Jarðfræðikort

Gengið var um svæðið ofan við Voga á Vatnsleysuströnd – ofan Reykjanesbrautar. Ekki var ætlunin að skoða hinar fjölmörgu minjar á svæðinu heldur að skoða þau merkilegu jarðfræðifyrirbæri, sem þar eru; flekaskilin (landrekið/höggunina) og misgengin.

Háibjalli

Háibjalli.

Eins og kunnugt er stendur landið á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Nýlega hefur verið reynt að gefa fólki kost á að kynnast þessu með einföldum hætti þar sem “brúnni á milli heimsálfa” hefur verið komið fyrir yfir eina gjána ofan við Stóru-Sandvík. Brúna hefði einnig mátt setja upp yfir eina gjána á Vogaheiði eða hvar sem er annars staðar á svæðinu.

Háibjalli

Háibjalli – skáli.

Eldvirkni er að mestu bundin við flekaskilin sem liggja þvert yfir landið, frá Reykjanesi í suðvestri að Tjörnesi í norðaustri, en einnig á jaðargosbeltum. Fyrir vikið finnast yngstu jarðmyndanirnar á sömu svæðum og framleiðni gosefna er þar mest, þótt þess sjáist ekki endilega merki í Vogaheiðinni að undanskildum Þráinsskyldi. Merkin eru hins vegar gleggri beggja vegna. Jarðskorpuflekarnir fljóta á deigu möttulefni sem líkja má við það þegar ísjakar fljóta á vatni.
Með „landrekskenningunni“ er venjulega átt við þá kenningu sem þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1870-1930) setti fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915. Annað afbrigði kenningarinnar kom fram 1964 og nefnist „botnskriðskenningin“ og loks þriðja afbrigðið 1968, „flekakenningin“.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Meginmunurinn á upphaflegu kenningunni og hinum síðari er sá, að í bók sinni (1915 og síðar) gerði Wegener ráð fyrir því að meginlöndin fljóti í hafsbotnsskorpunni, sem sé stöðug, en meginlöndin hreyfist (reki) um hana. Samkvæmt síðari kenningunum berast meginlöndin með hafsbotninum, sem er á hreyfingu.
Wegener reyndi að skýra kenningu sína um hreyfingu meginlandsflekanna um hnöttinn. Í fyrsta lagi benti hann á hve vel Suður-Ameríka og Afríka falla saman, líkt og kubbar í púsluspili. Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu. Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman. Og í fjórða lagi gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni.

Snorrastaðasel

Snorrastaðasel við Háabjalla.

En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Árið 1960 setti bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Meginlandsflekarnir dragast ýmist eða fjarlægjast hvern annan. Dæmi um fleka, sem dragast að hvorum öðrum eru afleiðingar flóðbylgjunnar í Indlandshafi á annan dag jóla 2004. Hér á landi eru flekarnir að fjarlægjast eins áður hefur komið fram.
FlekaskilSvo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna. Ekki er ólíklegt að hann hafi og skoðað hinar augljósu ummerki þessa á Reykjanesskaganum og á Þingvöllum.
Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar. Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands. Dæmi þess má einnig sjá syðst á Reykjanesskaganum, s.s. í Þorbirni.

Háibjalli

Háibjalli – skilti.

Á Háabjalla, sem er ákjósanlegt skoðunarsvæði fyrir þá, sem hafa áhuga á að skoða misgengi. Á svæðinu eru misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Samtals eru þau 4 eða fimm á Vogasvæðinu, Stapinn þar með talinn. Brúnir mynda nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur. Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Hreyfingin er stöðug á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2.8 millimetrum á ári eða 28 cm á einni öld. Frá Háabjalla má vel sjá hvernig brotabeltið á flekaskilunum hefur færst til beggja átta og sigið. Gjárnar, Hrafnagjá að norðanverðu og Huldugjá, Klifgjá, Aragjár og aðrar slíkar að sunnanverðu gliðna og ekki er óraunhæft að ætla að á þessu svæði geti glóandi hraun hvenær sem er fundið sér leið upp á yfirborðið.
Þátttakendur gengu af einhverjum ástæðum mun hraðar til baka.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mínútur.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=749

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjanesskagans.

Lambafellshraun

Gengið var um svonefnt Kristnitökuhraun norðan Þrengsla, að Nyrðri- og Syðri Eldborg og síðan niður með suðausturjaðri hraunsins sunnan Lambafells, áfram niður Lambafellshraun um Lambhól, yfir að Stórahvammi undir Stórameitli, suður með vestanverðum Litlameitli, framhjá Hrafnakletti og Votabergi og beygt til norðausturs milli Litlameitils og Innbruna, upp að Eldborg undir Meitlum.

Vatnsskarð

Vatnsskarð vestan Núpa þar sem Þurárhraun rann niður á láglendið.

Árið 2000 voru 1000 ár frá því að Kristnitökuhraunið rann. Um er að ræða mikið mosahraun með löngum og fallegum hrauntröðum. Á þessum tímamótum, með fæturnar á áþreifanlegum ummerkjum sögunnar, voru rifjuð upp merkileg orðaskipti á Alþingi árið 1000 þegar tekist var á um hvort heiðinn siður skyldi víkja fyrir hinum kristna. Þetta hraun, sem þá rann undir Hellisheiði, kom þar við sögu.
Í bók sinni, Frumkristni og upphaf kirkju, segir Hjalti Hugason svo um stórmerki á þingtíma: “Í frásögn sinni af kristnitökunni heldur Ari fróði sig alfarið við störf manna á alþingi þetta sumar. Ýmsir þættir kristnitökusögunnar koma því ekki fyrir í þessari elstu útgáfu hennar. Þar á meðal er sagnastefið um eldsumbrot í Ölfusi.

Eldborgir

Eldborgir í Svínahrauni.

Í núverandi mynd kemur það fyrst fram í Kristni sögu frá 13. öld. Þar segir að þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu á Lögbergi hafi svo mikill ótti gripið andstæðinga þeirra að þeir hafi ekki árætt að andmæla þeim. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli. Má ætla að sú ógn, sem þannig var upp komin, hafi þó aðeins verið forsmekkur þess sem koma skyldi, en sagan heldur áfram. “Þá kom maður hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann hlaupa ábæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: “Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum.” Þá mælti Snorri goði: “Um hvað reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á.” Þetta atvik er eitt af þeim stórmerkjum, sem fylgdu kristnitökunni að sögn ýmissa miðaldarita.”

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Kristnitökuhraunið á vestanverðri Hellisheiðinni rann einmitt um þetta leyti. Svínahraunsbruni norður af Þrengslum mun vera umrætt hraun. Með mælingum hefur verið staðfest að hraunið rann fyrir um 1000. Ekkert annað hraun á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Gefið er til kynna að bæ Þórodds goða á Þóroddsstöðum eða Hjalla hafi verið í hættu. Enda þótt meginhluti hraunsins dreifðist til norðausturs frá eldstöðinni náði angi hans suður í Þrengslin. Hefur þá með góðum vilja mátt segja að hann stefndi í Ölfus og á bæ goðans. Það hraun, Þurárhraun, rann hins vegar úr eldstöðinni ofan við Hveradalabrekkur og rann í mjóum farvegi fram með Skálafelli að austanverðu og niður af hlíðinni um skarð austan við Þóroddsstaði.

Eldborg

Eldborgir og hraunin – greinilega um tvö gostímabil með stuttu millibili að ræða.

Gosið árið 1000 varð á vestara sprungusvæðinu, sem svo er nefnt, og liggur nokkurn veginn samhliðpa Bláfjöllum að austanverðu. Þar varð stórgos fyrir 4.600 árum í Leitinni, gíg sem er alveg upp við fjallshlíðina og hefur með tímanum fyllst af framburði úr hlíðinni. Leitarhraun rann bæði suður á bóginn, líklega allt til Ölfusárósa, einnig yfir stór flæmi til norðausturs og kvísl úr því rann undan hallanum til vetsurs, nokkurn veginn nákvæmlega þar sem Suðurlandsvegurinn liggur, og allt niður í Elliðaárvog.
Sprungusvæðið austan við Bláfjöll hafði að líkindum ekki látið á sér bæra í 3.600 ár þegar upp kom jarðeldur árið 1000 í miðju hrauninu milli Bláfjalla og Lambafells. Vestan og norðvestan við Lambafell urðu til tvær eldstöðvar, Nyrðri- og Syðri-Eldborg. Sú nyrðri sést tilsýndar af veginum í Svínahrauni. Austur frá Nyrðri-Eldborg er á alllöngum kafla mikilfengleg hrauntröð.

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Kristnitökuhraunið, eða Svínahraunsbruni, sem nú er talið víst að sé úr þessum eldstöðvum, dreifðist undan hallanum norðaustur með Lambafelli og er gífurlega úfið og illt yfirferðar á köflum, vaxið þykkum grámosa, sem tekur á sig gulan lit þegar hann vöknar.
Til suðurs rann hraunið sáralítið nema kvísl sem rann fyrir hornið á Lambafelli, út í Þrengslin, yfir eldra hraun úr Hellisheiðareldstöðinni ofan Hveradala, og hefur þá lokað alfaraleið yfir heiðina um Þrengslin. En mest dreifðist hraunrennslið yfir Leitarhraunið til norðausturs.

Það hraun, Eldborgarhraun, sem rann áleiðis að Hjalla er miklu mun eldra en kristni á Íslandi. Það átti upptök sín í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg, sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum.

Hins vegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu. Reyndar eru gíganir undir Meitlunum tveir; Nyrði- og Syðri-Eldborg. Ofan af gígbarmi Eldborgar sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorkálshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áðurnefnd eldstöð ofan Hveradala.
Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi er átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofan á Þurárhrauni og Eldborgarhrauni, Þess vegan vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitökuhraunið.
Kristian Kålund (1872-’74), Þorvaldur Thorodssen (1882), Guðmundur Kjartansson (1943), Trausti Einarsson (1951) og Þorleifur Einarsson (1960) töldu allir að hraunin úr Eldborgum í Hveradalabrekkum og Meitlum væru hið svonefnda Kristnitökuhraun.

Skálafell

Skálafell – kort af svæðinu.

Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna,sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristinitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson, jarðfræðingur, birti grein í Náttúrfræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus, og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðsins á nefndum tímamótum, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg ár áður en land byggðist.

Þurárhraun

Þurárhraun um Vatnsskarð á Núpafjalli.

Jón Jónsson skrifaði grein í Náttúrfræðinginn 1979 og er frásögn hennar “Kristnitökuhraunið”. Þar segir Jón frá því að landnáms-öskulagið hafi fundist í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristni sögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Kenning Jóns fékk mikilvægan stuðning í grein Krýsuvíkurelda eftri Sigmund Einarsson, jarðfræðing, árið 1991. Í þeirri grein, sem birtist í tímaritinu Jökli, eru færð rök fyrir því að Eldborgir í Svínahraunsbruna séu hluti af eldstöðvakerfi Breinnisteinsfjalla og að þar hafi staðið yfir goshrina á síðari hluta 10. aldar.

Þurárhraun

„Þurrárhraun“.

Í Andvara 1936 fjallar Hálfdán Jónsson um „Lýsingu Ölvershrepps„:
„Fyrrnefnt Þurrárhraun hefur að vestanverðu Þurrárhnúk með hömrum. Þar kemur rennandi ofan lítil á, er Þurrá kallast. Síðan að austanverðu við hnúkinn heitir Vatnsskarð, sem almennilega er talað, að Kaldá hafi runnið fyrr um, og nú sést merki til hennar farvegs uppi á fjallinu. En fyrir austan þetta skarð nefnist Valhnúkur. Um fyrrnefnt Vatnsskarð, milli hnúkanna, hefur jarðeldur ofan af fjallinu fram á mýrina hleypt Þurrárhrauni, hvort að er án grass, með mosum, um hvers elds uppkomu í Ölvesi lesa má í Kristindómssögu, þegar á Alþingi talað var um kristniboðan hér á landi.
Með títt nefndu Þurrárhrauni aðskiljast Hjalla- og Reykjakirkju sóknir“.
Fróðleiksferð. Fábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mínútur.

Heimild m.a.:
-Lesbók MBL – 1. júlí 2000 – Gísli Sigurðsson.
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1936, Lýsing Ölvershrepps, Hálfdán Jónsson, 1703, bls. 57-78.

Svínahraun

Hraunskúltúr í Svínahrauni.

Rauðhólssel

Hér veður fjallað um „Seljabúskap á Suðurnesjum„. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árin 2004 um úrskurði Grindavíkur- og Vatnsleysustrandarlands.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Í lýsingu Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu árið 1781 er í XI. kafla fjallað um hverja kirkjusókn fyrir sig og m.a. fjallað um tölu og ásigkomulag bújarða. Um Krýsuvík segir m.a.: „Bær þessi er tvær mílur frá lendingarstað sínum og telst því fremur sveitajörð en sjávar. Landrými er mikið; … Jörðin er vel fallin til sauðfjárræktar og til mikils sauðfjárbótabús með yfir 1000 sauðfjár.
Um Staðarsókn í Grindavík segir Skúli Magnússon árið 1781: „Þarna eru býlin fast með ströndinni, og liggur ekkert engi eða slægjuland undir þau nema túnin ein, sem er eigi unnt að auka, … En 2 mílur í norðaustur frá byggðarlaginu, inni á milli fjallanna, eru góðir hagar. Hafa menn þar selstöður. En eigi eru þar skilyrði fyrir nýbýli“.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Skúli Magnússon tekur fram um Kirkjuvogssókn árið 1781 að selstöður séu 1 1/2 mílu norðaustur frá bæjunum, en engar selstöður séu í Hvalsness- og Útskálasóknum. Hins vegar eru taldar selstöður í Njarðvíkursókn. Um Kálfatjarnarsókn segir Skúli: „Frá flestum bæjum eru selstöður uppi til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið bezta land til sauðfjárræktar, það er ég hefi séð á Íslandi, á fjögra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur frá sjónum upp að háfjöllunum, sem greina Gullbringusýslu frá Árnesssýslu. Þannig tekur svæði þetta yfir 8. fermílur“.
Geir Bachmann, prestur á Stað í Grindavík, samdi sóknalýsingu Staðarsóknar í Grindavík árin 1840-1841. Þar segir hann eftirfarandi um selstöðu Staðar: „Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík“.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

Geir fjallar síðar nánar um selstöður í Staðarsókn í svari við 31. spurningu sóknarlýsinganna (selstöðum): „Þess er áður getið, að Staður eigi selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er all-grösugt, en bízt fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þessa selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svo kölluðum Þrengslum. Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhver staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpzt á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. … 32. Ekkert er hér afréttarland; allt fé ungt og og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð. Þó eru réttir í Stóru-Vogum, sóttar af Ströndinni, Rosmhvalaness-, Hafna- og Grindavíkurhreppum“.

Baðsvallasel

Baðsvallasel.

Síðar átti Geir eftir að kvarta undan ágengni nágranna sinna í sellandi eins og kemur fram í grein Guðrúnar Ólafsdóttur Sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sem birtist í afmælisrit Ólafs Hanssonar Söguslóðir árið 1979. Þar segir: „Til enn frekari áréttingar um mikilvægi þessara hlunninda [þ.e. selstöðu Grindvíkinga] má tilfæra bréf frá árinu 1844 frá sr. Geir Bachmann til biskups, þar sem hann kvartar yfir því, að allir nágrannar sínir noti selstöðuna á Selsvöllum án þess að greiða honum leigu fyrir, þótt hún sé sannanlega eign prestssetursins samkvæmt jarðabókinni 1760“. Telur hann, að bændurnir hafi komist upp á að nota selstöðuna, þegar fyrirrennarar hans í prestsembættinu hafi verið svo fénaðarfáir, að þeim hafi ekki þótt svara kostnaði og fyrirhöfn, að viðhalda selhúsum og hafa fólk yfir litlum fénaði og þess vegna leyft öðrum afnot af henni gegn leigu, sem síðan hafi fallið niður vegna hirðuleysis. Nú sé svo komið, að fyrir utan hann, sem hafi byrjað að nota selið 1837, þ. e. tveimur árum eftir að hann fékk brauðið, eigi sex búendur þar selhús og hafi þar allan sinn fénað og taki auk þess sumir fénað af öðrum til göngu og hirðingar. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri „ærið usla og jarðnag í beitilands þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, …

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Pétur Jónsson, prestur á Kálfatjörn, fjallar lítið um selstöður í lýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsóknar árið 1840. Hann nefnir selstöðu frá Innri-Njarðvík, sem verið hafi við veginn frá Vogum að Grindavík, en síðar segir Pétur um Hvassahraun: „Hér hefir verið selstaða fyrrum eins og á öllum Strandarhrepps lögbýlum, en öll af lögð á seinni tímum; þau hafa öll eður flest vatnslaus verið og staðið hér um í miðri heiði, milli fjalls og fjöru“.
Árni Óla blaðamaður samdi bók sem fjallar um Vatnsleysuströnd og Voga, Strönd og Vogar, og kom út árið 1961. Árni víkur þar á tveimur stöðum að seljum á svæðinu en getur ekki heimilda nema hann vitnar í seinna skiptið til frásagnar Benjamíns Halldórssonar: „Um alla heiðina eru rústir af gömlum seljum, … Flekkuvíkursel lagðist ekki niður fyrr en um 1870, en þá höfðu öll hin selin verið lögð niður fyrir löngu“. …
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.
1. Selhólar heita skammt fyrir ofan. Voga. …
2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. …
3. Þórusel er skammt austur af Vogum. …

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá … og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, … Túnið var seinast slegið 1917.
5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún…
6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum). …
7. Gjásel er um 3/4 klukkustundargang frá Brunnastöðum. Þar eru glöggar seltóftir, en lítið seltún. …
8. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna eru margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. …

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

9. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. …
10. Knarranessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. … Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. Í miklum þurrkum hefir vatn þetta þornað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. …
11. Auðnasel er austur af Knarrarnesseli. Þar eru margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. …
12. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. … [Árni Óla segir engar seltóftir sjást þarna en virðist giska á að þarna sé selstaða Þórustaða, Fornuselshæðir, sem Jarðabók Árna og Páls nefnir].

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

13. Flekkuvíkursel eru um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, … Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, …
14. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, …
15. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. …
16. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu. Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. …

Sogasel

Sogasel.

17. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. …
Í áðurnefndri grein Guðrúnar Ólafsdóttur frá 1979 er gert ráð fyrir að selstöður, sem Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns nefnir og jarðir í Grindavíkurhreppi nýttu, hafi verið innan marka hreppsins. Miðar Guðrún við kort Landmælinga Íslands, blað 27, Reykjavík, útgefið 1977, og blað 29, Krýsuvík, gefið út 1969. Stangast það á við umsögn Geirs Bachmanns í sóknalýsingunni 1840-1841, sem segir Selsvelli í Strandamannalandi, og greinargerð Sesselju Guðmundsdóttur, sem oft hefur verið vitnað til hér að framan.
Guðrún telur hugsanlegt að ásókn Grindvíkinga í selstöðuna á Selsvöllum megi að einhverju leyti skýra með því að þeir höfðu ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öld. Þrjú nýbýli hafi risið í Krýsuvíkurlandi á 19. öld, öll í fyrri seljalöndum. Vigdísarvellir og Bali á Vigdísarvöllum og Fitjar í svonefndri Selöldu [sem er utan kröfusvæðis]. Telur hún ólíklegt að Krýsuvíkurbændur hafi leigt út selstöður eftir að þessi býli byggðust.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Guðrún Ólafsdóttir reynir að tímasetja hvenær selfarir í Grindavíkurhreppi hafi hætt og vitnar til bókar Gísla Brynjólfssonar, „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók” (útgefinni 1973) og Ferðabókar Þorvalds Thoroddsens (útgefinni 1913), en Þorvaldur kom að Hraunseli, Selsvöllum, Baðsvöllum og Vigdísarvöllum árið 1883. Samkvæmt því hefðu selfarir hætt milli 1850 og 1883. En í þjóðháttasöfnun árið 1976, hefði Magnús Hafliðason frá Hrauni (fæddur 1891) sagt foreldra sína haft í seli í Hraunseli og talið að því hefði verið hætt um 1890.
Svo virðist sem Grindvíkingar hafi enn haft í seli um 1870 ef dæma má af bréfum hreppstjóra Vatnsleysustrandarhrepps 15. og 21. janúar 1870, sem telur mann, sem sýslumaður segir búsettan á Vigdísarvöllum, heimilisfastan á Vatnsleysuströnd, þó að hann flytji sig og fé sitt um sumartímann á Vigdísarvelli, líkt og þegar Grindavíkurmenn hafi í seli á Selsvöllum.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Vífilsstaðavatn

Við norðurenda Vífilsstaðavatns á að vera Álfaklettur.
Gísli Sigurðsson segir þetta um hann í örnefnalýsingu sinni yfir Vífilsstaði: „Þá liggur Landamerkjalínan í Smalholtsvörðu á Smalholti. alfaklettur-1Norðaustur frá Vífilsstaðahælinu er hæð, nefnist Skyggnir, og efst þar er Skyggnisþúfa. Þegar Alfaraleiðin var farin hér austur og inn með vatninu var komið í vog eða krika sem nefndist Hálshúskriki. Og þá hefur Hálshús verið þarna nálægt. Þarna eru rústir á lágum hól, nefnist þar Finnsstekkur en í fornu bréfi og Jarðabók Árna og Páls er nefnt Finnsstaðir, hjáleiga frá Vífilsstöðum, þá niðurlögð fyrir nokkru. Þarna er svo Álfaklettur, mikill steinn rétt hjá. Þegar haldið er suður með vatninu er komið í Króka, upp af þeim er mýrarkorn og þar í uppsprettur. Dýjakrókar er mýrin Krókamýri. Þar er nú Vatnsból Garðakauptúns og Garðahverfis. Upp frá Hálshúskrika liggur leiðin upp á Vífilsstaðaháls. Hér í norður, bak við Smalholt, er Rjúpnahlíð og þá Rjúpnadalur og svo Rjúpnahæð með Rjúpnahæðarvörðu.“
Svanur Pálsson segir í örnefnalýsingu sinni: „Suðaustan Hnoðraholts og norðaustan Vífilsstaðavatns er Smalaholt. Milli þess og Hnoðraholts er Leirdalsop. Milli Skyggnisholts og Smalaholts eru rústir á lágum hól, sem nefnast Finnsstekkur eða Finnsstaðir. Þar nálægt á að vera stór steinn, er kallast Álfaklettur. Austan við Smalaholt er Rjúpnadalur.“

alfaklettur-2

Hálshúskriki er á milli Skyggnisholts og Smalaholts, vestan Finnsstekks. Um krikann lá þjóðleiðin fyrrum. Má enn sjá ummerki eftir hana, ef vel er gáð. Í Hálshúskrika er stór steinn, reyndar eini „kletturinn“, sem þar er að finna – líklega fyrrnefndur „Álfaklettur“. Reyndar eru klettarnir tveir, annar minni. Milli þeirra eru leifar að hleðslu sem og í hálfhring á milli þeirra að norðaustanverðu. Þarna hefur verið gert skjól fyrrum og ekki er ólíklegt að ætla að þarna geti verið nefnt „Hálshús“, sem krikinn er nefndur eftir. Ekki eru kunnar skráðar sögur eða sagnir af Álfakletti, en ef einhver kynni frá þeim að segja, væri fróðlegt við þeim að bæta… 

Heimildir:
-Gísli Sigurðsson, Örnefnalýsing fyrir Vífilsstaði.
-Svanur Pálsson, Örnefni í Garðabæ.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn.

Gerðavellir

Í bókinni „Frjálsa glaða líf“ lýsir Guðmundur Bjarnason fyrrum bóndi í Innri-Lambadal í Dýrafirði, vertíðum í Grindavík, nánar tiltekið á Þórkötlustaðanesi. Hér er útdráttur úr frásögn hans:
Grindavík„Eftir áramótin 1933-1934 fór ég suður í atvinnuleit…“ Í Reykjavík hitti hann Guðjón Jónsson [í Höfn, faðir Péturs] frá Grindavík. Hann réði Guðmund sem vertíðarmann. Fjórar vertíðir hjá Guðjóni fylgdu í kjölfarið.
„Í Grindavík vóru allir menn ráðnir upp á kaup en ekki aflahlut. Kaupið var þrjú til fjögur hundruð krónur yfir vertíðina og frítt fæði og húsnæði. Vertíðin stóð frá 1. febrúar til 11. maí, það er að segja um 100 daga.
Við fórum suður til Grindavíkur seinni part næsta dags. Að Höfn í Grindavík komum við í myrkri um kvöldið. Byggðin var þá í þremur hverfum; Þórkötlustaða-, Járngerðarstaða- og Staðarhverfi og í raun var hvert hverfi sjálfstæð verstöð. Guðjón átti heima í Þórkötlustaðahverfi, það er austasta hverfið, næst fjallinu Festi.
Brimasamt var í Grindavík og innsiglingin að Þórkötlustöðum um þröng sund á milli boða. Þegar sundið var tekið, var farið eftir innsiglingarvörðum, en þegar braut yfir sundið frá landi að sjá, var „flaggað frá“. Því starfi gegndi fullorðinn maður og fyrrum sjósóknari sem allir báru traust til. Þegar innfyrir var komið var landtakan eftir og þurfti að hafa gát á, sérstaklega ef vont var í sjó.
Bátarnir í Nesinu

Allur fiskur var þá seilaður upp á færi og látinn útbyrðis jafnóðum, þar til báturinn var tómur. Þá var lendingin tekin og bátnum bjargað undan sjó. Því næst vóru seilurnar dregnar að landi og aflinn borinn upp úr fjörunni. Kom þá hver maður með sína seilaól. Var hún tengd við enda færisins og hæfilega mörgum fiskum rennt af færinu yfir á seilaólina og fór magnið eftir því hver bera átti. Lyftu menn síðan byrðunum hver á annars bak og lá seilaólin yfir öxlina þannig að borið var í bak og fyrir.
Seilað

Við þórkötlustaðahverfi þótti landtaka öllu betri en við Járngerðarstaðahverfi. Sagt var að aldrei hefði farist bátur á Þórkötlustaðasundi en nítján á Járngerðarstaðasundi og ætti enn einn eftir að farast þar.
Fyrsta morguninn minn í Grindavík vaknaði ég snemma og við sjávarhljóð. Nálægðin við hafið fór vel í mig.
Eftir hádegi þennan fyrsta dag minn í Grindavík fór að snjóa. Ekki hafði áður á þessum vetri fest snjó í Grindavík, þótt vestur í Dýrafirði væri búið að ganga á með hríðarbyljum. Þða var eins og snjókoman væri Grindvíkingum einhver himnasending. Menn þustu að ofan úr hverfi og tóku til við að velta snjóboltum hver um annan þveran. Mikið kapphlaup var um stærstu sléttu blettina í hrauninu.
Ískofi

Þegar ég var genginn í bardagann rann smám saman upp fyrir mér hvað um var að vera. Þarna í hrauninu vóru einir tíu kofar, næstum ósýnilegir og að töluverðu leyti niðri í hraungjótum faldir með torfsneplum sem hvíldu á bárujárni. Inn í þessa kofa báru menn snjóboltana, ýmist í fanginu eða á handbörum. Þetta stóð yfir í á þriðja klukkutíma, þá hættia ð snjóa og var snjórinn fljótur að bráðna niður í hraunið, þar sem sjórinn var skammt undir og gaf því yl. Kofarnir tíu, vóru íshús þeirra 11 skipa sem réru úr hverfinu. Tveir bátar vóru saman um einn kofann og var hann helmingi stærri en heinir. Það var kofi þeirra Einlandsfeðga. Í kofunum var beitan geymd og svo einnig lóðabalarnir eftir að búið var að beita til næstu sjóferðar.
Snógeymslan var í öðrum enda kofans en í hinum endanum fór frystingin fram. Þar hafði verið smíðaður stór kassi og svo annar minni úr blikkplötum sem var látinn standa innan í þeim stærri og í hann sett það er frysta átti. Var þá um fimm tommu rými á milli kassanna allt í kring.

Þórkötlustaðabót

Hrært var saman snjó og dálitlu af salti og bilið á milli kassanna fyllt með því. Hljóp að allt í gadd og gat þetta verið afbragðs frystigeymsla, ef þess var gætt að endurnýja frostið þegar með þurfti. Alltaf var notað úrsalt við ísgerðina.
Mér þótti eftirtektarvert hvað margir eldri Grindvíkinga töluðu með mikilli virðingu um bátana og nefndu þá jafnan skipin, svo sem Hraunsskipið, Einlandsskipið, Klapparskipið, Vesturbæjarskipið, Austurbæjarskipið, Miðbæjarskipið, Þórkötlustaðaskipið, Buðlunguskipið og svo framvegis.
Spilið

Bátur Guðjóns hét Stígandi, en Einlandsbáturinn Sæfari. Á línuvertíðinni vóru fjórir landmenn og fimm á sjónum á hvorum báti. Alls vóru því átján sjómenn á báðum bátunum. Aðeins á tveim dögum á vertíðinni mátti ekki róa. Það var á föstudaginn langa og páskadag. Oft var ekki sofið nema tvo til þrjá tíma á sólarhring þegar gæftir vóru. ég heyri oft talað um páskahrotur, fiskihlaup komið upp í landsteina og þá landburð af fiski sem stæði í nokkra daga og þá oftast rétt fyrir eða alveg um páskana. Alltaf var róið þegar gaf á sjó þrátt fyrir tregfiski en brátt leið að páskavikunni og þá kom hlaupið. Línan var dregin uns fullhlaðið var og enn var borð fyrir báru. Allir gengu í að landa aflanum og var eins og kapp færðist í hvern mann þegar aflahrotan var komin. Mikilvægt var að eiga nóg beitt í næstu lögn áður en farið var að gera að aflanum. Ekki var lagst til svefns fyrr en allur fiskur var kominn í salt.
Veðurblíðan hélst alla páskavikuna. Það var eins og sjórinn væri fullur af fiski, alveg upp í landsteina. Á annan í páskum drógu menn hins vegar dauða línu. Fiskhlaupið var gengið hjá.

Höfn

Á þriðja í páskum var enn róið en þá þóttu líkur að hann væri að breyta veðri. Birtingin var undarleg þennan dag. Meðan enn var dimmt ljómaði austurloftið og Eyjafjallajökull stóð uppljómaður í hillingum og nálægur eins og hann væri aðeins smáspöl í burtu. „Nú er hann heldur betur að ganga í landátt“, sagði innfæddur Grindvíkingur. Það varð orð að sönnu, því framundan var hálfs mánaðar landlega.
Svo kom smá hrota rétt fyrir lokin, sem Grindvíkingar kölluðu lokahrotuna.
Í lok vetrarvertíðar réði ég mig sem vormaður fyrir orð Guðjóns. Gott þótti mér að vera í Grindavík þetta vor. Ég gekk á fjallið Festi með nokkrum vinum mínum á Jónsmessunótt. Daginn eftir fór ég heim í Dýrafjörð með 600 krónur í vasanum, en það þótti nokkuð mikill peningur í þá daga þegar kreppan var í hámarki.
Og ég hélt áfram að fara suður á netavertíð næstu árin. Eitt sinn hafði brimað upp en lognbrim var og enginn bátur fór á sjó.
VörinÁ þriðja degi var ennþá brim. Þá var ákveðið að manna út annan bátinn og reyna að ná netarossunum frá bátum 
bátunum. Harðar hendur voru hafðar við að draga netin. Töluvert bætti í brimið á meðan. Þegar komið var aftur að sundinu var um það bil orðið ófært.
Sundið var tekið eftir að búið var að bíða stund fyrir utan eftir lagi. Sjórinn saup upp með skutnum eins og gos þars em báran var við það að mynda hvolf. Smástund leið, aðeins brot úr mínútu og báturinn var kominn inn á sundið áður en aldan fellur. Skipstjórinn glottir við tönn. Sjá var sem skaflinn sæti á herðum hans á leiðinni inn sundið. Í fjörunni voru ótal hendur tilbúnar með spilstrengi til þess að hífa skipið upp. Það var allþungt þar sem mikið af farminum var í því og tíma tók að tæma það af sjó.
Litlu áður en ég fór til róðra í Grindavík, var uppsátrið flutt fram í nesið og byggð þar bryggja, eða réttara sagt byrjun á bryggju, því hún stóð á þurru um stærstu fjörur. Áður hafði lendingin verið heima í hverfinu í Buðlungavör sem er klettaskora þar sem klappir liggja að. Þar er aðdjúpt og stuttur setningur. Allur fiskur var þar seilaður út og borinn á bakinu upp klappirnar.
Austasta jörðin í Grindavík heitir Hraun. Þar bjuggu bræður tveir, Gísli og Magnús Hafliðasynir. Þeir gerðu út bát er ávallt var nefndur Hraunsskipið.
ÞórkötlustaðagataLöng sjávargata er frá Hrauni og fram í Nes. Gísli var töluvert farinn að reskjast en Magnús til muna yngri og formaðurinn á bátnum. Mjög vóru þeir bræður samrýmdir og á göngunni milli skips og bæjar gekk Magnús ávallt á undan en Gísli fast á hæla hans.  Alltaf vóru þeir bræður í hrókasamræðum en aldrei sammála. Fræg er sagan um riflildi þeirra um sporðinn og þunnildið.
Hraunsskipið var minnsti báturinn í Grindavík en Magnús sullaðist alltaf á sjó, ekki síður en aðrir ef fært var. Stundum sullaðist sjórinn upp úr stígvélum Magnúsar eftir að hafa haldiðs kipinu frá landi, jafnvel í tólf til fimmtáns tiga frosi. Ég spurði Magnús einu sinni hvort honum væri ekki kalt á fótunum þegar hann færi stígvélafullur á sjóinn. „Nei“, sagði Magnús, „það er bara um að gera að hafa alltaf ferskan sjó í stígvélunum.“

Heimild:
-Guðmundur Bjarnason, Frjása glaða líf, Reykjavík 1993, bls. 88 – 102.

Veðrabrigði

Gunnuhver

Saltfisksetur Íslands í Grindavík var stofnað haustið 2002 og hefur á þeim stutta tíma náð að marka sér stöðu sem einn af helstu ferðamannastöðum Reykjaness.

Saltfiskssetur Íslands

Saltfiskssetur Íslands.

Mikill vaxtarbroddur er í ferðamennsku á svæðinu að sögn Óskars Sævarssonar. Hann er og hefur verið forstöðumaður Saltfisksetursins, (sívakandi sjómaður frá fyrri tíð), göngugarpur, leitarmaður fjár að hausti, félagi í björgunarsveitinni Þorbirni, stjórnarmaður í Ferðamálasamtökum Suðurnesja og nefndarmaður í Menningarráði Suðurnesja, áhugamaður um menningu og minjar á Reykjanesskaganum, frumköðull að örnefnaskiltagerð í Grindavík, jeppafræðingur og samhæfingarsinni um áhrifaríkt samspil náttúru og sögu, að ekki sé getið um starf hans sem starfsmaður Reykjanesfólks á vettvangi. Óskar telur að ferðaþjónustumöguleikarnir á Suðurnesjum séu nær óþrjótandi.
„Það hefur verið nokkur aukning hjá okkur undanfarið og sem dæmi var síðastliðinn febrúar okkar besti febrúarmánuður frá upphafi,“ segir Óskar, en á síðasta ári sóttu 12.000 gestir setrið heim. [Eru þá ótaldir hinir fjölmörgu er leið áttu um svæðið, gjörsneiddir meðvitund um hvað það kynni að geta boðið því upp á að öðru leyti).

Óskar Sævarsson

Óskar Sævarsson.

[Athyglinni var hins vegar að þessu sinni (árið 2006) aðallega beint að vinnustað Óskar; Saltfisksetrinu]. Fjölbreytt starfsemi er í Saltfisksetrinu, en fyrir utan sýninguna „Saltfiskur í sögu þjóðar“, sem hefur verið uppi frá upphafi er í setrinu glæsilegur listsýningasalur þar sem nokkrir frægustu listamenn þjóðarinnar hafa sýnt verk sín. Vinsældirnar hafa heldur ekki látið á sér standa og sækja nú um 400 manns hverja sýningu að jafnaði. Óskar segir sýningarsalinn í mikilli sókn sem slíkan, en hann er nú fullbókaður fram á næsta ár.Þar hafa, auk sýninganna, verið haldnir fyrirlestar og kynningar ýmiss konar, t.a.m. sérstök sagnakvöld um minjar og menningu svæðisins.
„Mesta traffíkin hjá okkur þessa dagana er í hópferðunum, en þá koma til okkar fólk frá vinnustöðum eða félögum. Ferðin hefst gjarna í hellaferð í nágrenninu, fólkið kemur svo hingað í Saltfisksetrið þar sem er boðið upp á rauðvín og saltfiskbollur eftir sérstakri uppskrift,“ segir Óskar, en eftir þá dagskrá er farið á veitingastað í Grindavík til að snæða og eftir það á pöbbarölt.
Áætlanir eru þó uppi um að í nánustu framtíð verði í Saltfisksetrinu

Saltfiskssetur

Saltfiskssetur Grindavíkur – Sögusýning saltfiskvinnslunnar.

allsherjarferðamannamiðstöð. Lykillinn að því er í fyrsta lagi að bæta aðstöðu í setrinu, en strax næsta sumar er gert ráð fyrir að opna kaffiteríu sem hefur bráðvantað til að geta annað eftirspurn. „Svo erum við líka að byrja með aðra nýjung en það er svokölluð hljóðleiðsögn. Þá fá erlendir ferðamenn geislaspilara með heyrnartólum með sér sem leiðir þá um sögusýninguna og segir frá því sem fyrir augu ber á tungumáli áhorfandans. Þetta fyrirkomulag hefur þegar gefið mjög góða raun.“
Sá ferðamannahópur sem hefur vaxið hvað örast á síðustu árum er farþegar skemmtiferðaskipa, en Óskar hefur lagt mikla áherslu á að fá slíka viðskiptavini á Reykjanesskagann. „Það skiptir öllu máli að markaðssetja svæðið rétt og bjóða upp á eitthvað einstakt. Við höfum til dæmis verið að vinna í því að koma á fót jeppaferðum um Reykjanesið, en það verður að sjálfsögðu skipulagt með umhverfisvernd í huga,“ segir Óskar og er full alvara þar sem hann metur hið ósnortna svæði Reykjaness mikils.
Óskar á göngu á ReykjanesskaganumÓskar hefur gengið um nesið þvert og endilangt frá því hann var drengur og þekkir þar til Oskar en flestir. Hann var einmitt í göngu fyrir skemmstu ásamt ferðahópnum FERLIR þegar hann rak skyndilega augun í áður óþekktar mannvistaleyfar sem stendur til að rannsaka og aldursgreina. Um var að ræða hlaðin hús í Eldvörpum, mjög líkum þeim er uppgötvaðar voru í Sundvörðuhrauni á 19. öld – og þóttu einstaklegur fundur á þeim tíma.
Óskari er heitt í hamsi þegar talið berst að umgengni fólks á Reykjanesi, sem hann segir að mætti bæta verulega. „Það eru ótrúlega margir útlendingar sem hafa farið um svæðið sem minnast á slíkt. Það er varla eitt skilti sem ekki er útskotið svo að maður minnist ekki á gróðurskemmdirnar. Jeppaslóðirnar og förin eftir torfæruhjólin eru skelfileg. Það má ekki skilja sem svo að ég vilji láta banna hjólin og jeppana með öllu, en við verðum að vinna saman að því að finna öllum stað. Það gengur ekki að bjóða fólki að skoða náttúru sem er búið að fara svona með.“
Uppgötvun Óskars - týnt byrgi í EldvörpumMöguleikar Reykjaness í ferðamannaiðnaðinum eru nær óþrjótandi og með bættum samgöngum telur Óskar að svæðið eigi enn eftir að eflast. „Tilkoma Kynnisferða hér á svæðinu hefur stóraukið tíðni rútuferða frá Reykjavík. Það er að vísu óvíst með framhaldið á því þar sem fyrirtækið er til sölu, en við erum bjartsýn.“
Þá hafa Ferðamálasamtökin staðið fyrir miklu átaki í að merkja gönguleiðir á svæðinu og er nú búið að stika 5 af u.þ.b. 20 leiðum leiðum. Auk þess er búið að setja upp eitt af 6 stórum gönguleiðaskiltum við Sólarvéið í Grindavík.
Vonir Óskars og fleiri ferðaþjónustaðila á svæðinu standa til þess að fá nánara samstarf við Bláa lónið, fjölsóttasta og best kynnta ferðamannastað landsins. „Það væri mikil lyftistöng fyrir Grindavík sem ferðamannastað að ferðamenn gætu farið í Bláa lónið og tekið þaðan rútu að Grindavík. Þaðan væri svo farið í hellaferðir, gönguferðir, ferðir með leiðsögumönnum eða eitthvað slíkt. Þá gæti Saltfisksetrið verið miðpunkturinn hér í Grindavík.“
Grindavík býður upp á óteljandi möguleikaFramtíðin er björt í ferðaþjónustunni á Reykjanesi segir Óskar að lokum. Með réttri og markvissri stjórn Ferðamálasamtakanna og ekki síst nánu samstarfi helstu aðila á svæðinu  hefur kynningarstarf skilað miklu – og gæti enn bætt um betur.
„Það segir sig sjálft að einn stór bás frá Reykjanesi á Vest-Norden ferðakaupstefnunni hefur meiri áhrif en ef við værum hver í sínu horni. Það eru enn mikil sóknarfæri hjá okkur og má þar minnast á ferðir tengdar upplifun af ýmsu tagi líkt og jeppaferðir. Þar erum við að tala um allt öðruvísi kúnnahóp en hefur vanið komur sínar hingað til lands. Sem dæmi um möguleikana má nefna að franskur milljarðamæringur hefur leigt helli í nágrenni Grindavíkur til að halda upp á stórafmæli sitt.“

Grindavík

Grindarvík – Sólarvé.

Á árinu verður enn bætt um betur í aðgengi um svæðið þegar Ósabotnavegur verður lagður milli Hafna og Stafness og þá verður kominn hringvegur um alla ferðamannastaði á nesinu. Einnig verður nýr áfangi endurnýjuðum Suðurstrandavegi frá Hrauni til Ísólfsskála tilbúinn í júni og Nesvegur frá Stað í Grindavík að orkuveri Reykjanesvirkjunar mun verða malbikaður  [ef alþingismenn standa við orð sín]. „Grundvöllur þessara tækifæra er að stækka Reykjanesfólkvang og koma á  samvinnu allra aðila í því sambandi. Við vonumst til að fá Hitaveitu  Suðurnesja með okkur í það verkefni auk Landgræðslunnar sem þegar er  byrjuð að vinna gott starf eftir að beitarhólf var girt við Krýsuvík.“
Það má með sanni segja að framtíðin sé björt í ferðamannaiðnaðinum  á Reykjanesi þar sem þegar er rekin ein öflugasta ferðaþjónusta landsins. Nú er einmitt rétti tíminn því mikið liggur á að efla slíka  starfsemi undir núverandi kringumstæðum. Hver veit nema þjónusta við ferðamenn verði hin nýja kjölfesta í atvinnulífinu suður með sjó er fram líða stundir.

Heimild:
-reykjanes.is

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Villingavatn

Í fornleifaskráningu „Fornleifar í Grafningi“ frá árinu 2008 er m.a. fjallað um Borgarhús í landi Bíldfells í Grafningi og Símonarhelli að Villingavatni, auk heymkumls á hólnum Einbúa í því landi. Heimildinar eru m.a. byggðar á örnefnalýsingum.

Um jörðina Bíldsfell segir:

Bíldsfell

Bíldsfell um 1950.

„42 2/3 hdr. 1847, óþ. 1706. Skálholtskirkjujörð. „Þorgrímr bíldr, bróðir Önundar bílds nam lönd öll fyrir ofan Þverá ok bjó at Bíldsfelli. Hans leysingi var Steinröðr, son Melpatrix af Írlandi; hann eignaðisk öll Vatnslönd ok bjó á Steinröðarstöðum.“ Landnámabók, ÍF I, 388, 390.
Kirkju í Bíldsfelli er getið í máldaga frá um 1220, DI I, 409 og í Vilchinsmáldaga DI IV, 93.
Bæjar eða fjalls er getið í Harðarsögu – ÍF XIII, 50.
1539 er Sveinn Þorvaldsson búandi á Bíldsfelli, landseti Skálholtsstóls, meðal þeirra sem drápu Diðrik van Minden og fylgjara hans í stofunni í Skálholti – Bsk II, 270.
1712 er Ólafur Þórðarson bóndi á Bíldsfelli, AÍ X, 67. Jarðardýrleiki óviss 1706, eign Skálholtsstóls, jörðinni fylgja tveir vatnshólmar. „Jörðin var í eyði þegar Jón Sigurðsson flutti þangað 1788.“ Ö-Bíldsfell, 10.

Borgarhús

Borgarhús.

1706: „Túninu spilla leirskriður úr fjalli, sem jeta sig niður í dældir og gjöra jarðföll, ítem stórgryti, sem hrapar úr fjallinu. Engið felur mjög í hrjóstur og fer til
þurðar.“ JÁM II, 384.
1839: „Heyskaparlítið, útigangur góður.“ SSÁ, 182. 1918: tún 7,9 ha sléttað, garðar 1454 m2. „Eftir Jón Sigurðsson varð Ögmundur sonar hans ábúandi.
Keypti hann jörðina af systkinum sínum og bætti hana mjög, sléttaði túnið og stækkaði og girti sæmilega.“ Ö-Bíldsfell, 10. „Skitpist hún aðallega í lyngmóa, heiðar, mýrardrög, fjallendi og melaöldur. Hagar eru að mestu leyti grónir og skjólgóðir. Vetrarbeit er góð því nokkuð er um kjarr og lyng en hefur ekki verið notuð í seinni tíð.“ SB III, 268.
Ný tún tekin í notkun og sléttuð um og eftir 1970.“

Borgarhús – fjárhústóft

Borgarhús

Borgarhús – uppdráttur ÓSÁ.

„Norðan til í Hamrabrekkunni er Hamralág. Eftir henni liggur heygatan upp í Lönd. Suður af Hömrunum eru Láguhamrar. Þar sem þeir byrja byggðu synir Jóns Sigurðssonar geysimikla fjárborg úr feiknastórum björgum. Hefir hún verið byggð snemma á 19. öld. Síðar byggði Ögmundur Jónsson þar fjárhús, er nefndust Borgarhús og tók smærra grjótið ofan af borginni og hafði í húsin. Voru þar hýstir sauðir á vetrum, en stekkatún á vorum“, segir í örnefnalýsingu.
Fjárhúsin eru um 40 metra norðvestur af Sakkagilinu, og um 6-800 metra vestur af sumarbústaðnum undir Hömrunum á þýfðum grasbala.
Syðst er garðbútur sem liggur í norðvestur og er smávegis sveigja á honum og svo beygir hann til norðvesturs alls um 42 m langur.  Rétt vestur af honu er  beitarhúsatóftin um 6×10 að utanmáli, 9×4 að innanmáli og opast hún til suðvestur og er enginn veggur á þeirrri hlið.  Heystæðið gæti verið litla hólfið norður af beitarhúsatóftinni.

Um Villingavatn segir:

Villingavatn

Villingavatn.

„20 hdr. 1706, c. 1500. Úlfljótsvatnskirkjujörð.
Fyrst getið 1397, DI IV, 93. 13.6.1703 telja eigendur að jörðinni Úlfljótsvatni … sextíu hundruð að dýrleika, hvar með fylgir kirkjueignin Villingavatn, tuttugu hundruð að dýrleika, en hefur verið þessi kirkjueign sett fyrir xc til arfaskipta í fastaeign, hvað enn nú stendur sem fyrri.’ JÁM XIV, 62.

Villingavatn

Villingavatn – túnakort 1918.

14.6.1703 telur Magnús Magnússon ’20c af Úlfljótsvatni, bóndaeign, heyra mér …. Kirkjujörð, … heitir Villingavatn, að dýrleika 10c að aftekturn. Tilheyrir mér hún hálf. Landskuld til mín, x aurar, gelst í landarum. Kirkjukúgildi 6, þar af eftir 3 betalast prestinum 6 fjórðungar smjörs eða í landaurum, peningum eður þvílíku.’ JÁM XIV, 63 nm.
„Allstór fjallajörð. Liggur móti norðaustri og á land frá Þingvallavatni og út í Ölfusmörk.“ SB III, 266, 1918: Tún 5,7 ha. Matjurtagarðar 695 m2.
1839: „heyskapur gnægur, útbeit og silungsveiði, hættujörð af graflækjum.“ SSÁ, 182. 1977: Tún 39,7 ha. „Víða góð skjól og beitiland gott þar til mýið var drepið 1959. Þurrlend móajörð með melum á milli upp til fjallsins en mýrarsund nær bænum og kringum tjörnina. Valllendisblettir eru víða.“ SB III, 266. Flest túnjarðarinnar sléttuð með stórvirkum vinnuvélum um og eftir 1970.“

Símonarhellir – fjárhellir/fjárskýli

Villingavatn

Villingavatn – Símonarhellir.

„Símonarhellir: Í berginu við vesturendann á Langapalli. Frá Símonarhelli útað fjárhellinum er kallaði í daglegu tali með Björgunum […]. Fjárhellir: Í daglegu tali nefndur Hellirinn. Tekur 120 fjár með heykumli“, segir í örnefnalýsingu.
„Fjárhellir er við Þingvallavatn, notaður frá ómunatíð.“ Hellirinn er upp í bergið, um það bil 80 metra suður af bökkum Þingvallavatns. Frá hellinum niður að vatnsbakkanum er hallandi túnbali. Í hellisopinu eru trésperrur sem afmarka opið. Austan við það hefur verið hlaðið milli tveggja stórra bjarga og gæti það verið heykuml er að mestu fallið ofan í tóftina en hún hefur verið 10×4 að utanmáli og er hleðsluhæð mest 0,4 metrar.

Einbúakuml – tóft/heystæði

Villingavatn

Villingavatn – Einbúakuml.

Um 40-50 metra suðaustur af Einbúanum og 100 metra austur af Hringatjörnum er Einbúakumlið. Þýfður melur, blettur í annars uppblásinni urðinni. Heytóftin er vel heilleg, opnast til norðurs. Hún er alls 6×4 að utanmáli en 4×2 að innanmáli. Hleðslur eru enn vel greinilegar, alls 5 umför þar sem suðausturveggurinn er hæstur.

Heimild m.a.:
-Fornleifar í Grafningi; Nesjar, Hagavík, Krókur, Villingavatn, Bíldsfell, Tunga, Hlíð, Stóri-Háls, Litli-Háls og Torfastaðir, Orri Vésteinsson & Sædís Gunnarsdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík, 1998.
-Örnefnalýsing fyrir Bíldsfell. Ögmundur Sigurðsson, Hafnarfirði 10. júlí 1921.
-Örnefnalýsing fyrir Villingavatn. Sigurður Hannesson fæddur að Stóra-Hálsi 1.6.1926, kom að Villingavatni árið 1948.
-Örnefnalýsing fyrir Villingavatn. Þorgeir Magnússon skráði 1970 (1896-1983).

Villingavatn

Villingavatn – í Símonarhelli.

Tóarstígur

Að þessu sinni var Hrístóarstígurinn skoðaður. Áður hafði Tóarsstígurinn verið genginn.
„Austan og neðan við Gráhellu komum við á Tóasstíg. Tóarstíg eða Tóustíg liggur upp í

Tóur

Tóustígur vestast.

Tórnar eða Tóurnar eins og málvenja er núorðið. Stígurinn var eyðilagður að mestu þegar efni í Reykjanesbrautina var tekið en hluti hans sést þó vel enn þá rétt neðst þar sem hraunið er enn óraskað. Stígurinn kemur svo aftur í ljós fyrir ofan ruðningana þar sem hann kemur niður í neðstu Tóuna.
Tórnar eru nokkrir óbrennishólmar sem ganga í gegnum mitt hraunið til suðsuðausturs. Gróursvæðin hafa líklega heitið Tór, samanber grastó (et.) eða grastór (ft.), en nafnið afbakast í tímans rás. Orðmyndin „Tóin“ verður notuð hér en ekki „Tóan“ en báðar myndirnar koma fyrir í heimildum.
Tórnar eru aðgreindar í Tó eitt, Tó tvö, Tó þrjú, Tó fjögur, Hrístó og Seltó en tvö síðustu nöfnin ná yfir efsta hluta Tónna sem er nokkuð víðáttumikil.
Í Tónnum er fallegur gróður, s.s. brönugrös, blágresi, birkikjarr, víðibrúskar og ýmsar lyngtegundir. Hristoarstigur-3Tó eitt var að mestu eyðilögð þegar Reykjanasbrautin var upphaflega byggð en þó sér hennar enn aðeins stað við norðurenda efnistökusvæðisins. Tó tvö er fallegust nú og í hana göngum við um djúpan og vel markaðan Tóastíg í austurátt þar sem efnistökuruðning-ingnum lýkur. Hlaðnir hraungarðar eru sitt hvorum megin við stíginn þar sem hann liggur niður í tóna og ganga þeir upp í hraunið til beggja átta. Hluti varnargarðsins fór undir ýtutönn við breikkun Reykjanesbrautar. Nú má áhugafólk um söguminjar þakka fyrir að hliðinu sjálfu varð bjargað með snarræði eins náttúrverndarsinnans sem var þarna á vappi þegar jarðýtustjórinn var við það að rústa minjunum – e.t.v. í ógáti.
Mjög líklega hefur töluvert lyng til eldileviðar verið rifið í Tónum og grjótgarðarnir þá verið notaðir til þess að veita „hríshestunum“ aðhald, einnig er mögulegt að þar hafi verið setið yfir fé þó svo að þar sjáist engin smalabyrgi. Í Tó tvö eru þrjú tófugreni.
Nyrst í Tó tvö eru lynglautir umkringdar háum hraunkanti og þar finnum við lítið mosagróið grjótbyrgi sem Vatnsleysubræður hlóðu sé til gamans upp úr 1940. Á byrginu sést glöggt hvað mosinn er fljótur að nema land. Um efsta hluta Tóar tvö liggur línuvegurinn.

Hristoarstigur-4

Tó þrjú er minni en Tó tvö og þar vex meira kjarr í hraunjöðrunum en í neðri tónum. Nyrst í þessari tó er jarðfall sem heitir Tóarker en þar var gott fjárskjól.
Uppi í hrauninu norðaustur af Tó þrjú sjáum við nokkuð háan ílangan og grasi vaxinn hraunhól sem heitir Snókhóll.
Efsta tóin ber í nokkrum heimildum tvö nöfn; neðri hlutinn heitir Hrísató en efri hlutinn Seltó. Í Hrísató er Hrísatóargreni. Líklega dregur tóin nafn af því að þangað hafi verið sóttur eldiviður.
Út úr Hrístó til suðvesturs liggur Hrísatóarstígur. Stígurinn liggur úr tónni og suðvestur yfir hraunið en það er erfitt að koma auga á hann þar þó svo að við upphaf hans sé varða. Það er hægara að finna stíginn af Afstapahraunsjaðrinum vestanverðan og ganga hann síðan til norðausturs.

Þegar ekið er upp Höskuldarvallaveginn er á einum stað, nokkuð ofarlega en þó fyrir neðan Rauðhól, vik inn í hraunkantinn sem nær alveg að veginum og þar er upphaf Hrísatóarstígs mjög greinileg. Menn hafa getið sér til um að líklega hafi búpeningur úr Rauðhólsseli verið rekinn þarna um til beitar í Seltó og af því dragi tóin nafn sitt.

Tóustígur

Vinnuvélar komnar fast af fornum garði í Neðstu-Tóu.

Sú tilgáta er afara ólíkleg því langur og torfær vegur er úr selinu í tóna og lítið gagn af því að hafa í seli ef ekki voru hagar á stanum.
Trúlega hefur stígurinn frekar verið notaður af mönnum með hesta til þess að sækja eldivið í tórnar og þá e.t.v. eldivið til notkunar í Rauðhólsseli. ein gæti verið að menn af Ströndinni hafio komið upp

Þórustaðastíg, farið út af honum norðan Keilis og yfir á Hrístóarstíg til eldiviðartöku í Tóunum. Annar stígur sem hér verður kallaður Seltóarstígur (trúlega eingöngu kindargata) liggur úr Seltó og yir Afstapahraunið austanvert en þar er hraunið mjóst og auðveldast yfirferðar ef ekki er farið með snjó.

Tóur

Tóur vestanverðar – vörslugarður.

Í Seltó er tilraunarborhola sem gerð var á uppbyggingartíma fiskeldir í Stóru-Vatnssleysu [1986] og að henni liggur vegruðningur. Vegurinn að borholunni gengur út úr Höskuldarvallavegi aðeins fyrir ofan Hrístóarstíg en fyrir neðan Rauðhól. Svo til beint austur af borholunni er upphaf Seltóarstígs til austurs úr tónni. Nálægt Seltó eru tvö Seltóargreni. Seltóarhraun er slétt og nokkuð víði vaxin hraunspilda sunnan Seltóar. [Í Seltó hefur verið komið fyrir jarðskjálftamælitækjum.]
Upp af Tónum förum við um fjölbreytilegt en á köflum illfær hraun allt að Snókafelli sem er lágt fell upp undir Sóleyjarkrika og Höskuldarvöllum.“
Ruðningurinn var genginn til baka úr Seltó yfir á Höskuldarvallaveg.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild:
-Sesselja Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, b.s 104-106.

Hrístóur

Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.

Njarðvík

Í Jarðamati á Íslandi 1858 eru nefndir eftirfarandi bæir í Innri-Njarðvík: Innri-Njarðvík, Stapakot (hjáleiga), Móakot, Hákot, Hólmfastskot, Ólafsvöllur, Tjarnarkot og Narfakot.

Njarðvík

Ytri-Njarðvík – Áki Grenz.

Í Faxa, 3. tbl. 1984, fjallar Guðmundur A. Finnbogason um „Fróðleik um Njarðvík„. Þar segir m.a.: „Njarðvík innri. Þar var tvíbýli. Á I býlinu var Egill Sveinbjarnarson húsbóndi, ógiftur, þá 36 ára gamall. Vel skýr og fróður, siðprúður skikkanlegur. Þar voru og bræður Egils, Jón og Ásbjörn, báðir ókvæntir, vel skýrir og fróðir. Jón sagður sniðugur, Ásbjörn skikkanlegur dánumaður, afi Ásbjarnar Ólafssonar er lét byggja kirkjuna. Þar voru 7 manns í heimili. Þar á heimili var elzta kona í sókninni, Ingveldur Tumadóttir, 75 ára niðursetningur, vel fróð. meinhæg.

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Áki Grenz.

Á býli II í Njarðvík-Innri, bjuggu hjónin Guðmundur Guðmundsson, 45 ára ekki illa að sér, skikkanlegur og Helga Jónsdóttir 54 ára húsmóðir, ekki vel fróð, og gangssöm. Hjá þeim voru 9 manns í heimili.
Stapakot, þar var tvíbýli. 1 býli, Árni Þorgilsson, 41 árs húsbóndi, vel að sér, forstandur. Hans kona, húsmóðir, Guörún Sigmundsdóttir, 35 ár, vel fróð í andlegu, forstandug. 7 menn í heimili.
Stapakot, II býli, Jón Þórðarson húsbóndi, 39 ára, ekki ófróður, meðallagi skikkaður. Sigríður Jónsdóttir, húsmóðir, 38 ára, í meðallagi skýr, meinhæg. 11 manns í heimili.

Njarðvík

Grænás – Áki Grenz.

Móakot, Þorsteinn Bjarnason, 33 ára húsbóndi, í meðallagi skýr og fróður, forstandugur. Guðrún Halldórsdóttir, húsmóðir, 25 ára, sæmilega kunnandi, meinlítil. 5 manns í heimili.
Hólmfastskot, Magnús Grímsson, 32 ára húsbóndi, í meðallagi upplýstur, skikkanlegur. Ingibjörg Guðmundsdóttir, 38 ára húsmóðir, sæmilega upplýst, meinlítil. 4 í heimili.
Hákot, tvíbýli. I býli, Jón Jónsson, 50 ára húsbóndi, ekki mjög illa að sér. Hegðun bætir sig. Guðbjörg Jónsdóttir, húsmóðir, ekki mjög illa að sér, sæmilega skýr, meinhæg. 3 í heimili.

Innri-Njarðvík

Stapakot – túnakort 1919.

Hákot, II býli, Jón Þórðarson, 41 árs húsbóndi. Ekki vel að sér, meinlítill. Guðrún Bjarnadóttir, 38 ára húsmóðir, sæmilega kunnandi, meinhæg. 5 manns í heimili.
Tjarnarkot, Jón Guðbrandsson húsbóndi. 41 árs, skýr og fróður, vandaður dánumaður. Margrét Jónsdóttir, 56 ára húsmóðir, sæmilega upplýst, skikkanleg. 3 í heimili.
Narfakot, Snorri Gissurarson, húsbóndi 58 ára, skýr og fróður, forstandugur. Margrét Jónsdóttir, 55 ára húsmóðir, (var ljósmóðir), skikkanleg. 10 manns í heimili. Margrét kona Snorra, tók á móti 37 börnum í Njarðvíkum á árunum 1776 til 1800.“

Faxi

Faxi í júni 1970 – forsíða.

Í Faxa í júní 1970 fjallar Guðmundur A. Finnbogason um „Njarðvíkinga á 19. öld„, fyrri hluti:
„Þórukot í Ytri Njarðvíkurhverfi er, að ég bezt veit, fyrsta læknissetur hér á Suðurnesjum. Árið 1873 var Þórður Guðmundssen læknir skipaður aukalæknir á Rosmhvalanesi. Var Þórður lausamaður til heimilis í Þórukoti hjá þeim Birni og Vigdísi.
Þórður læknir var fæddur 14. marz 1848, sonur Þórðar Guðmundsen, sýslumanns á Litla-Hrauni og konu hans, Jóhönnu Lárusdóttur Knútsen. Tveir bræður Þórðar læknis voru vel þekktir barnakennarar hér á Suðurnesjum á síðustu áratugum 19. aldar, voru það þeir Oddgeir Guðmundsen kennari á Vatnsleysuströnd, seinna prestur í Vestmannaeyjum, og Þorgrímur Guðmundsen, barnakennari, Gerðum í Garði, seinna í Reykjavík. Þórður læknir var um kyrrt í Þórukoti nokkuð á annað ár og flyzt þaðan út í Garð. Fór hann að búa þar með ráðskonu sinni, Sólveigu Bjarnadóttur, bjuggu þau í nýja barnaskólahúsinu í Gerðum, en þar var Þorgrímur bróðir Þórðar þá til heimilis.
Þórður GuðmundssonÁrið 1878 flytja þau Þórður og Sólveig að Hákoti í Innra Njarðvíkurhverfi, var það af yfirvöldunum talið heppilegra að hafa lækninn staðsettan sem mest miðsvæðis í læknishéraðinu. Þaðan fluttu þau hjón eftir eitt ár heim að Innri-Njarðvík, voru þar í húsmennsku hjá hjónunum Jóel Jónssyni og Elínu Árnadóttur, er bjuggu þar á öðru býli.
Sólveig Bjarnadóttir, ráðskona Þórðar, var Skaftfellingur, fædd að Fossi á Síðu. Vigdís Hinriksdóttir, kona hans, 12. september 1828 (var hún því nær 20 árum eldri en Þórður). Foreldrar Sólveigar voru Bjarni Einarsson og kona hans, Rannveig Jónsdóttir. Var Sólveig ekkja, hafði verið gift Sveini Péturssyni frá Lóni í Skaftafellssýslu. Þau Sveinn og Sólveig bjuggu í Keflavík um og eftir 1860. Meðal barna þeirra var Rannveig, er giftist Magnúsi Guðnasyni, voru þau foreldrar Friðriks Magnússonar heildsala í Reykjavík.
Oddný SigurbjörgMagnús og Rannveig bjuggu 6 ár í Innra-Njarðvíkurhverfinu, var það á árunum 1882—1887, fluttu þau þaðan út í Keflavík. Eins og fyrr segir, var Sólveig Bjarnadóttir yfirsetukona (ljósmóðir), tók hún á móti börnum í Keflavík, Garði og Njarðvíkum. Á árunum 1878—1885, dvaldi hún í Innra-Njarðvíkurhverfinu, tók hún á móti 25 börnum í sókninni. Síðasta barnið, er hún tók á móti, var Magnús, annað barn þeirra hjóna Ólafs Magnússonar og Oddnýjar Guðmundsdóttur, er þá bjuggu í Smiðshúsum í Ytra Njarðvíkurhverfi. Hafði Oddný nýlega tekið við ljósmóðurstörfum í sókninni.
Árið 1878 flytja þau Ólafur og Oddný að Narfakoti, þar sem þau bjuggu þar til Ólafur dó, 7. maí 1902. Árið eftir flutti Oddný með börnum sínum til Keflavíkur og þar átti hún heima það sem eftir var ævinnar.

Njarðvík

Njarðvík – tóftir Hólmsfastkots og Ólafsvallar.

Þegar Oddný tók á móti fyrsta barninu hér í Njarðvíkum, átti hún og Ólafur heima í Ólafsvelli, var það árið 1883, og þann 1. september það ár er hún sótt út að Þórukoti til Steinunnar Arinbjarnardóttur frá Tjarnarkoti, er þar bjó með manni sínum, Sæmundi Sigurðssyni frá Barkarstöðum í Fljótshlíð, fæddist þann dag sonur, var hann skýrður daginn eftir og látinn heita Arinbjörn.
Mér hefir verið sagt, að þau Ólafur og Oddný hafi verið mestu sómamanneskjur. Oddný var merk kona, traust og faræl í starfi sínu og dugmikil ljósmóðir, eru þeir býsna margir, Suðurnesjabúar og víðar um landið, er sáu fyrst þessa heims ljós í hinum mjúku og traustu móðurhöndum Oddnýjar. Hafi hún þakkir mínar og annarra, er þess nutu.
Guðfinna EyjólfsdóttirÞórður og Sólveig bjuggu í Innri-Njarðvík fram á árið 1884, en árið áður hafði Þórður sagt af sér læknisstarfinu og í Suðurnesjaannáli séra Sigurðar Sívertsen segir: Vorið 1883: Með ýmsum tíðindum má telja, að læknir vor, Þórður Guðmundsen, hefur sagt af sér embætti sínu. Og í sama annál segir árið 1885: Einn maður að nafni Ólafur Helgason, flutti héðan úr Garði alfarinn til Vesturheims og var hann samferða fyrrverandi lækni vorum, Þórði Guðmundsen.
Ýmsar sagnir gengu um Þórð lækni og veru hans hér í Njarðvíkum. Voru það samtíðarmenn hans, sem frá því kunnu að segja. Var Þórður talinn nokkuð drykkfelldur og þá ekki alltaf í sínu fari, eins og bezt hefði verið á kosið. En hitt var þó, sem meira máli skipti, að hann var talinn ágætur læknir, og þó sérstaklega snillingur til hjálpar sængurkonum. Sagt var, að þó Þórður væri mikið undir áhrifum víns, er hann kom þar, sem vandi var á ferð, þá hefði algjörlega runnið af honum og að hann hefði þá gert sín læknisverk vel og dyggilega.
HólmsfastskotHinn góðkunni sómamaður, Magnús Magnússon, er bjó í Hólmfastkoti í rösk 50 ár, ólst upp frá 9 ára aldri í Innri-Njarðvík hjá þeim hjónum, Ásbirni Ólafssyni og Ingveldi Jafetsdóttur. Var Magnús sem unglingur samtíða Þórði lækni í Njarðvík og þekkti hann mæta vel. Kunni hann sem von var frá ýmsu að segja varðandi Þórð. Meðal annars sagði Magnús frá því, að þegar hann með öðrum börnum og unglingum var að leika sér á ísilagðri tjörninni, hafi Þórður stundum komið til þeirra dálítið drukkinn og verið með peninga í vösunum. Fór hann að kasta þeim út á svellið og sagði, að sá sem fyrstur næði í, mætti eiga. Kom þá náttúrlega fjör í mannskapinn og þótti jafnt veitanda sem þyggjendum ánægja að.

Njarðvík

Njarðvík – Garðbær.

Á þeim árum voru peningar mikils virði og þá ekki sízt í augum barna og unglinga, og ekki í tízku að hafa þá að leikfangi. Þótti þeim þetta atferli Þórðar því undrunarvert og minnisstætt, þar sem hver eyrir var í þeirra vitund helgur dómur, og allur frómleiki þá í heiðri hafður og flest öllum í blóð borinn. Því var það, að þótt börnin og unglingarnir tækju með fögnuði það sem til þeirra var kastað, fannst þeim með sjálfum sér þau ekki eiga það. Fóru þau því strax daginn eftir heim til Þórðar og vildu skila því til hans, því þau héldu að honum hefði ekki verið sjálfrátt gerða sinna, en þá segir Þórður við þau: „Þið megið eiga þetta, ég vissi vel hvað ég var að gera.“ Urðu þá allir glaðir og ánægðir.
Björn Þorgilsson og Skömmu eftir að Þórður tók við læknisembættinu, meðan hann dvaldi í Þórukoti, sendi hann frá sér eftirfarandi tilkynningu í Þjóðólfi 19. ágúst 1873 (orðrétt): „Þeir er vitjaði mín, hér eftir eða þyrftu að sækja mig, vildi góðfúslega hafa hest meðferðis handa mér til að ríða á, annars liggr það í augum uppi að hljóti ég sjálfur að leggja til hest, verða ferðir mínar, þegar svo ber að, þeim mun dýrari fyrir hlutaðeigendur. Þórukoti við Ytri-Njarðvík, 23. júlí 1873. Þórður Guðmundsen.“
Eins og fyrr var á minnst, var Guðfinna Eyjólfsdóttir. móðir Finnboga, föður míns, vinnukona hjá þeim Birni og Vigdísi í Þórukoti. Var það á árunum 1869 til 1873. Þessi 4 ár í Þórukoti voru henni minnisstæð alla tíð til æviloka. Líkaði Guðfinnu vel hjá þeim hjónum, og hafði um þau margar og góðar endurminningar.
Guðfinna vann ásamt öðrum vinnukonum að heimilisverkum, bæði innan bæjar og utan, eftir því sem með þurfti. En eitt var það starf þar á heimilinu, er henni einni var ætlað að leysa. Var það hjúkrunarstarf. Átti hún að annast um og hjúkra tveimur karlmönnum, sem þar lágu rúmfastir. Voru þeir veikir af limafallssýki, (eða rotnunarveiki).
Björn JónssonVar þessi voða sjúkdómur þó nokkuð áberandi hér um slóðir á þessum árum, bæði fyrr og seinna. Var hann talinn smitandi og sérstaklega varhugavert að hafa mjög náið samband eða snertingu við hina sjúku. En einhverjir urðu að hjálpa þessu harmkvæla fólki, sem barðist vonlausri baráttu árum saman. Var það því mikil reynsla fyrir Guðfinnu, þá rúmlega tvítuga stúlku, að hafa þetta hjúkrunarstarf í sínum verkahring, og þá ekki hvað sízt, þurfa að horfa upp á þjáningar þessara sjúklinga og geta ekkert að gert þeim til lækninga. En allt sem í hennar valdi stóð rétti hún þeim til líknar og huggunar. Þau meðul, er hún gat veitt, voru hennar hlýju hendur samfara huggunar- og bænarorðum. Þótt hennar framlag næði skammt þeim til líkamlegrar lækningar, var það samt mikilvægt smyrsl á sárustu þjáningar þessara sjúku manna. Kunnu þeir vel að meta og þakka það, sem fyrir þá var gert.
Vigdís og VilborgSagði Guðfinna, amma mín, að þeir hefðu oft beðið heitt og innilega til Guðs, að henni yrði ekkert meint af nærveru sinni við þá. Hafa bænir þeirra áreiðanlega verið heyrðar, því aldrei snerti þessi skaðvæni sjúkdómur heilsu Guðfinnu. En alla hennar ævi voru örlög þessara manna henni sérstaklega minnisstæð, og hafa þau áreiðanlega átt sinn þátt í því, að veita henni næman skilning og tilfinningu á kjörum þeirra, er urðu fyrir veikindum, slysum, eða öðrum raunum, því kom það í hennar hlut oft seinna á lífsleiðinni, að til hennar væri leitað vegna sjúkra. Þótti nærvera hennar og góð ráð gefast vel, og heyrði ég oft sem unglingur, eftir að Guðfinna amma mín var dáin, samtíðakonur hennar minnast hennar af miklu þakklæti og virðingu, fyrir þá hjálp, er hún hafði veitt þeim og fjölskyldum þeirra.

Símon Dalaskáld

Símon Dalaskáld Bjarnason (1844-1916).

Gestkvæmt var í Þórukoti eins og á öðrum stærri býlum hér í þá daga. Margan gest að garði bar gæða mestu hjóna. Veittu beztu veitingar, varma, — og festu skóna. Einn af þeim mörgu gestum, er bar að garði í Þórukoti, var hinn landskunni Símon Dalaskáld. Heimsótti hann Suðurnesjamenn alltaf af og til síðustu tugi nítjándu aldarinnar og fram á annan tug þessarar aldar. Hefur honum, sem fleirum, þótt gott að heimsækja Þórukotshjónin, og hefur skapazt vinátta þeirra á milli, því að í ljóðabókum Símonar eru ljóðabréf frá honum til Björns í Þórukoti. Og eitthvað hafa þeir Björn bóndi og hann látið ljóðadísina leika sín í milli.
Ber þessi vísa Símonar gott vitni um það:

Bóndi stóð við byrtingsrann,
búinn hrósi líða.
Björn í Þórukoti kann
kvæðaglósur smíða.

Er þetta kjarninn úr ljóðabréfi Símonar til Björns i Þórukoti og það sem honum hefur legið á hjarta að segja Birni frá.
Oddur V. GíslasonEins og fyrr er að vikið, hafa þeir séra Oddur Gíslason á Stað í Grindavík og Björn í Þórukoti verið góðir vinir, og hefðu samskipti þeirra ein, þótt ekkert annað hefði verið um að ræða, nægt til að halda minningu Björns lengi uppi. En eins og kunnugt er gekk séra Oddur á undan með góðu eftirdæmi við ýmsar framfarir og nýbreytni, er stuðlað gátu að bættri menningu og betri afkomu fólksins, þar með hans þrotlausa starf í orði og verki að öryggis- og björgunarmálum sjómannastéttarinnar. Hafa þeir félagar, hann og Björn í Þórukoti, áreiðanlega átt þar samleið á mörgum sviðum, og við þær aðstæður hafa skapazt gagnkvæmt traust þeirar í milli. Engum treysti Oddur betur en Birni í Þórukoti, til að standa á eigin fótum, sér til aðstoðar, þegar honum mest lá á, er hann tók sína djörfu en þörfu ákvörðun til framkvæmdar að sækja sér konuefnið heim í föðurgarð hennar suður í Hafnir, sem löngu frægt er orðið.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Árið 1881, þ. 20. janúar, dó Björn Jónsson í Þórukoti, 58 ára að aldri. Var hann jarðsunginn frá kirkjunni í Innri-Njarðvík þ. 5. febrúar af sóknarprestinum, séra Stefáni Thorarensen á Kálfatjörn. Var þetta frostaveturinn mikla og voru frosthörkur miklar og víkin öll ísi lögð, og segir í Annál, að Stakksfjörður hafi allur verið ísi lagður frá Hólmsbergi og inn að Keilisnesi. Lík Björns Jónssonar var flutt frá Þórukoti á ís yfir víkina inn að kirkjunni. Var útfararkostnaðurinn kr. 300,00.
Í Suðurnesjaannáli séra Sigurðar Sívertsens segir í febrúar 1881: Í fyrra mánuði deyði nafnkunnur bóndi, Björn Jónsson, í Þórukoti í Njarðvíkum, hafði hann áður verið auðmaður mikill, en mjög gengið af honum nú.

Njarðvíkur

Njarðvíkur – Áki Grenz.

Í Þjóðólfi í febrúar 1881 segir: „Þann 20. janúar s.l. dó hinn merki bóndi Björn Jónsson í Þórukoti, 58 ára að aldri“.

Eftir röska 3 mánuði, frá láti Björns, eða þ. 11. maí 1881, fór fram uppskrift að dánarbúi hans. Voru þar viðstaddir fyrir hönd ekkjunnar, sýslunefndarmaðurinn, Ásbjörn Ólafsson, Innri-Njarðvík, og fyrir hönd tengdasonar þeirra, Þorgilsar Þorgilssonar, var Ársæll Jónsson, bóndi á Höskuldarkoti, og svo hreppstjórinn, Jón Breiðfjörð í Hólmabúð í Vogum. Voru þarna uppskrifuð og verðlögð 124 númer, er búinu tilheyrðu. Kenndi þar margra grasa, sem vonlegt var, úr þessu stóra og myndarlega búi, sem þar hafði staðið í rösk 20 ár. Eins og fyrr segir var Björn með ríkustu bændum hér um slóðir. Voru jarðeignir dánarbúsins þessar: Ytri-Njarðvík og Þórukot. Böðmóðsstaðir í Laugardal, virtir á kr. 1500,00, og Halldórsstaðir á Vatnsleysuströnd, sem voru virtir á kr. 1300,00. Ekki var nú verðið á hlutunum hátt, jafnvel þótt þeir væru góðir og gagnlegir, og tæpast með réttu hægt að segja, að verðlag þeirra væri nútíma verðbólguverð. Af þessum 124 númerum voru 108 verðlagðir frá 50 aurum til 9 króna hver.

Kópa

Stapakot – lendingin í Kópu.

Langverðmætasta uppskriftarnúmerið var einn áttæringur með allri útreiðslu, var hann verðlagður á 300 krónur.
Eftir lát Björns bjó Vigdís, ekkja hans, á Þórukoti í nokkur ár. Hafði hún nöfnu sína og dótturdóttur hjá sér. En árið 1888 flytja þær alfarnar til Hafnarfjarðar. Vigdís Þorgilsdóttir giftist þar síðar, Guðmundi Helgasyni sparisjóðsstjóra. Hjá þeim dó Vigdís Hinriksdóttir, 11. okt. 1909, þá 88 ára að aldri. Hún var jörðuð þ. 21. sama mánaðar og lögð til hynztu hvíldar í kirkjugarðinum að Görðum, var hún þá komin aftur á sínar fæðingar- og bernskuslóðir.

Stapakot

Stapakot – tóftir.

Ekki höfðu ættingjar Björns og Vigdísar að fullu sagt skilið við Njarðvíkurnar, því árið 1894 komu að Þórukoti til búsetu þau Björn Þorgilsson, dóttursonur þeirra og kona hans, Helga Sigurðardóttir. Björn og Helga bjuggu í Þórukoti í 5 ár en fluttu þaðan alfarin 1899 austur að Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum, þar sem þau bjuggu síðan í rösk 20 ár.

Stapakot

Stapakot – loftmynd 2022.

Á þeim árum er Björn Þorgilsson bjó í Þórukoti, var Finnbogi faðir minn drengur innan við fermingu hjá foreldrum sínum í Hákoti hér í Innra hverfinu. Á hann margar ánægjulegar endurminningar um Björn frá þeim tímum. Lýsir hann honum sem myndarlegum manni, fjörmiklum, glaðlynd og ævinlega tilbúinn að gera að gamni sínu við krakkana, er sóttu eftir að njóta góðrar nærveru hans, og ekki spillti það ánægjunni, að Björn spilaði ágætlega á harmoniku. Spilaði hann á böllum, sem þá voru haldin í barnaskólanum hér, en sá skóli stóð nokkra faðma í norður frá Akri. Var í því húsi, þótt lítið væri, all rúmgóð skólastofa. Voru dansleikirnir haldnir í þeirri stofu. Var þar oft dansað af miklu fjöri fram á nætur. Skemmti fólk sér innilega og átti músikin frá Birni þar ekki minnstan þátt í. Voru þessar ánægjustundir í litla barnaskólanum hressandi aflgjafi í daglegu striti þeirra, tíma, og entist lengi hjá þeim, er þeirra nutu. Eftir að Björn fluttist austur undir Eyjafjöllin, hélt hann samt sinni tryggð við æskustöðvarnar.

Njarðvík

Njarðvík – tóftir sjóbúðar.

Enn í dag liggur þráðurinn frá þeim Birni og Vigdísi hingað suður í Njarðvíkur, því skammt frá Þórukoti þar sem þau bjuggu, býr nú fósturdóttir Björns Þorgilssonar og konu hans. Tóku þau hana til fósturs á fyrsta ári og ólst hún upp hjá þeim í Stóru-Mörk, meðan Björn lifði, en fór skömmu síðar með Helgu fóstru sinni til Vestmannaeyja. Þessi fósturdóttir þeirra er Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, kona Óskars Jónssonar kennara. Eru þau hjón vel virtir borgarar hér í Njarðvíkum, eiga þau heima á Holtsgötu 32 hér í Ytri Njarðvík.

Stóra-Krossskjól

Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.

Hefur hér að framan verið minnst nokkuð á tvo af þeim fjórum Þórukotsbændum, er borið hafa nafnið Björn þar á síðastliðnum 200 árum. En sá síðasti af þeim nöfnum og fjórði í röðinni, sem gert hafa þar garðinn frægan á þessum tveim öldum, var hinn góðkunni Björn Þorleifsson, er átt hafði þar heima samfleytt í rösk 78 ár, er hann lézt þar haustið 1968, nær 84 ára að aldri.“

Faxi

Jólablað Faxa 1970 – forsíða.

Í jólablaði Faxa 1970 er framhald Guðmundar A. Finnbogassonar á „Njarðvíkingum á 19. aldar„: „Árið 1801 voru skráðir 119 íbúar í Njarðvíkursókn. Vatnsnes var þá ekki skráð sem byggt býli. Þá voru í báðum Njarðvíkurhverfum 15 búendur á 11 býlum.
Í Innra hverfinu voru 69 íbúar, 8 búendur á 6 býlum. Í Ytra hverfinu voru 50 íbúar, 7 búendur á 5 býlum. Tvíbýli var í Innri-Njarðvík, Stapakoti, Ytri-Njarðvík
og Höskuldarkoti.
Árið 1820 hafði íbúum Njarðvíkur aðeins fjölgað um 3 (frá 1801), þá búa 65 manns á 9 býlum í Innra hverfinu og 47 manns á 5 býlum í Ytra hverfinu. Vatnsnes var þá ekki enn skráð.
Árið 1830 eru íbúar í sókninni orðnir 154, þá er Vatnsnes fyrir 6 árum skráð og er þar tvíbýli og 9 manns á báðum heimilunum. Þá eru í Innra Njarðvíkurhverfi 9 býli með 65 íbúum og í Ytra hverfinu 5 býli með 63.

Guðmundur A. Finnbogason

Guðmundur A. Finnbogason og Guðlaug Bergórsdóttir.

Árið 1840 búa 117 manns í Innra hverfi, 58 í Ytra hverfi og 10 á Vatnsnesi. Næstu tíu árin fækkar í sókninni um 7 manns og árið 1850 búa 124 í Innra hverfi, 45 í Ytra hverfi og 9 á Vatnsnesi, samtals 178 manns. Næsta áratuginn fjölgar í sókninni um 39 rnanns, og árið 1860 búa 137 í Innra hverfinu, 66 í Ytra hverfi og 14 á Vatnsnesi, samtals 217 manns.
Frá 1860—1870 verður fólksfjölgunin 35 manns og við fólkstal í Njarðvíkursókn, þann 1. október 1870, (fyrir 100 árum), 155 íbúar í Innra hverfi, 78 í Ytra hverfi, 233 í báðum Njarðvíkurhverfum. 18 íbúar voru þá á Vatnsnesi eða samtals í sókninni 251.

Næstu 10 árin stóð íbúatala nær óbreytt og árið 1880 búa 161 í Innra hverfi, 67 í Ytra hverfi og 25 á Vatnsnesi, samtals 253. Næsta áratuginn fjölgaði um 20 íbúa í sókninni, varð sú aukning öll í Ytra hverfinu. Varð íbúatalan í sókninni þá sú hæsta, sem hún varð á nítjándu öldinni. Árið 1890 bjuggu 160 íbúar í Innra hverfinu, 90 í Ytra hverfinu og 23 á Vatnsnesi, samtals 273 í allri sókninni.

Njarðvík

Njarðvík – útihús frá Stapakoti.

Svo kom síðasti tugur aldarinnar með sín miklu fiskileysisár, og þá fækkaði fólkinu í Njarðvíkursókn, hvorki meira né minna, en um 90 manns og var þá fólkstalan árið 1900 orðin 183, og þá komin niður í að vera aðeins 5 manns fleiri en hún var hálfri öld áður, árið 1850.
Ennþá fækkaði fólkinu, þótt 20. öldin kæmi og árið 1910 búa 72 í Innra hverfi, 39 í Ytra hverfi eða 111 manns í Njarðvíkum báðurn og 14 á Vatnsnesi, samtals 125 manns.
Fólkið sem flutti burt, fór flest til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Þá var skútuöldin í uppsiglingu og eftir aldamótin var hún í fullum blóma. Svo kom togaraútgerðin í kjölfar hennar. Var þá ekki í önnur hús að venda, þegar sjávaraflinn brást á opnu bátunum hér á grunnmiðunum.

Stekkjarkot

Njarðvík – Stekkjarkot; dæmigert kotbýli, upphaflega sjóbúð.

Nokkrar fjölskyldur fluttu til Ameríku og ílentust þar. Svo liðu tímar og aftur fjölgaði fólkinu í Njarðvíkursókn, en það er önnur saga.
Í dag er þar margt um manninn og í báðum Njarðvíkurhverfum að meðtalinni nýlendu þeirra, er nefnist Grænás, voru í árslok 1969 1.522 íbúar.
Á manntali fyrir réttum 100 árum, þann 1. okt. 1870, voru sem fyrr segir: 251 íbúi skráður í Njarðvíkursókn. 13.3 karlmenn og 118 konur. Af þeim voru 50 á aldrinum 0—9 ára, 47 voru 10—19 ára, 44, 20—29 og 62 30—39 ára, og 31 voru 40—49 ára, 9, 50—59 og 6, 60—69 ára. Einn karl og ein kona voru eldri.

Njarðvík

Njarðvík – minjar.

Í Innra-Njarðvíkurhverfi voru eftirtalin býli og búendur: Stapakot 1. býli: Þórður Árnason (56 ára) og Elín Klemensdóttir, kona hans (53 ára), (9 manns í heimili.
Stapakot 2. býli: Ari Eiríksson (34 ára) og kona hans Kristjana Jóhannsdóttir (35 ára), (7 í heimili).
Móakot: Bjarni Bjarnason (28 ára) og kona hans Ástríður Asgrímsdóttir (36 ára), (6 í heimili).
Innri-Njarðvík 1. býli: Pétur Lárus Guðmundsson Petersen (38 ára) og kona hans Anna Margrét Þorgrímsdóttir (32 ára), (12 i heimili).

Grænaborg

Njarðvík – Grænaborg; fjárborg frá Stapakoti.

Innri-Njarðvík 2. býli: Kristján G. Schram (36 ára) og kona hans Margrét Pétursdóttir (32 ára). Húsfólk þar: Jón Þorleifsson (61 árs) og kona hans Margrét Einarsdóttir (31 árs), (10 í heimili).
Innri-Njarðvík 3. býli: Ásbjörn Ólafsson (38 ára) og kona hans Ingveldur Jafetsdóttir (30 ára). Þurrabúð: Eggert Jónsson (42 ára) og kona hans Kristrún Þorvaldsdóttir (42 ára), (23 í heimili).
Alls voru þá skráðir til heimilis í Innri Njarðvík og gengu þar um stéttar á staðnum 44 heimamenn.
Hákot: Pétur Bjarnason (38 ára) og kona hans Kristín Jóhannsdóttir (34 ára), 16 í heimili.
Hólmfastskot: Grímur Andrésson (30 ára) og kona hans Kristrún Arnadóttir (29 ára), 9 í heimili.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – fyrir tíma skógræktar.

Ólafsvöllur: Guðmundur Bjarnason (33 ára) og kona hans Guðrún Andrésdóttir (26 ára), 8 í heimili.
Garðbær: Þórður Sveinsson (69 ára) og kona hans Guðbjörg Guðmundsdóttir (57 ára), 4 í heimili.
Tjarnarkot 1. býli: Arinbjörn Ólafsson (35 ára) og kona hans Kristín Björnsdóttir (34 ára), 16 í heimili.
Tjarnarkot 2. býli: Bjarni Bjarnason (43 ára) og kona hans Guðrún Árnadóttir (46 ára), 10 í heimili. Samtals í Tjarnarkoti 26 manns.
Narfakot 1. býli: Jón Magnússon (35 ára) og kona hans Halla Arnadóttir (36 ára), 12 í heimili.
Narfakot 2. býli: Jón Þórðarson (35 ára) og kona hans Margrét Jónsdóttir (28 ára), 8 í heimili. Samtals 20 manns í Narfakoti.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot: Jón Gunnlaugsson (41 árs) og kona hans Rósa Ásgrímsdóttir (43 ára), 5 í heimili.
Samtals í Innra hverfi 155 manns.“

Í „Fornleifaskrá Reykjanesbæjar“ frá 2008 segir um Innri-Njarðvík: „Annað [merkilegt] slíkt svæði er að finna við tjörnina í Innri – Njarðvík.
Bæjarrústir Ólafsvalla og Hólmfastskots eru þar að finna, ásamt fallegum gerðum, stórum öskuhaug og vel varðveittum brunni. Rústirnar eru heillegar og umhverfið er snoturt“. Meira var nú ekki að finna í fornleifaskránni um minjar í Innri-Njarðvvík.

Heimildir:
-Í Jarðamati á Íslandi 1858.
-Faxi, 3. tbl. 01.03.1984, Fróðleikur um Njarðvík, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 78-84.
-Faxi, 6. tbl. 01.06.1970, Njarðvíkingar á 19. öld, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 87-94.
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1970, Njarðvíkingar á 19. öld; Guðmundur A. Finnbogason, bls. 179-181.
-Fornleifaskrá Reykjanesbæjar, Sandra Sif Einarsdóttir og Bjarni F. Einarsson, 2008.

Njarðvík

Innri-Njarðvík (MWL).

Hellisheiðarvegur

Gengið var frá Draugatjörn, framhjá Kolviðarhól, upp Hellisskarð, litið á Búastein, haldið eftir Gamla veginum um Hellisheiði og áfram áleiðis niður Kambana. Austarlega á Hellisheiði eru gatnamót Skógarvegar (Skógarmannagötu) er liggur til suðurs um Stóradal og Háaleiti áleiðis niður að Hjalla í Ölfusi.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Hellisheiði er heiðin sunnan Henglafjalla. Hellisheiði er mjög eldbrunnin en víða er mosagróður og lyng á hrauninu. Er talið að yngsta hraunið hafi runnið við eldgos á 6 km langri gossprungu um árið 1000. Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið var kölluð Gamli vegurinn, en hún lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.

Hellisheiði

Hellisheiði – gömul gata.

Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag. Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann.
Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn. Hellukofinn var friðaður 1. janúar 1990. Þórður Erlendsson bóndi á Tannastöðum, d: 1872, reisti Hellukofann en hann var víst „snillingur í öllum handtökum“. Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar nálægt kofanum, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Á árunum 1879-1880 var lagður upphlaðinn vegur upp Kamba og vestur Hellisheiði, nálægt hinni fornu þjóðleið, en á árunum 1895-1896 var lagður vagnfær vegur yfir Hellisheiði, nokkru vestar en eldri leiðir, niður í Hveradali og vestur fyrir Reykjafell en ekki niður Hellisskarð.

Gangan hófst við réttina sunnan við Draugatjörn, sunnan Húsmúla. Önnur rétt er þar skammt suðaustar, fast við gamla þjóðveginn upp að Kolviðarhól. Áður en haldið var inn á gömlu þjóðleiðna, sem liggur að Hellisskarði, var komið við í sæluhústóft austan við tjörnina.

Hellisheiði

Gata um Hellisheiði.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hafði nýtt sæluhús verið byggt á Kolviðarhóli 1844. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1910.

Stuttur gangur er eftir gömlu götunni að Kolviðarhól. Áður var farið yfir læk úr Mógili í Húshólma og framhjá síðarnefndu réttinni, áfram eftir suðaustanverðum Bolavöllum og að hólnum. Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. Um vorið settist þar að Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Lítill heimagrafreitur er þarna með steyptum veggjum. Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum. Þjóðsaga segir að “almenn sögn segi, að í þessum hól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.”

Hellisskarð

Gengið um Hellisskarð.

Haldið var upp Hellisskarð. Í frásögn árið 1703 segir að „upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; Búasteinn. Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga. Stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
Ofan við Hellisskarðið eru gatnamót. Til norðausturs liggur leið er gekk undir nafninu “milli hrauns og hlíða”, um Skarðsmýri og upp á gömlu þjóðleiðina til norðurs frá Hveragerði.

Þegar komið er upp á heiðina úr Hellisskarði, verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana.

Húsmúlarétt

Húsmúlarétt.

Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar. Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn. Rásin er misgreinileg. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðar um djúpar rásir þar sem grjóti hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli. Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Austur frá Reykjafelli (Stóru-Reykjafell) eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísis. Á Hellisheiði eru yfir 100 vörður. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum.

Eiríksbrú

Eiríksbrú á Hellsiheiði.

Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn.
Framhald vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, lagður 1877-78, lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Þar er enn efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. Vegirnir voru lagðir á þann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.

Búasteinn

Búasteinn neðan Hellisskarðs.

Á herforingjaráðskorti frá 1909 liggur norðurendi Lágaskarðsleiðar útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns. Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið. Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna, en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur. Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936.

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum. Um þá lýsingu má lesa annars staðar á vefsíðunni.

Lákastígur

Varða við Lákastíg.

Þegar gengin hafði verið 2/3 af leiðinni um Gamla veg var komið að gatnamótum Skógarvegar. Í örnefnaslýsingu segir að “á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hvorir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða. Sanddalir eru neðan og suðaustan við Lágaskarð og mætti ætla að um sömu leið væri að ræða, en hér mun sennilega verið átt við leið „frá Hjallahverfi um Kálfabergsstíg, Káfadali, Hálsa, Vegarbrekkur, Lakadal, Stóradal, á þjóðveg í Hveradölum.” Skógarvegur liggur hins vegar til suðurs af Hellisheiðavegi og niður að Hjalla um Stóradal og Háaleiti suðaustan undir Skálafelli (verður genginn síðar).

Skógargata

Skógargatan.

Í örnefnalýsingu 1703 segir að “upp á Hverahlíð er Skálafell, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur. Skógarmannavegurinn austan Skálafells er frá þeim tíma, er Hjallamenn sóttu skógarnytjar í Nesjaskóg í Grafningi. Einnig nefnd Suðurferðagata, milli Háaleita, við Hlíðarhorn, – á þjóðveginn á Hellisheiði vestan við Loftið (40 km steininn).” Nefndur steinn er við Skógarveginn, eða Skógarmannaveginn, skammt sunnan núverandi þjóðvegar.

Frá þessum gömu gatnamótum sést vel niður að Kömbum sem og yfir Ölfusið allt – í góðu skyggni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Bæjarbókasafn Ölfuss.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.