Hamarinn

HAMARINN, öðru nafni Hamarskotshamar, í Hafnarfirði er ekki einungis náttúruvætti – í tvennum skilningi – heldur og stöndug fótfesta bæjarsamfélags við ofannefndan fjörð. Líkt gildir um uppverðaðan bróður hans; Setbergshamar (Þórsbergshamar). Á þeim báðum eru eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda, sem ætlunin er að lýsa hér á eftir, enda setur hann hvað mestan svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Hins vegar hefur lítið verið gert til að auka verðskuldað aðdráttarafl hans eða upplýsa bæjarbúa og gesti þeirra um þau merkilegheit, sem hann hefur að geyma.

Hamarinn

Hamarinn – loftmynd 1954.

Hamarskotshamrinum tengjast t.d. sögur um álfa og huldufólk. Af þeirri ástæðu, vegna eigin reisnar og ummerkja eftir síðasta ísaldarjökul var talin þörf á að friðlýsa hann árið 1984. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn. Um Hamarskot, sem hvorutveggja dregur nafn sitt af, verður fjallað hér á eftir.
Þegar Hamarinn var friðlýstur fylgdi m.a. eftirfarandi rökstuðningur í auglýsingu: „Samkvæmt heimild í 22. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971 hefur [Umhverfisstofnun] að tillögu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkt fyrir sitt leyti að friðlýsa Hamarinn í Hafnarfirði sem náttúruvætti.
Hamarsmyndin suðvestanverðEftirfarandi reglur gilda um svæðið: 1. Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd. Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema til komi sérstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd ríkisins], að láta planta trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.

Hamarinn

Hamarinn – útsýni yfir miðbæ Hafnarfjarðar.

2. Svæðið er einungis opið gangandi fólki og skal það gæta góðrar umgengni. 3. Náttúruverndarnefnd Hafnarfjarðar hefur eftirlit með framkvæmd friðlýsingar í umboði [Umhverfisstofnunar] og bæjarstjórnar. Til undanþágu frá reglum þessum þarf leyfi [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefndar Hafnarfjarðar. Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.“ Hafa ber í huga að framangreindar reglur, með vísan til friðlýsingarreglugerðar, er enn í gildi. Það er því von greinarhöfundar, að annaðhvort annist bæjaryfirvöld hreinsun á plastruslinu við hálskraga hamarsins eða geri þá kröfu til íbúanna um að þeir hirði sjálfir eigin rusl eftir sig.

Hamarinn

Hamarinn – mörk friðlýsingar.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti, sem er einkennisbergtegundin í Hamrinum.
Hamarskotsbæjarstæðið - lóð Húsmæðraskólans fjærÆtla má að bergið geti verið yngra en 0.8 milljón ára. Grágrýtið er grátt eða grásvart að lit. Það myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í 
Hafnarfirði og umhverfi þess er komið. Grágrýtið er yfirleitt dálítið frauðkennt og tekur í sig mikið vatn og þolir illa veðrun. Jöklar frá jökulskeiðum ísaldar hafa farið yfir grágrýtishraunin og skafið allt gjall ofan af þeim.

Þess vegna má ætla að Hamarinn hafi orðið til skömmu eftir lok þarsíðustu ísaldar því dyngjur verða jafnan til skömmu eftir að ísa leysir, síðan taka gjall- og klepragígar við keflinu.

Hamarinn

Hamarinn í Hafnarfirði.

Ágætt dæmi um þetta er Vatnajökulssvæðið um þessar mundir. Möttulstrókurinn (sá ofurkraftur er heldur landinu uppi (ofan við sjávarmál) býr undir honum um þessar mundir. Nú þegar jökullinn er að minnka, smám saman, áætla jarðfræðingar að hann muni fæða af sér dyngjugos og það jafnvel ekki innan langs tíma – á jarðfræðilegan mælikvarða. Gosið getur varið í nokkur ár og því orðið hið ákjósanlegasta „túrhestagos“.
Flensborgarskólinn stendur á Hamarskotshamrinum. Hamarinn má segja að sé eitt samfellt hvalbak. Hvalbak er jökulsorfin klöpp með ávala slithlið sem snýr að Flensborg en stöllótt varhlið sem snýr að læknum í Hafnarfirði.
Flestar Jökusorfnar klappir á Hamrinumgrágrýtisklappir í Hafnarfirði eru rispaðar eftir jökla frá jökulskeiðum ísaldar. Grjót hefur frosið fast í botnlag jökulsins og dregist með honum. Þannig grópar og rispar jökullinn klöppina. Til dæmis má finna skýrar og fallegar jökulrispur uppi á Hamrinum með stefnuna NV-SA. Ásfjall er önnur grágrýtishæð ofan við Ástjörn. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum. Hæðirnar fyrir ofan Setbergshverfið eru einnig úr grágrýti, það er Setbergshamar, Setbergsholt þar fyrir ofan síðan Fjárhúsholt, austan megin við Flóttamannaveginn er Svínholt og loks hlíðarnar Setbergshlíð og Sléttuhlíð.
Þótt Hafnarfjarðar sé jafnan getið sérstaklega sem álfabæjar fer af honum furðufáum skráðum sögum af álfum. Til að bæta fyrir þetta er rétt að benda á að margir Hafnfirðingar, sem annað hvort hafa leikið sér í Hamrinum eða verið þar á ferð, telja sig hafa séð þar hvítklædda veru. Þegar miðillinn Margrét frá Öxnafelli bjó við Tjarnargötuna taldi hún sig sjá huldufólk af konungakyni í Hamrinum.
Hamarinn norðanverður - þarna sást hvítklædda konanHvítklædda konan í Hamrinum, höll álfanna (huldufólksins), er sögð svipuð ljóma og vera með silfurbelti. Einnig hefur fólk orðið vart við fallegan söng nálægt Hamrinum en hvergi séð lifandi sálu og því aðeins hægt að skýra sönginn á þann hátt að þar hafi álfar komið við sögu.
Eftirfarandi frásögn er byggð á reynslu konu sem bjó lengi í grennd við Hamarinn. Hana dreymdi að henni væri boðið að koma inn í Hamarinn. Leiddi hvítklædd kona hana um glæsileg híbýli hallarinnar. Þegar þær gengu um salarkynnin sá konan margt skringilega klætt fólk. Það var allt í marglitum klæðum og hneigði sig þegar það sá álfkonuna. Þessi draumur hefur rennt stoðum undir þá kenningu að í Hamrinum búi álfar af konungakyni.
Önnur saga, sem FERLIR barst, segir frá því að þrír drengir, sem jafnan léku sér í Hamrinum, hafi verið að hlaða skýli úr grjóti utan í og ofan á norðvestanverðum Hamrinum. Þá hafi einum þeirra verið litið niður fyrir hamravegginn og séð þar hvítklædda veru. Hún hafi ljómað, brosað og liðið um, lyft höndum líkt og í varnaðarskini. Þegar hann hefði snúið sér við og ætlað að vekja félaga sinna á fyrirbærinu hafi veran horfið. Hræðsla hefði gripið drengina og þeir hlaupið skelfdir á brott.

Hamarinn

Hamarinn – álfasteinn.

En hvað um sögulegar upplýsingar? Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Hamarskot: „Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum. Eigandinn er Garðakirkju beneficium. Ábúandinn er Jón Arason. Kvaðir eru mannslán um vertíð, betalast eftir samkomulagi með míðum og slíkri þjónustu…, tveir hríshestar, einn dagsláttur, hestlán til alþingis og heyhestur… Kvikfjenaður er ii kýr og i kálfur. Fóðrast kann iii kýr naumlega. Heimilismenn vi. Selstöðu eigna nokkrir jörðinni í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarkotssel. Skóg og hrís til kolagjörðar hefur jörðin lángvarandi brúkað mótmælalaust í almenningum… Heimræði er árið um kring og lending góð. engjar eru öngvar og vatnsból er erfitt um vetur.“ Þótt minjar um Hamarskot hafi farið þverrandi við Hamarinn vegna ágangs má enn í dag glögglega sjá leifar nefndrar selstöðu.
Í bókinni „Bær í byrjun aldar“ segir Magnús Jónsson frá bæjum, kotum og fólki í Hafnarfirði í byrjun 20. aldar. Um Hamarskotið segir hann: „Nú eru löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð, en það var í slakkanum uppi á Hamrinum. Upphaflega hefur bærinn sjálfsagt dregið nafn sitt af hamrinum, en svo var farið að kenna hamarinn við kotið, og hann nefndur Hamarskotshamar.
Í Hamarskoti var grasnyt, en túnið – sem sýslumaðurinn hafði afnot af – var harðbalakennt. Alloft urðu íbúaskipti í Hamarskoti, og á þessum tíma voru þar hjónin Þorlákur Guðmundsson og Anna Sigríður Davíðsdóttir. Hann var fæddur 1842 í Hlíð í Garðahverfi, en hún 1856 á Bakka í Vatnsdal. Árið 1876 giftust þau, þá að Undirfelli í Vatnsdal og voru fyrst í húsmennsku þar nyrðra. Í Hamarskot fluttust þau um 1897, en höfðu áður verið á þrem stöðum í Hafnarfirði. Þorlákur annaðist m.a. skepnuhirðingu fyrir sýslumanninn. Börn þeirra voru Júlíus, Kristmundur, kvæntist Láru Gísladóttur – þau bjuggu lengi í Stakkavík, Sigurður Gunnlaugur, Una og Jarþrúður, auk þess Agnar, Anna og Sigríður. Þorlákur dó 1926 og Anna 1930.“
Útsýni af Hamrinum yfir HamarskotslækHér að framan er komin tenging við fyrri FERLIRslýsingar um Stakkavík í Selvogi (sjá lýsingu (Eggert) og lýsingu (Þorkell)). Lengi vel mátti, þrátt fyrir framangreint, sjá móta fyrir tóftum og garðlögum Hamarskots á flötinni sunnan við Hamarinn, en hvorutveggja eru nú að  mestu afmáð. Þó má, ef vel er að gáð, sjá fyrrum leifar búsetu Hamarkotsbænda, og hjúa, undir ofan til við sunnanverðan hamarinn.
Í Sögu Hafnarfjarðar, 1983, segir m.a. um Hamarkotshamar: „Eftir að gagnfræðaskólinn í Flensborg tók til starfa árið 1882 og aðkomupiltar tóku að sækja hann, mátti segja að allmikið lifnaði yfir firðinum á hverju hausti við komu þeirra… Útiskemmtanir voru helst þessar… Brenna var oftast annað hvort á gamlárskvöld eða á þrettándanum og venjulega álfadans í sambandi við hana. Var þá dansað úti á einhverri tjörninni. Oftast var brennan á Hamarskotshamri, en stöku sinnum á Kvíholtinu norðan Jófríðarstaða, þar sem nú er nunnuklaustur… Heimavist komst aftur á í Flensborg, þegar nýja skólahúsið á Hamrinum vat tekið í notkun haustið 1937… Sama ár fékk Iðnskólinn inni í nýbyggingu Flensborgarskólans á Hamrinum…“
Á Hamarskotshamri - uppgangur að norðanverðuSkammt ofan við Hamarinn eru Öldur. Þær komu við sögu stofnunar Knattspyrnufélagsins Framsókn árið 1919. Gjaldkeri í því var Gísli Sigurðsson (okkar maður í örnefnaskráningum). Vorið 1920 æfði Framsókn á Öldunum, þangað til völlurinn á Hvaleyrarholti var tekinn í notkun í ágústmánuði. Segja má frá því aukreitis að Ölduvöllurinn nýttist vel fjölmörg ár á eftir því þar urðu bæði knattspyrnufélagið Örninn og Fálkinn til á sjöunda áratugnum. Vörðu liðsmenn þeirra löngum stundum á vellinum í harðri baráttu um metnað og sigur. Liðsmennirnir hafa nú dreifst um heima og geima – reynslunni ríkari. Þakka má því ómeðvituðu aðstöðuleysi bæjaryfirvalda eftir að háværum röddum „umrenninganna“ sleppti.
„Sundkennsla hófst
í Hafnarfirði sumarið 1909. Forgöngu um það hafði Ungmennafélagið 17. júní, sem hafði verið stofnað í bænum árið áður.. Í fyrstu var sundið kennt vestan til við Vesturhamar, út af Hamarkotsmöl, í svokallaðri Hellufjöru…
Þess má geta, að þegar landssjóður seldi Hafnarfjarðarbæ land Garðakirkju árið 1913 skv. lagaheimild frá 1912, var Hamars- og Undirhamarstún undanskilið, þar eð gert var ráð fyir því, að síðar yrði reist þar prestsetur, ef kirkjan yrði flutt frá Görðum til Hafnarfjarðar. (Hafnarfjarðarkirkja var vígð sama ár).

Hamarinn

Hamarinn – hamraborg.

Árið 1951 gekkst Rotaryklúbbur Hafnarfjarðar fyrir því í samvinnu við Fegrunarfélag Hafnarfjarðar, að gróðursett voru fjölmörg barrtré utan í Hamrinum…“ Fegrunarfélagið hafði verið stofnað þetta sama ár.
Þeir, sem gengið hafa um Hamrinn, hafa eflaust veitt athygli grjótraski, sem þar hefur orðið í honum sunnanverðum. Í Sögu Hafnarfjarðar segir um þetta: „Félagsmönnum í Húsmæðrafélagi Hafnarfjarðar fjölgaði fljótlega, og voru þeir rúmlega 500 mánuði eftir að félagið hafði verið stornað (1942). Kosin var nefnd til að undirbúa stofnun skólans. Nefndin og stjórn félagsins urðu ásátt um, að heppilegasti staðurinn fyrir skólann væri á HAmrinum, og árið 1946 veitti bæjarstjórn félaginu lóð undir skólann þar. Fullnaðarteikningar af skólahúsinu voru tilbúnar sama ár, og lét embætti húsameistara ríkisins þær í té.
Framkvæmdir hófust 1948, og var þá grafið fyrir grunni skólans. Kostaði það verk um 120.000 kr. Stóð Húsmæðraskólafélagið straum af kostnaði við þessar framkvæmdir. Í HamarskotsseliAllt frá stofnun þess gekkst það fyrir fjársöfnun til styrktar hinum væntanlega húsmæðraskóla… Ýmsar ástæður ollu því hins vegar, að ekkert var að því, að reistur yrði húsmæðraskóli í Hafnarfirði. ekki fékkst fjárfestingarleyfi til að hefja smíði hússins, og þar við bættist, að ýmsi félagasamtök lögðust eindregið geng því, að skólanum yrði valinn staður á Hamrinum, þar eð þau töldu, aðþað myndi lýta Hamarinn, ef skólinn yrði reistur þar. Það varð til þess, að starfsemi Húsmæðraskólafélags Hafnarfjarðar lagðist niður 1954…“
„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar kaus fyrst náttúruverndarnefnd árið 1966… Stærsta verkefni hennar var eflaust stofnun Reykjaness-fólkvangs árið 1975. Einnig lét nefndin til sín taka.. má þar nefna Hamarkotslæk og næsta nágrenni hans…“
„Þann 1. júni 1983 var sjötugastiog fimmti afmælisdagur Hafnarfjarðarkaupstaðar… Mikið var um hátíðleika… Einn af eftirminnilegstu atburðum hátíðarhaldanna var útidagskrá á Hamrinum fimmtudagskvöldið 2. júní. Fólk safnaðist þar saman, svo þúsundum skipti, í kvöldblíðunni og naut samveru og skemmtunar.“
Hamarinn norðanverðurEins og sjá má hefur Hamarskotshamarinn verið bæði vettvangur sögulegra og eftirminnilegra atburða í sögu Hafnarfjarðar um langa tíð. Hafa ber það í huga nú þegar bærinn mun halda upp á 100 ára kaupstaðarafmæli sitt árið 2008.
Þegar staðið er uppi á Hamrinum verður Lækurinn fyrsta sjónhendingin. Lækurinn rennur í gegnum Hafnarfjörð og heitir í raun Hamarkotslækur. Hann stækkaði og breikkaði þegar hann var fyrst stíflaður árið 1904 og síðan hefur mannshöndin lagfært hann á ýmsa vegu.

Lækurinn

Lækurinn í Hafnarfirði.

Lækurinn á upptök sín í tveimur kvíslum. Önnur þeirra kallast Stórakrókslækur og rennur úr Urriðakotsvatni um Kaplakrika þar sem hann kallast Kaplakrikalækur. Svo rennur hann fyrir neðan Setbergshverfið þar sem hann kallast Setbergslækur. Hin kvíslin kemur upp í Lækjarbotnum og kallast þar Botnalækur og sameinast hann Setbergslæknum í Þverlæk og eftir það kallast hann Hamarkotslækur. Jóhannes Reykdal trésmiður virkjaði hann til rafmagnsframleiðslu í 15 hús og reisti fyrstu rafstöðina á Íslandi til almenningsnota árið 1904. Árið 1906 var stærri rafstöð byggð til að lýsa upp húsin í bænum. Hún hét Hörðuvallastöðin og er talin elsta sjálfstæða rafmagnsstöðin á landinu. Hún hefur nú verið uppgerð og má sjá eftirmyndarmynd hennar efst í Hamarskotslæknum skammt neðan við Lækjarkinn.

Sjá meira um Hamarinn HÉR.

Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/index.htm
-Jarðabókin 1703 – Hamarskot.
-Ásgeir Guðmundsson – Saga Hafnarfjarðar – 1983.
-Magnús Jónsson – Bær í byrjun aldar – 1967, bls. 23 og 24.
-Stj.tíð B, nr. 188/1984.

Hamarskot

Hamarskot.

Arnarseturshraun

Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson skrifuðu árið 1989 greinargerð um „Aldur Arnarseturshrauns“ á Reykjanesskaga. Útgefandi var Náttúrufræðistofnin Íslands.

Í greinargerðinni er lýst niðurstöðum rannsókna á Arnarseturshrauni á Reykjanesskaga. Hrauninu er lýst og mæld stærð þess og rúmmál. Aldur hraunsins var fundinn með könnum öskulaga undir og ofan á því.

INNGANGUR

Sigmundur Einarsson

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur.

Milli Vogastapa og Svartsengisfells liggur Grindavíkurvegur að mestu í unglegu hrauni. Jón Jónsson (1978) hefur lýst hrauninu og kallar það Arnarseturshraun en einn hólanna við stærstu gígana sem mynduðu hraunið heitir Árnarsetur. Jón telur að hraunið hafi runnið á sögulegum tíma. Einnig birtir hann meðaltal af þremur efnagreiningum. Sveinn P. Jakobsson o.fl. (1978) birta efnagreiningu af hrauninu sem reynist vera basalt af gerðinni þóleiít. Arnarseturshraun er að mestum hluta komið úr um 400 m langri gígaröð sem liggur um 500 m austan Grindavíkurvegar á móts við Stóra Skógfell. Í upphafi gossins hefur gígaröðin verið mun lengri eða a.m.k. um tveir km. Um einn km norðaustur af aðalgígunum sést hluti af gígaröðinni sem virk var í gosbyrjun. Hún er um 500 m löng en slitrótt. Gígarnir eru litlir, 4-6 m háir, Virknin þar hefur dvínað fljótlega og gosið dregist saman á um 400 m langa gossprungu. Frá henni er allt meginhraunið runnið en aðrir hlutar gígaraðarinnar hafa færst í kaf nema áðurnefndir gígkoppar. Ekkert er vitað um framhald gossprungunnar til suðurs en þar er hraunið mjög þykkt og gígar horfnir ef einhverjir hafa verið.

Haukur Jóhannesson

Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur.

Í lok gossins var gosvirkni einkum í þremur eða fjórum gígum. Nyrst og syðst var einkum hraunrennsli en á miðju gígaraðarínnar hlóðust upp gjallgígar. Nyrsti hluti gígaraðarinnar stefnir um N50A en aðalgígarnir stefna N40A. Upphaflega gossprungan hefur ekki verið á einni línu, heldur hefur hún verið skástíg og hliðrast til hægri, sem sést af því að nyrðri gígarnir eru ekki í beinu framhaldi af aðalgígunum.
Aðalgígarnir eru nálægt suðausturjaðri hraunsins. Þeir eru nú rústir einar eftir gjallnám en virðast hafa risið allt að 25 m yfir hraunið. Fyrst hefur hraunið frá gígunum einkum runnið til norðurs en síðar aðallega til vesturs og suðvesturs. Hraunið er að miklu leyti helluhraun en í því eru apalhraunsflákar og sumstaðar hefur helluhraunið brotnað upp og þar er hraunið mjög úfið. Eins og títt er um sprunguhraun á Reykjanesskaga er hraunið að jafnaði þeim mun úfnara og verra yfirferðar er fjær dregur gígunum, en nærri þeim er það afar blöðrótt og frauðkennt og brotnar undan fæti.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Arnarseturshraun er yngsta hraunið á þessu svæði og liggja jaðrar þess alls staðar út yfir aðliggjandi hraunfláka. Suður- og suðausturjaðrar þess liggja út yfir hraun sem að mestu eru runnin frá unglegri gígaröð skammt austan við Stóra Skógfell og hefur hún verið kennd við Sundhnúk (Jón Jónsson 1973). Norðan til hefur Arnarseturshraun runnið út yfir fornlegt og mikið sprungið dyngjuhraun ættað frá stórri dyngju norðan undir Fagradalsfjalli og hefur hún af jarðfræðingum verið kölluð Þráinsskjöldur. Norðvesturjaðarinn liggur út yfir annað dyngjuhraun, ámóta fornlegt og sprungið. Það er komið frá dyngju sem kölluð hefur verið Sandfellshæð eftir dyngjuhvirflinum sem er um tvo km vestur af jarðhitasvæðinu í Eldvörpum. Hraun sem komin eru úr Eldvörpum og stórum stökum gíg skammt suður af Þórðarfelli hverfa inn undir suðvesturjaðar Arnarseturshrauns, en suðurjaðarinn liggur eins og austurjaðarinn út á Sundhnúkshraun.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Ekki hafa neinar sprungur fundist í Arnarseturshrauni svo vitað sé en augljóst er að berggrunnurinn undir því er mjög sprunginn. Gliðnun eða umbrot virðast því ekki hafa átt sér stað á svæðinu eftir að hraunið rann. Illahraun, sem komið er úr gígum um fjóra km suðvestur af Arnarsetursgígunum, er einnig ósprungið (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a) og því hugsanlega frá svipuðum tíma, Rétt er að benda á að ekki er ljóst hvernig gosbeltið hegðar sér á svæðinu frá Reykjanesi að Fagradalsfjalli, þ.e. hvort líta beri á það sem eina sprungurein eða fleiri. Af þessum sökum er aðeins hægt að draga ályktanir af Arnarseturs- og Illahraunsgosum um næsta nágrenni en ekki sprungureinina í heild.
Arnarseturshraun er fínkornótt í brotsári og að mestu dílalaust en stundum með stökum, litlum plagíóklasdílum og ógreinanlegt frá Illahrauni í handsýni.

Arnarsetur

Arnarsetur og nágrenni – örnefni.

Jón Jónsson (1978, 1983) telur flatarmál Arnarseturhrauns vera um 21.84 km2. Jón gerði ráð fyrir að norðurhluti gígaraðarinnar og hraunið frá henni væri sérstök gosmyndun og er það því ekki meðtalið. Rúmmál hraunsins telur Jón vera 0.44 km3 en tekur fram að sennilega sé sú tala talsvert of lág. Flatarmál Arnarseturhrauns reiknast okkur vera 22.02 km2, Erfitt er að meta meðalþykkt hraunsins þar sem landslag fyrir gos er ekki þekkt en út frá mælingum á þykkt hraunjaðra var meðalþykkt áætluð um 15 m og er þá gert ráð fyrir að landið hafi verið tiltölulega flatt. Heildarrúmmál hraunsins er þá um 0.33 km3.

ALDUR ARNARSETURSHRAUNS

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – Jón Jónsson.

Aldur Arnarseturshrauns var ákvarðaður út frá afstöðu þess til þekktra öskulaga í jarðvegi, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson (1988a,b) hafa fjallað um öskulög frá sögulegum tíma á Reykjanesskaga og verður það ekki endurtekið hér. Grafin voru og mæld 5 jarðvegssnið (R-31, R-46, R-47, R-48 og R-52) sem náðu inn undir jaðra hraunsins og er staðsetning þeirra sýnd á 1. mynd. Sniðin eru sýnd á 2.-6. mynd.
Landnámslagið fannst með vissu í tveimur sniðum, R-31 og R-52 og ef til vill í sniði R-47. Það liggur skammt undir hrauninu. Miðaldalagið liggur beint undir hrauninu í öllum sniðunum og er 5-15 cm þykkt og hefur fallið skömmu áður en hraunið rann. Enginn jarðvegur er milli Miðaldalagsins og hraunsins nema í sniði R-47 þar sem mold hefur greinilega hripað niður í gegnum þunnan hraunjaðar og fyllt upp í glufur neðst í hrauninu.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Miðaldalagið hefur fokið upp að hraunjaðrinum svipað og lýst er í skýrslunni um Illahraun.
Snið R-47 var grafið við hraunjaðarinn vestan undir Litla Skógfelli og er einkar fróðlegt. Neðst í því er ljós leikenndur jarðvegur og í honum gráleit rönd sem gæti verið Landnámslagið. Þá tekur við um 40 cm þykkt lag, sem að mestu er svört, lagskipt basaltaska sem vafalaust er Miðaldalagið. Neðst er um 15 cm af hreinni, svartri ösku, en efri hlutinn er lagskiptur. Þar skiptast á lög af svartri eilítið moldarblandinni ösku og Ijósri, leirkenndri mold. Í þessum lagskipta hluta sniðsins er greinilega vatnsflutt efni. Þá tekur Arnarseturshraun við og neðst í því er leirkennd, ljós mold sem fyllir upp í allar glufur í neðraborði hraunsins. Utan við hraunjaðarinn er um 20-30 cm þykkt lag af dökkri fokmold ofan á Miðaldalaginu. Á þessum slóðum er ekkert yfirborðsvatn að sumrinu og því verður að ætla að lagskipti kaflinn hafi myndast að vetri eða vori til er frost var í jörðu. Því hefur liðið a.m.k. einn vetur frá því að Miðaldalagið féll uns Arnarseturshraun rann.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – snið.

Ljóst er að Arnarseturshraunið hefur runnið skömmu eftir að Miðaldalagið féll sem að líkindum var árið 1226 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988b). Þetta er raunar sama niðurstaða og fékkst fyrir Illahraun (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a). Ekki er hægt að segja til um aldursafstöðu þessara tveggja hrauna þar sem jaðrar þeirra liggja hvergi saman.
Áður hefur komið fram að engar sprungur hafa fundist í þessum hraunum og því sennilegt að þau hafi runnið í sömu goshrinu eða jafnvel samtímis. Ef Miðaldalagið hefur fallið árið 1226 þá hefur Arnarseturshraun runnið í fyrsta lagi árið 1227 því einn vetur a.m.k. hefur liðið frá því að öskulagið féll uns hraunið rann.
Jón Jónsson (1978) giskaði á að Arnarseturshraun hafi runnið 1661 en það ár getur Vallholtsannáll (Gunnlaugur Þorsteinsson 1922-27) um gos í Grindavíkurfjöllum, Jón hvarf síðar frá þessari hugmynd (Jón Jónsson 1983) og taldi það runnið um 1300 og byggði þá skoðun sína á því að hann fann

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Landnámslagið undir hrauninu en ofan á því öskulag sem hann taldi frá Kötlugosinu 1485. Þetta snið Jóns Jónssonar er tekið á sömu slóðum og snið R-46 en þar fannst Kötlulagið frá 1485 ekki þrátt fyrir nokkra leit. Aftur á móti virðist Jóni hafa sést yfir Miðaldalagið.
Sem fyrr segir taldi Jón Jónsson (1978) að nyrsti hluti gígaraðarinnar í Arnarseturshrauni væri sérstök gosmyndun og auðkennir hann hana með H-37, Ekki fjallar Jón um aldur hraunsins, en samkvæmt jarðfræðikorti hans telur hann hraunið eldra en Sundhnúkshraun. Jarðlagasnið R-52 sýnir hinsvegar ótvírætt að þessu er öfugt farið. Austurjaðar H-37 liggur að mestu út á fremur unglegt hraun sem Jón auðkennir H-38 (Sundhnúkshraun) og liggur jarðlagasniðið með Miðaldalaginu og Landnámslaginu á milli hraunanna. Með hliðsjón af þessu og legu gígaraðarinnar er eðlilegast að álykta að H-37 sé hluti Arnarseturshrauns.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Afar ólíklegt verður að teljast að gosið hafi í Grindavíkurfjöllum 1661 eins og segir í Vallholtsannál því ekki er getið um það gos í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1923-24). Þeir söfnuðu upplýsingum í Jarðabókina árið 1703 og þá hefði átt að vera fjöldi manna á Suðurnesjum sem mundu gosið og tíundað hefðu skaða þann er það hefði valdið. Líklegast er að annálshöfundurinn hafi í raun verið að lýsa Kötlugosinu er varð 1660 enda á lýsingin að mörgu leyti vel við það.

Heimildir:
-Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-24. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 3. bindi. Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn. 468 bls.
-Gunnlaugur Þorsteinsson 1922-27. Vallholtsannáll. Í Annálar 1400-1800, 1. bindi, bls. 317-367. Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7. 11 bls.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988b. Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38: 71-87.
-Jón Jónsson 1973. Sundhnúkahraun við Grindavík, Náttúrufræðingurinn 43: 145-153.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, Orkustofnun OS JHD7831. 303 bls. og kortamappa.
-Jón Jónsson 1983. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn 52: 127-139.
-Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson og F. Shido 1978. Petrology of the Western Reykjanes Peninsula, Iceland. Journ. Petrol. 19: 669-705.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – hrauntjörn.

Lambatangi

Bólstraberg er ein þeirra bergtegunda er einkenna Reykjanesskagann. Augljósasta, og í rauninni besta kennslubókardæmið um það, er að finna í Lambatanga við suðvestanvert Kleifarvatn.
BólstriBólstraberg er hraun sem myndast við gos djúpt undir vatni þar sem þrýstingur er of mikill til að gufusprengingar verði. Þegar kvika kemur upp á yfirborðið springur hún ekki vegna þrýstingsins en yfirborðið snöggstorknar og þunn svört glerhúð myndast á hrauninu. Kvikan myndar þá nokkurs konar bolta eða „kodda“, nánast kúlulaga, til að lágmarka yfirborð kvikunnar og um leið verður lágmarkskæling í kvikunni. Við kólnun hraunsins myndast stuðlar í bólstrunum og liggja þeir þvert á kólnunarflötinn, frá miðjunni út í yfirborðið. Bólstraberg getur myndast í neðansjávargosi, í gosi í stöðuvatni eða í gosi undir jökli.
Lambatangabólstrarnir hafa greinilega myndast annað hvort gos undir jökli eða í stöðuvatni. En fyrst, svona til að skilja samhengið; hvað er hraun? Samkvæmt fræðilegum skilgreiningum er hraun bráðið berg eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos og storknar þar. Hitastig hraunbráðar getur verið frá 700 – 1200°C.

Bólstri

Bólstri.

Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun.
Bólstraberg getur myndast bæði úr basískri og súrri kviku þegar kvikan rennur í vatni. Við slíkar aðstæður kólnar yfirborð kvikunnar snögglega. Seigjan verður því mest á yfirborðinu og leitast kvikan því við að mynda því sem næst kúlulaga form svo yfirborð verði sem minnst miðað við rúmmál. Yfirleitt ná bólstrarnir ekki að verða kúlulaga en líkjast einna helst vel úttroðnum koddum sem fletjast út vegna eigin þunga og eru því yfirleitt ílangir. Oft sjást tengsl á milli þeirra því líklegt er að kvikan streymi úr einum bólstri í þann næsta. Bólstrarnir eru glerjaðir að utan en innar er fínkornótt blöðrótt berg sem er smástuðlað og vita stuðlarnir hornrétt á yfirborðið, þ.e. kólnunarflötinn.

Bólstri

Þegar basísk hraun renna út í sjó eða stöðuvötn mynda þau oft stóra, fremur óreglulega bólstra. Við mikinn vatnsþrýsting í djúpu vatni eins og gerist við eldgos á hafsbotni eða undir þykkum jökli myndast reglulegir bólstrar. Oft mynda þeir margra metra þykkt bólstrabergslag þar sem bólstrarnir liggja hver um annan þveran og eru þeir oftast fremur smáir. Þannig myndanir eru algengar neðst í stöpum og bólstrabergshryggjum. Má sjá slík bólstrabergslög í Stapafelli á Reykjanesi (reyndar sagði Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, að þar mætti augum líta „einn stærsta bólstra í heimi“), Mosfelli í Mosfellsdal, Lambafelli við Höskuldarvelli og Þorbirni sem er dæmigerður bólstrabergshryggur. Skálaga bólstraberg og bólstrabrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar undir vatnsborði og einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna niður hallann og umlykjast gjóskusalla. Slíkar myndanir eru algengar undir hraunhettum stapa og apalhraunum sem renna út í vatn.

Bólstri

Rýólítbólstrar verða til þegar rýólítkvika kemur upp í gosum undir vatni. Slíkir bólstrar eru oft margir metrar í þvermál eins og t.d. í Bláhnúk við Landmannalaugar.
Tegundir hrauna eru fleiri en ein og fleiri en tvær. Basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Þau koma oftast upp í gígaröðum eða dyngjum. Súr hraun (eða felsísk) eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Þau koma oftast upp í megineldstöðvum.
Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg. Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður Bólstrimestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Stórir kristallar geta einnig myndast í kvikunni meðan hún er neðanjarðar og þá verður hraunið sem upp kemur dílótt. Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við eldgos kallast einu nafni gosberg hvort sem um er að ræða hraun, gjóskuberg eða móberg.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru „Aa-lava“ (apalhraun) og „Pahoehoe“ (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.
BólstriDyngja er breitt, aflíðandi og keilulaga eldfjall sem myndast í langvinnu eldgosi á hringlaga gosopi. Dyngjugos eru svo kölluð flæðigos þar sem hraunið er þunnfljótandi og flæðir langar leiðir. Eldvirkni í dyngjum getur varað mörg ár eða áratugi líkt og dæmi eru um á Reykjanesskaganum (Sandfellshæð, Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja). Á Íslandi setja dyngjur mikinn svip á landslagið. Einna þekktastar utan Reykjanesskagans eru Skjaldbreiður og Trölladyngja, hvor um sig um 600 metrar á hæð frá rótum. Aðrar eru flatari og ógreinilegri í landslaginu, s.s. Háleyjarbunga og Stapinn.
Til fróðleiks má nefna að
stærsta fjall sólkerfisins, Ólympusfjall á Mars, er dyngja.
Hraun eru að meginefni til tvenns konar; a
palhraun er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Dæmi um apalhraun er hraunið sem liggur yfir Suðurnesin.

Bólstri

Helluhraun er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Stærstu helluhraun heims eru á Hawaii en einnig eru helluhraun á Íslandi; svo sem Eldborgarhraun í Brennisteinsfjöllum og hraun úr Vörðufellsborgum. Það síðarnefnda rann sennilega á árunum í kringum eitt þúsund.
Við mikið hraunrennsli getur myndast hraungöng yfir og undir yfirborðinu. Ef slík hraungöng tæmast myndast hellar og traðir sem standa eftir. Dæmi um slíka hella eru Búri og Raufarhólshellir.
Við mjög svo aðgengilega skoðun á bólstrunum á Lambatanga má glögglega sjá með eigin augum og upplifa allt það er sagt er hér að framan.

Heimildir m.a.:
-GK jarðfræðiglósur.
-Wikipedia netorðabókin

Bólstri

Bólstri í Stapafelli.

 

Lambhagi

Eftirfarandi viðtal við Magnús Guðjónsson birtist í Vísi fimmtudaginn 19. júní 1969 undir yfirskriftinni „Bóndinn í STRAUMSVÍK„:

Straumsvík

Myndin fylgdi viðtalinu (tekin 1969). Álverið í baksýn.

„Hin mikilfenglegu mannvirki, sem rísa upp norðan Straumsvíkur, vekja athygli þeirra vegfarenda, sem ekki eru þar daglega á ferð. En sjálfsagt verður það með þau eins og margt annað, að vaninn slævir eftirtektina og hin því nær kílómetralanga verksmiðjubygging hættir að vekja sérstæð viðbrögð augans.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambhaga.

Hraunið, sem nú hefur verið brotið niður, bjó yfir dulrænni fegurð í litbrigðum ljóss og skugga. Á því var aldrei hinn óumbreytanlegi kuldasvipur steinmúranna. Lifandi mosafeldur brosti við skapara sínum eins og önnur jarðarinnar börn.

Árið 1891 bjuggu í Stóra-Lambhaga í Hraunum, Guðjón Gíslason og Kristbjörg Steingrímsdóttir. Þann 21. september það ár fæddist sonur þeirra Magnús. Þá var fjölbýlt í Hraunahverfinu, enda fólkið margt, búskapur nokkur og áraskipaútgerð. Guðjón var útvegsbóndi, hélt út og stjórnaði sjálfur sex rónu skipi, varð honum gott til manna, því hann var ötull sjósóknari og aflasæll.
Þótt oft væri snöggslægt Lambhagatúnið eftir langvarandi þurrka, tókst honum oftast að hafa tvær kýr og rúmlega eitt hundrað sauðfjár. En sum ár varð hann að sækja nokkurn heyskap inn á Álftanes.

Óttarsstaðir

Hraunin – herforingjaráðskort.

Á þessum tíma voru eftirtalin býli og hjáleigukot í Garðahreppi sunnan Hvaleyrar: Stóri-lambhagi, Litli-Lambhagi, Gerði, Þorbjarnarstaðir, Péturskot, Straumur, Þýzkabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Eyðikot, Óttarsstaðir og Lónakot. Það var ysti bær í Garðahreppi hinum forna.
Eins og fyrr er sagt, var mikil sjósókn frá þessum bæjum með an enn þá var öld áraskipanna. Oftast var stutt róið. Aðalmiðin voru Lóndjúpið Brúnin eða vestur á Svið. Til bar það, að farið var út í Garðssjó væri ördeyða á innmiðum, en þangað var að eins farið á velbúnum skipum að forviði, veiðarfærum og mannafla.

Straumur

Straumur 1935.

Venjulega var aflavon þangað til togararnir fóru að skafa botninn með fram ströndinni, þá skipti sköpum. Ýmsir útvegsbændur voru brúnaþungir þegar þeir sáu aðfarirnar. Fullir pokar voru dregnir upp. Koli og lúða var hirt en öðrum fiski var hent og flaut hann dauður um allan sjó. Þetta varð til þess að sumir fóru að sækja í togara. Aðrir voru svo stórir af sjálfum sér að þeir höfðu ekki skap til en sátu í landi með sárt ennið, og bölvuðu ástandinu án þess að fá nokkuð að gert.

Á vertíðinni var oft margt að komumanna, sem reru á útvegi heimabænda. Lending var fremur góð umhverfis Straumsvíkina bæði í Stóra-Lambhaga og þó sérstaklega við Straum eða í Straumsós en inn á hann varð aðeins komist á flóði og þarna er mikill munur flóðs og fjöru.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Á þessari öld, þegar ýmiss konar skoðanakannanir virðast vera mjög ofarlega á dagskrá, er það ekki óalgengt, að þeir sem fræðast vilja taki upp símann, velji númer og spyrji um álit manna, sem þeir aldrei áður hafa átt nein samskipti við.
Vel má vera að með svona hátta lagi þyki sumum sér nóg boðið, jafnvel þótt orðnir séu aldurhnignir og hafi á langri leið ýmsu kynnst og mörgu vanist.
— Hringdu bara, — segir Hrafnkell sölustjóri, og svo hringi ég.

Bifreiðin undir stjórn Magnúsar Guðjónssonar rennur mjúklega suður Hafnarfjarðarveginn. Hann er kunnugur þessari leið gamli maðurinn, því frá árinu 1916, að hann tók bifreiðastjórapróf hjá Agli Vilhjálmssyni, hefur hann oft setið undir stýri og lengst af milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Straumsvík

Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.

Hann vildi gjarnan láta fólkinu í sín um heimabæ góða þjónustu í té og auðvelda því ferð til höfuðstaðarins. Árið 1922 fékk hann Kristján vagnasmið til þess að byggja fyrir sig farþegahús á vörubíl. Það rúmaði 13 manns. Þá varð Steindór Einarsson reiður og sagði að með þessu væri Magnús að stofna til harðvítugrar samkeppni við sína dýru og fullkomnu fólksbíla, en hann hafði þá keypt eina tuttugu slíka. En Magnús lét sig ekki og hélt sínu striki, sagði aðeins: „Stærri bifreiðar til fólksflutninga er það sem koma skal“, og sú varð raunin á. Það sá Steindór síðar.
Og nú byrjar fræðslan.
– Sjáðu, hérna, þar sem við ökum með fram höfninni í Hafnarfirði var áður sjór. Þetta er nýtt land gjört af mönnum. Þar sem vegurinn liggur framan undir hamrinum var áður hyldýpi. Í Ásbúðum bjó Andrés Jónsson. Ásbúðir, það er litli bærinn með fánalitunum þarna undir brekkunni Andrés safnaði fornminjum. Ég starfaði að þessu með honum af og til í fimmtíu ár, ók út um sveitir og sótti muni. Nú er sérstök deild í Þjóðminjasafninu, sem varðveitir þessar minjar, — Ásbúðasafnið. —

Hafnarfjörður

Ásbúð og nágrenni.

— Hér er Óseyrin, þar var áður býli og oftast vel búið. Einu sinni átti þar heima ísak í Fífuhvammi. Einar Þorgilsson útgerðarmaður þurrkaði fisk á grandanum framan við eyrina. Þarna syðst er svo Hvaleyrin. Sú jörð átti landamerki móti Stóra-Lambhaga. Í Óseyrar og Hvaleyrartjörnum var fyrrum mikil rauðsprettuveiði. Já, ég man vel aðra mynd af Hafnarfirði en þá sem nú er sýnileg þeim sem um veginn fara.
Nú erum við komnir móts við hið mikla mannvirki — Álbræðsluna — sem reist hefur verið á landi Stóra-Lambhaga.
— Hér er orðið breytt síðan ég var að smala hraunin og ára skipum var hrundið á flot og ráðið til hlunns í Straumsvíkur og Lambhagavörum.

Straumsvík

Straumsvík – Loftmynd af svæðinu.

Fyrstu sjóferðina fór ég 9 ára gamall. Ekki mun þá hafa verið til mikillar liðveislu ætlast, enda var pilturinn lítt til stórræða, því sjóveikin þjakaði mig mjög og var svo jafnan, enda þótt ekki þýddi að láta slíkt á sig fá. Uppeldissystur minni, Margréti Magnúsdóttur, var öðruvísi farið. Hún var bæði kjarkmikil og sjósterk, enda reri hún sem dugandi karlmaður væri og þótti engu síður hlutgeng. Ekki sjaldan kom það fyrir, að hún fór á sjóinn þegar verra var veður og ég kaus heldur að hirða fé föður míns.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi – túnakort 1919.

Einu minjarnar um hina fornu byggð í Stóra-Lambhaga er vörin, sem lent var í og þetta gamla fjárhús við sjóinn. Í Straumi bjó lengi Guðmundur Símonarson. Hann hafði stórt bú. Þó sérstaklega sonur hans, Guðmundur Tjörfi, hann hafði mikinn fénað. Hjá honum var „Stjáni blái“ oft á veturna áður en vertíð hófst. Stjáni ólst upp hjá séra Þórarni í Görðum, kom þangað 7 ára gamall frá Klöpp í Reykjavík. Séra Þórarinn keypti áraskip handa honum og Óla Garða. Stjáni var mikill sjómaður, ég þekkti hann vel.
Þegar hann fór sína síðustu för var ég á bryggjunni í Hafnarfirði. Stjáni var örlítið ör og þegar ég hafði orð á því að honum lægi ekkert, á út eftir, leit hann til mín þeim augum, sem gáfu greinilega til kynna, að það væri hann en ekki ég, er réði þár ferðinni.

Stóri-Lambhagi

Stóri-Lambhagi – túnakort 1919.

Mun ég sennilega hafa verið einn þeirra síðustu, sem rétti honum höndina til kveðju.
Svo „strengdi Stjáni klóna“, settist við stjórn og tók stefnu fyrir Keilisnes. Hann var þá búsettur í Keflavík. Hið snjalla kvæði, sem Örn Arnarson kvað, mun gefa nokkuð sanna hugmynd um þessa síöustu siglingu og einnig um manninn sjálfan, Meðan Stjáni var formaður fyrir séra Þórarin í Görðum reri hann venjulega úr Garðavör og sótti oftast út á Svið.

— Í Straumi bjó síðar Bjarni Bjarnason, sem lengi var skólastjóri héraðsskólans á Laugarvatni. Hann var þá kennari í Hafnarfirði.

Straumur

Straumur.

Nú eru því nær öll hraunabýlin í eyði fallin. Að vísu hefur verið rekið svínabú í Straumi, en heyrt hef ég á orði haft, að þeim rekstri mundi senn lokið. Á Óttarsstöðum eru heimilisföst roskin hjón. Húsbóndinn stundar smíðar og auk þess hafa þau nokkur hænsni.
Öll þau ár, sem ég var heima í Stóra-Lambhaga, voru í Eyðikoti þrjú systkini – bræðurnir Sveinn og Guðmundur og systirin Steinunn Bergsteinsbörn. Sveinn var sjómaður en Guðmundur var sjálfmenntaður járnsmiður. Hann smíðaði mikið af skónálum og brennimörkum.

Lambhagi

Lambhagi.

Smiðjuhurðin bar glögg merki þeirrar iðju. Eins og ég drap á áðan, þá höfðu bændur hér í hverfinu talsverðan búpening. Enda þótt heyfengur væri venjulega rýr, þá kom þar f móti, að sauðfé var mjög létt á fóðrum. Marga vetur kom það aldrei í hús, nema lömbin fyrsta veturinn. Þegar verri voru veður lá féð í hellisskútum hér og þar í hrauninu. Ef tað safnaðist í þá voru þeir þrifnir og stungið út úr þeim, mátti segja að hér væri um að ræða nokkurs konar fjárhús. Þrátt fyrir það, að hraunið virðist gróðurvana yfir að sjá, þá þreifst féð vel bæði vetur og sumar, en hirðingin var erilsöm, sérstaklega á vorin, því víða eru jarðföll og holur, sem hættuleg eru nýfæddum lömbum og þungfærum ám. Yfir þessu þurfti að hafa vakandi auga.

Lambhagi

Lambhagi – stífla v/fiskeldis.

Það féll oft í minn hlut að sinna þessu starfi meðan ég var drengur heima í Lambhaga, þá kunni ég því vel. Þó hér sé ekki stórbrotið til lands að líta er víðáttan fögur og heillandi, sérstaklega á vorin, og hraunið býr yfir meiri og fjölbreyttari náttúruöflum en ætla mætti þegar menn líta yfir það sem hraðfara vegfarendur. Það er margur fagur reitur falinn í skjóli hraunborganna.

Þeir voru engir smákarlar sumir bændurnir hérna á ströndinni í gamla daga. Guðmundur á Auðnum, Guðmundur í Landakoti, Guðmundur i Flekkuvík og Sæmundur á Vatnsleysu. Þeim Guðmundi á Auðnum og Sæmundi þótti nú sopinn góður og komið gat fyrir að kaupstaðarferðin til Reykjavíkur tæki þá upp undir hálfan mánuð. Þá var komið við á bæjunum, þeginn og Veittur beini, sem orsakað gat næturdvöl. En þetta voru dugnaðarmenn, aflasælir og sjálfum sér nógir.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Og hef svo sem fengist við ýmislegt fleira en aksturinn, enda þótt ég telji hann hafa verið mitt aðalstarf um ævina. Í tíu ár fékkst ég við útgerð og átti um sjö ára skeið elsta skipið í íslenska veiðiflotanum, m.b. Njál, 38 lestir að stærð. Nokkuð kom ég einnig við verslunarsöguna bæði sem sjálfstæður aðili og nú síðustu átta árin verið innheimtumaður hjá firmanu Nathan & Ólsen.
— Jú, ég kvæntist árið 1913. Konan mín hét Herdís Níelsdóttir, ættuð úr Hafnarfirði. Við bjuggum saman í 33 ár, þá lézt hún. Við vorum barnlaus og nú er ég einn míns liðs.
— Okkur liggur ekkert á, ég er minn eigin herra í dag.
— Aka, jú, ég sé vel til að aka þótt ég sé senn 79 ára gamall. Enn þá les ég gleraugnalaust.

Litli-Lambhagi

Litli-Lambhagi.

Ég hef aldrei ekið hratt, ó nei, og komist leiðar minnar þrátt fyrir það.
Sérðu hvernig þeir hafa brotið niður hraunið. Á gömlum fjárgötum fortíðarinnar, hrófum áraskipanna, harðbalatúnum og húsatóftum fornra mannabyggða hafa þeir reist þetta verksmiðjuhús.
— Hvort munu þeir, sem þar ráða ríkjum svara betur kalli sinnar samtíðar en hinir, sem áður lifðu þar lífi íslenskra útvegsbænda?“ – Þ.M.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Vísir – Bóndinn í Straumsvík; Magnús Guðjónsson, fimmtudagur 19. júní 1969, bls. 9-10.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Steðji

Ísaldarminjar eru ummerki um ýmiss konar jarðfræðileg fyrirbæri sem mynduðust fyrir meira en 10.000 árum þegar jöklar huldu landið að hluta eða öllu leyti. Hérlendis eru ísaldarminjar ýmiskonar jarðgrunnsmyndanir rofummerki á berggrunni og ummerki um eldvirkni undir jökli. Elstu ísaldarminjar hér á landi eru 4–5 milljóna ára gamlar og er þar um að ræða jökulbergslög sem finnast á milli hraunlaga í jarðlagasniðum.

Grettistak

Grettistak á Reykjanesskaga.

Síðasta ísöld hófst fyrir um 2,6 milljónum ára og henni lauk fyrir um 10.000 árum. Ekki var þó um einn fimbulvetur að ræða heldur skiptust á jökulskeið (kuldaskeið) og hlýskeið. Í setlögum og bergmyndunum í jarðlagastöflum, til dæmis austur í Jökuldal, Borgarfirði og Tjörneslögunum norðan Húsavíkur, eru varðveitt ummerki um 14–16 jökulskeið.

Jökulruðningur

Jökulruðningur og -rákir í Fossvogi.

Þær ísaldarminjar sem eru mest áberandi hérlendis eru frá síðasta jökulskeiði sem hófst fyrir um 100.000 árum og eru þær flestar og mestar frá ísaldarlokum, fyrir um 10.000–15.000 árum, þegar umhverfi og veðurfar færðist smám saman í það horf sem það er í dag.

Helstu ísaldarminjar landsins eru eftirfarandi:
• Jökulruðningur og landform sem jökullinn hefur myndað úr honum, til að mynda jökulgarðar og aflangar jökulöldur og jökulkembur sem vitna um tilvist, stefnu og meginþunga ísstrauma ísaldarjökulsins.

Móberg

Móbergsmyndanir.

• Grettistök eru sérstaklega áberandi á ákveðnum hálendissvæðum. Þau bera vott um lítið lausefni undir jöklinum á þessum svæðum en um leið mikilvirkt plokk jökulsins úr berggrunninum undir jökulhvelinu.

• Jökulrákir, hvalbök og grópir eru dæmi um rofform á berggrunni sem vitna einnig til um stefnu ísflæðis og rofmátt ísaldarjökulsins.
Á stöku stað, til dæmis á Melrakkasléttu, finnast jökulrákir með tveimur til þremur mismunandi stefnum.

Jökurispur

Jökulrispur í Heiðmörk.

Slíkt er talið merki þess að ísaskil hafi flust og skriðstefna jökuls þar með breyst vegna breytinga á stærð og útbreiðslu ísaldarjökulsins.
• Stærri form og landslagseinkenni í berggrunni landsins, eins og flestir dalir og firðir, eru grafnir og mótaðir af jöklum á mörgum jökulskeiðum, með aðstoð vatns, frostveðrunar og hrunvirkni.
• Móbergsmyndanir, til dæmis hryggir og stapar, myndast við gos undir jökli og eru áberandi við gosbelti landsins. Þær geta gefið upplýsingar um útbreiðslu og þykkt jökulsins við myndun þeirra.

Borgarholt

Borgarholt í Kópavogi.

Frostveðrun var mjög virk í fimbulkulda jökulskeiðanna en talið er að ákveðin svæði hafi verið íslaus í lengri tíma, til dæmis hærri fjöll og annes. Af þeim sökum er berggrunnurinn á slíkum svæðum oft mjög sprunginn og molinn, hriplekur og jafnvel óstöðugur í brattlendi.

Sveifluháls

Móbergsháls (Sveifluháls) á Reykjanesskaga – Kleifarvatn.

Vífilsstaðasel

Hér verður lýst fjórum leiðum í Gjáarrétt, sem er neðst í Búrfellsgjá. Leiðirnar eru: Selsleið, Hlíðarleið, Hjallaleið og Kolhólaleið. Upplýsingarnar eru úr bókinni Áfangar, ferðabók hestamannsins (1986).

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Jónshellnastígur.

Hafa ber í huga að framangreindar götur hafa og verið nefndar öðrum nöfnum, bæði að hluta og í heild. Áður en farið er í tilvitnaða frásögn má hér sjá aðrar lýsingar, sem skýrast síðar.
„Austan [Reykjanes]brautarinnar var stígnum fylgt til suðurs upp með Svínahrauni, en síðan vikið af honum og Jónshellnastíg fylgt að Jónshellum. Gróið er yfir hann að mestu, en þó má á stöku stað sjá móta fyrir henni og fallegar hleðslur á köflum. Skammt ofan við hellana liggja Moldargötur. Haldið var upp með vestanverðum hraunkantinum að Urriðakotshrauni, framhjá Maríuhellum og Dyngjuhól (var svo nefndur af Urriðakotsbúum, en Hádegishóll af Vífilsstaðafólki – eyktamark þaðan) með Dyngjuhólsvörðum og götunni fylgt langleiðina upp að Stekkjartúnsrétt (efri), en áður en komið var alveg að henni beygir gatan inn í hraunið, við Hraunholtsflöt. Þar tekur Grásteinsstígur við og liggur síðan til austurs með norðanverðum hraunkantinum, framhjá heillega hlöðnu fjárhúsi (Gráhellufjárhúsi) við Gráhellu, áfram inn á Flatir.

Jónshellar

Jónshellar.

Úr þeim liggur gatan upp á hraunhrygg, framhjá fjárskjóli utan í hraunklettum og áfram framhjá Sauðahellunum nyrðri undir Kolanefi. Þaðan liggur gata upp (suður) með Vífilsstaðahlíðinni og niður í Selgjá að norðanverðu. Grásteinsstígur nær að Kolanefninu. Ekki vannst að þessu sinni tími til að skoða fjárborgina norðan götunnar sem og fjárhústóftirnar við hana. Selgjá og minjarnar í henni eru hins vegar sérstakur kapítuli og verður hvorutveggja lýst í annarri FERLIRslýsingu.“
Í enn annarri lýsingu segir um þessar götur við Gjáarrétt: „Í Búrfellsgjá, við mannvirkin, má sjá a.m.k. þrjár fornar götur. Ein liggur upp úr gjánni að norðanverðu gegnt réttinni, önnur upp úr gjánni sunnanverðri skammt austan við Gerðið og sú þriðja til vesturs við mörk Selgjár. Sú síðastnefnda mun hafa heitið Gjáarréttargata (Gjáarrréttarstígur) og lá áleiðis niður að Urriðakoti annars vegar og Vífilsstöðum hins vegar. Hinar göturnar hafa verið leiðir annars vegar heim að Vatnsenda og Elliðavatni og hins vegar niður að Setbergi og í Hafnarfjörð. Fjórða gatan hefur legið upp Búrfellsgjá og síðan upp úr henni yfir á Selvogsgötu ofan Helgadalsmisgengisins því þær útréttir, sem Selvogsbændur urðu að fara í voru, auk Eldborgarréttar Grindvíkinga, Lögbergsréttar við Reykjavík og Ölfusréttar, Gjáarréttin í Búrfellsgjá…“

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Selsleiðinni er lýst á eftirfarandi hátt (úrdráttur): „Við hefjum ferð okkar í hesthúsahverfi Gusts í landi Smárahvamms í Kópavogi. Leið okkar liggur um Hnoðraholt. Holtið dregur nafn af Hnoðranum, en það er talsvert áberandi fuglaþúfa á holtinu norðvestanverðu þar sem það er einna hæst. Hnoðrann ber við loft og sést vel, þegar horft er til austurs úr hesthúsahverfinu sunnanverðu. Alveg við Hnoðrann eru fallegar, jökulnúnar grágrýtisklappir.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Þegar gatan er riðin upp úr hverfinu, verður fyrst fyrir á hægri hönd landspilda í brekku. Þar fyrir sunnan er Vífilsstaðaland. Landamerkjalínan milli Fífuhvamms (Smárahvamms) og Vífilsstaða var dregin frá Hnoðranum í svonefnt Norðlingavað í Arnarneslæk. Ofan við húsaþyrpinguna og sunnanvert í holtinu er steinsteypt vélbyssuvígi frá árum síðari heimstyrjaldar.

Finnsstaðir

Finnsstaðir /Finnsstekkur.

Reiðgatan (Selsleið) sveigir nú til austurs eftir holtinu. Á hægri hönd fyrir neðan okkur eru mikil tún frá Vífilsstöðum. Þetta er svokölluð Vetrarmýri. Áður en berklahælið (hvítmálaður spítalinn blasir við augum) var reist á Vífilsstöðum var þar í raun og veru aðeins kotbýli. Hornsteinninn að Vífilsstaðahæli var lagður 31. maí 1909 og fyrsti sjúklingurinn flutti þangað inn 5. september 1910. Bygging hælisins gekk með ólíkindum vel, þótt unnið væri að þeirrar tíðar hætti. Möl og annað byggingarefni var til dæmis flutt á hestvögnum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – loftmynd 1954.

Vetrarmýri var ótrúlega blaut. Þar var ekki fært með hesta og illa fært gangandi manni. Ef til vill tekur mýrin nafn sitt af því að hún nýttist skepnum fyrst þegar fraus á vetrum. Arnarneslækur á upptök sín í mýrinni vestast.  Upp úr 1920 var byrjað að handgrafa skurði í mýrinni og þurrka hana. Árið 1922 var landið svo tætt og sléttað með svokölluðum þúfnabana. Voru Vífilsstaðir einn af fyrstu stöðunum þar sem þessi forveri nútíma dráttarvéla var notaður. 

 

Ræktunarframkvæmdir heima við Vífilsstaðahælið hófust fyrr, strax árið 1916 þegar ríkissjóður tók við rekstri hælisins úr höndum áhugamannafélags þess, er hælið reisti.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Þegar mest var voru um eitt hundrað gripir í fjósi á Vífilsstöðum og heyfengur mikið á fjórða þúsund hestburði.
Þar sem reiðgatan milli Vetrarmýrar og Leirdals er lægst heitir Leirdalsop. Framundan er Smalaholt og Vífilsstaðavatn. Þar rétt við bílveginn, neðan undir Smalaholtinu, eru rústir af gömlu býli eða peningshúsum, nema hvort tveggja sé. Á korti heita þetta Finnsstaðir, en engar heimildir þekkjum við um að hér hafi byggð verið. Í Jarðabókinni frá 1703 er Finnsstaða ekki getið. Hugsanlega er að þarna hafi verið stekkur frá Vífilsstöðum.
Þá er komið upp á Vífilsstaðaháls. Þaðan er fagurt að horfa yfir Vífilsstaðavatn. Við það fá Garðbæingar neysluvatn sitt úr borholu. Nefna sumir það Vatnsbotna, en aðrir Dýjakróka.

Selgjá

Selgjá – stekkur.

Við ríðum með Kjóavöllum vestanverðum og stefnum þaðan til suðausturs. Þarna í brekkunni, utan í Sandahlíð og suðvestan Kjóavalla,  verður fyrir okkur steinsteypt mannvirki, greinilega nokkuð gamalt. Þótt mannvirki þetta sé ekki ýkja stórt sjáum við strax að ekki hefur verið spöruð í það steypan. Þegar betur er að gáð má sjá innan við þykka veggim sem skýla innganginum, ofn úr járni, rammbyggilegan eins og aðra hluta þessa mannvirkis. Raunar er þetta mannvirki leifar frá stríðsárunum síðari. Var þetta „prengjuofn“ þar sem var eytt gömlum skotfærum og sprengjum, sem Bandaríkjamenn þurftu að losa sig við.
Þá er haldið upp Básaskarð. Innar er hæðardrag. Á því eru fjárhúsarústir og eru þær frá Vatnsenda. Rústirnar vera þess merki að húsin hafi verið

Vatnsendi

Vatnsendi – fjárhús.

nokkuð stór og myndarleg. Húsunum hefur verið valinn staður nærri mörkum Vífilsstaðalands, en þó tæplega svo að bryti í bága við ákvæði Jónsbókar og yrði fellt undir ágang.
Framundan er allhá hæð með vörðu efst. Hún heitir Arnarbæli. Um hana liggur landamerkjalína Vatnsenda og Vífilsstaða. Grunnavans syðra er neðar. Á Hjallabrún stendur Vatnsendaborg. Sést hún vel af Vatnsásnum, listilega hlaðin. Mjög stórt grjót er í hleðslunni neðst, en borgin er nú því miður að hluta fallin. Dyrnar á borginni vita í norðvestur. Borgin er hringlaga og sem næst sex metrar í þvermál að innan. Meira verður rætt um fjárborg þess í lýsingunni um Hjallaleið.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Línuvegur liggur þarna skammt frá. Austan við háspennumastur nr. 29 er grösugur hvammur. Suðaustanhallt í hvamminum og undir ás, sem nefnist Selás, eru rústir af seli frá Vífilsstöðum, sem að öllum líkindum hefur verið meiri háttar og sennilega lengi notað. Þetta virðist hafa verið venjulegt sel með þremur vistarverum, líklega svefnhúsi, eldhúsi og mjólkurhúsi. Sunnanvert við aðalrústina eru tvær aðrar rústir, ef til vill kvíar og stöðull. Selið hefur verið tiltölulega stórt. Aðalrústin er einir fimmtíu fermetrar að utanmáli. Víðistaðasels er ekki getið í Jarðabók 1703, þótt undarlegt megi virðast.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Að þessu seli eins og öðrum hefur legið gata, selgata. Okkur sýnist að með góðum vilja megi fylgja selgötunni í austanverðri Vífilsstaðahlíð, ofan Grunnavatns nyrðra og niður Grunnavatnsskarð vestanvert.
Til suðurs sést grunn  en breið gjá í hrauninu fyrir neðan. Þetta er Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru margar vallgrónar seljarústir, sem flestar eru fremur smáar í sniðum og minni en Vífilsstaðasel. Rústirnar standa flestar þétt við barna gjárinnar beggja vegna, en aðrar eru dálítið fjær. Selstaða þessi er nefnd í Jarðabók 1703 og virðast samkvæmt henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli.

Selgjá

Selgjá.

Athyglisvert er að ávallt er rætt um selstöðu þarna í þátíð og jafnvel þannig að hún virðist að því komin að falla í gleymsku.

Við norðurenda Selgjár er reisuleg varða. Við skulum leggja hana á minnið, því að þar hjá eru gömul og að okkar mati mjög merkileg fjárbyrgi, sem við eigum eftir að huga að síðar, sjá lýsingu á Hlíðarleið.
Framundan er Búrfellsgjá og Gjáarrétt. Við höldum í gerðið og hvílum þar, sjá Kolhólsleið.“

Heimild:
-Áfangar – ferðahandbók hestamannsins, 1986 – Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Kaldársel

Garðakirkja átti selför í Kaldársel, en þótti langt. Þórunn Sigurðardóttir, húsfreyja á Hvaleyri, hafði síðast í seli þar árið 1871. Jón Jónsson bjó þarna með konu sinni 1868-1870 og 1873 fluttist Þorsteinn Þorsteinsson þangað með ráðskonu og bjó þar síðastur manna til 1887.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsta húsi K.F.U.M. Selið sést að baki hússins.

Á síðustu öld reisti K.F.U.M. skála þarna fyrir drengi á sumrin.

Í Lesbók Morgunblaðsins 1993 er ljóð eftir Úlf Ragnarsson, lækni, sem ber heitið „Haust í Kaldárseli“.

Haustið er komið í Kaldársel.
Það kólnar í gagnsærri stillu
og litirnir brenna á laufi svo vel
að líklega spáir það illu.

Hún kaldá úr Botnunum læðist á laun
og ljóðar af gömlum vana
en týnist svo ofaní helluhraun.
Hvað verður svo um hana?

Kaldársel

Kaldársel um 1930.

Það greinir víst enginn þann undirstraum
sem endar í blikandi sænum.
Hjá Fjallinu eina minn innstra draum
anda ég heyri í blænum.

Og blítt lætur eilífðin alla tíð
uppi á Helgafelli.
En letileg teygir sig Langahlíð
lúin og grá af elli.

Kaldársel

Kaldársel um 1930.

Hún var þó áður svo árdegisblá
sem æskunnar falslausa gaman.
Blóðrauð á vörunum Búrfellsgjá
brosir að öllu saman.

Og víst var þó gangan helsár og hörð
umhraunin á sultarvorum.
Göturnar fornu á Grindarskörð
greina frá þungum sporum.

En himinsins bláskál hvelfir sig
yfir Húsfellsins bunguþaki.
– Hjá Valahnjúkunum var þig
á vængjanna hraða blaki!

Þörf er hafa hraðann á
– hérna er margt að ugga.
Burknarnir fögru í Gullkistugjá
glitra í dauðans skugga.

ÁletrunÍ Ferðabók Þorvaldar Thoroddsens er m.a. getið um komu hans í Kaldársel. „Við Kaldársel lágum við nokkra daga. Það þar er bæði gras og vatn fyrir hesta, en hvort tveggja er annars torfengið í þessum héruðum. Kaldá kemur undan móbergshálsum rétt fyrir neðan Helgafell. Eru þar lón eða augu, og kemur vatnið fram víða í bökkum. Og á botni sést sums staðar, að smásandur dansar upp og niður af vatninu, er streymir upp um holurnar. Áin rennur svo spölkorn eftir hrauninu niður hjá Kaldárseli og hverfur dálitlu neðar undir hraunið, sogast þar niður í sprungur og katla. Neðar er sagt, að rennandi vatn sjáist sums staðar í hraunsprungum.
KaldárselMargar munnmælasögur eru um Kaldá. Segja sumir, að hún renni undir hraunum út allt nes, komi svo upp í sjónum fyrir utan vita og af straumi hennar verði svo Reykjanesröst, en þetta er fjarri öllu sanni. Víða kemur dálítið vatn í sjóinn undan hraunum, en vatnsmagnið í Kaldá er svo lítið, að hún getur eigi komið neinum verulegum straumi til leiðar. Sumir segja máli sínu til sönnunar, að taka megi ferskt vatn ofan á sjónum í Reykjanesröst, en nákunnugir menn hafa sagt mér, að það sé ekki satt. Munnmælin segja líka, að Kaldá hafi fyrr runnið ofanjarðar eftir hinum löngu hraunsprungum, er ganga út Reykjanes, en fyrir því er enginn fótur. Kaldá rennur líklega til sjóar í Hraunum fyrir sunnan Hafnarfjörð. Þar koma margar uppsprettur undan hraunum í fjörunni.

Kaldársel

Í Kaldárseli 1934.

Kaldá hefir nafn sitt af því, að vatnið í henni er eins og annað uppsprettu- eða lindarvatn, aðþað hefir alltaf hér um bil sama hita árið um kring, og finnst þvói vera mjög kalt á sumrum, þegar lofthitinn er miklu meiri. Hiti Kaldár var 21. júlí 5°C, en lofthitinn samtímis 10 1/2°. Við Kaldá var áður sel frá Hvaleyri, sem kallað var Kaldársel, og þar eru víða á hraununum í kring rústir af mörgum fjárbyrgjum. Sumarið 1883 bjó þar gamall, sérvitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson (d. 14. júlí 1887), sem áður hafði verið í Lækjarbotnum. Hann þekkti allvel fjöll og örnefni á þessum slóðum og fylgdi mér um nágrennið.“ Þá er getið um ferðir Þorvaldar og félaga út frá Kaldárseli um Undirhlíðar, Grindarskörð og Bláfjöll.

Í Minningarbók um Þorvald Thoroddsen frá 1923 er auk þessa getið nánar um nefndan Þorstein. „Við lágum um tíma í tjaldi hjá Kaldárseli og fórum þaðan um nálæg fjöll, þar bjó þá skrítinn og sjervitur einsetukarl, Þorsteinn Þorsteinsson; hann kom oft á morgnana í tjaldið til þess að biðja um staup, og eitt sinn gaf annar fylgdarmaður minn honum fullan bolla af lampaspiritus, karlinn tæmdi bollann í botn og sagði: „Þetta var hressandi, það er þó eitthvað annað en bannsett Hafnarfjarðarbrennivínið.“

Kaldársel

Kaldársel – tilgáta ÓSÁ.

Í bókinni „Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár“ fjallar Daniel Bruun um ferðir hans um Ísland. Þar segir hann m.a. um Kaldársel: „Enda þótt byggingarefni íslenskra bæja væri oftast torf og grjót, eða torf eingöngu, þar sem stafnar voru þó oftast úr timbri, þá notuðu menn að sjálfsögðu betra efni, ef það var fáanlegt.

Kaldársel

Teikning Daniels Bruun af inngangi baðstofunnar í Kaldárseli 1882.

Sunnan við Hafnarfjörð eru víðáttumikil hraun, þar er víða að finna þunnar hraunhellur, sem þekja holrúm, loftbólur undir yfirborði hraunsins. Létt er að brjóta þessar hellur, og víða hafa þær brotnað og fallið niður í hraungjótur. Slíkar hraunhellur hafa með góðum árangri verið nýttar til húsagerðar á bæ einum, sem nú er að vísu í eyði, en var í byggð ekki alls fyrir löngu.
Býlið heitir Kaldársel og er góð sauðjörð. Nafnið sel bendir til, að þar hafi verið selstaða fyrir löngu. Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir, einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hesthús en ekkert fjós.“
KaldárselMeðfylgjandi er svo uppdráttur ef selstöðunni, þ.e. helluhlöðnu húsunum í Kaldárseli. Þau voru rifin þegar hús K.F.U.M. voru reist þar á fyrri hluta 20. aldar. Ef einhver, þótt ekki væri nema einn, hefði þá barist fyrir því að fá aðra til að láta tóttirnar ósnertar, ættu Hafnfirðingar nú einstakar minjar um sérstaka mannvirkjagerð frá fyrri tímum. En því miður – enginn hafði þá hugsun þá, líkt og nú.
Hér verður ekki fjallað um fornaldarbæ þann, sem Bynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, taldi vera Í Helgadal. Sumir vilja tengja þær tóftir við Hinn heilaga „Gral“, sem jafnan hefur skotið upp í umfjöllun kristinna. Telja þeir hinir sömu að örnefni Helgadalur og Helgafell séu þaðan frá komin.
Í göngu um Kaldársel voru framangreindur fróðleikur hafður til hliðsjónar. Hann er þó langt í frá að vera endanlegur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Minningabók Þorvalds Thoroddsen, 2. bindi, bls. 94, Safn fræðafélagsins II, Kaupmannahöfn 1923.
-Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók 1913-1915, I. bindi, Reykjavík 1958, bls. 154-159.
-Daniel Bruun, Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, Steindór Steindórsson þýddi, 1987, bls. 325-326.
-Lesbók Mbl., 36. tölubl., 16. okt. 1993, bls. 10 – „Haust við Kaldársel“ eftir Úlf Ragnarsson, lækni.
-Sunnudagsblað Þjóðviljans 1965, viðtal við Gísla Sigurðsson um örnefnasöfnun.

Kaldársel

Kaldársel – minjar; ÓSÁ.

Hraunin

„Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík suður að Lónakoti.

Straumur

Straumur.

Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Þarna er unaðsreitur fegurðar, samt minna þekktur en vert væri. Hér verður í þremur greinum rifjað upp ýmislegt um sögu byggðarinnar, búskap, náttúrugæði og landmótun í Hraunum.

Komin er sólin Keili á og kotið Lóna,
Hraunamennirnir gapa og góna,
Garðhverfinga sjá þeir róna.

Þessi gamli húsgangur um nágrannana í Garðahverfi og Hraunum segir sína sögu um kappsfulla sjósóknara sem réru á bátskeljunum sínum frá vörum í Hraunum og frá Dysjum í Garðahverfi.

Straumur

Hróf ofan Straumsvarar.

Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið, en ekki hefur alltaf verið heiglum hent að lenda í Óttarsstaðavör þegar norðanáttin rekur ölduna beint á hraunbrúnirnar sem skaga út í fjöruna. Það hefur á hinn bóginn ekki verið talið gott til afspurnar að híma í vomum þegar sólin var komin „Keili á og kotið Lóna“ og Garðhverfingar byrjaðir að lemja sjóinn. Fyrir utan Óttarsstaðavör ýttu menn á flot úr Eyðikotsvör og nokkrum vörum við Straumsvíkina: Péturskotsvör, Jónsbúðarvör, tvær varir voru við Þýzkubúð og ein vör var kennd við Straum.

Meðalbú 18-20 kindur og 1-3 kýr

Brennisel

Brennisel – kolasel frá Óttarsstöðum.

Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.
Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur.

Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign.

Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.

Þýskabúð

Útihús við Þýskubúð.

Byggðin í Hraunum náði frá Straumsvík og vestur með ströndinni. Lónakot er vestast og nokkuð afskekkt; þangað eru 2-3 km frá megin byggðarkjarnanum, en Hvassahraun er á Vatnsleysuströnd og var ekki talið með Hraunabæjunum. Þorbjarnarstaðir, snertuspöl sunnan Keflavíkurvegarins, Lónakot, Óttarsstaðabæirnir, Straumur og Stóri-Lambhagi voru landstórar jarðir, en jafnframt var allt þeirra land í hraunum. Fyrir utan þessar stærstu jarðir í Hraunum voru nokkur smábýli, hjáleigur og þurrabúðir. Þar á meðal voru Gerði, Litli-Lambhagi og Péturskot við Straumsvíkina, en Þýzkubúð lítið eitt út með víkinni og Jónsbúð enn utar, Eyðikot, sem var hjáleiga frá Óttarsstöðum eystri, Kolbeinskot og Óttarsstaðagerði.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri (vestari) og neðri (austari).

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Bílfær vegur liggur frá Straumi, þar sem nú er Listamiðstöð Hafnarfjarðar, vestur að Eyðikoti, en merktur göngustígur er þaðan framhjá Óttarsstaðabæjunum og síðan með ströndinni að Lónakoti. Frá Lónakoti er síðan hægt að ganga ruddan slóða, um 2 km leið, austur á Keflavíkurveg.

Frábært útivistar- og göngusvæði

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri.

Sem útivistar- og göngusvæði búa Hraunin yfir sérstökum töfrum. Stæðilegir og vel hlaðnir grjótgarðar standa sumstaðar ennþá, aðrir hafa hrunið. Í klofnum hraunhóli vestan við Óttarsstaðavör hefur hraunsprunga nýtzt sem veggir fyrir einhverskonar hús og aðeins þurft að hlaða fyrir endana og refta yfir. Þarna gæti hafa verið sjóbúð, þó er það ekki víst.
Það er alltaf tilbreytingarríkt að skoða grýtta ströndina í nánd við Óttarsstaðavör, allt frá Vatnsskersklöpp og Kisukletti að Snoppu og út eftir Langabakka að Arnarkletti og Hrúðrinum, þar sem „brimið þvær hin skreipu sker“.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Á öðrum stöðum eru minjar um þurrabúðir, fiskreiti, gerði og uppsátur þar sem kjalförin sjást enn á grjótinu.

Sunnar í hrauninu sjást aftur á móti minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborg og réttir. Skammt sunnan Keflavíkurvegarins stendur Þorbjarnarstaðarétt, lítt hrunin, önnur rétt er við Lónakot og sú þriðja við Straum.

Í Almenningi, sem svo eru nefndur suður í hrauni, eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt.

Þurrabúðarmenn og inntökuskip

Óttarsstaðir

Óttarsstaðarétt.

En til hvers er verið að gaumgæfa þetta og velta fyrir sér minjum um harða lífsbaráttu á þessari strönd við yzta haf? Hvern varðar um þurrabúðarmenn? Er ekki nóg að njóta þess sem náttúran býður; sjá hvað hraunhólarnir geta verið myndrænir og ströndin falleg þar sem lábarið grjót tekur við af hraunklöppunum og skipskrokkur sem stóð uppi í fjörunni fyrir aldarfjórðungi er orðinn að einskonar beinagrind úr risaeðlu, umvafinn grasi? Það sem eftir er af stefni skipsins stendur hinsvegar upp á endann í fjörunni og gefur engum nútíma skúlptúr eftir.
Vissulega er hægt að njóta náttúrunnar þó að maður viti ekkert um hana og þó að maður þekki ekkert til sögunnar og þess mannlífs sem einhverntíma áður var á staðnum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

En það gerir þessa náttúruupplifun dýpri og minnisstæðari að vita að þarna bjó fólk með gleði sína og sorgir fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.

Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri – baðstofuglugginn.

Í Hraunum var ekki venjuleg, íslenzk sveit eða dreifbýli með talsvert langar bæjarleiðir, heldur einskonar þéttbýli með bæjum, smákotum og þurrabúðum, sem voru nefndar svo. Það voru landlaus eða landlítil býli við sjávarsíðuna, sem höfðu ekki grasnytjar. Þurrabúðarmenn stunduðu tilfallandi vinnu; réðu sig í kaupavinnu á sumrin og voru á sjó á vertíðum. Á nokkrum Hraunabæjum var svokallað heimaræði, það er útræði frá þeim jörðum sem áttu land að sjó. Bændur sem bjuggu fjær sjó fengu hinsvegar stundum leyfi sjávarbænda til þess að nýta lendingaraðstöðu og hafa þar mannskap á vertíðum. Það var kallað að hafa inntökuskip á jörðinni.

Landmótun í Hraunum

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.
Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi.

Hraunin

Hraunin – jarðfræðikort ÍSOR.

Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Hrútagjárdyngja er örnefni sem gamlir Hraunamenn hefðu ekki kannast við, enda er það síðari tíma nafngift frá hendi jarðfræðinga. Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.

Straumur

Straumur.

Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Hin áreiðanlega vekjaraklukka gosvirkninnar vakti gosstöðvar að nýju fyrir um 2000 árum. Þá varð enn mikil goshrina og frá einni eldstöðinni, Stórabolla í Grindaskörðum, rann mikið hraun í átt til Straumsvíkur og myndaði nýja strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrar. Dálítil óregla í þessari þúsund ára reglusemi kom upp fyrir 1800 árum þegar gaus nyrst í Krýsuvíkurrein, þar sem heita Óbrinnishólar við Bláfjallaveg. Hraunið, sem nefnt hefur verið Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi niður undir Straumsvík. Þetta gos hafði þó ekki áhrif á land í Hraunum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Hin reglubundna dagskrá fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði. Þó líklegt sé og raunar fullvíst að sagan endurtaki sig létu menn þetta ekki á sig fá þegar álverinu var valinn staður einmitt þar sem Kapelluhraun rann, enda líklegast að margoft væri búið að afskrifa álverið, miðað við venjulega endingu, áður en hraun rennur þar að nýju..

Leiðin suður með sjó og leiðir suður yfir skagann

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin millum Hafnarfjarðar og Voga.

Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim. Frá Lónakoti lá stígur suður í Lónakotssel og frá Óttarsstöðum lá Rauðamelsstígur, einnig nefndur Skógargata, suður í Óttarsstaðasel, en þaðan yfir Mosa og Eldborgarhraun um Höskuldarvelli að Trölladyngju. Eftir þessum götuslóðum var annarsvegar hægt að ganga til Krýsuvíkur og hinsvegar til Grindavíkur.

Förnugötur

Straumsselsstígur/Fornugötur.

Frá Straumsvík lá Straumselsstígur nokkurnveginn samhliða suður á bóginn, við túnfót Þorbjarnarstaða, og um Selhraun að Straumseli suður í Almenningi. Stígurinn lá síðan áfram til suðurs og og heitir Ketilstígur þar sem hann liggur yfir Sveifluhálsinn; þetta var gönguleið til Krýsuvíkur.

Sunnarlega í Almenningi voru gatnamót þar sem Hrauntungustígur liggur yfir stígana þrjá og stefnir á Hafnarfjörð. Enn sunnar er komið á Stórhöfðastíg; hann stefnir einnig til Hafnarfjarðar og sameinast Hrauntungustíg vestur undir Ásfjalli. Þetta samgöngukerfi fortíðarinnar er flestum týnt, grafið og gleymt, en Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar hefur dustað af því rykið, ef svo mætti segja, og merkt stígana í Hraununum með skiltum.

Hvað verður um Hraunin?

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestri og eystri.

Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Óttarsstaðir

Útihús við Óttarsstaði.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður. Án efa eru Hraunin mikils virði, þó ekki væri vegna annars en þess að þau eru rétt við þröskuldinn á höfuðborgarsvæðinu. Mörgum þætti ugglaust freistandi að byggja þar og má minna á, að í tímaritinu Arkitektúr verktækni og skipulag frá 1999, viðrar Gestur Ólafsson arkitekt hugmynd um samfellda borgarbyggð frá Keflavík til Hafnarfjarðar. Með öðrum orðum: Höfuðborgarsvæðið verði í framtíðinni byggt á þann veginn í stað þess að teygja það upp á Kjalarnes.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Í næstu framtíð má telja víst að Hraunin verði útivistarsvæði. Eins og sakir standa eru þó annmarkar á því. Enda þótt merktur göngustígur liggi frá Eyðikoti til Lónakots er yfir girðingar að fara og einkalönd. Stundum eru hross þar í girðingum og þá er áríðandi að hliðum sé lokað, en ekki er víst að allir hirði um það. Æskilegast væri að friðlýsa Hraunin, sem yrðu þá útivistarsvæði í umsjá Hafnfirðinga. Til þess að svo geti orðið þyrfti að kaupa það sem eftir er í einkaeign og sumarbústaðir og girðingar ættu þá ekki að vera þar framar.“ -Magnús Jónsson, fv. minjavörðu, Hafnarfirði.

Framangreind umfjöllun Magnúsar minjavarðar birtist áður á annarri vefsíðu, sem nú er, líkt og svo margar sambærilegar vefsíður, horfin á vit algleymisins. Þessu má öfugt líkja annars vegar við gamlar ljósmyndir á pappír og hins vegar þær, sem síðar urðu til með tilkomu hinnar stafrænu tækni. Hinar síðarnefndu munu einnig með tímanum hverfa út í „cosmósið“…

Hraunkarl

Hraunkona í Hraunum.

Þorbjarnarstaðir

Gengið var um Þorbjarnarstaði í Hraunum. Veður var frábært – sól og logn. Tjörnin milli Þorbjarnarstaða og Gerðis, Brunntjörn, var spegilslétt. Norðvestar er Fagurgerði umgirt.

Þegar komið er að Þorbjarnarstöðum frá gamla Keflavíkurveginum er fyrst komið að Þorbjarnarstaðaréttinni (Hraunaréttinni), sem mun hafa verið allfjörug á meðan var. Réttin stendur vel heilleg austan undan Sölvhól.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Þorbjarnarstaðastekkur/Himnaríki.

Byrjað var á því að ganga austan með hleðslugarði bæjarins, en heimatúnið er girt hringinn með slíkum garði – reyndar tvöföldum. Sunnan undir hraunhól skammt sunnar er tótt og gerði framan og til hliðar við hana. Skammt sunnan þess er önnur heilleg tótt og hlaðinn garður sunnan hennar. Þar virðist hafa veriðum matjurtargarð að ræða. Vestan garðsins er gamalt gerði og tótt sunnan í því. Framundan er Tjörnin. Í henni gæti sjávarfalla, en tjörnin er ekki síst merkileg vegna þess að ferkst vatn kemur í hana undan hrauninu þegar fjarar út. Suðvestast í henni eru mannvirki – hlaðinn bryggja út í tjörnina. Ef vel er að gáð má einnig sjá hlaðna brú út í hólma, sem þarna er og aðra hlaðna bryggju frá honum út í tjörnina. Í hólmanum mótar fyrir tótt. Þarna var m.a. ullin þveginn sem og annar fatnaður á árum fyrrum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir.

Stígur (þvottastígur) liggur frá aðstöðunni við tjörnina upp á heimtröðina. Þegar honum er fylgt sést skeifulaga lægð á vinstri hönd. Í henni er skúti. Á hægri hönd er hringlaga lægð. Í henni er einnig skúti. Tótt er vestan við lægðina. Efsti hluti heimtraðarinnar er hlaðinn beggja vegna. Þegar komið er að bæjarhúsunum má sjá tveggja rýma hús á vinstri hönd og fjölrýma hús á þá hægri.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta voru bæjarhúsin á Þorbjarnarstöðum. Stutt er síðan þakið féll af syðri húsunum. Greinilegt er að tréþiljað hefur verið að framan á nyrðri húsunum og er fallegur gangur þar framan við. Vestan og sunnan við bæinn er hlaðinn garður. Frá bænum sést Miðmundarvarða á Miðmundarhól vel, fallega hlaðinn á sprungubarmi. Hún var eitt eyktarmarkanna frá Þorbjarnastöðum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Tótt er syðst á túninu. Þegar komið var yfir suðurveggina sást móta fyrir gamalli hleðslu neðan ytri veggjarins skammt austar. Vestan við hleðsluna er laut og sunnan hennar fótur af gamalli vörðu. Norðan hennar liðast Alfaraleiðin gamla úr vestri til austurs. Alfaraleiðin var aðalgatan út á Útnesin. Önnur varða sést við götuna skammt vestar.
Beint framundan til suðurs sjást hraunbakkar. Undir þeim er gömul hlaðin rétt. Inni í henni er hlaðinn dilkur og tveir aðrir vestan í henni. Réttin stendur enn mjög vel, enda hefur hún upphaflega verið vel gerð.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – flugmynd.

Þegar gengið er norður með vestanverðum heimatúnsgarðinum sést vel hversu mikið mannvirki hann hefur verið. Við norðvesturhorn hans er nokkurs konar dalur í hrauninu. Þar gæti hafa verið nátthagi. Innan og norðanundir garðinum er minni dalur. Innst í honum er skúti. Vestan við hraunhólinn, sem myndar dalinn, er enn ein tóttin. Auðvelt er að greina húsaskipan af tóftum Þorbjarnarstaðabæjarins, sem fór í eyði um 1930.

Þorbjarnastaðaborgin er upp í Brunntorfum, en henni eru gerð góð skil í öðrum FERLIRslýsingum, s.s. HÉR og HÉR.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Á Þorbjarnastöðum bjó hið ágætasta fólk og eru afkomendur þess m.a. margir mætir Hafnfirðingar.
Gangan tók u.þ.b. klukkustund. Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðastekkur.

Sogin

Eftirfarandi friðlýsingar má finna á Reykjanesskaganum sbr. vefsíðu Umhverfisstofnunar:

-Akurey (Rvík)
-Álafoss (Mosf.)
-Ástjörn (Hafn.)

Tröllabörn

Tröllabörn.

-Ástjörn og Ásfjall (Hafn.)
-Bakkatjörn (Seltj.)
-Bláfjöll
-Borgir (Kóp.)
-Bringur (Mosf.)
-Búrfell (Garðab.)
-Bláfjöll (Rvík)
-Eldborg (Grindav.)
-Eldey (Reykjanesb.)
-Fjaran við Kastúsatjörn (Seltj.)
-Fossvogsbakkar (Rvík)
-Garðahraun (Gardab.)
-Gálgahraun (Gardab.)

Tungufoss

Tungufoss.

-Grótta (Seltj.)

-Hamarinn (Hafn.)
-Háubakkar (Rvík)
-Hleinar (Hafn.)
-Hlið (Álftan.)
-Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði (Hafn.)
-Kaldárhraun og Gjárnar (Hafn.)
-Kasthúsatjörn (Álftan.)
-Laugarás (Rvík)
-Litluborgi (Hafn.)
-Rauðhólar (Rvík)

Valhúsahæð

Valhúsahæð.

-Reykjanesfólkvangur
-Skerjafjörður (Garðab.)
-Skerjafjörður (Kóp.)
-Stekkjarhraun (Hafn.)

-Tröllabörn (Kóp.)
-Tungufoss (Mosf.)
-Valhúsahæð (Seltj.)
-Varmárósar (Mosf.)
-Vífilsstaðavatn (Garðab.)
-Víghólar (Kóp.)

Akurey

Akurey

Akurey – friðlýsing.

Akurey er lág og vel gróin eyja í Kollafirði, um 6,6 hektarar að stærð, norðaustan við Seltjarnarnes.Akurey flokkast sem alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð en í eynni verpa ýmsir sjófuglar eins og lundi sem er langalgengastur, sílamáfur, æðarfugl og teista, jafnframt er Akurey mikilvæg vetrarstöð fyrir skarfa.

Markmiðið með friðlýsingu Akureyjar er að stuðla að vernd líffræðilegar fjölbreytni með því að vernda alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði í Reykjavík.

Í reglum um friðlandið er meðal annars kveðið á um að flug ómannaðra loftfara er óheimilt, þá er óheimilt að fara í land í Akurey nema með leyfi Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar.
Ákvæðið á þó ekki við um umsjónaraðila. Þá kemur einnig fram að óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf innan friðlandsins. Varðandi landnotkun þá er heimilt að nýta æðarfugl og sílamáf.
Umhverfisstofnun getur veitt leyfi til athafna í friðlandinu, s.s. til ljósmynda- og kvikmyndatöku.

Álafoss

Álafoss

Álafoss – friðlýsing.

Umhverfisráðherra hefur að tillögu sveitarfélagsins Mosfellsbæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands ákveðið að friðlýsa Álafoss og nánasta umhverfi hans. Landsvæðið er friðlýst sem náttúruvætti, skv. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Álafoss er fallegur foss í Varmá þar sem hún liðast í gegnum Álafosskvos í Mosfellsbæ. Varmá er á náttúruminjaskrá frá upptökum til ósa en áin og fossinn tengjast ríkulega atvinnu- og íþróttasögu Mosfellsbæjar. Árið 1896 hófst ullarvinnsla við Álafoss og vegna þeirrar starfsemi var áin stífluð ofan við fossinn. Myndaðist þá talsvert dýpi í ylvolgri Varmánni sem notað var til sundiðkunar og dýfinga. Má enn sjá leifar af tveimur dýfingarpöllum ofan við fossinn sem og leifar af stíflunni.

Álafoss

Álafoss.

Hið friðlýsta svæði er 1,4 hektarar að stærð og nær yfir fossinn, töluvert svæði ofan og neðan hans og einnig skóglendi í svonefndu Álanesi sem er einn af eldri skógum bæjar­ins.

Markmiðið með friðlýsingu Álafoss sem náttúruvættis er að vernda fossinn sjálfan, nánasta umhverfi hans sem og menningarminjar sem tengjast sögu og þróun Mosfells­bæjar. Svæðið er fjölsótt, bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.

Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn – friðlýsing.

Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978. Í desember 1996 var verndarsvæðið stækkað með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið.

Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi en tegundinni hefur fækkað til muna frá því sem var á fyrri hluta 20. Aldar og er flórgoði alfriðuð tegund og á válista. Í tjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað.

Ástjörn

Ástjörn og Ásfjall.

Ástjörn við Hafnarfjörð er í kvos vestan undir Ásfjalli. Bakkar tjarnarinnar eru raklendir og að norðaustanverðu er stórt mýrarstykki niður undan gamla Ásbænum.
Upp af votlendinu taka við þurrir grýttir móar sem eru að gróa upp og hefur trjám verið plantað í þá norðan og austan megin við tjörnina. Tvö gömul tún eru norðan tjarnarinnar, annars vegar við Stekk og hins vegar við Ás.

Ástjörn og Ásfjall

Ástjörn og Ásfjall

Ástjörn og Ásfjall – friðlýsing.

Ástjörn og Ásfjall var friðlýst sem fólkvangur árið 1996. Fólkvangurinn umlykur friðland Ástjarnar en Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978. Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins. Á Ásfjalli eru minjar um hersetu fyrr á öldinni.

Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi en tegundinni hefur fækkað til muna frá því sem var á fyrri hluta 20. aldar og er flórgoði alfriðuð tegund og á válista. Í tjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað.

Stærð fólkvangsins er 56,9 ha.

Bakkatjörn

Bakkatjörn

Bakkatjörn – friðlýsing.

Bakkatjörn var friðlýst árið 2000. Bakkatjörn er ísölt tjörn og hefur svo verið frá um 1960 þegar lokað var fyrir leirvog sem þar var. Lægð kölluð Rásin tengdi áður Bakkatjörn og Seftjörn en sú síðarnefnda er nú horfin undir byggð.

Umhverfis Bakkatjörn er graslendi í sendnum jarðvegi og votlendi. Þær tegundir sem finna má innan friðlandsins eru m.a. melgresi, skriðlíngresi, tágamura, lokasjóður, mýrasauðlaukur, njóli, túnvingull, vallarsveifgras, klóelfting, mýrastör, knjáliðagras, lófótur, hálmgresi, gulstör, hrafnaklukka, vætuskúfur (vætusef), baldursbrá, fjöruarfi, fjörukál, hjartaarfi, vallhumall, snarrótarpunktur, túnvingull, gullvöndur, engjavöndur, hnúskakrækill, umfeðmingur, mýrasóley, augnfró, túnsúra, skarifífill, brennisóley, maríustakkur, gleym-mér-ei, hvítsmári, vallhæra og skriðlíngresi. Í blautustu lænunum vaxa lófótur, gulstör, mýrastör ásamt hrafnafífu, klófífu, hófsóley, skriðlíngresi, vætusefi, mýrasauðlauk og knjáliðagrasi.

Stærð friðlandsins er 14,9 ha.

Bláfjöll

Bláfjöll

Bláfjöll – friðlýsing.

Bláfjallafólkvangur var fyrst friðlýstur árið 1973. Fólkvangurinn er fjallaklasi sem rís hæst 685 m yfir sjávarmál. Vinsælt útivistarsvæði með góðri aðstöðu fyrir skíðafólk.

Aðilar að rekstri fólksvangs þess, sem stofnaður var í Bláfjöllum, sbr. auglýsingu ráðuneytisins nr. 97, 21. mars 1973 eru nú eftirtalin sveitarfélög: Reykjavíkurborg, Kópavogskaupstaður, Seltjarnarneskaupstaður, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðakaupstaður, Keflavíkurkaupstaður,
Njarðvíkurkaupstaður, Selvogshreppur, Miðneshreppur, Gerðahreppur, Vatnsleysustrandarhreppur og Bessastaðahreppur.

Stærð fólkvangsins er 9035 ha.

Borgir

Borgir

Borgir – friðlýsing.

Borgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 1981. Eftir að jökull hopaði í lok ísaldar, fyrir um 10000 árum, var Borgarholtið sker úti fyrir landi. Hafaldan skolaði burt smágrýti en skildi eftir lágbarða grágrýtis hnullunga sem einkenna holtið.

Mörk friðlýsta svæðisins fylgja jaðri Borga að sunnan. Að vestan liggja mörkin 10-15 m frá lóðarmörkum
aðliggjandi húsa, en 205 m frá þeim að norðan og norðaustan. Að austan fylgja mörkin jaðri Borga að því
undanskildu að utan markanna er um 25 m breið spilda inn að kirkjunni og um 15 m breið landræma
umhverfis hana.

Borgarholt

Borgarholt.

Umhverfis friðlýsta svæðið afmarkast svonefnt jaðarsvæði. Ytri mörk þess liggja 10-15 m utan við mörk
friðlýsta svæðisins að austan og sunnan, en að vestan og norðan eru mörk þess jafnframt lóðamörk.

Stærð náttúruvættisins er 2,8 ha en umhverfis friðlýsta svæðið afmarkast svokallað jaðarsvæði og er stærð þess 1,3 ha.

Bringur

Bringur

Bringur – friðlýsing.

Borgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 1981. Eftir að jökull hopaði í lok ísaldar, fyrir um 10000 árum, var Borgarholtið sker úti fyrir landi. Hafaldan skolaði burt smágrýti en skildi eftir lágbarða grágrýtis hnullunga sem einkenna holtið.

Stærð náttúruvættisins er 2,8 ha en umhverfis friðlýsta svæðið afmarkast svokallað jaðarsvæði og er stærð þess 1,3 ha.
Bújörðin Bringur varð til sem nýbýli úr landi prestsetursins að Mosfelli árið 1856. Jörðin fór í eyði árið 1966, en þar er að finna talsvert af mannvistarleifum á bæjarstæðinu og heimatúninu. Jörðin Bringur er norðan Köldukvíslar en þaðan er víðsýnt yfir Mosfellsdal og allt til hafs. Handan árinnar, utan fólkvangsins, rís Grímansfell, sem er hæsta fjall Mosfellsbæjar, og rétt við túngarðinn er Helgufoss í Köldukvísl.

Helgusel í Bringum

Helgusel í Bringum. Helgufoss fjær.

Vestan við fossinn eru Helguhvammur, rústir Helgusels og Helguhóll, einnig nefndur Hrafnaklettur. Sagan segir að þar sé mikil huldufólksbyggð. Seljarústirnar vitna um löngu horfna atvinnuhætti þegar búpeningur var hafður í seli yfir sumartímann. Þjóðtrúin hermir að Helgusel sé nefnt eftir Helgu dóttur Bárðar Snæfellsáss, en önnur skýring á nafngiftinni byggir á því að landsvæðið var fyrrum í eigu kirkjustaðarins á Mosfelli og upphafleg merking nafnsins væri þá hið helga sel.

Örskammt frá túnfætinum í Bringum má sjá leifar af þjóðbraut, svonefndum Bringnavegi, sem lagður var árið 1910. Vegur þessi var tengileið milli Mosfellsdals og gamla Þingvallavegarins sem lá yfir Mosfellsheiði til Þingvalla.

Búrfell

Búrfell

Búrfell – friðlýsing.

Svæðið er mjög gott dæmi um jarðmyndanir sem eru sérstakar á landsvísu og hafa hátt vísinda- og fræðslugildi. Búrfell og hrauntraðir frá gígnum, gjárnar og misgengi eru mjög áberandi í landi. Búrfell er stakur gjall- og klepragígur sem tilheyrir eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Snemma á nútíma fyrir um 8100 árum rann úr Búrfelli Búrfellshraun sem hefur breytilega ásýnd eftir svæðum. Næst upptökunum í Búrfelli er hraunið slétt helluhraun með hrauntröðum eða hraunrásum með hellum. Fjær upptökunum er það klumpahraun. Innan svæðisins er talsvert af menningarminjum s.s. fjárskjól og seljarústir sem telja má einstakar í sinni röð, byggðar við gjárbarmana með baðstofum, eldhúsi, kvíum og stekkjum. Hluti svæðisins hefur verið friðlýstur sem hluti af Reykjanesfólkvangi síðan 1975.

Svæðið er 380 ha að stærð.

Eldborg í Bláfjöllum

Bláfjöll

Eldborg í Bláfjöllum – friðlýsing.

Eldborg er einn þriggja gíga af eldborgargerð hjá Kóngsfelli. Eldborg var friðlýst sem náttúruvætti árið 1971.

Fallegt landslag og sérstakar jarðmyndanir einkenna svæðið sem er á vatnsverndarsvæði. Göngustígur liggur frá bílastæði upp á Eldborgina. Haustið 2012 var unnið í göngustígagerð á svæðinu, villustígum var lokað og mosi græddur í sár þar sem villustígar höfðu myndast um gíginn.

Stærð náttúruvættisins er 34,8 ha.

Eldborg í Grindavík (Krýsuvík)

Eldborg

Eldborg undir Geitarhlíð – friðlýsing.

Eldborg undir Geitahlíð var friðlýst árið 1987. Eldborg er hluti af gjallgígaröð og er Stóra-Eldborg meðal fegurstu gíga Suðvesturlands.

Stærð náttúruvættisins er 100,5 ha.

Eldey
Eldey var friðlýst árið 1974 og er hún 77 metra há þverhnípt klettaeyja suður af Reykjanesi. Í Eldey er ein stærsta súlubyggð sem þekkist í heiminum og óhætt að segja að á sumrin sé eyjan þakin súlu. Óheimilt er að fara í eyna án leyfis Umhverfisstofnunar og til verndar fuglalífi eru skot bönnuð nær eynni en 2 km.

Stærð Eldeyjar er 2 hektarar.

Fjaran við Kasthúsatjörn

Kasthúsatjörn

Kasthúsatjörn – friðlýsing.

Aðliggjandi fjara við Kasthúsatjörn var friðlýst sem fólkvangur árið 2002. Markmið með friðlýsingu fjörunnar sem fólkvangs er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru sérstaklega áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar. Aðgengi að svæðinu er gott og því ákjósanlegt til útikennslu.
Stærð fólkvangsins er 17,6 ha.

Hluti Kasthúsatjarnar og umhverfi hennar á Álftanesi var friðlýst sem friðland árið 2002 og er markmið með friðlýsingunni að vernda tjörnina með fjölskrúðugu fuglalífi hennar og lífríki, en tjörnin er strandtjörn, grunn og lífrík. Tjörnin býr yfir líffræðilegri fjölbreytni og er ákjósanleg til rannsókna og fræðslu.

Stærð friðlandsins er 4,20 ha.

Fossvogsbakkar

Fossvogsbakkar

Fossvogsbakkar – friðlýsing.

Fossvogsbakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1999. Á svæðinu er að finna fágætar jarðminjar í jarðsögu Reykjavíkur og landsins alls, Fossvogslögin, og felst verndargildi svæðisins í verndun þeirra.

Náttúruvætti eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Markmiðið með friðlýsingu Fossvogsbakka er verndun fágætra jarðminja svæðisins.

Setin í Fossvogsbökkum, hluti hinna svokölluðu Fossvogslaga, eru talin vera um 11.000 ára gömul, eða frá lokum síðustu ísaldar. Talið er að þau hafi myndast í einu af síðustu hlýskeiðunum eftir að bráðnun jökla hafði leitt til umtalsverðrar hækkunar sjávarstöðu. Lögin eru um 2 km að lengd við strandlengjuna og 5 m þykk þar sem þau eru þykkust. Sumsstaðar eru þau þó nærri horfin vegna sjávarrofs.

Elliðaárdalur

Fossvogur – set.

Setlögin liggja ofan á grágrýtisklöpp sem talin er hafa myndast fyrir 100-200 þúsund árum. Neðsta lag setlaganna er jökulberg sem myndað er úr jökulruðningi og bendir til þess að á svæðinu hafi verið jökull sem hefur hopað. Næstu lög eru sjávarsetlög, einkum fíngerð silt- og eðjusteinslög, sem bendir til þess að á svæðinu hafi verið grunnsævi. Í sjávarsetlögunum er að finna mikið magn af steingervingum, einkum skeljar lindýra. Ofan á sjávarsetinu er aftur að finna jökulberg sem bendir til þess að allra síðustu jökulskeið ísaldar hafi átt sér stað eftir að setlögin mynduðust. Af þessu má sjá að hægt er að fá mikilvægar vísbendingar um loftslagsbreytingar, landslagsmyndun, sjávarstöðu og lífríki á grunnsævi.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – kort.

Einstakt er að merkar jarðminjar, líkt og finnast í Fossvogsbökkum, séu staðsettar í miðri borg og að mestu leyti mjög aðgengilegar og sýnlegar.

Á svæðinu er mjög fjölbreyttur gróður sem hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áratugum vegna útbreiðslu ágengra tegunda og landnámi slæðinga úr görðum. Þar sem setlögin eru ekki mjög brött og mynda nokkurs konar skriður eru þau nokkuð gróin af margvíslegum gróðri, einkum grastegundum, en einnig stórvaxnari gróðri. Á bökkum setlaganna er gróður víða stórvaxinn þannig að hann skyggir á jarðminjarnar. Á þeim svæðum er lúpína algeng.

Gróðurlendið á Fossvogsbökkum hýsir fjölbreytilegt smádýralíf og fuglalíf á svæðinu er mikið, einkum í fjörunni.

Við Fossvogsbakka er að finna minjar frá tímum síðari heimstyrjaldar. Um er að ræða húsgrunna sem tilheyra herbúð, Camp Mable Leaf. Austan við herbúðirnar eru tóftir sem byggðar voru árið 1944 og eru enn vel greinanlegar.

Náttúruvættið er 17,8 hektarar að stærð.

Garðahraun

Garðahraun

Garðahraun – friðlýsing.

Garðahraun og Vífilsstaðahraun (Svínahraun) eru hlutar hins svokallaða Búrfellshrauns. Hraunin eiga uppruna sinn í Búrfellseldstöðinni og eru talin vera um 8000 ára gömul. Svæðin eru aðgengileg og henta vel til útivistar, fræðslu og rannsókna fyrir áhugamenn jafnt sem vísindamenn. Innan þeirra eru merkar söguminjar, s.s. Berklastígur, sem var útivistarstígur sjúklinga frá berklahælinu á Vífilsstöðum og sk. Atvinnubótastígur, sem lagður var í atvinnubótavinnu frostaveturinn 1918, en var aldrei tekinn í notkun.

Markmið friðlýsingarinnar er að stofna fólkvang, útivistarsvæði í þéttbýli, þar sem jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar, m.a. fornar rústir eru verndaðar. Með friðlýsingunni eru tryggðir möguleikar til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu í náttúrulegu umhverfi.

Gálgahraun

Gálgahraun

Gálgahraun – friðlýsing.

Markmiðið með friðlýsingu Gálgahrauns er að vernda nyrsta hluta Búrfellshrauns, þann hluta hraunsins sem runnið hefur í sjó fram, bæði vegna jarðmyndana og lífríkis. Markmið friðlýsingarinnar er jafn­framt að varðveita Gálgahraun sem vettvang náttúruskoðunar og fræðslu um ókomna tíð.

Gálgahraun, Garðabæ, friðlýst sem friðland í stjórnartíðindum B.nr. 877/2009.

Verndargildi svæðisins byggir m.a. á því að verndarsvæðið í Gálgahrauni er á þessu svæði að mestu ósnortið. Þar sem hraunjaðarinn nær í sjó fram hefur rofmáttur úthafsöldunnar verið lítill í innvíkunum Arnarnesvogi og Lambhúsatjörn og er hraunið því að mestu eins og þegar það rann. Forsendur frið­lýsingarinnar eru jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar, en í hrauninu er m.a. forn gata, Fógetagata og forn aftökustaður, Gálgaklettur, sem hraunið dregur nafn sitt af.

Grótta

Grótta

Grótta – friðlýsing.

Grótta var friðlýst árið 1974. Grótta er í raun eyja sem tengd er við land af mjóum granda sem fer á kaf á flóði. Strönd eyjunnar hefur að mestu verið hlaðin upp vegna landsigs og er hún því eins og grunn skál. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí.

Eyjan er vel gróin og gróskuleg þrátt fyrir fábreytt gróðurlendi og tiltölulega fáar tegundir.
Auðugt og fjölbreytilegt fuglalíf er í Gróttu. Samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið eru um 450 kríupör í Gróttu. Krían er ábyrgðartegund og alfriðuð.

Viti var fyrst reistur árið 1897 og þar bjó lengi vitavörðurinn Albert Þorvarðarson (1910-1973), en Slysavarnarfélagið á Nesinu heitir eftir honum.

Frá Gróttu var áður útræði og segir sagan að skip hafi farist við Gróttutanga.

Dauðinn sótti sjávardrótt,
sog var ljótt í dröngum.
Ekki er rótt að eiga nótt
undir Gróttutöngum.

Stærð friðlandsins er 39,6 ha.

Hamarinn

Hamarinn

Hamarinn – friðlýsing.

Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984. Á Hamrinum eru jökulminjar. Hann setur mikinn svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Hamrinum tengjast sögur um álfa og huldufólk.

Stærð náttúruvættisins er 2,1 ha.

Háubakkar

Háubakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Á svæðinu er að finna þykk setlög sem bera merki um áhrif loftslagsbreytinga á ísöld.

Náttúruvætti eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Markmiðið með friðlýsingu Háubakka er verndun fágætra jarðminja svæðisins í núverandi mynd.

Háubakkar

Háubakkar – friðlýsing.

Setlögin í Háubökkum tilheyra svokölluðum Elliðavogslögum sem mynduðust að öllum líkindum á löngu tímabili sem hófst fyrir meira en 300 þúsund árum og varði í að minnsta kosti 100 þúsund ár. Í setlögunum er bæði sjávar- og þurrlendisset sem bendir til þess að sjávarstaða hafi verið all breytileg á þeim tíma er setlögin mynduðust. Elliðavogslögin eru talin ná frá Brimnesi suður að Álftanesi, en Háubakkar eru með betri stöðum þar sem opnur eru að setlögunum sem víðast hvar eru grafin fyrir neðan yngri hraun- og setlög.

Neðstu setlögin eru jökulberg, líklega rúmlega 300 þúsund ára gamalt. Fyrir ofan jökulbergið taka við sjávarsetlög sem benda til hærri sjávarstöðu í kjölfar þess að jöklar bráðnuðu.

Háubakkar

Háubakkar.

Í sjávarsetlögunum er nokkuð af steingervingum, einkum samlokutegundir, t.d. kúfskel, krókskel og hallloka. Þessar tegundir eru nokkuð kuldasæknar og bendir það til þess að hiti sjávar hafi verið um 1-2°C lægri en í dag. Fyrir ofan sjávarsetið er meira jökulberg sem talið er vera um 250 þúsund ára gamalt. Efst í setlögunum er síðan þurrlendisset, einkum móset, meðal annars surtarbrand sem bendir til þess að gróskusamt votlendi hafi verið á svæðinu og loftslag hlýrra en nú. Ýmsar plöntuleifar er að vinna í surtarbrandinum.

Háubakkar

Háubakkar.

Þær jarðminjar sem er að finna í Háubökkum veita mikilvæga innsýn í jarðsögu Reykjavíkur og endurspegla setlögin um 100 þúsund ára sögu sem einkennist af miklum umskiptum í veðurfari, sjávarstöðu og landmótun. Þá veita þau einnig góðar upplýsingar um lífríki sjávar og gróðurfar á þurrlandi.

Verndun lífríkis er ekki upprunalegt markmið með friðýsingu Háubakka. Hins vegar liggur svæðið að fjörum þar sem er töluvert fuglalíf og nokkuð um strandgróður. Þá er fjölbreytileiki plantna sem vex ofan á bökkunum og í skriðum mikill, sérstaklega gras og blómlendi, auk þess sem nokkuð stórvaxinn trjágróður finnst á svæðinu. Ágengar tegundir eins og alaskalúpína og skógarkerfill finnast á svæðinu.

Fuglar eru áberandi á svæðinu, einkum vaðfuglar, enda stendur svæðið við vog. Skordýralíf er töluvert.

Náttúruvættið er 2,1 hektarar að stærð.

Hleinar

Hleinar

Friðlýsingarsvæðið á Hleinum.

Hleinar voru friðlýstir sem fólkvangur árið 2009. Markmiðið með friðlýsingu svæðisins er að vernda fjöru og útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi sem vaxið er náttúrulegum gróðri svo sem mosa- og lynggróðri. Jafnframt er það markmið friðlýsingarinnar að vernda búsetulandslag og menningarminjar, en á svæðinu eru tóftir, fiskreitir, grjóthleðslur, gerði, garðar og vagnslóðar. Aðgengi að svæðinu er gott og það er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu.

Fólkvangurinn er 32,3 hektarar að stærð og er hluti af friðlýsingu búsvæða fugla við Álftanes og Skerjafjörð í samræmi við náttúruverndaráætlun 2004-2008.

Hlið

Hlið

Hlið – friðlýsing.

Hlið á Álftanesi var friðlýst sem fólkvangur árið 2002. Árið 2020 var fólkvangurinn stækkaður og friðlýsingaskilmálar endurskoðaðir.

Markmið friðlýsingarinnar er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota og að vernda fuglalíf, búsvæði fugla og líffræðilega fjölbreytni svæðisins. Miðar verndunin að því að auðvelda almenningi aðgang að náttúrunni, svæðis til útivistar, náttúruskoðunar og til fræðslu. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar.

Aðgengi að svæðinu er gott og er það hluti af lífríku svæði og því ákjósanlegt til útikennslu. Innan svæðisins eru m.a. margæs, æðarfugl, rauðbrystingur, sendlingur og tildra sem eru ábyrgðartegundir á Íslandi og eru þær skráðar á viðauka II og III við Bernarsamninginn. Á svæðinu er einnig auðugt botndýralíf á grunnsvæði og lífríkar þangfjörur. Jafnframt eru friðlýstar menningarminjar (Skjónaleiði) innan fólkvangsins.

Stærð fólkvangsins er 41 ha.

Nú verðum við náttúru landsins að liði
um ljómandi vordag í sjávarins niði.
Nú látum við seli og fugla í friði
og fólkvanginn stækkum hér úti í Hliði.
(Arinbjörn Vilhjálmsson, júní 2020.)

Hvaleyrarlón og Hvaleyrargrandi

Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði

Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði – friðlýsing.

Hvaleyrarlón og Hvaleyrarhöfði voru friðlýst sem fólkvangur árið 2009. Markmið með friðlýsingu Hvaleyrarlóns og fjara Hvaleyrarhöfða er að tryggja útivistar- og fræðslusvæði til útiveru og fuglaskoðunar ásamt því að vernda lífríki og leirur svæðisins sem eru m.a. mikilvægt búsvæði fugla.

Útivistar- og fræðslugildi svæðisins er hátt. Dýralíf í leiru er allauðugt og er fuglalíf sérlega auðugt á svæðinu. Aðgengi fyrir íbúa er gott og einnig eru grunnskóli og leikskóli í nágrenninu og svæðið því tilvalið til útikennslu. Svæðið hefur lengi verið vinsælt til útivistar og er ákjósanlegt til fuglaskoðunar allt árið, en oft má sjá á svæðinu sjaldséða gesti eins og t.d. gráhegra.

Svæðið er 39,9 hektarar að stærð.

Kaldárhraun og Gjárnar

Kaldárhraun

Kaldárhraun og Gjár – friðlýst svæði.

Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda hellu­hrauns­myndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar. Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.

Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.

Kasthúsatjörn

Kasthúsatjörn

Kasthúsatjörn – friðlýsing.

Hluti Kasthúsatjarnar og umhverfi hennar á Álftanesi var friðlýst sem friðland árið 2002 og er markmið með friðlýsingunni að vernda tjörnina með fjölskrúðugu fuglalífi hennar og lífríki, en tjörnin er strandtjörn, grunn og lífrík. Tjörnin býr yfir líffræðilegri fjölbreytni og er ákjósanleg til rannsókna og fræðslu.

Stærð friðlandsins er 4,20 ha.

Aðliggjandi fjara var svo friðlýst sem fólkvangur árið 2002.

Markmið með friðlýsingu fjörunnar sem fólkvangs er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru sérstaklega áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar. Aðgengi að svæðinu er gott og því ákjósanlegt til útikennslu.

Stærð fólkvangsins er 17,6 ha.

Laugarás

Laugarás

Laugarás – friðlýsing.

Laugarás var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1982. Á svæðinu eru jarðminjar í formi jökulsrispaðs bergs og einnig má sjá ummerki um sjávarstöðu við lok ísaldar.

Náttúruvætti eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Markmiðið með friðlýsingu Laugaráss er verndun fágætra jarðminja svæðisins og vilji til að halda opnu svæði þar sem unnt væri að skoða þær merku jarðminjar sem eru á svæðinu.

Jarðminjar í Laugarási eru að mestu afmarkaðar við hæsta punkt svæðisins. Þar er að finna grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem talin eru vera um 200 þúsund ára gömul og eru hluti af Reykjavíkurgrágrýtismynduninni.

Laugarás

Laugarás.

Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið og má sjá jökulrákir í stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð og var Laugarás þá einn af fáum stöðum sem ekki var neðansjávar, en sjávarstaðan þá var um 45 metrum hærri en hún er nú. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti svæðisins sem er sjávarbarið.

Jarðminjar svæðisins veita mikilvæga sýn í jarðsögu Reykjavíkur og upplýsingar um loftslags- og landháttabreytingar.

Friðlýsing Laugaráss er ekki bara mikilvæg til verndar jarðminjum, heldur einnig vegna verndunar upprunalegs holtagróðurs í miðju þéttbýli þar sem upprunalegar, einkennandi tegundir eru ríkjandi og mynda sérstök samfélög sem eru nokkuð tegundauðug.

Laugarás

Laugarás – mynd SS.

Áður fyrr var þessi holtagróður ríkjandi á svæðinu, en hann á nú undir högg að sækja vegna lúpínu og trjágróðurs sem herjar á. Lúpínan myndar stórar og þéttar breiður sem stundum skyggja á eða hylja jarðmyndanirnar. Birki er algengasta trjátegundin, en einnig er mikið um selju. Aðrar trjátegundir sem finnast eru reynir, viðja, alaskavíðir, loðvíðir, stafafura og elri.

Ýmsir fuglar halda til á svæðinu, s.s. stari, svartþröstur og auðnutittlingur. Flugur og fiðrildi eru mest áberandi af skordýrum, einkum hunangsflugur, geitungar, birki- og víðifetar og ýmsar tvívængjur. Innan um gróðurinn er nokkuð um hattsveppi.

Náttúruvættið er 1,5 hektarar að stærð.

Litluborgir

Litluborgi

Litluborgir – friðlýsing.

Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009. Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarð­myndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði.

Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.

Stærð náttúruvættisins er 10,6 ha.

Rauðhólar

Rauðhólar

Rauðhólar – friðlýsing.

Rauðhólar voru friðlýstir sem fólkvangur árið 1974. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til.

Stærð fólkvangsins er 130,2 ha.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Reykjanesfólkvangur var friðlýstur sem fólkvangur árið 1975. Mikið er um jarðhitasvæði og margskonar náttúruminjar innan fólkvangsins. Eldfjöll eru mörg innan fólkvangsins einkum lágar hraundyngjur og gossprungur. Móbergs- fjöll og stapar í óteljandi myndum er einkennandi fyrir landslag á svæðinu. Innan marka fólkvangsins er náttúruvættið Eldborg undir Geitahlíð. Naðurtunga finnst innan fólkvangsins og er hún á válista NÍ og talin talsvert útbreidd við hveri norðan Trölladyngju.

Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha.

Skerjafjörður – Garðabæ

Skerjafjörður

Skerjafjörður Garðabæ – friðlýsing.

Skerjafjörður innan bæjarmarka Garðabæjar var friðlýst sem búsvæði árið 2009. Markmið með friðlýsingunni er að vernda lífríki á strönd, í fjöru og grunnsævi Skerjafjarðar. Einnig er markmið með friðlýsingunni að vernda útivistar- og fræðslugildi svæðisins sem felst í auðugu lífríki og möguleikum til útivistar við ströndina.

Skerja­fjarðar­svæðið er undirstaða afar fjölbreytts fuglalífs allan ársins hring og er svæðið mikil­vægur viðkomustaður farfugla og fargesta sem hér hafa viðdvöl á leið sinni til og frá norðlægum varp­slóðum.

Skerjafjörður

Skerjafjörður.

Fjörur og leirur svæðisins eru lífríkar, þar eru miklar þangfjörur og grunnsævi er með auðugu botndýralífi. Skerjafjarðarsvæðið í heild sinni hefur alþjóðlegt verndargildi vegna fuglategunda, svo sem rauðbrystings og margæsar og einnig er svæðið mikilvægt vegna marhálms, en plantan hefur takmarkaða útbreiðslu hér á landi og er ein aðalfæðutegund margæsar. Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og aðgengi að svæðinu er gott, en strandlengjan er vinsæl til útivistar og fjörðurinn til skemmtisiglinga.

Við ákvörðun um friðlýsinguna var höfð hliðsjón af samningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979) sbr. Stjórnartíðindi C 17/1993, samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeró 1992) sbr. Stjórnartíðindi C 3/1995 og samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971) sbr. Stjórnartíðindi C 1/1978.

Stærð búsvæðisins er 427,5 ha.

Skerjafjörður – Kópavogur

Skerjafjörður

Skerjafjörður Kópavogi – friðlýsing.

Skerjafjörður innan bæjarmarka Kópavogs var friðlýst sem búsvæði árið 2012. Markmiðið með friðlýsingu Skerjafjarðar er að vernda lífríki við ströndina, í fjöru og á grunnsævi, einkum og sér í lagi með tilliti til fugla. Jafnframt er það markmið að vernda útivistar- og fræðslugildi svæðisins sem felst í líffræðilegri fjölbreytni og samrýmist verndun búsvæða fugla.

Skerjafjarðarsvæðið í heild hefur alþjóðlegt verndargildi vegna farfuglategunda, svo sem rauðbrystings og margæsar en þar er að finna lífríkar þangfjörur, leirur og grunnsævi sem skapa undirstöðu fyrir afar fjölbreytt fuglalíf allan ársins hring. Einnig er svæðið mikilvægt vegna marhálms og sjávarfitjungs sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi, en marhálmur er ein aðal fæða margæsar.

Kópavogur

Kópavogur – Skerjafjörður; MWL.

Í Fossvogi og Kópavogi er stór hluti af leirum á Skerjafjarðarsvæðinu. Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og aðgengi að svæðinu er gott. Strandlengjan er vinsæl til útivistar og í Fossvogi eru iðkaðar siglingar og annað sjósport.

Við ákvörðun um friðlýsinguna var höfð hliðsjón af samningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979, sbr. Stjórnartíðindi C 17/1993), samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeró 1992, sbr. Stjórnartíðindi C 3/1995) og samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971, sbr. Stjórnartíðindi C 1/1978).

Stærð búsvæðisins er 62,6 ha.

Víghólar – Kópavogur

Víghólar

Víghólar – friðlýst svæði.

Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þar er að finna jökulsorfnar grágrýtis klappir, svokölluð hvalbök. Jökulrákirnar segja til um stefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi í lok ísaldar.Víghólar og Borgarholt tilheyra víðáttumiklum hraunum sem runnu á hlýskeiðum ísaldar.

Stærð náttúruvættisins er 1,4 ha.

Um mörk náttúruvættisins gilda eftirfarandi ákvæði:
Friðlýsta svæðið umhverfis Víghól afmarkast að sunnan, vestan og norðan af lóðamörkum aðliggjandi húsa og af lóðamörkum og bílastæði að austan. Um svæðið gilda eftirfarandi reglur:
1. Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd. Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask, sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins, er óheimilt, nema til komi sérstakt leyfi [Umhverfisstofnunarar].

Víghólar

Víghólar.

2. Gangandi fólki er heimil för um svæðið, enda sé góðrar umgengni gætt. Þá er bæjarstjórn heimilt, að höfðu samráði við náttúruverndarnefnd og skipulagsnefnd, að láta planta skjólgróðri, leggja gangstíga, setja upp bekki og annan búnað í þágu útivista á svæðinu.
3. Hvers konar losun jarðefna, rusls eða sorps er óheimil á svæðinu. Náttúruverndarnefnd Kópavogs hefur eftirlit með framkvæmd friðlýsingar í umboði [Umhverfisstofnunar] og bæjarstjórnar.
Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.
Ráðuneytið er samþykkt friðlýsingunni, sem tekur gildi við birtingu þessarar auglýsingar í
Stjórnartíðindum. Menntamálaráðuneytið, 23. nóvember 1983.

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun

Stekkjarhraun – friðlýsing.

Stekkjahraun var friðlýst árið 2009. Markmið með friðlýsingu svæðisins er að vernda útivistar­svæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. Stekkjarhraun er hluti af hraunum sem runnu í Búrfellseldum fyrir um 7000 árum. Stekkjarhraun er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Aðgengi að svæðinu er gott og er það því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu. Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir í þéttbýli.

Stærð hins friðlýsta svæðis er 15,9 hektarar.

Tröllabörn

Tröllabörn

Tröllabörn – friðlýsing.

Tröllabörn voru friðlýst sem náttúruvætti árið 1983. Náttúruvættið einkennist af sérkennilegum hraundrýlum (hornító) sem hafa verið notuð sem fjárskýli og jafnvel sem sæluhús. Þegar gosgufurnar koma úr útstreymisopum hraunsins brenna þær við hátt hitastig þegar þær sameinast súrefni loftsins. Þá hlaðast upp litlar en brattar strýtur úr kleprum sem gosgufurnar rífa með sér. Strýtur sem þessar, eða hraundríli, eru einkum algengar á hraundyngjum.

Stærð náttúruvættisins er 4,7 ha.

Tungufoss

Tungufoss

Tungufoss – friðlýsing.

Umhverfisráðherra hefur að tillögu sveitarfélagsins Mosfellsbæjar og að fengnu áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands ákveðið að friðlýsa Tungufoss og nánasta umhverfi hans. Landsvæðið er friðlýst sem náttúruvætti, skv. 2. tölul. 1. mgr. 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Tungufoss er fallegur foss neðarlega í Köldukvísl í Mosfellsbæ, á móts við Leirvogstungu og dregur fossinn nafn sitt af bæjarnafninu. Við Tungufoss má sjá leifar af heimarafstöð sem var reist árið 1930 af bóndanum í Leirvogstungu og bræðrum hans og framleiddi stöðin rafmagn fyrir bæinn fram til ársins 1958.

Tungufoss

Tungufoss.

Tveir fallegir hylir eru neðan við Tungufoss: Kerið, sem er beint fyrir neðan fossinn, og Klapparhylur litlu neðar. Nærsvæði fossins er vinsælt til útivistar en hið friðlýsta svæði er 1,4 hektarar að stærð.

Markmiðið með friðlýsingu Tungufoss sem náttúruvættis er að vernda fossinn sjálfan sem og menningarminjar innan þess. Svæðið hefur mikið útivistargildi enda fjölsótt bæði af bæjarbúum og öðrum gestum og mikilvægt að treysta útivistar- og fræðslugildi þess.

Valhúsahæð

Valahúsahæð

Valhúsahæð – friðlýsing.

Valhúsahæð var friðlýst sem náttúruvætti árið 1998. Á Valhúsahæð er rákað berg eftir ísaldarjökul. Þaðan er víðsýnt um Faxaflóa. Hæðin ber nafn sitt af húsum sem fyrr á öldum geymdu veiðifálka Danakonungs. Valhúsahæð er hæsti staður á Seltjarnarnesi í 31 m hæð yfir sjó.

Á Valhúsahæð er graslendi, lítt grónir melar, mólendistorfur og votlendisblettir. Þar er að finna fjölda tegunda t.d. olurt, túnvingul, blóðberg, vallelftingu, krossmöðru, gulmöðru, túnfífla, blávingul, vallhæru, axhæru, vallarsveifgras, hvítmöðru, klóelftingu, vallhumal, kattartungu, gleym-mér-ei, umfeðming, grávíðir, þursaskegg, túnvingul, mosajafna, krækilyng, mósef, brjóstagras, gullmuru, lógresi, friggjargras, mýrfjólu, þrenningarfjólu, njóla, túnsúru, brennisóley og maríustakk svo eitthvað sé nefnt.

Seltjarnarnes

Landamerkjasteinn á Valhúsahæð.

Jarðfræði á Valhúsahæð er margbreytileg en þar er að finna laus jarðlög, basalthraunlög (grágrýti) og jökulrákir. Einnig er vel hugsanlegt að forna eldstöð sé að finna á Valhúsahæð. Aldur grágrýtishraunanna á Seltjarnarnesi er nokkuð óljós, en talið er að þau hafi myndast á næst síðasta hlýskeiði. Laus jökulruðningur sem þar er að finna er væntanlega frá lokum síðasta jökulskeiðs. Á Valhúsahæð má skoða minjar sem tengjast hersetu og sögu hernámsins hér á landi í seinni heimstyrjöldinni.

Stærð náttúruvættisins er 1,7 ha.

Varmárósar

Varmárósar

Varmárósar – friðlýsing.

Varmárósar voru fyrst friðlýstir árið 1980 sem friðland og var friðlýsingin endurskoðuð árið 2012. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og viðhalda fitjasefi (Juncus gerardii) og búsvæði þess sem og náttúrulegu ástandi votlendis Varmárósa ásamt sérstöku gróðurfari sem þar er. Friðlýsingin á einnig að tryggja rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins og treysta útivistar-, rannsókna- og fræðslugildi svæðisins. Við endurskoðun friðlýsingarinnar 2012 var samningur um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979), samningur um líffræðilega fjölbreytni (1992) og stefnumörkun stjórnvalda höfð til hliðsjónar.

Stærð friðlandsins er 9.76 hektarar og liggja mörk þess frá hesthúshverfinu við Varmárbakka og frá göngustíg við reiðhringi út í Varmá og norður fyrir Hestþinghól út í ósinn.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn – friðlýsing.

Vífilsstaðavatn og nágrenni var friðlýst sem friðland árið 2007. Friðlýsingin tekur til Vífilsstaðavatns og hlíðanna að sunnar og austanverður upp frá vatninu upp á brún, að meðtöldu Grunnavatnsskarði. Vestur – og norðurmörk fylgja ofanbyggðavegi og Elliðavatnsvegi.

Friðlýsingunni er ætlað að stuðla að varðveislu og viðhaldi náttúrulegs ástands vatnsins og styrkja verndun tegunda og samfélagsgerðar með sérstæðum stofnum bleikju, urriða, áls og hornsíla í vatninu. Hornsílin í vatninu eru mjög sérstök þar sem þau skortir kviðgadda. Töluvert af andfuglum verpa við vatnið og mófuglar um­hverfis það. Markmið með verndun nærsvæðis vatnsins er að tryggja eðlilegt grunnvatnsstreymi til þess og viðhalda náttúrulegu gróðurfari svæðisins. Enn fremur er það markmið friðlýsingarinnar að treysta útivistar-, rannsókna- og fræðslu­gildi svæðisins.

Stærð friðlandsins er 188,3 ha.

Víghólar

Víghólar

Víghólar – friðlýsing.

Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þar er að finna jökulsorfnar grágrýtis klappir, svokölluð hvalbök. Jökulrákirnar segja til um stefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi í lok ísaldar.
Víghólar og Borgarholt tilheyra víðáttumiklum hraunum sem runnu á hlýskeiðum ísaldar.

Stærð náttúruvættisins er 1,4 ha.

Heimild:
-https://www.ust.is/nattura/natturuverndarsvaedi/fridlyst-svaedi/sudvesturland/

Álfhóll

Kópavogur – Álfjóll.