Elliðavatn – fyrr og nú

Elliðavatn

Gísli Sigurðsson skrifar um „Elliðavatn“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
„Bújörðin Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Ellidavatn-881Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað; þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað.
Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesingasögu, sem skrifuð
var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn“ hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var Kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að. Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
ellidavatn-882Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni“.
Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.“ Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með ,4ii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola“ (viðarkol). Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir“ renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.“ Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað“. Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð“. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi“.
ellidavatn-883Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé. Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa“ þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað“. En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Uggjaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap. Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk
með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
ellidavatn-885Merkir gestir á Elliðavatni Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal yar teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum. Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn. Ætla má þó að myndin sé trúverðug heimild um bæinn og hún er einnig allnokkur vísbending um að Elliðavatn hafi þá þótt markverður bær. Kirkja var þó aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Á teikningu Mayers af Elliðavatnsbænum er aðeins að sjá eina stæðilega byggingu. Hún er með hefðbundnu lagi torfbæja eins og það varð á síðustu öld og snýr stafninum fram. Prýði þessa húss er vindskeið og hefur verið lagður metnaður í að hafa hana viðhafnarlega. Slíkar vindskeiðar voru ekki á bæjum almennt. Skýringuna má ef til vill finna í því, að ábúendur á Elliðavatni voru þá Jón Jónsson silfursmiður og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Kynni að vera að listrænn metnaður silfursmiðsins kæmi þarna í ljós. Að öðru leyti sýnir myndin venjulega og fremur bágborna torfkofa, en hjallur úr timbri stendur sér. Tröðin heim að bænum liggur meðfram hlöðnum grjótvegg sem sveigist til suðurs, enda var algengasta leiðin úr Reykjavík að Elliðavatnsbænum sunnan við vatnið. Hægt var að fara aðra leið norðan vatnsins, en þá þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn úr Helluvatni.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þaðan hélt Jónas för sinni áfram til Þingvalla og Skjaldbreiðar og lenti í frægri villu og útilegu, sem fór þó vel og gaf af sér eitt vinsælasta kvæði Jónasar.
Ellidavatn-887Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið. Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk. Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Úlfljóts ok allra landsmanna þar es nú es, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu“.
ellidavatn-890Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafí verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekM verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.“ Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns og nöturlegt til þess að vita að hluti þingstaðarins lenti undir vatni þegar stíflað var. Þá verður það naumast talið til fyrirmyndar að sumarbústaður hefur verið fast uppi við hinn forna þingstað og skilti með nafni Þingness virðist vera hlið að sumarbústaðarlandinu.
Algengt er að sjá í bókum aðra mynd af Elliðavatnsbænum en þá sem Mayer teiknaði og er sú mynd sögð vera teiknuð aðeins 9 árum eftir að Mayer var þar á ferðinni. Vegna Heklugossins 1845 kom náttúruvísindaleiðangur undir forustu Danans J.C. Schiitte til rannsókna á Íslandi og með í för var ungur myndlistarmaður, Emanuel Larsen, sem var ígildi ljósmyndara og vann sitt verk dyggilega.
Teikning, sem oft hefur birst og eignuð er Schiitte þessum, er sögð vera af Elliðavatnsbænum en er þó fremur grunsamleg. Enda þótt skammt sé um liðið frá því bær silfursmiðsins var teiknaður er ekM annað hægt að sjá en að sá bær hafi verið rifinn svo til grunna að enginn kofi hafi eftir staðið, en annar bær byggður með gerólíku lagi; þó ekki burstabæjarstílnum sem ruddi sér til rúms á 19. öldinni. Þarna er kominn þverstæður bær með bæjardyrum fyrir miðju og tveim gluggum sín hvorum megin við þær. Ætla má að loft hafi verið á þessum bæ yfir baðstofu og stofu; að minnsta kosti eru tveir litlir gluggar á þekjunni. Óvenjulegt verður að tefja að þarna er snyrtileg steinhleðsla utan með bænum sem einungis virðist vera til prýði, en grjótgarðar voru yfirleitt ekki hlaðnir öðruvísi en í ákveðnum tilgangi, til dæmis utanum tún eða gerði.
ellidavatn-891Í forgrunni myndarinnar er mjó vík sem er harla ósennilegt er að hafi nokkru sinni getað verið þarna og ennþá síður stenzt það, að sá bratti sem var og er frá bæjarstæðinu niður að vatninu er nánast ekkert til þarna. Ótrúlegast er samt að hvorki standa eftir tangur né tetur af bæ silfursmiðsins eftir svo fá ár. Jafnvel ennþá síður marktæk er teikning af þriggja bursta steinbæ á Elliðavatni, sem birt er í ritröðinni, Reykjavík – sögustaður við Sund. Þar er sagt að þetta muni vera húsið sem Sverrir Runólfsson byggði á Elliðavatni. Það var steinhús sem Sverrir byggði og ekkert svipað burstabænum á myndinni. Árið 1860 beinist kastljósið í fásinni hins íslenzka bændaþjóðfélags í svo ríkum mæli að Elliðavatni, að staðurinn verður á hvers manns vörum. Benedikt Sveinsson, alþingismaður og yfirdómari í Reykjavík, kaupir þá jörðina af ekkjunni Guðrúnu Jónsdóttur með það fyrir augum að gera hana að stærstu bújörð á Íslandi; jafnvel að þar yrði „fyrirmyndarbýli“ eins og Benedikt orðaði það í bréfi til Jóns Sigurðssonar:
„Eg skal gjöra Elliðavatnið að Mönstergaard…“ Benedikt var stórhuga maður, forframaður úr laganámi í Kaupmannahöfn og þótti höfðinglegra að búa á fallegri jörð en í hinni hálfdönsku Reykjavík, enda sagði hann: „…ég vil heldur láta dysja mig lifandi niður í grænan hól en svelta og kafna hérna á mölinni þar sem enginn kraftur, líkamlegur eða andlegur þrífst.“ Kaupverðið var 3.000 ríkisdalir, mikið fé fyrir mann sem var fremur skuldugur en auðugur. Þessu var þó hægt að koma í kring með því að Katrín kona Benedikts, skagfirzk höfðingjadóttir, fékk fyrirfram greiddan arf frá foreldrum sínum á Reynistað. Fyrir utan rúmlega 2.000 ríkisdali gat Katrín lagt með sér til búsins fjórar mjólkandi kyr, 15 fullorðna sauði, 50 veturgamlar gimbrar, 4 hesta með reiðingum, 20 lömb og þar að auki sængur og kodda. Eitt var víst: Hafi sá áratugar gamli torfbær, sem heldur vafasöm teikning sýnir að hafi staðið á Elliðavatni, þá ætlaði assessorinn ekki að flytja í hann. Úti í Kaupmannahöfn hafði hann kynnst Sverri Runólfssyni steinhöggvara, sem síðar byggði Þingeyrakirkju í Húnaþingi og Íþöku, bókhlöðu Lærða skólans í Reykjavík. Benedikt linnti ekki látum fyrr en hann fékk Sverri til að flytjast heim frá Danmörku; borgaði farið og hét honum ríflegum árslaunum. Það urðu þó vanefndir á launagreiðslunum og Sverrir fór í fússi frá verkinu áður en húsið var risið. Það er því ekki hægt að telja Elliðavatnshúsið eitt af verkum Sverris, en það er engu að síður eitt af elztu steinhlöðnu húsunum á landinu. Eins og fram kom í fyrri greininni var þetta ekki steinbær með burstum, heldur hús með venjulegu lagi og fjórum gluggum á suðurhlið, 50 fermetrar að stærð, kjallari, hæð og loft. Þetta hús stendur enn á Elliðavatni, bárujárnsklætt að vísu og búið að byggja við það.
ellidavatn-892Á árinu 1861 er assesorinn fluttur að Elliðavatni með fjölskyldu sína og bústofninn er þá 200 fjár, 8 kýr og 7 hestar. Í heimili eru 16 manns með vinnukonum og vinnumönnum, en frú Katrín flutti hálfnauðug uppeftir og leið eins og hún væri í fangelsi. Það hafa líka verið mikil viðbrigði fyrir hana að láta af sínu hógværa yfirstéttarlífi í Reykjavík og fara að stýra búi. Það hefur hún orðið að gera því húsbóndinn fór ríðandi til vinnu sinnar í Reykjavík að morgni og það sem verra var: Hann kom oft seint heim og var þá drukkinn.
Benedikt Sveinssyni var margt vel gefið. En í aðra röndina var hann eins og bandvitlaus maður. Áföllin létu heldur ekki á sér standa á Elliðavatni. Fjárkláði tók sig upp og það var reiðarslag. Benedikt missti trú á lækningum og gerðist ákafur niðurskurðarsinni. En fjárbú sitt missti hann og í framhaldi af því lét hann eins og óður maður og réðist ákaflega á stjórnvöld í blaði sínu, Íslendingi. Heimatilbúinn ófriður magnaðist þegar Benedikt hugðist bæta Elliðavatnsengjar með áveitu. Hann lét stífla Dimmu og Bugðu og Elliðaárnar þornuðu. Það gat hann vitað fyrirfram og þar með að Thomsen kaupmaður, sem átti laxveiðiréttinn, biði stórtjón. Af þessu spratt langvarandi málaþras.
Elliðavatnsbóndinn herti á drykkjunni samfara öllu þessu. Myrkfælni hans var fræg. Bágt átti hann með að ríða upp að Elliðavatni á kvöldin eftir að dimmt var orðið; varð jafnvel að drekka í sig kjark til þess. Menn höfðu orðið úti á þessum slóðum, illa búnir í vetrarveðrum. Til dæmis rakst ég á heimild um að langalangafi minn, Eyvindur bóndi í Miðdalskoti í Laugardal, hafði drukknað í Bugðu í marzmánuði 1823. Ekki sýnist Bugða þó vera neitt skaðræðis vatnsfall.
ellidavatn-893Á fyrstu búskaparárum Benedikts og Katrínar á Elliðavatni varð Magnús nokkur frá Lækjarbotnum úti við vatnið. Líkið var látið standa uppi í Elliðavatnsbænum og var því um kennt að mikill reimleiki fór að gera vart við sig. Hafði fólk stundum ekki svefnfrið vikum saman fyrir söng og drykkjurausi á frönsku, höggum og hurðaskellum. Ýmsan annan óskunda gerði þessi afturganga Magnúsar, til að mynda sligaði hún tvö hross. Mest sótti þessi draugur þó að vinnumanninum Erlendi, sem verið hafði drykkjufélagi Magnúsar. Eftir að Erlendur fór frá Vatni færði draugurinn sig í beitarhús og loks út í mýri þar sem Magnús hafði orðið úti. Var hann eftir það nefndur Mýrardraugurinn. Átti hann sinn þátt í því að Benedikt bjóst sífellt við því að mæta draugi á leiðinni upp að Vatni.
Gæfan varð ekki samferða þessari fjölskyldu að Elliðavatni. Það voru líkt og álög talsvert löngu síðar, 1. júní 1900, þegar sonur þeirra hjóna, efnismaðurinn Ólafur Sveinar Haukur, þá 28 ára gamall, átti leið heim að Elliðavatni til að vera viðstaddur úttekt á jörðinni fyrir hönd erfingja. Þetta var greið og hættulaus leið ef farið er sunnan vatnsins, en norðan megin þurfti að komast vfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn milli Elliða- og Hellisvatns. Þeim megin fór Ólafur Sveinar og kallaði á ferju við álinn, en fékk ekki svar. Hann ákvað að sundríða, klæddur þungri kápu og skjöl tók hann úr hnakktösku og stakk inn á sig. En eitthvað óvænt kom fyrir; hesturinn steyptist í álinn og flæktist í taumnum. Ólafur varð undir og þótt hann væri vel syndur dugði það ekki; hann sökk og drukknaði.
ellidavatn-894Gæfan brosti hinsvegar við þeim Elliðavatnshjónum 31. október 1864 þegar frú Katrín varð léttari löngu fyrir tímann og drengur fæddist. Hann var skírður Einar og varð á fullorðinsárum svo frægur og umtalaður með þjóð sinni sem stórskáld og ævintýramaður, að núna, 60 árum eftir að hann lézt, selst ævisaga hans eins og heitar lummur. Nútíminn hefur ekki lengur ljóðin hans á hraðbergi eins og menn höfðu á fyrri hluta 20. aldarinnar, en hann dáist að skáldinu og manninum sem lifði eins og greifi í útlöndum á því að stofna hlutafélög og gera út á vonir og bjartsýni. Svo segjum við núna: Sem betur fer sluppu hinir fögru fossar okkar frá þessu óskaddaðir. Sama ár og þjóðskáldið tilvonandi fæddist varð assessorinn á Elliðavatni þingmaður Árnesinga. Samtímis átti hann að sinna störfum sínum í húsi Landsyfirdóms við Austurstræti. Uppi á Elliðavatni mátti frú Katrín una með börnin þeirra; stolt höfðingskona með eigin reikning í verzluninni Glasgow. Það var í hæsta máta óvenjulegt. Þar kom að eyðslusemi hennar gekk fram af húsbóndanum og þóttist hann til neyddur að loka fyrir úttektir frúarinnar á munaðarvöru. En um hlöðin á Elliðavatni vappaði Einar litli; þar liggja bernskuspor hans og ugglaust niðri við vatnið sem ævinlega hefur mikið aðdráttarafl á unga sveina með ævintýrahug. Hann var þriggja ára þegar hann eignaðist systurina Kristínu, en ári síðar kom dauðinn og sótti Svein litla bróður hans, sem þá var bara 6 ára. Það voru bæði skin og skúrir á Elliðavatni.
ellidaar-1880Það sem næst bar til tíðinda á Vatni var að hingað til lands kom danskur áveitumeistari, Niels Jörgensen, árið 1869. Næsti draumur í draumalandinu var að hann kæmi á stórkostlegri áveitu; nú skyldu Elliðavatnsengjar bættar svo um munaði. Þá voru 60 menn ráðnir í vinnu við að hlaða kílómetra langan stíflugarð sem náði þvert yfir Dimmu, útrennslið úr Elliðavatni. Með því vannst tvennt: Assessorinn gat veitt vatni á engjarnar og haft vatnsrennslið í Elliðaánum á valdi sínu. Honum þóknaðist að skrúfa fyrir um leið og laxveiðitíminn hófst sumarið 1869 og allt varð vitlaust.
Áður en lögbanni hafði verið komið á hleypti Benedikt úr stíflunni og vatnsflóðið sópaði
laxastiganum burt. Þá hefur verið gaman á Elliðavatni. En ekki til langframa. Reiðarslagið dundi yfir 19. ágúst 1870 þegar Benedikt Sveinsson var sviptur embætti fyrirvaralaust. Ugglaust var það ekid að ástæðulausu og ekki fékk hann góða einkunn hjá Jóni Sigurðssyni: „Bensi var efnilegur, en hann er strax grunnskemmdur, – og svo er það fylleríið!“
Næsti draumur á Elliðavatni snerist um prentsmiðju og blaðaútgáfu. En til þess vantaði fé og næst var Elliðavatnsbóndinn önnum kafinn við fjársöfnun í þessu augnamiði. Sumir gamlir samherjar töldu hann nú genginn af göflunum og ekki var það fjarri sanni, því sjálfur hirti hann hluta þess fjár sem tókst að skrapa saman.
Blaðið Þjóðólfur birti þá frétt 9. marz 1872 að leturstokkar og pressa væru í smíðum á Elliðavatni, en von væri á pappír, letri og svertu með næsta skipi. Meinið var, að leyfi þurfti til prentsmiðjureksturs og slíkt leyfi hafði Elliðavatnsbóndinn ekki.
Heima á Vatni beið prentari verkefnalaus og fór að verða óþolinmóður. Hann fór að prenta ýmislegt
smálegt í leyfisleysi, sem varð til þess eins að sýslumaðurinn kom og innsiglaði græjurnar. Leyfið fékkst aldrei.
einar ben um sextugtBensi var sagður þrotinn að kröftum eftir þetta, en þó ekki meir en svo að sumarið 1872 fæddist þeim hjónum sonurinn Ólafur Sveinar Haukur sem áður er frá sagt. Um haustið hafði frú Katrín fengið nóg og flutti til Reykjavíkur með tvö börn sín og varð þar með hálfgerð betlikerling. En mælirinn var fullur og formlega var gengið frá skilnaði þeirra hjóna í desember 1872. Einsi litli varð eftir hjá hinum galna föður sínum á Elliðavatni.
Nú var fátt um fína drætti í steinhúsinu á Elliðavatni. Búskapurinn hafði drabbast niður og slægjur á hinum rómuðu engjum voru leigðar út til manna í Reykjavík. Sárast hefur verið að húsmóðurina vantaði. Hjón voru fengin til að sjá um heimilishald, en voru ekki vandanum vaxin og sóðaskapurin gekk út yfir allan þjófabálk. Einar litli undi hag sínum illa, enda varð afleiðingin af sóðaskapnum sú að hann fékk sull. Faðir hans unni honum mjög, en hann var út og suður á ferðalögum og gat ekki sinnt börnunum, Einari og Kristínu. Sjálfsagt hefur það bjargað Einsa litla að hann var um tíma sendur í fóstur til Gríms Thomsens, skálds og bónda á Bessastöðum. En það var ekki til frambúðar.
Þjóðhátíðarsumarið 1874 ferðbjuggust þeir feðgar frá Elliðavatni og riðu yfir fjöll og firnindi norður í land, því Benedikt hafði verið skipaður sýslumaður Þingeyinga. Búið á Elliðavatni fól hann í hendur Jóni bróður sínum. Svo fór eftir mikið þras, að hann hélt ekki Elliðavatninu lengur, enda hafði hann slegið lán fyrir stærstu, gjaldföllnu veðskuldunum og ekki staðið í skilum með afborganir. Haustið 1876 urðu eigendaskipti þegar lánveitandinn, Sæmundur Sæmundsson í Reykjakoti í Ölfusi, fékk landshöfðingjaritarann til að ljúka málinu.
Kastljós fréttanna hafði oft beinzt að Elliðavatni í hálfan annan áratug. Nú komu þeir tímar að Elliðavatnsbændur voru ekki fréttaefni. Um 1907 keyptí Páll Stefánsson Elliðavatn fyrir andvirði nokkurra jarða sem hann hafði erft. En honum búnaðist ekki þar; hann seldi jörðina og flutti að Ásólfsstöðum í Gnúpverjahreppi árið 1917 og varð vel metinn sunnlenzkur höfðingi með hökutopp á
ljósmynd sem Pétur Brynjólfsson tók af Elliðavatnsbænum 1910 má sjá að búið er að byggja tímburhús vestan við steinhúsið og má gera ráð fyrir að Páll hafi byggt það. Líklega hefur steinhúsið verið kalt, enda var þá ekki um neina góða einangrun að ræða, helzt að mór væri notaður til þess eða moð.
Timburhúsið sem sést á myndinni frá 1910 stendur ennþá, en annað hús var byggt vestan við
það 1946, einnig úr timbri. Þá var sett upp kúabú, sem kann að virðast undarleg ráðstöfun á túnalausri jörð, en tilgangurinn var sá að koma á fót vistheimili fyrir vinnuhæfa sjúklinga af Kleppsspítala. Þeir unnu við búið og sú starfsemi stóð til 1960. Á ljósmynd Péturs Brynjólfssonar má sjá skúr niðri við vatnið, sem greinilega hefur verið búið í, en menn vita ekki lengur deili á honum. Þarna sést steinbrú sem notuð var til að stikla yfir álinn og auðvelda mönnum að komast á engjarnar. Þar sést einnig bátur á leið yfir álinn; fínir menn og spariklæddir á ferð.
Síðasti ábúandinn á Elliðavatni, sem bjó þar á hefðbundinn hátt, hætti 1941. Þá hafði verið kippt
grundvelli undan þeim búskap á jörðinni, sem reistur var á engjaheyskap og túnið var eftir sem
áður afar lítið. Þessi umstópti urðu með því að Rafmagnsveita Reykjavíkur keypti jörðina á árunum
1923-28 af Krisjáni Ziemsen, bæjarstjóra í Reykjavík, Þórði Sveinssyni, lækni á Kleppi, og Emil Rockstad, sem var norskur verzlunarmaður. Ugglaust hefur þessi þrenning verið með einhverjar fyrirætianir um nýtingu á jörðinni – eða vatninu, en ekki er vitað hverjar þær voru. Þeir fengu hver um sig að halda eftir einum hektara lands.
En hversvegna sóttist Rafveitan eftir Elliðavatni?
Forsaga þess er virkjun Elliðaánna, sem hafði verið á döfinni frá 1914, en fram að þeim tíma hafði gas orðið ofaná sem ljósgjafi. Elliðaárnar voru virkjaðar 1920, en veruleg óþægindi urðu á næstu árum af völdum ísmyndunar í ánum annarsvegar og hinsvegar af vatnsskorti yfir
sumartímann. Lausnin var vatnsmiðlun með stíflu við ELliðavatn og stækkun vatnsins um !
helming. Fyrsta tilraun í þessa veru var 600 metra langur torfgarður uppi á Elliðavatnsengjum, en 1928 var gerð jarðvegsstífla með timburþili og grjótvörn. Síðar var stíflan steypt og hækkuð og þá hafði vatnsborð Elliðavatns hækkað til muna.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2000, bls. 10-12.
-Lesbók Morgunblaðsins 19. febrúar 2000, bls. 10-12.

Elliðavatn

Elliðavatn.