar voru talandi tákn um aml og erfiði þess fólks sem fyrst reisti kotin og hafði nógan tíma til að rífa upp grjótið og hlaða garðana á löngum vinnuleysistímabilum árlega.
Hér stend ég við eitt garðbrotið á 10. mynd, rétt til að minna á hvað þetta fólk lagði á sig við að koma sér upp sjálfstæðum býlum þarna úti í úfnu hrauninu. Á 11. mynd sést hvernig klettanefin teygja sig út í sjóinn, eins og Rauðhúsnefið, en á milli þeirra voru malir og friðsælar fjörur.
Og á fjórtándu myndinni erum við komin vestur að bæjarmörkum. Myndin er tekin milli Brúsastaða og Skerseyrar og sér vestur til Garðahverfis en Balaklettur skagar í sjó fram. Bæjarmörkin eru nálægt miðri mynd.
Þessi fjara fyrir neðan Skerseyri er sem næst því að vera ósnortin og líkist því að mestu þeim fjörum sem voru leikvöllur okkar krakkanna fyrr á tíð. Ofan við þessa fjöru þar sem Skerseyrin stóð áður á Sjóminjasafnið að fá aðsetur í framtíðinni. En gefum nú Byggðinni í hrauninu orðið að lokum og ljúkum þannig þessari gönguferð okkar vestur með sjónum: „Ég held áfram út með sjónum. Byggð er orðin meiri á Brúsastöðum en ströndin fyrir neðan bæinn er sú sama, sæbarin klettabákn og grófgerð fjörumöl til beggja handa. En Skerseyri er löngu komin í eyði, — það hraunkotið sem fjærst var kaupstaðnum, alveg út undir mörkum bæjarlandsins og Garðahverfis.
Fimm voru kotin í byggð í bernsku minni: Langeyri, Eyrarhraun, Litlibær (seinna Fagrihvammur), Brúsastaðir og Skerseyri. Afskekktast var á Skerseyri en útsýni er þar mikið og fagurt, út til hafs og inn til bæjar og vítt til allra átta. Kotið stóð á háum, allstórum bala, en tröllaukið hraun á þrjá vegu og brimsorfinn, stórgrýttur fjörukambur fyrir neðan. Þetta var frumstætt og tignarlegt bæjarstæði. Nú er komið húsakraðak fyrir ofan Skerseyrarland og eykur ekki á fegurð hraunsins. Þessa stórkostlegu hraunspildu þyrfti sannariega að friða.
Rétt ofan og utan við Skerseyri er Hraunhvammur. Hann taldist í rauninni ekki til hinna eiginlegu hraunkota á uppvaxtarárum mínum þótt umhverfið væri hið sama og ástæður landnemans þar væru þær sömu og annarra frumbyggja í hraunbyggðinni. Um tíma var talið álitamál hvort kotið væri innan landamerkja Hafnarfjarðarkaupstaðar eða utan. Sá sem reisti bæinn mun hafa staðið í þeirri meiningu að hann væri að byggja í landi bæjarins. Að minnsta kosti taldi fjölskylda mín sig ekki flytja úr Hafnarfirði þann vetur sem hún átti heima í Hraunhvammi.
En þegar landamerki voru betur könnuð og gengið til botns í málinu kom í ljós að Hraunhvammur reyndist vera Garðahreppsmegin við mörkin. Kotið var því hálfgerður bastarður í hraunbyggðinni og litum við krakkarnir naumast á það sem ekta hraunkot eftir að það var úrskurðað í Garðahreppi. Hraunkotin skyldu vera skrifuð við Hafnarfjörð á bréfum en við töldum okkkur hreinræktaða Hafnfirðinga. Tókum við það óstinnt upp þegar fólk af ókunnleika vildi koma okkur í bland við Garðhverfinga lengra út með sjónum. Við vildum engir hálfrefir vera í þeim efnum.“
Brúsastaðir voru næstvestasta hraunkotið. Á tólftu og þrettándu mynd sést hvernig þar er umhorfs núna. Á þrettándu mynd stöndum við Guðmundur Sveinsson ritstjóri hjá gömlum fiskhjalli og garðbroti, talandi táknum gamla tímans. Að baki sér i Hrafnistu þar sem margir gamlir Hafnfirðingar dveljast síðustu æviárin. Mér finnst þeir vart geta kosið sértignarlegra og stórbrotnara umhverfi.
Þegar Ágúst Guðmundsson var að undirbúa gerð kvikmyndar eftir handriti mínu Saga úr stríðinu völdu þeir Snorri Sveinn Friðriksson leiksviðshönnuður Brúsastaði sem heimili drengsins sem söguna segir.“
Heimild:
-Fjarðarfréttir, 2. tbl. 01.12.1984, Stefán Júlíuson, Gengið vestur með sjó, bls. 40-43.