Jónsbásar

Eftirfarandi er úr erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín, sem hún hélt á Sagnakvöldi í Saltfisksetrinu 16. ferb. 2006 og nefndist „Sök bítur sekan„:

Staður

Klukknaportið í Staðarkirkjugarði.

Við strandlengjuna austast í landi Húsatótta skammt utan við Hvalvíkina eru Jónsbásaklettar en þar strandaði breski togarinn Anlaby 14. janúar 1902 og fórust allir sem á honum voru, 11 manns. Skipstjóri á Anlaby var Svíinn Carl August Nilson, og var þetta fyrsta ferð hans til Íslands að aflokinni fangelsisvist, sem honum var gert að afplána fyrir aðförina frægu að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði árið 1899. Af þessum atburðum og af Carl Nilson spunnust margar sögur sem ég ætla að segja ykkur frá hér í kvöld og þá einkum þær sögur sem tengjast Grindavík og lítið hafa verið í sviðsljósinu fram til þessa. Við öflun heimilda styðst ég aðallega við kaflann frá Valahnúk til Seljabótar sem Guðsteinn Einarsson skrifaði í bókina Frá Suðurnesjum og kemur inn á þennan atburð og Staðhverfingabókina, Mannfólk mikilla sæva sem séra Gísli Brynjólfsson skrifaði. Feður beggja þessa höfunda koma við sögu. Faðir Guðsteins var Einar hreppstjóri á Húsatóftum og foreldrar séra Gísla voru séra Brynjólfur á Stað og frú Helga Ketilsdóttir.

Staður

Staðarströndin.

Árið 1999 þegar 100 ár voru liðin frá ódæðisverkinu á Dýrafirði var þess minnst þar og reistur minnisvarði um þá þrjá menn sem fórust í aðförinni. Eins var minnst á þetta ódæðisverk í fjölmiðlum 2004 þegar 100 ár voru liðin frá því að Íslendingar fengu heimastjórn og Hannes Hafsteinn varð fyrsti ráðherra Íslands. En fæstir þekkja söguna eftir að Carl Nilson kemur aftur til Íslands og ætlar að hefna sín á Íslendingum að talið var.Fyrir þá sem þekkja ekki fyrri söguna þá ætla ég í stuttu máli að rifja upp atburðinn á Dýrafirði. Carl Nilson var þá skipstjóri á breskum togara Royalist. Hann var við botnvörpuveiðar innan landhelgi, sem þá var 3 mílur, á miðjum Dýrafirði. Hannes sem þá var sýslumaður Norður-Ísfirðinga fór ásamt 5 öðrum til að ráðast til uppgöngu í togarann. Á þeim tíma voru varnir Íslendinga í landhelgismálum litlar og Englendingar notfærðu sér það. Nilson á að hafa komið til verslunarstjórans á Þingeyri nokkrum dögum áður og tekið út varning og ætlaði að borga síðar sem hann gerði ekki. Hann málaði yfir nafnið á togaranum Royalist svo aðeins sást oyalist til þess að blekkja menn. Skipsmenn á Royalist slepptu togvírnum að talið var þannig að báturinn sem Hannes var á hvolfdi og þeir lentu í sjónum og þrír drukknuðu en Hannesi ásamt tveimur öðrum var bjargað á síðustu stundu. Ekki samt að talið var fyrr en að menn í landi sem að sáu aðfarirnar með sjónauka réru að togaranum komu að. Sjónauki þessi er nú geymdur á Byggðasafninu á Ísafirði og kallaður lífgjafi Hannesar. Báturinn sem þeir Hannes voru á nefnist Ingjaldur og var síðast þegar ég vissi á sjóminjasafninu í Hafnarfirði. Um borð í Royalist var sjómaður frá Keflavík. Eftir atvikið sigldu þeir til Keflavíkur áður en þeir héldu til Englands og talið er að sjómaðurinn hafi tekið með sér fjölskyldu sína og flutt út. Nilson var síðan um haustið aftur tekinn við landhelgisbrot þá við Jótlandsskaga.
Hann var færður til Kaupmannahafnar. Fyrir tilviljun var póstbáturinn Laura sem var í ferðum milli Íslands og Danmerkur þar á ferð og Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri sem var um borð í áttaði sig á því að um sama skipstjóra var að ræða og í atvikinu á Dýrafirði. Nilson var dæmdur í fangelsisvist fyrir atburðinn á Dýrafirði en óljóst er hvort hann sat af sér dóminn eða ekki.

Jónsbásar

Jónsbásar.

Tveimur árum síðar var hann á leið til Íslands á nýjan leik er hann strandar við Jónsbáskletta við Grindavík. Svo sem oft vill vera í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta. Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax. Draumurinn var þannig að henni fannt að knúð væri dyra og 10 menn báðu um gistingu á Stað. Eitthvað leist henni illa á að hýsa svona stóran hóp og færðust undan því. En þeir sóttu fast á og svöruðu henni að Einar Jónsson hreppstjóri á Húsatóftum myndi sjá um þá. En þannig vildi til að Einar hreppstjóri sá um alla björgun og einnig um útför mannanna í Staðarkirkjugarði.

Enginn vissi þegar skipið fór upp. Sá sem fyrstur varð þess áskynja, var Björn, Sigurðsson vinnumaður í Garðhúsum. Hann var að ganga til kinda þegar hann sá rekald og dauðan mann. Talið var að han hafi verið með lífsmarki er í land kom, því hann lá ofan við flæðarmálið. Björn lét Einar hreppstjóra strax vita.

Staður

Jónsbás.

Helgi Gamalíelsson á Stað sagði að eftir ákveðna átt eins og var í þessu tilviki þá höfðu Staðhverfingar það til siðs að ganga á reka. Þennan dag var leiðindaveður og af einhverri ástæðu var það ekki gert en það hefði ef til vill geta orðið manninum til lífs. Höfðu Staðhverfingar það á samviskunni og fyrir vikið var ekki mikið talað um þennan atburð.

Úr skipinu rak 10 lík á rúmri viku en eitt líkið fannst ekki og var það talið vera af Nilson skipstjóra. Líkin voru flutt í Staðarkirkju og búið um þau þar og leitað eftir öllu til að bera kennsl á þau. Einn morguninn kom maður til Einars hreppstjóra, Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, og þótti honum maður koma til sín og biðja sig að fara til hreppstjóra og segja honum að hann vildi fá aftur það sem hafði verið tekið frá sér og hann sé norðast í kórnum. Einar tók drauminn bókstaflega þvi einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum í kirkjunni og var hann látinn á hann aftur.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Eitt fyrirbæri var sett í samband við strand þetta. Tveir ungir menn áttu þá heima á Húsatóftum. Þeir voru vanir að fara á kvöldin til fuglaveiða á báti út í Flæðikletta. Eitt skiptið heyra þeir undarlegt hljóð og þeir veltu því fyrir sér hvort að selir mundu geta hljóðað svona. En varla höfðu þeir sleppt orðinu er upphófst óskaplega langdregið og ámátlegt hljóð. Þeir flýttu sér í land og fóru aldrei út í Flæðikletta að kvöldlagi eftir þetta. Þetta fyrirbæri var sett í sambandi við Anlaby strandið og kallað ”náhljóð”.

Annað fyrirbæri var einnig sett í samband við strandið. Eitt kvöldið var Júlíus Einarsson frá Garðhúsum að fara að finna heitmey sína Vilborgu, dóttur presthjónanna síra Brynjólfs og frú Helgu Ketilsdóttur og var Júlíus ríðandi á þeirri leið. Þegar hann var kominn út fyrir síkið fyrir neðan og vestan túnið á Járngerðarstöðum nam hesturinn staðar, og var ekki unnt að koma honum úr sporunum, hvernig sem hann reyndi. Hesturinn gerði ekki annað en að prjóna og ganga aftur á bak. Hann stökk af baki og teymdi hestinn á eftir sér. Varð honum litið til hægri handar og sá þar gríðar stóran mann sem ógnaði honum eins og hann hygðist reka hann í sjóinn. Júlíus blótaði manninum og stóð honum mikill stuggur af honum. Maðurinn fylgdi honum mest alla leiðina en hvarf svo skammt austan við túnið á Stað. Júlíus var náfölur og brugðið við þennan atburð er hann kom á Stað. Flestum kom saman um að tengja þennan förumann við skipstrandið.

Staður

Klukka Anlaby í klukkuportinu.

Nilson gerði vart við sig á eftirminnilegan en jafnframt gleðilegri hátt. Þennan vetur 1902 eftir skipstrandið var vinnukona á Stað, sem ekki fór ein saman. Hana fór að dreyma Nilson, sem lét það ótvírætt í ljós að hann vildi vera hjá henni. Var ekki um að villast að hann var að vitja nafns. Vinnukonan ól son og hann var látinn heita Karl Nilson og fæddist á Stað 31. júlí 1902 og foreldrar hans voru Jón Tómasson og Guðbjörg Ásgrímsdóttir. Karl hinn íslenski var gæfumaður að því að ég best veit.

Flakið af Anlaby sást lengi út af Jónsbásklettum. Nú er það horfið með öllu nema ketillinn sem kemur upp úr við útsog á stórstraumsfjöru. Við útfarir í Staðarkirkjugarði er ennþá hringt úr skipsklukkunni úr Anlaby. Klukknaportið er nýuppgert og sómir sér vel í garðinum. Eins og þið hafið heyrt þá hafa ótrúlegar margar sögur spunnist út frá Nilson skipstjóra bæði við atburðinn á Dýrafirði og hér við Grindavík ég vona að þið hafið haft gagn og gaman af þessari samantekt.
Nilson átti ekki afturkvæmt til Íslands og má segja að hann hafi fengið makleg málagjöld er brimaldan við Jónsbáskletta söng honum sitt dánarlag og sannast þar máltækið sök bítur sekan í bókstaflegri merkingu.
Í ævisögu Hannesar Hafsteins (eldri útgáfu) vitnar höfundurinn, Kristján Albertsson. til skrifa í Lögréttu 1933 þar sem hann sgeir að „eitt lík rak höfuðlaust, og var talið vera Nilson; „hafði sennilega hákarl klippt af honum hausinn, en almenningur lagði út sem „æ´ðri stjórn“, og með réttu.“
Þessi saga Nilsons varð yrkisefni Jóns Trausta er hann orti kvæðiðVendetta en það þýðir blóðhefnd þ.e.a. vættirnir hefndu fyrir ódæðisverkið.
Að lokum flutti Áki Erlingsson ljóðið Vendetta er fjallar um atburðinn á Dýrafirði.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Sótaleiði

Kristján Eldjárn skrifar í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1981 um „Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi„. Þar getur hann m.a. um svonefnt „Sótaleiði“:

sotarleidi-1„Ath.: Ekki er nú vitað hvar Grímur Thomsen lét heygja hest sinn Sóta, framar en segir í Sjósókn, bls. 46, ,,í túninu fyrir norðaustan staðinn“. Í umtali er þetta stundum kallað Sótaleiði (47) [51], sem virðist mega telja með örnefnum.
Ókunnugt er mér, hvar Fálkahúsið stóð, eins og svo margt í fyrri tíðar húsaskipan á Bessastöðum.“

Í Sjósókn segir: „Árið 1663 skipaði konungur svo fyrir, að bjóða skyldi höfuðsmanninum á Bessastöðum alla hesta, sem ætlað væri að selja til útlanda. Nokkrum árum seinna (1574) bað konungur að senda sér til Hafnar 10 eða 12 graðfola og reiðhest góðan, og átti hann þá allmargt fyrir íslenska hesta. Kristján IV. fékk einnig íslenska hesta. Herluf Daa keypti fyrir hann á Bessastaðaárum sínum 10 hesta og greiddi 12 rd. fyrir hvern þeirra. Oft er endranær getið um hesta á Bessastöðum.
Sotaleidi-3Einn frægur gæðingur var þar löngu seinna, og er hann heygður með öllum reiðtygum í túninu á Bessastöðum. Það er Sóti Gríms Thomsen, einn frægasti góðhestur síns tíma, hornfirzkur að ætt. Hann var hár og langur, faxfagur og taglprúður, bar sig hátt að framan og greiddi sig vel, afburða skeiðhestur, fótviss og fótsterkur, ferðmikill og vakur, en styggur nokkuð og geðríkur og bráður, og þýddist ekki aðra en Grím sjálfan. Grímur hafði haft hann með sér til útlanda og síðan aftur heim til Bessastaða og hélt hann þar í 15 ár í miklu eftirlæti og ól hann á úrvalstöðu og nýmjólk.
Um Sóta orti Grímur þetta:
Sanda þylur, sverfir mél,
Sóti mylur grjótið vel,
fótaskilin fljót sem él,
fer sem bylur yfir mel.
Sjálfsagt er það einnig hugsunin um Sóta, sem kemur óbeinlínis fram í kvæðinu um Skúlaskeið. – Sóti var felldur 27 vetra, árið 1882, og kom Grímur þar hvergi nærri, en gekk síðan að opinni gröfinni og stóð þar agndofa um stund, og flóðu tár um vanga hans. Síðan gekk hann þögull inn í bæ aftur, en haugur var orpinn yfir Sóta.“
Bessastadanes-230Þegar loftmynd var skoðuð af Bessastöðum mátti sjá tvær greinilegar haugmyndanir í túninu norðaustan við Bessastaðastofu, hlið við hlið. Eftir að haft hafði verið samband við ráðsfólkið á Bessastöðum var ákveðið að skoða vettvanginn með hliðsjón af framangreindu. Myndanirnar reyndust vera þrær (þó sennilega sú vestari gamall byrgður brunnur). Norðaustar var hins vegar komið að manngerðum hól í túninu er líklegur megi telja „Sótaleiði“.
Dr. Gr. Th. minnist á ratvísi hesta, skýrir frá ýmsu og segir svo: „Hest hefi eg átt, sem var svo veg viss og ekki einasta vegvís, að hann tók sína vanaspretti, eins í dimmu sem björtu, og vissi eg á stundum ekki, hvar eg var, fyrr en hann tók sprettinn; eg var sem sé vanur að láta hann skeiða og stökkva til skiftis, og vissi eg þá hvað leið, eftir því sem hann gfeip stökk eða skeið. Aldrei varð eg þess var, að hann drægi neitt af sér skeiðið, þótt niðamyrkur væri, en hann stökk hægra. Einu sinni datt hann með mig í alla þá tíð, sem eg átti hann (25 ár). Svo stóð á, að eg lét eitt sumar heyja á Elliðavatnsengjum; reið eg upp eftir í bezta veðri, en um daginn gerði nokkrar skúrir, og urðu götur sleipar; á heimferðinni um daginn missti hann allra fjögra fóta utan í Vífilsstaðahálsi og skall með mig á hliðina. Reið eg sömu leið eftir það, en svo var klárinn minnugur, að nær sem hann kom á þann stað á hálsinum, sem hann fallið hafði, fór hann að frísa og skjálfa. Seinasta sumarið, sem hann hann lifði, lofaði eg honum að standa í túninu; var hann orðinn svo tannlaus, að hann náði ekki til grasa, nema loðið væri.
Fólk mitt reyndi stundum til að reka hannskolavardan-2 úr túninu; þótti því, eins og von var, ekki beysinn búskapur, að láta hest standa í túninu um hásláttinn. En klárinn hafði tekið eftir því, að eg amaðist ekki við honum, þótt hann leitaði sér bjargar, þar sem hana var að fá, því að eg kom stundum út í tún til hans og spjallaði við hann. Gaf hann því engan gaum að því, þótt sigað væri á hann hundum; hann hljóp að eins heim á hlað, eins og hann væri að skjóta máli sínu til æðra dóms, enda vann hann málið.“ Orð dr. Gr. Th. um Sóta í „Dýravininum“ ná eigi lengra en þetta. En hér er að líta frásögn merkismanns, byggða á orðum dr. Gr.: „Þessa sögu kann eg um Bessastaða-Sóta, og sagði Grímur Thomsen mér sjálfur. Þeir Grímur og Sóti áttu oft leið saman milli Bessastaða og Reykjavíkur. Það varð að fastri venju á þeirri leið, að Sóti skifti um gang á vissum stöðum, svo að í hverri ferð fór hann sama spölinn á sama gangi. Milli Eskihlíðar og Skólavörðu fór hann t. d. ávallt á stökki. Þetta var Sóta orðið svo tamt, að ekki þurfti á að minna. En annars hafði Grímur þann sið að gefa Sóta merki með því að skella tungu í góm, þegar hann vildi láta hann taka til stökksins.
Einu sinni reið Grímur með kunningja sínum frá Bessastöðum til Reykjavíkur. Ekki man eg nú, hver sá maður var, en hann var hestamaður og reiðmaður góður. Fannst honum til um Sóta, dáðist að skeiði hans, og mátti heyra, að hann fýsti að koma á bak honum. Ekki segir af ferðum þeirra, fyrr en þeir komu á þann stað, er Sóti var vanur að taka síðasta stökk-sprettinn á leið til Reykjavíkur. Eg man ekki hvort það var hæst í Eskihlíð eða vestan við hlíðina. Þar stigu þeir af baki, og bauð þá Grímur samferðamanni sínum að koma á bak Sóta, og ríða honum ofan að Skólavörðu. Því boði var tekið með þökkum. „En ekki mun Sóti skeiða undir þér,“ segir Grímur. Hinum þótti sú spá ekki trúleg, því að ekki hafði Sóti verið tregur til kostanna undir Grími, og það á verra vegi en nú var fram undan. „Eg heiti á þig,“ segir Grímur, „þú mátt eiga klárinn, ef þú nær skeiðspori úr honum áður en við komum niður hjá Skólavörðu.“
Bessastadanes-229Ekki ræddu þeir þetta lengur, en höfðu hestaskifti og stigu á bak. Grímur var á hlið við Sóta, þegar þeir lögðu af stað, og skellti í góm, svo að lítið bar á, en þó svo, að Sóti myndi heyra. Sóti tók sprettinn og linnti ekki stökkinu, fyrr en þeir námu staðar hjá Skólavörðunni, og ónýtti þannig áheit Gríms, eins og til var ætlað. (Hruna, 11. júlí 1929. – Kjartan Helgason.)“
Örkula vonar er eigi um að enn kunni að geymast meðal góðra manna sagnir um Sóta, þær sem byggðar eru á orðum dr. Gr. Th. Verða þær fluttar, eftir því sem við má komast, áður en raktar yrði aðrar sagnir um Sóta, svo sem á var vikið að framan. – E.Þ.“

Kristján minnist hins vegar í skráningu sinni ekki á hugsanlega selstöðu minjar undir lágum ísaldarhrygg sunnan við Litlumýri. Þar vottar fyrir tveimur þúfnagrónum þyrpingum. Ekki er hægt að greina veggi í þeim svo, ef þetta eru minjar, virðast þær mjög gamlar. Ofar, á hryggnum, eru greinilegar leifar vörðu. Á milli hennar og þyrpinganna efst í mýrinni, má merkja leifar af garðhleðslum.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska forleifafélags, Kristján Eldjárn, Örnefni og minjar í landi Bessastaða á Álftanesi, 78. árg. 1981, bls. 139.
-Sjósókn, bls. 46.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Íslandskot

Í bókinni „Ísland – framandi land„, fjallar Sumarliði Ísleifsson m.a. um frásagnir um Ísland fram á síðari hluta 16. aldar,, umfjallanir um Ísland frá 16. öld til miðrar 18. aldar, s.s. landafræði og sögurit á 16. öld, ferðalýsingar á síðari hluta 16. aldar, ferðalýsingar á 17 öld og fyrri hluta 18. aldar, könnunarleiðangra á Íslandi á síðari hluta 18. aldar og Íslandslýsingar frá síðar hluta 19. aldar (túrisma á Íslandi, íslenska náttúru, fólkið og sögueyjuna). Hér verður samhengislega drepið niður á nokkra punkta er varðar Reykjanesskagann:

Hugmyndir um Ísland

„Rómverski sagnaritarinn og náttúrfræðingurinn Plinius (23-79 e.Kr.) tók saman mikið verk um náttúrusögu, Naturalis historia. Eitt þeirra fjarlægu svæða sem Gajus Plinius ræddi um í verkinu var eyjan Thule. Kvað hann þar vera albjart allan sólarhringinn um sumarsólstöður og almyrkt um vetrarsólhvörf ern sumir segi þó að þar sé stöðugur dagur í sex mánuði og stöðug nótt í aðra sex. Þá sé eins dags sigling frá landinu að frosnu hafi. Fróðleik sinn um Thule hafði Plinius að öllum líkindum eftir gríska sæfaranum Pyþeasi, þó sennilega með gríska landfræðinginn Strabo (1. öld f.Kr.) sem meðalgöngumann. Mun Pyþeas hafa ritað um ferðir sínar á fjórðu öld fyrir Krist og minnist þar meðal annars á þessa norðlægu eyju. Segir hann ís ekki fjarri landinu í norðri, bjart nánast allan sólarhringinn um hásumar og sé þangað sex daga sigling frá Bretlandi.
Á næstu árhundruðum urðu ýmsir fleiri til þess að minnast á Thule og höfðu flestir fróðleik sinn beint eða óbeint eftir Pyþeasi, oft fyrir meðalgöngu Strabos eða Pliniusar. Claudius Ptholemeus (á 2. öld e.Kr.) kvað til dæmis Thule vera norðan Orkneyja og væri lengstur dagur þar um 20 stundir. Á fyrri hluta sjöundu aldar staðsetti Isidorus frá Seville Thule norður og vestur í hafi, nyrst eyja handan Bretlandseyja, og segir hann meðal annars að handan við Thule sé engin dagsbirta og sjór af þeim sökum „hreyfingarlíftill og frosinn“. Í stuttu máli má segja að Thule hafi verið talið hið nyrsta land og fjarlægasta sem um gat, eyja í grennd við hið frosna haf. Íbúarnir virtust ólíkindalegir.
Hluti af korti Bertellis 1570 - HafnarfjörðurFlest var þokukennt í kringum eyna Thule á fyrri hluta miðalda. Ögn skýrðust málin þó á áttundu og níundu öld. Hinn írski Beda venerabilis (Beda prestur) greindi nokkuð frá Thule á fyrri hluta áttundu aldar, að flestu í anda eldri höfunda sem hafa verið nefndir hér að framan. En lýsingar hans eru þó nákvæmari en verið hafði fram til þessa, enda vitnar hann til samtímamanna sinna sem hafi dvalist þar og upplifað „nokkra daga sumar hvert“ að sól gangi ekki til viðar. Hvort Beda á þarna við Ísland er ekki hægt að fullyrða en margir hafa talið svo vera, til dæmis Sturla Þórðarson í formála sínum í Landnámu á síðari hluta 13. aldar. Eins líklegt er þó að ummæli hans eigi við önnur norræn lönd, til dæmis Norður-Noreg.
Hundrað árum síðar, um árið 127, fjallaði annar Íri, Dicuil að nafni, stuttlega um Thule í riti sínu De Mensura Orbis Terrae. Ducuil, sem var munkur og kennari við frönsku hirðina, greinir fyrst frá lýsingum þeirra Pliniusar, Isidorusar og fleiri fornra höfunda á þessu en síðan bætir hann við „að bjarmi sólar sjáist á hinn bóginn örskamma stund á Thile um vetrasólstöður og fáeina daga undan og eftir, þegar hún er í hádegisstað á miðri jörðunni, og því skjátlist skrökberendum, er þeir hafa ritað, að hafið sé þar ísi lagt og stöðugur nóttlaus dagur frá vorjafndægrum til haustjafndægra, en sífelld nótt á hinn bóginn frá haustjafndægrum til vorjafndægra… Þá bjuggu menn á Thile.

Merkir brunnar á Reykjanesskaga - kort Orteliusar 1570

Álitið hefur verið að frásögn Dicuils eigi við Ísland og hefur hún af mörgum verið talin fyrsta eiginlega Íslandslýsing sem um getur. Tvennt geta menn verið sammála um; Thule var langt í norðri og þar var mikill munur dags og nætur að sumri og vetri.
Adam frá Brimum (d 1085) ritaði sögu erkibiskupsstólsins í Hamborg á síðari hluta 11. aldar. Hann heldur því fram að Ísland og eyjan Thule séu eitt og hið sama. Fór svo að nafngiftin Thule festist við Ísland á síðari hluta miðalda og gekk landið ýmist undir Íslandsnafninu eða var nefnt Thule. Síðar var hart um það deild hvort nafngiftin Thule hefði átt við Ísland eða ekki. Á eynni býr fjöldi fólks sem hefur viðurværi sitt af húsdýrum að sögn höfundar, enda vex þar ekkert korn og lítið er um trjágróður. Segir hann að fólkið gangi um skinnklætt, búi neðanjarðar í holum sínum til þess að verjast kuldanum og deili með ánægju þaki og rekkju með með búfénaðinum. Lifi landsmenn erfiðu en einföldu og hamingjuríku lífi á því sem náttúran hafi upp á bjóða og óski einskis annars; uppsprettur hafi þeir sér til ánægju.
Furðudýr á Faxaflóa - kort Orteliusar 1570Adam frá Brimum hefur að öllum líkindum stuðst við heimildir frá íslendingum sem dvöldust á Engalndi eða mönnum sem höfðu kynnst þeim. Til dæmis var Þorlákur helgi við nám í París um svipað leyti og Garibaldus og systursonur Þorláks, Páll Jónsson biskup, var við nám á Englandi á dögum hans. Þar gæti Adam hafa fengið upplýsingar um „góða veiðifálka, ofsatorma, sem eyða öllu sem fyrir er með eldi sínum, eldgos o.fl.
Í norskum ritum frá 12. og 13. öld hafa varðveist nokkrar frásagnir af Íslandi. Þar á meðal er Histria de antiuitate regum Norwagiensium (Um konunga Norðmanna að fornu), rituð um 1180 af Þjóðreki munki (Theodricus monachus). Í verki sínu ræðir hann maðl annars um fund landsins, fyrstu norrænu landnámsmennina, svo og að á undan þeim hafi nokkrir Írar verið búnir að koma þangað.“
Í ljósi fyrirliggjandi heimilda, skráðra sagna og upplýsinga nútímans verður að teljast líklegt að Thule og Ísland hafi verið ein og sama eyjan. Norður Noregur gæti varla hafa verið eyja í augum reyndra sæfara, Orkneyjar og Færeyjar voru þekktar og ef um Grænland hefði verið að ræða hefi landlýsingin verið allt önnur en raunin var á. Ekki er heldur vitað til þess að önnur búsældarleg eyja hafi verið í Norður Atlantshafi – en horfið af yfirborði jarðar. Efasemdafólk hefur leyft sér að efast, en ekki getað bent á aðra sennilega staði er átt geta við þær mörgu samstiga lýsinga um eyjuna Thule í norðri. Færeyingar vissu, allt frá því að eyjan bygðist, að farfuglarnir staðnæmdust ekki á eyjunni heldur héldu för sinni áfram til norðurs. Land hlaut því að að vera fyrir handan – og þess var að sjálfsögðu leitað.
ThuleSamkvæmt framangreindum skráðum heimildum er bæði eðlilegt og sjálfsagt að viðurkenna það fúslega að landið/eyjan, sem í þeim er lýst; Thule/Thile – var landið/eyjan er síðar var nefnt Ísland. Af þeim sömu heimildum (sem einna erfiðast virðist fyrir suma að sætta sig við) má sjá að landið var jafnvel þegar numið á fyrstu öldum f.Kr. Harðyndi og/eða sjúkdómar gætu hafa eytt íbúnum á einhverju tímabili. Ef að líkum lætur hafa náttúruhamfarir leikið landið og landsmenn grátt, breytt tilvistarmöguleikum þeirra og eytt ummerkjum um búsetuna frá einum tíma til annars. Það var síðan ekki fyrr en á 7. öld að jafnvægi virðist hafa komist á og þáverandi íbúar, írskir menn, gátu leyft sér að þróa bústofn sinn. Þegar norrænir menn fengu áhuga á eyjunni var bústofninn orðin svo álitlegur að þeir töldu ávinning að því að ná honum undir sig. Það, auk fárra varnarlausra íbúanna, hvatti þá til dáða – svo mikilla að innan skammt urðu þeir allsráðandi á eyjunni Thule. Nafnnýbreytnin Ísland varð því óumflýjandleg í ljósi nýrrar söguskráningar. Segja má að meginágreiningurinn hefur (var) jafnan um nafngiftina en ekki tilvist eyjunnar.

Heimild:
Sumarliði Ísleifsson – Ísland – framandi land, 1996.

Hellishraunsskjól

Fornt fjárskjól, Hellishraunsskjól, er í gróinni lægð í Hellishrauni við Ásflatir milli Hamraness og Ásfjalls. Tvö önnur slík skjól, Grófarhellir og Grísanesskjól, eru í nágrenninu:
Í Örnefnalýsinu Ara Gísasonar um Ás segir m.a.:  „Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir. Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness.“ Skýrslan fjallar einungis um Hvaleyri, en svæðið er að hluta til í Áslandi og þar er eina skráða fornleifin í skýrslunni; fjárhellirinn. Um hann segir Gísli Sigurðsson m.a. í Örnefnalýsingu sinni um ÁS: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól.  Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn“.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól.

Út frá frá hrauntungunni eru svo Ásflatir.  En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum.  Þær liggja norðan við Bláberjahrygg.  En stígur liggur um Ásflatir vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja.“ Landamerkja línan liggur s.s. í vörður á Grísaneshálsi og  Hamraneshálsi (Bleiksteinshálsi). Báðar þessar vörður verða að teljast fornleifar sem og leiðirnar verða að teljast til fornleifa skv. Þjóðminjalögum. Þarna lá um Skarðið  vegurinn frá Ási upp á Hrauntungu- og Stórhöfðastíg. Auk þess sem selstígarnir frá Ási og Hvaleyri lágu um Ásflatir og skáhallt yfir Hamraneshálsinn að Hvaleyrarvatni.
Við þetta má bæta að í örnefnalýsingum Hvaleyrar segir, sbr.  Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar: „….), „Vestur frá Ási og vestur frá Ástjörn ganga fram í hraunið tvær hæðarbungur óbrunnar. Sú sem er nær Ási heitir Grísanes, og þaðan beint í suður er annað nes, sem heitir Hamranes. Það þekkist á, að í því eru hamrar. Suðvestur af eða í Grísanesi er smáhellir, sem heitir Grísanesskjól, en efst uppi milli nesjanna, upp undir svonefndum Ásflötum, heitir Grófarhellir. Hamranesið er skógi vaxið, brekkur sunnan og vestan, háir hamrar að vestan en aflíðandi að ofan. Þá er næst Bleikisteinn í norðanverðum Bleikisteinshálsi.“

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyrir segir um svæðið: „Hér vestur af undir hraunhól er hellisskúti, nefnist Grísanesskjól. Landamerkjalínan liggur um Grísanesháls, niður af honum og inn um Ásflatir. En undir brekkunni við hraunið, sem hér nefnist Hellisdalshraun og Hellisdalur, liggur Hrauntungustígur suður yfir að Hamranesi. Þar spretta fram tvær lindir, Hamraneslindir. Frá Hamranesi lá Hrauntungustígurinn vestur yfir hraunið út að Háabruna og vestur yfir hann í Hrauntunguna.“ Þarna er getið um Hrauntungustíginn um Ásflatir og Helludal.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól

Hellirinn sem er norðan í hraunrana, er í smá sveig um 8 m langur og opinn á móti norðaustri. Hleðslur sem hafa verið veggjahleðslur í hellinum hafa hrunið inn í hellinn og er hann illfær. Í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskýrslunni „Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness“ frá árinu 2005 segir: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrri tíma.“

Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar, auk þess sem skjólið er hluti af búsetuminjum svæðisins, sbr. stekkinn í Skarðinu skammt norðar.

Heimild:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Ás og Hvaleyri.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Ás og Hvaleyri.
-Katrín Gunnarsdóttir: Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness Hafnarfirði. Byggðasafn Hafnarfjarðar. 2005.
Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið 2023.

Grænaflöt

Ætlunin var að reyna að finna svonefndan Sængurkonuhelli þann er Lárus Kristmundsson frá Stakkavík lýsti aðspurður í viðtali fyrir nokkrum árum. Í örnefnalýsingum af svæðinu mun vera annar samnefndur Grænaflöthellir í nokkurra hundruð metra fjarlægð, en huldufólkssagan hér að framan hefur ekki verið eignuð honum. Gæti þarna annað hvort einhverju hafa verið hnikað til eða nytsemdarhellarnir til handa aðframkomnum konum hafi bara verið tveir á annars litlu svæði.
Þá var ætlunin að halda inn um Lyngskjöld og skoða svæðið í honum ofanverðum. Skjöldurinn er eldri hraunskjöldur og í honum gætu leynst op, sem áhugavert væri að staðsetja með seinni tíma rannsóknir að markmiði. Auk þess liggja út frá honum gamlar götur í allar höfuðáttirnar fjórar.

Drykkjarsteinninn

Í nefndu viðtali sem Jóhann Davíðsson tók við Lárus getur sá síðarnefndi m.a. um svonefndan Sængurkonuhelli í Herdísarvíkurlandi. Þar segir Lárus: “Ég er fæddur 03.01.1931 í Stakkavík, flutti að Brunnastöðum 29. ágúst 1944. Dótinu var jafnað á hestana, sem voru 6 að tölu. Erfiðlega gekk að koma þessu öllu á hestana því þetta var svo mikið drasl. Við vorum t.d. með 50 hænur. Um 100 kg. fóru á hvern hest. Reiðhestur Einars Ben. og farskjóti Elínar, Faxi, voru m.a. notaðir. Ekkert var skilið eftir, en þetta var alls um 300 kg, sem tínt var til. Lagt var af stað frá Stakkavík kl. 10:00 að morgni. Þrjú korter tók að komast upp á Selstíg, en farið var yfir fjöllin og um Grindarskörð. Ekkert var tekið af hestunum á leiðinni, þeir einungis hvíldir á leiðinni. Ferðin gekk mjög vel. Allir báru líka eitthvað. Mamma var t.d. með rokkinn sinn. Pabbi reiddi tveggja ára son Elínar, Svavar. Þegar komið var í Hafnarfjörð kl. 20.00 um kvöldið var staðnæmst á Öldugötunni þar sem tekið var af. Lagt var stað aftur kl. 11:00 morgunin eftir og komið að Brunnastöðum kl. 22:15. Búfénaðurinn var hins vegar rekin út með hlíðunum, um Kerlingadal, Eldborgarskarð, með Veggjum og um Kálfadali uns komið var að Lambatjörn. Þar var hann tekinn á bíl.
TóftÞað var stúlka í Selvogi, líklega í Bartakoti, Litla-Leðri eða Stóra-Leðri. Hún var mjög lagin við að hjálpa dýrum. Maður kom til hennar í svefni og vakti hana og bað hana að fylgja sér vestur í Herdísarvík til að hjálpa konunni sinni því hún væri þar í barnsnauð, þar í Sængurkonuhelli sem talin var vera í Herdísarvíkurlandi. Hún var í fyrstu hrædd, en þegar hún kom út og sá tvo gráa hesta brá af henni. Fylgdi hún manninum vestur að Grænulaut og gekk þar inn í hellinn. Bjart var þar inni líkt og í stóru herbergi. Þar lá konan sem hafði legið þar í tvo sólarhringa, illa haldin. Hún gat bjargað bæði konu og barni vegna þess hversu lagin hún var. Að launum fékk hún skartklæðnað, forkunarfagran skautbúning, sem margar konur i Selvogi öfunduðu hana af. Konurnar vildu gjarnan fá klæðin lánuð, en stúlkan var nísk á þau. Fór hún jafnan í þeim til Strandarkirkju.
GerðiOpið er skammt vestan við Grænuflöt, utan í fjallhlíðinni, þúfa út úr hlíðinni svona ójöfnun, opið blasir við. Hellirinn er mjög gróinn því hann var notaður af útigangsfé sem var mikið notað á veturnar. Opið snýr að sjó. Það sést vel, 1 m á hæð og 1/2 m á vídd. Ég hef ekki farið inn í hann sjálfur. En margir hafa farið inn í hann og þótt hann rúmgóður.
Í örnefnalýsingum fyrir Herdísarvík er getið um Sængurkonuhelli, sbr. hjá Gísla Sigurðssyni: „Á brunanum voru svo Ingimundarhæðir og þar upp af Hrísbrekkur, Litla-Hrísbrekka og Stóra-Hrísbrekka. Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir.  Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn.“
GerðiðÍ annarri lýsingu eftir Gísla segir: „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif.  Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Í örnefnalýsingunni segir um Grænuflöt og Herdísarvíkurfjall: „Herdísarvíkurfjall rís hátt yfir hraunbreiðuna með bröttum skriðum og ókleifum hömrum ofan þeirra. Lyngskjöldur er vestast í fjallinu, en hann er nefndur Skjöldur í gömlum landamerkjalýsingum. Þá er Fálkageiri, gróðurtunga í skriðunum, og Fálkahamar. Þar er og Fálkageiraskarðsstígur; Fálkagil er nafn, sem finna má á landakortum. Fálkageiraskarð (er skarðið, sem stígurinn liggur um.

Rót

Breiðigeiri er austar í fjallsbrekkunum. Grænaflöt liggur undir fjallsrótunum, og upp af henni er Grænuflatarskarð, og liggur fjárgata um skarðið. Herdísarvíkurfjallsskriður liggja þar austar allt að Mosaskarði. Þar upp af er Bæjarhamar, og ofan brúna er Geldingatorfa. Þá kemur Klaufhamar og austar Sundhamar. Þar eru bryggjur, sem fé fór eftir, og lenti þá oft í sjálfheldu. Stallar voru þessar bryggjur kallaðar. Varð oft að síga þar eftir fénu. Brúnir voru Herdísarvíkurfjallsbrúnir nefndar. Mosaskarð var austan fjallsins með Mosaskarðsstíg.  Þar rann fé niður, er fjallið var smalað. Austast í Mosaskarði var svo Hamragerði, þar um lá landamerkjalínan úr Breiðabás. Svörtubjörg kölluðu útróðrarmenn fjallið af sjó, var þangað oft dimmt að líta.
Eru þá nefnd örnefni þau, sem Herdísarvík tilheyra, nema uppi á fjallinu, en þau heyra undir afrétt og verða þar talin.“
MosatáknÍ viðtali við bróður Lárusar, Eggert Kristmundsson, segir hann m.a. frá því er þeir grófu gæðinga Einars Benediktssonar í Grænuflöt: „Hlín fór í fjósið í buxum úr strigapokum. Hún hafði tvo hesta, leirljósan og brúnan. Brúni hesturinn var gamall vagnhestur. Sá leirljósi var mikill reiðhestur. Jón Eldon, sonur hennar, átti hann. Hlín vildi ekki eta hestanna og því var farið með þá að Grænuflöt undir Herdísarvíkurfjalli þar sem þeir Jón, Eggert og fleiri grófu niður tvær mannhæðarháar grafir, þar sem voru hægt var að ganga inn í, og þar skutu þeir hestanna, Jón þann leirljósa, en Eggert þann brúna. Eggert tók nærri sér að þurfa að gera þetta því hann hafði unnið mikið með þessum hestum, en hann sagðist alltaf hafa hlýtt Hlín. Hún hefði beðið hann um að annast þetta.“ 
Í leiðinni var drykkjarsteinn skoðaður austan við Grænuflöt. Við þá skoðun fundust Sængurkonuhellirm.a. tóft af húsi og ílangt gerði eða stekkur. Grasgróningar eru umleikis svo líklegt má telja að fé hafi verið haldið þarna eða jafnvel kýr um tíma a.m.k. „Stekkurinn“ gæti því hafa verið stöðull eða jafnvel nátthagi. Mannvistarleifa þessarra er ekki getið í fornleifaskráningu af svæðinu.
Fallegt „mosatákn“ sást skammt frá Grænuflöt; vel við hæfi í tilefni dagsins, þ.e. Valitínusardagsins.
Þrátt fyrir leit fannst fyrrgreint hellisop ekki – að þessu sinni a.m.k.
Spurningar sem vöknuðu voru fleiri en ein: Eru Sængurkonuhellir undir Klifi og Sængurkonuhellir við Grænuflöt einn og sami hellirinn? Innan við 300 metrar eru milli staðanna.
Farið hefur verið um svæðið með stórvirkum vinnuvélum (væntanlega með leyfi Fornleifaverndar)! Við það tækifæri var landinu umbylt, stórum steinum velt við og annað fært í kaf. Við það tækifæri gæti op Sængukonuhellir við Grænuflöt hafa lokast. Tilviljun ein réð því að drykkjarsteininum var ekki raskað.
Var Sængurkonuhellir kannski ekki við Grænuflöt? Hafa ber í huga að búfénaður (kýr, naut og fénaður) hefur að öllum líkindum verið rekinn eftir gömlu þjóðleiðinni milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur, áleiðis að Kerlingadal. Hún liggur (lá) skammt frá Sængurkonuhelli undir Klifi. Ef farið hefði verið með fjallinu hefðu viðkomandi þurft að taka á sig krók til að komast fyrir Klifhraunið. Þó er ekki hægt að útiloka þann Nýimöguleika að kunnugir hafi frekar viljað reka búfénað með fjallinu, inn í Lyngskjöld og úr honum til suðurs með hraunkantinum að Klifi. Sú leið er (var) bæði þægileg og greið.
Bæði vestan og austan við Grænuflöt eru gróningar við op sem benda til þess að fé hafi legið þar við. Slík verksummerki má gjarnan sjá við gömul fjárskjól. Því er þörf að gaumgæfa svæðið betur þegar vorar.
Við þetta má bæta svolítilli athugasemd við gerð nýs Suðurstrandarvegar í Herdísarvíkurlandi. Nýi vegurinn hefði átt að leggjast nánast í fyrrverandi vegstæði líkt og sést á myndinni, en því miður fer því fjarri. Gert hefur verið nýtt sár í annars fallegt mosahraunið og á kafla hefur verið farið yfir einn fallegasta kaflann á gömlu Herdísarvíkurþjóðleiðinni. Með svolítilli hugsun hefði verið hægt að varðveita götuna komandi kynslóðum til vakningar og fróðleiks um hina fornu leið millum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók  klst og 4 mín.

Heimild:
-Viðtal Jóhanns Davíðssonar við Lárus Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum), f: 1. febr. 2006.
-Viðtal við Eggert Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum).
-Viðtal við Þorkel Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum).

Eiríksvegur

Gengið var að Staðarstekk uppi á Strandarheiði, yfir að Vatnsleysustekk og síðan upp að Vatnaborg. Eftir að hafa skoðað borgina og vatnsstæðið, sem hún dregur nafn sitt af, var haldið niður að Stóru-Vatnsleysu og letursteinninn þar í túninu barinn augum.

Vatnsleysustekkur

Vatnsleysustekkur.

Staðarstekkur er norðan við Staðarborgina á Strandarheiði. Væntanlega hefur þarna verið um heimastekk að ræða. Talsverðar vangaveltur hafa verið um og rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu löng stekkjargatan hafi verið. Hvað sem öllum niðurstöðum líður í metrum talið er og verður líklegasta svarið alltaf það að vegalengdin hefur ávallt verið fjarlægðin milli bæjar og stekks á hverjum stað. Í þessu tilviki hefur vegalengdin verið u.þ.b. 1000 metrar.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa – letursteinn.

Vatnsleysustekkur er rétt vestan Hrafnagjár til norðurs. Hann er í lítilli kvos fast við og neðan Eiríksvegar. Hann liggur frá þráðbeinn frá Akursgerðisbökkum og þaðan yfir holt og hæðir. Vegurinn er nefndur eftir verkstjóra vegagerðamannanna, sem hét Eiríkur Ásmundsson frá Gróta í Reykjavík (1840-1893), en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrstu akvegagerð um Kamba.

Ekkert farartæki hefur hingað til nýtt sér “samgöngubótina” því vegargerðin dagaði uppi í Flekkuvíkurheiðinni einhvern tímann fyrir aldamótin 1900. Almenningsvegur liggur svo til samsíða Eiríksvegi á þessum slóðum ýmist ofan eða neðan hans.

Sraðarstekkur

Staðarstekkur.

Stefnan var tekin austur og upp heiðina, yfir Reykjanesbrautina. Skammt ofan við brautina er Vatnaborgin, neðst í hæðinni sem liggur suðvestur af Kúagerði. Vatnsstæði er þar í grasbala. Sunnan við vatnsstæðið er lágur hóll með miklu grjóti og veggjabrotum og þar hefur verið fjárborg fyrrum, Vatnaborgin. Borgin er hringlaga, 10-12 m í þvermál, og innan í grjóthringnum eru hleðslur. Líklega hefur verið stekkur þarna eftir að borgin sjálf lagðist af, enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnið Vatnaborg það eina rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu, sem þarna er.

Vatnaborg

Vatnaborg – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var haldið á til baka niður heiðina, áleiðis að Stóru-Vatnsleysu. Þar var litið að letursteinn þann er Sæmundur bóndi hafði bent á og beðið FERLIR að ráða í.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Á steininum eru hástafirnir GI er bindast saman með krossmarki. Þar til hliðar er ártal. Sæmundur taldi að steinninn gæti tengst kapellu eða kirkju, sem verið hafði á Vatnsleysu fyrr á öldum, en hún var einmitt sögð hafa staðið þar skammt frá, sem steinninn er nú.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja. G. Guðmundsdóttir – 1995.

Sraðarstekkur

Staðarstekkur.

Sloki

Gengið var um Slokahraun eftir svonefndum Eyrarvegi er náði frá vesturtúngarðinum á Hrauni og með ströndinni út í Þórkötlustaðanes. Sigurður Gíslason á Hrauni, sem nú er orðinn blindur að mestu, lýsti leiðinni nákvæmlega áður en lagt var af stað. Með í för var sonur hans, Gísli Sigurðsson.

Slokahraun

Slokahraun – Slokagarðar.

Að sögn Sigurðar lá Eyrarvegur austan við svonefndar Hrossbeinalágar. Ofan við þær er varða og hóll, Sögunarhóll. Þar undir lá gatan áfram inn á hraunið, yfir að Klöpp og síðan áfram suður í Nes. Bæirnir í Klöpp og Buðlunga stóðu framar í kampinum og var gatan skammt neðan við bæina sjávarmegin sem og Þorkötlustaði. Út frá ströndinni var um 500-600 m sandfjara, sem nú er horfin. Gatan fór síðan upp fyrir kampinn í Bótinni. Þar var nefnt Skarð, sem nú er fyrir neðan Sólbakka. Eftir flóðið 1925 flæddu bæirnir vestast í Þorkötlustaðahverfi og voru bæirnir í framhaldi af því færðir ofar á túnin. Fjörusandinum var síðar mokað í burtu (eftir 1930) og sjórinn hætti að fága steininn í Klapparfjörunni. Eftir það hafði hann einungis berar klappirnar til að leika sér að.
BuðlunguvörUndir kampinum neðan við Buðlungu eru Vötnin, en svo var sjá staður nefndur þar sem ferskt vatn flæðir undan klöppunum. Skiptivöllurinn var skammt austar, upp af Buðlunguvörinni. Næsta lón vestan við vörina hét Svalbarði. Hjálmar á Þórkötlustöðum lenti oft upp í Svalbarði á leið inn í vörina og braut þá skip sín þar meira og minna. Stórgrýti er undan klöppinni.

Byrgin og garðarnir vestan við Hraunstúnið eru minjar fiskverkunar frá Hrauni. Mannvirkin voru líka mikið notuð frá Skálholtsbiskupsstól. Garðarnir suður í Nesi voru einnig allir meira og minna byggðir frá Hrauni. Skálholt var jafnan með eitt eða tvö skip á Hrauni. Þau lentu einnig suður í Nesi eins og Hraunsskipin, en frá bænum voru einnig jafnan tvö skip úti Nesi.

Slok

Varða við Sögunarhól.

Sögunarhóll er þar sem varðan er. Rekaviðurinn úr fjörunni var sagaður þar úr rekanum. Voru menn stundum heilu dagana að saga og vinnan viðinn. Þeir geymdu sýru í vörðunni til að hafa eitthvað að drekka. Hún er hol á innan og þar var sýran geymd.
Þegar komið var að byrgjunum og görðunum austast í Slokahrauni mátti sjá að mannvirkin eru misheil. Hraunið er hins vegar mjög gróft og því hafa hleðslurnar haldið sér nokkuð vel. Þær eru á afmörkuðu svæði ofan við Markabás. Hann er landamerki Þórkötlustaða og Hrauns. Hádegisklettur er austan við Markabás og Hádegistangi fram af honum og út í sjóinn. Þá kemur Skarfaklettur, en hann er sennilega best sýnilega kennileitið í fjörunni. gengur talsvert langt út í sjó.

Cap Fagnet

Cap Fagnet á strandsstað.

Við Skarfaklett hafa orðið tvö skipsströnd svo sögur fara af. Hinn 9. maí 1926 strandaði kútter Hákon frá Reykjavík norðan undir tanganum. Skipverjar björguðust og komust inn í Blásíðubás um síðir. Franski togarinn Cap Fagnet strandaði sunnan undir Skarfatanga aðfararnótt 24. mars 1932. Þá varð einnig mannbjörg, en strandið varð frægt í sögu björgunarsveitarinnar í Grindavík, vegna þess að þá voru í fyrsta skipti notuð fluglínutæki, og tókst notkun þeirra sem best varð á kosið. Þrjátíu og áta mönnu var bjargað í land. Nokkur eftirmáli urðu af strandinu, sum harla spaugileg.

Slok

Slokahraun – fiskbyrgi.

Vestar í hrauninu eru aðrir garðar, sumir verulega háir. Þessir garðar voru notaðir af austurbæjunum í Þórkötlustaðahverfi, en auk Klappar, Buðlungu og Þórkötlustaðabæjanna þriggja má þarna telja Einland, Móa og nokkur kot, s.s. Hraunkot. Þessir garðar voru einnig notaðir til fiskverkunar.
Til er lýsing á flóðinu mikla árið 1925. Þá urðu bæirnir við ströndina umflotnir vatni, fiskur og þang flutu langt á land upp og hús brotnuðu í atganginum. Á einum bæjanna rifnaði fjósið frá og sjá mátti þarfanautið fljóta baulandi á brott út í iðuna á bás sínum. Eftir þetta voru bæjarhúsin færð lengra á land upp, sem fyrr segir í lýsingu Sigurðar.

Eyrargata

Eyrargata.

Út af Slokanum er talið að eitt af stóru slysunum hafi orðið. Þá fórst Þuríður formaður þar með allri áhöfn. Slokin draga nafn sitt af slokrhljóðinu er sjórinn skellur undir hraunhellunni, sem hann hefur safnað lábörðu grágrýtinu upp á í háan kamp.

Þegar Eyrarvegurinn var genginn til vesturs, í eins líkum farvegi og unt var, mátti vel gera sér í hugarlund hvernig sjómennirnir gengu þessa leið árla morguns fyrr á öldum, hljóðlega og án óþarfa skrafs, sem einkennir suman nútímanninn, í einfaldri röð og sá fremsti haldið á lukt með kolu í. Lagt hefur verið af stað um kl. 4 að morgni og gangan út í Þórkötlustaðanesið varaði í u.þ.b. klukkustund. Þegar staldrað var við á Slokatá, austast á Slokanum, og litið til baka mátti næstum því sjá sjómennina líða þar um veginn, hægt og hljóðlega.
Frábært veður. Birtan var ógleymanleg. Þetta var eitt af þeim augnablikum lífsins, sem aldrei gleymast.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

S-ið

Haldið var í S-ið, helli í Núpshlíð, upptökum Ögmundarhrauns í vestri. Ekki er langt síðan að sást niður í myrkur um þröngt gat á hálsinum. Snjór var í botninum, en hvergi veggi að sjá. Nú var stigi með í för og var ætlunin að fara niður um opið og kanna innihaldið.

S-ið

Í S-inu.

Björn Hróarsson, hellafræðingur nr. 1, fór fyrstur niður í hellinn. Hann er sennilega fyrstur núlifandi af u.þ.b. 6 milljarða manna á þessari jarðkringlu til að líta hann augum. Hann fetaði öruggum skrefum niður um opið og hvarf.
Þegar niður var komið blasti við litardýrð og mikil klakalistaverk niður úr veggjum. Þarna var greinilega hvelfing undir gosgíg, vel rúmgóð. Kannað var um hugsanlegar rásir út úr henni, en engar fundust að þessu sinni. Þess bera að geta að hvelfingin var rúmlega hálffull af snjó og því erfitt að leita utan í veggnum undir opinu.

Núpshlíð

Núpshlíð – gígar.

Gígurinn er dæmigerður gjallgígur á sprungurein. Reinin liggur samhliða landrekssprungunni og er hluti af u.þ.b. 25 km langri spungurein er nær alla leið að Gvendarselsgígum í norðri. Hið sérstæða við hellinn er það að hægt er að komast undir gíginn sjálfan og skoða innihaldið, þ.e. það sem öðrum er hulið þegar þeir berja gígin sjálfan augum.
Þessi hellir er ágætt dæmi um hvelfingar undir eða við gígop. Litirnir voru aðallega rauðir og brúnir. Áhugavert væri að setja stiga niður um opið og leyfa honum að vera þar svo vegfarendur gætu kíkt þarna niður og dáðst að jarðfræðifyrirbærinu.
Frábært veður.

S-ið

S-ið.

Nótarhóll

Gengið var um svæðið á ströndinni austan Ísólfsskála í fylgd Jóns Guðmundssonar frá Ísólfsskála (1921). Jón fræddi þátttakendur um örnefni á svæðinu sem og notagildi strandarinnar og mannvirkja, sem standa þarna skammt ofan við hana.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Skálavör, stundum nefnd Bótin eða Börubót, er neðan við Ísólfsskála. Austar er Gvendarvörin, Trantar og Hattvík yst. Rangargjögur er skammt austar. Við gjögrin voru forn reka- og landamörk Grindavíkur og Selvogsþinga, en á seinni tímum hafa landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur jafnan verið miðuð við klettinn Dágon við Selatanga.
Nótarhóll er ofan við Gvendarvör. Við hann eru allnokkur hlaðinn mannvirki, bæði garðar og byrgi. Hraunið nefnist Skollahraun.
Jón sagði að jafnan hafi verið róið úr Gvendarvör. Það hefðu gert þeir Brandur og Hjálmar, föðurbræður Jóns. Þeir gerðu út tvö skip. Oftast var unt að lenda í vörinni eða í Bótinni.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Hann myndi eftir því að aðeins einu sinni hafi þeir þurft að snúa við og hleypa út í Nes, en annars gátu þeir alltaf lent við Gvendarvör. Ef slæmt var í sjó var þó jafnan lent í Bótinni (Börubót) neðan við sumarbústaðinn, þar sem sjóbúðin var og enn má sjá svolítil ummerki um.
Klöpp er í Gvendarvör, sker, slétt eins og bryggja. Þar var hægt að henda upp aflanum líkt og við lendinguna á Selatöngum. Hún var ástæða þess að garðarnir og byrgin voru hlaðin þar ofan við. Hörkuduglegir karlar frá Hafnarfirði réru með bræðrunum og voru þeir mikið fyrir vín. Einn þeirra (Guðmundur) var stundum sendur fótgangandi í Hafnarfjörð eftir brennivíni og taldi hann það alls ekki eftir sér.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi við Nótarhól.

Steinn einn mikill er á hlaðinu á Ísólfsskála. Hann datt eitt sinn úr bjallanum og lenti á höfði Guðmundar föður hans. Steinninn er um 400 pund og má að líkum láta hver áverkinn hefur verið. Afi hans, Guðmundur Hannesson, tók steininn upp af höfði hans og var sárið síðan heimasaumað. Margar sagnir eru til af Guðmundi Hannessyni. Fræg er sagan af honum er hann bar hreindýrskálf heim ofan af heiði alla leið úr Dyngjunni. Guðmundur stundaði mikið hreindýraveiðar við Hrútargjárdyngju. Salt bar hann frá Keflavík, 100 pund í hvorri hendi. Hann var og mikill veiðimaður.

Guðmundur og Agnes

Guðmundur og Agnes á Skála.

Reyndar var hann meira og minna á veiðum, ýmist að eltast við refi, seli eða hreindýr. Dýrin skaut hann eða veiddi á annan hátt, t.d. í gildrur. Eitt sinn skaut Guðmundur hval. Hann var þá með rennilóð framan við bæinn, í Skálabótinni, og hafði framhlaðning sinn, stóran og mikinn, tilbúinn í von um að eitthvert kvikyndi léti sjá sig. Skyndilega bar þar að hval og brá þá Guðmundur snöggt við, skaut hvalinn og dró hann á land.
Fiskverkunin fór fram á Nótarhól, en við hann var einnig mikið af sel.

Sloki

Sloki – fiskigarðar.

Byrgin og garðar notaðir til að þurrka fiskinn. Eitt húsið var notað til verkunarinnar. Veitt á færi, ekki önnur veiðifæri til þá. Dregið var helvíti mikið á stundum og fylltu þeir Hjálmar og Brandur stundum skip sín, einkum ef mikið var um sílfisk. Stundum var hann slíkur að einungis þurfti að róa út á lónið og mátti þá sjá fiskinn vaða þar um á yfrborðinu. Þá var líka mikið veitt.
Oftar en ekki voru fjölmargar skútur utan við Bótina. Stundum var róið út í þær og fengið kex í skiptum fyrir vettlinga og fleira vaðmáls og einstaka sinnum komu sjómemnirnir í land, einkum til að sækja vatn eða snjó. Eitt sinn taldi Jón á fjórða tug skútna þarna fyrir utan.

Byrgin og garðarnir austan við Skála hafa verið þar mjög lengi. Sama verkun fisksins var þar viðhöfð og á Selatöngum. Allt var nýtt, hausar, hryggir og þunnildi. Slorið var hins vegar stundum notað til að græða upp túnin á hrauninu og gekk það furðu vel.
Við Nótarhól eru langri garðar og fjölmörg byrgi, ágætar minjar um fiskverkun fyrri tíma.
Frábært veður. Birtan var einstök. Gangan tók 66 mín.

Nótarhóll

Byrgi á Nótarhól.

Suðurkot

Í „Strönd og Vogar“ getur Árni Óla um „Álagablett“ við Suðurkot í Brunnastaðahverfi á vatnsleysuströnd:

Brunnastaðahverfi

„Í túni eystri hálflendunnar í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi er stór hóll, sem kallaður er Þerrir. Honum fylgdi sú sögn, að þar ætti álfar heima, og þess vegna mætti aldrei slá hólkollinn. Ef það var gert, átti bóndinn að verða fyrir einhverju óhappi. Munu flestir bændur hafa virt þessi álög, því að engin dæmi vissu menn þess að hólkollurinn hefði verið sleginn.
Um 1890 flytur á þennan part maður, sem Hannes Hannesson hét, og tók hann þar við einu kúgildi. Fyrsta sumarið, sem hann var þama, mun grasspretta hafa verið lítil. Þóttist hann því nauðbeygður til þess að slá hólinn og gerði það.

Þerrir

Þerrir.

Á þessum árum var það venja að kýmar af mörgum bæjum voru reknar í einum hóp á haga, langt uppi í heiði, og skiptust bændur á um að láta reka þær. Seint um sumarið var að venju verið að reka kýmar, en sá, sem rak þær, tekur þá eftir því, að kýr Hannesar í Suðurkoti er eitthvað undarleg. Og allt í einu tekur hún sig bölvandi út úr hópnum og ræðst á þúfu nokkra, eins og hún væri blótneyti. Reif hún og tætti alla þúfuna sundur með hornunum, en féll því næst niður steindauð.
Ýmsir settu þetta í samband við það, að álögin á Þerri höfðu verið lítilsvirt, og aldrei sló Hannes hólinn upp frá því.“ — (B. H.)

Brunnastaðir

Brunnastaðahverfi.

Í Örnefnalýsingur Gísla Sigurðssonar fyrir Brunnastaði segir: „Í Suðurkotstúni eru nokkrir hólar, svo sem: Langhóll og Þerrar, tveir hólar, Stóri-Þerrir og Minni-Þerrir og svo er Pelaflöt. Nafnið er tilkomið vegna þessa að maður nokkur seldi flötina fyrir einn pela af brennivíni“.

Í Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði segir: „Upp frá því er Suðurkot og þar fyrir neðan garðinn er hóll sem heitir Þerrir. Langur og stór hóll hér austur af bæ heitir Langhóll“.

 Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti skráði Örnefnalýsingu fyrir Suðurkot: „Á honum stóð gamli Suðurkotsbærinn. Norðan við hann var Norðurkálgarðurinn, nú uppgróinn. Alveg við hann að norðanverðu er hár hóll“, Þerrishóllinn.

Heimildir:
-Strönd og vogar – Árni Óla, Álagablettur, 1961, bls. 262.
-Örnefnalýsing Gísa Sigurðssonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði.
-Örnefnalýsing Sigurjóns Sigurðssonar fyrir Suðurkot.

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi.