Hafnarfjörður

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu árið 1957, fjallar Friðfinnur V. Stefánsson um „Guðlaugs þátt Gjáhúsa„.

Símtal
Friðfinnur V. Stefánsson„Það var kvöld eitt, ekki alls fyrir löngu, að til mín hringir blaðamaður og spyr, hvort ég sé fáanlegur til þess að skrifa smáþátt um minn gamla vin og kunningja, Guðlaug heitinn Gjáhúsa.
Ég tók þessu mjög illa. Taldi ég öll vandkvæði á því. Benti ég á, að frá því ég lauk prófi frá Flensborgarskóla 1911 hefði ég naumast snert penna. Hlutskipti mitt í lífinu hefði verið að handleika handbörukjálka, fisk, kola- og saltpoka, skóflur, hamra, múrskeiðar, beizlistauma og m. fl. Nei, það var svo fráleitt, að ætlast til þess að ég færi að skrifa minningaþátt. Það var jafn fráleitt og farið væri fram á það við mig, að ég reyndi að ná tíkinni margumtöluðu niður úr tunglinu. En blaðamaðurinn var ýtinn. Ég kvaddi hann samt snögglega og lagði símatólið á.

Vindás

Vindás í Hvolhreppi.

Síðar um kvöldið, þegar ég var háttaður, tókst mér ekki að sofna, hvernig sem ég reyndi. Ég var í huganum aftur og aftur kominn út í gamlan ævintýraheim. Við Guðlaugur vorum komnir á hestbak og þeystum um grænar grundir, fjöll og hálsa. Og þegar við áðum, sagði hann mér sögu eftir sögu af sinni alkunnu snilld. Þetta gekk langt fram á nótt. Loksins sofnaði ég. Daginn eftir, er hlé varð á störfum mínum, leitaði ég uppi blað og penna og byrjaði.

Inngangur

Guðlaugur

Guðlaugur Guðlaugsson (1874-1951).

Það er orðin næsta algeng venja að tala um, að hún eða hann hafi sett svip sinn á bæinn. Ég ætla nú að fylgja þessari venju og segja, að hafi nokkur maður sett svip sinn á Vesturbæinn í Hafnarfirði, þá var það Guðlaugur heitinn Gjáhúsa.
Guðlaugur var að mörgu leyti merkilegur maður og á ýmsan hátt dálítið sérstæður persónuleiki, sem allir hlutu að taka eftir, sem einhver kynni höfðu af honum. Hann var bæði greindur og minnugur.
En það í fari hans, sem sérstaklega heillaði mann, var hve snarráður, úrræðagóður, ósérhlífinn og fylginn sér hann var. Þó er einn ótalinn eðlisþáttur hans. Hann verður ógleymanlegur öllum þeim, sem kynntust honum. Hann bjó yfír alveg óvenjulega frjórri frásagnargáfu – og gleði. Mun ég nú reyna að lofa lesendum að kynnast henni ofurlítið, með því að endursegja nokkrar sögur og minni atburði, er hann sagði mér.

Uppvaxtarár
Eggert PálssonGuðlaugur var fæddur 26. ágúst 1874 að Vindási í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Ólst hann þar upp við kröpp kjör, eins og hlutskipti margra var í þá daga. Rétt fyrir fermingu, að mig minnir fastlega, missir hann föður sinn úr lungnabólgu og systkini sín þrjú úr barnaveiki, öll í sömu vikunni.
Ekki var þetta nú uppörvandi fyrir umkomulausan fermingardreng að leggja með þetta veganesi út í lífið. Þá var ekki margra kosta völ fyrir þá, sem enga áttu að. Einn og óstuddur varð hann að sjá sér farborða.
Fyrst var hann á bæjum í Fljótshlíðinni t. d. jarðskjálftaárið mikla 1896, þá rúmlega tvítugur að aldri. Hrundu þá bæjardyrnar á bæ þeim, er hann dvaldi á, svo að hann og annað heimilisfólk varð að skríða út um stafngluggann á baðstofunni. Aldrei gat Guðlaugur gleymt þessum atburði. — Þá var Guðlaugur einnig vinnumaður hjá síra Eggerti á Breiðabólsstað. Þann mann dáði Guðlaugur mikið.

Herdísarvík
HerdísarvíkBrátt tók Guðlaugur, eins og fleiri í þá daga, að fara suður til sjóróðra. Reri hann margar vertíðir, oftast í Grindavík. Kem ég betur að því síðar. Þá var alltaf farið um Selvog og Herdísarvík. í einni vertíðarferð kynntist Guðlaugur bóndanum í Herdísarvík, Þórarni Árnasyni, sýslumanns í Krýsuvík. Réðist Guðlaugur til hans og gerðist fjármaður hans, við mikinn og góðan orðstír. Hjá honum var hann í fimm ár. Þroskaðist hann þá mikið. Reyndi þarna oft á þrek hans í vondum veðrum við fjárgæzluna. í Herdísarvík var að mestu byggt á beit, bæði til fjöru og fjalls. Margan, kaldan vetrardaginn, þegar jarðbönn voru, stóð hann myrkranna á milli við ofanafmokstur til þess að féð næði að seðja mesta hungur sitt.
Síðar í þættinum mun ég víkja frekar að veru Guðlaugs, í Herdísarvík.

Ástin vaknar

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Guðlaugur varð, eins og aðrir fjármenn, að fara í útréttir. Haust nokkurt sendi Þórarinn bóndi hann í Gjáarrétt við Hafnarfjörð.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Sá Þórarinn mikið eftir því, að hafa sent Guðlaug í þessa ferð. Hann vildi fyrir hvern mun halda í Guðlaug. En í þessari ferð gisti Guðlaugur á Setbergi. Þar sá hann mjög gjörvulega og myndarlega stúlku, Sigurbjörgu Sigvaldadóttur, sem síðar varð ævilangur förunautur hans. Þegar Guðlaugur kom heim úr réttarferðinni, leið ekki á löngu áður en hann sagði upp vistinni. Hvarf hann frá Herdísarvík, þegar ráðningartími hans var á enda.
Flutti hann þá að Setbergi við Hafnarfjörð og gerðist vinnumaður um skeið hjá Halldóri Halldórssyni, sem síðar var kenndur við Bergen í Hafnarfirði.

Til Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1905.

Flestum lífverum er frelsisþráin meðfædd. Svo er um okkur mennina. Brátt tóku þau Guðlaugur og Sigurbjörg að búa sig undir að verða sjálfstæð. Árið 1905 eða 1906 fluttu þau hjón til Hafnarfjarðar.

Víðistaðir

Víðistaðir – stakkstæðið.

Bjuggu þau fyrst á svonefndu Stakkstœði, þar sem Guðmundur á Hól, Eyjólfur frá Dröngum o. fl. bjuggu. Það lýsir Guðlaugi vel að undir eins á fyrsta ári byrjar hann á því að byggja hús þar við Vesturbraut, er hann síðar nefndi Gjáhús. Stendur það enn, sem kunnugt er. Þarna bjuggu þau hjónin alla tíð síðan, með mikilli prýði og myndarskap. Brátt fékk Guðlaugur gott orð á sig sem smiður.
Stundaði hann smíðar um margra ára skeið.

Djöflafélagið

Hafnarfjörður 1912

Hafnarfjörður 1912.

Um þessar mundir var lítið um félagssamtök í Hafnarfirði. Góðtemplarareglan var helzti félagsskapurinn. En um þetta leyti reyndu verkamenn í Hafnarfirði að stofna með sér félag. Guðlaugur tók þátt í því. Mig langar að segja frá smáatviki, sem henti Guðlaug. Lýsir það vel aldarandanum í þá daga.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Það var kvöld eitt, að Guðlaugur var á leið heim. Hann hafði verið á verkamannafélagsfundi. Hittist svo á, að atvinnurekandi nokkur og einn af betri borgurum bæjarins stóð á tröppum húss síns. Ávarpaði hann Guðlaug heldur hvatskeytislega með þessum orðum: „Ert þú genginn í þetta Djöflafélag, Guðlaugur?“
„Ef þú átt við verkamannafélagið, þá er ég genginn í það,“ svaraði Guðlaugur jafn snúðugt og hinn spurði. Hélt hann síðan áfram ferð sinni. — Guðlaugur vann hjá þessum manni.

Gjáhús

Gjáhús. Guðlaugur byggði lágreist hús að Merkurgötu 18 árið 1906 er síðar varð Vesturgata 16.

Næstu fjóra daga var hann ekki kvaddur til vinnu. En á fimmta degi var sent eftir honum og vinna tekin upp eins og ekkert hefði í skorizt. Svona var nú aldarandinn þá. Stingur þar mjög í stúf við öll elskulegheitin, sem atvinnurekendablöðin sýna launastéttunum nú og jafnvel hálaunastéttunum. En skylt finnst mér að taka fram, að fyrrnefndur atvinnurekandi og hans líkar voru ýmsum kostum búnir líka, þótt þeir væri kaldir og hrjúfir á stundum. Þeir áttu það til að lána fátækum mönnum bæði timbur og járn o. fl. til þess að þeir gætu byggt sér skýli yfir höfuðið, — og ábyrgðar- og rentulaust. Væntanleg vinna, ef heilsa og kraftar leyfðu, var eina tryggingin.

Vindmyllan

Vindmylla

Vindmylla.

Guðlaugur stundaði smíðar, eins og fyrr var sagt, í nokkur ár. Síðan breytti hann til og gerðist verkstjóri hjá Bookless Bros. Í þá daga var notuð vindmylla til þess að dæla sjó í þvottakerin. Skal nú sagt frá atburði, seni sýnir, að Guðlaugur var gæddur óvenjulegu hugrekki, snarræði og þreki, er í þessu tilfelli gekk ofdirfsku næst.
Guðlaugur var hvorki stór maður vexti né kraftalegur, en hann leyndi á sér. Þrekið og áræðið fór þó langt fram úr því, sem útlitið benti til. Það vissu þeir, sem með honum unnu. Andlitsdrættir Guðlaugs voru sterkir og fastmótaðir. Stundum fannst mér gæta nokkurs kulda í svipnum. Má vera, að harðrétti og óblíða unglingsáranna ætti þar nokkurn hlut að.
Það var einhverju sinni, að verið var að dæla sjó með vindmyllunni. Þá rauk hann skyndilega upp á norðan. Hvassviðrið jókst og myllan ærðist, ef svo mætti segja.

Hafnarfjörður

Athafnasvæði Bookless-bræðra í Hafnarfirði í kríngum 1913. Vindmyllan sést á myndinni.

Stórhætta var á að vængir myllunnar brotnuðu í spón, ef ekki tækist að stöðva hana. Nú voru góð róð dýr. Þarna voru margir karlmenn til staðar, en enginn treysti sér til þess að fara upp og freista þess að stöðva mylluna. Þá bar Guðlaug þarna að. Hann réðst þegar í stað til uppgöngu, en myllan stóð í turni á húsþakinu. Guðlaugur lét þrjá menn fylgja sér. Hann skipaði þeim að taka traustataki um taug, er bundin var í stél myllunnar. Áttu þeir að beina vængjum hennar undan vindi, ef ske kynni að hún hægði nokkuð á sér. Meðan þessu fór fram, tók Guðlaugur sér stöðu, hélt sér föstum með annarri hendi, en hina hafði hann lausa. Hugðist hann grípa með henni um einn vænginn, ef færi gæfist. Allt í einu rak fólkið, sem á horfði, upp skelfingaróp. Guðlaugur hafði gripið um vænginn. Við þetta missti hann fótanna, sveiflaðist nokkra stund í lausu lofti, en hvorugri hendinni sleppti hann. Það gerði gæfumuninn, — og vindmyllan stöðvaðist. Létti mjög yfir áhorfendum, þegar Guðlaugur hafði leyst þessa þrekraun af hendi.

Hlauparinn

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Áður en bílar komu til sögunnar notaði yngra fólkið helzt reiðhjól til þess að ferðast á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Dag nokkurn lagði einn snjall og kappsamur hjólreiðamaður, Ásgeir G. Stefánsson að nafni, á stað til Reykjavíkur. Er hann var kominn rétt upp fyrir bæinn, sér hann gangandi mann á undan sér. Hann þekkti manninn, sem var á leið til Reykjavíkur, kastar á hann kveðju, um leið og hann hjólar fram hjá honum. Heldur Ásgeir síðan áfram með sígandi hraða og horfir fram á veginn. Skömmu síðar verður hann þess var, að maðurinn, sem hann var nýbúinn að kveðja, er kominn á hæla honum og hleypur mjög léttilega. Ásgeir hjólaði alltaf greitt, og fylgdust þessir kappar að alla leið, til Reykjavíkur, þótt ótrúlegt megi virðast. Ekki var hlauparinn mæðnari en það, að þeir héldu uppi eðlilegum samræðum mikið af leiðinni.
HafnarfjörðurNú skyldi margur ætla, að hér væri á ferðinni Olympíufari eða hlaupasnillingur, sem þjálfaður er eftir kerfisbundnum reglum. Nei, þarna var á ferðinni sonur dalanna og íslenzku heiðanna, þjálfaður af nauðsyn í sjálfu lífsstarfinu, smali, nýfluttur til Hafnarfjarðar, Guðlaugur frá Gjáhúsum.
Mér þykir rétt að skjóta því hérna inn í, úr því að ég fór að minnast á hjólreiðamenn, að fleiri voru snjallir og kappsfullir en Ásgeir, t. d. Guðmundur Hróbjartsson, Ólafur Davíðsson, Gunnlaugur Stefánsson og Þorbjörn Klemensson. Einu sinni lenti þeim Gunnlaugi og Þorbirni saman í geysiharðri keppni, og mátti varla milli sjá, hvor þeirra var á undan, þegar hetjurnar, móðar og másandi, náðu Hraunsholtsbeygjunni.
Guðmundur Hró og Ásgeir áttu það stundum til að skreppa austur yfir fjall á hjólum sínum seinni part laugardags, borða lax á Kolviðarhóli (þá voru allar rúður þar vel heilar) á austurleið, koma svo aftur heim til Hafnarfjarðar að sunnudagskveldi. Brást þó aldrei, að þeir voru mættir til vinnu í bítið á mánudagsmorgni. En þetta var nú útúrdúr. —

Nautið
Vindás
Nú bregðum við okkur, lesandi góður, austur á æskustöðvar Guðlaugs.
Það var einn dag um hásumarið í góðu veðri, að Guðlaugur fór fram á heiði til þess að huga að hestum. Þarna var vel grösugt en allstórir steinar á víð og dreif. Allt í einu tekur Guðlaugur eftir því, að heljarmikið naut stendur fyrir framan hann. Hefur það sennilega legið á bak við einn stóra steininn. Nautið rekur upp öskur mikið, tekur undir sig stökk og stefnir beint á Guðlaug.

Setberg

Setberg um 1986 – fjósið.

Drengurinn tekur til fótanna, stekkur að stærsta steininum þarna og kemst með naumindum upp á hann. Nautið skellir framfótunum upp á steininn og öskrar ógurlega. Drengurinn getur þó varizt og er hólpinn í bili. Nú var Guðlaugur staddur í ærnum vanda. Aleinn, svangur, hræddur og langt frá mannabyggðum. Við fætur hans stóð dauðinn í nautslíki. Nautið hafði nóg gras að bíta. Það gat því beðið endalaust eftir bráð sinni. En lesandi góður: Eftir nokkra stund var ungi drengurinn búinn að leysa þessa heljarþraut, sloppinn úr allri lífshættu og kominn heim á leið.
Hann hafði stungið hendi í vasa sinn, opnað vasahnífinn, stóð þarna allvígalegur á steininum og engdi nautið óspart, en það teygði fram hausinn og reyndi öskrandi að ná til drengsins. Leiftursnöggt brá litli drengurinn hnífi sínum og rak hann á kaf í annað auga dýrsins. Nautið rak upp feiknarlegt öskur, hentist af stað út í buskann, eins langt og augu drengsins eygðu.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Setberg 1983.

Guðlaugur rölti heim á leið, glaður og hryggur. Góður drengur kennir í brjósti um sært dýr. En þetta var nauðvörn hans. Ekki þorði hann að segja neinum frá þessu, þegar heim kom.
Sumarið leið. í vetrarbyrjun var Guðlaugur sendur á bæ fram í sveit. Það var byrjað að skyggja, þegar hann kom að bænum. Hann sá glitta í ljóstýru í fjósinu. Gengur hann þá inn í fjósið og býður hressilega gott kvöld. Um leið tekur að hrikta í öllu og fjósið að skjálfa. Stórt naut, sem bundið var á utasta bás, slítur sig laust og ryðst út og er horfið á svipstundu.
Heimamaður kvað naut þetta hafa komið eineygt af fjalli um haustið. „Þetta er ekki einleikið. Það er engu líkara en það hafi brjálazt.“ — Guðlaugur mælti fátt, en hugsaði: „Nautgreyið hefur þekkt rödd mína og ekki viljað eiga það á hættu að missa hitt augað líka.“

Blóðblettir

Heykuml

Heykuml – h.m.

Einn vetur, þegar Guðlaugur var á 14. ári, var honum falið að hirða fé á eigin ábyrgð, að öðru leyti en því, að móðir hans kom vikulega til þess að fylgjast með verkum sonar síns. Við fjárhúsið var heykuml. Stóð fjárhúsið nokkuð frá bænum. Svo bar við, að móðirin finnur að því við son sinn, að hann gangi ekki nógu vel um heyið. Segir hún töluverðan slæðing vera á gólfinu og heyið vera illa leyst.
HafnarfjörðurGuðlaugi sárnar þetta nokkuð og lofar að gera betur. Gefur hann enga skýringu á þessu og reynir ekki að afsaka sig.
Þegar móðir hans er farin, verður Guðlaugur sér úti um fjóra ljái, brýnir þá allvel. Stingur hann þeim síðan í stálið hér og hvar.
Guðlaugi gengur hálfilla að sofna um kveldið. Næsta morgun er hann snemma á fótum. Hann röltir til fjárhúsanna. Hann opnaði síðan heykumlið, dálítið óstyrkur. Nú var engan slæðing að finna. En þarna á gólfinu mátti sjá annað, sem vissulega kom honum ekki á óvart. Hér og hvar gat að líta blóðbletti.
Þennan sama dag og næstu daga, sást maður nokkur í sveitinni með reifaðar hendur. Ekki þurfti móðir Guðlaugs að vanda um við son sinn vegna slæmrar umgengni í hlöðunni eftir þetta.

Seilin
GrindavíkVið erum stödd um síðustu aldamót niður í fjöru í Grindavík.
Mikið er um að vera. Vel hefur fiskazt þennan dag. Mörg skip hafa orðið að seila. En um aldamótin síðustu var, sem kunnugt er, róið á opnum bátum. Þurfti þá að gæta ýtrustu varfærni við að ofhlaða ekki þessi litlu, opnu skip. Var þá það ráð tekið að seila, sem kallað var. Það var gert á eftirfarandi hátt: Nál úr hvalbeini, með flötum, þunnum oddi og víðu auga var stungið undir kjálkabarð fiskjarins og út um kjaftinn. Bandi var brugðið í augað og fiskarnir þræddir upp á bandið, einn af öðrum. Fiskurinn á bandinu var síðan látinn fljóta aftur með skipinu og dreginn til lands. Þessu má líkja við, þegar kringlur voru dregnar upp á band í gamla daga eða. perlur nú til dags. Þegar komið var með seilar að landi, var þeim stundum fest við steina í fjörunni. Stundum var líka haldið í þær.
SeilaðVíkjum nú aftur að því, þar sem við stöndum í fjörunni. Guðlaugur er þar að vinna. Hann verður þess var, að ein seilin er að renna út með útsoginu og hverfa. Töluvert hafði brimað. Guðlaugur bregður eldsnöggt við, hleypur á eftir útsoginu, sækir seilina, — en verður of seinn. Kolblá holskeflan skellur yfir hann og han n hverfur um stund. En með einhverjum óskiljanlegum hraða tekst honum að komast í var við stóran, þangivaxinn stein. Greip hann traustataki í þangið. Hélt hann sér þar rígföstum.
Drykklanga stund var Guðlaugur í kafi, en aftur kom útsog, og upp stóð piltur, að vísu dálítið dasaður. Hélt hann um seilina og skilaði henni til lands. Jafnaði hann sig furðufljótt. Varð honum ekki meint af volkinu, en fékk dálítil aukalaun, og aðdáun allra hlaut hann að sjálfsögðu fyrir þetta einstæða afrek sitt.

Vaka við tafl á jólanótt

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjólshrauni.

Þetta gerðist á aðfangadag jóla, dimmt var í lofti, frost nokkurt og herti það, er á daginn leið. Guðlaugur hafði farið, að venju, í birtingu til fjárins. Hann hafði með sér skóflu, því að snjó hafði hlaðið niður. Hugðist hann létta fénu krafsturinn, með því að moka ofan af. Upp úr hádeginu tók að hvessa og hríða að nýju. Enn herti frostið og loks tók að skafa líka.
Lagði nú Guðlaugur alla áherzlu á að ná fénu saman í skjól. Ekki var það áhlaupaverk.

Fjárskjólshraun

Fjárhellir í Fjárskjólshrauni vestan Herdísarvíkur.

Guðlaugur hafði þann háttinn á við fjárgeymsluna, að halda fénu í smáhópum, dreift um allt beitilandð. Í illviðrum reyndi hann að halda hverjum hópi í sínu skjóli. Vann hann nú dyggilega að því ásamt hundi sínum að koma fénu í afdrep, og gekk það vonum framar. Dagur tók að styttast og alltaf snjóaði meir og meir. Skall nú á iðulaus stórhríð og hörkugaddur. Þá var Guðlaugur staddur í svonefndu Fjárskjólshrauni, langt vestur af Herdísarvík. Þarna barðist Guðlaugur nú upp á líf og dauða í grenjandi stórhríðinni og hafði ekkert nema vindstöðuna að styðjast við. Hinn nístandi sviði í fótunum kvaldi hann mikið. Brátt dró úr sviðanum aftur, en ekki vissi það á gott, eins og síðar kom fram.

Herdísarvík

Herdísarvíkurbærinn yngri.

Verður nú fljótt farið yfir sögu. Guðlaugur náði heim með guðshjálp. Gaddfreðinn, fannbarinn og kalinn á fótum komst hann heim til bæjar að lokum. Var honum vel fagnað, hresstur á volgri nýmjólk, og ekki var seppa heldur gleymt, sem líka var illa á sig kominn. Fötin voru rist utan af Guðlaugi, bali með vatni í settur við rúm hans og ísmolar settir í vatnið. Síðan var Guðlaugi hjálpað við að koma fótunum ofan í balann.
Þannig sat Guðlaugur alla jólalóttina — og langt fram á næsta morgun. — En húsbóndinn, Þórarinn Árnason, vakti með fjármanni sínum og stytti honum stundir með því að tefla við hann allan tímann. En vegna þessarar hörkumeðferðar hélt fjármaðurinn heilum fótum sínum.

Sókrates

Hlín Johnson

Guðlaugur var mikill og góður hestamaður. Sat hann hest sinn vel og bar áseta hans af. Margar ferðir fórum við Guðlaugur saman á hestum austur í Selvog. Fórum við þá oftast um Krýsuvík og Herdísarvík. Eitt sinn sem oftar gistum við í Herdísarvík hjá frú Hlín Johnson. Fengum við frábærar móttökur eins og alltaf áður. Það var á sunnudagsmorgni. Við vorum búin að drekka kaffi og vorum að rabba saman. Um þetta leyti var frú Hlín að koma sér upp fjárstofni í Herdísarvík. Talið barst því að fjárgeymslu. Sneri Hlín sér að Guðlaugi og sagði: „Það ber sannarlega vel í veiði, að þú ert hér staddur, Guðlaugur minn. Þú hefur mann a bezta og mesta þekkingu á öllu því, sem lýtur að sauðfjárækt á jörð eins og Herdísarvík. Blessaður, miðlaðu mér nú af þekkingu þinni og reynslu. Láttu mig nú heyra með nokkrum vel völdum orðum um allt hið mikilvægasta í sambandi við fjárbúskap, miðað við þær sérstöku aðstæður, sem hér eru fyrir hendi í Herdísarvík.“ Guðlaugur brosti lítið eitt, dró alldjúpt andann, reisti höfuðið svolítið og hóf síðan mál sitt. Hann talaði í fullar 20 mínútur samfleytt. Kom hann víða við, en ekki ætla ég mér þá dul að endursegja efni ræðunnar.
Einar BenediktssonÉg mun heldur ekki gera tilraun til þess að lýsa því, hvernig Guðlaugi tókst. Þess í stað þykir mér rétt að lofa ykkur að heyra álit dómbærari manns. Held ég, að hann verði vart fundinn. Maður þessi hlustaði ásamt okkur Hlín á ræðu Guðlaugs. Þetta var skáldið og spekingurinn Einar Benediktsson.
Þegar Guðlaugur hafði lokið ræðu sinni, vorum við öll þögul nokkra stund, eins og oft vill verða, þegar men n upplifa eitthvað, sem sker sig úr um það venjulega. En allt í einu lyftir skáldið hendi sinni, leggur hana þéttingsfast á öxl Guðlaugs og segir hægt og skýrt: „Ég þakka þér, Sókrates.“
Hér lýkur svo Guðlaugs þætti Gjáhúsa.
Óska ég svo öllum gleðilegra jóla og góðs nýárs.“ – Friðfinnur V. Stefánsson.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, Friðfinnur V. Stefánsson; Guðlaugs þáttur Gjáhúsa, jólablað 1957, bls. 17-19.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Kópavogur

Á Borgarholti í Kópavogi er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.:

Jarðfræði

Kópavogur

Vindmylla á Borgarholti.

Borgarholt, eins og önnur holt og hæðir í Kópavogi og á höfuðborgarsvæðinu, er að mestu gert úr grágrýtishraunum sem runnu á hlýskeiðum ísaldar fyrir nokkur hundruð þúsund árum síðan. Þá grúfði jökull yfir Kópavogi sem náði allt frá Bláfjöllum og út á Faxaflóa. Jöklarnir grófu „dali“ í hraunstaflann og mótuðu að landslag sem við sjáum í dag og eru jökulrákirnar á klöppunum glöggur vitnisburður um þau átök.
Í lok síðasta jökulsskeiðs, fyrir um 10.300 árum síðan var sjávarborð í um 40 metra hæð yfir núverandi sjávarmáli og gekk sjór yfir Borgarholt eins og lábarðir hnullungar í holtinu eru til vitnis um. Á sama tíma var sund á milli Borgarholts og ássins austan við. Síðar, fyrir um 9.800 árum, hafði sjávarstaða lækkað niður í um 20-25 metra hæð og þá myndaðist allmikil sand- og malarfjara utanvert á Kársnesi.
Seinna reis land endanlega úr sjó og strandlínan fékk á sig þá mynd sem hún er í dag.

Gróður

Borgarholt

Borgarholt.

Á Borgarholti þrífst mosaríkt mólendi og er gróðurfarið enn að miklu leyti dæmiger fyrir Kársnesið eins og það var áður en byggð tók að rísa þar.
Á holtinu hafa fundist 95 tegundir af mosum, þar á meðal kuðulmosi, sem aðeins hefur fundist á einum öðrum stað á landinu.
Þá hafa fundist 103 tegundir af innlendum háplöntum sem er nær fjórðungur af íslensku flórunni. Rætt hefur verið um hvort hindra ætti vöxt sjálfsáðra trjá s.s. birkis í holtinu, en um það eru skiptar skoðanir.

Saga

Kópavogur

Merki Kópavogs.

Borgarholtið er mjög svo samofið sögu byggðar í Kópavogi. Borgarholtið var að mestu ósnortið eins langt og elstu menn muna, þó með þeirri undantekningu að á árunum milli 1920-30 var byggð vindmylla á háholtinu til að framleiða rafmagn fyrir hressingarhælið, sem Kvenfélagið hringurinn rak á Kópavogsjörðinni.

Álfabyggð

Það er ástæða fyrir því að svæðið við Kópavogskirkju er látið í friði en þar er talið að sé blómleg álfabyggð. Sagan segir að þegar Borgarholtsbrautin var lögð hafi Kópavogsbúinn Sveinn Gamalíelsson varað álfana við áður en steinar voru sprengdir í burtu, álfarnir hafi þá fært sig. Álfarnir í Borgarholtinu virðast hrifnari af börnum en fullorðum og er sagt að þeir hafi átt á samskiptum við leikskólabörn.

Reyndar voru myllur þessar tvær, eða frekar það að fyrri myllan var þá endurbyggð vegna skemmda á spöðum, sem ekki höfðu þolað veðurlag á holtinu. Vindmyllur þessar voru síðan teknar niður einhvern tíma á árunum eftir 1930. Holtið stóð síðan óbyggt allt þar til samþykkt var í hreppsnefnd Kópavogs 1957 að byggja þar kirkju. Reyndar hafði hreppsnefndin haldið þessu svæði óbyggðu allt frá því 1946 með það í huga að síðar yrði byggð þar kirkja. Var hafist handa við byggingu hennar síðsumars 1958. Teikningar af kirkjunni voru gerðar undir stjórn Harðar Bjarnasonar þáverandi húsameistara ríkisins. Gerður Helgadóttir gerði steinda glugga sem settir voru í kirkuna. Byggingarmeistari kirkjunnar var Siggeir Ólafsson múrarameistari. Það tók 5 ár að byggja kirkjuna og kostaði hún 5 milljónir króna á verðlagi byggingartímans. Kirkjan var síðan vígð 15. desember 1962. Bent skal á að í skjaldarmerki bæjarins sem gert var á 10 ára kaupstaðarfamæli bæjarins 1965 var hluti þess merkis einmitt útlínur kirkjunnar með mynd af kópi undir.

Kópavogur

Borgarholt – skilti.

Andrews

Í frásögnum fjölmiðla 2018 var fjallað um afhjúpun minnisvarða um flugslysið í Kastinu árið 1943.

Afhjúpun minnisvarðar um flugslys á Reykjanesi 27.04.2018:

Andrews

Andrews – minnismerki vígt.

„Fyrir 75 árum, hinn 3. maí 1943, fórst bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B-24D Liberator sem bar heitið „Hot Stuff“ á Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Flugvélin var á leið heim til Bandaríkjanna í fyrirhugaða sigurför sem fyrsta sprengjuflugvélin sem hafði náð ósködduð að fljúga 25 árásarferðir frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni.

Andrews

Andrews – minnismerki.

Í fyrstu voru margar slíkar flugvélar skotnar niður af orrustuflugmönnum Þjóðverja og hét Bandríkjaher áhöfnum sprengjuflugvéla sem lykju 25 árásarferðum að þeir fengju að snúa heim. Áhöfn „Hot Stuff“ var sú fyrsta til að ná þessum merka árangri.

Í flugslysinu i Kastinu fórust [þrettán] manns, þar á meðal Frank M. Andrews hershöfðingi og æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu sem var á leið til Washington til þess að leggja á ráðin um undirbúning innrásar Bandamanna á meginland Evrópu. Einn maður lifði slysið af, George A. Eisel stélskytta, og var það í annað sinn sem hann komst lífs af úr slíku flugslysi.

Andrews

Andrews – Minnsmerki vígt.

Við fráfall Andrews tók Dwight D. Eisenhower hershöfðingi við sem æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu og alls herafla bandamanna í Evrópu og stjórnaði innrásinni í Normandí árið eftir. Eisenhower var síðan forseti Bandaríkjanna á árunum 1953 – 1961. Andrews hershöfðingi var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsdeild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.

Hot Stuff

Áhöfnin á Hot Stuff er fórst í Kastinu hinn örlagaríka dag.

Var Andrews herflugvöllurinn í Maryland, aðsetur einkaflugvélar Bandaríkjaforseta, Air Force One, nefndur til heiðurs honum. Bandaríska herstjórnin á Íslandi nefndi nýreist íþróttahús við Hálogaland í Reykjavík Andrews Memorial Field House til heiðurs hershöfðingjanum en húsið var helsta íþróttahús höfuðborgairnnar í tvo áratugi eftir stríðið. Varnarliðið nefndi einnig samkomuhús sitt á Keflavíkurflugvelli (nú Ásbrú) Andrews Theater til heiðurs Andrews hershöfðingja.

Í tilefni af því að 75 ár eru liðin frá þessum örlagaríka degi var afhjúpaður minnisvarði um flugslysið við Grindarvíkurveg, fimmtudaginn 3. maí kl. 13:00. Minnismerkið er tilkomumikið og skartar meðal annars gríðarlega stórri eftirlíkingu af B-24 Liberator sprengjuflugvélinni úr ryðfríu stáli. Þá verður í kjölfarið minningarathöfn í Andrews Theater á Ásbrú, kl. 14:30.

Minnisvarðinn er reistur að frumkvæði Bandaríkjamannsins Jim Lux og ættingjum þeirra sem fórust, með aðstoð Þorsteins og Ólafs Marteinssona. En allir eru þeir miklir áhugamenn um flugvélar og flugsögu seinni heimstyrjaldarinnar. Gert er ráð fyrir „heiðursflugi“ B-52 Stratofortress flugvélar bandaríska flughersins yfir svæðið á meðan á afhjúpun stendur.

Nokkrir ættingjar þeirra sem létust í flugslysinu koma frá Bandaríkjunum til að vera viðstaddir athöfnina. Meðal annarra gesta verða Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og Jill Esposito, staðgengill sendiherra bandaríska sendiráðsins á Íslandi, ásamt Lt. Gen. Richard Clark og Col. John Teichert frá bandaríska lofthernum. Í lok athafnarinnar verða fluttir nokkrir fyrirlestrar um slysið og Frank M. Andrews hershöfðingja.“

Kastið

B-17 líkanið.

Fyrir stuttu (skrifað 10.05.2021) barst FERLIR sú fregn að flugvélalíkaninu á minnismerkinu framangreinda virðist hafa verið stolið, a.m.k. væri það horfið. Viðkomanda var bent á að mögulega eðlilegra skýringa gæti verið að finna á hvarfinu.

Andrews

Andrews – áritun á bakhlið minnismerkisins.

Hringt var í nefndan Þorstein Marteinsson, s.892 3628, er var annar þeirra bræðra er m.a. stóðu að gerð minnismerkisins á núverandi stað.
Þorsteinn sagði að þeir hefðu nýlega tekið líkanið af minnismerkinu vegna þess hversu illa það virtist útleikið, sennilega vegna gufuefnissambanda frá Svartsengi. Ætlunin væri að fægja það og síðan setja minnismerkið upp á nýjum stað; ofan hringtorgs Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Eftir nýlegar vegaframkvæmdir við Grindavíkurveginn, þar sem umferð til suðurs hefði verið verulega hindruð að minnismerkinu, hafi þurft að hugsa staðsetninguna upp á nýtt. Upplýsingafulltrúa Grindavíkurbæjar hafi verið tilkynnt um framkvæmdina.
Stefnt er að úrbótunum á næstu vikum…

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir:
-https://www.keilir.net/is/um-keili/frettir/afhjupun-minnisvardar-um-flugslys-a-reykjanesi
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/05/03/afhjupudu_minnisvarda_um_ahofn_b24d/
-https://www.vf.is/frettir/afhjupun-minnisvarda-um-flugslys-a-reykjanesi
-https://www.ruv.is/frett/afhjupa-minnisvarda-um-ahofn-flugvelar
-https://www.grindavik.is/v/24046
-https://stridsminjar.is/en/a-list-of-crash-sites-by-year/incidents-in-1943/103-b-24-liberator-kast-fagradalsfjall-may-3-1943
-https://www.keilir.net/is/um-keili/frettir/afhjupun-minnisvardar-um-flugslys-a-reykjanesi

Kastið

Hot Stuff.

Andrews

Á RÚV 3. maí 2023 var eftirfarandi umfjöllun um „Flugslys á Fagradalsfjalli sem breytti rás viðburða“ í tilefni af því að áttatíu ár voru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík.

Andrews

Minnismerkið á Stapanum um áhafnameðlimi Hot Stuff er fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli 3. maí 1943.

Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af. Tilefnið var auk þess tilfærsla á minnismerkinu um atburðinn, en því hafði áður verið komið fyrir austan Grindavíkurvegarins miðja vegu milli Stapans og Grindavíkur. Áhrif tæringar frá nálægri Svartsengisvirkjuninni varð til þess að ástæða var að færa minnismerkið upp á ofanverðan Stapa norðan gatnamóta Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Þaðan er ágætt útsýni (í góðu skyggni) yfir að slysstaðnum í kastinu í vestanverðu Fagradalsfjalli. Gerður hefur verið göngustígur ofan í endurgerðan gamla Grindavíkurveginn frá hringtorgi ofan gatnamótanna.

„Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var viðstaddur minningarathöfnina á Stapa í dag.
Hershöfðingjar í Bandaríkjaher, sendiherra og forseti Íslands minntust í dag fjórtán bandarískra hermanna sem fórust í flugslysi á Fagradalsfjalli fyrir áttatíu árum.

Andrews

Frá minningarathöfninni við minnismerkið á Stapanum 3. maí 2023.

Fimm ár eru frá því minnisvarði um flugslysið 3. maí 1943 var reistur en nú verið færður að Stapa við Reykjanesbraut. Fimmtán voru um borð í sprengjuflugvélinni Hot Stuff þegar hún brotlenti á Fagradalsfjalli og komst aðeins einn lífs af. Um borð voru bandarískir hermenn og Frank Maxwell Andrews hershöfðingi.
Minningarathöfnin í dag var einkar hátíðleg þótt bæði væri hvasst og kalt. Mannanna fjórtán var minnst með ræðum, blómsveigar lagðir og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir auk flugvélar frá Bandaríkjaher.

Andrews

Frá minningarthöfninni á Stapanum.

„Mér finnst það heiður að vera fulltrúi Andrews-herstöðvarinnar sem dregur nafn sitt af Andrews hershöfðingja, og fara fyrir flughermönnum frá herstöðinni við þessa athöfn,“ segir Todd Randolph, yfirmaður Andews-herstöðvarinnar í Bandaríkjunum.
Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna, segir mikilvægt að minnast þeirra sem fórust. Þeir hafi barist fyrir lýðræðingu.

„Já, mjög svo og enn frekar núa þegar Ísland og Bandaríkin standa aftur saman í andófinu gegn innrás Rússa í Úkraínu,“ segir Patman.

Andrews

Annað upplýsingaskilti af tveimur við minnismerkið. 

Þegar slysið varð hafði enginn jafn háttsettur embættismaður og Andrews hershöfðingi fallið í stríðinu úr röðum bandamanna.
„Rás viðburða hefði orðið önnur hefði það ekki gerst. Hann hefði farið fyrir liði bandamanna sem réðist inn í Normandí í júní 1944. En í stað hans tók Eisenhower við keflinu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Andrews

Á öðru skiltinu er m.a. lýst 12 flugslysum er urðu á nálægum slóðum á stríðsárunum.

„Hann var þá háttsettur yfirmaður í flughernum á þeim tíma og frumkvöðull í því sem nefnt er Flugher Bandaríkjanna nú. Hann er einn helsti höfundurinn að aðskilnaði herjanna, landher frá flugher til að yfirráðum í lofti sem hernaðaraðferð,“ segir Randolph.

Andrews

Tíu áhafnameðlimir Hot-Stuff er fórust í Kastinu 1943.

Fagradalsfjall sést vel frá minnisvarðanum á Stapa. Frumkvæðið að því að setja upp minnisvarðann eiga tveir bræður [Þorsteinn og Ólafur Marteinssynir] og sem hafa mikinn áhuga á sögunni og halda úti vefsíðu með korti af flugslysum.

„Þeir höfðu reynt lendingu í Keflavík en vegna veðurs fundu þeir ekki völlinn. Við erum að horfa hérna á Fagradalsfjall sem flestir kannast við eftir að það gaus. En hérna vestast, þar sem er smá hækkun [Kastið], það var þar sem vélin rakst á fjallið,“ segir Þorsteinn Marteinsson, áhugamaður um sögu flugslysa.

Á tveimur upplýsingaskiltum við minnismerkið má m.a. lesa eftirfarandi:
B-24 Liberator-sprengjuflugvélin Hot Stuff – Sigurganga og örlagarík endalok
„Bandaríska B-24 sprengjuflugvélin Hot Stuff og áhöfn hennar var fyrsta flugvél 8. flughersins sem lauk 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari.

Andrews

Áhöfn Hot Stuff.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprenguflugdeildar, að fá far með Robert „Shine“ Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Meþódistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprenguflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.

Andrews

Robert „Shine“ Shannon.

Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgin 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Scotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar kom upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu. Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og sundraðist.

AndrewsVið slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en lá klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu, en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið“.

Frank Maxwell Andrews – yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu – 3. feb. 1884-3. maí 1943
Andrews„Frank M. Andrews hershöfðingi fæddist 3. febrúar 1884 í Nashville í Tennssee. Hann hóf nám í háskóla Bandaríkjahers í West Point árið 1902 og brautskráðist árið 1906. Hann starfaði í flugdeild Bandaríkjahers í fyrri heimsstyrjöldinni og árið 1935 valdi Douglas Mac Arthur yfirhershöfðingi hann til þess að gegna starfi yfirmanns nýrrar aðgerðardeildar flughersins.
Andrew var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsheild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.
Andrews var einnig ákafur hvatamaður að smíði stórra sprengjuflugvéla og eggjaði stjórnvöld til kaupa á fjölda nýrra sprengjuflugvéla af gerðinni B-17 „Fljúgandi virki“ en hlaut ekki stuðning yfirstjórnar hersins. Framsýni hans sannaðist þó þegar Bandaríkin drógust inn í síðari heimsstyrjöldina og stjórnvöld létu smíða B-17 og B-24 Liberator sprenguflugvélar í stórum stíl.

Andrews

Hot Stuff.

Andrews hafði verið hækkaður í tign árið 1941 og var þá falin yfirstjórn bandarískra herja við Karíbahaf sem önnuðust varnir aðkomuleiða til Bandaríkjanna úr suðri, þ.á.m. um Panamaskurð. Eftir innrás bandamanna í Norður-Afríku haustið 1942 var honum falin stjórn alls herafla Bandaríkjanna við sunnanvert Miðjarðarhaf sem átti þátt í að vinna sigur á Afríkuher þýska hershöfðingans Erwins Rommels.

Andrews

Einkennismerking Hot Stuff.

Í febrúar 1943 var Andrew skipaður yfirmaður herja Bandaríkjanna í Evrópu með aðsetur í Bretlandi og 3. maí sama ár valdi bandaríska yfirherráðið hann til þess að stjóra sameinuðum herafla bandamanna sem undirbúa skyldi innrás á meginland Evrópu. Andrew fékk þó aldrei boðin um þess merku hækkun í tign því hann fórst sama dag þegar Liberator flugvél hans, sem gekk undir nafninu „Hot Stuff“ og flytja átti hann til Bandaríkjanna, fórst á Fagardalsfjalli á Reykjanesi.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Flugvélin hafði horfið frá lendingu í Keflavík vegna veðurs og var á leið til flugbækistöðvar breska flughersins í Kaldaðarnesi. Við lát Andrews hershöfðingja tók Dwight D. Eisenhower, síðar Bandaríkjaforseti, við stjórn Evrópuherstjórnarinnar en hann hafði áður gegnt starfinu árið 1942.
Andrews hershöfðingi og þrettán samferðarmenn hans voru grafnir með mikilli viðhöfn í Fossvogskirkjugarði 8. maí 1943. Líkamsleifar þeirra voru flutta heim til Bandaríkjanna árið 1947 og var Andrews lagður til hinstu hvílu í þjóðargrafreit Bandaríkjanna í Arlingtonkirkjugarði í útjarðri Washingtonborgar“.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur

Georg C. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi opnaði Keflavíkurflugvöll (Meeks) formlega 24. mars 1943.

„Upphaflega var flugvöllurinn lagður af Bandaríkjaher í Seinni-Heimsstyrjöldinni og tekin formlega í notkun 23. mars 1943. Banndaríkjamenn nefndu hann „Meeks Field“ í höfuðið á ungum flugmanni, George Meeks að nafni, sem fórst á Reykjavíkurflugvelli og var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem lést á Íslandi í styrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni var flugvöllurinn og bækistöðin, sem við hann stóð, afhentur Íslendingum til eignar og var hann þá nefndur Keflavíkurflugvöllur eftir stærstu nágrannabyggð hans, Keflavík.

Andrews

Leiði Andrews og félaga í Fossvogskirkjugarði.

Flugvellirnir við Keflavík voru reyndar tveir, Meeks og Pattersonflugvöllur ofan Njarðvíkurfitja, sem þjónaði orrustuflugsveit Bandaríkjahers til stríðsloka. pattersonflugvöllur var ekki notaður eftir stríðslok. Keflavíkurflugvöllur var rekinn af bandarísku verktakafyrirtæki til ársins 1951, er Bandaríkjaher kom aftur til landsins samkvæmt varnnarsamningi Íslands og Bandaríkjana sem gerður var að tilstuðlan Norður-Atlantashafsbandalagsins, NATO.

Andrews

Grafsteinn Andrews í Arlingtonkirkjugarði.

Bandaríkjaher (varnarliðið á Íslandi) reisti bækistöð sína við Keflavíkurflugvöll. Þar var afgirtur bær sem hýsti allt að 5700 hermenn, starfsfólk og fjölskyldur þeirra allt til ársins 2006 þegar herstöðin var lögð niður. Í dag her herstöðin hverfi í Reykjanesbæ og gengur undir nafninu Ásbrú“.

Konunglegur flugvöllur í Bretlandi var nefndur eftir Frank M. Andrews, Andrews Field, í Essex, England. Þetta var fyrsti flugvöllurinn, sem verkfræðideild bandaríska hersins endurbyggði þar í landi.

Andrews

Andrews Theater á Keflavíkurflugvelli.

Þetta var 1943, skömmu eftir slysið í Kastinu. Hann var þekktur fyrir að vera fyrsti endurgerði flugvöllurinn í Bretlandin 1943, hét áður RAF Station Great Saling, á heimsstyrjaldarárunum síðari. Flugvöllurinn var notaður af  USAAF 96th sprengjuflugdeildinni og 322nd sprengjusveitinni á stríðsárunum sem og  nokkrum RAF deildum áður en honum var lokað 1946. Í dag er þarna lítill einkaflugvöllur.

Andrews breiðstræti, vegur er liggur að alþjóðaflugvellinu Filippseyja, Ninoy Aquino International Airport Terminal 3, var nefndur eftir honum. Þá var „Andrews Theater“ á Keflavíkurflugvelli einnig nefnt eftir Frank í minningu hans.

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-05-03-flugslys-a-fagradalsfjalli-breytti-ras-vidburda
-RÚV, Flugslys á Fagradalsfjalli breytti rás viðburða – Áttatíu ár eru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík. Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af, Kristín Sigurðardóttir, 3. maí 2023.
-Minnismerki ofan Stapa um Andrews og félaga.
–https://en.wikipedia.org/wiki/Frank_Maxwell_Andrews

Andrews

Afsteypa af Hot Stuff, Liberator-24, á minnisvarðanum.

Kópavogur

Framan við Kópavogsbæinn/Kópavogsbúið er upplýsingaskilti. Á því má m.a. lesa eftirfarandi texta:
„Engar ritheimildir eru til um upphaf búskapar á jörðinni Kópavogi, en fornleifarannsóknir við Þinggerði árið 1973-1976 leiddu í ljós bæjarrústir frá miðöldum og því líklegt að menn hafi verið hér frá síðari hluta 9. aldar.

Kópavogur

Kópavogsbærinn – túnakort 1916.

Kópavogur er fyrst nefndur árið 1523 í dómi yfir Týla Péturssyni frá Kópavogsþingi, en hann var fundinn sekur um rán á Bessastöðum. Bærinn er fyrst nefndur í afgjaldsreikningum frá árinu 1553. Kópavogur hafði verið eign Skálholtskirkju en fór í konungseign ásamt öðrum jörðum kirkjunnar eftir siðaskiptin 1550.

Kópavogur

Kópavogsbærinn nú og fyrrum.

Jarðabækur gefa til kynna að Kópavogsjörðin hafi verið rýr að landgæðum. í jarðabókum frá 17. og fram til 19. aldar var jarðardýrleiki um 11 hundruð. Árið 1861 var jarðardýrleikinn skráður 13.6 hundruð. Til samanburðar við næstu jarðir voru Digranes og Vammkot 15 hundruð hvor jörð og Vatnsendi 22 hundruð. Jörðin gat því ekki framfleytt mörgum.
Upphaflega stóðu bæjarhús Kópavogs við Þinggerði en á 19. öld voru þau við sjávarbakkann beint suður af núverandi steinhúsi sem reist var 1902-1904. Engin ljósmynd er til af gamla bænum frá 19. öld, en einstakar lýsingar af bæjarhúsunum eru til. Ein er frá sumri 1856, er hinn breski lávarður Dufferin (1826-1902) var á leið frá Reykjavík til Bessastaða og leiðinni lýsti hann svo: „Fyrstu mílurnar riðum við yfir öldótta doloritsléttu, uns við komum til bóndabæjar, sem var við vog nokkrun. Í fjarlægðinni virtist bærinn eins og lítil vin í eyðimörk, því allt í kringum hann voru gráar grjótbrekkur, en er nær dró virtist þarna vera keltneskir virkisveggir, en innan þeirra haugar eins eða tveggja fallinna kappa. Það kom á daginn, að haugarnir voru bara torfþök bæjar og gripahúsa, en virkisveggirnir torfgarðarnir, sem eru hlaðnir utan um best ræktuðu skákina í landi bóndans“.
KópavogurÞarna lýsti lávarðurinn einnig túngarði Árna Péturssonar (1781-1854) bónda í Kópavogi, svonefndum Árnagarði, um 680 metra langri garðhleðslu umhverfis túngarðinn við bæinn. Útlínur garðsins sjást á gömlum kortum og loftmyndum, en Árni var verðlaunaður af konungssjóði árið 1827 fyrir jarðabætur á Kópavogsjörðinni.

Kópavogur

Kópavogsbærinn er elsta steinhlaðna hús Kópavogs.
Jörðin Kópavogur á sér langa og merka sögu meðal annars vegna þess að þar var þingstaður til ársins 1751. Elsta húsið sem nú stendur á jörðinni reisti Erlendur Zakaríasson á árunum 1902 til 1904, en þá voru gömlu bæjarhúsin, sem stóðu sunnar á jörðinni, orðin afar hrörleg. Erlendur var steinsmiður og hlóð hann bæ sinn úr tilhöggnu grjóti ognotaði steinlím með svipuðum hætti og hann hafði lært þegar hann vann við byggingu Alþingishússins á árunum 1880 til 1881. Húsið er elsta húsið í Kópavogi og er eitt fárra steinhlaðinna húsa sem enn standa utan Reykjavíkur. Því hefur það ásamt síðari tíma viðbyggingum mikið varðveislugildi sem eini uppistandandi vitnisburðurinn um elstu byggð Kópavogs og þann búskap sem stundaður var frá fornu fari á því svæði sem nú markar þéttbýli Kópavogs.

Í annarri lýsingu Kópavogsjarðarinnar, frá 21. febrúar 1882, segir: „Bæjarhús eru þar góð, baðstofa byggð á bekk. Hálf er hún ný uppbyggð með kjallara undir. Frambær, búr og eldhús í góðu standi. Tún eru þar stór, sum part þýfð, sum part sléttuð og ábúandinn hefur verið að slétta í þeim. Þessi tún vantar tað. Kemur það til af því að augnvar eru útheyisslægur. Girðing er í kring úr torfi og grjóti. Er hér um bil 2/3 partar túnsins og hálf er hún vel uppbyggð, aftur hálf í falli. Traðir eru heim að bænum, hlaðnar úr torfi og grjóti vel uppgerðar. Kálgarðar eru þar góðir. Í kringum þá góð girðing. Þar jörð þessi liggur að sjó það eru þar góð vergögn. Þar er góð grásleppuveiði og gerir það jörðinni mikinn hag því inn vols hennar gefur jörðinni áburð. Kúgildi jarðarinnar eftir því sem ábúandinn skýrir frá eru 2.“
Erlendur Zakaríasson (1857-1930) steinsmiður, hóp byggingu núverandi íbúðarhússins um 1902 og lauk því árið 1904. Hann hafði áður unnð við byggingu Alþingishússins árið 1880, reisti Kópavogsbæinn á sama hátt og hlóð hann úr tilhöggnu grágrýti og steinlími. Hér hóf hann kúabúskap ásamt konu sinni Ingveldi Guðmundsdóttur, seldi mjólk til Reykjavíkur og var einnig með hesta og kindur. Engjar auk túns við bæinn voru austur af Hvammakotslæk í brekkunum upp af Fífuhvammi og í Fossvogi. Þar var einnig mikil mótekja.

Kópavogur

Hressingarhælið. Húsið var tekið í notkun árið 1926 en það er reist fyrir tilstuðlan Hringskvenna sem settu á laggirnar hressingarhæli fyrir berklasjúklinga. Arkitekt hússins er Guðjón Samúelsson. Kópavogsbær hefur undanfarin ár unnið að endurbótum á því að utan sem innan.

Eftir að Kvenfélagið Hringurinn fékk aðstöðu fyrir hressingarhæli á Kópavogsjörðinni árið 1924 taldið félagið hagkvæmt að vera með búresktur samhliða rekstri hælisins. Hringurinn keypti Kópavogsbæinn þegar hann losnaði úr ábúð og var með búrekstur til 1948. Félagið let byggja fjós, hlöðu, hænsnahús og geymslu við steinhús Erlendar. Óskar Eggertsson (1897-1978) gerðist ráðsmaður á búinu hjá Kvenfélaginu Hringnum 1931 og bjó hér ásamt konu sinni, Guðrúnu Einarsdóttur (1899-1989) og sonum þeirra, Magnúsi (1927-2019), Einari (1930-2016) og tvíburunum Jóhanni Stefáni (1936-1046) og Guðmundi. Ríkissjóður og ríkisspítalar fengu búið 1948 og búskapur hélt áfram þar til skömmu eftir 1960. Síðustu ábúendur í Kópavogsbúinu voru Bjarni Pétursson Walen (1913-1987) bústjóri og Svanborg Sæmundsdóttir (1913-1995). Þau bjuggu hér árin 1959-1983. Íbúðarhúsið er elsta hús í Kópavogi. Kópavogsbærinn var friðaður samkvæmt lögum um húsafriðun í október 2012.“

Kópavogur

Kópavogsbúið.

Seltjarnarnes

Sunnan við Nes á Seltjarnarnesi er garður, nefndur „Urtagarður„. Á tveimur upplýsingaskiltum við garðinn má lesa eftirfarandi; annars vegar:

Saga Urtagarðsins

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – urtagarður.

Garðurinn var opnaður árið 2010 í minningu þriggja mann sem tengdu saman ræktun og heilsubót í lífi og starfi. þeir voru Bjarni Pálsson (1719-1779) landlæknir, Björn Jónsson (1738-1798) lyfjafræðingur og lyfsali og Hans Georg Schierbeck (1847-1911) landlæknir. Árið 2010 voru liðin 250 ár frá skipun Bjarna Pálssonar í nýstofnað embætti landlæknis (1760) og 125 ár frá stofnun Garðyrkjufélags Íslands (1885). Fyrsti formaður þess var Hans Georg Schierbeck þáverandi landlæknir.

Nesstofa og nytjagarðurinn

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Björn Jónsson.

Stofnun landlæknisembættisins með konunglegri tilskipun Friðrik V. Danakonungs árið 1760 markaði tímamót í sögu opinberrar heilbrigðisþjónustu á íslandi. Í tengslum við embættið var rekið apótek og seld lyf undir umsjón menntaðs lyfjafræðings. Voru lækningajurtir m.a. ræktaðar í hluta allstórs matjurtagarðs við Nesstofu. Björn Jónsson var fyrsti menntaði lyfjafræðingur landsins og byggði hann upp og annaðist þennan matjurta- og lækningajurtagarð í Nesi frá 1768. Björn vann fyrst sem aðstoðarmaður Björn Pálssonar landlæknis en var síðan skipaður fyrsti lyfsali á Íslandi árið 1772. Sama ár kom fyrsta útgáfa af Lyfjaskrá Danska ríkisins, Pharmacopea Danica, út. Apótek var rekið í Nesi til ársins 1834 er það flutti til Reykjavíkur. Má þá ætla að ræktun lækningajurta hafi lagst af.

Framlag til heilsubótar
Lyflækningar hafa löngum byggst á notkun jurta sem taldar eru hafa áhrif á heilsu fólks og jafnvel einstaka sjúkdóma.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Ofangreindir heiðursmenn höfðu allir frumkvæði að nýtingu og ræktun nytjajurta, hver á sinn hátt enda var þekking á jurtum og lækningarmætti þeirra mikilvægur hluti menntunar þeirra. Bjarni Pálsson landlæknir (1719-1779) hvatti ráðamenn holdsveikraspítala til að rækta kál og kartöflur handa sjúklingum sínum. Skyldi gefa sjúklingum kál og ferskar jurtir úr íslenskri náttúru minnst tvisvar í viku (fjallagrös, skarfakál, hrafnaklukku, njólablöð og Ólafssúrur). Björn Jónsson (1738-1798) kynntist lækningajurtagörðum við apótek á námsárum sínum í Danmörku.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarður.

Við suðurgafl Nesstofu útbjó hann stóran jurtagarð með hlöðnu torfgerði í kring og nýttist hann vel til ræktunar. Auk lækningajurta, ræktaði Björn matjurtir, reyndi kornrækt og var einna fyrstur til að reyna trjárækt hér á landi. Hans Georg Schierbeck (1847-1911) sameinaði læknisstarfið og garðyrkjuháhugann með því að hafa forgöngu um eflingu og útbreiðslu garðyrkju og ræktun matjurta, almenningi til heilsubótar. Ekki var vanþörf á, enda voru margir Íslendingar vannærðir og þjáðir af skortssjúkdómum vegna einhæfs mataræðis. Með stofnun Garðyrkjufélags íslands var hafin skipuleg fræðsla almennings um garðyrkju og útveguð aðföng til ræktunarinnar.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – bekkur sem minnisvarði um Georg Schierbeck í Urtagarðinum.

Schierbeck hafi lagt stund á garðyrkjunám í Danmörku og nýttist það vel við fjölbreyttar tilraunir á ræktun korns, matjurta og ýmiss konar skrautjurta, runna og garðtrjáa. Elsta innflutta garðtré á íslandi sem enn lifir er silfurreynirinn í Fógetagarðinum við Aðalstræti í Reykjavík og er það gróðursett af Schierbeck árið 1884.

Urtirnar í garðinum

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarðurinn.

Garðurinn skiptist í tvo meginhluta, efri garð og neðri garð auk áningar- og fræðslusvæðis við hlið neðri garðsins sem hefur fengið nafnið Björngerði til heiðurs Birni Pálssyni, apótekara í Nesi. Í efri garðinum eru alls um 130 tegundir jurta og finnast um 70 þeirra í íslenskri flóru. Við val á jurtum í garðinn var tekið mið af heimildum um ræktun hér á landi og í garðinum í Nesi á árunum 1768 til 1834. Takmarkaðar heimildir eru fyrir því hvaða lækningajurtir Björn mun hafa ræktað. Í garðinum eru því einungis nokkur dæmu um jurtir sem voru skráðar í dönsku lyfjaskránni, Pharmacopoea Danica, fra 1772 og gætu hafa verið reyndar hér á landi. Aðrar jurtir sem hér eru sýndar voru ekki ræktaðar hér fyrr en síðar. Til dæmis eru ekki til heimildir fyrir því hvenær rabarbari kom til landsins.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Nes.

Ýmsar jurtir úr íslenskri flóru voru nýttar á þessum tíma og einnig hafa fundist merki um þekktar, fornar lækningajurtir við fornleifarannsóknir á klausturstæðum frá miðöldum á íslandi. Nokkrar slíkar eru til sýnis í garðinum og eru þær sérstaklega merktar með mynd af heilagari Dóróteu. Heimildir varðandi matjurtir og kornrækt eru ítarlegastar. Jurtir þær sem sýndar eru í garðinum eru merktar og fylgja upplýsingar hverri plöntu. Staðsetning jurta í garðinum tekur bæði mið af flokkun og vaxtarskilyrðum plantnanna. margar plönturnar tilheyra fleiri en einum flokki. Sérstakir sýngareitir eru í görðunum fyrir jurtir sem nýnæmi þykir að sýna á hverjum tíma.

Plöntunum í görðunum má skipta í fimm flokka eftir eiginleikum og heimildum um nýtingu þeirra.

Í efri garði eru:

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarður; skilti I.

Lækningajurtir, alþýðulækningajurtir, matjurtir, korn og krydd.

Urtagarðurinn í Nesi
er samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar, Garðyrkjufélags Íslands, Embættis landlæknis, Læknafélags íslands, Lyfjafræðingafélags Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Lyfjafræðisafnsins. garðurinn er rekinn sem hluti af starfsemi safnanna í nesi og þar má nálgast upplýsingar um leiðsögn og plöntuvísi Urtagarðsins með fróðleik um plönturnar og nýtingu þeirra.

Og hins vegar:

Lyfjagerð fyrr og nú
SeltjarnarnesLengi hefur maðurinn nýtt jurtir og jurtahluta til þess að lina þrautir og lækna mein. Bakstrar, smyrsl og seyði voru unnin úr villtum jurtum sem var safnað sérstaklega til þess að nýta til lækninga. Þekking á virkni jurtanna og hvernig þær megi best nýta til lækninga gekk mann fram af manni. Með stofnun landlæknisembættisins árið 1760 varð breyting á þessari hefð. Lyfjagerð og lyfsala var viðfangsefni yfirvalda. Jurtir og steinefni voru undirstaða allrar lyfjaframleiðslu á þessum tíma og í fyrst hefur fremur lítill munur verið á þeim lyfjum sem unnin voru á hefðbundinn hátt og þeim sem unnin voru í nesi. Þá má ætla að einhver munur hafi verið á því hvernig og hvaða lyfjum var beitt í lækningaskyni þar sem notast var við fjölbreytt úrval ýmiss konar innfluttra jurta og steinefna í apótekinu í Nesi.

SeltjarnarnesÁrið 1772 urðu nokkur vatnaskil í sögu lyfsölu og lyfjaframleiðslu á Íslandi. Þá var embætti lyfsala stofnað. Í árslok 1771 sigldi Björn Jónsson til Danmerkur og lauk kandídatsprófi í lyfjafræði fyrstur Íslendinga. Hann var skipaður lyfsali á íslandi 18, mars 1772 og tók við rekstri apóteksins í Nesi úr hendi landlæknis. Sama ár kom út fyrsta lyfjaskráin Pharmacopoea Danica. Hún gilti fyrir öll apótek í ríki Danakonungs og innihélt 640 staðlaðar lyfjauppskriftir sem öllum bar að fylgja við blöndun lyfja. Einungis örfáar af þeim jurtum sem eru tilgreindar í lyfjaskránni vaxa villtar á Íslandi.

SeltjarnarnesMeð aukinni þekkingu á lyfjafræði og auknum kröfum um gæði lyfjanna fækkaði jurtalyfjunum ört. Þess í stað var farið að framleiða lyf úr hreinum efnum sem ýmist voru unnin úr plöntum eða framleidd á annan hátt. Á íslandi hurfu jurtalyfin alveg þegar framleiðslu lyfja í apótekum var hætt í lok síðustu aldar. Þá var enda orðið erfitt að útvega jurtir sem stóðust kröfur lyfjafræðinnar um gæði og virkni. Í Evrópsku lyfjaskránni er enn nokkur jurtalyf skráð enda ríkari hefð fyrir jurtalyfjum í Mið-Evrópu þar sem gróður er fjölbreyttari.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarðurinn neðri.

Nokkur náttúrulyf eru skráð á Íslandi nú til dags og fullnægja þau þar með kröfum Evrópsku lyfjaskrárinnar og íslenskrar reglugerðar. Það er ljóst að í upphafi var aðeins lítill hluti landsmanna, sem átti þess kost að leita til lærðra lækna og kaupa lyf í apóteki. Flestir treystu á húsráð og kunnáttu vísra manna á notkun þeirra villtu jurta sem uxu í nágrenninu. Þetta breyttist mjög á 20. öld. Þekkingu á nýtingu jurtanna hefur þó verið viðhaldið innan lyfjafræðinnar og á vettvangi alþýðulækninga.

Í neðri garði eru:

Seltjarnarnes

Seltjarnarses – skilti II.

Berjarunnar og epli. Villiepli þóttu mikilvæg hollustufæða til forna áður en matarepli frá Austur-Asíu komu til sögunnar.

Hvannir og laukar. Hvannir og laukar voru mikilvægar lækninga- og heilsujurtir til forna a Norðurlöndum og má vísa til íslensks og latnesks heitir á ætishvönninni – Angelica Archangelica L, eða erkiengisjurt, til marks um það. Ætihvönnin vakti athygli sem lækningajurt og barst frá Noregi til Mið-Evrópu á síðari hluta Miðalda.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Nesstofa 2024.

Hafnir

Norðan við Kirkjuvogskirkju í Höfnum, utan garðs, er upplýsingaskilti um „Hafnir og kirkjur í Höfnum„. Þar má lesa eftirfarandi:

Hafnir„Elstu ritheimildir um byggð í Höfnum er að finna í Landnámu þar sem greint er frá því að Ingólfur Arnarsson hafi gefið Herjólfi Bárðarsyni, frænda sínum og fóstbróður, land á milli Vágs og Reykjaness. Landsvæði sem er líklega nálægt stærð gamla Hafnahrepps. Herjólfur var langafi Bjarna Herjólfssonar, sæfaranda, sem talið er að hafi ásamt áhöfn sinni, fyrstur Evrópumanna, litið meginland Norður-Ameríku augum. Fjölskylda Bjarna á Íslandi hafði flutt að Drepstokki við Eyrarbakka og þaðan til Grænlands og var ástæða ferða Bjarna sú að hann var að heimsækja foreldra sína, en villtist af leið.

HafnirÁvallt hefur verið talið að landnámsbýlið Vogur hafi verið norðan Ósa, þar sem heitir Gamli Kirkjuvogur. Þegar skáli með landnámslagi fannst í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju kom fram sú tilgáta að þar væri að finna landnámsbæinn og fékk hann því nafnið Vogur.

Við fornleifarannsóknir hafa hins vegar vaknað efasemdir um að skálarústin sé bændabýli og hefur sú tilgáta verið sett fram að um sé að ræða rústir útstöðvar eins konar könnunarbúðir líkt og á L’Anse aus Meadows á Nýfundnalandi.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli?

Hafnir eru taldar hafa nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Kirkjuhöfn og Sandhöfn sem stóðu talsvert sunnar en núverandi byggð, en þar var búseta fram á 17. öld. Á síðari tímum hafa Hafnir verið samheiti fyrir 3 hverfi, þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvogshverfi. Byggðin í Höfnum hefur mótast mjög af erfiðum náttúruskilyrðum en þó er líklegt að fyrstu árhundruðin hafi verið búsældarlegra um að litast.

Í kjölfar Reykjaneselda, mikillar eldvirknishrinu á Reykjanesi á 13. öld tók land að eyðast vegna sandfoks.

Hafnir

Hafnir.

Byggðin hefur hopað og nú er, svo komið að byggð er fyrst og fremst í Kirkjuvogshverfinu auk Merkiness. Eftir því sem landgæði rýrnuðu fór vegur sjávarútvegs vaxandi og varð helsti bjargræðiskostur Hafnamanna. Fiskimiðin voru svo gjöful að efnamenn sóttust mjög eftir jörðum í hreppnum og í gegnum aldirnar voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins.

Á 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. ´

Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.

Kirkjur í Höfnum

HafnirKirkja hefur verið í Hafnahreppi að minnsta kosti frá 14. öld, en fyrstu sagnir um kirkju eru frá árinu 1332. Miðaldakirkjan stóð hins vegar norðan Ósa en afar lítið er vitað um sögu hennar. Enn má sjá móta fyrir rústum bæjar- og kirkjustæðis og leifum sem gæti verið kirkjugarður og mögulega kæmi fram ný þekking ef rústir Gamla-Kirkjuvogs yrðu rannsakaðar. Heimildir eru um að mannabein hafi verið flutt þaðan að Kirkjuvogi eftir uppblástur allt fram að aldamótum 1800. Þessarar gömlu jarðar er getið ú Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en kirkjan hafði verið flutt á núverandi stað árið 1575.

Núverandi kirkja, Kirkjuvogskirkja, var vígð 26. nóvember 1861. Fordyri og kór var bætt við nokkrum árum síðar. Árið 1970 var ákveðið að fara í viðamiklar viðgerðir á kirkjunni en í ljós kom að byggingin var í afar slæmu ástandi. Að tilstuðlan Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar voru Hörður Ágústsson og Þorsteinn Gunnarsson fengnir til að stýra verkinu með það að markmiði að færa kirkjuna nær því sem hún var á 19. öld.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Söfnuðurinn var fámennur en með útsjónarsemi tókst að ljúka viðgerðum og endurvígði dr, Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna 10. desember 1972. Á þessum tíma var húsfriðunarsjóður að taka sín fyrstu skref og sást mjög glögglega hve mikil þörf var á þeim sjóði í þess konar verkefni.

Kirkjuhöfn er bær sem stóð aðeins sunnar en Kalmanstjörn. Nafnið bendir til að þar hafi verið kirkja en heimildir eru fátæklegar. Þegar Árni Magnússon skráði efni í jarðabókina árið 1703, kemur fram að jörðin hafi verið í eyði í um 40 ár. Nokkur ummerki eru um byggð á þeim slóðum sem bærinn mun hafa staðið og talið er að þar hafi einnig verið kirkjugarður en sagnir eru um að bein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarðinn í Kirkjuvogshverfinu.“

Hafnir

Hafnir – skilti.

Húsatóftir

Í Faxa árið 1958 fjallaði Jóhanna Kristinsdóttir um „Skátaskólann“ að Húsatófum við Grindavík.

Húsatóftir„Eins og flestir Keflvíkingar vita, réðist Skátafélagið Heiðarbúar í Keflavík í það stórræði í sumar, að starfrækja skátaskóla að Húsatóftum í Staðahverfi í Grindavík. Jörðin Húsatóftir, sem löngu var komin í eyði, er ríkisjörð. Húsið er myndarlegt, eins og meðfylgjandi mynd sýnir, en eftir að skátarnir höfðu fengið umráðarétt yfir því, endurbættu þeir það mikið og gerðu hið vistlegasta. Forstoðukona var frú Jóhanna Kristinsdóttir, sam góðfúslega varð við þeim tilmælum blaðsins, að segja í stuttu máli frá starfseminni í sumar.
Fer frásögn hennar hér á eftir:
„Skátaskólinn að Húsatóftum, tók til starfa 28. júní í sumar, og komu þá 4 telpur og 13 drengir, sem voru fyrstu vikuna, strax næstu viku á eftir varð fullskipað, eða 12 telpur og 18 drengir.
Sunnudaginn 5. júlí var svo vígsla skátaskólans, og var það sambandi við afmæli kvenskátasveitarinnar, en hún átti 15 ára afmæli 2. júlí, í því tilefni komu 50 skátastúlkur í útilegu svo og nokkrar af þeim elztu og nokkrir gestir. Séra Björn Jónsson messaði, úti, skátar og gestir sungu, síðan var staðurinn sýndur og loks almenn kókódrykkja, var þetta hinn ánægjulegasti dagur.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Starfsfólk við skátaskólann auk mín voru, frú Hera Olafsson, matráðskona, Rakel Olsen, sveitarforingi, Rut Lárusdóttir, Ragnhildur Árnadottir, Sveinbjörn Jónsson, Svan Skúlason, flokksforingjar og síðustu 3 vikurnar Gunnar Guðjónsson, því hinir hættu.
Börnunum var skipt niður í flokka og var þeim stjórnað af flokksforingjum, t. d. eldhúsflokk, hann þvoði upp, lagði á borðið og þvoði borðsalinn. Í þessum flokki var starfað í einn dag. Skálaflokkur, hreinsaði til innan húss, þvoði gólf og fl. Sorp- og AraBínuflokkur, brenndi rusli, dældi vatni og þvoði AraBínu, en svo nendist kamarinn.
Út á AraBínu, okkar skari fer,
að hitta annað þeirra, erindið oftast er
Bína syngur hátt, og brosir blítt,
en Ari raular og hlær á víxl
og okkur líður vel.
HúsatóftirÚtivinnuflokkar voru tveir, þeir hreinsuðu til í kringum húsið, brutu spýtur í eldinn, og sóttu kol, og löguðu girðinguna umhverfis.
Þessi vinna var yfirleitt unnin fram að hádegi, annars var dagskráin á þessa leið:
Kl. 8.00 Vakið, morgunleikfimi þegar veður var gott.
Kl. 8.45  Skálaskoðun, foringjar skoðuðu í töskur og kojur.
Kl. 9.00 Hafragrautur, brauð og mjólk.
Kl. 10.00 Fáni dreginn upp.
Kl. 10—12. Flokkar við störf.
Kl. 12.00 Hádegismatur.
Kl. 1.00 Hvílt. Þá máttu börnin leggja sig.
Kl. 2.00 Flokksfundir.
Kl. 3.00 Kókó, brauð, kringlur, kex.
Kl. 3.30 Gönguferðir, leikir o.fl.
Kl. 5.00 Þvottur.
Kl. 6.00 Kvöldverður.
Kl. 7.00 Fylkst.
Kl. 8.00 Fáni dreginn niður.
Kl. 8.15  Varðeldur eða kvöldvaka.
Kl. 9.00 Kvöldbænir.
Kl. 9.15  Kyrrð, og voru þá flestir sofnaðir.
Varðeldur var yfirleitt tvö kvöld í viku, eða kvöldvaka, e£ veður var vont, svo var lesin framhaldsaga í hverju herbergi hin kvöldin.
HúsatóftirGönguferðir voru farnar um nágrennið, t. d. tvisvar gengið á „Þorbjörn“ einu sinni farið út í Þórköllustaðarhverfi, oftast var þó farið út í hraun og út að Stað. Fjaran var líka könnuð og mikið týnt af skeljum og kuðungum.
Börnin fengu ekki að fara út fyrir girðingu nema í fylgd með foringja.
Þá höfðum við þann sið að gefa kross, ef einhver braut reglurnar, t. d. fór út fyrir girðinguna, lék sér í vatnsdælunni, blótaði og fl. fl. Krossarnir voru svo lesnir upp á varðeldum á föstudögum, og þótti það mikil hneisa að hafa fengið kross, sum fengu nokkuð marga krossa en önnur engan, t. d. var einn drengur hjá okkur í þrjár vikur og fékk níu krossa, hann kom svo aftur seinna og var í viku og fékk þá engann, og það gladdi okkur mikið því þá fundum við einhvern árangur af starfinu.
Á flokksfundum voru kennd atriði úr skátahreyfingunni, t. d. hnútar, leynimerki, armbendingar, teikna ísl. fánann og þekkja meðferð hans, skátasöngvar og leikir og fl. Einnig voru búin út hnútaspjöld sem börnin fóru svo með heim.

Húsatóftir

Húsatóftir – skátasamkoma.

Einn drengur tók nýliðapróf og vann skátaheitið, var það Margeir Margeirsson, og var hann einnig skipaður flokksforingi yfir drengjunum. Hann sat við borðsendann og hélt reglu við borðið, flautaði ef einhver hávaði var. Þessi vísa var búin til um hann:

Hann Maggi Magg er flokksforingi
og stjórnar litlu strákaþingi.
Þegar hann flautar borðið við
þagna strax ólætin.

Einnig tóku 7 drengir ylfingapróf og unnu yfingaheitið, eru þetta fyrstu ylfingar í félaginu. Þá tóku ljósálfar mörg sérpróf.
Það bjargaði okkur alveg hvað veðrið var dásamlegt í allt sumar, en það hefði orðið nokkuð þröngt hjá okkur ef mikið hefði ringt, því ennþá á eftir að gera við útihúsin, setja þar upp rólur og fleira sem hægt er að una við í leiðinda veðri.
Að síðustu vil ég láta í ljós þá von að skátaskólinn á Húsatóftum fái að starfa af krafti næstu ár, því þetta er mikill menningarauki fyrir bæjarfélagið í heild.
Þetta var allt á byrjunarstigi hjá okkur í sumar, og mjög dýrt að setja húsið í stand og koma þessu í gang, en ef allir standa saman um að hlú að þessu starfi, megum við líta björtum augum á framtíðina.“ – Jóhanna Kristinsdóttir.
Faxi

Rosabaugur

Ætlunin var að leita uppi tvö sel, annars vegar frá Hlíð og hins vegar frá Stóra-Hálsi í Grafningi. Fyrra selið átti að vera í austanverðum Hlíðardal og hitt í austanverðum Kringluvatnsdal.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel – Dalagata.

Gengið var upp með sunnanverður Nóngili frá útihúsunum á Stóra-Hálsi. Slóði liggur til að byrja með ofan í selstígnum upp á Stórahálsfjall. Í hlíðinni beygir hann til norðurs fast ofan við gilið og liggur síðan upp eftir melum og móum áleiðis að Geithamragili, sem er á milli bæjanna Stóra-Háls og Hlíðar. Norðan við gilið er Hlíðarfjall, einnig nefnt Háafell. Selstígurinn, „Dalagatan“, sést af og til en hverfur þesss á milli á gróðulausum melum. Þegar komið er þangað sem lækir úr Kringluvatnsdal og Hlíðardal mætast beygir stígurinn til suðvesturs. Greinilegur stígur er einnig áfram til norðurs norðan lækjarmótanna.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel í Grafningi.

Í örnefnalýsingu fyrir Stóra-Háls segir: „Dalagata; Dalagatan liggur út úr túninu vestanverðu, upp með Miðaftangili að vestan, yfir fjallið í Kringluvatnsdal. Sú leið var farin með heyband úr “Dalnum“, en svo var Kringluvatnsdalur jafnan nefndur.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel – uppdráttur ÓSÁ.

Gatan liggur beint upp fjallshlíðina fyrir ofan bæinn þangað sem leið liggur yfir fjallið og yfir Stórahálsfjall og yfir í Stórahálsdal. Þarna er fremur grýtt en að nokkru mosa vaxið. Talsvert heyjað þar í þurrkasumrum.“

Selsstígurinn liggur í selið; þriggja rýma staka tóft á annars gróðurllitlu svæði austan lækjarins. Í Sunnlenskum byggðum segir: „Sel frá Stóra-Hálsi: Fornt sel er á Selflötum úti í hálsi. Annað sel var suður af mýrunum í Stóra-Hálsdal. Það er hlaðið úr torfi og grjóti og mun vera síðasta selið sem notað var í Grafningi, en það var notað fram yfir 1850. Seltóftin er um miðjan dalinn. Vestan við tóftina er melur austan við er móar í austurhlíð dalsins. Tóftin er 9 metra löng og 4 metra breið og samanstendur af tveimur hólfum. Grjóthleðslur sjást að innanverðu og tóftin opnast til austurs.“

Hlíðarsel

Hlíðarsel í Grafningi.

Selið er enn greinilegt; grjóthlaðnir veggir, tvö rými liggja saman og það þriðja er framan við dyr þeirra. Útsýni er yfir dalinn, sem jafnan var nefndur „Dalurinn“, upp og norður Hlíðardal. Efjumýrarhryggir eru í norðvestri, Klyftartungur í suðvestur, Innri-Botnahnúkur til vesturs og Dagmálafjall í norðri.
Auðvelt er að fylgja selstígnum í Hlíðarsel. Mjög líklega hefur hann einng verið notaður sem reiðleið milli bæja í Grafningi fyrrum.
Selið er uppi á grónum stalli í fjallinu á augljósum stað. Í því eru þrjú rými. Veggir eru lágir og grónir.

Hlíðarsel

Hlíðarsel Grafningi – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnalýsingu Hlíðar segir: “Selið. Þar er grashvammur nokkuð hátt suðvestan í Hlíðarfjalli gegnt dalnum. Þegar farið er norður Hlíðardal, hækkar hann brátt og verður allur óvistlegri en suðurendinn. Þar ber mest á uppblásnum börðum og moldargiljum, en nokkru eftir að hallar norður af, er komið á grasflöt“. Í Sunnlenskum byggðum segir: „Í Kringluvatnsdalnum. Sel frá Hlíð var norðan til í Hlíðardal utan í rótum Hlíðarfjalls, í valllendishvammi sem snýr móti suðvestri. Sést vel móta fyrir því enn.
Selið var á grasbala austantil í dalnum, fyrir austan er mosavaxin hlíð en vestan aflíðandi hlíð niður í dalsbotninn. Þarna er fremur slétt og grasi gróið svæði. Ekki langt frá selinu frá Stóra-Hálsi um 20 mín gangur. Leifar selsins eru orðnar mjög ógreinilegar, þó vel megi sjá merki þeirra í landslaginu.“
Selstígnum var fylgt frá selinu niður  með norðanverður Geithamragili og að Hlíð.
Frábært veður.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel.

Bíll

Vegir og vegagerð á Íslandi hafa þróast í gegnum tíðina. Þorvaldur Thoroddsen skrifaði t.d. um vegi á Íslandi í „Landfræðilýsingu Íslands“ árið 1898:

Hellugata

Forn gata um hraunhellu Reykjanesskaga.

„Vagnvegir eru engir á Íslandi og engir vagnar; vegirnir eru mjög vondir, og eru þeir til mikils trafala fyrir ferðamenn, og ekki síður hitt, að þar eru engin gistihús eða veitingahús. Af því vegirnir eru svo vondir, er ekkert hægt að fara gangandi, menn ferðast alltaf ríðandi, um fjöll og klungur, dali og mýrar, hestarnir eru svo fótvissir, þó þeir séu faltjárnaðir, að þeir komast yfir verstu ófærur, og aldrei fara Íslendingar af baki hvað vondur sem vegurinn er.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni.

Sumstaðar eru brunahraun, sem mjög er hættulegt að fara yfir, þau eru að ofan þakin smágrjóti og sumstaðar eru undir því djúpir katlar, sem hestar og menn geta orðið fastir í; þegar menn ríða um slíka staði, bylur jörðin undir eins og trumba, svo það heyrist langar leiðir. Sumstaðar upp til fjalla eru hyldýpis gjár, sem eru svo djúpar, að ekki sést í botninn, í sumum þeirra er snjór, í sumum vatn, er andir synda á. Sumstaðar er jarðvegurinn hreifanlegur og vaggandi, en þó fagurlega grasi vaxinn, svo það sýnist alveg hættulaust að fara um hann, en þegar hesturinn kemur út á þennan jarðveg, dillar hann allur undir fæti, en ef hesturinn liggur í á slíkum stað, er mjög illt að bjarga honum.

Kjalarnes

Kjalarnes – brú frá u.þ.b. 1927.

Sumstaðar ganga langir firðir inn í landið, sem menn um fjöru riða yfir, eins fljótt og menn geta, svo flóðið ekki nái þeim. Hættulegastar eru þó árnar, og þegar farið er yfir þær, er áríðandi að hafa góðan hest, sem syndir vel; Íslendingar hughreysta ferðamenn, sem smeikir eru, og segja þeir þurfi ekkert að óttast, ef þeir haldi sér vel, klárinn muni koma þeim yfir. Brýr eru hvergi á Íslandi, enda er ekki gott að byggja þær, því þó grjót sé nóg, þá er þó alveg kalklaust.“

Í Reykvíkingi 2. apríl árið 1894 er fjallað um hugmyndir manna um vagnveg milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:

Skólavarðan

Skólavarðan á Skólavörðuholti.

„Nú eru menn farnir að hugsa um það, hvar bezt mundi að leggja veg hjeðan úr bænum og suður í Hafnarfjörð, og munu margir hafa vagnveg í huganum.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforngjakorti 1919.

Menn hafa eigi orðið á eitt sáttir um það, hvernig ætti að leggja hann; sumir hafa viljað leggja hann suður Skildinganesmela, og þaðan fram hjá Nauthól, sunnanvert við Öskjuhlíðina; aptur hefur öðrum komið til hugar að leggja hann úr Laugaveginum fyrir vestan Rauðará, suður og upp Rauðarárholt, suður yfir Norðurmýrina, beina stefnu austanvert við hlíðina á Fossvogsveginn; nú síðast mun Sigurður Þórðarson hafa stungið upp á því, að byrja þenna veg út af Laugaveginum, kippkorn fyrir vestan erfðafestuland Guðlaugs sýslumanns, suður með Skólavörðuholtinu að austan, suður á móts við Steinkudys, þaðan beina stefnu suður og upp Norðurmýrina, eptir Sigurlaugarstíg, eða í námunda við hann, skáhallt yflr Mjóumýri, austanvert við hlíðina og að Fossvogsveginum. — Flestir munu vera á því, að þegar í Fossvog kæmi, þyrfti stefna hins nýja vegar að verða á brúna á Fossvogslæk. Í tillögum sínum hafa menn sagt, að þyrfti að líta á ýmislegt, bæði stuttleika vegarins, hægðina að gjöra hann og kostnaðinn, sem hann hefði í för með sjer, og svo einnig gagnið, sem yrði af veginum fyrir alda og óborna.
Steinkudys
Þegar er að ræða um vagnveg suður í Hafnarfjörð, þá getum vjer alls ekki skilið, að hans sje svo brýn þörf, því að vjer getum eigi sjeð, hvaða umferð er eða muni verða í bráð milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, svo að þyrfti að kosta upp á vagnveg.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1928 – Ásgrímur Jónsson.

Vjer getum hugsað oss, að það gæti komið fyrir, að menn úr Reykjavík þyrftu og vildu sækja síld suður í Hafnarfjörð, en að kosta upp á vagnveg í því skyni, sjáum vjer eigi að sje svo brýn þörf á; vjer getum einnig hugsað oss, að mönnum kynni að þykja gott að geta keyrt sjer til skemmtunar á vögnum milli umræddra staða, t. d. með tveimur gæðingum fyrir; en ættu nú tveir vagnar, með tveimur hestum fyrir hvor, að geta mætzt, án þess að viðstaða þyrfti að verða, þá þyrfti vagnvegurinn að vera breiður, breiðari en vegir gjörast almennt, og þó mönnum þætti nú girnilegt að fá slíkan veg, og vildu því sneiða hjá gamla Öskjuhlíðarveginum, þá eru svipaðir þröskuldar eins og Öskjuhlíðin eptir af veginum, t.d. upp úr Fossvogi og á Kópavogshálsi, þar sem ekki mundi síður þurfa sneiðinga við en á Öskjuhlíð. En svo er nú Hafnarfjarðarhraun; skyldi veita auðvelt að koma þar upp vagnvegi nægilega breiðum, eða skyldi vegurinn á hrauninu sjálfu vera svo breiður, að tveir stórir vagnar, með tveim hestum fyrir hvor, ættu þar gott með að mætast, án allrar tafar?
En eins og vjer áður höfum sagt, getum vjer eigi sjeð, að sem stendur þurfi að hugsa um vagnveg suður í Hafnarfjörð; en setjum nú svo, að Reykvíkingar vildu hafa hann í huga, og eigi láta sitt eptir liggja, í tilliti til undirbúnings undir hann, en hugsuðu þó eigi að fara lengra að sinni en svo, að það jafnframt og þegar í stað gæti orðið til mikils hagnaðar fyrir bæjarbúa, þá er nú vandinn að skera úr því, hvernig og hvar ætti að leggja þennan veg, svo gagnið af honum, auk annars, sem á þyrfti að líta, gæti orðið sem almennast, eða sem flestir gætu haft gagn af honum.“

Háaklif

Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.

Í Ísafold 26. apríl árið 1899 er skrifað um þegar áunna uppbyggingu vagnvegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Arnarneshæð.

„Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð [um Háklif], því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.“

Fyrsti bíllinn

Fyrsti bíllinn á Íslandi, sem kenndur er við Ditlev Thomsen, kaupmann og konsúl, var fransk-þýskur af svonefndri Cudell-gerð. Alþingi samþykkti árið 1903 að veita 2.000 kr. styrk til að flytja inn bifreið og taldi ráðlegast að einkaaðili stæði fyrir því. Thomsen kaupmaður varð fyrir valinu og sá hann um rekstur bifreiðarinnar. Thomsensbíllinn var smíðaður árið 1900 eða 1901 og var eiginlega orðinn úreltur þegar hann kom til landsins, í raun aðeins hestakerra með vél aftur í.

Árið 1918 var víða hægt að komast leiðar sinnar akandi á Íslandi, annaðhvort í hestvögnum eða bifreiðum. Bílaöld hófst hér árið 1913 í Hafnarfirði og Reykjavík en hestvagnar til farþegaflutninga voru eldri í hettunni.

Grindavíkurvegur

Gamli Grindavíkurvagnvegurinn.

Vegagerð á Íslandi var í bernsku á þessum árum og vegir víðast hvar vondir. Það tók lungann úr tuttugustu öldinni að teygja þá um landið og gera þá sæmilega greiðfæra. Árið 1918 var þó víða langt komið að leggja akfæra vagnvegi frá helstu verslunarstöðum eins og kveðið var á um í vegalögum frá 1894 eða „flutningabrautir“, eins og þeir voru kallaðir. Í upphafi var gert ráð fyrir að þessir vegir yrðu alls 375 km á lengd og „vel“ færir hlöðnum hestvögnum og kerrum. Við lagabreytingar varð lengdin 397 km. Áætlað var að lokið yrði að leggja þessa vegi 1923. Vegbreiddin var að jafnaði 3,75 m sem dugði til að hestvagnar gætu mæst. Bifreiðir þurftu fimm til sex metra breiða akbraut til að geta mæst.
Árið 1918 voru einnig komnar brýr á margar ár sem höfðu verið farartálmar um aldir. Sunnanlands var til dæmis búið að brúa Sogið, Ölfusá og Þjórsá, Ytri-Rangá og Eystri-Rangá, vestanlands Hvítá, Örnólfsdalsá, Gljúfurá og Norðurá, á Norðurlandi Miðfjarðará, Blöndu við Blönduós, Héraðsvötn eystri, Hörgá í Hörgárdal og Skjálfandafljót og á Austurlandi Eyvindará og Lagarfljót. Markarfljót og jökulár í Skaftafellssýslum voru enn óbrúaðar og sama átti við um Eyjafjarðará.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þjóðvegir voru nýr flokkur vega sem kveðið var á um í vegalögunum 1894 en samkvæmt nýjum vegalögum, sem staðfest voru 1907, skyldu þjóðvegir, sem tengdust kauptúnum eða flutningabrautum, einnig vera akfærir ef þess þótti þurfa. Þeir áttu að vera að jafnaði 3,15 m á breidd og voru orðnir 130 km 1915. Sýsluvegir voru þeir vegir sem lágu milli sýslna og um hverja sýslu þar sem var „mest þjóðbraut“, til dæmis í kauptún og fiskiver. Um þá gilti hið sama og um þjóðvegi. Þar sem þeir lágu út frá flutningabrautum eða akfærum þjóðvegum eða voru framhald þeirra skyldu þeir vera akfærir ef unnt var að koma því við.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Vegurinn til Keflavíkur, sem tók tíu ár að leggja, var til dæmis sýsluvegur, 38 km langur og akfær árið 1918. Hreppsvegir voru þeir vegir milli hreppa og um þá sem voru hvorki flutningabrautir, þjóðvegir né sýsluvegir. Fjallvegir voru þeir vegir yfir fjöll og heiðar sem ekki töldust til neins annars vegaflokks. Þá átti einungis að varða og gera reiðfæra.
Flutningabrautin frá Reykjavík, Suðurlandsbraut, var lengst, teygði sig frá Laugavegi yfir Elliðaár allar götur austur í Rangárvallasýslu árið 1918 eða þangað sem nú er Hvolsvöllur. Við Geitháls hafði verið lögð út frá henni ný flutningabraut til Þingvalla eftir holtum og melum austan við Seljadal þar sem Þingvallavegur lá áður. Frá Eyrarbakka var flutningabraut lögð upp Flóann að Ölfusárbrú og önnur frá Ingólfsfjalli um Grímsnes að Geysi. Borgarfjarðarbraut lá frá Borgarnesi um Stafholtstungur og tengdist þjóðveginum norðan við brúna á Hvíta við Kljáfoss, Húnavatnssýslubraut frá Blönduósi vestur fyrir Víðidalsá, Skagafjarðarbraut frá Sauðárkróki fram Skagafjörð að þjóðveginum fyrir neðan Víðimýri, Eyjafjarðarbraut frá Akureyri að Saurbæ í Eyjafirði, Þingeyjasýslubraut frá Húsavík að Einarsstöðum í Reykjadal og Fagradalsbraut frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal að Lagarfljóti hjá Egilsstöðum. Árið 1914 bættist vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur við flokk flutningabrauta.

Suðurlandsvegur

Fyrsti Suðurlandsvegurinn 1887.

Þegar bílaöld hófst 1913 var lokið við að leggja 287 km af flutningabrautunum. Í árslok 1916 höfðu samkvæmt verslunarskýrslum verið fluttir til landsins 30 bílar. Engin bifreið var flutt inn árið eftir enda lögðu Þjóðverjar hafnbann á Bretland í byrjun þess árs og hófu jafnframt stórfelldan kafbátahernað á höfum úti til að fylgja banninu eftir. Hér varð því brátt skortur á ýmsum nauðsynjum, meðal annars eldsneyti. Árið 1918 voru hins vegar fluttar til landsins 27 bílar. Þeir voru allflestar suðvestanlands, í Reykjavík, Hafnarfirði og Árnessýslu. Akureyringar eignuðust fyrstu bifreið sína árið 1914 og Húsvíkingar sína ári síðar. Enn fremur höfðu Austfirðingar hafið tilraunir með rekstur bifreiðar.
Í höfuðstaðnum var ástand gatna bágborið í byrjun tuttugustu aldar. Árið 1912 var gerð sú bragarbót á gatnakerfinu að Austurstræti var „makademiserað“, með öðrum orðum malbikað enda hafði bærinn þá eignast gufuvaltara. Sumarið 1908 hafði portið við barnaskólann við Fríkirkjuveg, Miðbæjarskólann eins og hann hét síðar, verið „tjörusteypt“. Sú aðferð var einnig notuð við gatnagerð í Reykjavík.

Reykjavík

Mynd frá haustinu 1917 sem sýnir verkamenn tjörusteypa Pósthússtræti. Gufuvaltarinn „Bríet Knútsdóttir“ var notuð til að þjappa jarðefninu saman. Valtarinn dró nafn sitt af tveimur kröftugum bæjarbúum, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Knut Zimsen.

Árið 1918 var lokið við að makademisera eða tjörusteypa þessar götur í höfuðstaðnum: Suðurgötu alla leið að sálarhliðinu á kirkjugarðshorninu sunnanverðu, Kirkjustræti frá Aðalstræti að Pósthússtræti og Pósthússtræti frá Kirkjustræti að Austurstræti, Lækjartorg að Stjórnarráðsblettinum, Lækjargötu frá Bankastræti að barnaskólanum við Fríkirkjuveg, Bankastræti og Laugaveg frá Skólavörðustíg að Frakkastíg. Sama átti við um gangstéttir á þessum stöðum. Sums staðar voru þær þó hellulagðar.

Björn Eiríksson

Bifreið með númerinu HF-1 og karlmaður í jakkafötum með kaskeiti.
„Maðurinn á myndinni er Björn Eiríksson, Björn á Sjónarhóli í Hafnarfirði. Kannski er þetta fyrsti bíllinn hans“. (Thorarinn Gudnason)

En bílferð var ekki ókeypis og því var haldið fram að það hafi einungis verið á færi hinna efnameiri að nota þá. Allur almenningur hefði naumast fé handa á milli til að eyða í skemmtanir eins og að ferðast í bifreiðum, allra síst fátæklingar. En þær stundir koma að nauðsyn brýtur lög. Margir áttu erindi til Vífilsstaða þar sem þeir lágu sem hvíti dauðinn, berklaveikin, hafði tekið heljartökum. Í laugardagsblöðum sumarið 1918 voru jafnan auglýstar ferðir þriggja bifreiða til Vífilsstaða á sunnudögum og kostaði sætið tvo þriðju af daglaunum verkamanns, eða 5 krónur báðar leiðir með klukkustundar ókeypis viðstöðu, 3 krónur aðra leiðina sem fyrir marga var kannski fyrsta og einasta bílferðin.
Prestar, læknar og sýslumenn nýttu bíla í embættiserindum og einnig til ferðalaga eins og þeir sem betur máttu sín. Sambandslaganefndin, sem kom saman hér á landi í lok júní 1918, gerði til dæmis hlé á störfum sínum sunnudaginn 7. júlí og brunaði sér til upplyftingar í mörgum bifreiðum sem leið lá eftir Suðurlandsbrautinni upp að Geithálsi og þaðan eftir flutningabrautinni til Þingvalla. Með í för voru meðal annars ráðherrarnir íslensku. Um viku síðar var farin önnur bílferð enda hafði nefndin þá lokið störfum og frumvarp til sambandslaga tilbúið á pappírnum. En nú var farið austur yfir Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli þar sem hægt var að kaupa veitingar, snætt í Sigtúnum við Ölfusárbrú og síðan haldið austur að Sogi og á hestum upp með því og Sogsfossarnir skoðaðir. Þangað var ekki bílfær vegur þegar hér var komið. Flestir gistu um nóttina á Eyrarbakka, örfáir í Grímsnesi. Um nónbil á sunnudeginum var haldið af stað til Reykjavíkur og boðið upp á kaffi og pönnukökur á Kolviðarhóli. Um kvöldið var boð hjá forsætisráðherra.

Heimildir:
-Þorvaldur Thoroddsen – Landfræðilýsing Íslands, Hið íslenska bókmenntafélagr 1898, bls. 202-203.
-Reykvíkingur, Hafnarfjarðarvegurinn, 2. apríl 1894, bls. 1.
-Ísafold, Vagnvegur, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103.
-Alþingistíðindi 1893 A, 1914 B, 1907 A.
-Dagsbrún 23. september 1918.
-Framsókn 6. ár 1900.
-Guðlaugur Jónsson: Bifreiðir á Íslandi I-II.
-Ísafold 9. ágúst 1890, 3. ágúst 1912.
-Lögrétta 10. júlí, 17. júlí 1918, 123.
-Morgunblaðið 11. júlí 1917, 1. júní, 22. júní, 29. júní, 6. júlí og 13. júlí 1918.
-Óðinn 14. ár 1918.
-Stjórnartíðindi 1907 A-deild.
-Tímarit VFÍ 1917, 1918, 1919.
-Tíminn 20. júlí 1918.
-Verslunarskýrslur 1913–1918.
-Þjóðólfur 19. júlí 1918.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=75182

Geitháls

Fjölskylda í bílferð við Geitháls.