Grásteinn
Gengið var áleiðis að Grásteini á Álftanesi. Tilraun var gerð til að kljúfa steininn og fjarlægja úr vegstæði, en tæki biluðu og menn meiddust við það verk. Steinninn er því enn á sínum stað. Sumir segjast hafa séð álfa við steininn. Segir sagan að ef farið er rólega framhjá honum farnist mönnum vel, en ef farið er með gassagangi geti eitthvað óvænt gerst.
Sagt er að til séu þrenns konar álfar, þeir sem búa undir jörðinni, þeir sem búa í sjónum og svo þeir sem búa í klettum og hólum.

Grásteinn

Grásteinn á Álftanesi.

Til eru margar álfasögur þar sem álfarnir eru ýmist góðir eða vondir. Góðir álfar gerðu mönnum gott sérstaklega ef menn hjálpuðu þeim með eitthvað og eru til margar sögur um það að menn hafi átt góða ævi eftir að hafa aðstoðað álfa. Aðrar sögur segja að álfarnir séu ekki allir góðir og eigi það til að hefna sín ef illa er látið í kringum heimili þeirra.

Á okkar tímum hefur ekki frést mikið af álfum en þó hefur verið sagt frá því að vegagerðarmenn hafi lent í vandræðum með tækin sín ef þeir þurfa að leggja vegi við heimili álfa.

Kópavogur

Álfhóll í Kópavogi.

Sem dæmi má nefna Álfhól í Kópavogi þar sem reynt var nokkrum sinnum að leggja veg en því var á endanum hætt því það bilaði alltaf eitthvað hjá vinnumönnunum og talið var að álfarnir væru að vernda heimili sín með þessum verkum.
Sögn greinir svo frá, að í upphafi hafi Guð skapað konu af moldu fyrir Adam. En þessi kona var svo ókyrr hjá honum og stygg að hvorki Adam né Guð gátu neinu tauti við hana komið. Fór svo að lokum, að Guð skapaði henni mann eftir hennar eðli og nefndi hann Álf, en hana Alvör og eru af þeim komin öll tröll og álfar.

Álfakirkja

Álfakirkja í Hraunum.

Svo virðist sem íslensk þjóðtrú geri ekki greinarmun á álfum annars vegar og huldufólki hins vegar, enda þótt þessar tvær nafngiftir hafi verið viðhafðar um huldar verur í hólum og klettum frá öndverðu. Þannig er huldufólkið að mörgu leyti líkara mannfólkinu, og jarðneskt í útliti og klæðaburði. Sagt er að huldufólkið sé ekki meiri álfar en mennirnir. Álfar berast meira á með litklæðum sínum og íburðarmiklum híbýlum sem oft minna meira á sagnaveröld ævintýra en þjóðtrúarsagna.

Grásteinn

Grásteinn.

Álfar geta ýmist verið góðar eða illa innrættar verur. Huldufólk virðist hins vegar hvorki illt né gott að upplagi, heldur sýnir það sínar betri og verri hliðar eftir tilefnum.

Erla Stefánsdóttir, álfafræðingur, sagði einhverju sinni að þessar verur virðast vera á þróunarleið til hliðar við mannþróunina. “Sjálfsagt stefna þær allar að auknum þroska eins og við. Huldufólkið er líkt mannfólkinu að því leyti að það virðist vera miklar félagsverur – ég sé það aldrei eitt sér heldur lifir það alltaf saman í bæjum. Álfar búa hins vegar margir einir sér og eins eru tívarnir, sem eru mjög háþróaðar verur, venjulega útaf fyrir sig.

Hafnarfjörður

Álfaklettur við Merkurgötu.

Ef til vill er auðveldast fyrir menn að komast í snertingu við huldufólkið af öllum þessum verum þar sem því virðist svipa til okkar að mörgu leyti, eins og ég sagði áðan. Huldufólkið virðist þurfa að hafa töluvert fyrir lífi sínu, það stritar eins og við og allmikill munur virðist vera á efnum þess sem ráða má af klæðnaði og híbýlum.
Athyglisvert er að krossinn á öllum álfakirkjum er sérstakrar gerðar og öðruvísi en krossinn sem við notum þar sem þverslárnar eru tvær og vísa í hinar fjórar höfuðáttir.”

Heimildir m.a.:
-Ólína Þorvarðardóttir – Álfar og tröll, Bóka- og blaðaútgáfan sf., Rvík 1995
-http://www.ismennt.is/vefir/ari/alfar/
-http://www.simnet.is/isrit/greinar/alfar.htm

Grásteinn

Grásteinn í Urriðakotshrauni.

Búrfell

Gengið var frá Kaldárseli að Valahnúkum. Steinrunnin tröllin trjónuðu efst á hnúkunum. Þau sáust langt að og reyndu heldur ekki að leynast. Tröllin virtust vera að bíða af sér veturinn.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Annars eru tröll fallega ljót, hvert með sitt sérkenni. Þau eru afar misjöfn í útlit, sum stórskorin, önnur með horn og vígtennur, stór eyru og nef en lítil augu. Vörtur finnst þeim vera mesta prýði og oft virðast þau grimm á svip, en það segir bara hálfa söguna því flest eru þau gæðablóð og trygglindir náttúruvættir.
Tröllin eru bæði stór og sterk, í sumum þjóðsögum er sagt að þau séu líka heimsk, gráðug og oft svolítið grimm en í öðrum sögum eru þau góð og launa vel fyrir ef að eitthvað gott er gert fyrir þau. Tröll ferðast yfirleitt um á nóttunni og þá einkum að vetrarlegi. Tröllin búa í hömrum og klettum upp í fjöllum eða í hellum. Sum tröll mega ekki vera úti í dagsljósi og verða að steini þegar sólin kemur upp, þau heita nátttröll. Tröllin á Valahnúkum eru ágætt dæmi um tröll, sem hafa dagað uppi þegar þau voru of sein fyrir, sólin kom upp yfir Bláfjöllum og þau urðu að steini þar sem þau voru. Það eru til ýmsir skrítnir steinar í náttúrunni sem má kannski geta sér til um að hafi verið tröll sem ekki náðu heim til sín áður en sólin kom upp.

Talið er líka að sum önnur ummerki í náttúrunni séu eftir tröll því sumar sögur segja að þau hafi fært til fjöll. Grýla og Leppa-Lúði, sem svo margir hafa heyrt um og eru foreldrar jólasveinanna, eru tröllahjón. Vitað er um dvalarstað þeirra í einum hellanna í Arnarseturshrauni við Grindavík (sjá FERLI-783). Önnur tröllafjölskylda er talin búa í Rauðshelli skammt frá Valabóli, örskotslengd frá Valahnúkum. Maður úr Hellarannsóknar-
félaginu, sem sá tröllabarnastóðið og heyrði hroturnar á ferð sinni um hellinn, varð svo mikið um að hann flúði öfugur út aftur – og er hann þó talinn með stilltari mönnum. Síðar var nákvæm mynd af hópnum rissuð upp eftir lýsingu hans. Þá er vitað af tröllum í Trölladyngju. Sögn er a.m.k. um að hjón úr Vogunum hafi séð þar tröllabarni bregða fyrir síðla kvölds í hálfrökkrinu.

Valaból

Í valabóli.

Tröll eru líka stundum kölluð skessur, risar, jötnar eða þursar.
Komið var við í Músarhelli og síðan gengið eftir slóð í gegnum Mygludali, um Víghól að Húsfelli. Þar var haldið um Kringlóttugjá og upp á brún Búrfells. Gígurinn er stórbrotinn og hrauntröðin tilkomumikil þar sem hún liggur um og myndar Búrfellsgjána. Í stað þess að ganga niður gjána var haldið til norðurs yfir að Kolhól. Hólinn er landamerki. Sunnan undir honum, í grónum hvammi, má sjá hleðslur. Einnig eru hleðslur með hraunkanti skammt vestar.
Gengið var frá Kolhól niður um Garðaflatir og að Gjáarrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.Heimild m.a.:
-http://www.hi.is/~soleya/#TRÖLL

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Kerlingarskarð

Gengið var suður Selvogsgötu frá Bláfjallavegi með stefnu á Kerlingarskarðið. Á leiðinni eru nokkrir smáhellar, sem gaman var að kíkja í. Í einum þeirra er t.d. fallegt rósaloft. Austan við götuna er mikil hrauntröð er myndast hefur í hraunstraumum úr Miðbolla (Tvíbollum).

Brennisteinsfjöll

Á leið í Námuhvamm.

Brennisteinsfjöll

Horft niður í Námuhvamm.

Á brúninni var staldrað við drykkjarsteininn áður en gatan var rakin áfram niður með Draugahlíðum. Við suðurenda þeirra var beygt að námusvæðinu í Brennisteinsfjöllum. Eftir stutta göngu blasti svæðið við, neðarlega í hlíðum fjallana. Ljósleitur liturinn sker sig úr umhverfinu. Ofan þess stígur enn gufa upp úr jörðinni. Í hvammi ofan og undir grónum hlíðum eru tóftir af búðum brennisteinsmámumanna, á einu afskekktasta svæði Reykjanessins.

Gengið var upp úr hlíðunum og til norðurs ofan Draugahlíða. Þá sést hinn fallegi Draugahlíðagígur vel. Stórborið útsýni er þaðan að Kistufelli og yfir að Hvirfli. Dalurinn ofan hlíðanna er sléttur og auðveldur göngu. Gamla gatan liggur norðan með dalnum. Áður en komið var að Kerlingarskarði var beygt vestan við vestasta hnúkinn og haldið niður með honum að norðanverðu. Um er að ræða stórbrotið skarð. Gömul gata liggur niður eftir því. Skömmu síðar var komið á Selvogsgötuna á ný.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Námuhvammur

Tóft í Námuhvammi.

Seldalur

Gengið var frá Bleiksteinshöfða norðvestan við Hvaleyrarvatn, um Kaldársel og endað við Kershelli.

Selhöfði

Selhöfði – fjárborg.

Bleiksteinshöfði ber nafn af hinum bleika lit er slær á brekkuna. Hún er í rauninni melar. Höfðinn er einn af mörgum á þessu svæði, s.s. Húshöfði, Selhöfði, Stórhöfði, Fremstihöfði og Miðhöfði. Að þessu sinni var gengið niður að Hvaleyrarseli suðaustan við Hvaleyrarvatn. Þar höfðu Hvaleyrrabændur í seli fram undir aldamótin 1900, en þá varð þar hörmulegur atburður er selsráðskonan fannst illa leikin við vatnsborðið. Var talið að nykur, sem bjó í vatninu, hafi orsakað lát stúlkunnar. Ássel er þarna skammt austar.
Gengið var yfir að tóftum vestan í Húshöfða, beitarhúsi frá Ófriðarstöðum, og síðan haldið upp á Selhöfða. Á honum eru leifar fjárborgar og væntanlega stekks. Sunnan undir höfðanum, í Seldal, er hlaðið gerði, gæti hafa verið stekkur. Seldalur hefur verið vel gróinn áður, en er nú að mestu flag.

Rauðshellir

FERLIRsfélagar við Rauðshelli.

Gengið var upp á Húshöfða. Af honum er ágætt útsýni yfir Stórhöfðastíginn þar sem hann liggur suður um hraunið sunnan fjallsins. Haldið var niður af höfðanum sunnanmeginn og hraunkantur Stórhöfðahrauns rakinn upp í Kaldársel.
Í Kaldárseli var litið á staðinn þar sem gamla selið hafði staðið norðan við Kaldá, haldið austur með Lambagjánni að Helgadal og kíkt í Rauðshelli. Þar var þá mannfagnaður mikill, enda hellirinn tilvalinn staður til samkomuhalds.
Selvogsgatan var rakin niður Mosa og með suðurbrún Smyrlabúðarhrauns að Kershelli norðan Sléttuhlíðar.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Flekkuvíkursel

Skoðað var Flekkuvíkurselið. Þar eru mikil mannvirki, fallegur stekkur framundan því og kví norðar í skjólsælli kvos. Annar stekkur er norðar sem og stök tóft, sem vakti sérstaka athygli.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Flekkuvíkursel er drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð neðan Grindavíkurgjár. Í því sjást sex kofatóftir og kví auk stekkjanna. Vatnsstæðið er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna. Fáeinir steinar eru við það. Í örefnaskrá frá árinu 1976 segja Gunnar og Ólafur Erlendssynir að “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, hafi komið í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur.”
Norðan Flekkuvíkusels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman. Heita þær Bræður. Sunnan þeirra er hlaðið hringlaga byrgi á litlum hraunhól.

Heimild m.a.
Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir:

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Markasteinn
Gengið var suður með vestanverðri Setbergshlíð, um Gráhelluhraun, Þverhlíð, Seljahlíð og Svínholt. Dagurinn var jóladagur.

Perlumóðurský

Perlumóðurský.

Mannfólkið kúrði enn í híbýlum sínum, en Setbergslækurinn rann rólega sína leið og lék sér við klakaströnglið við bakkana. Mýsnar höfðu verið á kreiki um nóttina.
Birtan yfir Vatnshlíðarhorni og Sveifluhálsi var einstök, gulrauður morgunroðinn í sinni fegurstu mynd. Í austri trjónaði ílangt perlumóðuský er skipti litum í takt við morgunroðann; rauðleitt í fyrstu, en blánaði smám saman. Það tók á sig óskýra olíulitina, en hvítnaði loks og varð gegnsætt uns það samlagaðist himninum. Svo virtist sem skýið hafi viljað birtast þarna á áberandi stað í tilefni jólanna og gefa sem flestum kost á að berja sig augum, en líklegt er að fáir hafi notið augnakonfektisins á austurhimninum þennan fagra jóladagsmorgun.

Perlumóðurský

Perlumóðurský.

Perlumóðuký sjást gjarnan að vetri til á norðurhveli jarðar einkum á milli sólseturs og sólarupprásar. Þau eru olílituð og draga nafn sitt af þeim litabrigðum perluskeljarinnar. Skýn eru mjög sjaldgæf á þessum stað jarðarinnar, en þekkjast þó við norðurhvel jarðar, sem fyrr sagði. Þau myndast er sérstök veðurskilyrði, en eru ekki úrkomuský. Perlumóðuský verða til ofan við háský í um 25 km hæð og eru lýsandi næturský í um 80 km hæð. Þessar skýjagerðir, sem eru mjög sjaldgæfar, tengjast ekki veðri. Þennan jóladagsmorgun voru kjöraðstæður til þessa á höfðuborgarsvæðinu, heiður himinn og veðurstillur.

Perlumóðurský

Perlumúðurský.

Beygt var með Þverhlíðinni og stefnan tekin á Markaklett, landamerkjahornstein Urriðakots og Setbergs. Sagan segir að bóndinn á Urriðakoti hafi fyrrum heyrt rokkhljóð inni í steininum og dregið þá ályktun að í honum kynni að búa huldufólk. Þá hafa aðrir menn, sem það hafa og eru þekktir af því að skýra jafnan rétt frá, fyrir satt að þegar einhver reynir að nálgast steininn þverr honum allur máttur. FERLIR hafði áður sannreynt þetta í tvígang.
Enn ein saga segir að huldufólk geri jafnan vorhreingerninguna hjá sér á jólanótt. Þá hefst nýtt ár hjá huldufólkinu og því vilji það fagna með alsherjartiltekt. Álfarnir gera sér hins vegar glaðan dag á nýársnótt, en engir sértakir kærleikar eru með hudlufólki og álfum, ekki frekan en með mönnum og kálfum.

Markasteinn

Markasteinn.

Gengið var hljóðlega í átt að Markasteini. Létt marr greindist í snjónum, en andvarinn var á móti. Þegar komið var upp að hæðinni er skildi að klettinn og sjónhendinguna virtist einhver hreyfing við steininn. Það var enn morgunrökkvað svo erfitt var að greina hvað þetta var svo vel færi. Svo virtist sem vera kæmi út úr klettinum, staðnæmdist, beygði sig niður, greip eitthvað með sér og hvarf síðan inn í steininn aftur. Eftir stutta stund kom hún, eða einhver önnur, út aftur og greip eitthvað með sér og hvarf á braut.
Reynt var að læðast nær, en við það virtist koma styggð að hreyfingunum. Þær létu ekki sjá sig aftur. Utan við steininn sáust fótspor án sóla. Kjarrið bærðist í golunni. Fornfálegur stólfótur lá við klettinn. Hann var látinn liggja þar sem hann var.
Frábært veður. Lygnt og bjart (miðað við árstíma).

Markasteinn

Markasteinn.

Rjúpa

Dagurinn var jafnframt “Göngudagur fjölskyldunnar”.

Fornusel

Fornusel í Sýrholti.

FERLIR fóra að leita Fornuselja undir Sýrholti, jafnframt því sem ferðin var nýtt til berja.
Sýrholt er á milli Auðnasels og Flekkuvíkursels, svo til í beina stefnu. Mikill uppblástur og jarðvegseyðing er á svæðinu svo einungis gróðurtorfur eru þar á stangli.

Ferðin var ágætt dæmi um leit á svæði þar sem svo til engin vísbending er um mögulegar minjar og ef þær væru þarna einhvers staðar, þá hugsanlega hvar.
Hver hæðin tók við af annarri og auðvelt að ganga framhjá því sem leitað var að. Ef gengið er vinstra megin við hæð gætu tóftir auðveldlega leynst hægra megin – og öfugt.
Reynt var að nota áunna reynslu og þau skynfæri, sem duga oft best við þessar aðstæður; sjónina og sjötta skilningarvitið. Heyrn, lykt, tilfinning og málið koma yfirleitt að litlum notum við leit að minjum.

Sýrholt

Fornusel í Sýrholti.

Gengið var norðvestur fyrir Sýrholtið og gengið að því til suðausturs. Selin á Reykjanesskaganum eru yfirleitt í skjóli fyrir þeirri átt; rigningaráttinni, einkum þau elstu. Þegar farið var að nálgast svæðið var leitað að kenniletum, grasi og gróðurbollum. Það tók að þéttast mám saman. Þá var skyggnst eftir hugsanlegum hleðslum eða öðrum mannanna verkum. Fljótlega kom vörðubrot í ljós á litlum hraunhól.

Sýrholt

Sýrholt – hleðslur í gjá.

Óljós gata sást liggja framhjá því, með stefnu að öðru vörðubroti. Stefnan var á hæðina vestanverða. Þar utan í henni, á grasbala, komu tóftirnar í ljós, þrjár talsins. Erfitt er að koma auga á þær, en þær eru þó vel greinilegar þegar betur er að gáð.
Skammt norðvestar var önnur tóft á litlum grasbala. Mjög erfitt er að finna hana. Skammt norðar er hlaðinn stekkur í gróinni gjá.
Ekki er vitað hvaða bæ á Vatnsleysuströnd þessi selstaða tilheyrði, enda greinilega mjög gömul.
Frábært veður í haustlitunum. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Fornusel - Sýrholti

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Selatangar

Gengið var um Katlahraun, að fjárskjóli Vigdísarvallamanna, síðar Skála, Smíðahellinum, Sögurnarkórnum, Vestari lestargötunni, Nótahellinum og refagildrunum fremst á brúninni.

Selatangar

Fjárskjól við Selatanga.

Síðan var haldið austur um Tangana, staðnæmst við brunninn og þá gengið að vestustu búðinni í verstöðinni, litið á óninn, síðan verkhúsið og staðnæsmt við Dágon. Jón Guðmundsson frá Skála taldi Dágon merkja djöfull upp á dönsku, en aðrir hafa viljað halda því fram að um geti verið að ræða hljóðbreytingu úr dragon eða dreki. Alls ekki svo ólíklegt heldur.
Þegar fiskur var verkaður á Selatöngum voru sum byrgin, líkt og þau stærstu, notuð til að verka fiskinn í. Þess var vandlega gætt að “kjötið” kæmi hvergi saman og vel var pakkað svo loft kæmist ekki að. Þá var jafnan reynt að halda þessum verkhúsum köldum.

Selatangar

Selatangar – þurrkgarðar.

Í þurrki, eftir að fiskurinn hafði tekið sig, var hann færður á þurrkgarðana, sem eru þarna um alla tangana. Þess á milli var fiskurinn geymdur í minni byrgjunum, sem víðar eru og sum bara nokkuð heilleg, en í þeim loftaði vel um hann.
Gengið var um svæðið og skoðuð mismunandi byrgi. Staldrað var við Smiðjuna og austustu sjóbúðina áður en haldið var upp með Eystri-Látrum, kíkt á skjólin undir austurbakkanum og áð við helli þann er oftast hefur verið vart við Tanga-Tómas við. Rifjuð var upp sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda á sínum tíma.
Farið var yfir uppdráttinn af Selatangasvæðinu og gerðar lítilsháttar lagfæringar á honum. Nú er komin nokkuð heilleg mynd af þessu merkilega útveri.
Frábært vorveður. Gangan tók 1 klst. og 1. mín.

Á Töngunum

Á Selatöngum.

Baðsvellir

Skoðuð voru Baðsvallasel norðan Þorbjarnarfells. Baðsvellir voru notaðir til selstöðu frá Járngerðarstöðum uns hún var færð upp á Selsvelli vegna ofbeitar. Selið, sem greinilega er mjög gamallt, er undir hól við litla tjörn. Innan hennar er skógur. Í honum eru tóftir og urmull af kanínum. Undir hraunkanti vestan við Baðsvellina eru stekkir og fleiri tóftir.

Baðsvellir

Járngerðarstaðir brúkaði selstöðu á Baðsvöllum, en menn kvörtuðu um það á 19. öld að þar væru hagar of litlir og þröngir. Stórt mein var af vatnsleysi og þurfti fyrir þær sakir að kaupa selstöðu annars staðar. Járngerðarstaðamenn gerðu og tilkall til selstöðunnar í Fagradal norðan Fagradalsfjalls. Þetta kemur fram í lýsingu jarðarbókarinnar á Stóru Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi. “…aðra [selstöðu] vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, er þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn, að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar”. Húsatóftir hafði haft langvarandi selstöðu á Selsvöllum, en þangað var bæði langt og erfitt að sækja. Staður hafði einnig selstöðu á Selsvöllum.

Baðsvellir

Tóft á Baðsvöllum.

Ef tekið er mið af viðurkenndum, skráðum og lögformlega skráðum landamerkjabréfum má sjá að línan var dregin um Vatnskatla frá Litla-Keili og þaðan í Sogadal, sem fyrir var fyrrum sel frá Krýsuvík, en “eftirlét Kálfatjörn mánaðarselstöðu ár hvert”. Tóftin í dalnum, er slapp við eyðilegginu vegargerðarmanna vegna borsvæðis, er til vitnis um framangreint. Selsvellir eru allnokkru sunnar og þá vel innan landamerkja Grindavíkurbænda.
Það er athyglisvert, að selstöðunum er lýst sem sæmilega góðum, góðum eða merkilega góðum nema Baðsvöllum. Þar er hagar sagðir litlir og vatnsból ófullnægjandi. Þessi lýsing minnir á lýsingar Jarðarbókarinnar á selstöðum annars staðar á Reykjanesskaga, t.a.m. í Vatnsleysstrandarhreppi. Selstöðunum þar er ýmist lýst sem haglitlum eða vatnslitlum nema hvort tveggja sé, enda er þær flestar úti í hraununum norðan fjallgarðsins, sem liggur um skagann sunnanverðan.

Badsvellir-uppdrattur

Hins vegar eru selstöðurnar í Grindavíkurhreppi flestar á mörkum hraunanna og móbergshryggjanna sunnan til á skaganum og einkennast af grasigrónum hlíðum eins og við Hraunsel. Vatn skortir ekki af því að lækir koma úr hlíðunum, en hverfa síðan undir hraunin. Þó verður ekki á allt kosið. Því að víða er langt að fara og erfitt að sækja eins og kemur fram í lýsingunum, skemmst á Baðsvelli um 5 km, lengst frá Stað á Selsvelli, um 25 km eftir mjög góðri mælinu.
“Hvenær lögðust selfarir niður í Grindarvíkurhreppi? Í bók sr. Gísla Brynjólfssonar, Mannfólk mikilla sæva, Staðhverfingabók, 1975, er sagt frá seljunum á Selsvöllum og frá sr. Geir Backmann. Sr. Gísli telur líklegt, að prestar á Stað hafi lítið eða ekki notað selið eftir daga sr. Geirs, þ.e. 1850, en færir engar sönnur á það eða rökstyður. “Síðar”, segir hann, þ.e. eftir daga sr. Geirs, “þegar selfarir lögðust með öllu niður, urðu Selvellir smám saman afréttur sveitanna á Suðurnesjum, sem þeir eru enn í dag”.

 

Selskogur-221

Í þjóðháttasöfnum stúdenta, sem fram fór sumarið 1976 og beindist að fráfærum, var spurt um sel og selfarir. Fyrir svörum í Grindavíkurhreppi var m.a. Magnús Hafliðason frá Hrauni, f. 1891. Magnús sagði frá því, að foreldrar hann hefðu haft í seli í Hraunseli, sem væri um tveggja tíma ganga frá Hrauni. Þar hefðu verið hafðar kýr og kindur og hefði mjólkin verið unnin í selinu og mjólkurvörunar sendar niður eftir. Smali og ein stúlka hefðu verið í selinu, og hélt hann að hætt hefði verið að hafa í selinu um 1890. Þetta stingur nokkuð í stúf við frásögn Þorvalds Thoroddsens, sem fann rústir einar af Hraunseli árið 1883. Vera má, að tímasetning Magnúsar skeiki um rúman áratug eða svo. Selstaðan gæti hafa verið tekin þar upp aftur eftir að Þorvaldur fór þar um.

Badsvallsel

Magnús kennir fólksfæðinni á bæjunum um að hætt var að hafa í seli. Menn fóru að búa sjálfir og reyndu að eignast kýr fremur en ær eftir að selfarir lögðust niður. Magnús gefur hér í skyn að bústofn hafi breyst við það, að menn hættu að hafa í seli… Þessar ályktanir virðast vera rökréttar. Selstöður hafa lagst niður þegar fátt var um bæði nautgripi og sauðfé um 1870. Hinn stóraukni fjöldi sauðfjár frá 1879 virðist benda til þess, að fé hafi verið haldið til annarra nytja en mjólkurnytja og um leið til þess að áhugi á afréttarlöndum hefði orðið áhuganum á selstöðum yfirsterkari. Þó er ekki loku fyrir það skotið, að hjónin á Hrauni hafi tekið sig til eitthvert vorið og rekið búsmala sinn í selið, þótt allir aðrir væru hættir slíku tilstandi og selið hefði staðið autt og tómt og hálffallið um nokkurra ára skeið.

Baðsvellir

Baðsvellir.

Það má spyrja, hvað lifi enn eftir af þessum búskaparháttum, sem lögðust af fyrir um það bil öld. Í huga Magnúsar Hafliðasonar lifir minningin um selfarir foreldra hans. Hann kann einnig að segja frá öðrum seljum en Hraunseli, sem hann álítur að sé á Selsvöllum. Innar á Selsvöllum veit hann um Sogasel. Rétt mun vera, að Sogasel er fyrir norðaustan Selsvelli við Sog, suðvestan við Trölladyngju og Grænudyngju og var í landi Stóru-Vatnsleysu og nytjað frá Kálfatjörn, en ekki frá Stað eða Tóftum eins og haft er eftir Magnúsi.

Hópssel

Hópssel við Baðsvelli.

Magnús þekkir einnig Dalsel og segir það vera frá Húsatóftum, og hann veit um sel á Baðsvöllum. Margrét Daníelsdóttir, f: 1899, og Þorsteinn Ólafsson, f: 1901, bæði frá Grindavík, vissu um tvö sel á Baðsvöllum, það eystra frá Hópi, en hinu vissu þau eingin deili á. Ennfremur vissu þau um sel á Selsvöllum, sem þau þekktu ekki. Gísli Guðjónsson frá Hlíð í Gerðahreppi, f: 1891, hafði drukkið kaffi á Vigdísarvöllum, þegar hann var smákrakki. Hann áleit, að á Selsvöllum hefði getað verið sel. “Það veit enginn fyrir víst”.

Selskogur-222

Minnismerki við Baðsvelli.

Þetta er það sem stúdentar grófu upp um sel og selstöður í Grindavíkurhreppi sumarið 1976.
Á Alþjóðadegi Sameinuðu þjóðanna um skógrækt, 29. júlí 2011, var gengið um Selskóg norðan Þorbarnarfells. Gangan var liðuðr í “Af stað..:” gönguhátíð í umdæmi Grindavíkur. Jóhannes Vilbergsson, formaður skógræktarfélagsins gat eftirfarandi upplýsinga: “Skógræktarfélag Grindavíkur var endurstofnað árið 2006. Meðlimir eru í kringum 40 manns. Það er búið að planta rúmlega 20 þúsund plöntum frá 2006 megnið á norður og suðurhlið Þorbjarnar. Árið 2008 vann skógræktarfélagið í samvinnu við Landsvirkjun að átakinu „Margar hendur vinna létt verk“ og þar voru búnir til göngustígar, hreinsað frá ungum plöntum og áburður borin á. Einnig var plantað fleiri plöntum. Árið 2009 sótti Skógræktarfélagið um þátttöku í atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands. Við komumst að í því átaki og fengu 10 manns vinnu við það um sumarið, við að setja niður plöntur og bera áburð á eldri plöntur ásamt því að stígar voru lagfærðir o.m.fl.
Árið 2010 endurnýjuðum við samninginn og 20 manns komu að starfinu það sumarið.
Mjög góður árangur sést af þessu starfi í hlíðum Þorbjarnar frá vatnstankinum að eldri skógi sem dæmi.
Skógræktarfélagið sótti um skilti hjá Skógræktarfélagi Íslands, skiltið græna má sjá við aðkeyrslu inn í skógræktina. Árið 2011 vildi Grindavíkurbær ekki taka þátt í atvinnuátakinu svo minna hefur gerst þetta árið.
Fyrsti hluti af grisjun skógarins hefur farið fram, og hefur það verið í höndum fagmanna frá Skógræktarfélagi Íslands.
Hefur Skógræktarfélag Grindavíkur sótt um þetta frá endurstofnun félagsins, og loksins fengum við grisjunina. Grisjun skógarins bætir skóginn og sólarljósið kemst niður í skógarbotninn, og öll trén sem eftir verða fá að njóta sín betur.
Grunnskólinn hefur í mörg ár plantað græðlingum og Leikskólinn Krókur hefur einnig sett niður svolítið af plöntum. Allir eru velkomnir að taka þátt í starfi Skógræktarfélags Grindavíkur því það er okkar allra hagur að Selskógur sé útivistarparadís Grindavíkur.
Í fundargerð Kvenfélags Grindavíkur frá 24. okt. 1956 og síðan í fundargerð 1957 má lesa ýmsan fróðleik um stofnun skógræktar í Selskógi (Baðsvöllum).

Heimild:
-Þjóðháttasöfnun stúdenta 1976.

Baðsvellir

Sel á Baðsvöllum.

Selvogsheiði
Hásteinar

Hásteinar.

Gengið var um Selvogsheiði frá Svarthól, um selin í heiðinni, upp í Hellholt, í fallega hlaðið skjól með miklum mannvistarleifum í, á Vörðufell, í Ólafarsel og síðan niður á Strandarhæð, þar sem litið var í Strandarhelli, Bjargarhelli og Gap áður staðnæmst var við Árnavörðu.
Fylgdarmaður í ferðinni var Guðmundur kokkur Óskarsson, uppalinn í Þorkelsgerði í Selvogi og því gamalreyndur á svæðinu. Segja má að hann hafi etið hundasúru af svo til hverri þúfu í heiðinni er hann ráfaði þar um í leit að fjallagrösum á sínum berskuárum.
Lagt var af stað frá Svarthól, ofan við eyðilegan sumarbústað undir Hásteinum. Á klöpp í Stóra-Hásteini er klappað LM, mörk Ness og Bjarnastaða.

Hásteinar

Hásteinar – letur.

Undir austanverðum Svarthól sést móta fyrir tóftum á tveimur stöðum. Merkjagirðingin liggur þarna áleiðis upp í heiðina. Henni var fylgt eftir áleiðis að vörðu í hæðinni fyrir ofan. Undir henni er Bjarnastaðaból, talsverðar tóftir og stekkur mót vestri. Selið er í raun inni á núverandi Neslandi, en óvíst er hvort þessi mörk hafi verið í gildi þarna fyrrum. Húsin fimm í selinu er vel merkjanleg sem og önnur mannvirki. Það stendur hátt í heiðinni og má sjá frá því niður að Þorkelsgerðisseli í suðvestri, lægra í heiðinni.

Þorkelsgerðissel

Í Þorkelsgerðisseli.

FERLIR hafði áður verið bent á að Bjarnastaðasel (-ból) væri við Hásteina, þ.e. tóftirnar þar, en hér er greinilega um hið rétta sel að ræða. Nessel er suðaustan við Hnúkana.
Þorkelsgerðissel hefur einnig að geyma nokkrar tóftir og stekk utan í hraunhól skammt norðar. Eimuból er norðan við Vörðufell. U.þ.b. 10-15 mínútna gangur er á milli seljanna í heiðinni. Bæði er seltóft ofan við gróið jarðfall og niður í því.

Eimuból

Stekkur í Eimubóli.

Hellholt

Hellholtshellir.

Í Eimuhelli í jarðfallinu er hlaðinn stekkur. Umhverfis jarðaflið er hlaðið gerði. Kví er og ofan við það. Í örnefnaskráningu fyrir Eimu segir m.a.: “Fyrir norðan [Vörðu]fellið er Eimuból alveg við mörkin. Þar eru hellar með húsveggjum.” Vindássel er skammt vestar, nokkur tóft og stekkur.
Haldið var upp eftir heiðinni, á Hellholt. Í því er Hellholtshellir, stór inngöngu en frekar stuttur. Botninn er flóraður að hluta.
Nokkir smáhellar er undir Hellholti, flestir með mannvistarleifum í. Líkast til hafa þeir verið notaðir sem fjárskjól í gegnum tíðina. Ofan við Hellholtið er Girðingarréttin (Selvogsréttin nýrri). Gamla réttin er á Vörðufelli, stór og dilkrík með löngum leiðigarði til norðurs. Á leiðinni niður að fellinu var komi við í Skjólinu, merkilegu fyrirbæri.

Skjólið

Skjólið – op, hleðslu fyrir framan.

Það er hellisskúti að sjá, en þegar að er komið eru miklar hleðslur, grónar, fyrir munnanum. Gangur liggur niður og þegar þangað er komið tekur við slétt hellisgólf, salur. Varla er arða á gólfi, utan eitt bein inn undir skilum lofts og veggjar. Þarna sést hin mikla hleðsla vel. Hægt er að fara inn fyrir hana hægra megin og inn í afhelli, sem þar er. Ekki er vitað hvaða tilgangi þetta mannvirki hefur átt að þjóna í heiðinni, nema ef vera skyldi forðabúr eða geymsla. Strandarsel er þarna skammt vestar oh fyrrnefnd sel sunnar. Fjárskjól er skammt austar. Ofan við opið er hlaðinn stekkur. Þarna gæti hugsanlega hafa átt að vera selstaða frá einhverjum bænum ef tekið er mið af mannvirkjunum næst Skjólinu.
Á Vörðufelli er, auk réttarinnar, Smalavörður og Vörðufellsvarðan. Smalavörður voru hlaðnar af smölum. Segir sagan að það hafi verið vís leið til að finna eitthvað týnt að hlaða vörðu þarna því þá kom hluturinn óðar í leitirnar. Undir Vörðufellsvörðunni er klappað krossmark á jarðfasta klöpp. Efsti hluti hans hefur brotnað af.

Strandarhaed-34

Hleðslur í Bjargarhelli.

Ólafarsel er skammt sunnan við Vörðufelli, neðan nýrra hrauns, Vörðufellshrauns, sem liggur sunnan fellsins. Það er ein tóft og stekkur skammt austar, undir hraunkletti. Segir sagan að þar hafi áður komið volgt vatn upp úr hraunkantinum. Leiðin upp heiðina, yfir að Hlíðarenda, Litlalandi o.fl. bæjum undir bergbrúnunum, liggur skammt austan við selið.

Strandarhellir

Strandahellir.

Strandarhellir er fornt fjárskjól í jarðfalli. Samkvæmt gömlum heimildum er hann sagður hafa rúmað 200 fjár. Hlaðið er umhverfis ofanvert jarðfallið líkt og í Eimubóli. Skammt norðvestan við það er hlaðið gerði umhverfis hraunhól.
Bjargarhellir er skammt sunnar, fallegur fjárhellir, með sína leyndardóma. Sagt er að í hellinn hafi Selvogsbúar ætlað að flýja ef Tyrkirnir kæmu aftur, en af því varð ekki. Sögnin er sú að við opið hafi átt að vera hraunhella, sem hægt var að láta yfir og loka. Það gengur ekki upp hvað varðar Bjargarhelli.
Skammt suðvestar er hins vegar op í grónum hraunhól. Þegar komið er niður er þar nokkuð rúmgott skjól. Hraunhella gæti auðveldlega lokað opinu. Skammt suðvestar eru Stóri-Skolli og Litli-Skolli, hraunskjól undir Hellholti.
Gapstekkur er skammt vestar. Inni í honum er Gapi eða Gaphellir, einnig fjárskjól. Nafnið er tilkomið vegna þess að þegar komið er að hellinum úr suðri gapir opið við viðkomandi. Gapi var einnig áningarstaður fyrir ferðamenn á leið um Fornugötu. Nokkur önnur mannvirki eru í hæðinni, en þau voru ekki skoðuð að þessu sinni.
Staðnæmst var við Árnavörðu á Dalhólum er Kristófer Bjarnason og fleiri endurhlóðu fyrir ekki svo löngu síðan. Hún var lengi eitt af kennileitum hæðarinnar. Skammt norðan við hana liggur gamla þjóðleiðin, Fornugata, sem enn má sjá móta fyrir. sunnar er Dalurinn. Vestar er varða (vörður), nefnd Dalhólabyrgi. Skammt vestar er stór ferhyrnd varða, nefnd “Skálinn”. Umleikis hana eru hleðslur. Þórður Sveinsson telur að þarna hafi fyrrum verið skáli, afdrep, t.d. fyrir smala í heiðinni. Líklegra má þó telja að þarna hafi fyrrum verið gatnamót, annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Fornugatna og Útvogsgötu (niður í Selvog).
Af Strandarhæð er ágætt ústýni upp að Svörtubjörgum og inn Strandardal þar sem Selvogsgatan liðast um hann áleiðis að Hvalskarði. Á Svörtubjörgum er Eiríksvarðan. Þótt hún sé ekki nema tæplega mannæða há sést hún vel þar sem hún trjónir efst á fjallinu.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur.