Eldborgir undir Geitahlíð

Stóra Eldborg

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði í Náttúrufræðinginn árið 1973 um Eldborgir undir Geitahlíð:
„Þær eru raunar fleiri en tvær eldborgirnar undir Geitahlíð austan við Krýsuvík, skammt frá mörkum Stora-Eldborg-21Gullbringusýslu og Árnessýslu, en Stóra- og Litla Eldborg heita þær eigi að síður, og hvor þeirra á sína sögu. Þó nágrannar séu eru þær harla ólíkar um margt. Stóra Eldborg er einhver fegursti hraungígurinn á öllu Suðvesturlandi hún er yfir 50 m há yfir næsta umhverfi og gígurinn er um 30 m djúpur. Borgin er hlaðin úr hraunkleprum og gjalli og hin fegursta náttúrusmíði.
Stóra Eldborg er raunar suðvesturendinn á gígaröð, sem stefnir norðaustur — suðvestur eins og nær allar gígaraðir hér sunnanlands. Sunnan Geitahlíðar er þessi gígaröð aðeins um 350 m löng, en önnur gígaröð er norðan við Geitahlíð, uppi á fjallinu, í beinu framhaldi af þessari og er sú að minnsta kosti eins löng, en gæti raunar hafa verið mun meira, því yngri hraun, komin ofan af Lönguhlíð hafa þar runnið yfir. Af þeim sökum má nú heldur ekki sjá hversu mikið hraun hefur runnið frá þessum eldborgum, en sjálfar eru þær ekki stórar. Hafi hraun runnið úr þeim svo teljandi sé, hefur það runnið niður af fjallinu um svonefndan Sláttudal austan við Geitahlíð, en yngri hraun þekja nú það svæði.
litla-eldborg-21Sunnan undir Geitahlíð eru gígirnir aðallega tveir, sem hraun hefur runnið úr. Er það Stóra Eldborg sjálf og annar stór gígur alveg við hana norðan megin. Svo eru nokkur gígahrúgöld, sem liggja út frá þeim á beinni línu og enda utan í hlíðinni fyrir ofan. Lítið hraun hefur frá þeim runnið. Megin eldvarpið er Stóra Eldborg og áðurnefndur gígur við hliðina á henni. Frá þeim hafa hraunstraumar runnið, frá Eldborg sjálfri um undirgöng að suðaustan, en kvikustrókar hafa byggt hana upp, en frá hinum gígnum eftir eldrás mikilli. Eldrásir þrjár liggja út frá gígunum. Sú þeirra, sem mest er liggur til austurs út frá gígnum næst norðan við Eldborg, og virðist mesta hraunrennslið hafa verið þaðan. Sú rás stefnir austur með Geitahlíð, en hverfur brátt inn undir hraunið úr Litlu Eldborg. Næsta rás stefnir nær beint til suðurs, en hverfur skammt neðan við stóru Eldborg og sést ekki ofan vegarins eftir það. Vel gæti þar verið hellir í framhaldi af hraunrásinni, því ekki verður annað séð en neðsti hluti hennar séu leyfar af helli, sem fallið hefur saman.
Þriðja hraunrásin liggur svo nokkuð til suðvesturs eldborgir-21og alla leið niður á sléttuna neðan og vestan við Eldborg. Þar hefur fjárrétt verið hlaðin í henni og veggir hrauntraðanna notaðir á tvo vegu. Þetta er rétt við vesturjaðar hraunsins, aðeins sunnan vegar. Tvær síðastnefndu eldrásirnar hafa komið úr dálítilli skál suðaustan undir borginni. Sú skál er hraunop borgarinnar, en í Eldborg sjálfri virðist eingöngu hafa verið um kvikustrókavirkni að ræða. Sést það bezt á byggingu borgarinnar sjálfrar. Þó virðast hraungusur hafa komið úr gígnum um skarð, sem snýr móti austri og er beint upp af upptökum hraunrásanna beggja. Á þeim stað má sjá hraunkúlur, sem fallið hafa ofan í hálfstorknað hraunið og sokkið í það til hálfs. Hraunið hefur runnið til austurs og suðurs og þar hefur það fallið fram af sjávarhömrum, sem nú ekki sér fyrir lengur. Við sjó nær það yfir um 5 km strandlengju, en mesta breidd þess milli fjalls og fjöru er um 2,5 km. Gæti því látið nærri að flatarmál þess væri um 12 km2. Sjór hefur nú brotið framan af því, svo nú er það jafnt grágrýtinu, sem það hvílir á. Ekki sjást þess merki hvort það hafi áður náð eitthvað að ráði út fyrir núverandi strönd eins og hraunið úr Litlu Eldborg hefur gert. Bendir þetta til þess að allverulegur aldursmunur sé á þeim systrum (sjá síðar). Að austan hefur hraunið runnið út á eldra, slétt helluhraun, sem á kortinu ber nafnið Herdísarvíkurhraun, og er þar um nokkur mismunandi hraun að ræða, sem eiga upptök sín á mismunandi stöðum uppi á Lönguhlíð. Að vestan hefur hraunið runnið út á grágrýtið, sem myndar berggrunninn suður og vestur af Geitahlíð og sem nær vestur að Sveifluhálsi og að Ögmundarhrauni. Hraunið úr Stóru Eldborg er að mestu helluhraun, enda þótt kargi komi fyrir í því á stöku stað.

eldborgir-23

Eins og nafnið bendir til er Litla Eldborg minna áberandi en Stóra Eldborg. Þegar um Litlu Eldborg er að ræða er mun síður réttmæli að tala i eintölu, því þar er raunar um að ræða eldstöð, sem er mjög svo áberandi gígaröð. Það er röð af hraunklepra- og gjallborgum um 350 m á lengd með stefnu norðaustur — suðvestur. Gígaröðin endar utan í Geitahlíð í örlitlum kleprahól aðeins ofan við gamla veginn, sem þarna er á mótum hrauns og hlíðar. Lítið hraunrennsli hefur verið úr borgunum sjálfum. Frá þeim hefur hrauntunga teigt sig austur með Geitahlíð og nær nokkuð austur fyrir Sláttudal. Megin hraunstraumurinn kom ekki úr eldborgunum, heldur átti hann upptök við rætur Geitahlíðar norðan vegarins nokkuð til hliðar við eldborgirnar. Þar hefur hraunið ollið upp án þess að til gígmyndunar hafi komið í þungum straumi hefur það svo runnið vestur með eldborgarröðinni, og beygt til suðurs við vesturenda hennar. Af þessu er ljóst að borgirnar byggðust upp í fyrstu hrinu gossins, en megin hraunrennslið kom fyrst eftir það. Má vel sjá þetta í vesturenda gígaraðarinnar þar sem gjallnáman er. Nær hún inn undir skör hraunsins. Þessi álma hraunsins hefur eftir það fallið beint suður til sjávar, og þar fram af sjávarhömrum, sem myndaðir voru í hrauninu frá Stóru Eldborg, en það hraun er að heita má undir öllu hrauninu úr Litlu Eldborg, sem því er hin yngri þeirra systra. Síðastnefnd hrauntunga hefur fallið fram af sjávarhömrum, og myndað allbreiðan tanga út í sjó milli Bergsenda og Seljabótar. Þar hefur það bætt við landið smá sneið, sem ennþá stenzt ágang hafsins. Þarna sér fyrir hinum fornu sjávarhömrum lítið eitt uppi í landinu.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 42. árg. 1972-1973, 1.-2. tbl., bls. 59-66.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.