Straumssel

Í Fjallkonunni 1890 er m.a. fjallað um „Lax og selr„. Um selin segir:

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

„Selstöður eru, nú orðið, því nær ekkert notaðar hjá því sem var á fyrri öldum. Eins og enn er ástatt með jarðræktina hér á landi, má það óefað teljast afturför í landbúnaðinum, að hafa ekki í seli, þar sem svo stendur á, að gott er um selstöður enn heimaland rýrt. Fyrst er nú það, að málnytan verði meiri og betri í seljunum og skepnurnar þó oftast feitari og holdþéttari enn heima; og í öðru lagi „hvílast“ heimalöndin svo að beitin verði drýgri og betri á þeim haust og vetur; enn fjallabeitin, sem ekki næst í nema um miðhluta sumarsins, vinnst betur upp enn ella. Sauðum (gömlum) er nú víða farið svo að fækka, að það léttir mikið á afréttarlöndunum á sumrin, og er því fremur ástæða til að nota gæði þeirra sem mest má verða á annan hátt, þenna stutta tíma sem þau bjóðast.

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – samvinnuselstaða.

Líklega er það aðalástæðan fyrir mörgum, að nota ekki selstöður, að það sé of kostnaðarsamt með fólkshald, áhöld og hesta til selflutnings, fyrir ekki fleiri málnytupening enn á flestum búum er. Enn þessi ástæða hyrfi ef menn kæmu sér saman um félagsskap í þessu sem fleiru. Ef 3 bændur, sem eiga um 50 ær, legðu saman í sel, og legðu til einn mann hver (2 í selið, 1 til flutninga), og annan tilkostnað eins að hlutfalli, mundi það til lengdar verða miklu kostnaðarminna enn heimagæsla víðast hvar, því heima þyrftu þeir sinn smalann hver, auk allra annara tafa við málnytuhirðinguna, þó ekki væri búist við neinum mismun að öðru leyti. Selfólkið getur líka oft haft einhver smávegis aukastörf, ef tími er til, t.d. safnað fjallagrösum m.fl.

Snorrastaðasel

Snorrastaðasel við Háabjalla – kúasel.

Kýr ætti að hafa í seli eigi síðar enn ær. Í þéttbýlum sveitum eru kýr oft til mestu vandræða; þær vaða yfir tún, engjar og sáðgarða, og valda oft miklum usla og töfum. Eru því aldrei látnar í friði, enn hraktar með hundum milli bæjanna, til mikils hnekkis fyrir gagnsmunina af þeim. Þar sem svo á stendur, væri sjálfsagt betra að hafa þær í félagsskap í seli, að minsta kosti flestallar, þó haldið væri eftir heima einni eða svo á búi.
Þessi atriði eru þess verð, að þau séu athuguð.“

Í Frey 1962 er skrifað um „Mjólkurneyslu„: Íslendinga:
„Samhliða vexti þorpa, kauptúna og kaupstaða, hefur á dyrnar knúð þörfin á því að laga sig eftir aðstœðum og útvega mjólk til neyzlu, í líkum mæli og gerzt hefur um allar aldir Íslandsbyggðar, en allt frá landnámsöld til vorra daga hefur mjólkin verið snar þáttur í nœringu þjóðarinnar.

Skálafell

Skáli Ingólfs í Skálafelli, fornleif með vísan í Landnámu. Þarna ku Ingólfur hafa haft geldneyti í seli og ræktað korn á Gullakri.

Á fyrstu öldum byggðarinnar er líklegt, að kýrnar hafi verið aðal málnytupeningur og sagnir eru af því og ábyggilegar heimildir, að stórbú voru eigi fátíð og nautahjarðir stórar.
Síðar hefur sauðfé fjölgað og af selstöðum, þar sem kýr voru mjaltaðar, eru til margar sögur og ábyggilegar. Langt er síðan selstöður lögðust niður hér á landi, og aðeins eru nokkrir áratugir siðan fráfœrur lögðust niður, en með þeim hvarf neyzla sauðamjólkur með öllu, nema ef einhverjir neyta enn sauðaþykknis á haustnóttum.
Nú er það kúamjólkin, sem er eina nœring þjóðarinnar af mjólkurtagl. Þegar þjóðin bjó öll í sveitum var fyrirhafnarlitið að koma mjólkinni frá framleiðslustað til neyzlustaðar. Hvert heimili var hvort tveggja, nema þegar þurrabúðarfólk átti í hlut eða fátœklingar með eina kú, sem auðvitað var þá geld tíma úr árinu, en þeir, sem svo illa voru settir að eiga ekki mjólkandi kýr, voru upp á annarra náð komnir eða urðu að líða skort annars, einkum í harðindum. Kýrin var „fóstra mannkynsins“ og það er hún raunar að vissu marki þann dag í dag á okkar landi.“

Lesbók Morgunblaðsins 1951 rifjar upp konungsbréf frá árinu 1754 er kveður á um „Viðhald selja„:

Hlöðunessel

Hlöðunessel – frá fornu fari.

„Á 18. öld þegar einokun, fjárkúgun og ill stjórn hafði drepið allan dug úr Íslendingum og landið var auk þess í kaldakoli af harðindum og fjárfelli og fólkið hrundi niður úr hungri, hugkvæmdist dönsku stjórninni að bæta úr þessu. Var gefið út konungsbrjef 24. febr. 1754 er fyrirskipaði bændum að hafa í seli, að minsta kosti tveggja mánaði tíma, frá því er átta vikur væri af sumri til tvímánaðar. Lagaboð þetta varð auðvitað ekki að neinu gagni.“

Heimildir:
-Fjallkonan, 31. tbl. 14.10.1890, Lax og selr, bls. 122-123.
-Freyr, 5. tbl. 01.03.1962, Mjólkurneysla, bls. 5.
-Lesbók Morgunblaðsins, 39. tbl. 07.10.1951, Selstöður, bls. 452.

Förnugötur

Straumsselsstígur austari/Fornaselsstígur/Gjáselsstígur.

Rósel

Í Víkurfréttum 2018 er fjallað um „Þrjátíu ára skógrækt við Rósaselstjarnir“ ofan Keflavíkur. Auk þess sem „Rósaselstjarnir“ eru ranglega stafsettar, eiga að vera „Róselstjarnir„, er skógræktinni hrósað í hástert, þrátt fyrir eyðilegginguna á fornminjunum sem þar eru, og hvergi er minnst á, hvorki hina fornu „Hvalsnesgötu“ né á „Róselin“ tvö við vötnin. Selin frá Hólmi við þau nefndust Rósel.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleið fyrir skógrækt.

„Í ár eru liðin þrjátíu ár síðan hafin var skógrækt við Rósaselstjarnir. Það er svæði sem er ofan byggðarinnar í Keflavík. Svæðið var innan sveitarfélagsmarka Sveitarfélagsins Garðs og tilheyrir nú sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis. Svæðið hefur hins vegar í áratugi verið vinsælt útivistarsvæði hjá Keflvíkingum og verið leynd perla sem lengi var innan flugvallargirðingar. Fólk læddist yfir eða undir girðinguna til að fara á skauta á frosnum tjörnunum.

Árið 1988 hóf Rotaryklúbbur Keflavíkur að gróðursetja við Rósaselstjarnir. Þá var svæðið enn innan girðingar og vaktað af Varnarliðinu og því þurfti leyfi frá Varnarliðinu til að fara á svæðið til gróðursetningar.

Konráð Lúðvíksson

Konráð Lúðvíksson.

Konráð Lúðvíksson læknir hefur tekið þátt í gróðursetningunni í öll þessi ár, enda með græna fingur og áhugasamur um uppgræðslu á svæðinu. Í samtali við Víkurfréttir sagði Konráð að fyrsta verkið fyrir 30 árum hafi verið að fara með vörubíl í Heiðmörk ofan Reykjavíkur og sækja þangað lúpínu sem hafi verð sett niður við Rósaselstjarnir. Hún hafi verið grunnurinn að því sem þarna er í dag og myndað bæði jarðveg og skjól.
Rotarymenn úr Keflavík hafa árlega gróðursett 300 trjáplöntur á svæðinu og því hafa verið sett niður 9000 tré af klúbbnum þessa þrjá áratugi.
Fleiri hafa komið að gróðursetningu á svæðinu. Þannig hefur Oddfellowreglan komið að gróðursetningu við tjarnirnar, einnig Vímulaus æska og Lionessur. Þá er Fjölbrautaskóli Suðurnesja með svæði við tjarnirnar í fóstri og Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti, setti niður plöntur við Rósaselstjarnir og þar er lundur í hennar nafni.

Hvalsnesleiðin forna

Hvalsnesleiðin forna – með tilkomu skógræktarinnar.

Eftir að malbikaður göngu- og hjólreiðastígur var lagður frá Eyjabyggðinni í Keflavík og að Flugstöð Leifs Eiríkssonar er útivistarsvæðið við Rósaselstjarnir orðið mun aðgengilegra. Áður hafi þarna bara verið hálfgerður jeppaslóði en nú sé auðveldara að koma aðföngum að svæðinu og hugmyndir eru uppi um frekari uppbyggingu við tjarnirnar. Áhugi sé fyrir því að leggja stíg kringum tjarnirnar.
Eins og áður segir er svæðið innan sveitarfélagsmarka nýs sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis þó svo það liggi aðeins nokkuð hundruð metra frá efstu byggð í Keflavík.

Rósel

Rósel vestara við Róselstjarnir.

Konráð rifjar upp að þegar menn sýndu svæðinu fyrst áhuga til skógræktar fyrir 30 árum, þá hafi heyrst áhyggjuraddir utan úr Garði að þarna væru Keflvíkingar hugsanlega að sölsa undir sig þetta svæði. Konráð segir af og frá að Rósaselstjarnir séu einkamál Keflvíkinga, þetta sé áhugavert útivistarsvæði og náttúruperla fyrir alla. Rotaryfélagar hafi aðeins gert svæðið verðmætara sem útivistarsvæði með gróðursetningu síðustu þrjá áratugi.
Konráð segir að gróðursetningin á svæðinu hafi tekist vel. Þar eru hæstu tré í dag á sjötta metra og svæðið hafi tekið miklum framförum á síðustu árum með breyttu veðurfari og betri vaxtarskilyrðum. Fyrstu trjáplönturnar á svæðinu hafi verið Tröllavíðir en nú sé meiri fjölbreytni.

Rósel

Rósel 2020 – umlukið trjárækt.

Eins og kemur fram hér að framan þá eru Rotaryklúbbur Keflavíkur og Fjölbrautaskóli Suðurnesja einu aðilarnir sem séu að setja niður trjáplöntur við Rósaselstjarnir. Konráð hvetur fleiri aðila til að koma að verkefninu og taka svæði við tjarnirnar í fóstur ef svo má segja. Það sé skemmtileg dagstund að taka þátt í gróðursetningu og gera sér svo glaðan dag á eftir. Þannig hafi Rotaryfólk gefið sér góðan klukkutíma í að gróðursetja og svo var slegið upp grillveislu og fólk gerði sér glaðan dag.“

Þegar FERLIRsfélagar voru á göngu um Hvalsnesgötu ofan Keflavíkur árið 2015, austan Róselsvatna, vakti athygli þeirra fólk, sem var að planta trjám í þá fornu götu. Þegar það var spurt hverju gengdi svaraði það að þarna í gróningum væri svo gott skjól fyrir plönturnar.
Þegar því var bent á að „gróningarnir“ væru forn gata á milli Keflavíkur og Hvalsness og þar með taldir til fornleifa, virtist það koma af fjöllum – sem þó eru engin á Suðurnesjum.

Heimild:
-Víkurfréttir, 24. tbl. 14.06.2018, Þrjátíu ára skógrækt við Rósaselstjarnir – hæsta tré á sjötta metra, bls. 12.

Rósel

Róselsvötn.

Herdísarvíkrugata

Við Herdísarvíkurgötu  á Deildarhálsi, hina fornu leið milli Herdísavíkur vestan Selvogs og Krýsuvíkur, er skilti Náttúruverndarstofnunar og Minjastofunar Íslands. Á skiltinu má lesa eftirfarandi:

Herdísaríkurgata

Herdísarvíkurgata – skilti.

„Herdísarvíkurgata liggur milli bæjanna Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Hún er að einhverju leiti vörðuð og sést á nokkrum stöðum að hún er grafin í hraunið eftir fætur manna og hesta sem notað hafa götun[a] í gegnum tíðina. Leiðin hlykkjast í gegnum hraun og meðfram hlíðum fjalla og á einstaka stað er hún rofin vegna nútíma vegaframkvæmda. Gamlar götur finnast víða og lágu þær á milli bæja, kirkjustaða, verbúða, verslunarstaða eða landshluta.
Mikilvægt er að ganga ofan í förunum til að viðhalda þeim svo ekki grói yfir þau. Þessar götur og vörður eru friðaðar fornleifar.“

Kortið á skiltinu er af Herforingjaráðskortinu frá 1910. Vegur frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949. Árin 1946 og ’47 var síðan lagður akfær vegur milli Ölfus og Grindavíkur. Sá vegur hefur að nokkru leyti legið í farvegi þess vegar er hinn nýi Suðurstandarvegur var opnaður árið 2012.

Herdísarvíkurgata

Herdísarvíkurgata 1910 – Herforingaráðskort.

Reykjanes

Í Íslenskum söguatlas er lítillega getið um  „Afdrifarík eldgos runnin eftir landnám“ á Reykjanesskaga:

Reykjanes„Eldsumbrot voru tíð á Reykjanesskaga á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Eldgos urðu bæði á landi og neðansjávar suðvestur af Reykjanesi. Síðast gaus á skaganum á fjórtándu öld en í sjó gaus síðast 1926. Eitt þekktasta eldgos á þessu svæði eru Krýsuvíkureldar sem munu hafa verið árið 1151 en þá runnu Ögmundarhraun og Kapelluhraun. Annað þekkt eldgos varð við Eldeyjarboða 1783. Þá myndaðist eyja sem nefnd var Nýey en hvarf skömmu síðar í hafið.
Áður óþekkt eldgos sem uppgötvað hefur verið á síðustu árum eru Reykjaneseldar. Þeir virðast hafa verið á árabilinu 1210/1211 til 1240. Þá urðu eldgos bæði neðansjávar undan Reykjanesi og á landi með nokkurra ára millibili.

Eldey

Eldey.

Í fyrsta eldgosinu (1210/1211) myndaðist Eldey. Öflugustu goshrinurnar virðast hafa verið 1226/1227 og 1231. Árið 1226 varð mikið öskugos við Reykjanestána og er öskulagið sem þá myndaðist nefnt Miðaldalag. Í kjölfar öskugossins runnu sex hraun á utanverðum Reykjanesskaga. Þau eru vestri Yngra Stampahraun, Tjaldstaðagjárhraun, Klofningahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Goshrinan hófst vestast og færðist með tímanum til austurs. Þannig er Yngra Stampahraunið elst en Arnarseturshraun yngst. Öll hraunin hafa lagst ofan á Miðaldalagið nýfallið. Hraunin hafa að líkindum lagt í auðn svæði sem búið hefur verið á enda greina munnmæli svo frá að Staður í Grindavík hafi áður verið í miðri sveit en er nú á sveitarenda.

Karlinn

Karlinn á Reykjanesi – afurð Nýeyjar?.

Mesta eldgos sem orðið hefur eftir að land byggðist og skóp helsta ösklagið á þessum slóðum myndaðist 1226 er nefnt Miðaldalagið. Það kom úr gíg sem leifar sjást enn af við Reykjanestána. Drangur sem stendur þar skammt undan landi og heitir Karl mun vera hluti af gígnum. Askan dreifðist til norðausturs yfir allan Reykjanesskagann, austur í Flóa og upp í Borgarfjörð. Í annálum er þess getið að þetta ár hafi eldur verið uppi i sjónum undan Reykjanesi og myrkur verið um miðjan dag. Sandvetur var veturinn 1226-27. Aftur varð allmikið öskugos að líkindum á sömu slóðum sumarið 1231.
Miðaldalagið hefur komið að góðum notum við aldursgreiningar á hraunum og fornum mannvistarleifum á Reykjanesskaga.“

Heimild:
-Íslenskur söguatlas, bls. 48-49.
Reykjanes

Suðurkot

Í Morgunblaðinu árið 1991 er minningargrein um Þórdísi Símonardóttur í Suðurkoti á Vatnsleysuströnd. Minningar afkomenda hennar lýsa vel stöðu kvenna sem og gefandi mannlífinu á Ströndinni um og í kringum aldarmótin 1900:

Þórdís Símonardóttir

Þórdís Símonardóttir (1894-1991).

„Þórdís Símonardóttir fæddist árið 1894 að Götu í Holtum, dóttir hjónanna Gróu Guðmundsdóttur og Símonar Símonarsonar. Systkini Þórdísar voru átta, sex bræður og tvær systur. Ung að aldri fluttist hún með foreldrum sínum suður á Miðnes og síðan á Vatnsleysuströnd þar sem hún bjó alla tíð síðan. Giftist hún afa mínum, Kristjáni Hannessyni, átján ára gömul og bjó hún með honum lengst af í Suðurkoti á Vatnsleysuströnd. Eignuðust þau átta börn.
Það var gott að geta farið til ömmu, yfir í Suðurkotið, í frímínútum þegar ég var í Brunnastaðaskólanum. Hún átti alltaf eitthvað í svanginn, góð ráð, plástra og í raun hvað eina sem á þurfti að halda. Á seinni árum barnaskólans fór ég að fara oftar til ömmu og gista hjá henni nótt og nótt. Það var svo sannarlega ekki bara af skyldurækni, vegna þess að hún var orðin gömul og ein í húsinu, heldur miklu frekar vegna þess að ég hafði ómælt gaman af. Það fór ekki illa um mig þegar hún bar mér heitt súkkulaði í „beddann“ á sunnudögum eða þegar hún klóraði mér og sagði mér jafnframt sögur úr Biblíunni eða frá fyrri árum.

Suðurkotsskóli

Suðurkotsskóli (Brunnastaðaskóli). Suðurkotsskóli var byggður 1872.
Árið 1938 breytir Suðurkotsskóli um nafn og heitir eftir það Brunnastaðaskóli.

Það hefur verið góður skóli fyrir mig sem krakka að heyra hve margt hafði breyst á hennar löngu ævi, og oft hefur verið þröngt í búi hjá henni blessaðri, sem upplifði tvær heimsstyrjaldir og þær geysilegu breytingar sem orðið hafa á íslensku þjóðlífi á ævi hennar.
Hún var ekki rík af veraldlegum auði, en þeim mun ríkari af andlegum, sem við afkomendur hennar fengum svo sannarlega að kynnast. Ég mun líka seint gleyma því þegar hún kenndi mér að verka grásleppur, í Norðurkotinu, þegar ég strákguttinn tók upp á því að vilja framleiða signar grásleppur eftir að hafa sníkt þær af grásleppukörlunum í hverfinu. Það var líka ómæld elja sem einkenndi hana. Við munum örugglega mörg eftir henni þar sem hún studdi sig við hækjuna og bakaði flatkökur á gömlu eldavélinni sinni.
Þórdís SímonardóttirEn svo fór þó að hún gat ekki lengur verið í Suðurkoti og flutti hún sig því um set í Vogana til okkar. Alltaf fylgdi góða skapið henni og var hún oft skondin og snögg í tilsvörum. Henni fannst það óþarfa uppátæki þegar ég tók upp á því að fara til náms í Þýskalandi og spurði hún mig oft, með stríðnissvip, hvort ég hefði nokkuð rekist á hann Hitler. Alltaf þekkti hún mig og gat gert að gamni sínu þegar ég heimsótti hana.
Brunnastaðaskóli var þinghús hreppsins á þeim tíma, og allar samkomur og skemmtanir fóru þar fram. Segja má að menningarstraumar hreppsins hafi legið í gegnum Suðurkotshlaðið og kom þá oft í ömmu hlut að sjá um veitingar fyrir þá embættismenn sem þinguðu i skólanum. Oft var því mikið að gera og margt um manninn í Suðurkoti. Það voru margar flatkökurnar sem hún bakaði á gömlu olíueldavélinni sinni, því að flatkökurnar hennar Dísu voru bestar af öllum.
SuðurkotEins var það, þegar krakkarnir meiddu sig í skólanum, þá var alltaf farið til hennar Dísu á Hól og hún látin gera að sárunum. Eftir að afi dó flutti ég niður til ömmu. Ég man þegar hún vakti mig í fyrsta skipti eldsnemma á páskadagsmorgun til að sýna mér, hvernig sólin kæmi dansandi upp frá Keili. Hún sagði að sólin dansaði alltaf þennan morgun til að fagna upprisu frelsarans.
Upp frá því vöknuðum við amma alltaf saman þennan morgun og horfðum á þessa stórkostlegu sjón.

Suðurkot

Suðurkotshúsið núverandi var byggt 1930.

Það var alltaf fastur siður hjá okkur að draga mannakorn sem svo eru kölluð áður en við fórum að sofa á kvöldin. Þá drógum við til skiptis upp úr kassanum og hún las svo þær ritningargreinar, sem við hittum á. Oft fengust þar beinlínis svör við því sem við vorum að hugsa um þá stundina. Alltaf talaði hún amma lengi við Guð persónulega upphátt á hvetju kvöldi áður en hún lagðist til svefns og eins áður en hún klæddist á morgnana. Lengi rak hún sunnudagaskóla með ömmu í Austurkoti og systrunum Maríu og Margréti.
Það var stór barnahópur sem þangað kom. Mikið var sungið og lesið þessar sunnudagsstundir og öllum þótti gaman. Alltaf gátum við systkinin komið til hennar ömmu með áhyggjur okkar og vandamál, því að hún hlustaði alltaf og gaf góð ráð. Svo voru líka þær stundir þar sem var hlegið og gert að gamni sínu, því að amma var mjög létt í skapi og gat hlegið mikið.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ. Grund er efst á uppdrættinum.

Þórdís og Kristján byrjuðu búskap á Grund. Það var lítill bær á Tanganum þ.e. Béringstanga. Þar fæddust fimm elstu börnin en 1922 var flutt inn í Suðurkot og byggður þar bær. Þar fæddust tvö börn til viðbótar. 1930 var byggt húsið sem enn stendur og þar fæddist yngsta barnið.
Á Grund var það sem kallað var tómthús, þ.e. eingöngu búið með kindur. Sjálfsagt hafa þær ekki verið margar. Það var sjávarfangið sem þetta fólk lifði á, sem bjó í þessum litlu bæjum. Því alls staðar var róið. Það var ekki svo aumt kot að ekki væri til bátur.
Ég er stundum að hugsa um hvernig þetta fólk komst fyrir. Það var bókstaflega ekkert gólfpláss eins og í gamla bænum í Suðurkoti, en samt var eins og alltaf væri nóg pláss. Það var leikið sér þarna, inni gengið í kringum jólatré um jólin, sungið og spilað. Dísa og Stjáni, eins og ég kallaði þau alltaf, voru ákaflega létt í lund og þar sem foreldrar mínir bjuggu á hinum helmingi jarðarinnar var þarna mikill samgangur og við frændsystkinin lékum okkur saman. Það er margs að minnast frá mínum æskudögum í Brunnastaðahverfinu. Þá voru 11 bæir og sums staðar fjölmenn heimili, fólk rétti hvort öðru hjálparhönd ef með þurfti, þess er gott að minnast.
SuðurkotÞað er stór hópur afkomenda þeirra Þórdísar og Kristjáns, alls 130 manns. Það er mikið starf sem þessi kona hefur innt af hendi á sinni löngu ævi, lengst af við engin þægindi í þröngum húsakynnum mörg fyrstu búskaparárin. Því það voru ekki eingöngu innistörf, það var verið í heyskap og farið í fjós. Það var alltaf góður andi á heimilinu, þau voru bæði létt í lund, ég man hvað hann Stjáni gat hlegið innilega.
Í Suðurkoti var Þórdís búin að vera húsmóðir í rösk 60 ár. Kristján andaðist 10. nóvember 1961, eftir það var hún ein í sinni íbúð. En síðustu 8 árin var hún til heimilis hjá Hrefnu dóttur sinni í Vogum.“

Heimild:
Morgunblaðið, 77. tbl. 06.04.1991, Þórdís Símonardóttir, Minning, bls. 45.

Suðurkotsskóli

Suðurkot og nágrenni – loftmynd 2024.

Suðurkotsskóli

Í Faxa árið 1982 og í Víkurfréttum 2022 er m.a. fjallað um „Sögu skólana í Vatnsleysustrandarhreppi„:

„Í Vatnsleysustrandarhreppi hafa verið byggð mörg hús fyrir barnaskóla og grunnskóla og öll bera þau nafnið skóli. Fyrstan má nefna Thorkilliibarnaskólann, sem fékk fljótt nafnið Suðurkotsskóli. Það hús var stækkað úr 54 m2 í 82 m2 árið 1886 og endurbyggt á sama grunni 1907, án þess að nafnið breyttist. Í dag, 2025,  stendur grunnur skólans einn eftir.

Suðurkotsskóli/Brunnastaðaskóli

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi – túnakort 1919. Skólinn er merktur miðsvæðis t.v.

Suðurkotsskóli (Brunnastaðaskóli) var settur á laggirnar 1. október 1872. Hann var byggður á Suðurkotslandi í
Brunnastaðahverfi og átti þar hálflenduna. Tildrög að því að skólinn var byggður á Suðurkotslandi voru þau að uppboð var haldið á svokallaðri Brunnastaðatorfu og voru kaupendur þrír: Guðmundur Ívarsson sem keypti helming og Egill Hallgrímsson og Jón Breiðfjörð sinn fjórðung hvor. Hálflenduna gáfu þeir skólanum.
Séra Stefán Thorarensen prestur á Kálfatjörn var aðalhvatamaður að stofnun skólans. Hann stóð að samskotum til byggingar hans og einnig var haldin hlutavelta. Þó fór svo að samskotin nægðu ekki alveg og þá var tekið það ráð að fá lán úr svonefndum Thorcillissjóði, sem var stofnaður eftir lát Jóns Þorkelssonar fyrrum Skálholtsrektors 1759. Sjóðurinn hafði það markmið að kosta fræðslu fátækra og munaðarleysingja í átthögum Jóns. Brunnastaðaskóli hlaut árlegan styrk úr sjóðnum.

Suðurkotsskóli

Suðurkot og nágrenni – loftmynd 2024.

Maðurinn sem byggði skólann hét Stefán og var hann kallaður snikkari, þá bóndi í Minni-Vogum, Vogum. Það var mikið verk og erfitt, kaupið var 2-3 krónur á dag. Verkið hófst í júní og lauk sama ár eða 1. október 1872. Allt timbur var aðkomið frá Reykjavík. Skólahúsið var hin myndarlegasta bygging í þá daga. Það var byggt úr timbri, 16 álnir á lengd og 14 álnir á breidd og var það loftbyggt. Í norðurenda þess á neðri hæð var kennt í stórri stofu. Fyrsti kennari skólans var Oddgeir Guðmundsen lengst af prestur í Vestmannaeyjum.
Skólinn var einskonar miðstöð sveitarinnar, þangað var t.d. sendur allur póstur svo börn gætu farið heim til sín með hann.
SuðurkotsskóliSkólaárið í Suðurkots/Brunnaststaðaskóla var flest árin fullir 6 mánuðir en sum árin styttra í hverfisskólunum, enda var farkennsla til sveita oft ekki nema 2 mánuðir á ári á hverjum stað – langt fram á 20. öld! Veturinn 1909 -‘10 var Haraldur Sigurðsson, stúdent, frá Sjónarhóli, eini kennarinn, kenndi 3 daga vikunnar í Suðurkoti (16 börnum) og 3 í Norðurkoti (19 börnum). Þetta hefur ekki verið auðvelt, Haraldur sagður heilsulítill, var með stúdentspróf og aðeins ráðinn þetta eina skólaár.
Næstu 4 skólaár voru 2 kennarar, einn á hvorum stað, og kennt 6 mánuði 6 daga vikunnar. Haustið 1918 var engin kennsla 14. nóv. – 11. des. meðan spænska veikin greisaði grimm. Það kom oftar fyrir að loka þurfti skólanum í nokkra daga vegna inflúensu.

Suðurkotsskóli

Grunnur Suðurkotsskóla framst t.v. Brunnastaðir efri fjær.

Í bréfi Ögmundar Sigurðssonar prófdómara frá 1909 er Suðurkotsskóli nefndur Brunnastaðaskóli, enda er Suðurkot í Brunnastaðahverfi. Einhvern tíma nálægt 1930 tekur Brunnastaðaskólanafnið alveg yfir. Árið 1944 var byggt nýtt og stærra skólahús, um 50 m frá því eldra, og áfram talað um Brunnastaðaskóla. Það er nú íbúðarhúsið Skólatún.
Árið 1979 var var skólinn fluttur úr Brunnastaðahverfi í Voga, byggt þar nýtt 700 m2 skólahús sem síðan var tvöfaldað að stærð 1998 og aftur 2005. Það hús er byggt í túni höfuðbólsins Stóru-Voga og heitir því Stóru-Vogaskóli.

Brunnastaðaskóli

Á grunni Suðurkotsskóla  (Brunnastaðaskóla) 2010.

En þar með er ekki öll nafna- og húsasagan sögð, því tvívegis var byggt annað minna skólahús í barnmörgu hverfi, fyrst Norðurkotsskóli í Kálfatjarnarhverfi 1903 og síðan Vatnsleysuskóli í samnefndu hverfi 1912. Það má lengi deila um hvort þetta sé allt sami skólinn eða hvort þetta séu 3, 4, eða 5 skólar!
ÞSuðurkotó að í Vatnsleysustrandarhreppi væru fjölmenn hverfi var hreppurinn í heild það strjálbýll að erfitt var að stefna öllum börnum á einn stað áður en skólaakstur kom til. Mörg börn þurftu að ganga í hálftíma, jafnvel klukkutíma í skólann, í vetrarveðrum! Börn úr fjarlægustu hverfunum þurftu annað hvort að búa í skólarisinu eða fá inni á nálægum bæjum. Njarðvíkingar gáfust fyrstir upp á því og stofnuðu eigin skóla, fyrst 1875. Síðar var tekin upp eins konar farkennsla í Kálfatjarnarhverfi, þaðan sem var um 40 mín. gangur í Brunnastaðahverfið. Kennt var í stofunni á Þórustöðum 1893 – 1900, síðan í Landakoti 1900 – 1903. Var til þess ráðinn annar kennari, Jón Gestur Breiðfjörð og síðan Magnús Jónsson, eftir að Jón Gestur tók við Suðurkotsskóla. Reyndar virðast oft hafa starfað tveir kennarar samtímis frá 1884 og ekki ljóst hvort báðir kenndu í skólahúsinu eða hvort annar gat hafa verið farkennari á einhverjum bæjum.

Norðurkotsskóli
NorðurkotEn þetta þótti ekki fullnægjandi og árið 1903 var slegið lán hjá Thorkilliisjóði (öðru sinni) og ráðist í að byggja annað skólahús, í Norðurkoti í Kálfatjarnarhverfi, 25 m2, 9 x 7 álna bárujárnsklætt timburhús. Skólinn átti neðri hæðina, en í risinu var íbúð. Þar hófst kennsla um haustið í Norðurkotsskóla auk móðurskólans í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi. Þann vetur kenndi Þórður
Erlendsson 28 börnum 7-14 ára í Suðurkoti og Sigurgeir Sigurðsson 19 börnum 8-14 ára í Norðurkoti.

Norðurkot

Norðurkot er hjáleiga úr landi kirkjujarðarinnar Kálfatjarnar. Fyrir aldamótin 1900 bjuggu í Norðurkoti hjónin Erlendur Jónsson og kona hans, Oddný Magnúsdóttir.  Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir „Innstrendinga“. Húsið var úr timbri, ein hæð og portris.  Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti árið 1910 og snemma á árinu 1911 keypti Guðmundur í Landakoti Norðurkotið af hreppnum og leigði Birni þá allt húsið.
Það voru afkomendur Erlendar Magnússonar, bónda á Kálfatjörn, sem gáfu Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps Norðurkotshúsið á síðasta ári og stóð félagið fyrir flutningi þess að Kálfatjörn með styrk frá Alþingi.

Var kennt í þessu nýja húsi í 7 ár, til vors 1910, og nemendafjöldinn allt upp í 20 – í 15 m2 skólastofu! Veturinn 1908-9 voru þar 12 stúlkur og 7 drengir, öll á eldra stigi, og Árni prestur kennari, kenndi m.a. song og leikfimi.
Minjafélag Vatnsleysustrandar bjargaði húsi Norðurkotsskóla 2008, flutti á nýjan grunn að Kálfatjörn, gerði vandlega upp og rekur þar lítið skólasafn og tekur á móti hópum.

Börnin í Kálfatjarnarhverfi uxu úr grasi og þetta vor var kennslu þar hætt, Norðurkotshúsið selt sem íbúðarhús. Samkv. kaupsamningi dags. 27.1.1911 selur skólanefndin „Guðmundi Guðmundssyni hreppstjóra á Landakoti þann hluta (neðri hlutann) úr íbúðarhúsinu í Norðurkoti við Þórustaði, sem er eign barnaskólans hér í hreppi og, sem notað hefur verið til barnakennslu nokkur undanfarin ár…“ Efri hæðin mun hafa verið íbúð – hugsanlega fyrir kennara – og liklega í einkaeigu, en 26. 10. 1910 er Haraldur Sigurðsson kennari krafinn bréflega um að fjarlægja þaðan hey!

Vatnsleysuskóli
VatnsleysuskóliÞá um haustið 1910 var hafin kennsla á Vatnsleysu, en þá voru þar barnmörg, fátæk heimili. Var steinsteypt þar lítið skólahús 1911 og kennt þar til 1914. Þar kenndi Kristmann Runólfsson frá Hlöðversnesi; og síðan Ingvar Gunnarsson frá Skjaldarkoti, en hann varð síðar kennari í Hafnarfirði. Einnig kenndu við skólann Guðmundur Magnússom frá Dysjum og Skúli Guðmundsson. Eftir áratugs hlé var kennt þar samfellt árin 1925–1943, en þá hófst skólaakstur og eftir það var öllum börnum kennt á einum stað, í Brunnastaðahverfi.
Viktoría Guðmundsdóttir sem var kennari og skólastjóri við Brunnastaðaskóla kenndi á Vatnsleysu í tvo mánuði og voru börnum í Brunnastaðaskóla sett fyrir verkefni á meðan. Í skóla þennan gengu börn frá Hvassahrauni, Stóru- og Minni-Vatnsleysu og Flekkuvík.
Rústir þessa skólahúss standa enn. Það mun hafa verið notað fyrir fjárhús á seinni árum en nýttist ekki til neins eftir að þak þess hrundi.

Kirkjuhvolsskóli

Kirkjuhvoll

Kirkjuhvoll 2018.

Á árunum 1934-38 var kennt á þremur stöðum. Auk Vatnsleysuskóla og Brunnastaðaskóla var yngstu börnunum kennt í nýbyggðu félagsheimili, Kirkjuhvoli, og einnig kennd þar leikfimi – og kennt unglingum – vegna plássleysis í Brunnastaðaskóla, en aðeins er 10 mínútna gangur þar á milli. Kenndi Stefán Hallson þau ár til skiptis á Vatnsleysu og í Kirkjuhvoli, um 3 mánuði á hvorum stað. 1938 var kennaraíbúð í skólahúsinu breytt í kennslurými fyrir yngstu börnin.

Brunnastaðaskóli hinn nýrri
Byrjað var á grunninum að þeim skóla 1940 eða þar um bil. Smíðinni var lokið 1942. Jón G. Benediktsson þáverandi oddviti stjórnaði byggingu skólans.

Brunnastaðaskóli

Brunnastaðaskóli hinn nýrri.

Í skólanum eru þrjár kennslustofur og ein stofa til afnota fyrir kennara. Húsið kostaði lítiö og var enginn íburður í því, vegna þess hve knapþur fjárhagur hreþpsins var. Engir styrkir fengust til byggingar skólans frá ríkinu. Öll lán sem tekin voru til byggingarinnar voru lánuð til ársins 1942. Lán sem tekið var hjá Landsbanka Íslands nægði rétt til efniskaupa.
Engin borð, stólar eða aðrir hlutir voru nýtanlegir úr gamla skólanum og því þurfti að kaupa alla innanstokksmuni til skólans, svo og kennslutæki. Húsið var hlaðið úr steini og var það Trésmíðafélagið Akur úr Reykjavík sem framleiddi steininn. Seinna kom í ljós að húsið var hriplekt og var lekinn mestur í austurgafli hússins ofan við gluggana. Nokkrum árum síðar var sett plast eða álklæðning utan um allt húsið. Nú er þessi skóli aðallega notaður fyrir handavinnukennslu.“

Heimildir:
-Mest greinar í Faxa 1990 og skrif St. Thorarensen í Þjóðólf, einnig handskrifuð skjöl.
-Faxi, 4. tbl. 01.05.1982, Ágrip af skólasögu Vatnsleysustrandarhrepps 1872-1982, Sigurður Hallmann Ísleifsson, bls. 86-87.
-Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Brunnastaðaskóli

Nemendur og kennari framan við Suðurkotsskóla (Brunnastaðaskóla).

Stóra-Knarrarnes

Á Vatnsleysuströnd er bærinn „Stóra-Knarrarnes„, merkilegur sem og líkt sem og margir aðrir á Ströndinni.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – loftmynd.

„Um 1913 fóru að búa í Stóra-Knarrarnesi hjónin Ólafur Pétursson frá Tumakoti í Vogum og kona hans, Þuríður Guðmundsdóttir frá Bræðraparti í Vogum. Þau eignuðust 14 börn, sem öll voru dugmikil og erfðu hina góðu eiginleika foreldranna.
Árið 1926 byggði Ólafur Stóra-Knarrarnes, sem nú stendur. Þótti mörgum það bjartsýni af honum að leggja út í svo fjárfrekar framkvæmdir og þurfa á sama tíma að sjá fyrir stórri fjölskyldu.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes; tóftir gamla bæjarins.

Eftir að Gamla Stóra-Knarrarnes fór í eyði var framangreint íbúðarhús byggt. Eftir að nýtt hús, Austurbærinn, var byggður, var það jafnan nefnt Vesturbærinn.
Lengi var Stóra-Knarrarnes tvíbýli, þ.e. Vesturbær og Austurbær, en Austurbær er nú Stóra-Knarrarnes 2. Árið 1920 átti hreppurinn Stóra-Knarrarnes 2 og leigði Benjamín Halldórssyni og hans konu, Þuríði Hallgrímsdóttur. Árið 1929 keypti Benjamín jörðina af hreppnum og byggði þá nýtt hús, það sem nú stendur.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes 2025.

Ekki hefur verið búið í Vesturbænum um langt skeið, en hann er nú að ganga í gegnum lífdaga. Löngum var við innganginn skjöldur með nöfnum og lífsdögum fyrstu ábúendanna, þeirra Þuríðar Guðmundsdóttur og Ólafs Péturssonar, en þegar húsið var klætt að utan hvarf skjöldurinn, illu heilli.

Þuríður Guðmundsdóttir

Þuríður Guðmundsdóttir (1891-1974).

Í Íslendingaþáttum Tímans árið 1974 fjallar Stefán Árnason m.a um Þuríði Guðmundsdóttir frá Stóra Knarrarnesi. Í sama blaði er minningargrein um Ólaf Pétursson. Fróðlegt er að lesa minningar Stefáns um Þuríði því þær lýsa vel aðstæðum kvenna á Vatnsleysuströndinni beggja vegna aldarmótanna 1900, sem verður að þykja athyglisvert í ljósi þess að jafnan hefur þeim verið lýst frá sjónarhóli karla þar sem áherslan er nánast eingöngu lögð á reynslu þeirra af sjósókn og búskap á hrjóstugri Strönd.

„Foreldrar Þuríðar voru Guðmundur Bjarnason og Elín Ingibjörg Þorláksdóttir, talin vinnuhjú í Minni-Vogum í Vatnsleysustrandarhreppi. Var Guðmundur afburða sjómaður og formaður á skipi Egils bónda í Minni-Vogum. Árið 1890 stofna þau Elín og Guðmundur sitt eigið heimili en vinna áfram hjá Agli bónda. Árið 1891 fæddist fyrsta barn þeirra hjóna, það, sem hér verður sagt frá, Þuríður fædd 17. aprl 1891, dáin 25. febrúar 1974.

Bræðrapartur

Bræðrapartur í Vogum.

Árið 1896 flytja foreldrar Þuríðar að Bræðraparti, smábýli, er syðst stóð í Vogunum og búa þar alla sína tíð til 1928. Það ár deyr Guðmundur. Fjögur voru börn Elínar og Guðmundar: Þuríður, Guðbjörg og Bjarni, eitt barn misstu þau nýfætt. Öll voru börnin mikið manndóms fólk, vel uppalin og gædd óvenju mikilli háttvísi, að það var á orði haft og reglusemi og dugnaður fylgdist að.
Nú geri ég frávik á efninu. Við, sem förum í bíl suður veginn til Keflavíkur og lítum niður í Vogana í góðu veðri sjáum fallega byggð og viðsýni til allra átta. Gjörum okkur ljóst, að fyrir 80 árum var hér enginn vegur aðeins troðningur eftir hesta og menn.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – Vesturbær t.v. og Austurbær t.h.

Allir aðdrættir til heimilanna fóru sjóleiðina og það á opnum skipum. Ef eitthvað smátt vantaði var það sótt og borið á bakinu úr næsta kaupstað. En fólkið á Ströndinni, eins og það var kallað var gott og duglegt, lifði glatt við sitt og lét ekki erfiðleikana smækka sig. Árið 1908 varð breyting til hins betra. Þá komu vélbátar, 10 smálesta dekkbátar. Það gjörbreytti öllum flutningum. Þessir bátar voru með net á vetrarvertíð, en á vorin og sumrin mikið í vöruflutningum. Mest voru það Tumakotsbræður, sem voru í þessum flutningum og til gamans ætla ég að segja frá samtali gamals góðvinar míns, sem hefur unnið í einum af stærstu bönkum hér í Reykjavík. ,,Mig undraði oft, hvað Ólafur Pétursson frá Tumakoti í Vogum hafði mikil viðskipti við okkur og aldrei brást loforð hans. Þar fór bisnessmaður, sem Ólafur var”.

Knarranes

Knarrarnes – túnakort 1919. Hér má sjá bæði túnakort Stóru-Knarrarness og þess Minna…

Árið 1913 giftist Þuríður Ólafi Péturssyni frá Tumakoti og þar búa þau í eitt ár. Þröngt var fyrir tvö heimili og ungu hjónin dugmikil. Þau ráðast í að kaupa Stóra-Knarrarnes, sem var nokkuð stór jörð, mun betri og stórt tún. Ólafur vildi hafa sauðfé, þótti gaman að því og svo var hægt að hafa kýr líka. Í Knarrarnesi beið hjónanna mikið starf. Unga konan kunni góð skil á því, sem beið hennar.
Þuríður kom með heimanmund með sér í búið, sem öllu gulli er betra, gott uppeldi foreldra sinna, hógværð og prúða framkomu, sem af bar öðrum, enda mátti segja, að Þuríður væri hvort tveggja húsmóðirin og húsbóndinn og fór það vel. Ólafur vann utan heimilis síns oft og kom heim sem gestur. Hann treysti konu sinni vel, var viss um, að allt færi vel heima.
Þuríður GuðmundsdóttirÁrin fljúga áfram. Árið 1922 átti ég langt tal við Knarrarnes-hjónin um daginn og veginn. Umtalsefnið snerist um, að húsrými hjá þeim væri orðið þröngt. Bæjarhús voru gömul þegar þau fluttu í Knarrarnes og nú hrörleg orðin og þröng. Fjölskyldan hafði stækkað ört, óumflýjanlegt að byggja að nýju. Kom þá sér vel, að ólafur var útvegunarmaður góður, en erfitt með efniskaup. Farið var að huga að byggingu, þótt hægt gengi fyrst. En árið 1928 er gamli Knarrarnesbærinn horfinn og allt fólkið er komið í nýtt hús, sem þá þótti stórt og fallegt. Þuríður GuðmundsdóttirÁrið 1933 fæðist 14. barn hjónanna. Á því sést, að ekki var vanþörf á að byggja yfir fólkið. Mér fannst alveg undravert að koma til hjónanna á Knarrarnesi og gleðin yfir öllu fjölskyldulífi aðdáunarverð. Ég hef oft hugsað um þetta. Ég vona, að enginn misskilji mig þótt ég segi: Húsmóðirin átti mestan þátt í þessu með sinni mildi og sínu góða geði, að heimilið var helgur og friðsæll staður. Ég þykist tala hér af kunnugleika. Þó bar af einn dagur í lífi þessarar fjölskyldu, sem ég gleymi aldrei. Árið 1947 var ég og konan mín, sem var systir ólafs, gestir í Knarrarnesi í tilefni fermingar yngsta barns hjónanna. Börnin voru 13 viðstödd, sum gift, öll fullvaxin, fermingarbarnið eins stórt og hin. Þetta var allt svo fallegt og myndarlegt, börnin og tengdabörnin. Þetta var dagur, sem aldrei gleymist. Hver skilar meiri auði til sinnar þjóðar en svona hjón.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes; gamli bærinn.

Elzta barn hjónanna var alið upp hjá afa og ömmu í Bræðraparti á meðan þau bjuggu, en eftir lát afa síns ólst það upp hjá móðursystur, Guðbjörgu. Það var kærleikur mikill með systrunum um kvöldið þessarar ánægjulegu hátíðar, og gestir voru að kveðja húsfrúna hægu, með sitt góða viðmót, sem henni var svo eðlilegt, þakklát við allt og alla. En bezt hefur hún þakkað guði sínum og herra fyrir allar gjafirnar og lífið, sem hún hefur fengið að njóta við hið mikla starf sitt. Þrjátíu og fjögur ár eru síðan hún byrjaði búskap. Var verið að ferma síðasta barnið þeirra, sem var það fjórtánda. Mikill dagur er liðinn. Þuríður hefur hugsað margt þetta kvöld, þegar kyrrð var komin og tímamót í ævi þessarar konu. Hvað bíður? Ólafur er farinn að þreytast. Hann vinnur mikið við heimilið. Börnin öll farin að vinna fyrir löngu, sum búin að stofna sín heimili, önnur vinna utan heimilisins, en eru hjá foreldrunum.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes; brunnur.

Búskap er haldið áfram í Knarrarnesi, útihúsin byggð að nýju, fjós, heyhlaða og fjárhús, engin gömul hús eftir, sem voru þegar hjónin keyptu jörðina. En þrátt fyrir þessa velmegun, sem orðin var, var annað, sem breyttist. Glaði hljómurinn hljóðnaður. Börnin voru flest farin til sinna heimila. Svona er líf mannanna barna.
Nú var lúi og lasleiki farinn að gera vart við sig. Árið 1963 að hausti fóru hjónin til Hrefnu dóttur sinnar, sem eftirlét þeim húspláss. Þuríður þurfti á sjúkrahússvist að halda. Svo þau voru þar um veturinn. Um vorið 1964 fóru þau heim í Knarrarnes. Þá var Ólafur orðinn veill á heilsu, sem ágerðist fljótt. Svo varð hann að fara á sjúkrahús. Þetta leiddi hann til bana. Hann dó 11. október 1964.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes 1959.

Nú er svo komið að í Knarrarnesi er Þuríður og sonur hennar orðin ein eins og verða vill. Var hún þar áfram þar til 1971 að hún fór til Reykjavikur á sjúkrahús i nokkrar vikur. Þegar Þuríður var orðin hress heimsótti ég hana og töluðum við um liðinn tíma. Var grunur hennar sá, að vera hennar í Knarrarnesi mundi ekki verða löng úr þessu. „Þú ert nú búin að vinna mikið ævistarf, Þuríður, ertu ekki ánægð með það?” Hún svaraði stillt að vanda: ,,Jú, víst er ég það. Guð hefur gefið mér mikið, góðan og duglegan maka, 14 elskuleg og góð börn og tengdabörn, 42 barnabörn og 14 barnabarnabörn, ég gæti ekki hugsað mér neitt betra, Þetta er allt svo elskulegt við mig og hjálpsamt. Ég get ekki lýst því með orðum. En það mótdræga var ekki meira en gengur og gerist í mannlegu lifi. Ef ég á að nefna eitthvað sérstakt er það sjóslysið mikla 12. marz 1928 í mannskaðaveðri, þegar Bjarni bóðir minn fórst með skipi sínu og allri skipshöfn sinni. Þá áttu margir um sárt að binda, og svo þegar við misstum drenginn okkar, hann ólaf, nýfermdan. Það var sárt. En guð gaf mér svo mikið.“

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes 1962.

Það fór nú svo, að Þuríður fór ekki aftur heim af heilsufarsástæðum, var í húsi Hrefnu dóttur sinnar og leið vel, umvafin af góðleik fjölskyldu sinnar, fór í smáferðir sér til skemmtunar og hafði gaman af. Í miðjum ágúst gat Þuríður ekki verið ein án hjálpar, fór hún þá til dóttur sinnar, Hrefnu og manns hennar, Ólafs Björnssonar útgerðarmanns, Heiðarbrún 9 Keflavik, og var þar það sem eftir var lífdaga. Þuríður fékk þar svo góða hjúkrun og alla meðhöndiun, að ekki er hægt að lýsa því eða þakka eins og vert væri. Þrekið var búið en andleg skynjun ekki. Til marks um andlegt skyn er það, að síðasta dag, sem hún lifði, talaði hún við tengdason sinn, spurði um aflabrögð og hvort öllum liði vel. Það var hennar mesta gleði að öllum liði vel. Næsta morgun var komin breyting, endir var fyrirsjáanlegur. Nokkur börn hennar og tengdabörn voru við banabeð hennar. Ein dóttirin hélt i hönd móður sinnar. Þuríður lagði hönd á brjóst sér til merkis um sársauka. Lífsþráðurinn var slitinn. Góð kona er farin úr þessum heimi.“ – Stefán Árnason.

Lýsing Stefáns er fróðleg, ekki síst vegna lífssögu dæmigerðrar eiginkonu, móður og bústýru á Ströndinni á hennar tíma sem og óhjákvæmilegum lífslokum hverrar manneskju.

Ólafur Péturson

Ólafur Pétursson (1884-1964).

Ólafur Pétursson var fæddur í Tumakoti í Vogum, sonur hjónanna Péturs Andréssonar og Guðrúnar Eyjólfsdóttur. Ólst hann þar upp í hópi átta barna þeirra hjóna, bræðurnir voru fimm, systurnar þrjár. Ungt fólk getur varla trúað því, að hjón, sem bjuggu á lítilli jörð, hafi alið upp stóran hóp barna án styrks. Á þessum árum voru hin mestu harðindaár 1875 til 1902. Öll voru Tumakotsbörnin myndarlegt folk og afburða dugleg. Fjórir af bræðrunum ólu allan sinn aldur i Vatnsleysustrandarhreppi, Benedikt í Suðurkoti, Andrés í Nýjabæ, Eyjólfur í Tumakoti og Ólafur á Knarrarnesi.
Fimmti bróðirinn, Ingvar, flutist ungur til Hafnarfjarðar og giftist þar og stofnaði heimili. Hann fórst með kútter „Geir” árið 1912, er týndist í hafi með allri áhöfn. Systurnar, Petrina fluttist til Ameríku (Kanada) árið 1900 en Elísabet og Guðlaug fluttust til Reykjavikur og stofnuðu sín heimili þar.
Árið 1913 giftist Ólafur Pétursson Þuríði Guðmundsdóttur frá Bræðraparti í Vogum, mikilli myndar- og dugnaðarkonu. Eitt ár búa þau í Tumakoti, næsta ár festa þau kaup á jörðinni Stóra-Knarrarnesi og búa þar í fulla hálfa öld. Knarrarnes var mun betri bújörð.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes; loftmynd.

Jörðin var nytjuð sem hægt var. Sjór stundaður á vetrarvertíð og alltaf þegar hægt var. Heimilisfólkinu fjölgaði ört. Ólafur var framsækinn og duglegur, sá að meira þurfti til en það, sem heima var hægt að hafa. Ólafur bjó ekki einn. Þuríður, þessi mikla dugnaðarkona, tók við allri stjórn á heimilinu. Ólafur leitaði til vinnu utan heimilis. Honum varð vel til með vinnu, þekkti marga vinnuveitendur, auk þess hörkuduglegur, en fast var sótt vinnan og stundum langt. Helztu staðir voru Vogar, Keflavík, Sandgerði, Grindavík og fleiri staðir.
Allt fór vel í Knarrarnesi, húsmóðirin sá fyrir því með hjálp barnanna, sem voru nú óðum að vaxa og komu ótrúlega fljótt til að létta undir með foreldrum sínum. Börn Knarrarneshjónanna urðu fjórtán, en þau urðu fyrir þeirri sorg að missa einn son sinn stuttu eftir fermingu. Það mun hafa orðið hjónunum þungt. En Ólafur og Þuríður báru ekki sorg sína á veg út. Þrettán börn lifa föður sinn, öll uppkomin, myndarlegt og duglegt fólk. Flest eru þau búin að stofna sín eigin heimili og vegnar vel, enda tengdabörnin sérstaklega góð og myndarleg.“

Heimildir:
-Mannvirki og mannlíf í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987, bls. 287-289.
-Íslendingaþættir Tímans, 13. tbl. 25.05.1974, Þuríður Guðmundsdóttir frá Stóra Knarrarnesi, Stefán Árnason, bls. 8-9.

Stóra-Knarrarnes

Stóra- og Minni-Knarrarnes – túnakort lagt yfir loftmynd.

Minni-Núpur

Brynjúlfur var frá Minna-Núpi í Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, sonur hjónanna Jóns Brynjúlfssonar og Margrétar Jónsdóttur. Hann var elstur af sjö systkinum og ólst upp í fátækt. Brynjúlfur safnaði miklum fróðleik um Reykjanesskagann og miðlaði honum eftir getu.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson (1838–1914).

Brynjúlfur naut engrar skólagöngu fyrir utan að þegar hann var 17 ára var hann í hálfan mánuð hjá presti til að læra grunn í dönsku, reikningi og skrift. Sama ár fór hann á vetrarvertíð og var við útróðra á vetrum til þrítugs þrátt fyrir bága heilsu. Á vorin reri hann í Reykjavík og komst þar í kynni við ýmsa menntamenn sem útveguðu honum bækur, svo að hann gat lært dönsku og lesið sér til um málfræði, náttúrusögu, landafræði og margt annað sem hann hafði áhuga á.

Brynjúlfur hafði alla tíð verið heilsulítill en um þrítugt veiktist illa með tímanum þurfti hann að hætta allri erfiðisvinnu. Sjálfur kenndi hann um falli af hestbaki. Veikindin sjálf sá hann sem lán í óláni; þar sem hann mátti ekki stunda erfiðisvinnu fékk hann meiri tíma til að mennta sig eins og hann sagði sjálfur í ævisögu sinni: „Þá er veikindi mín voru að byrja og lengi síðan, áleit ég þau hina mestu ógæfu; en svo hefir guðleg forsjón hagað til, að þau urðu upphaf minna betri daga.“ Þegar Brynjúlfi batnaði hóf hann að kenna börnum á veturna til þess að sjá fyrir sér og fékk síðar launað starf hjá Fornleifafélaginu, en Sigurður Guðmundsson málari hafði vakið áhuga hans á fornleifum. Um leið hélt hann stöðugt áfram að lesa sér til og fræðast og tókst að verða vel læs á sænsku, þýsku og ensku auk dönskunnar.

Brynjólfur kvæntist ekki en eignaðist einn son, Dag Brynjúlfsson hreppstjóra í Gaulverjabæ.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson.

Í Lögbergi árið 1915 birtist grein;  „Æfisga mín“ eftir Brynjúlf Jónsson. Þar segir m.a.:
„Einn af merkari rithöfundum í seinni tíð, á Íslandi, var Brynjólfur frá Minna-Núpi. Hann menntaði sig af bókum, án tilsagnar, og varð vel að sér, bæði í málfræði, fornfræði, guðfræ8i og heimspeki, sem bækur hans og ritgerðir votta. Æfisögu sína ritaði hann sjálfur, skömmu fyrir dauða sinn, og birtist hún í Skírni. Hún er svo yfirlætislaus og lík hinumm spaka öldungi, að oss þykir sennilegt, aö lesendur vorir hafi skemtun af að lesa hana.
Ég er fæddur aö Minna-Núpi 26. sept. 1838. Foreldrar mínir voru: Jón bóndi Brynjólfsson og kona hans Margrét Jónsdóttir, er lengi bjuggu á Minna-Núpi. Brynjólfur föðurfaðir minn bjó þar áður; hann var son Jóns Thorlaciusar bónda á Stóra-Núpi, Brynjólfssonar á Hlíðarenda, Þórðarsonar biskups. Móöir föður míns, síðari kona Brynjúlfs á Minna-Núpi, var Þóra Erlingsdóttir, Ólafssonar bónda í Syðra Langholti, Gíslasonar prests á Ólafsvöllum. Móðir Brynjólfs, afa míns, var Þórunn Halldórsdóttir biskups. Móðir Þóru, ömmu minnar, var Helga Jónsdóttir bónda á Ásólfsstöðum, Þorsteinssonar; Helgu átti síðar Jón bryti í Háholti, er þar bjó í sambýli viö Gottsvein gamla, sem getið er í Kambsránsögu.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson.

Faðir móður minnar var Jón hreppstjóri Einarsson á Baugstöðum. Einarssonar bónda þar, Jónssonar bónda á Eyrarbakka, Pálssonar. Móðir móður minnar var síðari kona Jóns hreppstjóra, Sezelja Ámundadóttir, “snikkara”, Jónssonar. Móðir Jóns hreppstjóra, kona Einars bónda, var Vilborg Bjanadóttir bónda á Baugstöðum, Brynjúlfssonar hins sterka, er bjó á Baugstöðum á dögum séra Eiríks á Vogsósum. Móðir Sesselju, ömmu minnar, var Sigríður Halldórsdótttir, Torfasonar frá Höfn í Borgarfirði. Má rekja þessar ættir langt fram og víða út, sem mörgum er kunnugt.
Ég ólst upp hjá foreldrum mínum og vandist sveitalífi og sveitavinnu. Meir var ég þó hneigður til bóka snemma, en hafði ekki tækifæri til að stunda bóknám. Foreldrar mínir voru eigi rík, en áttu 7 börn er úr æsku komust, og var ég þeira elztur. Þau höfðu ekki efni á að láta kenna mér, en þurftu mín við til vinnu, jafnóðum og ég fór að geta nokkuð unnið.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson.

Fremur var ég seinþroska og orkulítill frameftir árum, og var eigi traust að ég fengi að skilja það hjá jafnöldrum mínum að ég væri þeim eigi jafnsnjall að harðfeng né atorku, eða að þeir gerðu gys að bókfýst minni. Slíkt tók ég mér þá nærri, en fékk eigi að gert, með því heilsa mín var líka tæp fram að tvítugsaldri. En þá fór hún að styrkjast; og mun ég eigi hafa staðið öðrum mjög mikið að baki, meðan hún var nokkurnveginn góð.
Þegar ég var á 17. ári komu foreldrar mínir mér fyrir hálfsmánaðartíma hjá séra Jóni Högnasyni í Hrepphólum, til að læra skrift, reikning og byrjun í dönsku. Það var stuttur námstími, en þó átti ég hægra með að berjast á eigin spýtur eftir en áður. Þann vetur fór ég fyrst til sjávar; reri ég síðan út 13 vetrarvertíðir, flestar í Grindavík, og auk þess nokkrar vorvertíðir. Við útróðrana kyntist ég fleiri hliðum lífsins, fleiri mönnum og fleiri héröðum. Þetta get ég með sanni kallað mína fyrstu mentunar undirstöðu.
Þó hún væri á næsta lágu stigi, var hún þó betri en ekkert, því við þessar breytingar þroskaðist hugurinn betur en hann hefði gert, ef ég hefði ávallt setið kyrr heima. Vorróðra mína reri ég í Reykjavík, og komst þar í kynni viö mentaða menn, svo sem Dr. Jón Hjaltalín landlækni, Jón Pétursson yfirdómara, Jón Árnason bókavörð, Sigurð Guömundsson málara, Árna Thorsteinsson og Steingrím bróður hans, Arnljót Ólafsson og Gísla jarðyrkjumann bróður hans.

Daniel Bruun

Portretmynd Daniels Bruun af Brynjúlfi Jónssyni.

Gísla hefði ég vel mátt telja fyrstan, því við hann kyntist ég fyrst, og hann kom mér beinlínis og óbeinlínis í kynni við flesta þeirra. Þetta varð mér að góðum notum; ég lærði talsvert af viðkynningunni við þessa menn, auk þess sem þeir gáfu mér ýmsar góðar bækur. Á þessum árum lærði ég að lesa dönsku, rita hreina íslenzku og skilja hinar málfræðilegu hugmyndir. Einnig fékk ég yfirlit yfir landafræði og náttúrusögu. Af grasafræði Odds Hjaltalíns lærði ég að þekkja flestar blómjurtir, sem ég sá; varði ég til þess mörgum sunnudögum á sumrin.
Jón Árnason kom mér á að skrifa upp þjóðsögur, þó lítið af því kæmist í safn hans, er þá var nær fullbúið.—
Sigurður málari vakti athygli mina á fornleifum; og fór ég þá að nota tækifæri, að skoða rústir í Þjórsárdal, og síðar ritaði ég um þær. Á þeim byrjaði ég þá; en lítið varð úr því flestu, því ég varð að verja tímanum til líkamlegrar vinnu, og gat því eigi tekið verulegum framförum í bóklegum efnum, meðan ég var bezt fallinn til þess.

Brynjúlfur

Brynjúlfur Jónsson.

Vorið 1866 féll ég af hesti, kom niður á höfuðið og kenndi meiðsla í hálsinum og herðunum; þó bötnuðu þau bráðum aftur. En það sama sumar fékk ég þau einkennilegu veikindi, að þegar ég lét upp bagga eða reyndi á brjóstið, fékk ég óþolandi verkjarflog í höfuðið, og fannst mér sem það liði upp frá brjóstinu. Fyrst framan af leið verkjarflogið úr jafnóðum og áreynslan hætti; en af því ég hélt áfram aö reyna á mig, hættu þau að líða svo fljótt úr. Skúli læknir Thorarensen réöi mér þá til að hætta vinnu. En því ráði sá ég mér ekki fært að fylgja; og svo fór ég versnandi næstu árin. Taugar mínar tóku að veikjast. Komu nú fram fleiri einkenni; þegar ég talaði hátt fékk ég magnleysi í tunguræturnar; þegar ég sofnaði á kveldin, dró svo úr andardrættinum, að ég hrökk upp eins og mér lægi við köfnun. Raunar var þetta ekki á hverju kvöldi, en þó oft, og aldrei oftar en þrisvar sama kvöldið.
Brynjúlfur JónssonUm þessar mundir varð sveitungi minn einn yfirfallinn af brjóstveiki. Hann fór til séra Þorsteins sál. á Hálsi, var þar eitt sumar og kom aftur albata. Hann réð mér til að fara þangað líka, og svo fór ég norður vorið 1868. En ég komst ekki að hjá séra Þorsteini, og fór því til séra Magnúsar á Grenjaðarstað, sem fyrstur var “homöopath” hér á landi. Var ég þar um sumarið og brúkaði meðul hans. Batnaði mér þar svo, að aldrei síðan hefi ég kent floganna í höfðinu, magnleysis í tungurótum eða að drægi úr andardrættinum er ég sofnaði. Taugarnar styrktust og nokkuð, en eigi til hlítar á svo stuttum tíma. Þá er ég fór frá séra Magnúsi um haustið, varaði hann mig stranglega við erfiðisvinnu einkum útróðri, og við því að verða drukkinn. — Svo þótti mér sem sál mín þroskaðist við för mína norður og dvöl mína þar; einkum lærði ég ýmislegt er að mentun laut, af sonum séra Magnúsar, Birni og Sigfúsi, sem báðir voru mjög vel að sér.
HelgadalurÞá er ég var kominn heim aftur, dróst til hins sama fyrir mér með vinnuna, og ég reri nú næstu tvær vetrarvertíðarnar. Lasnaði þá heilsa mín óðum aftur og fékk taugaveiklunin yfirhönd. Kom hún einkum fram í höfuðsvima og magnleysi í öllum vöðvum: Þá er ég stóð kyrr eða gekk, átti ég bágt með að halda jafnvægi; alt sýndist á flugi fyrir augum mínum, og á vissri fjarlægð sýndist alt tvennt; ég þoldi ekki að horfa nema beint fram, allrasízt að lúta; ef ég t.a.m. las í bók, þurfti ég að halda henni jafnhátt andlitinu; en til þess urðu handleggirnir nú of þróttlitlir; aflvöðvar þeirra rýrnuðu smátt og smátt. Fór þetta svo í vöxt að á vertíðinni 1870 gafst ég upp um sumarmálin og var fluttur til Reykjavíkur. Má nærri geta, að sjómenska mín var orðin lítilfjörleg áður. En formaður minn, Sæmundur Jónsson frá Járngerðarstöðum, reyndist mér þá góður vinur og allir skipsmenn yfir höfuð.

Húshólmi

Brynjúlfur teiknaði m.a. upp minjarnar í Húshólma.

Loks fluttu þeir mig ókeypis til Reykjavíkur. Þar tóku vinir mínir vel á móti mér, og var ég þar um vorið undir læknishendi Dr. Jóns Hjaltalíns og Dr. J. Jónassens. Lögðu þeir hina mestu alúð á að lækna mig og gáfu mér allan kostnaðinn. En þeir voru í óvissu um, af hverju þessi einkennilegi sjúkdómur stafaði, — svo sagði Dr. Hjaltalín mér sjálfur, — enda vildi mér ekki batna, og fór eg heim
um sumarið. Ég hætti að geta klætt mig eða afklætt hjálparlaust, gat lítið lesið, en ekkert skrifað, því ég þoldi ekki að horfa niður á við.
Brynjúlfur JónssonLoks komst ég upp á að halda skriffærunum á lausu lofti. Og enn verð ég að skrifa á lausu lofti, þó ég þurfi nú ekki að halda skriffærunum jafnhátt og áður, þá þoli ég ekki enn að skrifa á borði. — Þó ég ætti bágt með að lesa, hætti ég því ekki alveg, með því líka að hugsunarlífið var óskert.
Fékk ég mér ýmsar fræðibækur léðar, hvar sem þess var kostur. Magnús Andrésson, sem nú er prestur á Gilsbakka, var þá farinn að lesa “homöopathin”; hann var góður vinur minn; hann léði mér lækningabók á dönsku, og í henni fann ég sjúkdómslýsingu, sem virtist eiga við minn sjúkdóm, og bataskilyrði, sem stóð í mínu valdi; gætti ég þess síðan. Eftir það versnaði mér ekki. Jafnframt reyndi ég ýms ráð og meðul.
Séra Arnljótur hafði áður ráðlagt mér, að láta þvo mig úr köldu vatni á hverjum morgni. Það hafði ég ekki framkvæmt. En nú byrjaöi ég á því, og hélt því síðan um mörg ár. Þótti mér sem það styrkti mig. Vera má og, að meðöl hafi gert sitt til. En aldrei fann ég bráðan bata af neinu.
Brynjúlfur Jónsson.Og það var fyrst eftir 3 ár, að ég var fullviss um, að ég væri kominn á eindreginn bataveg. Og síðan hefir batinn haldið áfram, hægt en stöðugt, til þessa. Ég er að vísu veikur af mér enn: þoli enga verulega áreynslu, eigi að lesa nema með hvíldum og eigi að skrifa nema ég haldi skriffærunum nokkuð hátt á lofti; og yfir höfuð fer heilsa mín mjög “eftir veðri”. En batinn, sem ég hefi fengið, er svo mikill, að því hefði ég ekki trúað ef það hefði verið sagt fyrir, þá er ég var veikastur.
Þá er veikindi mín voru að byrja og lengi síðan, áleit ég þau hina mestu ógæfu; en svo hefir guðleg forsjón hagaö til, að þau urðu upphaf minna betri daga: Undir eins og mér var dálítið farið að batna, tóku menn að nota mig til barnakennslu, sem þá var vaknaður áhugi á.
Sá sem fyrstur notaði mig til þess var Sigurður hreppstjóri Magnússon á Kópsvatni. Hefi ég það fyrir satt, að séra Jóhann sál. Briem í Hruna, sóknarprestur hans, hafi bent honum á mig til þess; — en séra Jóhann sál. var mér kunnugur og hafði ég oft fengið bækur hjá honum.
Brynjúlfur JónssonSíðan hefi ég haft atvinnu af barnakennslu á vetrum. Fyrst var það um nokkur ár, að ég kenndi á ýmsum stöðum, þar til Einar kaupmaður Jónsson á Eyrarbakka tók mig til að kenna syni sínum; var ég honum síðan áhangandi í marga vetur, og reyndist hann mér hinn bezti drengur. Frá honum réðst ég til Sigurðar sýslumanns Ólafssonar í Kaldaðanesi, en þaðan til Jóns óðalsbónda Sveinbjarnarsonar á Bíldsfelli. Hafa bæði þeir og yfir höfuð allir sem ég hefi verið hjá, sýnt mér hina mestu nærgætni og góðvild. — Á sumrum hefi ég ferðast meðal vina minna; hefir mér reynst það hin bezta hressing. Bæði hefir reið á þægilegum hesti ávalt haft styrkjandi áhrif á mig, og eigi síður góðvild sú og aðstoð, sem ég hefi hvarvetna átt að mæta. Þannig höföu menn mig með sér á Þingvallafund 1873, og á þjóðhátíðina þar 1874, og höfðu báðar þær ferðir góð áhrif á mig. Fleira mætti telja.
Nokkur undanfarin sumur hefi ég ferðast um héruð til fornleifarannsókna í þjónustu foraleifafélagsins. Um efrihluta Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslu (hina vestri 1893; um vesturhluta Húnavatnssýslu 1894; um Flóamanna,- Hrunamanna- og Biskupstungnaafrétt, svo og um Langavatnsdal o.v. 1895; um Mýra- Snæfellsnes- og Dalasýslur 1896. Frá árangri þeirra rannsókna hefi ég jafnóðum skýrt í Árbók fornleifafélagsins.
Brynjúlfur JónssonÞetta frjálsa og þægilega líf bæði sumar og vetur hefir eigi einasta styrkt heilsu mína og gert mér æfina skemmtilega: það hefir ennfremur gefið mér tækifæri til að fylgja betur eðli míns innra lífs, en áður var kostur á að stunda bókfræð og mentun yfir höfuð. Skamt hefi ég að vísu komist í samanburði við vel mentaða menn, og er það eðlilegt, þar eð ég byrjaði svo seint og hefi enn orðið að “spila á eigin spýtur” að mestu. En vanþakklátur væri ég þó við guð og menn, ef ég segði að ég væri engu mentaðri nú heldur en áður en ég veiktist. Auk dönsku og sænsku hefi eg lesið bækur á þýzku og léttri ensku; ég hefi gert mér ljósar ýmsar fræðigreinar, svo sem heimspeki, eðlisfræði, efnafræði, heimspekifræði og “homöopathiska” læknisfræði. Enginn skyldi þó ætla, að ég jafni mér við skólagengna menn í neinu þessu. Við ljóðagerð hafði ég fengist löngu áður en ég veiktist, en fyrst eftir það fékk ég réttan skilning á íslenzkri bragfræði.
Sem skáldi jafna ég mér ekki við “stórskáld” eða “þjóðskáld” vor: ég veit að ég er í því sem einn “minstur postulanna.” Og það, sem ég hefi áfram komist, í hverju sem er, þakka ég engan veginn ástundun minni einni saman: Margir hafa veitt mér mikið í mentunarefnum bæði með leiðbeiningum og bendingum í ýmjum greinum og með því að lána mér og gefa góðar bækur.
Brynjúlfur JónssonMeðal þeirra vil ég nefna dr. Jón Þorkelsson rektor, dr. Björn M. Ólsen rektor, séra Eggert sál. Brien, séra Eirik Briem, séra Magnús Andrésson og þá frændur hans Helgasyni, Einar alþingismann Ásmundsson í Nesi, sem skrifaðist á við mig í mörg ár, en komst fyrst í kynni við mig fyrir tilstilli Ásmundar bónda Benediktssonar í Haga, frænda hans.
Enn má telja Sigurð bóksala Kristjánsson, Guðmund bóksala Guðmundsson á Eyrarbakka og Friðrik bróSur hans. Marga fleiri mætti telja, en fremstan allra sóknarprest minn, séra Valdemar Briem, sem ég á meira að þakka en nokkrum manni öðrum, frá því er foreldra mína leið. Égg var lítið eitt kominn á bataveg þá er ég missti föður minn. Hann varð bráðkvaddur sunnudaginn 2. nóv. 1873, á heimleið frá kirkju og altarisgöngu. Var hann þá 70 ára gamall og orðinn mjög heilsutæpur. Hann hafði verið hinn mesti atorkumaSur, en hafði litlum kröftum á að skipa öðrum en eigin höndum. Voru því kraftar hans orðnir veiklaðir af lúa. Fáum dögum áður en hann dó, hafði hann fengið snögt verkjarflog fyrir brjóstið, eins og þar ætlaði eitthvað að springa, en leið frá aftur að því sinni. Grunaði hann að svo kynnt að fara sem fór, en talaði þó fátt um það. — Móðir mín bjó eftir hann næsta árið eftir lát hans, en brá svo búi. Fékk þá Jón bróðir minn jörðina Minna-Núp til ábúðar, og var móðir um stund hjá honum meðan hún lifði. Hún dó 29. marz 1879 og skorti þá 40 daga á 92 ára aldur. — Ég hefi ávallt átt lögheimili á Minna-Núpi, þó ég hafi oft dvalið mestan hluta ársins í öðrum stöðum.
Brynjúlfur JónssonÞó ég væri þegar í æsku mest hneigður til bókar, var ég þó alls ekki frábitinn búsýslu. Þvert á móti hugsaði ég oft um þess konar efni. Þaö var hvorttveggja, að ég hafði aldrei neina von unt að komast í “hærri” stöðu, enda langaði mig mest til að verða bóndi, það er að segja: góður bóndi! Þá stöðu áleit ég frjálslegasta og eiginlegasta á næstu árum áður en ég veiktist, var ég á ýmsan hátt farinn að búa mig undir bóndastöðuna og hafði allfjörugan framtíðarhug í þá átt. Það ætlaði ég mér að verða jarðabótamaður eins og faðir minn eða fremur, og áleit mig nokkuð hagsýnan í þeim efnum. Líka vissi ég, að “það er ekki gott, að maðurinn sé einsamall”: Ég hafði þegar valið mér “meðhjálp”; en eigi vissu það aðrir menn. En svo veiktist ég, og þá slepti ég allri framtíðarhugsun, ég bjóst eigi við að verða langlífur, og allrasízt að verða sjálfbjarga. Því vildi ég eigi að stúlkan mín skyldi binda sig við ógæfu mína. Kom okkur saman um að hyggja hvort af öðru, og láta aldrei nokkurn mann vita neitt um það, er okkar hafði milli farið. Og þó ég kæmist á bataveg aftur, þá fékk ég aldrei neina von um búskap eða hjúskap.
Brynjúlfur JónssonÞó höfðu veikindin ekki svift mig ástarhæfileikum. Veturinn 1878 kenndi ég börnum í Vatnsdal í Fljótshlíð. Þar var þá vinnukona, er Guðrún hét, Gísladóttir, ættuð undan Eyjafjöllum; hún þjónaði mér og féll vel á með okkur. Um vorið fór hún að Núpi í Fljótshlíð til Högna hreppstjóra Ólafssonar. Þar fæddi hún sveinbarn veturinn eftir og kenndi mér en gekk við. Hann heitir Dagur. Var hann fyrst nokkar ár á Núpi með móður sinni, og reyndist Högni hreppstjóri okkur hið bezta. En er Dagur var á 6. ári tók Erlingur bóndi Ólafsson á Sámsstöðum hann ti! fósturs. Ólst hann síðan upp hjá honum og konu hans, Þuríði Jónsdóttur, fyrst á SámsstöSum og síðan í Árhrauni á Skeiðum. Reyndust þau honum sem beztu foreldrar, og Páll son þeirra, er tók við búi eftir föður sinn, sem bezti bróðir, og sama er að segja um öll þau systkin. (Eitt þeirra, Þorsteinn skáld og ritstjóri, var eigi alinn upp hjá foreldrum sínum.)

Brynjúlfur Jónsson

Fé rennur niður Gnúpverjahreppinn 1946.

Man ég vel hve hræddur ég var við erfið kjör og ómilda dóma, þá er ég var slíkir aumingi, hafði eignast barn. En hér fór sem endranær, að guðsleg forsjón bætti úr fyrir mér. Ég hefi haft mikla ánægju af sveininum. Hann hefir komið sér vel, er talinn vel gáfaður, en þó meir hneigður til búsýslu. Þykir mér það og meira vert.
Það ætla ég, að ég sé trúhneigður af náttúru; en móðir mín innrætti mér líka trúrækni þegar ég var barn. Samt er ég enn meira hneigður fyrir að vita en trúa. Ég hefi átt við efasemdir að stríða, og ég hefi reynt að leita upp sönnun fyrir trúaratriðum. Tilraun til þess kom fram í kvæðinu “Skuggsjá og ráðgáta”, og í fleiri kvæðum mínum. Um þesskonar efni hefði ég verið fúsastur að rita, ef ég hefði verið fær um það.
En hitt hefir orðið ofan á, að það lítið, em eftir mig liggur ritað, er mest sögulegs efnis, ellegar um landsins gagn og nausynjar.“

Heimild:
-Lögberg, 11. tbl. 11.03 1915, Æfisga mín, Brynjúlfur Jónsson, bls 5.

Brynjúlfur Jónsson

Brynjúlfur Jónsson; minningarsteinn. Steinninn, sem er með höfðaletri, er staðsettur í Brynkabolla sem er skálarlaga laut í brekkunni ofan við bæinn.

Krýsuvík

Í Morgunblaðinu 1950 eru minningarorð Ólafs Þorvaldssonar um Magnús Ólafsson, síðasta ábúandans í Krýsuvík er lést 10. okt. sama ár:

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson (1872-1950).

„Í dag verður jarðsunginn frá þjóðkirkju Hafnarfjarðar, Magnús Ólafsson í Krýsuvík, en svo var hann oftast nefndur.
Fæddur var Magnús 9. sept. 1872, að Óttarsstöðum í Garðahreppi. Foreldrar hans voru Guðný Jónsdóttir frá Lambhaga í Mosfellssveit og Ólafur Magnússon frá Eyðikoti í Garðahreppi.
Þegar Magnús var 3 ára, varð faðir hans fyrir slysaskoti úr byssu og dró það skot hann til dauða eftir tæp tvö ár. Var Ólafur þá farinn að búa að Lónakoti. Þegar hann dó eftir 20 mánaða veikindi, voru efnin gengin til þurrðar, en fjögur börn í ómegð.
Á þeim tímum lá ekki nema eitt fyrir heimilum, sem svona var ástatt um, þau voru „tekin upp“, börnunum tvístrað til vandalausra — og þegar best ljet, væri móðirin hraust, gat hún máski einhvers staðar komið sjer niður með eitt barn. Þannig varð saga Lónakotsheimilisins, við fráfall Ólafs.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Magnúsi, sem þá var fimm ára, var komið fyrir í Hafnarfirði, hjá hjónunum Kolfinnu og Sigurði Halldórssyni í Kolfinnubæ, og mátti Magnús víst teljast heppinn með fósturforeldrana, þrátt fyrir fátækt þeirra. Með þessum hjónum ólst Magnús upp til 15 ára aldurs. Þá fór hann til Krýsuvíkur, og var þar í vinnu mennsku í 26 ár, nokkur ár í Stóra-Nýjabæ, en flest árin á heimajörðinni, þ.á.m. hjá Árna sýslumanni Gíslasyni.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði þar sem Magnús dvaldist við fjárgæslu.

Öll þessi ár hafði Magnús fjárgæslu á hendi, og varð brátt orðlagður fjármaður. Á sumrin, meðan fje gekk frjálst, stundaði hann venjuleg heimilisstörf, og var heyskapurinn þar fyriferðarmestur, enda var hann heyskaparmaður í besta lagi, svo og húsagerð og smíðar, því að hagur var hann vel.
Magnús giftist 1917, eftirlifandi konu sinni, Þóru Þorvarðardóttur, bónda að Jófríðarstöðum, hinni ágætustu konu. Þeim varð 5 barna auðið, og eru 4 þeirra á lífi, öll hin mannvænlegustu, eitt barn þeirra dó í æsku. Eitt barn átti Magnús áður en hann giftist, og er það nú gift kona í Hafnarfirði.

Þóra Þorvarðardóttir

Þóra Þorvarðardóttir ( 1884-1957).

Eftir giftinguna hóf Magnús búskap að Suðurkoti í Krýsuvík, þótt til húsa væri á heimajörðinni, þar eð Suðurkotið var þá húsalaust. Þannig bjó Magnús í 28 ár, eða þar til að hann var fluttur veikur frá Krýsuvík í nóv. 1945. Tíu síðustu árin var hann aleinn í Krýsuvíkurhverfinu, utan þann tíma, sem kona hans og börn voru tíma og tíma hjá honum á sumrin, og svo það, sem synir hans, einkum sá elsti, Ólafur, fór til hans við og við á veturna. Þótt atvikin höguðu því svo, að ekki gætu þau hjónin ávallt notið samvistar, var hjónaband þeirra hið ástúðlegasta.
Eftir að börnin komust á skólaaldur, var ekki um annað að gera en að konan færi með þau þangað, sem skólavist var að fá, og lá því leið móðurinnar með börnin til Hafnarfjarðar. Annað var það og, sem gerði veru þar upp frá, fyrir konu með ungbörn, óbærilega, en það voru hin ljelegu og síhrörnandi húsakynni, sem enginn fjekkst til að bæta úr, þar eð jörðin var þá í höndum manna ýmist innlendra eða erlendra, sem ekkert vildu fyrir hana nje ábúendurna gera. Mjer er það kunnugt, að sársaukalaus var ekki þessi flutningur Þóru og barnanna, frá ástríkum föður og maka. Einkum var þeim vera Magnúsar þar upp frá mikið áhyggjuefni, eftir að þau voru flutt þaðan og hann orðinn einn eftir.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).

Jeg hygg að Magnús hafi oft hugsað eins og segir í þjóðsögunni: ,Mjer er um og ó‘. Hann átti konu og börn við sjó, sem hann hefði helst kosið að vera „.
Já, — en hann átti líka börn á landi, það voru skepnur hans, einkum þó kindurnar. Þetta voru líka börn hans, því að dýravinur var hann mikill. Svo er annað, sem vert er að minnast, það var hin órofa tryggð, sem hann var fyrir löngu búinn að taka við Krýsuvíkina, svo að honum fannst hann ekki geta, meðan kraftar entust, lifað annars staðar, nema verða sjer og sinum til angurs og byrði, og til þess gat hann ekki hugsað.
Hjer var það vandamál, sem fjöldinn ekki skildi, hann varð því einn að ráða fram úr því. Í Krýsuvík gat hann lifað og starfað fyrir konu og börn, betur en á nokkrum öðrum stað. Um líðan sjálfs sín hugsaði hann minna.
Líf hans var helgað konu og börnum þótt í fjarlægð væru. — Tvo síðustu áratugina hefur atvinna við sjó og búnaðarhættir til sveita breyst svo, að segja má, að sá umbreytingatími gangi Krýsuvíkina af sjer á fáum árum. Þar þótti ekki lengur lífvænlegt, og allir flúðu þaðan, nema Magnús, hann sat á meðan sætt var — og næstum því lengur.

Ólafur Þorvaldsson

Ólafur Þorvaldsson (1884-1972).

Allir, sem þekktu Magnús, vissu að hann var góður fjármaður, og mikill vinnumaður, — en hann var meira. Hann var greindur í besta lagi, lesinn og fróður, meira en margan grunaði, enda átti hann nokkuð góðra bóka, þótt ekki lægju þær á glámbekk daglega. Hann gat verið skemmtinn og gamansamur í hæfilegum fjelagsskap, einkum þó við börn og unglinga. Svo prúður var hann í orðum, að ekki minnist jeg þess að hafa heyrt blótsyrði hrjóta honum af vörum. —
Þannig var hann í allri umgengni alltaf sami rólegi og æðrulausi maðurinn, afskiftalaus um annarra hagi, og talaði ógjarnam um sína. Slíkum mönnum er gott að kynnast.
Magnús dó á Hafnarfjarðarspítala 10. okt. síðastliðinn, eftir tveggja mánaða dvöl þar, en hafði hinn tímann (frá því í nóv. 1945) legið heima.
Um ævi Magnúsar, þótt fábreytt virtist fljótt á litið, mætti margt segja. Saga hans verður ekki sögð hjer í þessari stuttu kveðju.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Árni Óla rithöfundur segir frá Magnúsi í bók sinni, „Landið er fagurt og frítt“, í kafla, sem hann nefnir: „Einbúi í Krýsuvík“. Segir þar meðal annars orðrjett: „Magnús er orðvar maður og dulur á sína hagi. Og það er ekki fyrir ókunnugan mann að fá hann til að leysa ofan af skjóðunni. En margt gæti hann sagt urn 50 ára dvöl sína þarna í Krýsuvík, og þær byltingar, sem þar hafa orðið í fásinninu. Mig fýsti þó mest að fræðast um hann sjálfan og lífskjör hans, sem eflaust eru efni í heila skáldsögu.“ Þannig skrifar Árni Óla 1941. Karlinn „Einbúi í Krýsuvík“ sýnir, að Árni hefur skilið Magnús betur en margur annar, og er þetta betur skrifað en óskrifað.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Ekki er ólíklegt að mikil einurð um áratugi, t.d. við fjárgæslu og yfirstöðu, um eða yfir 50 vetur, svo og margra ára einlífi mestan hluta ársins mörg hin síðustu ár hans í Krýsuvík, hafi orðið til þess, að nokkur skel hafi myndast um lund hans og líf, sem að fjöldanum sneri, — en undir sló glatt og trútt hjarta, stór og viðkvæm lund, en drengileg. — Tilfinningum hans, ást og umhyggju fyrir elskaðri konu hans og börnum reyni jeg ekki að lýsa hjer. Það er öllum kunnugt, sem þar til þekktu nokkuð.
Fleiri voru það en hans nánustu, sem vissu um hans höfðings lund og heiðarleik. Jeg, sem þessar línur skrifa, var lengi búinn að þekkja Magnús, og vissi fyrir löngu hver maður hann vár, en best fann jeg það í handtaki hans jegar jeg kvaddi hann síðasta sinn heilbrigðan á Krýsuvíkurhlaði, sá það í augum hans og heyrði á rödd hans.
Við hjónin vorum þá að leggja heim úr sumarfríi, því þriðja, sem við höfðum eytt undir þaki Magnúsar í Krýsuvík, sem við ávallt minnumst með hlýju og þökk.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1953.

Magnús gerði sjer aldrei far um að sýnast, hvorki fyrir mjer nje öðrum. Fyndist Magnúsi, sem einhver hefði sjer greiða gert, var hann ekki í rónni fyrr en hann hafði á einhvern hátt yfirborgað þann greiðá. Hann gat engan látið eiga hjá sjer, jafnvel ekki þótt vinur hans væri. Hjer máttu engin mótmæli, ef hin stóra og viðkvæma sál hans skyldi ósærð. —
Gestrisni hans við gesti og gangandi er svo kímin, að ekki þarf hjer um að ræða, enda of langt mál fyrir stutta blaðagr., en þess mun margur minnast nú, þegar fráfall hans berst þeim til eyrna.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1950.

— Á fjárlögum 1945 veitti Alþingi, eftir einróma samþykkt fjárveitinganefndar, eitt þúsund krónur sem viðurkenningu fyrir aðhlynningu og hjálpsemi við gesti, sem til Krýsuvíkur komu, — en þá hafði hann, eins og segir í brjefi til fjárveitinganefndar, „verið aleinn í hinni fornu Krýsuvíkursókn í 10 ár, og haft þar opinn bæ, á þessum afskekkta, en oft heimsótta stað af innlendu og erlendu fólki.“

Nú hefur þú, vinur, gengið hina síðustu göngu hjerna megin elfunnar miklu. Ferjumaðurinn hefur sótt þig að bakkanum, þar sem þú varst búinn að bíða örþreyttur en æðrulaus í 5 ár.

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús frá Krýsuvíkurbænum frá fyrri tíð.

Hvað þú hefur hugsað öll þessi ár, er okkur að mestu hulið, en þegar kunnugir komu til þín og töluðu við þig, duldist þeim ekki að löngum muni hugur þinn hafa dvalið í Krýsuvík, og þá einkum við þau verk, sem þjer voru hugleiknust alla ævi, fjárgæsluna. —
Þrátt fyrir ástúðlegustu umönnun konu og barna, skyldi engan undra þótt sú bið hafi verið orðin þjer ærið löng; en þú varst eftir því, sem jeg best veit, sami rólyndi maðurinn, sem þú ávallt varst, meðan þú gekkst heill til skógar.

Krýsuvík

Krýsuvík og Krýsuvíkurkirkja 1950.

Á einverustundum orna mjer enn minningar frá okkar fyrri fundum, hvort heldur þeir urðu á heimíli þínu, eða þegar fundum bar saman, þá við hagræddum fje okkar í vetrarharðindum í högum úti. Ekki gafst þá alltaf mikið tóm til samræðna, þar eð báðir áttum langt heim að sækja, — annar í austur, hinn í vestur.
Oft gekkst þú á veg með mjer, þegar leið mín lá um Krýsuvík, og spjölluðum við þá um okkar hugðarefni. Í dag fylgi jeg þjer hljóður, úr þínu hlaði, síðasta spölinn, og þakka þjer fyrir alla samveruna.
Jeg tel að nú sje genginn síðasti Krýsvíkingurinn, þ.e.a.s. sá maðurinn, sem nú um langan aldur mun hafa dvalið þár lengst, og yfirgaf síðastur staðinn.
Góða ferð yfir til fyrirheitna landsins; þar munu bíða þín verkefni trúverðugrar sálar.“ – Ólafur Þorvaldsson frá Herdísarvík.

Heimild:
-Morgunblaðið 21.10.1950, Magnús Ólafsson, minning, bls. 10.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1945.

 

Sjómannablaðið Víkingur

Gils Guðmundsson skrifaði þrjár greinar í Sjómannablaðið Víkingur á árinu 1945 um „útgerðarsögu Sandgerðis„. Fyrsta greinin var um fortíðina; upphafið og önnur um þróun atvinnuhátta í bænum. Þriðja greinin fjallaði síðan um stöðu byggðarinnar og framtíðina. Hér birtist útdráttur úr annari greininni.

Tímabil Mattíasar Þórðarsonar

Gils Guðmundsson

Gils Guðmundsson (1914-2005).

Þegar danska útgerðarfélagið lagði upp laupana, átti Einar Sveinbjörnsson bóndi í Sandgerði forkaupsrétt að fiskveiðistöð þess. Hafði hann ekki tök á að kaupa, eða kærði sig ekki um það. Varð það úr, að Pétur J. Thorsteinsson, útgerðarmaður frá Bíldudal keypti stöðina af hinu danska útgerðarfélagi, en seldi brátt helminginn Matthíasi Þórðarsyni, sem verið hafði útgerðarstjórinn. Ráku þeir stöðina í sameiningu árið 1909, en vorið 1910 keypti Matthías hinn helminginn af Pétri, og átti þá stöðina alla. Rak hann síðan útgerð frá Sandgerði um fjögurra ára skeið.
Matthías Þórðarson er fæddur árið 1872, á Móum á Kjalarnesi. Hann er sonur Þórðar hreppstjóra Runólfssonar og Ástríðar Jochumsdóttur. Matthías tók skipstjórapróf árið 1890, og var skipstjóri í nokkur ár. Árið 1899 gerðist hann leiðsögumaður strandvarna- og mælingaskipanna dönsku hér við land, og hafði þann starfa á hendi til ársins 1907.

Matthías Þórðarson

Matthías Þórðarson (1872-1959).

Matthías hafði mikinn áhuga á framfaramálum útvegsins. Sá hann það glögglega, að eitthvert bezta vopnið í baráttunni fyrir þróun og eflingu þessa mikilvæga atvinnuvegar var gott og vekjandi málgagn. Árið 1905 hófst hann því handa af eigin atorku, og byrjaði útgáfu fiskveiðiritsins ,,Ægis“, er kom út mánaðarlega. Gaf Matthías Ægi út í fjögur ár og annaðist ritstjórn hans að öllu leyti. Þá hætti Ægir að koma út um sinn. Var það einkum vegna þess, að Matthías hafði mörgu öðru að sinna, og gat ekki í því snúizt að halda úti blaðinu, en enginn þess um kominn að grípa merkið á lofti. Síðar var Ægir vakinn til nýs lífs, eins og kunnugt er, eftir að Fiskifélag Íslands var stofnað. Hefur Fiskifélagið gefið ritið út síðan.
Þegar er Matthías Þórðarson hafði keypt útgerðarstöðina í Sandgerði tók hann að leita þeirra leiða, er hann áleit vænlegastar til góðs og farsæls árangurs. Hann var sannfærður um það, að Sandgerði var kjörinn staður til vélbátaútgerðar, ef rétt væri á haldið.

Ægir

Ægir, 1. tbl. 1945.

Lét hann svo um mælt í blaði sínu, Ægi, er hann skýrði frá því að hin danska útgerðartilraun hafði farið út um þúfur, að þrátt fyrir allt hafi staðurinn verið ,,mjög vel valinn, hvað snertir sjósókn og hægt að ná til fiskjar, . . . og mun því tíminn bezt leiða það í ljós, að hér verður framtíðar fiskistöð Suðurlands“.
Matthías sá þegar, að Sandgerði var fyrst og fremst til þess kjörið, að þaðan væri róið á vetrarvertíð. Til þess þurfti góða og sterka báta, sem hægt væri að bjóða annað og meira en blíðu sumarsins. Lét Matthías nú smíða þrjá vélbáta í Reykjavík. Hétu þeir Óðinn, Þór og Freyr. Þá leigði hann viðlegurúm aðkomubátum, og tók ákveðið gjald fyrir. Einnig hóf hann verzlunarrekstur í Sandgerði.
Matthías var svo hepinn að fá góða aflamenn á báta sína. Gekk þeim fremur vel að fiska, og var viðgangur útgerðarstöðvarinnar hægur og jafn þau árin, sem Matthías veitti henni forstöðu. Meginhluti alls þess starfsliðs, sem til þurfti bæði á sjó og landi, var aðkomufólk, því að enn voru menn ekki farnir að setjast að í Sandgerði til stöðugrar dvalar.

Sandgerði

Sandgerði – við línudráttinn.

Þótt aflinn í Sandgerði væri dágóður þessi árin, var aðstaða að ýmsu leyti erfið og kostnaður reyndist mikill við bátana. Bryggjan var ákaflega stutt, miðað við þörfina. Bátarnir komust ekki að henni nema á flóði. Þá varð að fleygja fiskinum upp á bryggjuhausinn og bera hann síðan í kassabörum upp í fiskkassana. Sumir höfðu til þess hjólbörur. Síðar komu handvagnar og þóttu þeir miklir kostagripir.
Á þessum árum urðu menn að bera salt allt á bakinu. Þegar saltskip komu, urðu þau að liggja úti á höfn, en síðan var saltið sótt um borð á árabátum. Frá árabátunum var hver einasti saltpoki síðan borinn á bakinu og komið í hús.
Þá var ekki smáræðis staut við fiskverkunina. Allan fisk burfti að bera og draga fram og til baka, milli húsa til vöskunar, söltunar og geymslu, út á kamb til þurrkunar, heim í hús aftur o.s.frv. Einn þeirra manna, sem átti í þessu stauti árum saman, hefur lýst því á þá leið, að í raun og veru hafi allt lífið veriö einlægur burður og dráttur, sí og æ, aftur og fram.

Sandgerði

Sandgeðri – fiskur á bryggjunni.

Stúlkur unnu mjög mikið að störfum þessum, og var ekki talið ofverkið þeirra að bera jafnvel hundrað punda pokana á bakinu klukkustundum saman. Oft var það við uppskipun, að nauðsyn bar til að vaða. Vöknuðu þá margir, og það jafnvel allt upp til miðs. Einatt slampaðist kvenfólkið með karlmönnunum við slíkt vos, og þótti engum mikið.
Matthíasi Þórðarsyni mun ekki hafa fundizt útgerðarstöðin bera sig nógu vel. Ákvað hann því að selja, og snúa sér að öðrum verkefnum. Urðu eigendaskipti að Sandgerði árið 1913. Eftir að Matthías hvarf frá Sandgerði, gerðist hann ráðsmaður hjá Fiskifélagi Íslands, en hann hafði átt góðan hlut að stofnun þess. Starfi þessu hjá Fiskifélaginu gegndi Matthías þó ekki nema eitt ár. Árið 1914 fluttist hann til Danmerkur og hefur átt þar heima síðan.

Sandgerði

Þýðing úr skrifum Matthíasar í „Nordisk Havfiskeri Tidskrift“ í Ægi 1927.

Matthías hefur fengizt mikið við ritstörf. Hann stofnaði og gaf út ritið „Nordisk Havfiskeri Tidsskrift“, er út kom árin 1926—1932, og þótti fróðlegt. Síðan árið 1935 hefur hann gefið út „Aarbog for Fiskeri“, sem einnig hefur aflað sér nokkurra vinsælda. Tvær stórar bækur hefur hann samið. Hin fyrri, „Havets Rigdomme“ er skrifuð á dönsku og kom út árið 1927. Síðari bókin er „Síldarsaga Íslands“, sem út var gefin árið 1930. Matthías er fróður mjög um fiskveiðamálefni og allvel ritfær.

Loftur Loftsson

Sjómaður

Sjómaður í vinnufatnaði þess tíma.

Segja má, að nýr kafli hefjist í sögu Sandgerðis þegar Akurnesingar „uppgötvuðu“ staðinn og komu þangað með dugnað sinn, tæki og verkkunnáttu.
Menn þeir, sem keyptu útgerðarstöðina af Matthíasi Þórðarsyni voru félagamir Loftur Loftsson og Þórður Ásmundsson á Akranesi. Þeir höfðu stofnað verzlun í sameiningu árið 1908, og hugðust nú að færa út kvíarnar. Varð það hlutskipti Lofts að sjá um rekstur Sandgerðisstöðvarinnar, en Þórður stjórnaði fyrirtæki þeirra félaga á Akranesi. Síðar gerðist Loftur einn eigandi stöðvarinnar í Sandgerði. Rak hann þar útgerð samfleytt í 22 ár.
Loftur Loftsson er fæddur á Akranesi árið 1884, sonur Lofts Jónssonar sjómanns þar og konu hans, Valgerðar Eyjólfsdóttur verkamanns í Reykjavík Pálssonar. Loftur hóf verzlunarstörf á unga aldri, en stofnaði sem áður segir verzlun á Akranesi, árið 1908 með Þórði Ásmundssyni. Áttu þeir verzlunina þar og Sandgerðisútgerðina í sameiningu til 1918, en þá slitu þeir sameigninni, og tók Loftur að öllu leyti við fyrirtækinu í Sandgerði. Loftur hefur jafnan verið búsettur í Reykjavík síðan útgerð hans hófst í Sandgerði. Kvæntur er hann Ingveldi Ólafsdóttur læknis í Þjórsártúni Ísleifssonar.

Loftur Loftsson

Loftur loftsson (1884-1960).

Þegar Loftur hóf útgerðina í Sandgerði, keypti hann báta þá er Matthías Þórðarson hafði átt, Óðinn, Þór og Frey. Brátt tók hann að færa meira út kvíarnar og bætti við sig ýmsum bátum. Hétu þeir Ingólfur, Björgvin, Svanur II og Hera. Voru þessir bátar stærri miklu en áður hafði tíðkazt að gera út frá Sandgerði, eða um og yfir 30 smálestir. Þeir voru og svonefndir útilegubátar, komu ekki tilhafnar á hverjum degi, en beittu og gerðu að fiskinum um borð.
Strax og Loftur kom til Sandgerðis, fjölgaði þar einnig aðkomubátum, sem keyptu sér viðleguleyfi og aðstöðu til róðra á vertíðinni. Í fyrstu voru bátar þessir einkum frá Akranesi, en brátt kom þar, að til Sandgerðis streymdu bátar víðs vegar að. Má óhætt segja, að með komu Lofts hófst mikið athafnalíf í Sandgerði.
Stækkaði Loftur allmikið hús þau sem fyrir voru, þar á meðal íshúsið. Rak hann stöðina af dugnaði og myndarskap. Margir höfðu góða atvinnu í landi á vertíðinni, auk þess sem sjómenn báru oftast mikið úr býtum, þegar miðað er við það sem annars staðar var. Fiskvinna var mikil að sumrinu. Kvenfólk kom fjölmargt úr Garði, af Miðnesi og víðar að, vaskaði fiskinn og þurrkaði hann. Síldveiðar voru hins vegar sáralítið stundaðar í Faxaflóa á þessum árum, og var mikil beitusíld fengin frá Norðurlandi.

Haraldur Böðvarsson

Sandgerði

Haraldur Böðvarsson (1889-1967).

Þegar er Loftur hafði dvalizt árlangt í Sandgerði og gert þaðan út eina vertíð, þótti sýnt, að þar væru ágæt skilyrði til vélbátaúrgerðar. Einkum var þessi skoðun ofarlega í hugum manna á Akranesi, því að þaðan var Loftur og þar var, af eðlilegum ástæðum, einna mest talað um framkvæmdir hans.
Á Akranesi óx upp um þessar mundir mannval mikið svo sem síðar hefur komið greinilega í ljós. Einna fremstur í þeim hópi er sá maðurinn, sem um langan aldur hefur borið höfuð og herðar yfir aðra atvinnurekendur á Akranesi, og þótt víðar væri leitað. Sá hinn sami maður var og um nær þrjá tugi ára annar helzti máttarstólpinn í Sandgerði, og átti meginþáttin í því, ásamt Lofti Loftssyni, að gera þann stað að einu stærsta útgerðarþorpi landsins. Maðurinn var Haraldar Böðvarsson.
Haraldur Böðvarsson er fæddur árið 1889 á Akranesi. Foreldrar hans voru Böðvar kaupmaður Þorvaldsson og kona hans Helga Guðbrandsdóttir bónda í Hvítadal Sturlusonar. Haraldur sá það glögglega, þegar er hann kynntist Sandgerði, að þar var um mikinn framtíðarstað að ræða. Þetta hið sama ár, 1914, leigði hann allstóra lóðaspildu af landi Einars bónda Sveinbjörnssonar í Sandgerði, og hóf þegar að reisa þar nýja útgerðarstöð frá grunni. Naut hann við þetta hjálpar föður síns og tókst með framsýni mikilli og dugnaði að sigra allar torfærur. Lét hann smíða állstór verzlunar- og
vörugeymsluhús, salthús, sjóbúðir og bræðsluskúr.

Sandgerði

Sandgerði – trébryggja og geymsluhús.

Næsta ár lét Haraldur gera bryggju og íshús. Hélt hann svo áfram að fjölga byggingum eða stækka þær, sem fyrir voru, unz upp hafði risið mikil þyrping húsa, og taka mátti til fastrar viðlegu um 20 báta á stöðina. Voru byggingar flestar af miklum myndarskap gerðar, eftir því sem þá var talið hæfa; að langmestu leyti úr steini og vel vandaðar.
Jafnhliða þessum framkvæmdum í Sandgerði, hélt Haraldur áfram að auka bátaflota sinn.
Sá var jafnan háttur Haraldar Böðvarssorar, að hann hafði báta sína í Sandgerði blómann úr vetrarvertíðinni, en flutti þá til Akraness og gerði út þaðan er honum þótti það vænlegra til árangurs eða hentugra. Auk sinna eigin báta, hafði hann á sínum snærum í Sandgerði mikinn hóp viðlegubáta víðs vegar að af landinu. Voru þeir jöfnum höndum af Akranesi, úr Hafnarfirði, Reykjavík, Vestmannaeyjum, Ísafirði eða Eyrarbakka.

Sandgerði

Sandgerði – höfnin.

Bátar þessir fengu allar sínar nauðsynjar hjá verzluninni. Hún keypti aftur af þeim fiskafurðirnar og lét í té svefnskála fyrir skipverja, beitingaskúra, fiskaðgerðasvæði og þar frarn eftir götunum. Þá var og mikill fjöldi svonefndra útilegubáta, sem sóttist eftir að skjótast inn á Sandgerðishöfn. Gerðu þeir oft og einatt samninga við annan hvorn útgerðarmanninn á staðnum, Harald eða Loft, um að fá hjá þeim kost, veiðarfæri, salt og beitu, en seldu þeim aftur lifrina úr fiskinum eða lýsið. Voru oft mikil viðskipti við þessa báta, enda komu þeir sömu oft ár eftir ár. Mátti stundum sjá vænan hóp vélbáta liggja á Sandgerðishöfn, þegar gerði frátök og útileguskipin leituðu í var.
Hafði nú hróður Sandgerðis sem útgerðarstöðvar vaxið svo mjög, að bátaeigendur víða um land gerðust æ ákafari að fá þar viðlegu fyrir fleytur sínar.

Sandgerði

Sandgerði – frá útgerð Haraldar Böðvarssonar.

Þessi mikli vöxtur vélbátaútgerðar frá Sandgerði hafði þau áhrif, að róðrar á opnum bátum lögðust að mestu niður í Garði og á Miðnesi, en netaveiðar höfðu löngum verið mjög mikið stundaðar í Garðsjó og víðar. Garðmenn hófu nú að koma sér upp vélbátum til viðlegu í Sandgerði, því að hafnleysi bannar þeim heimaróðra á öllum meiri háttar fleytum. Frumherji Garðmanna í þessum efnum mun hafa verið Þorsteinn bóndi og útgerðarmaður Gíslason á Meiðastöðum. Síðan kom Guðmundur Þórðarson í Gerðum og þá hver af öðrum.
Þegar flestir voru vélbátarnir í Sandgerði, munu hafa hafzt þar við nálega 40 landróðrabátar, — um 20 frá hvorri útgerðarstöð, — en auk þess hafði þar bækistöð mikill fjöldi útilegubáta, og munu þeir jafnvel hafa komizt upp í 80 eða meira.

Enn frá Haraldi Böðvarssyni

Sandgerði

Sandgerði – tóftir gamla Sandgerðisbæjarins.

Árið 1916 keyptu þeir Haraldur Böðvarsson og Loftur Loftsson í sameiningu jörðina Sandgerði, af Einari Sveinbjörnssyni, og skiptu henni á milli sín. Einar fluttist til Reykjavíkur og átti þar heima til banadægurs.
Árið 1920 keypti Haraldur Böðvarsson hjáleiguna Tjarnarkot, og sameinaði þá landspildu aðaljörðinni. Við það varð olnbogarými meira og aðstaða betri til hvers konar framkvæmda. Rak Haraldur útgerðina í Sandgerði alla stund af fyrirhyggju og dugnaði, enda græddist honum þorp nokkurt í Sandgerði, utan um útgerð þá, sem þaðan var rekin. Þó hefur sá háttur jafnan haldizt, að mikill hluti þess liðsafla, sem starfar í Sandgerði á vertíðinni er aðkominn.
Haraldur Böðvarsson er kvæntur Ingunni Sveinsdóttur frá Mörk. Þau giftust árið 1915, og settust þá að í Reykjavík. Þar bjuggu þau til ársins 1924, að þau fluttu búferlum til Akraness. Hafa þau átt heima á Akranesi síðan.

Aflagarpar

Sandgerði

Sandgerði í gamla daga.

Útgerðarmenn í Sandgerði voru svo lánsamir, að þangað völdust ýmsir dugandi og aflasælir formenn, þegar á hinum fyrri árum vélbátaútgerðarinnar. Sýndu þeir og sönnuðu það svo glögglega, að ekki varð um villzt, hversu auðug fiskimið þau voru, sem róið varð til frá Sandgerði. Eiga margir þessir garpar það fyllilega skilið, að minningu þeirra sé á lofti haldið. Og þótt varla tjái að þylja nöfnin tóm, verður nokkurra þeirra hér lítið eitt getið.
Kristjón Pálsson var höfðings- og dugnaðarmaður, og einhver hin mesta aflakló, sem um getur. Hann hafði um skeið forystu fyrir öðrum skipstjórum er reru frá Sandgerði. Fyrstur manna suður þar hætti hann algerlega við þorskanot og veiddi eingöngu á línu alla vertíðina.

Sandgerði

Sandgerði – fiskaðgerð.

Áður hafði það verið föst og ófrávíkjanleg regla, að allir köstuðu frá sér línunni og tóku upp þorskanet þegar sílið (loðnan) kom, en það var oftast í marzmánuði. Höfðu menn þá trú, að ekki þýddi hið minnsta að leggja línu eftir að loðnan var komin. Kristján sýndi fram á að þessi skoðun var röng. Hélt hann áfram línuveiðum þó að loðna kæmi, og fiskaði allra manna bezt. Tóku þá flestir þann hátt eftir honum, og lagðist netaveiði að verulegu leyti niður hjá Sandgerðisbátunum. Bátur sá, er Kristjón stýrði, hét Njáll. Áttu þeir hann í sameiningu Kristjón og Loftur Loftsson. Njáll fórst 11. febrúar 1922, og drukknaði Kristjón þar ásamt hásetum sínum öllum. Þetta var í afskaplegu útsynningsroki, og skeði slysið lítið eitt innan við Garðsskaga. Annar vélbátur, Björg að nafni, hafði orðið að mestu leyti samhliða Njáli, og var að lensa inn fyrir Skaga eins og hann. Sáu skipverjar á Björgu að upp reis ofsaleg holskefla, stærri öllum öðrum. Lenti Björg í útjaðri brotsins og var mjög hætt komin, en Njáll var í miðju hvolfi þessarar himinglæfu og stakkst á endann þráðbeint niður í djúpið. Kristjón var enn ungur maður er hann fórst, og þótti að honum rnikill mannskaði, sem og skipverjum hans.

Sjúkraskýlið

Sandgerði

Sandgerði – sjúkraskýli RKÍ.

„Margt skeður á sæ“, segir gamalt máltæki, og hefur það löngum þótt sanni nær. Eitthvað svipað má eflaust segja um þá staði, þar sem athafnalíf allt er með miklum hraða og stendur ekki með miklum blóma nema skamman tíma á ári hverju, þar sem fjöldi manna safnast saman úr ýmsum áttum, leggur á sig vos og vökur til að grípa gullið meðan það gefst, og verður oft að búa við misjafna aðbúð fjarri heimilum sínum. Ef til vill er óvíða meiri þörf á einhverri aðhlynningu og hjálp í viðlögum en einmitt þeim stöðum, þar sem þessu líkt stendur á.
Í Sandgerði hefur aldrei læknir setið. Hefur því orðið að leita til Keflavíkur eða Grindavíkur þegar til læknis þurfti að grípa. Reyndist það oft mjög bagalegt, meðan ekki var hægt að fá gert skaplega við skurð á hendi eða graftarbólu á hálsi án þess að standa í læknisvitjun eða ferðalögum undir læknishendur. Þá var það ákafiega illt, að sitja ráðalítill uppi ef maður veiktist skyndilega. Var sjaldan hlaupið á að koma sjúklingi fyrirvaralaust í sjúkrahús, enda langan veg að fara, en á hinn bóginn engin leið að annast fárveika menn í litlum og loftillum svefnskálum, þar sem fjöldi sjómanna hafðist við og gekk um á öllum tímum sólarhringsins.

Sandgerði

Sandgerði – byggingar.

Það var því hið þarfasta verk, er Rauði Kross Íslands hófst handa árið 1937 og reisti í Sandgerði ágætt sjúkraskýli. Það er að vísu ekki stórt, en bætir þó prýðilega úr brýnni þörf. Í húsinu eru tvær vel búnar sjúkrastofur, og geta legið þar fjórir sjúklingar í einu. Ef nauðsyn krefur, er hægt að taka við nokkru fleiri sjúklingum um stundarsakir.
Veturinn 1939—1940 var sjúkraskýlið endurbætt allmikið. Þar var þá einnig komið upp finnsku baði. Hafði tekizt að festa kaup á baðofni og fá hann afhentan fáum dögum áður en styrjöldin hófst. Hefur bað þetta verið mikið notað síðan, og þykir sjómönnum það hið mesta þing. Þá eru og venjuleg steypiböð í húsinu.

Sandgerði

Sandgerði – bátar við bryggju.

Á hverri vertíð hefur Rauði Krossinn ráðið vel mennta hjúkrunarkonu til að annast rekstur Sjúkraskýlisins, en læknir frá Keflavík hefur eftirlit með sjúklingum og framkvæmir meiri háttar aðgerðir. Nýtur starfsemi þessi mjög mikilla vinsælda, enda hefur hún bætt úr brýnni þörf. Áður en Sjúkraskýlið var reist höfðu hjúkrunarkonur frá Rauða krossinum starfað um langt skeið á vertíð hverri í Sandgerði.

(Í þriðju og síðastu greininni, 01.12.1945, um Sandgerði er fjallað um uppbyggingu bæjarins og framtíð hans. Hún birtist í næsta blaði).

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 9. tbl. 01.09.1945, Útgerðarstöðvar og verstöðvar, Sandgerði, Gils Guðmundsson, bls. 207-213.

Sandgerði

Sandgerði – aflinn kominn á land.